132. löggjafarþing — 103. fundur
 11. apríl 2006.
almenn hegningarlög, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 712. mál (kynferðisbrot). — Þskj. 1048.

[18:37]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður er aðeins búinn að tapa þræði út af því sem gerst hefur hér í millitíðinni frá því ræða hv. þingmanns var haldin. En svo þráðurinn sé nú upptekinn þá rökstuddi hv. þingmaður með nokkuð yfirgripsmiklum hætti hvers vegna hún teldi sænsku leiðina ekki vænlega hér á Íslandi. Hún nefndi sem dæmi að aðeins Svíar hefðu tekið þessa leið upp. Aðrar þjóðir hefðu hafnað henni og nefndi hún Noreg og Danmörku í því sambandi.

Mig langar að það komi hér fram svo því sé til haga haldið að búið er að leggja fram stjórnarfrumvarp í finnska þinginu. Það er að öllum líkindum um það bil komið til afgreiðslu. Það er talið alveg víst að fyrir því sé þingmeirihluti. Gert er ráð fyrir því að ef Finnar samþykkja þetta frumvarp sitt fylgi Eystrasaltslöndin í kjölfarið.

Mér finnst mikilvægt að þetta sé sagt hér vegna þess að Finnland og Eystrasaltslöndin eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta við að stöðva mansalið sem kemur að hluta til frá Eystrasaltslöndunum og mikið til í gegnum Finnland inn til Skandinavíu.

Það hefur sýnt sig að sænska aðferðin við að banna kaup á kynlífsþjónustu er virkt meðal í baráttunni gegn mansali. Stúlkurnar koma yfir landamæri Finnlands og Svíþjóðar og til Noregs og það er sannarlega þess virði að beita öllum þeim ráðum sem við höfum til að reyna að stöðva það flæði og hefur sænska leiðin reynst affarasæl í þeim efnum. Það skiptir hins vegar máli að Svíar séu ekki einir. Það skiptir máli að Finnar taki upp sömu aðferð og einnig baltnesku löndin, Eystrasaltslöndin og þess vegna Noregur. Mér fyndist það sannarlega saga til næsta bæjar og til fyrirmyndar ef úr norðurálfu bærust þau boð að vændi og mansal sé óásættanlegt og til þess höfum við þetta öfluga tæki.



[18:39]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í þeirri nefnd sem við báðar áttum sæti í, starfshópi sem skilaði skýrslu til dómsmálaráðherra um mismunandi löggjöf um vændi á Norðurlöndum, að ýmsar þjóðir voru að velta þessum hlutum fyrir sér. Málið tafðist reyndar í nefndinni, m.a. vegna þess að verið var að skoða hvað aðrar þjóðir væru að gera, alla vega skildi ég þannig töfina á skilum nefndarinnar.

Við vissum af því að það voru ákveðnar hugleiðingar í gangi í Finnlandi. En við höfðum ekki fengið neina staðfestingu frá öðrum þjóðum um þeirra skref. Ekkert sem hægt var að festa fingur á.

Hins vegar breytir það því ekki að við Íslendingar munum taka okkar ákvarðanir sem byggjast á okkar eigin veruleika í þessum málum. Veruleiki okkar hér á Íslandi árið 2006 er allur annar en veruleiki Svía á árinu 1999. Við vitum að götuvændi og mansal voru verulegt vandamál í Svíþjóð á þeim tíma. Við vitum líka um þá umræðu sem var þá í gangi um ofbeldi gagnvart konum. Þetta varð kveikjan að því að ákveðið var að fara þessa leið í Svíþjóð.

Birtingarmynd vændis hér á Íslandi er allt önnur. Götuvændi er t.d. ekki okkar veruleiki. Í Svíþjóð er sagt að vændi sé ofbeldi karla gagnvart konum en þrátt fyrir skort á rannsóknum sjáum við að birtingarmyndin er önnur hér. Af þeim fáu rannsóknum sem til eru sjáum við að ungir strákar stunda vændi í meira mæli en ungar stelpur.

Við getum ekki fært hugmyndafræði sem gengur út frá einum veruleika yfir á allt annan veruleika. Þannig að við megum ekki fylgja því sem aðrar þjóðir gera án þess að vega og meta hvort það hentar þeim aðstæðum sem eru hér á landi.



[18:42]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að það hafi fyrst og fremst verið markmið Svíanna að koma í veg fyrir götuvændi. En það mátti merkja það af orðum hennar.

Það var verið að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi og það var fyrst og fremst kynbundið ofbeldi, ofbeldi gagnvart konum, en auðvitað líka ofbeldi gagnvart drengjum því vændi er ofbeldi hvort sem það eru drengir eða stúlkur sem selja sig.

Hv. þingmaður leggur áherslu á það að samkvæmt rannsóknum hafi komið í ljós að fleiri drengir en stúlkur undir 18 ára aldri selji aðgang að líkama sínum eða falbjóði sig. Þessar rannsóknir hafa verið skoðaðar gaumgæfilega af fræðimönnum. Það hafa verið skrifaðar um það lærðar greinar að líklegt sé, út af þessum niðurstöðum sem vissulega eru til staðar í fleiri en einni og fleiri en tveimur rannsóknum, að stúlkur meti það öðruvísi en drengir hvort þær eru að falbjóða sig eða taka við greiða gegn kynmökum eða ekki. Það er því ekki hægt að taka þessar rannsóknir sem blákaldar niðurstöður, á bak við þær eru mismunandi sjónarmið drengja og stúlkna í þessum efnum. Það þarf að rýna aðeins meira í þær en hv. þingmaður gerir.

Að lokum vil ég spyrja hv. þingmann hvaða augum hún líti þá tillögu sem er hér komin í frumvarpinu og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson segir að megi í sjálfu sér túlka sem lögleiðingu vændis. Ég hallast að þeirri skoðun hans. Ég vil spyrja hv. þm. Ástu Möller hvaða augum hún líti það. Ég vil spyrja hana hvort henni finnist verjandi að með þessu frumvarpi séu sett ákvæði um að ekki megi auglýsa sölu á vændi en það megi, að því er virðist, stunda það. Það er allt í lagi með þetta svo fremi að ég sjái það ekki. Haldið því frá augunum á mér og þá er í lagi að það sé til staðar.

Mér finnst misvísandi skilaboð og ekki góð skilaboð í þeirri grein í frumvarpinu.



[18:44]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður dembir á mig spurningum. Ég hef nú ekki nema tvær mínútur til að svara. En ég skal reyna að gera mitt besta.

Við ræddum áðan um aðstæður hér á landi, að þær væru aðrar en í Svíþjóð. Af því að hv. þingmaður talaði um mansal er það náttúrlega ljóst að aðstæður hér á landi til að stemma stigu við mansali eru allt aðrar en á Norðurlöndunum þar sem landamærin eru opin á milli landa.

Við erum með einn inngang inn í landið. Við erum með haf allt í kringum landið þannig að ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að aðstæður okkar eru allt aðrar. Það segir okkur enn frekar að við þurfum að velja leiðir sem við teljum bestar hverju sinni til þess að stemma stigu við mansali.

Varðandi rannsóknir um karla og konur, hverjir stundi vændi o.s.frv. Þrátt fyrir að ég hafi dregið fram, og það hefur ítrekað komið fram, bæði í skýrslu okkar og jafnframt í þeim rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar, þessa niðurstöðu set ég ákveðinn fyrirvara við hana. Við segjum það í okkar skýrslu að við teljum að það þurfi að rannsaka þetta atriði mun nánar.

Við höfum ekki nægilegar upplýsingar um vændismarkaðinn sem er hér í dag til að fara að taka svona drastískar ákvarðanir eins og hv. þingmaður vill gera.

Hvort verið er að lögleiða vændi? Ég sagði að ég gæti fallist á þá leið sem lögð væri til í þessu frumvarpi. En jafnframt teldi ég að ákveðin hætta væri á því að vændi yrði sýnilegra með þessu móti. Ég tel að í því sem við höfum verið að gera hingað til, þ.e. banna sölu á vændi, hafi falist ákveðin varnaðaráhrif sem ég hefði nú gjarnan viljað hafa fleiri orð um en get ekki.



[18:46]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Ég vil byrja á að fagna því að þetta ágæta frumvarp er komið fram og lýsa ánægju minni með þá vinnu sem Ragnheiður Bragadóttir prófessor hefur lagt í greinargerð og athugasemdir með frumvarpinu og þá rannsóknarvinnu sem innt hefur verið af hendi. Margar góðar og gagnlegar upplýsingar liggja til grundvallar frumvarpinu. Segja má, eins og hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir, að breytingarnar séu í fimm meginliðum. Til að eiga kost á að stytta mál mitt frekar get ég strax lýst stuðningi við þrjá megindrætti frumvarpsins hér og nú, þó með ákveðnum fyrirvara um þá vinnu sem eftir er í allsherjarnefnd, þ.e. þar sem frumvarpið kemur inn á fyrningarfrestinn í kynferðisbrotum gagnvart börnum annars vegar og hins vegar breytingin á svokölluðu vændisákvæði þar sem greinir á milli þeirrar afstöðu og tillögu sem gerð er í frumvarpinu og afstöðu minnar til þessara mála.

Það sem mér finnst ánægjulegast við frumvarpið eru breytingarnar sem gerðar eru á nauðgunarákvæðinu í 194. gr. og þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að fella niður 195. og 196. gr. Við eigum eftir að skoða nauðgunarákvæðið betur í allsherjarnefnd og þær breytingar sem eru lagðar til. Meginmálið er kannski að eins og verknaðaraðferðum brotsins hefur verið lýst hefur megináherslan verið lögð á ofbeldið tengt brotunum. En það sem er hins vegar þungamiðjan í þessum brotum, þ.e. brotin gegn kynfrelsi fólks, hefur í rauninni fallið í skuggann.

Aðaláherslan í þessum málum á að vera að þetta sé brot gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks varðandi kynlíf og frelsi þess og friðhelgi. Það er það sem er alvarlegast fyrir þolendur þessara brota. Þess vegna er í frumvarpinu núna, með breytingunum á þessum ákvæðum, mikilvægi þess undirstrikað að draga úr áherslunni sem verið hefur á verknaðaraðferðum og megináherslan hins vegar lögð á að kynmök við þolandann séu án samþykkis hans og þannig sé verið að brjóta gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi viðkomandi þolanda gagnvart kynlífi.

Ég vil lýsa mikilli ánægju með þetta og þessi breyting á ákvæðinu eins og hún er, er í takt við breytingar sem gerðar hafa verið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og meira í takt við þær áherslur sem eru í breskum og írskum hegningarlögum hvað þetta varðar.

Hins vegar voru ákvæðin í 195. gr. og 196. gr. sem var sérstaklega ætlað að veita aukna vernd þeim sem þau ákvæði taka til, en gerðu í rauninni ekki — mér finnst mjög í áttina að þau brot sem þar féllu undir séu núna felld undir nýtt nauðgunarhugtak eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Við hljótum líka að fagna því að verið er að þyngja refsimörkin við samræði eða önnur kynferðismök við börn yngri en 14 ára. Fyrningarfresturinn lengist einnig gagnvart þeim brotum og þetta verður lagt að jöfnu við nauðgunarbrotin fyrir. Þetta er enn eitt. Það er líka til bóta í frumvarpinu að verið er að lengja fyrningarfrestinn í kynferðisbrotum gagnvart börnum og er hann miðaður við 18 ár. En með því að verið er að hækka refsimarkið í þessu mun þetta auðvitað fyrnast á lengri tíma. Þetta er nú allt það sem ég er mjög sátt við í frumvarpinu og styð eindregið og eins almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni.

Hins vegar er ég síður sátt við að ekki skuli gengið lengra varðandi fyrningarfrest í kynferðisbrotum gagnvart börnum. Á síðasta þingi lá hér frammi þingmannamál, frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum þar sem gert var ráð fyrir að fyrningarfresturinn í kynferðisbrotum gagnvart börnum yrði afnuminn með öllu. Ég var þeirra skoðunar þá og er enn að það frumvarp hafi gengið of langt en taldi hins vegar og tel enn að mikil og sterk rök séu fyrir því að lengja frestinn í alvarlegustu kynferðisbrotunum. Því mikill munur er á refsihæð þessara brota og hversu alvarlegar afleiðingar þau hafa fyrir börn í það heila tekið.

Aðalathugasemdir mínar við frumvarpið lúta hins vegar að breytingunni á svokölluðu vændisákvæði. Mér fannst mjög athyglisvert, frú forseti, að lesa í gegnum athugasemdir Ragnheiðar Bragadóttur prófessors, sérstaklega þar sem hún rekur ítarlega helstu kosti og galla þess að leggja refsingu við kaupum á vændi. Þegar ég var búin að lesa þetta í gegn, bæði kostina og gallana eins og prófessorinn tínir þá hérna til, fannst mér svona hending ráða hver niðurstaðan yrði ofan á miðað við rökin sem hún færir.

Prófessorinn telur upp í fjórum liðum kosti þess að gera kaupin á vændi refsiverð. Þetta eru svo sem sömu kostir og sömu rök og við þrír hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson tíndum til í afstöðu okkar í svokallaðri vændisskýrslu. Ég ætla aðeins að fá að halda þeim hér til haga. Fyrstu rökin eru í rauninni þau að seljandi vændis sé illa settur félagslega og neyðist til að selja líkama sinn. En kaupandi vændis hafi val. Í þessu samhengi er lögð áhersla á þennan mikla aðstöðumun sem er á milli kaupanda og seljanda. Síðan það sjónarmið að líkami fólks eigi aldrei að vera söluvara. Með því að kveða á um það í hegningarlögum að refsivert sé að kaupa vændi þá erum við fyrst og fremst að leggja áherslu á það. Prófessorinn leggur líka áherslu á þau sterku siðferðislegu skilaboð til samfélagsins með að gera þessa háttsemi refsiverða.

Í öðru lagi leggur Ragnheiður Bragadóttir prófessor áherslu á almenn varnaðaráhrif þess að gera kaupin á vændi refsiverð sem geti leitt til að eftirspurnin eftir vændi minnki og síðan muni þá framboðið minnka í kjölfarið. Þetta er það sem hún tekur til.

Í þriðja lagi leggur hún áherslu á að ef eftirspurn eftir vændi minnki muni einnig draga úr mansali.

Í fjórða lagi þau rök að kaupandi vændis sem til stendur að ákæra sé viljugri til að bera vitni gegn vændismiðlara, ef þess er kostur að tekið verði tillit til samstarfsvilja hans við ákvörðun refsinga, samanber 9. tölulið 70. gr. hegningarlaganna.

Ragnheiður Bragadóttir gerir ítarlega grein fyrir göllunum líka, en mér finnst þeir mjög veigalitlir og vera léttvægir í þessu samhengi. Hún talar um litla reynslu af sænsku löggjöfinni. Heildarrannsókn hafi ekki farið fram og þá hlýt ég að spyrja: Hvenær almennt fer fram heildarrannsókn á afleiðingum nýrrar löggjafar? Ég minnist þess ekki svona í fljótu bragði að það sé alþekkt að slíkar rannsóknir fari fram.

Síðan nefnir hún að þó dregið hafi úr götuvændi í Svíþjóð séu vísbendingar um að vændi hafi færst í undirheimana með þeim afleiðingum að erfiðara sé að hafa eftirlit með því og veita þeim sem stunda vændi félagslega aðstoð. Þannig hafi staða vændismiðlara hugsanlega styrkst með því að kaupendur vændis verði ófúsari að bera vitni.

Þá segir, með leyfi forseta:

„Þótt mansal dragist saman í einu landi getur það þýtt samsvarandi aukningu í öðru landi.“ Þ.e. að mansal færist úr stað. Svoleiðis verður það auðvitað meðan þjóðir eru ekki allar með sömu löggjöfina að þessu leyti. Hún segir einnig: „Engin lausn er að flytja vandann til annarra landa heldur þarf samstillt átak þjóða til þess að taka á honum.“

En ég vil fyrst og fremst segja að við getum aldrei borið ábyrgð nema á eigin löggjöf. Eins og komið hefur fram í umræðunni hjá fyrri hv. þingmönnum hafa Svíar sett þessi lög. Í Finnlandi liggur fyrir stjórnarfrumvarp á þingi sem á eftir að afgreiða frá þinginu, en það er þó stjórnarfrumvarp. Maður hefur heyrt frá Eystrasaltslöndunum að þau muni síðan fylgja í kjölfarið með sambærilega löggjöf. Þetta dekkar töluverðan hluta af Norðurlöndum og nágrannalöndunum.

Það sem vakti sérstaklega athygli mína í athugasemdum prófessorsins er það sem hún segir, með leyfi forseta:

„Erfitt er að fullyrða nokkuð um hver almenn varnaðaráhrif lögfesting sænsku leiðarinnar mundi hafa, enda er ekkert vitað um það hverjir eru kaupendur vændis á Íslandi.“

Síðan segir hún:

„Hugsanlega fælir sænska leiðin frá þá kaupendur sem talist geta „venjulegir viðskiptavinir“, þ.e. þá sem kaupa þjónustu vændiskvenna sjaldan og stundum nánast fyrir tilviljun. Hins vegar er vafasamt að hún hafi áhrif á þá ofbeldisfyllri, sem hafa sterkari vilja til háttseminnar.“

Ég vil, frú forseti, fá að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra, í ljósi breytinga á þessu ákvæði í frumvarpinu, hvort hann hafi í hyggju að láta fara fram einhverjar frekari rannsóknir. Ef þetta eru rökin fyrir að málið sé ekki nægjanlega rannsakað í Svíþjóð og að rannsóknir séu ekki til á því hverjir séu kaupendur vændis, það séu jafnframt rök, hvort hugsunin sé þá sú, því við hljótum alltaf jafnt og þétt að skoða áhrif löggjafarinnar og breytingar, að ráðast í frekari rannsóknir á þessu.

Frú forseti. Þegar ég var búin að lesa í athugasemdunum rökin fyrir og gegn að gera kaupin refsiverð kom það mér á óvart að sjá hver niðurstaða prófessorsins var. Hún segir, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af því sem fram hefur komið er ljóst að ýmis sannfærandi rök hafa verið færð fram bæði með og á móti því að lögfesta hér refsiákvæði um vændiskaup. Lagabreytingar verða að taka mið af þjóðfélagsviðhorfum og aðstæðum hverju sinni. Því er nauðsynlegt að frekari rannsóknir fari fram á vændi á Íslandi, umfangi þess og eðli og hvernig best sé að taka á því, áður en lagðar eru til lagabreytingar í ætt við þá sem gerð var í Svíþjóð. Þá er það einnig verðugt rannsóknarefni hvað ræður því að vændi er svo lítt til meðferðar í réttarvörslukerfinu, ekki síst í ljósi þess að vitað er að það er stundað hér í einhverjum mæli.“

Í umræðunni áðan kom fram að samkvæmt frumvarpinu stendur til að fella úr hegningarlögunum að refsivert sé að selja vændi. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að það sé rétt og eðlilegt, enda ákvæðið allt að því aldargamalt og í raun vekur furðu að það skuli enn vera í íslenskum hegningarlögum miðað við hversu þjóðfélagið hefur breyst og ýmis viðhorf í þjóðfélaginu. Hins vegar kom það mér mjög á óvart þegar hæstv. dómsmálaráðherra fjallaði um þetta mál áðan að þessu sé stillt upp þannig að í stað þessa ákvæðis komi fram annað ákvæði, eða gerð tillaga um annað ákvæði, sem sé ætlað að draga úr sýnileika vændisins. Ég get ekki séð að það sé stóra hættan í öllum þessum málum hvort vændi er meira eða minna sýnilegt. Þá finnst mér aðrir hagsmunir, sem við hv. þingmenn töluðum fyrir sem deildum skoðunum í vændisnefndinni, mun sterkari vitandi það samkvæmt skýrslum sem hafa verið unnar á vegum dómsmálaráðuneytisins að þeir sem hafa verið að bjóða vændi á Íslandi eru alla jafna þeir sem hafa orðið undir í samfélaginu. Börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, ánetjast fíkniefnum og eftir atvikum fátækar konur frá Eystrasaltslöndunum eða einhverjum öðrum heimshlutum þar sem efnahagsleg staða manna er allt önnur. Þetta eru hagsmunir sem mér finnst vert að virða og vernda.

En það hvort vændið er sýnilegra eða ekki finnst mér ólíkt minni hagsmunir. En ég geri ráð fyrir að málið fái góða umfjöllun í allsherjarnefnd og síðan langa umræðu og ítarlega eftir að málið kemur úr nefnd.

Að endingu langar mig að segja eitt með tilliti til mansalsins. Ég las fyrirsögn í sænsku blaði sem fjallaði um umræðu í finnsku blaði um umræðu á finnska þinginu þegar málið var lagt þar fram fyrir tveimur árum. Fyrirsögnin var í þá veru að það væru tvær forsendur fyrir mansali. Önnur væri eftirspurn eftir vændi, eftir kynlífi til kaups. Hin væri fátækt í þessum nýfrjálsu ríkjum Evrópu.

Það eru því tvær leiðir til að draga úr mansalinu og sú sem er miklu nærtækari er með lögum, að reyna með almennum og sérstökum varnaðaráhrifum að draga úr þessari eftirspurn. Menn geta ekki endalaust talað þannig að það sé ekkert samhengi á milli mansals annars vegar, sem allir fordæma, og hegningarlagaákvæða um vændi hins vegar.



[19:02]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var spurður að því hvort ástæða væri til að rannsaka þessi mál frekar hér. Ég tel að þessi mál verði rannsökuð frekar og dómsmálaráðuneytið hefur á fáum árum sett tvo starfshópa í að fjalla um vændismálin. Áhugi lögfræðinga og félagsfræðinga á þessu sviði er vaxandi. Ég er sannfærður um að rannsóknir verði stundaðar í þessu efni. Ef það kemur til minna kasta að stuðla að því þá er ég síður en svo andvígur því að rannsakað verði frekar hvernig þessum málum er háttað hér á landi.

Ég veit hins vegar að þeim er allt öðruvísi háttað, og þarf engar rannsóknir til að sýna fram á það, en í Svíþjóð, Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum. Við höfum ekki við nein sambærileg vandamála að glíma í þessu efni og þær þjóðir, sérstaklega þegar litið er til mansals. Við höfum miklu betri tæki og miklu betri aðferðir heldur en þær til að hindra mansal við landamæravörslu okkar. Í því efni eigum við að leggja áherslu á það sem ég er að boða í frumvarpi um nýskipan lögreglumála, áhættugreiningu, greiningardeildir, og slíka starfsemi á vegum lögreglunnar. Það er úrræði sem við eigum að nýta til að koma í veg fyrir mansal í landinu og herða landamæravörslu. Það er úrræði sem við eigum að sjálfsögðu að nýta og miklu virkari úrræði en þær leiðir sem menn fara í Svíþjóð og hugsanlega í Finnlandi og öðrum löndum.



[19:03]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu svari hæstv. dómsmálaráðherra. Hann lýsir í svarinu vilja sínum til að rannsaka vændi nánar. En ég árétta að við búum að og eigum ákveðna rannsókn á þeim sem selja vændi hér á landi. Það er órannsakað, sem prófessorinn Ragnheiður Bragadóttir bendir á, hverjir eru kaupendur vændis á Íslandi. Ég get ekki annað en fagnað því að sú rannsókn eigi að fara fram.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta séu ekki rök fyrir því að fara ekki þá leið sem við höfum lagt til, að gera kaupin refsiverð. Ég árétta að ég hef ekki orðið þess vör, með löggjöf almennt, að fram fari einhvers konar heildarrannsókn á áhrifum löggjafar, hvorki á sviði refsiréttar né á öðrum sviðum löggjafarinnar, sem eru ein rökin fyrir að fara ekki þessa leið að mati prófessorsins.

En ég fagna, frú forseti, svari ráðherrans og þeim áhuga sem hann sýnir að vinna áfram í þessu máli.



[19:05]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Rannsóknir munu fara fram á þessu sviði af hálfu vísinda- og fræðimanna, bæði félagsfræðinga og lögfræðinga. Ég held að það sé tryggt að þessi mál verði rannsökuð áfram.

Ég tel hins vegar að Svíar séu í sömu sporum og lýst er í greinargerð prófessorsins. Þeir vilja gjarnan að þessi heildarúttekt fari fram á áhrifum þessarar löggjafar. Ég hef setið fundi með sænska dómsmálaráðherranum þar sem hann hefur verið spurður um áhrif löggjafarinnar og hann hefur sagt: Við vitum að þetta hefur gerst. Við vitum að það hefur dregið úr götuvændi. Við vitum að við höfum kannski betri stýringu varðandi mansalið en við vitum ekki um heildaráhrifin. Við viljum gjarnan fá þá niðurstöðu líka. Það er það sem prófessorinn vísar til. Ef þessi rannsókn af hálfu Svía lægi fyrir þyrfti ekki að orða þetta svona en hún liggur ekki fyrir. Svíar sjálfir telja að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera úttekt á því hvernig þessi einstæða löggjöf hefur tekist. Engin önnur þjóð í heiminum hefur tekið þetta í lög sín.



[19:06]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla í þessu samhengi, vegna orða hæstv. dómsmálaráðherra sem ég fagna enn og afstöðu hans til frekari rannsókna á þessu sviði, að árétta að markmið laganna í Svíþjóð, þegar lögin voru sett um að gera kaup á vændi refsivert, var fyrst og fremst að draga úr ofbeldi gegn konum. Markmiðið var ekki að draga úr götuvændi. Það var ekki markmið í sjálfu sér.

Önnur afleiðing af þessum lögum er sú að Svíþjóð þykir ekki jafneftirsóknarvert land fyrir þá sem stunda mansal, fyrir milliliðina, og það þótti áður. Það er ekki jafneftirsóknarvert og önnur Norðurlönd, hvað þá önnur Evrópulönd. Ég átti þess hins vegar kost á dögunum að hlusta á sænska dómsmálaráðherrann þar sem hann lýsti mikilli ánægju með árangurinn af þessari löggjöf. Ég man ekki eftir því í nokkuð ítarlegri ræðu hans að hann legði sérstaka áherslu á að það þyrfti að rannsaka þetta frekar.

En það er ýmislegt annað sem við þyrftum líka að rannsaka, m.a. kynferðisbrot gagnvart börnum. Það hefur orðið mikil fjölgun mála, fjölgun tilkynninga til lögreglu. Menn velta því fyrir sér hvort brotunum sé að fjölga eða kærunum. Þegar það kemur til tals þá yppa menn öxlum og enginn veit hvers vegna svo er. Ég legg meira upp úr því að fara í viðamiklar rannsóknir á þeim brotum og ástæðum þess að tilkynningum og kærum fjölgar en að rannsaka mismunandi kynhegðun milli landa. Ég held við getum að hluta til stuðst við erlendar rannsóknir á þeim hópi sem kaupir sér vændi. Ég held að það sé ekki svo mikill munur á kúnnahópnum sem slíkum, kaupandanum, eftir því hvar hann býr á Norðurlöndunum. Ég vil fá að leggja áherslu á það, frú forseti.



[19:08]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með þetta frumvarp, bæði hvað varðar efnislegar breytingar sem í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði á almennum hegningarlögum sem og frumvarpinu að öðru leyti, þ.e. hve vel það hefur verið undirbúið, hversu ítarlegar athugasemdir fylgja því og hvað greinargerðin hefur í alla staði verið vönduð.

Mig langar í upphafi máls míns að rifja upp að á síðasta ári var til umfjöllunar í allsherjarnefnd frumvarp til breytinga á fyrningarreglunni sem hefur komið mjög til umfjöllunar í umræðunni í dag. Við afgreiðslu á því máli, sem komst reyndar ekki á dagskrá þingsins í kjölfarið, var niðurstaða meiri hluta nefndarinnar á sama veg og lagt er til í þessu frumvarpi, þ.e. að fyrningaraldurinn er hækkaður upp í 18 ár í frumvarpinu, sem er hið sama og meiri hluti allsherjarnefndar lagði til fyrir um ári síðan.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar á þeim tíma beindi nefndin því til dómsmálaráðuneytisins að taka kynferðisbrotakafla hegningarlaganna til endurskoðunar. Það var síðan einungis nokkrum dögum, í mesta lagi vikum síðar, að dómsmálaráðherra hafði falið höfundi þessa frumvarps að semja frumdrög að frumvarpi um breytingar á tilteknum ákvæðum kynferðisbrotakaflans.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið hefur víða verið leitað fanga við samningu þess. Ekki verður annað sagt en að frumvarpið geymi, með athugasemdunum, gríðarlegum fróðleik og yfirgripsmikla samantekt á þeim atriðum sem máli skipta þegar þau atriði sem hér eru til umfjöllunar eru skoðuð. Í þessu efni verður ekki annað sagt en að allsherjarnefnd sem fær þetta frumvarp til umsagnar og meðferðar fái sérstaklega gott veganesti vegna þess hvernig búið hefur verið um allan undirbúning að málinu. Mér þykir líka ástæða að geta þess, til marks um fagleg vinnubrögð í ráðuneytinu, að drög að frumvarpinu skyldu kynnt á heimasíðu ráðuneytisins áður en málið var endanlega lagt fyrir þingið.

Að öðru leyti vil ég segja um greinargerðina með frumvarpinu að þar eru þau viðkvæmu atriði sem hér eru til umfjöllunar, kynferðisbrot gegn börnum, vændi, nauðgun og önnur brot sem hér er verið að fjalla um, dregin fram í dagsljósið og allar hliðar málanna skoðaðar gaumgæfilega. Farið er yfir meira eða minna öll sjónarmið sem maður þekkir úr umræðunni á Alþingi. Dregin er saman lagaþróunin á öðrum Norðurlöndum. Kannaðir eru kostir og gallar við að fara hinar ólíku leiðir.

Í þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag kannast maður við þessi sömu sjónarmið. Þeir sem hallast að annarri leið heldur en lögð er til í frumvarpinu tína beinlínis upp rökin sem er að finna í frumvarpinu, um aðra kosti í stöðunni.

Þetta er allt saman vegið og metið í frumvarpinu á mjög málefnalegan hátt og komist að niðurstöðu með afar sannfærandi rökum, að mínu áliti. Ég vil lýsa mig sammála öllum meginatriðunum í þessu frumvarpi þegar komist er að niðurstöðu um hvaða leið eigi að fara þegar tekist er á við vændi sem vandamál í þjóðfélaginu og hvaða úrræði við eigum að nýta okkur í refsilöggjöfinni vegna kynferðisbrota gegn börnum. Á fleiri stöðum en einum er komið inn á þau brot vegna þess að refsihámarkið fyrir kynferðislega áreitni gegn börnum er hækkað. Það leiðir til þess að kynferðisleg áreitni gegn börnum er brot sem fyrnist á lengri tíma en gildir samkvæmt hegningarlögum sem nú eru í gildi. Fyrningarfresturinn mun því ekki bara aukast um þessi fjögur ár, sem leiðir af reglunni um 18 ára viðmiðið. Af því að refsihámarkið er hækkað eykst fyrningarfresturinn í þeim brotum sérstaklega.

Frumvarpið eins og menn þekkja sem hafa kynnt sér það er upp á 50 síður. Efnisgreinar frumvarpsins eru þrjár blaðsíður en á 47 síðum er farið ofan í grundvöll þessara mála. Það segi meira en mörg orð um hversu vel hefur verið vandað til verksins.

Ég ætla ekki að flytja mjög langt mál en vil þó aðeins koma inn á nokkur atriði sem hafa verið áberandi í umræðunni í dag, m.a. um þá niðurstöðu sem hér er að finna um hvernig við eigum að taka á vændi í refsilöggjöfinni. Menn gagnrýna að ekki skuli farin sænska leiðin og vísa til að komið sé fram frumvarp í Finnlandi um að fara sænsku leiðina. Það eru í sjálfu sér engin ný tíðindi vegna þess að frumvarpið sjálft greinir frá því en eins og þar segir er óvíst um hver afdrif þess frumvarps verða í þjóðþinginu. Ekki hafa Danir farið þá leið eða Norðmenn. En við þá umfjöllun sem bíður okkar í nefndinni og hér á þinginu um vændismálin höfum við, auk þeirrar umfjöllunar sem er að finna í þessu frumvarpi, skýrslu vændisnefndarinnar. Því er úr nógu að moða þegar kemur að því að tína til sjónarmiðin um hvaða leið skuli farin í þessu efni.

Hér hefur verið talað um að lítið sé fyrir það gefandi að í frumvarpinu er leitast við að koma í veg fyrir að vændi sé sýnilegt í þjóðfélaginu. En það er líka ákveðið þjóðfélagsmein. Staðan er sú að jafnvel í dagblöðunum sem koma út á hverjum degi er hægt að bjóða líkama sinn til sölu án þess að lögreglan geti aðhafst á nokkurn hátt. Það er ekki sjálfgefið að viðkomandi sé að gera slíkt sér til framfærslu. Það kann að vera að aðstæður viðkomandi einstaklings séu þannig að hans háttsemi varði ekki við lögin eins og þau eru í dag.

Af þessari ástæðu er það mikilvægt að í frumvarpinu er lögreglunni fengið sérstakt tæki til að bregðast við þegar vændi er boðið opinberlega í auglýsingum. Ég tel að það sé sérstaklega mikilvægt skref til að vændi verði ekki sýnilegt. Ég tel að það hafi þýðingu í baráttunni gegn vændi.

Talað er um að hér sé verið að leggja það til að vændi verði lögleitt. Það stenst ekki að líta málið þeim augum. Um þetta er fjallað í löngu máli í frumvarpinu sjálfu og rökin fyrir þeirri leið sem hér er valin eru tínd til. Þar stendur það sjónarmið upp úr að sá sem býður líkama sinn til sölu þarf fyrst og fremst á félagslegum úrræðum að halda en ekki refsingu. Það eru þyngstu rökin fyrir því að sala vændis er ekki lengur refsiverð samkvæmt frumvarpinu.

Jafnframt er tekið mjög ítarlega á því í röksemdafærslu fyrir frumvarpinu hvers vegna það sé ekki líklegt til árangurs að velja þá leið að gera kaupin refsiverð. Þegar vændi er skoðað sem þjóðfélagslegt vandamál hljóta menn að reyna að komast að rótum vandans. Með sænsku leiðinni, svona einangraðri sem tiltekinni lausn, láta menn sig engu varða hvar rót vandans liggur. Það eru hin félagslegu úrræði sem langmestum árangri hafa skilað. Um það vitnar lögreglan og aðrir þeir sem um þessi mál hafa fjallað. Í tengslum við frumvarp um vændi sem áður hefur verið til meðferðar í allsherjarnefnd höfum við fengið fjölmarga aðila til að ræða við okkur á faglegum forsendum um þennan málaflokk. Eins og ég vék að hefur meira bæst í þann gagnabanka sem við getum leitað í til að viða að okkur fróðleik um þessi mál.

En það kemur fram hjá öllum þessum aðilum að það eru hin félagslegu úrræði sem mestu máli skipta. Mér þykir því einkennilegt hve mikil áhersla er lögð á hin siðferðislegu skilaboð sem felast í að gera kaupin refsiverð. Það má halda því fram að í því felist einhver siðferðisleg skilaboð. En felast ekki líka í því ákveðin siðferðisleg skilaboð að aflétta refsingunni af þeim sem býður fram líkama sinn til sölu? Mitt svar við því er: Að sjálfsögðu. Með því er undirstrikuð sú neyð sem viðkomandi er í og hversu óréttlátt það er að beita viðkomandi refsingu fyrir það sem hann gerir vegna bágra aðstæðna sinna.

Aðeins varðandi fyrningarfrest og kynferðisbrot gegn börnum. Ég tel að í þessu frumvarpi hafi verið færð fyrir því mjög sannfærandi rök. Þau eru á sömu nótum og meiri hluti allsherjarnefndar komst að í sinni umfjöllun í nefndaráliti frá því í fyrra og ég vék aðeins að í mínu máli. Það eru ákveðin prinsipp í refsilöggjöfinni sem hér er verið að reyna að varðveita. Að því leytinu til má segja að þau drög sem frumvarpshöfundur hefur skilað af sér fylgi þeim fyrirmælum að við endurskoðun lagaákvæðanna verði byggt á traustum refsiréttarlegum grunni og horft til íslenskrar lagahefðar.

Ég vil ekki að menn geri lítið úr mikilvægi þess að við sýnum ákveðna samkvæmni í því þegar við erum að hreyfa við refsilöggjöfinni. Það skiptir máli að við séum ekki með endalausar sérreglur hvað varðar fyrningu, refsihæfi einstakra brota o.s.frv. Það er mikil áhersla lögð á það í þessu frumvarpi sem að öllu leyti er í þessu samhengi faglegt og sannfærandi. Ég ítreka að ég er ekki síst ánægður með að þegar komist er að niðurstöðu um einstök álitaefni í þessu frumvarpi er það eftir að bæði sjónarmiðin hafa verið reifuð.

Þetta er nú allt sem ég vildi segja um þetta mál á þessu stigi. Ég ítreka ánægju mína með það góða veganesti sem allsherjarnefnd fær þegar hún fær þetta mál til umfjöllunar með þessu ítarlega rökstudda frumvarpi.



[19:21]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hv. formann allsherjarnefndar nokkurra spurninga. Hv. þingmaður heldur varla vatni yfir frumvarpinu og segist vera sammála öllum meginrökum þess.

Mig langar að spyrja: Koma einhverjar breytingar til greina af hans hálfu á þessu frumvarpi í ljósi þess sem hann sagði hér áðan? Þá er ég bara að hugsa um þá vinnu sem hefst núna í allsherjarnefndinni.

Í annan stað langar mig að spyrja hv. þingmann út frá siðferðislegu hliðinni. Finnst honum siðferðislega réttlætanlegt að hægt sé að kaupa líkama manneskju með þeim hætti sem vændiskaup eru? Er það siðferðislega rétt að það sé hægt?

Ef vændiskaup og vændissala eru í lagi, af hverju er þá ekki milligangan í lagi? Af hverju eru þá ekki auglýsingarnar í lagi? Ef við höfum löggjöfina þannig úr garði gerða að bæði salan og kaupin séu í lagi. Frumvarpið leggur það til að það sé hvort tveggja í lagi. Af hverju leggst þá hv. þingmaður gegn því að milligangan sé ólögleg eða auglýsingarnar?

Ég skynja ákveðinn tvískinnung varðandi þennan verknað. Menn vilja fordæma þennan verknað með því að banna auglýsingar á vændi en mönnum finnst í lagi bæði að kaupa vændi og selja. Hv. þingmaður talaði líka um að þetta sé ekki lögleiðing. Hvernig kemst hann að þeirri niðurstöðu í því ljósi að bæði salan og kaupin eru leyfileg samkvæmt frumvarpinu?

Hv. þingmaður benti á að það þyrfti að komast að rótum vandans. Er ekki hluti af rótum vandans einmitt eftirspurnin, þ.e. kaupandinn? Kaupandinn á valið. Hann velur hvort hann kaupir viðkomandi einstakling eða ekki. Væri það ekki langskynsamlegasta leiðin til að komast að rótum vandans, eins og hv. þingmaður vill, að ná kaupandanum og draga úr eftirspurninni?

Hvað varðar fyrninguna þá talar hann um að hún varði prinsipp í refsilöggjöfinni. Vill hv. þingmaður t.d. breyta hegningarlögunum í þá átt að þau ófyrnanlegu brot sem nú eru til staðar verði fyrnanleg, svo sem manndráp, landráð, mannrán, ítrekuð rán o.s.frv. (Forseti hringir.) til að halda í þetta meinta prinsipp sem hann kom að?



[19:23]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti hér ánægju minni með efnisatriði þessa frumvarps þegar komist er að niðurstöðu um hvernig við eigum að taka á því vandamáli sem vændi hefur verið í okkar þjóðfélagi. Í frumvarpinu er sænsku leiðinni hafnað. Það hefur verið sannfæring mín að það sé rétt að gera og mér finnst að í frumvarpinu hafi verið færð sannfærandi rök fyrir því hvers vegna sú leið er valin sem þar er gert.

Hvort það samræmist mínum siðferðislegu mælikvörðum að hægt sé að kaupa líkama manna, þá virðist hv. þm. Ágúst Ólafur vera haldinn þeirri blindni að einungis sé hægt að taka á þessu vandamáli með breytingu á refsilöggjöfinni. Þetta snýst ekki um það. Það eru fjölmargar aðrar aðgerðir sem stjórnvöld geta beitt til að taka á þeim vanda sem vændi getur verið. Með þeim aðgerðum eru þau að lýsa siðferðislegri vanþóknun sinni á stöðu þeirra sem notfæra sér bágar aðstæður fólks og á því félagslega vandamáli sem þeir sem bjóða líkama sinn til sölu eru í.

Það er kjarni málsins. Ég held að við þurfum að fara að beina umræðunni frá því hvaða siðferðislegu skilaboð Alþingi ætlar að fara að setja hér út með lagabreytingum og einblína frekar á vanda þeirra sem eru komnir í þá aðstöðu sem tengist vændinu. Það er miklu mikilvægara að mínu áliti.

Varðandi það hvort það komi til álita að gera breytingar á þessu frumvarpi þá er það að sjálfsögðu þannig. En ég er að lýsa ánægju minni með niðurstöðuna, um ákveðnar stórar spurningar sem velt er upp með því að hreyfa við þessum málaflokki. Að sjálfsögðu er engin ástæða til að útiloka breytingar sem við kunnum að reka okkur á í nefndarstarfinu að nauðsynlegt sé að gera. Hins vegar sé ég ekki fyrir mér neinar meiri háttar stefnubreytingar. Og varðandi fyrninguna er það meginprinsippið að alvarlegustu brotin séu ófyrnanleg og ég tel ekkert ósamræmi í að þeirri reglu sé (Forseti hringir.) viðhaldið þó að við séum með fyrningarreglu varðandi önnur brot.



[19:26]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir í svari sínu að þetta snúist ekki bara um refsilöggjöfina. Ég tók einmitt fram í ræðu minni að þetta snýst ekki bara um lagabreytingar. Ég lagði til að við þyrftum einnig að huga að félagslegum úrræðum. Það þarf ekkert að gerast hvort á annars kostnað.

En það er alveg ljóst að refsilöggjöfin getur haft áhrif. Hún hefur varnaðaráhrif. Hún gefur ákveðin skilaboð og hún getur dregið úr eftirspurninni. Ef við drögum úr eftirspurninni drögum við úr framboðinu.

Hv. þingmaður segir að við eigum ekki að einbeita okkur að siðferði heldur að vandanum. Vandinn liggur í að þetta þing treystir sér ekki til að senda þau siðferðislegu skilaboð að það sé rangt að kaupa líkama manneskju með þessum hætti. Þar liggur vandinn. Vandinn liggur líka í því að þetta þing treystir sér ekki til að segja að við eigum að einbeita okkur að svokölluðum rótum vandans sem er auðvitað kaupandinn. Það er engin sala án kaupanda.

Varðandi fyrninguna — hv. þingmaður talar um samkvæmni í refsilöggjöfinni og segir síðan að hann telji að alvarlegustu afbrotin eigi að vera ófyrnanleg. Nú er staðan sú að við höfum t.d. afbrot eins og ítrekuð rán og mannrán í þessum flokki. Telur hv. þingmaður að þau afbrot, ítrekuð rán, séu alvarlegri en kynferðisleg afbrot gegn börnum? Ég vona ekki og geri ekki ráð fyrir því. En af hverju eiga þá ekki kynferðisafbrot gegn börnum að vera í þessum flokki? Af hverju látum við gerandann njóta þess aðstöðumunar sem hann hefur í ljósi þess að hann brýtur á barni sem þekkir ekki leiðir til að leita sér aðstoðar með réttum hætti? Það er sérstaða þessara brota.

En lítum á þetta meinta prinsipp í refsilöggjöfinni. Prinsippið í refsilöggjöfinni er ekki meira en það að nú þegar eru til ófyrnanleg brot. Nú þegar er tekið tillit til barna í löggjöfinni. Það er nú ekki lengra síðan en á 9. áratug síðustu aldar að þá voru til mörg ófyrnanleg brot sem mörg voru með lága hámarksrefsingu. Þannig að hér er ekkert verið að brjóta neitt prinsipp. Hér er einungis verið að mælast til að þetta þing (Forseti hringir.) taki refsipólitíska ákvörðun og láti fara fram hagsmunamat, (Forseti hringir.) fyrningarrökin versus hagsmunir barnanna.



[19:28]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir nú býsna langt seilst að segja að vandinn sem tengist vændi snúist um að Alþingi treysti sér ekki til að senda út siðferðisleg skilaboð um hvernig fólk eigi að hegða sér. Ég veit ekki hvers konar ofurtrú þingmaðurinn hefur á þeim skilaboðum sem þingið sendir frá sér og ætlast til að það hafi síðan áhrif á mannlega hegðun. Þetta er ekki þannig að allt verði leyst með því annaðhvort að leyfa eða refsa fyrir einhver tiltekin brot. Ég ítreka að þegar kemur að vændi eiga að vera í forgrunni praktískar lausnir, forvarnir og félagsleg aðstoð við þá sem á henni þurfa að halda.

Auðvitað er þetta ekkert prinsippatriði varðandi fyrningu kynferðisbrota gegn börnum. Þetta snýst ekkert um að við viljum halda í prinsippið. Það er fjöldinn allur af öðrum rökum sem tíndur er til og það er einmitt vegna þess að við áteljum sérstaklega kynferðisbrot gegn börnum sem sérregla er smíðuð um í hegningarlögin, sérregla um fyrninguna sem þessi brot lúta. Það er sérregla sem nota bene er sambærileg sérreglunni sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa kosið að innleiða hjá sér. Engin þeirra hefur valið að fara leiðina sem hv. þingmaður leggur til, þ.e. að fella fyrninguna alfarið niður. Engin önnur þjóð hefur valið að fara þá leið. Ég tel að í frumvarpinu sé að finna afar sannfærandi rök og ákveðna samfellu sem mér finnst líka skipta máli þó hún sé ekki stóra prinsippið í þessum málaflokki. Það eru ákveðin refsipólitísk sjónarmið og hagkvæmnisrök sem koma hér til skoðunar. En auðvitað væri miklu þægilegra að standa hér upp sem málsvari þeirra sem hafa orðið fyrir þessum brotum og segja að það sé engin áhætta af því að aflétta fyrningunni. En málið er kannski ekki, þegar betur er að gáð, alveg svo einfalt.



[19:30]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson segir í ræðu sinni að sá sem falbjóði sig þurfi á félagslegum úrræðum að halda. Það er auðvitað hárrétt. Auðvitað þarf að grípa til félagslegra úrræða. Það þarf að efla þau úrræði sem eru til staðar því að þau eru nánast engin í dag. Þau eru allt of lítil og veik. Ég treysti þá á stuðning hv. þingmanns í þeim efnum, að sett verði í forgang að efla þau félagslegu úrræði sem þurfa að vera til staðar.

Hv. þingmaður talar um rót vandans. Hann segir: Er ekki rétt að við förum að rót vandans? Ég segi jú, auðvitað er það rétt. Hver er þá rót vandans? Í mínum huga og þeirra Svía sem settu lögin á sínum tíma og starfa eftir löggjöfinni í dag — nota bene, um 80% sænsku þjóðarinnar eru ánægð með sænsku löggjöfina. Það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum. Rót vandans í okkar huga, sem styðjum þessa leið, er sú að aldagömul viðhorf til kvenna lýsi sér í því að það skuli látið óátalið að líkamar kvenna skuli boðnir til sölu.

Viðhorf karla til kvenna, segi ég. Þetta er það sem kom fram hjá sænsku þingmönnunum sem settu löggjöfina á sínum tíma. Á því viðhorfi er alið, t.d. í tónlistarmyndböndum, ákveðnum tegundum fjölmiðla, sérstaklega ýmsum prentmiðlum og það birtist í eftirspurn eftir klámefni. Hvað er klám annað en mynd af vændi?

Við verðum að fara að setja samasemmerki á milli hlutanna og getum ekki verið skinheilög í þessu efni, sem mér finnst vera tilhneigingin í 12. gr. þessa frumvarps þar sem sagt er að ekki megi auglýsa kynlífsþjónustu eða kynmök við annan mann gegn greiðslu, það sæti sektum og fangelsi. Það er í mínum huga yfirlýsing um að það sé í lagi að þetta sé til bara ef það er ekki á síðum blaðanna. Mér finnst tvískinnungur í þessu máli og mér finnst þetta feimni eða hræðsla við að horfast í augu við rætur vandans.



[19:33]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég einfaldlega tel mig hafa hafnað þessum sjónarmiðum áður. Þetta eru sömu sjónarmiðin og hafa verið í umræðunni, þ.e. að gera þurfi breytingar á refsilöggjöfinni til að koma því sjónarmiði að hjá almenningi að eitthvað sé að því siðferðislega að sækjast eftir kaupum á líkama annarrar manneskju. Ég tel að það þurfi einfaldlega ekki breytingu á refsilöggjöfinni til að fólk átti sig á þessu. Ég tel að allur meginþorri almennings sé þessarar skoðunar. Það er bara þannig. Við þurfum ekki að breyta refsilöggjöfinni til að senda út skilaboð um hvernig okkur þykir almennt rétt að fólk hagi sér varðandi einstök mál, það bara er ekki þannig.

Hv. þingmaður getur treyst á stuðning minn við að auka félagsleg úrræði, sé sýnt fram á að þau komi að gagni. Ég tel að það eigi fyrst og fremst að nýta þau. Hv. þingmaður er í hópi þeirra sem hefur fyrst og fremst talað fyrir sænsku leiðinni. Ég hef frá upphafi þeirrar umræðu átt afar erfitt með að skilja hvers vegna menn líta á þá leið sem einhverja töfralausn. Menn tala um sænsku leiðina eins og hún sé hin heilaga ritning og hin eina sanna lausn í glímunni við vændi í heiminum. Það eru bara ekki til nein mótrök fyrir sænsku leiðinni. Þeim er bara öllum hafnað þvert á línuna. Þetta er ekki málefnaleg nálgun á því sem við erum að fjalla um. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að við erum ekki eina þjóðþingið sem hefur velt því fyrir sér að taka upp sænsku leiðina. Það hafa aðrir gert, eins og ég hef bent á, og komist að sömu niðurstöðu og við.

En til þess að viðkomandi þingmenn, sem aðhyllast þá leið, eigi einhverja vonarglætu þá er þó í þessu frumvarpi sagt að enn sem komið sé ekki komin nægilega góð reynsla af sænsku leiðinni og henni er því að því leyti (Forseti hringir.) til ekki fullkomlega hafnað til allrar framtíðar.



[19:35]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í þessum andsvörum kristallast sá ágreiningur sem áður hefur verið í umræðum um málið hér í þingsal og innan allsherjarnefndar þegar við höfum fjallað um þessi mál. Ég sé ekki að við eigum neitt auðveldari vegferð fyrir höndum í nefndinni en áður. Ég held að við eigum eftir að takast á um þessi grundvallaratriði.

Í lokaandsvari mínu við hv. þm. Bjarna Benediktsson vil ég einungis segja þetta: Mansal heyrir til skipulagðri glæpastarfsemi sem veltir orðið álíka miklum upphæðum í veröldinni og vopnasala og eiturlyfjasmygl. Samfélag þjóðanna hefur séð ástæðu til að gera um það alþjóðlegan samning sem kallaður er Palermo-samningurinn til að reyna að takast á við hina skipulögðu glæpastarfsemi í verslun með manneskjur. Það er óásættanlegt í samfélagi þjóðanna að látið skuli viðgangast að konur og börn gangi kaupum og sölum til kynlífsþjónustu, ekki síst á Vesturlöndum, jafnvel í okkar eigin landi. Þess vegna verður að beita öllum þeim aðferðum sem tiltækar eru til að stemma stigu við slíkum glæpum. (Gripið fram í.)

Því miður hefur ríkisstjórn Íslands ekki séð ástæðu til að lögleiða Palermo-samninginn þótt við séum búin að undirrita hann og það standi til að færa hann í íslensk lög. Mér fyndist sómi að því að innleiða sænsku leiðina, sem hefur reynst virkt tæki í baráttunni gegn mansali þótt ekki væri nema til þess að gefa út yfirlýsingu til stuðnings Svíum í þessum efnum, sem hafa verið brautryðjendur og farið gegn almenningsálitinu, sem hefur verið sterkt. Það hefur verið tregða í gangi við að ráðast gegn kaupendum vændis og verið feimni eða hræðsla við að tala við þá sem búa til eftirspurnina eftir konum og börnum sem seld eru mansali á milli landa. Mér hefði fundist sómi að því að Íslendingar gengju fram fyrir skjöldu og segðu við Svía: Við stöndum með ykkur. Við lögleiðum líka sænsku leiðina af því að við viljum að úr norðurálfu komi þau skilaboð að það sé ekki ásættanlegt að konur og börn gangi (Forseti hringir.) kaupum og sölum í þessum tilgangi.



[19:37]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til viðbótar varðandi sænsku leiðina þá er í sjálfu sér skiljanlegt að Svíar skuli almennt ánægðir með sænsku leiðina. En þar í landi var götuvændi sérstakt vandamál. Það er ekkert skrýtið að kaupendurnir hafi hlaupið í felur þegar búið var að innleiða í refsilöggjöfina sérstakt ákvæði sem bannar beinlínis kaupin og gefur lögreglunni veiðileyfi á þá þegar þeir gefa sig fram.

Vandinn við þetta atriði er kannski sá að það eru vísbendingar um að vændið eigi sér enn stað. Þegar við skoðum tölfræðina, um hve mörg mál hafi verið upplýst og afgreidd af lögreglunni og yfirvöldum á grundvelli þeirrar lagabreytingar sem þarna er um að ræða, eru það sorglega fá tilvik miðað við stærðina á vandamálinu sem við er að etja og umfang vændisstarfseminnar.

Hér er mansalið gert að umtalsefni. Eins og hv. þingmaður veit höfum við á umliðnum árum innleitt í refsilöggjöfina sérstök ákvæði til þess að sporna við mansali. Það hefur verið gripið til sérstakra aðgerða og eins og hv. þingmaður réttilega benti á tengist mansalið yfirleitt skipulagðri glæpastarfsemi. Skipuleg glæpastarfsemi er einmitt nákvæmlega sama orðið og notað er í öðru frumvarpi sem liggur hér fyrir þinginu þar sem fjallað er um greiningardeildir. Það hefur aldeilis heyrst hljóð frá stjórnarandstöðunni vegna greiningardeildanna sem einmitt er ætlað að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og skila áhættumati út af þeim. En miðað við þau orð sem hér féllu um nauðsyn þess að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi treysti ég því að hv. þingmaður hafi ekki út á það að setja að ríkislögreglustjóra verði veittar auknar heimildir til að gera það áhættumat sem þarf til að sporna við þeim vanda sem skipuleg glæpastarfsemi er, hvort sem þar er um að ræða fíkniefni, mansal eða aðra starfsemi sem flýtur yfir landamæri og við höfum orðið vör við í auknum mæli hér á landi.