132. löggjafarþing — 100. fundur
 5. apríl 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:02]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Lögum samkvæmt ber ríkisstjórninni að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar mál sem varða utanríkisstefnuna. Það eru uppi viðsjár í varnar- og öryggismálum. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því á fundi utanríkismálanefndar að það yrði haft gott samráð við nefndina um stöðu og þróun þeirra mála. Það endurtók hæstv. forsætisráðherra í ræðustól Alþingis og hv. formaður utanríkismálanefndar talaði um að haft yrði gott samráð við nefndina í þessum málum.

Síðastliðinn föstudag hófust samningaviðræður á milli Bandaríkjamanna og Íslendinga. Það hafa komið mjög misvísandi skilaboð úr þeim viðræðum. Hæstv. utanríkisráðherra kvaðst mjög bjartsýnn eftir þær viðræður en hæstv. forsætisráðherra sagði að ekkert nýtt hefði komið fram. Það var sömuleiðis alveg ljóst að það var meiningarmunur á milli hæstv. utanríkisráðherra og forsætisráðherra um hvert stefna ætti. Hæstv. utanríkisráðherra talaði með þeim hætti að það var ljóst af máli hans að hann taldi að það væri einboðið að halda áfram tvíhliða varnarsamningnum við Bandaríkin og það var erfitt að skilja hann öðruvísi en svo að það væri forgangsatriði og ekki ætti að skoða aðra möguleika í stöðunni.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hins vegar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins að skoða ætti aðra möguleika og nefndi sérstaklega möguleika á því að tryggja öryggi Íslendinga með einhverjum hætti í samstarfi við Evrópusambandið. Við þessar aðstæður, frú forseti, finnst mér nauðsynlegt að viðhorf ríkisstjórnarinnar og stefna eða eftir atvikum stefnuleysi sé kynnt utanríkismálanefnd eins og loforð liggja fyrir um. Því spyr ég hæstv. forseta og hæstv. utanríkisráðherra sem hér er staddur: Með hvaða hætti á að efna loforð um samráð við utanríkismálanefnd og þær skyldur sem lög setja á ríkisstjórnina í þessu máli?



[12:04]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Með hvaða hætti á að efna þau loforð? spyr þingmaðurinn. Að sjálfsögðu með því að funda með utanríkismálanefnd. (ÖJ: Það var ekki gert.) Þannig er það gert. Ég hef mætt í tvígang persónulega á fundi utanríkismálanefndar á undanförnum tveim mánuðum til að fara yfir þetta mál. Það hefur ekkert vantað upp á það af minni hálfu að mæta á fundi nefndarinnar til að gera grein fyrir þessum málum og ég mun að sjálfsögðu halda því áfram. Annars bendi ég þingmanninum á að það er umræða um utanríkismál í fyrramálið. Þar mun gefast tækifæri til að ræða þessi mál.

Ég hef alla tíð frá því að ég tók sæti í utanríkismálanefnd og frá því að ég var þar formaður lagt ríka áherslu á að utanríkisráðherrar á hverjum tíma ættu gott samstarf við nefndina og það hef ég sjálfur reynt að gera. Hér er mál á dagskrá fundarins á eftir sem varðar líka hagsmuni Íslands, sem ég mun tala um í utanríkismálanefnd þegar það skýrist nánar, Svalbarðamálið, og þannig verður það meðan ég er utanríkisráðherra.



[12:05]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra hefur hann sýnt það með verkum sínum að hann hefur haft mjög náið samráð og gott samstarf við utanríkismálanefnd sem ég vil sérstaklega þakka honum fyrir. Eins og hv. þingmenn heyrðu á því hvernig hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, byggði upp mál sitt þá var það ekki á þeim forsendum að hæstv. utanríkisráðherra hefði ekki sýnt utanríkismálanefnd góðan samstarfsvilja heldur var hann með mælsku sinni að reyna að sýna fram á að sundurlyndi ríkti innan ríkisstjórnarinnar í þessu máli, sem er ekki rétt. Ég get fullvissað hv. þingmann um að hæstv. utanríkisráðherra og ég sem formaður utanríkismálanefndar munum áfram leggja okkur fram um að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna og raunar alla utanríkismálanefndarmenn um þetta mál.



[12:07]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að vekja máls á þessu efni í upphafi þingfundar. Það vekur athygli að ríkisstjórnin með hæstv. utanríkisráðherra í fararbroddi virðist vilja reyna til þrautar tvíhliða samningaviðræður við Bandaríkjastjórn án þess að vilja skoða aðra kosti í stöðunni og er ég þar ekki að horfa til faðmlagsins við önnur NATO-ríki í því efni. Það bjóðast aðrir kostir einnig til að tryggja öryggi Íslands til frambúðar og ég tel að á þeim tímamótum sem Íslendingar eru nú þá eigum við að efna til þverpólitískrar umræðu um þá kosti sem nú bjóðast Íslendingum í þessari stöðu.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að sú umræða fari fram á vettvangi Alþingis og í utanríkismálanefnd þingsins. En varðandi viðskilnað Bandaríkjastjórnar og Bandaríkjamanna á Miðnesheiði þá er eðlilegt að annar vettvangur verði fundinn fyrir þá vinnu. Ég minni á þingsályktunartillögu sem rædd var í síðustu viku og borin fram af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – grænu framboði um nefnd, þverpólitíska nefnd sem taki á því verkefni sérstaklega. Sú tillaga er komin til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsins en taki hæstv. utanríkisráðherra til máls að nýju við þessa umræðu þætti mér æskilegt að heyra viðhorf hans til þeirrar tillögu sérstaklega.



[12:08]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Lög um þingsköp Alþingis segja í 24. gr.:

„Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“

Það kom mér því sem utanríkismálanefndarmanni verulega á óvart í morgun á fundi nefndarinnar að ekki skyldi vera á dagskrá nein skýrsla um það hver staðan væri í samningaviðræðunum við Bandaríkjamenn.

Hver er það sem metur hvað er meiri háttar? Hver er það sem metur hvað er samráð? Er það nefndin undir forustu formanns á hverjum tíma sem á að meta það og kalla eftir samráði eða er það hæstv. ráðherra á hverjum tíma sem metur það hvort ástæða sé til að hafa samráð við nefndina? Utanríkismálanefndin hlýtur að eiga að hafa á því sjálfstæða skoðun hvort rétt sé að krefja hæstv. ráðherra og framkvæmdarvaldið um samráð og að farið sé að lögum. Þegar ósk þess efnis var borin upp á fundinum í morgun var engu líkara en formaður nefndarinnar, hv. þm. Halldór Blöndal, teldi það sitt hlutverk að sitja og bíða eftir því að hæstv. ráðherra þóknaðist að hafa samráð við nefndina. Helst lítur út fyrir að hæstv. ráðherra sitji og bíði eftir því að Bandaríkjamenn segi hvað þeir vilji gera og hvað þeir ætli að gera. Það er í raun búið að mynda keðju manna sem sitja og bíða og ekkert gerist. Ég tel það engan veginn ásættanlegt sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd að fá fréttir af svona mikilvægu máli eingöngu úr fjölmiðlum og hafa á því enga þekkingu eða engar upplýsingar til að leggja mat á þær fréttir sem fram koma í fjölmiðlunum. Miðað við þau lög sem gilda og 24. gr. þingskapa ber að hafa samráð og það var ekki innt af hendi. Það er því ekki verið að fara að lögum í þessu máli.



[12:11]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við mikilvægt mál sem mjög margir í þjóðfélaginu eru uppteknir af þessa dagana. Það er alveg rétt að við erum á mjög mikilvægum sögulegum krossgötum í varnarmálum á Íslandi og það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa af hálfu stjórnarandstöðunnar að hún fái aðgang að upplýsingum um gang mála á hverjum tíma. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa og það er að sjálfsögðu hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita stjórnvöldum aðhald í þessu máli.

Ég hefði sjálfur viljað sjá að sett hefði verið í gang eins konar þverpólitísk vinna þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka fengju að koma að borðinu til að sinna þessu máli og þessu máli eingöngu. Mér finnst að þegar við höfum gert það á hinu háa Alþingi, valið þá lausn í erfiðum málum, þá hafi okkur farnast vel. Hér er um að ræða sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna, mál sem á margan hátt gengur þvert á allar pólitískar línur. Það eru áhöld um hvort ríghalda eigi áfram í varnarsamninginn við Bandaríkjamenn. Það eru líka áhöld um hvort við eigum að leita leiða varðandi nánara samstarf við aðrar Evrópuþjóðir. Ég hef hlustað með kostgæfni á ráðherra ríkisstjórnarinnar tjá sig um þessi mál og mér sýnist að þeir séu að skoða alla þessa hluti, en mér finnst að þeir mættu ganga lengra í því að greina þjóðinni frá gangi mála á hverjum tíma þó að vissulega hljóti maður að sýna því skilning að í sumum tilfellum sé nauðsynlegt að gæta trúnaðar. Ég hefði til að mynda viljað sjá hæstv. utanríkisráðherra koma fram að kvöldi 15. mars sl., þegar tilkynnt var að Bandaríkjamenn væru að fara, og tala þar með skýrum hætti til þjóðarinnar og greina henni frá því hver staðan væri í raun og veru. (Forseti hringir.) Ég beið þá allt kvöldið en ég sá honum ekki bregða fyrir.



[12:13]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. utanríkisráðherra að koma hingað og halda því fram að haft hafi verið eðlilegt samráð við nefndina. Fyrsti fundurinn í þessu ferli, samningaferlinu við Bandaríkjamenn, var á föstudaginn. Við höfum haft misvísandi upplýsingar um hvað fór fram á þessum fundum. Það er fullkomlega eðlilegt að hæstv. ráðherra hafi samráð við utanríkismálanefnd, hann greini henni frá gangi viðræðna, frá því hvaða markmið eru uppi og hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli, undir þeim trúnaði sem þar ríkir. Það hefur hæstv. ráðherra ekki gert.

Lögin segja að það eigi að hafa samráð. Ég held að hæstv. ráðherra hefði gott af því að heyra þau viðhorf sem eru í nefndinni. Við vitum að hingað til hefur hæstv. utanríkisráðherra metið rangt allar vísbendingar sem komið hafa fram í málinu. Hann var eini maðurinn á Íslandi sem hélt fram á síðustu stund að herinn væri ekki að fara þegar allir aðrir, m.a. hæstv. forsætisráðherra, töldu að það væru allar líkur á því.

Ég held, frú forseti, að það sé þeim mun meiri nauður sem rekur til samráðs þegar ljóst er að uppi er skoðanaágreiningur á milli hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Það er mergurinn málsins. Hæstv. utanríkisráðherra hefur talað þannig að það sé bara eitt í þessari stöðu sem sé að halla sér að Bandaríkjamönnum áfram og endurnýja og útfæra tvíhliða samninginn við Bandaríkjamenn á meðan hæstv. forsætisráðherra hefur sagt alveg skýrt að við eigum að skoða aðra kosti. Hann hefur sagt það alveg skýrt að við eigum að kanna þá möguleika sem felast í nánara samstarfi í Evrópu. Þarna eru uppi tveir mismunandi skoðanapólar og ástæðan fyrir því að þessir herramenn vilja ekki ræða við utanríkismálanefnd kann að felast í því að þeir vilja ekki að þessi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar komi fram.



[12:15]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það má eflaust margt gagnrýna í störfum mínum sem ráðherra fyrr og síðar. Þó held ég að það sé afar ósanngjarnt að gagnrýna mig fyrir að hafa ekki eðlilegt samráð við nefndir þingsins og ég vísa slíkum áburði einfaldlega á bug. Það hefur ekkert gerst í þessu máli sem er þess eðlis að það kalli á ásakanir af þessu tagi, enda er þetta mál í þeim farvegi sem það er núna, á frumstigi. Það er rétt sem forsætisráðherrann sagði og eftir honum var haft: Það gerist ekkert nýtt í þessu máli eftir fundinn á föstudag fyrr en eftir mánuð eða svo, eða eftir einhverjar vikur. Það liggur alveg fyrir.

Það er dapurlegt að í hvert einasta skipti sem einhver alvarleg mál koma upp skuli hv. þm. Össur Skarphéðinsson aldrei geta neitað sér um að krækja sér í einhvern smávegis skammtíma pólitískan ávinning út úr því, sama hversu málið er alvarlegt.



[12:16]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka þessa umræðu og lýsi ákveðinni furðu á því að hæstv. utanríkisráðherra sé hálfpartinn súr yfir því að þurfa að svara hvernig viðræðurnar hafi gengið fyrir sig, sérstaklega í ljósi þess að maðurinn hefur lýst því yfir að það hafi verið sérstaklega bjart yfir þeim viðræðum. En núna virðist vera sem hann telji sem svo að tíma hans sé jafnvel illa varið að þurfa að svara þingmönnum á Alþingi um stöðu viðræðnanna. Mér finnst það vera mjög undarleg afstaða hjá hæstv. utanríkisráðherra í málinu.

Fleira hefur vakið furðu mína í yfirlýsingum hæstv. utanríkisráðherra svo sem það að Bandaríkjamönnum verði látið það eftir að meta varnarviðbúnað þjóðarinnar, alfarið. Ég vil þá minna á að þetta eru sömu stjórnvöld og sækjast eftir því að sitja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sem á einmitt að meta öryggismál og ófriðarhættu víða um heim. Menn geta ekki metið þá hættu hér heima fyrir, en samt telja þeir sig þess umkomna að sitja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að taka ákvarðanir m.a. um stríð eða viðskiptaþvinganir víða um heim. Mér finnst þetta ekki fara saman. Það væri fróðlegt ef hæstv. utanríkisráðherra gæti séð eitthvað örlítið af tíma sínum í að fara yfir það mál, hvers vegna við getum ekki metið varnarþörfina hér heima en farið síðan út um öll heimsins horn til að meta öryggismál og ófriðarhættu, frú forseti.



[12:18]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessar umræður hafa ekki komið á óvart og þar sem hv. þm. Suðurk., Jón Gunnarsson, veik nokkrum orðum að fundarstjórn minni í utanríkismálanefnd í morgun vil ég láta þess getið að ég fullvissaði utanríkismálanefndarmenn um það að hugur utanríkisráðherra og minn stæði til þess að samráð yrði haft um þessi mál eins og heitið hafði verið. Eins og fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er málið nú á því stigi að ekki er tímabært að taka upp umræður um það innan utanríkismálanefndar en auðvitað verður það gert á þeim tíma sem málið verður þroskað og á þeim tíma sem eðlilegt er að utanríkisráðherra taki málið fyrir á þeim vettvangi.

Við vitum það, þingmenn, að þegar unnið er að málum verða viðræðurnar, umræðurnar og undirbúningurinn að sjálfsögðu að komast á ákveðið stig til að það hafi þýðingu og tilgang og til að það sé málinu til góðs og þroska að fara að reifa það á þverpólitískum vettvangi innan utanríkismálanefndar. En við vitum að umræður þar eru oft viðkvæmar og við vitum líka að ekki eru neinar nákvæmar og skýrar reglur um það hversu mikið af því sem þar er frá sagt megi fara í almennar umræður í þjóðfélaginu þó svo að skýrt sé kveðið á um það að algjör trúnaður skuli ríkja um hvað sem sagt er á þeim vettvangi. Ég álít að við þingmenn séum allir sammála um að nauðsynlegt sé að vinna að þessu máli með gát. Við hljótum að bera ríkar skyldur til þess að gæta öryggis lands og þjóðar í hvívetna og þess vegna skulum við ekki á þessu stigi vera að brigsla mönnum um óheiðarleika í vinnubrögðum (Forseti hringir.) eins og hér hefur verið gert. Ég leyfi mér í lengstu lög að vona (Forseti hringir.) að gott hafi gengið til þeim þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa tekið til máls.

(Forseti (JóhS): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutíma.)



[12:21]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vandræðagangur og viðbragðsleysi einkenna mjög svo framgöngu hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Ætli miðvikudagurinn 15. mars hafi ekki verið einhver svartasti dagur í sögu Sjálfstæðisflokksins lengi? Síðan þá hefur hæstv. forsætisráðherra haldið nokkuð vel á málinu, talað af töluverðri skynsemi og talað í austur á meðan hæstv. utanríkisráðherra talar í vestur og það er augljóst að þeir stefna hvor í sína áttina.

Maður hlýtur að spyrja hvort undirlægjuháttur Sjálfstæðisflokksins gagnvart Bandaríkjamönnum geri íslenskum stjórnvöldum það ókleift að leiða þetta mál farsællega til lykta, enda hefur samráðsleysið sem hér er gagnrýnt í dag kallast ákaflega vel á við pukrið og leyndina í kringum brottför varnarliðsins og brottför hersins af Miðnesheiði sem held ég að flestum hafi verið fyrir löngu ljós, nema kannski forustumönnum sjálfstæðismanna í orði kveðnu.

Fyrir liggur að hæstv. utanríkisráðherra ætlar ekki í Evrópuleiðangurinn með hæstv. forsætisráðherra, það er löngu orðið ljóst. Þar liggur ágreiningurinn klárlega og skýrlega. En auðvitað þarf að taka hérna þverpólitíska umræðu um kosti og galla varnarmálanna, hvar við getum hugsanlega leitað samstarfs og hver varnarþörfin sé af því að kannski er hún nánast engin þegar allt kemur til alls, en það þarf að sjálfsögðu að skoða það mjög gaumgæfilega.

Umkomuleysi hv. forustumanna Sjálfstæðisflokksins í málinu er átakanlegt. Eins og viðbrögðin voru 15. mars þegar skýrt var frá fréttunum miklu hefur viðbragðsleysið verið algjört og það er eiginlega með ólíkindum hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur pukrast með málið allar götur síðan, þetta stóralvarlega og mikla mál sem hann sagði sjálfur að menn ættu ekki að hafa í flimtingum. Þess vegna er það átakanlegt að hæstv. utanríkisráðherra sjái ekki kosti þess að leita samráðs við utanríkismálanefnd eins og honum ber að gera.