132. löggjafarþing — 107. fundur
 24. apríl 2006.
sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg.

[15:37]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra og ástæðan eru þær fréttir sem hafa borist um sjóræningjaveiðar svokallaðar á Reykjaneshrygg. En það sem er um að ræða er að skip sem skráð eru í Georgíu, Belize, Dóminíska lýðveldinu og Rússlandi stunda þar ólöglegar veiðar og er talið að úthafskarfaafli þessara skipa sé um 30.000 tonn.

Til samanburðar er rétt að nefna að veiðiheimildir Íslendinga á þessu svæði eru 28.600 tonn. En veiði Íslendinga á því svæði hefur farið jafnt og þétt minnkandi og var á síðasta ári 16.000 tonn en voru árið 2004 40.000 tonn en 2003 48.000 tonn.

Svo virðist vera ef marka má fréttir að nokkuð erfitt sé að stemma stigu við þessum ólöglegu veiðum og hefur framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, Friðrik J. Arngrímsson, haldið því fram að eina leiðin til að virkja úrræðin sé að færa skipin til hafnar og íslensk stjórnvöld ættu að láta á það reyna.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem ég veit að hefur haft mikinn áhuga á þessu máli og hefur rætt þetta á opinberum vettvangi, hvernig sé best að stemma stigu við þessu, hvernig hann lítur á þá stöðu sem er komin upp í þessu máli og hvaða aðgerðum íslensk stjórnvöld muni beita til að reyna að koma í veg fyrir þessar svokölluðu sjóræningjaveiðar, sem þær vissulega eru.



[15:39]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hv. þingmaður hreyfir hér er mjög alvarlegt að mínu mati og ber tvímælalaust að flokka sem klárar sjóræningjaveiðar. Hér er um að ræða ólöglegar veiðar sem stundaðar eru af skipum sem er flaggað inn á svokölluð fánaríki til að geta í rauninni komist að við þessar veiðar.

Við teljum að slíkar veiðar séu ógn við karfastofninn og eins er það þannig að þegar þessi skip hafa veitt aflann koma þau oft og tíðum með hann inn á markaðinn bakdyramegin, bjóða hann á lægra verði og trufla markaðsstarfsemi okkar og leiða til verðlækkunar á fiski.

Hér er því um að ræða mjög alvarlegt mál sem hefur neikvæð áhrif á karfastofninn, sem er veikur fyrir á Reykjaneshryggnum. Við höfum verið að reyna að draga úr aflamarki okkar og það hafa þjóðir NEAFC gert sömuleiðis. Við höfum því verið að reyna að bregðast við veikari stöðu karfastofnsins með að minnka aflaheimildirnar okkar en það er til lítils á meðan þessi skip eru þarna að veiðum.

Við höfum á undanförnum árum verið að reyna að þjarma að þessum skipum og jukum áhersluna á það mjög verulega núna í haust, m.a. með því að senda út dreifibréf til 2000 aðila vítt og breitt um Evrópu til að vekja athygli á hvaða skip væri um að ræða. Við höfum lista yfir þessi skip og sá listi hefur verið sendur til stjórnvalda allra ríkja og sömuleiðis hagsmunaaðila.

Hins vegar er alveg ljóst mál að þarna hefur verið pottur brotinn. Þessi skip, að hluta til lágu í höfnum Þýskalands. Þau fóru yfir til Póllands og yfir til Litháens og þau ríki eru í gegnum Evrópusambandið aðilar að Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni. Þarna hafa þau greinilega fengið vistir sem hafa dugað þeim til þess að geta hafið þessar veiðar.

Um er að ræða mjög alvarlegt mál. Þessi skip eru mörg hver að veiðum undir fánum Georgíu og það er áformað að sjávarútvegsráðuneytið og utanríkisráðuneytið muni í samvinnu reyna að taka þessi mál upp við fánaríkin, (Forseti hringir.) allt í því skyni að reyna að draga úr þessum veiðum og stöðva þær algjörlega.



[15:41]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi áhuga á málinu. Hann hefur sýnt það í verki eins og hann fór hér ágætlega yfir áðan. Ég hvet hann áfram til að leita allra þeirra leiða sem mögulegar eru til að komast fyrir þessar ólöglegu veiðar. Ég verð að segja að mér eru það nokkur vonbrigði að vinaþjóðir okkar hjá Evrópusambandinu skuli leyfa skipunum að koma sér upp vistum áður en þau fara á veiðar á þessu hafsvæði.

Þetta segir okkur að við þurfum að gæta hagsmuna okkar hvað varðar auðlindina. Það er enginn betur til þess fallinn en íslensk stjórnvöld. En ég vil spyrja ráðherra: Hvaða næstu skref koma til? Kemur til greina af hálfu íslenskra stjórnvalda að ganga lengra og (Forseti hringir.) fara að tilmælum eða ábendingum framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna?



[15:42]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er þess eðlis að við náum ekki að sigrast á því nema í samvinnu við önnur ríki, fyrst og fremst ríki Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar. Við erum að taka þessi mál upp þar mjög reglulega og reynum að herða á þessu máli eins og við lifandi getum.

Ég hef tekið þessi mál upp við forsvarsmenn innan Evrópusambandsins, við ráðherra í Færeyjum, Noregi og Bretlandi, allt í því skyni að reyna að vekja athygli á málinu. Íslensk stjórnvöld hafa sömuleiðis tekið þessi mál upp við stjórnvöld í Þýskalandi þar sem þessi skip hafa verið.

Við höfum vissulega ýmis úrræði og ekki síst sem felast í auknu eftirliti. Þegar skipin hafa fiskað í sig þurfa þau að losna við aflann. Þau gera það hugsanlega í höfnum Evrópu og þá þurfum við að fylgjast með því og koma athugasemdum okkar á framfæri við viðkomandi ríki. Því þarna er um að ræða algerlega ólöglegan afla og við verðum að koma í veg fyrir að þau geti landað honum og gert sér verðmæti úr honum. Þau hafa líka verið að landa (Forseti hringir.) í skip á hafi úti og við þurfum að fylgjast með því og reyna að koma í veg fyrir að það takist aftur.



[15:43]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara hvetja hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina áfram í þessu máli. Ég held að þetta sé mál sem við getum öll verið sammála um sem erum hér í þessum sal. Ég fagna því sem hæstv. sjávarútvegsráðherra nefndi, hvað hefur verið gert.

Virðulegi forseti. Ég hvet hann áfram og ríkisstjórnina alla og ég tel að því alþjóðasamstarfi sem við þingmenn erum í, hvort sem það er á vettvangi EFTA eða annarra stofnana, þá eigum við að tala fyrir þessum málstað við vinaþjóðir okkar. Því svo sannarlega er það ein af þeim leiðum sem við verðum að fara og kannski fara fyrst áður en farið er út í róttækari aðgerðir.

Hér er mikið hagsmunamál á ferðinni, virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði frumkvæði að þessu á sínum tíma og vil að endingu og enn og aftur hvetja hann til dáða í þessu máli.