132. löggjafarþing — 100. fundur
 5. apríl 2006.
samningar við hjúkrunarheimili.
fsp. ÁRJ, 483. mál. — Þskj. 714.

[13:35]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um samninga við hjúkrunarheimili og legg fyrir hana eftirfarandi spurningar:

1. Hversu mörgum hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu sem ríkið greiðir reksturinn á er ráðstafað af öðrum en opinberum aðilum, svo sem félagasamtökum? — En þar á ég við stuðningsfélög hinna ýmsu sjúklingahópa.

2. Telur ráðherra ástæðu til að taka upp samninga við hjúkrunarheimili þar sem t.d. félagasamtök ráðstafa hjúkrunarrýmum?

Við vitum öll hvernig ástandið er í hjúkrunarmálunum hér á landi. Það skortir verulega hjúkrunarpláss, 350 manns bíða í brýnni þörf. 90 aldraðir eru inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við óviðunandi aðstæður en búið að lækna fólkið og það bíður eftir hjúkrunarrýmum. Það er mjög dýrt.

Á sínum tíma þegar hjúkrunarheimili voru byggð voru þau mörg hver byggð upp á vegum félagasamtaka og styrktarfélaga. Félögin sem greiddu fyrir plássin í upphafi hafa síðan ráðstöfunarrétt yfir þeim enn þá áratugum síðar þó svo að ríkið hafi greitt fyrir reksturinn í áratugi. Ég spyr að þessu í ljósi þess að fjöldi aldraðra er inni á Landspítala og getur ekki útskrifast. Það er ríkinu mjög dýrt. Verið er að borga 30–50 þús. kr. fyrir hvern sjúkling á dag á Landspítalanum. Það eru hátt í 15 milljónir á mánuði sem fara bara í það að geta ekki útskrifað þessa sjúklinga. Landspítali – háskólasjúkrahús hefur forgang með sjúklinga inn á tvö hjúkrunarheimili sem eru Vífilsstaðir og Sóltún. En það dugar ekki til. Ástandið er svona þrátt fyrir það. Á sama tíma úthluta félagasamtök plássum inn á hjúkrunarheimilin.

Þess vegna spyr ég hvort hæstv. ráðherra sjái ástæðu til að taka upp samninga við þessi hjúkrunarheimili til þess að létta á Landspítalanum við að útskrifa þá sjúklinga sem þar eru og grynnka í þeim hópi fólks sem er í brýnni þörf eftir vistun. Við vitum að þegar er valið inn á hjúkrunarheimilin af Landspítalanum er farið eftir hjúkrunarþyngd og það er alveg rétt að gera það. Það á auðvitað fara eftir hjúkrunarþyngd, þeir sem eru í mestu þörfinni eiga að ganga fyrir.

En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji sig geta farið í slíkar samningaviðræður við hjúkrunarheimilin, sérstaklega í ljósi þess að ríkið hefur verið að greiða fyrir reksturinn á öllum þessum plássum í áratugi.



[13:38]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hversu mörgum hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu sem ríkið greiðir reksturinn á sé ráðstafað af öðrum en opinberum aðilum, svo sem félagasamtökum og hins vegar hvort ég telji ástæðu til að taka upp samninga við hjúkrunarheimili þar sem t.d. félagasamtök ráðstafa hjúkrunarrýmum.

Því er til að svara að hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu eru 1.479 og eru þau öll rekin á daggjöldum utan 40 hjúkrunarrými fyrir aldraða á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Eignarhald á þeim stofnunum sem reka umrædd hjúkrunarrými er mismunandi. Aðeins tvö hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu eru alfarið í eigu ríkisins en það er Sólvangur í Hafnarfirði og Vífilsstaðir í Hafnarfirði. Þá eru rýmin 40 á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í eigu ríkisins. Að öðru leyti er eignarhald með ýmsu móti, ýmist eru heimilin í eigu félagasamtaka, einkaaðila, sveitarfélaga eða blanda af þessu. Hvað varðar ráðstöfun þá er tæpast hægt að segja að félagasamtök eða aðrir ráðstafi hjúkrunarrýmum, a.m.k. er ekki um fullan og skilyrðislausan ráðstöfunarrétt að ræða.

Eins og þingmenn margir þekkja gilda ákveðnar reglur um vistun fólks í hjúkrunarrými sem kveðið er á um í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um þjónustuhóp aldraða og vistunarmat aldraðra, nr. 791/2001. Hjúkrunarheimilin eiga að fara eftir þessum reglum við ráðstöfun hjúkrunarrýma og skulu þau sjá til þess að þeir gangi fyrir sem lengst hafa beðið með mjög brýna þörf samkvæmt vistunarmati. En maður spyr sig: Er þannig í reynd?

Í samningi um rekstur Sóltúns í Reykjavík er kveðið á um að Landspítali – háskólasjúkrahús eigi forgang að 90% rýma þar fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga, en hjúkrunarrými á Sóltúni eru alls 81. Sama fyrirkomulag er varðandi ráðstöfun þeirra 50 hjúkrunarrýma sem eru á Vífilsstöðum sem ríkið á en Hrafnista rekur. Þar eru níu af hverjum tíu heimilismönnum, eða 90%, vistaðir inn af öldrunardeildum Landspítala – háskólasjúkrahúsi en 10% heimilismanna eru tekin inn samkvæmt hefðbundnum inntökureglum. Það má því segja að þessum tveimur heimilum, Sóltúni og Vífilsstöðum, sé skylt samkvæmt samningi að taka 90% heimilismanna beint af spítölunum. Hin fara eftir hinum almennu reglum.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji ástæðu til að taka upp samninga við hjúkrunarheimilin þar sem t.d. félagasamtök ráðstafa hjúkrunarrýmunum. Ef hér er átt við að taka upp samninga áþekka þeim sem ég nefndi áðan þá finnst mér koma til greina að gera það. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það, en ég verð að deila þeim hugleiðingum mínum, sem eru ofarlega í huga mínum núna, eftir að hafa reynt að kynna mér málaflokkinn eins hratt og ég hef getað upp á síðkastið. Ég hef farið um Landspítala – háskólasjúkrahús og séð að þar er hópur fólks sem liggur inni. Þetta er svokallaður fráflæðisvandi, eins og það hljómar nú illa það orð. Þetta eru veikir aldraðir sem geta samt verið á hjúkrunarheimili og ættu að vera þar í ódýrari rýmum en eru á spítalanum eins og hér hefur verið dregið fram.

Á sama tíma hef ég skoðað rannsóknir sem gerðar voru í Hafnarfirði í tengslum við umræðuna sem varð um Sólvang. Þar kom í ljós að meira en helmingur þeirra sem voru á biðlista svaraði því til í rannsókn eða könnun að hann gæti verið heima ef hann fengi meiri heimahjúkrun og meiri þjónustu frá félagsþjónustu sveitarfélagsins. Helmingurinn á biðlistanum þurfti eiginlega ekki að vera þar heldur gat verið heima. Í sömu könnun voru einnig spurðir þeir sem voru inniliggjandi á Sólvangi. Meira en helmingur þeirra sagði líka að þeir hefðu getað verið lengur heima ef þeir hefðu fengið meiri heimahjúkrun og meiri félagsþjónustu frá sveitarfélaginu.

Maður spyr sig að því hvað hér sé uppi. Er verið að taka inn að hluta til sjúklinga sem ekki þurfa sjúkrahúsvist? Veitum við of litla þjónustu heima með heimahjúkrun og félagsþjónustu sveitarfélaga? Eru sjúklingar sem ættu að vera á hjúkrunarheimili í of dýrum rýmum inni á spítala? Erum við búin að stofnanavæða of mikið? Erum við með hóp fólks í of dýrum úrræðum miðað við þau úrræði sem viðkomandi gæti verið í og fengið þar fullkomlega viðeigandi þjónustu?

Ég tel að sú spurning sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir bar hér upp sé mjög athyglisverð. Ég er ekki tilbúin til að kveða upp úr með það hvort við breytum inntökureglunum. En það er mjög umhugsunarvert að sjá þessa dreifingu á eldri borgurum og að velta því fyrir sér hvort við séum á réttri leið í þessum málum.



[13:44]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og svar ráðherrans. Ég tel reyndar að hæstv. ráðherra fari ákaflega vel af stað í sínu mjög erfiða ráðuneyti sem er með síbreytilegar þarfir.

Staðreyndin er sú að þjóðin er að eldast og þess vegna verðum við að búa þannig í haginn að við getum mætt aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum. Við þurfum nauðsynlega að undirbúa þjóðfélagið undir þessar miklu breytingar. Stefnan hefur verið sú að aldraðir geti verið sem allra lengst heima. Þess eru dæmi á dvalarheimilum, t.d. eins og á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli, að þar hefur hjúkrunarrýmum verið fjölgað, m.a. vegna þess að ef ekki eru einnig hjúkrunarrými á dvalarheimilunum þarf oft að aðskilja hjón ef annað verður veikt en hitt er heilbrigðara. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum og veit að hún mun gera sitt allra besta til að sinna þessum þörfum.



[13:45]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fyrirspurn og eins ráðherra fyrir svörin. Ég heyri ekki betur en hæstv. ráðherra hafi fullan skilning á því í hverju vandinn liggur og hvernig hægt væri að byggja upp mannúðlegri, betri og ódýrari þjónustu. Nú er bara að sjá hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi afl, dug og kraft sem ráðherra Framsóknarflokks í núverandi ríkisstjórn til þess að fylgja hugmyndunum eftir. Það þýðir ekki að tala stöðugt um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við höfum ekkert að gera við fleiri hjúkrunarheimili. Það eru laus pláss á hjúkrunarheimilunum til að taka við sjúklingunum á Landspítalanum, en það verður að vera hægt að reka hjúkrunarheimilin, það þarf að vera hægt að greiða fólki laun til að reka þau. Sveitarfélögin þurfa fjármagn til að sinna sívaxandi hópi aldraðra inni á heimilunum, ekki með vitjun og þrifum einu sinni í viku heldur þjónustu þannig að aldraðir geti verið heima.



[13:46]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég heyri að hún hefur verið að kynna sér þessi mál og ég fagna því að hún tekur jákvætt í þá hugmynd sem ég bar fram í fyrirspurn um að semja sérstaklega við hjúkrunarheimilin um að Landspítalinn hafi forgang. Það eru mjög dýrir einstaklingar í dýrum rúmum þar inni eins og við höfum margoft bent á og ráðherra gerir sér grein fyrir, en það vantar heimaþjónustu, það er alveg ljóst.

Á dögunum spurði ég hæstv. ráðherra hvort hún teldi ástæðu til að koma á sjúkrahústengdri heimaþjónustu fyrir aldraða af Landspítalanum. Hún taldi svo ekki vera. Ég tel fulla ástæða til að skoða það líka því við vitum að stór hluti þeirra sem eru á biðlistum og þeirra sem eru á spítala telja sig geta verið heima ef næg þjónusta væri fyrir hendi, en svo er ekki. Heimaþjónustu vantar og það vantar líka hjúkrunarpláss þar sem Landspítalinn hefur ekki forgang inn á önnur heimili en þau tvö sem við nefndum. Það þarf því að taka á þessum málum.

Stærsta vandamálið og stærsta áhyggjuefnið er hvernig á að reka þau hjúkrunarheimili sem við höfum. Það þýðir lítið að tala um að byggja upp ný hjúkrunarheimili ef menn hafa ekki vilja til að greiða fólkinu í umönnunarstéttunum almennileg laun. Því verður að breyta og á því verður hæstv. ráðherra að taka í ríkisstjórninni því án þess lendum við í miklu stærri vanda en þeim sem ég er að brydda upp á í sambandi við sjúklingana á Landspítalanum.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til að skoða samningaleiðina sem ég bendi á við hjúkrunarheimilin til að leysa vandann. Síðan þarf auðvitað að taka sérstaklega á heimaþjónustunni því það er ódýrasta leiðin og sú sem flestir vilja. Flestir vilja vera heima eins lengi og þeir geta og við viljum líka gera fólki það kleift.



[13:48]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel eðlilegt að skoða hvort fara eigi í þá vinnu að láta stífari reglur gilda um hverjir komast inn á hjúkrunarheimilin. Það er eðlilegt að það verði skoðað þó ég vilji ekki kveða algerlega upp úr með hvort það verði niðurstaðan. Það þarf líka að skoða vistunarmatið. Það er framkvæmt á mjög mörgum stöðum og ég tel ástæðu til að skoða hvort við eigum að fækka þeim hópum sem gera vistunarmat.

Þegar maður sér niðurstöður eins og fengust í Hafnarfirði, þar sem helmingurinn af biðlistanum gæti verið heima ef hann fengi meiri þjónustu heim, spyr maður sig hvað sé í gangi. Af hverju er biðlistinn svona? Af hverju er þá ekki reynt að mæta þessum þörfum fyllilega heima? Það er líka rétt sem hér hefur verið bent á að það er vandi að ráða inn fólk til að sinna þessari þjónustu. Á það bæði við um heimahjúkrunina og félagsþjónustu sveitarfélaga. Það eru því ýmis vandamál á ferðinni í þessu sambandi.

Áðan var sagt að það þyrfti líklega ekki að byggja fleiri hjúkrunarrými. Ég held að það sé ekki hægt að taka svo sterkt til orða. Reyndar er búið að byggja upp fjölmörg hjúkrunarrými úti á landi eins og í Dalabyggð. Þar eru fleiri en 30 pláss fyrir 100 íbúa sem eru 67 ára og eldri. Hægt er að vista meira en 30% af eldri borgurum Dalabyggðar inni á stofnunum. Það er auðvitað ótrúlega há tala. Þannig er þetta víða á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu eru plássin fyrir 100 íbúa 67 ára og eldri svipuð og á Norðurlöndunum, en samt er þörf á að byggja meira. Maður spyr sig því: Af hverju er staðan svona? Ég tel að bæta þurfi við plássum á höfuðborgarsvæðinu en að leggja eigi meginþungann á næstu árum á að þjónusta meira heima og í öðruvísi og fjölbreyttara formi en er í dag á sambýlum og minni einingum.