132. löggjafarþing — 119. fundur
 1. júní 2006.
brottfall laga um Flugskóla Íslands hf., 2. umræða.
stjfrv., 480. mál. — Þskj. 708, nál. 1015, till. til rökst. dagskrár 1016.

[17:17]
Frsm. samgn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 17/1997, um Flugskóla Íslands hf.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti.

Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Flugfélaginu Geirfugli ehf., rannsóknarnefnd flugslysa, Flugskóla Reykjavíkur og Flugskóla Helga Jónssonar.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að fella brott lög nr. 17/1997, um Flugskóla Íslands hf. Þetta er gert með hliðsjón af efni laganna og að ríkið hefur selt allt hlutafé sitt í skólanum. Skilvirkt eftirlit er af hálfu Flugmálastjórnar Íslands með gæðum skólastarfsins og starfsemi skólans og er það talinn fullnægjandi rammi um þessa starfsemi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur áliti þessu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Guðjón Hjörleifsson framsögumaður, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristján L. Möller, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara, og Magnús Stefánsson.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.



[17:19]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni og framsögumanni, Guðjóni Hjörleifssyni, er ég andvígur þessu nefndaráliti um frumvarp til laga um brottfall laga um Flugskóla Íslands. Ég er andvígur þeirri fyrirætlan að leggja niður Flugskóla Íslands.

Flug hvers konar og flugstarfsemi er ein af mikilvægustu atvinnugreinum hér á landi og teygir anga sína víða, svo sem í farþegaflugi, atvinnumannaflugi, áhugamannaflugi, en við erum líka með þyrluflug, öflugar landhelgisgæsluflugvélar o.s.frv. Góð menntun fyrir flugmenn finnst mér vera grundvallaratriði fyrir þjóðina og því er það röng stefna að ætla að fella niður einu lagaákvæðin sem kveða á um flugnám á Íslandi. Þó svo að hin opinberu afskipti af flugnámi hafi fyrst og fremst verið í gegnum Flugskóla Íslands hf. og þó að farið hafi verið út í það á sínum tíma að hlutafélagavæða Flugskóla Íslands var hann studdur bæði námskrárlega séð og fjárhagslega af ríkinu. Ríkið átti flugskólann að hluta og bar í rauninni ábyrgð á því námi sem þar fór fram.

Mér finnst óeðlilegt að þessi grein skuli þannig ein vera höfð fyrir utan allt samræmt skipulag í námi hér á landi. Mér finnst það alveg fráleit ráðstöfun og sýna þessari atvinnugrein, þessari þekkingargrein, fullkomið skilningsleysi og vanvirðu að leggja niður með lögum allt sem heitir flugnám. Í lögum um Flugskóla Íslands sem nú á að leggja niður er ekki einu sinni svo, herra forseti, að aðeins eigi að leggja niður flugskólann heldur líka þau lög og þau markmið sem honum var gert að starfa eftir, m.a. eins og stendur í 2. gr. laga um Flugskóla Íslands en þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið skólastarfsins skal vera að veita menntun sem gerir nemendur hæfa til að taka að sér störf í þágu atvinnuflugs í samræmi við ákvæði laga og reglugerða um skírteini atvinnuflugmanna og áritanir á þau. Samkvæmt því skal skólinn veita kennslu til undirbúnings prófa í atvinnuflugi. Kennsla sú sem skólinn veitir skal miðast við öll stig atvinnuflugnáms og miða að því að búa nemendur undir próf loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar til öflunar atvinnuflugréttinda í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma.“

Þetta segir í lögum um Flugskóla Íslands sem nú á að leggja af og þetta eru í rauninni einu lagaákvæðin sem voru um flugnám. Það gilda að vísu ákveðnar reglur um atvinnuflugmannsréttindi sem slík en ekki um skipan flugnámsins. Hér er verið að gera tillögur um að fella þetta allt úr lögum. Ein af rökunum sem sett eru fyrir því eru að Flugskóli Íslands hafi verið í samkeppni við aðra skóla sem kenndu flug og þess vegna sé nauðsynlegt að leggja niður og afnema lög um Flugskóla Íslands.

Nú má vel vera að sú skipan mála hefði mátt endurskoðast í sjálfu sér, hvort þörf sé á sérstökum skóla, Flugskóla Íslands hf., sem njóti opinberrar ábyrgðar að meira eða minna leyti. Hitt er allt önnur hlið sem er staðfesting á skipulagi náms og að ríkið ábyrgist að í boði sé nám hér á landi sem uppfylli kröfur til atvinnuflugprófs. Mér finnst að svo hefði átt að vera og ég sé t.d. ekki hvernig ríkið ætlar nú að ná þeim markmiðum sínum sem tilgreind eru í greinargerð með frumvarpi þessu um að fella lög um Flugskóla Íslands hf. niður þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að lagt sé til að lögin falli úr gildi er áfram gert ráð fyrir að ríkið stuðli að því að hér á landi sé í boði menntun sem gerir nemendur hæfa til að taka að sér störf í þágu atvinnuflugs í samræmi við ákvæði laga og reglugerða um skírteini atvinnuflugmanna og áritanir á þau. Til að tryggja það vinnur ráðuneytið nú að gerð samnings við skólann um áframhaldandi styrk til hans vegna bóklegs atvinnuflugmannsnáms.“

Hér eru sett inn í greinargerð ákveðin markmið sem ríkið hefur nú engan lagalegan ramma til að fylgja eftir. Þess vegna er þetta mjög flaustursleg og óábyrg aðgerð sem meiri hlutinn leggur hér til, að afnema ekki aðeins lög um Flugskóla Íslands hf. heldur allt sem stendur um flugnám á ábyrgð hins opinbera. Það tel ég vera fullkomlega óábyrgt og átel það, enda tekur Félag íslenskra atvinnuflugmanna fullkomlega undir þau sjónarmið sem ég hef hér haldið fram. Í umsögn þeirra stendur um þetta frumvarp, með leyfi forseta:

„FÍA mælir eindregið með því að lögin um Flugskóla Íslands verði endurskoðuð en ekki felld niður.“

Eftirfarandi ástæður fyrir því eru tilgreindar í umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna:

„1. Í núgildandi lögum um Flugskóla Íslands er fólgið aðhald, sem að mati FÍA er ekki innifalið í aðhaldi Flugmálastjórnar, sbr. 2. gr. og 3. mgr. 5. gr. l. nr. 17/1997.

2. Það er mat FÍA að bóklegt nám til að öðlast réttindi til að stjórna flugförum eigi, alveg eins og bóklegt nám til vélstjórnarréttinda og skipstjórnarréttinda, að heyra undir menntamálaráðuneytið, eigi að hafa sinn rétta stað í menntakerfi landsins, en ekki að vera hliðsett eins og nú er. Nemandi sem lokið hefur bóklegu námi til þess að geta fengið full atvinnuflugmannsréttindi getur ekki fengið slíkt nám metið til eininga í framhaldskólum landsins nema með mikilli fyrirhöfn og með sérstakri aðstoð frá menntamálaráðuneytinu. Ekkert af þessu er til þess fallið að afla þessari menntun þeirrar virðingar sem hún á skilið.

Og ekki bætir þar úr skák að þessi einu lög sem kveða þó eitthvað á um hvernig bóklegri menntun flugmanna skuli háttað skuli nú eiga að fella niður.

3. Það er mat FÍA að sé þetta mál skoðað heildstætt þá samrýmist þessi ráðagerð ekki því aðalmarkmiði að ávallt skuli þess freistað að gera almennu flugöryggi eins hátt undir höfði og nokkur kostur er hverju sinni.“

Þess vegna leggur Félag íslenskra atvinnuflugmanna áherslu á að í stað þess að fella þessi lög niður, einu lögin sem kveða á um flugnám á Íslandi, verði þau endurskoðuð og náminu sem slíku fenginn eðlilegur sess í menntakerfi landsins þar sem nemendur sem í það nám fara geti bæði fengið það viðurkennt í námskerfinu í heild sinni og að hið opinbera tryggi þær skilgreindu námskröfur og námsframboð sem þetta nám krefst.

Ég tek undir þau orð Félags íslenskra atvinnuflugmanna að með þessari ráðstöfun, að fella niður lög um Flugskóla Íslands og allt sem viðkemur flugnámi, sé verið að sýna atvinnugreininni og þessari þekkingaröflun og þeim sem þetta nám stunda mikla vanvirðu eða litla virðingu. Þess vegna hef ég, herra forseti, í samræmi við umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna lagt fram svohljóðandi tillögu til rökstuddrar dagskrár varðandi þetta mál:

„Bóklegt nám til að öðlast réttindi til að stjórna flugförum á ekki síður en bóklegt nám til vélstjórnarréttinda og skipstjórnarréttinda að heyra undir menntamálaráðuneytið. Með frumvarpi til laga um brottfall laga um Flugskóla Íslands hf. er hins vegar lagt til að fella úr gildi einu lögin sem fjalla um það hvernig bóklegri menntun flugmanna skuli háttað.

Í núgildandi lögum um Flugskóla Íslands hf. er fólgið aðhald sem ekki er innifalið í aðhaldi Flugmálastjórnar. Þá samræmist sú ráðagerð að fella brott lög um Flugskóla Íslands hf. ekki því markmiði að ávallt skuli þess freistað að tryggja almennt flugöryggi eins og nokkur kostur er hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs samþykkir Alþingi að vísa frumvarpinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir skoðun minni. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í samgöngunefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og tek heils hugar undir þær sterku athugasemdir og viðvaranir Félags íslenskra atvinnuflugmanna við því að fella niður lög um flugnám og Flugskóla Íslands. Ég hef þess vegna flutt tillögu til rökstuddrar dagskrár um að þessu máli verði vísað frá og í þess stað verði farið í þá vinnu sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna leggur til, að endurskoða lögin og setja lagaramma um flugnám á Íslandi. Það er hið rétta sem gera á.



[17:33]
Frsm. samgn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé að hluta um misskilning að ræða hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Í athugasemdum við frumvarp samgönguráðherra eru talin upp helstu rök fyrir því að leggja beri þessi lög um Flugskóla Íslands af.

Þau helstu eru: Lögin fjalla að stórum hluta um aðkomu ríkisins sem einn af stofnendum Flugskóla Íslands og eigenda að skólanum. Þetta eru auðvitað úrelt ákvæði þar sem skólinn er eingöngu í eigu einkaaðila og fyrirtækja í flugrekstri. Engin þörf er á sérstakri íslenskri löggjöf af þessu taginu um önnur atriði umfram það sem tiltekið er í loftferðalögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Við verðum að gera okkur grein fyrir að öll starfsemi skólans miðar að því að uppfylla kröfur sem settar eru erlendis samkvæmt kröfum JAR-FCL frá JAA og reglugerð um flugskóla, nr. 692/1999, sem byggir á ákvörðun loftferðalaganna. Þetta eru alþjóðlegar kröfur sem eru grundvöllur þess að aðrar þjóðir viðurkenni íslenskt flugmannsnám og þar með íslenska flugmenn. Ég leyfi mér að fullyrða að séríslenskar kröfur gætu komið okkur og íslenskri flugmannsstétt í mikil vandræði.

Á sama hátt er eftirlit með að starfsemi skólans uppfylli hinar alþjóðlegu kröfur sennilega það strangasta sem íslenskur skóli þarf að búa við. Því er lýst ítarlega í athugasemdum við frumvarpið. Þegar hv. þm. Jón Bjarnason talar um að aðhald í rekstri skólans geti skort ef lögin verða felld úr gildi, þá held ég að um misskilning sé að ræða.

Að lokum vil ég nefna til að bregðast enn frekar við áhyggjum hv. þm. Jóns Bjarnasonar að í lok athugasemda við frumvarpið er tiltekið að samgönguráðuneytið muni gera þjónustusamning við Flugskóla Íslands hf. Mikilvægt er að í þeim samningi verði kveðið á um þær almennu leikreglur sem um þetta mál þurfi að gilda, m.a. að ákvæði stjórnsýslulaga verði þar höfð til hliðsjónar.



[17:35]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég met á vissan hátt vilja hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar til að reyna að bjarga í horn því sem bjargað verður í þessu sambandi en vek athygli á að það sem ég er einungis að vitna til er umsögn Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem ég tel að hafi meiri yfirsýn yfir þetta mál en margir aðrir.

Því skyldi þetta nám ekki njóta opinberrar lagalegrar verndar, bæði hvað varðar innihald námsins og mat á náminu milli skóla eða milli námsstiga. Að sjálfsögðu er farið eftir þeim alþjóðlegu reglum sem um þessi réttindi gilda, en námið er langt ferli að réttindum. Til dæmis geta menn hætt í námi á einhverju ákveðnu stigi og þá er eðlilegt að það geti verið metið inn í eitthvert annað nám sem gerist ekki nema það sé skilgreindur hluti af hinu opinbera menntakerfi.

Þess vegna tek ég afdráttarlaust undir sjónarmið Félags íslenskra atvinnuflugmanna um að miklu nær væri að vinna heildarlöggjöf fyrir innihald og skipan flugnáms hvort sem það er síðan framkvæmt af þessum skóla eða öðrum. En á því verði fagleg opinber ábyrgð einmitt í menntakerfinu og einnig að hið opinbera hefði ábyrgð (Forseti hringir.) á að þetta nám væri í boði hér á landi.



[17:37]Útbýting: