132. löggjafarþing — 118. fundur
 31. maí 2006.
afnám verðtryggingar lána.
fsp. VF, 755. mál. — Þskj. 1104.

[18:01]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Töluverðar umræður hafa verið um afnám verðtryggingar síðustu missirin hér á landi. Verðtryggingarkerfið var sett á á sínum tíma til að draga úr óstöðugleika í efnahagsmálum en núna eru uppi vangaveltur um hvort verðtryggingin gæti verið ein af orsökum óstöðugleikans þar sem hún dregur úr áhrifum stýrivaxta Seðlabankans.

Efnahagslegar aðstæður á Íslandi hafa breyst mikið frá því að verðtryggingarkerfinu var komið á. Fjármálamarkaðurinn hefur breyst, frjálsræði hefur aukist, þjóðfélagið er opnara og alþjóðavæðing er vaxandi.

Bankastjóra greinir á um hvort afnema eigi verðtryggingu lána. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni að stefna beri að afnámi verðtryggingar. Hæstv. viðskiptaráðherra sagði í umræðum í þinginu 4. mars 2004 um verðtrygginguna, með leyfi forseta:

„Það er rétt sem hér kom fram að verðtryggingin er mjög sérstök. Hún er í raun íslenskt fyrirbæri og að því leyti til er hún óæskileg að það er erfitt að útskýra þetta fyrir öðrum þjóðum. Kannski er það ekkert svo oft sem þarf á því að halda. Engu að síður er verra að vera með eitthvert fyrirkomulag hér, miðað við það að við erum á þessum opna markaði Evrópu, sem aðrar þjóðir átta sig ekki á hvað er.“

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort verðtryggingin sé í raun séríslenskt fyrirbrigði og hversu mörg lönd önnur hafi þetta fyrirkomulag. Sagt er að þau séu fá en hvers vegna? Hvers vegna erum við með þetta séríslenska fyrirbrigði verðtryggingu?

Frú forseti. Við þurfum að taka upp umræður um afnám verðtryggingar og því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að afnema verðtryggingu lána?

2. Hvaða kosti og galla telur ráðherra að verðtrygging lána hafi fyrir almenna lántakendur?

3. Hvaða kosti og galla telur ráðherra að afnám verðtryggingar lána gæti haft fyrir almenna lántakendur?



[18:04]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og önnur málefni á fjármagnsmarkaði hljóta vextir og verðtrygging ætíð að vera til stöðugrar athugunar. Það sem kann að vera heppilegt á einum tíma þarf ekki að vera það á öðrum. Svo kann einnig að vera um þessi atriði.

Til þess að unnt sé að taka upplýsta ákvörðun um hvort rétt sé að ráðast í breytingar á núverandi lögum og reglum um vexti og verðtryggingu hef ég skipað nefnd sem falið var að skoða kosti og galla verðtryggingar lánssamninga og meta áhrif þess á innlent fjármálakerfi væri heimild til verðtryggingar afnumin eða settar frekari skorður en þegar er að finna í VI. kafla laga nr. 31/2001. Þegar niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir mun ég fara yfir málið og meta hvort skynsamlegt sé að leggja til að gerðar verði breytingar á framangreindum lögum.

Reynslan sýnir að kostir verðtryggðra lána fyrir almenna lántakendur eru einkum þeir að raunvextir slíkra lána eru lægri en raunvextir óverðtryggðra. Er talið að þar muni um 2–3%. Þá má gera ráð fyrir að greiðslubyrði slíkra lána sé jafnari á lánstímanum. Þó svo að hagsmunir lántakenda skipti vissulega miklu máli megum við ekki gleyma hagsmunum eigenda þeirra fjármuna sem standa að baki útlánum. Í því sambandi vil ég vekja sérstaka athygli á því að verðtryggð útlán eru örugg leið til að ávaxta lífeyrissparnað launafólks og tryggja því áhyggjulausara ævikvöld.

Þótt lægri raunvextir verðtryggðra lána vegi ákaflega þungt í huga mínum, þegar bornir eru saman kostir og gallar verðtryggingar, er aldrei svo að ekki megi benda á kosti óverðtryggðra lána fyrir einstaka lántakendur. Má hér nefna að höfuðstóll óverðtryggðra lána hækkar ekki þótt komi til aukinnar þenslu og verðbólguskots. Vel má hugsa sér að einstaka lántakendur sjái sér frekar hag í hækkun vaxta og aukinni greiðslubyrði afborgana og vaxta sem af slíku leiðir en því að verðtryggður hluti höfuðstóls leggist við höfuðstól og dreifist á eftirstöðvar lánstímans.

Ekki verður sagt að auðvelt sé að koma auga á augljósa kosti afnáms verðtryggðra lána fyrir almenna lántakendur þótt tekið væri dæmi hér að ofan um að einstaka lántakendur kunni að vera í þeirri aðstöðu að þeim væri hagstæðara að greiða hærri raunvexti sem kæmu til sífelldrar endurskoðunar við breytingar á verðlagsþróun. Er væntanlega svo um langflesta lántakendur að þeir hafi miðað áætlun sína frekar við festu hvað varðar greiðslubyrði lána en sveiflur.

Öðru máli gegnir um galla afnáms verðtryggingar. Fyrir það fyrsta má gera ráð fyrir mun hærri raunvöxtum ef verðtrygging væri ekki til staðar. Í öðru lagi mætti að öllu jöfnu gera ráð fyrir að lánveitendur yrðu tregari til að veita lán til jafnlangs tíma og nú er. Í þriðja lagi mætti gera ráð fyrir að vextir yrðu mjög sveiflukenndir. Loks vil ég nefna að hagsmunum lífeyrissjóða til að tryggja félagsmönnum sínum áhyggjulaust ævikvöld kynnu að verða settar verulegar skorður.

Þrátt fyrir allt framansagt og einkum vegna þess að verðtrygging hér á landi hefur verið töluvert til umræðu að undanförnu er rétt að benda á að um árabil hafa lántakendum staðið til boða ýmsir valkostir þegar lán hafa verið tekin. Þannig hefur einn af stóru viðskiptabönkunum boðið óverðtryggð lán í íslenskum krónum til allt að 40 ára.

Þá hafa gengistryggð lán af ýmsu tagi lengi tíðkast. Má jafnvel gera því skóna að afnám verðtryggingar kynni að leiða til þess að lán til almennra lántakenda yrðu almennt gengistryggð. Þá kann að vera vafasamt að binda hendur lántakenda og lánveitenda með valdboði umfram það sem þegar er gert en gildandi lög heimila verðtryggingu lánssamninga en gera hana ekki að skyldu. Frjálsir samningar á milli aðila eru að mínu mati heppilegasta leiðin til að tryggja hag bæði lántakenda og lánveitenda.



[18:08]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra las hér svar sem ég er ekki viss um að hún hafi lesið áður. Ég gat ómögulega vitað hvort hún væri með eða á móti því að afnema verðtryggingu eins og fyrirspurnin gengur út á. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að það vægi þungt í huga hennar varðandi verðtryggingu að raunvextir verðtryggðra lána væru lægri en óverðtryggðra. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að hugsa aðeins til baka. Fyrir u.þ.b. ári síðan áttum við umræður um verðtryggða vexti. Þar var ég með útreikninga yfir ákveðin tímabil sem sýndu að það er bara ekki rétt að raunvextir verðtryggðra lána séu lægri í öllum tilvikum en vextir á óverðtryggðum lánum. Það kom í ljós þegar farið var að skoða málið að raunvextir verðtryggðu lánanna, sem voru með meiri tryggingar en hin, voru hærri þegar upp var staðið. Því hlýtur ráðherra að þurfa að skoða það í huga sér hvort það sem vegur svona þungt í huga hennar á við rök að styðjast eða ekki.



[18:09]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir svörin og fagna því að skipuð skuli hafa verið nefnd til að fara betur yfir þessi mál. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir almenning að komist verði að skýrri niðurstöðu til að upplýsa menn um þetta kerfi sérstaklega þar sem mjög oft hefur verið mikil og neikvæð umræða um verðtrygginguna. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um þær vangaveltur sem eru uppi, t.d. síðast í gær í Kastljósi, um að verðtryggingin gæti í rauninni verið ein af orsökum óstöðugleikans í dag þar sem hún dregur úr áhrifum stýrivaxta Seðlabankans. Mig langar að heyra álit hæstv. ráðherra á þeirri fullyrðingu að verðtryggingin gæti verið orðin ein af orsökum óstöðugleikans.



[18:11]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að ég held að það sé umhugsunarefni fyrir hæstv. forseta hvort hún hefði ekki átt að gera athugasemd hér við ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar þegar hann talar um að hann sé ekki viss um að ráðherrann hafi lesið svar sitt áður. Ég fullyrði að svona hefði ekki verið komið fram við karlmann sem ráðherra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem komið er fram með þessum hætti gagnvart kvenráðherrum. Ég gæti nefnt nokkur dæmi bara frá þessum vetri sem segja mér að það er komið fram með öðrum hætti gagnvart konum sem eru ráðherrar og það er stundum kallað karlremba.

Hvað varðar það svar sem ég gaf hér þá er það þannig að þetta mál er til umfjöllunar í nefnd sem ég hef skipað vegna þess að þetta er mikilvægt mál. Þetta er stórt mál. Við verðum að vita hvað við gerum og hvað við erum að gera ef við förum út í að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur í sambandi við verðtryggingu hér á landi. Við erum með mjög lítið hagkerfi, einstakt á heimsvísu. Það er örsmátt og þess vegna erum við viðkvæm fyrir öllum sveiflum. Við sem komin erum yfir miðjan aldur, ég leyfi mér að segja það, munum líka eftir þeim tíma þegar sparifé brann upp í verðbólgu. Við getum ekki kallað slíkt yfir okkur aftur.

Þær sveiflur sem verið hafa á síðustu vikum segja okkur að við erum ekki komin í gegnum það að hér geti ekki komið upp verðbólga aftur, því miður. Auðvitað eru það mikil vonbrigði að verðbólgan er allt of há einmitt nú eins og málin standa í dag.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það að einmitt þessi verðtrygging geti valdið óstöðugleika í efnahagskerfinu en ég tel þó að svo sé ekki vegna þess að aðalvandamálið hjá okkur er það að við getum því miður (Forseti hringir.) ekki treyst því að við höldum stöðugleika í efnahagskerfinu til framtíðar og þess vegna tel ég a.m.k. miklar líkur á (Forseti hringir.) að verðbólgan haldi áfram að kræla á sér.



[18:13]
Jón Gunnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég óskaði eftir því úr salnum að fá að bera af mér sakir eftir þessa undarlegu ræðu hæstv. ráðherra. Mér var það ekki heimilað og því kem ég upp til að ræða fundarstjórn forseta.

Þegar ræðumenn í þessum stól hafa uppi ásakanir í garð þingmanna um karlrembu eða eitthvað slíkt verður að vera einhver fótur fyrir slíku. Þegar slíkar ásakanir eru bornar á mann úr þessum ræðustól hlýtur maður að mega bera af sér sakir. Því kem ég upp undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta.

Sá sem hér stendur hefur haft uppi svipuð orð um aðra ráðherra þegar þeir koma hingað og lesa svör sem virðast vera samin af embættismönnum í ráðuneytum þeirra og (Forseti hringir.) skiptir þá engu hvort um er að ræða konu eða karl.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

Frú forseti. Ég veit ekki til þess að ég hafi haft uppi nein ótilhlýðileg orð hér. Ég frábið mér að vera kallaður karlremba í þessum stól þegar engar slíkar sakir eiga við rök að styðjast. Ég hef fullt leyfi til að hafa uppi slík orð um ráðherra sem koma hér og lesa svör embættismanna, hvort sem þeir eru konur eða karlar.