133. löggjafarþing — 18. fundur
 1. nóvember 2006.
fæðingarorlofsgreiðslur og umönnunarbætur.
fsp. JóhS, 104. mál. — Þskj. 104.

[13:53]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkru var í umræðunni og á því vakin athygli að umönnunargreiðslur vegna fatlaðra barna séu ekki greiddar samtímis fæðingarorlofsgreiðslum og sýnt fram á hve gífurlega illa þetta óréttlæti bitnar á foreldrum fatlaðra barna. Sjónvarpið sýndi viðtal við foreldra þriggja ára fatlaðs barns sem þurftu lengi að vera utan vinnumarkaðar vegna mikillar umönnunarþarfa barnsins. Auðvitað voru þessir foreldrar bitrir út í stjórnvöld og sögðu að þau hefðu aldrei komið yfir þetta nema með aðstoð og hjálp vina sinna.

Það er, virðulegi forseti, aldeilis furðulegt að hvorki ábendingar umboðsmanns Alþingis né mótmæli frá ýmsum aðilum, m.a. okkur í Samfylkingunni, við þessu óréttlæti og tillöguflutningur á Alþingi hafi ekki dugað til að leiðrétta þetta mál og þá annmarka á fæðingarorlofslöggjöfinni. Félagsmálaráðherra sagði af því tilefni þegar þetta birtist í sjónvarpi að hann ætlaði að athuga málið.

Á Alþingi hef ég margsinnis vakið athygli á þessu. Síðast fyrir tveimur árum fluttum við í Samfylkingunni breytingartillögu við fæðingarorlofslögin um að það bæri að greiða umönnunargreiðslurnar samhliða fæðingarorlofsgreiðslum vegna fatlaðra barna. Því miður var sú tillaga felld og því er þetta óréttlæti enn við lýði.

Stjórnarliðum má fullvel vera ljóst, ef þeir kynntu sér málið, hve mikið réttlætismál það er að breyta lögunum til hagsbóta fyrir foreldra fatlaðra barna. Nægir eru erfiðleikarnir sem þeir þurfa að takast á við þó stjórnvöld hafi kosið að horfa algerlega fram hjá þessu óréttlæti. Það hefur allan tímann legið í augum uppi að umönnunargreiðslur eru ætlaðar til að mæta viðbótarútgjöldum sem foreldrar verða fyrir vegna fötlunar barnsins og því er ekkert sem réttlætir það að ekki sé hægt að greiða þær samtímis.

Það mæla, virðulegi forseti, sem sagt engin rök með því að foreldrar sem eignast börn sem þurfa sérstakrar umönnunar við samkvæmt mati verði án þeirra greiðslna í fæðingarorlofi, enda eðli málsins samkvæmt um viðbótarútgjöld að ræða.

Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. félagsmálaráðherra eftirfarandi fyrirspurn: Hvaða rök eru fyrir því að umönnunargreiðslur eru ekki greiddar samtímis fæðingarorlofsgreiðslum? Og í annan stað: Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir lagabreytingu sem tryggi að foreldrar fatlaðra barna geti fengið umönnunargreiðslur samtímis greiðslum í fæðingarorlofi?

Rétt er að rifja upp að í svari við fyrirspurn minni á Alþingi fyrir fjórum árum kom fram að 112 börn fædd árin 2001 og 2002 hafa fengið umönnunarmat. Í svarinu kom fram að telja megi nokkuð ljóst að í tilvikum 36 barna sem fæddust á árinu 2001 og tíu barna sem höfðu fæðst á árinu 2003, þegar svarað var, hefðu umönnunarbætur verið greiddar frá fæðingu, ef umönnunargreiðslur og fæðingarorlof mætti greiða saman, en það er bannað samkvæmt núgildandi ákvæði.

Félagsmálaráðherra hefur gefið vonir um að hann muni bregðast við með jákvæðum hætti og leiðrétta þetta ranglæti og ég vona að það verði svarið sem við fáum í þessum ræðustóli í dag.



[13:56]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur lýtur að samræmingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði annars vegar og umönnunargreiðslna til framfæranda fatlaðra og langveikra barna, samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, hins vegar.

Eftir að ég tók við embætti félagsmálaráðherra síðasta sumar hef ég látið fara mjög vel yfir þessi mál. Eftir þá yfirferð er ég þeirrar skoðunar að þessar greiðslur séu samrýmanlegar í eðli sínu. Tilgangur þeirra er ekki sá sami þar sem greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ætlað að mæta tekjumissi foreldra er þeir annast barn sitt í fæðingarorlofi, en umönnunargreiðslunum er ætlað að mæta útgjöldum fjölskyldna sem rekja má til veikinda eða fötlunar barna.

Ég svara því síðari spurningu hv. þingmanns játandi. Ég mun beita mér fyrir því að gerðar verði breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof á yfirstandandi þingi í þá veru að þessar greiðslur fari saman.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að með þeim orðum hafi ég svarað þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín og hef ekki fleiri orð um málið að sinni.



[13:57]
Sigríður Ingvarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á vef Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að tímabil umönnunargreiðslna geti verið frá lokum greiðslna í fæðingarorlofi til 18 ára aldurs og heimilt sé að hefja greiðslur fyrr. Velur þá foreldrið umönnunargreiðslur í stað greiðslna í fæðingarorlofi sem falla niður.

Það að hefja ekki greiðslur umönnunarbóta fyrr en að lokum greiðslna fæðingarorlofs eða að skikka foreldra til að velja á milli umönnunargreiðslna eða greiðslna vegna fæðingarorlofs, er kolrangt og velferðarþjóðfélagi okkar ekki sæmandi. Því fagna ég svari hæstv. félagsmálaráðherra. Samfélagið á að koma til móts við foreldri ef um veikindi barna er að ræða. Ekki er ásættanlegt að efnahagur foreldra ráði hvort þeir geti sinnt foreldrahlutverkinu ef um veikindi barna er að ræða eða ekki. Nægilegir eru erfiðleikar fólks samt.



[13:58]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra, Magnúsi Stefánssyni, fyrir að taka svona vel í þær breytingar sem við höfum verið að leggja margsinnis til og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur vakið hér máls á. Þetta hefur verið ákaflega óréttlát regla, að fólk sem er með fötluð börn og ber mikil útgjöld vegna þess skuli ekki fá umönnunargreiðslur á sama tíma og fæðingarorlofsgreiðslur. Því það er auðvitað verið að greiða fyrir allt aðra hluti með umönnunargreiðslunum, verið er að greiða fyrir útgjöld vegna veikinda og fötlunar þessara barna.

Ég tel því að þetta sé tímamótayfirlýsing frá hæstv. ráðherra. Þessi óréttláta regla hefur verið allt of lengi í gildi og löngu tímabært að breyta þessu. Það eru að meðaltali 20 börn á ári og foreldrar þeirra sem lenda í þessu óréttlæti. Þetta er ekki dýrt fyrir samfélagið en fullkomlega réttlátt og löngu tímabært, eins og ég sagði áðan. Ég vil þakka fyrir þessa yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra.



[14:00]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gleðst mjög yfir svörum ráðherra og það er full ástæða til að þakka honum innilega fyrir hvað hann hefur brugðist vel við í málinu. Það hefur verið beðið mjög lengi eftir þessari breytingu og þeirri yfirlýsingu sem hér kemur fram og ég er sannfærð um að margir foreldrar langveikra barna munu fagna yfirlýsingu ráðherra sem að mínu mati er tímamótayfirlýsing. Það er mjög ánægjulegt að finna þann skilning sem kemur fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra í málinu vegna þess að þó að við höfum verið að kalla eftir því hjá forverum hans að leiðrétta það ranglæti sem þarna er þá hefur ekki verið brugðist við því. Ég er sannfærð um að ef brugðist hefði verið fyrr við þessu hefði það bætt stöðu og kjör fjölmargra foreldra fatlaðra barna. Þetta er sannarlega ekki mikill kostnaður eða útgjöld fyrir ríkissjóð en getur skipt sköpum fyrir foreldra langveikra barna.

Ég vænti þess að ráðherrann komi fljótt með málið inn í þingið þannig að það geti orðið að lögum fyrir jól og spyr hæstv. ráðherra hvenær við megum vænta þess að fá þetta frumvarp inn í þingið. Ég mun sannarlega beita mér fyrir því að það fái eins skjótan og greiðan aðgang í gegnum þingið og kostur er, en ég mun væntanlega fá það til umfjöllunar í félagsmálanefnd.

Ég vænti þess einnig að hæstv. ráðherra, sem hér sýnir velvilja sinn og hug í garð foreldra fatlaðra barna, skoði líka þær tillögur sem við erum með í þinginu um að lagfæra þá annmarka sem eru á lögum um greiðslu til foreldra langveikra barna sem urðu að lögum á síðasta þingi en á því máli eru miklir annmarkar sem þarf að skoða. En ég lýsi aftur þakklæti mínu til hæstv. ráðherra.



[14:02]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég hef áður sagt, ég vil bara fá að þakka fyrir góð orð í minn garð og vonast til þess að við munum eiga gott samstarf um að afgreiða frumvarpið þegar það kemur hér fram.

Vegna spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um hvenær það verði get ég því miður ekki sagt fyrir um það núna en hugur minn stendur til að það verði sem allra fyrst þannig að við getum lokið málinu eins fljótt og verða má.