133. löggjafarþing — 18. fundur
 1. nóvember 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:32]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi fá að nota tækifærið í upphafi þingfundar og inna hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra eftir því sem við höfum fregnað í morgun að ríkið hafi keypt hluta Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun, en sem kunnugt er hefur þetta stóra mál lengi verið í deiglunni. Hér virðast vera á ferðinni algjör reyfarakaup af hálfu ríkisins, því að Reykjavíkurborg og Akureyri fá aðeins 30 milljarða fyrir sinn hlut. Sérstaka athygli vekur að í samningnum virðist vera ákvæði um að ef ríkisvaldið selji Landsvirkjun öðrum aðila muni seljendurnir njóta góðs af því. Það hlýtur að vekja spurningar hjá okkur í þinginu hvort eitthvað slíkt standi til af hálfu iðnaðarráðherra, að selja Landsvirkjun til einkaaðila, fyrst þetta ákvæði er inni og hvort hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra telur yfir höfuð að það komi til greina að selja einkaaðilum það sem nú er orðið ríkisins eign, Landsvirkjun.

Sömuleiðis hljótum við að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort það komi til álita að renna saman við Landsvirkjun Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins og skapa þannig algeran einokunaraðila nánast á öllum sviðum raforkuframleiðslunnar í landinu eða hvort iðnaðarráðherra telur ekki nauðsynlegt að skapa einhverjar samkeppnisaðstæður á þessum markaði, og með hvaða hætti hann sér skipan raforkumála fyrir sér nú þegar ríkið er orðið nær allsráðandi á þessum markaði með því að eiga algerlega Landsvirkjum. Við hljótum líka að spyrja hvort ábyrgðum sé þá létt af Reykvíkingum vegna Kárahnjúkavirkjunar með því samkomulagi sem nú hefur verið gert um kaup ríkisins á Landsvirkjun eða hvort Reykvíkingar sitji eftir sem áður í tvöfaldri ábyrgð fyrir Kárahnjúkavirkjun, annars vegar í gegnum ríkisvaldið og hins vegar í gegnum borgina. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra.



[13:34]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar sem lýsa málefnalegum áhuga á þeim merka áfanga sem náðist í dag.

Það sem um er að ræða er að viðræður aðila hafa borið árangur með því að gerður er samningur um það að ríkið kaupi til sín eignarhluti Reykjavíkurborgar sem eru liðug 44% og eignarhluta Akureyrarbæjar sem er liðug 5% í Landsvirkjun.

Fyrirspyrjandi spyr um ábyrgðir. Ég hef skilið það svo að þessi kaup séu með öllu sem tilheyrir þannig að þá sé Landsvirkjun að öllu leyti á vegum ríkisins og þær ábyrgðir sem þar fylgja með. Þannig hef ég skilið þetta.

Fyrirspyrjandi spurði líka um tiltekið samningsákvæði um hugsanlegt endurmat. Ég hef skilið það svo að þarna sé einfaldlega um að ræða samningsákvæði sem algeng eru í viðskiptum með fyrirtæki þar sem lagt er til grundvallar eitthvert tiltekið mat. Þá er alltaf vitað að það er einhver viðskiptaleg óvissa og ef aðrar ákvarðanir eru teknar innan skamms tíma vilja seljendur gjarnan hafa ákvæði af þessu tagi. Ég hef skilið það þannig að hér sé einfaldlega um viðskiptalega niðurstöðu í samningum að ræða. Það liggur ekki fyrir að fyrirtækið verði selt og allra síst einkaaðilum. Það liggur þvert á móti fyrir að við þetta verður látið sitja. Landsvirkjun verður áfram sameignarfyrirtæki í opinberri eigu og við munum reyna að láta orkumarkaðinn þróast áfram á komandi árum án þess að breyting verði á því og það er ekki fyrirsjáanlegt.



[13:36]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessar fréttir komu svolítið á óvart þegar þær bárust hér laust fyrir hádegi. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið rætt, hvorki í bæjarstjórn á Akureyri né í borgarstjórn Reykjavíkur.

Það vekur líka furðu mína að málshefjandi, hv. þm. Helgi Hjörvar, skuli koma hér upp fyrir hönd Samfylkingarinnar því að ég veit ekki betur en að Samfylkingin sé í meiri hluta með Sjálfstæðisflokki á Akureyri og það hefðu kannski verið hæg heimatökin hjá Samfylkingunni að fá upplýsingar um þetta með því að hringja norður til Akureyrar og spyrja bæjarfulltrúa þar að því hvað væri hér í gangi.

Um leið og þessar fréttir bárust í morgun sendi F-listinn í Reykjavíkurborg frá sér yfirlýsingu. Ég tel rétt að hún sé lesin hér upp og þetta fari inn í þingtíðindi. Yfirlýsingin hljóðar svona, með leyfi forseta:

„F-listinn lýsir eindreginni andstöðu við fyrirhugaða sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun sem hann telur aðeins fyrsta skrefið í einkavæðingu fyrirtækisins. F-listinn varar við því að við einkavæðingu fyrirtækisins sé líklegt að vildarvinum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði afhent fyrirtækið á vildarkjörum. Það gæti orðið fyrsta skrefið að því að einkavæða einnig Orkuveitu Reykjavíkur og að einkaaðilar fengju smám saman yfirráð yfir orkulindum sem nú eru í almannaeigu. F-listinn krefst þess að ef sala á hlut borgarinnar í Landsvirkjun gengur eftir verði ábyrgðum borgarbúa vegna lántaka fyrirtækisins aflétt. Jafnframt átelur F-listinn að tilkynnt sé í fjölmiðlum um söluna án þess að málið hafi áður verið afgreitt í borgarstjórn. Þessi vinnubrögð bera keim af valdníðslu og að verið sé að sniðganga almenning í Reykjavík og kjörna fulltrúa þess.“

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að þessi yfirlýsing kæmi fram við upphaf þessarar umræðu og að sjálfsögðu styðjum við í þingflokki Frjálslynda flokksins eindregið okkar menn í borgarstjórn Reykjavíkur.



[13:38]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það ákvæði í samningnum sem við erum að tala um er ekki algengt í samningum sem ríkið stendur að. Það væri t.d. önnur staða á ríkissjóði ef þetta samningsákvæði hefði verið að breyttu breytanda sett inn í sölu bankanna á sínum tíma þar sem verðmæti þeirra hefur á nokkrum árum farið langt fram úr því sem menn létu sér detta í hug þegar bankarnir voru afhentir ýmsum aðilum í samfélaginu. Það að á svona ákvæði sé fallist af hálfu þess sem kaupir getur ekki verið annað en vísbending um að hann telji það mögulegt, hugsanlegt og jafnvel æskilegt að selja þetta fyrirtæki.

Nú eru sjö mánuðir til kosninga, sjö mánuðir eftir fyrir hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson að sitja í sínum stóli. Í hvaða krafti fullyrðir hann að málum sé komið þannig að Landsvirkjun verði hér sameignarfélag með einhverjum hætti til eilífðarnóns? Hefur það verið samþykkt í ríkisstjórninni? Liggja fyrir því samningar stjórnarflokkanna? Þessu er eðlilegt að Jón Sigurðsson svari.

Það er líka eðlilegt að ríkisstjórnin í gegnum sinn hæstv. iðnaðarráðherra svari því nú þegar hún hefur keypt Landsvirkjun hvaða hlutverk hún ætlar Landsvirkjun í framtíðinni. Ætlar hún Landsvirkjun það hlutverk að vera yfirgnæfandi fákeppnis- og einokunaraðili í raforkuframleiðslu og raforkudreifingu eða ætlar hún að gera eitthvað annað? Hvernig ætlar hún að fara með þær eigur sem hljóta að teljast almenningseigur? Hvernig ætlar hún að haga markaðssamkeppni á raforkumarkaði, sem við í raun og veru tókum við viljug nauðug á sínum tíma? Ætlar hún virkilega að hafa þetta ákvæði ógilt (Forseti hringir.) í samningnum eða ætlar hún kannski að einkavæða þetta fyrirtæki á næsta

kjörtímabili?



[13:40]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað lýst því yfir að hún sé andvíg því að verið sé að versla eða selja hluti Reykjavíkur eða Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur verið þannig félagsleg eign í opinberri eigu ríkis og þessara sveitarfélaga. Eignamyndun af hálfu Reykjavíkurborgar eða Akureyrar hefur verið með þeim sérstæða hætti að það hefur nánast gerst af sjálfu sér án þess að þessir aðilar hafi beint lagt þar mikið fjármagn til. Í raun var aðeins um eignarform að ræða af hálfu þjóðarinnar allrar. Þessu á nú að fara að breyta. Það er ekki sanngjarnt gagnvart íbúum landsins að þetta sé framkvæmt með þessum hætti.

Í öðru lagi hefur það ítrekað komið fram á Alþingi í umræðum fyrr bæði í fyrra og hittiðfyrra um einkavæðingu í raforkukerfinu að einn liður í því væri að ríkið næði til sín hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun þannig að þá opnaðist leið til að einkavæða og selja fyrirtækið. Fyrr væri ekki hægt að taka það á dagskrá. Það er marklítið þó að hæstv. núverandi iðnaðarráðherra segi að ekki standi til að selja fyrirtækið. Það má vel vera að það standi ekki til á morgun. En hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins lýstu því yfir hér bæði í fyrra og hittiðfyrra að það væri í sjálfu sér áform þeirra til framtíðar litið að einkavæða og selja fyrirtækið. Sá vilji hefur því verið ljós. Við erum þess vegna að stíga skref í enn þá frekari einkavæðingu raforkugeirans nákvæmlega hliðstætt og þegar við fórum í gang með Símann. Landssíminn var einkavæddur, Landssíminn var hlutafélagavæddur undir yfirlýsingu um að hann yrði aldrei seldur en var svo seldur nokkrum árum seinna. Við erum að fara inn á sömu braut hér. Þetta er hættuleg braut, þetta er röng braut og aðferðafræðin öll til skammar (Forseti hringir.) varðandi þennan málatilbúnað allan. Við þurfum að koma í veg fyrir að þetta gerist, frú forseti.



[13:42]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera söluverðið að umtalsefni. Það hlýtur að vera þannig að það sé rétt vegna þess að allir aðilar, bæði seljendur og kaupendur, samþykkja það. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni og ekki gagnrýna það.

Ég hef sjálfur haft þá skoðun, virðulegi forseti, að sveitarfélög eigi ekki að vera í raforkugeiranum, hvorki framleiðslu né sölu, og þess vegna held ég að það sé ekkert að því að hlutur í Landsvirkjun sé seldur til ríkisins en gagnrýni það og tek ekki undir að fyrirtækið verði einhvern tíma selt einkaaðilum eða braskað með það eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur m.a. gefið í skyn.

Virðulegi forseti. Það er annar þáttur sem ég vil draga inn í þessa umræðu og spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í og það er hvort kannað hafi verið gagnvart Íslendingum öllum hvernig eignarhlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun varð til. Verð ég þá fara aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar og samnings sem Bandaríkjastjórn gerði með svokallaðri Marshall-aðstoð við Íslendinga alla, sama hvar á landinu þeir bjuggu, en hluti af þeim peningum var notaður til að byggja upp Sogsvirkjun sem svo rann inn í Landsvirkjun og þannig byrjaði eignarhlutur Reykjavíkurborgar að myndast. Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég hef áður rætt á Alþingi og spurt um, sem ég gagnrýni og vil fá að vita hvort hafi verið kannað, þ.e. þessi eignarhlutur. Með öðrum orðum: Marshall-aðstoðin var fyrir Íslendinga alla. Ef hluti hennar hefur farið í að byggja Sogsvirkjun eins og sagt hefur verið og rétt er og hafi svo verið lagður inn sem eignarhlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun, var vitlaust gefið í upphafi. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra hvort þetta hafi verið kannað og hvort ekki sé svo að Íslendingar allir, jafnt úti á landi sem á höfuðborgarsvæðinu, eigi stóran hluta í því sem telst nú eignarhluti Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun.



[13:44]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim svörum sem hæstv. ráðherra gaf hér áðan. Mér fannst hæstv. ráðherra alls ekki svara skýrt þeim spurningum sem fram voru settar og ég ítreka að við þurfum að fá skýrari svör en hér hafa fengist.

Landsvirkjun er langstærsta fyrirtækið á raforkumarkaði. Landsvirkjun ber höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki en við eigum að vera á svokölluðum samkeppnismarkaði þar sem keppa á í frjálsri samkeppni milli fyrirtækja og mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann nokkra leið til þess að raforkumarkaðurinn á Íslandi virki sem samkeppnismarkaður miðað við stærð Landsvirkjunar og kemur til greina eða er það ætlan hæstv. ráðherra að renna Rarik og Orkubúi Vestfjarða inn í Landsvirkjun eftir að ríkið er orðinn einn eigandi og stækka Landsvirkjun enn frekar?

Vegna ákvæðisins um að þau sveitarfélög sem eru að selja njóti þess ef selt er til þriðja aðila fyrir hærra verð en nú er verið að kaupa á, þá langar mig að biðja hæstv. ráðherra að segja okkur hver fordæmin eru í svona stórum samningum sem hann vitnaði til áðan vegna þess að mér er ekki kunnugt um að þetta sé algengt ákvæði í samningum þar sem verið er að selja stór fyrirtæki eins og verið er að gera með sölu Landsvirkjunar til ríkisins. Einu dæmin um slík samningsákvæði sem ég veit um er þegar verið er að selja fótboltamenn á milli fótboltafélaga og menn velta fyrir sér hvort verðmæti þeirra komi til með að aukast. Þegar verið er að selja fyrirtæki og einhver óvissa er uppi þá er gerður fyrirvari um áreiðanleikakönnun. Menn fara í gegnum áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fyrir liggja og taka ákvörðun um kaupverðið upp eða niður miðað við þær. Ég held að hæstv. ráðherra verði að tala skýrar hvað varðar þetta ákvæði og einnig verður hæstv. ráðherra að tala mun skýrar um það hvort komi til greina að einkavæða Landsvirkjun á næstu missirum.



[13:46]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur nú verið ljóst um nokkurt skeið að ríkið hefði áhuga á að kaupa sveitarfélögin út úr Landsvirkjun þannig að fyrirtækið væri einvörðungu á hendi ríkisins. Það þarf því ekki að koma á óvart að viðræður hafi verið í gangi sem stefndu að því að ná niðurstöðu.

Það er rétt að bíða með að fella dóma yfir samningnum þar til hann hefur verið lagður fram og kynntur. Við höfum getað áttað okkur á einstökum atriðum hans. En ég held að menn þurfi að hafa ákveðin atriði í huga.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir í þingskjölum að seljendur í þessu máli hafa ákaflega lítið lagt fram til þess eignarhlutar sem þau eru að taka út úr fyrirtækinu núna. Óverulegar fjárhæðir hafa sveitarfélögin á Akureyri og Reykjavík lagt fram en þau eru að selja verðmætisaukninguna í fyrirtækinu sem orðið hefur til m.a. vegna einokunarstöðu fyrirtækisins um allt land, líka í sveitarfélögunum utan þessara tveggja.

Ef þessi tvö sveitarfélög geta selt þessa eign fyrir svona miklar fjárhæðir þá er ríkið í raun að búa til mismun á milli þessara tveggja sveitarfélaga og annarra sveitarfélaga. Það verður að skoða málið í því ljósi að ríkisvaldið geti ekki verið að skekkja myndina milli sveitarfélaga innbyrðis með þessu móti.

Í öðru lagi þurfa menn að hafa í huga að Landsvirkjun er ákaflega stórt fyrirtæki á ófullkomnum samkeppnismarkaði og hefur mikið af réttindum. Ef til þess kemur, sem greinilega er ekki útilokað í samningnum, að fyrirtækið verði selt úr höndum ríkisins, þá eru mörg helstu réttindi til virkjunar í landinu komin í eigu annarra aðila. Við sjáum þá að samkeppnisstaða annarra fyrirtækja við hið einkavædda fyrirtæki verður ákaflega erfitt.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni, virðulegi forseti, að ég tel að það eigi ekki á næstu árum að minnsta kosti, (Forseti hringir.) að huga að sölu Landsvirkjunar. (KolH: En hvað segir Framsóknarflokkurinn?)



[13:49]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að búið sé að kaupa borgina út úr Landsvirkjun því það gat auðvitað ekki gengið í samkeppnisumhverfi að hún ætti bæði Orkuveituna og þennan stóra hlut í Landsvirkjun.

Ég fagna líka yfirlýsingu iðnaðarráðherra um að með þessu sé ábyrgðum vegna virkjanaframkvæmda Landsvirkjunar létt af Reykvíkingum. Þeir séu ekki í tvöfaldri ábyrgð. Ég treysti því að sú yfirlýsing standi. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig verði staðið að því að létta þeim ábyrgðum af Reykvíkingum því þeir eru augljóslega í ábyrgð núna, sérstaklega fyrir þeim skuldbindingum sem stofnað hefur verið til vegna Kárahnjúka.

Ég fagna því líka að iðnaðarráðherra lýsir því yfir að ekki standi til að selja Landsvirkjun á næstunni. Það virðist þó vera ágreiningur í ríkisstjórninni því forsætisráðherra, Geir Haarde, hefur lýst því yfir að það sé eitthvert stærsta pólitíska verkefnið á Íslandi í dag, að einkavæða Landsvirkjun.

Þegar Framsóknarflokkurinn svarar svona dræmt og segir: Á næstunni. Þá hljótum við að spyrja hvað „á næstunni“ þýðir. Kemur ekki til greina á næsta kjörtímabili að selja Landsvirkjun að áliti formanns Framsóknarflokksins? (Gripið fram í.) Eða er hann tilbúinn til að fara með formanni Sjálfstæðisflokksins í þann leiðangur að einkavæða orkuauðlindir landsins með sama hætti og þessir flokkar einkavæddu auðlindir okkar sameiginlega í hafinu?

Það er mikilvægt að formaður Framsóknarflokksins tali skýrt í þessu. Það er líka mikilvægt að hann tali skýrt um það hvort steypa eigi saman í eitt Rafmagnsveitum ríkisins, Orkubúi Vestfjarða og Landsvirkjun. Vegna þess að þó það sé sjálfsagt að reyna að greiða markaðsöflunum leið inn á framleiðslumarkaðinn í raforku þá er ekkert eins vont rekstrarform til í heiminum og einkavædd einokunarfyrirtæki. Ef það er ætlun ráðherrans að byggja upp slíkt fyrirtæki sem hér er lýst með því að steypa þessum þremur fyrirtækjum saman í eitt, þá er nauðsynlegt að (Forseti hringir.) þjóðin fái að vita það strax.



[13:51]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Þessi samningur um kaup á eignarhlutum er ekki fyrsta skref í einkavæðingu og tengist slíku ferli á engan hátt. Ákvæðið um leiðréttingu kaupverðs tengist að því leyti þeim ábyrgðum sem hv. þingmaður spurði um, að gert er ráð fyrir ákveðnu tímabili til að hreinsa þetta út sem er til 1. janúar 2012.

Ég get ekki á þessu stigi svarað spurningu um tilurð eignarhluta Reykvíkinga en eftir þeim upplýsingum sem ég hafði um Marshall-aðstoðina var ekki gert ráð fyrir að þar yrði breytt eignaraðstæðum á stofnunum og fyrirtækjum. Ekki liggja fyrir á þessu stigi neinar niðurstöður um frekari skipulagsbreytingar sem snerta Rarik eða Orkubú Vestfjarða.

Þessi samningur er einfaldlega til þess að koma í veg fyrir óeðlileg tengsl og hagsmuna- og trúnaðarárekstra á markaði, til þess að gera eignaraðstæður og hagsmuni skýra. Þetta er merkur og mikilvægur áfangi í mótun raforkumarkaðar. Hann er gerður að sjálfsögðu með fyrirvara um samþykkt Alþingis og frumvarp væntanlegt í því sambandi.