133. löggjafarþing — 9. fundur
 10. október 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:33]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Í dag, 10. október, er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og um allan heim er dagurinn notaður til að vekja athygli á málefnum geðsjúkra og geðfatlaðra.

Um helgina ræddi ég við gamlan félaga. Hann hefur lengi átt við geðsjúkdóm að stríða og dvalið langdvölum á stofnunum. Nú var hins vegar nýr svipur á honum. Hann var brattur og bar sig vel. Hann býr nú sjálfstætt utan stofnunar, er virkur og líður vel með sjúkdómi sínum.

Þessi saga er dæmi um áherslubreytingar sem eru að verða í þjónustu við geðfatlaða og það þarf að ganga lengra á þeirri braut.

Í morgun átti ég þess kost að sækja ráðstefnu sem skipulögð var á vegum ýmissa opinberra aðila undir yfirskriftinni „Ný hugsun í geðheilbrigðismálum“. Þar sagði einn aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, Héðinn Unnsteinsson, að geðheilbrigðismál hér á landi væru á ákveðnum krossgötum. Ég tel það vera orð að sönnu. Það er ákveðin vakning í gangi í samfélaginu varðandi geðheilbrigðismál og ég hef miklar væntingar um að hún leiði til bættrar stöðu geðsjúkra og geðfatlaðra. Meginatriðið er að notendur þjónustunnar hafa skapað sér rödd og vilja hafa áhrif á áherslur, hugmyndafræði, skipulag og framboð þjónustu sem er þeim til handa. Áherslan er á að geðfötlun þarf ekki að vera viðvarandi. Hún er afturkræf og það þarf að leggja áherslu á batann, ekki sjúkdóminn. Með slíkri jákvæðri nálgun fær vonin vængi hjá hinum sjúka og aðstandendum hans sem er nauðsynleg í allri glímu við erfiðleika í lífinu. Áherslan er frá stofnanaþjónustu til samfélagslegrar þjónustu. Það þýðir að í stað stofnanavistunar er geðfötluðum gefinn kostur á sjálfstæðri búsetu utan stofnana sem hvetur þá til virkrar þátttöku í lífinu og í starfinu. Þannig stuðla þeir að bata og aðlögun að sjúkdómi sínum. Áherslan er á að auka val notenda á þjónustu sem hentar hverjum og einum.

Í tilefni dagsins vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig þessar breyttu áherslur birtist í stefnumótun heilbrigðisráðuneytisins og hvernig hún muni beita sér fyrir samhæfingu á þjónustu við geðfatlaða og geðsjúka, en málefni þeirra falla í dag undir fleiri en eitt ráðuneyti.



[13:35]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég var einmitt á sömu ráðstefnu og hv. þingmaður. Það var mjög gleðilegt að sjá hvað þar var góð mæting og hve vel var staðið að þessum degi, alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Það er alveg ljóst að breytingar hafa orðið varðandi málefni þeirra sem við geðraskanir eiga að stríða. Ný hugsun er komin inn í þann málaflokk og lögð er miklu meiri áhersla á að notendur eða þeir sem eiga við þessar raskanir að stríða komi að meðferðinni sem þeir sjálfir njóta, hafi meiri áhrif á hana, og komi líka betur að allri stefnumótun. Þessi nýja hugsun er staðfest af okkar hálfu í ýmsum lögum og ég vil nefna t.d. lög um réttindi sjúklinga. Þar kemur fram að sjúklingar eiga rétt á því að vera virkir þátttakendur í sinni meðferð og hafa áhrif á hana. Það er líka ákvæði um þetta í heilbrigðisáætlun og svo má ekki gleyma Helsinki-yfirlýsingunni sem vegur kannski þyngst í þessu sambandi. Þar hafa heilbrigðisráðherrar skuldbundið sig til að auka samstarf við notendurna.

Ég vil í tilefni dagsins upplýsa að við erum að styrkja heilbrigðisráðuneytið í því að vinna í Helsinki-yfirlýsingunni. Við erum að ráða til okkar í hlutastarf geðlækni, Ólaf Þór Ævarsson, sem mun einmitt styrkja starf ráðuneytisins á þessu sviði. Það er búið að taka mörg góð skref upp á síðkastið í þessum málaflokki. Ég vil nefna stefnumótun okkar varðandi málefni barna sem eiga við geðraskanir og ofvirkni að stríða. Þar var tekið tillit til óska foreldrasamtaka og reynt að hafa virkt samráð við þá sem best þekkja til. Ég vil líka nefna það sem verið var að kynna í gær á vegum félagsmálaráðherra, ný búsetu- og þjónustuúrræði þar sem mjög virkt samráð var haft við notendur. Ég tel því að við séum að gera stórkostlega hluti í þessum málaflokki.



[13:37]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér er tekin upp. Það er eitt atriði í viðbót sem ég vil bæta inn í umræðuna vegna þess að einmitt í dag, 10. október, munu SÁÁ halda sinn árlega hátíðarfund í Háskólabíói. Áfengissýki, sem sannarlega er vel þekktur vímuefnasjúkdómur, getur líka blandast inn í mál dagsins í dag, þ.e. geðheilbrigðismál, vegna þess að áfengissýki getur auðvitað valdið geðsjúkdómum og jafnvel dauða ef hún er ekki meðhöndluð á réttan hátt. Það er einmitt verk SÁÁ að hafa gert það með glæsilegum hætti mörg undanfarin ár.

Því tek ég þetta inn í þessa umræðu að starfsemi SÁÁ er í uppnámi nú vegna þess að samtökin hafa ekki enn fengið endurnýjaðan þjónustusamning við ríkið. Allt starf þeirra er í uppnámi vegna þess að samningurinn rann út um síðustu áramót. Ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins hefur sagt að erfitt sé að gera nýjan samning. Það má rétt vera vegna þess að í gögnum sem ég hef undir höndum segir að ekki hafi verið haldinn fundur síðan í janúar þótt ítrekað hafi verið eftir því leitað og SÁÁ kvarti yfir því að hafa hvorki náð fundi með ráðuneyti né ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég vil bæta því við að hv. þm. Helgi Hjörvar spurði þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, út í þetta mál 25. janúar sl. og þá sagði þáverandi heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:

„Það er verið að vinna að endurnýjun samningsins. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki innan tíðar. Ég er ekki með dagsetningu á því.“

Virðulegi forseti. Því spyr ég hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra hvort hún sé komin með dagsetningu á það hvenær gerður verði nýr þjónustusamningur við SÁÁ. Það væri kannski hátíðlegt og gott að segja það í tilefni dagsins að hann yrði kannski undirritaður í kvöld. Eða ætlar hæstv. ríkisstjórn að láta (Forseti hringir.) þetta mál danka áfram og setja starfsemi SÁÁ í miklu meira uppnám?



[13:40]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er vel við hæfi að taka upp málefni um geðheilbrigðisþjónustu á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum 10. október. Það hefur verið mikil vakning í þjóðfélaginu varðandi geðheilbrigðismál og geðheilbrigðisþjónustu og það kemur ekki til af góðu, hæstv. forseti, þar sem úrræðaleysi er mikið og hefur verið mikið, bæði hjá fullorðnum hvað varðar búsetu og menntun — og má þar m.a. nefna málefni Fjölmenntar sem nú á í miklum rekstrarerfiðleikum og hefur þurft að draga saman seglin í vetur — og einnig hvað varðar stuðning við börn, en það vantar og hefur sárlega vantað stuðning í skóla og nánasta nærumhverfi barnanna og hvað varðar vistunarúrræði. Við höfum verið með allt of stofnanavædda geðheilbrigðisþjónustu. Krafan í dag er að nútímavæða geðheilbrigðisþjónustuna, færa hana í átt til þess sem gert er á Norðurlöndunum og víðast hvar í Evrópu.

Til þess að varpa örlítið skýrari ljósi á stöðu barna þá segja skýrslur að 2–5% barna eigi við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir að stríða og séu í brýnni þörf fyrir sérhæfða og öfluga þjónustu, bæði í skóla- og heilbrigðiskerfinu. Með öðrum orðum má reikna með að 85–214 börn sem fæddust árið 2005, sé tekið mið af upplýsingum frá Hagstofu Íslands um lifandi fædd börn það ár, þurfi á þessari þjónustu að halda. Það þýðir að yfir 2 þúsund börn á aldrinum 1–6 ára búa við geðraskanir í dag.

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra hafa á síðustu dögum birt áætlanir um bætta þjónustu í hvoru tveggja (Forseti hringir.) þessara ráðuneyta. Ég ætla að vona að það gangi allt eftir en meira þarf til.



[13:42]
Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í gær voru sannkölluð tímamót í þjónustu við geðfatlaða og geðsjúka í samfélaginu þar sem verkefnisstjórn um bætta þjónustu við geðfatlaða kynnti stefnumótun sína og framkvæmdaáætlun til 2010 um búsetu og stoðþjónustu. Þar var verið að kynna afrakstur vinnu sem staðið hefur í rúmt ár en ríkisstjórnin ákvað á síðasta ári að verja hluta af söluandvirði Símans til aukinnar og bættrar þjónustu við geðfatlaða úti í samfélaginu. Þetta er sérstakt átak þar sem við erum að færa þjónustuna í það horf sem við viljum sjá hana í til framtíðar. Leiðarljósið í þessari vinnu hefur verið aukin lífsgæði, aukin þátttaka geðfatlaðra í samfélaginu. Ég fagna því sérstaklega að hv. þm. Ásta Möller skuli taka málið upp í upphafi þingfundar á þessum degi, alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum.

Það er einmitt svo að sú nýja hugsun sem hún talaði um áðan ríkir í þessu verkefni þar sem notendur og aðstandendur þeirra sem eiga við geðsjúkdóma að stríða taka virkan þátt í mótun og framkvæmd þessarar stefnu með því að vera í svokölluðum ráðgjafahópi með verkefnisstjórninni. Í tíð þessarar ríkisstjórnar, eins og sést í ríkisstjórnarsáttmálanum sem unnið er eftir á þessu kjörtímabili, hafa málefni geðfatlaðra og geðsjúkra verið tekin sérstaklega fyrir og er nú unnið í anda Helsinki-yfirlýsingarinnar. Í þeim anda verður unnið áfram, í þeim anda að félags- og heilbrigðiskerfið vinni áfram að þessum málum og láti það ekki koma í veg fyrir að þjónustan verði bætt þó að hún verði á hendi fleiri en eins aðila. Við eigum að færa þjónustu við geðsjúka og geðfatlaða frá stofnanaþjónustu og út í samfélagið. Ég fagna því sérstaklega að umræðan í þinginu, sem vill oft markast af því hve mörg rúm séu í boði eða hve margar deildir séu í boði, virðist vera að færast í það horf að við ræðum um aukin lífsgæði, aukna og betri þjónustu og þátttöku geðfatlaðra í samfélaginu.



[13:44]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var vert að rifja það upp á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum að einn af mikilvægustu þáttunum í málefnum þeirra sem eiga við andlega sjúkdóma að stríða snýr að menntunarmálum og aðgengi þeirra að menntun. Það kom því eins og köld vatnsgusa þau nöturlegu skilaboð frá ríkisvaldinu að samningurinn á milli Geðhjálpar og Fjölmenntar um menntunarmál geðsjúkra sé í uppnámi. Ég spurði hæstv. menntamálaráðherra um þetta hér í þinginu í gær og fékk ekki önnur svör en þau að hæstv. ráðherra ætli ekki að beita sér fyrir því að samkomulag náist og nægir fjármunir fáist til að tryggja áframhaldandi starfsemi Fjölmenntar, sem hefur frá árinu 2003 boðið upp á sérstaka kennslu fyrir geðsjúka og heilaskaðaða, en þar stunda hátt í 100 manns nám í vetur. Það vantar 12 millj. kr. til að tryggja að þetta nám geti haldið áfram eins og það er starfrækt núna. Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir þá sem eiga við geðraskanir að stríða. Þetta er mjög einstaklingsmiðað nám sem hentar bæði þeim sem eiga eftir nokkra áfanga til að ljúka háskólaprófi eða eru staddir á byrjunarreit og eru rétt að læra að lesa. Þetta er gífurlega mikilvægt mál og það er áfall fyrir stöðu geðverndar á Íslandi og aðgengi fólks með andlegar raskanir að þetta nám skuli nú sett í uppnám. Það er hæstv. menntamálaráðherra ekki til sóma hvernig hún hefur komið fram í málinu. Hún er sökuð um svik og að hafa gengið á bak orða sinna. Hún svaraði ekki því sem ég þrásinnis spurði í gær, hvort hún ætlaði að beita sér í málinu og leysa þennan hnút. Því er ástæða til að endurtaka það í dag hvort ráðherrann sé sama sinnis og í gær. Auk þess spyr ég hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé til í að ganga í málið þar sem það kemur að henni líka og skera á hnútinn og tryggja það að Fjölmennt fái fjármuni til starfsemi sinnar og að þessu mikilvæga námi (Forseti hringir.) verði áfram haldið úti. Það væru jákvæð skilaboð á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum.



[13:46]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka upp þessa umræðu í tilefni af alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Ég er mjög sáttur við þær áherslur sem fram hafa komið á undanförnum árum og byggjast á stefnumótandi frumkvæði og starfi sem segja má að sé sprottið úr grasrótinni hjá því fólki sem sjálft á við geðheilbrigðisvanda að stríða. Nokkur samtök hafa látið mjög að sér kveða í umræðu og starfi og má þar nefna klúbbinn Geysi sem er hlekkur í stórri keðju sem nær víða um heim.

Þótt við fögnum þeirri nýju hugsun sem byggist á samvinnuhugsjón og sjálfshjálparstarfi er ekki þar með sagt að við megum vanrækja stofnanirnar eða sjúkrahúsin. Ég minni á að þar hafa á undanförnum árum myndast langar biðraðir sem hafa verið til umræðu við afgreiðslu fjárlaga á undanförnum árum. Við skulum ekki gleyma vanda þessara stofnana þótt við fögnum nýjum úrræðum á þessu sviði.



[13:48]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja athygli á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum sem er í dag, 10. október. Við höfum unnið að mörgum góðum málum í fjárlaganefnd undanfarin ár og höfum lagt áherslu á að leggja frjálsum félagasamtökum til sem eru að vinna í geðheilbrigðismálum.

Það er afskaplega mikilvægt að úrræði séu fjölbreytt og bæti stöðu geðfatlaðra og auki þjónustu. Það var mjög ánægjulegt að fylgjast með því gær, eins og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir greindi frá nú áðan, auknum lífsgæðum og aukinni atvinnuþátttöku.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat áðan um klúbbinn Geysi. Á Selfossi hefur verið stofnaður klúbburinn Strókur sem vinnur í sama anda og klúbburinn Geysir. Það er mikilvægt að fólk sé að vinna sjálft í sínum málum því eins og sagt var hér áðan: Þetta er ekki lífstíðardómur, þetta er sjúkdómur sem hægt er að bæta. Ég vil óska öllum þeim til hamingju með daginn sem hafa sprottið upp úr grasrótinni, farið að vinna í þessum málum og fengið okkur þingmenn og alla landsmenn til að hlusta, og komu okkur upp úr þeim dimma dal sem þessi mál voru í þegar ekki mátti ræða þau, þegar þau voru í felum. Nú eru þau uppi á yfirborðinu og allir taka þátt í að gera lífið betra. Við skulum heita því að halda því verki áfram.



[13:50]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er við hæfi á þessum degi að benda hv. alþingismönnum á að geðsjúkdómar á hverjum tíma endurspegla samfélagið og breytast eftir því í hvers konar samfélagi menn búa. Það geta þeir vitnað um sem hafa lesið sögu geðsjúkdóma.

Krafan um fjölbreytta þjónustu er eðlileg. En það er líka mikilvægt að menn hafi í huga að krafan um fjölbreytta þjónustu þýðir ekki að þjónustan kosti minna. Það þarf að verja meiri fjármunum í þennan málaflokk. Það verður að verja meiri fjármunum í að bæta þjónustu við geðsjúka þannig að fleiri nái bata og komist aftur út í samfélagið. Það þarf líka að verja meiri fjármunum í baráttuna gegn fordómum sem búa innra með okkur öllum, líka þeim sem verða lasnir.

Það þarf að benda fólki ítrekað á þá staðreynd að þó að fólk verði geðveikt — og fimmti hver Íslendingur verður geðveikur einhvern tímann á ævinni — er leiðin til bata orðin greiðfærari en nokkru sinni fyrr. Það er m.a. vegna þess að þjónustan hefur batnað. Sjúklingar hafa sjálfir tekið stjórnina. Það er líka vegna þess að lyfin hafa batnað. Það má heldur ekki sveiflast pólanna á milli í þessari umræðu og halda að einn daginn sé allt leyst með einni aðferð og segja lyfjunum stríð á hendur. Lyfin bæta lífsgæði fólks. Við skulum ekki gera lítið úr því hvað það er þýðingarmikið ásamt því að geðsjúkir fái fullt umboð til að taka stjórn á sínum eigin sjúkleika og ná bata á eigin forsendum.



[13:52]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og er viðeigandi á þessum degi, alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Það er alveg ljóst, og hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna hér í dag, að málefni geðsjúkra og geðfatlaðra varða fleiri en eitt ráðuneyti. Það var önnur af þeim spurningum sem ég varpaði fram til ráðherra, hvernig hún muni beita sér fyrir því að samræma sjónarmið í þessum málaflokki þar sem þau varða svo mörg ráðuneyti.

Það er nefnilega þannig að málefni geðsjúkra falla undir heilbrigðisráðuneytið, en hins vegar falla málefni geðfatlaðra undir félagsmálaráðuneytið. Mismunandi viðhorf hafa ríkt í þessum tveim geirum og þau þarf að samræma.

Jafnframt vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, varðandi hin ýmsu meðferðarúrræði sem standa til boða. Það er nefnilega þannig að þegar ný hugsun kemur inn í ákveðna þjónustu eða ákveðinn geira þá þýðir það ekki að yfirgefa eigi hin gömlu úrræði. Það þarf að hlúa að þeim líka, hlúa að því sem vel er gert.

Eitt af því sem var athyglisvert á ráðstefnunni um geðheilbrigðismál, sem ég var á í morgun, var að það þyrfti virkilega að beita sér í því að koma í veg fyrir fordóma, að takast á við fordóma, bæði eigin fordóma og annarra.

Það má hins vegar ekki verða svo að þeir fordómar sem eru í samfélaginu gagnvart geðsjúkum, en eru þó á undanhaldi, færi sig yfir á heilbrigðiskerfið og á lyfin. Það má ekki gerast. Lyfin eru mikilvægur þáttur í meðferð geðsjúkra og oft sá þáttur sem gerir fólki kleift að lifa áfram með þennan sjúkdóm. Ég fagna umræðunni og ég fagna þeim áherslubreytingum sem eru að verða í þessum málaflokki.



[13:54]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt að þessi málaflokkur krefst samstarfs margra aðila og margra ráðuneyta. Ég vil nefna af því tilefni að kynningin í gær á þeim úrræðum sem félagsmálaráðuneytið hefur forgang um er unnin í nefnd sem heilbrigðisráðuneytið á fulltrúa í — þegar við útskrifum fólk af Landspítala – háskólasjúkrahúsi yfir í sjálfstæða búsetu tengist spítalinn beint við þessi nýju úrræði. Þannig að þessi ráðuneyti tengjast í þeirri vinnu.

Hér var komið inn á SÁÁ. Ég vil nú upplýsa hv. þm. Kristján L. Möller, af því ég heyri að hann hefur rangar upplýsingar, um að við höfum verið að skoða málefni SÁÁ. Það er rétt að samningurinn rann út fyrir um ári. Samt er unnið eftir gamla samningnum. Það er ekkert uppnám í þessum málaflokki. Við höfum hins vegar fundað með SÁÁ. Á fundi þann 4. október voru þrír af hálfu ráðuneytisins viðstaddir og fimm frá SÁÁ. Þannig að það er verið að ræða við SÁÁ um áframhaldandi samning.

Ef menn fletta upp í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur í ljós að SÁÁ fær um 579,1 millj. í rekstur sinn og verið er að hækka þá upphæð um tæpar 30 millj. að raungildi. Þar er bæði um að ræða viðhaldskostnað við húsnæði, eflingu göngudeildar og lyfjakostnað.

En ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi að taka undir það sem hér kom fram varðandi lyfin af því þau hafa verið til mikið til umræðu í fjölmiðlum upp á síðkastið. Það er nauðsynlegt að nota lyf. Ég vil benda á að ef við notuðum ekki lyf væru líklega um 600 manns í langtímavistun á sjúkrahúsi. En þeir eru nú í kringum 50 til 60. Þannig að það er nauðsynlegt að nota lyf.

Að lokum vil ég í tilefni dagsins þakka þeim sem hafa hjálpað okkur að vinna gegn fordómum. Það eru notendurnir sjálfir. Ef ekki hefði verið fyrir kjark þeirra og þor að stíga fram værum við ekki komin eins langt í málaflokknum og við erum þó komin í dag.