133. löggjafarþing — 10. fundur
 11. október 2006.
húsaleigubætur.
fsp. JóhS, 108. mál. — Þskj. 108.

[14:07]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kom nýlega fram opinberlega að grunnfjárhæð húsaleigubóta hafi ekki hækkað í sex ár eða frá árinu 2000 en á þeim tíma hefði vísitala húsaleigu hækkað um rúmlega 55%, en kveðið er á um grunnfjárhæðir húsaleigubóta í reglugerð sem félagsmálaráðuneytið gefur út. Vísitala húsaleigu hefur hækkað um 55,7% frá janúar 2001–2006 og ef miðað er við október núna hefur hún hækkað um 58,9%. Það kom einnig fram að samkvæmt upplýsingum frá Leigulistanum væri leiga á þriggja herbergja íbúð komin í 90–120 þús. kr. og á tveggja herbergja íbúð í 70–90 þús. kr. Í sömu frétt í Morgunblaðinu kom fram að leiguverð færi stöðugt og hratt upp og að uppsett verð væri oft yfirboðið. Mikið er um að leiguverð sé líka vísitölubundið.

Þessi himinháa húsaleiga sem fólk sem er á leigumarkaðnum þarf að búa við bitnar auðvitað harðast á þeim sem síst skyldi, á námsmönnum og fólki með litlar tekjur sem getur ekki eignast húsnæði, eins og við ræddum áðan, sem væntanlega hefur fjölgað þeim sem þurfa að fara á leigumarkaðinn. Þess vegna gengur það ekki, virðulegi forseti, að leiguverð rjúki upp en grunnfjárhæð húsaleigubóta standi í stað.

Sem dæmi má nefna þegar um er að ræða að vísitala húsaleigu hafi hækkað um tæp 59% frá því grunnfjárhæð húsaleigubóta var síðast hækkuð fyrir sex árum þá hefur leiguverð sem var 50 þús. kr. á íbúð árið 2001 hækkað um tæpar 30 þús. kr. vegna vísitölunnar og er komið í 80 þús. kr. Á meðan hefur grunnfjárhæð húsaleigubóta algjörlega staðið í stað. Það sér hver maður í hendi sér að slíkt gengur ekki.

Það skiptir auðvitað verulegu máli fyrir tæplega 10 þúsund fjölskyldur sem fá húsaleigubætur að bæturnar taki eðlilegum vísitölubreytingum, annað er bara hrein kjararýrnun fyrir þetta fólk og er fljót að fara í hærri húsaleigu sú 15 þús. kr. kauphækkun sem láglaunafólk, sem er á þessum markaði, fékk í sumar í kjarabætur án þess að á móti komi eðlilegar húsaleigubætur sem hafa ekki hækkað í takt við vísitölu.

Út á það gengur eftirfarandi fyrirspurn sem ég legg fyrir hæstv. félagsmálaráðherra:

1. Hver er ástæða þess að ráðherra hefur ekki breytt reglugerð og hækkað grunnfjárhæðir húsaleigubóta sl. sex ár?

2. Hve mikið hefðu grunnfjárhæðirnar hækkað ef þær hefðu fylgt vísitölu greiddrar húsaleigu?

3. Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því í samráði við sveitarfélögin að grunnfjárhæðir húsaleigubóta verði hækkaðar í samræmi við breytingar á vísitölu greiddrar húsaleigu frá því í árslok 2000?



[14:10]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi Jóhanna Sigurðardóttir nefndi hér dæmi um að húsaleigubætur hafi ekki hækkað í takt við húsaleigu á undanförnum árum. Ég hef fullan skilning á þessu máli og þekki sjálfur dæmi um einstaklinga í svipaðri stöðu og hv. þingmaður nefndi áðan.

Ég tel í upphafi rétt að geta þess að með lögum nr. 133/2001, um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, voru húsaleigubætur undanþegnar tekjuskatti. Þessi breyting var mikil réttarbót fyrir bótaþega og tók gildi í ársbyrjun 2002. Sá hópur sem á rétt á húsaleigubótum hefur einnig farið stækkandi. Að auki hafa fáein sveitarfélög sýnt lofsvert frumkvæði með því að taka upp greiðslu sérstakra húsaleigubóta til mjög tekjulágra einstaklinga. Meðaltalsfjárhæðir húsaleigubóta hafa hækkað umtalsvert á því tímabili sem þingmaðurinn nefnir og bótaþegum hefur einnig fjölgað mikið. Vegna þessarar miklu þenslu í málaflokknum hefur ekkert svigrúm verið til að hækka grunnfjárhæðir húsaleigubóta.

Á árunum 2000–2006 hafa útgjöld sveitarfélaga til húsaleigubóta hækkað verulega að raunvirði. Heildargreiðslur hækkuðu þannig um ríflega 110% að raunvirði milli áranna 2000 og 2005.

Eftirfarandi þættir eru einkum taldir skýra þessa útgjaldaaukningu:

1. Ýmsar laga- og reglugerðarbreytingar sem m.a. hafa aukið rétt námsmanna og fatlaðra. Einnig má nefna sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga til fjölgunar leiguíbúða, hækkun tekjumarka bótaþega, skattfrelsi húsaleigubóta og breytingar á skattlagningu leigutekna, sem í heild hafa leitt til mikillar fjölgunar bótaþega.

2. Bætt upplýsingagjöf um húsaleigubætur hefur að líkindum gert leigjendur meðvitaðri um rétt sinn til húsaleigubóta og þar af leiðandi fjölgað bótaþegum.

3. Mikil hækkun á fasteignaverði undanfarin ár hefur ásamt aukinni eftirspurn eftir leiguhúsnæði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, einnig leitt til þess að húsaleiga á almennum markaði hefur hækkað umfram almennt verðlag, sem aftur hefur haft í för með sér hækkun húsaleigubóta. Jafnframt hafa sum sveitarfélög, til að mynda Reykjavíkurborg, hækkað leigu á félagslegum leiguíbúðum til þess að færa hana nær raunkostnaði af rekstri húsnæðisins. Áhrif þess eru þau að í stað beinnar niðurgreiðslu sveitarfélaga af húsaleigu er leigjendum beint rakleitt í húsaleigubótakerfið.

Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga 4. des. 2002 var m.a. fjallað um húsaleigubætur. Í því samkomulagi var ákvæði um að reglugerð um húsaleigubætur, þar sem m.a. komu fram grunnfjárhæðir húsaleigubóta, skyldi haldast óbreytt til 30. júní 2004. Á sama tíma var gerð breyting á fjármögnun húsaleigubóta sem nú tekur mið af föstu hlutfalli tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Með þeirri breytingu var fjármögnun húsaleigubóta alfarið færð á hendur sveitarfélaga og jöfnunarsjóðsins.

Hv. þingmaður spyr hve mikið grunnfjárhæðir hefðu átt að hækka á tímabilinu og hve háar fjárhæðir hafi sparast árlega með því að hafa grunnfjárhæðirnar óbreyttar. Ég hef þegar getið þess að framlög sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til húsaleigubóta hafa hækkað verulega að raunvirði auk þess sem meðaltalsbæturnar hafa hækkað og bótaþegum fjölgað. Af þeirri ástæðu er varla hægt að tala um sparnað í því samhengi sem hv. þingmaður gerir í fyrirspurn sinni. Réttara er að segja að útgjöld sveitarfélaga hefðu orðið enn meiri en raunin er ef grunnfjárhæðirnar hefðu verið hækkaðar.

Vísitala greiddrar húsaleigu samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hækkaði úr 140,7 í 225,5 frá desember 2000 til september 2006. Grunnfjárhæðir húsaleigubóta hefðu því hækkað um 58,1% ef þær hefðu fylgt vísitölunni. Ég tel mig ekki hafa forsendur til að reikna út af neinni nákvæmni hver árleg heildarfjárhæð húsaleigubóta væri á umræddu tímabili ef grunnfjárhæðir hefðu hækkað til samræmis við hækkun greiddrar húsaleigu enda er þar um flókna útreikninga að ræða. Ég tel hins vegar óhætt að upplýsa að útgjaldaauki sveitarfélaganna vegna slíkra breytinga er fljótur að hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Hæstv. forseti. Ég er ekki tilbúinn að lofa því hér og nú að grunnfjárhæðirnar verði hækkaðar á næstunni. Ég tel hins vegar eðlilegt að ríki og sveitarfélög ræði þetta mál ásamt fleiri málum og ég hef reyndar farið yfir málin með nýjum formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég sé ekki fyrir mér að komið geti til hækkunar nema í sátt við sveitarfélögin og það er nauðsynlegt að hafa í huga að eins og fjármögnun húsaleigubóta er nú háttað lenda allar kostnaðarhækkanir á sveitarfélögunum því framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til húsaleigubóta er ákveðið í lögum og því framlagi er síðan jafnað niður á sveitarfélögin.

Ég tel rétt að lokum að benda á að í allri umræðu um hve mikið væri sanngjarnt að hækka bæturnar verður að mínu mati að taka tillit til skattfrelsis bótanna, sem ég hef áður nefnt. Á þessu stigi tel ég hins vegar ótímabært að tjá mig frekar um hve mikil slík hækkun geti orðið eða hvort af henni getið orðið.



[14:15]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin en þau valda mér vonbrigðum. Ég taldi að hæstv. félagsmálaráðherra mundi vinda sér í það í samvinnu við sveitarfélögin að skoða hækkun á þessum grunnbótum. Ég get sjálf svarað þeirri spurningu sem hæstv. ráðherra svaraði ekki, hve mikið fjárhæðirnar hefðu hækkað ef þær hefðu fylgt vísitölu. Í staðinn fyrir 8 þús. kr. væru þær í dag 12.800 kr. og ég fullvissa ráðherrann um að fátækt fólk sem varla á fyrir mat út mánuðinn, m.a. vegna hárrar húsaleigu sem hefur tvöfaldast á stuttum tíma, munar um þennan tæpa 5 þúsund kall. Ég held að það liggi nokkurn veginn á borðinu að sveitarfélögin voru plötuð á sínum tíma af ríkisvaldinu þegar þau gerðu þennan samning við ríkisvaldið sem hæstv. ráðherra vitnaði í. Ég geri ráð fyrir að fjárhæðin sem fer í greiðslu húsaleigubóta hafi a.m.k. þrefaldast frá því að þetta samkomulag var gert. Ef ég man rétt er hún núna um 1.500 millj. kr. Ég hygg að hún hafi ekki verið nema 500 millj. þegar ríkið gerði þetta samkomulag. Mér finnst það engin afsökun og réttlæti það að þetta taki ekki mið af vísitölubreytingum að húsaleigubætur séu undanþegnar tekjuskatti. Það var auðvitað mikil búbót fyrir fólk, ég er alveg sammála því. Og að sveitarfélög hafi tekið upp sérstaka greiðslu húsaleigubóta til að greiða niður greiðslur á almennum markaði er vitaskuld mjög gott, en við verðum að hafa í huga að við erum að tala um fátækasta fólkið og það munar um þessa fjárhæð. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að leita strax samvinnu við sveitarfélögin um það hvort ekki sé hægt að hækka þessar greiðslur vegna þess að fólk munar verulega um það.

Núna eru rúmlega 1.600 manns á biðlista eftir leiguíbúðum í Reykjavík. Það á einungis að fjölga slíkum íbúðum um rúmlega 600 á næstu fjórum árum, ef marka má ummæli borgarstjóra sem fram koma í Morgunblaðinu í dag. Það er auðvitað nauðsynlegt að breyta þessu viðmiði eins og ég hef hér lýst.



[14:18]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp en ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að þetta er mál sem við munum ræða við sveitarfélögin á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga. Ég ítreka einnig það sem ég sagði, að ég hef þegar rætt þetta við nýjan formann Sambands sveitarfélaga. Við erum því sammála um það, ég og hv. þingmaður, að þetta mál verði rætt á þeim vettvangi.

Að öðru leyti hef ég engu við það að bæta sem ég fór yfir í fyrri ræðu minni nema því sem ég hef ítrekað nú.