132. löggjafarþing — 121. fundur
 2. júní 2006.
Veiðimálastofnun, 2. umræða.
stjfrv., 612. mál (heildarlög). — Þskj. 897, nál. 1329, brtt. 1330.

[23:57]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um Veiðimálastofnun.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila og umsagnir um málið sem getið er um í nefndaráliti.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um Veiðimálastofnun en ákvæði um hana eru nú í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um fiskrækt, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði. Helstu breytingar í frumvarpinu eru þær að hlutverk Veiðimálastofnunar er betur skýrt og stjórn stofnunarinnar lögð af en í staðinn lagt til að ráðgjafarnefnd verði stofnuð.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram athugasemdir varðandi 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem kveður á um að Veiðimálastofnun leitist við að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögunum í nánu samstarfi og samvinnu við menntastofnanir landbúnaðarins. Nefndin telur óþarft að kveða á um slíkt í lögum. Leggur því nefndin til að málsgreinin falli brott.

Nefndin leggur til að 4. mgr. 5. gr. falli brott en hún kveður á um að Veiðimálastofnun sé heimilt að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum. Nefndinni bárust ýmsar athugasemdir um að rannsóknarhlutverk stofnunarinnar færi ekki saman við það að samkeppnisaðilar þyrftu að leita til hennar um leyfi, umsagnir o.fl. Nefndinni bárust einnig þær upplýsingar að fara ætti fram endurskoðun á Veiðimálastofnun og taldi nefndin því ekki tilefni til að gera miklar breytingar á frumvarpinu heldur skyldi áhersla lögð á að endurskoðunin færi fram sem fyrst. Að lokum er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða þannig að einum fulltrúa frá Félagi eigenda sjávarjarða verði bætt við samráðsnefndina og með því komi fleiri hagsmunaaðilar að henni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Gunnar Örlygsson, Guðmundur Hallvarðsson, Jón Bjarnason, með fyrirvara, Guðjón Ólafur Jónsson og Valdimar L. Friðriksson.



[23:59]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Við 1. umr. lýsti ég miklum efasemdum mínum um þetta frumvarp. Ég er ekki hrifinn af því að stofnunum eins og Veiðimálastofnun, sem er rannsóknastofnun og eftirlitsstofnun í eigu ríkisins, sé í reynd skapaður ákveðinn sess á samkeppnismarkaði. Ég hef barist fyrir því ásamt ýmsum þingmönnum í ýmsum flokkum, ekki síst Sjálfstæðisflokknum þar sem ég hef átt skoðanasystkin í þessum efnum, að reynt yrði að hrinda í framkvæmd breytingum sem gerðu mögulegt fyrir sjálfstætt starfandi fræðimenn að taka að sér verkefni á opnum markaði.

Það er a.m.k. algjört lágmark að samkeppni sé ekki niðurgreidd með ríkisfé. Það á hins vegar að gera með þessu frumvarpi. Að vísu er stigið svolítið skref í áttina að því að draga úr þessu með breytingartillögu nefndarinnar þar sem lagt er til að 4. mgr. 5. gr., um stjórnskipulag Veiðimálastofnunar, sé felld brott. Sú heimild átti að gefa Veiðimálastofnun möguleika á að eiga aðild að því að stofna fyrirtæki sem stæði væntanlega í samkeppni við önnur fyrirtæki sem sjálfstætt starfandi vísindamenn hefðu komið á legg. Ég hef verið þeirrar skoðunar að ríkið ætti frekar að reyna að koma verkefnum af þessu tagi út á markað til að ýta undir möguleika ungra vísindamanna sem koma heim frá námi til að taka að sér svona verkefni.

Mér finnst undarlegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli gera að sérstöku verkefni sínu að koma í gegn lögum sem Framsóknarflokkurinn er eðlilega ákaflega hrifinn af og hefur alltaf verið. Ég hélt að það væri aðall Sjálfstæðisflokksins að taka undir með þeim sem vilja reyna að þróa umhverfi sem gerir ungu vísindafólki kleift að taka að sér þjónustu, ekki síst á vegum hins opinbera, til að stuðla að umhverfi fyrir smáfyrirtæki á vísindasviðinu. Það er framtíðin og það sem við höfum oft talað um.

En mér þykir heldur skörin færast upp í bekkinn þegar það kemur beinlínis fram í næstu grein, sem hv. formaður nefndarinnar hefur ekki lesið í samhengi við þá málsgrein sem hún er að fella úr 5. gr., að þar er Veiðimálastofnun beinlínis veitt lögbundin heimild til að starfa í samkeppni við slík fyrirtæki með því að taka að sér rannsóknir, ekki bara fyrir hið opinbera heldur og fyrir einstaklinga og félög. Hvers vegna á opinber stofnun að standa í slíkri samkeppni við fyrirtæki á markaði sem eru að verða til? Hvers vegna á opinber stofnun að hafa lögbundinn rétt til að kæfa í fæðingu vísi að nýjum fyrirtækjum á þessu sviði?

Þetta voru spurningar sem ég bar fram við 1. umr. og fékk lítil svör. Ég er ekki ánægður með þetta. Ég er á móti þessu og tel þetta algjörlega í andstöðu við margvísleg ákvæði í lögum sem eiga að ýta undir samkeppni og möguleika til samkeppni og ryðja burt samkeppnishindrunum. Það kemur að vísu fram í þessu frumvarpi að reisa eigi brunaveggi á milli þess sem kalla má samkeppnisrekstur og þess sem fellur beinlínis undir stofnanareksturinn sjálfan. Slíkir brunaveggir halda aldrei.

Ég er á móti þessu og gæti haldið ákaflega langa og ástríðuþrungna ræðu um það. Þetta er mér hjartans mál. Ég er þessarar skoðunar varðandi Veiðimálastofnun, varðandi Hafrannsóknastofnun og ýmsar fleiri stofnanir. Það er ástæðan fyrir því að ég styð frumvarpið um matvælastofnun ríkisins, Matvælarannsóknir hf. Ég tel að þetta sé einmitt verkefni sem hægt er að skilgreina með þeim hætti að í lagi sé að flytja það yfir á markaðinn, andstætt ýmsum vondum frumvörpum sem við höfum góðu heilli borið gæfu til að sameinast um, ég og hv. formaður landbúnaðarnefndarinnar, að hrinda fyrir ætternisstapa, t.d. frumvarpinu illræmda um háeffun RÚV. Þar erum við algjörlega sammála, (Gripið fram í.) þ.e. við töldum fráleitt að nýta þetta þing til að samþykkja slíka vitleysu. Það er auðvitað hróss vert.

En þetta frumvarp er þannig, þótt ýmsir af ágætum þingmönnum mínum hafi aðra skoðun á þessu og hafi samþykkt þetta, að ég er á móti því. Ég ætla ekki að samþykkja þetta af þeim ástæðum sem ég hef reynt að færa nokkur rök fyrir. En ég vil ekki gera hæstv. forseta gramt í geði með því að halda langa ræðu um þetta og sýni minn einlæga samkomulagsvilja almennt til að greiða fyrir þingstörfum með því að halda ekki lengri ræðu um þetta.



[00:05]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók heldur stórt upp í sig með því að spyrða okkur saman í Ríkisútvarpsmálinu. Það er ekki þannig.

Ég get aftur á móti að mörgu leyti verið honum sammála varðandi Veiðimálastofnun. Það kemur skýrt fram í nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd að við töldum að ekki ætti að gera fleiri breytingar á þessu stigi vegna þess að við leggjum mikla áherslu á að endurskoðun á lögum um stofnunina fari fram sem fyrst.

Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hv. þingmaður sagði. Ég tel að þessi verkefni eigi vel heima á einkamarkaði og ætlast til að þessi lög um Veiðimálastofnun verði endurskoðuð sem fyrst og við fáum nýtt frumvarp að vinna úr næsta haust.



[00:06]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef kannski algjörlega misskilið tilgang þessa frumvarps. Ég taldi að þetta væri endurskoðun á lögum um Veiðimálastofnun. (DrH: Nei, nei.) Hv. þm. Drífa Hjartardóttir kallar fram í að svo sé ekki. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þetta er enn eitt dæmið um ágreininginn á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Framsóknarflokkurinn heldur dauðahaldi í þessa stofnun eins og svo margar aðrar og Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur talað með allt öðrum hætti í gegnum árin, t.d. þegar ég var með þeim í ríkisstjórn og kom vitinu fyrir þá í nokkrum efnum varðandi þetta, verður auðvitað að láta kúgast í þessu máli.

En ég ætla að benda hæstv. forseta og formanni landbúnaðarnefndar á að í dag var samþykkt frumvarp sem var skylt þessu en það varðaði sjávarútveg, þ.e. hafrannsóknir. Þar var fjárveitingum varið til þess að ýta undir sjálfstætt starfandi vísindamenn. (Gripið fram í.) Þetta frumvarp gengur í þveröfuga átt.

Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að skoða mjög vel nokkrar rannsóknastofnanir á vegum ríkisins. Sumt af þeim rannsóknum, sérstaklega þjónustu og eftirliti sem þau inna af höndum, er betur komið á markaði. Annað sem tengist skólamálum og ýmsu er betur komið hjá ýmsum háskólastofnunum. Ég hef t.d. margoft sagt að ég tel að Veiðimálastofnun og stór hluti af starfi hennar sé einstaklega vel fallið til að sameina landbúnaðarháskóla eins og þeim sem er á Hólum. Ég er þeirrar skoðunar. Hvers vegna í ósköpunum á ríkisstofnun að keppa við sjálfstætt lítið fyrirtæki um mælingar á laxi og eftirlit með laxastofnum í ám? Hvers vegna?

Slík ríkisstofnun á enn síður að niðurgreiða þá samkeppni af opinberu fé. Þetta er ekki annað en brot af því sem að minnsta kosti er hægt að kalla anda samkeppnislaga. Þetta er náttúrulega andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Ég skil ekkert í formanni landbúnaðarnefndar að taka þátt í þessu. (Forseti hringir.)



[00:08]Útbýting:

[00:09]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarp til laga um Veiðimálastofnun er hér komið til 2. umr. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar, hefur gert grein fyrir í nefndaráliti landbúnaðarnefndar við frumvarpið. Ég styð nefndarálitið. Ég hafði reyndar smáfyrirvara við það sem lýtur fyrst og fremst að stjórnskipulagi Veiðimálastofnunar. Yfir henni er leiðbeinandi stjórn en því á að breyta yfir í ráðgjafarnefnd til ráðgjafar við verkefnaval og áherslur stofnunarinnar. Ég geri í sjálfu sér engan grundvallarágreining um þetta en í umsögnum og viðtölum við bæði stjórn og framkvæmdastjóra Veiðimálastofnunar voru allir mjög sáttir við þá skipan sem var og því er ekki ástæða til að breyta henni af þeim sökum. Ef eitthvað gengur vel eins og það er þá er ekki ástæða til að breyta því og ég geri athugasemdir við það.

Breytingarnar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu eru að mínu viti til bóta. Ég vil leggja áherslu á hversu mikilvægt er að vera með opinbera stofnun sem hefur það hlutverk að safna grunngögnum varðandi ferskvatnsfiska og lífríki þeirra og lífríki í vötnum og geti fylgt eftir ferskvatnsfiskum sem lifa að hluta í sjó. Ég tel það mikilvægt og þessi stofnun hefur staðið sig vel hvað þetta varðar. Málið snýst um hluta af auðlindum okkar og lífríki. Þess vegna er mikilvægt að hafa opinbera stofnun sem fylgir eftir rannsóknum og eftirliti á grunnþáttum þess málaflokks. Það vil ég hér árétta.

Okkur ber skylda til að fylgjast með og varðveita líffræðilegan fjölbreytileika, sem er ekki síst mikilvægur í ám og vötnum. En með aðgerðum okkar, virkjunum eða öðrum inngripum, er líffræðilegan fjölbreytileika í vötnum og vatnasvæðum hérlendis ógnað. Þess vegna skiptir miklu máli að hafa opinbera stofnun sem fylgist vel með, er umsagnaraðili, rannsakar og gætir þessarar auðlindar og veitir ráðgjöf.

Veiðimálastofnun hefur starfað náið með hagsmunaaðilum í greinum sem lúta að veiði og nýtingu og meðferð á auðlindinni í ám og vötnum, rekið deildir í þremur landshlutum og þannig byggt upp mjög öflugt samstarfsnet. Ég vil í lokin árétta mikilvægi þessarar stofnunar, þeirra verkefna sem hún er ábyrg fyrir. Ég styð þetta frumvarp.