133. löggjafarþing — 17. fundur
 31. október 2006.
jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla, 1. umræða.
frv. KolH o.fl., 9. mál (upplýsingaskylda, málshöfðunarréttur). — Þskj. 9.

[15:01]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Er þetta mál eitt af þeim málum sem stjórnarandstaðan á Alþingi ber fram sameiginlega í upphafi þessa haustþings.

Frumvarpið byggist á þremur málum sem öll hafa verið flutt á Alþingi áður af stjórnarandstöðuflokkunum Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Flutningsmenn þessa frumvarps, þegar þessi mál hafa verið sameinuð í eitt, eru auk mín hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Málin þrjú sem hér eiga í hlut er í fyrsta lagi mál sem ættað er frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem felur í sér tæki til að framfylgja lagaskyldu um jöfn laun karla og kvenna. Síðan eru tvö frumvörp frá Samfylkingunni, annað varðar afnám launaleyndar og hitt varðar úrskurði kærunefndar jafnréttismála, þ.e. að þeir verði bindandi.

Í greinargerð með þessu frumvarpi má lesa rökstuðning sem ég renni yfir í stuttu máli. Þar ber fyrst að nefna hugmyndir varðandi launaleynd en það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að launaleynd er eitt af þeim atriðum sem virðist hafa fest í sessi landlægan og kerfisbundinn launamun milli kynjanna. Það má færa rök að því að launaleyndin stangist á við jafnréttislög þar sem hún getur beinlínis stuðlað að lögbroti, þ.e. broti á þeim lögum sem hér um ræðir, ef hún er þess valdandi, sem kannanir sýna ítrekað, að viðhalda launamun kynjanna.

Þessi launaleynd hefur tíðkast lengi án þess að látið hafi verið reyna á lögmæti hennar. Við sem flytjum þetta mál teljum rétt að taka af öll tvímæli um að það sé skýlaus réttur launamanns að veita hverjum sem er, hvenær sem er, upplýsingar um laun sín og önnur starfskjör ef hann svo kýs. Við teljum að þessi réttur þurfi að vera lögbundinn þannig að ljóst sé að hann verði hvorki af launamanni tekinn með starfs- eða ráðningarsamningi né á nokkurn annan hátt.

Við vitum öll sem í þessum sal sitjum að það eru 45 ár síðan fyrstu lögin um launajafnrétti kynjanna tóku gildi. Það var árið 1961 sem fyrsta lagasetning þess efnis var sett á Alþingi og við sjáum það í afar nýlegri könnun hversu hægt hefur miðað. Í könnun sem félagsmálaráðuneytið lét gera og birtar voru upplýsingar um í fjölmiðlum hinn 20. október sl. kemur í ljós að kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði hefur ekkert breyst undanfarin 12 ár, frá því að síðasta viðamikla könnun í þessum efnum var gerð. Launamunurinn eykst stöðugt hjá einkafyrirtækjunum og til marks um það að við teljum launaleyndina geta verið virkan þátt í því má auðvitað geta þess að launaleynd og samningar sem binda launamenn trúnaði um launagreiðslur eru fremur gerðir hjá einkaaðilum. Það leiðir af sjálfu sér þar sem kjarasamningar opinberra starfsmanna gera ekki ráð fyrir að launaliðirnir fari leynt.

Það er auðvitað alvarlegt mál sem taka þyrfti til ítarlegrar umfjöllunar að í niðurstöðu þeirrar könnunar sem félagsmálaráðuneytið lét gera kemur í ljós að í einkafyrirtækjunum eru hæstu dagvinnulaun með aukagreiðslum á klukkustund næstum því 26 sinnum hærri en þau lægstu. Það kemur líka í ljós að munurinn á hæstu og lægstu launum karla er miklu meiri en munurinn á hæstu og lægstu launum kvenna hjá einkafyrirtækjum. Sömuleiðis má nefna að munurinn hjá opinberu stofnununum er talsvert minni en hjá einkafyrirtækjunum eða innan við tífaldur og þar er jafnframt meiri munur á hæstu launum kvenna en karla.

Það er ljóst að ef taka á á þessum málum af alvöru verður að beita ráðum sem virka. Það kemur í ljós þegar hæstv. félagsmálaráðherra tjáir sig um þessi mál að hann telur brýnasta verkefnið í jafnréttismálunum að leiðrétta þennan landlæga launamun milli kynjanna. Hann segir að niðurstöður þessara rannsókna hafi valdið sér miklum vonbrigðum. Hann tiltekur að það sé auðvitað jákvætt að konur virðist samkvæmt könnuninni hafa sýnt meiri dugnað upp á síðkastið við að sækjast eftir stöðuhækkunum og hann segir líka að stjórnendur séu eftir því sem fram kemur í henni líklegri en áður til að hvetja konur til að sýna frumkvæði í starfi og koma fram fyrir hönd fyrirtækjanna. Hins vegar viðurkennir ráðherrann að þetta skili sér ekki í launaumslagi kvennanna. Hann tekur þannig til orða að nú þurfi allir að bretta upp ermarnar eina ferðina enn, hæstv. félagsmálaráðherra, sem ekki hefur verið sami einstaklingurinn undanfarin 12 ár en er núna hv. þm. Magnús Stefánsson, segir: Við viljum útrýma þessum launamun. Nú er það svo að það hefur verið vilji ríkisstjórna frá árinu 1961. Það hefur verið vilji Alþingis sem Alþingi hefur reynt að leiða í lög en lagasetningin virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Mér finnst að ekki hafi verið tekið nægilega hraustlega á og við sem erum aðstandendur þessa frumvarps leggjum til leiðir sem eiga að vera öflugri en þær sem menn hafa talið sig hafa tök á að beita í þessum efnum hingað til.

Þá er ég komin að öðrum þætti í þessu frumvarpi sem varða tæki til handa Jafnréttisstofu sem hefur ákveðnu hlutverki að gegna til að reyna að ná þessum launamun niður og reyna að leiðrétta hann en hún hefur hingað til ekki haft þau tæki í höndunum sem að okkar mati eru nægileg eða duga til að skipta sköpum í baráttunni. Gert er ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að Jafnréttisstofa geti hafið rannsókn og gagnaöflun að eigin frumkvæði að mótteknum kvörtunum eða í kjölfar kæru til kærunefndar jafnréttismála. Þetta eru heimildir sem væru svipaðar þeim heimildum sem mælt er fyrir um í skattalögum, í samkeppnislögum og lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi og okkur flutningsmönnum frumvarpsins þykir í raun og veru veigameiri rökin fyrir því að veita Jafnréttisstofu sambærilegar heimildir til að hægt sé að tryggja konum þau mannréttindi sem konur eiga bundin í stjórnarskrá. Í 5. gr. þessa frumvarps er því mælt fyrir um að settur verði jafnréttisfulltrúi í fyrirtæki og stofnanir, bæði í einkafyrirtæki og opinberar stofnanir. Það teljum við vera í anda heimilda og þeirra úrræða sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. gildandi laga um skipun jafnréttisfulltrúa hjá sérhverju ráðuneyti og hlutverk þeirra. Þó er mælt fyrir um aukin verkefni jafnréttisfulltrúa hjá einkafyrirtækjum.

Það hefur komið í ljós í umræðum um þessi mál að það sé mat sérfróðra aðila um jafnréttismál og sömuleiðis virðast tölfræðilegar upplýsingar sýna það að staða kvenna hjá einkafyrirtækjunum sé talsvert verri en hjá ríki og sveitarfélögum og jafnréttisáætlanir, hvort heldur er einkafyrirtækja eða ríkis og sveitarfélaga en kannski fyrst og fremst einkafyrirtækja, virðast vera haldlitlar og þær skila að engu leyti þeim árangri sem til var ætlast. Þar er bæði kynbundinn launamunur og munur á heildartekjum karla og kvenna meiri en í opinbera geiranum. Sömuleiðis má auðvitað nefna að valdaleysi kvenna í stjórnum einkafyrirtækja, einkum stórfyrirtækjanna, er auðvitað sláandi og það endurspeglar ekki að neinu leyti menntun kvenna, hæfni þeirra eða reynslu, sem er líka alvarlegur hlutur og verður að taka til umfjöllunar þegar þessi mál eru rædd.

Eins og ég sagði áðan eru starfsmenn ríkis og sveitarfélaga kannski betur settir vegna þeirra réttinda sem þeir njóta samkvæmt kjarasamningunum. Þeir njóta meiri verndar en starfsmenn á almenna markaðnum gegn mismunun, samkvæmt stjórnsýslulögum og samkvæmt upplýsingalögum sem ekki hafa verið færð yfir á einkarekstur eins og vitum. Auðvitað er það hættulegt í hvaða átt stefnir í þessum efnum þegar haldið er á spöðunum eins og ríkisstjórnin gerir varðandi hlutafélagavæðingu opinberra stofnana og fyrirtækja og einkavæðingu opinberra stofnana og fyrirtækja því allt ber þetta að sama brunni: Ef fyrirtækjum eða stofnunum er kippt undan upplýsingalögum og stjórnsýslulögum eru líkur á að launaleyndin fari að gera vart við sig. Þar af leiðandi náum við ekki að brúa þennan kynbundna launamun.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að sami háttur verði hafður á við skipun og tilnefningu í nefndir, ráð og stjórnir ríkis og sveitarfélaga og er við tilnefningar á skipun í Jafnréttisráð. Lagt er til að tilnefningaraðilar tilnefni einn karl og eina konu þannig að veitingarvaldið hafi þar val og geti við það gætt þess að hlutfall kynjanna verði sem jafnast. Með lögfestingu þessarar tillögu má ætla að það heyri sögunni til að nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga verði eingöngu eða að miklum meiri hluta skipaðar körlum og er sannarlega mál til komið.

Að lokum geri ég grein fyrir þeim þætti frumvarpsins sem varðar kærunefnd jafnréttismála en þar er um að ræða mál sem kemur upphaflega frá Samfylkingunni eins og ég sagði áðan og var 1. flutningsmaður þess hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Hún hefur sem kunnugt er gert hér að umræðuefni oftar en einu sinni málefni sem varða kærunefnd jafnréttismála og að nauðsynlegt sé að gera úrskurði kærunefndarinnar bindandi. Eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um réttindi kvenna hefur gagnrýnt Ísland fyrir að niðurstöður kærunefndarinnar skuli ekki vera bindandi, sérstaklega þegar stjórnvöld eiga hlut að máli. Nefndin hefur gert það að tillögu sinni í skýrslu til íslenskra stjórnvalda að álit kærunefndarinnar verði bindandi og er það skýrt nánar í greinargerð á hvern hátt verkefni kærunefndar jafnréttismála eru. Sömuleiðis er að finna í greinargerðinni upplýsingar frá kærunefndinni um fjölda erinda og afdrif þeirra í stuttu yfirliti. Stjórnvöldum ber auðvitað skylda til að sjá til þess að jafnréttislögum sé framfylgt. Það er kunnara en frá þurfi að segja og þarf ekki að ítreka það úr þessum ræðustóli. Jafnréttislög kveða á um það að jafnréttissjónarmiða skuli gætt á öllum sviðum samfélagsins og unnið sé að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku. Reynslan sýnir að ákvæðið um kærunefndina virkar ekki eins og til var ætlast, því að veruleg brögð eru að því að álit nefndarinnar sé ekki virt. Þetta frumvarp er flutt til að reyna að bæta úr þeirri brotalöm. Þess ber að geta að Norðurlöndin hafa vakið athygli víða um heim fyrir framsýni og baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og þau hafa öll kappkostað að ganga eins langt í löggjöf og hægt er til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna. Með samþykkt þessa frumvarps væri framkvæmd þessa ákvæðis jafnréttislaga okkar fært nær því sem er annars staðar á Norðurlöndunum og teljum við vera mál til komið.

Loks má geta þess að á vorþinginu 2004 var frumvarp sem var að mestu leyti um sama efni tekið til 1. umr. Því máli var vísað til félagsmálanefndar. Nefndin fjallaði því miður ekki um málið eins og oft gerist en engu að síður viljum við taka fram að það hlýtur að vera sameiginlegur vilji þeirra sem starfa í félagsmálanefnd og okkar á þinginu, sem viljum auðvitað fara að lögum, að tekið sé á þessum málum svo eftir verði tekið. Það er enn brýnni nauðsyn á þeim úrræðum sem þetta frumvarp felur í sér nú en nokkru sinni fyrr því að við getum ekki haldið öllu lengra áfram inn á 21. öldina með öll þessi mál í þeim ólestri sem raun ber vitni. Það hefur ekkert þokast í þjóðfélaginu í átt til launajafnréttis á síðustu árum, við vitum öll að verið er að fremja mannréttindabrot á konum með viðvarandi kynbundnum launamun og sömuleiðis með áberandi fákvenni í nefndum, stjórnum og ráðum og það breytist ekkert því lengra sem við höldum áfram á þessari braut. Þetta verður meira óþolandi og sýnilegra eftir því sem tímarnir líða og það er auðvitað hjákátlegt þegar ríkisstjórnin hefur yfirlýst markmið og er að fara eftir samþykktri jafnréttisáætlun að ekkert skuli þokast varðandi breytingar. Það þokast ekkert í átt að útrýmingu launamunarins og sáralítið í átt að jafnrétti við opinbera stefnumótun.

Það er athyglisvert þegar litið er yfir umfjöllun fjölmiðla núna síðustu daga vegna þeirrar könnunar sem ég gat um áðan að atvinnurekendur virðast ekki hafa sömu áhyggjur og við í stjórnarandstöðunni af þessari þróun eða staðreyndum sem ég nú hef rakið. Þannig vekur það athygli þegar Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 20. október að rannsóknir hafi sýnt að óútskýrður launamunur — sá óútskýrði launamunur sem fram kemur í könnuninni sem ég gat um — eigi sér efnislega skýringar en sé ekki kerfisbundin kynjamismunun.

Þetta er afar athyglisvert og stangast á við þær fullyrðingar okkar stjórnarandstöðuþingmanna sem höldum því einmitt fram að þessi launamunur sé kerfisbundinn. Það hlýtur að vekja athygli þegar frammámaður úr atvinnulífinu kemur fram með þessi sjónarmið. Þetta vekur upp hugsunina um það að almenni vinnumarkaðurinn virðist, ég veit ekki hvort ég á að segja sætta sig við, eða alla vega gera afar lítið í því að reyna að færa mál hér til betri vegar. Það sýnir sig þegar við skoðum muninn á þessum málum annars vegar hjá á opinbera geiranum og hins vegar hjá almenna geiranum eða einkageiranum.

Í Viðskiptablaðinu 25. október síðastliðinn skrifaði Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Femínistafélagsins, afar athyglisverða grein þar sem hún heldur því fram að miðað við núverandi hraða við það að minnka launamun kynjanna muni karlar og konur njóta sömu launa fyrir sömu störf eftir 628 ár. Ég spyr þingheim: Finnst okkur þetta ásættanlegt? Ég ætti auðvitað að spyrja ríkisstjórnina og stjórnarþingmenn, þingmenn stjórnarflokkanna: Finnst ykkur þetta ásættanlegt? Finnst þeim þetta ásættanlegt sem stjórna hér, fara fyrir ríkisstjórn í landinu og styðja ríkisstjórnina? Finnst þeim ásættanlegt að það skuli eiga eftir að taka okkur 628 ára í viðbót með sama hraða að jafna þennan launamun? Við í stjórnarandstöðunni höfum talað skýrt í þessum efnum. Okkur finnst þetta ekki ásættanlegt.

Við viljum grípa til úrræða sem virka, úrræða sem ríkisstjórnin hefur veigrað sér við að grípa til hingað til. Við vitum það öll að baráttan fyrir launajafnrétti er ekkert að hefjast í dag eða í fyrradag og hún hófst ekki heldur 1961 þegar fyrstu lögin sem bönnuðu launamun á grundvelli kynferðis voru sett. Baráttan fyrir launajafnrétti hefur staðið í yfir 100 ár. Hvað ætla menn að láta þá baráttu hér úti á akrinum halda áfram lengi? Við kjósum þingmenn til starfa á Alþingi Íslendinga á fjögurra ára fresti. Stjórnmálaflokkarnir fara allir fram með fögur fyrirheit. En þeir stjórnmálaflokkar sem nú fara fyrir ríkisstjórninni og hafa farið fyrir þessari ríkisstjórn síðan 1995 eru vita gagnslausir í þessum efnum. Svo móðgast hæstv. félagsmálaráðherra sem sýnir okkur hv. þingmönnum ekki einu sinni þá tillitssemi að vera viðstaddur umræðuna. Hann móðgaðist þegar ég um daginn leyfði mér að segja fullum fetum í þessum ræðustóli að ríkisstjórnin sé vita gagnslaus í þessum málum. Þá var hann í orðaskiptum við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þessara brota á lögum um jafnan rétt karla og kvenna og það mátti vart orðinu halla við hann. Hann, eins og ég segi, „fornemast“ við það að maður leyfi sér að tala hér tæpitungulaust. En staðreyndirnar tala sínu máli í þessum efnum. Ríkisstjórnin er liðónýt í baráttunni við launamun kynjanna.

Eitt af því sem verður að hafa í huga þegar við skoðum þessi mál er að ekki er allt sem sýnist varðandi launamun sem við nú erum að fjalla um, sem er u.þ.b. 16% eftir því sem könnunin leiðir í ljós og uppsláttur fjölmiðla sýnir þjóðinni. Staðreyndin er sú að búið er að leiðrétta heilan helling áður en þessar tölur, 16%, verða til eða koma í ljós. Hvernig rökstyð ég það? Jú, heildarmyndin, sem sagt óleiðréttur launamunur kynjanna, fæst með því að skoða muninn á atvinnutekjum karla og kvenna, þ.e. tekjum samkvæmt skattframtali og samkvæmt þeim tölum sem ég er hér með nýjastar — þær eru frá 2004 — er munurinn á atvinnutekjum karla og kvenna 63% árið 2004.

Við þetta hafa oft verið gerðar athugasemdir, þ.e. að verið sé að leiðrétta launamuninn og tala hann niður úr 63% niður í 16%. Meðal fræðimanna sem hafa tekið á þessum málum er Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hún sagði í grein í Morgunblaðinu fyrir ári síðan, 2. nóvember 2005, að umræðan hafi snúist talsvert um forsendur og aðferðafræði kannananna og það hvernig mælt sé eða með hvaða aðferðum og hvernig beri að túlka niðurstöðurnar, en minna sé fjallað um hinn raunverulega mun sem sýnir sig þegar atvinnutekjurnar eru skoðaðar hráar. Þær tölur sýna einföldustu nálgunina, segir Þorgerður, og í þeim er ekki tekið tillit til vinnutíma, ekki tekið tillit til þess að konur og karlar sinni ólíkum störfum. Kosturinn við að skoða atvinnutekjur er að mati Þorgerðar sá að þær sýna mismunandi vinnuframlag kynjanna í launaðri og ólaunaðri vinnu í samfélaginu. Konur vinna mikla ólaunaða vinnu inni á heimilum landsins sem allt þjóðfélagið nýtur góðs af en kemur hvergi fram í þjóðhagsreikningum og telst þeim aldrei til tekna. Atvinnutekjurnar sýna því hvað konur og karlar bera úr býtum launalega fyrir vinnuframlag sitt í þjóðfélaginu.

Þegar farið er að leiðrétta launamuninn með tilliti til þeirra þátta sem menn telja vera málefnalega er skoðaður vinnutími, menntun, starfsaldur og fleira í þá veruna. Eftir slíka skoðun eru laun kvenna ekki eins miklu lægri en karla. En þá spyr maður sig: Hvers vegna ætti maður að draga þessa þætti frá eða láta þessa þætti hafa áhrif því að þetta eru kannski bara hinar eiginlegu kynjabreytur? Það sem við þurfum að leiðrétta í samfélaginu eru hlutir eins og þeir að konur hafi í auknum mæli mannaforráð í störfum sínum, að konur hafi í auknum mæli þau störf sem lúta að stjórn fyrirtækja, stjórn í rekstri, að þær fái yfirmannastöður. Þá fengjum við út miklu réttari mynd eða miklu sanngjarnari mynd en við fáum þegar við skoðum þetta með leiðréttum breytum.

Þorgerðar Einarsdóttur, sem ég nefndi áðan, er getið í grein sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudaginn var þar sem fjallað er um launamun kynjanna og hina 45 ára löngu baráttu frá því 1961 að því markmiði að reyna að jafna þennan mun. Vitnað er í Þorgerði í þeirri grein þar sem hún segir að þessar skýribreytur svokölluðu séu umdeildar og eigi að vera það því að skýribreyturnar skipti grundvallarmáli. Almennt gildi að því fleiri skýribreytur sem teknar eru inn í reiknilíkön launakannana því meira má skýra af launamun kynjanna.

Vitað er að margir þættir hafa áhrif á laun án þess að geta talist málefnalegar skýribreytur. Þannig hafa hjúskaparstaða og barneignir tilhneigingu til að hækka laun karla en neikvæð eða engin áhrif á launamun kvenna. Fræðimenn hafa gagnrýnt að þessar breytur séu notaðar sem skýribreytur og að líta beri á þennan mun sem mismun í launasetningu. Þá hefur verið gagnrýnt að nota málaflokka eða starfssvið sem skýribreytu því vitað er að kvennastörf eru verr metin til launa en karlastörf. Það er merki um kerfislæga mismunun og gildismat á störfum öðru kyninu í óhag. Með því að taka slíka breytu sem málefnalega skýribreytu inn í reiknilíkan er horft fram hjá samfélagslegri kynjun og fyrri mismunun. Þar með er í raun verið að skýra kynbundinn launamun í burtu með þáttum sem orsaka hann. Færð hafa verið fyrir því margvísleg rök að of langt hafi verið gengið í leit að skýribreytunum, segir Þorgerður Einarsdóttir, þar sem vitnað er til orða hennar í Morgunblaðinu um síðustu helgi.

Þetta er alvarlegt og til umhugsunar í þessari umræðu og sýnir okkur að launamunurinn er talsvert meiri þegar grannt er skoðað en þessi 16% gefa okkur tilefni til að ætla. Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft sýni þær umræður, sem hafa verið í blöðum og fjölmiðlum upp á síðkastið um þessi mál og í sölum Alþingis ár eftir ár, á hverju einasta ári, það er árvisst fjallað um þessi mál hér, að karlveldið lifir góðu lífi á Íslandi og því miður eru afar fá sýnileg merki um að það sé á undanhaldi. Það er í mínum huga mjög alvarleg staðreynd. Ég held að ég láti það verða lokaorð mín í þessari flutningsræðu minni að hvetja þingheim til að vakna af þyrnirósardvala, viðurkenna að þau tæki og aðferðir sem menn hafa beitt hingað til eða sagst vera að beita til þess að fást við launamun kynjanna séu vita gagnslaus, fara að hlýða á hugmyndir stjórnarandstöðunnar sem eru vel útfærðar í þessu frumvarpi og leyfa sér þann munað að koma frumvarpinu alla leið í gegnum nefndir Alþingis, færa það hingað aftur fram til atkvæðagreiðslu og samþykkja það fyrir vorið. Það væri okkur, þingheimi, til sóma því að þar með værum við komin með raunhæft tæki sem gæti gefið möguleika á að koma í veg fyrir áframhaldandi lögbrot og mannréttindabrot sem konur í þessu landi þurfa að þola.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, óska ég eftir að þessu máli verði vísað til félagsmálanefndar.



[15:28]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni þetta frumvarp. Ég tel engan veginn ásættanlegt, eins og hún sagði, að launamunurinn lagist ekki nema á svona löngum tíma. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa skýrslu sem sýndi að okkur hefur lítið sem ekkert miðað á undanförnum áratug.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann. Nú erum við stöðugt að ganga inn á persónuvernd af ýmsum ástæðum. Þær eru hryðjuverk, mansal, eiturlyf og svo eru það hleranir. Við erum alltaf að ganga inn á persónuverndina af góðum og gildum ástæðum: Hversu langt vill hv. þingmaður ganga í því að rjúfa friðhelgi persónufrelsisins og einkalífsins með góðum og gildum rökum?

Nú er hv. þm. Ögmundur Jónasson, samflokksmaður hv. þingmanns, afskaplega varkár í því að ganga á rétt einstaklinga. Hér er verið að ganga á rétt og aflétta ákveðinni persónuvernd sem eru laun. Það getur vel verið að einhver úti í þjóðfélaginu hafi töluverðan áhuga á því að vita hvað ákveðin kona eða ákveðinn maður hefur í laun.

Svo er það misskilningurinn um starf og vinnu. Einn maður getur verið óskaplega duglegur og atvinnulífið vill borga honum kannski tvöfalt hærri laun þess vegna, annar er með menntun, þriðji snjall og leysir öll mál skynsamlega. Annar hefur mikla reynslu og honum er borgað sérstaklega því að hann þekkir sögu fyrirtækisins langt aftur í tímann. Sumir hafa mikla og góða ástundun, aðrir eru stundvísir, sumir eru skemmtilegir og lífga upp á félagsskapinn. Allt eru þetta ástæður til að borga mönnum mismunandi laun. Hvernig ætlar hv. þingmaður að taka á því þegar í ljós kemur að tveir einstaklingar eru með mismunandi laun vegna þess að annar er með meiri menntun, hinn er miklu skemmtilegri eða þá miklu duglegri?



[15:30]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hve langt ég vilji ganga varðandi friðhelgi einkalífsins eða persónuvernd einstaklinga í þessum efnum. Staðreyndin er sú að þegar um mannréttindabrot er að ræða og að öllum líkindum lögbrot gagnvart einstaklingum, það ekki bara örfáum heldur stórum hluta kvenna á Íslandi, vil ég auðvitað ganga eins langt og hægt er til að aflétta þeim mannréttindabrotum.

Ég tel að tækin sem hér er verið að fjalla um, varðandi launaleyndina, séu þess eðlis að þau yfirvöld sem með færu gerðu það með fullri virðingu fyrir viðkomandi einstaklingum og viðkomandi upplýsingum. Við vitum að Fjármálaeftirlitið og skattayfirvöld hafa ákveðin völd. Við teljum að sambærileg völd eigi að vera í höndum Jafnréttisstofu. Við teljum ekki að með þessum leiðum yrði nein hætta á að misfarið yrði með þessar upplýsingar. Þær yrðu eingöngu notaðar til að leiðrétta mannréttindabrot og mismunun sem er bönnuð með lögum en konur verða fyrir í samfélagi okkar í dag.

Í öðru lagi nefnir hv. þingmaður breyturnar: að vera duglegur, stundvís og skemmtilegur. Ég spyr hv. þingmann á móti. Úr því að karlar eru svona miklu hærra launaðir en konur í dag, ætlar hv. þingmaður þá að segja mér að það sé að öllum líkindum vegna þess að karlmenn séu duglegri, skemmtilegri og stundvísari en konur? Auðvitað ekki. Konur er líka duglegar, skemmtilegar og stundvísar. Það má líka launa þeim fyrir það. Eins og málin standa í dag virðist það ekki gert. Ég vil breyta því.



[15:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók sérstaklega fram að þetta væru tveir einstaklingar. Ég tók ekkert fram um kyn. Ég hef enga trú á að karlmenn séu almennt duglegri en konur. Ég hef enga trú á að þeir hafi yfirleitt meiri reynslu en konur, alls ekki. Ég spurði hvernig menn ætluðu að taka á því þegar launað er mismunandi fyrir starf og atvinnurekandi segir: Það er vegna þess að viðkomandi kona er svo dugleg, þess vegna fær hún hærri laun. Til að snúa dæminu við.

Ég hef margoft spurt hv. þingmann og spyr enn: Hvað ætla menn að gera þegar konu er mismunað gagnvart konu, þegar dóttir forstjórans eða yfirmanns stofnunar fær miklu hærri laun? Þá er ekki hægt að gera neitt. Þá er yfirleitt ekki hægt að kæra nokkurn skapaðan hlut. Ef konu er mismunað með því að dóttir forstjórans er gerð að deildarstjóra en hin fær ekki stöðuna þótt hún sé miklu hæfari, duglegri, snjallari og með meiri menntun þá á ekki að gera neitt. Hvernig ætlar hv. þingmaður að taka á þeim vanda?

Mér sýnist þessi launakönnun sýna að við nýtum ekki konur að fullu, að við nýtum ekki ákveðna auðlind sem eru kraftar kvenna. Mér finnst miklu meira vandamál að konur fái ekki framgang, verði ekki deildarstjórar, forstjórar eða stjórnarformenn í atvinnulífinu og hjá hinu opinbera. Það er miklu meira vandamál heldur en svo að menn eigi að vera að bítast um hvort fólk sinni starfi sínu með ákveðnum hætti og fái laun fyrir það.



[15:34]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst að hv. þm. Pétur H. Blöndal þurfi að hefja sig upp fyrir smáu dæmin, að bera saman einn einstakling við annan, eina konu við aðra. Þá sjáum við ekki skóginn fyrir trjánum. Við erum að reyna að sjá allan skóginn. Við reynum að hefja okkur upp yfir einstök dæmi og reyna að skoða heildina. Við teljum að tækin sem hér er verið að fjalla um séu þess eðlis að þau virki fyrir heildina.

Ég tel rétt að setja mikla orku í að leiðrétta misréttið sem heildin verður fyrir. Ef við sitjum þá uppi með einstaklinga sem er mismunað af einhverjum sökum þá sjáum við þau dæmi betur, þegar búið er að leiðrétta heildaróréttlætið.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum fyrst að takast á við stóru línurnar. Um leið og við sjáum að við erum þess megnug að vinna á kynbundnum launamun þá skulum við tala um konu sem er mismunað vegna konu. En núna reynum við að einbeita okkur að hinu, stóru myndinni, heildardráttunum.

Varðandi það að konur fá ekki framgang í samfélaginu þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég veit að við erum sammála að mörgu leyti. Þess vegna tel ég að ég að hv. þingmaður gæti fylgt okkur í stjórnarandstöðunni við að kúska þessa ríkisstjórn til þannig að við sjáum einhverjar breytingar. Hér erum við með tæki sem er þess megnugt að breyta stóru dráttunum, heildarmyndinni. Það þurfum við að gera og við þurfum til þess stuðning allra sem eru sama sinnis í þessum sal.



[15:36]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni afar merkilegt mál að mínu viti þar sem lagðar eru fram áætlanir um aðgerðir til að ná fram launajafnrétti kynjanna í reynd. Eins og hv. framsögumaður nefndi áðan hefur ítrekað á þessu kjörtímabili verið flutt mál til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla. Það er merkilegt að stjórnarandstaðan nái saman um að flytja saman eitt mál, fella saman þau frumvörp sem flutt hafa verið um málið á þessu kjörtímabili í eitt frumvarp. Ég tel afar bitastæð ákvæði í þessu frumvarpi sem vekja vonir um að hægt sé að ná jafnari stöðu og rétti kvenna og karla en verið hefur hingað til.

Það er afar sorglegt til þess að vita hve hægt gengur. Ítrekaðar kannanir hafa sýnt fram á það. Það er ekki bara um að ræða mikið launamisrétti kynjanna heldur gengur afskaplega hægt að jafna hlut kvenna í stöðuveitingum í hærri embættum, bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði.

Í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á þessu kjörtímabili kom glöggt í ljós hve lítill hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja er hér á landi, hvort sem litið er til stjórna í stærri hlutafélögum eða hjá lífeyrissjóðum. Mig minnir að hlutur karla hafi verið yfir 90%, hvort sem litið var til stjórna lífeyrissjóðanna eða stjórna í stærri hlutafélögum. Ég held að það hafi verið um 50 hlutafélög sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um. Í öllum tilvikum var hlutur kvenna innan við 10%. Sú skoðun hefur komið upp, sem ætti alvarlega að hugleiða, hvort lögbinda ætti ákveðinn hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja.

Ég tel að hér séu á ferðinni gagnlegar aðgerðir til að jafna rétt kvenna og karla. Það hafa verið reyndar ýmsar aðferðir í þessum, náttúrlega eilífar launakannanir sem ávallt staðfesta hið sama, þ.e. mikinn launamun kynjanna.

Það var afar sorglegt að hlýða á hæstv. félagsmálaráðherra fyrir nokkrum dögum þegar hann lýsti nýlegri könnun sem þá sá dagsins ljós. Hún sýndi að nánast enginn ávinningur hefði orðið á síðastliðnum tíu árum í að jafna launamun kynjanna. Reyndar má segja að sú skýrsla hafi staðfest þá stöðnun sem ríkt hefur þennan áratug og reyndar lengur.

Það eru 30 eða 35 ár síðan samþykkt voru lög um að jafna launamun kynjanna á sex árum. Þegar það hafði tekist þannig að taxtar voru jafnaðir þá fundu menn aðrar leiðir til að viðhalda þeim launamun sem er á milli karla og kvenna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa menn ekki fundið leið til að ná upp á borðið þeim launamun sem er í alls konar duldum greiðslum, fríðindum og bílastyrkjum á hinum opinbera markaði og reyndar á almenna markaðnum líka.

Það er afleitt að enn skuli vera launamunur í þessu formi hjá hinu opinbera. Kannanir sem hafa verið gerðar og fyrirspurnir sem m.a. ég hef borið fram í þingsal hafa sýnt fram á að bílastyrkir og ýmislegt sem hið opinbera hefur til að viðhalda þessum launamun, að slíkar hlunnindagreiðslur renna í meiri mæli til karla en kvenna. Það er alvarlegt að stjórnvöld geri ekki meira í málinu til að vera í fararbroddi fyrir því þá að ná fram launajafnrétti. Það er kannski forsenda þess að almenni markaðurinn hreyfi sig í þá átt að jafna launin, að hið opinbera og stjórnvöld vinni að því eins og lög gera ráð fyrir, að ekki sé mismunur í launamálum kynjanna.

Í umræðunni um daginn ræddum við hæstv. félagsmálaráðherra nokkuð tillögu sem var flutt fyrir tveimur til þremur árum og felld inn í framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Raunar hefur ekkert gerst í því máli, virðulegi forseti, á þeim tveimur og hálfa ári síðan Alþingi samþykkti tillögu um áætlun til nokkurra ára sem felld yrði inn í þessa framkvæmdaáætlun. Í þeirri áætlun var kveðið á um að beita mætti svokallaðri jákvæðri mismunum til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Það er miður að ekki skulið lengra á veg komið með þá áætlun vegna þess að hún átti að líta dagsins ljós fyrir a.m.k. einu til tveimur árum síðan.

Hæstv. ráðherra nefndi að forsendan fyrir þeirri áætlun væri sú launakönnun sem nú hefur verið gerð opinber. Við skulum vona að hæstv. ráðherra vindi sér í að ganga frá slíkri áætlun í samráði við aðila vinnumarkaðarins, bæði á almenna vinnumarkaðnum og hinum opinbera. Þessi tillaga gerði ráð fyrir tveimur framkvæmdaáætlunum, annars vegar fyrir opinbera markaðinn og hins vegar fyrir almenna markaðinn. Ég held að það sé þess virði að reyna, m.a. í gegnum kjarasamninga, að jafna þann mun sem er á launum karla og kvenna.

Það hefur sýnt sig að Reykjavíkurborg náði allgóðum árangri í því á tímum R-listans að minnka þann kynbundna launamun sem viðgengist hafði hjá Reykjavíkurborg. Ef ég man rétt þá held ég að hinn kynbundni launamunur hafi þá minnkað um helming. Þá var gert ráð fyrir ákveðinni púllíu í kjarasamningum, fjármagni til að nýta sérstaklega til að jafna hlut karla og kvenna í launum. Það held ég að sé aðferð sem hafi reynst vel og eigi að nýta betur en gert hefur verið.

Það á auðvitað að fara út í það sem menn hafa aldrei treyst sér í, þ.e. að kortleggja hvernig hægt er að beita því ákvæði sem er til staðar í jafnréttislögunum, þ.e. ákvæðinu um jákvæða mismunun. Menn hafa aldrei lagst almennilega yfir það hvernig hægt sé að beita því ákvæði, sem ég held að mundi gagnast, sem hefur í þó nokkur ár verið inni í jafnréttislögum.

Hv. framsögumaður hefur gert góða grein fyrir þessum þremur leiðum sem hér eru settar fram, sem saman mynda ákveðna heild til að hafa áhrif á að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kynjanna. Í fyrsta lagi frumvarpi sem Vinstri grænir hafa flutt á þessu kjörtímabili, um tæki til að framfylgja lagaskyldu um jöfn laun karla og kvenna. Hins vegar frumvarpi Samfylkingarinnar um afnám launaleyndar. Þetta tvennt tel ég að sé afar mikilvægt til að ná fram launajafnrétti, þ.e. hvernig launamisréttið er falið í duldum greiðslum og fríðindum sem aldrei koma upp á yfirborðið. Það er auðvitað staðreynd að í krafti launaleyndar hefur launamisréttið þrifist.

Hér er gerð tillaga um að afnema launaleynd til hægt sé að fá upp á borðið við hvað er á að takast í þessu og hvernig er best hægt að gera það, ef afnám launaleyndar verður samþykkt.

Ég hef síðan flutt frumvarp um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi og ég held að það ásamt því að afnema launaleyndina sé ákaflega mikilvægt. Við höfum það fyrir okkur að kærunefnd jafnréttismála hefur margsinnis úrskurðað að um hafi verið að ræða brot á jafnréttislögum. Það eru tilvik sem snerta stöðuveitingar og síðan að því er varða launamisrétti milli kynjanna en síðan hefur málið yfirleitt stoppað og ekki verið úrræði til að framfylgja niðurstöðum kærunefndar jafnréttismála.

Ég hef upplýsingar um úrskurði kærunefndar frá árunum 1991–2001, og þyrfti auðvitað að fá nýrri, en þá kom fram að í 55% tilvika taldi nefndin ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafa verið brotin en þau lutu flest að stöðuveitingum. Fjöldi þeirra laut einnig að launajafnrétti kynjanna. En hlutverk Jafnréttisstofu er að fylgja eftir áliti kærunefndar og getur hún samkvæmt 3. gr. jafnréttislaga höfðað mál til viðurkenningar á rétti kærenda á grundvelli álitsgerðar kærunefndar jafnréttismála þegar sérstaklega stendur á og ætla má að úrskurðir dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis og/eða ef hagsmunir kærenda eru metnir þess eðlis að mikilvægt þyki að fá úrlausn dómstóla. Hins vegar hefur komið fram að það er verulega flókið og ýmsum vandkvæðum bundið að fylgja álitum kærunefndar og iðulega hafa niðurstöður kærunefndar jafnréttismála verið teknar upp á Alþingi bæði varðandi stöðuveitingar og launajafnrétti kynjanna.

Ég tók sérstaklega upp eitt mál eftir að ég hafði fengið svar við fyrirspurn á Alþingi. Það laut að bifreiðastyrkjum og hlunnindum í bankakerfinu, hjá bönkunum. Mér fannst á því svari sem ég fékk frá viðskiptaráðherra í því máli að augljóslega væri um að ræða brot á jafnréttislögum þar sem konur, þó þær gegndu algerlega sambærilegu starfi og karlar, fengu miklu lægri launastyrki og hlunnindi. Því máli vísaði ég til kærunefndar jafnréttismála sem fjallaði um það og komst að þeirri niðurstöðu að ætla mætti að jafnréttislög hefðu verið brotin að því er varðar þessar greiðslur og því var sérstaklega beint til bankanna — þetta var fyrir nokkrum árum — að leiðrétta þennan mun sem kærunefndin hafði samþykkt. Þegar ég spurðist fyrir um þetta nokkru síðar var lítið um svör hvað hefði verið gert til að framfylgja þessu áliti kærunefndar. Þetta er bara eitt dæmi um það, virðulegi forseti, hve nauðsynlegt er að hafa úrskurði kærunefndar bindandi. Eins og ég sagði áðan er verulega flókið og ýmsum vandkvæðum bundið að fylgja eftir álitum kærunefndar og þess vegna er þetta ein leið til að ná fram jöfnum rétti og jafnri stöðu kvenna og karla.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa fleiri orð um málið. Það hefði vissulega verið ástæða til að ræða þá launakönnun sem hér hefur verið birt og var rædd lítillega í fyrirspurnatíma fyrir viku síðan. Ég taldi þá ástæðu til að biðja um umræðu utan dagskrár um þá niðurstöðu sem þar kom fram, sem ég tel ástæðu til að ræða að viðstöddum félagsmálaráðherra og vil því bíða með að ræða það mál þar til félagsmálaráðherra er viðstaddur. Hæstv. félagsmálaráðherra verður að svara því hvernig hann ætlar að bregðast við þeim upplýsingum og niðurstöðum sem þarna koma fram, þeirri stöðnun sem þessi könnun lýsti greinilega um það sem gerst hefur hér á síðustu tíu árum, að nákvæmlega ekkert hefur gerst til að jafna launamun kynjanna. Það er ekki nóg eins og hæstv. ráðherra sagði opinberlega að hann mundi kalla til aðila vinnumarkaðarins til samstarfs við stjórnvöld, bæði atvinnurekendur og stéttarfélög, í þessu efni. Það verður kannski að fara róttækari leiðir eins ég nefndi í máli mínu með jákvæðri mismunun. Þau hænufet sem okkur miðar í að jafna launamun kynjanna eru algerlega óþolandi. Það er sláandi sem kom fram í grein í Viðskiptablaðinu fyrir ekki löngu síðan, en höfundur þeirrar greinar var viðskipta- og markaðsfræðingur, Katrín Anna Guðmundsdóttir. Hún og fleiri hafa látið reikna það út að með þessum sömu aðferðum og beitt hefur verið og þeirri sömu þróun og verið hefur á umliðnum árum, þá taki 628 ár að ná fram launajafnrétti. Það er auðvitað óþolandi að eiga að búa við það í næstu framtíð. Þess vegna hvet ég til þess að við beitum róttækum aðferðum til að taka á launamun kynjanna. Þær leiðir og aðferðir sem lýst er í frumvarpinu eru vissulega til þess fallnar að feta okkur frekar áfram í að jafna stöðu og jafna rétt kvenna og karla heldur en okkur hefur tekist á umliðnum áratug eða áratugum.



[15:50]Útbýting:

[15:51]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er mjög við hæfi að við skulum ræða þetta frumvarp sem stjórnarandstaðan sameinuð leggur fram um endurbætur á jafnréttislögunum til að draga úr launamisrétti kynjanna. Þetta launamisrétti er hneyksli í samfélagi okkar hinu íslenska árið 2006.

Þess er að minnast að í fyrra var haldið upp á afmæli, reyndar mörg en þó einkum eitt í sögu jafnréttismála á Íslandi og það var 30 ára afmæli kvennadagsins, kvennaverkfallsins sögðu sumir, árið 1975. Aðalkrafan þann dag var um launajafnrétti og það er sorglegt að við skulum 31 ári síðar ekki vera komin lengra að fylla þær væntingar sem konur og karlar létu í ljósi þann dag. Að það skuli vera svo að við séum að tala um endurbætur á jafnréttislögum og um launamisrétti kynjanna eftir allan þennan tíma og allt það tal sem úthellt hefur verið yfir þessi mál.

Það er við hæfi að við skulum ræða þetta í dag, forseti, vegna þess að í síðustu viku, eða þarsíðustu, kom einmitt í ljós að sú könnun sem félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa gerðu góðu heilli eða létu fyrirtæki gera, sem nú heitir Capacent af óljósum ástæðum en hét áður Gallup, sýnir að launamisrétti er hið sama árið 2006 og var árið 1994, fyrir 12 árum. Hið sama segi ég en það er ekki rétt að tvennu leyti. Í fyrsta lagi því að hinn óútskýrði launamunur, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um áðan og ég tek undir þau orð, en það er það hugtak sem er notað í könnuninni, er 15,7% en var 16% í hliðstæðri könnun fyrir 12 árum, þannig að þokast hefur í áttina um 0,3% sem er auðvitað ákaflega lítið ef nokkuð.

Hin athugasemdin er öllu stórvægilegri en hún er sú að í könnuninni er aðeins rætt um laun fyrir skatta, þau laun sem standa efst á launaseðlunum sem fólk fær í hendurnar.

Á þeim tíma, frá 1994–2006, sem væntanlega fyrir tilviljun eða sumir kunna að álíta það er nokkurn veginn stjórnartími þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, hafa laun eftir skatta fengið þá útreið að laun lágtekjumanna og meðaltekjumanna flestra hafa verið skattlögð meira en laun hátekjumanna og þeirra sem eru í hærri meðaltekjuhópum, þó einkum þeirra sem hæstar tekjur fá. Þetta þýðir að sá launamunur sem félagsmálaráðuneytið kynnti þegar skýrslan kom út með þeim orðum að hann væri jafn og fyrir 12 árum, og sagði reyndar að niðurstöðurnar væru bæði jákvæðar og neikvæðar, það er því miður rangt hjá félagsmálaráðuneytinu. Hann er ekki jafn, hann hefur aukist. Misréttið hefur versnað á þessum 12 árum vegna þess að menn verða að reikna inn í þá skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem leiðir til þess að lágtekjufólk og meðaltekjufólk borgar meira en hátekjufólk minna. Auðvitað er hægt að tala um að kaupmáttur hafi batnað og það hefur hann vissulega gert en fólk fær sem sé ekki að njóta þess kaupmáttar í sömu hlutföllum heldur er það þannig samkvæmt rannsóknum sem ég held að jafnvel stjórnarsinnar, jafnvel hv. þm. Pétur Blöndal, séu hættir að reyna að hrekja.

Konur og karlar eru ekki jöfn gagnvart þessu frekar en á öðrum sviðum. Það kemur fram í skýrslu Capacents að meðallaun karla í febrúar–mars á þessu ári, og þá er verið að tala um fólk í fullri vinnu, voru 482 þús. kr. en meðallaun kvenna á sama tíma 326 þús. kr. Það munar sem sé um 160 þús. kr. Þessar tölur segja einfaldlega þá sögu að konur eru miklu fleiri í lágtekju- og meðaltekjuhópum en karlar. Launamunurinn hefur því versnað og nú þarf bara einhver að reikna út hvað hann hefur versnað mikið. Hafi þessi tillaga verið brýn þegar hún var sett saman þá er hún enn þá brýnni nú.

Ég þarf ekki eftir ræður tveggja flutningsmanna að fara yfir í smáatriðum hvað felst í frumvarpinu. Það eru þessar þrjár höfuðleiðir sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi áðan. Það er sú leið að fá Jafnréttisstofu verkfæri í hendur til að kanna launamun innan fyrirtækjanna. Það er að banna launaleynd eða banna þvingun til launaleyndar með því ákvæði að launamaður geti alltaf sagt öðrum frá launum sínum ef honum svo sýnist og það sé bannað að láta hann skrifa undir samning sem margir kannast við um að laun hans séu leyndarmál. Það er sú þvingun sem er verið að afnema en ekki út af fyrir sig verið að þvinga neinn til að skýra frá launum sínum — það var misskilningur sem kom fram í andsvörum áðan — heldur er það sú þvingun að launamaður sé látinn skrifa undir samning þess efnis sem verið er að banna með þessu.

Í þriðja lagi að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi og þar með gildir að lögum, sem á vantar núna og er galli í kerfinu.

Tvennt annað felst í frumvarpinu. Í fyrsta lagi að jafnréttisfulltrúar, sem hafa sömu réttindi og skyldur og trúnaðarmenn, séu að störfum í öllum fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn, en nú er í lögunum aðeins getið um ráðuneyti í þessu efni. Síðan það að þegar nefndir eru skipaðar, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu hlutföll kynjanna vera sem jöfnust og tilnefningaraðilar eins og hér segir skulu tilnefna bæði karl og konu í slíka nefnd.

Þarna þarf að vísu, ef ég má bæta því við, að athuga í verki hvernig þessu er háttað því þessi siður, sem m.a. nokkur ráðuneyti hafa tekið upp, hefur skapað tilnefnandanum fullmikil völd. Hann getur sem sé valið úr þessum hópi sjálfur sem ekki stóð til þegar menn tóku upp og féllust á þessa tillögu á sumum stöðum. Það þarf því að athuga í framhaldinu hvernig farið er með þessar tvær tilnefningar, hvort þær eru stokkaðar saman af tilviljun eða hvernig menn gera það.

Ég held að þetta frumvarp til laga sem hér er fram lagt af hálfu stjórnarandstöðunnar marki ákveðin tímamót, ekki af því að málin séu ný, þau eru það ekki, en það gerir það vegna þess að stjórnarandstaðan hefur sameinuð ákveðið að jafnréttismálin og launamunur kynjanna sé eitt af áherslumálum stjórnarandstöðunnar í vetur á þinginu og væntanlega í vor í kosningunum. Þar með hefur stjórnarandstaðan lyft jafnréttismálunum á mjög myndarlegan hátt og táknrænan, einkum þegar miðað er við þá áherslu sem jafnréttismálin hafa fengið hjá þeirri ríkisstjórn sem nú hefur staðið í 12 ár eða mun verða á vori komanda og staðið sig með þeim hætti í þessum málum sem könnun Capacents, félagsmálaráðuneytisins og Jafnréttisstofu sýnir.



[16:01]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um að jafna stöðu og rétt karla og kvenna, jafnréttislögin, og stjórnarandstaðan hefur sameinast um flutning á einu máli sem er stefnumarkandi um að ná fram auknu jafnrétti karla og kvenna.

Sú úttekt sem hér hefur verið minnst á, um að nánast ekkert hafi miðað áfram í þeim málaflokki á síðastliðnum tíu árum, vekur athygli og undirbyggir enn þá frekar að tekið verði á þessum málum og jafnframt að farnar verði leiðir sem tryggi að frekari árangur náist svo ekki ríki áfram sú kyrrstaða sem ríkt hefur á undanförnum áratugum. Við leggjum til að það verði gert með því að tryggja að Jafnréttisstofa eigi rétt á að fá upplýsingar um laun fólks, karla og kvenna, og krefji sveitarfélög, stofnanir, atvinnurekendur og félagasamtök um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að láta fara fram athugun og úrvinnslu á verkefnum og athugun á einstökum málum sem m.a. geti ýtt þessu máli inn í framtíðina með þeim hætti sem flutningsmenn vilja stefna að, þ.e. að ná fram launajafnrétti karla og kvenna.

Nú er það þannig, hæstv. forseti, að launamunur í opinberum störfum er minni en á hinum almenna vinnumarkaði og það er athyglisvert sem kemur fram í greinargerðinni að heildaratvinnutekjur kvenna eru að jafnaði 60% af atvinnutekjum karla á hinum almenna vinnumarkaði en heildaratvinnutekjur kvenna meðal opinberra starfsmanna eru 86% af atvinnutekjum karla. Það hefur einnig verið bent á það í umræðunni að því miður þokar okkur ekki áfram í þessum málum og að á vegum einkafyrirtækjanna væri jafnvel hægt að finna dæmi um að launamunur væri vaxandi.

Gegnum tíðina hafa verið uppi sjónarmið um að reyna að ná fram jöfnum rétti karla og kvenna, annars vegar með lögum og hins vegar hefur verið horft til þess í kjarasamningum, þó að þau markmið hafi ekki náðst. Spurning er hvort hægt sé að setja sterkari ákvæði inn í kjarasamninga sem gætu tryggt slík markmið en okkur sem flytjum þetta mál hér og mælum fyrir því sýnist að það verði að auka réttarstöðuna í þessum málum. Þess vegna leggjum við til að það sé gert m.a. með því að Jafnréttisstofa geti krafist upplýsinga og í annan stað að launaleyndin verði bönnuð þannig að ekki sé hægt að meina einstaklingi að gefa upplýsingar um laun sín, það sé ólöglegt að hafa slík ákvæði inni í samningum launamanna við einstök fyrirtæki að þeir geti ekki gefið upplýsingar um laun sín af hvaða kyni sem þeir eru eða hvaða stöðu sem fólk gegnir. Okkur virðist vera nauðsynlegt að sú leið verði farin. Menn geta auðvitað sagt sem svo: Er rétt að ganga að upplýsingum sem snúa að einni persónu með þessum hætti og þar af leiðandi að fara inn á eitthvert grátt svið varðandi persónuréttindi fólks? Ég held að eins og þetta er lagt upp hér í frumvarpinu sé rétt að sú leið verði farin og að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru í þessu máli verði ekki náð fram öðruvísi en að launaleyndinni verði aflétt og okkur muni ekki þoka áfram nema það verði gert. Það er a.m.k. mín skoðun.

Við höfum haft það sem sjónarmið í þjóðfélagi okkar að allir eigi að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Við skulum vona að það sé meginsjónarmið sem allir geti gengist undir en reyndin hefur hins vegar sýnt að karlar hafa að jafnaði hærri laun en konur í fyrirtækjum og á almennum vinnumarkaði og sú staða hefur ekki breyst.

Ég verð þó að geta þess, hæstv. forseti, af því að ég var þátttakandi í gerð kjarasamninga í áratugi hjá einni ákveðinni stétt, sjómannastéttinni á Íslandi, að ég þurfti aldrei að takast neitt sérstaklega á við það í kjarasamningum fyrir sjómenn að semja sérstaklega um réttindi karla eða kvenna. Ég hygg að það sé alveg hægt að halda því fram og rétt að draga það fram í umræðunni að það séu áratugir síðan, hæstv. forseti, því fyrirkomulagi hafi verið komið á varðandi laun þeirra sem stunduðu sjómennsku — en eins og allir vita þá voru konur jafnan í miklum minni hluta þeirra sem stunduðu þau störf af mörgum ástæðum þó að nútímaaðbúnaður um borð í skipum og tækni hafi vissulega gert konum mun auðveldara að stunda þau störf en áður var — en allt að einu var það samt sem áður staðreynd, hæstv. forseti, að það var aldrei samið sérstaklega um að konur hefðu lægri laun en karlar. Það var eingöngu samið um stöðurnar og störfin og skipti ekki máli hvort það var karl eða kona sem gegndi starfinu, það voru greidd sömu laun. Ég held að það sé allt í lagi að draga það hér inn í þessa umræðu og vekja athygli á því að þannig hefur það verið varðandi störf til sjós áratugum saman og á það jafnt við hvort sem menn voru á fiskiskipum með hlutaskiptakerfi eða störfin voru unnin á fraktskipum, varðskipum, hafrannsóknaskipum, ferjum eða öðrum þeim skipum sem notuð voru hér við land, það voru greidd sömu laun fyrir sama starf. Svo kann að vera, hæstv. forseti, að t.d. á ferjum hafi konur frekar en karlar gegnt ákveðnum störfum sem voru á þjónustusviðinu og þar af leiðandi haft lægri laun. Það átti hins vegar ekki við á fiskiskipunum og að ég hygg ekki heldur á farskipunum, vöruflutningaskipunum. Þetta vildi ég láta koma fram í máli mínu, hæstv. forseti, að svona er þetta að því er þessar stéttir varðar.

Það breytir ekki því að það mál sem við færðum nú er afar nauðsynlegt. Við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna fá konur ekki framgang til stöðuhækkunar og ábyrgð innan fyrirtækja til jafns við karla? Það eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því, kannski eimir enn þá eftir af því frá eldri tíma að menn hafi litið svo á að konur ættu erfiðara með að sinna störfum en karlar vegna fjölskylduhaga eða vegna barnauppeldis en ég tel að þau viðhorf eigi ekki við í dag og geti ekki verið ástæða fyrir því að konur séu með lægri laun en karlar.

Ég vil eingöngu lýsa yfir miklum stuðningi við þetta mál og tel að það verði að fara í annan farveg en verið hefur á undanförnum árum. Sú launakönnun um stöðu karla og kvenna í þjóðfélaginu sem nýverið var kynnt sýnir að við höfum ekki náð neinum markverðum árangri síðastliðin tíu ár og þess vegna er hér lagt til að farnar verði leiðir sem mönnum kunna að finnast róttækar, þ.e. að Jafnréttisstofa eigi ævinlega rétt á upplýsingum, að þeim verði ekki haldið leyndum, að launaleyndin sé bönnuð í kjarasamningum og að menn séu ekki ráðnir í kjarasamningum með ákvæði um að þeir megi ekki segja frá launum sínum og upplýsa um þau.

Síðan er auðvitað sú hugsun að tryggja rétt kvenna til jafnrar stöðu og jafnra starfa og ábyrgðar sem er auðvitað markmið sem mun til framtíðar leiða til þess að laun karla og kvenna jafnast. En óbreytt staða er óásættanleg og þess vegna hljótum við að reyna að fara þá leið sem lögð er til í þessu frumvarpi.



[16:13]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga sem fulltrúar allra flokka stjórnarandstöðunnar hafa sameinast um en flutningsmenn eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson.

Flutningsmenn, þar á meðal 1. flutningsmaður, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hafa gert ágætlega grein fyrir frumvarpinu en megininntak þess lýtur að því að jafna stöðu kvenna og karla. Ég ætla að vísa aðeins í tvær tilteknar greinar í frumvarpinu á eftir en vekja athygli á því sem fram hefur komið undanfarna daga eða verið staðfest eina ferðina enn, hve mikill hinn kynbundni launamunur er í þjóðfélaginu og hve lítið hann hefur breyst þrátt fyrir miklar heitstrengingar á undanförnum árum.

Fyrir nokkrum dögum var birt könnun sem unnin var á vegum félagsmálaráðuneytisins. Það var Gallup sem hafði það verk með höndum. Hún sýndi fram á að kynbundinn launamunur væri um 16% og hefði lítið sem ekkert breyst frá því sambærileg könnun var gerð fyrir 12 árum. Samkvæmt þessari könnun er munurinn sagður vera 15,7% nú en var 16% árið 1994.

Aðrar kannanir sem hafa verið gerðar hafa sýnt fram á mjög svipaðar niðurstöður. Í könnun sem HASLA gerði, Hagrannsóknastofnun samtaka launafólks í almannaþjónustu, á árinu 2004, hjá ríkisstofnunum, kom fram að karlmenn voru að jafnaði með 7% hærri mánaðarlaun en konur þegar tekið hafði verið tillit til starfsaldurs, aldurs, menntunar og vinnutíma. En ef heildarlaun voru borin saman miðað við sömu forsendur, voru karlar með 17% hærri laun en konur. Þessar tölur eru ívið hærri, og sums staðar talsvert hærri á hinum almenna vinnumarkaði. En þarna er hrópandi misrétti á ferðinni engu að síður hjá hinu opinbera.

Það má geta þess að í könnun félagsmálaráðuneytisins, eða Gallup-könnuninni, kom fram að launamunur almennt á milli þeirra sem hafa lægstu launin og hin hæstu hefur aukist verulega á undanförnum árum og hæstu dagvinnulaun með aukagreiðslum á klukkustund eru nærri 26 sinnum hærri en þau lægstu. Þannig að launamisréttið er orðið geigvænlegt á íslenskum vinnumarkaði. En við erum hér fyrst og fremst að ræða kynbundinn launamun og leiðir til að bæta þar úr.

Mig langar til að vekja athygli á blaðagrein sem birtist miðvikudaginn 25. október og er eftir Árna Stefán Jónsson, formann SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu almannaþjónustu. Grein hans er undir fyrirsögninni: Sögulegt tækifæri til að jafna launamun karla og kvenna. Þar vísar hann í könnun HASLA, Hagrannsóknastofnunar samtaka launafólks í almannaþjónustu, frá árinu 2004, sem ég vék að, og kjarasamninga sem gerðir voru í kjölfarið þar sem samið var um að ráðast gegn kynbundnu launamisrétti. Og nú þessa dagana sé tíðinda að vænta.

Það var settur niður starfshópur sem átti að stýra þessu verkefni og ég leyfi mér að vitna í grein Árna Stefáns Jónssonar, en hann segir, með leyfi forseta:

„Þessa dagana er forstöðumönnum ríkisstofnana að berast bréf og annað efni frá starfshópnum þar sem kemur fram hvernig eigi að vinna að verkefninu. Þeir eiga því næsta leik sem felst í að taka saman umbeðnar upplýsingar um starfsmenn viðkomandi stofnunar sem eru félagsmenn í SFR.“

Ég nefni hér dæmi um tilraun til að taka af alvöru á þessu máli. En þarna er einn hængur á og það er launaleyndin. Það var samdóma álit allra þeirra sem stóðu að umræddri könnun HASLA að hún væri sennilega eitt alvarlegasta meinið sem við væri að glíma. Launaleyndin. Því í ljósi, eða skjóli hennar öllu heldur, þrífst misréttið. Samkvæmt upplýsingalögum á að upplýsa um öll föst launakjör hjá hinu opinbera. Það er beinlínis lagaskylda að gera það. Lagaskylda sem ekki er framfylgt. Ég hef verið að hlusta á yfirlýsingar ráðamanna undanfarna daga, alvöruþrungnar yfirlýsingar þeirra um að nú þurfi að gera eitthvað róttækt í málinu. Og þá segi ég: Það fyrsta sem menn eiga að gera er að aflétta launaleyndinni. Að aflétta launaleyndinni og fara að lögum í því efni. En við viljum ganga lengra.

Í þessu frumvarpi er mjög róttæk tillaga í 2. gr. um breytingar því þar er gert ráð fyrir því að Jafnréttisstofa geti krafið opinberar stofnanir, sveitarfélög og atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði, svo og félagasamtök um allar almennar og sértækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna hennar og athugunar á einstökum málum. Þarna er sem sagt verið að opna leið fyrir Jafnréttisstofu til þess að fá upplýsingar um launakjörin, ekki bara hjá hinu opinbera, heldur á almennum vinnumarkaði einnig.

Ég vek einnig athygli á 6. gr. lagafrumvarpsins. Þar segir á þá leið, að launamanni sé hvenær sem er heimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um laun og önnur starfskjör sín. Þetta er grundvallaratriði vegna þess að það tíðkast hjá sumum fyrirtækjum, og reyndar opinberum stofnunum hygg ég einnig, að fólki sé beinlínis meinað að upplýsa um launakjör sín. Þetta er afleitt. Ég tel það vera hreint mannréttindabrot að slík kvöð sé sett á fólk. Ég ítreka að í skjóli leyndarinnar, í skjóli myrkursins þrífst misréttið. Þetta frumvarp gengur út á þetta, a.m.k. að verulegu leyti. Þar er einnig önnur ákvæði að finna sem hefur prýðilega verið gerð grein fyrir. En að meginuppistöðu til gengur frumvarpið út á það að aflétta launaleyndinni. Það tel ég vera grundvallaratriði til þess að útrýma, ekki laga, ekki bæta, heldur til að útrýma kynbundnum launamun.



[16:22]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir hana. Hún hefur verið hreinskiptin og góð að öðru leyti en því að við söknum hæstv. félagsmálaráðherra. Hann er orðinn afar leiður sá plagsiður ráðherra að þeir skuli láta sig vanta þegar rætt er um mál á þeirra málasviði, þingmannamál sem, í þessu tilfelli, öll stjórnarandstaðan stendur sameinuð að baki.

Það verður að segjast eins og er, að umræðan í þingsal þyldi alveg að vera líflegri og skoðanaskipti vera á þeim nótum að hér tækjust á ólík sjónarmið. Maður skyldi ætla að ríkisstjórnin þyrfti að horfast í augu við þau mistök sem gerð hafa verið undanfarin ár og áratugi. Mistökin eru fólgin í því að ekki hefur verið tekið á málunum með þeim tækjum sem möguleg eru til að sýna árangur. Það liggur dagljóst á borðum okkar.

Í þessu sambandi má nefna fleiri atriði. Af því bárust fregnir fyrir skemmstu, þ.e. á síðasta ári minnir mig að það hafi komið fram í viðtali við hæstv. ráðherra, að þáverandi félagsmálaráðherra hafi sent bréf til atvinnurekenda þar sem þeim var bent á að þeir ættu að fara eftir jafnréttislögum og draga úr launamun kynjanna. Ég minnist þess að þetta hafi komið fram annaðhvort hér í umræðunni fyrir skemmstu eða í blaðaviðtölum við hæstv. félagsmálaráðherra, að fyrrverandi ráðherra tók á málinu með þeim hætti.

Það að senda kurteisislegt bréf til atvinnurekenda og tilkynna þeim að þeir eigi að fara að lögum er auðvitað með ólíkindum, þ.e. að ekki skuli gert eitthvað meira. Ég vil taka undir orð Katrínar Önnu Guðmundsdóttur sem spyr í Viðskiptablaðinu fyrir skömmu: Í hvaða öðrum brotaflokki tíðkast að semja við lögbrjótana á þann hátt að þeim sé gefið formlegt leyfi til að halda áfram að brjóta lögin en bara örlítið minna en þeir hafa gert?

Við verðum að opna augu okkar fyrir alvöru þessara mála. Það þarf að taka á róttækan hátt á málum. Frumvarpið sem við hér erum að senda til félagsmálanefndar leggur til að það sé gert. Stjórnarandstaðan stendur sameinuð á bak við þetta mál sem er til marks um, eins og hv. þm. Mörður Árnason orðaði það, að stjórnarandstaðan forgangsraðar í þágu jafnréttismála. Hún forgangsraðar sameinuð í þágu þeirra mála sem varða misrétti sem kynin, konur hafa orðið fyrir og verða fyrir dag hvern á vinnumarkaði, bæði hinum opinbera vinnumarkaði og hinum almenna, þótt meira misrétti ríki á hinum almenna.

Ég tel að okkur eigi ekki að vera neitt að vanbúnaði. Við eigum að geta staðið saman um að fara í þessar róttæku breytingar. Ég treysti því að málið fái brautargengi á Alþingi á þessu síðasta þingi þessa kjörtímabils.



[16:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að spyrja hv. þingmann, framsögumann þessa máls, aftur hvað hún ætlar að gera. Ég var nefnilega einu sinni í þeirri stöðu að vera framkvæmdastjóri fyrirtækis. Þar var ekki launaleynd en þar voru menn aldrei sammála um hvað ætti að leggja til grundvallar.

Þeir sem voru duglegir vildu að sjálfsögðu fá borgað fyrir það. Þeir sem sköffuðu tvöfalt meira, unnu tvöfalt hraðar, vildu fá borgað fyrir það. Þeir sem höfðu reynsluna vildu fá borgað fyrir reynsluna. Þeir höfðu starfað hjá fyrirtækinu í áratugi og vildu fá borgað fyrir það. Þeir sem höfðu menntun sögðu: Við viljum fá borgað fyrir menntunina. Svo voru sumir starfsmenn rosalega snjallir, fundu lausn á öllum vanda, (Gripið fram í.) og þurftu aldrei neina verkstjórn. Þeir leystu allan vanda sjálfir. Þeir vildu fá borgað fyrir það.

Starfsmenn voru ekki sammála um það innbyrðis hvað ætti að leggja til grundvallar. Það að upplýsa um öll laun í fyrirtækjunum gæti því valdið gífurlegum óróa innan þeirra, milli fólks af sama kyni. Þessu hefur hv. þingmaður ekki svarað. Hvernig ætla menn að ráða við það þegar einn starfsmaður segir: Ég á að fá hærri laun af því ég er duglegur. Annar segir: Ég á að fá hærri laun af því ég er með reynslu. Og þriðji segir: Ég á að fá hærri laun af því ég er svo trúr fyrirtækinu og mæti alltaf á réttum tíma. Það yrði allt upp í loft ef launin yrðu upplýst, ekki vegna þess að fyrirtækið vilji það heldur vegna þess að starfsmennirnir væru ekki sammála um hvað eigi að leggja til grundvallar.



[16:27]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður verður að átta sig á því að hér er ekki verið að leggja til að launatölur hvers einasta starfsmanna í öllum fyrirtækjum verði birtar opinberlega með mynd af starfsmanni. Það er eingöngu lagt til að starfsmaðurinn eigi þann rétt, lagalega varinn, að geta upplýst um sín laun.

Það stendur ekki í launatöxtum opinberra fyrirtækja hvaða starfsmenn viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar séu nákvæmlega í hvaða launataxta. Hv. þingmaður er kominn út á mjög hálan ís og hálfgerðar villigötur þegar hann, í einhverju þráhyggjukasti, vill ræða um hvernig eigi að launa fólki fyrir dugnað, snilligáfu, reynslu, menntun eða trúmennsku.

Nú vil ég bara segja við hv. þingmann: Ef kenning hv. þingmanns stenst þá ætti raunin að vera sú að öll sú yfirborgun sem tíðkast núna, þ.e. að karlmenn eru með 65% hærri atvinnutekjur en konur, sé vegna þess að karlmenn séu í 65% tilvika duglegir, með reynslu og þeim sé hyglað út á snilligáfu, vegna menntunar eða trúmennsku. Ég segi við hv. þingmann: Þarna er eitthvað að og eitthvað sem þarf að leiðrétta því konur eru jafnsnjallar og karlar, jafntrúar og jafnduglegar og karlar. Misréttið sem er við lýði úti í samfélaginu núna getur ekki verið vegna þess að menn heimili yfirborganir út af dugnaði, snilligáfu eða trúmennsku. Það getur bara ekki verið.

Ef það er svo skulum við leiða það í ljós með því að aflétta leyndinni og gefa starfsmanninum heimild og rétt til að segja frá því sem hann hefur í laun.



[16:29]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef ég er dottinn í eitthvert þráhyggjukast en mér finnst sú athugasemd ekkert sérstaklega málefnaleg. Því miður. Ég benti á ákveðinn vanda sem felst í að upplýsa um laun, í því að fólk leggur mismunandi mælikvarða á hvaða laun það sjálft á að hafa. Það leggur mismunandi áherslur á hvaða eiginleika á að verðlauna. Ég benti á það.

Ég talaði aldrei um karl eða konu. Aldrei. Ég meira að segja tók það fram áðan í ræðu minni að mér þætti það dapurleg niðurstaða sem þessi launakönnun hefði sýnt. Mér þykir mjög slæmt að ekki miði betur í launajafnrétti en reyndin sýnir. Mér þykir sérstaklega slæmt að konur fái ekki framgang. Það finnst mér eiginlega verst. Það er mjög athyglisvert. En það næst ekki fram með þessu frumvarpi, ekki framgangurinn. Hann næst ekki fram. Það er bara verið að bera saman sambærilegar stöður, sem segir eiginlega ekki neitt.

Mér finnst það slæmt að því skuli tekið illa þegar maður bendir á ákveðin vandamál í raunverulegum rekstri. Ég hef reynslu af þessu, að greiða laun og ákveða laun. Það er ekki öfundsvert, alls ekki, þegar fólk leggur mismunandi mælikvarða á hvaða laun það eigi skilið. Ég benti á þetta út frá minni eigin reynslu. Ég held að það sé ekkert þráhyggjukast þótt ég bendi á að ég hef lent í þessu sjálfur. Ég vildi greiða réttlát laun. Það vildi svo til að þetta voru allt saman konur, sem ekki voru sammála um launin.

Ég hef aldrei sagt að karlmenn væru eitthvað duglegri eða snjallari. Það eru orð hv. þingmanns sem hún leggur mér í munn. Ég tel að konur séu ekkert síður snjallar, duglegar og reyndar en karlar. Ég gat um það í fyrri ræðu minni. Mér finnst þessi málefnafátækt ótrúleg og það að núa mér því um nasir að ég sé í (Forseti hringir.) einhverju þráhyggjukasti.



[16:31]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég skyldi nota þetta orð. Ég viðurkenni að það var vegna þess að mér hljóp kapp í kinn í umræðunni og mér þykir leitt að hv. þingmaður skuli taka því eins og hann gerir. Það sem mér fannst erfitt við þessa spurningu hv. þingmanns er það að vera að hengja sig í að ekki sé hægt að umbuna fólki fyrir snilli eða dugnað ef við förum að því frumvarpi sem hér er mælt fyrir.

Ég get alveg sagt sem svo að ef starfsmaður er svo duglegur eða snjall og greiða þurfi honum umfram umsaminn launataxta vegna þess þá tel ég auðvitað eðlilegt að atvinnurekendur hafi ákveðið svigrúm til þess. En það þarf ekki að vera leyndarmál, það þarf ekki að vera einhvers staðar bak við hurð og það þarf ekki að vera stimpill á því skjali sem gerir launamanninum ókleift að tala um að hann fái umbun vegna ákveðinna eiginleika sem hann búi yfir sem talið er að sé þess virði að greiða honum umfram það sem strípaður launataxti er eða guð veit hvað. Við erum ekki að tala um það í þessu máli að hlutirnir verði þannig niðurnjörvaðir að það verði ekkert svigrúm og engar leiðir til að umbuna fólki eða greiða fólki fyrir það sem það leggur fram í sínu starfi. Hv. þingmaður verður að athuga það að við erum fyrst og síðast að fókusera á bætta stöðu kvenna með tilliti til launa. Ef hv. þingmaður er sammála okkur, eins og hann segir í orði kveðnu og ég hef ástæðu til að ætla að hann sé, þá tel ég að hann verði að skoða þær hugmyndir sem hér eru til staðar með opnum huga og átta sig á að baráttan sem við segjum í orði kveðnu að við höfum verið að reka hingað til hefur ekki skilað neinum árangri. Launaleyndin hefur fært okkur aftur á bak. Þess vegna teljum við rétt að afnema hana til að ná árangri í þessum efnum, til að tryggja að hætt verði (Forseti hringir.) að brjóta mannréttindi á konum hvað þetta varðar.