132. löggjafarþing — 109. fundur
 26. apríl 2006.
ljósmengun.
fsp. MÁ, 672. mál. — Þskj. 984.

[13:52]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þessari fyrirspurn hefur verið valið nafnið ljósmengun í samræmi við það orðalag sem á henni er. Í raun og veru væri nær að kalla hana jákvæðara nafni. Það mætti t.d. kalla hana „varðveisla næturhiminsins“ eða „skynsamleg orkunýting“ eða „samkomulag nágranna um næsta umhverfi sitt“, vegna þess að alla þessa þrjá þætti spannar þetta hugtak, ljósmengun, sem er tiltölulega nýtt og var fyrst fest í Alþingistíðindi í fyrra í fyrirspurn sem ég flutti þá og var raunar orðuð á nákvæmlega sama hátt.

Það er í fyrsta lagi óþægindi og ami að því fyrir nágranna ljósmengandi staða að stilla ekki ljósmagni í hóf, sérstaklega á það auðvitað við um nætur eins og menn þekkja sem hafa búið við slíkt. Það getur verið ami að því að búa á ljósmiklum svæðum og full ástæða til að taka mark á kvörtunum af því tagi. Í öðru lagi vakna spurningar í þessu sambandi um orkunýtingu, hvort menn séu að nýta orkuna skynsamlega á þeim tímum þar sem orkan skiptir alltaf meira og meira máli og verður dýrari og dýrari, hvort sem mælt er í krónum á bensíntunnu eða í umhverfisspjöllum á landi þar sem menn eru að lýsa beint upp í loftið og verja hugsanlega helmingi meiri orku en þarf þegar meiningin var að lýsa beint niður á t.d. umferðarmannvirki eða aðra merkilega staði sem þarf lýsingar við.

Í þriðja lagi eru það svo þau mikilvægu lífsgæði sem felast í því að mannkynið geti notið fegurðar alstirnds næturhimins. Það er sannarlega mikil upplifun að gera það og vekur hugrenningar sem allir kannast við um stærð veraldarinnar og eðli guðs almáttugs og eigin smæð sem ýmsum er hollt að hugsa meira um, bæði í þingsalnum og þeim sem utan hans standa, og er ákaflega mikilvægt uppeldislegt mál fyrir börnin okkar. Ég verð að segja að frá uppeldi mínu hér í Reykjavík man ég eftir þessum alstirnda næturhimni. Lýsingin var ekki meiri en svo að það mátti fara hérna rétt niður í Vatnsmýri eða út fyrir götuna til þess.

Nú hefur þeim stöðum í hinni eiginlegu Reykjavík mjög fækkað og það þarf að fara nokkuð langa leið til að losna við ljósmengun, jafnvel allt til Þingvalla, að Kleifarvatni eða á hæðir nokkuð fyrir utan byggð.

Ég vil spyrja umhverfisráðherra, þó að ég viti að þetta sé kannski ekki það mál sem mest brennur á í umhverfisráðuneytinu og í störfum hennar, hvort þetta hafi verið hugleitt á hennar vegum (Forseti hringir.) og hvort einhver ráðagerð sé til í þessu efni.



[13:55]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Eins og við vitum öll stafar ljósmengun af mannlegum umsvifum þegar mikil lýsing veldur því að stjörnuhiminn sést illa. Í íslenskum lögum eru engin ákvæði eða skilgreiningar er varða ljósmengun beint eða aðgerðir til að takmarka hana. Það eru t.d. engar vísbendingar í lögskýringargögnum með lögum nr. 7 frá 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, eða í fyrri lögum um sama efni, að þeim hafi verið ætlað að taka til ljósmengunar.

Hins vegar er gert ráð fyrir því í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að ráðherra setji í reglugerð almenn ákvæði um tiltekin atriði til að stuðla að mengunarvarnaeftirliti, en ráðstafanir til að sporna gegn ljósmengun og athugun á henni falla ekki þar undir. Það er því alveg ljóst að ættu stjórnvöld að takmarka hugsanlega ljósmengun þyrfti að festa í lög ákvæði þar um.

Ljósmengun hefur ekki verið til umfjöllunar í ráðuneytinu fram til þessa. Það hafa ekki komið fram neinar beinar tillögur í þá veru, hvorki frá stofnunum ráðuneytisins né öðrum, og þar að auki hafa ekki farið fram rannsóknir hér á landi um t.d. viðhorf almennings eða ferðamanna til ljósmengunar eða á umfangi og útbreiðslu hennar. Hins vegar er auðvitað alveg ljóst að það eru kannski fáar borgir og bæir í veröldinni meira upplýst en hér hjá okkur. Mér er það fullkomlega ljóst.

Það er samt vitað að hingað koma ferðamenn í þeim tilgangi einum að skoða norðurljósin. Ég tel að það sé mjög vel mögulegt að njóta næturhimins víða um landið og fara þarf bara tiltölulega stutt frá þéttbýli í flestum tilvikum til þess. Aftur á móti varða mjög margar athugasemdir og fyrirspurnir um ljósmengun lýsingu í gróðurhúsum. Það hefur aðallega verið umkvörtunarefni hér á landi þar sem notuð eru notuð sterk ljós sem sjást stundum mjög langt að. Slíkur ljósbjarmi, sem berst langar leiðir frá þéttbýli eða jafnvel orlofshúsabyggð, er algengur hér á landi á vetrarkvöldum og nóttum. Það væri auðvitað auðvelt að laga þetta, a.m.k. að draga úr því með daufari ljósum og betri frágangi. Þá er líka mögulegt að nota lampa í gróðurhúsin sem nýta ljósið betur og beina því ekki upp. Sveitarfélög geta tekið á þessu málum, t.d. á vettvangi skipulagsmála og í vinnu við Staðardagskrá 21. Það væri möguleiki að skoða þessi mál sérstaklega í tengslum við þetta.

Ég vil geta þess í tilefni af þessu að árið 2000 setti Borgarbyggð ákvæði í umhverfisstefnu sína sem kveður á um að við uppsetningu og endurnýjun götulýsingar verði þess gætt að ljósmengun utan svæðis verði í lágmarki. Hins vegar hefur það ekki verið sett í forgang í umhverfisráðuneytinu að athuga ljósmengun hér á landi eða að gera sérstakar áætlanir í þá veru, a.m.k. ekki í náinni framtíð. En ég vil hins vegar segja það hér, og hef raunar sagt það áður, að mér finnst þessi umræða mjög athyglisverð og eins og fyrirspyrjandi nefndi réttilega geta verið óþægindi og ami að því að ljósmagni sé ekki stillt í hóf.

Ég vil geta þess sérstaklega, af því ég nýt þeirra forréttinda að búa úti í sveit, að ég viðurkenni það að ég sé til þess að slökkva ljós á kvöldin svona um tíuleytið. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að mér finnst dýrðlegt að geta notið þeirra forréttinda að sjá stjörnubjartan himin og þau fyrirbæri sem eru á næturhimninum. Það eru sannarlega mikil lífsgæði og ég tek undir að það eru líka heilmikil uppeldisáhrif í því fólgin að geta notið þeirra fyrirbæra sem eru á hinum dýrðlega næturhimni á Íslandi.



[14:00]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að ljósmengun er nokkuð sem við ættum að ræða. Fyrir ætti að liggja áætlunargerð af hálfu stjórnvalda hvað það varðar. Það kemur mér á óvart hve framandi þessi umræða er hæstv. umhverfisráðherra.

Það liggur fyrir að á Íslandi er ljósanotkun mjög glannaleg og er mikil orkusóun á Íslandi. Það blasir við öllum sem skoða aðeins í kjölinn á málinu. Þótt seint sé og búið að byggja upp mikið af nútímalegu og öflugu þéttbýli á suðvesturhorninu er ekki of seint að grípa í taumana með þeim hætti að fyrir liggi aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að takmarka ljósmengun og ná utan um vandamálið. Það er sjálfsagt að stilla þessu í hóf. Þetta er sóun eins og hver önnur sóun og þetta er mengun eins og hver önnur mengun.

Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra, sem tekur fyrirspurninni vel, að ráðast í slíka áætlanagerð.



[14:01]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir hlý svör og björt, þannig að orðin hæfi efninu. Ég spurði í fyrra þann sem þá sat í stól umhverfisráðherra, sem svaraði kannski ekki öðruvísi efnislega en þótti málið hálffáránlegt og hafði engan áhuga á því. En ég sé hins vegar að núverandi hæstv. umhverfisráðherra hefur áhuga á málinu og ég fagna því.

Ég held að kominn sé tími til að undirstofnanir umhverfisráðuneytisins hyggi að þessu máli með rannsókn og athugun og hugsanlegum ráðagerðum í framhaldinu, hvort sem það yrði í formi laga eða a.m.k. einhvers konar leiðbeininga eða reglugerða. Það er rétt hjá hæstv. umhverfisráðherra að einstök sveitarfélög, Hveragerði, Borgarbyggð að ég held örugglega, hafi reynt að sporna við of miklu ljósi. Það hefur auðvitað einkum verið í kringum gróðurhús. Það er stundum þannig, þegar ekið er niður þar sem einu sinni hétu Kambarnir, að manni finnst að það sé geimstöð hinum megin fjallsins en ekki mannabyggð. Það er auðvitað sérstakt vandamál en þetta á ekki eingöngu við þar.

Í fyrra leitaði ég á netinu að því sem þar væri að finna um ljósmengun og sló það orð inn. Mig minnir að ég hafi fundið undir 100 síðum og reyndar ágætar greinar þar, frá Birgi Þórðarsyni og stjörnuskoðunarmönnum á Seltjarnarnesi, Þorsteini Sæmundssyni og fleirum. Ég sló orðinu aftur inn í dag og nú birtist það á 515 síðum. Það bendir til þess að áhugi sé að aukast á þessu efni og kannski vandinn líka.

Ég er með mynd sem ég get ekki sýnt mönnum í Alþingistíðindum eða á netinu. En hún er tekin er af NASA. Ég fann hana á einni af þessum síðum, í grein eftir Birgi Þórðarson. Hún sýnir ljós á Íslandi séð úr gervihnetti. Þar sést að stór svæði á landinu eru þakin ljósi að nóttu til. Ég ætla, ráðherranum til uppörvunar og hvatningar, að gefa honum þessa mynd á eftir.



[14:04]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið mjög athyglisverð umræða, um mál sem er full ástæða til fyrir okkur öll að velta fyrir okkur. Mér finnst það til fyrirmyndar að til séu sveitarfélög sem þegar hafa gefið þessum málum sérstakan gaum og gert áætlanir til að draga úr ljósmengun.

Ég held að í raun sé það nokkuð sem við getum séð fyrir okkur að fleiri muni gera í kjölfarið.