132. löggjafarþing — 119. fundur
 1. júní 2006.
samstarf til að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi, síðari umræða.
þáltill. HBl o.fl., 542. mál. — Þskj. 789, nál. 1144.

[11:39]
Frsm. utanrmn. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um samstarf til að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi.

Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að efna til samstarfs við landsstjórnir Færeyja og Grænlands til að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi. Með ályktun nr. 3/2005 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 22.–24. ágúst 2005 voru ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands hvattar til að efna til samstarfs um að styrkja rannsóknir á hvalastofnum í Norður-Atlantshafi og að tryggja með talningu raunhæfar upplýsingar um stofnstærðir hvala í Norður-Atlantshafi hvort sem um er að ræða friðaðar eða kvótaveiddar tegundir.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Að nefndarálitinu standa Halldór Blöndal, Össur Skarphéðinsson, Magnús Stefánsson, Drífa Hjartardóttir, Jón Gunnarsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



[11:40]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég lýsi mig sammála þessari tillögu og tel að hér sé verið að hreyfa mjög þörfu máli. Hér er talað um bæði stofnstærðir friðaðra sem kvótaveiddra hvala í Norður-Atlantshafi eins og það er orðað í tillögunni. Ég hygg einmitt að nauðsynlegt sé að fara að taka upp víðtækar rannsóknir á stofnum hvala sem friðaðir hafa verið í áratugi. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna hvalategundina hnúfubak sem var friðuð árið 1956, ef ég man rétt, og hefur verið alfriðuð síðan. Það er samdóma álit allra sem stundað hafa fiskveiðar við Ísland og ég hygg einnig hafrannsóknarmanna að þessari hvalategund, hnúfubaknum, hafi fjölgað mjög á síðustu árum og áratugum. Ég get talað af eigin reynslu, sem fyrrverandi skipstjóri til margra ára, um þá fjölgun sem við sáum á fiskimiðunum við Ísland frá því á árunum milli 1960 og 1970 og til þess tíma sem ég stundaði fiskveiðar eða fram undir 1995. Ég heyri það á mörgum kollegum mínum úr skipstjórnarmannastétt að þeir eru sannfærðir um að hnúfubaksstofninn sé orðinn verulega stór við Ísland og menn verða auðvitað mjög varir við hnúfubakinn við veiðar á loðnu og fleiri uppsjávartegundum þar sem þessi dýr halda sig og nýta þessa fæðustofna.

Friðun einhverra dýrategunda getur aldrei varað að eilífu, um ár og aldir. Við nýtum lífríki sjávar á þann hátt sem við gerum og það gera allar þjóðir í Norður-Atlantshafinu og samspil í lífríki sjávar hefur auðvitað áhrif þar á. Það er deilt um hve mikið það er og hversu víðtækt það er en það er alveg ljóst að það hefur áhrif og okkur ber auðvitað að reyna að öðlast þekkingu á því hvernig þetta samspil er. Það hefur því miður ekki verið gert varðandi hnúfubaksstofninn á undanförnum árum. Við höfum ekki stundað þar neinar tilraunaveiðar og vitum í raun og veru sáralítið um stofninn og nýtingu hans á fæðuuppsprettu sjávarins.

Þetta var eitt atriðið sem ég vildi nefna, hæstv. forseti. Ég tel hins vegar að þessi tillaga hefði mátt vera víðtækari, hún hefði mátt snúa að selastofnum í Norður-Atlantshafi sem eru mjög lítið nýttir núna með veiðum miðað við það sem áður var. Það voru einkum Norðmenn sem stunduðu veiðar á úthafssel í Norður-Atlantshafi, þeir byrjuðu þær veiðar í svokölluðum vesturís norður af Jan Mayen þar sem farið var inn í ísinn snemmvetrar og selagöngunum og reki íssins fylgt suður í Grænlandssund fram á vor. Ég held að aðeins eitt skip hafi stundað þessar selveiðar í vetur. En það hefur komið í ljós og hefur verið sagt frá því í blöðum í viðtölum við skipstjórann sem stjórnaði þessu skipi að mjög mikið af sel sé í sundinu á milli Íslands og Grænlands og það væri í raun og veru ekki nema sex tíma sigling frá Ísafirði og út á selamiðin við ísröndina og inni í ísnum í sundinu milli Íslands og Grænlands. Það vill svo til að þessi staðsetning er fast upp við fiskimið okkar Íslendinga á þorski og uppeldisslóð þorsksins fyrir vestan og norðan land og af sjálfu leiðir að vaxandi selastofn hlýtur að hafa áhrif á notkun okkar og möguleika til að nýta lífríki okkar á þann hátt sem við viljum.

Ég vil benda á það í lok máls míns að ég tel að við hefðum einnig átt að huga að öðrum sjávarspendýrum í þessari tillögu eins og selunum. Stofnar vöðusels og blöðrusels fara örugglega mikið vaxandi í ísnum og við ísröndina norður af landinu og það er auðvitað þekkt að þegar slíkir dýrastofnar vaxa mikið fara þeir í svokallaðar ætisgöngur, ganga inn á fiskimiðin til öflunar viðurværis og gera oft usla við veiðar fiskimanna og eru stórtækir í nýtingu á stofnum sem gefa þeim mikla orku. Þar er þorskurinn auðvitað í ágætisuppáhaldi og oft sjá fiskimenn selbitinn fisk þar sem selurinn tekur eingöngu kviðinn, hrognin og lifrina sem gefur mesta orku en lætur allt annað eiga sig. Sama er auðvitað þekkt í grásleppuveiðum þar sem selurinn nýtir sér fyrst og fremst það sem mesta orku gefur en lætur grásleppuna óétna að öðru leyti.

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum að taka þetta til nánari skoðunar varðandi sjávarspendýrin almennt. Ég hvet til samþykktar þessarar tillögu en ítreka að mér finnst að hún hefði mátt vera víðtækari.



[11:47]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þetta mál þyrfti nú að ræða í löngu máli því að um mikilvægt mál er að ræða sérstaklega í ljósi umræðu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur staðið fyrir um að ekki sé hægt að standa í svokallaðri uppbyggingu fiskstofna nema nokkrar hrefnur séu drepnar árlega. En vegna þess að við í Frjálslynda flokknum höfum gert samkomulag um að greiða fyrir þingstörfum eins og það er kallað ætla ég að stytta mál mitt eins og kostur er.

Það er einmitt mjög mikilvægt og þess vegna vil ég árétta það að menn rannsaki þessi mál og geri sér grein fyrir orkuflæðinu í hafinu. Þær hugmyndir sem hafa komið fram t.d. hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, hann segir í þingræðu að það sé tómt mál að tala um að það takist að byggja upp nytjastofna eins og þorskinn nema við stundum hvalveiðar. Þetta lýsir mjög undarlegri sýn á lífríki hafsins að nefna það að veiðar á nokkrum hrefnum skipti sköpum. Við verðum að gera okkur grein fyrir að þær talningar sem hafa verið framkvæmdar sýna fram á að það séu u.þ.b. 46.400 hrefnur, sem komu út úr talningunni, í kringum landið. Það að veiða 100 eða 200 skiptir ekki miklu máli. Við erum að tala um 200 hrefnur, það er innan 0,5% af stofnstærðinni. Það getur hver maður séð að það skiptir ekki öllu máli upp á uppbyggingu fiskstofna. Menn eiga miklu frekar að líta á samspil fiskanna sjálfra sem eru stærsti hluti lífmassans í hafinu, hvernig orkuflæðið er þar á milli.

Ég nefndi í umræðu að ef hver og einn þorskur í einum árgangi, segjum nýliðar, sem hefur verið áætlað að geti verið um 200 milljón einstaklingar, éti einu sinni þorsk sem er í yngri árgangi en nýliðarnir þá fækkar hann um jafnmarga í stofninum og það getur verið allt að 100 þús. tonn ef sá fiskur sem hann étur er að jafnaði um hálft kíló. Þar eru stærðirnar en ekki nokkrir hvalir sem eru á svamli í kringum landið. Ég vonast svo sannarlega til að menn fari að gera sér grein fyrir þessu, að menn velti þessum hlutum fyrir sér en séu ekki eingöngu að horfa á og rannsaka hvali út frá því að þeir éti frá okkur fiskinn. Það eru aðrir þættir sem skipta verulega miklu máli. Einnig þegar menn horfa á veiðar sem meginþátt í misheppnaðri fiskveiðistjórn, menn ofáætla að mínu mati þátt veiða og þátt afráns hvala og sela.

Menn verða að hafa í huga þegar rætt er um stjórn fiskveiða og hvalastofna og þátt veiða að áætlað hefur verið að veiðar mannsins séu u.þ.b. 1/10–1/20 af því sem fuglar himinsins og spendýr hafsins taki af sjávarfangi úr hafi sér til næringar. Samt sem áður, þó svo að þetta sé 10–20 sinnum stærri þáttur en veiðarnar, eru þetta aukaleikarar miðað við massann, sem eru fiskarnir sjálfir, sem éta hverjir aðra.

Eins og ég sagði ætlaði ég ekki að hafa ræðu mína miklu lengri en vonast til að hún hreyfi við þeirri umræðu um fiskveiðistjórn að menn einblíni ekki endilega um of á hvali sem einhverja meginþætti í því hve illa gengur að stjórna fiskveiðum og einnig að menn líti ekki á veiðarnar sem mjög stóran þátt í því hvað okkur gengur brösuglega að stjórna fiskveiðum í kringum landið með kvótakerfi sem hefur sýnt sig á síðustu árum og áratugum að er algerlega misheppnað stjórntæki, frú forseti.