133. löggjafarþing — 12. fundur
 16. október 2006.
Ríkisútvarpið ohf., frh. 1. umræðu.
stjfrv., 56. mál (heildarlög). — Þskj. 56.

[19:32]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er komið að því að ræða frumvarp til laga um Ríkisútvarp ohf. Eins og fram hefur komið í ræðum þeirra þingmanna sem tekið hafa til máls fram að þessu er þetta þriðja rekstrarformið sem lagt er til á Ríkisútvarpinu því að það virðist vera, eins og ég hef svo sem sagt áður, sáluhjálparatriði fyrir þennan ríkisstjórnarmeirihluta að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það virðist vera meginatriði málsins en ekki hitt að gera Ríkisútvarpinu kleift að standa undir menningarlegum skyldum sínum og þeim markmiðum sem allir þeir sem hafa að rekstri Ríkisútvarpsins komið hingað til hafa viljað setja því og hafa viljað keppa að.

Það er afar miður að þetta mál skuli hafa farið í þann hnút sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur siglt því í vegna þess að Ríkisútvarpið og menningarstofnanir þjóðarinnar eiga það skilið að við á hinu háa Alþingi fjöllum um skyldur þessara menningarstofnana af víðsýni og skilningi og ekki síst að við sitjum saman við borðið og reynum að ná bestu fáanlegu niðurstöðu.

Því miður hefur því ekki verið að heilsa í þessu máli. Hér hefur óbilgirni ríkt og einstrengingsháttur, að því er ég vil meina Sjálfstæðisflokksins sem dregur þennan vagn, og Framsóknarflokkurinn hefur þurft að láta yfir sig ganga eitt og annað í málinu sem ég geri ekki ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn sé mjög ánægður með, enda hafa heyrst óánægjuraddir innan úr þeim flokki sem mér finnst skipta máli að sé hlustað á. Mér finnst eins og þingmenn Framsóknarflokksins séu að skella skollaeyrum við röddum, nokkuð áberandi röddum innan flokksins, meðal flokksmanna sinna. Ég vildi óska að það þyrftu framsóknarþingmenn ekki að gera, því að ég teldi vera mun gáfulegra að verki staðið ef við sætum hér, eins og ég sagði, saman við borðið og reyndum að skapa bestu fáanlegu niðurstöðu fyrir Ríkisútvarpið og fyrir menningu þjóðarinnar.

Frú forseti. Ég er hugsi yfir fyrstu setningunni í greinargerð frumvarpsins, þ.e. þar sem ráðherrann lýsir sjónarmiðum sínum, því að ég geri ráð fyrir að hér sé ráðherrann að tala í umræddri greinargerð sem er nokkuð löng og viðamikil. Það er ekki fyrsta setningin í greinargerðinni heldur fyrsta setningin í 2. kafla greinargerðarinnar sem fjallar um meginefni frumvarpsins.

Sú setning hljómar, með leyfi forseta:

„Helstu nýmæli með frumvarpi þessu eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er ráðgert að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið …“

Meginefnið er sem sagt fólgið í því að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið. Ég verð hugsi yfir þessari setningu, ekki af því að ég skilji hana ekki heldur vegna þess að ég held að þarna sé kannski kjarni málsins í því ósætti og því sundurlyndi sem er til staðar vegna málsins. Það fer fyrir brjóstið á mér að sjá í opinberu þingskjali þá yfirlýsingu að það sé helsta markmið ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið.

Hvers vegna skyldi maður leggja niður stofnun af þessu tagi? Hefur stofnunin verið óþekk? Hefur hún verið frek á fjármuni? Hefur þar ríkt óstjórn, þarf að refsa henni? Er hún til óþurftar? Er hún slæm? Þessum spurningum, frú forseti, mundi ég öllum svara neitandi og ég vona að flestir sem í þessum sal sitja geri það líka. Stofnunin hefur ekki verið slæm. Þar hefur ekki ríkt óstjórn. Þar hafa menn reynt að gera sitt besta við afar erfiðar aðstæður. Þær hafa verið erfiðar pólitískt séð og þær hafa verið erfiðar fjárhagslega.

Ég vil meina að það fólk sem haldið hefur uppi merki þeirrar merku ríkisstofnunar áratugum saman hafi verið fórnfúsara og útsjónarsamara en margir sem starfa og farið hafa með opinbert fé. Ég er sannfærð um að þá spennitreyju sem Ríkisútvarpið er í núna fjárhagslega megi rekja fyrst og síðast til vilja eða öllu heldur skorts á vilja stjórnarflokkanna, ríkisstjórnarinnar, stjórnarmeirihlutans á Alþingi til þess að gera betur við stofnunina. Það hefur ekki verið vilji hjá stjórnarmeirihlutanum til að veita lofti undir vængi Ríkisútvarpsins og þeirra sem þar starfa. Þess vegna hefur stofnuninni verið haldið í kreppu fjársveltis. Þess vegna hefur stjórnarmeirihlutinn á Alþingi fellt mörg ár í röð tillögu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að auknir fjármunir yrðu settir í Ríkisútvarpið, fyrst og fremst til þess að auka hlut innlendrar dagskrárgerðar í efni Ríkisútvarps og sjónvarps.

Ég hef því þá kenningu, frú forseti, að hér sé sterkur vilji ríkisstjórnarmeirihlutans í þessum efnum að svelta þessa ríkisstofnun, þessa merku ríkisstofnun til hlýðni inn á þá braut sem hér er verið að fara og leggja upp með. Þetta eru ekki fögur ummæli, frú forseti, ég viðurkenni það. Þau eru afar alvarleg og þetta væru að mínu mati ekki eftirsóknarverð eftirmæli. Ég vona satt að segja, eins og ég hef vonað áður, að umræðan í þinginu geti orðið til þess að koma almennilegri hreyfingu á málið, þ.e. að grafist verði almennilega fyrir rætur þessara hluta til að þjóðinni verði það ljóst hvað það er sem að baki býr. Þegar öllu er á botninn hvolft skortir enn sannfærandi rök frá stjórnarmeirihlutanum og hæstv. menntamálaráðherra fyrir því að þær breytingar sem lagðar eru til skuli gerðar.

Hv. þm. Mörður Árnason fór afar vel yfir þetta í ræðu sinni áðan hvað það er sem borið er á borð fyrir okkur í þeim efnum en jafnframt gagnrýndi þingmaðurinn það að rökin væru ekki haldgóð og það hlyti að búa þarna meira að baki en sagt er eða látið er í veðri vaka.

Frú forseti. Það kemur upp hjá mér og örugglega miklu fleiri Íslendingum ákveðin nostalgía eða fortíðarfíkn þegar fjallað er um Ríkisútvarpið og það í afar jákvæðri merkingu þess orðs. Öll eigum við einhverjar minningar frá bernsku okkar þar sem við sátum við Ríkisútvarpið eða hlustuðum á útvarpið og það talaði til okkar og það greypti sig inn í hug okkar og hjörtu það sem sagt var. Einhvers staðar eru því rótfastar minningar frá bernskuárunum tengdar Ríkisútvarpinu sem einhver konar stólpar sem hægt var að treysta á, sem einhvers fyrirbæris sem var hluti af heimilislífinu, hluti af uppeldi manns, hluti af þeirri væntumþykju sem manni var innprentuð, hluti af þeirri menningu sem maður hefur innbyrt, hluti af alheimskúltúr. Ég er algjörlega sannfærð um að þessi hlýja sem fólk ber í garð Ríkisútvarpsins er eitthvað sem ber að varðveita og hún er eitthvað sem gæti verið í hættu, ekki bara með breyttu rekstrarformi heldur líka með breyttum tíðaranda. Ef við teljum eftirsóknarvert að skapa minningar meðal íslenskra barna sem væru ámóta og þær sem við eigum í dag, eigum við þá ekki frekar að standa vörð um það sem bjó minninguna til innra með okkur heldur en að fórna því? Mitt svar við því er jú, auðvitað eigum við að varðveita þetta sérstaka við Ríkisútvarpið. Það liggur í augum uppi með þeim breytingum sem verið er að fara út í og hér er verið að boða, að þetta sérstaka við Ríkisútvarpið gæti verið í hættu ef farið verður inn á þá braut sem hér er lagt til.

Við búum vissulega við breytta tíma. Íslensk börn alast ekki upp við sömu hluti og ég ólst upp við eða þeir sem í þessum sal sitja, allir komnir vel af barnsaldri. Það er ekki þar með sagt að þessir breyttu tímar séu endilega svo mikið betri en þeir tímar sem við hin lifðum þegar við vorum að vaxa upp og vaxa úr grasi. Það er heldur ekki þar með sagt að allt sem er að taka við af því sem var sé merkilegra eða betra en það sem áður var og það er ekki þar með sagt að við þurfum endilega að hraða eða auka á möguleika hinnar nýju tækni eða hins nýja tíðaranda að taka yfir þann gamla.

Mér hefur verið hugleikin í þessari umræðu grein sem ég rakst á í Lesbók Morgunblaðsins síðasta sumar, hún birtist þar þann 17. júní og er eftir Elfu Ýr Gylfadóttur sem var sérfræðingur útvarpsréttarnefndarinnar, þ.e. fjölmiðlanefndarinnar sem starfaði á vegum menntamálaráðherra og skilaði af sér þeirri skýrslu sem fjölmiðlafrumvarpið, sem við ræðum auðvitað líka í þessari spyrðu, gat af sér. Elfa Ýr er afar vel að sér og hefur kynnt sér mjög vel málefni fjölmiðla og hún fjallar um það í greininni á hvern hátt tíðarandinn er að breytast og á hvern hátt það kunni að vera stórum ríkisfjölmiðlum í óhag og komi sjálfstæðum einkafjölmiðlum til góða. Mig langar til að vitna aðeins til greinar Elfu Ýrar Gylfadóttur þar sem hún er að fjalla um ríkisfjölmiðla á tímamótum.

Þar segir hún, með leyfi forseta:

„Í þjóðfélagi síðnútímans“ — sem er þýðing Elfu á „póstmódernisma“ — „reyna ríkisfjölmiðlar Evrópu að finna sér nýjan farveg. Ljósvakamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum frá því ríkisfjölmiðlar voru í einokunarstöðu. Samkeppnin við einkamiðla hefur knúið ríkisfjölmiðla til að endurskilgreina hlutverk sitt, hagræða, færa sjónvarpsefni, dagskrá og efnisframleiðslu til nútímahorfs og rökstyðja tilvist sína á samkeppnismarkaði. Þeir verða að varpa af sér þungri brynju stofnanabrags þess nútíma sem skapaði þá og laga sig að síbreytilegu markaðsumhverfi upplýsingasamfélagsins. Nú er helsta einkenni á fjölmiðlamarkaði í Evrópu tvíkeppni milli ríkisfjölmiðla annars vegar og einkamiðla hins vegar.“

Ég verð hugsi yfir orðanotkuninni hér og nú tek ég það skýrt fram að ég ætla Elfu ekki neinar annarlegar hugmyndir eða hugsanir í þessum efnum. En í þeim greinum sem maður les um þessi mál nú til dags heyrir maður einmitt mjög gjarnan talað um ríkisfjölmiðla í einokunarstöðu. Maður les um að það sé lífsnauðsynlegt að ríkisfjölmiðlarnir endurskilgreini sig, þeir þurfi að hagræða, það þurfi að færa sjónvarpsefni, dagskrána eða efnisframleiðsluna til nútímahorfs. Það er talað um að þessir ríkisfjölmiðlar þurfi að varpa af sér þungri brynju stofnanabrags til að þeir geti lagað sig að síbreytilegu markaðsumhverfi upplýsingasamfélagsins. Það er svo létt og leikandi að vera í svona síbreytilegu markaðsumhverfi á meðan það er ofsalega þunglamalegt og ömurlegt að vera í brynju stofnanabrags.

Ég viðurkenni að þetta eru sjónarmið sem njóta verulegrar fylgni, þ.e. margir styðja þessi sjónarmið og telja í alvöru að ríkisstofnanir þurfi að vera svo þunglamalegar. En í allri þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og hjá öllum þeim stjórnarþingmönnum sem reynt hafa að svara spurningunni um það hvort ekki sé hægt að létta þessari þungu brynju stofnanabrags af Ríkisútvarpinu án þess að breyta því í hlutafélag hefur orðið fátt um svör. Því miður hafa menn ekki getað fundið orðum sínum stað í þessum efnum. Það hafa ekki komið fram nein sannfærandi sjónarmið um að þessi léttleiki geti ekki orðið Ríkisútvarpsins án þess að rekstrarformi stofnunarinnar verði breytt.

Ég hef tilhneigingu til að ætla eða halda að t.d. með verulega auknu fjármagni inn í innlenda dagskrárgerð mundi verða til ákveðinn léttleiki í stofnuninni. Mín kenning er sú að þetta þunglamalega yfirbragð sem menn gera athugasemdir við geti að hluta til verið því að kenna að stofnunin hefur ekki fengið það fóður eða þá viðurkenningu sem stjórnvöld höfðu eðli málsins samkvæmt átt að láta henni í té fyrir löngu. Það ætti fyrir löngu að vera búið að létta þeirri byrði af Ríkisútvarpinu að þurfa að safna skuldum og standa stöðugt í skuld við ríkissjóð. Það hefði fyrir löngu átt að vera búið að létta af því samviskubiti sem fólk hefur gagnvart því að vera þvílík byrði á ríkissjóði — ríkissjóði sem er sameign okkar landsmanna, sú uppspretta fjármuna sem við viljum nota til að styrkja og styðja við íslenska menningu. Ég held því fram fullum fetum að viljaskortur stjórnvalda til þess að efla Ríkisútvarpið í því rekstrarformi sem það er í núna hafi verið tilfinnanlegur. Viljaskorturinn hefur verið tilfinnanlegur og engin haldbær rök hafa að mínu mati komið fram sem krefja okkur um það að ganga þau svipugöng að fara inn í það að búa til þetta rekstrarform, hlutafélagaformið yfir Ríkisútvarpið.

Ég hef verið að spyrja svona í kringum mig — þegar fólk spyr hvað ég sé að gera í dag segi ég að ég sé að búa mig undir að taka þátt í umræðunni um Ríkisútvarpið ohf. Fólk hváir: Oh hvað? Ohf. Og hvað er það? Er það nokkur von þó að fólk spyrji: Er það ofurhlutafélag? Nei, það er ekki ofurhlutafélag, það er opinbert hlutafélag sem á að vísu að heyra undir upplýsingalög, sem er breyting frá því sem áður var skrifað inn í hugmyndafræði og hugmyndir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, og það ber að þakka það. Það ber sannarlega að þakka það. Það ber sannarlega að þakka þær breytingar sem hafa orðið á þessu frumvarpi í meðförum þingsins. Þær eru nokkrar. Allar hafa þær verið til bóta. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir það áðan í ræðu sinni hverjar þær eru helstar og undir það vil ég taka. En það breytir því ekki að meginröksemdirnar, þ.e. meginmál frumvarpsins, það að leggja eigi niður ríkisstofnunina Ríkisútvarp og stofna hlutafélag um reksturinn, hafa ekki verið rökstuddar að mínu mati á fullnægjandi hátt af þeim sem hér draga vagninn.

Það hefur auðvitað líka verið óhönduglega að verki staðið hjá stjórnarmeirihlutanum við það að knýja fram þær breytingar sem hér eru lagðar til. Fyrr í dag voru ræddar samfélagslegar skyldur okkar gagnvart fátæku fólki. Mér fyndist að umræða af því tagi, þ.e. um samfélagslegar skyldur okkar gagnvart menningunni og gagnvart starfsfólki í opinberri þágu og opinberri þjónustu, þyrfti að fara fram í tengslum við umræður um þetta frumvarp. Við höfum reynt að taka þá þætti inn í umræðuna í þau fyrri skipti sem við höfum fjallað um Ríkisútvarpið og mögulegar breytingar á rekstrarformi þess fram að þessu. Þar hafa skoðanaskiptin geigað og okkur hefur gengið afar illa að skiptast á skoðunum við stjórnarmeirihlutann um slík mál.

Hægri sinnuð stjórnvöld hafa að mínu mati, þau hægri sinnuðu stjórnvöld sem við búum hér við, gert í því að gera Ríkisútvarpinu erfitt fyrir, gera það þunglamalegt í augum þjóðarinnar, búa til í kringum það áru steinrunninnar ríkisstofnunar í því augnamiði að fá þjóðina, og þess vegna starfsfólkið og okkur hér, með á þennan vagn, það muni létta svo rosalega mikið á þessari þunglamalegu ríkisstofnun að fá hlutafélagaformið af himnum sent. Mér finnst ótrúverðugt, frú forseti, að ekki sé hægt að létta undir með Ríkisútvarpinu og gera fólki sem þar starfar lífið auðveldara án þess að farið sé út í þær breytingar sem hér eru lagðar til varðandi rekstrarformið.

Ekki hefur einasta verið alið á því að hér sé um þunglamalega ríkisstofnun að ræða heldur hefur líka verið gert í því að mínu mati að koma óorði á afnotagjöldin. Um þau hefur verið talað á afar neikvæðan hátt sem skylduáskrift. Það er skylduáskrift að ríkismiðlinum. Þvílíkt og annað eins. Það er þvílík byrði að þurfa að dragnast með þessa skylduáskrift. Jafnvel þeir sem aldrei horfa á Ríkissjónvarpið þurfa að borga skylduáskrift. Stjórnvöld hafa ekki verið að hjálpa neitt til í þeim efnum að létta þessum neikvæða blæ, þessu neikvæða orðspori af afnotagjöldunum. Öðru nær. Þau hafa farið með í þennan leiðangur, að gera fólk meðvitað óánægt með afnotagjöldin, og nú kemur hæstv. menntamálaráðherra með þá lausn að leggja nefskatt á þjóðina.

Engin rök hafa verið færð fram í þessum sal fyrir því að nefskattur verði svo miklu vinsælli en afnotagjöld, engin rök. Og það eru auðvitað ekki til nein rök fyrir því að nefskatturinn verði svo miklu vinsælli en afnotagjöld. Er eitthvað sem kemur í veg fyrir að nefskatturinn fái á sig orðspor skylduáskriftar? Það er ekkert því til fyrirstöðu. Það er meira að segja mjög líklegt að það komi mjög fljótt. Reyndar hefur okkur í menntamálanefnd verið bent á ýmsar vísbendingar um að nefskatturinn sé, þar sem hann hefur verið við lýði, ekki síður óvinsæll og jafnvel óvinsælli en dæmigerð afnotagjöld. Hvers vegna gæti það verið? Jú, í mínum huga eru afnotagjöldin þess eðlis að fólk finnur fyrir því á eigin skinni og í eigin buddu, í eigin reikningi, í hverjum mánuði að það er að greiða til Ríkisútvarpsins ákveðna prósentu sem gerir því kleift að samsama sig í Ríkisútvarpinu og fá mánaðarlega staðfestingu á því að það eigi eitthvað í því. Við, þjóðin, eigum Ríkisútvarpið og við finnum fyrir því gegnum afnotagjöldin.

Mér finnst afnotagjaldastofninn heilbrigð leið til að afla tekna fyrir dagskrárgerð Ríkisútvarps og sjónvarps. Mér finnst það leið sem gerir þjóðina meðvitaða um þá ábyrgð sem hún ber gagnvart Ríkisútvarpinu og um það á hvern hátt Ríkisútvarpið á að standa undir þeirri ábyrgð. Þjóðin getur sem sagt í gegnum afnotagjöldin auðveldlega fundið að hún getur gert kröfur til stofnunarinnar, hún á hana. Ég óttast að þessi tengsl rofni þegar við erum farin að greiða nefskatt sem við finnum fyrir á annan hátt. Þá er það bara inni í skattahítinni, inni í skattframtalinu, og við getum öll verið neikvæð út í skattana og allt það, agnúast út í þá — þó að ég sé þeirrar skoðunar að þeir sem hafa vinnu eigi að vera stoltir af því að geta borgað skatta, þeir eru þá ekki atvinnulausir á meðan. Á sama hátt er ég sannfærð um að stærstur hluti þjóðarinnar, ef hann yrði spurður, fyndi fyrir þessum tengslum milli sín og Ríkisútvarpsins.

Nú er ekki þar með sagt, frú forseti, að ég hafi alltaf verið afskaplega ánægð með allt sem hefur gerst innan Ríkisútvarpsins eða að ég telji að þar megi ekki færa hluti til betri vegar. Það er ekki svo. Ríkisútvarpið getur auðvitað gert margt til að færast nær nútímanum eða ganga í endurnýjun lífdaga. Það má blása miklu lífi í þessa stofnun eins og allar stofnanir. Það er hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að sjá til þess að sá jarðvegur sé til staðar sem gerir stofnunum kleift að njóta sín.

Ég hef fylgst vel með frá því að samkeppni var innleidd á fjölmiðlamarkaði og kannski eitt orð um það. Mér þykir alltaf fremur miður og hvimleitt þegar menn tala um að frelsi hafi verið innleitt á fjölmiðlamarkaði. Það eru í mínum huga mikil öfugmæli að þegar einkaaðilum var heimilaður útvarps- og sjónvarpsrekstur — sem mér þótti sjálfsagt mál og hefur alltaf þótt sjálfsagt mál að eigi að vera til staðar — hafi upphafist frelsi, að frelsi hafi verið innleitt á fjölmiðlamarkaði. Ég er ekki búin að skanna greinargerð þess frumvarps sem hér liggur fyrir til að athuga hvort orðinu „frelsi“ bregði fyrir í þeim texta. En það er allt of oft að mínu mati að við fáum setningu af því tagi að frelsi hafi verið innleitt á fjölmiðlamarkaði þegar einkaaðilar fengu heimild til að reka fjölmiðil — eins og við höfum verið svo rosalega ófrjáls með Ríkisútvarpið á þeim tíma. Það eru mikil öfugmæli og því ekki rétt að mínu mati að tala þannig um hlutina og enn ein aðferð kannski sem þeir sem vilja gera þjóðina óánægða með Ríkisútvarpið beita til að ala á þeirri óánægju.

Ég hef ekki verið sátt við útvarpsráð heldur. Ég stend að frumvarpi sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja og hafa lagt fram. Þetta er sennilega þriðja árið sem við leggjum það fram. Þar gerum við ráð fyrir að hægt sé að breyta Ríkisútvarpinu innan þess ramma sem stofnunin býr við og innan þeirra laga sem hún býr við í dag, þ.e. að ekki þurfi að breyta henni úr ríkisstofnun í hlutafélag til þess að aflétta pólitískum afskiptum útvarpsráðs af mannaráðningum eða dagskrá eða íhlutun í innri mál Ríkisútvarpsins. Það er í okkar huga hægt að fara mjög skapandi leiðir í þeim efnum að búa til útvarpsráð og yfirstjórn yfir þessa skapandi stofnun sem yrði í meiri sátt við tíðarandann og kannski óskir og þarfir þjóðarinnar og ekki síst óskir og þarfir starfsfólksins heldur en það útvarpsráð sem hefur verið til staðar samkvæmt núgildandi lögum. En þó svo þessu útvarpsráði, sem við höfum búið við hingað til, verði sagt upp og það aflagt er ekki þar með sagt að útvarpsstjóranum, einvaldinum sem samkvæmt þessu frumvarpi á að ráða yfir stofnunina, takist eitthvað betur til. Eins og bent hefur verið á má færa rök að því að þessi útvarpsstjóri sé ráðinn pólitískri ráðningu því það er hæstv. menntamálaráðherra, sem eðli málsins samkvæmt er pólitískur fram í fingurgóma, að skipa það fólk sem ræður útvarpsstjórann. Ég held því að það sé ákveðin hætta á ferðum sem tryggi ekki breiða og skapandi stjórn eins og þær hugmyndir sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram.

Við teljum það vera stofnuninni og hlutverki hennar til góða að hafa breiða stjórn sem gæti ólíkra sjónarmiða, ólíkra og breiðra hagsmuna sem eiga rætur í samfélaginu öllu, menningarsamfélaginu, atvinnusamfélaginu og hinu pólitíska samfélagi. Því þegar fólk er sett niður við sama borð og það á að koma sér saman um, þó það séu margir, meginatriði varðandi svona öfluga stofnun eins og Ríkisútvarpið er sem hefur svo miklu menningarhlutverki að gegna, þá eigi það og sé það eðli málsins samkvæmt gefandi að starfa í slíkri stjórn. Alveg eins og við sem störfum í pólitík teljum að það sé og eigi að vera gefandi að starfa í pólitík þó að við í stjórnarandstöðunni óskum þess oft að stjórnarmeirihlutinn sýni meiri víðsýni og meiri vilja til samtals og samráðs við stjórnarandstöðuna en raun ber vitni. Af því við teljum að samtalið á milli andstæðra fylkinga geti verið skapandi.

En það þarf þá að vera vilji til að ná sameiginlegri niðurstöðu og þann vilja hefur skort í þessu máli hjá stjórnvöldum, tilfinnanlega. Ég verð að segja að mér þykir það mjög miður því ég er sannfærð um að ef við hefðum ákveðið að setjast niður við sama borð, þessar fylkingar sem við höfum skipað okkur í í þessum sal í málinu, hefði verið hægt að ná farsælli niðurstöðu ef menn hefðu lagt af þennan einbeitta vilja sem ekkert virðist ætla að hagga, þ.e. að ekkert sé hægt að gera fyrir Ríkisútvarpið nema breyta því í hlutafélag.

Frú forseti. Á það hefur verið bent í umræðunni að stjórnarmeirihlutinn tali tveimur tungum. Hefur það verið rifjað upp að meira að segja hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, hafi flutt þingmál á sínum tíma sem gerði ráð fyrir að Ríkisútvarpið yrði selt. Það er mjög eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn og stjórnarþingmenn séu gagnrýndir fyrir að tala tveimur tungum í þessu máli því Sjálfstæðisflokknum hefur verið legið á hálsi fyrir það og talsmönnum þessa frumvarps, að undir þessari rekstrarformsbreytingu liggi ásetningur um að selja Ríkisútvarpið. Þetta hafa sjálfstæðismenn og hæstv. menntamálaráðherra ævinlega svarið af sér hátt og skýrt. Það er ekki af því að við höfum ekki heyrt þær yfirlýsingar sem hafa komið héðan úr þessum stóli og frá fjölmiðlum og víðar varðandi þetta atriði, heldur treystum við ekki orðum stjórnarliða eða hæstv. menntamálaráðherra þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar. Hvers vegna treystum við ekki Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum? Jú, ósköp einfaldlega vegna þess að sporin hræða.

Það var svarið hér og sárt við lagt úr þessum ræðustóli og í fjölmiðlum og öllum þeim póstum sem hefur verið svarið og sárt við lagt að Ríkisútvarpið yrði ekki selt, að Síminn yrði ekki seldur þegar hann var hlutafélagavæddur. Svo þekkja allir sem eru í þessum sal eftirleikinn í þeim efnum og þjóðin þekkir eftirleikinn. Má ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hún sé ánægð með þá niðurstöðu sem sala Símans hefur fært okkur og fært þjóðinni. Nú er fyrirtækið á markaði með grunnnetið, bitbein sjálfstæðu fyrirtækjanna sem eru að keppa við Símann. Það var auðvitað ekki við það komandi að stjórnarmeirihlutinn færi inn á það spor sem hér var reynt að koma þeim inn á, að aðskilja grunnnetið og tryggja að það væri í almannaeigu, áfram í þjóðareigu, enda hluti af mikilvægri almannaþjónustu, alveg á sama hátt og Ríkisútvarpið og framleiðsla þess á menningarefni og tengsl Ríkisútvarpsins við þjóðina eru hluti af mikilvægri almannaþjónustu, og hafa þess vegna að mínu mati ekkert að gera í hlutafélagaformið.

Ef við með því erum að opna á möguleikana á að ríkisstjórn, ekki þessi ríkisstjórn — ég er ekki að segja að þessi ríkisstjórn komi til með að ætla að selja Ríkisútvarpið, ég trúi hæstv. menntamálaráðherra þegar hún segir að núverandi stjórnvöld hafi ekki í hyggju að selja Ríkisútvarpið. En þessi hæstv. menntamálaráðherra verður ekki í ríkisstjórn alltaf og kannski ekki bara á næsta kjörtímabili. Ég vil reyndar leyfa mér að segja vonandi ekki á næsta kjörtímabili, en það er nú af öðrum ástæðum.

Hins vegar tel ég verulega hættu á að þannig innréttuð stjórnvöld eftir eitt kjörtímabil, tvö eða þrjú gætu mjög auðveldlega ákveðið að selja Ríkisútvarpið og þessi gjörningur mundi auðvelda það. Þess vegna segi ég úr þessum ræðustóli: Ég vara við því að þjóðin og þingmenn styðji þessi áform því það auðveldar þeim stjórnvöldum sem það vilja að selja Ríkisútvarpið þegar þar að kemur, þegar það dettur í menn.

Það kann að vera, frú forseti, að þess verði ekki langt að bíða. Það kann að gerast fyrr en varir að slík stjórnvöld komist til valda. Það segir líka sína sögu að ákveðnir sjálfstæðismenn hafa tekið upp hanskann fyrir þau sjónarmið sem ég og við í stjórnarandstöðunni tölum fyrir. Það var athyglisvert þegar Fréttablaðið birti leiðara í apríl í vor þegar Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, velti upp spurningu um þá menningarstefnu sem lægi að baki þeim tillögum um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins og sagði í leiðaranum, með leyfi forseta:

„… að eini sjálfstæði tilgangur ríkisútvarps er menningarlegt hlutverk þess. … En að uppistöðu til hefur rekstur Rásar 2 og sjónvarpsins verið markaðsvara sem deila má um hvort er betri eða verri en einkarekin fyrirtæki á þessu sviði hafa boðið upp á.“

Síðar í leiðaranum segir Þorsteinn Pálsson:

„Annaðhvort er undirbúningurinn í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform að reka hér menningarútvarp og sjónvarp …“

Hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, svaraði því til í frétt í NFS 5. apríl 2006 að hún væri algerlega ósammála Þorsteini Pálssyni hvað þetta varðaði og sagði að maður yrði auðvitað að hafa í huga að þarna talaði og skrifaði ritstjóri fjölmiðlasamsteypu sem væri í mikilli samkeppni, m.a. við Ríkisútvarpið.

Þetta segir okkur talsvert um hvað er í sjálfu sér langt í land að ná um þessi áform sátt og niðurstöðu. Ég hefði haldið að hér hefði mátt standa betur að verki heldur en gert hefur verið.

Mér hefur líka fundist athyglisvert að rifja upp leiðara úr Morgunblaðinu frá því 7. desember 2005 og ég hef kannski vitnað í þennan leiðara áður úr þessum ræðustóli. En í þeim leiðara fullyrðir leiðarahöfundur að Morgunblaðið hafi aldrei verið í þeim hópi sem vilji einkavæða Ríkisútvarpið þótt blaðið hafi hins vegar lýst þeirri skoðun að rétt væri að selja Rás 2 og ríkið ætti ekki að vera í samkeppni við aðrar afþreyingarstöðvar á sviði hljóðvarps.

Það er auðvitað ekki óeðlilegt að hér komi upp umræðan um Rás 2 sem margir vilja telja að sé eingöngu samkeppnismiðill við stöðvar á hinum opna markaði þó svo ég sé því fullkomlega ósammála og hafi rökstutt það mál mitt með því að Rás 2 hafi verulegu hlutverki að gegna varðandi nýja íslenska tónlist sem eðlilegt sé að ríkisútvarp sinni. Ég minnist þess að hæstv. menntamálaráðherra hafi tekið undir þau sjónarmið mín.

Ég hefði líka talið eðlilegt að það ætti að efla Ríkisútvarpið á sviði íþróttanna. Ég teldi það mjög athugandi að Ríkisútvarpið eigi möguleika á að opna sjálfstæða íþróttarás. Í mínu tilfelli er það ekki af því að ég hafi svo mikinn áhuga á íþróttum heldur vegna þess að ég hef svo mikinn áhuga á að horfa á eitthvað annan en íþróttir í sjónvarpinu og finnst sá tími sem þær taka upp frá almennri sjónvarpsdagskrá allt of dýrmætur. Ég teldi full efni standa til þess að þjóð sem telur ekki nema um 300.000 manns reki ríkisfjölmiðil sem hefur ráð á að búa til sjálfstæða íþróttarás. Ég tel líka að ríkisfjölmiðill á borð við Ríkisútvarpið eigi að senda beint frá fundum Alþingis á sérstakri útvarpsrás. Þannig að fólk sem hefur tök á að hlusta í dagsins önn geti hlustað á útsendingar á útvarpsrás frá fundum Alþingis. Það sé ekki nóg að senda það út eins og gert er núna í hléi á milli dagskráratriða um miðjan daginn í sjónvarpinu eða fyrir þá sem hafa aðgang á breiðbandinu, því það eru ekki allir sem hafa tök á að fylgjast með fundunum í sjónvarpi en hefðu kannski gaman af að gera það í útvarpi.

Þingmál liggur frammi í sölum Alþingis um þetta sem Frjálslyndi flokkurinn á frumkvæði að og ég hef fengið að vera meðflutningsmaður að því á þessu þingi. Ég hefði talið að það væri eitt af þeim málum sem hefði átt að ræða í spyrðu í umræðu um Ríkisútvarpið, hlutverk þess og möguleika. En eins og kom fram í umræðunni um fundarstjórn forseta áður en þessi umræða hófst var ekki vilji til að taka önnur frumvörp sem varða málefni Ríkisútvarpsins inn í umræðuna.

Svo í lokin og af því ég var með opinn leiðara úr Morgunblaðinu frá 7. desember vil ég taka fram að ritstjóri Morgunblaðsins eða leiðarahöfundur tekur undir þau sjónarmið sem ég talaði um áðan varðandi útvarpsstjórann og hversu valdamikill hann gæti orðið. Ég leyfi mér að halda að þar séu sjónarmið uppi sem hæstv. menntamálaráðherra ætti að íhuga og leggja við hlustir því þar talar jú einstaklingur sem er á hennar eigin bandi pólitískt.

Ég læt fyrri ræðu minni lokið og lýsi því yfir að ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá með seinni ræðu.



[20:12]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það var margt í ræðu hv. þingmanns sem hljómaði kunnuglega enda höfum við rætt þetta málefni ítrekað eins og fram hefur komið.

Það var eitt atriði sem varð til þess að ég ákvað að koma hingað upp í andsvar. Það var þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á að sporin hræða og tilgreindi þá sölu Símans. Ég vil segja það hér og nú að það var alveg ljóst að þegar Síminn var hlutafélagavæddur var ekki tekið fram í þeim lögum að ekki skyldi selja Símann. Þetta er náttúrlega munurinn á Símanum og því frumvarpi sem við erum að ræða að í 1. gr. frumvarps til laga um Ríkisútvarpið kemur fram að salan sé ekki heimil. Það finnst mér vera mjög veigamikið atriði. Það er því ekki rétt að blanda þessum tveimur hlutum saman. Ég vildi aðeins koma inn á þetta atriði í andsvari mínu.



[20:13]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir kemur inn á kannski þá setningu sem skiptir sköpum fyrir Framsóknarflokkinn. Það er akkúrat þessi setning sem Framsóknarflokkurinn kom inn í frumvarpið. Að ekki megi selja Ríkisútvarpið. Það skyldi þó ekki vera að reynslan frá Símanum hafi orsakað að Framsóknarflokkurinn sá sig knúinn til að setja þá setningu í frumvarpið? Ég tel svo vera.

Þess vegna tel ég að hv. þm. Dagný Jónsdóttir eigi bara að viðurkenna að sporin hræða í þessum efnum. Hvort það er einhver trygging fyrir því þótt þessi setning sé núna í frumvarpinu um að Ríkisútvarpið verði ekki selt um aldur og ævi, þá efast ég nú um að eitthvert hald sé í þeirri trú. Svo vil ég minna hv. þingmann á að þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Halldór Blöndal, sem var samgönguráðherra þegar Síminn var háeffaður gaf hástemmdar yfirlýsingar um það úr þessum stóli, fyrir fjölmiðla og fyrir alþjóð að ekki stæði til að selja Símann. Nákvæmlega sömu hástemmdu yfirlýsingarnar hafa verið settar fram í þessari umræðu, að það standi ekki til að selja Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Ég treysti ekki þessum orðum. Mér finnst traust Framsóknarflokksins vera mikið þó þessi litla setning lafi þarna inni.



[20:15]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sporin hræða ekki. Ég fór yfir muninn á þessum tveimur frumvörpum áðan þannig að það var ekki ástæðan fyrir því að þessi setning var sett hér inn. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að okkur framsóknarmönnum þykir mjög mikilvægt að hafa þessa setningu í frumvarpinu. Við erum þannig gerð að við treystum fólki. Hv. þingmaður kom inn á það áðan að enda þótt hún treysti núverandi hæstv. menntamálaráðherra viti hún ekki hvort sá ráðherra verði í ríkisstjórn á næstunni. Ég held að hv. þingmaður sé þá með því að segja að þeir sem nú skipa stjórnarandstöðuna, þeir hafa háleit markmið um að komast í ríkisstjórn, hafi þá jafnvel hug á að selja Ríkisútvarpið, en það kæmi mér alla vega mjög á óvart miðað við þann málflutning sem hér hefur verið viðhafður.

Ég ítreka að það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið, það er enginn meiri hluti fyrir slíku. Þrír hv. þingmenn hafa lagt fram frumvarp þess efnis. Einn þeirra hv. þingmanna hefur sagt hér að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið, það andrúmsloft hafi breyst. Ég er alveg sannfærð um að það er staða sem við munum horfa á til framtíðar og ekki síst í ljósi þeirrar samkeppni og aðstæðna sem nú ríkja á markaði. Ég ítreka að við framsóknarmenn treystum fólki fyllilega og við treystum þingmönnum framtíðarinnar til þess að hafa sölu Ríkisútvarpsins ekki á dagskrá.



[20:16]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir gott að heyra það og vita að Framsóknarflokkurinn treystir fólki. Ég geri það líka. Ég held að við höfum öll innbyggða þá tilhneigingu að vilja treysta fólki. Þess vegna og einmitt þess vegna hefði ég viljað að við öll í þessum sal, ólík sem við erum, með ólík pólitísk sjónarmið, hefðum sest saman yfir það verkefni að hjálpa Ríkisútvarpinu að ganga í endurnýjun lífdaga. Við hefðum ekki náð sátt um hlutafélagaformið en við hefðum kannski náð sátt um að stofnunin fengi loft í vængina af því að við treystum fólki.

En Sjálfstæðisflokkurinn treysti okkur ekki til að setjast yfir þetta mál. Sjálfstæðisflokkurinn treysti ekki þeim ólíku sjónarmiðum sem eru í þessum sal fyrir því verkefni að búa til umgjörð eða jarðveg fyrir Ríkisútvarpið þar sem það gæti blómstrað. Það er mergurinn málsins. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem ekki treystir fólkinu.

Hverjir hafa klifað á því að það eigi að selja Ríkisútvarpið? Það eru sjálfstæðismenn, ekki hvað síst ungir sjálfstæðismenn. Ályktun eftir ályktun hefur verið samþykkt hjá SUS og Heimdalli um að selja eigi Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Margir SUS-ararnir eru orðnir fullorðnir núna og komnir í eldri deildina. Einhvers staðar blundar enn með því fólki sá vilji að selja Ríkisútvarpið í fyllingu tímans. Þetta er skref í þá átt. Framsóknarflokkurinn verður að fara að opna augu sín fyrir því. Það er þó sennilega of seint. Já, sennilega er það of seint. En þjóðin á möguleika á að opna augu sín fyrir því og þá á þjóðin þann möguleika að kjósa aðra ráðamenn í ráðherrastólana í næstu alþingiskosningum. Það er ekki svo langt í þær. Stjórnarandstaðan er tilbúin.



[20:19]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Enn á ný ræðum við frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, nú að vísu í fyrsta sinn ohf. áður hafa aðrar skammstafanir verið aftan við nafnið. Þrátt fyrir að við séum að ræða þetta frumvarp í þriðja sinn, auðvitað hafa orðið breytingar á því í hvert sinn sem það hefur komið hér, þá er samt margt líkt með þessu frumvarpi og þeim sem áður hafa verið flutt. Slíkt hið sama má að sumu leyti segja um þá umræðu sem hér hefur farið fram, t.d. voru síðustu andsvörin til þess að rifja upp ýmislegt sem við höfum áður heyrt í umræðunni. Og ég verð að segja, frú forseti, að það vakti sérstaka athygli mína að hv. þm. Dagný Jónsdóttir var enn að því er mér virtist með sömu trú á setningunni miklu í 1. gr., setningunni sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Ég man ekki betur en hv. þingmaður hafi setið með okkur í menntamálanefnd síðastliðinn vetur þegar við fórum yfir þetta frumvarp. Þá komu ýmsir í heimsókn til nefndarinnar og þessi setning var rædd við nokkra virðulega gesti nefndarinnar. Ég man ekki betur en það hafi verið samdóma álit allra sem tjáðu sig um þessa setningu að hún skipti akkúrat engu máli, væri í raun merkingarlaus sem slík. En enn á ný vekur hv. þingmaður athygli okkar annarra hv. þingmanna á því að þessi setning er ætluð Framsóknarflokknum einum og sér. Það er enginn annar sem leggur neina merkingu í þessa setningu en hún virðist hafa dugað til að róa einhverja framsóknarmenn til þess að gerast stuðningsmenn frumvarpsins. Þessi setning breytir engu um það að enda þótt hún stæði ekki þá þyrfti lagabreytingu til að selja Ríkisútvarpið, nákvæmlega eins og þarf við þetta frumvarp. Setningin sem slík breytir engu þar um en hefur augljóslega verið notuð í einhverjum hrossakaupum milli stjórnarflokkanna.

Það er rétt að rifja upp, eins og nokkrir hv. þingmenn hafa gert í þessari umræðu, að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hvað ákafastir hafa verið í því að nauðsynlegt væri að selja Ríkisútvarpið hafa sagt að þeir gætu stutt þetta frumvarp vegna þess að það auðveldaði sölu Ríkisútvarpsins síðar. Það er auðvitað hægt að leggja ýmsa merkingu í þessi orð hv. þingmanna en það er augljóst mál að það verður einfaldara að samþykkja sölu Ríkisútvarpsins eftir þessa breytingu en áður og það er væntanlega sú merking sem þeir leggja í þetta. En það gæti líka verið önnur merking og ég leyfi mér að geta þess að það gæti líka verið að hv. þingmenn ættu við það að með því að breyta þessu og gera ekki neitt annað til að bæta stöðu Ríkisútvarpsins, eins og blasir augljóslega við núna, sé styttra í að ýmsir fari að kalla á að gera þurfi enn frekari breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins til þess að breyta megi þó einhverju og þá þurfi að stíga næsta skref vegna þess að augljóslega hafi þetta skref engu skilað.

Þegar við horfum aðeins aftur í tímann og veltum fyrir okkur hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur leikið Ríkisútvarpið, vegna þess að ég leyfi mér ekki að halda að Sjálfstæðisflokkurinn eða stjórnarflokkarnir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera, þ.e. að það sé algjör tilviljun hvernig fjárhagur og starfsemi Ríkisútvarpsins hefur þróast. Ég leyfi mér ekki þann munað að halda að fólk hafi ekki vitað hvað það var að gera. Ég tel það augljóst og þegar maður fer yfir söguna blasir svo við hver tilgangurinn hefur verið. Þegar maður leggur síðan við rökstuðninginn sem m.a. hæstv. menntamálaráðherra notar í málflutningi sínum fyrir því að þetta frumvarp sé nauðsynlegt og það þurfi að breyta rekstrarforminu passar þetta enn betur inn í myndina, þá mynd að starfsemi Ríkisútvarpsins hafi skipulega verið veikt til þess að fá ákveðna aðila til að segja: Þetta gengur ekki lengur, við getum ekki búið við þessar aðstæður lengur, það verður að gera eitthvað. Að þá sé búið að svelta fólk svo mikið að það sé farið að segja „gera eitthvað“ og það sé alveg sama hvað gert verði, það geti aldrei orðið verra.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði úr þessum ræðustól fyrr í dag að staða Ríkisútvarpsins verði aldrei verri en hún er nú — ég endurtek: aldrei verri en hún er nú — þegar búið er að gera hana svo slæma að það eina sem gæti gerst, ef hún yrði verri, er að starfseminni yrði hætt. Það er það eina sem gæti gerst ef hún yrði verri vegna þess að í raun og veru er staðan orðin sú að við allar eðlilegar kringumstæður væri búið að loka. (Menntmrh.: Hvenær á að vera málefnalegur?) Ef þetta er ekki málefnalegt, hæstv. ráðherra, þegar hæstv. ráðherra hefur aldrei nokkurn tíma treyst sér til að ræða málefnalega um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins, aldrei, heldur bara sagt að það verði aldrei verra þá er merkingin auðvitað þessi: Hún getur ekki orðið verri nema loka starfseminni, hætta starfseminni. Þá er hún verri. Vegna þess að ef hún verður verri er ekki hægt að gera neitt. Staðan er þannig, hæstv. ráðherra.

Og bara til að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra hvað hefur gerst, vegna þess að hún ber að sjálfsögðu ekki ábyrgð á þessari sögu allri, þá skulum við hefja leikinn árið 1994. Hvernig var staðan þá hjá Ríkisútvarpinu? Jú, þá var fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins bara býsna góð. Eignir í fasteignum námu 2 milljörðum kr., tæki og innréttingar tæpum 300 millj. kr. Þá voru langtímaskuldir Ríkisútvarpsins engar en skammtímaskuldir námu tæpum 400 millj. kr., en Ríkisútvarpið átti fyrir skammtímaskuldum árið 1994, því að viðskiptakröfur og birgðir námu einnig 400 millj. kr. Þetta þýðir að rekstrarfjárjöfnuður stóð á núlli. Allar forsendur voru fyrir áframhaldandi góðri rekstrarafkomu Ríkisútvarpsins. Það er nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðherra að vita eitthvað örlítið um fortíðina líka, sérstaklega þegar farið er að tala um að staða Ríkisútvarpsins verði alla vega ekki verri. En hún er miklu verri í dag en hún var 1994. Hún er gjörbreytt. Núna á Ríkisútvarpið ekki lengur fyrir skuldum. Eiginfjárstaðan var neikvæð um tæpar 200 millj. kr. um síðustu áramót og það hefur ekkert gerst í starfsemi Ríkisútvarpsins sem bendir til þess að það hafi lagast heldur hefur líklega sigið enn á ógæfuhliðina og væri ekki ólíklegt að eiginfjárstaðan væri nú neikvæð um rúmlega 200 millj. kr.

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra telur það ekki málefnalega umræðu að ræða um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Það skyldi þó ekki vera að það væri einmitt sú málefnalega umræða sem hæstv. ráðherra vill síst taka þátt í af þeirri einföldu ástæðu að þar er málstaður ráðherrans gjörsamlega vonlaus.

Staðan er þannig að söluhæfar eignir, þ.e. fasteignir, innréttingar og tæki, duga vart fyrir langtímaskuldum. Skammtímakröfur nema rúmum 700 millj. kr. en skammtímaskuldir nú nálgast 1,7 milljarða. Rekstrarfé er því neikvætt um tæpan milljarð króna. Í einkafyrirtæki eða hlutafélagi hjá ríkinu væri þetta kallað neyðarástand, þ.e. að staðan gæti ekki orðið verri öðruvísi en að það þýddi að það yrði að loka. Hæstv. ráðherra kemur hér og lýsir því yfir að með breytingunni verði staða Ríkisútvarpsins a.m.k. ekki verri og það á að tryggja að það verði hugsanlega hægt að skrimta eitthvað áfram. Það er þó algjörlega óvíst vegna þess að ef ekki verður brugðist við einu eða neinu í því að bæta fjárhagslega stöðu stofnunarinnar bíður ekkert annað en að hún verði svo veik að hún verði að grípa til einhverra örþrifaráða.

Af því að tími vannst til í sumar hefði hæstv. menntamálaráðherra mátt fara örlítið yfir bréf sem ég man að hæstv. útvarpsstjóri sendi menntamálanefnd með umsögn sinni um frumvarpið í fyrra þar sem útvarpsstjórinn benti m.a. á að nú væri búið að spara, búið væri að hagræða öllu sem hægt væri að hagræða og það dygði ekki að breyta bara um rekstrarform til þess að hægt væri að bæta stöðuna, það yrði að koma eitthvert fjármagn inn í stofnunina. Öðruvísi væri ekki hægt að snúa af þeirri braut sem stofnunin hefði verið á undanfarið, þ.e. að draga úr þjónustu. Þá er auðvitað spurningin sem hæstv. ráðherra hlýtur að þurfa að svara í þessari umræðu: Hvaða þjónustu á að skera niður hjá Ríkisútvarpinu?

Hæstv. ráðherra vildi ekki meina að þessi breyting auðveldaði það að segja upp fólki og það væri ekki tilgangurinn að segja upp fólki. Það ætti, eins og segir í frumvarpinu, að bjóða öllu núverandi starfsfólki vinnu, en það skyldi þó ekki vera að í því lægi einhver ósk um að ekki vildu allir vinna hjá Ríkisútvarpinu áfram og þannig væri hægt að fækka fólki?

Hvaða þjónusta er það sem skera á af? Hæstv. ráðherra verður auðvitað að gera þingheimi grein fyrir því hver tilgangurinn er með þessari breytingu. Hann er augljóslega m.a. sá að það er auðveldara að segja upp fólki. Hvaða starfsfólki á þá að segja upp, hvaða þjónustu á að skera af? Það eru engar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra um að bæta eigi fjárhag stofnunarinnar. Að vísu kom fram í andsvari ráðherra áðan að eiginfjárhlutfallið ætti að vera 10–12%. Ef ég man rétt fengum við í menntamálanefnd í fyrra bréf frá endurskoðanda Ríkisútvarpsins sem taldi nauðsynlegt að eiginfjárhlutfallið væri ekki lægra en 30% til að viðunandi væri. Hæstv. ráðherra segir að það verði 10–12%.

Vinnan er stutt komin þótt okkur væri sagt í fyrra að endurmat á eignum stofnunarinnar væri um það bil að koma og yrði örugglega klárt áður en við afgreiddum þetta mál úr þinginu. Gert var ráð fyrir að það yrði klárað síðasta vor, að það væri á næsta leiti. Ríkisendurskoðun hafði verið falið að vinna að endurmati á eignum stofnunarinnar og það var sagt rétt handan við hornið. Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur hins vegar fram að enn er verið að vinna að þessu. Þetta liggur ekki enn fyrir. Það sem skorti á í fyrra skortir enn. Ekkert virðist hafa verið gert annað en fara yfir þær tillögur sem komin var niðurstaða í hjá meiri hluta menntamálanefndar þegar málið var stoppað í nefnd í fyrravor. Ekkert annað hefur gerst í millitíðinni þrátt fyrir að endurmatið a.m.k. hefði getað legið fyrir og þar af leiðandi einhverjar tillögur um hvernig menn vildu fara í hina fjárhagslegu endurskipulagningu.

Frú forseti. Ég get auðvitað haldið áfram og trúlega er nauðsynlegt að rifja upp fyrir hæstv. menntamálaráðherra hvernig stendur á því að fjárhagsstaða stofnunarinnar hefur þróast á þennan hátt. Það er búið að éta upp allt eigið fé og það orðið neikvætt og skuldum hefur verið safnað til að reksturinn geti gengið.

Það er líklega hægt að tiltaka fjórar meginástæður fyrir þessari þróun. Í fyrsta lagi hefur tekjuþróunin ekki verið í takt við útgjaldaþróunina. Tekjurnar eru annars vegar afnotagjöldin og hins vegar auglýsingatekjur. Hvorugt hefur haldið í við útgjöldin. Það hefur dregið úr auglýsingatekjum vegna þess að á þessu tímabili hefur samkeppnin aukist verulega. Afnotagjöldin hafa ekki hækkað í takt við útgjöld og þar hefur myndast gap sem skapar stóran hluta af þeim rekstrarvanda sem við er að glíma.

Í öðru lagi má nefna lífeyrissjóðsskuldbindingar. Auðvitað var gert ráð fyrir því mjög lengi, vegna þess að annað hafði ekki verið gefið í skyn, að það væri bara tímaspursmál hvenær ríkissjóður tæki þær yfir. Árið 1995 var aftur á móti ákveðið að þær féllu af fullum þunga á stofnunina sjálfa. Lífeyrisskuldbindingarnar hafa lagst algerlega á Ríkisútvarpið og hefur þurft að borga af þeim stórar upphæðir ár hvert. Nú er reiknað með því í frumvarpinu að skuldir við ríkissjóð, sem ekki hafa verið vaxtareiknaðar, lendi á opinbera hlutafélaginu. Þær munu því skapa enn erfiðari efnahag hjá opinbera hlutafélaginu en er í dag. Þetta hefur eðlilega valdið töluvert miklum vanda.

Í þriðja lagi er það auðvitað í fersku minni flestra að árið 1999 var ákveðið að flytja starfsemi sjónvarpsins af Laugaveginum í útvarpshúsið. Sú framkvæmd ein og sér kostaði tæpan milljarð kr. Hún var að mestu leyti fjármögnuð með langtímabankalánum vegna þess að ekkert var gert í að aðstoða stofnunina við að fjármagna flutninginn.

Í fjórða og síðasta lagi hefur það verið mjög áberandi að frá árinu 2000 hafa stjórnendur Ríkisútvarpsins tekið ákvarðanir um aukningu skammtímaskulda úr 500 millj. kr. í 1,7 milljarða kr. Það blasir við að þessar auknu skammtímaskuldir hafa einvörðungu staðið undir þrálátum rekstrarhalla. Rekstrarhallinn hefur verið fjármagnaður með skammtímalánum. Það hefur væntanlega, að mati stjórnenda, engin önnur leið verið til eins og fram kemur í bréfinu sem ég vitnaði í áðan frá útvarpsstjóra, þar sem staðfest var að það væri búið að hagræða eins og hægt væri í stofnuninni og ekkert eftir annað en að skera niður þjónustu.

Síðan kemur hæstv. menntamálaráðherra og telur að með því að breyta um rekstrarform muni allt saman batna og Ríkisútvarpið, að því er mér skilst, dafna og vaxa og þjónusta þess aukast sjálfkrafa. Þetta minnir á hókus pókus aðferðina sem ríkisstjórnin notaði í sumar og ýmsir hv. þingmenn í stjórnarliðinu virðast trúa að hafi gerbreytt þróun verðbólgunnar, þ.e. þegar framkvæmdum á svæðum landsins þar sem engin þensla mældist var frestað um þriggja mánaða skeið til að draga úr þenslu. Sumir hv. þingmenn trúa því að þetta hafi öllu breytt í verðbólguþróuninni. Svo virðist sem hæstv. menntamálaráðherra trúi því sama, að með því að breyta um rekstrarform muni enginn vandi lengur til staðar í rekstri Ríkisútvarpsins. Þetta er alger misskilningur.

Forsenda þess að við færum að ræða um breytt rekstrarform og hvaða rekstrarform væri réttast fyrir Ríkisútvarpið er að farið yrði sérstaklega í að koma fjárhagnum í það horf að Ríkisútvarpið geti sinnt því hlutverki sem við verðum að telja að meiri hluti Alþingis vilji. Það er algerlega vonlaust að það gangi við núverandi aðstæður.

Frú forseti. Ég sagði áðan augljóst mál að það væri engin tilviljun að þessi staða væri komin upp. Hún er auðvitað sköpuð. Hún er skipulögð. Það má rifja upp í þessu samhengi að fyrrverandi menntamálaráðherra, núverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, sagði árið 1996 að stefna ætti að því að jafna aðstöðu ríkis- og einkastöðva. Hann sagði jafnframt að á Alþingi væri þungt fyrir fæti þegar kæmi að því að rétta hlut einkastöðva.

Frú forseti. Það skyldi þó ekki vera að í þessum orðum felist að fyrst ekki er hægt að jafna þetta með því að rétta hlut einkastöðva þá sé rétt að veikja stöðu Ríkisútvarpsins. Var það leikurinn, alla tíð frá því að þessi orð voru sögð 1996 og fram á þennan dag? Ég verð að segja að ef það hefur verið markmiðið þá hefur það tekist býsna vel. Staða Ríkisútvarpsins er í fjárhagslegu tilliti orðin þannig nú að engin einkastöð væri rekin við þær aðstæður. Þetta hefur því tekist og trúlega hafa þeir gleymt að stoppa nógu snemma. Nú er staðan orðin svo alvarleg að engin einkastöð væri rekin við slíkar aðstæður. Að sjálfsögðu væru allir aðrir búnir að loka.

Það er rétt að rifja upp það sem hæstv. ráðherra sagði fyrr í dag, að staðan hafi aldrei verið verri en nú hjá Ríkisútvarpinu eftir breytingu, aldrei verri. Skiljanlega, því að ef hún væri verri þá væri hún engin, þá væri þessu lokið. Það er allt á síðasta snúningi ef litið er til efnahagslegrar stöðu Ríkisútvarpsins, því er nú verr og miður. (Gripið fram í: Og nú er að selja …) Það skyldi þó ekki vera, hv. þingmaður, markmið sumra a.m.k.? Eins og ég sagði örlítið fyrr í ræðu minni mætti ætla það af ferlinu þegar það er skoðað aftur í tímann. Það er búið að ná því markmiði að ýmsir þeir sem vildu alls ekki breyta rekstrarforminu áður eru í dag farnir að tala um að eitthvað verði að gera til að stofnunin komist úr þeirri klemmu sem hún er í núna. Þá er það niðurstaðan að jafnvel sé betra að fara þessa leið en gera ekkert. En það er ljóst að breytingin mun engu breyta að því leyti og þá mun ekki langur tími líða þar til ýmsir rísa upp og segja: Sjáið þið, þetta dugir ekki og verður að koma þessu í annað form. Þá er ekkert eftir annað en að selja þetta apparat og koma því í hendur einkaaðila. Það skyldi þó ekki vera að þá segi þeir sem verið hafa á móti sölu hingað til: Það var ekkert annað að gera vegna þess að staðan var orðin sú að við vildum halda því gangandi og var betra að láta einhverja aðra fá það sem gætu þá rekið það. Með þessum hætti er ekki hægt að reka þetta áfram.

Þetta er auðvitað alvara málsins. Sjálfstæðisflokkurinn með Framsóknarflokkinn í eftirdragi hefur allt frá árinu 1995 verið á þessari leið. Það er auðvitað skýringin á því að Framsóknarflokkurinn ætlar vegna einnar setningar að gangast inn á þetta mál. Í þeirra huga er staðan svo erfið að það verður eitthvað að gera og bara af því þau fá þessa setningu í 1. gr., sem ég er búinn að fara nokkrum sinnum yfir í umræðum og var því ákaflega hissa á að hv. þm. Dagný Jónsdóttir skyldi einnig minnast á hana. Þessi setning í 1. gr. er gerð fyrir Framsóknarflokkinn. Ýmsir sem komu í heimsókn til menntamálanefndar í fyrra sögðu að þau orð hefðu enga merkingu. Það verður auðvitað að breyta lögum ef selja á Ríkisútvarpið hvort sem þessi setning er í 1. gr. eða ekki. Hún hefur enga merkingu í því tilliti.

En séu stjórnarherrarnir á þeirri leið að undirbúa söluna þá er þetta frumvarp, eins og nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa bent á, til að auðvelda það. Eigi ekki að gera annað en þetta þá bíður Ríkisútvarpsins ekkert annað, því miður, en að halda áfram í endalausum rekstrarvanda. Það getur ekki endað nema á einn hátt ef ekkert verður að gert. Það er auðvitað alvara málsins. Það er með ólíkindum að hæstv. menntamálaráðherra skuli í þriðja sinn koma fram með frumvarpið án þess að nefna það einu orði til hvaða aðgerða skuli grípa til að leysa stofnunina úr þeim rekstrarvanda sem hún hefur verið í til fjölda ára. Ekki nóg með það heldur gengur hæstv. ráðherra, þegar farið er að tala um þetta, um ganga og kallar fram í hvort hér eigi ekki að fara fram málefnaleg umræða. Hæstv. ráðherra telur það ekki málefnalega umræðu að tala um rekstrarvanda Ríkisútvarpsins. Það er greinilega eitthvað sem enginn má tala um. Það er eitthvað sem enginn á að vita um og nokkuð sem hæstv. ráðherra vill ekki tengja við þetta frumvarp.

Þannig er staðan, frú forseti, að ekkert í frumvarpinu bendir til þess, nema að vísu örlítil upphæð vegna þess að Ríkisútvarpið verður í öðruvísi tengslum við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það breytir örlítið í félagslegu tilliti en á móti kemur að greiða þarf vexti af lausaskuldum við ríkissjóð sem éta það upp og líklega rúmlega það, ef ég man rétt. Ljóst er að ef ekkert verður að gert hefur Ríkisútvarpið ohf. ekkert annað úrræði en að skera duglega niður í rekstri. Hvað það á að vera vitum við að sjálfsögðu ekki. En það væri auðvitað eðlilegt að hæstv. ráðherra gerði okkur grein fyrir því hvað hún telur eðlilegt að skera niður, hvað á ekki heima í Ríkisútvarpinu. Það verður vart meira en óskhyggja að innlend dagskrárgerð verði stórlega aukin. Það verður að teljast afar ólíklegt við því við þessar aðstæður. Þetta skyldi þó ekki þýða að jafnvel verði dregið enn meira úr innlendri dagskrárgerð? og má þó vart við því. Það hlýtur að vera eitt af stóru hlutverkum Ríkisútvarpsins að efla íslenska dagskrárgerð en ekki að skera hana niður. Ef við leggjum saman allar þessar upplýsingar þá blasir við að líklega þarf að skera þarna niður um 15–20%.

Frú forseti. Það er rétt að fara yfir fleiri þætti í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. En aðeins um sjálfstæðið, sem hæstv. menntamálaráðherra fjallaði örlítið um í ræðu sinni áðan og í nokkrum andsvörum. Hún vakti athygli á því að verið væri að stórauka sjálfstæði stofnunarinnar. Því miður, frú forseti, verður að draga í efa að svo sé. Ég hef farið yfir fjárhagslega þætti og niðurstaðan af því er ekki sú að sjálfstæði stofnunarinnar muni aukast. Það felst ekkert sjálfstæði í því að stofnunin taki við miklum rekstrarvanda og haldi þannig áfram.

Til viðbótar er rétt að vekja athygli á, eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði í ágætri framsöguræðu sinni áðan, stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Hún verður að sjálfsögðu ekki algerlega óháð. Hún eykur ekki sjálfstæði stofnunarinnar vegna þess að hún verður kosin árlega hlutfallskosningu á Alþingi. Hún verður þar með tengd meiri hlutanum á Alþingi hverju sinni. Það er ekki einu sinni reynt að milda þetta ákvæði, t.d. með því að stjórnin verði kosin til fjögurra ára og þá ekki látin fylgja kjörtímabili heldur í fjögur ár þannig að hún geti lifað mismunandi meiri hluta á þingi. Þar með mundi sjálfstæði hennar aukast. Nei, þetta er ekki gert. Stjórnin á síðan að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum. Stjórnin, sem er undir þessum árlega þrýstingi, hefur því í för með sér stöðugan þrýsting á útvarpsstjóra. Hann er ekki einu sinni bundinn því, eins og flestir forsvarsmenn ríkisstofnana, að vera ráðinn til ákveðins tíma. Útvarpsstjóri þarf líka að vera háður því að hægt sé að segja honum upp fyrirvaralítið. Þar með er því komin bein tenging við þennan mikla valdamann í stofnuninni, við meiri hlutann á Alþingi hverju sinni. Það er ekki einu sinni reynt að skera á þetta.

Varnaglarnir eru alls staðar hjá þeim hinum sömu og tala um að nauðsynlegt sé að auka sjálfstæði stofnunarinnar. Hvernig stendur á því að þeir ganga ekki alla leið í að auka sjálfstæði stofnunarinnar? Það eru auðvitað ýmsar leiðir til þess, innan þessa forms sem sami meiri hluti hefur ákveðið, að auka sjálfstæðið. En það er eins og það sé ekki áhugi á því, hvorki þegar litið er til fjárhagsins, kosningar stjórnar eða ráðningar útvarpsstjóra.

Frú forseti. Ég minntist á það áðan að við í menntamálanefnd hefðum í fyrra fengið ágæta umsögn frá útvarpsstjóra sjálfum. Ég held að ég hafi farið þokkalega yfir það en þó mætti rifja örlítið upp, með því að vitna orðrétt í umsögn útvarpsstjóra, það sem þar segir varðandi hallareksturinn. Þar segir, með leyfi forseta:

„Um langt árabil hefur verið verulegur halli á rekstrinum og er eigið fé stofnunarinnar neikvætt. Á þessu er nauðsynlegt að taka áður en nýtt hlutafélag verður skráð.“

Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er ekki að sjá að á nokkurn hátt hafi verið tekið á þessu. Að vísu kom yfirlýsing frá hæstv. ráðherra um 10–12% eiginfjárhlutfall, þrátt fyrir að endurskoðendur stofnunarinnar hefðu talið að það mætti ekki vera lægra en 30%. Þar er þó gengið örlítið lengra en segir í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem talaði um að það yrði a.m.k. 5 millj. kr. Það segir að sjálfsögðu ekkert um hve hátt það fer. En það er eiginlega með ólíkindum að þrátt fyrir alla umræðuna í menntamálanefnd og hér í þingsal í fyrra varðandi þetta atriði skuli þessu ekki hafa verið breytt, a.m.k. í þá veru sem hæstv. ráðherra sagði að tryggt yrði, að það yrði 10–12%. Það væri þó í áttina.

Mig langar að vitna aðeins meira í umsögn útvarpsstjóra þannig að hæstv. menntamálaráðherra átti sig á því að það eru ekki bara örfáir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem vakið hafa athygli á stöðu Ríkisútvarpsins. Útvarpsstjóri segir sjálfur, með leyfi forseta, aðeins aftar:

„Þessum taprekstri verður ekki mætt einvörðungu með hagræðingu.“ — Þrátt fyrir að rekstrarformi verði breytt og unnt að hagræða meira, trúlega með því að fækka fólki, segir útvarpsstjóri að það verði ekki nægjanlegt og eitthvað meira þurfi að koma til. — „Á undanförnum árum hefur Ríkisútvarpinu tekist að hagræða verulega í rekstri, enda ítrekað verið farið ofan í rekstur einstakra deilda. Ekki verður séð að hægt sé að ganga mikið lengra á því sviði án þess að skerða þjónustuna.“

Þetta segir útvarpsstjóri. Það er því eðlilegt að við spyrjum, frú forseti, hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða þjónustu ætlar hæstv. ráðherra sér að skerða, eða á að bæta fjárhagsstöðu stofnunarinnar á einhvern hátt?

Útvarpsstjóri nefnir fleira og ég ætla að leyfa mér að vitna a.m.k. einu sinni enn í umsögn hans sem send var til menntamálanefndar. Útvarpsstjóri heldur áfram, með leyfi forseta:

„Þá er ýmis kostnaður þess eðlis að litlu verður um hnikað auk þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að öllum starfsmönnum verði boðið starf hjá hinu nýja félagi. Loks ríkir mikil óvissa með ýmsa kostnaðarliði. Taprekstrinum verður því einnig að mæta með tekjuaukningu.“

Frú forseti. Útvarpsstjóri telur að mæta verði taprekstrinum með tekjuaukningu. Sú tekjuaukning er hvergi í frumvarpinu. Ekkert hefur breyst í frumvarpinu að því leyti frá því að útvarpsstjóri ritaði þetta bréf. Það hlýtur því að teljast, frú forseti, málefnaleg umræða að velta fyrir sér hvernig hæstv. ráðherra sjái fjárhagslega stöðu stofnunarinnar til framtíðar. Það er ekki nægjanlega málefnalegt, frú forseti, að hæstv. ráðherra vísi eingöngu til þess að breyta eigi rekstrarforminu. Það er ekki málefnaleg umræða um fjárhagslega stöðu stofnunarinnar. Það nægir ekki og ég hef vitnað í útvarpsstjóra sjálfan sem telur það heldur ekki nægja.

Ég hef áður minnst á eiginfjárhlutfallið, sem hæstv. ráðherra nefndi einnig. Endurskoðendur Ríkisútvarpsins telja að það þurfi að vera a.m.k. 30%. Ég er klár á því að um það má auðvitað deila en það er eðlilegt að það verði rætt betur í menntamálanefnd. Gerð var tilraun til þess í fyrri störfum en prósentutalan frá ráðuneytunum, um 10–12% eiginfjárhlutfall, kom ekki fyrr en í lok umfjöllunar nefndarinnar, jafnvel eftir að nefndin var búin að skila af sér þótt ég þori ég ekki alveg að fullyrða það. En það var rétt um það bil á síðasta fundi nefndarinnar að þær tölur voru ljósar og um þær varð engin umræða frekar en um ýmsa aðra þætti sem fengust í raun ekki ræddir. Það fékkst t.d. ekki rætt hvort hægt væri að velta fyrir sér einhverju öðru rekstrarformi, sjálfseignarstofnunarforminu sem dæmi. Um það fékkst engin umræða. Því var bara ýtt út af borðinu af meiri hluta nefndarinnar með því að segja að það kæmi bara ekki til greina og væri ekki til umræðu.

Þetta form var hið eina sem meiri hlutinn vildi tala um. Minni hlutinn mátti benda á það sem betur mætti fara og vissulega tók meiri hlutinn tillit til ýmissa slíkra þátta, sem blöstu augljóslega við þegar búið var að fara yfir málið en ég er sannfærður um að við hefðum náð fram betra frumvarpi ef því hefði verið haldið lengur í umræðunni.

Einn mjög stór þáttur í þessu máli er tekjuöflunin, þ.e. nefskatturinn. Um hann fékkst engin umræða. Ég ætla að ræða aðeins um hann í lok ræðu minnar en áður vil ég þó örlítið minnast á stærra mál en svo að ég muni gera því fyllilega skil. En það eru réttindi starfsmanna. Ég vænti þess að um það verði betur fjallað af öðrum hv. þingmönnum.

Það blasti við okkur í menntamálanefnd í fyrra þegar búið var að fara yfir réttindi starfsmanna — til þess var gefinn nokkur tími og við fengum fulltrúa á fund nefndarinnar sem fóru býsna vel yfir málið — að meiri hluti nefndarinnar hafði engan áhuga á að tryggja stöðu starfsmannanna betur en gert er í frumvarpinu, þrátt fyrir að hin stóru samtök BSRB og BHM hafi sameiginlega bent á að farið væri á svig við ákveðin lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fulltrúar þeirra skildu í raun ekki frekar en við, og það er rétt að það komi fram, hvernig á því stæði að meiri hluti Alþingis hefði ýmislegt við þau lög að athuga en virtist ekki treysta sér til að koma hér hreint fram og leggja fram breytingartillögur við þau lög eða reyna að semja um það við starfsmenn ríkisins hvernig breyta megi þessum lögum þannig að meiri hlutinn sé sáttur við þau. Þess í stað er farin sama leið og í hvert skipti sem slík breyting er gerð á rekstrarformi, þ.e. farið á svig við lögin þótt lögin kveði alveg skýrt á um hvernig að þessu skuli staðið.

Frú forseti. Ég sagði að mikilvægt væri að tryggja tekjustofna stofnunar eins og Ríkisútvarpsins. En eins og ég hef rakið hefur þess ekki verið gætt. Það hefur ekki verið samhengi á milli þess sem ætlast hefur verið til af stofnuninni og þeirra tekna sem stofnunin hefur fengið. Þess vegna hefur þróunin verið sú sem ég benti á. Leiðin sem meiri hlutinn og hæstv. ráðherra velja í frumvarpinu, nefskatturinn, er þó að ýmissa mati, og við erum þeirrar skoðunar í stjórnarandstöðunni, afar óheppileg. Við teljum margar mun vænlegri leiðir til þess að tryggja tekjurnar. Hún er að vísu einföld, þessi nefskattsaðferð, en hún skilar sér ekki eins og eðlilegt getur talist, þ.e. jöfnuður gagnvart fólki er ekki tryggður.

Við fengum afar athyglisvert bréf frá ríkisskattstjóraembættinu varðandi þetta mál. Þar kom ýmislegt fróðlegt fram sem ég hef ekki tíma til, frú forseti, að fara yfir í ræðu minni. En ríkisskattstjóraembættið, sem auðvitað hefði verið eðlilegt að ráðgast við áður en ráðist væri í svo viðamikla breytingu, bendir á ýmsa vankanta. Ríkisskattstjóri fer síðan í skemmtilega sögulega upprifjun á nefsköttum en kemst að þeirri niðurstöðu, sem er reyndar mjög skýr og raunar afar sérstakt að slíkt komi frá orðvörum embættismönnum. Í niðurlagi umsagnar ríkisskattstjóra segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til alls framangreinds verður ekki hjá því komist að draga í efa að sú tillaga frumvarpsins að afla Ríkisútvarpinu tekna með álagningu nefskatts sé heppileg.“

Það er eðlilegt að draga í efa að aðferðin sé heppileg. Þetta er afar embættismannslegt orðalag en með öðrum orðum eru til miklu heppilegri leiðir til að gera þetta. Hægt væri að fara fjölmargar leiðir. Afnotagjöldin hafa verið notuð en þau hafa verið óvinsæl, líklega vegna þess að þau eru mun hærri en í öðrum löndum þar sem sú aðferð hefur verið notuð. En það er þekkt aðferð sem hefur bæði kosti og galla. Bent hefur verið á að fjármagna megi stofnunina með beinum framlögum úr ríkissjóði með þjónustusamningi hennar við ríkið eins og gert er með ýmsar opinberar stofnanir. Það er líka einföld leið en hún hefur þann galla að meiri hluti á þingi, sem er viðkvæmur fyrir því sem gert er í stofnuninni, gæti minnkað fjárframlög eða sleppt því að auka þau, eins og færa má rök fyrir að hafi verið gert með afnotagjöldin. Þau hafa auðvitað verið háð því að hækkanir í samræmi við verðlagsþróun í landinu yrðu samþykktar. Þar munar vitanlega allverulegu.

Bent hefur verið á að nota mætti hluta af tekjuskattinum til að afla þessara tekna. Margt bendir til þess að það væri ein heppilegasta leiðin. Bent hefur verið á að tengja þetta við fasteignagjöld sem hefði einnig ákveðna galla eins og flest af þessu. En það er lágmarkskrafa að menntamálanefnd gefi sér tíma til að fara yfir málið að þessu leyti og kanni hvaða leið er vænlegust og réttlátust þannig að ná megi sem allra mestri sátt um tekjuöflun Ríkisútvarpsins.

Auðvitað væri nauðsynlegt að ná sem mestri sátt um frumvarpið í heild sinni (Forseti hringir.) en því miður skortir meiri hlutann áhuga á því.



[20:59]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eins með þessa ræðu og aðrar sem fluttar hafa verið hér í dag að hún hljómaði nokkuð kunnuglega, enda höfum við rætt málið þó nokkuð oft. Það var eitt atriði sem ég hnaut um og mér þótti einkennilegt en það var þegar hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði að þessi setning í 1. gr. frumvarpsins hefði ekki neitt gildi, hún væri merkingarlaus sem slík. Þetta skrifaði ég orðrétt eftir hv. þingmanni og hann leiðréttir mig þá ef hann hefur verið að hugsa um eitthvað annað.

Mér þykir þetta mjög einkennilegt vegna þess að að fyrstu greinar í lögum eru þýðingarmiklar, eins og reyndar allar greinar í lögum, en mér finnst mjög ódýrt að afgreiða 1. gr. frumvarpsins á þennan hátt. Við vitum að við núverandi aðstæður eins og lögin eru í dag er mjög auðvelt að setja verðmiða á Ríkisútvarpið og selja það með manni og mús með einfaldri heimild í fjárlögum, það er ekkert flóknara en það. (Gripið fram í.) Ef meiri hluti væri fyrir því á Alþingi væri löngu búið að selja Ríkisútvarpið. Mér finnst því ódýrt að afgreiða þetta svona vegna þess að við erum að setja inn þessa skýru grein að það standi ekki til og sé ekki heimilt að selja Ríkisútvarpið. Hér er náttúrlega í gangi ákveðinn hræðsluáróður. Það er verið að reyna að stimpla inn óvissu og óöryggi hjá fólki og ef það er gert nógu oft og fjölmiðlar fara að lepja það upp þá vonast auðvitað hv. stjórnarandstaða til að fólk fari að trúa þessu.

Ég fullyrði að það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið og ég mun ekki gefast upp á að ítreka það hér í ræðustól.



[21:01]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var auðvitað ekki að gera lítið úr 1. gr. sem slíkri heldur að vekja athygli á setningunni sem eignuð er Framsóknarflokknum og hv. þingmaður er stöðugt að vekja sérstaka athygli á. Svo það fari ekkert á milli mála, hv. þingmaður, á ég við setninguna „Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“ En fyrsta setningin segir það sem segja þarf: „Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins.“ Þessum lögum þarf því að breyta ef einhver breyting verður á því eignarhaldi íslenska ríkisins. Setningin sem kemur á eftir skaðar að sjálfsögðu ekki neitt en hún bætir engu við eins og ég hélt að hv. þingmaður hefði heyrt ýmsa merka lögspekinga segja á fundi menntamálanefndar í fyrra.

Ég ætla hins vegar ekki að dvelja meira við þetta vegna þess að ég er hvorki að gera meira né minna úr þessari setningu en efni standa til, hún skiptir engu máli en það er mér algjörlega að meinalausu að hún sé þarna inni.

Það vakti hins vegar athygli mína áðan og ég gleymdi því eða kom því ekki að í ræðu minni að hv. þingmaður sagðist treysta þingmönnum framtíðarinnar til að sjá til þess að Ríkisútvarpið yrði ekki selt. Nú vill svo til, frú forseti, að hv. þingmaður hefur nýlega gefið yfirlýsingu um að hún hafi ekki hugsað sér að vera einn af þingmönnum framtíðarinnar. Hv. þingmaður mun því ekki ætla sér að vera hluti af þeim þingmönnum sem hún treystir til að gera þetta. Það skyldi þó ekki vera að það væri hluti af ákvörðun hv. þingmanns að hún telji að það séu meiri líkur en minni á því að gæti hún þurft að standa við þessi orð og treysti sér hreinlega ekki til þess?



[21:03]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson má eiga hrós skilið fyrir að koma þó með nýjan punkt í þessa umræðu sem ekki hefur verið gert hér í dag. Það er gaman að hér skuli vera einhver smá fjölbreytni í gangi.

Ég vil byrja á að svara því sem hann segir, að setningin sem slík skaði ekkert og honum finnist ágætt að hafa hana inni. Ég er sammála honum í því. Varðandi orð mín um það að ég treysti þingmönnum framtíðarinnar og hvort þetta mál sé ástæðan fyrir því að ég gef ekki kost á mér til áframhaldandi setu á Alþingi, þá er það stórlega ofmetið. Ég fullvissa hv. þingmann um að það er ekki ástæðan fyrir því að ég hef ekki hug á að sitja hér áfram um sinn, enda hef ég gefið það út að ég útiloki ekki endurkomu. Ég álít bara að það sé enginn pólitískur vilji fyrir því að selja Ríkisútvarpið og ég treysti þingmönnum framtíðarinnar. Ég held að þeir hv. þingmenn verði ávallt í mjög miklum minni hluta sem hafa hug á því að selja Ríkisútvarpið. Kannski svipuð tala og við sjáum í dag, tveir þingmenn. (Gripið fram í.) Einn hefur dregið sig til baka.

En ég endurtek að ég get fullvissað hv. þingmann um að það frumvarp sem við fjöllum um hér á engan þátt í ákvörðun minni og ég get staðið fyllilega við það að minn flokkur og þeir stjórnarflokkar sem nú eru við völd munu ekki standa að sölu Ríkisútvarpsins í framtíðinni.



[21:05]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að þetta frumvarp hefur ekki þær afleiðingar í för með sér að fólk hætti þingmennsku í stríðum straumi. En það væri eiginlega svolítið skemmtilegt ef einhver hv. þingmaður Framsóknarflokksins sýndi þann dug að leggja hreinlega þingsæti sitt að veði gagnvart svona máli vegna þess að svo mjög hefur afstaða flokksins breyst að full ástæða væri til þess að einhver hv. þingmaður hans gengi hreinlega svo langt.

Það má hins vegar ekki gera lítið úr því að hv. þingmaður er mjög lifandi í umræðunni og það er auðvitað fagnaðarefni því að við höfum oft saknað Framsóknarflokksins sérstaklega í þessari umræðu. Það er gleðiefni að einn hv. þingmaður flokksins skuli leggja það á sig að vera á formannsvakt í umræðunni. Það vekur sérstaka athygli, ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því, frú forseti, að formaður nefndarinnar hefur lítið sem ekkert sést í umræðunni. Það er eitthvað öðruvísi en áður var því ef ég man rétt var hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson afskaplega lifandi í umræðum en hann hefur líklega einhverjum öðrum hnöppum að hneppa þessa dagana. Það er augljóst að það er farið að setja svip á þingstörfin, eðlilega kannski, að ýmsir eru að berjast og hafa ekki gefið svipaðar yfirlýsingar og hv. þingmaður og þurfa þess vegna að sinna slíku. Það er ekkert skrýtið með hv. þingmenn sem hafa miklar hugsjónir í þessu máli. Það vill svo til að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hefur viljað selja Ríkisútvarpið. Það skyldi þó ekki vera að hv. þingmaður sé að vekja athygli á því í sínum hópum að hann (Gripið fram í: Varaformaðurinn er hér.) sé þeirrar skoðunar enn? Það er rétt, hv. þingmaður, að það er hlutverk varaformanns að taka við hlutverki formanns þegar formaður getur ekki sinnt því og það er auðvitað fagnaðarefni (Forseti hringir.) að Framsóknarflokkurinn skuli enn hafa burði í sér til þess.



[21:07]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í þriðja sinn á jafnmörgum þingum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, í þetta sinn er það frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Ég vil fá að nota fyrstu setningar ræðu minnar til að lýsa þeirri skoðun minni að ég hefði talið, eins og ég sagði fyrr í dag þegar við ræddum fundarstjórn forseta, að það hefði verið betri svipur á því ef við hefðum tekið fyrst til umræðu frumvarpið um starfsumhverfi fjölmiðla sem dreift hefur verið í þinginu og stendur einnig til að mæla fyrir þegar þessari umræðu um Ríkisútvarpið og síðan Sinfóníuna lýkur.

Það hefði farið betur á því, virðulegi forseti, ef við hefðum gert þetta þannig því að þá hefðum við náð að ræða um framtíðarskipan í heildarumhverfi fjölmiðla á Íslandi og þar með náð að afgreiða þá umræðu og kannski að skýra línurnar í þessu öllu svolítið um leið. Við hefðum tekið hlutina í réttri röð, ef svo má segja, og hefðum þá náð að ræða m.a. þessa ágætu skýrslu, skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla sem kom út í apríl árið 2005. Þar liggur fyrir mikið efni sem þarf að ræða, mikilvægt mál sem þarf að ræða og að sjálfsögðu heyrir Ríkisútvarpið undir þá umræðu að stórum hluta þrátt fyrir að sú nefnd sem vann þessa ágætu skýrslu hafi í raun fengið hálfgildings fyrirmæli um það frá menntamálaráðherra að hún ætti ekki að ræða málefni Ríkisútvarpsins. Ég kannast mjög vel við það því að ég var einn af þeim sem sátu í þeirri nefnd.

Gott og vel. Við erum sem sagt byrjuð að ræða í þriðja sinn um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Einhvers staðar segir svo, nokkurn veginn a.m.k., að þegar Íslendingar deila um hluti og þeir komast að kjarna málsins setji menn yfirleitt hljóða. Það er eflaust svolítið til í þessu og ég held að þetta eigi kannski vel við hér. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór áðan yfir fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins eins og hún lítur út í dag. Þar komu fram upplýsingar sem ég hygg að þingheimur hafi ekki vitað um, til að mynda í fyrra þegar við ræddum málefni Ríkisútvarpsins.

Eftir að hafa litið aðeins yfir þessar tölur og skoðað hvernig fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er núna er þá er mér verulega illa brugðið. Ég sakna þess mjög, eins og bent hefur verið á af ræðumönnum sem hafa talað á undan mér, að hvergi nokkurs staðar sjáist nein merki þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi einhverja skýra framtíðarsýn um það hvernig leysa eigi úr þeim mikla fjárhagsvanda sem stofnunin á við að glíma. Þessi stofnun er í raun og veru gjaldþrota, hún er á hausnum. Og að ætla að fara að stofna hlutafélag með 5 millj. kr. hlutafé fyrir svona stóra stofnun sem er á hvínandi kúpunni er mikið ábyrgðarmál og mjög alvarlegur hlutur.

Við getum svo sem farið aðeins yfir þetta aftur. Ég held að það sé alveg rétt að hamra svolítið á því hvernig staðan hefur hríðversnað hjá þessu fyrirtæki sem ávallt hefur verið fremsta fjölmiðlafyrirtæki þjóðarinnar og er það enn í dag, afskaplega dýrmætt þjóðardjásn, hvernig staða þessa fyrirtækis hefur hríðversnað á örfáum undanförnum árum, einmitt á þeim árum sem núverandi ríkisstjórnarflokkar, sem vilja keyra þetta frumvarp í gegn núna, hafa verið við völd.

Árið 1994 var eigið fé Ríkisútvarpsins hvorki meira né minna en 2,7 milljarðar kr. Það voru engar langtímaskuldir á fyrirtækinu. Skammtímaviðskiptaskuldir voru þá 400 milljónir, viðskiptakröfur voru einnig 400 milljónir. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þetta var ákaflega sterkt fyrirtæki sem stóð afskaplega vel, mjög sterk staða í blómlegum rekstri, og það var full eining og sátt um fyrirtækið eða svona nokkurn veginn. Það voru að vísu komnar upp raddir um að þjarma ætti að því. Þær raddir heyrðust úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins og eflaust kann einhver að verða hissa við að heyra það en þannig var það.

Tíu árum áður höfðu geisað verkföll, verkföll hjá Blaðamannafélaginu og Ríkisútvarpinu haustið 1984. Þá gerðist það í þessu verkfalli að menn settu á fót ólöglegar einkastöðvar, fóru að reka ólöglegar einkastöðvar. Það var bannað að reka slíkar stöðvar, Ríkisútvarpið hafði einkaleyfi á því að stunda útvarpsrekstur á Íslandi þegar þetta var. Þessar stöðvar fóru í loftið. Yfirvöld, stjórnvöld sem eiga að sjá til þess að lögum sé framfylgt í landinu, reyndu náttúrlega að bregðast við þessu og það voru ýmsar uppákomur í kringum þetta. Meðal annars sagði maður nokkur þá, sem í dag er dómsmálaráðherra, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við sem vildum ekki sætta okkur við að ríkið sæti eitt að útvarps- og sjónvarpsrekstri vorum hundelt af lögreglunni.“

Þetta er haft eftir Birni Bjarnasyni, núverandi dómsmálaráðherra. Þarna var hann í hlutverki lögbrjóts og viðurkennir með þessum hætti að hann hafi komið að rekstri ólöglegra útvarpsstöðva á þessum tíma.

Gott og vel. Síðan var ákveðið að aflétta þessum einkarekstri Ríkisútvarpsins á rekstri hljóðvarps og sjónvarps árið 1985 og árið 1986 fór fyrsta einkastöðin í loftið, Íslenska útvarpsfélagið hóf útsendingar. En eins og ég sagði áðan var staðan hjá Ríkisútvarpinu, þrátt fyrir að hafa fengið þessa samkeppni fyrir tíu árum, afskaplega sterk, gríðarlega sterk, eigið fé var 2,7 milljarðar.

Þarna fór að syrta í álinn. Einmitt um það leyti sem núverandi ríkisstjórnarmeirihluti tók við byrjuðu menn að þjarma að Ríkisútvarpinu. Björn Bjarnason var orðinn menntamálaráðherra í apríl árið 1995 og þá lýsti hann því yfir að stefna eigi að því að jafna aðstöðumun ríkisstöðva og einkastöðva. Þetta sagði hæstv. menntamálaráðherra fyrir ellefu árum síðan.

Árið 1995 voru lífeyrisskuldbindingar lagðar af fullum þunga á Ríkisútvarpið. Í sjálfu sér voru engin haldbær rök fyrir því að gera það. En þetta var nú samt gert. Afnotagjaldið hefur hækkað mun minna en verð og launaþróun allar götur frá þessum tíma, þ.e. Ríkisútvarpið var sett í skrúfstykki. Tekjumöguleikar þess voru skertir. Lífeyrisskuldbindingarnar sem fóru á Ríkisútvarpið árið 1995 eru nú komnar upp í 2,6 milljarða.

Eins og nefnt var áðan var farið út í miklar fjárfestingar árið 1999. Þetta voru nauðsynlegar fjárfestingar. Ég þekki það vel. Þarna var ég að vinna á fréttastofu Sjónvarps og ég vann m.a. í gamla húsnæðinu á Laugavegi. Þar var Ríkissjónvarpið orðið afskaplega aðþrengt. Það hafði verið fjársvelt í mörg ár, litlu fé varið til að mynda til endurnýjunar og tækjakaupa. Ríkissjónvarpið allt bjó við afskaplega bágan kost. Það var í rauninni löngu kominn tími til að Ríkissjónvarpið yrði flutt upp í Efstaleiti þar sem það átti að vera og þar sem það er í dag. Þar var húsnæði fyrir hendi sem stóð lengi nánast fokhelt og ekkert var gert í þeim málum. Á meðan drabbaðist tækjabúnaður og annað niður á Laugaveginum. Það kostaði því afskaplega mikið fé að flytja sjónvarpið. Því um leið og sjónvarpið var flutt þurfti að endurnýja mjög mikið af tækjabúnaði. Það var keyptur mjög góður tækjabúnaður. Það var vel staðið að þeim flutningum.

Maður skyldi nú ætla, af því að þetta var ríkisfyrirtæki, að þetta hefði verið fjármagnað úr ríkissjóði af fjárlögum. Ríkisútvarp, ríkissjónvarp allra landsmanna. Nei. Það var ekki gert. Þetta var fjármagnað með langtímalánum. Reikningurinn fór upp í 1 milljarð. Þetta leiddi náttúrlega til þess að skuldir fyrirtækisins jukust mjög mikið.

Ef við lítum á hluti eins og rekstrarkostnaðinn við Ríkisútvarpið þá hefur hann hækkað jafnt og þétt eftir því sem árin hafa liðið. En það hefur yfirleitt haldist í hendur að dagskrárgjöld og afnotagjöld hafa nokkurn veginn náð að dekka kostnaðinn, sjálfan rekstrarkostnaðinn.

Nú, árið 2006, er staðan þannig, virðulegi forseti, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson benti á áðan, að eigið fé Ríkisútvarpsins er horfið og það er neikvætt um 200 millj. Söluhæfar eignir duga vart fyrir langtímaskuldum. Viðskiptakröfur nema 700 millj. kr. en viðskiptaskuldir eru 1,7 milljarðar. Þar af á ríkissjóður 900 millj. Rekstrarfé fyrirtækisins er neikvætt um milljarð. Þetta segir manni náttúrlega að fyrirtækið er á hausnum.

Þess vegna finnst mér það mikið ábyrgðarmál að koma með þetta frumvarp um breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins þegar það liggur hvergi fyrir á neinn hátt hvernig eigi að fara að því að koma Ríkisútvarpinu út úr þessari alvarlegu kreppu.

Mér sýnist í fljótu bragði að fyrirtækið þurfi 1–2 milljarða af beinni innspýtingu í peningum til að rétta það af. Það er hvergi hægt að heyra á málflutningi stjórnarliða að þeir hafi uppi neinar áætlanir um að gera það. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Hvað gerist ef þetta frumvarp verður að lögum eins og staðan er núna? Að það hafi verið búið til hlutafélag með 5 millj. í hlutafé?

Það hlýtur að verða þannig, virðulegi forseti, að hér verði skorið alvarlega niður eða það verði reynt að selja eignir með einhverjum hætti. Þótt það standi reyndar hér að sala félagsins eða hluta þess sé óheimil. Eitthvað þarf að gera. Það væri mjög gott að fá að heyra frá stjórnarliðum og kannski frá hæstv. menntamálaráðherra hvað sé nú í hendi til þess að hægt sé að rétta af hag Ríkisútvarpsins og tryggja því góðan rekstrargrundvöll í framtíðinni. Sjá til þess að hér verði til öflugt hlutafélag, vel stætt hlutafélag með góða eiginfjárstöðu og skuldir sem hægt er að afbera. Hvað hyggjast stjórnvöld gera til að ná slíku markmiði sem hlýtur að vera eðlilegt markmið og eðlileg krafa? Ég held það hljóti að vera eðlileg krafa hjá okkur öllum sem sitjum á Alþingi og eigum að fjalla um þessi lög, eðlileg krafa hjá okkur að við heimtum það úr hendi ráðherra hæstv. að fá að vita þetta. Öðruvísi getum við alls ekki gengist undir það að samþykkja eitthvert frumvarp í þessa veru. Það verður fyrst að leysa úr þessum vanda áður en við förum að gera eitthvað annað.

Þetta er meginástæðan, virðulegi forseti, fyrir því að þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur tekið þá afstöðu að leggjast eindregið gegn þessu frumvarpi. Vegna þess, eins og ég segi, að Ríkisútvarpið er á hausnum og við förum ekki að taka þá áhættu að hreyfa við rekstrarforminu þegar staðan er jafnslæm og raun ber vitni. Það kemur ekki til mála. Fyrst verðum við að leysa úr þessum vanda. Við verðum að fá að vita hvað eigi að gera til að greiða úr honum. Því við viljum sjá hér áfram Ríkisútvarp, öflugt sterkt útvarp í almannaþágu. Það hefur ávallt verið mjög sterk krafa hjá okkur í Frjálslynda flokknum að hér yrði áfram öflugt ríkisútvarp.

Við höfum lagt fram þingmál um þetta. Síðast þingsályktunartillögu sem var lögð fram á 130. löggjafarþingi 2003–2004, þar sem við ályktuðum að kosin yrði nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Það yrðu gerðar hér ákveðnar breytingar. En hryggjarstykkið, grundvöllurinn í því yrði samt sem áður að Ríkisútvarpið ætti að vera áfram til sem sjálfstæð og óháð stofnun í þjóðareign. Hér yrðu almannahagsmunir settir algerlega í fyrsta sæti.

Það er okkar bjargfasta trú enn þann dag í dag, virðulegi forseti, að Ríkisútvarpið sé alger hornsteinn í íslenskum fjölmiðlum. Þegar við lítum á íslenska fjölmiðla og skoðum hvernig hinir svokölluðu frjálsu fjölmiðlar hafa verið að þróast þá verð ég að segja að þar er margt sem hræðir. Ríkisútvarpið er í mínum huga eini sjálfstæði fjölmiðillinn sem er til á Íslandi í dag. Eini algerlega sjálfstæði og óháði fjölmiðillinn sem til er á Íslandi í dag. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem íslenska þjóð til framtíðar, fyrir okkur sem menningarþjóð, fyrir menningararf okkar og annað þar fram eftir götunum. Það er mjög mikilvægt að okkur takist að verja Ríkisútvarpið, að það verði áfram þjóðareign og veiti hinum fjölmiðlunum sem eru í eigu einkaaðila þannig jafnframt nokkurs konar aðhald. Það eru fjölmiðlar sem geta breyst frá degi til dags, fjölmiðlar sem oft er hægt að nota til að mynda af eigendum þeirra til að halda á lofti ákveðnum sjónarmiðum og viðhorfum, pólitískum viðhorfum ekki síst. Það er mjög mikilvægt að við höfum hér sterkan miðil í þjóðareign sem getur nokkurn veginn gætt hlutleysis. Fjölmiðil þar sem öll sjónarmið geta komist að og fengið að njóta sín. Það er mjög mikilvægt að þetta verði svona til framtíðar. Á þetta leggjum við algera ofuráherslu.

Við höfum í sjálfu sér ekki verið andvíg því í Frjálslynda flokknum að skoða breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins eins og fram kom í þingsályktunartillögunni sem ég nefndi hér áðan. En eins og ég segi, við getum ekki farið út í þetta verk núna þegar við sjáum hve Ríkisútvarpið er illa statt fjárhagslega og við fáum ekki að vita neitt um hvað hugsanlega eigi að gera til að reyna rétta af hina skelfilegu stöðu fyrirtækisins. Við fáum ekki að vita neitt hvaða hugmyndir menn hafa um að skera niður sem mér sýnist að sé alveg borðliggjandi að þurfi að gera ef það koma ekki peningar inn í þetta fyrirtæki úr ríkissjóði. Þá verður að skera mjög harkalega niður.

Það eru algerlega orðin tóm að skrifa hér upp á einhvern þjónustusamning með loforðum um að það eigi að fara út í meiri innlenda dagskrárgerð og annað þar fram eftir götunum. Mér finnst það algerlega orðin tóm þegar við sjáum hvernig staðan er á fyrirtækinu. Það er í raun og veru tómt píp. Við verðum að fá að vita hvernig eigi að koma fyrirtækinu úr þessari úlfakreppu. Mér þætti mjög vænt um að fá að heyra það frá hæstv. ráðherra í þessari umræðu nú, fyrstu umræðu þessa máls, hvað eigi að gera. Við náum ekki að tvöfalda textun sjónvarpsefnis, auka íslenskt sjónvarpsefni um 50%, sjá til að hljóðvarpsdagskrárgerð minnki ekki og gera margt annað sem er mjög dýrt. Við náum ekki að gera þetta eins og fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er í dag. Það er ósköp einfalt. Þetta er ekkert flóknara en það.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki ómálefnaleg umræða eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði hér áðan, alls ekki. Við erum einfaldlega að benda á staðreyndir. Séu þessar staðreyndir rangar þá hvet ég hæstv. ráðherra að leiðrétta okkur og leiðrétta þá þennan misskilning. Ef það er svo að staða Ríkisútvarpsins er miklu sterkari en hún virðist vera þá verðum við sem sitjum hér á Alþingi og erum með löggjafarvaldið í okkar höndum að fá skýlausar upplýsingar um það ekki seinna en strax.

Virðulegi forseti. Ég kom aðeins inn á það að Ríkisútvarpið í dag væri eini fjölmiðillinn á Íslandi sem í raun og veru er hlutlaus. Ég stend við það. Ríkisútvarpið hefur á margan hátt verið afskaplega góð stofnun hjá okkur Íslendingum. Við höfum borið gæfu til þess að eiga þetta fyrirtæki allar götur síðan 1930. Þetta fyrirtæki hefur skilað gríðarlega mikilvægu og merku verki í gegnum áratugina og verið mjög mikilvæg menningarstofnun, stofnun sem þjóðin hefur getað treyst á.

Ég hef alvarlegar athugasemdir við það hvernig stjórn þessa félags, ef af verður miðað við þetta frumvarp, verður skipuð. Ræðumenn sem hafa talað á undan mér hafa einnig bent á þetta. Ég tel að það sé ekki heillavænlegt að skipa fimm manna stjórn og jafnmarga til vara sem verða í raun og veru ekkert annað en pólitískir útsendarar sem eiga síðan að deila og drottna yfir Ríkisútvarpinu og það verði hægt að skipta þeim aðilum út á hverju ári ef mönnum sýnist svo. Mér finnst þetta ekki vera mjög gæfuleg stjórnarmyndun fyrir svona fyrirtæki. Að sjálfsögðu mun fyrirtækið þá um leið verða undir járnhæl ráðandi meiri hluta á Alþingi hverju sinni. Ég er ekki viss um að það sé mjög sniðugt.

Ég hefði gjarnan viljað sjá að stjórnin yrði skipuð fleiri aðilum og að sjálfsögðu að starfsmenn hefðu átt að eiga fulltrúa í þessari stjórn, þ.e. starfsmenn Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið býr yfir mjög miklum mannauð. Þar starfar margt afskaplega hæft fólk sem hefur mjög mikið vit á því sem það er að gera. Gerir sér góða grein fyrir því hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er. Ég tel að fulltrúum þess starfsfólks sé fyllilega treystandi til að eiga aðild að stjórn stofnunarinnar í framtíðinni.

Við sjáum, virðulegi forseti, þegar við flettum þessu frumvarpi og förum að skoða hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum. Það er hér í fylgiskjali með frumvarpinu yfirlit yfir hvernig þessu er háttað í löndunum hér í kringum okkur. Þar sjáum við alls staðar að stjórnir ríkisútvarps- og sjónvarpsfyrirtækjanna í nágrannalöndunum eru miklu fjölmennari. Í stjórn Danmarks Radio sitja til að mynda 10 manns og þeir eru valdir til fjögurra ára í senn. Formaðurinn er tilnefndur af menntamálaráðherra, þrír eru skipaðir af menntamálaráðherra, sex eru kosnir á þinginu. Einn ráðsmaður er síðan fulltrúi starfsmanna stofnunarinnar.

NRK í Noregi, sem ég þekki nokkuð vel, er hlutafélag. Þar er útvarpsráðið skipað níu mönnum. Þar af eru þrír fulltrúar starfsmanna. Formaður, varaformaður. Fjórir ráðsmenn eru síðan valdir á aðalfundi NRK, norska ríkisútvarpsins og sjónvarpsins.

Í Svíþjóð er þetta þannig að þar skipar ríkisstjórnin 11 manna stjórn að fengnum tilnefningum frá þingflokkum. Formaður er skipaður til fjögurra ára. Aðrir eru skipaðir til átta ára. Skipuninni er háttað þannig að helmingi stjórnar er skipt út í kjölfar þingkosninga hverju sinni til að kosningaúrslitin endurspegli ekki stjórnskipunina á hverjum tíma.

Þetta tel ég að mörgu leyti ágætis útfærslu. Við sjáum svipaða hluti í Finnlandi, í Bretlandi og Hollandi. Í Hollandi eru 13 stjórnarmenn. Í Austurríki eru hvorki meira né minna en 35 stjórnarmenn. Að hluta eru þeir valdir eftir stærð flokkanna á þinginu. Sex eru valdir þannig. Níu eru síðan valdir af héraðsstjórnum. Gera mætti ráð fyrir að fulltrúar stærstu sveitarfélaganna mundu fá aðild að stjórn Ríkisútvarpsins hér á landi. Níu er valdir af ríkisstjórninni, sex af dagskrárráðinu og fimm eru starfsmenn stofnunarinnar. Í Austurríki eru sem sagt bæði fulltrúar þings, héraðsstjórna, sveitarfélaga með öðrum orðum, ríkisstjórnarinnar og einnig starfsmanna.

Ég hefði gjarnan viljað sjá slíka útfærslu á stjórn Ríkisútvarpsins í framtíðinni ef við viljum á annað borð skipta út því fyrirkomulagi sem við höfum í dag, sem er útvarpsráð.

Í þingsályktunartillögunni sem við í Frjálslynda flokknum lögðum fram á 130. löggjafarþingi höfðum við hugmynd um að sett yrði allfjölmennt útvarpsráð til að stjórna þessu fyrirtæki. Einhvers konar akademía, þ.e. 15 menn sem væru valdir af samtökum og stofnunum í samfélaginu, úr menningar- og listaheiminum, af fræðslustofnunum, úr vísinda- og rannsóknageiranum, af landsbyggðinni, frá almannasamtökum launþega og ef til vill af fleiri sviðum. Seta í útvarpsráði væri í raun mikilsverð viðurkenningar- og virðingarstaða.

Í þetta ráð mundi einungis setjast hið hæfasta fólk. Við mundum, þótt það takist náttúrulega aldrei alveg, geta kúplað frá hina pólitísku stjórn sem hefur að vissu marki verið á Ríkisútvarpinu fram til þessa. Mér sýnist sem ríkisstjórnarmeirihlutinn ætli að leggja ofuráherslu á að slík stjórn verði áfram, sem á margan hátt er mjög slæmt fyrirkomulag. Stjórnin mun á hverjum tíma ráða hver verður útvarpsstjóri og útvarpsstjóri mun síðan ráða því hverjir fá að vinna hjá fyrirtækinu og það er bara þannig í þessum pólitíska hráskinnsleik að mönnum hættir yfirleitt til að ráða einhverja sem eru þeim nálægir í skoðunum, jafnvel í pólitískum skoðunum, jafnvel flokksfélaga. Við höfum séð það, virðulegi forseti. Reynslan kennir okkur að í íslensku þjóðfélagi hefur það yfirleitt verið með þeim hætti.

Varðandi nefskattinn, sem á að fjármagna þetta fyrirtæki, þ.e. halda því gangandi með einhverjum hætti þótt ljóst sé að nefskattur muni aldrei duga til að rétta af fjárhag Ríkisútvarpsins nema þar verði skorið allheiftarlega niður. Ég held að þessi skattur eigi eftir að verða mjög umdeildur. Ég er alls ekki búinn að sannfærast, þótt ég hafi setið fjölmarga fundi í menntamálanefnd þar sem við höfum haft þetta mál til umræðu og farið yfir það frá ýmsum hliðum, um að þetta sé fyrirkomulag sem einhver friður muni skapast um í framtíðinni. Alls ekki. Þetta verður jafnumdeilt ef ekki umdeildara en afnotagjaldið sem við höfum í dag.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum þarf að breyta þessu. Ég botna ekki í því hvernig í ósköpunum fólki dettur í hug að fara úr skatti sem er umdeildur yfir í skatt sem verður mjög umdeildur. Það finnst mér skrýtin pólitík. En sú pólitík er náttúrlega á ábyrgð þeirra sem hafa mælt fyrir þessu frumvarpi og barist fyrir því í þrjú ár að það nái fram að ganga og verði að lögum. Ég tel afskaplega misráðið af ríkisstjórnarmeirihlutanum að koma með þetta frumvarp inn í þingið rétt fyrir kosningar. Það er afskaplega misráðið og heimskuleg ákvörðun að taka þá áhættu að leggja frumvarpið fyrir þingið rétt fyrir kosningar.

Fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er afskaplega bágborin. Ef þetta frumvarp verður að lögum án þess að nokkuð verði gert til að rétta af stöðu Ríkisútvarpsins er ljóst að gríðarlega miklar deilur verða um Ríkisútvarpið. Það verður umdeilt ef þeir sem taka að sér stjórn Ríkisútvarpsins munu frá fyrsta degi þurfa að skera heiftarlega niður, það er ljóst, segja upp starfsfólki, leggja niður deildir og annað þar fram eftir götunum. Það mun ekki ganga hljóðalaust fyrir sig.

Það mun heldur ekki ganga hljóðalaust fyrir sig ef hið nýja opinbera hlutafélag mun leggjast í að selja frá sér eignir, selja til að mynda útvarpshúsið, landið umhverfis útvarpshúsið. Ef það selur frá sér þessar eignir þá mun það ekki gerast án þess að miklar deilur verði um þær ráðstafanir.

Ég held, virðulegi forseti, að Ríkisútvarpið skipi það ríkan sess í þjóðarsálinni að fólki sé ekki sama. Ég hef heyrt þær raddir, sérstaklega hjá stjórnarliðum, að þetta sé ekki mikið mál og öllum sé nokkurn veginn sama um þetta Ríkisútvarp. Þetta frumvarp, hvers vegna í ósköpunum nennið þið að tuða um þetta ár eftir ár? Fólk hefur engan áhuga á þessu. Ég held að ríkisstjórnarmeirihlutinn vanmeti þjóðarsálina allhrikalega og hafi feilreiknað sig illa og misstigið sig. Ég held að það skipti í raun engu máli hvernig þetta mál fer núna. Segjum að það fari í gegnum 1. umr., fari inn í menntamálanefnd, komi aftur til 2. umr. og verði rætt aftur í þaula, fari aftur inn í menntamálanefnd og rætt þar í þaula, komi til 3. umr. og verði rætt í þaula og verði kannski að lögum í vetur eða á vordögum — það er eiginlega alveg sama hvernig þetta fer. Þetta mál verður kosningamál í vor. Framtíð Ríkisútvarpsins verður kosningamál í vor. Það verður eitt af stóru málunum í vor.

Ríkisstjórnin er búin að leggja málið upp með þeim hætti. Hún hefur haldið þannig á spilunum í þessu máli að ég tel óhjákvæmilegt, fari þetta frumvarp í gegn, að það verði að kosningamáli. Þjóðin mun ekki sitja þegjandi og hljóðalaust og horfa á það gerast að þetta fyrirtæki verði eyðilagt umfram það sem ríkisstjórnarmeirihlutanum hefur tekist nú á 10 árum eins og ég fór yfir áðan.

Að rústa fjárhag þessa fyrirtækis, sem var afskaplega sterkur, svona svakalega á ekki lengri tíma er í raun með ólíkindum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, þegar maður lítur um öxl og hugsar sig svolítið um eins og ég hef verið að gera í sumar, ég hef verið að velta þessu fyrir mér, þá verður þetta augljóst. Það eru öfl í þjóðfélaginu sem ætla sér að eyðileggja þetta fyrirtæki. Þau ætla sér að koma því fyrir kattarnef með einum eða öðrum hætti.

Það má vel vera að margir núverandi stjórnarliðar, m.a. hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem kemur hér upp og segir að hún treysti þingmönnum framtíðarinnar fyrir því að Ríkisútvarpið verði ekki selt, tali í einlægni. Hún trúir því að það verði ekki gert. En ég treysti því ekki þegar ég skoða hvernig þetta fyrirtæki hefur verið látið gossa fram af hengifluginu með fullum vilja og vitund þeirra sem hafa ráðið, þeirra sem hafa haldið um stjórnartaumana. Þegar maður sér það og setur það allt saman í samhengi þá læðist að manni mjög heiftarlegur grunur um að eitthvað meira liggi þar á bak við.

Ég held að það sem vakir fyrir þeim sem virkilega halda um þræðina sé að gera þetta núna að hlutafélagi, mjög veiku hlutafélagi sem standi frá fyrsta degi afskaplega veikt, standi frammi fyrir því að það verði að gera eitthvað til að reyna að rétta það af. Það mun á mjög skömmum tíma leiða til þess, að ég tali ekki um ef sá stjórnarmeirihluti sem nú er heldur áfram, sem maður vonar náttúrulega að verði ekki, að fyrirtækinu verði slátrað á tiltölulega skömmum tíma. Hvort sem það verður selt eða bútað niður, selt burtu í hlutum og stórlega dregið úr starfseminni og skorið niður, til að mynda í dagskrárgerð og öðru. Það er sama hvernig menn fara að þessu, staða þess verður mjög veik innan örfárra ára vegna þess, eins og tölurnar segja okkur, að staða fyrirtækisins er ofboðslega slæm í dag.

Ég held, virðulegi forseti, að mjög margir hafi ekki gert sér grein fyrir því hve veik staða fyrirtækisins er í raun og veru einmitt núna þegar á að breyta því í hlutafélag. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar held ég að það væri miklu nær að rétta af rekstur fyrirtækisins og koma með fjármagn inn í það. Setja í það það fjármagn sem þarf til að það verði aftur að öflugu og heilbrigðu fyrirtæki. Síðan getum við gert upp við okkur, t.d. með þjónustusamningnum sem var gerður, hvernig skapa má skilyrði til að hægt verði að standa við hann. Síðan verðum við að gera upp við okkur með öðrum hætti hvernig við viljum að þetta fyrirtæki sinni hlutverki sínu í framtíðinni. En fyrst og fremst þarf að leggja áherslu á að fyrirtækið verði eflt og gert sterkt þannig að utanaðkomandi aðilar geti ekki, við tilteknar aðstæður, hirt það fyrir slikk, lítinn pening.

Þannig lítur málið a.m.k. út í mínum huga núna. Þess vegna munum við í Frjálslynda flokknum leggjast gegn því að þetta frumvarp nái fram að ganga í þessari mynd, á meðan staða fyrirtækisins er jafnhörmuleg og raun ber vitni. Það verður okkar afstaða í þessari þriðju tilraun til að koma málinu í gegn. Hún mun ekkert breytast nema þá að við sjáum að ríkisstjórnin, sem ég á ekki von á, sé reiðubúin að leggja fram það fjármagn sem þarf til að rétta við fyrirtækið. Þar erum við ekki að tala um neina smápeninga, virðulegi forseti. Þar erum við sennilega að tala um fjárhæð sem hleypur eitthvað á bilinu 1–2 milljarðar íslenskra króna.



[21:43]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið vel og vandlega yfir stöðu Ríkisútvarpsins í dag á þeim tímamótum þegar þriðja atlagan er gerð að því að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar og ýmsu öðru um leið. Hinar atlögurnar tvær misheppnuðust mjög herfilega og er nokkuð dæmalaust að lesa sig í gegnum þær umræður sem fram fóru á þeim tíma um Ríkisútvarpið.

Í fyrstu atrennu þegar lagt var til að um sameignarfélag yrði að ræða sóru framsóknarmenn það og sárt við lögðu hér úr ræðustólnum, og beið ég spenntur eftir því fyrr í kvöld að heyra ræðu þingflokksformanns Framsóknar þar sem hann útskýrði í þriðja sinn afstöðu flokksins til rekstrarformsins. En í fyrstu umferð var Framsóknarflokkurinn algjörlega og eindregið á móti því að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi í nokkurri mynd. Það kæmi aldrei til greina af þeirra hálfu. Það var frágangssök af hálfu Framsóknarflokksins.

Sinnaskipti og sveiflur Framsóknarflokksins í afstöðu sinni til framtíðar Ríkisútvarpsins er því sérstakt rannsóknarefni. Kannski er það besta dæmið um það pólitíska öngþveiti sem ríkir innan Framsóknarflokksins og má að sjálfsögðu að hluta til rekja til þeirra nokkuð dæmalausu ófara sem ríkisstjórnin hefur lent í aftur og aftur á síðustu missirum með fjölmiðlamálin. Fyrst að sjálfsögðu með hið makalausa fjölmiðlafrumvarp sem er einhver sérkennilegasta og þekktasta stjórnmálaorrusta síðari tíma á Alþingi Íslendinga og lyktaði með þeim ósköpum sem alkunna er. Síðan hefur Framsóknarflokkurinn í raun ekki borið sitt barr og staða flokksins verið afleit og farið snöggtum versnandi á milli missira.

Meginuppistaðan í því að það kom ekki til greina af hálfu Framsóknarflokksins, frekar en það kemur til greina að mínu áliti að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, var sú að Framsóknarflokkurinn taldi það merki um að það væri fyrsta skrefið á vegferð hægri aflanna í Sjálfstæðisflokknum. Hægri mannanna í Sjálfstæðisflokknum sem eru komnir til mun meiri áhrifa og metorða en áður með formannsskiptunum í fyrra í Sjálfstæðisflokknum. Nú eru hægri sjónarmiðin þar mjög uppi og hægri mennirnir sem fluttu þingmálið, frumvarp til laga um Ríkisútvarp, fyrir tveimur árum, hv. þm. Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson, eru miklir og eindregnir baráttumenn fyrir því að Ríkisútvarpið verði selt.

Ég er algjörlega sannfærður um að það er skoðun meirihlutans í Sjálfstæðisflokknum að einkavæða og selja Ríkisútvarpið þó sjálfsagt séu ýmsir þar sem hafa aðra skoðun. Það er ekki hægt annað en að vera þeirrar skoðunar þegar maður fylgist með og fer í gegnum stjórnmálaumræður sjálfstæðismanna síðustu missira, sérstaklega þeirra sem yngri eru, að einhvers konar andúðar gæti á ríkisrekstri á fjölmiðlamarkaði.

Ég lít svo á að þessi þriðja atlaga að breytingu á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins sé skref hægri aflanna í Sjálfstæðisflokknum í að einkavæða stofnunina. Ég velkist ekki í nokkrum einasta vafa um það. En að sjálfsögðu er það samkomulag á milli stjórnarflokkanna að það sé ekki á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar. Það er ég einnig sannfærður um enda er það tekið fram í upphafi málsins. Hins vegar þarf sérstaklega að taka það fram því það er sáttin á milli stjórnarflokkanna. Framsóknarflokkurinn má þó eiga það að hann er trúr þeirri sannfæringu sinni að það eigi ekki að einkavæða eða selja Ríkisútvarpið þó hann hafi gefið eftir og kúvent í afstöðu sinni í þessu prinsippmáli aftur og aftur með svo vandræðalegum hætti að framsóknarmenn sjást ekkert við þessa umræðu frekar en þeir sáust við hana síðast.

Nú eru þær skýringar fram komnar að þetta rekstrarform henti núna utan um þessa ríkisstofnun. Þó hef ég aldrei heyrt hvorki hæstv. menntamálaráðherra né aðra málsvara málsins útskýra það með neinum boðlegum hætti af hverju breyta þarf Ríkisútvarpinu í hlutafélag ef það er ekki ætlunin að selja það í framtíðinni. Það er auðveldara að ráða og reka fólk og það breytir stjórnsýslunni en ég hef ekki séð að það náist nein markmið fram sem ekki er hægt að ná með öðrum hætti ef það er pólitískt markmið stjórnmálaflokkanna í landinu, Sjálfstæðisflokksins einnig, eins og hæstv. menntamálaráðherra heldur fram í þessari umræðu, að stofnunin eigi að vera í ríkiseigu um ókomna tíð. Þá eru til miklu hentugri leiðir eins og t.d. þær sem hafa verið notaðar utan um almannaþjónustu hvers kyns sem er ekki rekin í ágóðaskyni eins og sjálfseignarstofnunarformið, það hefur gefist mjög vel. Saga sjálfseignarstofnana í íslenskri almannaþjónustu er mjög farsæl. Það er nokkur sátt um að ýmiss konar stofnanir á sviði menntunar, heilsugæslu, heilbrigðisþjónustu, almannaþjónustu hvers konar, sjálfstætt reknar, séu sjálfseignarstofnanir þegar þær eru ekki reknar í ágóðaskyni. Það hefði því verið miklu boðlegri leið fyrst stjórnvöld telja svo brýnt að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins.

Það er margt annað sem er óásættanlegt í málinu af minni hálfu við fyrstu sýn. Að sjálfsögðu á málið eftir að fara í gegnum 1. umr. og í menntamálanefnd þar sem það tekur vonandi breytingum. Það er löng leið eftir.

Á þeim 40 mínútum sem ég hef í fyrri umferð í kvöld gefst ekki færi nema rétt að tæpa á þessum atriðum. Svo ég stikli á stóru áður en ég fer í einstaka þætti er eitt af þeim um hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Þar hef ég um árabil verið talsmaður þess að hlutdeild þessa auglýsingamarkaðar verði takmörkuð. Ég er á þeirri skoðun að Ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir stofnunina að hafa þar einhver umsvif, fyrir almenning að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem mjög oft koma fram í auglýsingum og eins fyrir auglýsendur að geta auglýst vöru sína og þjónustu í þessum öfluga og mikla miðli.

Til að koma til móts við einkareknu ljósvakamiðlana á Íslandi á þeim litla og þrönga fjölmiðlamarkaði sem við erum með þá hefði ég talið það sanngirnismál að takmarka hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og gefa þannig einkareknum fjölmiðlum, ljósvakamiðlum, aukið svigrúm. Aukið vægi, aukið lífsrými og aukna möguleika á því að skjóta hér rótum og að undir þeim væru styrkar stoðir.

Á þeim 20 árum sem frjáls og einkarekin fjölmiðlun hefur verið á Íslandi í ljósvakamiðlun hefur að sjálfsögðu gengið á ýmsu. Við höfum horft upp á voldug fyrirtæki í öðrum greinum koma að rekstri fjölmiðlanna og þá fyrst taka þeir nokkrum stakkaskiptum og fyrirtækin virðast fara að bera sig að einhverju leyti eða fá alla vega fjármagn til að athafna sig tímabundið. Til að mæta því og bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla með sanngjörnum hætti af hálfu ríkisvaldsins tel ég að að takmarka eigi umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en ekki að auka forskot þess enn frekar eins og forustumenn frjálsu fjölmiðlanna halda fram með því að gera það annars vegar að hlutafélagi og hins vegar að gefa því óheft og ótakmarkað svigrúm á auglýsingamarkaði. Ég tel mjög fjandsamlega fram gengið gegn einkareknu fjölmiðlunum og mjög ósanngjarnt að öllu leyti. Þetta á að sjálfsögðu að skoða og vera til grundvallar nú þegar þriðja atrennan er gerð að því að setja Ríkisútvarpinu nýjan ramma.

Það er dapurlegt að Ríkisútvarpið skuli lenda í því aftur og aftur að tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins að verða það pólitíska bitbein í íslenskri stjórnmálaumræðu eftir að um það og rekstur þess hefur ríkt nokkur sátt í þess glæstu og löngu sögu þangað til á síðustu missirum þegar fjölmiðlamálin fóru að vera einhver stærstu og mestu átakamál á íslenskum stjórnmálavettvangi. Það er ekkert undarlegt við það að mikil tortryggni sé ríkjandi í garð Sjálfstæðisflokksins og þeirra fyrirætlana sem ríkisstjórnin hefur uppi með Ríkisútvarpið þegar engin rök koma fyrir því að breyta eigi rekstrarforminu með þessum hætti önnur en nánast ,,af því bara“, ef ekki á að selja útvarpið eða búa í haginn fyrir einkavæðingu þess síðar.

Að sjálfsögðu eru einnig mörg önnur atriði mjög vafasöm, sérstaklega í pólitísku ljósi. Til dæmis, eins og hér hefur verið nefnt, hvernig standa eigi að kjöri í stjórn Ríkisútvarpsins og sá pólitíski járnhæll sem þannig er verið að setja yfir stofnunina. Kosið er í hana árlega og þessi beina tenging með sitjandi meiri hluta á Alþingi hverju sinni, árlegt kverkatak Alþingis á stofnuninni, er algerlega óþolandi.

Bent hefur verið á ýmsar skynsamlegri leiðir til að auka sjálfstæði stofnunar af þessu tagi frá Alþingi og sitjandi meiri hluta hverju sinni. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson gat um þær áðan af skandinavískum vettvangi. Það hlýtur því að verða skoðað mjög vandlega. Málið var rætt ítarlega í menntamálanefnd í fyrra og það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir að sjá að því var ekki búið að breyta núna. Eins hélt ég að það væri til þess nokkur vilji í Sjálfstæðisflokknum að gefa einkareknu miðlunum aukið svigrúm á markaði með því að þrengja að Ríkisútvarpinu, takmarka umsvif þess á auglýsingamarkaði. Ég tek það fram aftur vegna misskilnings sem stundum gætir þar um, að það á ekki að mínu mati að taka útvarpið út af auglýsingamarkaði, heldur að sníða því þrengri stakk.

Þá kemur það mér einnig á óvart að enn skuli vera lagt til að fjármagna eigi Ríkisútvarpið með nefskatti. Ég held að það sé versta mögulega leiðin til að fjármagna Ríkisútvarpið. Ég held að óbreytt afnotagjöld hefðu verið mun farsælli leið. Enn þá betra hefði verið að setja það á fjárlög og semja um framlög til þess til einhverra ára í senn til að koma þannig einnig í veg fyrir pólitískt kverkatak á stofnuninni. En nefskattur er klárlega versta leiðin og líklegust til að verða mjög óvinsæl hjá almenningi og ala enn frekar á andúð í garð ríkisrekstrar á fjölmiðlamarkaði miðað við reynslu annarra ríkja.

Komum við þá að meginmálinu sem er inntak almannamiðilsins nýja, nýrra tíma, þar sem hlýtur að felast réttlætingin á rekstri ríkissjónvarps og útvarps af einhverju tagi. Að mínu mati er ekkert sjálfsagt mál að ríkið standi í fjölmiðlarekstri. Fyrir því þurfa að vera mjög brýnar forsendur og þær felast að sjálfsögðu í því hlutverki sem ríkismiðillinn innir af hendi. Það hefur Ríkisútvarpið gert vel eins og það hefur haft umsvif til í gegnum tíðina. Menningartengt efni og fréttastofur Ríkisútvarpsins hafa í gegnum tíðina staðið nokkuð upp úr og verið mjög kraftmiklar og góðar. Til þeirra getum við gert þá skýlausu kröfu að þær séu hlutlausar, að þar sé enginn vafi á því að eigendur miðlanna séu ekki að eiga við ritstjórnarstefnuna. Á móti kemur að þess vegna þarf að tryggja svo óyggjandi sé að pólitískur járnhæll, eins og núna Sjálfstæðisflokksins, troði ekki ofan á stofnunina. Þess er ekki gætt í þeim frumvarpsdrögum sem við ræðum.

Það veldur vonbrigðum þegar rýnt er ofan í það sem segja má að verði inntak hins nýja ríkissjónvarps, að þar eru mjög yfirborðskennd markmið um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Tilverurétt þeirrar stofnunar. Það er ekki tekið á því með neinum boðlegum hætti að mínu mati í frumvarpinu og þarf að færa miklu öflugri rök fyrir því hvernig stofnunin undir hinu nýja rekstrarformi eigi að starfa í framtíðinni og hvers konar efni hún eigi að miðla. Þó þar séu ágæt markmið sett fram um aukna hluta af innlendu efni, aukna textun o.s.frv. er það allt mjög losaralega framsett og mjög ósannfærandi í ljósi þeirrar fjárhagslegu stöðu sem Ríkisútvarpið býr við þessi missirin.

Þá vekur það sérstaka athygli að í þriðja sinn kemur fram í hlutverkakaflanum í frumvarpinu, 2. lið, með leyfi forseta:

,,Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Við ræddum það ítarlega við hæstv. menntamálaráðherra og formann menntamálanefndar í fyrra hvort í þessu fælist einhvers konar viljayfirlýsing um að selja ætti Rás 2. Um það spunnust talsverðar umræður á síðasta vetri sem mátti túlka sem svo að það væri ekki almennur vilji þingmanna að leggja niður eða selja Rás 2. Skorað var á hæstv. ráðherra að þessu ætti að breyta og kveðið væri skýrt á um að það væri hlutverk Ríkisútvarpsins að reka tvær hljóðvarpsrásir því Rás 2 gegnir að mínu mati ekki síður menningarlegu hlutverki en Rás 1. Hún miðlar af miklu kappi íslenskri dægurtónlist sem engin önnur útvarpsstöð gerir af neinum sérstökum metnaði nú um stundir. Hún hefur staðið sig frábærlega í því að miðla því sem er að gerast í íslenskri tónlist og að bera okkur Íslendingum nýja strauma úr tónlist hvers konar erlendis frá.

Þegar farið er í gegnum frumvarpið kemur í ljós að engar boðlegar skýringar eru gefnar í frumvarpinu á því af hverju lagt er til að Ríkisútvarpinu eigi að breyta í hlutafélag í eigu íslenska ríkisins sem áður. Ekkert er tekið á hlutdeild Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Nefskattur er valinn en það er versta mögulega leiðin til að fjármagna Ríkisútvarpið. Þegar rýnt er í málið kemur í ljós að það er meira og minna sama klastrið og málið sem kom fram í fyrra. Enda byrjar umræðan um það eins og henni lauk síðast, í ófriði. Ekki er farin sú leið að móta þetta frumvarp til að mynda eftir að fram hefur farið umræða um almenna löggjöf um fjölmiðla eins og á að ræða hér síðar í vikunni. Ekkert í þessu máli bendir til þess að ná eigi friði og sátt um stofnunina.

Að mínu mati á það að vera meginhlutverk sjónvarpsins að standa í einhverri mynd að framleiðslu og miðlun á íslensku efni sem er t.d. forsenda þess að Rás 2, eins og ég nefndi áðan, eigi að vera til. Þessi rúmlega tvítuga útvarpsstöð stendur vel undir nafni og hefur þróast þannig að hún ein útvarpsstöðva á landinu miðlar í einhverjum mæli íslenskri poppmúsík. Þannig hefur hún unnið sér sess og tilverurétt og því ætti að koma fram skýr pólitískur vilji um það hvernig henni eigi að reiða af í framtíðinni. Það er því óheppilegt að hér standi að miðla eigi að minnsta kosti einni hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá. Kveða ætti skýrt á um að áfram ætti að reka Rás 2.

Það vekur sérstaka athygli að núna án nokkurra skýringa, eins og ég gat um áðan, hefur Framsóknarflokkurinn hvikað í því grundvallaratriði sem flokkurinn setti hér fram, þ.e. að aldrei kæmi til greina að hvika að þessu leyti. Ríkisútvarpið ætti aldrei að gera að hlutafélagi. Það var algert grundvallaratriði að félagið yrði sameignarfélag eða sjálfseignarstofnun en alls ekki hlutafélag. Síðan þá hefur ekki margt annað gerst en að Framsóknarflokkurinn hefur, að því er virðist, gefið fullkomlega eftir gagnvart Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Hann hefur ekki komið með nein sérstök eða boðleg svör um það hverju sætir og af hverju flokkurinn hefur ekki staðið fastar í fæturna hvað það varðar að ekki komi til greina að stofnunin verði gerð að hlutafélagi og af hverju ekki er frekar farin sú leið að hún verði sjálfseignarstofnun.

Ítrekað var það nefnt við umræðuna í fyrra að fram hefði komið mjög föst röksemdafærsla fyrir því frá ýmsum af hægri væng Sjálfstæðisflokksins að selja Ríkisútvarpið. Héldu þeir því fram að engin sérstök rök væru fyrir því að ríkið ætti að reka sjónvarps- eða útvarpsstöðvar frekar en ríkisdagblað eða ríkistímarit, eins og kom fram í tilvitnaðri athugasemd í því máli. Þar var því fundið allt til foráttu að ríkið stæði í útvarps- eða sjónvarpsrekstri af einhverju tagi. Það þætti mjög fráleitt. Því hljóta að vakna þær spurningar sem ég gat um hér í upphafi, þ.e. hvort hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins sé ekki fyrsta skref þess hluta ríkisstjórnarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn myndar í því að selja stofnunina eða koma henni einhvern veginn í hendur einkaaðila. Ég tel svo vera og er sannfærður um að ekkert annað hangir á spýtunni enda hafa engin önnur rök komið fram fyrir því af hverju verið er að fara þessa leið.

Ég vonaðist einnig eftir að sjá nokkur atriði betur útfærð í nýja frumvarpinu, atriði sem ekki var að finna í þeim tveimur frumvörpum sem mælt var fyrir á síðustu tveimur þingum, atriði sem þarf að skoða sérstaklega. Þar er eins og ég gat um, það á að takmarka hlutdeild og umfang útvarpsins á auglýsingamarkaði, sem er í kringum 30% í dag, líklega á bilinu 50–60% á auglýsingamarkaði á ljósvakamiðluninni einni og er að sjálfsögðu mjög umfangsmikil þar. Má færa rök fyrir því að Ríkisútvarpið þurfi og eigi að vera á auglýsingamarkaði eins og ég gat um áðan? Ég held að svo eigi að vera. Það væri ósanngjarnt að ætlast til að stofnunin væri tekin algjörlega út af markaði. En þá hefði átt að reyna að takmarka hlutdeildina hvort sem hún yrði helmingur niður á við eða fundin einhver ásættanleg markmið sem hægt væri að sameinast um.

En auðvitað er meginmálið, ásamt fjármögnun og rekstrarformi sem er hlutverk Ríkisútvarpsins til framtíðar, endurskilgreining á almannaútvarpi og þá pólitísk tilraun til að endurmóta og endurskilgreina hlutverk og markmið Ríkisútvarpsins þannig að það standi undir nafni sem almannaútvarp og sé ekki meira og minna notað til að dreifa og miðla til okkar erlendu og oft ódýru afþreyingarefni, skemmtiþáttum og þeirri sjónvarpsdagskrá sem er að finna á hinum íslensku sjónvarpsstöðvunum í mjög miklum mæli.

Ríkisútvarpið hefur gert það að sérstöku metnaðarmáli sínu á síðustu árum og áratugum að keppa um það við einkareknu sjónvarpsstöðvarnar hver þeirra nái í vinsælustu sjónvarpsþættina að utan og hefur barist á þeim markaði við þær stöðvar í staðinn fyrir að einbeita sér að því að framleiða og miðla íslensku efni. Auðvitað þarf líka að skoða sérstaklega menntunarhlutverk Ríkisútvarpsins. Það þarf að efla það verulega og skilgreina það og skoða sérstaklega í þessu ljósi.

Að mínu mati á meginhlutverk sjónvarpsins að vera að standa í einhverri mynd eða stuðla að framleiðslu og miðlun á íslensku efni sem er t.d. grundvöllur þess að Rás 2 eigi að vera til, eins og ég gat um áðan. Að mínu mati á að lögbinda það með einhverjum hætti eða setja skorður eða skilyrði um hlutfall af innlendu efni í sjónvarpinu þannig að það liggi alveg fyrir hvert það eigi að vera. Það er stefnt að því hér í samningnum en er ósannfærandi í ljósi fjárhagsstöðu stofnunarinnar eins og hún er nú, og var rakið mjög ítarlega áðan.

Grundvöllurinn að tilveru og tilverurétti Ríkisútvarpsins er að miðla og stuðla að dreifingu á íslensku sjónvarpsefni, framleiðslu þess og miðlun og að sjálfsögðu á kostnað þess erlenda efnis sem hefur verið miðlað af miklum móði í sjónvarpi á síðustu missirum. Þó þarf að sjálfsögðu að blanda því inn í dagskrána við vandaða innlenda dagskrárgerð. Allir vita að ekki skortir vilja innan stofnunarinnar til að rækja það hlutverk vel af hendi. Að sjálfsögðu ekki. En stofnunin þarf að hafa fjárhagslega burði til að standa að framleiðslu á slíku efni. Það svigrúm hefur Ríkisútvarpið ekki haft á síðustu árum. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða.

Þegar litið er yfir stöðuna eins og hún er og hefur verið, dagskrá sjónvarpsstöðvar sem sendir út á landsvísu eftir meginflokkum árið 2003, kemur í ljós að sjónvarpið stendur hinum stöðvunum ekkert framar í miðlun á t.d. upplýsingum og menningu. Er þar svona nokkuð á pari við Stöð 2 eða heldur að baki. Sjónvarpið þarf virkilega að fá svigrúm til að bæta sig í því. Það á að sjálfsögðu að vera markmið hins nýja almannaútvarps nú þegar verið er að sníða stofnuninni nýjan stakk til framtíðar.

Það eru mikil vonbrigði að í frumvarpinu er ekki tekið á skilgreiningum á inntaki útvarpsins. Ekkert mið er tekið af því að Ríkisútvarpið stígi skref frá því að vera sá blendingur í dagskrárgerð og miðlun sem það er núna yfir í að vera fyrsta flokks almannamiðill í framtíðinni. Kaflinn Skilgreining á hlutverki útvarpsstjórans í almannaþágu, eins og kaflinn heitir, er mjög almennur þó hann hafi tekið miklum breytingum frá því sem fyrst var þegar hann kom hér fram hátt í 30 liðum minnir mig. Það eru orðnir 13 liðir núna.

Eitt af því sem þarf að ræða sérstaklega, og ekki hafa komið fram sannfærandi rök um, er hvað varðar fjármögnun á stofnuninni. Töluvert hefur verið rætt um algjöran skort á jöfnunaráhrifum inni í nefskattinum. Það hefur ekki verið rætt eða útskýrt neitt sérstaklega af hverju nefskattsleiðin er farin, t.d. frekar en sú að setja stofnunina á fjárlög, fjárlög sem yrðu þá gerð fimm eða tíu ár fram í tímann þannig að Alþingi hefði ekki pólitískt tak á stofnuninni við fjárlagagerð á hverju ári og væri ekkert frekar en með hækkun eða lækkun á nefskattinum í því máli. Það vantar að mínu mati sannfærandi rök fyrir því af hverju sú leið er farin frekar en einhver önnur. Það er einhver undarleg niðurstaða án þess að færð séu pólitísk rök fyrir því af hverju verið er að leggja t.d. afnotagjöldin til hliðar. Afnotagjöldin eru vissulega óvinsæl og þau eru há.

Um afnotagjöldin t.d. í Bretlandi ríkir nokkur sátt þar sem þau eru svo miklu lægri. En hér eru þau há. Það þarf að endurskoða fjármögnunarleiðina. Það liggur algerlega fyrir. Það er engin niðurstaða úr neinni pólitískri umræðu að fara nefskattsleiðina í staðinn. Ég er sannfærður um að nefskattsleiðin er versta hugsanlega leiðin til að fjármagna Ríkisútvarpið. Ég er algerlega sannfærður um það. Það hefði verið miklu farsælla annaðhvort að halda sig við afnotagjöldin eða setja stofnunina á fjárlög, sem hefði kannski verið sú leið sem mest sátt hefði náðst um á meðal almennings, en ekkert einboðið samt að þá leið eigi að fara. Hægt er að fara margar leiðir en það hefur ekkert verið rætt. Boðaðar eru í frumvarpi eftir frumvarpi um Ríkisútvarpið, ár eftir ár, sömu hrakfarirnar í málinu en alltaf stendur þetta eftir. Enda hefur umræðan kannski snúist um önnur og enn veigameiri atriði en það.

Hér hefur verið vakin sérstök athygli á því að sú pólitíska stjórn sem lagt er upp með í útvarpinu, með árlegri kosningu á stjórn stofnunarinnar, er algjörlega fráleit. Það er algjörlega fráleitt að sitjandi meiri hluti hverju sinni, og Sjálfstæðisflokkurinn nú, hafi pólitískt tak á útvarpinu þar sem svo bein tenging liggur á milli stjórnarinnar, ráðherrans og þess útvarpsstjóra sem situr hverju sinni. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina. Það er algjörlega fráleitt. Það er augljóst að umboð hinnar nýju stjórnar sem Alþingi þarf að kjósa árlega er mjög skert. Það er mjög undarleg ráðstöfun í jafnviðkvæmum rekstri og fjölmiðlarekstur er að hlutirnir séu lagðir upp með þeim hætti sem hér er gert. Í fjölmiðlarekstri er mikilvægt að það sé almennt viðhorf að þar sé gætt hlutleysis og pólitísk tök séu þar sem allra minnst þó svo að hin pólitíska ábyrgð liggi hjá Alþingi hverju sinni.

Komið hafa fram margar og mjög vel rökstuddar athugasemdir við þetta fyrirkomulag og ástæða er til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að losa nú um það pólitíska kverkatak sem hún er að setja á Ríkisútvarpið með þessum hætti með því að breyta þessu gagngert í meðförum málsins á næstu vikum. Það er algjörlega tilgangslaust að búa svo um hnúta eins og hér er gert því hægt er að fara miklu farsælli leiðir en lagt er upp með. Það hlýtur að verða skoðað mjög vandlega í menntamálanefnd að breyta þessu ákvæði sérstaklega. Þetta er eitt af meginatriðunum í málinu sem er hvað mikilvægast að girða fyrir, þ.e. pólitísk íhlutun sitjandi meiri hluta hverju sinni við rekstur og stjórn á stofnuninni. Þetta er mjög mikilvægt atriði.

Margir hafa gert það að umræðuefni síðustu missiri þegar þetta mál hefur verið hérna í þinginu hvernig viðsnúningur Framsóknarflokksins átti sér stað í þessum málum og hvað olli því að flokkurinn gaf eftir í málinu af því að það hefur aldrei komið fram nein boðleg skýring á því. Hv. þingflokksformaður Framsóknar er sagður hafa skroppið á fund austur fyrir fjall og sé þá væntanlegur hingað í umræðuna síðar. Bíður maður að sjálfsögðu spenntur eftir að heyra sjónarmið og útskýringar hans sem talsmanns flokksins í þessum málaflokki á því hvað átti sér stað, sérstaklega í ljósi þeirra stóru orða sem framsóknarmenn höfðu uppi við umræðuna um Ríkisútvarpið fyrir tveimur árum þegar þeir hreyktu sér mjög af því að hafa náð að beygja Sjálfstæðisflokkinn og þvingað hann til að sættast á að um einhvers konar sameignarstofnun, sameignarfélag, yrði að ræða og það kæmi aldrei til greina af þeirra hálfu að samþykkja að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi, enda væri það þáttur í vegferð Sjálfstæðisflokksins til að einkavæða Ríkisútvarpið. Fyrir það mundi flokkurinn leggja sitt pólitíska líf að veði og láta brjóta á í stjórnarsamstarfinu ef á reyndi. Þeir fóru í málið af miklu kappi og mikilli hörku, framsóknarmennirnir á því tímabili, en allir vita hvernig fór og árið var ekki liðið þegar þeir voru reknir hérna inn í þingið af Sjálfstæðisflokknum með þau skilaboð að nú væri allt í lagi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, þeir væru búnir að fá tryggingu fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að selja Ríkisútvarpið.

Það sem veldur því að ég hef jafnmikinn fyrirvara á því og ég geri grein fyrir nú, að rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði breytt á þann hátt sem lagt er til, er að ég tortryggi fyrirætlanir Sjálfstæðisflokksins í málinu fullkomlega. Ég treysti Sjálfstæðisflokknum ekki. Þar hafa verið uppi háværar og sterkar raddir um að ríkið eigi að draga sig algjörlega út úr rekstri fjölmiðla. Þar hafa þeir þingmenn flokksins sem eru hvað háværastir talsmenn hans í mennta- og menningarmálum flutt um það þingmál að selja eigi Ríkisútvarpið. Þetta eru ráðandi aðilar í Sjálfstæðisflokknum, menn sem hafa þar gífurleg áhrif og ítök. Í ljósi þess hvernig flokkurinn hefur gengið fram á síðustu missirum og talað um Ríkisútvarpið, talað af mikilli andúð um ríkisrekstur hvers konar á fjölmiðlum, þá treysti ég Sjálfstæðisflokknum ekki í þessu máli og mun aldrei gera. Ég mun aldrei treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki einhvern tíma freista þess að selja Ríkisútvarpið og breyta því í hlutafélag. Hvort sem það er sjálfstætt, ohf. eða hvað, þá er Sjálfstæðisflokkurinn að sjálfsögðu að undirbúa það að þegar færi gefst, þegar pólitískt svigrúm gefst til, hvort sem það er í upphafi kjörtímabils eða að flokkurinn hafi fundið sér þann samstarfsflokk í ríkisstjórn sem hann geti fengið til að fallast á einkavæðingu, sem ég er reyndar farinn að hallast að að Framsóknarflokkurinn mundi í sjálfu sér á einhverjum tímapunkti gefa eftir og standa að.

Hann er hins vegar rúinn pólitísku trausti almennings og er ekki í neinni stöðu til að standa að slíku. Það yrði líklega enn eitt áfallið fyrir flokkinn og þess vegna er ekki lengra gengið en raun ber vitni. En hér er verið að búa í haginn fyrir einkavæðingu Ríkisútvarpsins síðar meir og ég tortryggi Sjálfstæðisflokkinn fullkomlega í þessu öllu. Það hafa verið allt of háværar raddir um annað innan þess flokks þannig að hægt sé að taka það trúanlegt þó að örfáir einstaklingar innan flokksins haldi því nú fram að það sé að sjálfsögðu ekki í fyrirætlunum flokksins að selja Ríkisútvarpið, enda eru ekki margir sjálfstæðismenn sem taka þátt í umræðunni. Hérna er alveg æpandi tómur stólinn hans Péturs Blöndals, hv. þingmanns, sem er einn helsti baráttumaður flokksins fyrir því að einkavæða og selja Ríkisútvarpið. Þeir pólitísku baráttumenn yst af hægri væng Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, eru allir fjarverandi þessa umræðu, því miður, af því að sjónarmið þeirra hljóta að skipta miklu máli í þessu. Þetta eru mennirnir sem fluttu frumvarp til laga um að selja ætti Ríkisútvarpið á þessu sama kjörtímabili og Sjálfstæðisflokkurinn reynir að telja okkur trú um að hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins sé ekki áfangi á leið ríkisstjórnarinnar til að einkavæða og selja Ríkisútvarpið.

Að mínu mati á ríkið að reka öflugan almannamiðil eins og Ríkisútvarpið er, á að vera og getur orðið enn þá betri og öflugri fái hann til þess frið frá Sjálfstæðisflokknum sérstaklega til að vaxa og dafna og ekki sé gerð atlaga að stofnuninni ár eftir ár af Sjálfstæðisflokknum með það augljósa pólitíska markmið að síðar meir verði Ríkisútvarpið selt. Um það blandast mér enginn hugur, ég er algjörlega sannfærður um að það er sú pólitíska vegferð sem Sjálfstæðisflokkurinn er á í þessu máli og hlýtur að vera okkur leiðarljós við umræðuna.



[22:23]
Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Í dag er 16. október. Það þýðir að 15 dagar eru liðnir af þessum mánuði og þetta er sá 16. en þing hófst 2. október og nú mun standa yfir 9. þingdagur, mér telst það til. Svo háttar til að forseti hefur ákveðið að hafa kvöldfund 16. október. Ég hygg að það séu fá dæmi þess í þingsögunni að haldnir séu kvöldfundir svo snemma þings.

Vegna þess að forseti hefur ekki skýrt þessa ákvörðun sína, hefur ekki gefist tækifæri til að skýra þessa ákvörðun sína úr ræðustóli og raunar ekki tilkynnt hana með neinum hætti vil ég gefa forseta tækifæri til þess og spyr hverju valdi að haldinn sé kvöldfundur svo snemma þings. Ég spyr enn fremur hversu lengi hann eigi að standa eða hvort þetta sé kannski næturfundur sem við erum hér á og hvort eigi kannski að endurtaka afrekin frá síðasta þingi sem mæltist svo vel fyrir, forseti, og urðu til að auðvelda þingstörfin þá þegar forsetar héldu hér fundi langt fram á nótt. Einn fundurinn stóð til rúmlega sex um morgun og þótti nú ekki hafa hjálpað til við að koma mönnum til sæmilegra verka á þinginu.

Mér finnst þetta afar einkennilegt vegna þess að auðvitað hlýtur forseti að vera að reyna að flýta störfum þingsins með því að hafa þennan kvöldfund. Kvöldfundirnir eru eðlilegir þegar mikið liggur á og þegar þingi er að ljúka eða þarf að afgreiða fjárlög eða eitthvað af því tagi og allir taka saman nokkurn veginn og leggjast á árarnar að reyna að ljúka málum. En kvöldfundir utan þeirra tíma hafa ekki reynst heppilegir til þess að flýta þingstörfum. Á kvöldin eru menn oft langorðari en þeir eru á venjulegum vinnutíma og þegar forseti setur á kvöldfundi í málum sem ekki virðast vera kvöldfundar virði tekur hann þá áhættu að það sé misskilið sem einhvers konar áhersla af hans hálfu á að umræðu sé flýtt eða hún sé a.m.k. tekin úr kastljósinu og það er eiginlega ekki það sem við erum að gera á þinginu. Við erum að reyna að ræða málin í heyranda hljóði þannig að almenningur allur viti af og þar sem hver maður hafi rétt til þess að koma skoðunum sínum sæmilega á framfæri.



[22:26]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Eins og hv. þingmanni er kunnugt eru margir hv. þingmenn á mælendaskrá og þurfa eðlilega sinn tíma til að ræða þetta frumvarp. Þess vegna hefur forseti séð til þess að tími gefist til þess. Það er löng mælendaskrá.



[22:26]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að gott hefði verið að fá það algjörlega á klárt hvenær hæstv. forseti hyggst ljúka þessari umræðu í kvöld. Það væri líka viðkunnanlegra undir þessari umræðu að hæstv. menntamálaráðherra væri í salnum við 1. umr. — Já, ágætu þingmenn, ég hef góða hliðarsjón og út undan mér sé ég hæstv. menntamálaráðherra, ég hef lítið séð til hennar í salnum í kvöld. Mér finnst það lágmarks … (Gripið fram í.) Það er nú einfaldlega þannig að ég hef verið hér í allt kvöld meira og minna. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra sé einhvers staðar hulin sjónum venjulegra manna í hliðarsölum. En það eru almennir mannasiðir í þessum sölum að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir umræður á meðan þær er á framfæri þeirra. Fyrsta umræða er þannig.

Ég kem þó ekki hér til að kvarta undan hæstv. ráðherra því ég er löngu hættur því. Hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að þessi kvöldfundur er ekki haldinn með samþykki formanns þingflokks Samfylkingarinnar. Það er vel hugsanlegt að það hafi verið misskilningur milli mín og hæstv. forseta og annarra þingflokksformanna um hversu langt skyldi haldið á þessu kvöldi en ég hafði tekið það svo að ekki væri efnt til slíkrar umræðu. Ég er ekki að halda því fram að hæstv. forseti hafi blekkt mig eða neitt slíkt en ég skildi þetta svona. Ég vil að það komi alveg skýrt fram gagnvart þingmönnum að þessi fundur er ekki með samþykki þingflokks Samfylkingarinnar. Ég tel að það sé í þágu góðs samstarfs í þessu erfiða máli að menn reyni að komast að samkomulagi við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn í málinu.

Ég vil líka segja, frú forseti, að það mundi henta þeim þingmönnum sem eru í salnum og eiga eftir að tala að vita nákvæmlega hvernig á að fylgja þessari umræðu fram. Ég vil líka að það komi alveg skýrt fram að ég tel að það sé ekki í þágu góðs friðar á þinginu ef það á síðan, til að klára þetta mál að kröfu hæstv. menntamálaráðherra, að halda hér kvöldfundi dag eftir dag. Ég tel, eins og fram hefur komið, að það mál sem er til umræðu væri betur geymt utan sala þingsins. Hins vegar er það svo að ég virði rétt meiri hlutans til að ná vilja sínum fram.

Við alþingismenn höfum hins vegar líka okkar rétt og alveg sama hverjar þarfir hæstv. menntamálaráðherra eru þá er það svo að í þessum sölum vinnur fjölskyldufólk og hefur líka sinn rétt til að lifa eðlilegu fjölskyldulífi en þurfi ekki að vera hér kvöld eftir kvöld í upphafi þings bara til þess að þjóna dyntum hæstv. ráðherra.



[22:29]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en að taka undir þær sjálfsögðu athugasemdir sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum um að það er mjög undarleg tilhögun af hálfu virðulegs forseta að setja hér á kvöld- eða næturfund til að reyna að keyra 1. umr. um þessa þriðju tilraun ríkisstjórnarinnar til að koma nýjum lögum á um Ríkisútvarpið fram í skjóli myrkurs. Það er mjög undarlegt að beita með þessum hætti hálfgerðum brögðum til að tóna niður umræðuna, til að reka þessa umræðu hér að kvöldlagi þannig að það verði minna úr henni, til að reyna að taka úr henni dampinn með einhverjum hætti þegar Alþingi er rétt komið saman. Afar fá stjórnarfrumvörp eru komin fram, ef þá nokkur fyrir utan fjárlögin, og því eru engin rök fyrir því af hverju þetta mál er rekið inn í kvöldfund núna 16. október. Það vita allir að þegar líður að þinglokum, annaðhvort skömmu fyrir jól eða í maí þegar þingi lýkur að vori, að þá eru rök fyrir því að mál séu rædd að kvöldlagi og stundum inn í nóttina til að flýta fyrir störfum Alþingis. Svo háttar ekki nú og því fer víðs fjarri. Þess vegna er þetta mjög undarleg ráðstöfun af forseta þingsins, sem var kosinn hér á dögunum nokkuð glæsilegri og almennri kosningu af, held ég, þorra alþingismanna þannig að ég held að flestir alþingismenn líti nú svo á að forsetinn starfi í þeirra umboði og hljóti að gæta hagsmuna þeirra allra burt séð frá flokkadráttum og pólitískum bolabrögðum ríkisstjórnarflokkanna hverju sinni. Þess vegna hlýtur virðulegur forseti að gefa okkur alþingismönnunum boðlega skýringu á því af hverju verið sé að reka þetta mál hér inn í myrkrið, af hverju verið sé að reyna að tæma 1. umr. um málið hér inn í nóttina þegar engin rök hafa komið fram um að svo þurfi að gera. Af hverju er málið ekki rekið með eðlilegum hætti en ekki þeim óttaslegna vandræðagangi sem einkennir málið af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans þegar hæstv. menntamálaráðherra virðist vera að gera þá kröfu á virðulegan forseta að málið sé rekið hérna einhvern veginn inn í nóttina þannig að minna verði úr umræðu og það flýti einhvern veginn fyrir málsmeðferð? Þetta eru bolabrögð, virðulegur forseti. Ég fer fram á það að fundi verði frestað og honum haldið áfram á morgun.



[22:32]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill eindregið mótmæla því að hér sé um bolabrögð að ræða. Þannig er mál með vexti að hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt sig fram um að vera liðleg hér varðandi framgang mála og hefur vikið með sitt fyrir ýmsum öðrum málum sem hér hafa þurft að komast á dagskrá þar sem meðal annars hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt áherslu á að slík mál kæmust að á undan. Þess vegna telur forseti eðlilegt með tilliti til þess hversu seint þessi mál komust að á dagskrá hér í dag að halda áfram með þetta mál vegna þess að mjög margir hv. þingmenn eru á mælendaskrá og vilja eðlilega fá að tjá sig um þetta mál.



[22:33]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég bað nú um orðið áður en hæstv. forseti veitti hér örlitlar skýringar á því hvernig á því stæði að hér er kvöldfundur nú á þriðju viku þings þetta haustið. Helstu skýringar virðulegs forseta eru þær að hæstv. menntamálaráðherra hafi sýnt sérstaka lipurð hér gagnvart málum hv. þingmanna og meðal annars að vegna þess að þetta mikilvæga mál komst hér seint á dagskrá í dag þá sé eðlilegt að halda áfram.

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir að það hefði verið, vegna þess hversu seint þetta mál komst á dagskrá, allt í lagi að fara hér örlítið inn í kvöldið til þess að vinna upp þann tíma sem fór framan af fundi ef það hefði verið ætlunin að skipuleggja hér dagskrá þannig að við yrðum hér kannski fram að kvöldmat ef til þess hefði ekki komið. En ég sé ekki betur, virðulegi forseti, en að liðið sé nokkuð fram yfir þann tíma sem fór í þau mál sem hér voru fyrr rædd í dag. Klukkan tíu hefði ég haldið að væri vel rúmlega orðinn tíminn sem fór í hin málin þannig að það hefði nú verið í lagi að ljúka hér störfum um tíuleytið. En svo virðist ekki vera og virðulegur forseti gaf engar vísbendingar um það hversu lengi væri ætlunin að halda hér áfram í kvöld. Það er bagalegt.

Virðulegur forseti gaf heldur ekki vísbendingar um það hvort gert væri ráð fyrir því að haldið yrði áfram strax í byrjun fundar á morgun ef umræðu lyki ekki í kvöld og hversu lengi yrði þá fram haldið. Það vekur sérstaka athygli að þetta mál skuli keyrt svo hratt fram því að við þingmenn höfum ekki orðið varir við að slík ósköp af stjórnarfrumvörpum að minnsta kosti lægju fyrir að það þyrfti að flýta svo mjög umræðu um þetta mál. Ég geri ekki ráð fyrir því til dæmis að við þurfum allan veturinn í nefndarstörf þó að við þurfum trúlega nokkuð drjúgan tíma í nefndarstörf í menntamálanefnd. En því er ekki að neita að við höfum nokkuð fjallað um þetta mál áður þar þannig að ég get ekki ímyndað mér að við eigum ekki að minnsta kosti að ráða við það að ljúka nefndarstörfum þannig að vel fyrir vorið verðum við búin með þau störf. Ég sé því ekki að það sé heldur ástæða fyrir því að svo mikið þurfi að hraða störfum.

Ég tek eftir því að það er áberandi miklum mun minni mæting hér til dæmis af hálfu stjórnarliða úr menntamálanefnd en við höfum átt að venjast þannig að það er augljóst mál að þessi kvöldfundur kemur líka illa við ýmsa stjórnarliða sem ég trúi að hafi mikinn áhuga á því að vera hér. Ég vænti þess því að virðulegur forseti sýni þessu máli þann skilning og átti sig á því að það er ekki mjög sniðugt að egna þingheim með kvöldfundum að minnsta kosti kvöld eftir kvöld svona rétt í byrjun þings. Ég vænti þess að virðulegur forseti gefi okkur skilmerkileg svör um að þessu verði ekki miklu lengur fram haldið og þá hvenær virðulegur forseti gerir ráð fyrir að ljúka kvöldfundi.



[22:37]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú hefur það verið rifjað upp að við höfum staðið hér í pontu allmarga klukkutíma í dag og rætt þetta mál. En ég vil minna á hvernig þessi umræða hófst hér í dag. Hún hófst á ósamkomulagi um fyrirkomulag þessarar mikilvægu umræðu.

Á dagskrá þingsins eru þrjú þingmál, í fyrsta lagi frumvarp um Ríkisútvarpið, frumvarp um Sinfóníuna og frumvarp um sjálfan grundvöll fjölmiðlalöggjafar í landinu. Stjórnarandstaðan hafði sett fram þá ósk að við hæfum umræðuna á því máli sem sett hefur verið aftast, þ.e. sem varðar sjálfan grundvöllinn, og síðan tækjum við til við að ræða hin sértæku mál, Ríkisútvarpið og Sinfóníuna.

Ég hef síðan aldrei fyrir mitt leyti fengið svör við því hvernig á því standi að stjórn þingsins og hæstv. menntmálaráðherra stendur gegn því að mál sem varða Ríkisútvarpið verði tekin til umfjöllunar samhliða umræðu um Ríkisútvarpið. Þetta skiptir mjög miklu máli þegar kemur til afgreiðslu málsins. Þegar það kemur til nefndar, þegar það er sent út til umsagnar hjá hagsmunaaðilum og þeim sem til þekkja er eðlilegt að menn hafi alla þá valkosti sem bjóðast á löggjafarsamkomunni. Þess vegna er eðlilegt að frumvörp og þingmál sem tengjast Ríkisútvarpinu í þessu tilviki verði rædd samhliða. Ég hef ekki fengið svör við því, hvorki frá hæstv. forseta þingsins né hæstv. menntamálaráðherra sem ég hef ítrekað beint spurningu til, hvort fallist yrði á þetta fyrirkomulag. Ég hef ekki fengið einu sinni svör við þessari spurningu.

Hæstv. forseti. Þetta er ástæða þess að þessi umræða hefur dregist á langinn. Við erum að sjálfsögðu ósátt við þetta frumvarp í heild sinni, frumvarpið um Ríkisútvarpið. En við höfum einnig verið að mótmæla fyrirkomulaginu á þessari umræðu og getum ekki sætt okkur við það.



[22:39]
Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka þau svör sem gefin hafa verið, að þau skuli hafa verið gefin að minnsta kosti, en er ekki sáttur við þau. Ég spurði um tvennt. Ég spurði í fyrsta lagi hvað þessi fundur ætti að standa lengi og fékk engin svör við því og í öðru lagi hvað ylli þessum kvöldfundi. Taka má undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að það sé skiljanlegt að menn fari út í kvöldfund af því að umræðan hófst seint á degi. Ég sé nú ekki að það sé neinum að kenna sem hér stendur hversu seint á degi þessi umræða hófst. Það er alvanalegt að umræða á mánudegi hefjist með athugasemdum um störf þingsins, við hvað sem þær athugasemdir eru nú í raun og veru, og utandagskrárumræða er hér sett á með vilja og vitund forseta væntanlega til þess að koma henni að. Það má kannski deila um það hvort heppilegt er að hafa utandagskrárumræðu á mánudegi. Það er að minnsta kosti ekki ég sem kem þeim á á mánudögum til þess að tefja mál. Einhver annar tekur ákvörðun um það.

Hins vegar er það nokkuð ævintýraleg röksemdafærsla að kvöldfundur sé haldinn á mánudegi á níunda starfsdegi þingsins, 16. október, til þess að vera góður við hæstv. menntamálaráðherra, vegna þess að hún hafi þurft að bíða svo lengi með einhver mál sín. Það er eiginlega röksemdafærsla, forseti, sem ekki gengur upp. Jafnvel þótt menn kunni að vera persónulegir vinir og geri hvor öðrum greiða svona með einhverjum hætti þá er ekki gagnvart þingstörfunum og almenningi sem kaus okkur til veru hér á þinginu boðlegt að færa það fram sem ástæðu að forseti sé að vera vinsamlegur við hæstv. menntamálaráðherra. Ég veit ekki hvað þau rök eiga eiginlega að þýða. Ég er ekki viss um að það sé neinn vinargreiði við menntamálaráðherra að bjóða ráðherranum upp á þetta því að eins og ég var að reyna að koma frá mér áðan þá hefur það oft heldur lengt þingstörfin að setja hér á langa fundi á kvöldin og ekki skapað þann frið og þá sátt um afgreiðslu mála sem vera þyrfti og er eiginlega hlutverk forseta að reyna að beita sér fyrir.



[22:42]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill geta þess að hún hafði fyrr í kvöld stuttan fund með þingflokksformönnum til þess að ræða framgang mála á hinu háa Alþingi, svo að forseti leggur sig fram um að leita eftir samkomulagi við alla þingflokka.



[22:43]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka þann lipurleik að hleypa mér að undir þessum dagskrárlið. Það er út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta. Það er greinilegt að hæstv. forseti telur sig standa sig býsna vel í því að reyna að ná sátt um þingstörfin. En það er rétt að vekja athygli á því að það kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, þingflokksformanni okkar samfylkingarmanna, að þessi kvöldfundur væri ekki með samþykki hans sem þingflokksformanns okkar þannig að eitthvað hefur mistekist í því að ná fullri sátt um það. Síðan er líka hægt að ræða það að kvöldfundur og kvöldfundur getur verið býsna misjafn. Kvöldfundi gæti verið lokið núna þegar klukkan er að verða ellefu eða það væri svona kvöldfundur í styttra lagi.

Frú forseti. Þetta er umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess að virðulegur forseti hélt merka ræðu hið fyrsta sinn er virðulegur forseti náði kjöri þegar hún talaði um að breyta hér vinnubrögðum. Ýmsir skildu það að minnsta kosti svo, þó að ég muni ekki nákvæmlega orðalag ræðunnar, að það yrði til þess að tekið yrði meira tillit til þess að þingmenn væru fjölskyldufólk og það yrði dregið frekar úr kvöldfundum en hitt. Því er spurning hvað hafi valdið þeim áherslubreytingum virðulegs forseta að setja hér á kvöldfund nú svo snemma þings þegar engin rök hafa komið fram um að mikil nauðsyn sé á slíku. Að vísu er eðlilegt að taka tillit til hæstv. ráðherra innan ákveðinna marka. En ég get ekki séð að það dugi til þess að rökstyðja kvöldfund sem þennan. Síðan gefur virðulegur forseti þingheimi ekki svör við því hvernig framhaldið er hugsað. Breytist þessi kvöldfundur hugsanlega í næturfund eða má búast við því að á morgun verði kvöldfundur sem hugsanlega gæti líka breyst í næturfund eða mun þetta ráðast af einhverju sem ekki er ljóst nú? Virðulegur forseti. Ég er sannfærður um að það muni frekar greiða fyrir þingstörfum heldur en hitt ef virðulegur forseti svaraði skýrt og greinilega því hvernig þetta væri hugsað.

Það er ekki gott að hefja þingið með þeim hætti að ekki skuli vera samkomulag um það til dæmis hvernig umræðu er háttað um mál eins og Ríkisútvarpsmálið sem við erum nú að ræða því það er þess eðlis að eðlilegt væri að ekki bara hæstv. ráðherra heldur líka virðulegur forseti legðu sig sérstaklega fram um að reynt yrði að ná sem allra mestri sátt um leið því stofnunin er þess eðlis að hún þarf á því að halda. Þetta er þess vegna ekki rétta leiðin til þess. Ég vænti þess að virðulegur forseti gefi okkur að minnsta kosti skýr svör við því hvernig ætlunin sé að halda þessu áfram.



[22:46]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni. Það er eðlilegt að fá skýr svör um það hvenær ráðgert er að ljúka þingfundinum. Hins vegar, svo að allir séu látnir njóta sannmælis, er í rauninni ekki við hæstv. forseta Alþingis að sakast í þessu efni. Hæstv. forseti boðaði okkur til samráðsfundar fyrir stundu og vildi leita fyrir sér um hvort unnt væri að ná einhvers konar samkomulagi. Ég sé hins vegar ekki að það sé neinn samkomulagsvilji frá hendi ríkisstjórnarinnar og frá hendi hæstv. menntamálaráðherra.

Við skulum ekki gleyma því að í þessu máli og í þessum vinnubrögðum erum við að kynnast pólitískri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það eru ýmis mál sem brenna á þjóðinni. Hér í dag í utandagskrárumræðum og utan dagskrár hefur verið rætt um málefni öryrkja, fátækasta hlutans í íslensku samfélagi sem er að verða fyrir kjaraskerðingu þessa dagana, nokkuð sem ríkisstjórnin gæti leyst eða bætt úr með því að flýta starfi sem fram fer um endurskoðun á samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga. Því er öllu vikið til hliðar.

Landbúnaðarmál brenna á þjóðinni. Allt leikur á reiðiskjálfi í samfélaginu vegna hlerunarmála. Því er öllu vikið til hliðar vegna þess að ríkisstjórnin verður að ná því fram að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Nú er það að endurtaka sig sem gerðist í vor að öllu var sópað út af borðinu til þess að þetta pólitíska áhugamál ríkisstjórnarinnar yrði látið hafa allan forgang. Þetta erum við að upplifa núna.

Það er þess vegna sem verið er að boða til kvöldfunda og setja allt annað þingstarf úr skorðum, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja þetta pólitíska gæluverkefni frjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum á oddinn. Framsóknarflokkurinn dansar að sjálfsögðu með. Margir höfðu bundið vonir við að Framsóknarflokkurinn mundi standa í fæturna í þessu máli. Nei, hann lyppast niður eina ferðina enn. Eina ferðina enn lyppast Framsóknarflokkurinn niður, leggst undir Sjálfstæðisflokkinn og gerir allt það sem honum er skipað. Það er afskaplega dapurlegt hlutskipti.



[22:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson rifjaði hér upp hina glæsilegu ræðu sem hæstv. forseti flutti hið fyrsta sinni sem hún var kjörin forseti þessa þings. Með mikilli ánægju hlýddu menn á þá ræðu, ekki síst við sem höfum árum saman kvartað undan því að vinnubrögð Alþingis séu úr takti við þá þróun sem hefur orðið í samfélaginu. Breytingin sem hefur orðið meðal fólks er sú að menn vilja fá tóm til þess að sinna fjölskyldu sinni, það er partur af lífsgæðunum.

Það er sjálfsagt að horfa í gegnum fingur sér við forseta og þá sem stýra þessu þingi þó að í upphafi þingvetrar sé ráðist í að halda einn kvöldfund. En þegar við blasir að með offorsi á að reyna að keyra þetta mál fram með því að halda hér fundi bersýnilega kvöld eftir kvöld segi ég: Mér er nóg boðið. Mér er nóg boðið fyrir hönd forseta Alþingis sem lofaði okkur þingmönnum því að reynt yrði að koma skikkan á þingstörf þannig að menn gætu unnið þau eins og hverja aðra vinnu en þyrftu ekki að vera stöðugt vinnandi hér — þó að ég telji það ekki eftir mér — á tímum sem menn eiga að vera heima og sinna fjölskyldu sinni. Það lagði hæstv. forseti upp með. En ég virði henni það til vorkunnar að hún er fórnarlamb ráðherrafrekjunnar sem hér hefur tekið völdin. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég er ekki að tala hér um einn einstakan hæstv. ráðherra. Ég vil taka skýrt fram að ég tel að hæstv. menntamálaráðherra sé ekkert frekari en aðrir ráðherrar. Hins vegar eru þeir allir þessu marki brenndir, frú forseti. Ráðherrafrekjan, sem er annað orð yfir það sem kalla má ráðherraræði, hefur tekið hér völdin. Framkvæmdarvaldið er farið að hringla með þingið og þrýsta á þingið til þess að koma vilja sínum fram í hvaða máli sem er. En það er þingið sem á að setja sér sínar vinnureglur og þingið er samansett af stjórnarandstöðu og stjórnarliði og það hlýtur að þurfa að finna einhvers konar málamiðlun varðandi þingstörfin.

Hæstv. forseti fann þá málamiðlun í fyrstu ræðu sinni hér og hún hefur sannarlega sýnt vilja. Hún hefur ekki fengið frið fyrir þeirri afskræmingu á þingræðinu sem ég kalla ráðherraræði, og annað orð yfir það er ráðherrafrekja. Af hverju erum við hér til þess að ræða þetta mál, sem er stál í stál og verður erfitt að ná samkomulagi um, sem hæstv. ríkisstjórn tók af eigin hvötum af dagskrá á síðasta vori? Vegna þess að það er hæstv. ráðherra sem, kurteislega orðað, „af dæmafárri ýtni“ þrýstir þessu máli fram, þrýstir því í gegnum þingflokk sinn, þar sem hún vissulega hefur meiri hluta fyrir því. Hún hefur tæpast meiri hluta í stjórnarliðinu, það vita allir að verið er að valtra yfir Framsóknarflokkinn. Ég ætla reyndar að geyma mér þá ræðu.

Frú forseti. Minn punktur er þessi: Það er forsetinn sem á að ráða, (Forseti hringir.) ekki ráðherrafrekjan sem er að taka völdin í þessu þingi.



[22:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hef beðið eftir því um stund að hefja ræðu mína. Ég skorast svo sem ekkert undan því að tala eitthvað inn undir miðnættið úr því að sú hefur orðið niðurstaðan að hafa kvöldfund eins og það mun hafa verið orðað. Í sjálfu sér er ég ekki alveg óvanur því að hér sé fundað á kvöldin eða þess vegna fram á nótt, en það er þá eðlileg og sjálfsögð kurteisi að slíkt sé skipulagt með sæmilegum fyrirvara og menn viti að hverju þeir gangi í þeim efnum. Ég skil kvöldfund þannig að hann standi ekki lengur en fram undir miðnættið, það er ómögulegt að líta á það öðruvísi en svo að þá sé það næturfundur ef farið er þar fram yfir. Það er engin sérstök ástæða til þess að halda kvöldfundi nema þegar þannig háttar til að orðið er knappt um tíma þingsins. Ég verð að segja eins og er að ég man ekki eftir því að gripið sé til kvöldfunda strax á fyrstu eða annarri eða þó að það sé í byrjun þriðju viku þings. Mér er nær að halda að oft hafi 2. umr. fjárlaga undir lok nóvember eða í byrjun desember verið fyrsta meiri háttar kvöld- eða næturumræða sem farið hefur fram á hverju þingi, þannig að hér er eitthvað brotið í blað. Ekki eru nú mörg frumvörp komin frá hæstv. ríkisstjórn þannig að hún ætti ekki að þurfa að fara á taugum þess vegna. Það hefði ekki átt að vera neitt vandamál að koma þessu máli og þessum frumvörpum til nefndar með eðlilegum hætti á virkum dögum.

Það sem vekur sérstaka athygli og er umhugsunarefni í þessu sambandi er sú staðreynd að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. menntamálaráðherra, skuli nú bera þetta frumvarp um Ríkisútvarpið eina ferðina enn á borð, þriðju útgáfu þess frá því að lagt var upp, og að ekki skuli enn takast betur til en svo að um málið er bullandi ágreiningur. Það er mjög ógæfulegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa náð landi í málinu með einhverjum hætti og náð að vinna þannig úr því að um það skapist einhver friður.

Það er óhjákvæmilegt að rifja aðeins upp samhengi þessara mála, þ.e. hvernig til tókst allt frá því að hér skall á fárviðri má segja með fjölmiðlaupphlaupinu mikla á sínum tíma undir forustu þáv. forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, Davíðs Oddssonar, sem leiddi síðan til logandi átaka hér á aukaþingi að sumri um málefni fjölmiðla og sögulegra atburða í íslenskum stjórnmálum, hrikti í innviðum ríkisstjórnarsamstarfs og stór orð féllu um samskipti þings, forsetaembættis, ríkisstjórnar og þjóðar.

Því máli lauk með algjörum ósigri ríkisstjórnarinnar. Því lauk með mjög magnaðri niðurlægingu ríkisstjórnar sem átti að heita að styddist við meiri hluta á Alþingi. Á endanum valdi ríkisstjórnin það sér til lífs — ætli megi ekki orða það þannig — að fella það mál allt saman niður. Hún þorði ekki með það í kosningar eins og stjórnarskráin þó mælir fyrir um.

Þá vöknuðu vonir um að menn hefðu svolítið lært og til stæði að vinna öðruvísi að þessum málum. Sett var á laggirnar fjölmiðlanefnd, það var strax í áttina að vinna þó að málinu með einhverjum þeim hætti að það væri vandaður faglegur undirbúningur. Síðan kom önnur nefnd, sú sem skilaði af sér mikilli skýrslu og þann afrakstur er að uppistöðu til að finna í frumvarpi til laga um breytingu á útvarpslögum sem hér liggur líka fyrir og er 58. mál þessa þings. Leit nú bara heldur betur út með að hugsanlega væri aftur hægt að ná þjóðinni saman og þingi og helstu aðilum þessa máls.

Þá kemur ríkisstjórnin undir forustu hæstv. menntamálaráðherra enn með sín frumvörp um Ríkisútvarpið og sundrar þessu öllu á nýjan leik. Og það sem alvarlegra er, það er valið að láta hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins hafa forgang fremur en að fylgja nú samstöðunni eftir úr fjölmiðlanefnd og klára það mál. Ég verð að segja eins og er að ég undrast eiginlega gæfuleysi eða lánleysi hæstv. menntamálaráðherra í þessum efnum. Það má alveg koma fram hér að ég hef líka í einkasamtölum við hæstv. ráðherra lagt að henni að velja frekar þá leið að ljúka fyrst setningu eða umfjöllun um rammalöggjöf um fjölmiðla og reyna að ná því máli í höfn. Ég tel að það hefði verið skrautfjöður í hatt hæstv. menntamálaráðherra ef hún hefði borið gæfu til að fara þá leið. Það hefði í sjálfu sér ekkert verið lítið á spýtunni ef, eftir öll ósköpin sem búin voru að ganga á í fjölmiðlamálunum, hæstv. ráðherra hefði náð að hafa síðan forgöngu um að ná mönnum saman á nýjan leik og afgreiða nýja rammalöggjöf um fjölmiðla í sæmilegri sátt. Ég sé ekki annað en að hæstv. ráðherra sé að stofna því öllu í uppnám enn á ný með þessari framgöngu. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi mögulega glutrað niður tækifæri til þess að ná þessu í land í fyrravor. Ef Ríkisútvarpsmálið hefði verið látið bíða en fjölmiðlafrumvarpið lagt fram og áhersla lögð á afgreiðslu þess hefði verið fróðlegt að sjá hvað hefði getað komið út úr því — ef ríkisstjórnin hefði ekki lagt niður skottið hér í byrjun júnímánaðar sl. og sent þingið heim, sem til stóð að yrði hér við störf í einhverjar vikur eftir sveitarstjórnarkosningar.

En hvað um það. Allur sá tími sem menn hafa haft til að reyna að sjá að sér í þessum efnum og vinna öðruvísi að málum hefur farið fyrir lítið. Þá veltir maður því fyrir sér: Hvernig stendur á því? Af hverju eru málin föst í þessum farvegi? Ég kem eiginlega ekki auga á neina nothæfa skýringu aðra en þá að Sjálfstæðisflokkurinn er með einhverja meinloku í þessu máli. Það er bara einhver meinloka í ráðandi sveit Sjálfstæðisflokksins, að það skuli breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Þó að engin sérstök rök standi til þess og auðvitað minni en ekki nein og þó það sé pólitískt greinilega og bersýnilega mjög óskynsamlegt. Þó að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra stofni mögulega í hættu og geri út um árangur sem gæti náðst á öðrum sviðum og í þessum málefnum í heild sinni, þ.e. með setningu almennrar fjölmiðlalöggjafar, þá er samt valið að þrjóskast áfram með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Það hlýtur því að vera einhver algjör meinloka sem þar er á ferðum.

Ekki trúi ég að þetta sé sérstakt keppikefli hins stjórnarflokksins. Það er þá að minnsta kosti nýtt ef svo er komið að það sé orðið að hugsjónamáli hjá Framsóknarflokknum að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Það var nú eitthvað annað hér áður. Það er að vísu dapurlegt, og ég mun koma aðeins að því síðar í ræðu minni, hvert andstaðan sem framsóknarmenn einu sinni hugðust halda uppi í þessu máli hefur farið. En við skulum nú samt ætla að það sé nú ekki orðið þannig að það sé orðið sérstakt keppikefli og stefnumál hjá Framsókn að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og undirbúa mögulega alls kyns markaðsvæðingu ef ekki einkavæðingu þess.

Nei. Þá hlýtur þetta að vera eitthvert algerlega kvikusárt meinlokumál hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er auðvitað hægt að velta vöngum yfir því hvernig sambúð Sjálfstæðisflokksins og menningarstofnana Ríkisútvarpsins hefur verið gegnum tíðina. Það er auðvitað orðin mjög skrautleg saga sú 15 ára saga sem Ríkisútvarpið hefur verið í klóm Sjálfstæðisflokksins. Ég hef einhvern tímann orðað það þannig úr þessum ræðustóli, virðulegi forseti, án þess að vera neitt áminntur, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt Ríkisútvarpið í einelti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ástundað mjög sérkennilega húsbóndamennsku í Ríkisútvarpinu í tíð sinna menntamálaráðherra hvað varðar mannaráðningar og fleira á þeim bæ. Það er almennt viðurkennt.

Nú er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafði lengi þá stefnu, a.m.k. harðlínumenn á þeim bæ, að í raun og veru ætti ekki að vera neitt ríkisútvarp. Það var sáluhjálparatriði t.d. hjá ungum sjálfstæðismönnum um árabil að leggja niður eða selja Rás 2. Sjálfstæðismenn hafa í raun og veru iðulega afhjúpað efasemdir sínar um þetta skipulag mála að hér sé rekið opinbert menningar-almenningsútvarp. Það hefur oft mátt ætla af framgöngu sjálfstæðismanna að þeir teldu í raun og veru að Ríkisútvarpið væri ekkert öðruvísi en hver önnur afþreyingarstarfsemi í einkafjölmiðlum og þar af leiðandi gæti þetta einfaldlega verið verkefni hjá markaðnum.

Nú er það að vísu svo að það eru ákaflega falleg orð um annað hér í frumvarpinu. Ég held að sjálfstæðismenn hafi áttað sig á því og kannski gert það upp við sig á einhverju stigi málsins að ekki væri hyggilegt, ekki pólitískt skynsamlegt að hjóla beint í Ríkisútvarpið, bara ganga beint framan að því og koma sem sagt þannig til dyranna. Og þá eru farnar einhverjar svona leiðir. En að láta það vera, láta það í friði og leyfa því að dafna sem eiginlegu ríkisútvarpi, eiginlegri sameign þjóðarinnar í einhverju því rekstrarformi eða þannig sé um það búið sem eðlilegt getur talist með hliðsjón af viðfangsefnunum, það ræður Sjálfstæðisflokkurinn ekki við. Þar kemur einhver meinloka til sögunnar. Niðurstaðan er þessi dapurlega þráhyggja með að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið.

Það er svo undarlegt að í raun og veru koma röksemdirnar gegn því að það sé heppilegt form fyrir Ríkisútvarpið úr báðum áttum, ef svo má að orði komast. Það eru ýmsir góðir og gegnir markaðssinnar og samkeppnisrekstrarsinnar á hægri væng stjórnmálanna sem hafa bent á það með mjög sannfærandi rökum að frá þeirra bæjardyrum séð, út frá þeirra hugmyndafræði sé einmitt vitlaust að þvæla menningarstofnun og almannaþjónustustofnun, eins og Ríkisútvarpið er, inn í samkeppnis- og rekstrarumhverfi. Þetta sé alls ekki svoleiðis viðfangsefni. Það spilli bara fyrir að reyna að troða viðfangsefni af þessu tagi inn í hlutafélagalöggjöfina af því að hér sé augljóslega ekki um eiginlegan og venjulegan samkeppnisrekstur að ræða og alls ekki í ábataskyni. Ríkisútvarpið er ekki rekið til að græða á því. Enda hefði það haft lítið haft upp á sig undanfarin ár. Svoleiðis hefur nú afkoman verið á þeim bænum. Ríkisútvarpið er starfrækt í allt öðrum tilgangi og það má bókstaflega ekki rugla því saman við hefðbundinn atvinnurekstur sem hefur það að meginmarkmiði, stundum kannski eina takmarkinu, að skila eigendum sínum gróða.

Arðurinn af Ríkisútvarpinu er fólginn í blómlegri og þróttmikilli starfsemi þess og að það sinni hlutverki sínu vel. Sá arður er fólginn í því að menningararfur þjóðarinnar sé þar fóstraður og nærður. Almenningur á að geta gengið að traustum, heiðarlegum, hlutlægum fjölmiðli, bæði fréttamiðli og miðli sem miðlar menningarefni og stendur fyrir dagskrárgerð. Styður við bakið á hvers kyns menningarstarfsemi og listsköpun og þar fram eftir götunum, fyrir utan auðvitað ýmis önnur hlutverk sem óumdeilt er að Ríkisútvarpið skuli hafa eins og að dreifa efni til allra landsmanna, sinna því öryggishlutverki sem Ríkisútvarpinu er uppálagt og þar fram eftir götunum.

Nú er það auðvitað ekkert nýtt að málefni Ríkisútvarpsins beri á góma og menn hafi haft hugmyndir um breytingar á starfsemi þess og löggjöf og stjórnsýslu lengi. Það er þó tiltölulega nýtt, og í raun og veru alveg nýtt, að menn ræddu þau mál og að drifkraftur þeirra hugmynda væri að viðskiptavæða eða markaðsvæða starfsemina. Í raun man ég satt að segja ekki eftir því að menn hafi talið að það væri eitthvað sem þyrfti að fást við eða væri tilefni til að gera skipulagsbreytingar gagnvart. Nei, það hafa verið hlutir eins og þeir að Ríkisútvarpið þyrfti að verða sjálfstæðara. Það þyrfti að verða öflugra. Það þyrfti að vera betur hafið yfir mögulega pólitíska íhlutun og pólitíska valdbeitingu, svo maður segi nú ekki pólitíska misnotkun. Menn hafa velt vöngum yfir því, hvernig við getum varið Ríkisútvarpið, slegið skjaldborg um það. Er það það sem er verið að gera hér með þessu frumvarpi? Nei, það er aldeilis ekki. Á margan hátt er verið að fara úr öskunni í eldinn ef þetta nýja stjórnfyrirkomulag Ríkisútvarpsins verður lögtekið.

Það liggur hér annað frumvarp fyrir þinginu, virðulegi forseti, þótt það sé nú ekki á dagskrá, sem er að mínu mati mikil yfirsjón hjá forseta að leyfa ekki öðrum þeim þingmálum sem þegar eru komin fram og meira segja með lægra þingskjalsnúmer, að vera hér að minnsta kosti inni á dagskránni. Ég á hér við 24. mál þessa þings, frumvarp sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum um málefni Ríkisútvarpsins. Frumvarp til breytinga á gildandi lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið. Þar er lögð til allt önnur nálgun hvað varðar stjórnsýslu eða fyrirkomulag í málefnum, bæði rekstrarlegri stjórn og dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins. Þar er verið að reyna að búa um þessa hugsun að mikilvægt sé að Ríkisútvarpið sé hvort tveggja í senn, öflug stjórnsýslueining, þ.e. hvað varðar rekstur og framkvæmdastjórn þar sem helstu yfirmenn koma að málum. Þar sem starfsmenn eiga aðild, þar sem starfsmannalýðræði er í heiðri haft og svo hins vegar mjög öflugt dagskrárráð og að þessum hlutum sé haldið aðskildum. Af hverju er það gert? Vegna þess að sú leið hefur verið farin mjög víða og hún hefur gefist vel, þ.e. að um hina menningarlegu og faglegu ákvörðunarþætti sé búið sérstaklega. Þá er hugsunin slík að þetta er að því leyti eins og fyrirtæki að það þarf að sjálfsögðu að stjórna því, starfsmannahaldi og daglegum rekstri. Það þarf að gera fjárhagsáætlun. Það þarf að starfa samkvæmt henni.

En svo koma aðilar sem spila úr þeim ramma sem til ráðstöfunar er og þar á að vera faglegt sjálfstæði. Þar þarf að geta verið menningarlegur metnaður. Hann má ekki að vera mældur einungis í krónum og aurum rekstrarmanna, peningamanna. Það fylgir því líka heilmikil dínamík, ef svo má að orði komast, heilmikill sköpunarkraftur ef vel tekst til. Að láta þannig kallast á, annars vegar rekstrarlega stjórnun og utanumhald og hins vegar skapandi og frjóa hugsun í sambandi við dagskrárgerð og framleiðslu menningarefnis. Fyrir nú utan að það er langur vegur frá slíku þar sem mikill fjöldi manna, sérfróðra aðila annars vegar á sviði rekstrar og stjórnunar og hins vegar á sviði dagskrárgerðar og menningar koma að málum og hinu að fara þá ótrúlegu leið sem hér er lögð til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Og hver er hún?

Hún er sú, virðulegi forseti, að í raun og veru á að fela einum manni alræðisvald í þessu fyrirtæki. Þessari stofnun sem auðvitað er rangt að kalla fyrirtæki. Ríkisútvarpið er ekkert fyrirtæki í hefðbundnum skilningi þess orðs. Það er nú einn grundvallarfeillinn að nálgast viðfangsefnið þannig. Þetta er í raun og veru menningarstofnun. Þetta er þjóðareign. Þetta er fyrirbæri sem varðar alla, sem allir vilja láta sig varða. Það er angi af mikilli ranghugsun í þessum efnum að reyna að þvinga það inn í ramma venjulegrar hugsunar um einn forstjóra sem síðan ræður og rekur og drottnar og deilir eftir eigin geðþótta.

Ég verð að segja alveg eins og er. Ég er búinn að lesa þetta aftur til að rifja upp hvort þetta væri virkilega svona með stjórnskipulag Ríkisútvarpsins ohf. Það er nú eins gott að hafa þetta rétt. Þetta er svona. Þetta er í alvöru þannig. Eftir allt talið um nauðsyn þess að gera Ríkisútvarpið sjálfstætt og óháð, eftir allt talið um — skyldu það nú ekki stundum hafa verið sjálfstæðismenn sem hafa sett á ræðurnar um hina pólitísku drottnun yfir Ríkisútvarpinu og pólitískt útvarpsráð sem lengi var mikið skammaryrði? En hvað á að gera? Á aldeilis að fjarlægja þetta? Nei. Það á að kjósa fimm manna pólitíska stjórn hér á Alþingi þannig að það verða þá þrír frá meiri hlutanum sem ráða. Þessir þrír erindrekar stjórnarflokkanna eða meiri hlutans á hverjum tíma eiga að ráða eitt stykki útvarpsstjóra sem fær nánast alræðisvald í stofnuninni. Hann, eins og segir í 10. gr., er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ohf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. Hann er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. Það þarf ekki frekar vitnanna við. Einn maður ræður allri dagskrárgerð og ræður eða rekur alla starfsmenn.

Þetta er því eins langt frá öllu sem talist getur dreifræði, talist getur lýðræði, svo maður tali nú ekki um starfsmannalýðræði, og nokkuð getur verið. Það er eiginlega dálítið merkilegt ef ekki er hrollur í einhverjum fleirum en okkur stjórnarandstæðingum yfir því sem þarna á að fara að gera. Finnst mönnum það notaleg tilhugsun að þetta verði svona í þessari mikilvægu opinberu stofnun? Þar sem jafngríðarlega mikilvægt er að menn geti t.d. treyst því að ekki sé blandað pólitík inn í mannaráðningar. Er þá notalegt að það sé einn pólitískt ráðinn útvarpsstjóri? Því það verður hann augljóslega þegar þrír eða þess vegna fleiri mynda meiri hluta í hinu kjörna útvarpsráði, eða hinni kjörnu stjórn Ríkisútvarpsins ohf., og ráða síðan útvarpsstjórann sem fær slíkt alræðisvald.

Nei. Ætli væri þá ekki þess virði að minnsta kosti að velta því fyrir sér hvort ekki væri gott fyrir Ríkisútvarpið að einhvern veginn öðruvísi væri að þessu staðið? Gæti nú ekki verið gott fyrir Ríkisútvarpið að það væri betur varið fyrir þó ekki væri nema tortryggni og ásökunum sem líklegt er að þetta fyrirkomulag bjóði upp á. Menn gleyma því oft að þegar menn eru að velta fyrir sér umbúnaði um hluti af þessu tagi er það ekki endilega vegna þess að menn gefi sér að vald af þessu tagi verði misnotað. Það þarf ekki endilega til. Það getur verið meira en nógu skaðlegt ef tortryggni ríkir um að svo sé. Þess vegna þarf fyrirkomulagið helst að vera hafið yfir vafa í þeim efnum. Ég held að það verði seint hafið yfir vafa ef staðið verður svona að málum ef það liggur nú í loftinu, ef menn hafa það á tilfinningunni að ráðningin sé pólitísk. Það sé fyrir fram ákveðið jafnvel. Þannig að auglýsingar, ef þær verða nú viðhafðar, eða hvað það nú er, séu til málamynda o.s.frv.

Það hefur ekki verið svo lítið af stórbrotnum pólitískum ráðningum hér að undanförnu eða embættaveitingum hjá ríkisstjórn. Það yrði ekkert skrýtið þó þjóðinni dytti það í hug að að minnsta kosti í höndum sömu valdhafa, ef þeim endist aldur til, yrði þetta með svipuðum hætti. Fara menn ekki létt með að ráða rammpólitískt í embætti útvarpsstjóra þegar þannig er ráðið í embætti t.d. seðlabankastjóra? Þó þar standi í lögum að það sé ákaflega mikilvægt að Seðlabankinn sé óháður stjórnvöldum og hann hafi á grundvelli núgildandi laga algerlega sérstaklega valdaða sjálfstæða stöðu gagnvart ríkisstjórn? Það var hugsun allra að það þyrfti að segja skilið við þá tíma að stjórnvöld gátu beinlínis verið með puttana í hagstjórn Seðlabankans. En við vitum nú hvernig ráðið var þar síðast þegar embætti losnaði.

Þannig að þetta fyrirkomulag, herra forseti, er ekki gæfulegt. Ég held að öll rök skorti til að hafa þetta svona. Ef þetta væri fyrirtæki í grimmri samkeppni við að framleiða einhverja staðlaða vöru og það þyrfti að mati manna að geta gripið til harkalegra ráðstafana í starfsmannahaldi sínu, rekið og ráðið á víxl eftir því hvernig sveiflur væru á samkeppnismarkaði með einhvern varning eða einhverja þjónustu, gætu menn sjálfsagt trúað á þannig fyrirkomulag, sótt sér einhver rök í að þar yrði að vera valdamikill forstjóri sem gæti dregið starfsemina sundur og saman og haft hlutina eins og honum hentaði — ráðið og rekið á víxl, deilt og drottnað. Það er að mínu mati ekkert sérstaklega gæfuleg aðferðafræði en sumir trúa á hana.

En þetta er bara ekki svoleiðis starfsemi. Við ætlum Ríkisútvarpinu ekki að vera undirorpið einhverjum átökum og sviptingum dag frá degi og ár frá ári. Það á þvert á móti að vera algjörlega öruggt. Það er mjög mikilvægt að þar ríki stöðugleiki og festa. Þar sé atvinnuöryggi og fólk sé sæmilega tryggt með störf sín. Það verður alltaf þannig að fréttamenn, jafnvel þótt vandaðir og hlutlægir séu fram í fingurgóma, komast ekki hjá því — sérstaklega ef þeir standa fyrir gagnrýnni fréttamennsku sem er jú eitt aðalsmerki góðrar fréttamennsku — að fréttir þeirra séu í bland hæfilega gagnrýnar. Það verður aldrei hjá því komist að um þá blási einhverjir vindar. Þá er mjög mikilvægt að þeir séu vel varðir, að þeir séu öruggir og það sé ekki bara hægt að taka þá úr sambandi.

Hvernig ætla menn að tryggja, ef svona geðþóttafyrirkomulag er orðið innbyggt í lögunum hvað varðar mannahald, að ekki verði meiri hætta á árekstrum af því tagi eða að minnsta kosti tortryggni? Nú tek ég það skýrt fram að að sjálfsögðu er engin ástæða til — og ég er ekki að ræða þetta hér út frá einhverjum einstökum starfsmönnum, hvorki yfirmönnum né fréttamönnum — að lesa út úr þessu einhver skilaboð um þá menn sem þarna eru við störf núna eða þá sem kunna að verða það á næstu missirum. Þetta snýst ekki um persónur eða einstaklinga. Þetta snýst um fyrirkomulag. Þetta snýst um að menn reyni að hafa hlutina þannig að það fyrirbyggi árekstra, fyrirbyggi vandræði og að þeir búi vel um hnútana.

Ríkisstjórnin er með þetta mál sitt þannig úr garði gert að við erum hér í október að ræða um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið og að stofna skuli Ríkisútvarpið ohf. og það taki til starfa 1. janúar nk. Ég verð nú að segja eins og er að mér finnst menn ætla að vera býsna snöggir að drífa í að stofna þetta hlutafélag. Ef við segjum nú kannski að þingið teldi sig geta afgreitt þetta mál í desember, sem mér finnst nú reyndar ólíklegt, ætla menn þá virkilega að hafa það þannig að skella þessu í gang strax um áramótin? Að útvarpsstjóri verði bara rétt að byrja áramótaávarpið þegar hann breytist allt í einu í hlutafélag, og allt sem undir honum er? Nei. Ég hefði talið að það væri þá ástæða til að leggja ferlið eitthvað öðruvísi og betur yfirvegað upp. Og aðra grundvallarbreytingu á að gera. Það eru kannski fyrst og fremst þrír hlutir sem eru langstærstir og veigamestir í þessu máli. Það er formbreytingin yfir í hlutafélag, það er stjórnarfyrirkomulagið og það er tekjustofninn, það er nefskatturinn.

Það mál er svo illa unnið eða umdeilt eða heitt, eða hvað við eigum að kalla það, að það á ekki að reyna að koma því til framkvæmda fyrr en tveimur árum síðar. Nú eru ýmis rök fyrir því að það þurfi að undirbúa. En ríkisstjórnin ætlar ekki að fara í þann storm. En hún telur sig geta dengt Ríkisútvarpinu yfir í hlutafélag kannski bara á nokkrum dögum á jólaföstunni.

Ekki á nú heimanmundurinn að vera glæsilegur satt best að segja. Nú er það svo að Ríkisútvarpið hefur búið við miklar þrengingar í afkomu sinni um langt árabil. Það er í raun sorgarsaga hversu illa hefur verið búið að því. Það hefur alls ekki haft fjármuni handa á milli til að bæta dreifikerfi sitt og byggja sig upp þannig, þjónusta landsmenn betur hvað það varðar. Það eru allt of léleg hlustunarskilyrði víða um landið og sendar lélegir. Þetta þekkja menn. Svo hefur afl Ríkisútvarpsins til metnaðarfullrar innlendrar dagskrárgerðar verið allt of lítið.

Er þá verið að veifa einhverri myndarlegri gulrót í þessu frumvarpi um bætta tíma í þessum efnum? Ekki sé ég það nú. Ég sé ekki betur en að til standi að stofna þetta hlutafélag með 5 millj. kr. í hlutafé. Það eigi að leggja Ríkisútvarpinu til, væntanlega úr ríkissjóði, 5 millj. kr. Afganginn á þá bara að taka úr útvarpinu sjálfu, þ.e. breyta eftir atvikum í hlutafé eða hafa sem dulda eign inni í fyrirtækinu þau verðmæti sem þar eru.

Þó þau séu vissulega mikil í vissum skilningi, þ.e. byggingar, lóðir og annað sem er nauðsynlegt fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins, eru þau í raun og veru óeiginleg verðmæti, þ.e. ef menn ætla ekki að selja þau. Reksturinn og afkoman og það fé sem þar er og þær skuldir sem þar er að finna eru veruleikinn sem menn standa frammi fyrir í hinum daglega rekstri. Nema að ætlunin sé að selja þá eignir og ná upp fé í fyrirtækinu þannig, ná upp haldbæru fé þannig. Þá er náttúrlega heiðarlegra að segja það. Ég held að aðstandendur frumvarpsins verði að skýra betur hvernig þetta á að ganga upp ef þeir ætla að telja einhverjum einasta manni trú um að það verði til góðs fyrir stofnunina að breyta þessu á þennan hátt. Og einhver lítils háttar tekjuauki, sem reiknaður er út í forsendum frumvarpsins hvað varðar álagningu nefskatts frá og með 2009, er nú sýnd veiði en ekki gefin, enda stendur beinlínis í frumvarpinu, eða fylgiskjali með því, að það verði nú að endurreikna það þegar nær dragi.

Ég hef heyrt að sú gulrót sem helst sé veifað framan í einn og einn mann, þegar menn eru teknir undir fjögur augu og rætt við þá um þessa breytingu, sé sú að Ríkisútvarpið fái svigrúm til að hækka kaupið hjá sumum starfsmönnum sínum. En hvar á þá að taka það? Með því að segja öðrum upp? Ekki vaxa peningarnir við að velja út einhverja tiltekna gæðinga og hækka hjá þeim laun? Það er það sem hefur gerst þegar ríkisfyrirtækjunum hefur verið breytt í hlutafélag. Hvað gerðist hjá Pósti og síma? Það var nákvæmlega það sem gerðist. Það rokhækkaði kaupið hjá æðstu yfirstjórn. Þeir fengu fín farartæki og hvað það nú var. En það var þá frekar á kostnað hins að lágtekjufólki var sagt upp á hinum endanum. Er það þannig framfaraþróun sem menn sjá fyrir sér í Ríkisútvarpinu? Halda menn að það verði gott fyrir starfsmannamóralinn? Nei. Ég held að menn þyrftu að gá betur að sér í þeim efnum.

Ég minntist á það fyrr í ræðu minni, virðulegi forseti, að það hefði verið dapurt að sjá Framsóknarflokkinn kokgleypa þessa hlutafélagavæðingu eins og svo margar aðrar. Það þarf nú bráðum að fara að skrifa þessa sögu, áður en Framsóknarflokkurinn er horfinn í meira mæli en orðið er héðan af vettvangi, sá sem ber á þessu ábyrgð. Ég er að tala um þá sem hafa staðið hér fyrir stefnumálum hans undanfarin ár. Þeir hafa verið að týna tölunni hér í þingsölum eins og kunnugt er að undanförnu sumir. Að rifja þetta nú upp hvernig Framsókn hefur staðið eða öllu heldur ekki staðið við stóru orðin í hverju málinu á fætur öðru. Þar sem framsóknarmenn hafa iðulega fyrir kosningar lofað að ekki kæmi til greina að einkavæða þetta eða selja hitt. Ég man í fljótu bragði ekki eftir einu einasta atriði sem hefur staðist, ekki einu einasta atriði.

Það stóðst ekkert af því sem sett var inn í forsendur t.d. frumvarpa um breytingar á fjárfestingalánasjóðum atvinnuveganna sem síðan runnu inn í bankana. Það stóðst ekkert af því. Það stóðust meira að segja ekki greinargerðir stjórnarfrumvarpa þar sem voru gefin, að því er virtist, bindandi loforð um að t.d. yrði eignarhlutur ekki seldur fyrstu fjögur árin. Það stóðst ekki. Hvernig var þetta með Símann? Það var lengi stefna Framsóknarflokksins að ekki kæmi til greina að einkavæða hann. Svo kom millileikurinn. Í ein tvö, þrjú ár var Framsókn með þá stefnu að það kæmi út af fyrir sig til greina að selja Símann en ekki grunnnetið. Það hélt kannski í tvö ár. Gott ef Framsókn fór ekki í gegnum einar kosningar á því varadekki að þeir mundu ekki láta selja grunnnetið. Þið megið treysta okkur með það, sögðu framsóknarmenn kjósendum og margir glöptust. Svo var það auðvitað gefið eftir. Það var kokgleypt.

Hvað er Framsókn búin að segja um Ríkisútvarpið? Það eru ekki nema einhver missiri síðan, ekki mörg, mánuður jafnvel, framsóknarmenn sögðu að það kæmi aldrei til greina að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Þeir töluðu um sjálfseignarstofnun held ég mjög mikið. Svo töldu þeir sig hafa gefið eftir og samþykktu að þetta yrði sameignarfélag. Gott ef þeir hrósuðu sér ekki af því að þeir hefðu náð þeim mikla árangri að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið yrði að hlutafélagi. Það yrði sameignarfélag. Ég held að ég muni eftir svoleiðis ræðu.

En nú er svo komið að Framsóknarflokkurinn er ábyrgur fyrir stjórnarfrumvarpi um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, (Gripið fram í.) opinbert, sem breytir nú ósköp litlu, hv. þingmaður. Því satt best að segja var sú löggjöf, ef löggjöf skyldi kalla, óskaplegt yfirklór. Það hefði vissulega getað skipt máli ef hér hefði verið sett öflug löggjöf sem hefði slegið skjaldborg um opinber fyrirtæki og þá auðvitað fyrst og fremst hugsuð til að búa um fyrirtæki sem eru eiginleg fyrirtæki í venjulegum rekstri en eru í eigu opinberra aðila. Hefði slík löggjöf virkilega skipt máli hefði mátt athuga það. En Ríkisútvarpið hefði eftir sem áður ekkert erindi átt inn í það umhverfi.

Það er ekki einu sinni svo því hún var óskaplega loppin sú löggjöf sem kunnugt er. Snýst aðallega um að menn megi mæta á aðalfundi og bera þar upp spurningar og hvað það nú er.

Þannig er þetta nú því miður að Framsókn er að leka niður í þessum efnum. Er það þá nokkuð skrýtið þó menn séu tortryggnir í ljósi þess hvernig sporin hræða? Í ljósi þess að það hefur aldrei verið neitt að marka svardaga og fyrirheit um að t.d. breytingar í hlutafélög af þessu tagi væru ekki undanfari einkavæðingar. Hér stóð samgönguráðherra í ræðustóli á tíunda áratugnum, hv. þm. Halldór Blöndal, og sór og sárt við lagði að aldrei kæmi til greina að einkavæða Póst og síma. Póstur og sími yrði að vísu gerður að hlutafélagi en það yrði bara eitt hlutabréf í því. Eins og allir sæju þá væri ekki hægt að skipta því. Maður fékk það eiginlega á tilfinninguna að hlutabréfið ætti að vera úr ryðfríu stáli til að ekki yrði hægt að skipta því. En hvað gerðist? Það stóð nú ekki lengi sá svardaginn að ekki yrði hróflað við Pósti og síma. Honum var skipt upp og síðan einkavæddur eins og kunnugt er, þ.e. símahlutinn.

Herra forseti. Það er mjög dapurlegt að svona skuli vera komið með málefni Ríkisútvarpsins. Þetta er stofnun sem er býsna djúpt í þjóðarsál Íslendinga, alla vegana eldra fólks. Því er almennt mjög annt um Ríkisútvarpið enda ólst það upp við að tilkoma þess og uppbygging var stór hluti af menningarlegri og efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar. Gamalt fólk eins og móðir mín rifjar upp sögur af því þegar það reið milli bæja með rafhlöður til að hlaða þær þar sem voru rafstöðvar svo hægt væri að hlusta á útvarpið. Menn lögðu mikið á sig og það voru hátíðisstundir þegar vissir dagskrárliðir voru í útvarpinu.

Ég kynntist líka mörgum góðum starfsmönnum og hef gegnum tíðina kynnst mörgum góðum starfsmönnum af Ríkisútvarpinu og vann þar reyndar sjálfur um skeið. Ég á marga vini sem þar unnu eða átti. Ég held að ég hafi varla í annan tíma upplifað jafnmikla væntumþykju gagnvart sínum vinnustað eins og mjög margir af mætum starfsmönnum Ríkisútvarpsins sýndu. Þeim var Ríkisútvarpið ákaflega hjartfólgið og þeir lögðu mikið á sig fyrir það. Margir þjóðþekktir menn sem unnu þar um áratugaskeið og voru sumir áberandi og fyrirferðarmiklir í þjóðlífinu af ýmsum ástæðum, en áttu það sameiginlegt, þrátt fyrir gjörólíkar skoðanir á mönnum og málefnum og pólitík, að þeir voru allir miklir útvarpsmenn og unnu þeirri stofnun. Þeir hefðu viljað og vilja hafa um hana frið, að hún sé hafin yfir deilur.

Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er, með fullri virðingu fyrir okkar ágæta menntamálaráðherra hæstv., að mér finnst ekki nógu gott að hún skuli lenda í þessu og ekki finna sér einhverja leið í land með málefni Ríkisútvarpsins og hafa það í svona illdeilnafarvegi.

Er það mjög gæfulegt núna rétt fyrir kosningar, herra forseti, að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa þetta þannig? Eigum við þá ekki bara frekar að láta málið liggja og leyfa nýjum þingmeirihluta og nýjum stjórnvöldum að gera aðra tilraun? Að láta á það reyna hvort hægt er að fara leiðir sem tryggja meiri sátt um málefni Ríkisútvarpsins. Það er engum til góðs að hafa þau í bullandi ágreiningi.

Segjum nú að það verði, sem maður sannarlega vonar, stjórnarskipti í landinu næsta vor. Hvað hefur þá hæstv. menntamálaráðherra unnið með því að þræla hér á allra síðustu metrum sínum í embætti og þessarar ríkisstjórnar deilumáli af þessu tagi um Ríkisútvarpið í gegnum þingið? Ég sé það ekki. Ég sé ekki að það geti verið til nokkurs gagns og fyrst og fremst málefnum þessarar stofnunar til ógagns. Menn bera ríkar skyldur hvað það varðar að skapa þessari stofnun starfsfrið og búa sæmilega að henni.



[23:33]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann kom víða við en það sem ég hnaut um voru kannski ekki síst ummæli hans um minn ágæta flokk, Framsóknarflokkinn, og þykir mér eðlilegt að koma upp og svara fyrir það. Reyndar held ég að ég hafi farið í andsvör við flesta hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls og mun því endurtaka svör mín eina ferðina enn og gefst ekkert upp í því.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á málefni Símans. Þó að ég hafi ekki setið á þingi þegar allt það ferli fór í gegn — ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel — þá var það þannig að ekki var kveðið á um það í lögum að Síminn skyldi ekki verða seldur, eins og gert er í 1. gr. þessa frumvarps til laga um Ríkisútvarpið. Mér finnst það vera mjög veigamikið atriði og því er ekki rétt að blanda þessum tveimur málum saman.

Ég veit að þegar þessi umræða var á byrjunarstigi í mínum flokki og á flokksþingi okkar árið 2001 var t.d. ályktað um Símann, með leyfi forseta:

„Að ekki komi til sölu Símans fyrr en tryggt hefur verið að þessi markmið nái fram“ — þ.e. markmið um að fjármagni verði varið til að byggja upp dreifikerfi um landið.

Það er nákvæmlega það sem menn stóðu var vörð um að gera. Það er því ekki rétt að segja um Framsóknarflokknum í þessu máli að sporin hræði, við stöndum við orð okkar. Ég vildi koma þessu á framfæri vegna þess að hv. þingmaður var að líkja þessu ferli við sölu Símans.



[23:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er auðvitað sá að í raun og veru er sama hvað menn setja inn í lög eða hvort menn setja ekkert inn í lög um að það megi eða megi ekki selja hlut í opinberu fyrirtæki, Alþingi getur alltaf breytt því. Það vald verður aldrei frá Alþingi tekið að breyta lögum.

Það sem skiptir máli er að það liggi skýr og heiðarlegur pólitískur vilji fyrir um hvað menn ætla sér. Það sem ég var að gagnrýna er að menn hafa sett alls konar hluti inn í lög eða greinargerðir með stjórnarfrumvörpum í þægindaskyni og til þess að reyna að auðvelda sér að koma málum í gegn og svo hefur aldrei staðið til að standa við það. Það er veruleikinn sem einkavæðingarferlið er varðað af og það eru þau spor sem hræða í þessum efnum.

Nú man ég ekki hvernig það var með Símann í byrjun eða Póst og síma, hvort það stóð jafnvel þar, sem er auðvitað tátólógía og út í loftið að setja inn í lög, að það mætti ekki selja nema með sérstöku samþykki Alþingis, sem aldrei má hvort sem er. Það er náttúrlega eins og hver önnur vitleysa þegar menn hafa gripið til þess að setja slíkt inn en það hefur stundum verið gert. Hér stendur að það sé óheimilt að selja og það er nákvæmlega eins lagabreytingarvinna og hver önnur að koma með frumvarp og segja: Þrátt fyrir ákvæði í 2. málslið 1. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. er heimilt að selja þetta eða gera hitt. Það er bara eitt frumvarp hér í gegn. Menn verða auðvitað að átta sig á þessu.

Varðandi Símann, af því að hv. þingmaður nefndi hann í andsvari og var að hrósa því hve Framsókn hefði staðið vel að því máli í samræmi við ályktanir frá 2001. Hver er nú reynslan? Í fyrsta lagi hefur einkavæðing Símans leitt af sér einkavædda einokun, einkavædda fákeppni með grenjandi klögumálum um gjaldskrármál. Í öðru lagi liggur fyrir að gjaldskrárnar hafa stórhækkað á Íslandi á sama tíma og þær lækka í nágrannalöndunum. Það er nú árangurinn sem snýr að neytendum. Og í þriðja lagi hefur enn ekkert gerst þrátt fyrir loforðin um að styrkja dreifikerfið, um að bæta fjarskiptin. Það er ekki einu sinni komið af stað (Forseti hringir.) fyrsta útboðið sem fara á í í þeim efnum.



[23:38]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fá að svara þessu þar sem umræða okkar er farin að snúast um Símann. Það er nú ekki alveg rétt sem hv. þingmaður segir um að ekkert hafi gerst í því að byggja frekar upp dreifikerfið vegna þess að við vitum að það eru nokkur svæði, t.d. í okkar ágæta kjördæmi, þar sem dreifikerfið hefur verið bætt aðeins, ég get til að mynda minnst á Jökuldalinn og uppi á Háreksstaðaleið. En ég ætla ekki að fara nánar út í það vegna þess að ég ætla ekki að fara að verja allt sem Síminn hefur verið að gera upp á síðkastið, en það má líka minna á það sem hann var alls ekki að gera áður en hann var seldur.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að fyrir liggi fyrir hver vilji stjórnmálamanna er varðandi Ríkisútvarpið þegar farið er með það í gegnum svona ferli. Ég vil meina að fyrir liggi skýr vilji stjórnvalda um að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið. Það er enginn pólitískur vilji fyrir því að selja það. Örfáir þingmenn hafa talað fyrir því á hinu háa Alþingi og þeir eru í miklum minni hluta, til að mynda vill enginn í mínum þingflokki selja Ríkisútvarpið. Það eru örfáir aðilar innan Sjálfstæðisflokksins og ég veit ekki um neinn innan stjórnarandstöðunnar.

Ég held að þessi skýri vilji liggi fyrir: Ríkisútvarpið er ekki til sölu og verður ekki. Ég sagði það í fyrri andsvörum mínum í dag að eins og markaðurinn hefur verið að þróast og umhverfið á fjölmiðlamarkaði þá er ríkisrekinn fjölmiðill að styrkja sig og það mun verða svo í framtíðinni, ég er alveg handviss um það. Ég ítreka því að það er enginn pólitískur vilji fyrir sölu á Ríkisútvarpinu.



[23:39]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég dáist að elju hv. þingmanns að standa í því að reyna að svara fyrir Framsóknarflokkinn linnulaust í þessari umræðu. Það er ekki öfundsvert hlutskipti og hv. þingmaður á heiður skilið fyrir úthaldið í þeim efnum, það er aðdáunarvert. Mér finnst hins vegar að hv. þingmaður ætti, af því að nú liggur fyrir að hv. þingmaður hyggst ekki bjóða sig fram á nýjan leik að vori, að eyða síðustu mánuðum sínum á Alþingi í eitthvað uppbyggilegra en það að reyna að verja hlut Framsóknarflokksins í þessum málum, að láta frekar liggja vel á sér og ræða um eitthvað skemmtilegt.

Varðandi þetta með Símann og síðan Ríkisútvarpið, að þar sé ólíku saman að jafna og það sé engin hætta á að sú saga endurtaki sig. Ja, hver veit það? Er ekki verið að gera það sem gæti átt eftir að reynast mjög afdrifaríkt og misráðið, að setja Ríkisútvarpið í söluumbúðir? Það er verið að því, það er verið að setja það í söluumbúðir. Það er t.d. verið að opna möguleika fyrir einkavæðingu tiltekinna hluta og þátta starfseminnar út um bakdyrnar. Alvaldurinn, útvarpsstjórinn, fær mikið svigrúm til að úthýsa starfsemi. Hvað gæti orðið eftir á Ríkisútvarpinu ef vindar blésu þannig á þeim bæ, kannski með stuðningi menntamálaráðherra sem lýsti velþóknun sinni og blessun yfir því að starfsemi væri úthýst og selt undan fyrirtækinu þetta og hitt þannig að eftir stæði að lokum kannski bara gamla gufan tiltölulega berstrípuð? Menn gætu sagt: Ja, þetta er Ríkisútvarpið, sem væri kannski ekki orðið neitt neitt.

Það geta margar hættur legið í þessu og það er opnað á þær allar með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, að setja það í þessar söluumbúðir. Þar í liggur hin mikla ábyrgð Framsóknar hvað sem um málið má segja að öðru leyti.



[23:42]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vildi ganga úr skugga um hvort ekki standi til að ljúka þessum fundi hér og nú. Þessi umræða er búin að standa nær linnulaust frá því klukkan fjögur eða fimm sennilega. Hér var haldinn kvöldfundur gegn mótmælum stjórnarandstöðunnar og við höfum ekki fengið það nákvæmlega skilgreint hvað kvöldfundur þýðir en samkvæmt okkar skilningi gengur hann ekki inn í næsta sólarhring, það er alveg ljóst. Klukkan er að verða tólf á miðnætti, vantar 16 mínútur í tólf. Ræðutími í 1. umr. eru 40 mínútur, þannig að það er ljóst að næsti ræðumaður gæti farið með umræðuna vel inn í næsta sólarhring. Ég tel ekki forsvaranlegt að halda fundinum áfram og óska eftir svörum frá hæstv. forseta við þeirri fyrirspurn minni hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að fundi verði slitið núna.



[23:43]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill geta þess að stefnt hafði verið því að hafa umræður fram eftir kvöldi og forseti hugðist leitast við að ljúka a.m.k. einni ræðu til viðbótar af mælendaskrá áður en fundi yrði slitið.



[23:44]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau mótmæli sem hv. þm. Ögmundur Jónasson bar hér fram fyrir hönd sameinaðrar stjórnarandstöðu í þessu máli. Við höfðum ekki fyrir okkar leyti fallist á að hér væri yfir höfuð kvöldfundur. Ég tel að það sé algjörlega fráleitt að hefja þingveturinn með þessu offorsi.

Ég virði hins vegar viðleitni hæstv. forseta til þess að reyna að ná friði og spekt í þessum sölum og það gleður mig þegar hæstv. forseti segir að það hafi verið ætlunin að halda fundi fram eftir kvöldi. En þó að ég dáist að glæstu málfari hæstv. forseta og beri engar brigður á að hann hafi kannski mörgum öðrum fremur gott skyn á hvað felst í íslensku orðtaki þá verð ég að leyfa mér í fullri vinsemd að leita eftir því að hæstv. forseti skýri út hvað felist í því sem kalla má hugtakið „fram eftir kvöldi“. Nú er að koma miðnætti.

Við höfum mörgum sinnum í kvöld leitað eftir því að fá upplýsingar frá hæstv. forseta meðan aðalforseti sat hér í stólnum um það hversu lengi ætti að halda fram þessum fundi. Við fengum engin skýr svör við því. Nú má hins vegar segja að þessi viðleitni okkar hafi þokað málinu nokkuð fram. Hæstv. forseti hefur lýst yfir vilja sínum til þess að halda fundi fram eftir kvöldi. En hann hefur ekki talað nógu skýrt eins og þó er jafnan einn af hans mörgu kostum. Hvað felst í því sem hæstv. forseti segir? Hvenær lýkur kvöldi hans?

Nú verð ég að segja það af nokkuð sárri reynslu að sá skilningur sem sá hæstv. forseti sem nú situr í stólnum hefur stundum lagt í kvöld er í fullkominni andstöðu við þann skilning sem ég öðlaðist í uppeldi mínu á því hugtaki. Nú hallar langt í nótt, herra forseti, og ég vildi mjög gjarnan fá gleggri upplýsingar um það hversu lengi þetta kvöld, sem hæstv. forseti nefndi í sinni ágætu tölu áðan, stendur. Er það til klukkan tólf, er það til klukkan eitt eða tvö? Ekkert af því sem fram fór á fundum þingflokksformanna og forseta þingsins í dag, í kvöld og reyndar áður, fól það í sér að þess væri að vænta að menn mundu ræða þetta óþurftarmál inn í nóttina. Ég, a.m.k. fyrir mitt leyti og Samfylkingarinnar, segi það alveg skýrt að það var gegn mótmælum mínum sem þingflokksformanns Samfylkingarinnar og ég vil líka segja það alveg skýrt að það kemur ekki til mála af okkar hálfu að hér verði annar kvöldfundur annað kvöld bara til þess að hlaupa eftir dyntum ráðherra sem þurfa af (Forseti hringir.) einhverri hégómagirni að koma málum fram.



[23:47]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir orðalaginu hjá hæstv. forseta þegar hann sagði að hann hefði haft í hyggju að veita einum hv. þingmanni til viðbótar orðið í kvöld, hann hefði haft í hyggju að gera það og ráðgert það.

Nú hefur það hins vegar gerst að fulltrúar tveggja stjórnarandstöðuflokka, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — ég veit ekki betur en ég hafi einnig heyrt hv. fulltrúa Frjálslynda flokksins biðja um orðið áðan nema mér hafi misheyrst — hafa óskað eftir því að þessum fundi verði lokið núna og frekari umræða verði ekki í kvöld. Ég spyr hæstv. starfandi forseta Alþingis hvort þessar óskir okkar verði teknar til greina eða þær virtar að vettugi.



[23:48]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að koma hér upp stutt til að mælast til þess að hæstv. forseti íhugaði það að fara að slíta fundi. Klukkuna vantar tíu mínútur í tólf á miðnætti. Margir þingmenn eru í húsinu og fylgjast með umræðum en þurfa að mæta á nefndarfundi í fyrramálið kl. 8.30. Mörg okkar eiga um langan veg að fara heim, a.m.k. sum okkar. Ég tel að þetta sé orðið ágætt í kvöld. Þingið hefur nægan tíma til stefnu til að sinna störfum sínum. Við erum rétt að hefja þriðju þingvikuna. Eins og komið hefur fram hjá mjög þingreyndum mönnum í okkar hópi, til að mynda hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, eru það mikil fádæmi ef ekki algert einsdæmi að slegið skuli á bæði kvöldfundum og næturfundum strax í upphafi máls. Ef ég man rétt er númerið á málinu sem við ræðum í kvöld, þ.e. frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf., mjög lág tala, þingskjal 56. Ég held því að það yrði mjög góður svipur á þinginu að við einsettum okkur að ljúka þingfundi nú um miðnætti og geta síðan frekar haldið áfram störfum okkar og rætt þetta blessaða frumvarp, sem hefði kannski betur aldrei komið inn í þingið, á morgun eftir hádegi. Þingfundur hefst á morgun kl. 13.30 með utandagskrárumræðu og síðan myndum við þá taka til óspilltra málanna.

Ef við tökum eina ræðu í viðbót, sem ég reikna með að taki 40 mínútur, erum við sennilega til a.m.k. 20 mínútur í eitt og síðan taka þá eflaust við andsvör þannig að þeim umræðum mundi þá sennilega ekki ljúka fyrr en tíu mínútur í eitt. Klukkan tifar ansi hratt en nóttin hefur ekki marga tíma. Ég mundi vilja beina þessum orðum mínum til virðulegs forseta um það hvort hann vildi ekki íhuga að fara að slá botninn í þetta.



[23:51]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti hefur hlýtt á ræður hv. formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar og í von um að það verði til að greiða fyrir störfum þingsins telur forseti rétt að fresta þessari umræðu og halda henni áfram á morgun.