132. löggjafarþing — 114. fundur
 4. maí 2006.
Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, 1. umræða.
stjfrv., 795. mál (stjórn og rekstur flugvallarins). — Þskj. 1244.

[14:03]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem lagt hefur verið fram sem þskj. 1244 en þetta er mál nr. 795 á þessu löggjafarþingi. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem greitt hafa fyrir því að mál þetta kæmi á dagskrá þessa fundar.

Frumvarp þetta á sér skamman aðdraganda eins og flestum er kunnugt en Bandaríkjamenn tilkynntu ríkisstjórn Íslands 15. mars sl. að dregið yrði stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári. Bandaríkjamenn hafa í kjölfarið sagt upp öllum íslenskum starfsmönnum sínum á Keflavíkurflugvelli, rúmlega 600 talsins og lýkur ráðningarsamningum þeirra starfsmanna sem lengstan uppsagnarfrest hafa 30. september í haust. Vegna þessara fyrirætlana og aðgerða Bandaríkjamanna þurfa íslensk stjórnvöld að gera ráðstafanir sem fyrst til að taka yfir þá starfsemi sem tilheyrir rekstri flugvallarins sjálfs og sem Bandaríkjamenn hafa annast til þessa.

Með þessu lagafrumvarpi hefur verið valin sú leið að fela Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, sem er stofnun sem þegar er fyrir hendi, að taka að sér þau flugtengdu verkefni sem Bandaríkjamenn hafa annast á Keflavíkurflugvelli á grundvelli varnarsamningsins. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að meginmarkmiðið með frumvarpinu er að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfni Keflavíkurflugvallar og snurðulausan rekstur hans þrátt fyrir að breyting verði á því hvaða aðili annist þá tilteknu rekstrarþætti sem hér um ræðir.

Ég vil einnig minna á að Keflavíkurflugvöllur er afkastamesta samgöngumannvirki landsins og mikilvægasti tengipunktur Íslands við önnur lönd. Keflavíkurflugvöllur er alþjóðlegur flugvöllur og hátæknivinnustaður. Þar starfar fólk með yfirgripsmikla þekkingu, menntun og réttindi sem nauðsynleg eru til að tryggja starfsemi flugvallar af þessu tagi og virkni tæknibúnaðar þar. Sú menntun og færni er vottuð af ýmsum alþjóðlegum stofnunum og fyrirtækjum.

Uppsagnir starfsmanna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, þar með margra sem starfa að málefnum flugvallarins geta leitt til þess að vel menntað og þjálfað starfsfólk hverfi af starfssvæðinu. Með frumvarpi þessu er leitast við að fyrirbyggja að ófremdarástand skapist samfara hugsanlegu brotthvarfi lykilstarfsfólks. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er þess vegna að finna heimild til að ráða án auglýsingar þá starfsmenn varnarliðsins sem nauðsynlegir eru til að tryggja áframhaldandi snurðulausan rekstur Keflavíkurflugvallar.

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af því sem ég hef hér sagt að framan vil ég greina frá því hver meginatriði þessa frumvarps eru:

1. Kveðið er með skýrum hætti á um það í lögum að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sé sérstök stofnun sem annist stjórnun, rekstur og uppbyggingu flugvallarins. Stofnunin hefur til þessa starfað á grundvelli reglugerðar frá árinu 1964, nánar tiltekið reglugerðar nr. 297/1964, sem sett var með stoð í lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

2. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Flugmálastjórn Íslands annist eftirlit með framkvæmd flugverndar og flugöryggis á Keflavíkurflugvelli og er þetta gert til að fyrirbyggja hagsmunaárekstra þar sem ekki er eðlilegt að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hafi eftirlit með sjálfri sér hvað þetta varðar.

3. Sérstökum flugvallarstjóra er ætlað að stjórna starfsemi og rekstri stofnunarinnar og er það í samræmi við það sem tíðkast hefur hingað til.

4. Það nýmæli er að finna í lögunum að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar er falið að bera ábyrgð á því að starfrækt sé slökkvilið á Keflavíkurflugvelli. Frumvarpið opnar þá einnig á þann möguleika fyrir flugmálastjórn vallarins að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hygg ég að ýmsir athyglisverðir möguleikar geti verið fyrir í hendi í því efni.

5. Í frumvarpinu er kveðið á um það að eftir því sem við verður komið skuli bjóða því starfsfólki varnarliðsins sem sinnt hefur ákveðnum flugtengdum verkefnum á árinu 2006 störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Þessar einingar hafa allar sinnt verkefnum sem sinna þarf áfram á flugvellinum þrátt fyrir brotthvarf varnarliðsins. Þessi störf verða undanþegin auglýsingaskyldu og byggir sú undanþága á augljósum sanngirnisrökum.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er meginmarkmiðið með frumvarpinu að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfni Keflavíkurflugvallar og snurðulausan rekstur flugvallarins. Yfirtaka Íslands á þeim flugtengdu verkefnum sem varnarliðið hefur annast til þessa mun óhjákvæmilega hafa í för með sér aukin útgjöld ríkisins. Áætlað er að útgjöld geti aukist um allt að 1,4 milljarða vegna launa- og rekstrarkostnaðar en árétta verður að áætlun þessi er háð verulegri óvissu.

Einnig er rétt að geta þess að áætlaður stofnkostnaður, 4,3 milljarðar kr., miðast við nýbyggingar og kaup á nýjum búnaði en eins og ég gat um áðan er samningaviðræðum við Bandaríkjamenn enn ólokið og fjölmargir óvissuþættir enn þá til staðar varðandi framtíðarnotkun tækja og búnaðar á vellinum.

Ég legg ríka áherslu á það, virðulegi forseti, að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar fái ráðgert svigrúm til að takast á við hin auknu verkefni sín. Sérstaklega er mikilvægt að stofnunin fái svigrúm að því er varðar ráðningar á lykilstarfsfólki úr hópi starfsmanna varnarliðsins. Lykilatriðið er að tryggja rekstrarhæfni Keflavíkurflugvallar, þjóðarflugvallar okkar þannig að sómi sé að og öryggi í flugsamgöngum okkar Íslendinga sé ávallt tryggt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.



[14:10]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski ekki beinlínis andsvar heldur hafa vaknað spurningar við lestur þessa frumvarps sem mig langar til að beina til hæstv. utanríkisráðherra.

Fyrir það fyrsta langar mig til að grennslast fyrir um hvort gerð hafi verið einhver úttekt á því hversu margir af þeim sem nú starfa eða heyra undir þau störf sem hér eru talin upp hjá slökkviliði, snjóruðnings- og brautadeild, rafeindadeild, voltadeild og verkfræðideild, mundu halda áfram að starfa á flugvellinum eftir þessar breytingar. Og hversu margir mundu þá hugsanlega hætta og hvort stjórnvöld hafi hugleitt með hvaða hætti störfum þeirra mundi ljúka, hvort gerðir yrðu starfslokasamningar við þá starfsmenn eða hvort þeir yrðu að reyna að spjara sig upp á eigin spýtur.

Önnur spurning sem ég velti fyrir mér er í framhaldi af því sem kemur fram varðandi hugsanlegan kostnað. Hér er talað um í fylgiskjali að matsvirði fasteigna og tækja geti verið um 4,3 milljarðar. Þetta er nokkuð há fjárhæð. Liggur fyrir að hve miklu leyti okkur stendur til boða að taka við bæði fasteignum en líka tækjabúnaði? Því ég hygg að margt af þeim búnaði sem þarna er sé mjög dýr. Slökkviliðið þarf slökkvibíla og snjóruðningsdeildin þarf áfram sín snjóruðningstæki og annað þar fram eftir götunum. Liggur eitthvað nánar fyrir um það hvort við Íslendingar „fáum að erfa þennan búnað“ og greiðum þá eitthvað fyrir og þá hversu mikið og að hvaða leyti við munum taka við þessum búnaði?



[14:12]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú tala sem nefnd er í kostnaðaráætlun er áætluð tala um hvað það mundi kosta að kaupa nýjan búnað og reisa þessa starfsemi frá grunni hvað varðar tæki og búnað. Þess vegna ber að taka þessari tölu með miklum fyrirvara. En ég hef gert ráð fyrir því að við munum yfirtaka tæki og búnað núverandi slökkviliðs á vellinum og ekki greiða neitt fyrir það.

Hvað varðar starfsmenn vallarins þá hef ég ekki neinar tölur yfir það hversu margir munu hugsa sér að halda þar áfram eða hversu margir munu vilja fara í önnur störf eða eiga kost á öðrum störfum. Það er eitt af því sem verður að skýrast í framhaldinu. Það sem núna gerist ef þetta frumvarp verður að lögum er að Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli mun fara í að vinna úr þáttum sem þessum. Því til viðbótar er svo samstarfsnefnd ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna og þau verkefni sem er verið að vinna á Suðurnesjum af hálfu heimamanna þar til að auðvelda mönnum að finna ný atvinnutækifæri ef því er að skipta, ef menn þurfa á því að halda. En þetta er eitt af því sem er í vinnslu. Það er hins vegar mjög mikilvægt að óvissunni varðandi þessi mál létti, að allir þeir sem eiga þarna hagsmuna að gæta og stunda þarna vinnu viti af því að það kemur nýr vinnuveitandi. Varnarliðið verður ekki lengur vinnuveitandi heldur Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli og hún mun tryggja að þeir rekstrarþættir haldi áfram sem varnarliðið hefur séð um hingað til, þannig að fyrir notendur vallarins mun þetta vonandi þá engu breyta.



[14:14]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála því að það er mjög mikilvægt að þeirri óvissu verði aflétt sem ríkir nú varðandi framtíð á Keflavíkurflugvelli og þá kannski ekki síst varðandi framtíð þeirra starfsmanna sem þar eru. Þetta frumvarp nær yfir ansi marga menn. Hér er verið að tala um u.þ.b. 150 starfsmenn sem að sjálfsögðu eru nokkuð uggandi um hag sinn núna. Ég hygg og trúi því í fullri einlægni að þegar þetta frumvarp verður að lögum muni það á vissan hátt eyða óvissu um framtíð fjölmargra af þessum ágætu starfsmönnum. Það kemur fram í þessu frumvarpi að þarna er falinn mjög mikill mannauður. Þarna er fyrir hendi mjög mikil þekking sem hefur orðið til í áranna rás, þekking varðandi rekstur svona flugvallar, svona mikils samgöngumannvirkis. En við megum þó ekki gleyma því, virðulegi forseti, að sennilega mun það verða svo að einhverjir muni falla á milli tveggja stóla, ef svo má segja, og ég tel að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það í dag og gleymum því ekki í umræðunum í dag að við þurfum að leysa úr vandkvæðum þeirra sem ekki munu fá vinnu áfram við Keflavíkurflugvöll. Ég býst fastlega við því að málefnalegar umræður geti spunnist um það í dag því ég tel mjög mikilvægt að við gleymum þessu fólki ekki.



[14:16]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í örstuttu máli. Það er mikið fagnaðarefni hve ríkisstjórnin tekur fljótt á þessum málum og eyðir þar með óvissu fjölda starfsmanna á Keflavíkurflugvelli. Það er rétt, eins og kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, að þarna er að störfum hópur manna sem hefur mikla þekkingu og reynslu.

Hins vegar hefur oft verið rætt um hvort vera eigi flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli auk Flugmálastjórnar Íslands sem er yfir öllum öðrum flugvöllum í landinu. Rætt hefur verið um að mikið hagræði væri að því og jafnvel nauðsynlegt að sameina flugmálastjórnirnar þannig að það væri ein og sama flugmálastjórn yfir öllu landinu. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra: Hvert stefnir í þessu máli? Þetta spor er stigið af skiljanlegum ástæðum en hvert stefnir þegar til framtíðar er litið? Hyggst utanríkisráðherra beita sér fyrir því að þetta fari í þann farveg sem allir vilja, þ.e. ein flugmálastjórn yfir öllum flugvöllum landsins?



[14:17]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði kannski mátt koma skýrar fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir frumvarpinu að þær ráðstafanir sem hér er verið að leggja til eru eingöngu hugsaðar til að tryggja snurðulausa framkvæmd vallarins við núverandi aðstæður. Ekki er tekin afstaða til þess í frumvarpinu hvernig framtíðarskipan þessara mála eigi að vera eftir einhvern tíma heldur miðast þetta við að við komum okkur út úr því óvissuástandi sem nú hefur ríkt og að tryggjum eðlilegan rekstur. Síðan verður að nýju spurning sem við svörum þegar okkur hentar sjálfum hvort skipulag flugmálanna þarna eigi að vera eitthvað öðruvísi en það er núna. Við erum að bregðast við óvæntum aðstæðum og gerum það með þessum hætti.

Hins vegar er það skoðun mín að eftir að hlutverk flugvallarins í Keflavík breytist með þeim hætti sem nú er fyrirsjáanlegt, að hernaðarflug minnkar mjög stórlega og venjuleg borgaraleg flugumferð með farþegaflugvélar og frakt verður aðalstarfsemin þarna, eigi yfirstjórn þessa flugvallar að flytjast undir samgönguráðuneytið. Það verður því verkefni samgönguráðuneytisins, sem verður þá með öll þessi mál á sinni hendi, að gera það upp við sig hvort reka eigi þessa starfsemi áfram sem eina sérstaka stofnun á Keflavíkurflugvelli eða hvort sameina eigi þetta allt undir einni sameiginlegri flugmálastjórn fyrir flugvelli landsins. Ég tel að sú spurning sé enn þá opin og það eigi eftir að svara henni til framtíðar. En að því leyti til má segja að frumvarpið sem ég flyt hér sé um bráðabirgðaráðstafanir eða ákveðna millileið á meðan við erum að ganga frá öllum þeim málum og lausu endum sem í þessu eru, m.a. gagnvart Bandaríkjamönnum.



[14:19]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar skuli komið fram þannig að hægt sé að bregðast við þeim vanda sem óneitanlega hefur komið upp við það að varnarliðið hefur sagt upp flugvallarstarfsmönnum á Keflavíkurflugvelli. Að vísu er frumvarpið svolítið seint fram komið og lítill tími gefst til afgreiðslu en ég held þó að nauðsynlegt sé að taka það á dagskrá, eins og afbrigðin gefa til kynna og allir þingmenn sem hér voru í salnum töldu, til að hægt verði að taka á þessu sem fyrst.

Það er mjög mikilvægt að óvissu varðandi starfrækslu Keflavíkurflugvallar og störf þeirra manna sem þar starfa ljúki. Þetta frumvarp er lagt fram til að enda óvissuna og eins og ég sagði, betra seint en aldrei.

Frumvarpið tekur líka á nokkrum öðrum atriðum. Það kemur fram í 1. gr. að utanríkisráðherra ákveður hvar aðsetur þessarar stofnunar skuli vera og mér þætti vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra gæti svarað því á eftir hvort einhverjar hugmyndir séu uppi um það hvar aðsetur stofnunarinnar eigi að vera. Eins kemur fram að utanríkisráðherra muni setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um skipulag og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og virðist vera ansi opið í frumvarpinu hvað á að vera í þeirri reglugerð og því væri gott að fá að heyra einhverjar hugmyndir um það.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sé heimilt að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðs á Keflavíkurflugvelli. Ég veit að heimamenn eru fullir áhuga á að eiga viðræður við utanríkisráðuneytið um rekstur slökkviliðsins og menn eru jafnvel tilbúnir til þess að horfa talsvert víðar yfir það svið til að tryggja faglegan og góðan rekstur á slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Lögin öðlast gildi 1. júní 2006 fyrir utan ákvæðið til bráðabirgða en ákvæðið til bráðabirgða kveður á um að eftir því sem við verði komið skuli bjóða því starfsfólki störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem unnið hefur á árinu 2006 hjá þeim deildum varnarliðsins sem taldar eru upp í frumvarpinu en þær eru slökkviliðið, snjóruðnings- og brautadeildin, rafeindadeildin, voltadeildin og verkfræðideildin. Hvað orðalagið „eftir því sem við verður komið“ þýðir væri gott að fá svar við. Ég sé það í athugasemdum við frumvarpið að talað er um að þeir sem starfað hafa á árinu 2006 við þessi störf hafi forgang til þessara starfa og vona ég að það sé réttur skilningur.

Það segir í ákvæðinu til bráðabirgða að flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli undirbúi og annist ráðningar í framangreind störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra heyrir þetta undir utanríkisráðuneytið þó að menn sjái það kannski fyrir sér í framtíðinni að þessi rekstur eigi frekar heima undir samgönguráðuneytinu og því er væntanlega kveðið á um það að hafa þurfi samráð við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Það er undanþága í frumvarpinu frá því að þurfa að auglýsa þessi störf eins og ráð er fyrir gert í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tel ég alveg eðlilegt að menn horfi til þess að hér eru sérstakar aðstæður uppi og nauðsynlegt að snúa sér þannig í því að þeir sem nú vinni þessi störf hafi forgang að þeim störfum. Ég tel að við getum litið á það sem er að gerast þarna á flugvellinum með svipuðum hætti og aðilaskipti að fyrirtækjum. Það er í raun og veru óbreyttur rekstur í gangi áfram en nýr aðili tekur við fyrirtækinu og rekstri þess. Við eigum lög um aðilaskipti að fyrirtækjum og mér leikur forvitni á að vita hvort menn munu ekki horfa til þeirra laga þegar metið verður með hvaða hætti þessir starfsmenn komast á nýja ráðningarsamninga hjá nýjum vinnuveitanda.

Segja má að forsendan fyrir því að taka þetta mál og afgreiða það hratt og vel á þinginu sé að þeir sem þarna starfi hafi tryggingu fyrir því að kjör þeirra muni ekki skerðast og réttindin ekki heldur eftir að þeir eru ráðnir hjá nýjum aðila, eins og lög um aðilaskipti gera ráð fyrir. Því langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé ekki réttur skilningur að þessi bráðabirgðaaðgerð, eins og hæstv. ráðherra lýsti þessu áðan, til að tryggja snurðulausan rekstur á Keflavíkurflugvelli muni fara fram með þeim hætti að þeir sem nú starfa við þessi störf hafi þar ákveðin kjör, hafi þar ákveðin réttindi, veikindarétt o.s.frv., og að ekki séu uppi hugmyndir um að skerða í neinu þann rétt. Mér finnst það grundvallaratriði í þessu máli þegar við tökum það fyrir og afgreiðum það svona hratt að fyrir liggi að ekki sé um það að ræða að skerða eigi kjör.

Annað sem menn hafa velt fyrir sér og vekur ákveðnar áhyggjur er að varnarliðið hefur tekið reglulega saman skýrslur um heilsufar starfsmanna og er spurning hvað verður um þessar skýrslur við aðilaskiptin. Munu þessar skýrslur fara í hendur heilbrigðisyfirvalda eða mun þeim verða eytt? Það hlýtur að vera mikilvægt að þessar skýrslur sem til eru um heilbrigðisástand starfsmanna hjá varnarliðinu liggi ekki á glámbekk og fari ekki á flakk.

Í viðtali við hæstv. utanríkisráðherra í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að það sé brýnt að eyða óvissu starfsfólksins og afgreiða frumvarpið nú eða eigi síðar en eftir sveitarstjórnarkosningar, eins og hæstv. ráðherra segir í viðtalinu við Fréttablaðið í morgun. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að afgreiða þetta frumvarp nú og það geti ekki beðið fram yfir sveitarstjórnarkosningar. Meginástæðan fyrir því í mínum huga er sú að það er ekki boðlegt að bjóða starfsmönnum sem búið er að segja upp, og margir hverjir eiga að hætta störfum um mánaðamótin maí/júní eða 31. maí, upp á það að þeir þurfi að bíða eftir því fram á síðasta dag í uppsagnarfresti sínum, þótt búið sé að leggja fram frumvarp og taka um það 1. umr., hvort þetta verði að lögum og hvort hægt verði að ráða þá á þeim kjörum sem hér er talað um. Því tel ég mjög mikilvægt að þetta verði afgreitt núna áður en hlé verður gert og lýsi því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar að við erum tilbúin til þess að gera það að uppfylltum þeim fyrirvara sem ég nefndi áðan, að ekki sé um það að ræða að verið sé að skerða kjör þessara manna. 13 af 14 starfsmönnum sem sinnt hafa hreinsun og eftirliti á flugbrautum eru með uppsagnarfrest sem rennur út 31. maí. Ef við náum ekki einhverra hluta vegna að klára þetta mál og ráða þessa menn aftur til starfa eða þeir færu vegna þess hve stutt er eftir af uppsagnarfresti þeirra, ef við ætlum að draga það að afgreiða málið misstum við þarna verulega mikla sérþekkingu og starfsreynslu sem þessir menn hafa.

Að endingu, frú forseti, þætti mér vænt um ef hæstv. utanríkisráðherra gæti svarað þeim spurningum sem ég hef lagt fram og þá fyrst og fremst og sérstaklega spurningunni um kjör starfsmanna.



[14:27]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu ljóst að gera þarf ráðstafanir vegna yfirtöku okkar Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og hefði svo sem mátt vera betur undirbúið, því að það hefur legið nokkuð ljóst fyrir, a.m.k. að mínu mati, undanfarin ár að að því drægi. Ég hef flutt tillögur um það í þinginu undanfarin allmörg ár að undirbúnar yrðu ýmsar ráðstafanir sem tengdust þessum óumflýjanlegu og gleðilegu tímamótum. Það hefur einkum verið tvennt sem blasað hefur við að takast þyrfti á við, þ.e. annars vegar það sem lýtur að yfirtöku rekstrarins þarna og hins vegar það sem lýtur að viðskilnaði Bandaríkjamanna, að þeir hreinsi upp ruslið eftir sig o.s.frv.

Hæstv. utanríkisráðherra kemur hér með frumvarp sem getur varla kallast annað en bráðabirgðaráðstöfun og hæstv. ráðherra má eiga það að hann dró ekki dul á að þetta væri í raun og veru bráðabirgðaráðstöfun eða redding eins og það heitir á talmáli. (Utanrrh.: Fyrir norðan?) Ja, það heitir það víðar á landinu, hygg ég, hæstv. ráðherra, eða að verið sé að bjarga í horn, ef hæstv. ráðherra kann það tungutak betur, með þessu frumvarpi. Ég geri engar athugasemdir við það að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar verði falið þetta verkefni til bráðabirgða a.m.k.

Hitt er svo annað mál og það hugðist ég einmitt gera að umtalsefni sem reyndar kom aðeins inn í orðaskipti í andsvörum og svörum áðan að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það væri auðvitað alveg út úr kú að eitt mikilvægasta og í raun má segja mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar heyrði ekki undir samgönguráðherra og það hefur auðvitað ekkert verið annað en viðkvæmnin gagnvart Kananum sem hefur valdið því. Þegar flugstöðin var í byggingu á sínum tíma hreyfðum við þeim sjónarmiðum að að sjálfsögðu ætti að færa byggingarsvæðið út fyrir eða endurskilgreina svokölluð varnarsvæði þannig að flugstöðin gæti verið borgaralegt samgöngumannvirki. En menn voru nú að mjólka kúna og Kaninn átti að borga í þessu 40% eða hvað það nú var eða 60, en reyndist talsvert minna þegar upp var staðið vegna þess að það var föst upphæð. Síðan fór hönnunar- og byggingarkostnaður upp úr öllu valdi og Íslendingar sátu eftir með þann skell og það má færa að því rök að við hefðum jafnvel komist af með minni fjármuni ef við hefðum afþakkað þetta framlag frá Kananum, byggt þessa flugstöð sjálfir og hannað hana eftir okkar þörfum. En menn muna það kannski hversu fáránleg sóun af ýmsu tagi var fólgin í stöðlunum sem Kaninn þvingaði inn í bygginguna og því að taka mið af stöðlum hersins. Menn geta séð ef þeir skoða bygginguna grannt þá er þar ýmis fáránleiki sem alls ekki á erindi inn í íslensk mannvirki og íslenskar aðstæður eins og einangrun á frárennslisrörum, rakagildrur, engissprettugildrur í niðurföllum og annað í þeim dúr sem ég hef ekki heyrt að mikil þörf sé fyrir á Íslandi.

Þetta mannvirki og þessi starfsemi í heild sinni á auðvitað að vera hjá samgönguráðherra, (Gripið fram í.) að sjálfsögðu. Þar erum við hæstv. utanríkisráðherra þá hjartanlega sammála og ég vona að hæstv. ráðherra undirbúi þær breytingar eða þeir í samstarfi hæstv. samgönguráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Það er ekki eftir neinu að bíða með það. Þessi arfleifð hersetunnar sem mikilvægt er að afmá eins hratt og mögulegt er í öllu tilliti á auðvitað að fara á öskuhauga sögunnar með þessu tímabili eins og það leggur sig.

Frú forseti. Það er freistandi að minnast aðeins á stöðu málsins að öðru leyti og þar vil ég bara segja að að mínu mati hefur ríkisstjórnin staðið illa að viðræðum við Bandaríkjamenn um brotthvarf þeirra og höfum misst það mál inn í afar óheppilegan farveg. Í stað þess að stilla Bandaríkjamönnum upp og gera til þeirra kröfur þá er setið og beðið eftir tillögum af þeirra hálfu um framtíðarfyrirkomulag mála í Keflavík. Auðvitað blasir það við hverjum manni og það heyrir maður umsvifalaust ef maður fer um á Suðurnesjum nú að hagsmunirnir eru fólgnir í því að losna við Kanann fyrir fullt og allt endanlega og hreint og gera málin upp, fá svæðið og aðstöðu og mannvirki yfir til borgaralegra nota og geta óhindrað farið að spila úr þeim möguleikum sem þar opnast. Það væri versta niðurstaðan af öllum mögulegum ef þarna héngi áfram einhver óvissa yfir vötnunum og við gætum t.d. ekki gengið í að endurskipuleggja málin þarna á hreinu borði.

Það hefur líka verið staðið ákaflega sleifarlega að fleiri þáttum og það var alveg undarlegt að sjá að það dróst um vikur og aftur vikur að ríkisstjórnin gæti skipað samráðsnefnd með heimamönnum sem þó hafði verið lofað. Hæstv. ráðherrar spýttust til Suðurnesja og héldu stórfundi í Stapanum, a.m.k. framsóknarmenn og þá stóð ekki á því að þeir færu suður eftir. En svo liðu margar vikur og ekkert gerðist í framhaldinu. Ástandið gagnvart starfsmönnunum sem þarna eiga í hlut er þannig að þeir eru búnir að ganga með uppsagnarbréf upp á vasann vikum eða jafnvel mánuðum saman en það hefur ekkert verið við þá talað. Slökkviliðsmennirnir t.d. segja manni þá sögu að þeir hafi bara gengið með uppsagnarbréfið upp á vasann og verið í algerri óvissu um það sem við tekur. Það er vissulega til bóta að fá þó þetta frumvarp og gera það að lögum og það opnar möguleika á að endurráða þá og það er vel og þess vegna munum við greiða götu þess en staðan hefur hins vegar ekki verið forsvaranleg. Þeir hafa t.d. ekki notið sömu kjarabóta og aðrir slökkviliðsmenn í landinu vegna þess að þeir hafa enn verið undir því launaþaki sem varnarliðið þvingaði einhliða fram gagnvart starfsfólki sínu. Auðvitað hefur þessi staða alls ekki verið forsvaranleg.

Það síðasta, frú forseti, sem ég ætla að hnykkja á eða gera að sérstöku umtalsefni er nauðsyn þess og mikilvægi að menn vandi sig gagnvart starfsfólkinu sem þarna á í hlut og ræði við það og samtök þess og vinni alla þessa hluti í samráði við samtök starfsmanna. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja að svo verði gert.

Ákvæði til bráðabirgða kemur inn á þetta sérstaklega. Orðalagið þar er kannski ekki endilega það sem maður hefði helst kosið en þar segir í 1. mgr. að eftir því sem við verði komið skuli bjóða því starfsfólki störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem unnið hefur á árinu 2006 hjá eftirtöldum deildum varnarliðsins o.s.frv. Hvað þýðir orðalagið þarna „eftir því sem við verði komið“? Getur hæstv. utanríkisráðherra farið aðeins betur yfir það og hvers vegna þarf að orða þetta svona? Er ekki ljóst að í raun og veru er einfalt mál að bjóða öllum sem það vilja endurráðningu? Þarf ekki allt þetta starfslið til að reka völlinn? Eða ekki ætla menn að fara að fækka frekar en nú er, t.d. í brautarþjónustunni? Um hvað hefur umræðan verið síðustu árin? Að Kaninn hefur sagt upp svo mörgu fólki að þetta er komið niður í alger lágmörk, jafnvel hvað varðar öryggismörk, það mannahald sem þarna er til staðar í dag. Um það hefur umræðan verið. Þess vegna vekur það undrun að ekki skuli ósköp einfaldlega vera hægt að segja: Allir þeir sem þess óska skulu eiga kost á endurráðningu hjá flugmálastjórn, og það er vel réttlætanlegt við þær aðstæður að víkja til hliðar eins og þarna er gert með síðasta málslið bráðabirgðaákvæðisins, ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, þ.e. skyldunni að auglýsa störf. Við þessar sérstöku aðstæður hygg ég að enginn verði til að hreyfa andmælum við því þannig að unnt sé að ganga frá þessum málum fljótt og vel gagnvart starfsmönnum og þeir sem þess kjósa eigi ósköp einfaldlega rétt á endurráðningu. Það kann vel að vera og er líklegt að einhverjir séu þannig staddir á spori að þeim henti að láta bara af störfum sökum aldurs t.d. við þessi tímamót og gott og vel. En ég spyr: Er ekki útlátalaust að gera þetta þannig úr garði að allir eigi þennan rétt sem þess óska? Það hefði ég helst kosið að væri, frú forseti.

Ég á þess kost að fara aðeins yfir málið á nefndarfundi sem hér verður væntanlega skotið inn á milli umræðna og skal þess vegna tímans vegna ekki hafa þessi orð fleiri.



[14:37]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að þetta frumvarp skuli hafa komið strax fram og ekki síður að lýsa ánægju minni með að þingheimur skuli hafa samþykkt að taka það inn með svokölluðum afbrigðum og lýsir væntanlega vilja þingsins að mestu leyti til efnisatriða þessa frumvarps. Það er nefnilega svo eins og fram hefur komið í umræðunni að málið er af þeim toga að það er mjög mikilvægt að eyða óvissu og mikilvægt að þetta mál gangi hratt í gegnum þingið og fyrir því eru tvær meginástæður. Önnur er auðvitað sú að eyða óvissu gagnvart því fjölmarga starfsfólki sem vinnur á Keflavíkurflugvelli en jafnframt og í beinu framhaldi af því vegna öryggismála þjóðarinnar því að segja má Keflavíkurflugvöllur sé megingluggi þjóðarinnar til útlanda og mikilvægt að halda honum opnum þó að þessar snöggu breytingar hafi orðið á umhverfi hans.

Innan vallarins hefur myndast mikil sérfræðikunnátta og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt þjóðarinnar vegna að halda þeirri sérfræðikunnáttu og þessum sérfræðistörfum þannig að hægt sé að bregðast fljótt og vel við og bjóða starfsfólki vinnu við þau störf sem starfsfólk hefur sérhæft sig í.

Nú er það svo, frú forseti, að í rauninni kemur sú staða sem orðin er ekki á óvart en segja má að það hafi gerst með miklu sneggri hætti en reikna mátti með og eins og fram hefur komið í umræðunni má segja að framkoma Bandaríkjamanna gagnvart okkur hafi í rauninni verið óskiljanleg. Þegar viðræður eru í gangi og í miðjum klíðum á milli þessara tveggja vinaþjóða þá skuli Bandaríkjamenn einhliða taka þessa ákvörðun og gera lítið úr varnarsáttmálanum sem hefur verið á milli þjóðanna og sýnt okkur í rauninni lítilsvirðingu með þessari framkomu. En þetta er staðreynd sem liggur fyrir, varnarliðið virðist vera á förum og þá er mikilvægt að bregðast við vegna þeirrar sérhæfingar sem lýtur að rekstri alþjóðaflugvallar og til að geta boðið því starfsfólki sem þarna er áframhaldandi vinnu. Þess vegna er mikilvægt að frumvarpið gangi hratt í gegn og ég fagna því þverpólitíska samkomulagi sem er hér innan þingsins um að láta málið ganga það hratt í gegn að það náist jafnvel að ljúka því í dag og þar með er óvissu eytt og starfsmenn vita þá að hverju þeir ganga. Ég tek þó undir þær spurningar sem hér hafa komið fram varðandi kjör starfsfólksins. Ég hygg þó að það sé ekki alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að launakjör starfsmanna slökkviliðsins innan vallar séu undir almennum kjörum slökkviliðsmanna í landinu. Það hefur einmitt verið öfugt, starfsfólk varnarliðsins hefur yfirleitt verið með heldur hærri laun en þeir sem eru utan varnarsvæðis og það hefur beinlínis verið launastefna varnarliðsins í því skyni að halda stöðugleika í starfsmannaveltu. Enda er það svo að hundruð starfsmanna hafa starfað þar áratugum saman.

Frumvarpið er í sjálfu sér einfalt. Það lýtur að þeirri heimild flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli að bjóða núverandi starfsmönnum varnarliðsins störf sem opinberir starfsmenn hjá flugmálastjóranum á Keflavíkurflugvelli og jafnframt er opnað fyrir þann möguleika að sama embætti geti samið við slökkvilið eða byggðasamlag sem rekur slökkvilið um að annast rekstur slökkviliðsins. Ímynda ég mér að þar hafi menn í huga Brunavarnir Suðurnesja, að geta skipulagt þær á heildrænan hátt á þessu landsvæði sem er ekki mikið um sig að flatarmáli og því ekki óeðlilegt að líta til Brunavarna Suðurnesja með heildarskipulag á slökkviliði fyrir þetta svæði.

Ég vek líka athygli á því að hér er tekinn af allur vafi um að tekjur af lendingargjöldum og gjaldtaka vegna öryggis- og leitarþjónustunnar, ef það má kalla hana svo, skuli enda á Keflavíkurflugvelli eins og verið hefur að nokkru leyti nú um hríð en sú var tíðin að hluti af þessum tekjum rann víða um landið. Hér er tekinn af allur slíkur vafi enda er ljóst að kostnaður okkar sem þjóðar af því að taka við rekstri flugvallarins nemur vel á annan milljarð kr. og er það eiginlega nýlunda þar sem varnarliðið hefur staðið undir þessum rekstri.

Í sjálfu sér þarf ekki mikið að segja. Ég árétta það og fagna því að frumvarpið skuli hafa komið fram og það sé þessi þverpólitíska samstaða um að láta málið ganga hratt og örugglega í gegn enda er hér um lágmarksbreytingar að ræða til að geta brugðist við gagnvart starfsfólki og gagnvart því að halda rekstrinum óbreyttum, þ.e. að halda rekstri flugvallarins opnum þó að varnarliðið annist hann ekki lengur.

Það sem hins vegar mun gerast í framhaldinu er ýmislegt og þar eiga örugglega eftir að verða miklar umræður innan þings eins og annars staðar. Ég nefni það sem hér hefur komið fram í umræðunni, það er vistun á Keflavíkurflugvelli þegar varnarliðið er farið og yfirráð varnarliðsins eru ekki lengur fyrir hendi, hvort þá sé eðlilegt að vista yfirráðin stjórnsýslulega undir samgönguráðuneyti eins og aðrar samgöngur. Það er umræða sem á eftir að fara fram og ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli ekki stíga frekari skref að þessu sinni þannig að hægt sé að keyra þetta hratt í gegn en síðan þarf umræðan um hina þættina að þroskast.

Í þessu samhengi hljótum við líka að velta upp þeirri spurningu þótt ekki sé hægt að svara henni á þessari stundu þar sem viðræður við varnarliðið standa yfir: Ef varnarliðið fer burt með allt sitt hafurtask hvað verður þá um hin miklu mannvirki sem þarna eru? Þarna eru stórar og erfiðar spurningar sem við verðum þó að hugleiða. Svarið verður auðvitað ekkert í þessari umræðu en ég hygg samt að við megum ekki draga það mjög lengi að leita að slíku svari því það hefur mikil áhrif hvernig við svörum þeirri spurningu um hvað eigi að verða um mannvirkin. Á að verða þarna draugabær sem Bandaríkjamenn vilja hafa svona til taks ef aðstæður skyldu breytast? Á að rífa öll mannvirkin, þessi glæsilegu mannvirki sem nýbúið er að taka í gegn eða á að nýta þetta til atvinnuuppbyggingar sem alþjóðlegt kvikmyndaver, háskólaþorp og aðrar slíkar hugmyndir sem menn hafa verið með í umræðunni? Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í gegnum þetta en útgangspunkturinn hlýtur þó alltaf að ráðast af niðurstöðunni úr samningaviðræðum við Bandaríkjamenn. Ég árétta að ég tel að Bandaríkjamenn hafi komið dólgslega fram við okkur sem þjóð og við hljótum að taka varnarsamninginn á þeim grunni til endurskoðunar.

Að lokum, frú forseti, þessari umræðu hlýtur einnig að fylgja hið eilífa deilumál um staðsetningu innanlandsflugsins. Nú verðum við að svara þeirri spurningu sem þjóð hvort við teljum okkur hafa efni á að reka tvo flugvelli og í loftlínu líklega ekki nema 40 km á milli þeirra. Það kostar vel á annan milljarð kr. að halda uppi rekstri flugvallar á Miðnesheiði og ætli það muni ekki kosta hátt í 500 millj. að reka Reykjavíkurflugvöll. Ef svo fer að borgarfulltrúar í Reykjavík taka ákvörðun um að vísa Reykjavíkurflugvelli burt þá þurfum við að svara því hvort við viljum byggja upp nýjan flugvöll sem sérfræðingar segja að kosti 10–12 milljarða kr. Höfum við efni á því, hafandi stóran og mikinn flugvöll í 40 km fjarlægð í loftlínu, á sama tíma og við erum að tvöfalda Reykjanesbraut og hugmyndir eru uppi um að setja jarðgöng frá Straumsvík og yfir í Kvosina? Þetta eru auðvitað spurningar sem hljóta að koma upp í kjölfarið en þær snerta auðvitað ekki það frumvarp sem hér er til umræðu, eru kannski frekar afleiðing af því og geri ég ráð fyrir að þegar þing kemur saman aftur í lok maí og í júnímánuði þá muni sú umræða fara fram. Ég árétta að efni þessa frumvarps er fagnaðarefni og fagna því enn frekar að það skuli stefna í að það renni í gegn á einum degi þannig að óvissu gagnvart starfsfólki verði eytt en tek undir þær spurningar sem hér hafa komið um hver kjör starfsmanna muni verða hjá hinum nýja húsbónda.



[14:47]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason minntist í niðurlagi ræðu sinnar á Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans og tvinnaði það saman við þá umræðu sem hér á sér stað um framtíðartilhögun varðandi rekstur Keflavíkurflugvallar.

Mér datt í hug að koma hér upp og spyrja hv. þingmann, af því að mér heyrðist hann vera að tala um að ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu að hætta rekstri flugvallarins í Vatnsmýri væri ekki annað að gera en fara með hann til Keflavíkur, hvort hann sé andvígur því sem hið svokallaða exbé-framboð í Reykjavíkurborg hefur sett fram og talað um, þ.e. hina miklu þjóðarsátt um flugvöll á þekktum rauðmagamiðum á Lönguskerjum í Skerjafirði. Ber að skilja það svo að exbé-framboðið í borginni hafi ekki stuðning Framsóknarflokksins í því máli, í þeirri miklu þjóðarsátt? Því hér talaði náttúrlega hvorki meira né minna en þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Ég held að við verðum að fá hreinar og skýrar línur í þetta, virðulegi forseti, því að hér er að sjálfsögðu um mjög svo mikilvægt mál að ræða, þ.e. hvort við ætlum að búa til nýjan flugvöll á rauðmagamiðum í Skerjafirði, á Lönguskerjum, eða hvort exbé eigi að fylgja Framsóknarflokknum að málum, eins og ég skil það, og fara frekar með innanlandsflugið til Keflavíkur.



[14:50]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður er kominn í framboð til sveitarstjórnar á hann að vita að sjálfstæði sveitarstjórnarstigsins og sveitarstjórnarmanna er mikilvægt.

Það er rétt að exbé-framboðið, framsóknarmenn í Reykjavík, hefur bent á það sem leið að færa innanlandsflugið út á Löngusker og hefur boðað það sem þjóðarsátt og vill leggja í vinnu við það. Ég fagna því að menn skuli vilja leita eftir þjóðarsátt.

Ég hef hins vegar sjálfur lýst þeirri skoðun minni, og ég velti því upp í umræðunni áðan, að ef sú staða kemur upp sem borgarfulltrúar í Reykjavík, eins og margir frambjóðenda, líklega úr öllum flokkum nema flokki hv. þingmanns, hafa lýst yfir að flugvöllurinn skuli úr Vatnsmýrinni, þá verðum við sem þjóð að svara því hvernig við ætlum að tryggja innanlandsflugið. Ætlum við að gera það með því að byggja nýjan flugvöll á Lönguskerjum eða einhvers staðar upp til heiða, á Mosfellsheiðinni eða annars staðar, það mun kosta 10–12 milljarða að lágmarki, á sama tíma og við höfum flugvöll í u.þ.b. 40 kílómetra fjarlægð í loftlínu og erum að bæta samgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja? Þetta eru þetta allt möguleikar sem við hljótum að skoða.

Ég lít svo á að félagar mínir, framsóknarmenn í Reykjavík, séu að draga fram Lönguskerjaleiðina sem einn valkost og athuga hvort ná megi þjóðarsátt um hana. Ég hef sjálfur sagt, og það á ekkert að koma hv. þingmönnum á óvart, að ég hef efasemdir um þá leið vegna þess ég held að hún sé dýrari en sú leið sem mér hugnast.



[14:51]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá höfum við það. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins hefur efasemdir um að eitthvert vit sé í því að gera flugvöll á Lönguskerjum. Ég verð að lýsa því yfir að ég er alveg sammála því mati. Ég tel að hugmyndin um flugvöll á Lönguskerjum sé algjör fásinna eftir að hafa skoðað þá hugmynd og rætt hana, bæði við félaga mína í Frjálslynda flokknum og aðra sem hafa vit á þessum málum, og að það sé alveg út úr kortinu að gerður verði nýr flugvöllur þarna úti á miðjum firði.

Hins vegar þætti mér áhugavert að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann er þingmaður Suðurkjördæmis, hvort hann telji að það þjóni hagsmunum íbúa Suðurkjördæmis, og þá á ég við íbúa á því svæði sem við köllum fyrir austan fjall, þ.e. á Suðurlandsundirlendinu allt austur á Hornafjörð og líka íbúa í Vestmannaeyjum, að flugvöllurinn og innanlandsflugið verði flutt úr Vatnsmýrinni og farið með það til Keflavíkur. Það væri mjög áhugavert að fá að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á í ræðu sinni að eini flokkurinn á Íslandi í dag sem ætlar að berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni er Frjálslyndi flokkurinn. Við skömmumst okkar ekkert fyrir þá afstöðu. Við höfum skoðað þessi mál mjög gaumgæfilega og það er alveg sama hvernig maður veltir þeim fyrir sér, maður verður fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni landsbyggðarinnar en einnig um hagsmuni höfuðborgarbúa sjálfra og maður kemst að þeirri niðurstöðu að Vatnsmýrin sé eini skynsamlegi kosturinn.

Því miður eru aðrir stjórnmálaflokkar ekki alveg sammála okkur í þessu. Hins vegar bendi ég á að það eru ansi þokukenndar hugmyndir sem þeir hafa fram að færa varðandi valkost í staðinn fyrir Vatnsmýrina. Kannski má segja að skýrustu hugmyndirnar séu þær að fara með flugið til Keflavíkur en þar fyrir utan eru hugmyndirnar ansi mikið á reiki verð ég að segja.



[14:54]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki kann ég að nefna hvað leið er tæknilega skynsamlegust, ég hef ekki þá þekkingu, en ég fagna því auðvitað þegar menn tala tæpitungulaust. Það hefur Frjálslyndi flokkurinn gert í Reykjavík. En aðrir flokkar hafa a.m.k. gefið það afar sterklega í skyn að það komi að því að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni. Hvar hann lendir þá hef ég ekki tæknilega þekkingu eða forsendur til að meta. En ég fagna því að félagar mínir í Framsóknarflokknum í Reykjavík vilji skoða Lönguskerjaleiðina sem eina leið og athuga hvort ná megi þjóðarsátt um hana. Ég er ekki viss um að sú sátt náist.

Hins vegar eigum við ekki að skoða þetta út frá þröngum sjónarmiðum einstakra kjördæma heldur hljótum við að skoða þetta á landsvísu. Ef sú staða kæmi upp að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni verðum við að spyrja okkur að því hvar hagkvæmast væri fyrir okkur sem þjóð að setja þennan flugvöll niður. (Gripið fram í: Á Egilsstöðum.) Þar tek ég undir með hæstv. samgönguráðherra sem sagði á opnum fundi í Reykjanesbæ í vetur að ef til þess kæmi að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni teldi hann skynsamlegast og hagkvæmast að nýta flugvöllinn í Keflavík á sama tíma og verið er að gera samgöngubætur á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins með tvöföldun Reykjanesbrautar. Ég árétta þá enn frekar hugmyndir sem menn hafa bent á að byggja göng úr Straumsvík og yfir í Kvosina sem gerði það að verkum að menn væru ekki nema u.þ.b. 20 mínútur að keyra úr miðbæ Reykjavíkur og til Keflavíkurflugvallar. Það er ekki þar með sagt að allir sem ferðast í innanlandsflugi eigi endilega erindi í miðbæinn, miðja höfuðborgarsvæðisins er nú komin í Kópavoginn og fjölmargir utan af landi eiga líka erindi til útlanda.

Þetta eru auðvitað allt saman kostir sem þarf að skoða en umræðan um það mun væntanlega fara fram í sumar og á ekki beint skylt við það frumvarp sem hér er til umræðu.



[14:56]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu í þessari umræðu. Ég tel að hér sé mjög brýnt mál á ferðinni og mikilvægt að við afgreiðum það með hraði í þinginu því eins og ég sagði í andsvari áðan, og hæstv. utanríkisráðherra nefndi líka, er brýnt að eytt sé óvissu um þessi mál og við fáum það á hreint hvernig við ætlum að haga framtíðarskipulagi varðandi rekstur á Keflavíkurflugvelli. Að sjálfsögðu hlýtur hann að fara undir íslenska stjórn og ég hef engar áhyggjur af því að okkur Íslendingum takist ekki að reka þetta mikla samgöngumannvirki með miklum sóma. Eins og ég nefndi áðan er fyrir hendi mjög mikill mannauður og þekking á Suðurnesjum, þekking á því hvernig reka á svona mannvirki, og ég hygg að þeim Íslendingum sem hafa starfað á Keflavíkurflugvelli sé fyllilega treystandi til að sjá um rekstur flugvallarins í framtíðinni.

Það er aðeins eitt sem ég vil leggja áherslu á hér í máli mínu og það er einmitt framtíð þeirra starfsmanna sem unnið hafa á vellinum. Margir hafa unnið þarna mjög lengi og við mjög sérhæfð störf. Mér sýnist í fljótu bragði, og ég vona það svo sannarlega, að flestir muni fá störf áfram við flugvöllinn. Hér er um að ræða u.þ.b. 150 manns og að það verði í heildina 200 manns eða þar um bil sem muni starfa við flugvöllinn. Við vitum að í dag starfa 62 starfsmenn við embætti Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og ég reikna með því að þeir muni halda áfram. Mér sýnist því að einhverjir muni hætta, kannski munu einhverjir hætta við eðlileg starfslok ef svo má segja en hugsanlega mun þurfa að segja einhverjum upp.

Ég kem hér upp til að lýsa þeirri skoðun minni að við Íslendingar eigum að bjóða þeim starfsmönnum sem hætta góða starfslokasamninga. Enda þótt þessir starfsmenn hafi unnið á vegum Bandaríkjahers við rekstur flugvallarins þá lít ég svo á að þetta fólk, og ekki aðeins þetta fólk heldur fólk sem hefur starfað á vegum Bandaríkjahers á Suðurnesjum, hafi verið að starfa fyrir íslensku þjóðina. Starf þess hefur á vissan hátt verið framlag okkar til varnarsamstarfsins og þó að það hafi verið á launaskrá hjá Bandaríkjaher lít ég svo á að það hafi lagt fram mikilvægt vinnuframlag fyrir íslensku þjóðina í öryggis- og varnarmálum landsins. Fari svo að þetta fólk missi vinnuna tel ég að við eigum að gera vel við það. Það er einfaldlega siðferðisleg skylda okkar að sjá til að fólkið geti lokið störfum sínum með fullri reisn og virðingu og þurfi ekki að bera skarðan hlut frá borði.

Varnarsamstarfið er að sjálfsögðu tvíhliða eins og varnarsamningurinn gerir ráð fyrir. Með því hljóta að fylgja bæði réttindi og skyldur, líka siðferðislegar skyldur og við megum alls ekki gleyma þeim þætti við þau vatnaskil sem verða í varnarmálum okkar Íslendinga nú þegar Bandaríkjamenn fara héðan í haust.

Virðulegi forseti. Ég vildi láta þetta koma fram en ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég ætla ekki að tefja fyrir því að þetta frumvarp nái fram að ganga og hljóti afgreiðslu á Alþingi og endurtek enn og aftur að tel ég mjög mikilvægt að þessum málum sé komið á hreint og þetta frumvarp verði að lögum.



[15:00]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að margt sé að gerast í flugmálum á Íslandi í dag. Hér hefur verið komið inn á málefni flugvallarins í Reykjavík og rætt um framtíð hans og fyrir þinginu liggja frumvörp til laga um Flugmálastjórn Íslands annars vegar og um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands hins vegar. Nú kemur fram þetta frumvarp til laga um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem ég vil lýsa ánægju minni með. Ég vil ekki síður lýsa ánægju minni með þær undirtektir sem málið hefur fengið frá þeim sem hafa tekið til máls. Almennt virðast menn sammála um að frumvarpið leysi úr þeim brýna vanda sem við stöndum frammi fyrir vegna þess fjölda starfsfólks sem starfar á vellinum.

Það liggur fyrir að málinu er teflt fram sem eins konar millileik. Það verður að segjast eins og er að heppilegast hefði verið að geta stigið skrefið til fulls og fengið mynd á þá skipan flugmála sem við viljum sjá til framtíðar í Keflavík en aðstæður eins og þær eru nú bjóða ekki upp á það. Við erum í þeirri tímaþröng í þeim viðræðum sem standa yfir að við getum ekki leyft okkur og það er ekki raunhæft að stíga það skref í einu vetfangi. Það mál sem nú liggur fyrir þinginu er því jákvætt innlegg í viðkvæma stöðu. Það leysir úr þeim vanda sem að okkur steðjar og ég vil aðeins koma inn á tvö, þrjú atriði í því sambandi.

Frumvarpið gengur út frá sömu hugmyndafræði og liggur til grundvallar þeim þingmálum sem ég áður vék að, þ.e. að skilið verði á milli þjónustuþáttarins, stjórnsýslunnar og eftirlitsins með því að Flugmálastjórn Íslands annist eftirlit með framkvæmd flugverndar og flugöryggis á Keflavíkurflugvelli. Þegar betur er að gáð er þetta hugsanlega eina leiðin í stöðunni, nauðsynlegt að skipa málum með þessum hætti. Eins og áður segir er það í samræmi við þá hugmyndafræði og það skipulag sem hin þingmálin sem liggja fyrir þinginu byggjast á.

Í annan stað vil ég lýsa yfir ánægju minni með 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um slökkviliðið og starfsemi þess. Það er búið að byggja inn í frumvarpið ákveðinn sveigjanleika í þeirri starfsemi og vonandi næst fram sú hagræðing og það skipulag í þeim málum að breytingarnar sem verða við brotthvarf Bandaríkjahers verði okkur kostnaðarminni og framtíð þeirra mála verði með þeim hætti að við finnum minna fyrir því en ella hefði orðið. Það er skynsamlegt að horfa til þess með hvaða hætti hægt er að samnýta þá þjónustu af þessu tagi á svæðinu sem stendur næst flugvellinum.

Loks hefur verið til umfjöllunar ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu og það leysir málefni starfsfólksins. Ég vil þó segja að mér finnst það heldur ódýrt að menn skuli hrökkva til af því tilefni sem hér er og koma fram á sviðið með tilboð um góða starfslokasamninga til þeirra sem ekki fá störf án þess að það sé útlistað neitt nánar. Ég sé ekki að neitt sérstakt tilefni sé til að stökkva til og jafnvel þó það kunni að vera freistandi fyrir litla stjórnmálaflokka að koma slíku sjónarmiði að af þessu tilefni þá finnst mér það heldur ódýr pólitík í þessu samhengi að segjast vera tilbúin til að mæla fyrir góðum starfslokasamningum. Réttindi þeirra starfsmanna sem í hlut eiga eru í því tilliti tryggð í lögum og við getum ekki hlaupið til í einstökum tilvikum með sértilboð um sérstaka starfslokasamninga.

Aðalatriðið er að svo horfir nú að hagsmunir starfsfólksins, sem hefur verið að sinna þessum störfum, eru tryggðir með þessu máli hvernig sem hlutum verður skipað til lengri tíma. En í heildina verða flugmál á Íslandi áfram í deiglunni á þinginu og mikilvægt að vel takist til með að móta fluginu á Íslandi nýja framtíð. Ég tek undir með þeim sem geta séð það fyrir sér að þessu máli verði þokað áfram, ýmist í þann farveg sem utanríkisráðherra hefur sjálfur séð fyrir sér að geti orðið með rekstur flugstöðvarinnar eða á annan hátt sem væri þá hugsanlega meira í ætt við frumvörpin sem ég hef vísað til. Þannig mætti til að mynda sjá fyrir sér að rekstur flugvallarins færi inn í það hlutafélag sem stofnað er með öðru frumvarpinu.



[15:07]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að ekki ætti að stökkva til og fara í samningsgerð vegna starfsmanna. Ég er ósammála því og þess vegna stend ég hér upp. Umræddir starfsmenn hafa lengi búið við óvissu. Þeir hafa búið við óvissu síðustu tvö til þrjú ár. Henni verður að létta hver sem niðurstaðan verður. Það er mjög óþægilegt að búa við þetta. Í allmörg ár hafa verið uppi áform um að herinn fari, það vitum við öll. Ég verð því miður að segja að það er fremur almenn regla, regla frekar en undantekning, að starfsmenn gleymist við aðstæður af því tagi og það er óþægilegt að vera í slíkri stöðu. Satt best að segja treysti ég hæstv. utanríkisráðherra til að sjá til þess eins fljótt og unnt er að þessari óvissu verði aflétt hver svo sem niðurstaðan kann að verða. Það er meira að segja betra að fá vond tíðindi strax en bíða lengi eftir þeim.



[15:08]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að þessu frumvarpi er sérstaklega teflt fram á þinginu til að eyða þeirri óvissu sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni. Síðan fer þetta mál til utanríkismálanefndar og þar verða hlutirnir eflaust skoðaðir enn frekar.

Mér þykir það ekki neitt sérstaklega dýr pólitík þegar menn stíga í tilefni af þessu frumvarpi fram og lýsa sig reiðubúna til að mæla fyrir einstaklega góðum starfslokasamningum til þeirra sem ekki fái framtíðarstarf á vellinum (Gripið fram í: Hver gerði það?) eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson gerði í sinni ræðu hér í dag. Ég var sérstaklega að vísa til þess. Mér þykir ekkert tilefni til slíks málflutnings og vil ítreka að það er ekkert í aðgerðum stjórnvalda í dag sem gefur annað til kynna en að menn séu einmitt sérstaklega að huga að málefnum starfsmannanna. Ef sú staða kemur upp í framtíðinni að hátt hlutfall eða mikill fjöldi starfsmanna, sem nú býr við örugg starfskjör á vellinum, muni ekki geta gengið að störfum sínum vísum til framtíðar geta menn gengið út frá því að gripið verði til aðgerða. En nú er ekki tími til að fara að lofa háum starfslokasamningum.



[15:09]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað væri sómi að því, hv. þingmaður, að gera einstaklega góða samninga, einfaldlega vegna þess að þeir starfsmenn sem í hlut eiga eru einstaklega góðir. Þeir hafa reynst einstaklega vel. Ég veit ekki betur en slökkviliðsstarfsmenn á flugvellinum séu margverðlaunaðir fyrir störf sín þar þannig að ég sé ekkert að því að hafa orð á því að gerðir séu einstaklega góðir samningar.

En aðalerindi mitt hingað í ræðustólinn var að endir yrði bundinn á óvissuna og ekki yrði endilega farið vegna þessarar óvissu, vegna þessarar stöðu, eftir þröngum ákvæðum laga. Ef fara á eftir þröngum ákvæðum laga um starfslok þá á bara að segja starfsmönnum það strax en ef gera á eitthvað annað þá á líka að segja það strax.



[15:10]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu leggja áherslu á að nú er ekki tíminn til að skera úr um það hvort ástæða sé til að grípa til sérstakra aðgerða af þessu tagi. Ég skil heldur ekki þau stjórnmál sem ganga út á það að mismuna starfsmönnum í stöðu af þessu tagi. Það er í raun og veru verið að leggja það til með því að nefna að til að mynda starfsmenn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli séu svo einstaklega góðir starfsmenn í þágu þjóðarinnar umfram aðra. Það verður ekki skilið öðruvísi en að við þurfum þá að gera sérstaklega góðan starfslokasamning. Ég skil ekki þessa pólitík, ég skil ekki þessa umræðu og ég er að reyna að koma því að að hún er alls ekki tímabær og þess utan efnislega fáránleg.



[15:12]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að brugðist sé við þeim tíðindum sem orðið hafa, að bandaríski herinn er að fara af landi brott á þessu ári og íslensk stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að endurskipuleggja fyrirkomulag og verkefni á Keflavíkurflugvelli í því ljósi. Þess vegna er ekki óeðlilegt að hæstv. ráðherra komi fram með frumvarp um viðbrögð til að greiða úr því máli. Þó verð ég að segja að ég hefði kosið að fá að sjá frumvarpið og fjalla um það áður en það var lagt fram á þingi sem stjórnarfrumvarp. Mér finnst óvenjulegt að hraðinn þurfi að vera svo mikill að ekki gefist ráðrúm til að kynna mál fyrir þingmönnum stjórnarliðsins og vænti þess að um undantekningu sé að ræða en ekki nýja reglu.

Í þessu máli velti ég fyrst og fremst fyrir mér skipulaginu sem lagt er til að tekið verði upp í ljósi annarra stjórnarfrumvarpa um Flugmálastjórn Íslands og stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands. Eftir því sem ég get best áttað mig á mun meiningin vera, ef við skoðum þessi þrjú frumvörp saman, að til verði Flugmálastjórn Íslands, sem verði stofnun, en síðan verði til sérstakt hlutafélag sem annist rekstur og flugleiðsöguþjónustu á flugvöllum í innanlandsflugi. Í þriðja lagi yrði svo til stofnun sem héti Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem annaðist stjórn, rekstur og uppbyggingu vallarins. Ég velti því fyrir mér hver stefnan er sem mörkuð er með þessum frumvörpum.

Hæstv. utanríkisráðherra gat þess í framsöguræðu sinni að þetta frumvarp sem hann leggur fram væri fyrstu viðbrögð við því ástandi sem komið er upp. En ég velti fyrir mér hvað verði næsta skref. Fari svo að hin frumvörpin tvö verði afgreidd á Alþingi, felur afgreiðsla þeirra þá í sér að meiningin sé að Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar verði sérstök stofnun, þannig að einn flugvöllur landsins verði tekinn út úr skipulaginu og um hann stofnuð sérstök stofnun en allir aðrir flugvellir landsins verði í eigu hlutafélags og rekstur þeirra í höndum þeirra sem stjórna hlutafélaginu? Ef það er hugmyndin þá er eðlilegt að velta fyrir sér hvernig menn ætla sér að láta hlutina þróast til lengri tíma.

Ég tek eftir því að hið nýja hlutafélag á að geta eignast hluti í öðrum félögum og fyrirtækjum, jafnvel í óskyldum rekstri. Mun þá hlutafélagið um rekstur flugvallanna og flugleiðsöguþjónustuna síðar meir geta eignast og yfirtekið stofnunina Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar? Ef til vill þarf að flytja sérstakt frumvarp um að breyta þeirri stofnun í hlutafélag en í sjálfu sér væri eðlilegt að ætla, út frá stefnumörkuninni í hinum frumvörpunum tveimur, að það verði gert. Erum við þá að renna inn í þá framtíð að Keflavíkurflugvöllur verði hluti innan hlutafélags um flugvallarrekstur og flugleiðsöguþjónustu eða er meiningin að hafa millilandaflugvöllinn sér og innanlandsflugvellina sér? Það gæti út af fyrir sig verið stefnumörkun sem ástæða er til að skoða en ég spyr mig, og reyndar einnig flutningsmann málsins, um stefnuna í þessu máli, m.a. vegna þess að ég hef efasemdir um að gera sérstakt hlutafélag um rekstur innanlandsflugvalla, eins og boðað hefur verið með frumvarpinu, og fela því hlutafélagi uppbyggingu vallanna. Jafnvel þótt hlutafélagið eigi ekki að eiga brautirnar eða fasteignir mun það geta annast uppbyggingu vallanna og væntanlega mun það eiga þá uppbyggingu, hvort sem það eru flugbrautir eða fasteignir.

Ég minni á það sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra í umræðu um utanríkismál. Hann gat séð fyrir sér að einkavæða Keflavíkurflugvöll og selja brautirnar. Mér sýnist að menn gætu stefnt þangað eftir þessum frumvörpum sem lögð hafa verið fram, jafnvel þótt það yrði ekki í einum áfanga væru menn búnir að leggja kjölinn að stefnu sem leiddi menn til þess. Ég hef efasemdir, virðulegi forseti, um að leggja af stað í leiðangur þar sem stefnt er að því að einkavæða flugvellina. Það má hugsa sér að einkavæða rekstur þeirra að einhverju marki en ég á erfitt með að finna rök fyrir því að einkavæða eignirnar sjálfar og fela þær í hendur einhverra aðila, jafnvel þótt handhafar eða fulltrúar ríkisvaldsins færu fyrst um sinn með eignarhluta í því hlutafélagi, hvort sem það er eitt eða fleiri. Það hlýtur að leiða af sjálfu sér að meiningin er að selja þau hlutabréf en ekki að búa til hlutabréf sem ekki á að selja, það er mótsögn í sjálfu sér.

Ég vildi gjarnan fá skýrari línur frá hæstv. utanríkisráðherra um framtíðarsýn hans um stofnunina Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Ég tók eftir því að ráðherrann gat þess að hann sæi fyrir sér, sem mér finnst út af fyrir sig eðlilegt af hans hálfu, að þessi stofnun færðist undir samgönguráðuneytið þar sem starfsemin sem færi fram á flugvellinum væri fyrst og fremst borgaraleg. Ef það gerist þá hljóta menn í samgönguráðuneytinu að ætla sér að færa þessa stofnun, Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, undir það skipulag sem stjórnarfrumvörpin tvö draga upp, sem hafa verið lögð fram, rædd á þinginu og verið til meðferðar í samgöngunefnd. Þá erum við komin að því að sjá fyrir okkur að menn felli Keflavíkurflugvöll undir hlutafélag.

Ég held að það sé ástæða til að við skýrum aðeins framtíðarsýnina í þessum efnum. Ég vil taka skýrt fram að ég get fallist á að sjálfstæð stofnun reki Keflavíkurflugvöll. Ég hef engar athugasemdir við það og ég get út af fyrir sig líka tekið undir að sama stofnun væri með alla flugvellina. En ég hef miklar efasemdir og fyrirvara við að breyta þessu yfir í hlutafélag. Þar liggja efasemdir mínar og fyrirvarar um framtíðarstefnu í þessum efnum.

Mig langar líka að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um gjöldin í 3. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að tekjur af lendingargjöldum renni til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Sama gildir um öryggisgjald. Ég hef ekki haft ráðrúm til að fara í gegnum nauðsynleg lagaákvæði til að átta mig á þessu vegna þess að ég vissi ekki af þessu máli fyrr en í gær. Ég sá í dagblöðum að það væri komið fram. En er reyndin sú að þeim tekjum sem hingað til hafa verið innheimtar í lendingargjöld af Keflavíkurflugvelli hafi einvörðungu verið ráðstafað þar? Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta sé í samræmi við þá skipan mála sem tíðkast hefur. Það má skilja þannig að allar tekjur af lendingargjöldum á Keflavíkurflugvelli hafi runnið til Keflavíkurflugvallar. Ég hef hins vegar ekki áttað mig á því, hvorki í lögum um loftferðir né samgönguáætlun, hvort það sé svo. Þar er aðeins talað um flugvallargjald og afgreiðslugjald. Þau gjöld renna til Flugmálastjórnar og er síðan ráðstafað samkvæmt áætlun, óháð því á hvaða stöðum þau eru innheimt.

Vera kann að um það gildi einhver lög sem ég hef ekki haft tök á að kynna mér, sem skýra þetta. En mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra þetta betur þannig að það sé ótvírætt, sem má skilja af frumvarpinu, að lendingargjöldin á Keflavíkurflugvelli hafi hingað til eingöngu verið nýtt þar. Ef hitt væri staðreyndin, sem ég set spurningarmerki við og er ástæðan fyrir því að ég spyr, þá væri kominn upp vandi vegna þess að þá værum við að ráðstafa tekjum til Keflavíkurflugvallar sem menn hefðu í samgönguáætlun ráðstafað á aðra flugvelli. Ef við tækjum þær tekjur í burt þá settum við tekjuöflun framkvæmda á þeim flugvöllum í uppnám. Það verður því að vera alveg skýrt að svo sé ekki.

Síðan var rætt aðeins um Reykjavíkurflugvöll. Mig langar að leggja nokkur orð inn í þá umræðu. Satt að segja hefur umræðan um Reykjavíkurflugvöll, flugvöllinn í Vatnsmýrinni, verið með slíkum endemum undanfarin ár að það er fátítt að upplifa pólitíska umræðu um stefnu í mikilvægu máli sem rekin er með svo óljósum forsendum og litlum upplýsingum sem raun ber vitni. Umræðan um að fara með Reykjavíkurflugvöll til Keflavíkur var þessu marki brennd en breyttist til verulegra bóta þegar ýmsir hagsmunaaðilar tóku við sér og blönduðu sér í opinbera umræðu um málið, svo sem flugmenn, læknar og sveitarstjórnarmenn af landsbyggðinni, og drógu fram þau rök sem eru fyrir því að hafa flugvöll í Reykjavík við sjúkrahúsið, í ljósi sjúkraflugs og annarra þarfa þeirra sem búa úti á landi. Eftir það breyttist umræðan. Nú fyrir borgarstjórnarkosningarnar, í þessum mánuði, er enginn flokkur sem boðar það að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni til Keflavíkur. Enginn. Og það er mikil bót í umræðunni að menn skuli fallnir frá þeim hugmyndum að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Það sýnir að það hefur skilað árangri að koma með rök og upplýsingarnar inn í umræðuna.

Nú er aðeins tekist á um hvort flytja eigi flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og eitthvert annað innan höfuðborgarinnar eða í nágrenni hennar. Það er miklu heilbrigðari umræða heldur en hin fyrri, sem beinlínis gekk út á að gengið skyldi á mikilvæga hagsmuni fólks sem býr utan höfuðborgarsvæðisins. Mér finnst reyndar, ef við ræðum það mál, meiri rök fyrir því að flytja millilandaflugið frá Keflavík til Reykjavíkur en að flytja innanlandsflugið frá Reykjavík til Keflavíkur. Ég hef svo sem ekki kynnt mér hvort það væri mögulegt en Reykjavík er varaflugvöllur þannig að a.m.k. er hægt að vera með millilandaflug á honum. En það væri þá a.m.k. skynsamlegri ráðstöfun vegna þess að sá fjöldi sem lendir í Keflavík er fyrst og fremst að ferðast til Reykjavíkur. Við mundum stytta ferðatíma þess mikla fjölda, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna. Það væri hagkvæmt ef á annað borð væri mögulegt að hafa millilandaflugið hér, sem ég veit ekkert um og ætla svo sem ekki að leggja til neinar breytingar á núverandi fyrirkomulagi.

Ég segi einfaldlega: Ef menn ætla að breyta þessu frá því að hafa millilandaflugið í Keflavík og innanlandsflugið í Reykjavík þá eru meiri rök fyrir því að skoða hvort flytja eigi millilandaflugið til höfuðborgarinnar en að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Það er augljóst mál og það sjá allir sanngjarnir menn þegar þeir hugsa smástund um málið.

Ég spái því að umræðunni um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar ljúki fyrir kosningar núna með þeirri niðurstöðu að völlurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, hugsanlega með einhverjum breytingum, menn breyti legu flugbrauta eða eitthvað slíkt, og skapi þannig pláss fyrir uppbyggingu sem óskað er eftir, ef það er mögulegt. Menn eiga eftir að skoða það. Ég spái því að það verði niðurstaðan, hugsanlega einhverjar tilfærslur á brautum en meginniðurstaðan verði sú að völlurinn verður áfram í Vatnsmýrinni, enda er það eina skynsamlega niðurstaðan.

Hólmsheiði held ég að sé slæmur kostur. Ég ætla svo sem ekki að fara út í það frekar en um Löngusker má segja að ef Lönguskerjaflugvöllur væri kostur þá dæmdi sá kostur flugvöllinn úr leik. Ef það er hægt að vera með flugvöll á Lönguskerjum þá er hægt að vera þar með íbúðabyggð. Væntanlega væri miklu meira upp úr því að hafa að byggja íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði á þeim skerjum heldur en flugbrautir. Sá fjárhagslegi ávinningur mun einfaldlega reka flugvöllinn af Lönguskerjunum eitthvað enn þá lengra. Þannig sé ég þetta mál fyrir mér, að völlurinn verði einfaldlega í megindráttum þar sem hann er. Ég held að það væri líka langbesta niðurstaðan, virðulegi forseti.



[15:27]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér verða enn og aftur mikil tíðindi í umræðunni um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Annar hv. þingmaður Framsóknarflokksins kemur hingað í ræðustól og lýsir yfir efasemdum um að rétt sé að fara með flugvöllinn út á Löngusker en bætir um betur og tekur undir með okkur í Frjálslynda flokknum varðandi það að eina raunhæfa framtíðarstaðsetning flugvallarins sé að hafa hann áfram í Vatnsmýri.

Ég hlýt að sjálfsögðu að fagna þessu mjög. Ég hygg að við gerum það öll, sem teljum okkur vera vini Reykjavíkurflugvallar og höfum barist fyrir því og viljum að hann verði áfram þar sem hann er. Það sjá allir réttsýnir menn og konur að það þjónar bæði hagsmunum þjóðarinnar í heild sinni, hagsmunum landsbyggðarinnar og hagsmunum Reykjavíkur að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri. Ég mundi vilja nota þetta tækifæri hér og nú, virðulegi forseti, til að hvetja fólk til að láta af þessari vitlausu umræðu og taka undir með okkur í Frjálslynda flokknum um að þetta sé eina skynsamlega leiðin að fara inn í framtíðina, þ.e. hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er.

Hins vegar vildi ég, virðulegi forseti, spyrja hv. þm. Kristin H. Gunnarsson um hver sé skoðun hans á því að flugvallarstæðið verði flutt út á rauðmagamiðin í Skerjafirði, hvort hann telji það tæknilega mögulegt og hvort hann sé sammála því helsta stefnumáli exbé-framboðsins í Reykjavík að ná megi þjóðarsátt um málið með því að Reykjavíkurflugvöllur verði í framtíðinni settur niður á Lönguskerjum.



[15:29]
Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé örugglega tæknilega mögulegt að gera flugvöll á Lönguskerjum. Ég er í engum vafa um að menn ráða við að leysa það verkefni. Hins vegar er augljóslega miklu dýrara að gera flugvöll í sjó heldur en flugvöll á landi. Það segir sig sjálft. Menn þurfa að leggja út í kostnað við uppfyllingu, brimvörn og annað slíkt. Það er augljóst að kostnaður við gerð flugvallar á Lönguskerjum verður miklu meiri en sambærilegs mannvirkis á landi. Þess vegna held ég að Vatnsmýrin hafi alltaf yfirburði yfir nýjan flugvöll sem yrði úti á sjó.

Ég hef aðeins rýnt í tölur um mögulegar stærðir í þessum efnum. Mér sýnist að þetta gætu verið a.m.k. 10 millj. rúmmetra af fyllingu sem þyrfti, fyrir utan brimvörnina. Menn hafa nefnt jarðgöng í gegnum Öskjuhlíðina og að efni úr henni gæti nýst í þessa miklu landfyllingu sem þyrfti að vera. (Gripið fram í.) Það er brot af því sem þarf. Það sem kæmi út úr göngum í Öskjuhlíðinni væri hugsanlega 1%, jafnvel innan við 1% af því sem þyrfti að fylla upp í á Lönguskerjum. Það hefur þannig enga þýðingu upp á það mál.



[15:31]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn á ný fáum við staðfestingu á því frá þingmönnum Framsóknarflokksins hversu arfavitlaus hugmynd það er að setja upp nýjan innanlandsflugvöll á Lönguskerjum í Skerjafirði. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór ágætlega yfir þetta í máli sínu. Hann er þingmaður Framsóknarflokksins sem er sá flokkur sem exbé-framboðið í Reykjavíkurborg kennir sig við. Hann er, ef ég man rétt, fyrrverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Ég heyri ekki betur en hann sé alfarið andvígur því að innanlandsflugið verði flutt út á Löngusker.

Hér talaði áðan hv. núverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Hjálmar Árnason, og hann lýsti líka mjög alvarlegum efasemdum um það að Lönguskerin væru kostur til framtíðar. Ég hygg að ansi lítil sannfæring sé fyrir hendi hjá Framsóknarflokknum þegar grannt er skoðað fyrir því að hægt sé að ná einhverri þjóðarsátt um það að fara með innanlandsflugið á Íslandi út í sjó, það sé í raun og veru ansi lítil sannfæring fyrir því. Þessar fyrirætlanir allar séu í raun og veru byggðar á sandi, það sé ansi lítið á bak við fallegt myndband sem dunið hefur á landsmönnum undanfarna daga sem sýnir hvernig hægt er að bora gat í Öskjuhlíðina og nota efnið úr henni til að byggja upp flugvöll á Lönguskerjum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem ég veit að er góður stærðfræðingur, var fljótur að reikna það út í huganum að efnið úr þeirri músarholu dygði skammt þegar kæmi að því að moka efni í hafið í næsta nágrenni við bóndann á Bessastöðum, hæstv. forseta lýðveldisins, það mundi duga skammt.

Ég segi það enn og aftur að þessi hugmynd um flugvöll á Lönguskerjum er gersamlega fráleit, virðulegi forseti.



[15:33]Útbýting:

[15:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu og notaði aðeins helming af ræðutíma mínum í fyrri ræðu en nú hafa veður skipast þannig í lofti að einir þrír stjórnarþingmenn hafa lagt ákaflega athyglisvert innlegg inn í þessa umræðu. Ber þar hæst framlag hv. þm. Hjálmars Árnasonar, formanns þingflokks Framsóknarflokksins, og í kjölfar hans flokksbróður hans, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar.

Þegar hv. þm. Hjálmar Árnason lauk máli sínu var ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti að biðja um orðið um fundarstjórn forseta og biðja forseta að úrskurða hvor okkar hefði misskilið þetta mál, ég eða hv. þm. Hjálmar Árnason, þ.e. hvort þetta frumvarp væri um Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurflugvöll. Það virtist ekki vera alveg á hreinu þegar hv. þm. Hjálmar Árnason var að tala. En þeir hafa heldur betur tekið hér rispuna, hv. þingmenn Hjálmar Árnason og Kristinn H. Gunnarsson, og slátrað, leyfi ég mér að segja á mannamáli, endanlega hugmynd framsóknarmanna í Reykjavík, exbé, — það má víst ekki nota orðið Framsóknarflokkur í því samhengi — slátrað hugmynd exbé um flugvöll á Lönguskerjum. Sú langavitleysa er dauð eftir þennan dag og sorglegt til þess að vita að allir þeir fjármunir sem exbé hefur eytt í fokdýrar sjónvarpsauglýsingar eru þá glataðir með kistulagningu þessarar hugmyndar.

Hv. þm. Hjálmar Árnason ræddi mikið um það að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson útlistaði hversu arfavitlaus og í raun og veru sjálfdauð hugmyndin um flugvöll úti í miðjum Skerjafirði væri vegna þess að ef hagkvæmt væri að fylla þar upp í hálfan flóann með landfyllingu og grjótverja hana hlyti að vera enn hagkvæmara að byggja þar íbúðarhús heldur en flugvöll. Það má til sanns vegar færa. En ég vil bara biðja menn að hugleiða þó ekki væri nema eitt í því sambandi öllu saman og það eru gróðurhúsaáhrifin og hækkandi sjávarborð sem ískyggilegar spár standa nú til að verði á næstu áratugum. Þeir þurfa þá að bæta eitthvað ofan á garðana, exbé-mennirnir, ef svo fer sem horfir að sjávarborð hækki um sentímetra og jafnvel tugi sentímetra á ótrúlega skömmum tíma ef verstu spár um bráðnun jökla ganga eftir.

Í öðru lagi ræddi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson um fullgilt mál sem er spurningin um rekstrarfyrirkomulag starfseminnar í Keflavík vegna ummæla hæstv. utanríkisráðherra auðvitað. Ég hlýt að láta það eftir mér, úr því að stjórnarliðar taka það upp, að nefna það í eins og einni eða tveimur setningum að hæstv. utanríkisráðherra hefur varpað þeirri sprengju inn í þessa umræðu að hann sjái fyrir sér einkavæðingu á þessu mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar. Það skal vera alveg á hreinu af okkar hálfu að í því að stuðla að afgreiðslu þessa máls, fyrst og fremst vegna starfsmannanna sem í hlut eiga, er ekki fólginn stuðningur, nema síður sé, við einhverja óra hæstv. utanríkisráðherra um að einkavæða millilandaflugvöllinn og reksturinn þar. Slíkt væri glapræði og fáránlegt að þjóðin afsalaði sér eignarhaldi og rekstri á sínu mikilvægasta samgöngutæki sem millilandasamgöngurnar eru en eins og kunnugt er fara um 95–98%, ef ég man rétt, af allri millilandaumferð um þennan flugvöll.

Það er út af fyrir sig líka á sínum stað að skoða þau mál sem hv. þingmaður nefndi um innheimtu á lendingargjöldum og öðru slíku og nú skal ég ekki segja hvernig þetta hefur nákvæmlega verið allra síðustu árin. Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki alveg inni í því, eða hef ekki kynnt mér það, en svo mikið man ég að þegar flugmálaáætlun var sett á sínum tíma og lengi eftir það runnu miklir fjármunir af lendingargjöldum í Keflavík til uppbyggingar flugvalla annars staðar á landinu, það er alveg ljóst og á í sjálfu sér ekki að vera neitt feimnismál. Menn vissu alveg hvað þeir voru að gera þar enda var þá gríðarleg þörf fyrir uppbyggingu flugvalla vítt og breitt um landið og það undarlega fyrirkomulag við lýði, sem auðvitað er búið að vera stórundarlegt, að Íslendingar fengu rekstur þessa mikla millilandaflugvallar síns ókeypis, gratís, og höfðu af honum öll afnot en hirtu hins vegar tekjurnar og ráðstöfuðu þeim annað. Auðvitað gat það aldrei endað öðruvísi en þannig að menn yrðu að láta þetta stemma saman. Það góða við málið er það að þó að þarna sé um 1.400 millj. kr. rekstur að færast á íslenskan ríkisreikning þá eru miklar og vaxandi tekjur á móti. Það vantar ekki mikið upp á að þessi starfsemi verði sjálfbær og að því ber að stefna. Ef spár bresku spástofnunarinnar sem gerði úttekt á þessu — ég man ekki nákvæmlega hvað hún heitir, en ég las og skoðaði þær spár núna fyrir nokkrum mánuðum — ganga eftir um allt upp í þriggja milljóna farþega umferð um Keflavíkurflugvöll innan ótrúlega skamms tíma og tilheyrandi tekjuvöxt, þá væntanlega í lendingar- og þjónustugjöldum, munu miklir fjármunir koma í kassann. Við þurfum því ekki að vorkenna okkur, Íslendingar, þó ekki væri, að taka þennan rekstur á okkar herðar.

Að síðustu, frú forseti, vegna þess sem hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi hér í orðaskiptum við hv. þm. Atla Gíslasonar um málefni starfsmanna. Ég vil leggja áherslu á að kjarasamningar og lögvarin réttindi starfsmanna eru eðli málsins samkvæmt lágmarksréttindi. Það er strípaður botninn. Og það er alsiða að gera betur við menn ef aðstæður mæla sérstaklega með því. Það er bókstaflega ekkert sem hindrar stjórnvöld í því að ræða við starfsmenn sem þarna eiga í hlut og ganga með einhverjum sérstökum hætti frá málum við þá, og það er alsiða. Það stendur ekkert í vegi fyrir ríkisstjórninni og ráðherrunum að gera betur en lögvarin lágmarkslaun kveða á um við toppana þegar þeir eiga í hlut. Þá er hægt að gera myndarlega starfslokasamninga eða hvað, hv. þm. Bjarni Benediktsson? Auðvitað mælir ýmislegt með því að þarna kunni að vera rétt og sanngjarnt að taka sérstaklega á málum vegna þeirrar óvissu sem menn hafa búið við, vegna þess að um sérhæfð störf er að ræða og þarna eiga margir starfsmenn í hlut sem hafa unnið áratugum saman hjá sama vinnuveitandanum við sömu störfin og eiga kannski ekki hægt um vik nokkrum árum fyrir venjulegan starfslokaaldur að breyta þar til ef þeir fá ekki endurráðningu — og ég legg áherslu á þetta.

Skilningur Sjálfstæðisflokksins á jafnræðisreglu í stjórnsýslu er orðinn undarlegur ef menn leggja alltaf þann skilning í hana að allt skuli jafna niður á botninn. Er það sem sagt orðin viðtekin skýringarvenja hjá Sjálfstæðisflokknum þegar jafnræðisreglur eiga í hlut þegar hitt er jafnljóst að hér er um lágmarksréttindi að ræða. Kjarasamningar, eins og lög reyndar binda á Íslandi, eru eðli málsins samkvæmt lágmarksréttindi. Það er bannað að gera verr við menn en það er ekki bannað að gera betur og er iðulega gert. Þegar réttir aðilar eiga í hlut hefur ekki staðið á hinum feitu starfslokasamningum. Þótt ég ætli ekki að fara að gera orð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, hv. 9. þm. Suðurk., að mínum — hann ber ábyrgð á því sem hann lagði til umræðunnar — vil ég að gefnu tilefni gera þessar athugasemdir um þessa hlið mála og endurtek kröfu okkar um að gengið verði í að ræða við starfsmenn, það verði gert af sanngirni.

Að lokum ítreka ég spurningu mína til hæstv. utanríkisráðherra, sem ég veit að hann hefur skrifað hjá sér og mun bregðast við í lokin: Þarf að orða þetta svona í upphafi 1. málsliðar ákvæðis til bráðabirgða: „Eftir því sem við verður komið …“? Af hverju er ekki hægt að hafa þetta einfalt, eins og t.d. lögin um aðilaskipti að fyrirtækjum gera skylt? Þegar um það er að ræða, samanber evrópskar reglur þar um, eru mönnum tryggð óbreytt kjör og óbreytt réttindi og störf af hálfu hins nýja aðila. Það er lögvarið að hinn nýi vinnuveitandi, sem yfirtekur fyrirtækið, skal virða allar skyldur fyrri eiganda þess. Það má að mörgu leyti líta á þetta sem hliðstæðu eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti mér á áðan þó það sé sennilega ekki svo að lögum að þetta falli undir lögin um aðilaskipti. En efnislega og út frá sanngirnisástæðum má vel líta svo á og þá væri langeinfaldast að orða þetta í upphafi ákvæðis til bráðabirgða á þann veg að öllu því starfsfólki sem þess óskar skuli bjóða endurráðningu.



[15:44]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hef lagt áherslu á í mínu máli varðandi starfsmennina er sú staða sem við erum í í dag. Hún gefur ekkert tilefni til þess að menn fari að sletta fram loforðum um stóra starfslokasamninga þegar upp er staðið og í ljós kemur hvernig fer með framtíð þeirra starfsmanna sem þarna eru. Verkefnið er að færa þá frá varnarliðinu yfir til íslenskra stjórnvalda og reyna að búa þannig um hnútana að allir fái starf við hæfi, að þeir sem þarna starfa í dag geti starfað áfram við völlinn, og koma á nýju skipulagi á vallarsvæðinu sem getur gilt til framtíðar. Þegar þessu öllu er lokið kemur í ljós hver staða þeirra starfsmanna sem eru þarna í dag er. Komi þá í ljós að einhverjir starfsmenn sem starfa á vellinum fá þar ekki starf til frambúðar getur þá ekki verið, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að það kunni að vera verðmætara fyrir þá að gripið verði til aðgerða sem tryggja þeim annað framtíðarstarf frekar en að vera núna að lofa einhverjum feitum starfslokagreiðslum? Mér finnst þetta algerlega ótímabær umræða og hún á ekkert erindi vegna þess frumvarps sem hér liggur fyrir á þinginu. Mér finnst það líka ósanngjarnt í ljósi þess hvernig stjórnvöld hafa talað vegna þeirrar óvissu sem starfsmenn á vellinum hafa búið við. Stjórnvöld hafa talað algerlega tæpitungulaust um það að sérstaklega verði horft til hagsmuna starfsmanna og allt gert í hvívetna til að tryggja stöðu þeirra til framtíðar. Það er engin ástæða til að efast um vilja stjórnvalda til að huga að þeirra málum. Í dag er hins vegar ekki tíminn til að fara að lofa stórum starfslokasamningum.



[15:46]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það er nú það, frú forseti, er ekki ástæða til að efast? Hræða ekki sporin, framganga stjórnvalda, þeirra hinna sömu sem hér er við að eiga, á undanförnum missirum í mörgum tilvikum? Er það ekki staðreynd að tekinn hefur verið réttur af mönnum einmitt við breytingar á ríkisfyrirtækjum í hlutafélög? Svo vísa menn í þá skerðingu þegar þeir halda áfram og taka til við að breyta næstu stofnun, eins og útvarpinu, rafmagnsveitunum eða hvað það nú er. Þá er bara vísað til þess sem gert var þegar Síminn var tekinn.

Varðandi það að stjórnvöld hafi talað tæpitungulaust og komið svo vel fram og staðið svo vel að því hingað til sem varðar Keflavíkurflugvöll, þá má nú efast um það. Er það ekki staðreynd að þarna hafa hundruð manna gengið með uppsagnarbréfið upp á vasann undanfarnar vikur og mánuði án þess að við þá hafi verið talað? Síðast í gærkvöldi fékk ég tölvupóst frá forsvarsmanni eins hópsins þar sem hann kvartaði einmitt undan því að þeir væru óánægðir með að vita ekkert um sín mál og hafa beðið í óvissunni allan þennan tíma. Er sú frammistaða til fyrirmyndar að koma ekki saman starfshópnum með heimamönnum svo vikum skiptir? Það er ekki beinlínis til að undirbyggja þá lýsingu á frammistöðu stjórnvalda sem hv. þm. Bjarni Benediktsson var að tala um. Sanngjörn starfslokakjör eiga auðvitað að vera inni í myndinni sem úrræði eins og önnur við þessar aðstæður. Það er eðli málsins samkvæmt bæði rétt og skylt. Þess vegna er eðlilegt að menn taki því ekkert endilega vel þegar hv. þingmaður leggur lykkju á leið sína til að mótmæla því að það sé rætt. Jafnvel þó að honum kunni að þykja orðalagið sem þar er notað af hálfu einstakra þingmanna ekki endilega það rétta, þá er alveg fráleitt annað en að ræða megi þann kost og þann möguleika gagnvart þeim sem það kjósa að þeim standi þá til boða sanngjörn starfslokakjör og það kemur væntanlega til með að eiga við í einhverjum tilvikum að menn teldu sér slíkt hagstæðast.



[15:48]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið að mörgu leyti gagnleg og kemur í ljós að í grófum dráttum eru þeir sem tekið hafa til máls sammála því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Jafnframt liggur fyrir sá skilningur, hygg ég, hjá öllum þingmönnum að þetta frumvarp sé lagt fram til að tryggja starfsöryggi þeirra manna sem unnið hafa hjá bandaríska hernum. Það er kjarni málsins. Það er af þeim sökum, hygg ég, sem við munum gera tilraun til að afgreiða þetta frumvarp nú á þessum degi. Mér þykir rétt að þetta komi fram nú við lok þessarar umræðu.

Hér hefur verið drepið á ýmis önnur mál sem varða þetta mál ekki neitt, eins og framtíð Reykjavíkurflugvallar, spurning um hvort íbúðabyggð rísi á Lönguskerjum og þar fram eftir götunum. Að síðustu hafa þessar umræður snúist nokkuð um starfslokasamninga sem ég er sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að ekki sé tímabært að ræða í þessu samhengi.

Ég vil á hinn bóginn minna á að það eru menn á ýmsum öðrum stöðum sem hafa misst atvinnu sína án þess að hlaupið hafi verið upp til handa og fóta og beðið um starfslokasamninga. Ég get minnst á Kísilgúrverksmiðjuna í Mývatnssveit. Ríkið var stór þátttakandi að þeim rekstri. Sú verksmiðja starfaði í miklu óöryggi svo áratugum skipti. Það voru ákveðin öfl sem vildu leggja þá verksmiðju niður en ég minnist þess ekki, og mér þykir rétt að rifja það upp hér, að neinn þeirra sem lagði það til hafi sérstaklega beitt sér fyrir því að starfslokasamningar yrðu gerðir við það verkafólk sem þar missti atvinnu sína.



[15:51]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Enn heyrir maður þá kenningu, sem ég las út úr orðum hv. þm. Halldórs Blöndals, að svo skuli böl bæta að benda á annað verra. Um það snýst ekki eðlilegur, skynsamlegur málflutningur. Ég hef að vísu heyrt þessa lögskýringu áður í menntamálanefnd, skýringu á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er skýrt þannig í frumvarpi um Ríkisútvarpið hf. að það eigi að skerða starfsmenn þeirra með sama hætti og skert var hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Matvælastofnun. Lögskýringin á jafnræðisreglunni, hin nýja, sem ég hef reyndar aldrei heyrt áður, er sú að allir eigi að hafa það jafnskítt. Ef einn hefur það skítt verði að jafna það þannig að allir séu í sama skítnum.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gæta orða sinna hér.)



[15:52]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað og endurtaka þakkir mínar til þeirra sem greitt hafa fyrir því að þetta mál komst á dagskrá þessa fundar í dag og náðst hefur samkomulag um að reyna að afgreiða málið í dag. Hér hafa auðvitað vaknað ýmsar spurningar og sumar þess eðlis að ég mun leiða þær hjá mér en öðrum mun ég reyna eftir föngum að svara.

Ég vil í upphafi máls mín fara aðeins yfir þetta mál aftur á svolítið almennum nótum. Frumvarpið sem hér hefur verið lagt fram er frumvarp um lágmarksráðstafanir sem þarf að gera til að tryggja flughæfni flugvallarins í Keflavík og starfsöryggi þeirra sem þar vinna við þau störf sem um er að tefla en ganga jafnframt úr skugga um að ekki skapist neitt ófremdarástand við það að einn rekstraraðili tekur við af öðrum varðandi ýmsa rekstrarþætti. Auðvitað hefði verið hægt að stíga stærra skref og gera þetta allt öðruvísi en meðan sú óvissa ríkir sem enn er við lýði varðandi samninga við Bandaríkjamenn töldum við heppilegast í ríkisstjórninni að stíga aðeins lágmarksskref. Eins og ég sagði fyrr í umræðunni útilokar þessi breyting ekki aðrar breytingar síðar meir hvað varðar rekstrarfyrirkomulag á vellinum. Þá koma til skoðunar í fyrsta lagi spurningar um hvar vista eigi þetta mál. Eins og ég sagði fyrr í dag og aðrir hafa tekið undir tel ég að þetta samgöngumannvirki eigi þegar til framtíðar horfir að heyra undir samgönguráðherra. Síðan er það annað mál með hvaða hætti tengt verður á milli starfseminnar á þessum flugvelli, sem vissulega hefur mikla sérstöðu, og annarrar flugvallarstarfsemi í landinu og yfirstjórnar Flugmálastjórnar Íslands. Ekki er tekin afstaða til þess í þessu frumvarpi.

Þeirri spurningu er haldið opinni hvort einhvern tíma seinna eigi að flytja stjórnina á öllum flugvöllum í landinu undir einn hatt. Kannski er það rétt, ég ef ekki myndað mér skoðun á því. En ég hef myndað mér þá skoðun, og fylgi því máli hér eftir, að til þess að snurðulaus yfirfærsla geti átt sér stað á næstu vikum og mánuðum varðandi núverandi rekstur á vellinum sé best að gera það með þeim hætti sem hér er lagt til og með því sé líka er best komið til móts við hagsmuni og sjónarmið starfsmanna sem þarna eiga hlut að máli. Frumvarpið er því ekki síst flutt núna til að eyða þeirri óvissu sem margir þingmenn hafa gert að umtalsefni og snertir fyrst og fremst þá starfsmenn sem unnið hafa hjá varnarliðinu við þá rekstrarþætti sem vikið er að í þessu máli.

Í framhaldinu geta menn svo velt því fyrir sér hvernig þeir vilja hafa þetta að formi til. Eitt er hvar menn vista málin, annað er hvaða form á að vera utan um reksturinn. Víða í nálægum löndum eru rekin hlutafélög um flugvelli og þykir ekkert athugavert við það. Í nálægum löndum reka ríkisstjórnirnar eða ríkisvaldið flugvelli sína í formi hlutafélaga. Það er bara spurning um form á rekstri og ætti auðvitað ekki að hafa neitt sérstakt með pólitík að gera heldur hvaða rekstrarform hentar best hverju sinni. Þannig er þetta t.d. gert í Noregi. Þar er hlutafélag um flugvellina og svo er annað sérstakt hlutafélag um stóra flugvöllinn þeirra, Gardermoen, sem er í eigu hins hlutafélagsins, ef ég skil það rétt. En þetta er önnur saga, þetta er mál sem menn geta rifist um í sölum þingsins við annað tækifæri ef um það er að tefla. Flugbrautirnar í Keflavík eru hins vegar ekki í eigu íslenska ríkisins, a.m.k. ekki enn sem komið er og ekki alfarið, heldur kemur þar líka til skjalanna Mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins. Við höfum lagt miklar upphæðir í það mál og auðvitað þarf að greiða úr öllu slíku. Þess vegna hef ég aldrei haldið því fram, eins og einn þingmaður lét getið hér áðan, að það ætti að einkavæða flugbrautirnar eða þau mannvirki. En nóg um þetta. Þetta er ekki það mál sem raunverulega þarf að afgreiða núna.

Hins vegar vildi ég láta þess getið í þessu sambandi, og taka undir með þeim sem það hafa sagt, að það er mikil nauðsyn á að reksturinn í heild á Keflavíkurflugvelli geti verið sjálfbær. Þá erum við auðvitað að tala um hlutafélagið sem rekur flugstöðina, sem er í rauninni fasteignafélag með verslunarrekstur en skilar hins vegar dágóðum tekjum og sá rekstur hefur gengið mjög vel eftir að hlutafélagið var stofnað árið 2000. Það er einn aðili að þessu máli. Ég held að við verðum að horfa á þennan rekstur í heild sinni, annars vegar stjórnsýsluna og flugvallarreksturinn sjálfan sem snertir brautirnar og þá þætti og hins vegar það sem kallað er óflugtengd, það er nú til eitthvað voða fínt orð yfir það, starfsemi á öllum flugvöllum sem eru þá fasteignirnar, verslunarreksturinn og þær tekjur sem þar skapast. Í heild sinni er eðlilegt að ætlast til þess að þetta sé sjálfbært, standi undir sér og ef vel gengur skili jafnvel einhverjum tekjum í ríkissjóð. Enn og aftur þá er þetta ekki mál dagsins varðandi þetta frumvarp en mér finnst ánægjulegt að þingmenn séu sammála mér hvað þetta varðar. Þetta gæti hins vegar þýtt að ríkissjóður hefði á næstunni minni tekjur af þessari flugvallarstarfsemi og flugstöðinni en hann hefur í dag vegna þess viðbótarkostnaðar sem hér er að falla til og íslenska ríkið mun þurfa að standa undir.

Varðandi gjöldin sem hér hafa verið nefnd og getið er um í þessu frumvarpi, þá eru þrenns konar gjöld lögð á þessa starfsemi, lendingargjöld, öryggisgjald og flugvallarskattur. Það síðastnefnda, flugvallarskatturinn, rennur inn í flugmálaáætlunina og dreifist þar af leiðandi á fleiri verkefni en einungis Keflavíkurflugvöll en hér er gert ráð fyrir að staðfesta með lögum það sem tíðkast hefur, að lendingargjöldin og flugöryggisgjaldið, vegna vopna- og öryggisleitar, renni til flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Það er í raun og veru ekki neitt nýtt í því efni.

Við gerum okkur vonir um að þetta frumvarp muni skapa vissa festu í því sem fram undan er á Keflavíkurflugvelli og á grundvelli þess verði hægt að leysa vandamál þeirra starfsmanna sem að undanförnu hafa verið í óvissu með sín mál. Enda stendur í frumvarpinu að eftir því sem við verði komist skuli veita starfsmönnum í tilteknum deildum sem starfað hafa hjá varnarliðinu tiltekinn forgang að störfum. Ég tel að ekki sé hægt að ganga lengra hvað þetta varðar og það sé óhjákvæmilegt að flugvallarstjórinn, sem mun annast þetta verkefni, hafi visst svigrúm í því vegna þess að það kann að þurfa að endurskipuleggja þessi mál, gera þetta með öðrum hætti en varnarliðið hefur gert. Þar að auki er vitað að einhverjir starfsmenn munu vilja skipta um störf og hafa jafnvel þegar ákveðið að gera það en tilgangur frumvarpsins er náttúrlega að tryggja rekstrarhæfni vallarins jafnhliða starfsöryggi þeirra starfsmanna sem þarna eiga hlut að máli. Þess vegna er brýnt og nauðsynlegt að víkja frá auglýsingaskyldunni sem önnur ákvæði laga hefðu ella kveðið á um.

Ég vil bæta því við út af spurningum hv. þm. Jóns Gunnarssonar varðandi reglugerð um starfsemi og skipulag flugmálastjórnarinnar að þetta er hefðbundið ákvæði sem eðlilegt er að setja um starfsemi sem þessa. Þessi flugmálastjórn hefur frá 1964 eingöngu starfað á grundvelli reglugerða sem er mjög óvenjulegt um stofnanir ríkisins nú til dags. Við snúum þessu við núna og setjum lög um starfsemina og setjum síðan reglugerð til að fylla út í löggjöfina.



[16:02]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill segja enn og aftur að hann telur rétt að fylgt sé þeirri venju að þegar hv. þingmenn biðja um að veita andsvar gefi þeir merki um það meðan ræðumaður heldur sína ræðu. Vegna þess að forseti veitti undanþágu hér áðan þá er það hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, 7. þm. Norðvest., sem veitir andsvar við ræðu hæstv. utanríkisráðherra.



[16:03]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil síst deila á fundarstjórn forseta en vil þó geta þess að stundum eru ræðumenn býsna snöggir að ljúka ræðu sinni úr ræðustóli þannig að það kann að vera rétt hjá forseta að menn biðji um andsvar eftir að ræðumaður er stiginn úr stólnum. Mér finnst að það megi taka tillit til þess. En ég deili ekkert við forseta um ákvörðun hans og tel því rétt að biðja bara um ræðu í staðinn því að ég hef engan áhuga á að taka til máls á einhverri undanþágu sem almennt gildir þá ekki um aðra þingmenn.

En það sem mig langaði að spyrjast nánara fyrir um — ég vil nú þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst að sú breyting sem gerð er á 3. gr. í frumvarpinu um lendingargjöld hefur ekki áhrif á fjárveitingu til framkvæmda í flugmálaáætlun þannig að tekið verði af skarið með það atriði og það að kveða á um að lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli renni til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar hefur enga breytingu í för með sér frá því sem verið hefur.

Það er þá hitt atriðið sem ég velti fyrir mér um skipulagið. Þegar búið er að koma á fót þessari nýju stofnun, Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, og móta stefnu ríkisstjórnarinnar um Flugmálastjórn Íslands og stofnun hlutafélags um flugvallarrekstur og flugleiðsöguþjónustu Flugmálastjórnar Íslands er eðlilegt að menn vilji fá skýr svör um hvað ríkisstjórnin ætlar sér með þessa nýju stofnun. Ég spyr því hvort það sé þá rétt skilið hjá mér að ekki séu áform um það nú að gera breytingar á því frumvarpi sem þingið er með til meðferðar til að menn geti tekið þessa sérstöku stofnun sem nú verður stofnuð síðar undir hlutafélagavæðinguna. Mér sýnist á frumvarpinu um stofnun hlutafélags að það sé þannig orðað að heimild sé til að stofna hlutafélag um flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands sem kann þá hugsanlega að ná yfir þessa sérstöku stofnun annaðhvort óbreytt eða með lítilli breytingu á því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar í þinginu.

Ég spyr því hvort það sé rétt skilið að ekki sé áformað að gera ráðstafanir til breytinga á þessum frumvörpum til að unnt verði að fella þessa nýju stofnun undir hlutafélagið sem á að stofna. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá það skýrt svo það liggi þá fyrir að menn séu að taka ákvörðun um nýja stofnun til einhvers tíma en ekki bara til nokkurra mánaða.

Ég tel ekki ástæðu til að skiptast á orðum við ráðherra um það sem hann sagði í umræðunni um daginn. Það stendur allt á sínum stað og menn geta flett því upp.



[16:06]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér láðist að víkja að þeim frumvörpum samgönguráðherra sem eru til meðferðar í þinginu og vil gera það í andsvari við hv. þingmann. Þetta eru auðvitað sjálfstæð frumvörp. Minn skilningur á þessu öllu saman er sá að verði þau frumvörp að lögum, sem ég geri ráð fyrir að verði, og stend að sjálfsögðu að, muni þurfa sérstaka lagabreytingu til að breyta því frumvarpi sem ég legg til þannig að það falli undir hin nýju lög sem samgönguráðherra er að beita sér fyrir, ef ég hef komið þessu rétt út úr mér. Þannig að það er ekki beint samhengi þar á milli en það getur vel verið að það sé skynsamlegt að hafa það svo varðandi flugleiðsöguþáttinn sérstaklega en þá er það bara eitt af þeim málum sem bíður síðari tíma og nánari yfirlegu og athugunar í þessum málum öllum.