133. löggjafarþing — 10. fundur
 11. október 2006.
þjónusta á öldrunarstofnunum.
fsp. ÁMöl, 118. mál. — Þskj. 118.

[14:19]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða sem kom út fyrir réttu ári er vakin athygli á því að þjónusta öldrunarstofnana er afar mismunandi. Það á jafnt við um þætti sem snúa að heilbrigðisþjónustu, eins og endurhæfingu, og annarri stoðþjónustu, eins og þvotti og félagsstarfi.

Í lögum um málefni aldraðra segir að í dvalarrýmum skuli vera völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum, félags- og tómstundastarfi svo og aðstöðu fyrir endurhæfingu. Í reglugerð um greiðslu öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu kemur fram að stofnunum er ekki skylt að kosta persónulega muni og aukaþjónustu, svo sem fatnað, fatahreinsun, snyrtivörur, hársnyrtingu og fótsnyrtingu. Þó er litið svo á að stofnanir fyrir aldraða eigi að sjá um þvott hjá heimilisfólki, eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og hefur jafnframt verið ítrekað frá heilbrigðisráðuneytinu til stofnananna.

Flest höfum við átt eða eigum nákominn ættingja á hjúkrunarheimili. Það er öllum ljóst að aðbúnaður og þjónusta þessara stofnana er mismunandi. Sums staðar búa allir íbúar í einstaklingsrýmum en annars staðar þurfa þeir að deila persónulegu rými sínu með öðrum. Á einum stað er persónulegt rými hins aldraða 8 fermetrar en á öðrum 26 fermetrar. Aðeins tæplega þriðjungur íbúa á hjúkrunarheimilum er með sérbaðherbergi.

Fyrirspurn mín í dag varðar þvott á fatnaði aldraðra á hjúkrunarheimilum. Tilefni fyrirspurnar minnar er að fyrir nokkru kom til mín aldraður maður sem sagði farir sínar ekki sléttar. Kona hans er á hjúkrunarheimili og veikindi hennar eru þess eðlis að hún þarf að hafa alskipti á klæðnaði a.m.k. þrisvar á dag. Það er partur af hennar veikindum. Þar sem heimilið vísar frá sér ábyrgð á þvotti vistmanna færist verkefnið á hendur gamla mannsins, hann þarf að sækja þvottinn, þvo hann og koma honum aftur til konu sinnar sem kostar mikið umstang, peninga og áhyggjur fyrir gamla manninn. Einu tekjur konu hans eru vasapeningar og duga þeir ekki til að standa undir kostnaði við þvottinn. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp, enda er stofnuninni gert skylt að sjá um þvottinn sem er hluti af grunnþjónustu en hún gerir það ekki.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra um skyldur öldrunarstofnana varðandi þvott heimilisfólks og hver sé kostnaður við þá þjónustu. Fyrirspurn mín er svohljóðandi:

1. Hvaða þjónustu, utan skilgreindrar heilbrigðisþjónustu, er öldrunarstofnunum skylt að veita vistmönnum?

2. Eiga öldrunarstofnanir að sjá um þvott vistmanna þeim að kostnaðarlausu? Ef svo er, hvernig er því fylgt eftir að þjónustan sé veitt?

3. Hvaða öldrunarstofnanir sjá ekki um þvott vistmanna?

4. Hver er talinn árlegur kostnaður öldrunarstofnana við þvott vistmanna?



[14:22]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 10. þm. Reykv. n., Ásta Möller, spyr um þjónustu við aldraða á öldrunarstofnunum.

Í fyrsta lagi er spurt hvaða þjónustu, utan skilgreindrar heilbrigðisþjónustu, öldrunarstofnunum sé skylt að veita vistmönnum. Samkvæmt skilmálablöðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem fylgja umsóknareyðublöðum vegna umsókna í Framkvæmdasjóð aldraðra, skulu hjúkrunarheimili fyrir aldraða tryggja fullt fæði, þrif og þvott, lín og hreinlætisvörur, félagsþjónustu, sálgæslu, fjárvörslu og umsýslu fyrir heimilismenn. Á dvalarheimilum skal vera völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum, félags- og tómstundastarfi. Allt er þetta tíundað nákvæmlega í fyrrnefndum skilmálablöðum.

Í annan stað er spurt hvort öldrunarstofnanir eigi að sjá um þvott vistmanna þeim að kostnaðarlausu og ef svo er, hvernig því sé fylgt eftir að þjónustan sé veitt. Bæði dvalar- og hjúkrunarheimili skulu sjá vistmönnum fyrir þvotti á einkafatnaði nema um sé að ræða viðkvæman þvott sem þarfnast meðhöndlunar í efnalaug eða þvottar í höndunum. Öllum stofnunum á að vera þetta að fullu ljóst, enda kemur þetta skýrt fram í áðurnefndum skilmálablöðum og er því fylgt eftir með ábendingum til stofnana sjái þær ekki um þessa þjónustu.

Í þriðja lagi er spurt hvaða stofnanir sjái ekki þvott vistmanna. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sendi fyrirspurn um þessi efni til allra öldrunarstofnana á landinu. Því miður bárust ekki svör frá öllum. Eina stofnunin sem okkur er kunnugt um að veiti ekki þessa þjónustu er hjúkrunarheimilið Skógarbær. Þar er almennt ekki séð um þvott heimilismanna heldur aðeins fyrir nokkra sem aðstandendur hafa ekki getað séð um. Sunnuhlíð felur aðstandendum íbúa að sjá um þvott fyrir ættingja sína hafi þeir möguleika á því en í nokkrum tilfellum sér Sunnuhlíð um þvotta að öllu leyti eða að hluta. Í Sóltúni sjá aðstandendur um þvott á einkafatnaði hjá þriðjungi íbúanna þar sem þeir líta svo á að það sé liður í að aðstoða ættingja sinn og hafa hlutverk í daglegu lífi hans. Ekki er vitað um aðrar stofnanir sem ekki sjá um þvott á einkafatnaði hjá íbúum öldrunarstofnana.

Í fjórða lagi er spurt hver sé talinn árlegur kostnaður öldrunarstofnana við þvott vistmanna. Mörgum forsvarsmönnum stofnana reyndist erfitt að svara þessari spurningu þar sem ekki var auðvelt alls staðar að aðgreina þennan kostnað frá öðrum kostnaðarliðum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum er kostnaðurinn yfirleitt um 70 þús. kr. á ári fyrir hvern íbúa en dæmi er um að kostnaður stofnunar vegna þvotta á einkafatnaði sé einungis um 7 þús. kr. á íbúa á ársgrundvelli. Annað dæmi er um kostnað upp á 140 þús. kr. á íbúa á ársgrundvelli. Hv. þingmenn geta því heyrt að það er mjög mismunandi hvernig þetta er reiknað út.

Virðulegur forseti. Ég vil af þessu tilefni ítreka að stofnanirnar eiga að sjá um þessa þvotta en það kemur í ljós að sumar þeirra gera það ekki. Ráðuneytið hefur fengið slíkar ábendingar og það hefur þá verið rætt við þær stofnanir. Það hefur verið gert símleiðis. Vegna þessarar fyrirspurnar og þeirra upplýsinga sem fram komu við vinnslu hennar — en ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja athygli á umræddum þvottamálum — tel ég fullt tilefni til að heilbrigðisráðuneytið árétti við stofnanirnar skriflega að þær eigi að sjá um þennan þvott. Það er auðvitað ekki eðlilegt, eins og kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller, ef ættingjar eru að sligast undan þessum þvottamálum, eins og mér heyrðist vera sagt hér að viðkomandi aðstandandi þurfti að þvo daglega tvo til þrjá umganga af fatnaði viðkomandi ættingja. Það er auðvitað geysilega mikið álag, það vita allir. Ég tel í tilefni af þeim upplýsingum sem hér komu fram að við eigum að árétta þetta skriflega til stofnananna þannig að þeim sé þetta algerlega ljóst.



[14:26]
Þórdís Sigurðardóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að bera upp þetta mál og fagna svari hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég tel afar brýnt að hér á landi sé samræmi í þjónustu öldrunarstofnana og að ekki sé bundið láni eða óláni einstaklinga hvaða þjónustu þeir fá þar. Í 14. gr. laga um málefni aldraðra er skýrt kveðið á um hvaða þjónusta eigi að vera í boði og þar er m.a. þjónusta á þvotti tekin sérstaklega fram. Það er mikilvægt að eldri borgarar, okkar virðulegustu samborgarar, og þá sérstaklega þeir sem dvelja á öldrunarstofnunum þurfi ekki að sækja þann rétt sem þeim ber samkvæmt lögum og reglum hér á landi og þurfi ekki að berjast fyrir því á neinn hátt, svo sjálfsagt ætti það að vera að fá grunnþörfum fullnægt á viðunandi hátt á öldrunarstofnunum. Ég vil líka í þessu sambandi benda á að virkt eftirlit með öldrunarstofnunum ætti að geta komið í veg fyrir að reglum sé ekki fylgt.



[14:28]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka á þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir að svara á þann hátt að hún ætli að taka á því að verið sé að mismuna fólki á hjúkrunarheimilum, sérstaklega hvað varðar þvotta. Ég vil minna á að vasapeningar hjá mörgum þeirra sem eru á slíkum stofnunum eru ekki nema rúmar 22 þús. kr. á mánuði. Ég veit um dæmi þess að fólk sem hefur ekki átt náinn aðstandanda til að sjá um þvottana hefur þurft að fara í þvottahús með þvottinn og 22 þús. kr. hafa ekki dugað til. Þetta eru peningarnir sem eiga að duga fyrir öllum þörfum hjúkrunarsjúklingsins allan mánuðinn. Það er mjög mikilvægt að taka á þessu.

Ég vil líka ítreka það að ráðherra kanni hvort ekki sé ástæða til að gera þjónustusamninga við öll þessi hjúkrunarheimili þar sem hnykkt er á því að veitt sé sú þjónusta sem verið er að borga fyrir með daggjöldunum.



[14:29]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér upplýsir hæstv. heilbrigðisráðherra okkar um að það séu talsvert margar öldrunarstofnanir sem uppfylli ekki þær reglur sem þeim ber að uppfylla og sinni ekki þeirri þjónustu sem þeim ber að sinna og á að vera innifalin í því gjaldi sem stofnanirnar fá.

Mér fannst hæstv. ráðherra taka heldur létt á málinu að tala um að árétta þetta við stofnanirnar. Að sjálfsögðu er það krafa að allar þessar stofnanir uppfylli þau skilyrði sem sett eru. Um leið hljótum við að velta fyrir okkur hvernig í ósköpunum standi á því að öldrunarstofnanir séu að klípa af þjónustu við vistmenn sína. Getur verið að það sé vegna þess hve naumt er skammtað til reksturs þessara heimila, dvalarheimila og hjúkrunarheimila? Ætli hæstv. ráðherra þurfi ekki að velta því aðeins fyrir sér hvort verið geti að allar þessar stofnanir séu svo á horriminni að þær séu meira að segja farnar að seilast í að klípa af þjónustu við vistmenn? 40,4 milljarðar til viðbótar í hagnað hjá ríkinu á þessu ári. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað.



[14:30]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Að hluta til fagna ég þessari umræðu um þjónustu á öldrunarstofnunum. En ég velti því fyrir mér hvort þetta sé kannski dæmi um stöðuna í þjónustu við aldraða að hér á hinu háa Alþingi skulum við þurfa að rísa upp til að ræða um þvott vistmanna. Er ekki á hreinu hver eigi að sjá um þvottinn og hver eigi að greiða fyrir hann o.s.frv.?

En eins og kom fram í máli hv. þm. Þórdísar Sigurðardóttur, hér áðan, þá á þessi þjónusta að sjálfsögðu að vera til staðar og á að vera samþætt milli stofnana. Þvotturinn þarf að sjálfsögðu að vera á hreinu.



[14:31]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að þvotturinn þarf að vera á hreinu. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að öldrunarstofnunum er skylt að veita þessa þjónustu. Það kom jafnframt fram að einhver misbrestur er á því að hún sé veitt.

En þó ég hafi í dag sérstaklega kosið að ræða um skyldur öldrunarstofnananna vegna þvotta vistmanna þá er það aðeins ein birtingarmynd þeirrar mismununar sem viðgengst í annars ágætri þjónustu öldrunarstofnana við aldraða. Þvottur er hluti af grunnþjónustu og það þarf að ganga eftir því við stofnanir að þær sinni þeim skyldum sem þær fá greitt fyrir að sinna.

Það skortir verulega á að stjórnvöld setji lágmarkskröfur um magn og gæði þjónustu og aðbúnaðar íbúa á stofnunum sem veita öldruðum þjónustu. Samningar við sjálfseignarstofnanir sem reka hjúkrunarheimili á daggjöldum frá ríkinu geyma engin viðmið eða lágmarkskröfur svo sem um rými, aðbúnað eða umönnun. Þetta er haft beint eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða.

Eina undantekningin er hjúkrunarheimilið Sóltún í Reykjavík, en samningur við heimilið er til fyrirmyndar þar sem aðbúnaður og þjónusta er skilgreind til hlítar.

Virðulegi forseti. Það þarf að skilgreina lágmarksrými í fermetrum, þjónustu og þjálfun sem aldraðir eiga rétt á, félagsstarf, lágmarksumönnun, menntun og þjálfun starfsmanna. Þá fyrst geta stjórnvöld fullyrt að það gæti jafnræðis í þjónustu við aldraða á stofnunum. Samkvæmt stefnumótun heilbrigðisráðuneytisins í öldrunarmálum er verið að skoða að færa ábyrgð á rekstri öldrunarstofnana til sveitarfélaga. Ég fullyrði að sveitarfélögin muni ekki líta við þessum málaflokki fyrr en þessi viðmið hafa verið sett og greiðsla fylgir.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera forgangsverkefni heilbrigðisráðuneytisins að skilgreina og samræma lágmarkskröfur um þjónustu og aðbúnað á öldrunarstofnunum og gera þjónustusamning um rekstur þjónustunnar við þá aðila sem reka öldrunarstofnanir.



[14:33]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þessar stofnanir eiga að sjá um þvottana. Það eru þrjár sem svöruðu því að þær gerðu það ekki, þ.e. Skógarbær, Sunnuhlíð og Sóltún. Við munum skriflega koma með ábendingar um að því þurfi að kippa í lag. Þær eiga að sjá um þessi mál, eins og kom hér skýrt fram í góðri ræðu hv. þm. Þórdísar Sigurðardóttur. Þannig að við munum ganga eftir því.

Ég vil hins vegar benda á að það er nýbúið að vinna að stefnumótun í heilbrigðisráðuneytinu þar sem fram kemur að við viljum fara yfir í alveg nýja hugmyndafræði varðandi þjónustuna við aldraða. Við erum að stofna faghóp sem mun koma með tillögur um hvernig það verður gert. Sá faghópur á að skilgreina kröfur um húsnæði, umönnun, þjónustu og aðstöðu. Þetta er auðvitað grundvöllurinn fyrir því skrefi sem við viljum síðan taka sem er að vistmenn fái aukið sjálfræði. Þannig að þeir muni greiða fyrir ákveðna þætti.

Við förum þá út úr því kerfi sem er í dag þar sem fjármagn sem viðkomandi hefur fer að talsverðu leyti í gegnum Tryggingastofnun ríkisins og kemur aldrei í vasa viðkomandi vistmanns. Grundvöllur þess að við getum farið út úr því kerfi sem ríkir í dag er að við getum skilgreint kröfur um aðbúnað, aðstöðu, mat, þjónustu og annað slíkt til þess að fólk geti þá farið að greiða sjálft fyrir þá þjónustu. Þá skapast líka meira val og væntanlega meiri samkeppni á milli stofnana um þjónustuna.

En ég vil hér að lokum, virðulegi forseti, þakka fyrir fyrirspurnina því hún gaf okkur upplýsingar sem okkur voru ekki ljósar og við munum bregðast við þeim.