132. löggjafarþing — 102. fundur
 11. apríl 2006.
fullnusta refsidóma, 1. umræða.
stjfrv., 675. mál (flutningur sektarinnheimtu til Blönduóss). — Þskj. 991.

[02:30]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.

Frumvarpið er liður í flutningi verkefna á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana þess til sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins. Nánar tiltekið lýtur frumvarpið að breytingu á fyrirkomulagi hér á landi við framkvæmd innheimtu sekta og sakarkostnaðar á milli Norðurlandanna, en hingað til hefur hún farið fram fyrir milligöngu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Eins og kunnugt er hefur verið ákveðið að flytja innheimtu sekta og sakarkostnaðar á landinu í heild til embættis sýslumannsins á Blönduósi, sbr. 1. mgr. 70. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 49 17. maí 2005, þar sem segir að dómsmálaráðherra sé heimilt að ákveða að innheimta sekta og sakarkostnaðar verði á hendi eins lögreglustjóra eða annars aðila á landsvísu.

Þann 17. nóvember 2005 var skipuð undirbúningsnefnd sem hafði það hlutverk að undirbúa og skipuleggja uppsetningu innheimtumiðstöðvarinnar, og hefur nú verið ákveðið að innheimtumiðstöðin verði sett á fót í áföngum, þar sem gert er ráð fyrir yfirfærslu verkefna á tímabilinu frá apríl og fram í nóvember 2006.

Lagt er til að hið nýja fyrirkomulag á framkvæmd innheimtu sekta og sakarkostnaðar taki líka til innheimtu slíkra krafna á milli Norðurlandanna, en eins og áður segir hefur sú vinnsla hingað til farið í gegnum ráðuneytið, samanber lög um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[02:31]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég get verið stuttorður um þetta mál en hæstv. dómsmálaráðherra er búinn að gera grein fyrir efni frumvarpsins. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra í ljósi þess að hér er verið að fylgja eftir ákvörðun um að flytja þessa starfsemi á Blönduós, en það var rætt hér á sínum tíma að mig minnir: Gæti hæstv. dómsmálaráðherra rifjað upp hversu mörg störf þetta eru? Hvað verður um þá starfsmenn sem unnið hafa þessa vinnu í Reykjavík? Hafa þeir fengið önnur störf sambærileg? Þessu máli tengt, stendur til af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra að flytja fleiri verkefni út á land?



[02:32]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál önnur en að fagna því frumkvæði sem hæstv. ráðherra tók með flutningi á þessum verkefnum til sýslumannsembættisins á Blönduósi. Ég veit að þetta starf er allt komið í gang og vonast til að það byggist mjög hratt, eðlilega og vel upp.

Ég treysti því reyndar að hæstv. ráðherra, sem er þekktur fyrir það að taki hann að sér mál fylgir hann þeim eftir og keyrir þau áfram, hvort sem þau eru góð eða vond, ég treysti því að hann fylgi þessu máli rækilega eftir gagnvart því að þessi starfsemi byggist upp eins og væntingar standa til.



[02:34]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég hefði kannski átt að breyta þessu í hlutafélag og flytja það norður á Blönduós. Þá hefði gleði þingmannsins verið með öðrum brag hér. En það er rétt hjá þingmanninum að starfsemin hefur hafist á Blönduósi. Ég held að búið sé að ráða þar fjóra starfsmenn. Ég leit þar inn á laugardaginn og sá aðstöðuna og kynnti mér þau áform sem þeir hafa um að breyta húsnæði og öðru slíku þannig að þetta er komið af stað. Ég tel að í nóvember verði þetta komið í það horf sem það verður síðan í til frambúðar og þá verði þarna starfandi á milli 10 og 15 manns. Í sjálfu sér má segja að það sé ekki svo að verið sé að flytja fólk úr Reykjavík þangað norður heldur er verið að ráða fólk til starfa, m.a. var efnt til námskeiðs í skrifstofutækni sem 33 aðilar sóttu og síðan á að boða námskeið í bókhaldi fyrir fólk sem getur sinnt því. Þetta verkefni hefur vakið áhuga fyrir norðan og verður skemmtilegt að fylgjast með því hvernig það þróast.

Þeir sem hafa sinnt þessum verkefnum eru að segja má dreifðir um landið allt. Flestir í Reykjavík og þeir munu sinna öðrum verkefnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar það embætti tekur til starfa.

Það er athyglisvert þegar farið er ofan í þetta mál og það skoðað að útistandandi eru 1,7 milljarðar kr. í óinnheimtum sektum. Þá sjá menn að full ástæða var til þess annars vegar að taka á þessu máli og skoða hvernig þessari framkvæmd væri háttað og hins vegar að velta því fyrir sér hvort ekki ætti að flytja það til embættis sem þekkt er að því að standa vel að innheimtu sekta fyrir hönd ríkissjóðs. Vonandi tekst að innheimta alla þessa fjármuni. Ef þeir fara í gegnum einhvern sparisjóð á Blönduósi þá verður líka einhver vöxtur í þeim rekstri þar.

Varðandi fleiri verkefni þá hefur verið ákveðið að flytja bótanefnd sem er starfandi í Reykjavík til Siglufjarðar og að Lögbirtingablaðið verði gefið út frá Vík í Mýrdal, en í frumvarpinu um lögreglumálin, sem er til meðferðar í allsherjarnefnd, eru þessi verkefni tíunduð. Eins og ég svaraði í fyrirspurn á dögunum heldur ráðuneytið þessu ekki frekar að mönnum en að kynna að það sé tilbúið að stuðla að flutningi þessara verkefna út á landsbyggðina. Síðan er það sýslumannanna á hverjum stað að óska eftir að taka að sér verkefnin.

Við teljum nauðsynlegt að breyta lögum um þetta svo unnt sé að flytja þessa starfsemi með annarri innheimtu sekta á Blönduós. Ég vona að frumvarpið nái fram að ganga í vor þannig að þetta geti verið hluti af þeirri starfsemi sem er að þróast á Blönduósi.