132. löggjafarþing — 119. fundur
 1. júní 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:32]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek til máls um störf þingsins til að beina spurningu til forseta þingsins, hafði reyndar gert ráð fyrir því að aðalforseti þingsins sæti á forsetastóli en það breytir svo sem ekki öllu. Ég beini spurningu minni að sjálfsögðu til forsetaembættisins. Spurningin er sú hvort forseti þingsins hyggist ekki kalla fulltrúa þingflokka saman til að ræða þau mál sem upp komu í tengslum við fyrirlestur sem Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hélt nýverið þar sem hann leiddi í ljós m.a. að hér hefðu á árunum 1949–1968 verið stundaðar nokkuð umfangsmiklar hleranir á símum bæði samtaka, einstaklinga og ekki síst þingmanna. Þarna er um að ræða þekkt tilvik og í hvert eitt sinn eru það fjölmargir símar sem eru hleraðir.

Nú sé ég að það er komin fram þingsályktunartillaga frá forsætisráðherra um að taka á því með hvaða hætti aðgangur verði opnaður að ýmsum skjölum sem varða öryggismál þjóðarinnar, bæði hin ytri og innri öryggismál, og það er góðra gjalda vert. Eftir sem áður finnst mér standa eftir hvernig við ætlum að taka á þeim alvarlegu upplýsingum sem komu fram í erindi Guðna Th. Jóhannessonar.

Forseti þingsins, Sólveig Pétursdóttir, sagði í viðtali við Morgunblaðið að hún teldi að mörg úrræði væru til til að rannsaka símhleranir. Í ljósi þeirra ummæla forsetans hefði ég talið eðlilegt að forseti beitti sér fyrir því að fulltrúar þingflokka hittust, færu yfir þetta og kæmust að sameiginlegri niðurstöðu um með hvaða hætti við mundum taka á þessum málum. Eins og ég sagði er hér um alvarleg mál að ræða. Tugir af símum voru hleraðir og í mörgum tilvikum var um alþingismenn að ræða. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til forseta.



[10:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég skora sömuleiðis á hæstv. forseta fyrir hönd Alþingis og okkar allra að taka þetta mál föstum tökum og legg til að það verði sett í sambærilegan farveg og þann sem gert var á hinum Norðurlöndunum. Þannig var það til að mynda norska Stórþingið sem tók þetta mál alfarið á sínar hendur og stýrði því hvernig Norðmenn rannsökuðu, upplýstu og í framhaldinu brugðust við þeim tíðindum sem þar urðu fyrir um tíu árum, að upp komst um stórfelldar símhleranir, persónulegar njósnir, pólitískar njósnir.

Tillaga hæstv. forsætisráðherra er allt of takmörkuð og tekur aðeins á einum afmörkuðum þætti þessa máls, þ.e. það sem varðar aðgang að gögnum, og er það gott svo langt sem það nær, en ekki á nokkurn hátt á þeim stórfelldu pólitísku njósnum sem hér hafa greinilega verið stundaðar um árabil þar sem almannasamtök, verkalýðshreyfing, stjórnmálahreyfingar og þingmenn hafa verið skipulega hleraðir. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að þetta snýst m.a. um að þinghelgi þingmanna hafi verið rofin og þeir sætt stórfelldum persónulegum njósnum. Þau mál hlýtur að þurfa að rannsaka og leggja öll spil á borðið.

Þetta snýr líka að því að taka til skoðunar varðandi framhaldið með hvaða hætti við tryggjum að slíkir hlutir gerist aldrei aftur. Þar hafa menn yfirleitt gripið til þess ráðs að þjóðþingin sjálf hafa eftirlits- eða vöktunarnefnd sem vakir yfir því að heimildum til persónulegrar upplýsingasöfnunar, svo sem símhlerana, sé aldrei misbeitt í pólitískum tilgangi. Við verðum að taka þessa hluti alvarlega, frú forseti, og það snýr að þinginu að gera það. Það eru öll rök til þess.



[10:37]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Út af orðum hv. þingmanna vil ég benda á að fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga þar sem gert er ráð fyrir að farið verði yfir öll þessi mál og þau rannsökuð af utanaðkomandi aðilum og skýrslu síðan skilað til Alþingis eigi síðar en í árslok 2006. Er nú ekki nauðsynlegt vegna þessa máls sem liggur í fortíðinni að gefa sér nokkurn tíma í að komast að hinu sanna í málinu og upplýsa allt sem það varðar? Í framhaldi af því getur Alþingi að sjálfsögðu tekið sínar ákvarðanir.

Ég ætla ekkert að fullyrða um það hver hafi verið að hlera og í hvaða tilgangi né að verja það á nokkurn hátt. En ég tel hins vegar nauðsynlegt að menn viti hið sanna í málinu og gefi sér tíma til þess. Hér er um að ræða valinkunna, óháða utanaðkomandi aðila sem eiga að skila um það skýrslu til Alþingis og það er fyrst þá og í framhaldi af því sem hægt er að taka ákvörðun um það hvernig verður farið í málið. Ég vænti þess að hv. alþingismenn geti sameinast um það.



[10:39]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst einboðið að Alþingi komi beint að þessu máli. Brot á þinghelgi er mjög alvarlegur hlutur og það hlýtur að vera eðlilegt að þingflokkarnir komi að þessu frá upphafi, skoðun þess og yfirferð. Ég tel að þingflokkarnir eigi að hafa fulltrúa við að skoða þessi mál. Ég geri ekki lítið úr þeirri tillögu sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram og tel að þar sé um valinkunna menn að ræða. En ég tel að það sé einboðið að þingmenn fyrir hönd þingflokka komi að þessu máli og fylgi því eftir frá upphafi.

Auðvitað hljótum við að skoða þetta mál sérstaklega með tilliti til þess að slíkir hlutir, sem upplýstir hafa verið, gerist aldrei aftur. Við munum að sjálfsögðu ekki fara í þann leik með slíkt mál að ástæða sé til að fara að hengja menn úr fortíðinni ef þannig má taka til orða. En fyrir framtíðina er nauðsynlegt að þingflokkar á Alþingi komi beint að þessum málum.



[10:40]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að rannsaka þessi mál öll og reyna að gera það með hlutlægum og fræðilegum hætti og reyndar eru fyrir því ýmis fordæmi frá nágrannalöndum að saga kaldastríðsáranna sé rakin og rannsökuð ítarlega. Ríkisstjórnin hefur flutt tillögu um að setja á laggirnar nefnd valinkunnra einstaklinga, þ.e. stjórnarformanns Persónuverndar, þjóðskjalavarðar, forseta Sögufélagsins, skrifstofustjóra Alþingis og formanns stjórnmálafræðiskorar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi á árunum 1945–1991, í vörslu opinberra aðila. Þarna verður að byrja. Þessi svokölluðu hlerunarmál eru auðvitað einn þátturinn í þessu. Hins vegar finnst mér að menn eigi að fara varlega í fullyrðingar um þessi atriði, að tala um að brotin hafi verið þinghelgi á mönnum o.s.frv. Við skulum fara varlega í að hrapa að einhverjum niðurstöðum fyrir fram um þetta. Þetta eru margþætt mál og áreiðanlega ýmislegt fróðlegt í þeim gögnum sem ætlunin er að veita fræðimönnum frjálsan aðgang að á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu og mér þætti eðlilegast að þingið reyndi að sameinast um hana. Ef það kemur síðan í ljós þegar skýrslan liggur fyrir að hún nægi ekki þá geta menn gert upp við sig með hvaða hætti best er að halda áfram í málinu.



[10:42]
Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þær hleranir sem upplýstar hafa verið í rannsóknum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings eru grafalvarlegt mál og ekki síst í ljósi þess að þar er að því vikið að hugsanlega hafi þinghelgi verið rofin. Það sem er hins vegar merkilegra, hæstv. forseti, er að ríkisstjórnin hefur brugðist mjög hratt og örugglega við og tillaga forsætisráðherra til þingsályktunar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál er auðvitað fyrsta skrefið í þessu máli.

Ég vek athygli á því að í þessari tillögu er gert ráð fyrir að gögn verði rannsökuð allt til ársins 1991. Rannsóknir Guðna Th. Jóhannessonar náðu til ársins 1976 þannig að það getur verið að eitthvað frekara komi í ljós frá 1976–1991 þó að ekkert hafi komið fram um hleranir á 8. áratugnum í rannsóknum Guðna.

Ég tel hins vegar mikilvægt að í stað þess að við eyðum tíma í að ræða um störf þingsins verði þessi þingsályktunartillaga sett á dagskrá sem fyrst og fái þinglega meðferð. Ef hún er of takmörkuð, eins og fram kom í máli hv. þingmanna áðan, getur Alþingi gert breytingu á henni í meðferð sinni. Alþingi kemur beint að málinu og það eru hv. alþingismenn sem eiga endanlegt vald um það hvernig þingsályktun þingsins hljóðar.



[10:44]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er sá að rannsókn á þessu máli, rannsókn á þeim grófu símhlerunum sem virðast hafa átt sér stað á þessum tíma samkvæmt erindi Guðna Th. Jóhannessonar, á að sjálfsögðu að vera á forræði Alþingis. Sú rannsókn og skipan í þá rannsóknarnefnd á að vera á forræði Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins. Um það snýst þetta mál og því nær tillaga hæstv. forsætisráðherra svo skammt að hún dugir varla til. Þingið á að sjálfsögðu að koma að málinu og þar á að leiða til lykta um hverja var njósnað, hvernig voru upplýsingarnar notaðar, hvaða þingmenn var njósnað um, hvernig var brotið á fjölmiðlum, þingmönnum o.s.frv.

Vísbendingar eru um það í þessu erindi að þar hafi átt sér stað ákaflega gróf brot á friðhelgi einkalífs þeirra manna sem þar um ræðir og er málið augljóslega angi af því pólitíska ofstæki sem sjálfstæðismenn ráku í landinu gagnvart vinstri mönnum á þessum tíma áratugum saman. Rannsóknin á því að sjálfsögðu að vera á forræði Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins eins og hér er lagt til. Þannig á að leiða málið til lykta og tillaga forsætisráðherra dregur úr alvarleika og umfangi málsins eins og hún er sett fram þar sem um er að ræða starfsemi sem virðist hafa verið sett fram í þeim pólitíska tilgangi að klekkja á andstæðingum valdhafa á þeim tíma.

Ef vísbendingar og upplýsingar í erindinu eru réttar er um að ræða njósnir á pólitískum andstæðingum í þeim tilgangi að klekkja á þeim og rannsókn á þessu máli og þessum málum öllum á að sjálfsögðu að vera á forræði Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins eins og hér er lagt til. Tillaga hæstv. forsætisráðherra gengur því of skammt og þess vegna er sú ósk sem fram er komin, um að formenn þingflokkanna skipi slíka nefnd, sjálfsögð. Ástæða er til að skora á hæstv. forseta að verða við þeirri ósk.



[10:46]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar í sambandi við þetta mál að rifja upp að fyrir hálfu ári lagði ég fram, ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingar hér á Alþingi, sérstakt lagafrumvarp sem gerir ráð fyrir óháðum rannsóknarnefndum. En ólíkt þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra eru lagðar til í þessu frumvarpi sérstakar málsmeðferðarreglur og rannsóknarheimildir. Þar er m.a. tekið tillit til samspils við upplýsingalög.

Þess vegna væri að mínu mati tilvalið fyrir slíka rannsóknarnefnd sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að skoða hvort pólitískar símhleranir hafi átt sér stað á tíma kalda stríðsins.

Í íslenskum rétti er nefnilega ekki gert ráð fyrir skipun almennra rannsóknarnefnda að frumkvæði Alþingis sem geta rannsakað mál sem varða mikilvæg mál eða stjórnvaldsathafnir er varða almannahag. Þetta frumvarp mundi bæta úr því og mundi setja ákveðinn lagaramma um slíka vinnu og væri því algerlega nýtt úrræði í íslensku samfélagi.

Víða í nágrannaríkjum okkar er einmitt að finna lög um svona óháðar rannsóknarnefndir. Umrætt frumvarp byggist m.a. á danskri fyrirmynd. En ég held að þetta mál sem hér er til umræðu sýni einmitt að við höfum þörf fyrir slík úrræði, þ.e. að eiga möguleika á að skipa óháðar rannsóknarnefndir. Ég legg til að þingheimur leggist nú yfir þetta litla frumvarp og skoði hvort ekki sé hægt að nýta eitthvað úr því eða samþykkja það í heild sinni vegna þess að þetta er án efa ekki síðasta málið sem þarf að rannsaka í þessu samfélagi.



[10:48]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að það viðfangsefni sem hér hefur verið vakið máls á virðist nú fyrst og fremst vera sagnfræðilegt viðfangsefni, þ.e. að verið er að leiða í ljós atburði sem áttu sér stað fyrir einhverjum áratugum. Til þess að menn geti rætt um þá af einhverri þekkingu og sanngirni er auðvitað nauðsynlegt að gögnin sem umræðan hlýtur að byggja á liggi fyrir. Tillaga hæstv. forsætisráðherra gengur að sjálfsögðu út á að óháðum fræðimönnum verði veittur aðgangur að gögnum sem skipta máli í þessu sambandi. Um það snýst málið og á ekki að þurfa að vera neitt ágreiningsefni.

Ég sé ekki að það sé tilefni til þess að þingið, þingmenn eða fulltrúar þingflokka, eins og nefnt hefur verið í umræðunni, eigi aðild að þeirri vinnu. Í tillögunni eins og hún liggur fyrir er gert ráð fyrir að embættismenn og sérfræðingar sem allir eiga að vera vel til þess fallnir að leggja mat á þessi gögn komi að því verki. Ég held að þeir hljóti að vera miklu betur til þess fallnir en einstakir þingmenn eða fulltrúar þingflokka.

Í þessari umræðu blanda menn oft saman óskyldum hlutum, t.d. athugunum sem hljóta að beinast að fortíðinni og stöðunni í dag. Við búum auðvitað við annað lagaumhverfi í dag en var á þeim tíma sem hér um ræðir. Meðal annars í því sambandi að nú ber að tilkynna mönnum um það ef t.d. símar hafa verið hleraðir hjá þeim þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess ekki lengur. Þannig að umhverfið er breytt að því leyti.

Við getum rætt frekari breytingar um rannsóknarheimildir lögreglu í framtíðinni. (Forseti hringir.) En þetta sagnfræðilega viðfangsefni byggir á að menn leiði í ljós (Forseti hringir.) hvaða gögn eru fyrir hendi og þingið getur síðan tekið afstöðu á grundvelli þeirra (Forseti hringir.) gagna.



[10:51]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hér sé um að ræða sagnfræðilegt viðfangsefni. Gott og vel. En við skulum ekki gleyma því þegar horft er til þeirra tíma sem þessar hleranir taka til þá var því alltaf vísað á bug að þær ættu sér stað. Því var alltaf vísað á bug að hér ættu sér stað pólitískar hleranir. Pólitískar hleranir á að ræða á pólitískum vettvangi.

Fram hefur komið að á meðal þeirra sem njósnað hefur verið um og símar hleraðir hjá voru alþingismenn. Hér er eflaust fyrst og fremst um að ræða þá sem gagnrýnt höfðu hersetu Bandaríkjamanna á Íslandi og vildu tryggja herlaust og sjálfstætt Ísland.

Þessi mál verður að upplýsa og það er fráleitt annað en að Alþingi hafi forgöngu í þessu efni og málið sé alfarið á vegum Alþingis. Einhliða ráðslag formanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um framgöngu málsins er fráleit.

Reyndar er það svo að liður í þessari rannsókn gæti verið stofnun nefndar á borð við þá sem hér er lagt til. En þar þarf Alþingi hins vegar að koma að. Ég beini þeim orðum til ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra að leitað verði eftir samkomulagi við þingflokkana, fulltrúa allra þingflokka hér á Alþingi um endurskoðun á því þingmáli sem hér hefur verið lagt fram. Það er ekki fullnægjandi eins og það liggur fyrir. Það er enn hægt að breyta því og til sátta legg ég til að ríkisstjórnin leiti til stjórnarandstöðuflokkanna um sátt í þessu máli.



[10:53]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það er eiginlega mjög undarlegt að heyra hv. þingmenn koma hér og reyna að búa til einhvern ágreining í þessu máli. Ágreining sem verður ekki séð að sé til staðar.

Umræðuefnið er þingsályktun. Það má eiginlega segja að hún fjalli um að sannleikurinn geri yður frjálsa. Hún gengur út á að draga fram staðreyndir, draga fram sögulegar staðreyndir til að fá úr því skorið hvað gerðist. Hverjir eiga að annast það? Hvorir ætli séu betur til þess fallnir að draga fram staðreyndir og sannleikann, einstakir hv. þingmenn eða þeir sem gert er ráð fyrir hér í þingsályktun hæstv. forsætisráðherra, þ.e. fulltrúi Persónuverndar, þjóðskjalavörður, forseti Sögufélagsins, skrifstofustjóri Alþingis og formaður stjórnmálafræðiskorar Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands? Það stendur hér jafnframt að þeir eigi að hafa aðgang að öllum fáanlegum upplýsingum sem til eru. (Gripið fram í.) Síðan á að leggja skýrslu þessara sérfræðinga fyrir hv. Alþingi. (Gripið fram í.) Þá geta alþingismenn tekið málið upp og rætt það fram og aftur.

Frú forseti. Ég skil ekki alveg hvers vegna er verið að reyna að búa til ágreining þar sem þetta mál er að sjálfsögðu alvarlegt. Það er enginn sem neitar því að allar vísbendingar bendi til að ólöglegar persónunjósnir hafi átt sér stað. Við þurfum að fá sannleikann fram og við þurfum að geta rætt málið á grundvelli staðreynda en ekki getgátna. Út á það gengur þetta mál, frú forseti.