132. löggjafarþing — 101. fundur
 6. apríl 2006.
utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra, frh. umræðu.

[13:30]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls þakka hæstv. utanríkisráðherra yfirferð um utanríkismálin almennt og af sjálfu leiðir, eins og hæstv. ráðherra vék að í ræðu sinni, að brottför varnarliðsins hefur orðið með þeim hætti að þetta er mál sem eðlilega er ofarlega á baugi.

Það hefur auðvitað valdið nokkru uppnámi hvernig Bandaríkjamenn stóðu að því að tilkynna okkur nánast einhliða að þeir mundu fara með herafla sinn og viðbúnað af landi brott á haustdögum. Ég held að enginn hafi búist við að þetta mál mundi bera að með þeim hætti sem það bar að. Hinu er ekki að leyna, hæstv. forseti, að m.a. sá sem hér stendur og fleiri í mínum flokki vöruðum strax við því sumarið 2003 að mjög margt benti til að Bandaríkjamenn mundu innan tíðar stefna á að fara með herinn og viðbúnað af landinu og færa herstyrk sinn til í veröldinni. Það er jú einmitt það sem hefur gerst og hæstv. utanríkisráðherra hefur svo sem gert grein fyrir því í ræðu sinni, sem eðlilegt er, að viðhorf til hernaðarvarna og átaka mótast af því að sem betur fer hefur verið frekar friðvænlegt í okkar heimshluta á undanförnum árum. Eftir fall Sovétríkjanna sálugu er auðvitað komin upp algerlega ný staða hér á norðurhluta hnattarins og á okkar svæði.

Það breytir hins vegar ekki þeirri skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að við viljum hafa samstarf innan Norður-Atlantshafsbandalagsins og við viljum að Ísland sé í því bandalagi. Ég tel, hæstv. forseti, að NATO hafi átt sinn þátt í hversu friðvænlegt hefur verið í heimshluta okkar á undanförnum árum og áratugum. Við viljum sem sagt halda samstarfi við aðrar þjóðir innan Norður-Atlantshafsbandalagsins. En við teljum, eins og við létum í ljós þegar sumarið 2003, að eðlilegt væri að stjórnvöld færu að kanna aðrar áherslur í varnarmálum miðað við það sem mönnum sýndist geta dregið til varðandi aðstöðu Bandaríkjanna hér á landi og áherslur Bandaríkjamanna um hvar herafli þeirra ætti að vera staðsettur í veröldinni. Þá einnig með tilliti til þess auðvitað, að Bandaríkjamenn hafa verið mjög tengdir inn í átök eins og í Afganistan og Írak og það er á því heimssvæði sem ófriðlegast er í veröldinni, hæstv. forseti.

Þess vegna er ekki óeðlilegt að Bandaríkjamenn líti til þess hvar þeir vilja hafa herafla sinn staðsettan. Ég held að við Íslendingar getum verið sammála um að við getum ekki haldið því beinlínis fram, eins og nú horfir í okkar heimshluta, að hér sé ástæða til að hafa mikinn hernaðarviðbúnað. Þótt úr honum hafi verið dregið á undanförnum árum þá hefur íslenska þjóðin löngum verið þeirrar skoðunar að það væri ef til vill ekki nauðsynlegt að hafa hér her á friðartímum. Það hygg ég að hafi áður og fyrr átt við alla stjórnmálaflokka, hvort sem sú skoðun er nú breytt í núverandi ríkisstjórnarflokkum eða ekki, að hér þurfi að vera her einnig á friðartímum.

Við þurfum hins vegar, hæstv. forseti, að hafa varnarviðbúnað og fram hjá því verður ekki litið að sá varnarviðbúnaður snýr kannski að öðrum þáttum en áður voru meðan kalda stríðið var hér og við áttum ef til vill von á átökum hér milli ríkja á norðurslóðum. Það er algjörlega ljóst að við getum ekki séð fyrir, hvorki Íslendingar né aðrar þjóðir, hvar hin nýja vá í veröldinni lendir. Við gátum ekki séð fyrir árásina á Bandaríkin 11. september og við gátum ekki séð fyrir árásina á Breta í London né árásina á Spánverja. Þetta er auðvitað hin nýja hætta sem við stöndum frammi fyrir að hryðjuverkasamtök sem einhverra orsaka vegna hyggjast hafa áhrif með ofbeldisaðgerðum geta borið niður þar sem þau telja að vígstaða sé. Í því sambandi má t.d. minna á að ákveðnar teikningar sem birtar voru í dönskum blöðum hafa vakið ákaflega hörð viðbrögð og jafnvel svo að fólki í Danmörku hafi verið hótað lífláti þess vegna. Þannig að viðhorfin eru ýmis í veröldinni og margir telja því miður, að ofbeldi sé lausnin eða svarið við því ef fólk hefur misjafnar skoðanir. Við Íslendingar þurfum að ganga út frá því að þannig eru viðhorf fólks í veröldinni og við getum ekki sagt hér, þótt við séum á eyju úti í miðju Atlantshafi, að slík viðhorf snerti okkur Íslendinga ekki. Það snerti jú alla heimsbyggðina þegar ráðist var á Bandaríkin eins og menn muna.

Hitt er annað mál, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum teljum að það eigi að leita samstarfs eins og staðan er nú við nágrannaþjóðir okkar um nokkuð af því sem m.a. hefur verið sinnt af Bandaríkjamönnum hér á landi og vil ég þá sérstaklega nefna öryggisþjónustu á hafinu, þ.e. rekstur þyrlubjörgunarsveitarinnar sem hefur sýnt sig að vera mikill öryggisstuðull fyrir okkur Íslendinga og sjófarendur almennt hér um Norður-Atlantshafið, að hafa getið treyst á að þessi þyrlusveit Bandaríkjamanna væri til staðar á Keflavíkurflugvelli. Það er auðvitað þannig að sá viðbúnaður sem við höfum hér hjá Landhelgisgæslunni með þyrlum okkar og góðum mannafla, hefur ekki náð að veita þá þjónustu sem Bandaríkjamönnum hefur verið kleift að veita með sinni tækni.

Það er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að við munum á næstu árum taka á okkur þann kostnað að reka alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og allt sem því fylgir. Ég held að enginn ágreiningur sé með þjóðinni um að þannig muni það verða. Brottför varnarliðsins af Keflavíkurflugvelli hefur hins vegar margs konar áhrif, einkum á Suðurnesjum í atvinnulegu tilliti þó að ég haldi að þegar fram í sækir, þá verði til fjöldamörg störf sem tengjast bæði eftirlits- og öryggishlutverki okkar frá Keflavíkurflugvelli og eins að reka flugvöllinn og ég tala nú ekki um vaxandi ferðamannaþjónustu. Þannig að ég hygg að innan tiltölulega fárra ára, eða sem vonandi styst tíma, muni fyllast í þau skörð sem tapast núna vegna brottfarar hersins að því er varðar störf. En það er hins vegar annað mál sem við verðum að sameinast um, stjórnvöld og verkalýðs- og sveitarfélög á Suðurnesjum að reyna að takast á við.

Ég vil hins vegar í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, gera að umræðuefni mál sem ég held að skipti ákaflega miklu máli fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni. Það eru mál sem m.a. hæstv. utanríkisráðherra vék að í ræðu sinni þar sem hann segir á þá leið, að það þurfi m.a. að líta til ógna á borð við farsóttir og mengunarslysa og að hagsmunagæsla þjóða þurfi að snúa að því. Það er algjörlega rétt, við munum væntanlega á næstu árum og jafnvel innan mjög skamms tíma, sjá risastór gas- og olíuflutningaskip sigla hér fram hjá ströndum okkar. Af þeim flutningum stafar auðvitað hætta. Norðmenn hafa valið sér þá leið að marka þessum skipum ákveðnar fastar siglingaleiðir sem eigi eru nærri strönd en 50 sjómílur. Í framtíðinni munu siglingar með olíu og gas úr norðurhluta Barentshafs og alla leið austan úr hafsvæðum norður af Rússlandi, Karahafi, að öllum líkindum liggja mjög nærri Íslandsströndum. Sennilega að miklu leyti norðan við landið vegna siglingar eftir sporbaug sem er stysta leiðin milli Barentshafsins og markaðssvæða í Ameríku.

Með minni ís hér við land, eins og spáð er á komandi árum, er næsta víst að þessi siglingaleið mun verða tekin í notkun fyrir þessa farma af olíu og gasi. Hér er um að ræða gríðarlega stór skip sem munu flytja þennan varning og það þarf verulega mikil viðbrögð til að aðstoða slík skip ef slys ber að höndum. Oft er sagt að ef slys geti orðið þá verði það. Það verður örugglega einhvern tíma, því miður.

Ég held að við þurfum að huga að því fyrr en seinna, hæstv. forseti, og hefði náttúrulega alltaf mátt huga að því, sérstaklega ef smíða á nýtt varðskip, hvort hægt sé að gera það svo öflugt til dráttar að það gæti dregið stór og þung skip eins og mörg hundruð þúsund tonna olíu- og gasflutningaskip. Þetta eru skip sem rista allt að 20 metrum og það þarf meira en lítið afl til að hreyfa þau. Við höfum séð einn dráttarbát hér við land sem dró skip af strandstað við suðurströndina sem væri sennilega af þeirri stærð sem hér þyrfti að koma til. En það þarf að bregðast við þessu fyrr en seinna hæstv. forseti. Þessar siglingar eru á næsta leiti og ég tel að varðandi öryggismálin, siglingaleiðirnar og mengunarmálin sem geta fylgt siglingum skipanna þá eigum við að taka upp víðtækt samstarf við Norðmenn og Rússa að þessu leyti. Ég heyrði í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að hann lýsti því, eftir viðræður við Rússa nýverið, að þeir hefðu áhuga á auknu samstarfi við okkur. Ég held að við ættum að taka því fegins hendi, einkum því er lýtur að þeim atriðum sem snúa að skipaflutningum með hættuleg efni í norðurhöfum því þar þarf að skipuleggja vel og það þarf að gera það í samstarfi við aðrar þjóðir, hæstv. forseti.



[13:45]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það er eðlilegt að umræður um utanríkismál eins og nú stendur á skuli að verulegu leyti snúast um öryggis- og varnarhagsmuni okkar Íslendinga. Eins og við munum kom það okkur nokkuð í opna skjöldu þegar Bandaríkjamenn tóku af skarið og tilkynntu að þeir sæju sér ekki lengur fært að staðsetja hér á landi þotur sínar og þyrlur. Auðvitað varð mörgum heitt í hamsi vegna þess að við höfðum treyst á varnarsamning Bandaríkjanna og það góða samstarf sem við höfum átt um áratuga skeið. En heimurinn breytist og þeir hafa ekki lengur tök að að rækja varnarskyldur sínar með sama hætti og áður en það kom brátt í ljós að þeir vildu halda við varnarsamninginn og auðvitað hljótum við nú að horfa til þess hvernig við getum tryggt varnir og öryggi þjóðarinnar með öðrum hætti.

Hæstv. utanríkisráðherra minntist m.a. á þann möguleika að orrustuþotur í nálægum löndum, í Englandi, gætu tekið að sér eftirlit umhverfis Ísland og á Íslandi með sama hætti og gert er í Slóveníu, Lúxemborg og Eystrasaltsríkjunum. Þetta er kostur sem við hljótum að athuga mjög gaumgæfilega og einnig hljótum við að ætlast til þess að Bandaríkjamenn leggi skýrlega fram þær skoðanir og vilja þeirra til að standa við skuldbindingar sínar í þeirri nýju varnaráætlun sem nú er unnið að.

Segja má að upp úr standi við þessar umræður sú skýra yfirlýsing sem formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gaf þegar hún rifjaði upp skilagrein frá framtíðarhópi Samfylkingarinnar þar sem segir að Samfylkingin vilji ekki segja upp varnarsamningnum. Formaður Samfylkingarinnar tók sérstaklega fram að þessi væri enn stefna Samfylkingarinnar að segja ekki upp varnarsamningnum við Bandaríkin þó svo að hv. þingmaður hafi að því leyti reynt að fara bil beggja með því að leggja upp úr varnarviðbúnaði Evrópusambandsins. Mun ég víkja að því síðar sem á hinn bóginn lýsir Evrópuáhuga Samfylkingarinnar og þeim vilja hennar að ganga í Evrópusambandið, sem er annað mál.

En aðalatriðið er sem sagt að þessir þrír stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, virðast á þessu augnabliki allir vera sammála um að hugsa beri varnarhagsmuni og öryggishagsmuni Íslands á grundvelli varnarsamningsins og þrýsta á um að Bandaríkin standi við þær skuldbindingar sem þar hafa komið fram, með sama hætti og við viljum standa við skuldbindingar okkar. Þetta stendur upp úr að minni hyggju í þeim efnisatriðum sem stjórnarandstæðingar hafa lagt hér fram.

Í þessu ljósi þóttist ég kenna hjáróma hljóm frá gömlum tíma og gömlum skoðunum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar hún hafði sérstaklega við orð að við sjálfstæðismenn virtumst hallir undir öryggissamfélag við Bandaríkin. Það var einmitt þetta öryggissamfélag við Bandaríkin sem hún sjálf var að lýsa sem skoðun og stefnu Samfylkingarinnar.

Það hefur borið á því bæði í tillöguflutningi Samfylkingarinnar og líka í ræðum hennar á Alþingi í dag að við Íslendingar höfum ekki staðið okkur varðandi undirbúning nýrrar varnaráætlunar. Hv. þingmaður hafði við orð að það sýni vanrækslu ríkisstjórnarinnar að hafa ekki byggt upp sérfræðiþekkingu í varnar- og öryggismálum á Íslandi. Þessi ummæli koma nokkuð á óvart vegna þess að þau falla af munni hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem lengst af sínum pólitíska ferli var andvíg aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Ég man satt að segja ekki eftir því fyrr en þá nú að hv. þingmaður hafi látið orð falla á þá lund að skilja megi sem svo að hún telji að við eigum að koma upp vísi að íslenskum her hér á landi, sem hlýtur að vera forsendan fyrir því að við getum byggt hér upp sérfræðiþekkingu í varnarmálum sem ekki verður gert án þess að um her sé að ræða. Broslegt var að heyra hv. þingmann halda því fram að í Írlandi séu það ekki herforingjarnir sem marki stefnuna í varnar- og öryggismálum heldur alls konar félagasamtök úti í bæ á þeim forsendum að til þeirra hafi verið leitað um hugmyndir að ýmsum atriðum varðandi öryggis- og varnarmál Íra. Auðvitað er það á valdi hins írska hers að byggja upp slíka varnaráætlun og slíka stefnu eins og hér á landi en við Íslendingar verðum hins vegar nú að taka á okkur meiri ábyrgð en áður að því leyti að sérfræðingar okkar hljóta að koma með beinni hætti en áður að varnaráætlun okkar Íslendinga eftir að Bandaríkjamenn kjósa að draga flugvélar sínar héðan á brott. Við þessar breyttu kringumstæður hljótum við að leggja okkur fram um að axla okkar byrði, taka meiri þátt í vörnum en verið hefur. Það hefur líka komið fram í sambandi við yfirlýsingar m.a. hæstv. utanríkisráðherra að við munum leita eftir samstarfi um rekstur á þyrlum og öðrum slíkum öryggisbúnaði við nálægar þjóðir.

Það er öldungis rétt sem fram kom hjá utanríkisráðherra að þessi nýja staða hlýtur að varpa upp þeirri spurningu hvernig rétt sé að standa að rekstri flugvallarins í Keflavík og flugstöðvarinnar. Ég er fullkomlega sammála því að rétt sé að greina þann rekstur frá almennum rekstri ríkisins og stofna sérstakt félag um rekstur flugvallarins og flugstöðvarinnar með sjálfstæðan fjárhag. Reynslan hefur raunar sýnt að þá sé affarasælast að hugsa sér hlutafélag í því sambandi. Gerð var könnun á því á meðan ég var samgönguráðherra af Gunnari Finnssyni, sem vann þá hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni, hvort slík rekstrareining gæti staðið undir sér. Það kom í ljós á þeim tíma að flugumferð væri ekki nægileg til að halda uppi sömu þjónustu á flugvellinum og nú er. Hins vegar hefur alþjóðlegt flug um flugvöllinn vaxið svo mjög á þeim tíu árum sem síðan eru liðin að ekkert á að vera því til fyrirstöðu að hægt sé að reka ekki aðeins Keflavíkurflugvöll heldur helstu flugvelli landsins undir sérstökum hatti sem sérstök fyrirtæki, sem geti staðið undir sínum rekstri og þó veitt sömu þjónustu og nú er og við svipuðu verði, kannski lægra verði en nú er. Það mál opnast nú eftir að herþoturnar fara og við eigum þá að koma inn í það tómarúm sem þar hefur skapast. Fyrir tíu árum voru aðalerfiðleikarnir að sjálfsögðu fólgnir í því að Bandaríkjamenn höfðu á þeim tíma miklum þjónustuskyldum og rekstrarskyldum að gegna varðandi flugvöllinn.

Ég sagði áðan að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði vísað mjög til Evrópu í sambandi við varnir okkar Íslendinga en lagði þó höfuðáherslu á að Samfylkingin vildi semja á grundvelli varnarsamningsins við Bandaríkin, sem ég tel vera góð teikn því vitaskuld hefur Evrópusambandið ekki því hlutverki að gegna að tryggja hernaðarlegt öryggi aðildarríkja sinna, það er ekki varnarbandalag og getur ekki tekið á sig slíkar skuldbindingar.

Við brostum margir þegar við sáum í fjölmiðlum að Samfylkingin hefði nú stofnað þverpólitíska nefnd um varnar- og öryggismál og skipað Jón Baldvin Hannibalsson formann þeirrar nefndar. Við brostum í fyrsta lagi vegna þess að það sýnir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er með þessum hætti að sneiða fram hjá Össuri Skarphéðinssyni, varpa skugga á hann sem fyrsta fulltrúa Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd, taka það verkefni af honum sem sjálfsagt væri að hann mundi gegna ef Samfylkingin vildi á annað borð marka trúverðuga stefnu í utanríkismálum. Össur Skarphéðinsson er það að auki formaður sendinefndar okkar hjá NATO svo af þeim sökum má kannski segja að hann sé ekki heppilegur leiðtogi í jurtagarði Samfylkingarinnar í pólitískum skilningi.

En það er annað sem líka veldur því að maður hlýtur að telja að valið á Jóni Baldvini Hannibalssyni sem formanni þverpólitískrar nefndar í varnar- og öryggismálum sé heppilegt og það er að hann er sjálfur þverpólitískur í þessum málaflokki. Hann skilur þau sjónarmið sem sett eru fram og hafa verið sett í varnar- og öryggismálum síðastliðin 50 ár. Hann skilur líka þegar sjónarmiðum hefur verið hafnað í varnar- og öryggismálum á síðustu 50 árum því að hann hefur sjálfur haft allar þær pólitísku skoðanir á þessum tíma sem uppi hafa verið í varnar- og öryggismálum okkar Íslendinga. Við höfum raunar tekið eftir því nú, þegar við höfum horft á hann í sjónvarpi og hlustað á hann, að hann virðist kominn frá þeirri stefnu sem hann fylgdi þegar hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og ég fylgdi honum fast að málum, og virðist nú kominn fram úr sjálfum sér og stefna að upphafi sínu og vera vinstri sinnaðri en hann hefur verið nokkru sinni fyrr á síðastliðnum 30 árum.

Ég vil að síðustu segja að það sé kannski eðlilegt að stjórnarandstaðan reyni að þyrla upp moldryki í þessu máli, reyna að nýta sér það í pólitískum skilningi eins og við höfum orðið vör við í þingsalnum, sérstaklega frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Auðvitað kemur ekki á óvart að hv. þm. Ögmundur Jónasson skuli segja hér að sú ógn sem helst steðji að okkur séu Bandaríkin. Þetta er sá tónn sem við höfum heyrt frá Alþýðubandalaginu alla tíð, frá Vinstri grænum og frá forvera Alþýðubandalagsins, og kemur ekki á óvart. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er samkvæmur sjálfum sér í utanríkismálum eins og hann hefur verið.

Ég hygg á hinn bóginn að það sé, eins og ég sagði áðan, líka eftirtektarvert að þrátt fyrir stóryrði hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og þrátt fyrir þann tón sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reynir að gefa annað slagið hér í þingsalnum, þá skíni þó í gegnum ummæli hennar að hún sé sammála ríkisstjórninni um að við eigum að taka alvarlega á varnar- og öryggismálum okkar Íslendinga. Samfylkingin er sammála okkur í ríkisstjórnarflokkunum um að við eigum að láta reyna á það til þrautar að samkomulag náist við Bandaríkin á grundvelli varnarsamningsins, sem við getum vel við unað og sem tryggi öryggishagsmuni okkar í víðasta skilningi þess orðs. Þetta er það sem upp úr stendur. Það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kallar þríflokkana, samkomulag þríflokkanna um að standa saman um öryggishagsmuni okkar Íslendinga. Mér finnst þetta góður og ágætur tónn.

Ég vil að síðustu taka undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni með því að segja að við hljótum að vanda okkur mjög þegar við stöndum fyrir því að byggja upp þyrlusveitir okkar og björgunarbúnað. Ég fagna því að fram er komið á Alþingi nýtt stjórnarfrumvarp um Landhelgisgæslu Íslands sem staðfestir og sýnir fram á að ríkisstjórnin hefur verið að vinna vel og ötullega að varnar- og öryggismálum okkar Íslendinga á síðustu árum. Það mun einnig koma fram í öðrum frumvörpum sem boðuð hafa verið af ríkisstjórninni.



[14:00]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá ræðu sem hann flutti okkur hér. Ég verð þó að segja eins og er að ég átti von á því að meira kjöt væri á beininu því að í raun er skýrslan að mestu leyti yfirlit yfir ástand mála á völdum svæðum í heiminum og upptalning á atriðum og ástandi sem nánast öllum er kunnugt. Það var lítið nýtt í þessari skýrslu, hún var nánast upptalning á staðreyndum sem fyrir liggja.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem sagði oft úr ræðustóli þegar skýrslur eða annað því um líkt kom frá ráðherrunum að þetta væri heldur rýrt í roðinu. Í fjarveru hv. þingmanns verð ég að taka mér þau orð í munn. Þessi skýrsla er frekar rýr í roðinu ef við horfum á ástandið eins og það er á sviði utanríkismála á Íslandi í dag.

Ég saknaði þess í skýrslunni að þar væri einhver alvöruumfjöllun um stefnu ríkisstjórnarinnar, um framtíðarsýn hennar og hvernig hún ætlaði sér að bregðast við nýjustu atburðum á utanríkismálasviðinu, á sviði sem snertir Íslendinga beint og er ég þá að tala um brottför bandaríska varnarliðsins og hvernig að því var staðið að tilkynna okkur um hana. Ég mun því eins og margir fleiri að mestu halda mig við það málefni sem drepið er á í skýrslunni og tekur ansi góðan part af henni en það er varnarsamningurinn, samskiptin við Bandaríkin og sú staða sem nú er uppi.

Ég hefði að óreyndu átt von á því að ráðherra mundi nota tækifærið við skýrslugjöf og skýra þinginu frá einhverri afstöðu sem íslenska ríkisstjórnin hefði tekið sjálf einhliða gagnvart þessari einhliða tilkynningu Bandaríkjamanna um brottför varnarliðsins en það kveður því miður við sama tón og við höfum heyrt í fjölmiðlum, að við ætlum að bíða ákvarðana Bandaríkjamanna, að við ætlum að bíða eftir því, eins og segir í skýrslunni, að þeir móti varnarstefnu fyrir Ísland. Við ætlum að bíða eftir því að þeir skýri okkur frá því hverjar þeirra óskir eru varðandi áframhald varnarsamningsins.

Þegar maður fer yfir viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar við atburðunum virðist orðið bíða vera lykilorð í málinu en það vantar orð eins og ákvarðanataka, sjálfstæði og að taka ábyrgð á eigin málum inn í það sem við höfum séð. Það er ekkert annað en hreinn og klár dónaskapur við íslensk stjórnvöld að meðan verið er í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn um framtíð varnarsamningsins og hvernig á að uppfylla hann sé einhliða tilkynnt um brottför flugvélanna og varnarliðsins í heild sinni. Enn og aftur virðast viðbrögðin vera þau að hæstv. utanríkisráðherra ætlar að mæna til Bandaríkjamanna í þeirri von að þeir færi honum eitthvað annað en hann sjálfur vildi en gerir kannski að þeirra mati sama gagn.

Í skýrslunni er sagt frá því að fyrsti fundur samninganefnda Íslands og Bandaríkjanna hafi verið haldinn 31. mars. Við erum búin að hlusta á það oft á þingi af vörum hæstv. utanríkisráðherra að samningaviðræður séu í gangi og slíkt þó að það hafi nú breyst eftir því sem passað hefur hverju sinni hvað þær viðræður eru kallaðar en hér segir að þann 31. mars hafi fyrsti fundur samninganefnda Íslands og Bandaríkjanna verið haldinn. Bandaríkjaher vinnur að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland. Það er sagt fullum fetum í skýrslunni að við séum að bíða eftir því að Bandaríkjaher vinni að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland. Hingað komu sem sagt á fund, sem kallaðist samningafundur, 26 samningamenn frá Bandaríkjunum eftir að einhliða hafði verið tilkynnt um brottför varnarliðsins og sögðu okkur að þeir væru að vinna að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland.

Hefði ekki verið eðlilegt, og í samræmi við varnarsamninginn, að þeir hefðu verið búnir að gera sér grein fyrir hvernig þeir ætluðu að rækja skyldur sínar áður en þeir tilkynntu okkur einhliða að þeir ætluðu í burtu með sinn viðbúnað héðan. Nú ætla þeir að vinna að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland og eftir að hafa átt í þessum viðræðum við Bandaríkjamenn til margra ára veltir maður því fyrir sér hvað það taki langan tíma. Það má segja að tíminn sé hugtak sem skiptir miklu máli í þessu efni, ekki síst fyrir Suðurnesin og þá sem starfað hafa hjá Bandaríkjaher á flugvellinum. Í skýrslunni kemur fram að Bandaríkjamenn gera ráð fyrir frekari kynningu og samráði um áætlunina, þessa nýju varnaráætlun, eftir nokkrar vikur. Það væri rétt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað nokkrar vikur þýða í þessu sambandi. Nokkrar vikur geta í mínum huga verið allt frá því að vera 2–3 og upp í það að vera 6–8. Getur það verið að við ætlum að bíða í 2–3 mánuði jafnvel eftir því að Bandaríkjaher nái að vinna að gerð nýrrar varnaráætlunar fyrir Ísland og tilkynna okkur hver hún er? Mér þætti vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra gæti svarað þeirri spurningu.

Við verðum náttúrlega að horfast í augu við það að samningataktíkin hefur algerlega brugðist í þessum samningum við Bandaríkjamenn. Hinn sífelldi söngur íslenskra ráðamanna um að hér þyrftu að vera 4 þotur og ekkert annað en 4 þotur og ekki væri hægt að semja um neitt annað, þetta væri lágmarksviðbúnaður og hér yrðu 4 eða 15 orrustuþotur, hefur orðið til þess að Bandaríkjamenn hafa gefist upp á viðræðum við samninganefndina og hæstv. utanríkisráðherra og ákveðið að héðan í frá muni þeir beita einhliða ákvörðunum í samskiptum við hæstv. ríkisstjórn sem hefur neitað að viðurkenna breytta heimsmynd og breytt öryggisumhverfi. Mér finnst orð hæstv. utanríkisráðherra í skýrslunni benda til þess að við séum að bíða eftir því að þeir segi okkur einhliða hver hin nýja varnaráætlun fyrir Ísland verður og að við bíðum eftir því að fá að vita af henni.

Það kemur fram í skýrslunni að heimsmynd og öryggisumhverfi hafi breyst afskaplega mikið eftir 11. september 2001 þegar hryðjuverkamenn réðust á New York og Washington og því held ég að allir sem fylgjast með varnar- og öryggismálum hafi gert sér grein fyrir. Þrátt fyrir að árið 2001 hafi orðið gerbreyting í umhverfinu sem við þekkjum, heimsmyndinni og öryggisumhverfinu, héldu íslenskir ráðamenn samt sem áður áfram að tala um að hér væri ekki um neitt að semja varðandi sýnilegar varnir annað en 4 eða 15 orrustuþotur. Þeir hafa hangið á þeim eins og hundar á roði og niðurstaðan verður þessi.

Niðurstaðan er skýr. Einhliða brottför sem fyrst. Við vitum ekki hér á þingi hvenær herinn fer, hvenær þoturnar fara. Það er engin aðlögun, það er engin fyrirliggjandi framtíðarsýn, það er ekkert plan B. Þetta er í raun snautleg niðurstaða eftir allan þann tíma sem búið er að eyða í svokallaðar samningaviðræður og hlýtur að vera erfið niðurstaða fyrir formenn Sjálfstæðisflokksins fyrr og nú. Þeir hafa reynt að telja þjóðinni trú um að þeir væru í svo góðu vinfengi við ráðamenn vestra að það þyrfti ekkert að óttast um framtíðarvarnir landsins. Við vitum að í langan tíma hafa formenn Sjálfstæðisflokksins tekið þetta mál í faðm sér og haldið öðrum frá því og bera því einir ábyrgð á því klúðri sem nú blasir við.

Þegar Bandaríkjamenn tilkynntu um brottför töluðu ráðherrarnir í ríkisstjórninni um nauðsyn þess að bregðast fljótt við þeim vanda sem brottför hersins skapaði á Suðurnesjum. Loksins virtust þeir tilbúnir til að ræða um starfsmannamál hersins, hvernig fara ætti með land innan varnarsvæða og nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld hefðu skoðun og áhrif á hvernig farið yrði með mannvirki á Vellinum. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa í þrjú ár reynt að ná fundi utanríkis- og forsætisráðherra til að ræða málefni Keflavíkurflugvallar en ekki haft erindi sem erfiði.

Ég var ánægður með þá staðreynd að ráðherrar, sem yfirleitt hafa skammað mig blóðugum skömmum þegar ég hef komið í þennan ræðustól til að tala um starfsmannamál og svæðisbundin málefni sem tengjast varnarliðinu og varnarsamningnum, sýndu loks á því skilning að varnarsamningurinn hefði áhrif á atvinnulíf og efnahag á Suðurnesjum þó að samningurinn sjálfur snerist að sjálfsögðu að mestu leyti um öryggi og varnir landsins. Tillögum þeirra um að setja á fót samstarfsnefnd heimamanna og ríkisins vegna ástandsins var fagnað af heimamönnum sem snarlega skipuðu sína fulltrúa í nefndina en síðast þegar ég vissi hafði ríkið ekki skipað sína fulltrúa og eftir því er verið að bíða á Suðurnesjum.

Versta staða sem getur komið upp er sú að það sé verið að bíða og bíða og bíða. Það er búið að bíða nógu lengi eftir einhverri niðurstöðu. Nú höfum við ákveðna niðurstöðu í höndunum og það hlýtur að vera skylda hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar að taka frumkvæði í málinu, taka á málinu eins og sjálfstæð ríkisstjórn og setja fram óskir sínar og kröfur í málinu en ekki bíða eftir því að þeim verði rétt eitthvað sem Bandaríkjamönnum dettur í hug að láta okkur hafa.

Utanríkisráðherra mótmælir því í skýrslu sinni að íslensk stjórnvöld hafi vanrækt það að skoða öryggismál þjóðarinnar í ljósi breyttra aðstæðna og gera viðeigandi skýrslur og tillögur þar um. Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að þessar fullyrðingar standist ekki og að það sé stjórnarandstaðan sem sé að tala um þetta.

Til marks um það hvað ríkisstjórnin hefur staðið sig vel í málinu kemur fram í skýrslunni að á árinu 1993 kom út skýrsla sem unnin var á vegum stjórnvalda um öryggis- og varnarmálin, fyrir 13 árum. Það er annar parsus í skýrslunni sem segir að á árinu 1999 hafi starfshópur utanríkisráðuneytisins unnið greinargerð um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót, fyrir 7 árum. Hvað segir hæstv. utanríkisráðherra sjálfur í upphafi skýrslu sinnar? Hann segir, með leyfi forseta:

„Heimurinn tekur sífelldum breytingum, jafnvel á þeim stutta tíma sem líður milli þess sem utanríkisráðherra gerir grein fyrir þeim utanríkismálum sem efst eru á baugi hverju sinni hér á Alþingi.“

Það líður eitt ár á milli þessara skýrslna og hæstv. utanríkisráðherra segir sjálfur að heimurinn breytist mikið á einu ári og vitnar síðan í skýrslu sinni til þess að fyrir 13 árum og fyrir 7 árum hafi ríkisstjórnin látið vinna skýrslur um öryggis- og varnarmál þannig að hún standi sig nokkuð vel í því að leggja mat á stöðuna í öryggis- og varnarmálum.

Í skýrslunni segir hæstv. ráðherra einnig að allt hafi gerbreyst við hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Þá hafi heimsmyndin breyst og þá hafi öryggissamfélagið breyst. Það var árið 2001 og samt er verið að vísa í skýrslu sem ríkisstjórnin lét gera fyrir 13 árum og fyrir 7 árum, og standi sig þar af leiðandi nokkuð vel.

Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar varðandi hina miklu flutninga sem við munum sjá á hafinu í kringum Ísland á næstu árum. Það eru mikil plön uppi um olíu- og gasvinnslu úti fyrir norðurströnd Noregs og úti fyrir ströndum Rússlands. Það er alveg ljóst að þó ekki gangi eftir nema brot af þeim áætlunum sem þar er verið að tala um munu flutningar í risatankskipum, olíuskipum og skipum sem flytja fljótandi gas verða gífurlegir á hafinu í kringum Ísland. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þetta hafi verið rætt við Norðmenn, sem munu hagnast mikið á þessari vinnslu og munu þurfa að halda þessari þjóðleið héðan og til Bandaríkjanna eins öruggri og hægt er, um það hvort taka ætti upp einhvers konar samstarf um eftirlit, öryggi og björgun á þessu hafsvæði. Norðmenn munu þurfa að fara þarna í gegn með mikið af stórum tankskipum fullum af olíu og fljótandi gasi.

Það sama á við um Rússa að ekki sé nú talað um Bandaríkjamenn því þeir munu verða stærstu kaupendur að þeirri orku sem kemur þarna norðan frá. Telja þeir sig ekki þurfa að leggja neitt af mörkum til þess að hafsvæðið verði öruggt og eftirlit verði á þessu. Þegar svona rúta er komin í gang sem þarna um ræðir hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þar verði ekki skotmark hryðjuverkamanna og nauðsynlegt að bregðast við því.

Samfylkingin hefur sagt að við eigum að byggja á grundvelli varnarsamningsins. Það er rétt. Við höfum bent á 7. gr. samningsins sem setur tímamörk á Bandaríkjamenn. Ef farið er eftir 7. gr. hafa menn sex mánuði til að ganga í þá vinnu að endurskoða samninginn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Kemur ekki til greina að setja tímapressu á Bandaríkjamenn núna? Ætlum við enn og aftur að láta þá tala við okkur í mörg ár og niðurstaðan verður engin?



[14:16]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Utanríkismálaumræðan í Alþingi er ævinlega spennandi umræða. Hér er farið vítt yfir sviðið og hæstv. utanríkisráðherra hefði að mínu mati að ósekju mátt fara víðar yfir sviðið en hann gerði en hann velur að dvelja við tvö meginefni, þ.e. Asíu, tengsl okkar þangað austur og sjónarmið okkar varðandi það sem er að gerast þar og svo auðvitað mál málanna hér: væntanlegt brotthvarf hersins frá Keflavíkurflugvelli. Í þeim efnum er að mörgu að hyggja og ég minni á þingsályktunartillögu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt á Alþingi varðandi það á hvern hátt við sjáum fyrir okkur veruleikann í því og hvernig við getum á skynsamlegan hátt tekist á við þá staðreynd að herinn er um það bil að fara. Ég verð að segja að sem baráttukona fyrir friði sýti ég það ekkert, ég græt það ekki þó að Bandaríkjaher sé að yfirgefa landið en ég gagnrýni hins vegar stjórnvöld fyrir að hafa með sofandahætti látið undir höfuð leggjast að undirbúa það sem nú þarf að gerast í þessum efnum. Þeir hafa haft nægan tíma þessir stjórnarherrar okkar til að undirbúa brottför hersins en hafa flotið sofandi að feigðarósi ef má orða það svo. Þeir hafa látið undir höfuð leggjast að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar hefðu verið og standa nú frammi fyrir því að þurfa að grípa til aðgerða sem kannski er ekki hægt að undirbúa jafn vel og hefði þurft að gera ef menn hefðu gripið til aðgerðanna fyrr.

Svo blöskrar mér satt að segja í máli hæstv. utanríkisráðherra hversu átakamiðuð hans ræða er og tek undir þau orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar að það mætti halda að rót ræðunnar sé komin beint frá Pentagon. Það er alveg með ólíkindum að hæstv. utanríkisráðherra skuli leyfa sér þá hluti sem hann leyfir sér hér sérstaklega þegar hann fer orðum um nýlátinn leiðtoga Palestínumanna, Yasser Arafat, þegar hann kallar hann þránd í götu friðar fyrir botni Miðjarðarhafs. Hæstv. utanríkisráðherra veit það auðvitað að Yasser Arafat lagði sig fram um að ná friði fyrir botni Miðjarðarhafs og fékk fyrir vinnu sína í þeim efnum friðarverðlaun Nóbels. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað telur hann að akademían sem veitti þau verðlaun hafi haft að leiðarljósi þegar sú ákvörðun var tekin? Það voru a.m.k. ekki sömu sjónarmið og hæstv. utanríkisráðherra lepur upp eftir ríkisstjórn Bandaríkjanna og þeim sem fara með völdin í Pentagon.

Það sem mig langar til að gera að aðalumfjöllunarefni ræðu minnar, frú forseti, eru áform okkar Íslendinga um að leggja nú lóð á vogarskálarnar í vinnu við að viðhalda friði í heiminum, þ.e. framboð okkar til öryggisráðsins. Við skulum ekki gleyma því eina einustu stund að Sameinuðu þjóðirnar og líka öryggisráðið voru settar á laggirnar og stofnuð til að viðhalda friði í heiminum, ekki til að efna til átaka eins og því miður hefur verið gert jafnvel í nafni Sameinuðu þjóðanna. Nú langar mig til að ráða hæstv. utanríkisráðherra heilt í þessum efnum því ég geri mér grein fyrir því að við stefnum hraðbyri í þessa átt sem hefur verið gagnrýnd og má auðvitað deila um hvort rétt sé að við fölumst eftir þessu sæti og förum í þetta framboð en gott og vel. Það er búið að taka þá ákvörðun og þeirri ákvörðun verður eflaust haldið en þá spyr ég sjálfa mig: Hvað ætlum við Íslendingar að gera í öryggisráðinu? Hvernig ætlum við að fara með okkar atkvæði þar? Hvernig ætlum við að sinna því ábyrgðarmikla starfi sem sett verður á okkar herðar í öryggisráðinu ef svo fer að við fáum þar sæti?

Ég óttast það mest af öllu og ég tel ræðu hæstv. utanríkisráðherra gefa það til kynna að hann og íslensk stjórnvöld — verði sama ríkisstjórn við völd þegar og ef þar að kemur að við tökum sæti í öryggisráðinu, að einungis verði lapin upp einhver utanríkisstefna Bandaríkjanna og við verðum einungis í öryggisráðinu til að veita stuðning, veifa og brosa við þeim ákvörðunum sem Bandaríkjastjórn leggur til að teknar verði og eins og við vitum eru þær ekki ákvarðanir friðar. Svo sannarlega hefur Bandaríkjastjórn og Bandaríkin í öryggisráðinu ekki verið boðberar friðar eða friðflytjendur.

Hins vegar er ein ályktun öryggisráðsins öðrum fremur í mínum huga til þess fallin að koma á friði og viðhalda honum. Það er ályktunin frá árinu 2000, ályktun nr. 13/25, sem mikið hefur verið um fjallað og haldnir margir fundir um og mikil fræðsla átt sér stað um. Þetta er tímamótaályktun í mínum huga, ályktun sem er sú fyrsta sem tekur á afleiðingum stríðsátaka í veröldinni fyrir konur, ályktun sem viðurkennir hlutverk kvenna í að fyrirbyggja og leysa átök, ályktun sem kallar á fulla þátttöku kvenna í öllu friðar- og öryggisstarfi í veröldinni. Síðan þessi ályktun 13/25 tók gildi hefur hún verið notuð óspart bæði af konum og körlum úti um allan heim til að safna stuðningi fyrir og þrýsta á um jafna þátttöku karla og kvenna í friðarferli. Grasrótarsamtök kvenna í ýmsum stríðshrjáðum löndum hafa notað ályktunina sem tæki til að þrýsta á um aukinn hlut þeirra í samfélags- og friðaruppbyggingu, ekki síst í kosningum og stjórnarskrárnefndum. Það er búið að þýða hana á um það bil 70 tungumál og það er verið að fræða fólk úti um allan heim um þau áhrif sem hún mögulega getur haft og nú langar mig til að segja hæstv. utanríkisráðherra frá því hvers vegna það er svo mikilvægt að leita til kvenna við uppbyggingu friðar og því að viðhalda friði í veröldinni.

Hér hef ég með mér í ræðustól, frú forseti, skýrslu sem heitir „Konur, stríð og friður“, skýrslu sem gefin var út árið 2002 og skrifuð er að frumkvæði UNIFEM sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Skýrsluna hafa skrifað þær Elisabeth Rehn og Ellen Johnson Sirleaf sem nú er orðin forseti í Afríkuríkinu Líberíu, fyrsta konan til að vera lýðræðislega kjörin í Afríkuríki. Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með því hvernig hún formúlerar sig sem sá leiðtogi sem hún er og hvernig hún eða ég alla vega tengi það við þá reynslu sem hún fékk af þeirri skoðun sem henni var falið að gera á afleiðingum stríðsátaka fyrir konur. Ég treysti því og veit að Ellen Johnson Sirleaf kemur til með að marka djúp spor í sögu örugglega allrar Afríku í þessum efnum. Hún er sannur friðflytjandi og boðberi friðar og hún veit hvað getur mögulega orðið til þess að friði í þessum ríkjum verði við haldið.

Í þessari skýrslu, herra forseti, eru sagðar sögur kvenna sem eiga það sameiginlegt að hafa þurft að takast á við hörmungar stríðsátaka á ýmsan hátt. Hér er t.d. sögð saga kvenna í Kolumbíu sem hafa tapað öllu, misst eiginmenn sína og syni, landið sitt og eigur í borgarastyrjöldinni og í átökum eiturlyfjabaróna. Hér er sögð saga kvenna í Kosovo í Bosníu, kvenna sem lýsa því hvernig þær voru numdar á brott af óvinahermönnum, hvernig þeim var komið fyrir í nauðgunarbúðum þar sem þeim var nauðgað og þær þvingaðar til að ganga með börn kúgara sinna og morðingja eiginmanna sinna. Hér er sögð saga kvenna í Rúanda sem var nauðgað í þeim tilgangi einum að smita þær af HIV-veirunni og svona get ég lengi áfram talið. Það er talað um konur í Austur-Tímor, hér er sagt frá konum í Kongó, Guatemala, Afganistan og víðar og allar hafa þær sömu hryllingssögunarnar að segja. Þær eru svipaðar. Þær greina frá því hvernig kjarni átaka í veröldinni hefur breyst, hvernig aðferðir stríðandi fylkinga hafa þróast yfir í að ryðjast inn á heimili óbreyttra borgara og inn í líkama kvennanna. Ofbeldi gegn konum er beinlínis notað í meðvituðum og ætluðum tilgangi. Það er notað til að niðurlægja og vanvirða konur og eiginmenn þeirra, syni þeirra og dætur og má segja að nú svo sé komið að konur og stúlkur séu orðnar stærsti hópur fórnarlamba stríðsátaka.

Svo gerist það, herra forseti, að sú reynsla sem þessar konur búa yfir býr til nýjan veruleika. Hún hefur á einhvern hátt í sér fólgin þau sannindi sem gefa okkur von um að til sé leið út úr þessum vopnuðu átökum milli þjóða og þjóðarbrota. Hún gefur okkur von um að konur sem öflugir friðarboðar geti haft veruleg áhrif í þessum efnum og ekki síst einmitt þær konur sem sjálfar hafa mátt þola hörmungar stríðsátaka á eigin skinni.

Sögurnar um það hvernig konur hafa nýtt þessa eigin reynslu sína í að byggja upp frið í sínum samfélögum og viðhalda honum eru mjög áhrifaríkar. Þær spanna allt frá sögum um hvernig konur í Ghana sem höfðu verið flóttamenn frá Líberíu hafa t.d. tekið að sér að læra byggingatækni til að geta byggt ný hús handa fjölskyldum sínum. Þessar sögur segja frá því hvernig konur í Afganistan hafa reynt að nýta sér aðferðir til að komast hjá ógnarstjórnum, ofbeldi og átökum í Afganistan með því teikna upp kort af borgum og bæjum og búið sér til neðanjarðarleiðir til að setja upp skóla fyrir stúlkur, skýli fyrir fólk sem þarf að leita sér læknishjálpar, hvernig þær hafa útbúið störf fyrir aðrar konur og hvernig þær á leynilegan hátt hafa komið upplýsingum um þessa þætti til skila til kynsystra sinna. Hörmungarnar sem konur hafa þurft að þola í stríðsátökum hafa kennt þeim að lifa af og þær hafa líka kennt þessar aðferðir við að búa til frið. Það er algerlega nauðsynlegt að karlarnir í heiminum, karlarnir sem ráða lögum og lofum í öryggisráðinu, sitja við borðið þar sem okkur er sagt að sé verið að semja um frið hleypi konunum að. Ef hæstv. utanríkisráðherra Geir Haarde getur farið með eina bón frá löggjafarsamkundunni, a.m.k. frá mér og ég er viss um okkur fleirum sem hér sitjum þá er það bón um að setja það á oddinn að konum í veröldinni verði gert kleift að setjast við þessi borð þar sem samið er um frið og honum við haldið. Að nýta þessa reynslu sem búið er að kortleggja og sýna okkur fram á að hefur í sér falinn þennan neista, þessa kunnáttu sem getur skipt sköpum fyrir áframhaldandi uppbyggingu friðar í heimunum. Ef það er eitthvað batterí í allri veröldinni sem á að viðhalda friði þá er það öryggisráðið og takist það ætlunarverk okkar Íslendinga að eignast þar sæti er lífsnauðsynlegt að við sýnum þá döngun og það sjálfstæði að við komum að því borði með nýjar hugmyndir. Og hugmyndir á borð við þær sem Elisabeth Rehn og Ellen Johnson Sirleaf greina frá í þessari skýrslu eru hugmyndir sem við höfum kannski tækifæri til að fara lengra með, hugmyndir sem við getum mögulega tryggt að skjóti rótum. Þar með værum við að gerast boðberar friðar á alþjóðavettvangi og það er mikilvægt að Íslendingar verði: herlaus þjóð í herlausu landi, boðberar friðar á alþjóðavettvangi. Það er mín ósk að við verðum.



[14:30]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um utanríkismál. Það er skýrt í mínum huga að við þurfum að leggja mjög mikið upp úr þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi. Við þurfum að gera okkur sýnileg á alþjóðavettvangi. Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra að við þurfum að gæta hagsmuna Íslands og öryggis eftir bestu getu í nýju umhverfi.

Í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan kom m.a. fram að Ísland ætti að standa utan hernaðarbandalaga og gæta hagsmuna sinna með öðrum hætti. Í hinu nýja umhverfi og við hinar nýju ógnir sem við okkur blasa er sennilega aldrei jafnmikilvægt og nú að fylkja liði með öðrum vinaþjóðum til að beina ógninni frá. Það er alkunna að þjóðir standa betur að vígi ef þær leggja saman krafta sína en hver í sínu horni.

Við sjáum einnig þá þróun sem er að verða innan Evrópusambandsins. Evrópusambandið hefur beint sjónum sínum að öryggis- og varnarmálum með sérstakri stefnumótun á því sviði. Það er einnig staðreynd að NATO hefur verið eftirsótt af ríkjum sem eru að feta brautina í átt til lýðræðis sem ákveðið takmark á leiðinni en ekkert ríki getur í raun þróast eðlilega ef öryggi þjóðarinnar er ekki tryggt.

Hæstv. forseti. Atburðirnir 11. september 2001 munu ekki líða neinum úr minni. Þá má segja að kaflaskipti hafi orðið í alþjóðamálum. Hryðjuverk voru orðin alþjóðleg og án landamæra. Baráttan gegn hryðjuverkum var skyndilega mjög áþreifanleg og hefur síðan þá tekið verulegan tíma og athygli alþjóðastofnana, stjórnmálamanna og fræðimanna. Þannig hefur Atlantshafsbandalagið t.d. ákveðið að gera baráttuna gegn hryðjuverkum að forgangsmáli innan bandalagsins. Bæði NATO og aðildarríki þess þurfa að gera ráð fyrir hugsanlegum árásum með sýkla-, efna- og geislavopnum og hafa tiltækar viðbragðsáætlanir. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins hefur þannig tekið stakkaskiptum. Í tengslum við það hefur ótti þjóða heims við að hryðjuverkamenn kæmust yfir gereyðingarvopn magnast. Enginn getur séð fyrir þær hrikalegu afleiðingar sem það gæti haft ef hryðjuverkamenn beittu slíkum vopnum. Það er ákaflega mikilvægt að tryggt sé að öll meðferð geislavirkra efna sé trygg og örugg og notuð í friðsamlegum tilgangi eins og við orkuframleiðslu.

Efni mega hvorki vera aðgengileg óviðkomandi aðilum né skaðleg fyrir umhverfið. Þróun mála undanfarin missiri sýnir svo ekki verður um villst að hryðjuverkamenn beita nú öðrum aðferðum en áður. Í stað sjálfsmorðsárása virðast þeir líklegri til að nota vopn sem unnt er að beita úr fjarlægð. Ekki síst þurfa þjóðir heims að vera á verði gagnvart því gríðarlega umhverfistjóni sem hryðjuverkamenn geta valdið. Enginn getur því í raun haldið því fram að hann sé öruggur og þurfi ekki á vörnum að halda. Varnarlaust ríki er líklegt til að draga að sér athygri slíka manna og kjörið tækifæri til að vekja athygli á tilteknum málstað. Við getum ekki sætt okkur við að vera slíkt ríki. Varnarlaus veikjum við líka þá öryggiskeðju sem NATO myndar. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Ísland vill að sjálfsögðu ekki njóta þess vafasama heiðurs að vera veikasti hlekkurinn í keðjunni. Í þessu ljósi verðum við að meta stöðu okkar innan NATO og mikilvægi varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna.

Aðild okkar að NATO og tvíhliða varnarsamningur okkar við Bandaríkin hafa verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkismálastefnu í meira en hálfa öld. Staða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna hefur verið stöðugt til umfjöllunar sl. ár. Í samræmi við áratugalangt og vinsamlegt samstarf Íslands og Bandaríkjanna er ákaflega mikilvægt að þjóðirnir leysi þessi mál hið allra fyrsta. Því er þó ekki að leyna að það olli okkur verulegum vonbrigðum hversu aðferðafræði bandarískra stjórnvalda var klaufaleg og lítt í samræmi við það sem við áttum von á.

Það þarf ekki að taka að fram að við höfum ekki eingöngu verið þiggjendur í samstarfi, því er fjarri. Við höfum lagt til nauðsynlega aðstöðu sem er einstök í Norður-Atlantshafi og pólitískan stuðning við okkar vinaþjóð. Það er einu sinni þannig að í svona samstarfi leggur hvor aðili eitthvað af mörkum. Við höfum lagt okkar til og svo má deila um það hvort annar aðili leggi enn meira inn í samstarfið.

Að sjálfsögðu erum við þakklát fyrir þá aðstoð sem varnarliðið hefur veitt okkur á ögurstundu. Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þyrlusveitar varnarliðsins sem hefur komið til aðstoðar oft við mjög erfiðar aðstæður. Afstaða okkar í málinu hefur alla tíð verið skýr. Hér þarf að vera lágmarksviðbúnaður. Ísland sem NATO-ríki getur ekki verið eitt án varna enda væri Ísland þannig veikur hlekkur í varnarkeðju Atlantshafsbandalagsins. Þótt kalda stríðinu sé lokið hafa orðið til nýjar ógnir eins og ég ræddi ítarlega áðan.

Í viðræðum íslenskra stjórnvalda hafa verið reifaðar hugmyndir um að Ísland tæki aukinn þátt í greiðslu kostnaðar við rekstur Keflavíkurflugvallar. Við höfum talið eðlilegt að skoða það enda hefur hlutverk Keflavíkurflugvallar breyst undanfarin ár og ekkert náttúrulögmál að við tökum takmarkaðan þátt í kostnaði. Hins vegar er það alger lágmarkskrafa að hér verði trúverðugar varnir með tilliti til legu og hlutverks landsins, mikillar flugumferðar og fyrirsjáanlegrar aukinnar skipaumferðar á Norður-Atlantshafi. Eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom að áðan sjáum við það fyrir að siglingar olíuskipa munu aukast mjög ekki síst vegna mikillar olíuöflunar og gasöflunar bæði við Noreg og Rússland og því þurfum við að hafa víðtækt samstarf við okkar vinaþjóðir. Viðræðurnar við Bandaríkin munu halda áfram næstu vikurnar og utanríkismálanefnd mun fylgjast náið með framvindu málsins í góðu samráði við hæstv. utanríkisráðherra eins og verið hefur.

Hæstv. forseti. Undanfarin missiri hefur verið unnið kappsamlega að eflingu íslensku friðargæslunnar. Ísland hefur komið sér á kortið á alþjóðavettvangi og leyst af hendi krefjandi verkefni sem við getum verið stolt af. Þetta er metnaðarfullt verkefni og Ísland hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir framlag sitt. Við höfum talið að best færi á að reka eigin sveit borgaralegra friðargæsluliða sem sinna sérhæfðum þörfum eins og læknar, hjúkrunarfólk, flugumferðarstjórar, slökkviliðsmenn og lögreglumenn svo einhver dæmi séu tekin í stað þess að leggja eingöngu til fjármuni í sameiginlega sjóði alþjóðastofnana. Það hefur verið mjög ánægjulegt að heyra hve þessum íslensku friðargæsluliðum og flugstarfsmönnum hefur vegnað einstaklega vel og er til þess tekið í alþjóðasamstarfi hve Íslendingarnir hafa staðið sig einstaklega vel.

Hæstv. forseti. Ég tel að við eigum að halda áfram á þeirri braut að efla íslensku friðargæsluna og finna okkar farveg innan þeirrar starfsemi. Þannig getum við sem friðelskandi þjóð lagt okkar af mörkum til friðar og öryggis í heiminum svo um munar.

Nú liggur fyrir frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna en nauðsynlegt er að hafa ákveðinn lagaramma utan um starfsemi af þessu tagi, m.a. um réttarstöðu starfsmanna og hlutverk friðargæslunnar að öðru leyti. Það er orðið tímabært að setja slík lög enda hefur íslenska friðargæslan fest sig í sessi sem hluti af utanríkisstefnu Íslands. Utanríkismálanefnd hefur fylgst með uppbyggingu friðargæslunnar og mun halda því verki áfram.

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að Ísland hefur verið að láta alþjóðamál til sín taka í stöðugt meiri mæli en áður hefur einnig aukin áhersla verið lögð á störf Sameinuðu þjóðanna í íslenskum utanríkismálum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gegnir lykilhlutverki í varðveislu friðar og öryggis í heiminum og er mun virkara en áður var og pólitískt vægi þess meira. Þannig má segja að það sé eðlilegt framhald að Ísland sækist eftir sæti í ráðinu og axli þar ábyrgð eins og hin Norðurlöndin hafa gert. Íslenska ríkið er reiðubúið að axla ábyrgð á alþjóðavettvangi og nýtur til þess stuðnings hinna Norðurlandanna við framboðið. Kosningabaráttan verður vafalaust erfið en lærdómsrík fyrir okkur og eins og kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra munu Íslendingar einnig fara að gera sig gildandi meira í mannréttindamálum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra gerði í ræðu sinni grein fyrir þróun viðskiptamála innan EFTA. Íslensk fyrirtæki hafa sótt fram á erlendum vettvangi á undanförnum missirum með undraverðum árangri. Það er okkar stjórnmálamanna að skapa rammann utan um starfsemina og gera þetta kleift. Íslensk stjórnvöld hafa svo sannarlega gert það. Innan EFTA hefur ötullega verið unnið að gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki og er það vel. Því verki verður haldið áfram en frjáls viðskipti eru okkur öllum til hagsbóta. Hæstv. ráðherra gat þess að hann hefði verið á fundi WTO í Hong Kong. Þar var ég líka á vegum Norðurlandaráðs og fylgdist þar með samningaviðræðum. Það var mjög athyglisvert og fróðlegt að hlusta og verða vitni að því hvað íslenska sendinefndin frá þremur ráðuneytum stóð sig einstaklega vel. Það var utanríkisráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið og einstaklega var skemmtilegt að sjá það og athyglisvert hvað íslenska utanríkisþjónustan er vel metin og það er alltaf gott að verða vitni að því. En lotunni er ekki lokið en vonandi fer að sjá fyrir endann á því.

Áður ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, vil ég taka undir með hæstv. utanríkisráðherra varðandi Keflavíkurflugvöllinn að stefna að því að einkafyrirtæki annist rekstur Keflavíkurflugvallar eins og tíðkast annars staðar. Ég tel mikil sóknarfæri í því og tel sjálfsagt að ríkið sé ekki að vasast í því sem það þarf ekki að gera. Til þess eru margir oft betur fallnir en ríkið og ég vil taka undir skoðun hæstv. utanríkisráðherra.

Virðulegur forseti. Utanríkismálin eru fjölskrúðugur og spennandi vettvangur og það er óhætt að gera ráð fyrir að opin umræða um utanríkismál eigi eftir að verða dýpri og meira krefjandi í nánustu framtíð.



[14:42]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka undir lokaorð síðasta ræðumanns, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, um ræðu utanríkisráðherra eða þann þátt sem vék að framtíðarrekstrarfyrirkomulagi á Keflavíkurflugvelli sem ég held að sé fyrir utan þessa almennu varnarmálaumræðu sem hefur átt sér stað í dag sennilega mesta fréttin sem fram hefur komið í umræðunum vegna þess að sú sýn sem hæstv. utanríkisráðherra lýsti er ný framtíðarsýn varðandi rekstrarfyrirkomulagið.

Ég er sammála hv. þm. Drífu Hjartardóttur um að það er mikilvægt til framtíðar að tryggja að einkaaðilar geti komið að þeim þáttum í rekstri sem þeir eru betur færir um að sinna en opinberir aðilar. Eins og dæmi frá fjölmörgum öðrum nágrannalöndum ber vitni um er rekstur flugvallar einmitt þáttur í því. Þar er ekki um að ræða opinbera stjórnsýslu eða aðra slíka þætti sem eðli málsins samkvæmt hljóta að liggja hjá hinu opinbera. Þarna er um að ræða rekstrarþætti sem mikilvægt er að einkaaðilar hafi með höndum. Ég fagna því þessu atriði sérstaklega í ræðu hæstv. utanríkisráðherra.

Að öðru leyti vil ég líka þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir umfjöllun hans um aðra þætti, þ.e. um stöðuna í öryggis- og varnarmálum. Ég held að það sé mikilvægt að stefna ríkisstjórnarinnar liggi skýr fyrir um næstu skref í viðræðunum við Bandaríkjamenn. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi lýst þeirri stefnu mjög hreinskilið og skynsamlega áðan. Það er langt í frá að um eitthvert pukur eða leynd sé að ræða í þeim efnum eins og sumir talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa látið í veðri vaka, bæði í umræðunni í dag og eins á liðnum dögum, langt í frá. Það liggur ljóst fyrir með hvaða hætti ríkisstjórnin nálgast þessi mál og mér finnst með ólíkindum að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar geti haldið því fram að hægt sé með einhverjum skynsamlegum hætti að nálgast þau mál öðruvísi.

Eins og hér hefur margoft verið rakið stöndum við frammi fyrir nýjum aðstæðum eftir yfirlýsingu Bandaríkjamanna frá 15. mars síðastliðnum. Við þurfum að takast á við að breytingar verða á fyrirkomulagi varnarmála ef þær áætlanir Bandaríkjamanna ganga eftir að draga burtu flugsveit sína héðan. Í ljósi þess stöndum við frammi fyrir því verkefni sem vissulega hefur verið viðvarandi verkefni íslenskra stjórnvalda í þessum efnum að meta þörfina fyrir varnir hér, hverjar þær eru, gegn hvaða ógnum við þurfum að búa okkur og með hvaða hætti það verði skynsamlegast gert.

Enginn efast um að varnarþörfin hefur breyst frá dögum kalda stríðsins. Veruleikinn hefur endurspeglað það. Það hefur komið fram í breyttum viðbúnaði varnarliðsins á síðastu árum. Það hefur komið fram í þeim bókunum sem hafa verið gerðar við varnarsamninginn bæði 1993 og 1996. Auðvitað er fráleitt að halda því fram eins og gert hefur verið af hálfu margra talsmanna stjórnarandstöðunnar í dag að íslensk stjórnvöld hafi með einhverjum hætti sofið á verðinum og ekki fylgst með þróuninni. Öðru nær. Þessi mál hafa stöðugt verið á dagskrá ríkisstjórnar Íslands, íslenskra stjórnvalda og menn verið að takast á við breyttar aðstæður.

Hinu er ekki að leyna að það hefur skort á að af hálfu stjórnarandstöðunnar hafi komið fram skynsamlegt eða efnislegt innlegg í þá umræðu. Það hefur fremur verið kvartað yfir formsatriðum, kvartað yfir nefndarskipunum og einhverjum slíkum þáttum en það hefur ekki mikið efnislegt komið frá stjórnarandstöðunni í þeim efnum.

Ef við veltum fyrir okkur þeim þáttum sem við þurfum að hafa í huga varðandi varnarskipulagið þá hefur það breyst frá dögum kalda stríðsins að innrás erlends herafla eða árás af hálfu óvinveitts ríkis, sú ógn er ekki sú sama og áður. En breyttar aðstæður hafa kallað á ný viðfangsefni eins og líka hefur verið rakið. Með þessu er ég hins vegar alls ekki að segja að þörfin fyrir hefðbundnar varnir og í okkar tilviki sérstaklega loftvarnir sé horfin. Hún hefur vissulega breyst vegna breyttra aðstæðna. En sú þörf að verja landið yfirvofandi ógn er alls ekki horfin. Ég mun koma nánar inn á það síðar í þessari umræðu en hins vegar held ég að á þessari stundu sé rétt að benda á að ef flugsveit Bandaríkjanna fer frá Keflavíkurflugvelli og ekkert kemur í staðinn þá er Ísland eina aðildarríki NATO, eina landið í hinum vestræna heimi sem ekki býr við einhverjar loftvarnir. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem tala kæruleysislega um að við þurfum engar varnir af þessu tagi. Að ekkert ógni okkur. Það gefur okkur tilefni til að spyrja: Hvað þá með nágrannaþjóðirnar? Hvað með Norðmenn? Hvað með Dani? Hvað með Svía? Allar þessar þjóðir telja sig þurfa að halda uppi landvörnum, þar á meðal loftvörnum, með ýmsum hætti og talsverðum tilkostnaði.

Það má spyrja alveg eins og þeir hv. þingmenn gera sem spyrja hvað ógnar okkur? Hvaða þörf fyrir varnir höfum við? Þá getum við snúið spurningunni upp á nágrannaþjóðirnar. Hvað er það nákvæmlega sem er að ógna Norðmönnum sem gerir að verkum að þeir halda úti öflugum herafla miðað við stærð landsins og fjölda þjóðarinnar? Hvað með Dani? Hvað með Svía? Auðvitað er það svo að allar þjóðir tryggja varnir sínar með einhverjum hætti, ekki bara með yfirlýsingum heldur líka með raunverulegum varnarviðbúnaði. Það sama á við um okkur Íslendinga. Þótt ógnin sé önnur en áður þá verðum við með viðbúnaði að tryggja okkur gegn hugsanlegri ógn sem getur komið með litlum fyrirvara, óvænt og úr óvæntum áttum.

Svo maður noti líkingu þá getum við sagt: Við læsum húsinu okkar þó við vitum ekki nákvæmlega um einhvern tiltekinn þjóf sem ætlar að að brjótast inn til okkar. Við höldum uppi löggæslu þó við vitum ekki fyrir fram hverjir muni brjóta af sér, hvernig og hvenær. Það eru ákveðnir grunnþættir í starfsemi ríkisvaldsins sem verður að halda uppi. Það sama á við um varnir og aðra slíka þætti

Ef við víkjum örfáum orðum að þeim þáttum sem geta ógnað okkur í nýjum heimi þá eru sumar þessar hættur á mörkum þess að vera hernaðarlegs eðlis eða lögreglumálefni. Skýrasta dæmið um það er hættan sem stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi eins og hefur raunar verið komið inn á í umræðunni. Þessi ógn af hryðjuverkastarfsemi er raunveruleg gagnvart okkur eins og öðrum vestrænum ríkjum þótt enginn geti sagt fyrir með vissu hversu mikil eða aðkallandi sú ógn er. En hún er raunveruleg. Dæmin frá undanförnum árum sem hér hafa verið rakin sanna það. Við verðum að hafa viðbúnað til að bregðast við slíkri starfsemi.

Önnur ógn sem er vissulega í eðli sínu löggæsluverkefni en snertir öryggi ríkisins með beinum og óbeinum hætti er alþjóðleg glæpastarfsemi. Alþjóðavæðing og breyttar aðstæður í umheiminum gera að verkum að hættur af því taginu eru nær okkur Íslendingum en nokkru sinni fyrr.

Í þriðja lagi má svo nefna hættur sem kalla fyrst og fremst á borgaraleg viðbrögð, svo sem hættur sem steðja að flugöryggi, öryggi sjófarenda, mengunarvörnum og slíkum þáttum. Í því sambandi liggur fyrir, eins og hér hefur verið rakið, að þessir þættir eru sérstaklega mikilvægir fyrir okkur Íslendinga sem eyju í norðanverðu Atlantshafi þar sem miklar flugsamgöngur og miklar skipaferðir eiga sér stað og kalla á viðbrögð með ýmsum hætti af okkar hálfu. Þessir þættir eru utan við hið hefðbundna svið öryggis- og varnarmála. En þeir snerta þó varnir eða öryggi almennings og hagsmuni þjóðarinnar með þeim hætti. Það er eðlilegt að gefa þeim nokkurn gaum í þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra fór vel yfir í ræðu sinni með hvaða hætti við Íslendingar höfum í auknum mæli gefið þessum nýju ógnum gaum og hvernig við getum enn aukið okkar þátt í að halda uppi öryggi almennings í þessum efnum. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta en vil þó undirstrika að þessar breyttu aðstæður munu óhjákvæmilega kalla á meiri viðbúnað okkar Íslendinga á ýmsum sviðum. Um leið verðum við að búa okkur undir meiri útgjöld á þessum sviðum.

Ég er, virðulegi forseti, ekki mikill áhugamaður um aukin opinber útgjöld en hins vegar eru þetta þættir sem snerta grunnskyldur ríkisvaldsins og þess vegna verðum við að leggja það á okkur sem til þarf til að hafa þessa þætti í lagi. Þá erum við auðvitað að tala um löggæslu. Við erum að tala um landhelgisgæslu. Við erum að tala um almannavarnir og aðra þá þætti sem snúa að því að vernda öryggi borgaranna með ýmsum hætti.

Ég vil líka minna á að þegar á undanförnum árum stjórnvöld hafa beitt sér fyrir ráðstöfunum til að bregðast við hinum breyttu aðstæðum í heiminum og tryggja öryggi borgaranna hefur slíkum hugmyndum oftar en ekki verið mætt af hálfu stjórnarandstöðunnar á þingi með jafnvel flissi og útúrsnúningum um íslenskan her, íslenska leyniþjónustu og margt þess háttar. Ég spyr: Muna hv. þingmenn eftir umræðunni fyrir tveimur árum um eflingu sérsveitar lögreglunnar? Muna menn eftir umræðum fyrir fáum vikum um nýja greiningardeild ríkislögreglustjóra? Þau viðbrögð bera að mínu mati annaðhvort vott um fullkomna pólitíska tækifærismennsku eða lýsa algeru skilningsleysi á þeim breyttu ógnum sem að öryggi Íslendinga geta steðjað. Ég velti líka fyrir mér hvort af sama toga sé andstaða sumra hv. þingmanna við atriðum eins og þátttöku okkar Íslendinga í hermálanefnd NATO eða friðargæslustörfum eða svo dæmi sé tekið uppbyggingarstarfi í Írak. Ég bendi þessum hv. þingmönnum á að með aðgerðum af þessu tagi eru íslensk stjórnvöld að takast á við breytta heimsmynd, takast á við breyttar aðstæður, nýjar ógnir.

Ég nefndi í upphafi, hæstv. forseti, að í rauninni hafi í þessari umræðu fátt nýtt komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessum efnum. Ég verð þó að segja að hugsanlega, ef marka má orð hv. formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er stefna þess flokks eitthvað að skýrast. Það hefur valdið okkur áhugamönnum um þessi málefni töluverðum áhyggjum á undanförnum árum hversu Samfylkingin hefur verið reikandi í afstöðu sinni til öryggis- og varnarmála. Það er eins og sá flokkur hafi verið gersamlega ófær um að móta sér skýra stefnu á þessu sviði. En það er kannski að gerast núna. Ég vil leyfa Samfylkingunni að njóta vafans í þeim efnum. Ég las það út úr orðum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur áðan að það væri eindregin skoðun Samfylkingarinnar að það bæri að standa vörð um samstarf okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Það er auðvitað fagnaðarefni. Ég gat ekki skilið orð hennar öðruvísi en svo að hér væri að þeirra mati þörf fyrir sýnilegar varnir af einhverju tagi. Það finnst mér töluvert skref. Ef ég hef skilið orð hennar rétt finnst mér það töluvert skref frá þeirri umræðu sem oft hefur átt sér stað um að allt væri óljóst um hvort sú þörf væri fyrir hendi.

Ég velti fyrir mér hvort Samfylkingin hafi algerlega varpað fyrir róða þeim hugmyndum sem voru vissulega uppi innan þess flokks, alla vega fyrir fáeinum missirum og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir m.a. orðaði á fundum, að Evrópusambandsaðild gæti komið í stað varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Ég velti fyrir mér hvort þeirri skoðun hafi algerlega verið lagt og hvort Samfylkingin geri sér nú grein fyrir að varnarhagsmunum Íslendinga sé best borgið í varnarsamstarfi við Bandaríkin og á grundvelli Atlantshafsbandalagsins. Mér finnst það mikilvægt vegna þess eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti í ræðu sinni er Evrópusambandið alls ekki valkostur að þessu leyti.

Hæstv. forseti. Það eru fleiri þættir sem vert væri að koma inn á og mun ég hugsanlega gera það í umræðum á eftir. Ég legg þó áherslu á að mikilvægt er að við náum samstöðu um að (Forseti hringir.) tryggja hagsmuni okkar Íslendinga að þessu leyti en til þess verðum við að gera okkur grein fyrir hvaða ógnir eru (Forseti hringir.) fyrir hendi og hvernig eigi við þeim að bregðast.



[14:57]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti ágæta, skýra og skorinorða ræðu og ég var að mörgu leyti mjög sammála því sem kom fram í máli hans. Hins vegar hnaut ég um eitt og það var þegar hann var að alhæfa um stjórnarandstöðuna og hvernig stjórnarandstaðan hefði hagað málflutningi sínum í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar.

Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði eitthvað á þá leið að fátt hefði verið um fína drætti varðandi það sem hugsanlega gæti komið í stað þeirrar stefnu sem íslensk stjórnvöld hefðu lagt áherslu á. Að ásakanir um að íslensk stjórnvöld hefðu sofið á verðinum væru með öllu tilhæfulausar og annað þar fram eftir götunum. Þá brá ég nú við og þess vegna langaði mig að koma í ræðustól til að benda einmitt hv. þm. Birgi Ármannssyni á að við í Frjálslynda flokknum sættum okkur ekki við að sitja undir þessum ásökunum.

Strax sumarið 2003 talaði ég fyrir því að við Íslendingar yrðum að leita nýrra leiða til að leysa þessi mál því það væri augljóst að Bandaríkjamenn væru á förum og við yrðum að gera okkur grein fyrir því. Þá hvatti ég mjög til þess, skýrt og skorinort á opinberum vettvangi, að Íslendingar leituðu annarra leiða í varnarsamstarfi og þá innan NATO. Ég get bent hér á tvær greinar. Annars vegar útvarpserindi sem ég flutti í Speglinum í ágúst 2003 og er á vefsíðu Frjálslynda flokksins þar sem ég fer yfir þessa hluti og kem með tillögur sem ég fæ ekki betur séð en íslensk stjórnvöld séu að fylgja nánast orðrétt eftir núna þegar ljóst er að Bandaríkjamenn eru að fara, þ.e. að leita hófanna um hvort ekki sé hægt að finna einhverja fleti á áframhaldandi samstarfi við aðrar NATO-þjóðir. Þetta vildi ég sagt (Forseti hringir.) hafa, virðulegi forseti. Mér fannst ekki rétt að vega að okkur með þessum hætti.



[15:00]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef með einhverjum hætti gert Frjálslynda flokknum rangt til í ræðu minni. Ég verð að játa að ég hafði ekki kynnt mér efni þeirrar greinar sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vísaði til og verð að segja að það hefur farið fram hjá mér.

Á hinn bóginn held ég að vegna þeirrar hugmyndar sem hann nefndi um hugsanlegt varnarsamstarf við aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins en Bandaríkjamenn á sviði varnarmála að ef menn nálgast þessi mál kalt og yfirvegað hljóti menn að komast að þeirri niðurstöðu að slíkir kostir hljóti að vera aftar í röðinni en varnarsamstarfið við Bandaríkin, einfaldlega vegna þess að Bandaríkin er það ríki sem hefur langöflugustu tækin, öflugasta viðbúnaðinn, öflugasta heraflann til að aðstoða aðra í þessum efnum. Evrópa er ekki og hefur ekki verið aflögufær á sviði varnarmála. Evrópumenn hafa byggt varnir sínar á samstarfi við Bandaríkjamenn vegna þess að Evrópuríki innan NATO hafa einfaldlega ekki haft þann herafla og þau tæki sem nauðsynleg hafa þótt til að halda uppi fullnægjandi vörnum.

Hins vegar verð ég að segja að ef sú staða kemur upp að ekki sé raunverulega grundvöllur fyrir áframhaldandi varnarsamstarfi við Bandaríkin þá hljóta menn auðvitað að skoða aðra kosti. Menn hljóta að skoða aðra kosti. En fram að þessu og raunar áfram álít ég að varnarsamstarf (Forseti hringir.) við Bandaríkin sé heppilegasta leiðin.



[15:02]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að grundvöllurinn að varnarsamstarfinu við Bandaríkin hafi brostið fyrir þó nokkrum árum og öllum ætti að vera það ljóst. Ég held heldur ekki að það sé alveg fyllilega rétt mat að NATO-þjóðirnar hafi ekki verið aflögufærar fram til þessa. Ég get bara minnt á að í gær fengu Norðmenn afhenta fyrstu af fimm nýjum freigátum frá skipasmíðastöð á Spáni.

Norðmenn eru að endurnýja sinn sjóher nánast frá grunni. Þeir eru að láta smíða fyrir sig nýjar freigátur, fimm stórglæsileg og mjög vel búin skip. Þeir eru að fara að kaupa sex nýja kafbáta, nýja tundurduflaslæðara, nýja tundurspilla og nýjar þyrlur. Eftir nokkur ár, árið 2009, stefnir í að norski sjóherinn verði orðinn einn öflugasti sjóher við Norður-Atlantshaf. Þarna eru að verða stórbreytingar.

Ég hygg að það sé einmitt vegna þess að Norðmenn eru svo framsýnir að þeir gera sér fyllilega grein fyrir að Norður-Atlantshaf mun hvernig sem allt fer í alþjóðastjórnmálum áfram verða mjög mikilvægt svæði í heiminum þegar öryggishagsmunir Evrópu og Norður-Ameríku eru annars vegar.



[15:03]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í raun og veru ekkert óskaplega ósammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Það er alveg rétt eins og hann bendir á að Norðmenn t.d. hafa byggt upp öflugar varnir á ýmsum sviðum. Sama má segja um margar aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins, nágrannaþjóðir, jafnvel fremur litlar þjóðir sem þrátt fyrir smæð sína í heimssamhenginu hafa lagt töluvert til varnarmála og hafa talið að þrátt fyrir endalok kalda stríðsins væri mikilvægt að halda uppi öflugum vörnum. Um þetta erum við sammála.

Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að Bandaríkin eru langsamlega öflugasta ríki Atlantshafsbandalagsins. Það ríki sem býr yfir langsamlega bestum tækjum til að standa að vörnum. Þess vegna er rökrétt að fyrst sé reynt að tryggja varnirnar á grundvelli varnarsamstarfs við Bandaríkin áður en aðrir kostir eru skoðaðir.



[15:05]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umræður um það hvaða NATO-ríki Íslendingar eigi sérstaklega að binda trúss sitt við eftir að Bandaríkjamenn sögðu okkur upp. Ég tel að við eigum að hugsa á mun róttækari vísu og nota þessi tímamót sem við erum á núna til að hugsa málin alveg upp á nýtt og hvort okkur sé ekki betur borgið utan hernaðarbandalaga. Ég tel að öryggi Íslands verði betur tryggt með þeim hætti.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þetta karp hér á þingi um þennan þátt málsins heldur víkja að viðskilnaði Bandaríkjamanna við Ísland og þá stöðu sem fyrirsjáanleg var. Það er fallega gert hjá hv. þingmanni og skiljanlegt að hann vilji sýna ríkisstjórnarflokkunum, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokknum, samstöðu í því erfiða máli. Því erfitt er það. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn reyndar einnig, ríkisstjórnin, sýndi alveg undravert fyrirhyggjuleysi í því máli. Ég ætla að leyfa hv. þingmanni að hafa þessa þanka fyrir sig.

Hitt vil ég gagnrýna þegar hann segir að af hálfu stjórnarandstöðunnar hafi engar tillögur komið fram. Engin mál, aðeins vikið að einhverjum óljósum tillögum um nefndarskipan og þar fram eftir götunum. Þegar málin hafi verið könnuð hafi ekkert verið á bak við slíkt. Ég er með í höndunum fjölmargar tillögur sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram aftur og ítrekað á undanförnum árum með tillögum um hvernig brugðist skuli við þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir og var fyrirsjáanlegur. Í þessum gögnum gerum við ítarlega grein fyrir því hvers vegna við teljum að (Forseti hringir.) allt þetta hafi verið fyrirsjáanlegt.



[15:07]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki var það ætlun mín að gera hv. þm. Ögmundi Jónassyni eða öðrum flokksfélögum hans í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði rangt til í þessum efnum. Ég þekki vel afstöðu þess flokks sem hefur verið skýr í gegnum tíðina og falist í að óþarft væri fyrir okkur Íslendinga að hafa sérstakan varnarviðbúnað eða eiga aðild að varnarbandalagi eins og Atlantshafsbandalaginu. Þetta er alveg skýr og klár afstaða sem enginn hefur verið að velkjast í vafa um í gegnum árin.

Þegar ég sagði að ekki hefðu komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að mínu mati skýrar tillögur um hvernig ætti að bregðast við varnarþörf í breyttu umhverfi ætlaðist ég ekki til þess af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að sá flokkur kæmi með innlegg í það vegna þess að sá flokkur hefur sagt að slíkur viðbúnaður sé óþarfur.

Eins og ég segi er þetta afskaplega heiðarleg afstaða og í sjálfu sér virðingarverð af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en að mínu mati er þetta ekki raunsæ afstaða vegna þess að í heiminum er margs konar vá sem menn þurfa að bregðast við og verja sig gegn. Þótt menn sjálfir séu friðelskandi og friðsamir er staðan samt sem áður sú að menn geta þurft að bregðast við og verjast öðrum sem ekki eru eins innréttaðir. Það er sá veruleiki sem við búum við. Þótt yfirlýsingar um ævarandi hlutleysi eða vopnleysi séu vissulega virðingarverðar þá held ég að þær veiti okkur lítið hald í ótryggum heimi.



[15:09]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þannig er dæmið yfirleitt sett upp gagnvart okkur að okkar afstaða sé hvorki raunsæ og jafnvel að hún sé ekki lýðræðisleg í þeim skilningi. Að baki henni búi ekki meirihlutavilji. Ef þjóðin væri spurð hvernig hún teldi öryggi sínu best varið eftir ítarlega umræðu um það efni hef ég þá trú á að okkar málstaður nyti meirihlutafylgis.

Ég held nefnilega að þessum gamla trénaða málstað um að við getum ekki varið okkur nema hvíla í náðarfaðmi hernaðarbandalags, að sú hugsun sé einfaldlega víkjandi. Ég held að þeim fjölgi sem sjá að réttlátur sanngjarn málstaður sem fylgt er á alþjóðavettvangi er miklu vænlegri til að tryggja öryggi okkar en að vera í slagtogi með (Forseti hringir.) yfirgangsríkjum og yfirgangsfólki.



[15:10]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að fleiri séu sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni en kjósa hann. Hins vegar er það svo að við höfum haft samanburðinn í gegnum tíðina milli þeirra flokka sem hafa lagt áherslu á að standa vörð um varnir landsins með varnarsamstarfi við Bandaríkin og með aðild að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar þeirra stjórnmálaafla sem barist hafa gegn slíkri aðild. Niðurstaða kosninga í gegnum 60 ár hefur verið afskaplega skýr í þessum efnum. Það er sá mælikvarði sem lagður verður á vilja þjóðarinnar í þessum efnum. En vissulega kann að vera að það séu eitthvað fleiri sem eru sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni en greiða flokki hans atkvæði í kosningum.

Ég efast þó um að hann hafi meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig í þessu máli frekar en í öðrum málum þar sem hann (Forseti hringir.) talar stundum digurbarkalega um mikinn stuðning við sinn (Forseti hringir.) málstað.



[15:12]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Út af ummælum hv. þm. Birgis Ármannssonar til hv. þm. Ögmundur Jónassonar þá væri þingmanninum hollt að minnast þess að hér voru einu sinni merkir stjórnmálaleiðtogar sem sögðu að hér ætti aldrei að vera her á friðartímum. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því mjög vel í ræðu sinni í morgun að hann teldi að nú væru friðartímar. Það væri ekki hætta á árásum frá hinum hefðbundna gamla óvini úr kalda stríðinu.

Hv. þingmaður sneri eiginlega á haus gamalli aðferð úr alþjóðastjórnmálum og hann skammaði Kína en átti við Albaníu. Hv. þingmaður spurði nefnilega út í áherslu Samfylkingarinnar á Evrópusambandið hvaða varnir áhrærði. Nú er það svo að aðallega tveir flokkar hafa nefnt þetta. Samfylkingin lítillega en sá sem hefur lagt mesta áherslu á þetta undanfarið er hæstv. forsætisráðherra. Það er Framsóknarflokkurinn.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að til skamms tíma tjóir ekki að leita til Evrópusambandsins um varnir Íslands. Þeir eru ekki í færum til að veita þær. Hins vegar ef horft er til lengri tíma hygg ég að það yrði önnur niðurstaða. Varnarmálin eru í mikilli gerjun innan Evrópusambandsins. Það var ekki jafn mikil samstaða um neitt í undirbúningi stjórnarskrárinnar — sem ekki var samþykkt að lokum — og um þörfina fyrir sameiginlega varnarstefnu. Innri kjarninn í Evrópusambandinu: Frakkland, Þýskaland og Benelux-löndin hefur ráðið öllum breytingum sem þar hafa orðið síðustu 20 árin. Þessar þjóðir eru algerlega sammála um nauðsyn sameiginlegrar varnarstefnu og þótt ekki sé hægt að finna innan Evrópusambandsins svipað ákvæði og 5. gr. í Atlantshafsbandalagssamningnum er alveg ljóst að eins og þróunin er kynni þetta geta orðið að veruleika fyrir árið 2015 sem er (Forseti hringir.) einmitt árið sem „albanían“ í huga hv. þingmanns hefur nefnt sem ár inngöngu í ESB.



[15:14]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki um það dæma hvort Samfylkingin líkist meira Kína eða Albaníu. Um það getur hv. þm. Össur Skarphéðinsson ábyggilega vitnað betur enda þekkir hann sjálfsagt frá fornu fari betur til í þeim löndum en ég.

En hitt verð ég að segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur verið í hópi þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem hefur talað hvað skýrast um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og á stundum um varnarsamstarfið við Bandaríkin. Ég hef á tilfinningunni að hann sé einn úr þeim hópi gamalla alþýðubandalagsmanna innan Samfylkingarinnar sem náði að útskrifast úr Alþýðubandalaginu og náði að útskrifast af Þjóðviljanum. Ég ætla því ekki að efast um heilindi hans í þeim efnum. Hins vegar er mér ljóst að innan hans flokks eru margir sem ekki eru komnir jafn langt á þróunarbrautinni, svo vitnað sé til orða hæstv. viðskiptaráðherra af öðru tilefni fyrr í vetur.

Varðandi þá framtíðarsýn um Evrópusambandið sem sumir hafa nefnt þá hefur það verið þannig í gegnum árin að áhugamenn um Evrópusambandið, einkum innan Samfylkingarinnar, hafa jafnan verið fundvísir á það sem þeir telja á hverjum tíma að hljómi best í sambandi við að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Fyrir svona tveimur til þremur árum var það svolítið í tísku hjá ákveðnum hópi innan Samfylkingarinnar að tala í þá veru að varnarsamstarfið við Bandaríkin væri liðið undir lok og það væru ný rök fyrir Íslendinga til að ganga í Evrópusambandið. Ég verð að segja að það er mér nokkuð ánægjuefni að þetta sjónarmið virðist hafa vikið í málflutningi Samfylkingarinnar og það sjónarmið að byggja beri á grunni Atlantshafsbandalagsins er orðið miklu meira ráðandi.



[15:16]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleðst yfir þeirri blessun sem hv. þingmaður leggur yfir pólitíska skólagöngu mína. Nú man ég ekki lengur hvaða ár hv. þingmaður er fæddur en sennilega í kringum þann merkisatburð í mannkynssögunni lauk ég grunnskólaprófi mínu í pólitík og vil ekki af tillitssemi við mína góðu félaga í Samfylkingunni upplýsa í hvaða stjórnmálaflokki það var.

Hitt verð ég að segja að enn er hv. þingmaður að rekja það fyrir þingheimi hvað það sé fáránlegt að tengja saman varnir og Evrópusambandið. Ég velti fyrir mér af hverju hann leggi svona mikla áherslu á það. Er það vegna þess að það er einn maður sem í þessari umræðu hefur öðrum fremur nefnt aukin tengsl við Evrópusambandið sem lið í auknu öryggi Íslands? Það er hæstv. forsætisráðherra. Er þetta enn einn parturinn af þeim dulda ágreiningi sem virðist vera að koma upp millum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í varnar- og öryggismálum? Ég velti því fyrir mér. (Forseti hringir.)



[15:17]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson eigi ekki að vera að leggja aðra merkingu í orð mín en beinlínis má lesa út úr þeim. Varðandi afstöðu hæstv. forsætisráðherra til Evrópusambandsins hef ég áður sagt úr þessum stól að ég deili ekki þeirri framtíðarsýn hans að Ísland verði komið í Evrópusambandið árið 2015.

Ég held líka að það sé rangt mat hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að Evrópusambandið verði í færum um það árið 2015 að halda uppi öflugri öryggis- og varnarstefnu. Það er fullkomlega óvíst hvert framhaldið á því verður. En mér sýnist að þróunin innan Evrópusambandsins sé ekki í þá átt að þeir sem þar vilja ganga lengst í átt til sameiginlegrar stefnu á þessum sviðum og raunar sameiginlegrar stefnu og dýpkunar sambandsins að öðru leyti, mér sýnast aðstæður og tíðarandinn ekki (Forseti hringir.) vera þeim í hag. Mér finnst því ólíklegt að þróunin verði í þá átt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir.



[15:19]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta ræðu sína þar sem hann öðru fremur dró upp af mynd af stöðu alþjóðastjórnmála nú um stundir. Sem von var lagði hæstv. utanríkisráðherra mesta áherslu á varnarmál okkar Íslendinga og í ljósi þessarar óvissu stöðu sem upp kom eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti um brottflutning varnarliðsins. Í umræðunni sem hefur fylgt hafa eins og eðlilegt er varnarmálin verið þungamiðjan. En við höfum í þessum sal áður rætt þetta gjörbreytta landslag í öryggismálum eftir lok kalda stríðsins og árásanna á tvíburaturnana í New York. Í hugum okkar flestra er það þetta tvennt ef við lítum til baka til sögunnar sem markar afgerandi tímamót.

Eitt af því sem hæstv. utanríkisráðherra fjallaði um í sinni ágætu ræðu var hvernig þyrfti að gera sér skýra grein fyrir því hvernig ný heimsmynd með nýjum ógnum hefði orðið til þess að bæði Bandaríkjamenn og NATO hefðu gerbreytt varnarviðbúnaði sínum og allri hugsun í öryggismálum. Eins og við vitum er hætta á hefðbundnum styrjöldum þjóðríkja ekki lengur helsta ógnin við öryggi alþjóðasamfélagsins. Hins vegar hefur varnarviðbúnaður þjóða og hernaðarbandalaga lengst af miðast við að svara slíkri hættu. En hinar nýju ógnir, svo sem hryðjuverk og skipuleg glæpastarfsemi kalla auðvitað á nýjar lausnir. Ég held að ég sé ekkert að taka of stórt upp í mig um það með því að segja að ekki bara við heldur alþjóðasamfélagið almennt er stöðugt að reyna að fóta sig á því hvernig bregðast eigi við þessu breytta öryggisumhverfi eða þessum breyttu og nýju ógnum.

Það sem hryðjuverkaógnin gerir og felur í sér hversu erfitt er að fóta sig stundum er að hún nýtir sér þessa veikleika sem felast í styrk þjóðfélagsgerðar okkar. Það kann að hljóma þversagnarkennt en helsti styrkur og grunngildi vestrænna þjóða: frelsi, lýðræði, jafnrétti og mannréttindi gera það jafnframt að við stöndum jafn berskjölduð og við gerum stundum gagnvart hryðjuverkamönnum vegna þess að það er mun auðveldara fyrir hryðjuverkamenn að leyna sér og vega úr launsátri í opnu og frjálsu samfélagi sem við viljum standa vörð um en þar sem skorður eru settar við frelsi manna.

Gagnvart hryðjuverkum hafa bein varnarviðbrögð Vesturlanda annars vegar falist í að fara með hernaði á hendur hryðjuverkamönnum og hins vegar hafa þær falist í því vandasama verki að auka mátt og svigrúm lögregluyfirvalda heima fyrir og þá bæði svigrúm lögregluyfirvalda til eftirlits og rannsókna. Vandinn sem nýlega var ræddur í þessum sal í tengslum við frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram felst í að efla varnirnar án þess að þrengja að grunngildum eins og mannréttindum og réttarstöðu borgaranna.

Víða í hinum vestræna heimi og hjá nánustu nágrannaríkjum okkar hefur milljónum og milljörðum verið varið í að styrkja heri, leyniþjónustur og löggæsluyfirvöld. Sá viðbúnaður hefur eftir því sem fréttir segja komið í veg fyrir margar hrottalegar og alvarlegar árásir. En við höfum líka dæmi um voðaverk sem ekki hefur tekist að koma í veg fyrir, eins og hryðjuverkin í London og Madrid.

Bandaríkjastjórn horfir til þessara breyttu aðstæðna og þær liggja til grundvallar umfangsmiklum breytingum sem Bandaríkjastjórn hefur gert á herafla sínum. Í ljósi þess að vettvangur óstöðugleika og átaka hefur færst til í heiminum er stefnt að því í Bandaríkjunum að fækka um helming í herliði þeirra í Evrópu með tilheyrandi lokun varanlegra stórra herstöðva. Í staðinn er í stefnu Bandaríkjamanna lögð aukin áhersla á uppbyggingu og þjálfun viðbragðssveita sem hægt er þá að beita með litlum fyrirvara hvar sem er í heiminum með því að taka á ógnum sem eru fjarlægar slíkum höfuðstöðvum.

Þessi endurskipulagning á herafla Bandaríkjamanna er um margt skiljanleg og boðar brotthvarf varnarliðsins, ber að skoða í því ljósi. Þrátt fyrir að friðvænlegt sé um að litast í okkar heimshluta nú um stundir og ekki liggi endilega ljóst fyrir hvaðan okkur stafar mest hætta þá eru hinar nýju óhefðbundnu ógnir einmitt þess eðlis að þær gera ekki boð á undan sér. Til skamms tíma þótti hryðjuverkaógnin mjög fjarlæg okkar norðlægu slóðum. En nú er hún staðreynd vegna þess að deilur, átök og skemmdarverk í kjölfar birtingar Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni minna okkur óþyrmilega á að hætta getur steðjað að okkar heimshluta, ekkert síður en öðrum heimshlutum. Við verðum að vera undir það búin að mæta þessum hættum.

Áhersla ríkisstjórnarinnar á loftvarnir er að þessu leyti að mínu mati hárrétt. Við verðum að hafa í huga að tugþúsundir flugvéla fljúga um íslenska flugstjórnarsvæðið á hverju ári. Við þekkjum annars staðar frá í heiminum hrikalegar afleiðingar þess að hryðjuverkamenn nái flugvélum á sitt vald. Þess vegna finnst mér alveg ljóst að Íslendingar geti ekki verið án varna.

Þegar við tölum um varnir og nýjar ógnir verðum við á ákveðinn hátt að gera greinarmun annars vegar á því sem ógnað getur lögsögu og fullveldi íslenskrar þjóðar og þá erum við að tala um árásir óvinaríkja. Hins vegar tel ég að við þurfum í þeirri umræðu sem fram undan er að greina á milli þessa og hins vegar almannavarna í mjög víðtækum skilningi þess orðs, þ.e. vörnum almennra borgara gagnvart þessum nýjum ógnum og hvers konar annarri vá. Þótt við séum að ræða utanríkismál finnt mér ástæða til að halda þessu til haga vegna þess að segja má að utanríkismál fyrst og fremst fjalli um hernaðarógnir og varnarmálaumræðan sem tengist varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og brottflutningi þess fjallar fyrst og fremst um það og það eru utanríkismál. Svo eru almannavarnir almennt á ákveðinn hátt líka utanríkismál vegna þess að í nútíð og framtíð hljótum við að standa vörð um varnir borgaranna gagnvart öðrum ógnum í víðtæku samstarfi og með samningum við önnur ríki. Hvort sem við horfum þar til okkar næstu nágranna eða annarra Evrópuþjóða eða á vettvangi þeirra þjóða sem starfa innan NATO. Það eru innanríkismál í rauninni sem það varðar. Það lýtur að innra öryggi borgaranna gagnvart annarri vá og öðrum ógnum en beinlínis hernaðarlegum ógnum.

Í þessari umræðu ekki síst nú á dögunum þegar við vorum m.a. að ræða nýtt frumvarp frá ríkislögreglustjóra sem fjallaði um að fækka og stækka lögregluumdæmum landsins og koma á fót svokallaðri greiningardeild þá er þetta öryggi borgaranna stundum haft í flimtingum. Höfð m.a. í flimtingum þessi greiningardeild sem talað var um að koma á fót og hvort þörf væri fyrir hana. Það er stundum gefið til kynna í umræðunni um varnarmál að ekkert hafi verið gert af hálfu stjórnvalda. Við höfum ekkert hugað að því að mæta breyttum tímum, annars vegar því að varnarliðið færi brott og hins vegar að bregðast við þessum breyttu tímum og þessum nýju ógnum.

Mig langar í þessari umræðu, frú forseti, að nefna nokkur atriði sem mér finnst mjög mikilvæg í þessu samhengi og mér finnst að við ættum meira að hafa í þessari umræðu og horfa þá til þess sem við þá þegar höfum gert. Þar á meðal má nefna nýja fjarskiptastöð lögreglunnar sem er samræmd landsdekkandi öryggis- og neyðarfjarskiptakerfi fyrir alla þá viðbragðsaðila sem koma almennt að öryggismálum þjóðarinnar. Það er eitt sem hefur verið komið á fót og hefur verið unnið að mörg undanfarin ár. Þeir sem koma að þessari samhæfingarstöðu eru allir þeir aðilar sem þurfa að koma að almannavörnum í víðasta skilningi þess orðs, þ.e. lögreglustjórarnir, Flugmálastjórn, Landhelgisgæslan, slysavarnafélög, Neyðarlínan, landlæknir, sóttvarnalæknir, Rauði krossinn og fleiri, Vegagerðin og svo ýmsar vísindastofnanir.

Það má segja í rauninni sem svo að það sem við þurfum að gera sé að koma á fót skipulagi sem miðar að því að vernda og aðstoða borgarana og tryggja vernd þeirra gagnkvæmt ýmsum öðrum ógnum, takast á við afleiðingar slysa og náttúruhamfara og svo auðvitað það sem alltaf er verið að ræða aftur og aftur og mönnum finnst ekki endilega nærtækast, þ.e að takast á við hættur eða ógn af mannavöldum vegna hryðjuverka. Ég held að óhætt sé að halda því fram að við búum að einu besta almannavarnaskipulagi til að glíma við hvers konar svona afleiðingar og ekki eingöngu vegna stríðsástands heldur vegna annarra ógna og erum meðal fyrstu þjóða til að beita almannavarnaskipulagi gagnvart öðrum ógnum en stríðsástandi.

Ég vil líka í þessu samhengi leggja áherslu á að það var búið að koma á fót svokallaðri sérsveit lögreglunnar strax árið 1982. Tilefni þess var ærið á sínum tíma og sýndi þörfina á að íslenska lögreglan hefði burði til að takast á við alvarlegustu tilvik, hryðjuverkatilvik. Síðan hefur statt og stöðugt og síðast að mig minnir á síðasta ári verið leitast við og veitt fjármagn til að efla þessa sérsveit. Við verðum í þessu samhengi að hafa í huga að á Norðurlöndunum öllum og reyndar í öllum löndum Evrópu er það fyrst og fremst hlutverk lögreglu að takast á við hryðjuverkastarfsemi. Það gætir oft þess misskilnings í almennri umræðu að það sé hlutverk herja landanna. En meira að segja í sumum löndum er lögreglu heimilt að leita aðstoðar hers í svona tilvikum. Í öðrum tilvikum er það bannað. Herinn höfum við engan.

Þetta er það sem ég vildi, frú forseti, leggja aðaláhersluna á að við reynum að dýpka og víkka aðeins þessa umræðu þegar við erum að tala um öryggismálin og ógnirnar sem að okkur steðja. En að við bindum okkur ekki og festumst í þeim hjólförum að tala einungis um varnarliðið í því samhengi. Það er margt annað sem við þurfum að gefa góðan gaum í þessu samhengi.

Mig langaði að endingu, frú forseti, vegna þess að orð hæstv. utanríkisráðherra um rekstur Keflavíkurflugvallar virðast hafa vakið mesta athygli og kannski að ófyrirsynju. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því sem sinni framtíðarsýn að rekstur flugvallarins yrði einkarekinn og jafnframt að hann yrði einkavæddur til lengri tíma litið. Það er spurning hvort það er fyrsta og fremsta viðfangsefnið í dag að horfa til rekstrarformsins á Keflavíkurflugvelli. Ég held að það sé ýmislegt annað sem standi okkur nær en. En sjálfsagt að hæstv. ráðherrann geri grein fyrri sinni framtíðarsýn.

Ég verð hins vegar að segja hvað varðar rekstur og rekstrarþætti flugvallarins sem slíks, snjómokstur, slökkvilið og annað að ég svo sem ekkert því til foráttu að það sé rekið í einhverju öðru rekstrarformi en beinlínis undir formennsku ríkisins. Ég vil hins vegar árétta að allt sem lýtur að rekstrinum þarna og Keflavíkurflugvelli sem landamærastöð og öryggiseftirlitinu sem þarna fer fram, hvort sem það er hlutverk til viðbótar hlutverki lögreglu og tollgæslu, þá samræmist það ekki minni framtíðarsýn að það sé einkavætt. Ég tel að slík verkefni eigi áfram sem hingað til að vera á höndum ríkisins og bý kannski að þeirri reynslu sem líður mér seint úr minni þegar ég fór í gegnum tiltekinn flugvöll í Boston, Logan-flugvöll, einum þremur vikum eftir hryðjuverkaárásirnar í New York og sá og þóttist skilja hvers vegna flugræningjarnir sem flugu á tvíburaturnana höfðu valið þennan flugvöll vegna þess hve öryggiseftirlitinu var þar háttað. Ég las seinna að hann hefði fengið lægstu einkunn allra flugvalla í Bandaríkjunum. Svo þegar ég spurðist nánar út í þetta var mér sagt að þetta væri einkarekstur. Einkavædd öryggisgæsla.

Ég gæti lýst því með ýmsu látbragði hvernig staðið var að því að leita að vopnum bæði í farangri og líka á okkur sem fórum þarna í gegn. Það má eiginlega segja að eftir þessa reynslu mótaðist þessi afstaða mín sem ég held að verði seint breytt: Flugvöllinn getum við rekið, snjómokstur, verslanir og aðra þjónustu sem einkarekstur en allt sem lýtur að öryggi og landamæravörslu lít ég þannig á að til lengri tíma litið eins og nú eigi að vera verkefni ríkisins.



[15:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sem skipti meginmáli í umræðunni sem hér hefur snúist að mestu leyti um varnar- og öryggismál sé að breið samstaða takist með sem flestum flokkum um burðarásana í utanríkisstefnu Íslands. Það hefur tekist í áratuganna rás. Nokkuð víðtæk samstaða hefur verið um það sem kalla má grundvallarþætti í utanríkisstefnu Íslendinga. Að því er varnir og öryggi áhrærir hafa flokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og jafnaðarmenn á síðustu öld verið í stórum dráttum sammála um að grundvallarásinn í vörnunum hafi verið Atlantshafsbandalagið. Útfærsla varnarsamningsins við Bandaríkin hefur sömuleiðis verið hinn öxullinn og kannski sá sem segja má að hafi fólgið í sér hina raunverulegu útfærslu.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hefur margsinnis komið fram, að það skipti miklu máli að viðhalda þessari breiðu samstöðu. Hv. þm. Birgir Ármannsson gat þess í ræðu sinni áðan að andstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri ljós í þessum efnum. Það er alveg rétt. Þarna er alveg klár munur á Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við í Samfylkingunni höfum talið að Atlantshafsbandalagið eigi að vera ein af grundvallarstoðunum þarna og tvíhliða samningurinn líka.

Þetta er það sem skiptir máli í upphafi umræðunnar að minnsta kosti af minni hálfu. Ég tel að í þeirri stöðu sem nú er komin upp sé það alls ekkert sjálfgefið að menn haldi áfram þessum tvíhliða samningi. Ég held hins vegar að við eigum að skoða alla þá kosti sem felast í stöðunni, þar á meðal hvaða kostir felast í að útfæra hann með nýjum hætti. Það er hugsanlegt að það fullnægi þeim þörfum sem við höfum í dag. En það er líka hugsanlegt að út úr þeim samningaviðræðum sem nú eru í gangi við Bandaríkjamenn komi einhver niðurstaða sem leiði til þess að hvorki sé þörf á þessum tvíhliða samningi né heldur rétt sé af okkur við þessar aðstæður að byggja varnir okkar á honum. Mér finnst skipta mestu að við skoðum hvaða kosti við eigum. Einn af þeim kostum er sá að útfæra tvíhliða samninginn. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt að í krafti þeirra skuldbindinga sem koma fram í samningnum og Bandaríkjamenn hafa ítrekað að þeir vilji standa við, sé líklegt að við náum niðurstöðu sem feli í sér nægilegar varnir a.m.k. varðandi hugsanlega hernaðarvá. Það kann vel að vera að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða.

Á hinn bóginn hafa líka komið fram hugmyndir um að við eigum að skoða samstarf á annan hátt. Ég er t.d. einn af þeim sem eru þeirrar skoðunar að við þessar aðstæður eigi menn að kanna hvaða kostir felast í aukinni samvinnu núna og síðar við Evrópusambandið. Ég er að þessu leytinu til sammála formanni Framsóknarflokksins sem hefur sagt alveg skýrt að þetta sé eitt af því sem eigi að kanna. Hitt vil ég þó segja alveg skýrt að eins og staðan er í dag innan Evrópusambandsins er enginn vafi í mínum í huga að Evrópusambandið núna er ekki fært um að tryggja varnir Íslendinga. Við þurfum hins vegar að skoða hvaða þróun er þar í gangi.

Ég tel af þeirri takmörkuðu vitneskju sem ég hef en þó nokkra af þróun þeirra mála að hún sé slík að það gæti orðið breyting á þessu innan tiltekins tíma. Það eru sennilega fáir málaflokkar innan Evrópusambandsins þar sem þróunin er jafnör og nákvæmlega í þessum efnum. Innri kjarni Evrópusambandsins, Frakkland, Þýskaland og Benelux-löndin hafa alltaf verið drifkraftur breytinga innan Evrópusambandsins. Við þurfum ekki annað en að horfa til myntbandalagsins til að sjá það. Hægt er að nefna fleiri dæmi. Reynslan hefur sýnt að það sem þessi lönd vilja, því ná þau fram. Ef þau ná ekki samstöðu innan Evrópusambandsins um þætti sem þau telja knýjandi fara þau ein af stað. Reynslan sýnir að þau rífa Evrópusambandið með sér. Staðan innan Evrópusambandsins í varnarmálum er breytt að því leyti til líka að fleiri ríki eru komin þar inn sem horfa með nokkuð jákvæðum hætti til þess að Evrópusambandið taki að sér aukið varnarhlutverk. Það er nauðsynlegt í þessum efnum að gera sér grein fyrir að þegar undirbúningur var í gangi fyrir stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem síðar var felld, voru ákveðin atriði sem enginn ágreiningur ríkti um. Það ríkti t.d. enginn ágreiningur um að stefna bæri að sameiginlegri varnarstefnu.

Ég tel að þetta hljóti að vera einn þeirra þátta sem þurfi að skoða á þeim tímamótum sem Íslendingar standa í dag. Við þurfum í því ferli að gera okkur grein fyrir hvaða möguleikar eru með auknu samstarfi við Evrópusambandið. Ég vísa sérstaklega til þess í þessu samhengi að innan Alþingis Íslendinga eru stjórnmálaflokkar sem vilja ganga nær Evrópusambandinu. Samfylkingin hefur sagt alveg skýrt að hún telur að láta eigi á það reyna. Ég hef mörgum sinnum sagt að ég tel að Íslandi væri betur borgið innan sambandsins en utan. Ég tel að þróunin í varnarmálunum auki frekar á gildi slíkrar þátttöku. En formaður Framsóknarflokksins hefur líka sagt þetta. Hann hefur meira að segja gengið lengra og sagt það alveg skýrt að hann telji að árið 2015 verði Ísland komið inn í Evrópusambandið. Þetta þurfum við allt að skoða þegar við förum yfir þá mynd sem blasir við núna. Þá skiptir máli að gera sér grein fyrir því.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur áréttað mjög rækilega í ræðu sinni fyrr í dag að allt umhverfið er breytt. Hann nefndi sérstaklega að hefðbundnir óvinir á hernaðarsviði, eins og Rússar, eru ekki lengur fyrir hendi. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega að okkur stafaði ekki lengur nein ógn af þeirri þjóð. Samningsaðili okkar í þeim tvíhliða samningi sem nú er í gangi gengur lengra og segir það hreint út að okkur stafi engin hernaðarógn af neinni þjóð í okkar heimshluta. Þá er spurningin við þessar aðstæður hvort við getum ekki gefið okkur góðan tíma til að vega og meta þá kosti sem eru fyrir hendi og velta því fyrir okkur hvort hugsanlega í framtíðinni væri hægt að ná svipuðu stigi öryggis og varna í tengslum við Evrópusambandið alveg eins og Eystrasaltslöndin hafa í dag. Þetta er auðvitað ekki sjálfgefið. Ég er ekki að slá því föstu að þetta sé afdráttarlaust mögulegt. En ég tel að þetta sé sterkur möguleiki og ég er þeirrar skoðunar að Evrópusambandið sé að þróast með þessum hætti

Þegar ég nálgast þessi varnar- og öryggismál skipti ég þeim, ólíkt hv. þm. Jónínu Bjartmarz, gjarnan fyrir sjálfum mér í tvennt. Annars vegar varnarþáttinn og hins vegar öryggisþáttinn. Ljóst er að það er miklu brýnni tímanlegri nauður sem rekur okkur til einhvers konar lausnar á þeim vanda sem blasir við í öryggismálunum núna þegar sú staða er allt í einu komin upp að Bandaríkjamenn ætla í burtu. Við höfum í áranna rás byggt upp mjög mikilvægt samstarf við þá varðandi öryggi á hafinu. Þetta samstarf hefur bjargað hundruðum mannslífa. Við sem fiskveiðiþjóð getum að sjálfsögðu ekki hugsað til þess að fara inn í veturinn þegar veður eru válynd án þess að vera búin að binda alla hnúta þar. Við þurfum að gera þetta tiltölulega hratt en hefðum getað gefið okkur meiri tíma til að undirbúa þetta. En við þurfum líka að horfa til framtíðar í þessum efnum.

Þá verðum við að skoða landfræðilega legu Íslands. Við verðum líka að skoða hvaða breytingar eru að verða í kringum okkur. Í umræðunni kom fram hjá tveimur eða þremur hv. þingmönnum að staða Norðmanna er að breytast að því leyti til að þeir hyggja nú á miklu meiri olíu- og gasvinnslu í norðurhöfum en áður og umferð um íslenska hafsvæðið frá norðri verður meiri af þeim sökum. Það leggur okkur ríkari skyldur á herðar, en líka þeim. Við þurfum að sjá um öryggið á því mikla hafsvæði, en það leggur líka ákveðnar skyldur þeim á herðar.

Norðmenn eru þess vegna þjóð sem við hljótum að skoða samstarf við varðandi öryggið á hafinu. Sömuleiðis blasir það við að jafnvel þó við mundum verða okkur úti um þau tæki sem Landhelgisgæslan hefur skilgreint að þurfi til að geta tryggt nægilegt öryggi á hafinu, þá eru ákveðin svæði sem við munum eigi að síður eiga erfitt með að sinna. Ég nefni t.d. svæði sem er syðst í efnahagslögsögu okkar og utan hennar á Reykjaneshrygg og suður fyrir suðurodda Grænlands. Það gerir að verkum að við hljótum líka að leita samstarfs þá við Danmörku fyrir hönd Færeyja og Grænlands. En síðan má ekki gleyma öflugum nágranna okkar í vestri sem við rekjum nú mikinn skyldleika til, þ.e. Kanadamenn. Það er líka ljóst að umferð af þeirra hálfu á þessu svæði mun aukast. En landfræðileg lega þeirra er líka þannig að óhjákvæmilegt er annað en að við skoðum við þessi tímamót með hvaða hætti og hvort við getum tekið upp einhvers konar öryggissamstarf við þá á hafinu.

Ég held að núna við þær aðstæður sem ríkja þurfum við að skoða þennan þátt, öryggisþáttinn, og þá séu það þessar fjórar þjóðir sem við þurfum sérstaklega að kanna hvort hægt sé að ná öflugu samstarfi við á næstu árum til að tryggja öryggi þeirra sem fara um hafsvæði okkar. Síðan þurfum við að einbeita okkur að því hvernig vörnum landsins verður best við komið. Það er tvíhliða samningurinn, eins og fram hefur komið hjá hæstv. utanríkisráðherra. En við verðum líka að skoða þá möguleika sem felast í aukinni samvinnu við Evrópuþjóðirnar.

Þetta eru þeir þættir sem ég vildi leggja mesta áherslu á. Ég hef áður gagnrýnt hæstv. utanríkisráðherra fyrir að mér finnst ríkisstjórnin hafa verið ákaflega sein til varðandi öryggisþáttinn. Það mátti vera ljóst fyrir lifandis löngu í hvað stefndi. Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur ítrekað í dag spurt eftir stefnu Samfylkingarinnar. Hann hefur talað eins og Samfylkingin hafi ekki lagt fram neinar hugmyndir í þessum efnum. Samfylkingin tók einmitt sérstaklega fyrir öryggisþáttinn og nauðsynlegt samstarf sem þyrfti til að Íslendingar gætu tekið það að sér, sem var tillaga Samfylkingarinnar í skýrslu sem hún sendi frá sér, að mig minnir í mars árið 2004. Því er með engu móti hægt að segja að ekki hafi verið aðdragandi að þessu. Sömuleiðis er óhjákvæmilegt þegar menn ræða öryggismálin að rifja upp að Landhelgisgæslan gerði seint á síðasta ári opinskáar ákveðnar hugmyndir sem hún hafði um nauðsynlegan tækjabúnað sem þyrfti að afla svo Íslendingar gætu tekið þetta að sér. Mér er reyndar kunnugt um að slíkar áætlanir hafi verið töluvert lengur á ferli á djúpu hafi innan Landhelgisgæslunnar. Menn hafa vitað í hvað stefndi. Hún lagði jafnframt fram kostnaðargreiningu og miðað við þær tölur sem þar komu fram, 7–8 milljarðar, mætti ætla að ýmsu viðbættu að kostnaður við það væru 10 milljarðar.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra var spurður út í þetta í lok nóvember á síðasta ári talaði hann með þeim hætti að þetta væri óþarft. Hann var spurður sérstaklega að því af fréttamanni Ríkisútvarpsins hvort ekki væri þörf á úttekt af þessu tagi. Hæstv. ráðherra svaraði því einfaldlega til að það væri ekki tímabært. En auðvitað var það fyrir lifandis löngu tímabært.

Frú forseti. Það eru örfáir þættir aðrir sem mig langar í lok ræðu minna að drepa á. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því í andsvari fyrr í dag hvort hann væri ekki sammála þeirri skoðum sem hefur komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að ef menn hefðu haft í höndunum þá vitneskju sem þeir hafa nú um stöðu gereyðingarvopna við upphaf innrásarinnar í Írak í því landi, þá hefðu þeir ekki veitt stuðning Íslands við innrásina. Þá kom alveg skýrt fram hjá hæstv. forsætisráðherra, hann talar með þeim hætti að ég get ekki dregið aðra ályktun af því en hann telji að innrásin og stuðningur við hana hafi verið mistök. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að þessu í morgun og mér til mikillar furðu sat hann fast við sinn keip. Hann er bersýnilega þeirrar skoðunar að enn sé hægt að réttlæta stuðning Íslands við innrásina í Írak.

Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa algerri andstöðu við það sjónarmið. Ég tel að það sé svartasti bletturinn á ferli núverandi ríkisstjórnar. Ég tel að ekkert hafi gerst í sögu hennar sem hefur verið jafnskammarlegt og sem hefur verið jafnilla staðið að og einmitt það. Við sjáum afleiðingarnar. Landið er á barmi borgarastyrjaldar. Enginn endir er í augsýn varðandi átökin sem þar eru. Írak er orðið að gróðrarstíu fyrir hermdarverkamenn og þaðan streyma menn í önnur lönd sem eru reiðubúnir til að inna af höndum hræðilega glæpi. Auðvitað sáu menn þetta ekki fyrir. En hins vegar hefðu menn á þeim tíma átt að fara að lögum og þeir hefðu átt að taka þessa ákvörðun með öðrum hætti en í skjóli nætur bara af tveimur mönnum eftir samráð við sendiherra Bandaríkjanna.

Það er rétt að rifja hér upp að innan Framsóknarflokksins hefur verið mikil andstaða við þetta. Yfirgnæfandi hluti fylgismanna flokksins, þeirra sem eftir eru, eru á móti þessum kafla í sögu flokksins. Einstakir þingmenn hafa reifað andstöðu sína við það, m.a. varaformaður flokksins.

Frú forseti. Ég tel að nauðsynlegt sé að læra af þessu. Eitt af því sem við eigum að læra er að ráðamenn eiga aldrei að hrapa að ákvörðunum eins og þessari. Þeir verða að sinna lögunum og leggja svona ákvarðanir undir utanríkismálanefnd á þann hátt sem lög kveða á um.



[15:49]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæst. forseti. Það eru helst tvö atriði í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem mig langar til að staldra við. Annars vegar mátti ráða af ræðu hans breytta afstöðu Samfylkingarinnar, að því er ég tel, gagnvart því að einhverja lausn sé að finna á öryggis- og varnarmálum Íslands í sambandi við Evrópusambandið. Hann hefur raunar greinilega þá framtíðarsýn að Evrópusambandið kunni einhvern tíma í óskilgreindri framtíð að verða þess eðlis að það hafi eitthvert afl á þessu sviði en hv. þingmaður viðurkennir að það sé ekki raunsætt að líta til sambandsins í því samhengi, a.m.k. ekki að svo stöddu eða til skemmri tíma. Mér finnst áhugavert að heyra þetta frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni vegna þess að á undanförnum árum hafa ýmsir flokksfélagar hans talað á þann veg að þarna mætti finna einhverja lausn á breyttri stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum.

Varðandi þetta atriði eða framtíðarsýnina að þessu leyti þá nefndi ég áðan í umræðunni að mér sýnist hafa komið verulegir hikstar í þróunina í átt til dýpkunar á samstarfi Evrópusambandsríkjanna og til útvíkkunar á starfssviði þess um leið. Ég held að það sé með engu móti hægt að spá því eins og hv. þingmaður gerir að þróunin verði í þá veru, sem ýmsir stjórnmálamenn og embættismenn innan Evrópusambandsins vissulega vilja, að Evrópusambandið taki öryggis- og varnarmálin yfir. Ég á ekki von á því, ég held að þróunin verði í aðra átt.

Varðandi hitt atriðið verð ég að gera athugasemd við þau ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar (Forseti hringir.) að stefna Samfylkingarinnar hafi verið skýr í þessum efnum og (Forseti hringir.) minni á að á flokksþingi 2005 reyndist (Forseti hringir.) flokknum ómögulegt að koma sér saman um niðurstöðu í þeim efnum.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að virða ræðutímann.)



[15:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skoða þetta út frá þeirri þróun sem er innan Evrópusambandsins. Ég sagði alveg skýrt að ég teldi að í bráð væri staðan innan Evrópusambandsins þannig að það gæti ekki tryggt varnir Íslands. En hv. þingmaður má ekki gleyma því að við erum innan Atlantshafsbandalagsins og 5. gr. þess bandalagssamnings veitir okkur vörn. Hún segir að verði ráðist á eitt ríki sé það árás á þau öll. Við njótum sem sagt verndar Atlantshafsbandalagsins.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt það sjálfur að engir hernaðarváboðar séu í augsýn. Ég er því þeirrar skoðunar að innan tíu ára hafi Evrópusambandið breyst að því leyti til að það yrði kleift fyrir sambandið að veita okkur þá tryggingu sem á þarf að halda. Við yrðum samt innan Atlantshafsbandalagsins fram að því og eftir það og nytum eftir sem áður þeirrar verndar sem 5. gr. í stofnsamningi bandalagsins veitir okkur. Það ættu því ekki að vera hundrað í hættunni.

Ég tel að varnar- og öryggismálin séu aukin ástæða fyrir okkur til að skoða aðild að Evrópusambandinu. Það ásamt þeim sérkennilegu hræringum sem orðið hafa á stöðu íslensku myntarinnar ætti líka að vera önnur ástæða. Niðurstaða mín er sú að eins og tímarnir eru að þróast og eins og staðan er í dag séu komin upp ýmis atriði sem gera það að verkum að við ættum að skoða aðild að Evrópusambandinu miklu nánar en áður. Það er í fyrsta lagi staða krónunnar og nauðsyn okkar að taka upp evru hér á landi, ég tel að það sé ekki hægt nema við göngum í Evrópusambandið. Í öðru lagi eru það varnar- og öryggismálin. Ég tel að eftir tíu ár verði Evrópusambandið komið með sameiginlega varnarstefnu og nægilegt afl til þess að geta tryggt öryggi þjóðar eins og Íslendinga, sérstaklega miðað við þá stöðu sem er í okkar heimshluta. Í þriðja lagi tel ég að sú vernd sem við höfum af veru okkar í Atlantshafsbandalaginu hljóti að vera mikil trygging fyrir öryggi okkar ef í einhvers konar odda skerst með ófyrirséðum hætti í dag.



[15:54]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er jafnósammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi evruna og ég er varðandi sýn hans á hvernig Evrópusambandið muni þróast hvað varðar öryggis- og varnarmál (Gripið fram í.) og að það verði eitthvert skjól fyrir okkur í öryggis- og varnarmálum að verða í framtíðinni aðilar að Evrópusambandinu. Ég held að það sé haldlítil trygging og ég tel raunar, bara til að nefna þetta með evruna, að það væri ekki bara gagnslaust til að leysa úr okkar málum á sviði efnahagsmála að verða aðilar að evrusamstarfinu heldur stórhættulegt á þeirri forsendu að ef við gengjum þá leið misstum við mikilvægt stjórntæki á sviði peningamála, yrðum háð sveiflum í efnahagslífi annars staðar, sem eru með margvíslegum hætti mjög ólíkar þeim sveiflum sem við búum við hér á landi. Ég held því að það yrði, bæði til skemmri og lengri tíma, mikið óráð fyrir okkur efnahagslega að gerast aðilar að evrusamstarfinu.

Varðandi öryggis- og varnarmálin þá nefndi ég það í fyrra andsvari mínu að ég hefði, eins og sjálfsagt fleiri, átt í vandræðum með að átta mig á hver stefna Samfylkingarinnar hefði verið í þessum efnum og hverjar áherslur hennar væru. Ég nefndi það fyrr í dag að mér þætti sú stefna hugsanlega vera að skýrast og ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson geti tekið undir það með mér að stefna Samfylkingarinnar í þessum efnum sé að skýrast og að hið langa óvissutímabil sem var varðandi afstöðu Samfylkingarinnar til öryggis- og varnarmála sé með einhverjum hætti að líða undir lok.



[15:56]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þrátt fyrir hina ágætu orða-akróbatík hv. þm. Birgis Ármannssonar sem klifar á því að stefna Samfylkingarinnar sé óljós í þessum efnum þá hefur hún legið fyrir sennilega fjögur síðustu ár. Það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að skömmu eftir stofnun Samfylkingarinnar hafi hún ekki verið með niðurneglda stefnu í þessum málum. En a.m.k. töluvert inn í það tímabil sem ég var formaður Samfylkingarinnar lá það alveg ljóst fyrir að Samfylkingin byggði á ferns konar stoðum í utanríkisstefnu sinni, aðild að Norðurlandaráði, Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og um varnir og útfærslu tvíhliða samningsins. Þetta hefur legið alveg skýrt fyrir. Það sem hefur hins vegar vantað á að þetta hafi verið fullnægjandi er auðvitað sú staðreynd að utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins hefur verið fylgt með þeim hætti (Gripið fram í.) að það hefur ekki tekist að ná útfærslu á tvíhliða samningnum. Hæstv. utanríkisráðherrum Sjálfstæðisflokksins og þar á undan Framsóknarflokksins mistókst í að tryggja samstarfið við Bandaríkin. Allt sem þeir hafa sagt um mikilvægi þess að hafa hér herþotur hefur hæstv. utanríkisráðherra étið ofan í sig, síðast í dag. Nú er engin nauðsyn á því. Allar þær bumbur sem barðar voru um nauðsyn þess að hafa amerískt herlið á Íslandi eru sprungnar, þær liggja eins og hráviði, brotnar úti í móa. Nú koma talsmenn Sjálfstæðisflokksins og segja án þess að blikna að það sé nægilegt að hafa, eins og mig minnir að hæstv. utanríkisráðherra hafi orðað það í morgun, „færanlegar flugsveitir“. Er það virkilega svo að við eigum að láta það duga sem varnir að það séu hugsanlega einhverjar sveitir í Englandi eða Ameríku sem komi hingað stundum? Eigum við að fallast á að hér á landi verði einhvers konar fjórða flokks herstöð, þ.e. tóm hús og ein flaggstöng, og svo geti Ameríkanar komið þegar þeir vilja og þegar þeim hentar? Það finnst mér ekki sæmandi (Forseti hringir.) sjálfstæðri fullvalda þjóð.



[15:58]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu þar sem komið var að ýmsum stórum málum sem lúta að utanríkismálum og mig langar til að leggja orð í belg eftir því sem tími leyfir og ástæða er til að fara yfir af því fjölmarga sem hægt er að taka til umfjöllunar undir þessum lið.

Ég vil fyrst staðnæmast við þá stöðu sem uppi er í samningum við Bandaríkjamenn um dvöl erlends herliðs hér á landi. Það er mjög athyglisvert að það skuli hafa orðið niðurstaðan hjá Bandaríkjamönnum að taka einhliða ákvörðun um að kalla hersveitir sínar heim. Það er líka mjög athyglisvert sem fram kemur í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að í raun hafi engin hætta verið skilgreind hér á landi eftir að múrinn hrundi árið 1989 eða þegar Sovétríkin féllu saman tveimur árum síðar. Þetta er í raun og veru í samræmi við sjónarmið mín í þessum efnum, að eftir að þeir atburðir urðu sem ég nefndi þá hafi ekki verið neinar forsendur til að halda því fram að hér á landi væri nokkuð hættuástand sem kallaði á að við þyrftum að hafa erlent herlið hérlendis okkur til varnar.

Það er líka athyglisvert sem kemur fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og alveg í samræmi við skoðanir mínar eða mat mitt, en hér kemur fram að eftir að þessir atburðir gerðust fyrir hálfum öðrum áratug þá stafi engin hætta af Rússlandi.

Ég vil rifja það upp að þegar Íslendingar féllust á að hér yrði erlent herlið skömmu eftir síðari heimsstyrjöld þá var það sammæli allra þeirra sem að því stóðu að íslenskur her yrði hér ekki á friðartímum. Ég hygg að almenn sátt hafi verið meðal þjóðarinnar um að hafa þann skilning á málinu að herinn væri hér okkur til varnar meðan ófriðlega horfði í okkar heimshluta og þegar það ástand hefði breyst og friðvænlegt væri orðið væri engin ástæða til að hafa her og hann ætti þá að fara. Miðað við þetta stöðumat er nú orðið ljóst, hálfum öðrum áratug eftir að þeir atburðir gerðust sem leiddu til þess að hingað kom her, að eðlilegt er að herinn fari og ég fagna því. Ég hef ætíð verið í hópi þeirra manna sem líta svo á að sjálfstæð þjóð eigi ekki að hafa erlendan her í sínu landi nema þegar aðstæður eru með þeim hætti að hún þurfi á því að halda til að verja sína hagsmuni. En það er að mínu mati hluti af sjálfstæði þjóðar að vera ekki með erlendar hersveitir í landinu jafnvel þó þær séu vinveittar.

Ég held að í þeirri stöðu sem við erum í núna þurfum við auðvitað að svara ákveðnum spurningum. Það liggur fyrir að það er ekki nein hætta sem að okkur steðjar og það er ekki ástæða til að hafa hér erlendan her og þá þurfa menn að vita, eins og hæstv. ráðherra varpar fram í ræðu sinni, hvað telst fullnægjandi og æskilegur varnarviðbúnaður okkar vegna. Ég held að íslensk stjórnvöld eigi að kappkosta að svara því fyrir sitt leyti, marka sér ákveðna stefnu í þeim efnum þannig að við höfum sjálfstætt mat á því hvað við teljum nauðsynlegt að sé fyrir hendi og síðan geta þau unnið út frá þeirri stefnumörkun. Ég tel að aðild að NATO sé ef til vill fullnægjandi. Ég er að mörgu leyti sammála því sem fram kemur í ræðu hæstv. ráðherra þar sem hann lítur á NATO sem nokkurs konar vátryggingafélag og ég hygg að það megi færa sannfærandi rök fyrir því að aðildin að NATO ein og sér sé fullnægjandi til að tryggja hagsmuni okkar um þessar mundir.

Mig langar aðeins að drepa á eitt atriði sem tengist þessu sem hefur verið mikið til umræðu í fjölmiðlum en minna í þessari umræðu í dag en það eru áhrifin af brottför hersins á atvinnumál. Mig langar að draga fram nokkrar staðreyndir í þeim efnum til að benda á að áhrifin eru minni en ætla mætti og ekki ástæða til að menn fyllist miklum ótta um að alvarlegt ástand kunni að vera fram undan á Suðurnesjum þar sem af eðlilegum ástæðum hefur verið mest um störf á vegum hersins.

Í upphafi síðasta árs voru íslenskir starfsmenn varnarliðsins um 640. Ef við skoðun þróun á Suðurnesjum á síðustu 6 árum, frá 1998–2004, þá hefur þeim sem starfa þar samkvæmt tölum Hagstofunnar fjölgað um 540 á þeim sex árum. Ég hygg að ég geti fullyrt að þeim hafi fjölgað á síðasta ári líka því það er mjög mikill þróttur í byggingarstarfsemi á Suðurnesjum eins og allir sjá sem þar keyra um, þar er verið að byggja gríðarlega mikið af íbúðum og verið að gera lóðir byggingarhæfar, þannig að það hefur verið mikil fjölgun á störfum á síðustu árum og svo líka hitt að Suðurnesin eru auðvitað hluti af vinnumarkaði höfuðborgarsvæðisins og um það bil helmingur þeirra sem starfa á vegum hersins eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu þannig að áhrifin á íbúafjölda á Suðurnesjum verða þá ekki nema í mesta lagi um það bil helmingurinn af þessum störfum ef allt fer á versta veg, um 300 störf sem eru þá ekki nema 3% eða 4% af heildarvinnuafli svæðisins.

Því til viðbótar vitum við að allmörg störf verða áfram við flugvöllinn þrátt fyrir að herinn fari þannig að ef við tökum tillit til allra þessara þátta og svo þess sem ég hygg að allir séu sammála um, að ríkisstjórnin beiti sér fyrir aðgerðum til að koma til móts við hugsanlegan samdrátt í störfum þá held ég að sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum á næstu árum. Þó hugsanlega kunni að vera eitthvað um skamman tíma þá á ég ekki von á því miðað við þessa tölu og það ástand sem er í dag í atvinnumálum.

Það væri meiri ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifunum á atvinnumál á öðrum stöðum landsins þar sem umsvif hersins hafa verið, og þar er ég fyrst og fremst að tala um ratsjárstöðvarnar. Það hefur verið umtalsverður hlutur í fámennum byggðarlögum eins og í Bolungarvík, á Norðausturlandi og við Hornafjörð þannig að ég hygg að eðlilegt væri að ríkisstjórnin beitti aðgerðum til að koma til móts við samdrátt sem kann að verða á þeim stöðum því hann er ekki minni. Ég hygg að hlutfallslega sé hann meiri og jafnvel erfiðari fyrir þessi byggðarlög en það sem kann að verða á Suðurnesjum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af því að það komi ekki neitt fram í ræðu hans um framtíð ratsjárstöðvanna, hvernig staða þess máls er, hvort búið sé að ákveða að með brottför hersins verði þeim lokað eða hvort þær verði starfræktar áfram.

Ég vil taka undir áform um að Íslendingar bregðist við brottför hersins og þyrlusveita hans með því að koma sér upp eigin sveitum, öflugum þyrlusveitum sem geta þjónustað bæði land og mið, sem er full ástæða til. Við vitum að vísu að þetta mun kosta verulegt fé en við erum vel í stakk búin til að takast á við þann kostnað bæði stofnkostnað og rekstur. Við erum eitt af ríkustu þjóðfélögum veraldar og getum vel staðið að öryggismálum með myndarlegum hætti.

Mig langar að leggja áherslu á að ég tel nauðsynlegt að þyrlusveitin verði öflug, 3–4 þyrlur og að þær verði staðsettar um landið í samræmi við hlutverk þeirra þannig að það verði ævinlega þyrlur sem næst fiskiskipaflotanum eða siglandi umferð um landið þannig að sem styst sé að fara til að sækja veika og sjúka ef það þarf að gerast eða skipbrotsmenn og koma þeim til lands, til sjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það væru skynsamleg áform að Landhelgisgæslunni með öflugri þyrlusveit væri dreift um landið í samræmi við þetta og hefði starfsstöðvar eða viðbragðsstöðvar, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur á Vestfjörðum og Norðurlandi. Þetta kunna að verða að einhverju leyti færanlegar starfsstöðvar eftir því hvernig staðsetningin er á flotanum og því sem á að fylgjast með en ég held að þetta væri nauðsynlegt til að veita gott öryggi.

Virðulegi forseti. Það væri ástæða til að fara yfir margt fleira. Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra víkur ekkert að aðildinni að Evrópusambandinu sem er auðvitað eitt af stóru pólitísku viðfangsefnunum í utanríkismálum og hefði auðvitað verið ástæða til að fara yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum en út af fyrir sig skil ég það sem svo að stefnan sé skýr hvað það varðar. Það eru ekki nein áform um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég er sammála þeirri stefnu og tel að við ættum ekki að huga neitt að því á næstunni. Það er ekkert sem kallar á að við þurfum að fara þar inn fyrir dyr til að tryggja hagsmuni okkar. Þvert á móti hygg ég að hagsmunum okkar sé líklega betur borgið utan Evrópusambandsins. Það væri þá frekar viðfangsefni til að velta fyrir sér á komandi árum hvort við ættum að vera áfram aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eða ganga úr því og standa algerlega utan við.

Ég vil nefna Íraksmálið aðeins sem er örlítið drepið á í ræðu hæstv. utanríkisráðherra. en ráðherrann dregur fram stöðuna eins og hún er í dag. Þar hefur ekki náðst að mynda ríkisstjórn, ofbeldisverk, mannrán og dráp eru daglegt brauð og það má segja að borgarastyrjöld sé í landinu sem er auðvitað afleiðing af innrásinni. Innrásin var mikil mistök sem Bandaríkjamenn og Bretar hefðu ekki átt að standa að og hefðu betur fylgt þeim alþjóðlegu leikreglum sem þeir hafa undirgengist og að sumu leyti haft forgöngu um að koma á fót eftir síðari heimsstyrjöldina. Ef þeim hefði borið gæfa til að fylgja þeim reglum sem þjóðir heims hafa komið sér saman um og er að finna í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna þá hefðu menn ekki anað út í þetta vanhugsaða stríð sem því miður hefur ekki skilað neinum árangri til góðs fyrir einn eða neinn. Það má segja eins og ég held að Hans Blix hafi nefnt að hið eina jákvæða væri kannski að Hussein er ekki lengur við völd en það er ansi miklu kostað til að koma honum frá. Tugir þúsunda manna látnir og þar að auki hermenn og ég held að það sé gjald sem menn séu ekki tilbúnir til að halda fram að hafi réttlætt þá aðgerð. Þetta ætti að vera mönnum lexía í þeim efnum að skynsamlegt sé að beita sér fyrir því að þjóðir heims fari að alþjóðareglum sem þær hafa komið sér saman um. Íslendingar eiga ekki að vera í því hlutverki að styðja við bakið á þjóðum sem brjótast út úr þeim leikreglum og veita þeim pólitískan og siðferðilegan stuðning í þeim efnum. Þvert á móti. Við eigum að vera í hópi þeirra þjóða sem ævinlega hvetja þjóðir heims, sérstaklega herveldin, til að virða þær leikreglur sem settar hafa verið því það er okkar öryggistæki fyrst og fremst að fá herveldi samtímans til að fallast á leikreglur í alþjóðasamskiptum og virða þær. Það er afleitt þegar ýtt er undir að einstök ríki eins og Bandaríkin komist upp með að sniðganga þessar reglur og endurskilgreina mikilvæg hugtök í alþjóðasáttmálum eins og varðandi stríðsglæpamenn og annað slíkt sem Bandaríkjamenn hafa gert og er þeim satt að segja til verulegrar skammar svo ég víki kannski aðeins að því sem nærtækast er að minnast á, þ.e. fangelsið í Guantanamó og allt sem því fylgir.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn að sinni þannig að ég læt umfjöllun minni lokið. Það er af svo mörgu að taka og því er margt ósagt í þessu en ég læt staðar numið.



[16:13]Útbýting:

[16:14]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Geirs H. Haardes um utanríkismál sem hann flutti þinginu í morgun. Ég verð að segja í upphafi máls míns að það olli mér þó nokkrum vonbrigðum að hæstv. utanríkisráðherra var í umræðunni fyrr í dag hvergi fús til að viðurkenna það að innrásin í Írak hefði verið mistök, hefði verið röng ákvörðun á sínum tíma. Mér þykir það mjög miður því að ég hygg að allir sem líta um öxl og skoða þessi mál af réttsýni og yfirvegun hljóti að sjá að þetta voru mikil og mjög afdrifarík mistök. Þessi innrás hefði aldrei átt að verða. Mig langar að minna á að við í Frjálslynda flokknum vöruðum allt frá upphafi mjög við því að farið yrði í þessa innrás. Við sendum ítrekað frá okkur sterk varnaðarorð í aðdraganda innrásarinnar. Ég man eftir því að þá nótt sem innrásin hófst sendum við frá okkur yfirlýsingu til allra fjölmiðla þar sem við hörmuðum að til þessara aðgerða hefði verið gripið. Allar götur síðan höfum við mótmælt þessari innrás, andmælt henni af fullum krafti, enda hefur hún leitt af sér ólýsanlegar hörmungar fyrir tugþúsundir, jafnvel hundruð þúsunda saklauss fólks, bæði íbúa í Írak en einnig fólks í Bandaríkjunum sem misst hefur ástvini sína, hermenn. Fjöldi manns, tugir þúsunda, hundruð þúsunda, hefur þurft að sæta limlestingum og öðrum þjáningum af völdum þessa vanhugsaða atburðar og við sjáum engan veginn fyrir endann á þeirri atburðarás sem hrundið var af stað með þessu voðaverki sem hófst í mars árið 2003.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram hjá mörgum ræðumönnum á undan mér að ástandið í Írak núna er í rauninni ekkert annað en borgarastyrjöld. Þetta var neisti sem kveikti í mikilli púðurtunnu, hleypti af stað atburðarás sem nánast hefur verið stjórnlaus síðan. Ég minni á að Hans Blix var í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi og mér fannst hann lýsa því ákaflega vel hverjar afleiðingarnar hefðu orðið. Hann lýsti því líka ákaflega vel hvernig þetta fór allt af stað og hvernig menn voru í raun og veru búnir að missa tökin á ástandinu löngu áður en innrásin hófst. Málin hefðu þróast með þeim hætti að það var nánast orðið ómögulegt að koma í veg fyrir innrásina mörgum vikum áður en hún fór af stað. Hernaðarvélin var byrjuð að mala og þegar hún var komin á fulla ferð var hún nánast orðin óstöðvandi. Því fór sem fór en þetta hefði aldrei þurft að verða.

Að sjálfsögðu erum við öll sammála um að Saddam Hussein var harðstjóri en ég get ekki tekið undir það, virðulegi forseti, og mun aldrei geta tekið undir það að réttlætanlegt hafi verið að fórna svona mörgum mannslífum, að leiða svona miklar þjáningar yfir fjölda saklauss fólks fyrir það að losna við þá ríkisstjórn sem var í Írak. Þarna er verið að greiða allt of háu verði fyrir það litla sem áunnist hefur.

Hæstv. utanríkisráðherra notaði annars mikið af tíma sínum til að ræða einkum um tvennt, viðskiptatækifæri og möguleika Íslendinga í Asíu og síðan ástandið sem upp er komið í varnarmálum íslensku þjóðarinnar. Ég kom upp í andsvör áðan og minnti á að við í Frjálslynda flokknum hefðum bent á það fyrir nokkrum árum, þ.e. sumarið 2003, að við Íslendingar þyrftum að hugsa varnarmálin upp á nýtt. Þá hafði kvisast að Bandaríkjamenn hefðu greint íslenskum stjórnvöldum frá því rétt fyrir kosningarnar í maí 2003 að þeir hygðust fara héðan af landi brott með flugvélar sínar, herþotur. Þjóðinni var ekki sagt frá þessu fyrr en eftir alþingiskosningarnar. Af hverju var það gert? getur maður svo sem spurt. Það er stjórnvalda að svara fyrir það, en við fengum ekki að vita það fyrr en sumarið 2003 að þetta væri raunin. Við í Frjálslynda flokknum mynduðum okkur strax skoðun á því hvaða stefnu bæri að taka. Ég greindi til að mynda frá því í útvarpserindi, sem ég flutti í fréttaþættinum Speglinum í ágúst árið 2003, hverjar skoðanir mínar væru í þessu máli. Þar benti ég á að við værum í NATO og við værum þar fullgild þjóð og ættum að sjálfsögðu að leita leiða til að ná fram samstarfi við aðrar NATO-þjóðir ef það væri svo að Bandaríkjamenn væru að fara. Mér finnst íslenska ríkisstjórnin á margan hátt allt of íhaldssöm við að velta upp nýjum möguleikum og nýjum lausnum á þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Mér finnst íslensk stjórnvöld hafa bundið trúss sitt allt of lengi og allt of fast við hala Bandaríkjamanna. Við sjáum núna að það hefur heldur betur verið að binda ráð sitt við refshala að hengja sig aftan í þá, því að sú ríkisstjórn sem nú er í Bandaríkjunum og hefur verið um nokkurra ára skeið er alls ekki góð stjórn og það er alls ekki góður félagsskapur að vera í slagtogi með þeim slánum sem þar ráða nú ferðinni. Það verður bara að segjast alveg eins og það er, virðulegi forseti.

Ég talaði um það áðan að áherslur í varnarmálum margra nágrannaþjóða okkar væru að breytast og benti á að það er kannski ekki alveg rétt að aðrar Evrópuþjóðir innan NATO séu svo vanmáttugar að þær hafi hugsanlega ekki áhuga á að efna til einhvers konar samstarfs við okkur Íslendinga. Nú er ég alls ekki að segja að það sé nauðsynlegt að kópera það varnarsamstarf sem við höfum verið í við Bandaríkin og að þær áherslur sem Bandaríkjamenn hafa haft hér í hersetu sinni, fjórar orrustuþotur, til langs tíma einnig kafbátaleitarflugvélar, ratsjárstöðvar, hlustunarstöðvar fyrir kafbátaumferð og annað þess háttar, séu endilega þær sem henta mundu Evrópuþjóðum NATO. Að sjálfsögðu yrðu áherslurnar að einhverju leyti öðruvísi. Það þarf ekki að vera neitt slæmt í sjálfu sér þó að svo sé.

Ég hef um nokkurt skeið fylgst mjög grannt með frændum okkar í austurvegi, þ.e. Norðmönnum, og hvað þeir hafa verið að gera. Það er mjög áhugavert að fylgjast með því og í aðra röndina dáist ég að dugnaði þeirra og framsýni í þessum málum. Ég greip með mér tvær þykkar skýrslur sem komu út nýverið, norskar skýrslur um þá möguleika og í raun og veru þær áætlanir sem Norðmenn hafa á þeim svæðum sem þeir kalla norðursvæði, þ.e. Norðurhöfin. Þetta eru skýrslur sem voru unnar á vegum norska utanríkisráðuneytisins og það er hægt að nálgast þær á netinu. Þeir hafa kallað saman hóp bestu sérfræðinga sinna til að fara yfir hvaða áskoranir bíða þeirra á norðursvæðunum en einnig hvaða möguleikar eru fyrir hendi í framtíðinni. Ég hef sagt það áður að mér finnst íslensk stjórnvöld vera allt of blind á norðursvæðin og þá möguleika sem felast í þeim. Við erum allt of upptekin af því að horfa til austurs og vesturs en gerum allt of lítið af því að gá til norðurs. Mér finnst að þar mættu íslensk stjórnvöld og utanríkisráðuneytið sérstaklega leggja miklu meiri áherslu á sín störf.

Sú staða sem nú er komin upp í varnarmálunum er að sjálfsögðu erfið. Þetta er mikil áskorun og þetta er á vissan hátt vandi sem við stöndum frammi fyrir en bæði áskoranir og vandamál kalla á lausnir. Þetta kallar á það að við Íslendingar sýnum ákveðna djörfung og hugmyndaauðgi. Þetta kallar á það að við öll, ekki endilega ríkisstjórnarflokkarnir heldur allir stjórnmálaflokkar, séum reiðubúin til að velta upp nýjum möguleikum og hugsa nýjar lausnir í þessum málum, að við séum ekki um of bundin á klafa íhaldssemi, að við séum ekki um of menguð af hugsunarhætti kalda stríðsins, heldur reynum að losa okkur frá þessu öllu saman og sjáum hvaða möguleika við höfum í framtíðinni. Ég er alveg sannfærður um það, virðulegi forseti, að hin landfræðilega lega Íslands gerir það að verkum að við skiptum ekkert minna máli nú en til að mynda á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar Ísland var miðstöð varna, bæði á sjó og í lofti, var miðstöð fyrir skipaumferð yfir Norður-Atlantshafið á milli Norður-Ameríku og Evrópu en líka á milli Evrópu og Norðvestur-Rússlands, Norður-Ameríku og Norðvestur-Rússlands. Ísland hefur ekkert færst til á hnettinum. Lítum aðeins á það sem er að gerast núna. Hvað er að gerast norður af okkur? Jú, við vitum að það er að hefjast hlýskeið. Við getum deilt um ástæður þess að þetta hlýskeið er að hefjast en ég held að enginn velkist í vafa um það í dag að nýtt hlýskeið er að renna upp. Ísinn í Norðurhöfum er að hopa. Þetta veitir marga möguleika.

Í Barentshafi er að hefjast umfangsmikil olíuvinnsla og gasvinnsla, t.d. á mjallhvítarsvæðinu sem er norður af Hammerfest í Finnmörku í Norður-Noregi. Rússar eru einnig að hefja mikla olíuvinnslu og gasvinnslu austar í Barentshafi, austur við Novaja Zemlja og austur af Hvítahafi undan ströndum Síberíu. Mikilvægustu markaðir þessara þjóða fyrir olíu og gas eru í Norður-Ameríku, í Kanada og Bandaríkjunum og jafnvel sunnar, í Suður-Ameríku. Það er alveg ljóst að til að koma þessum náttúruafurðum á markaði, þ.e. olíu og gasi, þá mun siglingaleiðin fram hjá Íslandi skipta mjög miklu máli. Ég hygg, virðulegi forseti, að bara þetta eitt og sér hljóti að gefa mikla möguleika fyrir okkur Íslendinga, ekki síst í varnar- og öryggismálum en líka ákveðin viðskiptatækifæri. Þarna verðum við að vera á verðinum.

Ég hef talað um að Norðmenn séu á margan hátt mjög framsýnir í þessum efnum. Ég nefndi það áðan í andsvari að Norðmenn væru núna nánast að byggja upp nýjan flota. Það er alls ekki orðum aukið að segja það. Í gær fengu þeir afhenta fyrstu freigátuna af fimm. Freigátan Fridtjof Nansen var afhent frá skipasmíðastöð á Spáni, mjög öflugt og stórglæsilegt skip, 133 metrar á lengd, 17 metrar á breidd og 5.300 tonn, skip sem getur borið þyrlu og er sérhannað til að vera í Norðurhöfum. Þetta er einungis fyrsta skipið af fimm. Árið 2009 á að vera búið að afhenda öll þessi skip.

Norðmenn ætla líka að kaupa sex nýja tundurskeytabáta, sex nýja kafbáta, sex tundurduflaslæðara og 14 þyrlur. Þetta eru innkaup sem eiga að eiga sér stað fram til ársins 2010. Þegar þessar fjárfestingar eru að baki, auk mikilla fjárfestinga sem þeir hafa lagt í á örfáum undanförnum árum við að byggja upp flota sinn með strandgæsluskipum. Norski strandgæsluflotinn er mjög öflugur í dag, stórglæsilegur. Þegar þessum fjárfestingum verður lokið verða Norðmenn komnir með einn öflugasta flotann í Norður-Atlantshafi. Hvers vegna skyldu Norðmenn gera þetta? Þeir eru óvitlausir, þeir sjá fram í tímann. Við Íslendingar hugsum í örfáum árum, þeir hugsa yfirleitt í áratugum. Þeir vita nefnilega, gera sér fulla grein fyrir því að varnar- og öryggishagsmunir þeirra liggja á hafinu. Það eru siglingaleiðirnar, olíuvinnslan og fiskimiðin sem þeir munu þurfa að verja í framtíðinni. Það er alveg augljóst þegar maður les þær skýrslur sem hafa verið skrifaðar af norska utanríkisráðuneytinu að það sem Norðmenn leggja mesta áherslu á í framtíðinni varðandi norðursvæðin eru annars vegar pólitískur stöðugleiki, þ.e. öryggis- og varnarmál og sjálfbær þróun, sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Það er þetta tvennt sem þeir horfa fyrst og fremst til. Hinar miklu fjárfestingar í nýjum norskum flota, mjög öflugum flota, eru að sjálfsögðu réttlættar með þessu.

Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að sú nýja staða sem nú kemur upp þegar Bandaríkjamenn fara frá Íslandi mun bjóða upp á möguleika til aukins samstarfs til að mynda við Norðmenn. Við eigum að skoða það með opnum huga að leita einmitt þeirra leiða að athuga hvort þeir séu ekki reiðubúnir til að eiga við okkur samstarf sem væri þá innan ramma NATO. Við getum t.d. boðið þeim upp á ýmsa aðstöðu. Við erum með flugvelli, við erum með hafnir. Þeir hafa mikilla hagsmuna að gæta á hafinu austur af okkur, þeir hafa líka mikilla hagsmuna að gæta á hafinu norður af okkur. Aðrar þjóðir sem nefna má til leiks eru að sjálfsögðu Danmörk, Færeyjar og Grænland. Það þarf ekki að nefna meira. Þeir eru nú þegar eins og gráir kettir í Reykjavíkurhöfn og er ekkert nema gott eitt um það að segja.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Heilt á litið hef ég ekki miklar áhyggjur af framtíð okkar í öryggis- og varnarmálum. Við eigum að sjálfsögðu að vera áfram í NATO, þar erum við fullgildir meðlimir. Ég er sannfærður um að við munum finna lausn á þeim vanda sem nú hefur steðjað að okkur um skamma hríð.



[16:30]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fjallaði í fyrri ræðu minni um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra vítt og breitt, vakti athygli á þeim mikla samhljóm sem er í málflutningi hæstv. ráðherra við öfgafulla stefnu Bandaríkjastjórnar, núverandi stjórnar Georges Bush og tók nokkur dæmi þar að lútandi, afstöðuna til mannréttindabrota, afstöðuna til Miðausturlanda, Palestínu, Írans, Íraks og áfram mætti telja. Ég sýndi fram á hve vafasamt það væri að binda sig við fortíðina. Ég get í sjálfu sér tekið undir með hæstv. utanríkisráðherra í því efni því að hann veltir því fyrir sér í upphafi máls síns hvort ef til vill sé kominn tími til að hætta sífelldum tilvísunum í fyrri tíma en hann gerir það engu að síður sjálfur þegar hann fer að velta vöngum yfir framtíðaráformum. Sannast sagna hefur mér þótt menn ganga nokkuð langt í þeim efnum og fulltrúar annarra flokka en Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa fyrst og fremst litið til NATO um varnir Íslands. Menn hafa deilt um til hvaða NATO-ríkis eigi að horfa, hvort eigi að fara línuleið hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar, a.m.k. utanríkisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra hefur haft aðrar áherslur, en utanríkisráðherra hefur viljað horfa til tvíhliða samnings við Bandaríkin en aðrir hafa horft til NATO-ríkjanna. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum hins vegar hvatt til þess að málin verði skoðuð á alveg nýjum forsendum og hvort heppilegra gæti verið að tryggja öryggishagsmuni Íslands utan hernaðarbandalaga. Við erum reyndar eindregið á þeirri skoðun og teljum að á þessum tímamótum eigi menn að opna hugann og hyggja að því hvort þetta gæti verið ráðlegur kostur.

Hluti af hinu liðna er náttúrlega tal um fyrirhyggju eða fyrirhyggjuleysi. Ég ætla ekki að fara að velta mér upp úr því þótt ríkisstjórnin hafi óumdeilanlega sýnt mikið fyrirhyggjuleysi. Hún hefur ekki svarað kalli okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem aftur og ítrekað höfum flutt þingmál á Alþingi þar sem við höfum hvatt til þess að við værum undirbúin nákvæmlega undir það sem nú er að gerast og var fyrirsjáanlegt allar götur frá því í byrjun 10. áratugarins en þá lauk hinu kalda stríði. Við höfum sýnt fram á það í þingmálum okkar hvernig þróunin hefur verið. Stöðugt hefur verið dregið úr viðbúnaði Bandaríkjamanna á Miðnesheiði og fólki fækkað. Ég ætla ekki að gera þetta í sjálfu sér að umræðuefni nú en minna á áhersluþætti sem við höfum vakið máls á. Þeir lúta að fólkinu, þeir lúta að landinu, þeir lúta að verkefnum sem þarf að sinna og ég ætla að víkja örlítið að þeim þáttum.

Varðandi fólkið er að sjálfsögðu mikilvægast að sjá til þess að aðstæður skapist fyrir blómlegt atvinnulíf á Suðurnesjum. Reyndar er það svo að þrátt fyrir mikla fækkun hjá Bandaríkjaher á undanförnum árum sem hefur verið umtalsverð — íslenskir starfsmenn voru í byrjun tíunda áratugarins yfir 1000, voru í ársbyrjun 2005 komnir niður í 674 — hefur það ekki leitt til atvinnuleysis. Í greinargerð með þingmáli okkar segir, með leyfi forseta:

„Þannig nam fækkunin á tímabilinu 30. apríl 2003 til 31. desember 2004 a.m.k. 535 störfum. Í því sambandi er afar eftirtektarvert að þessa sér ekki eins stórlega stað og ætla mætti í atvinnuleysistölum á Suðurnesjum án þess að lítið sé gert úr þeim vanda sem þetta hefur skapað, sérstaklega fyrir viðkomandi einstaklinga og fjölskyldur.“

Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst í tengslum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hún og þjónustustarfsemi sem henni tengist hefur verið að blása út þar sem fólk hefur fengið atvinnu og er það vel.

Annað sem snýr að starfsmönnum eru starfslokin hjá Bandaríkjaher. Tryggja þarf að haldið sé utan um hagsmuni starfsmanna og einkum þeirra sem ekki fá störf. Þar þarf að ganga fram með kröfur um biðlaun, að starfsmönnum verði greitt fé sem þeir nýti til að laga sig að nýjum aðstæðum. Þetta er áhersluatriði sem við höfum viljað brýna fyrir stjórnvöldum.

Síðan er það landið. Mikla mengun er að finna á þessu svæði og hvarvetna þar sem Bandaríkjamenn hafa verið með herstöðvar hér á landi. Hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, einkum hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ítrekað vakið máls á þessu og m.a. flutt tillögur til þingsályktunar. Sú síðasta er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.

Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:

1. grunnvatnsmengun,

2. jarðvegsmengun,

3. frágangi spilliefna og sorphauga,

4. umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,

5. réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.

Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem mengast hafa.“

Þetta er úr þingsályktunartillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti á 130. löggjafarþingi.

Dæmin hræða bæði hvað varðar jarðvegs- og grunnvatnsmengunina og einnig varðandi réttarfarslegu hliðina. Það er atriði sem ástæða er til að skoða núna í ljósi þess sem fram undan er. Bændur fyrir austan í grennd við Heiðarfjall, þar sem Bandaríkjamenn ráku herstöð allar götur frá því á sjötta áratugnum þar til henni var lokað í byrjun þess áttunda, hafa árangurslaust reynt að leita réttar síns gagnvart Bandaríkjunum og Bandaríkjaher og ekki fengið nokkra einustu aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum. Meðal annars hefur verið leitað til dómstóla í því efni og í báðum tilvikum sem leitað var til dómstólanna var málunum vísað frá, bæði 1997 og 2001, en Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi vegna þess að íslenskir dómstólar hefðu ekki lögsögu í málinu. Hér vísa ég í ræðu þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á sínum tíma. Þarna er talað um réttarfarslegar flækjur og á þeirri forsendu hafi málinu verið vísað frá. Þetta er atriði sem íslensk stjórnvöld þurfa núna að fara rækilega í saumana á í aðdraganda þess að samið verður við Bandaríkjamenn um brottför hersins. Þetta sýnir náttúrlega þá fyrirhyggju sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sýndi og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur jafnan sýnt í þessu máli. Við höfum viljað undirbúa það sem í vændum var og vera reiðubúin til að takast á við þau verkefni sem núna blasa við. Þetta er annar þátturinn. Fyrsti laut að fólkinu, þessi laut að landinu, en síðan eru það verkefnin.

Við þurfum að takast á við mörg verkefni á komandi árum, sitthvað sem lýtur að öryggi þjóðarinnar, björgunarstarfi og öðru slíku sem bandaríski herinn hefur sinnt að hluta til. Þetta eru atriði sem við þurfum að sjálfsögðu að hyggja að og þá hvernig við eflum starfsemi sem þessu tengjast. Ég vil vísa í því sambandi í nýja samþykkt Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en þeir héldu 11. þing sitt ekki alls fyrir löngu en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Til að geta brugðist við þeim hættum sem steðjað geta að samfélagi okkar er algjörlega nauðsynlegt að hafa stór, öflug og vel þjálfuð slökkvilið, (björgunarlið) sérstaklega í ljósi breytinga á vörnum landsins. Kjölfestan í bráðaþjónustu við samfélagið er í slökkviliðunum. Það er því nauðsynlegra nú, við breyttar aðstæður í varnarmálum þjóðarinnar, en nokkru sinni áður að efla og stækka slökkviliðin hér á suðvesturhorninu.“

Þetta segir í ályktun 11. þings Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en það var haldið fyrir fáeinum dögum.

Mér finnst sérstök ástæða til að vekja athygli á þessu nú í tengslum við þá yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra að hann eigi sér þá draumsýn að Keflavíkurflugvöllur verði einkavæddur. Ég hefði haldið að menn stefndu í gagnstæða átt hvað þetta varðar og tækju öll þau frumvörp og allar þær hugmyndir sem snúa að því að einkavæða og markaðsvæða grundvallaröryggisþjónustu í landinu, hvort sem það er landhelgisgæsla, það hafa verið áform um að einkavæða hana eða hlutafélagavæða. Það hefur verið talað um — nú er dottið úr huga mér hvaða önnur áform voru uppi. Það var Landhelgisgæslan og það er núna Keflavíkurflugvöllur og ef ég hef það rétt eftir mun hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafa viðrað þá hugmynd í ræðu í Reykjanesbæ nýlega að hann sæi þann möguleika fyrir sér að slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli yrði hugsanlega rekið eða sæi það fyrir sér sem hluta af Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Sem sagt, menn eru á þeim buxum að taka þessa grundvallaröryggisþjónustu og setja hana út á markað. Þetta finnst mér alveg fráleitt og sýna alveg fádæma fyrirhyggjuleysi.

Það er ýmislegt annað náttúrlega sem lýtur að þessum skiptum. Hverjir eru eignaraðilar að flugvellinum og mannvirkjum á Keflavíkurflugvelli? Þarna er margt mjög óljóst. Sumt er í eigu Bandaríkjanna, annað í eigu Atlantshafsbandalagsins, NATO, og síðan er annað og væntanlega landið í eigu Íslendinga, en hverra? Hvað á ríkið? Hvað eiga sveitarfélög? Hvað heyrir til einstaklinga hugsanlega? Allt eru þetta þættir sem þarf að kortleggja. Við lögðum til að í stað þess að vísa öllum þessum þáttum til utanríkismálanefndar á óljósan hátt eins og gert hefur verið, verði skipuð þverpólitísk nefnd til að fara yfir þessa praktísku þætti málsins sem lúta að viðskilnaði hersins vegna mannahaldsins, vegna landsins, mengunar og annars slíks, vegna eignarhalds á landinu og vegna ýmissa verkefna sem óhjákvæmilega færast yfir á íslenskar hendur. Um þetta fluttum við þingmál og eigum enn eftir að fá því svarað hvers vegna ríkisstjórnin bregst ekki jákvætt við þeim tillögum okkar um þverpólitískt samstarf að þessum málum.



[16:45]Útbýting:

[16:45]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Eins og vænta má hefur víða verið komið við í þeirri umræðu sem nú er að ljúka. Það er í samræmi við uppleggið í ræðu minni að meginumræðuefni þessarar reglubundnu umræðu um utanríkismál hefur verið staðan í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar í kjölfar nýjustu tíðinda um varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þar er vissulega margs að gæta og að mörgu að hyggja eins og fram hefur komið í dag.

Eitt atriðið í þeim efnum eru atvinnumálin á Suðurnesjum. Þau eru náttúrlega sérmál sem ég tel að okkar efnahagslíf og hagkerfi muni fyllilega ráða við að leysa úr, eins og fram kom m.a. hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hér áðan, þó það kunni að taka einhvern tíma að leiða þau mál öll til lykta. Hér er ákveðið aðlögunartímabil á ferðinni en það er líka mjög mikilvægt að staðið verði þannig að þeim málum að sérhæfður starfskraftur glatist ekki og það verði hægt að ganga frá ráðningarmálum manna sem fyrst um leið og þessi mál skýrast öll.

Margt er hins vegar enn óljóst í þessum efnum og mun ekki skýrast fyrr en nánar liggur fyrir hvernig varnarsamstarfinu sjálfu verður fyrir komið í framtíðinni. Það er einmitt um það sem viðræðurnar milli Íslands og Bandaríkjanna snúast en þær munu halda áfram eftir fáar vikur eins og fram hefur komið af minni hálfu. Eitt af því sem er óljóst í því efni, sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi og ég hygg að fleiri hafi drepið á, er spurningin um ratsjárstöðvarnar. Það er auðvitað mjög mikilvægt mál. Bandaríkjamenn kosta reksturinn á þessum stöðvum. Þær eru mikilvægur hluti af loftvarnaeftirliti á Norður-Atlantshafi í þágu Bandaríkjanna, Íslands og annarra bandalagsþjóða en þær skipta reyndar líka miklu máli fyrir okkar flugumferðarsvæði vegna þess að þær gera kleift að reka það með hagkvæmari hætti en ella væri. Það er minna bil á milli flugvéla, þær geta farið tíðar um o.s.frv. sem skiptir máli í rekstrinum á flugumsjónarsvæðinu okkar. Því miður er ekki alveg ljóst hvernig þessu máli verður fyrir komið til framtíðar en ég tek undir að það er mjög brýnt að fá botn í það mál og við erum að vinna í því að reyna að fá svör og komast að niðurstöðu um þessar stöðvar.

Ég vil hins vegar segja það varðandi sjálfan varnarþáttinn í þessu að mér finnst það hafa komið fram í þessari umræðu, og mér finnst það mjög mikilvægt, að þrátt fyrir allt virðist svo vera að hægt sé að ná samstöðu um tvö grundvallaratriði milli þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi. Fjórði stjórnmálaflokkurinn hefur jafnframt lagt á það mikla áherslu í þeirri umræðu að aðgreina sig frá þeirri samstöðu, vill ekki vera með í henni. Það er að mörgu leyti alveg rökrétt og í samræmi við það sem áður hefur komið fram um þessi mál, ekki bara núna þessa dagana heldur um langa hríð. En þessi tvö atriði sem flokkarnir þrír virðast vera alveg sammála um eru aðildin að Atlantshafsbandalaginu og það að halda eigi áfram varnarsamstarfi við Bandaríkin á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Mér finnst það mjög mikilvægt að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Samfylking virðast vera sammála um og enginn hefur kannski undirstrikað það betur en hv. þm. Ögmundur Jónasson í áhuga sínum og ákafa við að draga fram sérstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Reyndar vil ég bæta því við að ég heyri ekki betur en Frjálslyndi flokkurinn sé sama sinnis og stærri flokkarnir þrír hvað þetta varðar. Þetta er náttúrlega mikilvægt.

Hins vegar verður síðan að láta á það reyna, og það er það sem varnarviðræðurnar snúast um, með hvaða hætti fyrirkomulag þessara mála verður í framtíðinni. Um það snúast viðræðurnar.

Ég vil þá aftur víkja að því sem ég gat um hér í andsvari fyrr í dag. Ég tel að það hafi verið snúið út úr ummælum mínum á þann veg að ég hafi sagt að Íslendingar ætluðu að láta Bandaríkjamönnum eftir allt mat á varnarþörf hér vegna þess að við hefðum ekki sérfræðiþekkingu í þeim efnum. Ég sagði að við gætum ekki gert hernaðarlegar varnaráætlanir vegna þess að við hefðum ekki sérfræðiþekkingu hvað það varðar. Það er málefni sem herforingjunum er alls staðar látið eftir, það er sjálft varnarskipulagið sem byggist svo auðvitað á pólitískum forsendum sem m.a. við setjum. (Gripið fram í.) Bókagjöfin skiptir engu máli í þessu sambandi og það er nú eiginlega ótrúleg tilviljun að þessar bækur, sem löngu var búið að ákveða að gefa, skuli hafa verið afhentar í gær. Ég saknaði þess reyndar að sjá engan fulltrúa frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við það tækifæri en það er kannski hægt að bæta úr því með því að Vinstri hreyfingin bregði sér í Þjóðarbókhlöðuna.

Í alvöru talað, virðulegi forseti, þá er náttúrlega mikilvægt að það er upplýst að í grunninn eru stóru flokkarnir þrír sammála um gömlu forsendurnar í þessu máli, þ.e. aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Hitt er úrvinnsluatriði sem nú er upp komið, hvernig við getum tryggt hér fullnægjandi varnir eða varnarviðbúnað við þessar breyttu aðstæður. Um það munu viðræðurnar snúast og ég geri mér góðar vonir um að við náum þar ásættanlegri lendingu eða niðurstöðu áður en langt um líður.

Ég ætla ekki að víkja frekar að einstökum atriðum öðrum. Ég hef ekki talað mikið um ESB-aðild Íslands, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti athygli á, og það er vegna þess að ég er nýbúinn að flytja ræðu um það á öðrum vettvangi, sem liggur fyrir á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, og tala þar að sjálfsögðu fyrir sjálfan mig og mitt ráðuneyti.

Ég vil síðan undirstrika það, vegna ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér áðan, að það sem ég hef sagt hér um rekstur á flugvellinum eru hugmyndir sem engar ákvarðanir hafa verið teknar um. Ég geri mér alveg grein fyrir því að skoðanir kunna að vera skiptar um það í hvaða formi eigi að reka sjálfan flugvöllinn. En eitt er að annast þar eðlilega stjórnsýslu í samræmi við skuldbindingar sem við höfum gengist undir, m.a. á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, og þær skyldur sem við höfum í því efni, og hitt er síðan hinn almenni rekstur á vellinum, þar á meðal á flugstöðinni og því sem henni tilheyrir. Alls staðar á nálægum flugvöllum er litið á slíkt sem atvinnurekstur og þess vegna á að búa því búning sem hæfir slíkri starfsemi að mínum dómi. Það er síðan til nánari útfærslu hvernig það verður best gert, hvernig það verður hagkvæmast, hvernig hægt er að koma því best fyrir gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum. Viðskiptavinir eru þá ekki bara farþegarnir, það eru líka flugfélögin og aðrir sem eiga leið um völlinn, en þetta tel ég að séu mál sem hljóti að vera hægt að finna niðurstöðu á áður en langt um líður. Þar er lykilatriði, eins og ég sagði hér í andsvari fyrr í dag, að ganga fordómalaust að verki en ekki hlaðinn fordómum eins og mér heyrist stundum hv. þm. Ögmundur Jónasson vera þegar kemur að tilteknum rekstrarformum sem eru bara tæki til þess að komast að góðri niðurstöðu en ekki markmið í sjálfu sér, tæki en ekki markmið.

Að öðru leyti vil ég þakka þingmönnum fyrir ágætar umræður sem hafa endurspeglað ákveðna hluti og ég get ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega óánægður með. Ég er auðvitað óánægður þegar snúið er út úr fyrir mér eða hermt upp á mig eitthvað sem ég hef ekki sagt. Það er nú eitt af því sem við búum við í þessum bransa, nóg um það. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.



[16:55]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra orðaði það eitthvað á þá leið að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vildi ekki vera með í mótun á stefnu um lausnir og leiðir til að tryggja varnir Íslands. Við teljum okkur eiga fullt erindi í þá umræðu þótt það sé alveg rétt hjá hæstv. formanni Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra að stóru flokkarnir þrír, ég held að hann hafi talað um það svo — og verður mér þá hugsað til stórra flokka og lítils málstaðar, það er nú ekki alltaf samræmi á milli stærðar flokka og málstaðarins — en að stóru flokkarnir þrír, og átti hann þá við Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu, væru sammála um gömlu forsendurnar. Þetta er alveg rétt.

Við teljum hins vegar að við stöndum nú á tímamótum og við eigum að endurskoða þessar gömlu forsendur til þess að tryggja okkur í nýjum tíma í framtíðinni. Þar er það okkar mat að öryggi Íslands yrði betur borgið utan hernaðarbandalaga en innan.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra um eitt atriði og það snýr að Miðausturlöndum og Palestínu. Það geri ég í ljósi ummæla í ræðu hans varðandi Hamas-samtökin og Arafat. Styðja Íslendingar eða íslenska ríkisstjórnin þá stefnu Ísraela að beita ríkisstjórn Palestínumanna aðhaldsaðgerðum, halda skattfé frá stjórnvöldum á meðan Hamas er við völd, styðjum við þetta? Eða ætlum við að mótmæla þessu og mótmæla jafnframt apartheid-múrnum sem verið er að reisa í Palestínu?



[16:57]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú kannski eðlilegra að tala um gömlu forsendurnar sem ég nefndi sem gömlu hornsteinana tvo í utanríkis- og öryggismálastefnu Íslands. Ég ætla að halda mig við það framvegis í umræðum um þetta en ég hins vegar vakti bara athygli á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur markað sér algjöra sérstöðu hvað þessa hornsteina varðar og vill ekki styðja sig við þá, ólíkt hinum flokkunum fjórum. Þar er sú sérstaða sem ég dró fram og ég hygg nú að þingmaðurinn harmi það ekkert að sú sérstaða sé fram dregin af mér eða öðrum.

Varðandi Palestínu og Ísrael vona auðvitað allir friðelskandi menn að það takist að leiða menn þar að samningaborði og til sátta. En ein forsendan fyrir því að slíkt geti gerst, miðað við úrslit kosninga á báðum þessum stöðum, er sú að Hamas-hreyfingin viðurkenni tilverurétt Ísraels og að hún hafni valdbeitingu og þeim aðferðum sem hún hefur beitt hingað til. Hvorugt hafa þeir viljað gera og þess vegna hafa Ísraelsmenn gripið til þess ráðs sem þeir hafa nú gripið til, sem vissulega er óyndisúrræði. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort það sé réttlætanlegt við þær aðstæður sem þarna eru núna. En aðalatriðið er það að báðir þessir aðilar gangi þannig til verks að þeir geti talað saman og að þeir geti komist að niðurstöðu sem hægt verður að lifa við og sem heimsbyggðin öll þráir að geti orðið.



[16:59]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert sérstaklega að halda uppi málsvörn fyrir Hamas-samtökin en í tilefni þeirra orða að menn gangi þannig til verks að þeir geti talað saman: Eiginkona leiðtoga Hamas er í hjólastól, lömuð, eftir árás ísraelska hersins á heimili þeirra. Hamas lýsti fyrir ári síðan einhliða yfir vopnahléi. Hamas er kjörið í lýðræðislegum kosningum. Nú er það þrándur í götu friðarviðræðna, áður var það Yasser Arafat. Sjá menn ekki hvað er að gerast?

Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað — nú er talað fjálglega um samþykktir Sameinuðu þjóðanna — um Ísrael. Palestína átti samkvæmt grænu línunni, sem dregin var eftir blóðuga styrjöld 1948–1949, að vera sem nemur 22%, rúmum fimmtungi, af gömlu Palestínu. Nú er hún komin innan við 10%, 9% sundurtætt. Og hernámsliðið heldur skattheimtum, Ísraelar innheimta skatta í Palestínu og þegar kosin eru stjórnvöld sem ekki eru þeim að skapi er peningunum haldið til baka. Síðan er talað um það að menn þurfi náttúrlega að koma þannig fram að þeir geti talað saman. Hvar er ábyrgðin, hvar liggur ábyrgðin? Ég bara spyr. Og ætla Íslendingar virkilega ekki að fordæma svona aðfarir apartheid-stjórnar, ofbeldisstjórnar, hernámsliðs? Ég bara spyr.

Það gildir mig einu hvort menn tala um gamlar forsendur eða gamalt grjót. En það er alveg rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það er greinarmunur, mikill munur, grundvallarmunur, á stefnu þeirra flokka sem horfa fyrst og fremst til hernaðarbandalagsins NATO um öryggi Íslands og hinna sem vilja (Forseti hringir.) leita nýrra leiða og tryggja öryggi Íslands utan hernaðarbandalaga.



[17:02]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örlítið meira um gamla stefnu og gamaldags stefnu. Í ræðu minni fór ég aðeins yfir nýjar hugmyndir sem stór hluti heimsbyggðarinnar er núna að opna eyru sín fyrir, þ.e. hugmyndir er lúta að þátttöku kvenna í friðaruppbyggingu í heiminum. Ég hefði vænst þess af hæstv. utanríkisráðherra að hann eyddi að minnsta kosti einu orði eða einni setningu í lokaræðu sinni á þessar hugmyndir og varð fyrir vonbrigðum með að hann skyldi ekki gera það. Mig langar því til vita hvort hæstv. ráðherra hafi einhver svör um hvort ekki sé kominn tími til að Íslendingar reyni að tileinka sér nýjar hugmyndir í þessum efnum, hugmyndir sem byggja á að yfirgefa hinar gömlu leiðir þar sem einungis er skoðað vopnavald, vopnaður friður, ógnaröryggi og þvílíkir hlutir sem hernaðarbandalagið NATO predikar, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna predikar, og sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt eftir í blindni.

Það er einmitt þetta sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur viljað leiða hér inn á sviðið og leiða inn í umræðuna og fær allt of lítil viðbrögð við. Það er auðvitað til skammar að stjórnvöld hér skuli alltaf ýta þeim málflutningi út af borðinu með því að brosa í kampinn og segja að við viljum ekki vera með. Sannleikurinn er sá að hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eru hugmyndir um að fara aðrar leiðir. Við fáum aldrei málefnaleg svör frá þessari ríkisstjórn um það hvort við höfum ekki talsvert til okkar máls.

Af hverju er það sem stjórnvöld vilja ekki ljá þessum nýju leiðum þanka? Það er vegna þess að menn eru hræddir, kannski hræddir við refsingu frá foringjanum handan við hafið. Kannski hræddir um að fá ekki að vera með í þessum leik sem er úreltur og gamaldags leikur sem byggir á ógnarjafnvægi og vopnavaldi.



[17:04]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar alltaf með sínum hætti um Atlantshafsbandalagið og á allt öðrum forsendum en flestir þingmenn. Reyndar má segja það um alla þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Atlantshafsbandalagið er náttúrlega varnarbandalag sem varð til af brýnni nauðsyn á sínum tíma og sem þjóðirnar í Mið- og Austur-Evrópu hafa þráð og keppst við að reyna að komast inn í og vera með í til að gæta hagsmuna sinna og verjast. Svo má búa til alls kyns orðaleppa um þær hugsjónir allar saman. Ég ætla ekki að blanda mér í það.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði um UNIFEM í fyrri ræðu sinni og ég hafði nú punktað hjá mér en mér láðist að nefna það, þá vildi ég bara að það kæmi fram að frá því í fyrra hefur framlag íslenska ríkisins til UNIFEM margfaldast. Ég hef beitt mér sérstaklega fyrir því og fengið sérstakt tilskrif frá UNIFEM á Íslandi í þakklætisskyni vegna þess. Ég tel að UNIFEM sé að gera mjög merkilega og góða hluti víða í heiminum og við eigum að reyna að leggja okkar litla lóð á þær vogarskálar eins og við gerum núna miklu víðar en áður í sambandi við ýmis verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra undirstofnana þeirra til að láta gott af okkur leiða.

Þetta vildi ég bara nefna. Ég man ekki tölurnar nákvæmlega, hvort þetta eru 20 millj. sem við erum að leggja í það, sem er mjög mikil aukning. En ég held að það komi allt í góðan stað niður þó svo ég deili kannski ekki öllum hugmyndum þingmannsins um hlutverk kvenna á vígvellinum eða ekki á vígvellinum í sambandi við þessi alþjóðamál. Ég er ekki alveg viss um að ég skilji alltaf nákvæmlega hvað hún er að fara í þeim efnum.



[17:06]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að ríkisstjórnin hefur hækkað framlag sitt til UNIFEM og það er sannarlega vel og á auðvitað að þakka það. Það er gott til þess að vita að ríkisstjórnin skuli vera að taka eftir því starfi sem unnið er hjá UNIFEM og ég veit að þeir fjármunir sem hafa verið látnir til þess starfs héðan koma í góðar þarfir og fara í góð verkefni.

Hins vegar tel ég að ríkisstjórnin megi kíkja betur t.d. á þann litteratúr sem UNIFEM gefur út. Af því að bókagjöfin frá því í gær kom hér aðeins til tals í frammíkalli hjá mér áðan þá finnst mér kaldhæðnislegt að sjá sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi koma með 200 bækur um hernaðarlegar varnir til íslensku þjóðarinnar á þessum tíma. Það er auðvitað kaldhæðnislegt að þetta skuli gerast einmitt núna þó að hæstv. utanríkisráðherra segi að það sé tilviljun. Ég er ekkert að ætla þessu neitt annað en að það sé tilviljun. En það er samt alveg ótrúlega kaldhæðnislegt að sjá þetta gerast nú.

Í lok þessarar umræðu er kannski rétt að brýna hæstv. utanríkisráðherra til að bæta þá í þetta bókasafn, að við sitjum ekki uppi með að háskólinn hafi kannski það eitt til málanna að leggja í varnar- og friðarmálum sem stendur í einhverjum amerískum bókmenntum, hvernig eigi að fara að. Þær aðferðir sem Bandaríkjamenn beita í þessum málum hafa nú ekki reynst vel. Þannig að ég ætla að vona að það sé hægt að koma rausnarlega til móts við háskólann eða þjóðina með því að setja inn í bókasafnið litteratúr um frið. Þar á meðal litteratúr sem UNIFEM hefur gefið út og Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út. Því auðvitað verðum við að sjá til þess að þarna sé ákveðinn ballans og nýju hugmyndirnar fái sama sess og ekki síðri en þær gömlu.



[17:08]Útbýting: