132. löggjafarþing — 103. fundur
 11. apríl 2006.
jarðalög, 1. umræða.
stjfrv., 739. mál (undanþága frá auglýsingaskyldu, tilkynningarskylda til sveitarfélaga o.fl.). — Þskj. 1075.

[21:15]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja fyrir mig að ég er farinn að hlakka til páskanna. (MÁ: En sumarsins?)

Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1075, frumvarpi til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004. Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á núgildandi jarðalögum, nr. 81/2004, sem leystu af hólmi eldri jarðalög. Hin nýju jarðalög færðu löggjöf um jarðir inn í nýja öld og breyttu umhverfi landbúnaðarins. Undirbúningur að gerð nýju jarðalaganna var allur hinn vandaðasti og margir aðilar tengdir landbúnaði veittu umsagnir. Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í meðferð landbúnaðarnefndar Alþingis. Í því frumvarpi sem hér um ræðir er stefnt að því að bæta jarðalögin með því að auðvelda framkvæmd þeirra en frumvarpið felur ekki í sér neinar verulegar efnisbreytingar á ákvæðum laganna.

Í 10. gr. jarðalaga segir að ekki þurfi að tilkynna um eigendaskipti þegar lögaðilar eiga jarðir. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að undantekning þessi verði felld brott. Í frumvarpinu er lagt til að það verði gert að sérstöku skilyrði að hnitasettur uppdráttur fylgi umsókn um stofnun nýs lögbýlis er sýni á ótvíræðan hátt legu umrædds lands.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að fellt verði niður undantekningarákvæði 3. mgr. 38. gr. jarðalaga, um auglýsingaskyldu við sölu á leigulóðum, jörðum og jarðahlutum í þeim tilvikum þegar leigutaki hefur haft land á leigu í a.m.k. 20 ár og á eigin kostnað lagt í verulegar ræktunarframkvæmdir á landinu og þannig aukið verðmæti þess umtalsvert.

Ástæða þess að ég legg til þessa breytingu er sú að túlkun ákvæðisins hefur reynst erfið þar sem orðalagið „verulegar ræktunarframkvæmdir“ er einkar óljóst og matskennt og sama má reyndar einnig segja um orðalagið að framkvæmdir hafi „aukið verðmæti lands umtalsvert“. Þess ber að geta að sú skylda hvílir almennt á stjórnvöldum að gæta jafnræðis við ráðstöfun eigna ríkisins eins og umboðsmaður Alþingis hefur lagt sérstaka áherslu á. Taka verður fram að með frumvarpinu er ekki verið að útiloka sölu leigulands til leigutaka án undangenginnar auglýsingar ef sérstök rök standa til þess að óska slíkrar heimildar Alþingis.

Í núgildandi ákvæði 2. mgr. 39. gr. er mælt fyrir um það að við ákvörðun samkvæmt 1. mgr. greinarinnar um hvaða ríkisjarðir skuli ekki selja skuli landbúnaðarráðuneytið leita umsagnar viðkomandi fagstofnana ríkisins eftir því sem við á. Landbúnaðarráðuneytið fer með forræði ríkisjarða nema undantekningar séu á því gerðar með lögum. Slíkar undantekningar eru allnokkrar og er því fjöldi jarða sem aðrir ríkisaðilar hafa forræði yfir. Ég tel óeðlilegt að landbúnaðarráðuneytið leiti umsagnar vegna þeirra jarða sem ráðuneytið hefur ekkert með að gera. Af þessum sökum er lagt til í 4. gr. frumvarpsins að viðkomandi forráðaaðili beri umsagnarskylduna en ekki landbúnaðarráðuneytið.

Í 5. og 6. gr. frumvarpsins legg ég til að auknir verði möguleikar óðalsbænda til þess að veðsetja jarðir sínar til mannvirkjagerðar eða annarra varanlegra endurbóta á óðalsjörð. Óðalsjarðir eru sérstakt eignarform og eiga sér langa sögu bæði hérlendis og á Norðurlöndum. Af 42. gr. jarðalaga leiðir að eignarformið mun hverfa úr íslenskri löggjöf á nokkrum áratugum með fráfalli núverandi óðalsbænda og maka þeirra. Óðalsjarðirnar erfast eftir almennum reglum.

Samkvæmt núgildandi lögum geta óðalsbændur einungis veðsett óðalsjörðina til tryggingar greiðslu framkvæmdarlána frá Lífeyrissjóði bænda eða Orkusjóði. Áður var Lánasjóður landbúnaðarins en nafn hans var fellt brott með lögum frá árinu 2005 sem veittu heimild til sölu sjóðsins. Sú breyting skerti til muna möguleika óðalsbænda til lántöku á hagstæðum kjörum. Ég tel að þessi breyting feli í sér réttarbót fyrir óðalsbændur og geri þeim kleift að standa jafnfætis öðrum bændum landsins við öflun lánsfjár til framkvæmda og uppbyggingar hjá hverri þeirri lánastofnun sem þeir kjósa að eiga viðskipti við.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu og athugasemda með frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.



[21:21]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér varð bylt við undir ræðu hæstv. ráðherra. Er hugsanlegt að skilningarvitin hafi brugðist mér að þessu sinni? Heyrði ég rétt, að hæstv. landbúnaðarráðherra væri að beita sér fyrir lagabreytingum sem leiði til þess að óðalsjörðin muni hverfa sem hugtak úr íslenskum lögum? Fyrr átti ég á dauða mínum von en því að þessi ágæti hæstv. landbúnaðarráðherra, sem alltaf hefur verið dygg stoð fyrir allt sem er gamalt og gott, skuli vera forkólfur að slíkri breytingu. Ég dreg mjög við mig að lofa hæstv. ráðherra stuðningi við þetta. Ég tel að óðalsbóndinn sé tignarheiti sem fylgt hafi landbúnaði á Íslandi frá upphafi sögunnar. Mér er mjög til efs að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi nokkurn sögulegan rétt til að verða sá maður sem ýtir þessu fyrir ætternisstapa.

Á hinn bóginn langar mig að spyrja: Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra, sem alltaf hefur barist fyrir byggð og því að jarðir og land þjóðarinnar væru í byggð, skuli ekki nota ferðina, fyrst hann á annað borð er að breyta jarðalögum, og beita sér fyrir breytingum sem girða fyrir að auðkýfingar í mínu kjördæmi fari ekki sem logi yfir akur og kaupi upp jarðir um allt land og komi í veg fyrir að þeir sem vilja festa rætur í moldinni geri það? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hann hefur ekki beitt sér fyrir breytingu til að koma í veg fyrir þessa svakalegu þróun sem hefur átt sér stað undir forustu hans? Hann hefur reyndar ekki beitt sér fyrir því en hann hefur látið það átölulaust, þrátt fyrir allt það sem hann hefur sagt um vilja sinn til að land sé byggt og til að efla hag og rétt smábænda og afkomenda þeirra.



[21:23]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað óðalsjörðina varðar þá er hún leifar af hinu gamla konungsríki, konungshugsjóninni. Elsti sonurinn tók við óðalinu og margar þessar jarðir hafa síðan verið í fjötrum ættardeilna og átaka. Það er ekki víst að elsti sonurinn vilji búa o.s.frv. og þær hafa því verið illa settar í löggjöfinni og eru úreltar í löggjöfinni. Við stofnuðum lýðveldi 1944 og það hefur tekið við.

Hins vegar er ég sammála hv. þingmanni um að við skulum tala um óðalið og óðalsjörðina, það er tignarlegt nafn. Óðal Brúnastaðamanna eru t.d. Brúnastaðir, mikil óðalsjörð en lýtur almennum rétti og börnin öll jöfn að því að geta tekið þar við búi svo dæmi séu nefnt.

Hvað varðar hitt, með auðkýfingana, stóð ég nú frammi fyrir því þegar ég tók við landbúnaðarráðuneytinu fyrir sjö árum að þá voru jarðir ekki verðmætar eignir á Íslandi. Margur fór fátækur frá sínu ævistarfi. Nú er sveitin í tísku og jarðir seljast dýrt, jafnvel svo að okkur sundlar. Íbúðarverð í Reykjavík norður hefur á einu ári hækkað um 45%. Jarðir hafa hækkað mikið og eru mjög eftirsóttar í dag.

Ég hef talað um að fara yfir málefni þeirra sem eru í raðuppkaupum en ég fagna öllum þeim, bæði ríkum og fátækum, sem hafa viljað eignast land og setjast að í sveitinni. Þetta er nýtt ævintýri og þá þróun má ekki stöðva. En ég lofa hv. þingmanni hins vegar því að farið verður yfir það hvort menn séu að kaupa landið til að leggja jarðirnar í eyði. Það væru skemmdarverk. Ég veit að margir þeirra sem keypt hafa jarðir eru líka að byggja upp mikið starf. Það verður að vanda sig í allri þeirri yfirferð og það mun ég auðvitað gera með landbúnaðarnefnd og Alþingi á næsta þingi.



[21:25]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að núa hæstv. landbúnaðarráðherra um nasir þeim örlögum sem Framsóknarflokkurinn horfist nú í augu við. Hann á sennilega sístan þátt í þeim. En ekki undrar mig að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli vera í flokki sem er að tapa fylgi sínu á landsbyggðinni meira en áður þegar hann fer í fylkingarbrjósti þeirra sem vilja leggja af óðalstignina. Ég er hissa á því. Aldrei átti ég von á að þessi hæstv. ráðherra mundi gera það en lengi skal manninn reyna. Það kann að vera í takt við tímans flaum og kannski er ekkert sem getur snúið því, það kann að vera rétt hjá hæstv. ráðherra.

Ég varð hins vegar fyrir meiri vonbrigðum varðandi svar hæstv. ráðherra við síðari spurningu minni. Við vitum að það er fólk sem fer um landið í krafti nýfengins auðs og kaupir upp jarðir. Sjálfsagt er að menn geri það og sjálfsagt er að gleðjast yfir því að landspildur bænda skuli verðmætari en áður. En þetta er gert beinlínis í þeim tilgangi að festa sér hlunnindi og ekki til að byggja upp, í fæstum tilvikum. Við höfum dæmi um það, sem við höfum lesið um í blöðum, að menn séu að kaupa upp fjölmargar jarðir og gætu aldrei staðið undir þeirri kvöð að byggja þær upp þótt sumir geri það í einstökum tilvikum.

Þó að ég hafi glaðst yfir verðþróun varðandi jarðnæði bænda, sem gerir þeim auðveldara um vik að bregða búi ef svo fer, er þróunin mér ekki að skapi. Hún veldur því að jarðir komast í hendur manna sem ætla sér ekki að rækta jörðina eða byggja þar neitt sérstakt upp, manna sem t.d. eru að slægjast eftir því að eignast vatn, en hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því með öðrum ráðherrum að nýtingarréttur á vatni var gerður að séreignarrétti. Þar með voru búin til hlunnindi sem verða verðmæti í framtíðinni. Þetta er ástæðan.



[21:27]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég minnist þess frá því er vatnalögin voru til umræðu að hv. þingmaður sagði úr þessum stól að sú lagasetning mundi engin áhrif hafa, og var þar skynsamur og framsýnn eins og í mörgu öðru. Það munu allir finna að vatnið er nægt á Íslandi og frjálst og enginn sá eignarréttur á því að menn muni hamla öðrum um vatn. Það er bara pólitískur áróður.

Það eru ekki bara þeir sem bregða búi sem hafa hag af þróuninni. Segja má að þeir sem eiga landið og fjárfesta hafi bæði betri veð og meiri möguleika, geta þess vegna selt hluta af jörð sinni og látið aðra byggja þar nýbýli sem hefja starfsemi. Þetta hefur gjörbætt hag sveitamanna og breytir sveitinni. Við sjáum þar miklar breytingar sem mönnum finnast sárar í svipinn en það er gríðarlega gaman að sjá nýja atvinnustarfsemi ná fótfestu. Þar er íslenski hesturinn en hrossabúgarðar munu verða fleiri en kúabú áður en varir. Þar er fólk að gera góða hluti í íslenskum sveitum. Það er þáttur í því að menn sækjast eftir landi.

Hvað varðar hlunnindin þá hafa þau alltaf verið eftirsótt af auðugum mönnum. Við munum Thorsarana og við munum fleiri og fleiri sem keyptu upp lönd. En bændur eru sem betur fer fastheldnir á sínar jarðir og ættirnar tryggar þannig að menn sitja fast. Við skulum ekki hafa svo miklar áhyggjur af því. En ég hef lofað bæði búnaðarþingi og Alþingi að fara yfir þessi mál faglega og grípa þar ekki til neinna úrræða nema að vel athuguðu máli. Sveitin er í mikilli sókn, er vinsæl í dag og að mörgu leyti í miklu betri stöðu en fyrir fimm eða tíu árum.

Örlög Framsóknarflokksins eru kannski svipuð og Alþýðuflokksins 1995 eða 1971. Eftir langt og gjöfult samstarf við Sjálfstæðisflokkinn virðist fylgi okkar ekki mikið. En ég er sama sinnis og hv. þingmaður var 1995, (Forseti hringir.) að það er alls ekki sanngjarnt.



[21:29]
Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var orðin fróðleg umræða og hefði gjarnan mátt vera áframhald á henni.

Frumvarpið sem hér er til umræðu er að ég held að flestu leyti til bóta. Þó verð ég að viðurkenna að hjá mér vakna spurningar varðandi 4. gr. En samkvæmt núgildandi lögum skal landbúnaðarráðuneytið leita umsagnar viðkomandi fagstofnana ríkisins um hvaða ríkisjarðir skuli ekki selja. Landbúnaðarráðuneytið fer með forræði ríkisjarða nema undantekningar séu á því gerðar með lögum, sbr. 33. gr. jarðalaga. Í athugasemdum segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er ákvæðið orðað á almennari hátt svo að aðrir forráðaaðilar en landbúnaðarráðuneytið beri einnig samráðsskyldur samkvæmt ákvæðinu en slík skylda sé ekki lögð á ráðuneytið vegna jarða sem það hefur ekki forræði yfir.“

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að um töluvert margar jarðir væri að ræða. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort fjöldi þessara jarða sé þekktur og þeirra forráðaaðila. Þurfa þeir þá undir engum kringumstæðum að hafa samráð við landbúnaðarráðuneytið vegna sölu heldur eingöngu þann sem forráð hefur, t.d. varðandi kirkjujarðir. Það má vera að ég misskilji þetta ákvæði, en verður ekkert samráð við landbúnaðarráðuneytið í þeim tilvikum sem aðrir forráðaaðilar eru að jörðunum?



[21:31]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil á margan hátt áhyggjur hv. þingmanns sem er að velta því fyrir sér hvaða jarðir þetta eru. Ég hef nú ekki tölu yfir það en það væri fróðlegt að fara yfir það.

Ég hygg samt sem áður að flestar þær jarðir sem undir önnur ráðuneyti heyra séu sérstakar jarðir sem heyra t.d. undir kirkjumálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Biskupsstofu. Undir menntamálaráðuneyti heyra margar jarðir og einhverjar undir fleiri aðila og svo eru það auðvitað þjóðgarðar, Þingvellir og fleiri, sem eru annars staðar. Fæstar þessar jarðir munu vera til sölu nema þá hjá Biskupsstofu og kirkjumálaráðuneytinu. Ég hygg að það sé nú með flestar þessar jarðir að komi þær til sölu þá koma þær einnig hér til umfjöllunar, það þarf heimild Alþingis til sölunnar í fjárlagafrumvarpi. Ef ég man þetta rétt þá held ég að kirkjujarðirnar séu háðar því ákvæði einnig.

En því miður, hv. þingmaður, ég hef ekki tölur yfir þessar jarðir en býst nú við að þær séu til og skal útvega þær og koma þeim í hendur hv. þingmanni. En þetta er nú svona þar sem við teljum eðlilegt að hver beri ábyrgð á því sem undir hann heyri og fari með það eftir þeim lögum sem gilda. Þess vegna sjái landbúnaðarráðuneytið um það sem þess er og dóms- og kirkjumálaráðuneytið um það sem þess er og menntamálaráðuneytið um þær jarðir sem því tilheyra o.s.frv. Það eru ýmsar jarðir — ég hygg að Laugarvatn, Reykholt og fleiri skólastaðir séu undir menntamálaráðuneyti.

En ég held að það sé ekkert í þessu gert fremur en hjá okkur nema jarðir sem heyra undir 38. gr. og bændurnir eiga kauprétt að sem seljast beint en hvað allar aðrar jarðir varðar þarf leyfi frá þinginu til að selja þær



[21:34]
Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vek athygli á að ég velti þessu fyrir mér í framhaldi af þeirri umræðu sem hefur verið um að reyna að koma á einhverjum reglum um jarðasölu þar sem, eins og nefnt var áðan, auðmenn eru að kaupa upp jarðir og aukin hætta er á að ábúð á jörðum leggist af.

Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann hafi áhuga á að skoða það með landbúnaðarnefnd og hv. þingmönnum með hvaða hætti sé hægt að mynda heildarlög sem taki á því og tryggi ábúð á jörðum vítt og breitt um landið. Ég er að horfa á það hvort þessi 4. gr. geri með einhverjum hætti erfiðara um vik að setja á heildarlög varðandi jarðasölu t.d.



[21:35]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei. Þessi grein snýr í sjálfu sér ekkert að því. Reglur eru mjög skýrar um jarðasölu, a.m.k. þær sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Bændur eiga kauprétt eftir sjö ár núna eftir nýju lögunum og geta keypt sínar jarðir sem þeir hafa setið vel og eiga beinan kauprétt að því eftir að ákveðið opinbert mat hefur farið fram á eigninni og jörðinni sem Ríkiskaup annast og fer með.

Síðan eru allar jarðir sem seldar eru á frjálsum markaði, þær eru bara seldar hæstbjóðanda og auglýstar sem slíkar. Þannig að það er alveg skýrt. Þessar jarðir eru í sjálfu sér ekki þær sem helst er verið að tala um í þessum raðuppkaupum. Ég held að það sé nú vissara að gæta sín samt í þeirri umræðu því ég held að margir þeir sem séu að kaupa jarðir geri það í góðum tilgangi. Við verðum bara að greina þetta í sundur. Við verðum að fara yfir hvað er að gerast á markaðnum og síðan meta viðbrögðin, hvað er rétt að gera til að breyta.

Sveitarstjórnirnar höfðu hér áratugum saman réttinn til að byggja hverja einustu jörð sem fór í eyði. Þær fylgdu því ekki eftir. Þær treystu sér ekki að ná því. Jarðir fóru í eyði og þeim datt ekki í hug að nota lögin sem þeir höfðu í höndunum til að byggja jarðirnar og skipa svo fyrir að eigandinn yrði að setja ábúendur á jörðina. Þær gerðu það ekki. Þannig að það var ekki nein trygging fyrir því.

En þetta er auðvitað mjög vandmeðfarið. Við þurfum að horfa hér mjög til nágrannalanda eins og Noregs og kannski Danmerkur. Hvernig fara þau að þessu? Það þarf auðvitað að leggja skyldur á þá sem eignast landið skýrari en eru. Það er gott að heyra að þingmenn vilja fylgjast með þessum hlutum og vilja vera með í að skoða þá út frá þeirri grundvallarskoðun sem menn hafa, og er góð, að jarðir skuli vera byggðar.



[21:37]Útbýting: