132. löggjafarþing — 119. fundur
 1. júní 2006.
um fundarstjórn.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:55]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég byrjaði umræðuna áðan á að beina spurningu til forseta þingsins. Ég varð ekki vör við að ég fengi neitt svar frá forseta Alþingis. Ég fékk hins vegar svar frá forsætisráðherra og ég fékk svar frá utanríkisráðherra sem greinilega stjórna orðið öllu þinghaldinu og stjórna því með hvaða hætti Alþingi tekur á málum sem að því snúa.

Ég vitnaði í ummæli í blöðunum sem höfð voru eftir forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, sem sagði að Alþingi hefði auðvitað ýmis úrræði til að takast á við þetta mál. Ég hefði talið það alveg fullkomlega eðlilegt og venjulega kurteisi við þingmenn í stjórnarandstöðu að fulltrúar þeirra væru kallaðir til til þess að ráðslaga um með hvaða hætti þingið tæki á þessu máli.

Auðvitað getur framkvæmdarvaldið opnað öll sín skjalasöfn ef það svo kýs. Það þarf ekki atbeina Alþingis til þess. Það er gott að þeir geri það og fræðimenn komist í þau.

En Alþingi verður að taka á því og þeirri staðreynd að það var dómsmálaráðherra á hverjum tíma sem fór fram á að símar hjá pólitískum andstæðingum hans væru hleraðir. Símar alþingismanna. Um þetta þarf þingið að fjalla og ræða og það á að gera það án atbeina dómsmálaráðherra, án atbeina forsætisráðherra eða utanríkisráðherra.

Ég beindi þessari spurningu til hæstv. forseta og ég fer fram á að fá einhver svör um það hvort forseti hyggist beita sér fyrir því að fulltrúar þingflokkanna, að þingflokksformenn verði kallaðir til fundar til að fjalla um með hvaða hætti sé hægt að ná pólitískri sátt um hvernig við tökum á þessu máli. Hér er ekki um það að ræða að fara að fella einhvern dóm yfir sögunni. Það er einfaldlega um það að ræða að kalla eftir þeim gögnum úr dómsmálaráðuneytinu þar sem farið hefur verið fram á að símar væru hleraðir. Skoða af hverju um það var beðið, hjá hverjum og gefa þeim einstaklingum sem fyrir því urðu upplýsingar um að símar þeirra hafi verið hleraðir.

Hv. þm. Birgir Ármannsson vísaði til þess að í dag bæri að tilkynna mönnum ef hleranir hefðu verið stundaðar á símum þeirra. Það er réttarframkvæmdin í dag.

Er ekki kominn tími til að við tilkynnum því fólki sem varð fyrir hlerunum á þessum árum að símar þeirra hafi verið hleraðir? Svo þeir og afkomendur þeirra viti af því.



[10:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hafði vonast til að virðulegur forseti mundi kannski bregðast við í lok umræðunnar og/eða virðulegum forsætisráðherra, hæstv. forsætisráðherra yrði gefið orðið til að bregðast við því sem að honum var beint.

Okkar óskir snúa að því að þingið taki sjálft þetta mál fyrir og ákveði í gegnum stofnanir sínar hvernig farið verði með málið af þess hálfu. Liður í því gæti að sjálfsögðu verið að ræða hvort samkomulag gæti tekist um breytingar, eftir atvikum afgreiðslu, á þessari þingsályktunartillögu. Ég útiloka það síður en svo að hún í breyttri mynd geti verið hluti af því hvernig tekið sé á málinu í heild sinni.

Tillagan er gölluð. Það er mjög dapurlegt að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki byrja á að hafa þverpólitískt samráð um þetta mál. Það hefði að mínu mati verið hinn eðlilegi framgangsmáti í staðinn fyrir að undirbúa einhliða tillögu af hálfu framkvæmdarvaldsins, að vísu ágætishugmynd í sjálfu sér að fræðimenn fari yfir þessi gögn. En, frú forseti, þeir eiga hvorki að gera það í samráði við Alþingi né í samráði við fulltrúa þingflokka. Þeir eiga að gera það í samráði við ráðuneytin sem áttu hlut að máli á sínum tíma. Bæði utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið eru auðvitað á bólakafi í þessu máli. Það vita allir. Ég verð að segja að það hefði verið algert lágmark að þarna hefðu fulltrúar þingflokka þá líka komið að máli.

Það er alveg augljóst að framkvæmdarvaldið er með þessu að reyna að fara í gegnum Alþingi og fá blessun á að það haldi algerlega utan um málið. Það er sem sagt Alþingi sem á að álykta um að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd í staðinn fyrir að gera það sjálft. Sú nefnd á að starfa í samráði við ráðuneytin. Með þessu er verið að leggja upp klókindalegt verklag að því er virðist til að fara fram hjá Alþingi með málið.

Þetta er nákvæmlega sama byrjunin og var á málinu í Noregi. Þegar norska kratastjórnin reyndi allt sem hún gat til að drepa málinu á dreif enda var hún ekki í góðum málum. Hafði rekið flokkinn og leyniþjónustuna eins og deild hvort í öðru. Hvernig fór það að lokum? Þingið lét ekki bjóða sér það. Norska Stórþingið lét ekki bjóða sér það. Tók málið af ríkisstjórninni og sá alfarið um það sjálft hvernig það væri rannsakað og upplýst.

Ég vona að ekki þurfi að koma til þess hér að taka verði málið af ríkisstjórninni. En það er óhjákvæmilegt að leggja það til ef ríkisstjórnin býður ekki upp á eitthvert samstarf um þetta mál.

Ég legg því til að við ræðum hvort samkomulag geti orðið um breytingar og afgreiðslu á þessari tillögu samhliða því að Alþingi ákveði hvernig það setur málið að öðru leyti í farveg af sinni hálfu.



[11:01]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hlýt að ítreka óskir hv. þingmanna sem hér á undan hafa talað um að forseti svari þeim fyrirspurnum sem beint hefur verið til hennar. Í þeirri þingsályktunartillögu sem menn hafa bent á er það eitt sagt að nefnd eigi í samráði við þrjá ráðherra að ákveða, eins og hér stendur, með leyfi forseta, „frjálsan aðgang fræðimanna“ að tilteknum gögnum. Þetta er sérkennileg notkun á lýsingarorðinu frjáls, sem sé að nefnd og ráðherrar eiga að ákveða hinn frjálsa aðgang. Það sem þetta þýðir á einföldu máli er að það á að ákveða hvernig hindra skuli aðgang manna að þeim gögnum sem hér er um að ræða vegna þess að ráðherrarnir þrír og ríkisstjórnin öll sem ber þetta frumvarp fram getur sem hægast með einu orði opnað aðgang fræðimanna, almennings, fjölmiðlamanna og allra þeirra sem vilja að þeim gögnum. Hún þarf ekki tilstyrk þingsins til þess. Þingið þarf hins vegar að rannsaka þetta sjálft vegna þess að málin snúa í fyrsta lagi að valdsviði þess og í öðru lagi að því sjálfu.

Geir Haarde, hæstv. utanríkisráðherra mun hann vera núna, bætti um betur í þessu máli þegar hann hvatti menn til að fara varlega, til að tala varlega. Ég tek undir þá almennu hvatningu, en um hvað áttu menn að tala varlega? Menn áttu að tala varlega um það að brotin hefði verið þinghelgi á þeim þingmönnum sem menn vita að símar voru hleraðir hjá. Hvað þýða þessi orð hæstv. utanríkisráðherra, Geirs Hilmars Haardes? Þau þýða að hann er að segja okkur að ef til vill sé þinghelgi ekki brotin með því að hlera síma þingmanna. Þetta er, forseti, mál sem forseti þingsins á alveg sérstaklega að íhuga og kanna og segja okkur hvort rétt er. Er það þannig að við þingmenn á þinginu, alveg eins og þeir sem símar voru hleraðir hjá á árum sem liðin eru, að það sé ekki brotin á okkur þinghelgi með því að hlera símana okkar? Er það svo, forseti? Er það svo að það sé rétt hjá Geir Hilmari Haarde, hæstv. utanríkisráðherra, að hann og dómsmálaráðherra megi láta hlera síma þingmanna án þess að þinghelgi sé rofin? Það er þá algjörlega nýr skilningur á því máli og algjörlega nýr skilningur á lýðræðislegum vinnubrögðum í landinu.

Þessi yfirlýsing Geirs Hilmars Haardes ein sér krefst þess að málið verði rannsakað á þingsins vegum, auk þess að hinn frjálsi aðgangur verði ósköp einfaldlega veittur og það geta þeir gert sem sitja á ráðherrastólunum bara núna á eftir ef þeir vilja og þurfa ekki þessa tillögu til.



[11:04]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er eins og fyrri daginn að menn nota þennan lið um fundarstjórn forseta til að fara í efnislega umræðu um mál. Hvers lags eiginlega er þetta þegar hér liggur fyrir mál, þingsályktunartillaga, sem hægt er að ræða efnislega í þinginu? Það er búið að gera samkomulag um hvernig þessi þingstörf eigi að ganga fram í dag og þetta eru efndirnar. Það er farið í efnislega umræðu um þingsályktunartillögu undir liðnum um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Ég geri mjög verulegar athugasemdir við fundarstjórn forseta að hún skyldi ekki stöðva þessa umræðu því að þetta er ekki til sóma fyrir okkur og þessi (Gripið fram í.) þingsályktunartillaga sem liggur fyrir á auðvitað að ræðast sem slík en ekki undir liðnum um fundarstjórn forseta. Þetta vinnulag gengur ekki hér í þinginu og ég geri athugasemdir við það, hæstv. forseti.



[11:05]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að kalla eftir því að forseti svari þeim fyrirspurnum sem lagt var af stað með í upphafi og kalla eftir svörum við því hvort ekki væri rétt að kalla þingflokksformenn saman til að ræða þetta og reyna að ná pólitískri sátt í málinu vegna þess að fyrir liggur tillaga frá ríkisstjórninni um að Alþingi samþykki að fela stjórnvöldum að rannsaka brot stjórnvalda í fortíðinni. Það er það sem hér liggur fyrir og það er það sem verið er að gera athugasemdir við. (Gripið fram í.) Hér er um mjög alvarlegan tíma að ræða (Gripið fram í.) og miklar deilur sem áttu sér stað og það er mikilvægt, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan, að sannleikurinn komi í ljós. Verið er að kalla eftir að fara þá leið sem er líklegust til að sannleikurinn komi í ljós.

Það er ekki par sannfærandi að stjórnvöld skuli leggja fyrir Alþingi tillögu um að stjórnvöld rannsaki brot stjórnvalda í fortíðinni. Menn eru að tala um, virðulegi forseti, að þetta skuli gert með þeim hætti að líklegra sé að rétt niðurstaða fáist og menn eru að kalla eftir því í umræðu um stjórn fundarins að forseti svari því hvort forseti ætli að kalla saman þingflokksformenn til að ræða það að ná pólitískri sátt í málinu til að tryggja að menn fái trú á því að sú leið sem á að fara sé líkleg til að skila réttri niðurstöðu. Það er kjarni málsins.

Auðvitað geta hinir ýmsu hv. þingmenn hlaupið hér upp og goldið varhuga við því að nokkur umræða fari fram um mál sem menn vilja helst ekki ræða og ekkert óeðlilegt að einhverjir þingmenn geri það. Það er mjög algengt og við þekkjum það að þegar umræðan er óþægileg þá sé rétt að hlaupa hér upp og æpa og góla í ræðustólnum.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram að þessum fyrirspurnum verði svarað. Mér finnst einnig alveg fráleitt að hv. þingmenn séu að skýla sér á bak við að þeir einstaklingar sem eru tilnefndir í tillögunni séu ekki hæfir. Þeir eru fullkomlega hæfir. Hins vegar er spurningin á forræði hvers þessi rannsókn eigi að fara fram og hverjar eru heimildir þeirra sem eiga að skoða þessi mál til að líklegt sé að sannleikurinn komi í ljós, að sannleikurinn geri menn frjálsa, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason fór yfir í ágætri ræðu sinni.



[11:08]
Forseti (Jónína Bjartmarz):

Forseti ætlar þegar hér er komið sögu að öll sjónarmið þessa máls séu komin fram í þessari umræðu, fyrst um störf þingsins og síðan um fundarstjórn forseta. Það liggur fyrir að málið verður ekki til lykta leitt í þessari umræðu. Forseti þingsins, Sólveig Pétursdóttir, hefur lýst því yfir að margar leiðir séu færar til að taka á þessu máli. Ein þeirra leiða hefur verið farin með því að lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga. Það er ekkert sem bannar að um það verði þverpólitísk sátt hvernig efni þeirrar tillögu verður, þegar sú tillaga kemur hér til þinglegrar meðferðar og þá er tilefni til að sú umræða haldi áfram sem hér hefur farið fram í dag.

Forseti sá sem nú er á forsetastóli ræður þetta mál ekki til lykta hér og mun ekki boða formenn þingflokka til fundar um þetta mál en ég geri ráð fyrir að þetta verði rætt og hægt verði að ná þverpólitískri sátt við þinglega meðferð málsins.