132. löggjafarþing — 118. fundur
 31. maí 2006.
hugverkastuldur.
fsp. BjörgvS, 763. mál. — Þskj. 1112.

[15:17]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hvert er áætlað hlutfall hugverkastuldar í íslensku hagkerfi og hvert er áætlað hlutfall hugverkastuldar í hagkerfi heimsins?

2. Hefur farið fram úttekt á hugverkastuldi á Íslandi og hlutfalli hans í íslensku hagkerfi, og ef svo er, hver var niðurstaðan? Hafi slík úttekt ekki farið fram, er hún fyrirhuguð?

Það liggur fyrir að hugverkastuldur er alvarlegt og vaxandi vandamál í hagkerfinu. Mörg gögn benda til þess að brotatíðni sé nokkuð há í þessum málum hér á landi og þau réttarfarsúrræði sem fyrir hendi eru séu ekki nægilega virk. Er enda stefnt að því að styrkja stöðu rétthafa hugverka þegar um viðskipti er að ræða, ekki síst með hliðsjón af því hvernig brugðist verði við í nágrannalöndum okkar á næstu missirum — það liggur fyrir að hugverkastuldur er vaxandi og viðvarandi vandamál út um allan hinn vestræna heim.

Því til glöggvunar má geta þess að þann 15. október 1998 skilaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins svonefndri grænbók, grænni bók um aðgerðir gegn eftirlíkingum, sjóræningjaútgáfum á vörumerkjum, mynd- og hljóðefni og hugbúnaði á innri markaði Evrópusambandsins. Í þeirri grænu bók kemur fram að þessi brot gegn hugverkaréttindum námu á bilinu 5–7% af heimsviðskiptum fyrir átta árum. Engin ástæða er til að draga í efa að hugverkastuldur hafi færst verulega í vöxt síðan, ekki síst með efnahagslegum uppgangi og samfélagslegum í löndum Asíu eins og í Kína og víðar. Brot á hugverkaréttindum gætu því verið komin vel upp fyrir þessa tölu, 5–7% af heimsviðskiptum, sem er gífurlega há tala. Þetta ógnar að sjálfsögðu innri markaðnum með því að skekkja samkeppni og draga úr verðgildi fjárfestinga og áhrifin eru að sjálfsögðu margs konar.

Hér á landi hefur umfang brota gegn hugverkaréttindum ekki verið kannað ítarlega svo að ég viti. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra og skora á hann að beita sér fyrir slíkri úttekt hafi hún ekki farið fram eða sé hún ekki í gangi.

Jafnframt bendir ekkert til þess að tíðni brota af öðru tagi gegn hugverkaréttindum sé önnur og lægri hér á landi en í grannlöndunum og með því megi ganga út frá því að hér á landi sé í einhverjum mæli markaður með ólöglegar fjölfaldanir, t.d. á mynd- og hljóðefni á geisladiskum, eftirlíkingum á merkjavöru og ólöglegum hugbúnaði. Því er fyllsta ástæða til að fara ítarlega í þessi mál, rannsaka umfang hugverkastuldar og grípa til markvissra aðgerða gegn honum.



[15:21]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hafa alls 84 mál verið skráð í málaskrá lögreglu vegna ætlaðra brota á höfundalögum. Elsta málaskráningin er frá árinu 1995. Þá hefur á undanförnum árum verið ákært í nokkrum málum vegna brota á höfundalögum og dómar hafa gengið í málum en dæmd viðurlög eru iðulega í formi sekta.

Ég gef mér þá forsendu að hv. þingmaður vísi einkum til hugbúnaðar og stuldar á honum þegar hann ræðir áætlað hlutfall hugverkastuldar í hagkerfi heimsins. Í nýrri skýrslu Samtaka rétthafa og framleiðenda hugbúnaðar, BSA-samtakanna, vegna ársins 2005, sem út kom núna í maímánuði, segir að hlutfall ólögmætrar hagnýtingar á PC-tölvuhugbúnaði standi nokkurn veginn í stað milli áranna 2004 og 2005 og nemi um 35% af heildarumfangi hugbúnaðarins í veröldinni en á sama tíma aukist fjárhagslegt tap milli áranna um ríflega 1,6 milljarða bandaríkjadala. Í 97 ríkjum heims, sem rannsökuð eru, lækkar hlutfall ólögmætrar hagnýtingar hugverka milli áranna 2004 og 2005 hjá meira en helmingi ríkjanna eða í 51 ríki. Í 19 ríkjum hækkar hlutfallið. Það er niðurstaða samtakanna að á sama tíma og keyptur var PC-tölvuhugbúnaður löglega fyrir tvo dollara á árinu 2005 hafi ólögmæt öflun búnaðar numið einum dollara.

Árið 1999 beindi ég sem menntamálaráðherra því verkefni til Ríkisendurskoðunar að hún kannaði notkun ólöglegs hugbúnaðar hjá stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu um málið í desember 1999 og er unnt að kynna sér hana á vefsíðu stofnunarinnar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað í tilefni af þessari fyrirspurn hefur Ríkisendurskoðun ekki endurtekið slíka úttekt.

Af hálfu Microsoft á Íslandi hefur því verið beint til mín sem dóms- og kirkjumálaráðherra að ráðuneyti mitt taki þátt í því verkefni með fyrirtækjum að kanna hvernig háttað er hugbúnaðarleiðum hjá stofnunum ráðuneytisins. Er verið að huga að því á vegum ráðuneytisins hvernig því samstarfi verði best háttað. Tilmælin frá Microsoft á Íslandi eru m.a. rökstudd með því að alþjóðlegar athuganir á vegum BSA sýni nauðsyn þess að hér á landi sé gert átak í þeim tilgangi að útrýma ólögmætum hugbúnaði. Tíðni þessarar ólögmætu notkunar hefur ekki verið mæld af stjórnvöldum umfram það sem gert var 1999 og ég greindi áður frá en ég vænti þess að þeir sem búa yfir upplýsingum frá BSA fyrir Ísland muni birta þær upplýsingar.

Loks vil ég minna á að fyrir þessu þingi liggur frumvarp til laga frá mér um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Meginmarkmið frumvarpsins er að lögbinda virkari úrræði en nú gilda til að bregðast við brotum gegn hugverkaréttindum og auðvelda rétthöfum þeirra að afla sönnunargagna um þau til að verja hagsmuni sína. Ég tel að það sé ákveðnum erfiðleikum bundið að setja fram trúverðugar áætlanir um hlutfall hugverkastuldar í íslensku hagkerfi og raunar vaknar sú spurning hvort ástæða sé til þess að ætla lögreglu eða aðilum á vegum dómsmálaráðuneytisins að eiga frumkvæði að slíkum úttektum eða áætlunum. Hins vegar er ljóst að lögregla kemur að málum og það er m.a. lögbundið hlutverk hennar að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu, vinna að uppljóstrun brota og stemma stigu við afbrotum, vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Verkefnið snertir hins vegar marga aðila, bæði einkaaðila og opinbera aðila, og ég vænti þess að þær upplýsingar sem snerta Ísland og koma fram í þessari könnun BSA, og ég nefndi hér fyrr, verði birtar opinberlega af þeim aðilum sem ráða yfir þeim upplýsingum.



[15:26]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umræðuna. Það liggur fyrir að ekki hefur farið fram mæling á umfangi þess sem kalla má hugverkastuld, hvort sem um er að ræða hugbúnað, sem er vissulega algengast, mynd- og hljóðefni á geisladiskum, eftirlíkingar á merkjavöru eða ólöglegan hugbúnað svo nefnd séu alvarlegustu tilvik brota gegn hugverkaréttindum. Á sumum sviðum má jafnframt reikna með að tíðni brota sé umtalsverð og að sjálfsögðu fyrst og fremst um fjölföldun tölvuforrita að ræða eins og hæstv. ráðherra gat um og reynslan hefur leitt í ljós erlendis. Þá hefur vafalaust áhrif hér á landi eins og annars staðar að tækni hefur fleygt fram. Nú er mjög auðvelt að fjölfalda hvers konar mynd- og hljóðefni með mjög litlum tilkostnaði og fyrirhafnarlítið svo vægt sé til orða tekið og oft án þess að gæðin verði mun lakari.

Fyrir nokkrum árum voru gæði á sjóræningjaefni eða stolnu efni hvers konar oft mun lakari en á hinu raunverulega efni og stóð það þessum undirheimaiðnaði töluvert fyrir þrifum. Nú er staðreyndin sú að það er hægt að falsa og líkja eftir myndefni, hljóðefni og hvers kyns merkjavöru og hugbúnaði með ævintýralega góðum árangri. Það hefur, að ég held, hleypt nýju lífi í hugbúnaðarstuld og hugbúnaðarþjófnað af hverri sort. Ég tel ekkert benda til þess að það sé að dragast saman hér á landi. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að úttekt og mæling á hugverkastuldi liggi fyrir rétt eins og það liggur fyrir hvert hlutfall af hugverkastuldi er í hagkerfinu víða erlendis, fyrir átta árum var talað um að það væri 5–7%. Það hefur dregist saman í einhverjum löndum, sagði hæstv. ráðherra, það er ágætt. En ég held að það sé áríðandi og mikilvægt að einmitt dómsmálaráðuneytið beiti sér fyrir slíkri mælingu (Forseti hringir.) eða hafi alla vega forgöngu um það.



[15:28]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er nauðsynlegt að mæla þetta en ég tel að það sé ekki í verkahring dómsmálaráðuneytisins að stunda slíkar hagfræðimælingar hér á landi.