132. löggjafarþing — 117. fundur
 30. maí 2006.
um fundarstjórn.

störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

[14:08]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á hve allt er óljóst um þetta fundahald. Þegar ég hafði samband við skrifstofu Alþingis í gær upp úr hádegi og spurði hvaða mál yrðu á dagskrá í dag þá var ekki hægt að veita nein svör. Það hafði ekki verið ákveðið. Þetta er rétt upp úr hádegi í gær.

En viti menn. Á einum klukkutíma, frá klukkan hálftvö til hálfþrjú gerist margt í senn. Það er myndaður meiri hluti stjórnarflokkanna í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ríkisstjórnarsamstarfið er fært inn í Ráðhúsið. Á sama tíma kemur iðnaðarnefnd Alþingis saman og þröngvar í gegn hinu umdeilda máli hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Um leið verður til dagskrá dagsins í dag með frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Það var vitað að margir framsóknarmenn eru mjög andvígir því frumvarpi. Enda eru það svik á fyrirheitum og loforðum sem Framsóknarflokkurinn hafði gefið um að Ríkisútvarpið skyldi ekki hlutafélagavætt. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Það voru svik, svik flokksins um Ríkisútvarpið. Það er staðreynd. Það er líka vitað að sjálfstæðismenn eru mjög óánægðir með frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, eins og það lítur út í dag. Það hafði náðst ágæt og bærileg sátt um frumvarpið þar til ráðherra breytti því á síðustu stigum málsins.

Um þessi mál er bullandi ágreiningur í stjórnarmeirihlutanum. Þetta er vitað. En út á þetta gengu hrossakaupin. Hluti af þeim var krafa formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, um að fá aðgang að kjötkötlunum í Ráðhúsi Reykjavíkur, því það gerist þar sem þessi flokkur kemst að stjórnsýslunni, henni er umbreytt í kjötkatla. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti minnir hv. þingmann á að hann var að ræða fundarstjórn forseta og biður hv. þingmann um að halda sig við það efni.)



[14:11]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil orða það hér úr þessum ræðustól undir þessum lið hvort ekki hefði verið skynsamlegra af hæstv. forseta að taka upp viðræður við stjórnarandstöðuna um hvernig þessum málum yrði hagað, þó ekki hefði verið nema í þessari viku. Og reyna að ná einhverju samkomulagi um það fyrirfram hvernig málin gangi fram í þinginu. Því ég vona að hæstv. forseti muni hvernig málin gengu fyrir sig síðast þegar við vorum að ræða Ríkisútvarpsfrumvarpið hér í þinginu.

Þó ég telji ekkert eftir mér að vera hérna með ykkur í þinginu fram í júlímánuð, þá held ég að það hefði samt verið betra, hæstv. forseti, að það hefði verið sett á vinna, undir forustu forseta, við að reyna að koma málum þannig fyrir að það ríkti meiri sátt um málatilbúnað en sýnilega verður, eins og málum er fyrir komið. Ekki bætti gærdagurinn úr skák eins og umræðan hér á undan um störf þingsins bar með sér.

Ég hef áhyggjur af því, hæstv. forseti, að þessi vika skili engu afgreiddu máli frá þinginu. Ég held að verkstjórn forseta muni ekki leiða til að vikan nýtist til nokkurra skynsamlegra verka, annarra en þeirra að ræða hér deilumál milli stjórnar og stjórnarandstöðu, án þess að finna því nokkurn þann farveg sem líklegur væri til að við gætum horft til þess að hér verði unnið skipulega og eðlilega.

Þess vegna beini ég þeim tilmælum til hæstv. forseta, að endurskoða þetta vinnulag. Við sjáum fyrir okkur hvernig dagurinn í dag verður og honum verður sjálfsagt ekki breytt mikið úr þessu. En ég held að það væri óráð að hefja morgundaginn með sama lagi og hér hefur verið hafist handa í dag.



[14:14]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort áttundi maður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöðin tengjast á einhvern hátt. En ég vil hins vegar taka undir nauðsyn þess að unnið sé betur í því að skipuleggja störf þingsins. Það hefur verið ágætis tími til þess. Við erum búin að vera í þinghléi núna um nokkurt skeið. Flestir þingflokkar voru með fundi í gær og það hefði verið nauðsynlegt að þar lægi fyrir, ekki bara dagskrá dagsins í dag, heldur líka hvernig áætlanir eru varðandi störf þingsins í vikunni, þ.e. fundartíminn og þau dagskrármál sem á að ræða og hversu lengi fundir eiga að standa.

Ef slíkt er ekki gert má búast við því að hér verði erfitt fyrir okkur að koma og afgreiða mál og koma þeim í gegn, ef þingflokkarnir vita ekkert hver staðan er. Ég vil nú beina því til hæstv. forseta að hann upplýsi okkur um hversu lengi er áætlað að vera að verki í dag og hvaða mál á að ræða fyrir utan þau sex sem nú þegar er búið að setja á dagskrá.

Við þingflokksformenn héldum fund með hæstv. forseta kl. 1 í dag, hálftíma fyrir þingfund. Það er enginn möguleiki fyrir okkur að ræða við þingflokka okkar um það sem þar kom fram. Það eru auðvitað vinnubrögð sem eru fyrir neðan allar hellur. Þannig að ég vil nú beina því til hæstv. forseta að hann upplýsi okkur um hve lengi við ætlum að halda hér áfram í dag.



[14:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þegar menn gerðu hlé á fundum var það minn skilningur og fleiri að það yrði algert hlé þangað til þingið kæmi saman í dag, þriðjudaginn 30. maí. Það þýddi að sjálfsögðu ekki að forsætisnefnd og formenn þingflokka væru ekki til staðar til að hittast og undirbúa þinghaldið. Þess vegna er það með miklum endemum að menn skuli ekki einu sinni hafa reynt að tala saman, reynt að setja upp sameiginlega dagskrá, reynt að gera drög að starfsáætlun. Er það ekki rétt, virðulegur forseti, að þingið er kallað saman, dagskrá er hent fram á vefinn einhliða síðdegis í gær og það er ekki svo mikið sem haft við að reyna að ræða hvernig þessu verði hagað næstu daga eða vikur? Reyndar var ekki heldur um það talað að boðað yrði til nefndarfunda á afbrigðilegum tíma eins og hinn frægi fundur iðnaðarnefndar í gær. Það var ekki einu sinni hægt að bíða eftir reglulegum fundartíma nefndarinnar í dag, daginn sem þingið kæmi þó saman. Nei, það var boðaður aukafundur í gær með skömmum fyrirvara einhvern tíma á helginni. Viðfangsefni hans er það að rífa úr nefndinni án nokkurrar frekari umræðu — samkomulag sem við þingmenn heyrum um í fjölmiðlum, þar á meðal nefndarmenn í iðnaðarnefnd, að einhverjir ráðherrar hafi náð um frumvarp sem er á forræði þingsins í miðri vinnslu í þingnefnd. Nefndin er rudd og aðrir þingmenn koma inn til að greiða atkvæði um afgreiðslu málsins úr nefnd sem ekki hafa tekið þátt í umfjöllun um málið. Þetta er sannleikurinn og svo getur hver túlkað fyrir sig hvað þarna er að gerast. Ef þetta er ekki ráðherraræði og að niðurlægja þingræðið þá veit ég ekki hvað það er.

Vandinn er auðvitað sá, frú forseti, að þinghaldið er í gíslingu ríkisstjórnarinnar. Það er bæði af hugmyndafræðilegum ástæðum því ríkisstjórn Steingríms — ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar virðist trúa því að hér sitji ríkisstjórnarbundið þing. (Forsrh.: Þú varst í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.) Já, það er rétt. Hún var miklu skárri en þessi. Og af einhverjum undarlegum ástæðum láta bæði þingnefndir og forusta þingsins bjóða sér þessi vinnubrögð og þau versna dag frá degi. Ríkisstjórnin sjálf er þannig á sig komin, eins og allir menn sjá, að þar ríkir algert stjórnleysi og algert uppnám og það sem gerist er eiginlega ævinlega niðurstaða af því að málum er olnbogað áfram með hrossakaupum. Ef einhver list er að ná hástigi í höndum þessarar ríkisstjórnar þá er það hin forna list hrossaviðskiptanna. Einn fyrir mig og einn fyrir þig.

Ég legg til, virðulegi forseti, að hlé verði gert á þessum fundi, boðað til þess fundar sem hefði átt að vera búið að halda með formönnum þingflokka og reynt að koma einhverju skikki á málið.



[14:19]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það vill svo til að það var haldinn fundur með þingflokksformönnum. Hæstv. forseti gerði það áðan. Boðið var upp á ýmislegt í því sambandi, hvenær við skyldum ljúka fundi í dag, m.a. að stytta þær umræður sem búið var að tilkynna að mundu fara af stað um fundarstjórn forseta en slíku boði var ekki tekið. Menn hafa ekki meiri áhuga á því að greiða fyrir þingstörfum en það að frekar óska þeir eftir því að fimbulfamba um fundarstjórn forseta í stað þess að ræða mál á eðlilegum efnislegum grunni. Þá væri hægt að ljúka fundi á eðlilegum tíma í kvöld. En ekki var áhugi fyrir því á fundi þingflokksformanna með forseta þannig að það er býsna erfitt að reyna að komast að því hverjar óskir stjórnarandstöðunnar eru varðandi þinghaldið. Það koma engar tillögur frá þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar um það hvernig menn vilja haga störfum eins og t.d. í dag. Það voru menn ekki tilbúnir að segja. Hæstv. forseti er því í erfiðu hlutverki að skipuleggja störf þingsins í dag þegar menn eru ekki tilbúnir til að ræða þetta á einn eða annan hátt.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi að nefndarfundir væru haldnir í þinghléum. Það er mjög venjulegt að menn haldi nefndarfundi og oft hafa þau tilboð komið frá stjórnarandstöðunni, um einstök mál sem stjórnarandstaðan er á móti, að þau verði sett í nefnd í þinghléi. Það er því vandi að reikna út hvað menn vilja í þessu máli. Mega nefndir starfa í þinghléum eða mega þær það ekki að áliti stjórnarandstöðunnar? Ég held að það sé ráð, hæstv. forseti, að við förum að ræða það mál sem ég reikna með að taki lungann úr deginum. Ef við getum treyst á orð þingflokksformanna um að þeir vilji ræða mjög gaumgæfilega Ríkisútvarpið er rétt að fara að byrja á því, hæstv. forseti.



[14:22]
Jón Bjarnason (Vg):

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hún hafi nýlega lesið þingsköp Alþingis. Ég vil fá um það svar, já eða nei.

Ég get til aðstoðar við hæstv. forseta þingsins vakið athygli á grein um þingsköpin sem er nr. 10 þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið og hefur umsjón með alþjóðasamstarfi sem Alþingi á aðild að.“

Ég get líka vakið athygli forseta á 72. gr. laga um þingsköp Alþingis, og ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hún hafi nýlega lesið hana. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Forseti skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.“

Ég veit ekki til hvers þetta er skrifað en ég geri ráð fyrir að ætlunin sé að forsætisnefnd fari eftir því.

Ég vil spyrja forseta hve oft hún hefur boðað til slíks samráðs frá því að hlé var gert á þingstörfum í vor þegar þingið var skilið eftir og störf þess voru í fullkomnu uppnámi, m.a. vegna vanstjórnar þingsins af hálfu forsætisnefndar sem lýtur beint valdboðum einstakra ráðherra frekar en hafa eðlilegt lýðræðislegt samráð innan forsætisnefndar um starfshætti þingsins. Hve oft var þá komið saman á þessum tæpa mánuði til þess að undirbúa framhaldið sem hafði þá þegar verið ákveðið? Það hlaut að vera skylda forseta að fara eftir þingsköpum og hafa samráð við aðra varaforseta og þingflokksformenn um skipulag þinghaldsins.

Í gær var kallað til nefndarstarfa. Þó hafði verið lesið forsetabréf um að þingið væri í hléi til dagsins í dag. Það er ekkert að því að nefndir komi saman en þá er haft um það samráð en ekki send tilkynning utan reglulegs þingtíma, þá er haft um það samráð og fundir boðaðir með eðlilegum fyrirvara. En í gær voru fundir boðaðir með eins eða tveggja tíma fyrirvara. Forseti ber ábyrgð á störfum þingnefnda. Ég vil því spyrja: Vissi forseti um þessa tilhögun í störfum nefndarinnar?

Frú forseti. Eins og ég upplifði þetta núna má segja að það sé eins gott að þeir skiptist á að sitja hér á forsetastóli, formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, og formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. utanríkisráðherra Geir H. Haarde. Þá sæjum við hver stýrir fundum hér.



[14:26]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er ekki rétt sem kom fram í máli hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins að haldinn hafi verið fundur um þá dagskrá sem við erum að ræða hér, alls ekki. Sá fundur sem fór fram í dag — þessi dagskrá lá fyrir áður en fundurinn var boðaður. Ég vona að hún komi upp og dragi þessi orð sín til baka.

Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með fundarstjórn hæstv. forseta, Jónínu Bjartmarz. Mér finnst það með ólíkindum að setja hér dagskrá án þess að reyna að ræða við stjórnarandstöðuna. Maður veltir fyrir sér lýðræðisþroska Framsóknarflokksins að reyna ekki að ræða málin, taka einn málamyndarfund í það. Þó ekki væri annað en ræða málin og kanna hvort hægt sé að nálgast eitthvert samkomulag. Það vinnulag sem hér ríkir er hroki og ekkert annað, maður verður að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Ég vona svo sannarlega að hæstv. forseti sé ekki jafnrökheldur og hæstv. iðnaðarráðherra sem kemur hér með frumvarp og í öllum umsögnum sem koma fram með því er sagt að það sé ótækt. En samt á að keyra það í gegn. Ég verð að lýsa undrun minni á þessari stjórn, að vera hér að ræða Ríkisútvarpið.

Nú sé ég að hæstv. forsætisráðherra er sestur undir ræðu minni. Ég hefði talið nær að hæstv. forsætisráðherra væri að ræða efnahagsmálin en hann forðast það, frú forseti. Ég hefði talið að forsætisráðherra sem ætlar að vera myndugur ætti frekar að ræða efnahagsmál sem virkilega brenna á þjóðinni. Nei, það er Ríkisútvarpið og enn einn skatturinn frá Sjálfstæðisflokknum, það er nefskattur sem þeir vilja leggja á þjóðina. Mér finnst þetta sérkennileg forgangsröðun. Ég vona svo sannarlega að hæstv. forsætisráðherra sjái að sér. Það er kominn tími til þess á sumarþingi að boða einhverjar efnahagsaðgerðir. Hann malar kannski eins og köttur yfir því ástandi sem hér ríkir en þjóðin er ekki ánægð með að sjá skuldirnar hækka frá mánuði til mánaðar. Mér finnst þetta vera stórundarleg forgangsröðun, frú forseti.

(Forseti (JBjart): Hv. þingmaður hefur ekki enn lokið tíma sínum en forseta finnst ástæða til árétta það að hann kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta.)

Já, ég hef verið að því, frú forseti, og ég skal víkja máli mínu að því. Mér finnst þetta mjög sérkennileg dagskrá sem hæstv. forseti stendur hér að. Ég hef verið að færa rök fyrir því að miðað við efnahagsástand þjóðarinnar hefði ég talið að málefni Ríkisútvarpsins ættu ekki að vera fyrst á dagskrá þegar þing kemur saman eftir hlé. Mér finnst að hæstv. forseti ætti að íhuga þetta. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð á þjóðþingi Íslendinga.



[14:29]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fundur þingflokksformanna var haldinn kl. eitt. Síðan hófst þingfundur kl. hálftvö og okkur hefur ekki gefist tóm til að boða þingflokka til fundar til að greina þeim frá því sem þar gerðist.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur haft uppi ákveðnar söguskýringar sem mér finnst ástæða til að víkja að undir þessum dagskrárlið. Hún sagði að engar tillögur hefðu borist frá stjórnarandstöðunni um þinghaldið. Hið rétta er að við kvörtuðum yfir því að ekki skyldi haft samráð við forsætisnefnd þingsins eða formenn þingflokka í samræmi við þingskapalög eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur gert ágætlega grein fyrir. Þegar við spurðum hversu lengi þingfundur ætti að standa þá var ýmist sagt „fram að kvöldmat“ eða „fram á kvöld“ eða „til miðnættis“. Þess var getið að það væri hægt að stytta fundartímann ef við féllumst á að ræða ekki hin gagnrýnisverðu vinnubrögð undir þessum lið um stjórn fundarins. Ég sagði að ekki yrði komist hjá því að gera þau að umræðuefni.

En ég tek þetta aðeins upp núna, hæstv. forseti, vegna þess að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins er uppi með rangfærslur um málflutning okkar á þessum fundi. Við höfum óskað eftir því að fyrir liggi áætlun um vikuna. Það er t.d. ekki vitað hvort efnt verður til fundar á laugardag. Jafnvel er talað um að svo verði. Það er spurt hvort efnt verði til kvöldfunda. Það er ekki vitað. Fyrst er sagt að vinnudagurinn verði látinn nægja en síðan er allt á reiki og að lokum er sagt: Við tökum bara einn dag í einu. Þetta er ástandið á Alþingi og hæstv. starfandi forseti þingsins á alla mína samúð. Ég er ekki að beina gagnrýnisorðum mínum að henni. Ég vil að það komi skýrt fram. Ég beini gagnrýni minni að ríkisstjórninni sem stýrir þessum málum og að stjórn þingsins fyrir að hafa ekki staðið betur að undirbúningi þessa fundar.



[14:32]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina gagnrýni minni að virðulegum forseta, þeirri sem hér situr. Hér hafa verið lagðar fram fyrirspurnir til hæstv. forseta um hvernig vikan sé hugsuð og dagskrá hennar, hve lengi eigi að halda áfram í dag og hver hugsun hæstv. forseta og þeirra sem stýra þinghaldinu sé varðandi framhaldið á þessu sumarþingi.

Það kom fram hjá hv. þingmanni, formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að engar tillögur hefðu komið frá þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar um þinghaldið. Það er ekki rétt. Rétt áður en við fórum í þinghlé höfðum við lýst því yfir hvaða mál það væru sem við vildum að yrðu látin bíða til haustsins. Ríkisstjórnin leggur hér fram 108 mál sem á eftir að afgreiða og það hefur ekkert verið rætt við okkur um það hver staða hvers máls sé innan okkar raða. Við getum lítið sagt um það á þeim 20 mínútum sem fundur stendur.

Ég held, hæstv. forseti, að ef spurningunum hefði verið svarað strax í upphafi um hvernig hæstv. forseti hugsi framhaldið, í dag og í vikunni, en sæti ekki bara hér og stæði upp til að gefa orðið, heldur svaraði því sem til hæstv. forseta er beint hefði mátt stytta þessar umræður um fundarstjórn forseta.



[14:34]
Forseti (Jónína Bjartmarz):

Í tilefni orða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og annarra sem hafa tekið þátt í þessari umræðu vill forseti byrja á því að árétta að forseti fundaði í morgun með forsætisnefnd þar sem fulltrúar allra flokka voru, og síðan með formönnum þingflokka, þar sem rædd var sú dagskrá sem liggur fyrir. Það lá fyrir að ætlunin væri sú að halda þingfundi áfram og funda á Alþingi fram eftir kvöldi. Það hefur legið fyrir frá því að forseti fundaði með formönnum þingflokka.

Á dagskrá þessa fundar eru elstu 3. umr. málin og eðlilegt að þau séu á þessari dagskrá hér í dag þegar þing kemur aftur saman eftir frestun. Það liggur líka fyrir að það verða þingfundir út vikuna. Það er gert ráð fyrir að nefndarfundir verði hér reglulegir eftir morgundaginn og það er gert ráð fyrir fyrirspurnum á morgun samkvæmt venju.

Allt þetta lá fyrir á fundi með formönnum þingflokka í hádeginu þegar forseti fundaði með þeim.



[14:35]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég verð að gera mjög alvarlegar athugasemdir við það hvernig forseti túlkar stöðu sína gagnvart þinginu. Það er ekki þannig að forseti eigi að tilkynna þinginu hvernig þingstörfum skuli vera háttað. Það stendur hvergi í þingsköpum. Það stendur einmitt þveröfugt, eins og ég las hér upp áðan. (Gripið fram í.) Þetta er einmitt um fundarstjórn forseta og hvort forseti hafi yfirleitt umboð til þess að stjórna hér þingi undir þeim valdsjúku ráðherrum sem hér eru. Meira að segja hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem hér hrópar fram í finnur hjá sér skömmina. (Gripið fram í.) Þannig er að samkvæmt þingsköpum ber forseta að hafa, með leyfi forseta:

„… reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.“

Stendur þarna að það eigi að vera í formi tilskipana? Nei. En þannig er að þegar forseti talaði hér áðan um að boðað hefði verið til fundar í forsætisnefnd í morgun og með þingflokksformönnum um hádegisbilið þá kom dagskrá þingsins fram í gær, seinni partinn, þegar gengið hafði verið frá hrossakaupunum um stjórn Reykjavíkurborgar. Þá kemur dagskráin fram, beið eftir því að klukkan slægi fjögur eða fimm, hvenær sem þessi hrossakaup fóru nú fram. Þá senda ráðherrarnir, formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, væntanlega tölvupóst til forseta um að nú megi hæstv. forseti birta dagskrána. Svona er þetta nú bara, því miður.

Í þingsköpum stendur allt annað, þar stendur að forseti skuli hafa samráð. Enn fremur stendur hér í 72. gr., með leyfi forseta:

„Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar.“

Ég get ekki séð að forseti hafi neitt haft reglulegt samráð þótt kallað sé til málamynda til fundar til að gefa út tilskipanir um hvað forseti hafi fengið tilskipun um að boða þingmönnum. Nei, hér skal keyra í gegn einkavæðingarfrumvörpin, einkavæðingu Ríkisútvarpsins sem Framsóknarflokkurinn hefur hvað eftir annað ályktað á flokksþingum sínum um að ekki skuli einkavæða. Í hrossakaupunum kaupir Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) einkavæðingu Ríkisútvarpsins og kyngir því að því er virðist. (Forseti hringir.) Það er þetta sem er á ferðinni, frú forseti, en ekki reglulegt og sómasamlegt þinghald.



[14:38]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég verð að hefja mál mitt á því að lýsa yfir miklum vonbrigðum með hvernig fundi er stjórnað hér. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með fundarstjórn hæstv. forseta, Jónínu Bjartmarz, sérstaklega þegar hún er spurð hér spurninga — hvers vegna í ósköpunum svarar þá ekki hæstv. forseti? Ég átta mig ekki á því hvað fólki gengur til þegar það er spurt spurninga og á að stýra fundum. Hér er fundur í gangi og þingmenn spyrja spurninga, hvort eigi að halda fund og ræða málin, en það er eins og hæstv. forsetar séu of góðir til að svara spurningum sem hv. þingmenn beina til þeirra. Mér finnst þetta undarlegt, sérstaklega vegna þess að hæstv. forseti lét ekki svo lítið að ræða málið áður en boðað var til dagskrárinnar. Hvaða vinnubrögð eru þetta, að svara ekki spurningum, koma hérna með tilkynningu um dagskrá þingsins og fara síðan með rangt mál í ræðustól, segja að rætt hafi verið við alla flokka? Það er bara alrangt, það var ekkert rætt við Frjálslynda flokkinn, ekki einu orði í morgun, eins og kom fram í máli hæstv. forseta. Ég verð að segja (Gripið fram í.) að eftir að hafa hlýtt á mál hæstvirtra ráðherra Framsóknarflokksins og hvernig hæstv. forseti bregst við þeim fyrirspurnum sem beint er til hennar leyfi ég mér að halda það að framsóknarmenn séu rökheldir, það er alveg sama hvaða rök eru borin á borð fyrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins, það skiptir engu máli. Við sjáum það í umræðu um nýsköpunarfrumvarpið, hver umsögnin á fætur annarri kemur og síðan þegar hér koma málefnaleg sjónarmið um hvort ræða eigi dagskrána eða ekki er því ekki svarað. Hvað á þetta að þýða? Mér finnst þetta ekki vera vinnubrögð til sóma. Við eigum einmitt að haga vinnubrögðum okkar á Alþingi þannig að þau geti verið fyrirmynd, bæði öðrum félögum og þess hvernig stjórnsýslan hagi vinnubrögðum sínum. Mér finnst það ekki vera í þessu tilliti, að geta ekki haldið lítinn fund og rætt málin, hvernig haga eigi störfum þingsins, heldur keyra málið áfram í blindni.

Ég treysti því, vegna þess að hæstv. forseti hefur áður orðið uppvís að því að gera mistök í byggðamálaumræðunni, þegar hún sleit fundi í trássi við fundarsköp Alþingis, að hún sjái að sér og haldi þennan litla fund og fari yfir málið. Menn geta varla verið það stórir þótt í forsetastóli séu að geta ekki haldið lítinn fund með þingmönnum og rætt málin, hvernig eigi að haga störfum þingsins.



[14:41]
Forseti (Jónína Bjartmarz):

Forseta finnst ástæða til að árétta, vegna orða hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um að forseti hafi ekki fundað með fulltrúum allra þingflokka, að hv. þingmaður, sem fulltrúi Frjálslynda flokksins, kom á fund formanna þingflokka þegar honum var að ljúka í dag. Formenn allra þingflokka voru boðaðir á þann fund. (SigurjÞ: … þegar dagskrá lá fyrir.)



[14:42]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Jú, það er akkúrat erindi mitt að ræða hér um fundarstjórn forseta. Í upphafi þings koma ríkisstjórnarflokkarnir sér saman um hvernig þingið skuli keyrt áfram og búa til starfsáætlun Alþingis. Hana er ég með fyrir framan mig. Ég hef einungis setið á Alþingi frá 1999 en þetta er í fyrsta skiptið sem maður sér að þessari áætlun hefur verið kastað fyrir róða, hún var gagnslaust plagg frá upphafi eins og komið hefur á daginn. Forsíðan er nánast það eina sem hefur staðist í þessari starfsáætlun, að þetta sé starfsáætlun Alþingis fyrir 132. löggjafarþing. Það sem stóð inni í henni hefur allt saman farið út og suður og hef ég áður gert því skil, virðulegi forseti, að nefndadögum var svissað til eftir „behag“. Ýmislegt annað var gert hérna og síðan var það kórónað þegar þingið var sent heim í aðdraganda og rétt fyrir kosningar af því að ríkisstjórn vildi ekki hafa okkur hér lengur, sendi okkur heim og svo á að koma saman í dag til þess að klára málin.

Ef ég hef skilið það rétt hefur komið hér fram að ríkisstjórnin er með á lista sínum rúmlega 100 mál sem á að afgreiða. Nú þegar við komum hingað til þings er það þannig að enginn veit hvaða áætlun liggur fyrir og engin starfsáætlun er um hvað skuli gera og ekkert samráð er reynt að hafa við stjórnarandstöðuna um hvernig þetta skuli sett áfram.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gagnrýna og taka undir gagnrýni annarra þingmanna hvað þetta varðar. Það er nú einu sinni þannig að þingmenn búa líka til sína starfsáætlun eftir því hvað gera á hér á Alþingi. Oft hefur það komið fyrir að fundir eru settir á föstudögum og annað slíkt. Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að hér áðan var sagt að þinghaldið þessa viku yrði eitthvað fram vikuna. Má ég spyrja, virðulegi forseti, og fá svar við því: Er ætlunin að halda fund hér á föstudag og laugardag ef til vill? Ég vona að virðulegi forseti hafi tekið eftir spurningu minni. Ég spyr: Er einhver hugmynd um að hafa þingfund á föstudag og ef til vill á laugardag? Má kannski gera ráð fyrir sunnudegi, að þá verði þing? (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera eðlileg krafa frá okkur þingmönnum til ykkar að það sé gefið út hvernig þessu verði háttað. Og verður fundað hér á morgun með fyrirspurnum eins og komið hefur fram og fundur á fimmtudag og síðan komum við aftur saman, ekki á mánudag því að þá er annar í hvítasunnu heldur á þriðjudag? Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja eftir þessu.

Svo blandast auðvitað inn í þetta eins og hér hefur gerst í umræðunni þau hrossakaup sem gerð voru í gær hvað þetta varðar. Auðvitað er það svoleiðis að þegar varahjól Sjálfstæðisflokksins var dregið fram, þ.e. Framsóknarflokkurinn hér í Reykjavík, og sett undir virtist hafa liðkað fyrir ýmsu að Framsóknarflokkurinn var til í að Ríkisútvarpið yrði sett á dagskrá og rætt áfram og í staðinn fékk Framsóknarflokkurinn eitthvert bix í nýsköpunarfrumvarpinu þannig að (Forseti hringir.) það virðist eiga að taka þetta svona saman. Það eru enn þá, virðulegi forseti, þessi hrossakaup (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.



[14:45]
Forseti (Jónína Bjartmarz):

Forseti svarar spurningu hv. þm. Kristjáns L. Möllers þannig að fyrirhugað er að halda þingfund á föstudegi. Annars er dagskrá þingsins ákveðin dag frá degi. Það fer eftir því hve greiðlega þingstörfin ganga (KLM: En laugardagur?)