132. löggjafarþing — 109. fundur
 26. apríl 2006.
umferðaröryggi á Kjalarnesi.
fsp. BÁ, 680. mál. — Þskj. 996.

[14:05]
Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um umferðaröryggi á Kjalarnesi. Eins og hv. þingmönnum er ljóst er þjóðvegur 1, þar sem hann liggur um Kjalarnes, einhver fjölfarnasti vegarkafli landsins. Þar er um að ræða þjóðleið milli höfuðborgarsvæðisins og Vestur- og Norðurlands og liggur fyrir að þungi þeirrar umferðar hefur vaxið verulega á undanförnum árum. Kemur þar m.a. til sú þróun að þungaflutningar hafa stöðugt færst í vöxt á undanförnum árum og færst yfir á vegakerfið. Auk þess hefur mikil uppbygging orðið á Vesturlandi, m.a. á Grundartanga, og fjölgun íbúa sem því fylgir hefur leitt til þess að umferð hefur aukist verulega.

Þessi þróun kallar að sjálfsögðu á aðgerðir og uppbyggingu í vegamálum á þessu svæði. En það má einnig nefna að á Kjalarnesi hefur á undanförnum árum byggst upp allfjölmennt íbúðahverfi, Grundarhverfi. Það er að sjálfsögðu mikið hagsmunamál fyrir íbúa þar að samgöngumál séu í lagi, ekki síst með tilliti til umferðaröryggis. Íbúar hafa áhyggjur af þeim þunga sem eru í umferðinni þar og umferðarmagninu. Þeir hafa bent á að nauðsynlegt sé að huga sérstaklega að aðgerðum til að tengja þjóðveginn og íbúahverfið betur en nú er gert.

Hæstv. forseti. Þessu til viðbótar má nefna stærsta umferðarmálið á þessu svæði. Það er að sjálfsögðu lagning Sundabrautar og tenging hennar við Kjalarnes. Það hefur auðvitað legið lengi fyrir, eins og hv. þingmenn vita, að ríkisstjórnin hefur fullan vilja til að hefja verkið en misvísandi yfirlýsingar núverandi borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík, og að því er virðist viljaleysi til að taka af skarið í þessum efnum, er til þess fallið að trufla framgang málsins verulega. Nýlegar yfirlýsingar formanns skipulagsnefndar borgarinnar og borgarstjóraefnis Samfylkingarinnar, Dags B. Eggertssonar, eru þess eðlis að því meira sem hann talar um efnið því erfiðara er að átta sig á því hvað hann vill raunverulega. Ég tel óhjákvæmilegt að nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. samgönguráðherra um viðbrögð hans við yfirlýsingum af hálfu forustumanna R-listans í þessum efnum, um hvaða áhrif þau sjónarmið sem komið hafa fram af þeirra hálfu hafa á áform samgönguyfirvalda að þessu leyti.



[14:08]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr:

„1. Hvaða áform eru uppi af hálfu samgönguyfirvalda um vegabætur í þágu umferðaröryggis á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi?

2. Eru sérstaklega fyrirhugaðar breytingar á vegtengingu við þéttbýlið á Kjalarnesi?

3. Hvenær má vænta framkvæmda við breytingar af þessu tagi?“

Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á því mikilvæga máli sem umferðaröryggi á Kjalarnesi er. Umferðaröryggisaðgerðir í nágrenni við Grundarhverfi eru aðkallandi verkefni sem ég hef kynnt mér sérstaklega. Þess ber að geta að nú þegar hafa verið framkvæmdar tilteknar aðgerðir sem eru í þágu umferðaröryggis á svæðinu.

Til að setja þetta mál í rétt samhengi er nauðsynlegt að halda nokkrum atriðum til haga, sem lúta að legu Vesturlandsvegar um Kjalarnes í tengslum við lagningu Sundabrautar. Sú staða sem uppi er í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar og snýr að legu fyrirhugaðrar Sundabrautar er með miklum ólíkindum. Missiri eftir missiri eru samgönguyfirvöld dregin á svari um hvar Sundabraut megi liggja yfir Kleppsvíkina. Hver afsökunin er nefnd af annarri. Nú síðast á fundi borgarstjórnar í gær hélt Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs borgarinnar, því fram að málið tefjist vegna þess að enn sé óvissa um fulla fjármögnun verksins. Þetta er auðvitað alger firra. Formanni skipulagsráðs væri nær að vinna heimavinnuna sína og fylgjast með því sem er hið sanna og rétta í málinu. Það ætti að nægja honum að fylgjast með fréttum til að hann viti betur. (Gripið fram í.) Raunin er sú að formaðurinn veit betur en kýs að fara með rangt mál í þessu til að fela aðgerðaleysið í eigin ranni. Það er leitt til þess að vita að hugtakið „dagsatt“ fái nýja og miður góða merkingu þessa dagana.

Rétt er að minna á í þessu sambandi, ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar vildu gefa mér hljóð, að það er formaður skipulagsráðs ... (BjörgvS: Þetta er bara dapurlegt hjá þér, að veitast að fjarstöddum manni.) (Forseti hringir.) Því miður var ég ekki í borgarstjórnarsalnum í gær þar sem þetta var til umræðu. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) En rétt er að minnast á í þessu sambandi að það er formaður skipulagsráðs, Dagur B. Eggertsson, (Gripið fram í.) sem er sá eini sem heldur þeirri skoðun á lofti að það eigi að kjósa sérstaklega um legu Sundabrautarinnar. Ekki verður það til að flýta framkvæmdum heldur miklu frekar til að losna við að taka ákvörðun um málið sem kjörnir borgarfulltrúar eiga að sjálfsögðu að gera. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa borgarinnar að taka ákvörðun um þetta mál. Það er kominn tími til að þeir geri það.

Þar sem Reykjavíkurborg hefur dregið þessa ákvörðun út í hið óendanlega þannig að ekki er unnt að hefja verkhönnun, sem er undanfari útboðs, tel ég óhjákvæmilegt að láta kanna það af fullri alvöru hvort ekki sé rétt að hefja framkvæmdir við Sundabraut að norðanverðu. Með því væri verkið tekið úr þeirri gíslingu sem það er í í dag. Ég sé fyrir mér að kannað verði að hefjast handa við framkvæmdir með breikkun vegarins á Kjalarnesi milli syðri gangamunna Hvalfjarðarganga að þeim stað þar sem fyrirhugað er að Sundabraut þveri Kollafjörð. Með þeirri aðgerð væri umferðaröryggismálum á Kjalarnesi og í nágrenni Grundarhverfis komið í gott horf. Tengingar við hverfið og milli svæða þess yrðu með besta móti og fyllsta umferðaröryggis gætt, eins og að sjálfsögðu er stefnt að. Verði þetta niðurstaðan mun þessi hluti framkvæmdanna koma inn í endurskoðaða vegáætlun fyrir árin 2007–2010 og tel ég ekkert því til fyrirstöðu að framkvæmdir eigi sér stað á fyrri hluta þess tímabils og gætu hafist á næsta ári í þágu umferðaröryggis á þessu svæði.



[14:12]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér þóttu nokkur tíðindi felast í svari hæstv. samgönguráðherra. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni ef menn taka ákvörðun um að fara út í að brekka veginn á Kjalarnesi frá suðurmunna Hvalfjarðarganga í áttina að þeim stað þar sem fyrirhuguð Sundabraut á að koma. Þessi kafli er á margan hátt mjög varasamur. Þarna er mikil umferð og mikið um framúrkeyrslur. Ég tel að það væri fyllilega réttlætanlegt að þessi kafli yrði tvöfaldaður og þess vegna byrjað á því nú sem allra fyrst, áður en farið yrði í framkvæmdir við hina svokölluðu Sundabraut.

Það er í sjálfu sér ámælisvert hversu verkið hefur tafist. Það er ámælisvert. Það er alveg óskiljanlegt að menn skuli ekki geta komist að niðurstöðu um það hvar Sundabrautin eigi að liggja. Þetta þarf ekki að vera svo flókin ákvörðun. Við í Frjálslynda flokknum höfum ákveðnar skoðanir á því hvernig hún eigi að vera. Tíminn leyfir ekki að fara út í þær umræður hér og nú en tvöföldun þessa kafla væri skref í rétta átt.



[14:13]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra opinberaði það hve vandræðalegt ástandið er. Hæstv. ráðherra hefur enga framkvæmdaáætlun fyrir allt þetta verkefni. Framkvæmdaáætlun þyrfti að liggja fyrir nú þegar, ekki bara fyrir Sundabraut heldur líka um veginn frá Kjalarnesi og upp að göngum, fyrir breikkun Hvalfjarðarganga og framhald þess verkefnis alla leið upp í Borgarnes. Slík framkvæmdaáætlun ætti að liggja fyrir.

Hæstv. samgönguráðherra hefur ekki sinnt þeirri vinnu og hefur ekki heldur enn þá komið fram með áætlun um hvernig eigi að fjármagna þann hluta verkefnisins sem mest er rifist um, sem er Sundabraut. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að líta sér nær, fremur en að skjóta á aðra þegar hann hefur ekki staðið sig betur en þetta.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki að verða til framkvæmdaáætlun fyrir þetta verkefni sem allt saman hangir saman í raun og veru, eða hvað?



[14:15]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Allir vita hvernig samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur varið skattfé því sem að mestu kemur af höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst til vegaframkvæmda úti á landi. Hann gengur trúlega frá samningi um Héðinsfjarðargöngin eftir helgi. Um leið gerir hann þá kröfu til Reykjavíkur að ef hér sé vandað betur til verka en ódýrast er eigi Reykvíkingar að greiða það sérstaklega og gildi þannig einhverjar sérstakar reglur um Reykvíkinga umfram aðra. Það er auðvitað fráleitt og hefur tafið verkið sem ráðherrann veit að var marga mánuði hjá umhverfisráðherra að bíða úrskurðar á síðasta ári.

Framtaksleysi hæstv. samgönguráðherra er með þeim hætti að Faxaflóahafnir sf. hafa lýst sig reiðubúnar til að leggja Sundabrautina fyrir hann, vegna þess að hann kemst aldrei af stað. Nú hefur Sjóvá boðist til að leggja Suðurlandsveginn fyrir hann yfir Hellisheiðina vegna þess að þar kemst hann heldur ekki spönn frá rassi. (Forseti hringir.) Hann kýs hins vegar (Forseti hringir.) að ráðast hér úr ræðustóli Alþingis að fjarstöddum mönnum (Forseti hringir.) með því að uppnefna þá og er honum réttur sómi sýndur með þeirri (Forseti hringir.) framgöngu sinni.

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmenn um að gæta að ræðutímanum, hann er knappur, ekki nema ein mínúta, og hlýða forseta þegar hringt er.)



[14:16]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Lengi verður, frú forseti, smátt smærra og dvergsmæð hæstv. ráðherra í umræðunni í dag verður örugglega lengi í minnum höfð og fer áreiðanlega í sögubækur Alþingis. Þvílík framganga, þvílíkur dólgsháttur að fela eigin umkomuleysi, að fela eigin ráðleysi og þá hlægilegu dapurlegu stöðu sem hæstv. ráðherra hefur innan ríkisstjórnarinnar, þar sem honum tekst ekki að fá neitt framkvæmdafé til neinna stórra framkvæmda.

Engar aðgerðaráætlanir liggja fyrir um stærstu verkefnin í landinu. Hann hleypur nú í skjól einkafyrirtækja til fjármögnunar á helstu samgönguverkefnum þjóðarinnar en uppnefnir fjarstadda sveitarstjórnarmenn úr ræðustól Alþingis, þar sem þeir fá engum vörnum við komið. Þvílík smámennska, virðulegi forseti. Þvílík framganga hjá ráðherra hvers ferill er einhver mesta vonbrigðaganga seinni tíma sögu í íslenskum stjórnmálum. (Forseti hringir.) Þvílíkur dólgsháttur.



[14:17]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera upp þessa spurningu. Það veitir ekki af því að ræða umferðaröryggi, sérstaklega á þessum kafla. Mér finnst vel við hæfi að hrósa lögreglunni fyrir að hafa vakandi auga með þessum vegarkafla.

Hins vegar ég verð að lýsa furðu á svörum hæstv. ráðherra. Hann lýsir sjálfum sér sem umkomulausum, hálfgerðum ræfli í gíslingu eins sveitarstjórnarmanns í Reykjavík. Mér finnst ekki mikið leggjast fyrir kappann. Það verður að segjast eins og er.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það er hann minntist á að ganga þyrfti frá vegarkaflanum við Grundarhverfið, gatnamótunum þar. Ég vil spyrja hann hvernig hann sjái það fyrir sér: Sér hann fyrir sér mislæg gatnamót eða hvernig hyggst hann ganga frá þessum vegarkafla? Hann hefur haft rúman tíma til að hugsa fyrir því. Í því hefur ekki tafið fyrir honum það sem hann bar fyrir sig (Forseti hringir.) hvað varðar verks eins ágæts (Forseti hringir.) borgarstjórnarfulltrúa.



[14:19]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það var einu sinni maður í vandræðum. Það var um miðja nótt um páskaleytið. Hann var í þeim vandræðum að hann var staddur í Jerúsalem og þurfti að þjóna tveimur herrum, annars vegar sjálfum sér og lífi sínu og hins vegar þeim málstað sem hann hafði lagt trúnað á. Um þennan mann orti Hallgrímur Pétursson þá línu að þá væri „Pétur með sturlan stærsta“ sem hann fór um garðinn þegar galað var þrisvar.

Mér sýnist að hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson sé í svipuðum vanda og „Pétur með sturlan stærsta“. Kerlingin var spurð hvað sturli þýddi og hún taldi, af því að þetta var um miðja nótt og Pétur var að þvælast í borginni, að hann væri með koppinn með sér. Um það má lesa í þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Annars vegar hefur samgönguráðherra einlægan áhuga á verki sínu en hins vegar er hann í þjónustu Sjálfstæðisflokksins, barinn áfram af borgarstjórnarminnihlutanum í Reykjavík til að standa í eilífri styrjöld og skærum við réttkjörinn meiri hluta Reykvíkinga og koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að Reykvíkingar og nærsveitamenn fái þær samgöngubætur (Forseti hringir.) sem þeir eiga rétt á.



[14:20]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér hefur verið settur af stað skrípaleikur og leikrit sett á svið. Sannleikurinn er sá að Reykjavíkurborg hefur verið í gíslingu andúðar samgönguráðherra og sjálfstæðismanna að því er varðar vegaframkvæmdir innan Reykjavíkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Það fjármagn sem hefur fengist til vegaframkvæmda innan Reykjavíkur hefur fengist seint og illa og það hefur líka verið skilyrt. Ég vil í þessu sambandi nefna óhappaframkvæmdina Hringbraut, sem var skilyrt. Þar var engu hægt að hnika til nema hún yrði lögð með þeim hætti sem hún var gerð. (Samgrh.: Það er rangt.)



[14:21]
Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og þá yfirlýsingu sem hann kom með varðandi vegbætur í tengslum við Grundarhverfi, sem ég held að sé afskaplega mikilvægt mál. Það er mikilvægt að huga að því og finna lausn sem tryggir umferðaröryggi á því svæði.

Hins vegar vil ég líka bregðast við þeirri gríðarlegu taugaveiklun sem greip um sig meðal hv. þingmanna Samfylkingarinnar, sem komu hver á fætur öðrum í ræðustól, orðvörustu menn Samfylkingarinnar að jafnaði sem aldrei víkja neikvæðu orði að nokkrum manni hvorki utan þings né innan, komu upp í röðum og báru skjöld fyrir félaga sinn, borgarfulltrúann Dag B. Eggertsson.

Ekkert af því sem kom fram í máli þeirra og ekkert af því sem þeir sögðu breytir vandræðaganginum af hálfu R-listans í þessu máli. Skorturinn á ákvarðanatöku, óákveðnin þegar kemur af því að taka af skarið í þessum efnum, gerir það að verkum að hæstv. samgönguráðherra hefur verið í verulegum vandræðum við það að koma þessu máli áfram. Í hvert skipti sem kemur að því að gera eitthvað í þessum málum koma fulltrúar R-listans, hvort sem það er borgarfulltrúinn Dagur B. Eggertsson eða einhverjir aðrir, með nýjar hugmyndir, einhverjar nýjar útfærslur og einhverjar nýjar leiðir. Það skortir gersamlega á að af hálfu borgaryfirvalda séu teknar ákvarðanir og sú stefna mörkuð sem nauðsynleg er til að hægt sé að koma þessu máli áfram.

Ég fagna því að hæstv. samgönguráðherra hafi gefið þær yfirlýsingar sem frá honum komu í sambandi við þessar framkvæmdir. (Forseti hringir.) Það undirstrikar hversu (Forseti hringir.) mikilvægt er fyrir Reykvíkinga að farið verði í (Forseti hringir.) Sundabraut sem fyrst.



[14:23]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það sannast að sannleikanum verður hver sárreiðastur þegar hlustað er á málflutning hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Ræða hv. þm. Helga Hjörvars kemur náttúrlega ekki á óvart því þetta er sennilega í þrítugasta skiptið sem hann heldur þá ræðu, í hvert einasta skipti sem hann fær færi á að tala við samgönguráðherra. En það liggur hins vegar fyrir að það er á valdi sveitarfélaganna í landinu að fara með skipulagsmál. Lega Sundabrautarinnar er partur af því verkefni. Með sama hætti var það á valdi sveitarstjórnarinnar í Reykjavík að taka ákvörðun um mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Sú framkvæmd var slegin út af borðinu með tilstyrk hv. þm. Helga Hjörvars.

Með sama hætti var það Reykjavíkurborg sem réð legu Hringbrautarinnar, hvað sem hv. þingmaður og hæstaréttarlögmaður sem hér talaði fyrr, segir um það efni. Það eru borgaryfirvöld sem fara með skipulagsmálin og Vegagerðin og samgönguyfirvöld hafa beðið eftir niðurstöðu borgaryfirvalda hvað þetta varðar. Þingmenn vita það vegna þess að það var afgreitt frá Alþingi, gert ráð fyrir 8 milljörðum kr. til fyrsta áfanga Sundabrautarinnar. Við höfum lýst því yfir að við gerðum ráð fyrir því að framkvæmdin yrði sett af stað í heilu lagi og að sjálfsögðu fjármögnuð. (Gripið fram í: Hálfa leið.) Allt tal um að fara hálfa leið er frá Samfylkingunni, hv. borgarfulltrúa Degi B. Eggertssyni sem bjó til þá kenningu.

Hv. þingmenn verða að lesa heima og átta sig á því að ábyrgð sveitarfélaganna er að sinna skipulagsverkefnunum. Við höfum tekið ákvörðun um að leggja Sundabraut en bíðum enn eftir því að niðurstaða fáist í hvar hún eigi að liggja. Í því liggur minn vandi.