133. löggjafarþing — 14. fundur
 18. október 2006.
fötluð grunnskólabörn.
fsp. JóhS, 103. mál. — Þskj. 103.

[14:02]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram opinberlega að deilur eru milli ríkis og sveitarfélaga um greiðsluþátttöku þessara aðila í kostnaði vegna lengdrar viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Um er að ræða lengda viðveru í grunnskólum hjá fötluðum börnum 10–16 eða 18 ára. Ágreiningurinn snýst um hvort lengd viðvera falli undir lög um málefni fatlaðra eða almenna þjónustu sveitarfélaga við grunnskólabörn. Svo virðist sem komin sé upp alger pattstaða. Það gengur ekki því að á meðan líður fjöldi fatlaðra einstaklinga, en opinberlega hefur verið nefnt að um sé að ræða 370 fatlaða einstaklinga, foreldra þeirra og aðstandendur sem þurfa jafnvel að minnka við sig vinnu vegna þessara kerfisdeilna ef svo má kalla það.

Það er ólíðandi að deilur milli ríkis og sveitarfélaga bitni með fullum þunga á hundruðum fatlaða grunnskólabarna og foreldrum þeirra. Ekki er deilt um hvort þörfin sé fyrir hendi heldur um það hvort það sé hlutverk ríkis eða sveitarfélaga að veita þessa þjónustu og síðan hvað hún kostar. Ef lagaákvæði eru óljós á strax að breyta þeim.

Ríki og sveitarfélög greinir líka á um útgjöldin vegna þessarar þjónustu sem ríkið metur á rúmlega 100 millj. kr. en sveitarfélögin meta á nær 200 millj. kr. Ríkið vill setja hámark á greiðslurnar og greiða einungis samanlagt 50–55 millj. kr. og inni í því er 45 millj. kr. kostnaður sem þegar er greiddur vegna lengdrar viðveru fatlaðra barna á sjálfseignarstofnunum sem hagsmunasamtök fatlaðra reka, eins og Lyngás. Ríkið virðist því einungis vera tilbúið til að leggja fram 10 millj. kr. af heildarkostnaði á bilinu 100–200 millj. kr. sem lengd viðvera 10–16 ára fatlaðra barna kostar og auðvitað er um að ræða óskir um enn lengri viðveru eða að minnsta kosti fram til 18 ára aldurs.

Þetta er að mínu viti, virðulegi forseti, óviðunandi ástand sem verður að leysa og það strax. Ef þarf að breyta lögunum þá á að gera það og ef það eru deilur um hvað þessi þjónusta kostar — og það ber verulega í milli ríkis og sveitarfélaga í því efni — þá hefði ég talið að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að skera úr því með því að fá óvilhallan aðila eins og Ríkisendurskoðun eða einhvern sambærilegan aðila til þess að meta með hlutlausum hætti hvað þessi þjónusta kostar. Síðan á auðvitað bara að skipta því á milli ríkis og sveitarfélaga þar til komin er niðurstaða í þetta mál, þ.e. lagalega, hvorum megin þetta á að liggja kostnaðarlega séð. En það er óviðunandi, virðulegi forseti, að þessi kerfisdeila skuli bitna á fötluðum börnum og foreldrum þeirra meðan stjórnvöld geta ekki hoggið á þennan hnút. (Forseti hringir.) Ég spyr því hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að leysa þessa deilu sem upp er komin.



[14:05]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðar fötluð grunnskólabörn á aldrinum 10–16 ára. Með lengdri viðveru er átt við dægradvöl og aðstoð við heimanám sem veitt er grunnskólabörnum eftir að skólastarfi lýkur um kl. 1 og stendur til kl. 17 hvern skóladag. Fyrir liggur að hluti þeirra barna sem hér um ræðir nýtur þegar þjónustu ýmist hjá hagsmunasamtökum með greiðsluþátttöku ríkisins, hjá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra sem starfræktar eru á vegum ríkisins eða á vegum sveitarfélaga.

Varðandi yngri grunnskólabörnin á aldrinum sex til níu ára sem eru í fyrsta til fjórða bekk þá stendur þeim almennt til boða að fá þessa þjónustu hjá sveitarfélögum. Ekki skiptir þó máli hvort um fötluð eða ófötluð börn er að ræða.

Í 1. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, segir að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6–16 ára og í 27. gr. sömu laga segir að sveitarstjórn geti boðið grunnskólanemendum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma. Í því felast engin sérstök tímamörk eða takmörk réttara sagt fyrir sveitarfélög hvað varðar umfang, form og fyrirkomulag þjónustu. Sveitarfélögum er falið að móta hana og útfæra. Í dag bjóða sveitarfélögin almennt upp á lengri viðveru fyrir grunnskólabörn á aldrinum sex til níu ára. Þá skiptir ekki máli hvort um fötluð eða ófötluð börn er að ræða. Þó liggur fyrir að erfiðleikar við mönnun á þjónustunni hafa sett hér strik í reikninginn.

Eins og skýrt kemur fram í 7. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, skal ávallt leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þá segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna að einungis eftir að í ljós hafi komið að hinn fatlaði hafi þörf fyrir aðra þjónustu en þá sem rúmast innan almennra laga skuli honum veitt þjónusta samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

Hæstv. forseti. Í mars 2005 var skipaður starfshópur til þess að fjalla um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum ráðuneyta og sveitarfélaga auk þess sem sérfræðingar frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Tryggingastofnun ríkisins og fulltrúi notenda komu að vinnunni. Starfshópurinn hélt alls 19 fundi og skilaði síðan af sér áfangaskýrslu með tillögum og greiningu hópsins þann 17. ágúst síðastliðinn. Starfshópurinn lagði til að gert yrði bráðabirgðasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um að lengd viðvera fatlaðra grunnskólabarna yrði tryggð áfram. Samhliða yrðu lög um málefni fatlaðra endurskoðuð og settur yrði skýr rammi þannig að skilgreina mætti hlutverk og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga enn betur þegar kæmi að lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Reynt var að komast að samkomulagi um kostnað og kostnaðarskiptingu verkefnisins og var af hálfu ríkisvaldsins lagt fram tilboð um framlag ríkisins til verkefnisins.

Tilboð ríkisins byggðist á tilteknu fjármagni auk þess að reiknuð voru með núverandi framlög ríkisins til þeirra sjálfseignarstofnana og hagsmunasamtaka sem sjá um þjónustu við fötluð grunnskólabörn og jafna má við lengda viðveru. Hið sama á við þá starfsemi sem svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra veita og jafna má við lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Núverandi framlög til þessa kæmu þannig til frádráttar útreiknuðum greiðslum ríkisins til lögheimilissveitarfélags.

Sveitarfélögin hafa fram að þessu ekki viljað samþykkja þetta tilboð ríkisins en ég get upplýst hv. fyrirspyrjanda um það hér og nú að ég tel að lausn sé nú í sjónmáli. Ég hef litið á þetta mál sem forgangsmál sem okkur, bæði ríki og sveitarfélögum, beri að leysa. Ég hef þó ítrekað fundað með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málsins bæði fyrrverandi og núverandi formönnum og óskað eftir ítarlegri upplýsingum af þeirra hálfu um hugsanlegan heildarkostnað.

Síðast í gær áttum við afar gagnlegan fund þar sem mikill samhljómur var um málið. Allir málsaðilar eru sammála um nauðsyn þess að úrræði þetta standi fötluðum unglingum og foreldrum þeirra til boða og mér finnst ófært að óljósar upplýsingar um kostnað og framboð á þörf og þjónustu í dag standi í vegi fyrir því að þeir sem það kjósi fái þessa þjónustu. Fyrir þann fatlaða og fjölskyldu hans skiptir engu máli hvaða opinber aðili veitir þjónustuna eða greiðir fyrir hana. Mestu skiptir að hún sé veitt þannig að fjölskyldan geti lifað sem eðlilegustu lífi í sínu samfélagi.

Hæstv. forseti. Ég er bjartsýnn á að gengið verði frá samkomulagi á milli ríkisins og sveitarfélaganna sem tryggir umrædda þjónustu fyrir fötluð grunnskólabörn innan skamms. Það verðum við einfaldlega að gera og til þess stendur fullur vilji beggja aðila. Það fullyrði ég.



[14:10]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Foreldrar fatlaðra grunnskólabarna eiga við það óviðunandi ástand að stríða að fá ekki gæslu fyrir börn sín að loknum skóladegi. Hvernig bregðumst við við? Jú, málið er í nefnd í eitt og hálft ár og það er enn þá óleyst.

Ég fagna þeim vilja sem lýsir af orðum nýs félagsmálaráðherra og treysti því að orð hans hér um að samkomulag sé innan seilingar standi og eftir þeim verður gengið í þinginu. En ég hlýt líka að kalla eftir því að við tryggjum þessum börnum og unglingum réttinn til þessarar þjónustu með lögum en undirseljum þau ekki samningum eða velvild sveitarfélaganna og ríkisins á hverjum tíma. Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að hafa forgöngu um þær lagabreytingar og fullvissa hann um að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan mun liðka fyrir afgreiðslu slíks máls í þinginu.



[14:11]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Allir eiga að vera jafnir. Lengd viðvera eða svokallaðar frístundamiðstöðvar fyrir grunnskólabörn sem ekki geta séð um sig sjálf að loknum skóladegi hefur öðlast fastan sess í þjóðfélagi okkar. Hugmyndin að þessu fyrirkomulagi tengist upphaflega jafnréttissjónarmiðum, að gera báðum foreldrum kleift að vinna utan heimilis. Þessi þjónusta á að ná til allra, jafnt fatlaðra sem ófatlaðra. Ríki og sveitarfélög verða að koma sér saman um hverjir eiga að greiða kostnaðinn því áralöng deila bitnar á þeim sem síst skyldi.



[14:12]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra svörin. Það er hverju orði sannara sem hæstv. ráðherra segir að það er ófært að óljósar upplýsingar um kostnað eða hver eigi að standa að þessari þjónustu, standi í vegi fyrir því að þessi þjónusta sé veitt. Fötluð börn og foreldrar þeirra hafa beðið ansi lengi. Það er ansi langt nefndarstarf að það taki eitt og hálft ár að komast að niðurstöðu um það hvernig eigi að taka á málinu.

Hæstv. ráðherra upplýsir að lausn sé í sjónmáli og það innan skamms. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þetta samkomulag. Má ekki líta svo á, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hafi hér verið að lýsa því yfir að samkomulag sé í höfn milli ríkis og sveitarfélaga? Ég spyr um það. Hefur samkomulag náðst bæði varðandi kostnaðarhliðina og varðandi það hvernig staðið skuli að lagabreytingu þannig fyrir liggi hvort ríki eða sveitarfélög eigi í framtíðinni að standa undir þessu eða hvort ríki og sveitarfélög eigi að gera það sameiginlega? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við eigum von á frumvarpi inn í þingið til að tryggja réttinn með lögum þannig að það liggi alveg fyrir að ekki verði eilífar deilur um þetta frá ári til árs, þ.e. að þetta mál verði leyst til frambúðar og fatlaðir og foreldrar þeirra geti gengið að því vísu að þeir fái þessa sjálfsögðu þjónustu. Ég spyr: Hvenær fæst þessi niðurstaða? Þurfum við að bíða eftir að frumvarp verði lagt inn í þingið eða verður viðunandi lausn fyrir þessa aðila fundin strax? Ef ég skil málið rétt þá fá ekki fötluð börn núna á aldrinum frá 10–16 ára neina þjónustu. (Forseti hringir.) Þess vegna bið ég hæstv. ráðherra um skýrari svör við spurningum mínum.



[14:14]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af því sem hér hefur komið fram og byggir á gögnum, þ.e. hver fjöldi viðkomandi barna er sem hér um ræðir, þá vil ég taka það fram að það hefur komið út úr þeirri vinnu sem unnin hefur verið að það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hversu mikill fjöldi barna mundi nýta sér þessa þjónustu. Það er einn af þessum óljósu þáttum í þessu.

Síðan er hitt að sum sveitarfélög veita þessa þjónustu á sínum forsendum þannig að ef við horfum yfir allt sviðið þá er þetta mál alls ekki einhlítt. Það er mjög mismunandi hvernig á þessu er tekið. Ríkið er að leggja ákveðna fjármuni í að veita tilteknum hópi þessa þjónustu. Ég nefni dæmi að Reykjavíkurborg gerir það einnig þannig að þetta er ekki mjög einfalt mál.

Ég vil segja frá því að verið er að vinna að endurskoðun á lagaumhverfinu í þessu máli og ég vona svo sannarlega að því ljúki sem fyrst. En ég vil líka segja að mér finnst persónulega þetta mál dæmi um mál sem er á hinu gráa svæði sem liggur á milli ríkis og sveitarfélaga og segir okkur kannski hversu mikilvægt sé að fá hreinar línur í þessa verkaskiptingu. Ég nefni það hér að mér finnst þetta gott dæmi um hversu mikilvægt sé að skerpa þessar línur til fá á hreint þessa verkaskiptingu. Við höfum verið að ræða þetta bæði hjá félagsmálaráðuneyti og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég geri ráð fyrir að við munum fara í gegnum þá umræðu núna fljótlega hvað varðar hugsanlegan flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. En það er allt of snemmt að segja til um það reyndar núna.

Hv. þingmaður spurði um samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Ég get því miður ekki upplýst um það á þessari stundu. Ég sagði frá því í minni fyrri ræðu að við áttum fund síðast í gær um málið og ég er mjög bjartsýnn á að okkur takist að leysa þetta mjög fljótlega.