132. löggjafarþing — 107. fundur
 24. apríl 2006.
atvinnuástandið á Bíldudal.

[15:14]
Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin varðar atvinnuástand á Bíldudal og ég ætla að byrja á að rekja nokkrar staðreyndir.

Fólksfækkun á Bíldudal er rétt um 100 manns á síðasta áratug eða um 30% íbúanna. Þeir sem eftir eru sækja vinnu að stórum hluta annað, oft yfir tvo fjallvegi með tilheyrandi slysahættu sem hefur sýnt sig að vera veruleg. Hörpudiskveiðar voru bannaðar í firðinum fyrir nokkrum árum vegna kadmínmengunar og margir misstu þar stóran hluta af atvinnu sinni. Engar bætur urðu fyrir það. Kræklingaeldi sem á upphafsárum gekk vel, var slegið af vegna sömu ástæðna fyrir tveimur árum. Engar bætur fengust fyrir það. Rækjuveiðar hafa stórminnkað, verðið hefur hrunið á örskömmum tíma og rækjuvinnsla á staðnum hefur ekki verið í gangi núna í tvö ár og rækja flutt til Súðavíkur sem unnin var. Fyrirtækið Bílddælingur hefur verið stopp í 10 mánuði en hafði þá starfað í um eitt og hálft ár þegar að því kom og að sögn forsvarsmanna var ástæðan missir byggðakvóta, auk annars. Fyrirtækið var ekki gjaldþrota en leitaði eftir stuðningi opinberra aðila við ýmsar aðgerðir sem lagðar voru fram til að halda starfsemi sinni áfram. Þar að auki fækkar fólki á Vestfjörðum í heild stöðugt. Nú eru viðræður í gangi hjá nýjum aðilum til að reyna að koma atvinnuástandinu í betra horf, koma ástandinu í betra horf, koma hjólunum í gang aftur. Þeir hafa átt í viðræðum m.a. við Byggðastofnun og fjölmarga opinbera aðila. Það eina sem þeir hafa aðhafst undanfarna mánuði eftir því sem ég best veit er að skrifa skýrslur og fleiri skýrslur þó að ástandið hafi verið óbreytt í tíu mánuði.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hyggst hann beita sér í málefnum Bílddælinga? Vill hann beita sér fyrir sértækum aðgerðum í því skyni? Telur hann ekki að aðstæður og fólksfækkun á Vestfjörðum tengist þenslu og stóriðjuframkvæmdum annars staðar á landinu og því réttlætanlegt að svara ástandi eins og þessu með einhverju móti?



[15:17]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Málefni á Bíldudal hafa komið til umfjöllunar nokkrum sinnum í ríkisstjórninni, sérstaklega að því er varðar hugmyndir um kalkþörungaverksmiðju þar á svæðinu. Menn binda miklar vonir við þá verksmiðju og ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti stutt það með ýmsum hætti að af því gæti orðið. Það liggur fyrir að þar þarf að eiga sér stað sérstakt átak í hafnargerð og einnig er um ábyrgðir að ræða og þess vegna má flokka það undir sérstakar aðgerðir.

Hvað varðar fyrirtækið sem hv. þingmaður spurði um þá á ég von á, vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á gengi íslensku krónunnar, að útlit fyrir slíka starfsemi sé mun betra núna en var fyrir nokkrum vikum. Ég veit að það mál hefur verið til umfjöllunar hjá Byggðastofnun og það er eðlilegt að sú stofnun komi að slíku máli enda er um góðan rekstrargrundvöll að ræða. Ég hef ekki átt neinar viðræður við Byggðastofnun um málið en af þessu tilefni mun ég spyrjast fyrir um það. Ég vænti þess að þessi svör séu fullnægjandi fyrir hv. þingmann.



[15:18]
Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma upp en ég fékk engin svör, að ég tel, við þeim spurningum sem ég bar fram. Ég vil minna á að það er ekki ég einn sem tel að t.d. fiskveiðimálin og kvótinn hafi verið stór hluti af þessu máli og vildi gjarnan fá álit hans á því, því að Verkalýðsfélag Vestfirðinga ályktaði svo í ágúst í fyrra:

„Bíldudalur er dæmi um það hvernig lögin um framsal aflaheimilda hafa svipt heilt sjávarpláss atvinnulífsafkomu sinni. Undirstaða byggðar á Bíldudal er sjávarútvegur og ekkert annað getur komið í staðinn. Fyrir 10–15 árum voru aflaheimildir Bílddælinga um 4 þúsund tonn en eru í dag 700 þorskígildistonn og mest í rækju sem unnin er í Súðavík ef hún er á annað borð er veiðanleg. Ólög sem ræna lífsbjörginni frá alþýðu manna verður að afnema og það sem fyrst.“

Ég spyr: Er ekki möguleiki á því að koma með sértækar og aðrar aðgerðir en hugsanlega það sem Byggðastofnun getur gert? Er ekki ástæða fyrir (Forseti hringir.) ríkisstjórnina að taka þetta mál sérstaklega upp hvað varðar Vestfirði í heild?



[15:19]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég hygg að það sé rétt hjá mér að ekki sé búist við því að þessi stutta umræða í þessu formi á hv. Alþingi geti fjallað um fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni. Ég held að við þyrftum miklu lengri tíma í það. Það er grundvallarágreiningur um það mál á Alþingi og það er grundvallarágreiningur um það milli mín og hv. þingmanns en ég á ekki von á að við leysum það í örstuttum umræðum (Gripið fram í: Ætlarðu ekkert að gera?) á Alþingi. Og enn þá meiri ágreiningur (Gripið fram í.) við þann hv. þingmann sem greip fram í fyrir mér núna, enda veit ég að í þeim flokki sem þessir ágætu þingmenn tala fyrir er ekki mikill samhljómur í öllum málum nema kannski helst eitthvað í þessu.



[15:20]
Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hæstv. forsætisráðherra vill ekki ræða um atvinnumálin á Bíldudal. Ég velti fyrir mér hvort komið hafi verið við einhver kaun þar. En það þýðir ekkert að segja að hér sé verið að tala um annað mál þar sem er fiskveiðistjórnarkerfið. Það vita allir hvernig það kerfi hefur farið með sjávarbyggðirnar. Í ályktun verkalýðsfélagsins sem ég las upp áðan og vitnaði í er einmitt Bíldudalur tekinn sem dæmi, ekki sem eina dæmið heldur dæmi sem sýnir mjög glöggt og ljóslega hvernig þetta kerfi hefur verið að fara og er að fara með sjávarbyggðir landsins. Þetta er bara staðreynd, hæstv. forsætisráðherra. Atvinnumálin verða órjúfanlega tengd því á þessum stöðum sem ekki geta snúið sér annað en til sjávarins, eins og þau hafa gert um aldir, til að fá möguleika á því að framfleyta sér og sínum.



[15:21]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það liggur fyrir að gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða í sambandi við fiskveiðistjórnarkerfið á undanförnum árum. (Gripið fram í.) Ég nefni aðgerðir í sambandi við veiðar smábáta, ég nefni sérstaka byggðakvóta. Ég sagði í svari mínu, og ég var að tala um atvinnumál á Bíldudal þegar ég talaði um þær fyrirætlanir sem þar eru uppi um kalkþörungaverksmiðju, að ég teldi eðlilegt að Byggðastofnun færi vel yfir það mál sem hv. þingmaður nefndi. Ég tel að þar hafi ég verið að tala um (Gripið fram í.) atvinnumál á Bíldudal. Það liggur alveg fyrir. En ég fer ekki að ræða hér um fiskveiðistjórnarkerfið í heild, enda vænti ég þess ekki að hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins, þótt þeim detti ýmislegt skrýtið í hug, hafi dottið það í hug.