132. löggjafarþing — 122. fundur
 3. júní 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

útreikningur vaxtabóta.

[09:02]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt áður en þessu þingi lýkur að reyna að ná samstöðu um það í þinginu að breyta grunni í útreikningi vegna vaxtabóta. Ástæða þess er mikil hækkun á fasteignamati sem hækkar um 35% milli álagningaráranna 2005 og 2006 með þeim afleiðingum að fólk mun tapa tugum þúsunda og í sumum tilvikum 200–300 þús. kr. í vaxtabætur eða sæta 100% skerðingu á vaxtabótum milli ára án þess að nokkuð hafi breyst í aðstæðum eða kjörum fólks annað en hækkun á fasteignamati íbúða þess frá síðustu útgreiðslu vaxtabóta í ágúst á síðasta ári.

Ég tók þetta mál upp í efnahags- og viðskiptanefnd í gærmorgun og aftur í hádeginu í gær á fundi nefndarinnar án þess að samkomulag næðist um málið en þó var góður vilji þar til þess að skoða málið. Ég hef látið reikna út nokkur dæmi um hvaða áhrif þessi hækkun á fasteignamati hefur á útgreiddar vaxtabætur í ágúst og hér er á ferðinni gífurleg skerðing á vaxtabótum og þar með kjörum fólks sem því mun birtast nú í ágústmánuði að óbreyttu. Í þeim dæmum sem ég hef látið reikna má t.d. sjá að einstætt foreldri sem er með 3 millj. kr. í tekjur og á eign upp á tæpar 5 milljónir en er með skuldir upp á 15 milljónir fékk um 218 þúsund í vaxtabætur á síðasta ári en mun ekki fá eina krónu í vaxtabætur á þessu ári. Sambærileg dæmi má sjá t.d. um einstaklinga en þar liggur dæmið þannig, miðað við sambærilegar tekjur og eignir, að viðkomandi fékk 169 þúsund í vaxtabætur á síðasta ári en fær ekkert nú.

Ég vil leita eftir því hvort hægt sé að ná samstöðu um það milli þingflokkanna áður en þingi lýkur að breyta tekjuskattslögunum þannig að sú gífurlega skerðing á vaxtabótum sem er yfirvofandi hjá þúsundum heimila í landinu nái ekki fram að ganga í ágústmánuði komandi. Ég er sannfærð um að fólk hefur ekki áttað sig á þeim skelli sem er yfirvofandi núna, það hefur gert ráð fyrir vaxtabótum í áætlunum sínum. Það er því skylda þingsins að breyta þessu þannig að þessi skerðing gangi ekki yfir heimilin í landinu.



[09:04]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það hefur orðið mikil aukning á verði eigna og þar með á eignum stórs hóps einstaklinga og fjölskyldna í þjóðfélaginu. Það hefur auðvitað í för með sér, í samræmi við reglur sem hafa verið í gildi mörg undanfarin ár, að þeir sem eiga meira fá minna af bótum frá ríkinu. Um þetta hafa hv. þingmenn verið sammála í meginatriðum.

Það sem fylgir hins vegar ekki með í sögunni hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er að samhliða þessari eignaaukningu gæti jafnframt verið skuldaaukning. Niðurstaðan gæti því verið sú vegna nettóeignastöðunnar að það yrði engin breyting á þeim bótum sem um er að ræða. Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir og munu ekki liggja fyrir fyrr en álagningu síðasta árs er lokið í byrjun ágúst væntanlega. Það getur vel verið, og ég hef reyndar sagt það hér áður þegar hv. þm. Atli Gíslason tók þetta mál upp og vakti athygli á því, að það væri ástæða til að fara yfir forsendur vaxtabótanna og meta þær upp á nýtt, en eins og staðan er í dag liggja þessar upplýsingar ekki fyrir þannig að við gætum farið í slíka vinnu.

Það er líka rétt að hafa í huga að í gangi er endurskoðun á því hvernig við skipuleggjum íbúðalánin og niðurstaðan í þeim efnum gæti líka haft áhrif á það hvernig við viljum ráðstafa vaxtabótunum. Ég held að við ættum að hinkra um sinn þar til upplýsingar liggja fyrir, bæði um hver niðurstaða álagningarinnar verður og hver niðurstaðan verður í því hvernig við högum húsnæðislánunum, áður en við gerum breytingar á vaxtabótakerfinu.



[09:07]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að Atli Gíslason, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sat hér á þingi fyrir skömmu, flutti ásamt þingflokknum breytingartillögu við frumvarp sem er til umfjöllunar í þinginu, um breytingu á lögum um tekjuskatt, þar sem einmitt er gert ráð fyrir því að leiðrétta þetta, a.m.k. með fyrsta skrefinu, þ.e. að láta skerðingarmörk fylgja verðbólgunni. Það er algjört lágmark að það sé gert, því að afleiðingarnar af hinu stórhækkaða fasteignamati á undanförnum árum koma gríðarlega hart niður á fólki, einmitt fólki sem reynir að komast hjá því að skulda. Hæstv. fjármálaráðherra vildi heldur verðlauna fólkið sem skuldaði meira, en þetta lendir harðast á því fólki sem reynir að komast hjá því að skulda. (Fjmrh.: Og á mestar eignirnar.) Á mestar eignirnar? Það getur vel verið að flokksmenn hæstv. fjármálaráðherra hugsi þannig að eiga sem mestar eignir og skulda sem mest en venjulegt fólk, ungt fólk sem er að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti verður fyrir því að fasteignamatið snarhækkar og eignamatið við það, en tekjurnar hækka kannski ekki neitt í samræmi við það. Skerðingarmörkin eru óbreytt, vaxtabæturnar falla niður og þetta fólk stendur eftir með stórskertar tekjur. Það getur ekki verið meiningin hjá ríkisstjórninni, hjá hæstv. fjármálaráðherra, að ráðast einmitt á þetta fólk en það virðist vera svo.

Þetta eru tillögur sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja, breytingartillaga við frumvarp sem er til umfjöllunar í þinginu, frumvarp sem einmitt á að (Forseti hringir.) taka á öðrum, á fyrirtækjum, vegna sama. Með samþykkt þessarar tillögu getum við leiðrétt þetta að hluta, frú forseti.



[09:09]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að ekki væri séð fyrir endann á því hver áhrif þessara óbreyttu viðmiðana yrðu. En ég ætla að vekja athygli á því að þeir sem hafa gert áætlanir um stöðu sína og ekki breytt skuldsetningu sinni sitja uppi með það vegna aðstæðna sem hafa orðið á fasteignamarkaði að þeir verða af gríðarlegum tekjum. Það kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra hér að meðalvaxtabætur á fjölskyldu væru í kringum 145 þús. kr.

Hverjir eru að missa af þessum tekjum? Það eru þeir sem eru tekjulægstir í þjóðfélaginu. Þeir hafa líka farið illa út úr öðrum breytingum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og það er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Við megum ekki heldur gleyma því í þessari umræðu að ýmsar álögur, svo sem fasteignagjöld, hafa hækkað vegna þessa þannig að allt leggst þetta á fólkið sem síst skyldi. Ég tel að menn ættu að hugsa þetta betur og taka jákvæðar í þessa tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þess að hér er um að ræða hina tekjulægstu í samfélaginu.



[09:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það liggur nú við að þessi umræða ætti frekar að fara fram undir liðnum „um atkvæðagreiðslu“ því það vill svo til að þetta mál er á dagskrá þessa fundar. Hér kemur til atkvæða á eftir breytingartillaga frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, flutt af Atla Gíslasyni sem 1. flutningsmanni, sem býður þinginu upp á einfalda leið til að leysa þetta mál, þ.e. að hækka hin eignatengdu skerðingarmörk þannig að það gerist ekki, sem ella verður, að þúsundir lágtekjufjölskyldna, hæstv. fjármálaráðherra, verði af vaxtabótunum á þessu ári vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki leiðrétt skerðingarmörk í vaxtabótakerfinu, hvorki í samræmi við verðbólgu né þaðan af síður í samræmi við þá miklu hækkun fasteignaverðs, sem leiðir til þess að þúsundir tekjulágra fjölskyldna missa af vaxtabótunum af þeirri einu ástæðu að íbúðin þeirra hefur hækkað í verði á undanförnum mánuðum eða missirum. Þetta er ákaflega einfalt mál.

Viðbárur hæstv. fjármálaráðherra um að þetta liggi ekki nógu skýrt fyrir halda ekki vatni. Þetta liggur alveg skýrt fyrir eins og hv. þm. Atli Gíslason sýndi fram á með raunverulegum dæmum úr framtölum frá fólki frá nýliðnum mánuðum. Það er einfalt mál að sýna fram á það með raunverulegum dæmum hvernig þetta hittir fyrir þúsundir fjölskyldna í landinu og vel að merkja, ég endurtek það til þess að hæstv. fjármálaráðherra nái þessu örugglega, þetta snýr eingöngu að tekjulágu fjölskyldunum vegna þess að vaxtabæturnar eru líka skertar miðað við tekjur og deyja út með hækkandi tekjum.

Málið er því algjörlega einfalt og eignamörkin eru ekki há sem hér er verið að tala um. Hvaða eign er það í íbúð að eiga kannski 3,7 milljónir eins og verðið er orðið á þeim í dag? Hæstv. fjármálaráðherra verður að gera betur en þetta. Það er einfalt mál fyrir Alþingi að reka af sér slyðruorðið og leysa þetta mál (Forseti hringir.) með því að samþykkja þá breytingartillögu sem kemur hér til atkvæða eftir örstutta stund.



[09:13]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta mál hér upp undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins og full ástæða til.

Það sem er að gerast með vaxtabæturnar og eignamörkin eða skerðingarmörkin varðandi þær er að mörgu leyti sama aðferð og ríkisstjórnin hefur beitt varðandi tekjuskatt. Jöfnunarmörkin sitja eftir. Fasteignaverð hefur verið að hækka mikið. Skerðingarmörkin eru föst áfram í krónutölu. Þetta er nákvæmlega það sama og gerðist með persónuafsláttinn hjá þessari ríkisstjórn. Hann sat eftir, hann fylgdi ekki verðlagi, hann fylgdi ekki launum og þar af leiðandi jókst hlutfallsleg skattbyrði á launafólk. Það sama er að gerast núna varðandi vaxtabæturnar.

Hvaða eign er það að sitja í húsi sem hækkað hefur á pappírunum og enginn ætlar að nýta það? Fólk heldur áfram að búa í sínu húsi og gerir það næstu árin. Hvaða eign er það fyrir fólk sem gerði plön og bjóst við að fá fullar vaxtabætur vegna þess að launin eru lág og skerðingarmörkin voru þau að fólk gerði ráð fyrir að geta fengið þær bætur að eingöngu við það að fasteignaverð hækkar á höfuðborgarsvæðinu í húsi sem það hafði ekki hugsað sér að selja og ætlar að vera í og eiga heima í næstu árin hverfa hundruð þúsunda króna af ráðstöfunartekjum þess?

Hæstv. fjármálaráðherra segir: Við skulum bíða, við skulum sjá. Við vitum ekkert hvað kemur út úr þessu. Kannski er þetta fólk búið að taka svo mikið af lánum í viðbót að nettóeign hefur ekkert hækkað. Er hæstv. ráðherra að segja að komi það í ljós að fjöldi einstaklinga verði fyrir skerðingu út af þessu verði málið tekið upp og greitt til baka? Er hæstv. ráðherra að segja það? Mér finnst full ástæða til að hann svari því.



[09:15]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Vegna beinna aðgerða ríkisstjórnarinnar, ákvæða sem breyta skattalögunum til skerðingar á vaxtabótunum, hafa íbúðarkaupendur sætt skerðingu á umliðnum tveimur árum og munu sæta skerðingu á þessu ári einnig. Til viðbótar kemur síðan skerðing vegna hækkunar á fasteignamati.

Ég vil leiðrétta það sem fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra. Þau dæmi sem ég tók eru af fólki sem ekki hefur aukið við skuldir sínar milli ára. Staða þeirra er óbreytt fyrir utan það að ég reikna með hækkun á launum í samræmi við vísitölu og hækkun á eignarskattsstofninum út af fasteignamatinu. Það er það eina sem hefur breyst hjá þessu fólki. Samt er fjöldi fólks að missa 200–300 þús. kr. í vaxtabætur sem það hefur reiknað með í fjárhagsáætlunum sínum.

Ég er sannfærð um að fjöldi fólks gerir sér enga grein fyrir því að það mun standa frammi fyrir því í ágúst að fá ekki eina einustu krónu í vaxtabætur. Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera? Hann segist ætla að skoða málin. Hæstv. ráðherra verður að tala skýrar. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í ágúst þegar reiðialdan skellur yfir þetta þjóðfélag, þegar fólk, þúsundum saman, fær álagningarseðla sem sýna að það fær ekkert í vaxtabætur þótt staða þess sé óbreytt frá síðasta ári þegar það fékk kannski 200–250 þús. kr. í vaxtabætur?

Ætlar hæstv. ráðherra, þegar hann stendur frammi fyrir því, að endurgreiða fólki? Ætlar hann að leggja til við þingið í októbermánuði að því verði endurgreitt með einhverjum hætti? Væri ekki nær að taka á málinu núna?

Það er rétt að fyrir þinginu liggur tillaga frá Atla Gíslasyni sem verður rædd í dag. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka á þessu máli. Ég skora á hv. efnahags- og viðskiptanefnd að koma saman, ræða þá tillögu og hvernig hægt verði að taka á þessu máli (Forseti hringir.) og breyta frumvarpinu sem liggur fyrir þinginu, t.d. með ákvæðum til bráðabirgða til að bregðast við því (Forseti hringir.) risavaxna vandamáli sem heimilin standa frammi fyrir.



[09:17]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Auðvitað er ýmislegt til í því sem hér hefur komið fram og engin ástæða til að gera lítið úr því. Þau dæmi sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nefnt eru eflaust til en það er hins vegar ekki öll myndin. Við vitum ekki hver niðurstaðan verður fyrr en síðar í sumar. Þá bætast við, eins og ég segi, fleiri þættir, t.d. hver staðan verður með íbúðalánin.

Ég tel einfaldlega skynsamlegast fyrir okkur að við höfum allar upplýsingarnar á borðinu um hver staðan í þessum málum er áður en við gerum breytingar en gerum ekki breytingar byggðar á dæmum sem ekki gefa rétta mynd af stöðunni. Það er einfaldlega skynsamlegra að taka ákvarðanir að yfirveguðu ráði en ekki að rasa um ráð fram í þessum efnum frekar en öðrum.



[09:19]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki líðandi að hæstv. fjármálaráðherra komist upp með svona málflutning. Það liggur allt fyrir sem liggja þarf fyrir í þessu máli. Hæstv. ráðherra reynir vitandi vits að drepa þessu máli á dreif og blandar inn í það hlutum sem hafa engin áhrif á skerðingu vaxtabóta gagnvart fólki á komandi sumri, t.d. því hvað ríkisstjórnin kann að gera eða ekki gera varðandi framtíðartilhögun íbúðalána. Hvað kemur það því við?

Á grundvelli þegar innlagðra framtala einstaklinga liggur fyrir að þúsundir fjölskyldna missa vaxtabætur sínar með öllu vegna þess eins að fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega en skerðingarmörkunum hefur ekki verið breytt. Hv. þm. Atli Gíslason nefndi dæmi upp úr raunverulegu framtali einstæðrar móður í borginni. Það er þannig, með leyfi forseta:

Hún, þ.e. móðirin, skuldaði tæpar 11 millj. í árslok 2004, átti íbúð að fasteignamati 14,6 millj. kr. og greiddi rúmar 500 þús. kr. í vaxtagjöld. Hún fékk fullar vaxtabætur árið 2005, eða 207 þús. kr. Hún skuldað jafnmikið í árslok 2005, það sem fer inn í skattframtalið, sem síðan verður grundvöllur vaxtabótagreiðslnanna eða ekki greiðslnanna í ágúst næstkomandi. Hún greiddi nánast sömu vaxtagjöld eða um hálfa milljón króna. En fasteignamat á íbúð hennar hækkaði um 4,1 millj. kr. milli ára. Hún fær engar vaxtabætur við álagningu ársins 2006. Þetta er raunverulegt dæmi úr skattframtali sem einn færasti lögmaður landsins á þessu sviði gerði fyrir viðkomandi, fyrir hönd viðkomandi stéttarfélags.

Hvað þýðir það fyrir hæstv. fjármálaráðherra að koma með útúrsnúninga og drepa málinu á dreif með þessum hætti sem hann hefur reynt að gera hér? Það þarf að gera þetta núna, til að fólkið verði ekki af vaxtabótunum í ágúst næstkomandi.