132. löggjafarþing — 107. fundur
 24. apríl 2006.
Sinfóníuhljómsveit Íslands, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 402. mál (rekstraraðilar). — Þskj. 518, nál. 1039, brtt. 1040.

[16:23]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Þröst Ólafsson, framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Hrafnkel Orra Egilsson og Sigurð Bjarka Gunnarsson frá starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Pál Magnússon, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, og Stefán Jón Hafstein frá Reykjavíkurborg.

Umsagnir bárust nefndinni frá stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, Viðskiptaráði Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Íslenskri málstöð og Bandalagi íslenskra listamanna.

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið hf. og felur í sér tillögu um niðurfellingu greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og einnig að greiðsluþátttaka Seltjarnarnesbæjar verði felld niður.

Í kjölfar niðurfellingar greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins er eðlilegt að Ríkisútvarpið eigi ekki lengur fulltrúa í stjórn hljómsveitarinnar, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á verkefnavalsnefnd skv. 7. gr. laganna þannig að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar sé heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveður nánar um skipulag og hlutverk nefndarinnar.

Meiri hlutinn telur einnig að lagfæra þurfi 4. mgr. 3. gr. laganna er varðar samning milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins um réttindi Ríkisútvarpsins varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar. Ekki verður lengur um að ræða flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar „á móti framlagi útvarpsins“ eins og fram kemur í ákvæðinu þar sem greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins fellur niður og leggur því nefndin til breytingartillögu þess efnis að Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið hf. geri með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar til að tryggja áframhaldandi samstarf. Nefndin hefur fengið þær upplýsingar að vilji sé hjá viðkomandi aðilum til að viðhalda samstarfi um flutning tónlistarefnis hljómsveitarinnar og frekar að auka hann en minnka

Að þessu sögðu, frú forseti, leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit rita ásamt þeim sem hér stendur, hv. þm. Sigurrós Þorgrímsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.



[16:27]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi nefndarálitið og stöðu þessa máls sem lýtur að Sinfóníuhljómsveit Íslands. Málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar eru jú nátengd málefnum Ríkisútvarpsins og þau hafa fylgst að, Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið, og fylgst með í þjóðarsálinni einnig.

Nú hefur hv. formaður menntamálanefndar lýst yfir að frumvarp um Ríkisútvarpið fari til hv. menntamálanefndar eftir 2. umr. Ég inni þá þingmanninn eftir því hvort ekki sé eðlilegt að málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar fylgi með. Þetta er óaðskiljanlegur hluti af málum Ríkisútvarpsins og ég tel mjög eðlilegt að svo sé áfram og vil heyra hvort formaður hv. menntamálanefndar sé ekki sömu skoðunar, að þessu verði vísað til hv. menntamálanefndar fari það á annað borð í gegnum 2. umr.



[16:28]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði talið eðlilegra að þetta samkomulag sem gert var á föstudaginn var um að taka frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. til umræðu í hv. menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. hefði fylgt því frumvarpi. Enda hanga þessi frumvörp saman. Þetta frumvarp hins vegar felur fyrst og fremst í sér leiðréttingu sem nauðsynlegt er að gera með hliðsjón af frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. Það eru að mínu mati engir lausir endar í þessu máli sem kalla á að taka þurfi það inn í nefndina aftur milli 2. og 3. umr.

En við skulum bara sjá til hvort fram kemur formleg ósk um það og sömuleiðs hvort sú umræða sem hér er hafin leiðir til að slíkt sé nauðsynlegt. Að öðru leyti er þetta frumvarp einfalt og kannski ekki svo flókið að það þurfi frekari umræðu við í nefndinni.



[16:30]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp er í sjálfu sér einfalt hvað það varðar. En varðandi stöðu Sinfóníuhljómsveitarinnar sem slíkrar er náttúrlega ekki tekið á málum hennar. Hún hefur fylgt Ríkisútvarpinu, m.a. fjármögnun, rekstur og ábyrgð á þessari starfsemi hefur fylgt þar með þó svo að skornar hafi verið mjög við nögl fjárveitingar bæði til Ríkisútvarpsins og eins til Sinfóníuhljómsveitarinnar á undanförnum árum. Það hefur ekki verið Alþingi til sóma að skera svo niður fjárveitingar til þessara stofnana. Engu að síður tel ég einboðið að þetta fylgist að. Ég er náttúrlega að vona að Ríkisútvarpið sleppi við þau dapurlegu örlög að verða hlutafélagavætt og við sjáum hvað setur í þeim efnum en einboðið er að Sinfóníuhljómsveitin og málefni hennar fylgi með í þeirri umræðu og þróun þess máls á þinginu.



[16:31]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom ekki fram í þeim andsvörum sem hv. þingmaður fór í við mig hvaða afstöðu hann tekur til efnis þessa máls. Ég bendi hv. þingmanni á að tilgangurinn með því frumvarpi sem við erum að ræða er m.a. sá að fella niður greiðsluþátttöku Ríkisútvarpsins við rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hvað þýðir það? Það þýðir að verið er að létta álögum af Ríkisútvarpinu sem hv. þingmaður telur að séu miklar. Af hverju tekur hann þá bara ekki undir það að slíkt sé heppilegt og jákvætt? Að minnsta kosti ætti hann að gera það miðað við þau orð sem hér voru látin falla.

Ég vil síðan benda hv. þingmanni á það út af því sem hér kom fram að nefndin hefur aflað sér þeirra upplýsinga og það hefur komið fram í tengslum við vinnslu þessa máls að fullur vilji er milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar að halda áfram því ágæta samstarfi sem þessar tvær stofnanir hafa haft á síðustu áratugum. Það hefur komið fram að menn vilja frekar auka þetta samstarf en að minnka það. Það hefur líka verið um það rætt að gerður sé sérstakur samningur um slíkt eins og greinir í nefndarálitinu. Þessi atriði ættu því að vera öll frágengin í þessu máli.

Við skulum sjá, hv. þingmaður, hvað fer fram í umræðunum sem ég vona að verði málefnalegar enda sé ég að einn mjög málefnalegur hv. þingmaður er að gera sig kláran í umræðu um væntanlega þetta mál.



[16:33]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil taka fram í tilefni af þessum orðaskiptum áðan að ég hef frá upphafi þessa máls litið á þetta sem sjálfstætt mál og tel að Sinfóníuhljómsveit Íslands verðskuldi að talað sé um hana á hennar eigin forsendum og ekki sem einhvern fylgifisk annarrar stofnunar eða einhverra annarra hluta. Það var þess vegna sem ég hreyfði mótmælum við því í fyrra þegar flutt voru frumvörp um Ríkisútvarpið — sem þá hét Ríkisútvarp sf., sameignarfélag, einhver kann að muna eftir því hér í salnum — og Sinfóníuhljómsveitina. Þá gerði ég athugasemd við þá ætlan ráðherra að ræða þetta í einu lagi. Síðan hefur þetta verið aðskilið þó að vissulega tengist málin því að ástæðan fyrir því að farið var að taka lögin um Sinfóníuhljómsveitina sérstaklega fyrir er auðvitað sú að menn una ekki við það lengur að Ríkisútvarpið sé einn af rekstraraðilum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Eins og ég tók fram í 1. umr. um málið í fyrra og í 1. umr. nú erum við samfylkingarmenn í meginatriðum í grunninn sammála þeirri niðurstöðu og erum sammála bæði forustu Ríkisútvarpsins sjálfs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands um það mál.

Sinfóníuhljómsveitin á sér langa og merka sögu, 56 ár er hægt að telja og er vaninn að miðað sé við 9. mars 1950 þegar fyrstu tónleikar atvinnumannahljómsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir. Forsagan er þó enn þá lengri og væri gaman að rifja hana upp. Það er kannski hægt að gera það í 3. umr. eða á eftir, en árið 1950 var Sinfóníuhljómsveitin stofnuð innan vébanda Ríkisútvarpsins og þannig varð það að Sinfóníuhljómsveitin var svona dóttir í foreldrahúsum allt fram til ársins 1982 þegar samþykkt voru þau lög sem nú gilda, nr. 36/1982. Það er skemmtilegt fyrir okkur jafnaðarmenn að það var í tíð Svavars Gestssonar þáv. menntamálaráðherra sem þetta var gert. Þessi lög eru auðvitað barn síns tíma en þau eru fyrstu lögin um Sinfóníuhljómsveitina og við þau má segja að Sinfóníuhljómsveitin hafi, ef við höldum líkingunni, orðið táningur, gengið undir eins konar fermingu og þar með fengið ákveðið sjálfstæði. Það er kannski kominn tími til þess núna árið 2006, 56 árum eftir hina formlegu stofnun hennar og 24 árum eftir að lögin voru samþykkt, að Sinfóníuhljómsveitin, sem eiginlega er flutt að heiman fyrir löngu, fái nú sérstakt lögheimili og fjárhagur hennar sé aðskilinn við foreldri sitt.

Það er þannig að stundum verða viðskipti foreldra og stálpaðra barna eða táninga svolítið erfið og því miður hefur það verið þannig undanfarin ár að Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitin hafa af einhverjum ástæðum ekki átt nægilega góða samleið. Kannski stafar það af þeirri nauðung sem forustumönnum Ríkisútvarpsins hefur lengi fundist að þurfa að verja tekjum sínum af afnotagjaldi, útvarpsgjaldi, og öðrum tekjum, til að taka þátt í kostnaði við Sinfóníuhljómsveitina og sérstaklega vegna þess að Ríkisútvarpið hefur, eins og aðrir rekstraraðilar auk ríkissjóðs, borgarsjóðs Reykjavíkur og bæjarsjóðs Seltjarnarness, ekki haft nema að mjög litlu leyti ákvörðunarrétt um það hver þessi kostnaður væri, því að rekstraraðilarnir borga hann eftir á, að starfsárinu loknu og geta þess vegna ekki gert ráð fyrir því í sinni eigin fjárhagsáætlun hver þessi upphæð muni verða að loknu starfsári Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Ég hef fylgst nokkuð með málefnum Ríkisútvarpsins og var í útvarpsráði í fjögur ár, hef líka lítillega unnið þar á gólfinu og verið í kringum það með ýmsum hætti. Ég verð að segja að bæði sem áhugamaður um það og sem hlustandi og áhorfandi hef ég ekki skilið af hverju Ríkisútvarpið hefur ekki nýtt sér þá möguleika sem það hefur samkvæmt lögunum og samkvæmt samningum við Sinfóníuhljómsveitina um að flytja meira af efni Sinfóníunnar. Það á sérstaklega við um sjónvarpið sem einhvern veginn hefur aldrei fattað það, þannig að ég tali viðeigandi mál, að sígild tónlist er gott og vinsælt sjónvarpsefni, heldur hefur nánast forðast að nýta sér þá möguleika sem það hefur haft til að flytja ódýrt, ókeypis í raun hvað Sinfóníuna varðar, efni fyrir hlustendur ýmist á besta tíma sem mögulegur er eða þá á þeim tíma sem er utan kjördagskrár, utan þess svæðis þar sem flestir horfa. Hins vegar tekur maður eftir því að sjónvarpinu líkar vel að sýna aðrar hljómsveitir sem í útlöndum starfa og virðast taka þær fram yfir.

Ég verð því að segja að við þennan aðskilnað vona ég að þetta samstarf verði betra, sérstaklega milli sjónvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fyrirheit eru um það, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson formaður menntamálanefndar nefndi áðan, bæði frá Sinfóníuhljómsveitinni og Ríkisútvarpinu að því er okkur skildist á mönnum í nefndinni, að þetta samstarf gæti batnað þegar þessi samskipti komast í eðlilegra horf en þau hafa verið í nokkra stund.

Ég vil svo segja að það er galli á afgreiðslu þessa máls, kannski af því að það hefur þessi tengsl við Ríkisútvarpsfrumvarpið vitlausa, að þegar Sinfóníuhljómsveitin loksins flytur að heiman og fær sjálfstætt lögheimili er ekki ljóst, á þeim tíma sem 2. umr. um þetta mál fer fram, hver hinn fjárhagslegi aðskilnaður milli Sinfóníunnar og Ríkisútvarpsins er. Ég bæti við ríkissjóðs. Það er hin fræga þjóðarfiðla sem þar stendur á milli. Ríkisútvarpið segist eiga þessa fiðlu, Sinfóníuhljómsveitin segist eiga siðferðilegan rétt á þessari fiðlu og reyndar nokkrum öðrum hljóðfærum sem svipað er ástatt um en eru ekki jafnverðmikil og ekki jafndýrmæt sem slík. En fulltrúar ríkissjóðs, fulltrúar fjármálaráðuneytisins, segja að það sé ríkissjóður sem eigi fiðluna vegna þess að ekki hafi verið neinn aðskilnaður milli ríkissjóðs og Ríkisútvarpsins á þeim tíma sem hennar var aflað, þessarar merkilegu og dýrmætu fiðlu.

Þetta mál var ekki skýrt þegar málið valt út úr menntamálanefnd. Ég nota af ásettu ráði ekki „tekið út úr“ eða „afgreitt út úr“, heldur valt út úr menntamálanefnd sem ég lýsi síðar. Ég tel að formaður menntamálanefndar skuldi okkur skýringu á því hvernig verði með þessa fiðlu. Er hún eign ríkissjóðs? Er hún eign Sinfóníuhljómsveitarinnar eða er hún eign Ríkisútvarpsins? Þetta skiptir auðvitað miklu máli þegar Sinfónían á að standa á eigin fótum. Skiptir Ríkisútvarpið mjög miklu máli líka vegna þess að fiðlan þarf að koma inn í hina fjárhagslegu stöðu sem við förum í gegnum á næstu dögum og í sumar til þess að Ríkisútvarpið hafi jákvæða eiginfjárstöðu þegar það verður fært að lokum í annað rekstrarform, hvort sem það verður hlutafélag eða sjálfseignarstofnun. Hér er því leiðinleg gloppa á þessu máli. Ekki er vitað um hver á fiðluna sem Guðný Guðmundsdóttir konsertmeistari, annar af tveimur, leikur á allajafna við aðdáun og hrifningu áhorfenda.

Ég vil nefna líka aðra gloppu eða ég veit ekki hvað á að kalla það, ókurteisi, nánast dónaskap, sem þó er því miður dæmigerður fyrir vinnubrögðin í menntamálaráðuneytinu. Það framferði felst í því að þegar þetta frumvarp er smíðað, bæði það fyrra og það seinna, er ekki rætt við þá rekstraraðila sem samkvæmt núverandi lögum taka þátt í starfsemi og rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fulltrúar ríkissjóðs, menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, ræddu ekki við fulltrúa borgarsjóðs Reykjavíkur. Það kom fram í heimsóknum formanns menntamálaráðs bæði núna og í fyrra að hæstv. menntamálaráðherra hafði ekkert hreyft sig í því að sýna mönnum þá lágmarksvirðingu að ræða við þá þó að borgarsjóður Reykjavíkur standi undir 18% af rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Það er satt að segja alveg furðulegt að menn skuli haga sér svona. Það er ekki einu sinni sinnt sjálfsagðri tilkynningarskyldu milli aðila sem eru í samstarfi og bandalagi á þennan hátt. Það fyrsta sem borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar og stjórnendur fá að heyra formlega af þessu máli er þegar menntamálanefnd sendir — og má nú garmurinn Ketill eiga það — beiðni um umsögn þeim rekstraraðila sem er annar stærstur eftir að þetta frumvarp yrði að lögum.

Það er enn þá skrýtnara vegna þess að í lögunum sem nú gilda er sérstaklega í 2. mgr. 3. gr. minnst á samráð menntamálaráðuneytisins við rekstraraðila. Það er að vísu í öðru tilviki. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Með samþykki rekstraraðila getur menntamálaráðuneytið heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.“

En hér er löggjafinn að segja menntamálaráðherra að hann eigi að hafa almennt samráð við rekstraraðila um þær breytingar sem kynnu að verða á bandalagi í kringum Sinfóníuhljómsveitina. Það sem hefur gerst í þessum lögum hvað þessa grein varðar er að einn rekstraraðilinn hefur fallið út. Það er bæjarsjóður Seltjarnarness sem er ábyrgur fyrir einu prósenti af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er ekki um neina eign að ræða, það er frekar öfugt.

Mundu nú klárir lögfræðingar, svo sem hinn ágæti lögmaður, fyrrverandi hlýt ég að segja, því hann starfar nú við annað, Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, hv. þingmaður, auðvitað gagnálykta á þessari 2. mgr. 3. gr. að með sama hætti hljóti menntamálaráðuneytið að leita samþykkis rekstraraðila við því að fækka í hópi rekstraraðila. Fyrir mér er þetta svo sem ekki stórmál en það sýnir þann anda sem þetta frumvarp er unnið í og það lýsir vel vinnubrögðunum í menntamálaráðuneyti Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Ef þau ættu að vera fleiri mundu þau verða samantvinnuð þannig að menn viti af hvaða rót málfars þau orð mundu spretta.

Ég segi það svo enn um þetta frumvarp að ég fagna því mjög að meiri hluta menntamálanefndar skuli, reyndar að ábendingu okkar, hafa tekist að leggja fram tillögu til að leiðrétta það frumvarp sem var lagt fram í haust. Það var nefnilega samhljóða frumvarpinu frá í fyrra að því leyti að um leið og aðild Ríkisútvarpsins var afnumin í frumvarpinu, þá nenntu þeir menn ekki að lesa lengra niður sem frumvarpið sömdu fyrir hönd menntamálaráðherrans hæstv. og skildu eftir þá klausu í 4. mgr. 3. gr. sem er svona, með leyfi forseta:

„Samningur sé gerður milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins um réttindi Ríkisútvarpsins varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar á móti framlagi útvarpsins samkvæmt þessari grein og sé samningurinn miðaður við þá hefð og venjur sem í þeim efnum hafa hafa mótast á undanförnum árum.“

Í frumvarpinu gerði menntamálaráðherra þannig ráð fyrir að þarna stæði ákvæði áfram um samning milli hljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins á móti framlagi útvarpsins samkvæmt þessari grein en var þó búinn að taka út úr frumvarpinu nákvæmlega það framlag sem þarna er um að ræða.

Þetta er auðvitað fingurbrjótur og mistök sem sjálfsagt er að afsaka ef þetta væri ekki í annað skipti, forseti, sem þessi mistök eru gerð. Því þetta var líka inni í frumvarpinu í fyrra. Á það var bent í 1. umr. að þetta væri inni í frumvarpinu í fyrra. Samt koma mennirnir úr menntamálaráðuneytinu, starfsmenn og þjónar hæstv. menntamálaráðherra, með þessa vitleysu í annað skipti. Eins og þetta skipti engu máli. Eins og Sinfóníuhljómsveitin sé bara einhver drusla sem ekkert þarf að vanda sig við. Það þarf bara að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og hitt er unnið með handarbökunum.

Sem betur fer hefur meiri hluta menntamálanefndar og menntamálanefndinni allri, undir forustu hins glögga og djúpvitra formanns Sigurðar Kára Kristjánssonar, hv. þingmanns, tekist að laga þetta frumvarp menntamálaráðherrans hæstv. Er óskandi að frami þessa ágæta þingmanns verði enn þá meiri þó ég óski honum ekki alla leið upp í ráðherrasæti, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. Ekki fyrr en hann gerir sjálfsgagnrýni með stóra frumvarpið — ríkisútvarpsfrumvarpið. Það er hættulegt eins og við vitum að lyfta mönnum sem eru yfirlýstir sölumenn Ríkisútvarpsins mjög hátt í þessum málaflokki. En margir aðrir málaflokkar koma til greina sem hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson getur unnið vel að og ég óska honum allra heilla í því starfi í framtíðinni.

Þetta er búið að laga en ég hlaut, forseti, að minnast á þetta sem dæmi um undirbúning þessa máls og vinnubrögðin í menntamálaráðuneytinu.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég geta þess sem glöggir þingmenn og áheyrendur aðrir kunna að taka eftir, að það vantar minnihlutaálit úr nefndinni. Nefndarálitið er eingöngu nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar. Það er undarlegt því það er venjan ef það myndast minni hluti í nefnd að hann skili áliti og skýri frá því hvað beri á milli hans og meiri hlutans. Í menntamálanefndinni hefur meðan við höfum starfað þar sem nú störfum þar fyrir stjórnarandstöðuna kapp verið lagt á að útbúa minnihlutaálit sem séu sem skýrust og gleggst og lýsi skoðunum okkar á hlutunum og þeirri niðurstöðu sem við höfum komist að.

En þannig gekk nú til í menntamálanefndinni í þetta skiptið, ólíkt því sem venjulega gerist. Því enn verður að hrósa hv. þingmanni Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir lipurð og gætni við hin venjulegu störf í nefndinni. En í ríkisútvarpsmálinu er eins og meiri hluti nefndarinnar sé á lyfjum eða í einhverri skrýtinni leiðslu sem sett hafa verið á hann úr menntamálaráðuneytinu og frá forustu flokkanna tveggja. Því svo brá við í þessu máli, forseti, að málið var aldrei afgreitt út úr nefndinni. Frumvarpið um Sinfóníuhljómsveit Íslands var aldrei afgreitt út úr nefndinni heldur endaði sá nefndarfundur þar sem það hefur væntanlega átt að gerast á þannig að greidd voru atkvæði um frumvarpið um Ríkisútvarpið hf., hvort ætti að taka það út úr nefndinni. Það var samþykkt með 5 atkvæðum gegn 4. Síðan var fundi slitið. Síðan sleit hinn vaski formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, fundinum. Við gerðum enga athugasemd við það enda vorum við nokkuð móð, ekki sár að vísu en nokkuð móð eftir þennan fund og líka vegna þess að okkur þótti hann ákaflega óvenjulegur miðað við þá fundi sem í nefndinni hafa verið í vetur. Var líkari þeim starfsháttum sem viðhöfð voru í nefndinni í fyrra undir forustu þáverandi formanns og ég ætla ekki að nefna nafn hans að sinni. Enda er það viðkvæmt. Hann er í framboði í sveitarfélagi og ókurteislegt að vera að blanda honum í þetta mál.

Þess vegna notaði ég áðan það orðalag að málið hefði meira oltið út úr nefndinni en verið tekið út úr henni eða afgreitt út úr henni. Við hyggjumst ekki gera athugasemd við þessa afgreiðslu mála þó sumum formalistum þætti kannski ástæða til að forseti gripi inn í og léti afgreiða þetta mál aftur út úr nefndinni. En þetta var ástæðan fyrir því að við skrifuðum ekki minnihlutaálit. Þegar athygli mín og okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni var vakin á af hverju við gerðum það ekki var ákveðið að láta þessa eyðu standa sem eins konar minnisvarða um vinnubrögð meiri hluta menntamálanefndar í þessu máli.

Það má segja að kannski sé þetta það sem í útlöndum er oft kallað ljóðrænt réttlæti, að núna er til meirihlutaálit úr menntamálanefnd um þetta mál en í fyrra afgreiddi minni hlutinn álit sitt á því út frá þeirri hinni sömu menntamálanefnd. Þá stóð svo á, forseti, að meiri hluta menntamálanefndar lá mjög á að búa til álit um Ríkisútvarpið sem þá hét Ríkisútvarpið sf. að mig minnir, ég er farinn að ruglast í öllum þessum skammstöfunum stjórnarmeirihlutans á þessu góða fyrirtæki, þó sýnt væri þá að málið mundi ekki hljóta afgreiðslu á því þingi. Ég er ekki gáfaður maður, forseti, og tregur að skilja hlutina. En mér sýndist í haust þegar til þings kom á ný að þetta meirihlutaálit mundi hafa verið búið til fyrir markhópinn Eftirlitsstofnun EFTA. Og varð síðan umræðuefni á fundum sem fulltrúar þeirrar stofnunar áttu með ráðuneytum tveimur hér í bæ, menntamála- og fjármálaráðuneytum. Á þeim fundum og af þeim samskiptum spruttu hin frægu ESA-skjöl sem þurfti með nokkru harðfylgi að gera opinber í haust þegar ríkisútvarpsmálið kom til nefndarinnar.

Þannig stendur á þessu og þeir sem vilja vita afstöðu að minnsta kosti okkar samfylkingarmanna til málsins og lesa það af skriflegu blaði sem heitir nefndarálit er vísað á nefndarálit okkar frá því í fyrra sem heldur nokkurn veginn fullu gildi.

Að lokum þetta: Við styðjum þetta mál þótt breytingartillögur nefndarinnar séu sumar nokkuð klaufalegar, t.d. að menntamálaráðherra eigi að skipa tvo fulltrúa í stjórn Sinfóníunnar þar sem einfaldlega er settur fulltrúi menntamálaráðherra í staðinn fyrir fulltrúa Ríkisútvarpsins. Maður spyr til hvers. Af hverju tvo? Svörin eru bara þau að það þarf að breyta lögunum í hasti af því þau tengjast þessu mikla og hraðskreiða máli með Ríkisútvarpið. Það er sérkennileg tilviljun, fyrst um það er rætt, að sá fulltrúi heitir ekki fulltrúi menntamálaráðherra heldur fulltrúi menntamálaráðuneytisins. Það er að vísu ekki að kenna núverandi hæstv. menntamálaráðherra né meiri hluta nefndarinnar heldur þeim sem um þetta véluðu árið 1982, því hér er alls staðar talað um menntamálaráðuneytið en ekki menntamálaráðherra. Menntamálaráðuneytið er hins vegar ekki til sem sjálfstæður aðili. Ráðuneytið hefur engan vilja heldur er eingöngu skrifstofa ráðherra eins og þeim væri kannski sjálfum hollt að minnast þegar þeir gera ráðuneytin sín að einhverju öðru en sínum eigin skrifstofum.

Ýmislegt í sögu þessa máls þessi tvö ár, ég hef farið yfir margt af því hér, sýnir ef til vill að kominn er tími til að endurskoða í heild lögin um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við erum hér bara að taka eitt, tvö, þrjú skref en ættum að virða Sinfóníuna þess að fara sjálfstætt í endurskoðun á lögum um hana. Sinfóníuhljómsveitin sjálf er mjög að breytast. Þar er enn leikið á sömu hljóðfæri og eftir sömu lögmálum en staða hennar bæði í íslensku samfélagi og í erlendu samhengi er öll önnur en áður var. Hún er nú viðurkennd ein af betri hljómsveitum á Norðurlöndum og hróður hennar fer víða. Hún selur efni sitt á hljómdiskum víða um lönd og er eftirsótt bæði af hljóðfæraleikurum og stjórnendum, mæstróum. Ég vona að það gerist innan skamms þótt þetta séu nokkur skref í áttina. Það er full þörf á því og við styðjum þetta mál samfylkingarmenn í því trausti að það gerist á næstunni. Þó í ljósi reynslunnar, forseti, vonandi ekki fyrr en eftir næstu kosningar þegar þeim vinnubrögðum linnir sem einkenna nú nærfellt öll þau mál sem koma úr menntamálaráðuneytinu inn á þingið.



[16:59]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða hjá hv. þingmanni var fyrir margra hluta sakir nokkuð snjöll. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra útleggingar hv. þingmanns á því að málið hefði ekki verið tekið út og það væri ástæðan fyrir því að minni hlutinn skilaði ekki nefndaráliti. Það var ágætis útlegging á því og réttlæting á því að nefndarálit minni hlutans liggur ekki fyrir. En það er ágætt að heyra að hv. þingmaður ætlar ekki að gera meira úr þessu. Ég hlýt að gera athugasemd við þau orð hv. þingmanns.

Ég fór hins vegar í þetta andsvar til að svara spurningum varðandi þessa fiðlu sem alltaf er verið að tala um. Spurninguna um hver á fiðluna. Hver á fiðluna? Í mínum huga er það nokkuð skýrt. Hv. þingmaður lýsti því að Ríkisútvarpið gerði eignartilkall til fiðlunnar. Sinfóníuhljómsveitin líka, taldi sig eiga fiðluna af einhverjum siðferðislegum ástæðum. Og síðan ríkissjóður. Við skulum leggja ríkissjóð til hliðar en ég lít þannig á að það sé Ríkisútvarpið sem eigi þessa fiðlu og hef alltaf litið þannig á. Ég held að við gerum ekki ágreining um það, ég og hv. þingmaður, að það var útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins sem keypti fiðluna fyrir hönd stofnunarinnar. Ég held við getum verið sammála um það. Ég veit ekki betur en að fiðlan sé bókfærð í bókum Ríkisútvarpsins og hún verður ekkert fjarlægð þaðan á einhverjum siðferðislegum grundvelli sem starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa haldið fram.

Þeir hafa hins vegar haft umráð yfir fiðlunni, það er annað, og greitt af henni tryggingariðgjöld og annan rekstur. En það veitir Sinfóníuhljómsveitinni ekki að mínu mati eignarrumráð yfir fiðlunni. En þegar allt kemur til alls er sannleikskorn í því hjá ríkissjóði að ríkissjóður (Forseti hringir.) á þetta náttúrulega allt saman vegna þess að það verður erfitt að slíta naflastrenginn sem er milli ríkissjóðs og þessara tveggja stofnana.



[17:02]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er fróðlegt að heyra skoðanir hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar á þessu. Við gætum staðið hér í allan dag og haft skoðanir á þessu máli. Það er því miður ekkert í þingmálinu sem við fjöllum um sem þetta varðar þannig að skoðanir okkar eru tiltölulega fánýtar fyrir löggjafarsamkomuna. Eftir standa yfirlýsingar þessara þriggja aðila: Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem viðurkennir að hún á ekki fiðluna en telur sig hafa ákveðinn umráða- og nýtingarrétt, þannig að við förum nú út í þá umræðu, yfir þessari fiðlu. Ríkisútvarpið telur sig eiga fiðluna og vill fá hana greidda eigi að koma í veg fyrir að það taki fiðluna til sín og selji hæstbjóðanda. Það vill fá hana greidda annaðhvort frá Sinfóníunni, ríkissjóði eða einhverjum öðrum sem vill kaupa af henni fiðluna.

Fulltrúi ríkissjóðs, fulltrúi fjármálaráðherra á fundi nefndarinnar, sagði að í raun ætti ríkissjóður þessa fiðlu. Hvaða skoðanir Sigurður Kári Kristjánsson hefur á því, það þykir mér merkilegt efni í málfund en það sem ég var að biðja um voru ekki skoðanir hans á því heldur hvort hann hefði gengið úr skugga um þetta vandamál í stjórnkerfinu, hver eigi fiðluna, hvar er hún er færð og hver hafi leyfi til að selja hana hæstbjóðanda eða að fela Sinfóníuhljómsveitinni umsjón hennar, vonandi til þeirrar eilífðar sem Sinfóníuhljómsveitin stendur frammi fyrir.



[17:03]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit svo sem ekki hvað hv. þingmanni finnst um mínar skoðanir. Hann verður að hafa það fyrir sig. Ég skildi hann ekki betur en svo að hann varpaði til mín ákveðnum spurningum sem ég reyndi að svara. Ég sagði að í mínum huga væri morgunljóst að Ríkisútvarpið ætti þessa fiðlu. Það er nú bara þannig. Ég leit þannig á að hv. þingmaður væri að spyrja mig álits á því. Þetta er mitt álit og mín skoðun. Hún byggir á þeim upplýsingum sem fram komu í nefndinni.

Auðvitað á ríkissjóður þetta allt saman á endanum, í því er sannleikskorn, meðan ríkið á Ríkisútvarpið og á og rekur Sinfóníuhljómsveitina. Þá hlýtur þetta á endanum, þegar til uppgjörs kemur, að renna inn í bækur ríkissjóðs.



[17:04]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði ekki að fara að þvarga við þingmanninn um þetta. Enda gefst okkur sem betur fer kostur á því á nefndarfundi strax á morgun og síðan næstu daga, að ganga úr skugga um þetta, hvernig þessi deila stendur og hver séu heppilegustu afskipti Alþingis af þessari deilu.

Svo ég láti mínar skoðanir í ljós eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lít ég svo á að Ríkisútvarpið eigi þessa fiðlu. Þess vegna tel ég það vera skyldu ríkissjóðs að kaupa fiðluna af Ríkisútvarpinu og færa Sinfóníuhljómsveitinni fiðluna að gjöf við þau tímamót sem nú verða í starfi hennar. Þetta getum við athugað betur í nefndarstarfinu því að þetta er eitt af sameiginlegum efnum Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar.



[17:05]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni af orðaskiptum sem hér urðu áðan milli tveggja hv. þingmanna sem ræddust við í andsvörum verð ég að segja að ég held að það hljóti að vera vitleysa hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þegar hann heldur því fram að ríkið eigi þetta allt að lokum. Ríkið mun ekki eiga þessa fiðlu ef hún fellur í hlut Ríkisútvarpsins og hv. þm. Pétri H. Blöndal verður að ósk sinni, sem hann lýsti því yfir fyrr í dag að Ríkisútvarpið yrði selt. Það er alveg klárt.

Frú forseti. Ég er ekki alveg sammála þeim tveimur þingmönnum sem töluðu áðan eins og formið skipti ekki máli.

Hv. þm. Mörður Árnason upplýsti að í óðagoti og flumbrugangi við að afgreiða frumvarpið um einkavæðingu Ríkisútvarpsins úr nefnd hefði gleymst að afgreiða frumvarpið sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég er hreinn og tær formalisti í þessum efnum. Annaðhvort eru mál afgreidd eða ekki. Þau eru ekki afgreidd úr nefnd fyrr en fyrir liggur samþykki allra eða að greidd hafa verið um þau atkvæði. Það hefur komið hér fram hjá hv. þingmanni að atkvæði hafi ekki verið greidd um þetta mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann frekar út í tildrög þessa máls. Mér sýnist á öllu að þá kunni að vera formgalli á því að við séum að ræða málið. Það hefur ekki verið afgreitt úr nefnd sem lög kveða á um og ef einhverjir ættu ekki að brjóta lögin, hvað þá um þeirra eigin vinnustað og starfshætti, þá eru það hv. alþingismenn.

Mig langar að spyrja hv. þm. Mörð Árnason: Er það virkilega svo að málið hafi ekki verið afgreitt formlega úr nefnd?



[17:07]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er svo að með formlegum hætti hefur þetta mál ekki verið afgreitt úr nefnd.

Málin eru tvö eins og ég vakti athygli á áðan. Fyrir nefndinni lágu tvö mál og fóru í gegnum nefndina á sama tíma, annars vegar frumvarp um Ríkisútvarpið hf. og hins vegar frumvarp um breytingar á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Undir lok síðasta fundar menntamálanefndar um Ríkisútvarpið var það mál vissulega afgreitt út úr nefndinni, gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga eins og ég sagði frá áðan, en Sinfóníuhljómsveitarmálið ekki. Á það minntist enginn. Satt að segja held ég að það hafi ekki verið okkur efst í huga eftir þennan fund. Þá tóku við aðrir hlutir í þeim ágreiningi sem varð um hið vanbúna frumvarp um Ríkisútvarpið.

Síðan er þetta mál allt í einu komið inn á dagskrá þingsins. Ég er nýliði á þingi eins og menn vita og átta mig kannski ekki alveg á því hvað er rétt að gera. En þetta þyrfti meiri umræðu, hvort við förum í raun á svig við lög með því að tala um mál sem á enn eftir að afgreiða úr menntamálanefnd.

Það er svo, sem er ástæðan fyrir því að við vorum aldrei beðin um afstöðu okkar til þessa álits sem meiri hlutinn eða Sigurður Kári Kristjánsson formaður nefndarinnar hv. þm. lagði fram, að menn voru því sammála. Ég verð að segja fyrir sjálfan mig að ég er þessu áliti að mestu samþykkur, eins og fram kom í ræðu minni, þótt ég hefði viljað haga einstökum breytingartillögum á annan hátt. Ég tek ekki undir allt sem þarna er sagt og ég hefði viljað hafa orðalagið öðruvísi. En til þess gafst aldrei tækifæri. Það er því rétt, að málið var aldrei formlega afgreitt úr nefndinni.

Kannski ætti bara að stöðva umræðuna og fresta henni. Málið er ekki mjög brýnt. Forseti gæti þá úrskurðað um hvort ástæða sé til að nefndin taki þetta mál fyrir á ný og afgreiði (Forseti hringir.) það formlega.



[17:09]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kallaði sjálfan sig nýliða í þessum sölum. Ég get ekki fellt sjálfan mig undir þá skilgreiningu. Í síðustu viku voru liðin 15 ár frá því að ég tók hér sæti. Á þeim 15 árum hef ég aldrei orðið þess áskynja, orðið vitni að því fyrr eða haft af því nokkurn pata, að mál væri til 2. umr. í þinginu án þess að hafa verið afgreitt formlega úr nefnd.

Það kemur fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að stjórnarandstaðan var ekki einu sinni spurð álits á meginviðhorfum í niðurstöðu umfjöllunar um málið. Það þýðir einfaldlega að málið er ekki afgreitt með réttum formlegum hætti úr nefnd. Ef það er svo að bókað sé í skjöl og gerðabækur hv. menntamálanefndar að málið hafi verið afgreitt kemur þá fram hver er afstaða minni hlutans? Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að því. Ég held að menn þurfi að ganga úr skugga um það.

Lög eru lög. Það er einfaldlega svo að þau eru ekki afgreidd með einhverjum tæknilegum annmörkum. Það er ekki svo, frú forseti, að menn séu spurðir að því eftir á frammi á gangi hvort þeim sé sama hvort hitt og þetta mál sé afgreitt úr nefnd. Ég tel að þegar þessi staða er komin upp sé sanngjarnt að fara fram á það við hæstv. forseta að málinu verði frestað og gengið úr skugga um hvort málið hafi verið afgreitt úr nefndinni. Hér hefur komið fram hjá talsmanni Samfylkingarinnar að svo var ekki. Það hefur komið fram hjá honum líka að afstaða stjórnarandstöðunnar ætti hvergi að vera skráð í fundargerðarbækur nefndarinnar. Hún var ekki spurð að því. Málið einfaldlega gleymdist vegna flumbrugangsins og óðagotsins við að koma út þessu ólánsfrumvarpi um Ríkisútvarpið hf. Það er ekki hægt. Menn verða að fara að lögum.



[17:12]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hér talar þingreyndur formalisti. Ég heyri ekki betur en hann hafi mikið til síns máls. Ég ítreka að ég tel að forseti eigi að staldra við og íhuga hvort þetta sé ekki rétt, hvort ekki beri með einhverjum hætti að stöðva þessa umræðu og fá lagfæringu á þessu.

Nefndin kemur saman á morgun. Það er auðvelt fyrir hana að lagfæra þetta mál með því að taka þetta fyrir á fundi sínum á morgun. Þeir munu verða tveir, að mér skilst á formanninum. Síðan mætti halda áfram umræðum um málið þannig að engir meinbugir séu á gagnvart þingskapalögum okkar.



[17:13]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Merði Árnasyni um formgalla sem kann að vera á þessari umræðu. Mér finnst það ekki neitt hégómamál ef ekki er rétt staðið að umræðu um þingmál. Mér finnst rétt að stjórn þingsins íhugi þetta. Ég óska ekki eftir svörum við því á þessari stundu en áður en umræðunni lýkur finnst mér eðlilegt að við fáum einhver svör frá stjórn þingsins um þetta efni. Það er mikilvægt að við hlítum öllum reglum og lögum sem gilda um umræðuna hér á þinginu.

Með þessu frumvarpi um Sinfóníuhljómsveit Íslands er klippt á þann naflastreng sem verið hefur á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var sett á laggirnar um miðja síðustu öld, árið 1950, hafði Ríkisútvarpið forgöngu í því efni. Allar götur síðan hafa verið náin tengsl á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpið beitti sér í þessu efni var fyrst og fremst sú að útvarpið vildi efla og bæta íslenskan tónlistarflutning útvarpsins. Með stofnun Sinfóníunnar var því markmiði náð, m.a. með stuðningi frá ríki og Reykjavíkurborg sem veittu fjárhagsstuðning á fyrstu árunum.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur átt í nokkrum fjárhagslegum erfiðleikum og var við það að komast í þrot í byrjun 7. áratugarins, eða árið 1961, en þá tók Ríkisútvarpið við rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands með þeim styrkjum sem þá voru frá ríki og Reykjavíkurborg. En sú skipan hélst síðan óbreytt í um tvo áratugi eða allar götur til ársins 1982 en þá voru sett sérstök lög um Sinfóníuna og lagður sá rekstrargrundvöllur sem hún hvílir á og er enn við lýði.

Þar var kveðið á um að hlutur Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands skyldi vera 25% en á móti veitti hljómsveitin þjónustu miðað við þá hefð og venjur sem í þeim efnum höfðu mótast á undangengnum árum, þ.e. meðan stjórn hljómsveitarinnar var algerlega í höndum starfsmanna útvarpsins.

Nú er það svo að ríkissjóður greiðir 56% af rekstrarkostnaði Sinfóníunnar, Ríkisútvarpið 25%, borgarsjóður Reykjavíkur 18% og bæjarsjóður Seltjarnarness 1%. Sú breyting sem er að verða með þessu frumvarpi er að hlutur Ríkisútvarpsins dettur út, 25%, og hlutur bæjarsjóðs Seltjarnarness. Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að ríkið kemur til með að greiða það framlag sem hingað til hefur komið frá Ríkisútvarpinu en í fjárlögum fyrir árið 2005 nemur upphæðin 123 millj. kr. og verður 138 millj. kr. miðað við forsendur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006. Þarna er tilflutningur á fjármunum og skýrir að forsvarsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa ekki lagst gegn þessum lagabreytingum. Þeir hafa fyrst og fremst horft til fjárhags hljómsveitarinnar og telja sig hafa fengið tryggingu fyrir því að ríkið komi þar í stað Ríkisútvarpsins.

Spurningin er hins vegar sú hversu æskilegt og vitlegt það er fyrir Ríkisútvarpið að gera þessa breytingu á. Því það er nefnilega rétt sem hefur komið fram í málflutningi manna á borð við Jón Þórarinsson, tónskáld og fyrrum dagskrárstjóra í útvarpi og í sjónvarpi, að það er rangt að líta á Sinfóníuna eins og menn hafa gert í seinni tíð, sem einhvern ómaga eða bagga á Ríkisútvarpinu. Þá hafa menn viljað gleyma hvert framlag hljómsveitarinnar hefur verið, ekki aðeins til tónlistarlífsins í landinu heldur til tónlistarflutnings í Ríkisútvarpinu.

Í grein sem Jón Þórarinsson skrifaði í Morgunblaðið hinn 11. mars á síðasta ári fer hann yfir þessa sögu. Hann segir hér m.a. í þessari grein, með leyfi forseta:

„Margt er nú rætt um fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins, m.a. í yfirgripsmikilli samantekt í Morgunblaðinu nýlega (Ríkisfjölmiðill í tilvistarkreppu, Morgunblaðið 6.3. 2005). Þar og víðar í þessari umræðu hefur verið talin hin mesta nauðsyn fyrir útvarpið að létt væri af því „framlagi“ til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem á þessu ári er sagt nema 118,5 millj. kr. Látið er líta svo út sem þetta sé hreinn „framfærslustyrkur“, sem útvarpið hafi verið blekkt eða kúgað til að taka á sig, og hvergi er á það minnst að neitt komi á móti „framlaginu“ eða útvarpið fái neitt fyrir snúð sinn.“

Síðan rekur Jón Þórarinsson ýmsa þætti í sögu og samskiptum Sinfóníunnar og Ríkisútvarpsins og vísar í samkomulagið sem gert var við hljómsveitina í byrjun 9. áratugarins, eða árið 1982, þegar lög voru sett um hljómsveitina og núverandi fyrirkomulag varð til.

Um þetta efni segir Jón Þórarinsson, með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögunum var gerður samningur um þessa þjónustu við Ríkisútvarpið. Hann hefur síðar verið endurnýjaður og endurskoðaður, en í honum felst þetta m.a.:

1. Heimild til að útvarpa beint, eða síðar af upptökum, öllum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar og öðrum tónleikum á hennar vegum. Innifalin er þátttaka stjórnenda og einleikara/söngvara.

2. Heimild til að sjónvarpa tónleikum eða taka þá upp fyrir Sjónvarpið til flutnings án endurgjalds.

3. Vinna við upptökur í þágu Ríkisútvarpsins, 25 vinnulotur á ári, allt að þrjár og hálf klst. hver lota, ásamt ótakmörkuðum flutningsrétti á upptökunum.“

Jón Þórarinsson heldur áfram, með leyfi forseta:

„Þessi ákvæði hefur útvarpið nýtt með þeim hætti að samkvæmt 1. lið hefur verið útvarpað um 35 sinfóníutónleikum á ári eða sem svarar 80–90 klukkustundum af útvarpsefni. Tónleikarnir eru glæsilegur þáttur í íslenskum tónlistarflutningi Rásar 1 og raunar ein af helstu skrautfjöðrum dagskrárinnar. Þetta efni hefur einatt verið notað umfram ströngustu heimildir, bæði í endurflutningi og efnisskiptum við erlendar útvarpsstöðvar. Sjónvarpsheimildin samkvæmt 2. lið má heita ónýtt með öllu. Það skal viðurkennt að ekki eru allir tónleikar ákjósanlegt sjónvarpsefni. En sumir eru það. Vínartónleikar eru eftirsóttir í sjónvarpi í mörgum löndum, einnig óperutónleikar svo eitthvað sé nefnt. Oft eru einstök verk á tónleikum sem mjög gætu lífgað sjónvarpsdagskrá þótt tónleikarnir séu ekki teknir í heild.

Það hefur komið fyrir að öðrum sjónvarpsstöðvum hefur verið seldur upptökuréttur að einstökum tónleikum. Verðið hefur verið lágt, á aðra millj. kr., en gefur þó hugmynd um þau verðmæti sem dagskrárstjórn sjónvarpsins hefur ekki hirt um að nýta þótt þau standi því til boða endurgjaldslaust. Upptökutími Ríkisútvarpsins var lengi vel nýttur aðallega til upptöku á nýjum verkum íslenskra tónskálda og ræktu bæði útvarpið og hljómsveitin þannig sjálfsagðar skyldur sínar við íslenskt menningarlíf. Á síðari árum hefur slaknað á þessu og stundum hefur útvarpið ekki sinnt um að nota umsaminn tíma sinn. Hefur hljómsveitin þá ráðstafað honum til annarra þarfa.

Það lætur nærri að þær 25 vinnulotur sem nú eru í samningnum, upphaflega 5 vinnuvikur, séu um 10% af virkum árlegum starfstíma hljómsveitarinnar. Þær má því meta til fjár, á rétt um 52 millj. kr. Verðmæti heimildanna í 1. og 2. lið hér að ofan, nýttra og ónýttra, er erfiðara að áætla en þær eru vart metnar lægra en svo að framlag Ríkisútvarpsins mætti telja væga greiðslu fyrir þá þjónustu sem því stendur til boða.

Hitt er svo hörmuleg staðreynd að Ríkisútvarpið hefur ekki hirt um að notfæra sér heimildirnar nema að nokkrum hluta en það er framkvæmdaratriði sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins.“

Þarna vitnaði ég í grein eftir Jón Þórarinsson, tónskáld og fyrrum dagskrárstjóra hjá Ríkisútvarpinu.

Hann hrósar hljóðvarpinu, hann hrósar útvarpinu en gagnrýnir sjónvarpið hins vegar harðlega fyrir að hafa ekki nýtt sér þær heimildir sem það hefur til að sjónvarpa frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og færir ágætlega rök fyrir sínu máli.

Þetta þykja mér vera sannfærandi rök, sannfærandi málatilbúnaður. Ég tek undir með Jóni Þórarinssyni að það er mjög undarlegt og vægast sagt vafasamt að líta á það af hálfu forsvarsmanna Ríkisútvarpsins að Sinfónían sé einhvers konar baggi á Ríkisútvarpinu. Eða ætla menn að klippa á þetta samstarf algerlega eftir þessar breytingar? Koma ekki til með að verða útvarpstónleikar frá Sinfóníuhljómsveit Íslands í útvarpi og þá hugsanlega einnig í sjónvarpi? Telja menn að þurfi ekki að greiða fyrir slíkt efni?

Þannig að fjárhagslegur ávinningur Ríkisútvarpsins, ef það ætlar að rækja menningarlegar skyldur sínar á sviði tónlistar, er ekki fyrir hendi. (Gripið fram í.) Ávísun á metnaðarleysi, er sagt úr sal. Ég vil taka undir það. Reyndar finnst mér allur þessi málatilbúnaður í sambandi við Ríkisútvarpið bera vott um ótrúlegt metnaðarleysi af hálfu forsvarsmanna Ríkisútvarpsins og þriggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ráðuneyti menntamála á undanförnum árum. Því það er þar sem vandi þessara stofnana liggur, hvort sem það er Sinfóníuhljómsveit Íslands eða Ríkisútvarpið. Vandinn er sumpart stjórnunarlegs eðlis, nokkuð sem hægt er að laga án þess að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, og hins vegar er það fjársvelti. Það er fjársvelti. Ríkisútvarpið hefur orðið af tekjum á undanförnum árum sem nema 19% miðað við launavísitölu eða þróun hennar á árabilinu 1994–2004. Mannahald hefur dregist saman um 15% á þessu sama tímabili. Þetta er vandinn í hnotskurn. Síðan eru að tala fyrir þessum lagabreytingum einstaklingar sem vilja leggja útvarpið niður, selja það. Þeir eru síðan að reyna að sannfæra þing og þjóð um að því verði vel borgið í nýjum búningi.

En ég ítreka, hæstv. forseti, að af hálfu forsvarsmanna Sinfóníuhljómsveitar Íslands er fyrst og fremst horft á þennan fjárhagsgrundvöll og þeir hafa ekki gert alvarlegar athugasemdir við þessar breytingar, einfaldlega vegna þess að því er heitið að tryggja þeim samsvarandi greiðslur úr ríkissjóði sem verða á þessu ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi 138 millj. kr. Þeir gagnrýna ekki þessar lagabreytingar af þessum sökum. Mættu reyndar fyrir minn smekk gagnrýna þessar breytingar vegna þess að það má ætla að aðgangur Sinfóníunnar að Ríkisútvarpinu verði minni. Ég óttast það einmitt vegna þess metnaðarleysis sem menn sýna í málflutningi sínum og yfirlýsingum gagnvart Sinfóníuhljómsveit Íslands sem þeir líta á sem einhvers konar bagga á starfsemi útvarpsins. Það eru þeir sem ég gagnrýni kannski fyrst og fremst, ábyrgðarmenn Ríkisútvarpsins, hvort sem þeir eru þar innan búðar og láta þetta yfir sig ganga og jafnvel ýta undir þessar breytingar, og svo að sjálfsögðu einnig pólitíska ábyrgðarmenn í menntamálaráðuneytinu. Þar vísa ég að sjálfsögðu ábyrgðinni á hendur hæstv. menntamálaráðherra sem stendur fyrir þessum breytingum öllum saman sem ég tel vera afar illa grundaðar.

Hæstv. forseti. Ég hef hér í örfáum orðum gagnrýnt þær breytingar sem þetta frumvarp hefur í för með sér. Ég ítreka að áður en gengið er til atkvæða um þetta frumvarp, hvenær sem það verður, eftir 2. umr., þá höfum við fengið úr því skorið hvort sú umræða sem hér fer fram er yfirleitt lögmæt samkvæmt þingskapalögum. Vegna þess ef svo er ekki er það góðra gjalda vert að sitja hér og spjalla um málefni Sinfóníunnar. En við eigum hins vegar ekki að líta á það sem hvert annað hégómamál hvernig menn og Alþingi umgangast þingskapalögin.

Þannig að áður en gengið verður til atkvæða um þetta mál er nauðsynlegt að fá úr þeim álitamálum skorið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að áðan og hv. þm. Mörður Árnason tók undir og staðfesti héðan úr ræðustól að málinu hefði aldrei formlega verið vísað úr menntamálanefnd til umræðu í þingsal.



[17:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hyggst taka upp þráðinn þar sem hann féll úr hendi hv. þm. Ögmundar Jónassonar undir lok ræðu hans.

Alþingi verður að bera virðingu fyrir sjálfu sér. Ef það sýnir það ekki í verki er ekki hægt að ætlast til þess að aðrir beri virðingu fyrir því. Við höfum sett okkur hérna ákveðnar vinnureglur. Þær eru öðruvísi en þær reglur sem aðrar stofnanir samfélagsins fara eftir að því leyti að þær eru hluti af lagarammanum sem samfélagið gengur eftir. Samkvæmt þingskapalögum er það alveg ljóst að mál koma ekki hér til 2. umr. fyrr en þau eru afgreidd úr nefnd. Það er auðvitað ýmiss konar háttur sem nefndarformenn hafa á því að skipa vinnu nefndarinnar þannig að hagkvæmast sé. Yfirleitt er það þannig í þeim nefndum sem ég hef setið á síðustu 15 árum, og ég hef setið í öllum nefndum þingsins utan einni, að fundur er boðaður með dagskrá. Á dagskránni eru tilteknir liðir sem á að ræða og þar koma fram þau mál og þau númer sem þau hafa fengið sem þingskjöl. Menn ræða því með skipulegum hætti þau mál sem eru undir á nefndarfundum hverju sinni. Sum mál eru tekin fyrir mörgum sinnum, flókin og erfið stundum, þung í vöfum, en að lyktum eru öll mál afgreidd formlega.

Það hefur komið fram í umræðunni hér af hálfu talsmanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Marðar Árnasonar, í þessu máli, að þetta mál var aldrei afgreitt formlega út úr hv. menntamálanefnd. Mig langaði þess vegna til þess að spyrja formann nefndarinnar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvort hann beri brigður á það. Ég tel að við getum ekki verið að ræða hér mál, hversu léttvægt sem það er — og tek það þó fram, frú forseti, að ég er ekki að halda því fram að við séum nokkru sinni að ræða léttvæg mál — nema það liggi alveg klárt fyrir að þau uppfylli öll skilyrði laganna. Skilyrði laganna eru margvísleg. Framlagning máls er háð undirskrift forseta lýðveldisins. En endurkoma máls inn í þingsalinn til 2. umr. er algjörlega háð því að það sé formlega afgreitt í menntamálanefnd af því að hér er slíkt mál undir.

Ég vil spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvort svo hafi verið gert og hvort hann geti fullyrt það með óyggjandi hætti. Það hefur komið fram hérna hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar að það var ekki gert. Hv. þingmaður sem ég nefndi hér áðan, Mörður Árnason, lýsti því alveg skýrt yfir að það hefði verið af þeim sökum sem minni hlutinn skilaði ekki sérstöku áliti eins og jafnan er venjan eða eftir atvikum er þá með meiri hlutanum á áliti. Því var ekki til að dreifa í þessu máli vegna þess að málið var aldrei afgreitt út úr nefndinni. Til hvers erum við þá að ræða hér mál sem hefur ekki verið afgreitt út úr nefndinni? Það væri væntanlega hægt, þess vegna eftir öðrum leiðum að bera brigður á, ef málið verður að lokum samþykkt frá þinginu, að það sé gert með lögformlegum hætti. Þess vegna vænti ég þess að undir þessari umræðu muni koma fram kröfur um að þetta verði skoðað.

Ég spyr, frú forseti, hvar er hv. formaður nefndarinnar? Hann hljóp hér eins og eldibrandur úr salnum samstundis sem honum varð hugsanlega ljóst að stjórnarandstaðan hefði rétt fyrir sér, að málið hefði ekki verið afgreitt. Ég hef ekki haft það fyrir sið að láta flytja menn í böndum hér í þingsalinn til þess að hlýða á það mál sem ég hef að flytja eða hlusta á ákveðnar spurningar ef það er óhjákvæmilegt. — En nú kippist hjarta mitt við af gleði því að hv. þingmaður og formaður nefndarinnar er mættur hér í salinn. Ég ætla ekki að halda þá ræðu sem ég hef flutt hér að honum fjarstöddum aftur … (Gripið fram í.) Hv. þingmaður kallar fram í að hann hafi verið að hlusta á mig eftir allt saman og það gleður mig. (Gripið fram í.) Það hefur þá væntanlega ekki farið fram hjá honum að ég varpaði fram hérna ákveðnum spurningum um formlegan umbúnað málsins sem ég óska eftir að hv. þingmaður svari. Það kemur fram í frammíkalli hjá formanni nefndarinnar að hann hafi verið æsispenntur undir ræðu minni. Ég get þá trúað hæstv. forseta fyrir því að blóð mitt þýtur líka örar um æðar við það eitt að sjá hann og gera mér grein fyrir því að hann hyggist svara mér í þessu máli, hann muni svara spurningu minni hér á eftir.

Það eru aðrar spurningar sem ég vil líka spyrja hæstv., hv. þingmann — því að vissulega er hann ekki orðinn hæstvirtur enn þá þó að vissulega mætti halda því fram að ekki mundi hann fara verr með þann titil en ýmsir aðrir, án þess að ég ætli að nefna nein nöfn sérstök í því sambandi — en í síðustu viku vorum við hér í mikilli umræðu um Ríkisútvarpið og eitt af því sem ég gagnrýndi harkalega var að ekki lægi ljóst fyrir hver eiginfjárstaða og fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins væri. Mér fannst það heldur linkulegt af talsmönnum ríkisstjórnarinnar að geta ekki svarað til um hvernig fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er þegar fyrir liggur að það á að fara að búa til úr því hlutafélag með lögum.

Frú forseti. Ekki er undrun mín minni að sjá það nú í 2. umr. um Sinfóníuhljómsveit Íslands að það liggur heldur ekki ljóst fyrir hvort búið er að hnýta þá lausu fjárhagslegu enda sem tengjast þeim breytingum á rekstrarlegum högum hennar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi. Sinfóníuhljómsveit Íslands eða framkvæmdastjóri hennar hefur haldið því fram með ærnum rökum fyrir nefndinni og líka opinberlega að óuppgerðar skuldir Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina séu 650 miljónir. Hefur menntamálanefnd gengið úr skugga um þetta? Mig langar að spyrja hv. formann nefndarinnar: Hver er skuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina og með hvaða hætti verður hún gerð upp? Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að allar ræður hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um Ríkisútvarpið tengdust því að það þyrfti að gera það liprara á skriðnum til þess að unnt væri að spara fé og reka það með hagkvæmari hætti af því að því er féskylft eins og við vitum. Mér finnst ekki hægt þegar verið er að fjalla um Sinfóníuhljómsveit Íslands eigi að skilja við hana með sama hætti.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um átökin um fiðluna miklu, Guarnerius-fiðluna. Það hefur komið fram að hún er gríðarlegra upphæða virði og þess vegna er hún eins konar tákn fyrir þá stöðu sem er komin upp í þessu máli. Hún er ákveðið tákn um vinnubrögðin og flaustrið sem er á þessu. Menn hlaupa í að gera breytingar á þessum tveimur merku menningarstofnunum íslenska samfélagsins en þeir hafa ekki fyrir því í asanum og óðagotinu að gera sér grein fyrir því hver fjárhagsleg staða þeirra er þegar verið er að skilja þessar tvær stofnanir í sundur. Því legg ég áherslu á að fá svör við því hvort menntamálanefnd hafi gengið eftir því að hinn fjárhagslegi aðskilnaður liggi alveg ljós fyrir, hver eigi hvað og hver skuldi hverjum og hve mikið. Það finnst mér vera lágmarksspurningar í þessari umræðu.

Þegar maður skoðar öflugt samfélag eins og Ísland, sem býr að vaxandi höfuðborg, land sem er komið í alfaraleið, sem er sótt hingað heim af fjölda erlendra ferðamanna blasir það við að það er eðlilegt að þrjár dýrustu perlurnar í menningarfesti slíks samfélags séu stofnanir eins og sinfónía, þjóðleikhús og listdansflokkur. Við getum bætt fjórðu perlunni við sem er menningarlega sinnað ríkisútvarp. Að undirstöðum allra þessara stofnana er með einhverjum hætti vegið um þessar mundir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ekki ætla ég að eyða tímanum í að fjölyrða um örlög Listdansflokksins og þeirrar menntunar sem liggur að baki honum. Við höfum þegar tekið þátt í því fyrr á vetrinum að ræða hversu óhönduglega hæstv. menntamálaráðherra hefur tekist til þar.

Ekki ætla ég heldur að fjölyrða um Ríkisútvarpið, ég ætla bara að einskorða mál mitt hér við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég velti því fyrir mér þegar verið er að gera breytingar á rekstrarfyrirkomulagi og högum Ríkisútvarpsins, sem beinlínis er skilgreint af hálfu þeirra sem bera málið fram í þinginu að það eigi ekki síst að verða til þess að auka menningarlegt inntak Ríkisútvarpsins, hvers vegna menn byrja þá á þessum aðskilnaði. Ég tel nefnilega að það sé ekki endilega rökrétt eða sjálfgefið og ég er ekki einu sinni viss um að það sé skynsamlegt að menn byrji þessa ferð með því að skera á tengslin milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Hver eru rökin á bak við það? Þau eru bara ein, alltaf þessi sömu rök sem koma fram varðandi nauðsynina á því að breyta Ríkisútvarpinu, það vantar fjármuni. Í rösklega 20 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu hafa fjárveitingar til Ríkisútvarpsins verið svo skornar við nögl að það er stórskuldugt og eins og fram hefur komið í umræðu síðustu vikna mundi það ekki eiga fyrir skuldum sínum ef gengið væri að því sem nýstofnuðu hlutafélagi.

Ástæðan fyrir því að þetta frumvarp hér um Sinfóníuhljómsveitina er lagt fram er einfaldlega sú, eins og kemur fram í frumvarpinu, að það á að losa Ríkisútvarpið við þá kvöð að þurfa að greiða fjórðung af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar. Vel má skilja vilja stjórnenda Ríkisútvarpsins sem búa við þann nauma fjárhag sem þeim er ætlaður af ríkisstjórninni. Vel má skilja að forstöðumenn þess og yfirmenn geri það sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr slíkum kostnaði. En það finnast mér ekki vera hin réttu rök og ég tel að afleiðingar slíkrar gerðar séu ekki fallnar til þess að gera Ríkisútvarpið að menningarlegri stórstofnun eins og það á að vera.

Þegar við horfum til helstu höfuðborga heimsins, a.m.k. á Vesturlöndum, hefur það einkennt ákaflega margar þeirra að þar er að finna eina stóra og öfluga sinfóníuhljómsveit sem gjarnan er rekin í samstarfi viðkomandi höfuðborgar og viðkomandi ríkis og það er fullkomlega eðlilegt. Þessi háttur var hafður hér á á sínum tíma. Að vísu var það þannig, eins og fram kom hér í ræðum áðan, að forsaga þessara tengsla Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar var ekki síst sú að það þurfti fjármagn til þess að reka Sinfóníuhljómsveitina og þessi háttur var tekinn upp vegna þess að það var litið svo á að þarna væri um að ræða nátengdar stofnanir, það var litið svo á að Sinfóníuhljómsveitin væri partur af þeirri menningarlegu ávöxtun arfleifðarinnar sem skiptir svo miklu máli fyrir menningarþjóð eins og Íslendinga.

Væri það raunverulega ætlunin að ýta undir Ríkisútvarpið sem bólvirki menningar á sviði tónlistar á Íslandi hefðu menn gert þveröfugt við það sem liggur fyrir í frumvarpinu. Þá hefðu menn frekar reynt að hnýta fastar tengslin á milli Ríkisútvarps og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég er ekki eini maðurinn sem er þessarar skoðunar. Hún hefur komið fram hjá ýmsum af helstu foringjum fortíðarinnar hjá Sjálfstæðisflokknum sem enn eru á dögum og hafa af því nokkuð amstur en sennilega einnig gaman af að uppfræða þjóðina daglega um viðhorf sín, eins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, gerir í leiðurum blaðsins sem hann stýrir. Í nýlegum leiðara fjallar hann einmitt um tengsl Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Hann segir að miklu rökréttara virðist að byrja á hinum endanum, þ.e. að treysta betur þau tengsl sem eiga að hans mati að vera milli Ríkisútvarps og Sinfóníuhljómsveitar. Í leiðaranum sem ég hef leyft mér, virðulegi forseti, að vísa til segir fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Hitt er óskiljanlegt hvers vegna byrja á nýjan tíma í rekstri þess með því að rjúfa þessi tengsl. Öll rök sýnast falla að hinu að auðga þau að innihaldi.“

Frú forseti. Þetta er auðvitað mergurinn málsins. Það væri Ríkisútvarpinu til framtíðar mikill akkur og fengur í að hafa sem sterkust tengsl við Sinfóníuna. Áratugum saman hefur það verið fastur liður og þó tiltölulega tíðari á árum áður að Ríkisútvarpið útvarpaði í gegnum hljóðvarpið reglulega frá sinfóníutónleikunum. Það var hluti af því endurgjaldi sem Ríkisútvarpið fékk fyrir fjórðungsframlag sitt til rekstrarfjár hljómsveitarinnar sem lög, sem hér er verið að breyta, gerðu ráð fyrir. Þetta eru svipuð tengsl og við sjáum í mörgum löndum í kringum okkur. Þar er veigamikið hlutverk sérhvers ríkisrekins almannaútvarps að miðla efni af þessu tagi. Þess vegna get ég ekki annað en tekið undir með fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins með að það er öfugsnúið að hafa þennan háttinn á, eins og hann segir svo snilldarlega í greininni sem ég vísa til sem birtist fyrir tíu dögum í Fréttablaðinu. Öll rök hníga að því að það hafi einmitt átt að auðga tengsl þessa tveggja.

Það hefur komið fram að mismunandi skoðanir eru á hvort rétt sé að heimila öðru þeirra tveggja sveitarfélaga sem koma að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar að skera á þau tengsl. Ég verð að segja að ég er ekki sammála öllum þeim viðhorfum sem sett hafa verið fram í því efni. Ég skil það vel að Seltjarnarnesbær vilji losna undan þessari kvöð. Ýmis rök hníga að því. Þegar Seltjarnarnesbær gekkst undir þessar skuldbindingar árið 1982 var það í þeirri trú að fleiri sveitarfélög mundu lyfta undir þennan bagga. Það gerðist ekki. Það má, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, færa gild rök að því að eðlilegast, til að standa straum af kostnaði menningarstofnunar af þessu tagi, sé að fyrst og fremst komi tveir aðilar að verki, þ.e. ríkisvaldið og höfuðborgin.

Ríkisvaldið og höfuðborgin hafa þegar öflugt samstarf á sviði menningar og lista sem kristallast t.d. í hinni ágætu Listahátíð sem hér er orðin fastur liður í þjóðlífinu. Hún hefur orðið til að draga hingað í vaxandi mæli menningarferðamenn sem koma til landsins til að bergja af menningarbrunnum þjóðarinnar. Það er óhætt að fullyrða að Sinfónían og íslensk tónlist er einn af þeim brunnum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að þessar tvær stofnanir samfélagsins komi að þessu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti afbragsgóða ræðu áðan. Sérstaklega þótti mér snilldarlegur sá kafli ræðunnar þar sem hann færði rök að því að ólíklegt væri að sá sparnaður sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis næðist fram. Hv. þingmaður benti á að samkvæmt upplýsingum sem þar koma fram er gert ráð fyrir á fjárlögum yfirstandandi árs spari Ríkisútvarpið 123 millj. kr., þ.e. með því að skera á þessi fjárhagslegu tengsl. Í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var síðast, fyrir það ár sem nú er hafið, er þessi upphæð 138 millj. kr.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gaf sér að Ríkisútvarpið, undir nýrri forustu og hugsanlega innan nýs lagaramma, mundi ekki hverfa frá því að rækja það menningarlega hlutverk sitt að miðla klassískri tónlist fyrir tilstilli Sinfóníuhljómsveitarinnar til þjóðarinnar. Nú er ég að vísu ekki algerlega sammála hv. þingmanni. Ég er ekki viss um að það verði svo í framtíðinni. Röksemdina fyrir því sæki ég einmitt í röksemdafærslu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hann benti eðlilega á að ekki væri hægt að gera ráð fyrir að Ríkisútvarpið fengi afnot af flutningi og tónverkum Sinfóníuhljómsveitarinnar án endurgjalds. Miðað við það sem höfum heyrt í umfjöllun um ýmiss konar skyld mál og tengd þessu er líklegt að Ríkisútvarpið þyrfti að greiða tugi milljóna á ári hverju ef það ætlaði að halda þeim tengslum í svipuðu formi og áður. Það er hins vegar alls óvíst.

Ef við horfum framan í nýja tíma þar sem búið er að háeffa Ríkisútvarpið og Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að skera af því þann þrönga fjárhagslega stakk sem þrælsaumaður er utan um það í dag þá spyr ég hv. þm. Ögmund Jónasson og formann nefndarinnar, sem hefur upplýst það í þessari umræðu að hann er ákaflega menningarlega sinnaður og telur að Ríkisútvarpið eigi að gegna þessu hlutverki: Hvar á Ríkisútvarpið þá að fá fjármunina til að greiða Sinfóníunni fyrir flutning á þessum tónleikum? Það er hvergi gert ráð fyrir því. Það er alls ekki hægt að sjá nokkur merki þess í þeim gögnum sem fylgja þessu frumvarpi eða í þeim umsögnum eða skjölum sem í því koma fram. (SKK: Samningurinn tekur á þessu.) Það þarf að borga fyrir samninginn, frú forseti.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar fram í að gera eigi samning um flutning þessa efnis milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. En skilur ekki hv. þingmaður að það þarf að greiða fyrir það efni? Það kemur hvergi fram hvert eigi að sækja það fé. Hvert á að sækja það fé eða með hvaða hætti? Það er hugsanlegt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson finni upp einhverja aðferð til að fjármagna Sinfóníuhljómsveitina. Hann er snjall maður. Hann hefur sýnt það á síðustu tveimur árum að hann hefur komið fram með tvær gersamlega andstæðar hugmyndir um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Hann var með frábæra hugmynd í fyrra, sem ég skil því meir sem ég kynnist og skoða hana betur, þ.e. að Ríkisútvarpið yrði fjármagnað með tengslum við persónuafslátt tekjuskattskerfisins. Síðan sáum við að hv. þingmaður greiddi atkvæði með allt öðru, með nefskattinum.

Ég hef áður látið hnútasvipu nefskattsins og röksemdafærslu hans frá því í fyrra ríða á hrygglengju hv. þingmanns og ætla ekki að angra geð hans með því frekar í dag. En það er samt rétt að rifja upp að hv. þingmaður gat í fyrra fundið 16 tölusetta liði með athugasemdum og andmælum gegn nefskattinum sem hann taldi allsendis ófæran. Hv. þm. Pétur H. Blöndal taldi hann ekki 10 aura virði. Þeir samþykktu þann skatt báðir í dag. Ég gat ekki betur séð. Hugkvæmnin sem hv. þingmaður hefur sýnt í umræðum um þessi mál er slík, að það er aldrei að vita nema hann geti dorgað úr djúpum huga síns einhvers konar aðferð til að fjármagna Sinfóníuhljómsveitina.

Klárt er að minnsta kosti að í nefndaráliti sem hv. þingmaður hefur mælt fyrir er talað um að þessi tengsl eigi að halda áfram. Hins vegar er hvergi sagt hvert eigi að sækja fjármagnið til þess að greiða það. Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að þessum málaflokki. Það er ekki einu sinni gerð tilraun til að slá á hvað þetta kostar.

Hv. þingmaður hefur ekki þreyst á að upplýsa menn um að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Það er ekkert ókeypis í þessum heimi. Það er ekki hægt, af hálfu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að koma með sveðjuna og skera á þessi tengsl með ýmsum rökum en ætla síðan að segja að allt eigi að vera eins og það var áður. Í reynd er hv. þingmaður að segja að kostnaðurinn vegna þessa samstarfs minnki ekkert. Það á bara að borgað með allt öðrum hætti, seinna, einhvern tímann inni í framtíðinni. Það er aldrei nein fyrirhyggja í þessum efnum. En ég ætla að vera heiðarlegur við hv. þingmann. Það er ekki honum að kenna. Hann ber enga sök á því. Hins vegar hefði hann mátt hafa svolítið meiri metnað fyrir þessum málaflokki. Það hefur örugglega komið fram í þessari umræðu að hv. þingmaður finnur sig í að vera talsmaður í menningarmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Enda fyrir löngu komið að því, eins og ég sé á hæstv. félagsmálaráðherra að hann er mér algerlega sammála um, að sá flokkur kæmi sér upp einhverri menningarstefnu.

Ég veit að einhvers staðar í djúpum hjarta hv. þingmanns hefur kviknað hjá honum löngun til að verða menntamálaráðherra. Það er fullkomlega eðlilegt. Hann er ekki verri en sumir aðrir sem þar hafa setið fyrir hönd hans flokks. Sennilega yrði hann miklu betri en obbi þeirra. En þá verður hv. þingmaður líka að sýna ákveðinn metnað. Því miður, ef hann ætlar að renna í slóð fyrrverandi ráðherra menntamála sem úr Sjálfstæðisflokknum hafa komið, er fortíðin þeirra ekki glæsileg til að byggja á fordæmi inn í framtíðina.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson rifjaði upp grein eftir Jón Þórarinsson, sem var listráðunautur Ríkisútvarpsins, eitt af okkar fremstu tónskáldum sem við á hinu háa Alþingi settum í heiðurslaunalistamannaflokk fyrir nokkrum árum. Hann ritaði grein í Morgunblaðið og lýsti því hvers konar metnaðarleysi hefur einkennt stefnuna, annars vegar gagnvart þessu samstarfi Ríkisútvarpsins og Sinfóníunnar og hins vegar gagnvart tónlistarlegri arfleifð landsins almennt. Í þeirri grein vakti Jón Þórarinsson athygli manna, þar á meðal mína, á hinum ágæta samningi sem átti að vera grunnurinn að samstarfi Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Þar kemur glöggt fram að þetta samstarf átti að vinna á báða vegu, þ.e. það átti ekki bara að vera þannig að Ríkisútvarpið greiddi fjórðunginn af kostnaði heldur kom ákveðið endurgjald til baka. Þetta endurgjald má segja að hafi byggst á tveimur höfuðþáttum. Í fyrsta lagi var heimild til að útvarpa beint eða síðar upptökum af öllum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar og líka öllum öðrum tónleikum sem á hennar vegum voru haldnar.

Hvað heldur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að kosti í dag að fá að senda út til heillar þjóðar tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit, þótt hún sé lítil, sem hefur samt unnið sér sess sem ein af framsæknustu Sinfóníuhljómsveitum veraldar? Hún hefur á undanförnum árum fengið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir þá tónlist sem hún hefur framleitt og miðlað í gegnum diska. Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmanni. Hann er vel að sér í menningarefnum eins og ég hef áður vottað um.

Þetta var annað meginstefið í þessum samningi, að Ríkisútvarpið mátti senda beint frá öllum tónleikum. Hitt var að þeim mátti sjónvarpa líka. Man hv. þingmaður eftir að Ríkisútvarpið hafi notfært sér þennan samning svo að einhverju nemi? Þá er ég að tala um seinni liðinn, þ.e. heimildina til sjónvörpunar? Nei. Þó er það svo að Ríkisútvarp sem tekur sig alvarlega, eins og ríkisútvörpin í nágrannalöndunum gera, leggur metnað sinn í að miðla með þessum hætti tónlistararfleifðinni. Það hefur alls ekki verið gert. Það er þess vegna sem ég rifja það sérstaklega upp undir lok ræðu minnar að Þorsteinn Pálsson, sem var á sokkabandsárum hv. formanns menntamálanefndar, ljós pólitísks lífs hans. Hann komst til vits og þroska á þeim árum sem sá ágæti stjórnmálamaður veitti Sjálfstæðiflokknum forustu. Hann hefur sérstaklega gert að umræðuefni hvílíkt metnaðarleysi það er af hálfu Ríkisútvarpsins að hafa ekki notfært sér þessi tengsl. Ég get ekki annað en tekið undir það.

Það er algengt í löndunum í kringum okkur að metnaðarfullar ríkisútvarpsstöðvar reki sinfóníuhljómsveitir, ekki bara að hluta eins og gerist hér á landi heldur að öllu leyti. Rökin liggja í augum uppi. Hér er um að ræða tónlist sem langlíklegast er að ríkisrekið útvarp geti skilað í ýmsu formi áfram úr tónlistarsölunum til fólksins í landinu. Ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og meðreiðarsveinar hans, sem hér hafa farið heldur á brokkinu í gegnum þingið við að reyna að reka þetta frumvarp í gegnum salina, meina eitthvað með tali sínu um hið nýja Ríkisútvarp, eins og það er orðað stundum, sem eigi að sinna menningarlegri hlið samfélagsins, ættu þeir auðvitað að fara í slóð Þorsteins Pálssonar. Ég tel hugsanlegt að hæstv. samgönguráðherra hefði gert það ef hann hefði verið settur yfir annað en að bæta samgöngur landsmanna, sem hann hefur reyndar gert með miklum ágætum. (Samgrh.: Og er nú ekki lítið mál.)

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta frekar. Ég hef lagt tvær spurningar fyrir hv. þingmann Sigurð Kára Kristjánsson og hin fyrri er þessi:

Er það rétt að þetta frumvarp sem hér er til umræðu sé komið til þingsins með formgalla sem er þess eðlis að hann stangist á við lög? Er það rétt að þetta frumvarp hafi aldrei verið afgreitt með formlegum hætti úr menntamálanefnd? Ég vænti þess, þegar hv. þingmaður svarar mér á eftir, að hann geti upplýst okkur um að niðurstaða meðferðar málsins í nefndinni hafi verið skráð í gerðarbækur nefndarinnar.

Á hinn bóginn spyr ég hv. þingmann: Er búið að skilgreina til fulls hið fjárhagslega uppgjör á milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins, verði þetta frumvarp að lögum? Í þessari spurningu felst ósk um upplýsingar um hver skuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuna er í dag.



[18:02]Útbýting:

[18:02]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu (Gripið fram í.) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég verð að segja að umræðan hefur verið lífleg og skemmtileg og fletir á henni sem mig óraði ekki fyrir að gætu komið upp, ég ætla aðeins að koma að því hér á eftir. Hér hefur margt verið rætt og ég hef nefnt út af því að að því hefur verið spurt, sérstaklega af hálfu hv. þm. Marðar Árnasonar, að ég hef talið að sú fiðla sem töluvert var rætt um í nefndarstarfinu og við meðferð málsins í hv. menntamálanefnd sé í eigu Ríkisútvarpsins. Hún var enda keypt af hálfu Ríkisútvarpsins en hefur verið í vörslu og umráðum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Því verður ekki breytt nema með einhverjum formlegum hætti (Gripið fram í.) og það hefur aldrei verið gert.

Ég heyri nú ekki frammíköllin hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni en ég vil þakka honum fyrir ræðuna sem hann hélt hér og hlý orð í garð míns fyrrverandi formanns, formanns Sjálfstæðisflokksins, Þorsteins Pálssonar. Ég hefði nú óskað eftir því að hann hefði fjallað um Þorstein Pálsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, með sama hætti þegar við vorum að fjalla hér um bók sem forsætisnefnd þingsins ætlaði sér að gefa út um sögu þingræðisins. Þá hefðu þessar miklu mærðarræður um Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, mátt heyrast frá hv. þingmanni eða hans meðreiðarsveinum í Samfylkingunni — um þennan ágæta mann sem tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum þegar ég var tíu ára gamall og stóð sig með mikilli prýði sem slíkur.

Ég ætla svo sem ekki að halda hér langa ræðu en ég vil þó taka það fram út af því sem fram kemur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, af því að hann varpaði þeirri spurningu til mín hver væri heildarskuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina, að mér telst svo til að skuld Ríkisútvarpsins við hljómsveitina nemi u.þ.b. 626 millj. kr. Um þá skuld er það að segja að hún mun ekki fara neitt og ef menn lesa frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. kemur þar fram að hið nýja félag tekur við réttindum og skyldum, þar á meðal eignum og skuldum, þessa félags þannig að skuldin stendur og hefur ekki verið gerð upp og mun ekkert verða gerð upp í tengslum við þetta frumvarp enda fjallar það ekkert um þetta atriði málsins. Skuldin er þarna og þetta frumvarp leysir Ríkisútvarpið ekkert undan henni hvað sem síðar verður.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort þetta mál hafi verið afgreitt úr hv. menntamálanefnd með lögformlegum hætti eða þeim hætti sem fundarsköp Alþingis gera ráð fyrir. Þegar ég var yngri og var í menntaskóla tók ég þátt í alls kyns mælskukeppnum (Gripið fram í.) og þær voru nú ágætar. En á dauða mínum átti ég frekar von en að hv. þingmenn hefðu meira ímyndunarafl í alls kyns mælskubrögðum en menntaskólanemar höfðu á þeim árum vegna þess að ég hef aldrei vitað annan eins málflutning og hér hefur farið fram um það hvort þetta mál hafi verið afgreitt með formlegum hætti úr nefndinni. Einhverra hluta vegna komst nú málið á dagskrá hér á þingi og það hefur verið á dagskrá hér svo vikum skiptir. Sé eitthvað til í því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson heldur fram um að eitthvað hafi verið bogið við afgreiðslu málsins í nefndinni hvers vegna í ósköpunum voru þá ekki gerðar athugasemdir við það fyrr? Séu þessar athugasemdir á rökum reistar leyfi ég mér nú að halda því fram að slíkar mótbárur séu of seint fram komnar.

Aðalatriði málsins er að málið var afgreitt úr nefndinni. Fjallað var um frumvörpin um Ríkisútvarpið hf. og Sinfóníuhljómsveit Íslands saman og saman voru þau afgreidd úr nefndinni. Dreift var nefndaráliti sem lagt var fyrir á fundi nefndarinnar. Því var dreift hér á þingi og það þurfi m.a.s. að prenta það upp og leiðrétta vegna þess að í upphaflegri útgáfu var tekið fram að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson væri samþykkur efni nefndarálitsins og efnislegri afgreiðslu — ég endurtek, efnislegri afgreiðslu nefndarinnar á málinu — en svo var ekki þannig að breyta þurfti nefndarálitinu með tilliti til þess. Þar fyrir utan er það náttúrlega bókað í bækur menntamálanefndar að málið hafi verið afgreitt með þessum hætti. Ég lít því á þennan málflutning hjá hv. þingmanni og reyndar fleiri þingmönnum sem hálfgert spaug frekar en efnislegt innlegg í þessa umræðu.

Að svo búnu, frú forseti, lýk ég ræðu minni og vona að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns.



[18:09]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var um margt merkilegt að hlusta á hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson lýsa upplifun sinni á fundi menntamálanefndar þegar hann telur að nefndarálit meiri hluta nefndarinnar um það frumvarp sem hér er rætt, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, hafi verið afgreitt. Ég ætla ekki að neita því að hugsanlegt er að hv. þingmaður og þess vegna meiri hlutinn allur hafi upplifað afgreiðsluna á þennan hátt. Ég verð hins vegar að taka undir lýsingu hv. þm. Marðar Árnasonar á upplifun hans og minni um það hvernig þetta gerðist í lok fundarins.

Það þarf auðvitað að taka það fram að við vorum að ræða um Ríkisútvarpsfrumvarpið á þessum fundi. Nefndarálitum var dreift, eins og hv. þingmaður nefndi, en nefndarálitið um Sinfóníuhljómsveit Íslands var aldrei rætt af þeirri einföldu ástæðu að hún kom okkur algjörlega í opna skjöldu sú tillaga sem kom fram frá formanni nefndarinnar sem var að því er okkur skildist um að afgreiða Ríkisútvarpsfrumvarpið úr nefndinni. Við upplifðum það þannig að það væri eingöngu verið að því en nú lýsir hv. þingmaður því að það hafi átt við um bæði málin.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ætíð vorum við að fjalla um þessi mál samhliða í nefndinni og það hefur trúlega valdið þessum ruglingi og þessari ólíku upplifun. (Gripið fram í.) Nei, á fyrstu fundum gerðum við það ekki, gerðum við það sér, en þegar líða tók á var þetta orðið svona eins og einn pakki, en þegar nefndarálitin komu fram litum við svo á að þetta væru tvö mál og töldum þess vegna að ekki væri verið að afgreiða Sinfóníuhljómsveitarmálið. En í öllu írafárinu og þeim mikla flumbrugangi sem var orðinn í vinnubrögðunum þarna í lokin skilur maður vel að ýmsir hafi upplifað það þannig að þetta væri allt saman einn pakki.

Við teljum hins vegar að þarna sé dæmi um nákvæmlega þau vinnubrögð sem við höfum fjallað töluvert um varðandi Ríkisútvarpsfrumvarpið. Það á auðvitað við um þetta líka og þetta mál hefur eiginlega lent í skugga þess. (Forseti hringir.) En vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar og upplifun mín var allt önnur en hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar.



[18:11]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er leitt að heyra og fá staðfestingu á því að einhverjir nefndarmenn, þar á meðal hv. þingmaður, hafi verið í einhverju ójafnvægi þegar málið var afgreitt úr nefndinni en eftir stendur að við afgreiðslu þessa máls var fullkomlega farið að þingsköpum.

Ég hlýt að varpa spurningu fram til hv. þingmanns, hún er þessi: Hvernig í ósköpunum komst þetta mál á dagskrá ef það hefur ekki verið afgreitt úr nefndinni? Og hvernig stendur á því að nefndaráliti vegna málsins var dreift og því síðan breytt samkvæmt athugasemd frá fulltrúa eins stjórnarandstöðuflokksins í nefndinni? Gerist þetta allt saman einhvern veginn af sjálfu sér? Hvernig stendur þá á því að hv. þingmenn, sem hafa nú setið hér dögum og vikum saman undir umræðum um Ríkisútvarpið hf., gerðu ekki athugasemdir sem þessar aðeins fyrr? Hvernig stendur á því að menn létu allan þennan tíma líða ef þeir á annað borð telja sig vera að tala samkvæmt bestu vitund? Ég vildi gjarnan fá svör við þessum spurningum.



[18:13]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það var töluvert ójafnvægi á fundi nefndarinnar. Ójafnvægið var þó eingöngu meiri hluta megin vegna þess að það var gífurlegur þrýstingur á meiri hlutann að koma þessu máli, þ.e. Ríkisútvarpsmálinu, frá og úr nefndinni þrátt fyrir að ekki gæfist tími til að ræða það. Það er því ekkert óeðlilegt, frú forseti, eins og ég sagði áðan, að upplifun meiri hlutans hafi verið sú að þetta hafi verið í einum pakka og ég geri út af fyrir sig ekki athugasemdir við það. Við ákváðum það í minni hlutanum strax eftir fundinn að vera ekkert að gera athugasemdir við það. Við vildum hins vegar minnast á þetta til þess að sýna hvernig vinnubrögðin í nefndinni voru þegar þetta gerðist. Æðibunugangurinn var svo mikill að ekki gafst einu sinni tími til þess að vinna af formfestu.

Upplifunin var þessi og við ákváðum sem sagt að gera ekki neinar frekari athugasemdir við þetta. Hv. þm. Mörður Árnason minntist á þetta hér í ræðu sinni og tók það fram að ekki væru fleiri athugasemdir og ekki yrði gert meira með málið. Hins vegar er eðlilegt að aðrir hv. þingmenn sem hér voru í salnum og heyrðu þetta hafi risið upp og talið býsna langt gengið í því að fara gegn forminu sem við göngum venjulega út frá á nefndarfundum. Við sem sátum fundinn settum þetta í eðlilegt samhengi og ákváðum þess vegna að gera ekki frekari athugasemdir við málið. Sú er auðvitað skýringin á því af hverju allt gekk fram sem hv. þingmaður var að nefna.

Þetta er dæmi um það dæmalausa mál sem við höfum verið að ræða varðandi Ríkisútvarpið hvernig að því var staðið. Sinfónían geldur þess að fá ekki nægjanlega umfjöllun af því að það lá svo mikið á að koma Ríkisútvarpinu úr nefndinni. Þess vegna m.a. voru drögin að nefndarálitinu aldrei rædd neitt sérstaklega í menntamálanefnd — af þeirri einföldu ástæðu að Ríkisútvarpið var stóra málið og það var Ríkisútvarpið sem meiri hlutinn var með meirihlutavaldi sínu að taka úr nefndinni gegn vilja minni hlutans og án þess að málið væri fullrætt. Það hefur orðið til þess að við höfum hér í þingsölum þurft að ræða málið frekar. Ekki nóg með það. Á morgun munum við hefja leik að nýju í nefndinni og ræða frumvarpið um Ríkisútvarpið frekar þar.



[18:15]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að jafnvel þó svo kynni að vera að þetta mál hefði ekki verið tekið formlega út úr nefndinni þá væri að minnsta kosti svo að ábendingar um slíkt væru svo seint fram komnar að þær væru ekki gildar.

Mig langar að upplýsa hv. þingmann um að það eru engir sérstakir tímakvarðar á það hvenær lög eigi að gilda og hvenær ekki. (HBl: Það verður nú að upplýsa þingmenn.) Í öðru lagi þá er það svo, eins og hv. þm. Halldór Blöndal er mér örugglega sammála um, að sannleikurinn kemur aldrei of seint fram. Hv. þingmaður sagði að þetta hlyti að vera spaug. Í þessum sölum spauga menn ekki með lög. Svo einfalt er það nú.

Ég vil hins vegar þakka hv. þingmanni fyrir glögg svör varðandi fjárhagsstöðuna. Það eru fullnægjandi svör að minnsta kosti fyrir mig. En það vakti eftirtekt mína að hv. þingmaður sagði að þessi skuld, 626 millj., mundi fylgja Ríkisútvarpinu hvað svo sem síðar yrði.

Hvað á hv. þingmaður við? Hvernig er ætlast til að Ríkisútvarpið greiði þessa skuld? Hefur hv. formaður menntamálanefndar eitthvað velt því fyrir sér eða er þetta bara partur af þeim lausu endum sem alls staðar leka og lafa út úr þessum frumvörpum og minna helst á ullarpeysu sem hefur lent í rakstrarvél? Allt tætt í sundur. Nei. (HBl: … frá því að þú varst lítill drengur.)

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að nota þessar fáu sekúndur til að rifja upp bernskuminningar mínar en svarið er neitandi við frammíkalli fyrrverandi ágætis hæstv. forseta þingsins.

Bara þetta varðandi vinnubrögðin. Það er upplýst hér. Það er meira að segja hrúgað stjórnarandstæðing á nefndarálit meiri hlutans án þess hann sé spurður að því. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson þarf að leiðrétta það sérstaklega að hann er ekki með á þessu. Er það ekki nokkuð til marks um vinnubrögðin hjá þessum ágæta stjórnarmeirihluta?



[18:17]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta með skuldir útvarpsins gagnvart Sinfóníuhljómsveitinni, þá er alveg ljóst að Ríkisútvarpið þarf einhvern veginn að greiða upp þessar skuldir og ég minni á að hvort sem það eru fyrirtæki eða stofnanir sem steypa sér í skuldir þá þurfa þau að standa skil á skuldum. Það vill hins vegar til með þetta félag að það verður rekið af skattfé og hefur frekari aðgang að tekjum en flest önnur fyrirtæki sem eru í rekstri. Þannig að ég geri nú ráð fyrir að Ríkisútvarpið muni hafa ráð á því með tíð og tíma að greiða upp skuldir sínar ef stjórnvöld taka ekki þá ákvörðun að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana hvað það varðar.

En það verður ekki gert í þessu frumvarpi eins og hv. þingmaður veit sem er nú búinn að vera hérna þingmaður kannski lengur en margir teldu ástæðu til að ætla, miðað við málflutning hans í þessu máli.

En það veit hv. þm. Einar Már Sigurðarson, sem er mjög reyndur fjárlaganefndarmaður, að út í slíkar aðgerðir verður ekki farið í lagasetningu eins og þessari. Það verður gert í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta veit hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem ég að öðru leyti met mikils og reyni nú yfirleitt að hlusta eftir góðum ábendingum sem frá honum koma. Þetta er því bara verkefni sem Ríkisútvarpið þarf að leysa gagnvart Sinfóníuhljómsveitinni. Þannig er það. Ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þingmann í 3. umr. um þetta mál.



[18:19]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get þá glatt hv. þingmann Sigurð Kára Kristjánsson með því að ég hyggst halda nokkuð yfirgripsmikla og djúpa ræðu um það mál þegar sú stund rennur upp. Hv. þingmaður hefur þá eitthvað til að hlakka til.

En ég er ekki viss um að vegna þess að ríkið og Ríkisútvarpið hafi aðgang að skattpeningum almennings þá muni það standa fljót og greið skil á skuld sinni við Sinfóníuhljómsveitina. Ég óttast það miklu fremur að þingmenn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Pétur H. Blöndal muni nota þessa miklu skuld, 626 millj. til að taka enn einn snúning á þumalskrúfunni sem þeir nota með því að fjársvelta Ríkisútvarpið, til að knýja það í sölu.

Leiðtogi þessara þrílembinga, frú forseti, ég tek þessi orð aftur því þau eru óvirðuleg. En leiðtogi þessara virðulegu þremenninga, Pétur H. Blöndal kom hér upp í dag og sagði að hann samþykkti frumvarpið vegna þess að það væri leið að einkavæðingu. Ég hef fært rök að því áður að ef þessir menn komast til þeirra valda og áhrifa sem hugur þeirra bersýnilega girnist þá er það einmitt fjárþröng Ríkisútvarpsins sem þessir herramenn munu nota til að pína það inn í farveg bútasölunnar sem ég tel að bíði Ríkisútvarpsins.

En að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu en vil aðeins segja hv. þingmanni að ég, eins og hann, tók þátt í umræðum í menntaskóla. Á þeim fundum voru yfirleitt haldnar fundargerðir og þar skrifuðu menn það sem fór fram á fundum en ekki eftir á eftir einhverju sem er óáþreifanlegt eins og upplifun. En þessi ágæti þingmaður virðist lifa í einhverjum draumheimi og hann dreymir hverjir eru með á meirihlutaálitinu og hvort álit séu yfir höfuð formlega afgreidd. Svo kemur að því að hann vaknar og þá felast timburmennirnir í að hann þarf að fara að leiðrétta sjálfan sig. Eða aðrir fyrir hann eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson þurfti að gera.



[18:21]
Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að fara varlega í yfirlýsingum sínum og kannski ástæða til að hann taki eitthvað af orðum sínum aftur umfram það sem hann hefur þegar gert, vegna þess að ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri að dylgja að því að ég og aðrir í meiri hlutanum hefðum verið að semja söguna eftir á. (Gripið fram í.) Skálda raunveruleikann. Það eru mistök sem áttu sér stað, hv. þingmaður sem urðu og hafa oft orðið hér í þingsögunni. En það eru ekki rök fyrir því sem hv. þingmaður lætur að liggja og eru í rauninni alvarlegar ásakanir sem ég veit ekki hvort félagar hans í Samfylkingunni taka undir. Ég mundi nú fara varlega í öllum yfirlýsingum af þessu tagi, hv. þingmaður.

Að lokum vil ég óska hv. þingmanni innilega til hamingju með að hafa haldið þessa ræðu og farið í öll þau andsvör sem hann hefur farið í án þess að hafa reifað sína efnislegu skoðun á þeim efnisatriðum sem fram koma í frumvarpinu. Hv. þingmaður hefur hér farið vítt og breitt yfir sviðið og fjallað kannski meira um önnur frumvörp sem við höfum rætt hér á síðustu vikum. En það er ástæða til að hrósa hv. þingmanni fyrir málflutning hans í þessu máli.



[18:23]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu. En hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson taldi að ég hefði ekki farið efnislega yfir afstöðu mína í þessu máli. Ég flutti hér í löngu máli, að því mér þótti skilmerkilega málafærslu fyrir því að ég tel að það sé röng byrjun á þessum umskiptum á högum Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins að byrja á því að skilja þau með þessum hætti í sundur.

Ég er þeirrar skoðunar að ef hér á að byggja upp menningarlega framsækið Ríkisútvarp þá hefðu menn átt að byrja á því að efla þessi tengsl. Þetta er sama skoðun og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sett fram.

Að öðru leyti, frú forseti, ætla ég ekki að fjölyrða um þetta, af einskærri virðingu fyrir hæstv. samgönguráðherra sem á eftir að flytja hér mál sín og hefur beðið þolinmóður lengi dags eftir því.

En þetta var meginkjarninn í mínu máli. Hv. þingmaður virtist svo sár yfir því að ég léti að því liggja að meiri hlutinn hefði skáldað upp það sem fram fór á þessum fundum. Ég lét ekkert að því liggja. Ég sagði það hreint út og ástæðan fyrir því að ég sagði það ekki fyrr, af því hv. þingmaður innti mig eftir því, var einfaldlega sú að ég varð þess ekki áskynja fyrr en í dag þegar þingmenn úr menntamálanefnd upplýstu um framgang málsins í nefndinni, að þetta hefði átt sér stað. Ég tek það ekki jafnlétt og hv. þingmaður að menn afgreiði á einhverjum handahlaupum mikilvæg mál eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands út úr nefnd, með þeim hætti að helft þingmanna sem eru viðstaddir gerir sér ekki grein fyrir að það hafi gerst. Það eru álíka vinnubrögð og þau að setja þingmann á nefndarálit án þess að hafa einu sinni fyrir því að spyrja hann. Það var það sem gerðist.

Það var það sem hv. þingmaður sagði að hefði gerst hér varðandi einn kollega hans úr Frjálslynda flokknum. Svo ég held að hv. þingmaður þurfi ekkert að móðgast yfir þessu. Hugsanlega voru þetta bara mistök. Gott og vel. Allir gera mistök. Jafnvel tilvonandi dýrlingar eins og þessir ungu tyrkir Sjálfstæðisflokksins.

Hitt liggur alveg ljóst fyrir að þetta er í andstöðu og stangast á við lögin um það hvernig mál eigi að fara fram. Mér væri í lófa lagið að krefjast þess af hálfu hæstv. forseta að umræða um þessi mál og afgreiðsla yrði stöðvuð þangað til það hefði fengið formlega afgreiðslu í nefndinni. En ég ætla ekkert að leggja stein í götu þessa máls sérstaklega. Ég vil bara segja að lokum að afstaða mín kom algerlega skýrt fram í þessu máli. En það hefur hins vegar aldrei komið fram nein afstaða af hálfu hv. þingmanns og formanns menntamálanefndar um það af hverju á að skilja þetta tvennt að. Né heldur hefur hann lýst viðhorfum sínum til þess hvort það sé æskilegt fyrir Ríkisútvarpið eða Sinfóníuhljómsveitina.

Það má meira að segja færa rök fyrir því frá fjárhagslegu sjónarmiði að þetta kunni að vera æskilegt fyrir Sinfóníuhljómsveitina vegna þess að ríkið mun greiða hlut Ríkisútvarpsins í rekstrinum. Ríkið mun líka þurfa greiða kannski fast að 100 millj. kr. fyrir þá þjónustu sem Sinfóníuhljómsveitin þarf að veita því. Hv. þingmaður hefur lýst hér yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að þau tengsl verði áfram hin sömu. En það kostar peninga. Þannig að þegar upp er staðið þarf ríkið að greiða meira til Sinfóníuhljómsveitarinnar en áður og hún fær aukin verkefni. Þannig að það er alveg ljóst að þetta þarf ekkert að vera fjárhagslega slæmt fyrir sinfóníuna. En þetta getur orðið menningarlega erfitt fyrir almannaútvarp sem á að sinna því hlutverki að miðla tónlistarlegri arfleifð.

Það er nú bara eitt af því sem segir beinlínis í frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Þetta er mergurinn málsins en það er eins og með flest annað í þessu máli að það er ekki hugsað til þrautar, menn láta rekast og hrekjast undan stormviðrunum og stormurinn sem geisar í málefnum þessara stofnana er fjárhagsleg meðferð Sjálfstæðisflokksins á þeim. Í 20 ár hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins svelt Ríkisútvarpið og þeir hafa svelt Sinfóníuhljómsveitina. Og nú koma þeir og reyna að bjarga einhverjum málum. Og hver er björgunin? Hún felst í að það á að háeffa Ríkisútvarpið og síðan á að beita áfram þessu fjárhagssvelti til að þröngva því inn á slóð bútasölunnar. Þeir byrja á að selja Rás 2 hér með frumvarpi á næstu árum. Láta þingið standa andspænis því að hið nýja hlutafélag eigi ekki fyrir skuldum og það eigi ekki fyrir rekstri og nota þá grein frumvarpsins sem segir að það megi leggja einstaka þætti Ríkisútvarpsins í hlutafélag með öðrum. Þá leggja þeir Rás 2 inn í hlutafélag með 365-miðlum. Svo þegar menn standa andspænis blankheitunum koma þeir með frumvarp og segja: Ríkisútvarpið stendur svo illa að það verður að selja þetta hlutafélag. Það er svona sem þetta gerist.

Það er hugsanlegt að hv. þingmaður hafi ekki hugsað þetta til þrautar. Hitt er alveg ljóst að hann er ekkert ósammála því. Hann er beinlínis alinn upp í því heimatrúboði innan Sjálfstæðisflokksins að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Hann hefur sjálfur mörgum sinnum tekið þátt í því á þingum Heimdallar og Sambands ungra sjálfstæðismanna að leggja fram og mæla fyrir tillögum um að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Það var þess vegna sem leiðtogi lífs hans í þessum efnum kom hér í atkvæðagreiðslu í dag og sagðist samþykkja þetta frumvarp sem við afgreiddum hér í dag, gegn atkvæði mínu þó, vegna þess að hann taldi að þetta væri skref að sölu.

Það er þingmaður sem stendur ekki víðs fjarri hv. formanni menntamálanefndar sem hefur einmitt lýst nákvæmlega þessu sama í grein nýlega. Það var ég. Ég lýsti því að þetta frumvarp væri nákvæmlega það sem Pétur H. Blöndal hv. þingmaður sagði hér í dag, skref að einkavæðingu. Ekki orð um það meira.