133. löggjafarþing — 16. fundur
 19. október 2006.
almenn hegningarlög, 1. umræða.
stjfrv., 20. mál (kynferðisbrot). — Þskj. 20.

[13:51]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Frumvarpið er samið að frumkvæði mínu af Ragnheiði Bragadóttur prófessor og felur í sér endurskoðun á ákvæðum laganna um eftirtalin brot: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, kynferðisbrot gegn börnum og vændi.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi í kjölfar kynningar bæði á heimasíðu ráðuneytisins og umræðu í málstofu í Háskóla Íslands. Frumvarpið er nú lagt fram óbreytt og er það von mín að það verði samþykkt á Alþingi á þessu löggjafarþingi. Ég mun því ekki hafa framsöguræðu mína langa því að ég tel að þingmönnum sé vel ljóst hvað í frumvarpinu felst.

Helstu nýmælin eru:

Lagt er til að hugtakið nauðgun verði rýmkað mjög frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að önnur kynferðisnauðung og misnotkun á bágu andlegu ástandi og því að þolandinn getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans teljist nauðgun. Við það munu brot þessi varða mun þyngri refsingu en nú er, eða fangelsi frá einu ári og allt að 16 árum í stað fangelsis allt að sex árum.

Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um nokkur atriði sem verka skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir nauðgun. Eitt þeirra er ungur aldur þolenda.

Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni.

Í þriðja lagi að refsing fyrir samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára verði þyngd og verði refsimörkin hin sömu og fyrir nauðgun, þ.e. fangelsi frá einu ári og allt að 16 árum. Með því er lögð áhersla á hve alvarleg þessi brot eru þegar þau beinast gegn börnum og tel ég þá nauðgun og kynmök við börn yngri en 14 ára alvarlegustu kynferðisbrotin í stað nauðgunar einnar áður.

Í fjórða lagi að lögfest verði ákvæði um heimild til refsilækkunar eða refsibrottfalls ef sá sem gerist sekur um samræði eða önnur kynferðismök gagnvart barni yngra en 14 ára er sjálfur á svipuðum aldri og þroskastigi og barnið.

Í fimmta lagi að upphaf fyrningarfrests kynferðisbrota miðist við 18 ára aldur brotaþola en ekki 14 ára eins og nú er. Refsihámark fyrir kynferðislega áreitni gegn börnum verði hækkað þannig að brot gegn yngstu börnunum munu fyrnast á lengri tíma en samkvæmt núgildandi lögum.

Í sjötta lagi að ákvæði 1. mgr. 206. gr. um refsingu fyrir að stunda vændi sér til framfærslu falli niður. Þess í stað verði lögfest ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[13:54]
Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú hefur hæstv. dómsmálaráðherra mælt að nýju fyrir frumvarpi um breyting á almennum hegningarlögum og varðar málið fyrst og fremst kynferðisbrot. Þetta er ekki nýtt af nálinni og ég veit að mjög spennandi tímar eru fram undan í hv. allsherjarnefnd við að fara í gegnum það. Líka vil ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir afar gott vinnulag í málinu, þ.e. að standa fyrir umræðum, fá umsagnir í gegnum netið og annað til að styðja það besta í málinu og sjá í rauninni hvar mætti gera betur. Ég vil því fagna þessu nýja vinnulagi.

Ég veit að frumvarpið mun klárast hjá okkur í hv. allsherjarnefnd og í rauninni er allt gott í þessu frumvarpi. Auðvitað er það svo að sumir vilja ganga aðeins lengra í vissum málum, t.d. um fyrningarfrestinn í kynferðisafbrotum, hvort hann eigi að vera þannig að enginn fyrningarfrestur sé. Jafnframt þekkjum við öll umræðuna um sænsku leiðina varðandi vændið. Það munum við ræða í hv. allsherjarnefnd og kalla til sérfræðinga og fá skýrslur.

Ég er mjög ánægð með að ekki sé lengur brotlegt að selja líkama sinn því það er í rauninni fyrst og fremst félagslegur vandi sem á að mæta með félagslegum úrræðum. Því fagna ég mjög að við skulum vera komin þangað. Ég hef alla tíð talað fyrir því að þetta yrði tekið úr hegningarlögunum.

Það er gríðarlega margt sem er gott í frumvarpinu. Ég vil minnast á t.d. kynferðislega misnotkun varðandi einstaklinga í bágu ástandi. Ég hef unnið mjög lengi meðal fatlaðra og auðvitað hafa komið upp tilfelli á slíkum stofnunum. Gerðar hafa verið um það skýrslur, sem eru trúnaðarmál, en auðvitað hefur þetta gerst hér eins og alls staðar annars staðar í heiminum. Þessi mál eru því mjög vandmeðfarin og mjög mikilvægt að þyngja allar refsingar í slíkum tilfellum.

Mér finnst líka afar jákvætt að kynfrelsi fólks sé virt. Nauðgun er mjög alvarlegur glæpur og mjög alvarlegt mál og tekið er á því í frumvarpinu. Í því er falin ákveðin virðing við þá sem í því lenda.

Ég hef tekið það upp margoft á Alþingi í sambandi við vændið að við megum ekki gleyma ungu drengjunum sem lenda í því. Við munum reyna að halda þeirri umræðu dálítið til haga í nefndinni til að tryggja að málefni ungra drengja í nauðgunarmálum séu líka uppi á yfirborðinu, þó svo að í 99% tilfella séum við yfirleitt að tala um konur. Ég er því mjög ánægð með að við séum ekki alveg að fara aftur með því að kynleysa, þ.e. að tala um karla og konur í sama vetfangi, það er afar brýnt.

Ég tel einnig afar mikilvægt að setja inn, og spurning hvort það yrði þá gert í greinargerð eða í nefndaráliti, þennan gríðarlega mikilvæga stuðning við það unga fólk sem gerist brotlegt gagnvart enn yngri börnum. Þá er ég að hugsa um hlutverk Barnaverndarstofu, sem er gríðarlega mikilvægt þar. Slík mál koma til kasta hennar þar sem þau ungmenni eru send eða fá meðferð í gegnum þær stofnanir sem á hennar vegum eru. Við þurfum einmitt að ræða hvort við verðum ekki að fastsetja meðferðina í lögum.

Að fyrningarfresturinn miðist við 18 ára aldur en ekki 14 ára eins og er í lögunum — við þekkjum umræðuna um hvort yfir höfuð eigi að vera fyrningarfrestur í mjög alvarlegum kynferðismisnotkunarmálum og sifjaspellsmálum. Þetta er umræða sem við munum taka og ég bendi í því sambandi á undirskriftasöfnun hjá samtökunum Blátt áfram. Þetta eru hópar sem við þurfum að styrkja með öllum þeim ráðum sem okkur eru möguleg.

Ég lít svo á að ég þurfi ekki að setja á langa ræðu. Þetta er afar spennandi og brýnt mál, alvarlegt eins og ég sagði, og við þurfum að gera það vel. Ég veit að hv. allsherjarnefnd mun gera það og við gerum þá ekki annað en að koma með breytingartillögur um það sem okkur finnst ganga of skammt. En ég vil fagna frumvarpinu enn einu sinni.



[14:00]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það sé svo sem ekki þörf fyrir að hafa langa umræðu um þetta mál núna, enda tókum við umræðu um það í vor er leið þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu í byrjun apríl síðastliðnum.

Það sem mig langaði að segja hér í ræðustól er eingöngu að ítreka þau sjónarmið mín að hér er afar margt fært til betri vegar og mikill fengur að þeim breytingum sem verið er að gera. Líka er verulegur fengur að þeirri greinargerð sem fylgir með frumvarpinu, því að hér er afar vel útskýrt á hvern hátt frumvarpshöfundur kemst að þeim niðurstöðum sem komist er að og rökstuðningur fyrir þeim breytingum sem verið er að gera þar af leiðandi mjög góður. Það er auðvitað alltaf til bóta þegar svo er. En eins og kunnugt er, og hæstv. ráðherra tók fram, tók Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, að sér að semja þau frumdrög sem unnið hefur verið með. Ég kann henni miklar þakkir fyrir því eins og ég sagði hefur hún farið mjög vel í saumana á erfiðum lagaákvæðum og að mörgu leyti náð góðri lendingu.

Þó eru nokkur atriði sem ég veit að eiga eftir að verða til umfjöllunar í nefndinni. Það eru t.d. atriði sem varða breytingarnar á 194. gr. laganna, ákvæði er varða kynfrelsi og þá ekki síst kynfrelsi kvenna. Það sem hefur verið gagnrýnt þar er að enn skuli verknaðaraðferðin skipta jafnmiklu máli og raun ber vitni, þ.e. að í fyrstu setningu frumvarpsgreinarinnar skuli vera tekið fram að til að nauðgun geti talist nauðgun þurfi ofbeldi eða hótanir að koma til. Engu að síður er þó hugtakið útvíkkað að ýmsu leyti í greininni þar sem ákveðið er að til ofbeldis teljist sömuleiðis svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum, eða með öðrum sambærilegum hætti. Sömuleiðis er í 2. mgr. greinarinnar talað um að það sé einnig nauðgun og varði sömu refsingu og mælt er fyrir í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök.

Það sem er mikilvægt í þessum efnum er auðvitað að rétturinn til kynlífs sé á hreinu og hver það er sem í raun og veru gefur samþykki sitt til kynmakanna. Það kemur fram í greinargerðinni að lönd hafi farið ólíkar leiðir í þessum efnum, norrænu löndin hafi farið aðrar leiðir en hin engilsaxnesku. Það er auðvitað rétt að menn hafa verið að skilgreina þetta út frá ólíkum sjónarmiðum en mér finnst skipta verulegu máli að skilgreiningin sem við nýtum okkur hér á landi verði sú sem í sjálfu sér gerir það kynlíf að nauðgun sem ekki hefur legið samþykki fyrir. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við eigum eftir að fara verulega vel yfir.

Réttarvernd barna er aukin til mikilla muna í þessu frumvarpi og er það auðvitað vel. Varðandi fyrningarfrest kynferðisbrota gerði ég þá játningu hér í ræðustóli í vor að ég hefði snúist fram og til baka í því máli og get gert þá játningu aftur. Það þvælist enn fyrir mér hvort hér sé gengið nógu langt eða hvort hér sé um hina einu réttu leið að ræða. Enn hneigist ég til þess að þetta sé í öllu falli til verulegra bóta en ég áskil mér enn rétt til að skoða hvort ég telji þar með að nóg sé að gert.

Virðulegi forseti. Að lokum eru hér ákvæði er varða vændi. Ég hef lýst yfir ánægju minni með að hæstv. ráðherra skuli leggja til að aflétt sé refsingu af þeim sem leiðast út í vændi, að refsinæmi þess verknaðar að selja aðgang að líkama sínum sé í sjálfu sér aflétt. Hins vegar hefði ég viljað fara aðrar leiðir varðandi kaup á vændi. Ég hefði viljað sjá það lagt til í þessu frumvarpi að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð og þar með yrði ábyrgðin af vændinu sett á herðar þeim sem býr til eftirspurnina en ekki þeim sem leiðast út í að selja líkama sinn.

Þetta segi ég hér vegna þess að ég hef verið frumkvöðull að flutningi frumvarps varðandi það að gera kaup á vændi refsiverð. Ég hef ekki lagt fram sjálfstætt þingmál á þessu þingi varðandi þá leið en kem til með að láta á það reyna innan nefndarinnar þegar umfjöllun um málið fer fram hvort sátt náist um að gera breytingartillögu við þetta frumvarp í þeim efnum. Ég kem því til með að reyna að beita mér fyrir því áfram að sænska leiðin verði farin og það verði gert refsivert að kaupa vændi.

Ég tel að nefndin eigi mikla vinnu fram undan við þetta mál og treysti því auðvitað og veit að hv. formaður nefndarinnar kemur til með að stýra þeirri vinnu vel og af röggsemi eins og hans er von og vísa. Ég geri ráð fyrir að við komum til með að kalla talsvert af gestum fyrir nefndina sem koma þá til með að varpa frekara ljósi á þau sjónarmið sem uppi eru í þessum vandmeðfarna málaflokki.



[14:06]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einungis hafa örfá orð við 1. umr. þessa máls og þá fyrst og fremst til að fagna því að það sé komið fram og lýsa þeirri skoðun minni að þetta er eitt af þeim málum sem við hljótum að þurfa að stefna að að klára á þessu þingi.

Eins og fram hefur komið og getið er um í greinargerð með frumvarpinu er þetta frumvarp lagt fram óbreytt frá fyrra þingi. Ekki vannst tími til þess á fyrra þingi að fullvinna málið í nefnd og taka það til efnislegrar umfjöllunar enda ýmis álitamál í málinu. Það eru ýmis álitamál reifuð í greinargerð með frumvarpinu og það er einmitt ástæða til að fagna því hversu ítarleg og greinargóð greinargerðin er sem fylgir málinu.

Það liggur fyrir að ágreiningur er í þinginu um einstök atriði varðandi hvaða leiðir eigi að fara þegar kemur að kynferðisbrotakafla hegningarlaganna sem hér er verið að taka til endurskoðunar. Eins og fram hefur komið í umræðunni á þetta við um vændi og um kynferðisbrot gegn börnum. Jafnvel á þetta við um nauðgun, þ.e. hvernig við viljum hafa verknaðarlýsinguna í hegningarlögunum.

Ég vil almennt vara við því að menn endurskilgreini ofbeldishugtakið. Mér hefur þótt bera dálítið á því í umræðu um hegningarlögin að hitt og þetta sé talið ofbeldi, að rýmka þurfi ofbeldishugtakið og jafnvel leggja í það einhvern nýjan skilning sem áður hefði ekki verið gert í ljósi rannsókna eða annars þess háttar. Ég held að mikilvægt sé að við höldum okkur við hefðbundna skilgreiningu á ofbeldi þó að ýmislegt kunni að hafa komið fram við rannsóknir sem gefi ástæðu til að bæta við atriðum og gera refsivert það sem áður hefur kannski ekki fallið undir verknaðarlýsingu í hegningarlögunum. Þetta á til að mynda við um nauðganir og þess vegna fagna ég því að í þessu máli er nauðgunarhugtakið rýmkað eins og fram kemur í greinargerðinni.

Ég vonast til að almennt geti orðið einhugur um það á þinginu að vinna þessu máli framgang. Ég held að þetta mál komi fram á réttum tíma. Það kemur fram í kjölfar þó nokkuð mikillar umræðu um kynferðisbrot gegn börnum, um vændi, um nauðganir og hvernig við eigum að taka á þeim brotum í hegningarlögunum. Þess vegna er það fagnaðarefni og ég held að það hafi verið mjög skynsamlegt hjá dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að kynferðisbrotakafli hegningarlaganna væri allur tekinn til endurskoðunar í einu eins og hér er gert og það er mjög vel.

Ég vek líka athygli á að í greinargerð með þessu máli eru tekin þau sjónarmið sem hafa verið uppi vegna allra þessara brota og þeim er velt upp. Það er ekki dregin fjöður yfir eitt eða neitt og öll sjónarmið sem hafa almennt verið í umræðunni eru tekin til umfjöllunar í greinargerðinni og krufin til mergjar. Hlutirnir eru vegnir og metnir og komist að niðurstöðu. Þetta er afar skýrt. Þetta er mjög gagnlegt fyrir þá vinnu sem við eigum fyrir höndum og við munum að sjálfsögðu leita álits og umsagna hjá umsagnaraðilum eins og venja er til. Ég skal ekkert útiloka að fleiri sjónarmið en þau sem reifuð eru í greinargerðinni komi þá fram en ég held að það sé engu að síður afar gagnlegt að málinu sé stillt fram með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Ég hlakka til þeirrar vinnu með nefndinni sem nú fer í hönd.