133. löggjafarþing — 10. fundur
 11. október 2006.
lánveitingar Íbúðalánasjóðs.
fsp. JóhS, 105. mál. — Þskj. 105.

[13:51]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég býð hæstv. félagsmálaráðherra velkominn í stól félagsmálaráðherra og vona að við getum átt ágæta samvinnu á þinginu. Ástæða þeirra fyrirspurna sem ég legg fyrir hann er að ég held að þær breytingar sem gerðar voru fyrir nokkrum mánuðum, á miðju ári sennilega, um lækkun á hámarksláni Íbúðalánasjóðs og lækkun lánshlutfalls, auk þess að breyta ekki veðskilyrðum eigna vegna lána hafi komið mjög illa niður á lágtekju- og millitekjuhópum og illa niður á landsbyggðinni. Þessir hópar gátu auðveldlega eignast íbúð í félagslega kerfinu þar sem veitt var 90% og 100% lán, áður en það var lagt niður, og síðan með þeim viðbótarlánum sem þá tóku við til fólks innan ákveðinna tekjumarka.

Það varð gífurleg breyting á lánafyrirgreiðslu vegna íbúðakaupa til þeirra tekjulægri þegar viðbótarlánin voru felld brott og félagslega kerfið lagt niður. Sérstaklega vil ég hér nefna viðbótarlánin vegna þess að veðhæfni eigna á þeim lánum miðaðist við kaupverð eigna en ekki brunabótamat, sem ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir. Á þessu er gífurlega mikill munur.

Nú hefur lánshlutfallið lækkað úr 90% í 80%. Hámarkslánið er farið úr 18 millj. kr. í 17 millj. og veðhæfni eigna miðast við brunabótamat sem algengt er að sé 40% af kaupverðinu, lítillar tveggja herbergja íbúðar. Það er bara algengt að fólk fái ekki lánað, ekki 90%, ekki einu sinni 80%, heldur 40% út af brunabótamatinu. En áður fékk fólk sem hafði viðbótarlán 90% lánað af kaupverði eigna og á þessu er mikill munur.

Þessu til viðbótar hefur orðið alger verðsprenging. Ég get nefnt hér sem dæmi að miðað við 10 millj. kr. eign fyrir fimm árum þá þyrfti fólk miðað við 90% lán að leggja sjálft fram 1 millj. kr. Í dag kostar þessi sama íbúð 20 millj. kr. og vegna þessarar hækkunar og lækkunar á lánshlutfalli þarf fólk að leggja fram 4 millj. fyrir sömu íbúð, um 1 millj. fyrir fimm árum. Þessu verður að taka á. Þarna er ákveðinn hópur sem hefur orðið á milli, fólk með lægri tekjur.

Það sem er verra er að ég tel að þessar breytingar hafi skapað mikinn þrýsting á leigumarkaðnum. Þær hafi aukið á rokdýr skammtíma- og yfirdráttarlán og fækkað lánveitingum verulega á landsbyggðinni. Nú eru t.d. um 1.600 til 1.700 manns á biðlista eftir leiguíbúðum, eingöngu í Reykjavík.

Það er alveg ljóst að þær breytingar sem hafa orðið á stöðu fólks með lægri tekjur til að eignast íbúðir hafa skapað verulegan þrýsting á leigumarkaði. Verulegan þrýsting.

Þess vegna hef ég lagt fyrirspurnir til ráðherrans sem ég má ekki vera að að lesa en þær snúa fyrst og fremst að því hvort ekki sé tímabært að huga sérstaklega að ákveðnum leiðum fyrir fólk sem er í tekjulægri hópnum til að eignast íbúð.



[13:55]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur góðar óskir í minn garð og tek undir með henni um nauðsyn þess að við eigum gott samstarf um þennan mikilvæga málaflokk sem félagsmálin eru.

Með breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf og útgáfu nýrrar reglugerðar um lánshlutfall og fjárhæðir í ÍLS-veðbréfa í júlí síðastliðnum var lánshlutfall almennra lána Íbúðalánasjóðs lækkað úr 90% í 80% af fasteignamati íbúðar sem lánað var til. Jafnframt var hámarkslán sjóðsins lækkað úr 18 millj. í 17.

Um er að ræða tímabundna aðgerð með það að markmiði að draga úr þenslu á íbúðalánamarkaði og var hún liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Þessi þensla íbúðamarkaðar hófst, eins og hv. þingmenn vita, með því að bankarnir hófu haustið 2004 að bjóða næstum óheft íbúðalán til allra sem vildu. Þetta stóraukna framboð íbúðalána hefur vitaskuld hafa margháttaðar afleiðingar. Sumar jákvæðar eins og að fjölmargir íbúðareigendur gátu skuldbreytt óhagstæðum eldri lánum en til lengri tíma eru áhrifin þau að íbúðaverð hefur hækkað. Fyrir vikið fer sá hópur fólks stækkandi sem á erfitt um vik með að kaupa eigið húsnæði.

Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þekkir betur en flestir sem hér eru, er verðbólgan versti óvinur þeirra sem skulda verðtryggð íbúðalán. Með því að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs tímabundið í 80% og lækka hámarkslán í 17 millj. var ríkisstjórnin markvisst að reyna að draga úr verðbólgunni sem m.a. hefur verið knúin áfram af hækkun á verði íbúðarhúsnæðis. Að mínu mati var þetta rétt ákvörðun við þær aðstæður sem þá voru uppi.

Þegar áhrif þessara aðgerða koma enn betur í ljós, með því að böndum hafi verið komið á verðbólguna er fyrirséð að þrýstingur vex á að hlutfallið verði hækkað á ný. Slík breyting væri í fullu samræmi við áform okkar framsóknarmanna í þessum efnum og við það viljum við standa eins og annað.

Almennt má segja að breyting á útlánaheimildum og minnkað framboð íbúðalána leiði fyrst og fremst til að fólk ákveði að bíða einhvern tíma með að skipta um húsnæði. Það veltur þó á aðstæðum hvers og eins hvort slík bið sé möguleg. Eflaust má finna dæmi um fjölskyldur sem hafa knýjandi þörf fyrir að skipta um húsnæði en eiga erfiðara um vik vegna minnkandi lánsframboðs, þar á meðal vegna lækkunar á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs.

Ekki er ólíklegt að einhverjir þeirra sem stóðu í húsnæðiskaupum eða voru langt komnir með undirbúning að slíkum viðskiptum eða gátu ekki frestað þeim, hafi orðið að leysa sín mál með auknum lántökum í bankakerfinu. Hvorki ráðuneyti né Íbúðalánasjóður búa hins vegar yfir upplýsingum um hver stór sá hópur kann að vera sem hefur þurft að leita sér annarra og dýrari fjármögnunarkosta.

Varðandi greiðslumatið er það svo að eftir að það var sett inn í rafrænt form á heimasíðu Íbúðalánasjóðs getur væntanlegur lántakandi sjálfur útbúið bráðabirgðagreiðslumat og séð þá strax hvaða lánamöguleika hann hefur. Hvað hann getur greitt af háu láni og hvað hann getur keypt dýra eign.

Af þeirri ástæðu er fremur fátítt að lánsumsókn sé hafnað vegna þess að greiðslugeta sé ekki fyrir hendi. Viðskiptavinurinn hefur oftast sjálfur gert sér grein fyrir því fyrir fram hvort hann eigi möguleika á láni. Algengara er því að lánsumsókn sé hafnað af Íbúðalánasjóði vegna vafasamrar viðskiptasögu umsækjanda. Breyting á lánshlutfalli úr 90% í 80% hefur engu breytt hvað þetta varðar heldur trúlega leitt til þess að sjóðurinn fær færri lánsumsóknir en áður.

Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að stærstur hluti þeirra 90% lána sem Íbúðalánasjóður hefur veitt hafa verið úti á landi. Á höfuðborgarsvæðinu hefur takmörkun vegna brunabótamats íbúða leitt til að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs nær sjaldan hæsta mögulega veðhlutfalli. Því er óhætt að slá því föstu að það sé einkum á landsbyggðinni sem lækkunin hafi haft áhrif en á höfuðborgarsvæðinu hafa áhrifin af lækkun lánshlutfallsins ekki orðið veruleg. Þar hefur lækkun á hámarksláni úr 18 millj. í 17 millj. hins vegar haft meiri áhrif.

Að mínu mati líður senn að því að mögulegt verði að auka lánshlutfallið að nýju í 90%. Ég er þó jafnframt tilbúinn að skoða fleiri leiðir til að auka möguleika ungs fólks til að eignast eigið húsnæði. Í því sambandi bendi ég einkum á að tenging útlána Íbúðalánasjóðs miðist við annað en brunabótamat.

Fjármálaráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar sérstakan starfshóp til að fara yfir kosti og galla núverandi tilhögunar í fasteignaskráningu og fasteignamati á vegum hins opinbera. Eitt af verkefnum starfshópsins verður að leita svara við þeirri grundvallarspurningu hvort nægileg rök standi til að halda í skyldutryggingu vegna bruna á fasteignum með hliðsjón af því að slík skylda virðist einsdæmi hérlendis. Verði niðurstaðan sú að ekki sé þörf fyrir slíka skyldutryggingu virðist allur grundvöllur brostinn fyrir því að miða lánshæfi eigna við brunabótamat.

Að mínu mati er það margumrædd takmörkun útlána Íbúðalánasjóðs vegna brunabótamats sem hefur hvað mest áhrif varðandi fjármögnun íbúðakaupa hjá Íbúðalánasjóði. Hátt verð eigna og aðrar takmarkanir á borð við 80% lánshlutfall og 17 millj. kr. hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðs hafa einnig áhrif en þau eru að mínu mati mun minni.



[14:00]
Einar Oddur Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hvað það er sem gengur á hér. Verðhækkanir á fasteignum á Íslandi eru ekkert einstakt fyrirbrigði. Bandaríkjamenn telja að verðhækkanir á fasteignum þar á undanförnum árum sé stærsta eignabóla í sögu Bandaríkjanna og auðvitað er fasteignaverð á Íslandi og í Evrópu hluti af því dæmi.

Við skulum því þakka fyrir það ef okkur tekst að koma standandi niður úr þessu mikla heljarstökki. Það er mjög mikil ástæða til þess að segja við alla og alltaf að við verðum að fara mjög varlega, það er mjög hættulegt þegar við lendum í svona gríðarlegum verðbreytingum. Því skiptir öllu máli að ríkisstjórninni takist að standa vörð um þau grundvallarsjónarmið sem standa á bak við húsnæðisstjórnina og lánakerfið þar og vonandi ber stjórnarandstaðan gæfu til þess að vera með okkur í því ferli.



[14:01]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem eins og alþjóð veit fylgist grannt með Íbúðalánasjóði og húsnæðislánum, eins og vonandi þingmenn allir. Ég tel jafnframt ástæðu til að óska hæstv. ráðherra til hamingju með embættið og spyr um leið hvort ekki sé væntanlegt fljótlega frumvarp um Íbúðalánasjóð. Ég tel rétt við þessar aðstæður að fagna því sérstaklega að nýr félagsmálaráðherra skuli hafa staðist áhlaup bankanna og framsóknarforustunnar um að gefa eða selja Íbúðalánasjóð. Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna því að sú hugmynd skuli hafa farið með fráfarandi formanni.



[14:02]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er stefna okkar framsóknarmanna að standa vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs. (Gripið fram í: Loksins.) Ég fagna því sem hæstv. félagsmálaráðherra lýsti yfir áðan að hugmyndir séu uppi um að efla starfsemi Íbúðalánasjóðs og styrkja grundvöll hans. Það hefur ekki staðið á framsóknarmönnum að standa vörð um þá stofnun, enda er sú stofnun sköpuð af þáverandi félagsmálaráðherra, Páli Péturssyni, eins og öllum er kunnugt.

Hæstv. forseti. Það voru teknar mjög erfiðar ákvarðanir síðastliðna sumarmánuði af hálfu ríkisstjórnarinnar til að ná tökum á verðbólgunni. Við sjáum að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í á þeim tíma eru að bera árangur. Samfylkingin talaði á þeim tíma út og suður í málefnum Íbúðalánasjóðs. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýndi harðlega þær aðhaldsaðgerðir sem ríkisstjórnin fór í í þeim efnum á meðan formaður Samfylkingarinnar og forustumenn aðrir töldu að ganga hefði mátt lengra. Samfylkingin hefur því talað út og suður í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.



[14:03]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. síðasta ræðumann um að það er samstaða í þingflokki Samfylkingarinnar og í Samfylkingunni allri um það sem efni þessarar fyrirspurnar snýst um, að bæta þurfi stöðu fólks með lágar og meðaltekjur á íbúðamarkaðnum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vona að hann standi við það að breyta þessu viðmiði úr brunabótamatinu þannig að miðað verði við kaupverð eigna vegna þess að þetta er að ganga fram af fólki og gera það ofurselt leigumarkaðnum sem annars gat bjargað sér og komið sér þaki yfir höfuðið.

Formaður Félags fasteignasala, sem ég hafði samband við í dag, segir að fara þurfi marga áratugi aftur í tímann til að finna verra ástand en það sem kaupendur sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð standa frammi fyrir í dag. Þessu fólki þarf að koma til bjargar, m.a. með því að breyta þessu viðmiði. Eins og ég sagði áðan þurftu fyrstuíbúðarkaupendur að leggja fram 1 milljón kr. af 10 millj. kr. eign fyrir fimm árum síðan en í dag þurfa þeir að reiða fram 4 milljónir fyrir nákvæmlega eins íbúð. Ungt fólk hefur ekki þessa peninga. Þess vegna er orðið mjög brýnt að hæstv. ráðherra vindi sér í þetta og ég vona að hann breyti þessu fljótt og vel.

Viðbótarlánin voru með þessu viðmiði, miðað var við kaupverð en ekki brunabótamat. Hvers vegna í ósköpunum var þessu breytt gagnvart þeim sem eru að kaupa og eignast sína fyrstu íbúð? Sú breyting sem gerð var í sumar hafði engin áhrif á verðbólguna vegna þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér fengu aðeins 20 manns á fyrsta ársfjórðungi eftir að þessi breyting varð gerð 90% lán út af þessu lánshlutfalli. Þetta kom fyrst og fremst niður á landsbyggðinni. Það eru fyrst og fremst lán bankanna sem hafa keyrt upp verðbólguna. Þeir voru með 35 milljarða útlán í upphafi á árinu 2004 meðan (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóður var að meðaltali með um 5 milljarða. Það sem fyrrverandi ráðherra gerði í sumar hafði því engin áhrif til að draga úr verðbólgunni.



[14:05]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Mér finnst hún bera þess merki að hér sé á ferðinni mál sem hv. þingmenn hafa mikinn áhuga á og ég veit að svo er.

Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson spurði mig hvenær fram kæmi frumvarp um Íbúðalánasjóð. Ég get ekki svarað því nú en eins og hann veit og aðrir er unnið að þessum málum í ráðuneytinu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fullyrti að þær breytingar sem gerðar voru í sumar — það var að vísu sá sem hér stendur sem bar ábyrgð á þeim — hefðu ekki haft nein áhrif á verðbólguna. Ég er ekki sammála því og tel að það muni koma í ljós síðar, en svona er umræðan.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég legg hins vegar áherslu á að húsnæðismálin eru velferðarmál, þess vegna falla þau undir félagsmálaráðuneytið, og við höfum að sjálfsögðu fullan hug á að meðhöndla þennan málaflokk með þeim hætti og á þeirri forsendu að um velferðarmál sé að ræða.