133. löggjafarþing — 18. fundur
 1. nóvember 2006.
raforkuverð til garðyrkjubænda.
fsp. BjörgvS, 150. mál. — Þskj. 150.

[15:24]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um lækkun á raforku til garðyrkjuframleiðslu og hvort til skoðunar sé í ráðuneytinu að mæta brýnni þörf garðyrkjunnar fyrir ódýrara rafmagn og þá sérstaklega í tengslum við þau raforkulög sem tóku gildi á sínum tíma.

Það er hægt að halda því fram að ríkisvaldið hafi brugðist þessari gjaldeyrissparandi hollustugrein á síðustu árum og býr sú stóriðja sem grænmetisframleiðslan er að mörgu leyti við miklu lakari kjör en hin hefðbundna stóriðja í kaupum sínum á raforku sem liggur greininni algerlega til grundvallar. Framleiðsla á grænmeti og blómum byggist að miklu leyti á notkun á rafmagni og hefur framleiðsla garðyrkjubænda margfaldast eftir að þeir tóku í sína þjónustu lýsingu af ýmsu tagi.

Það var til að mynda mjög sláandi frétt á dögunum þar sem fram kom að garðyrkjubóndi einn á Flúðum borgar 3 millj. á mánuði í rafmagn, 3 millj. fyrir ylræktarstöð sína á mánuði. Þar segir að fyrir 10 árum hafi garðyrkjubændur lýst miklu minna en nú noti þeir margfalt rafmagn og uppskeri að sjálfsögðu margfalt meira. Uppskerutíminn er miklu styttri og þeir ná að framleiða miklu meira, og fá betri vöru. Þess vegna er svo brýnt sem raunin er að mæta þörf garðyrkjunnar fyrir ódýrara rafmagn.

Raforkuverðið á, virðulegi forseti, að mínu mati að færa eins langt niður og hægt er. Garðyrkjan er gjaldeyrissparandi hollustugrein. Hún er sannkölluð græn stóriðja. Það er ósanngjarnt að grein sem á svo mikið undir raforkunni og raforkuverði skuli lúta svo ósanngjörnum kjörum samanborið við erlenda stóriðju í landinu. Í leiðinni er verið að skekkja framleiðslustöðu grænmetis verulega í samanburði við innflutta vöru. Besta leiðin til að hlúa að greininni og byggja undir hana er að bjóða ódýrt rafmagn. Því spyr ég hæstv. ráðherra þeirrar spurningar sem hér er lögð fram.

Það verður að mínu mati, virðulegi forseti, að finna leið til að lækka raforkuverðið. Annars lendir garðyrkjuframleiðslan í enn þá meiri vanda en hún er í nú og greininni hrakar. Við eigum að byggja undir greinina, sérstaklega í ljósi breyttra laga eins og ég nefndi áðan, þannig að heilsársframleiðsla á grænmeti komist í betri farveg. Þau tímamót sem mundu felast í því að lækka raforkuverðið til garðyrkjubænda mundu skjóta mjög stoðum undir greinina. Það væri t.d. fróðlegt að heyra hjá hæstv. iðnaðarráðherra, ef hann hefði á hraðbergi, hve mikill munur er á raforkuverði til grænmetisframleiðenda og hefðbundinnar stóriðju.



[15:27]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Frá síðustu áramótum hafa allir kaupendur raforku haft frelsi til að velja raforkusala. Hvað varðar framleiðslu og sölu á raforku er það svo að orkusölum er heimilt að veita afslætti til gróðurhúsabænda eða annarra ef fyrirtækin sjá sér í hag í því og gæta þess að fara ekki á svig við samkeppnisreglur.

Hins vegar leiddu breytingar á skipulagi raforkumála til þess að óheimilt er að taka mishátt gjald fyrir flutning og dreifingu raforku eftir því til hvers orkan er notuð. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við setningu gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu sé tekið tillit til þess að orkunotkun gróðurhúsabænda er talsverð og að hluta til er hægt að haga henni þannig að hún falli utan álagstoppa. Slík gjaldskrárákvæði byggja á því að þeir notendur sem eru eins settir varðandi orkunotkun og -nýtingu njóti sömu kjara en ekki er gert ráð fyrir sérstökum afsláttarkjörum til einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa.

Eins og fram kom í svari þáverandi iðnaðarráðherra við samhljóða fyrirspurn hv. þingmanns í febrúar 2005 heyra málefni gróðurhúsabænda undir verksvið landbúnaðarráðuneytisins. Í gildi er aðlögunarsamningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, frá árinu 2002, milli fjármála- og landbúnaðarráðherra annars vegar og Bændasamtaka Íslands og Sambands garðyrkjubænda hins vegar.

Á grundvelli þessa aðlögunarsamnings hefur landbúnaðarráðuneytið, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, unnið að því að koma til móts við þarfir garðyrkjubænda varðandi ódýrara rafmagn. Þessi vinna skilaði sér í því að vorið 2005 undirrituðu landbúnaðarráðherra og Samband garðyrkjubænda samninga við Rafmagnsveitur ríkisins annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hins vegar um raforkudreifingu til gróðurhúsalýsingar sem gilda til 31. desember 2011.

Þá skuldbindur landbúnaðarráðuneytið sig til að greiða niður flutning og dreifingu raforku til lýsingar plantna í gróðurhúsum með því að magnliðir í gjaldskrám orkufyrirtækjanna fyrir flutning og dreifingu eru greiddir niður um 95% en framleiðendur garðyrkjuafurða greiða 5%.

Í samningum þessum skuldbinda orkufyrirtækin sig jafnframt til að selja flutning og dreifingu raforku til garðyrkjubænda samkvæmt þeim gjaldskrárlið sem að jafnaði er hagstæðastur hverjum notanda fyrir sig miðað við heildargjöld af flutningi og dreifingu.



[15:30]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Raforkan er jú undirstaða atvinnulífs hér á landi. Nærri 80% af henni eru bundin í einni atvinnugrein, stóriðju, erlendri stóriðju á umsömdu verði, verði sem ríkisvaldið sjálft hefur samið um undirboð á. Aðeins liðlega 20% eru á almennum markaði. Gróðurhúsaframleiðslan ætti mikla möguleika hér á landi ef hún nyti jafnréttis við erlenda stóriðju.

Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hér hvert verð væri á raforku annars vegar til garðyrkjunnar og hins vegar til erlendu stóriðjunnar. Það er þetta jafnræði til atvinnulífs sem á að vera hér en ekki það að stjórnvöld ráðstafi 80% af raforkunni (Forseti hringir.) á einhverjum spottprís en síðan keppa aðrir (Forseti hringir.) á verði sem heldur viðkomandi stóriðju uppi. (Forseti hringir.) Það gengur ekki, herra forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða þau knöppu tímamörk sem eru í umræðum af þessu tagi.)

Þetta er nú svo mikið stórmál.



[15:31]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að hreyfa við þessu máli vegna þess að hér er um að ræða gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur. Grænmetisneysla fer ört vaxandi, sem betur fer, í samfélagi okkar og þá skekkir það auðvitað samkeppnisstöðuna fyrir íslenska grænmetisbændur gagnvart innfluttu grænmeti ef þeir þurfa að greiða þetta himinháa raforkuverð.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, auðvitað á að ríkja og verður að ríkja jafnvægi milli atvinnugreina í þessu tilliti. Ég tel að það eigi að koma til móts við garðyrkjuframleiðendur í landinu og lækka raforkuverð til þeirra vegna þess, eins og ég kom inn á í upphafi, að það er mjög stórt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur að þeir fái hér íslenskt grænmeti á sanngjörnu og góðu verði.



[15:33]
Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Það verður örugglega svo um ókomin ár að hér verður rætt um raforkuverð eftir þá breytingu sem hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra beitti sér fyrir á síðasta þingi, þ.e. breytinguna í frjálsræðisátt.

Hér hefur verið gert að umtalsefni raforkuverð til garðyrkjubænda, áður hefur verið rætt um fiskeldið. Því var reddað fyrir horn á síðustu stundu en eftir stendur, og það vil ég spyrja hæstv. núverandi iðnaðarráðherra út í, formann Framsóknarflokksins, sú stórkostlega hækkun sem hefur orðið á raforkuverði til fólks í dreifbýli og þá alveg sérstaklega til bænda og fólks á minni stöðum: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því að lækka þann raforkukostnað, þann raforkureikning sem hefur hækkað um allt að 40–50% frá því að þessi breyting var gerð? Hvað hyggst formaður Framsóknarflokksins leggja til í þessum málum eða á þetta fólk að bera þá hækkun sem þarna hefur komið fram, (Forseti hringir.) breytingu sem var sagt þegar málið var flutt að mundi ekki hafa neina hækkun í för með sér fyrir neina aðila?



[15:34]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Breytingar sem urðu á skipan raforkumála vegna nýrra raforkulaga hafa einungis leitt til hækkana hjá iðnaðinum, hjá þeim sem nota mikla raforku. Þetta er orðið þannig mál að það þarf að fara í gegnum það. Nú liggur fyrir þingsályktunartillaga um það að rækilega verði farið í gegnum þetta og það er spurning hver afstaða hæstv. ráðherra er þannig að við þurfum ekki að deila hér um hvert og eitt fyrirtæki, bakarí, fiskeldisfyrirtæki sem fá sérsamning, gróðurhúsin og hvaðeina.

Það væri mjög áhugavert að fá afstöðu hæstv. ráðherra til þessa máls, sérstaklega í ljósi þess að þessi skipan átti að leiða til þess að allir sætu við sama borð. Núna er ríkisvaldið að lyfta undir þennan atvinnuveginn, það var fiskeldið í sumar og hvað verður það á morgun?



[15:35]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra las hér upp úr svarinu sem embættismennirnir höfðu útbúið að óheimilt væri að taka mismunandi verð fyrir flutning á raforku. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þá sé ekki hægt að álykta að hann haldi því fram að það sé sama verð fyrir flutning á kílóvattstund til stóriðju og til almenns iðnaðar. Ætli það geti ekki verið að heildarverðið til stóriðjunnar með flutningi og öllu saman sé lægra en bara flutningurinn á rafmagninu til atvinnufyrirtækja og heimila á Íslandi? Ég hefði haldið ef maður skoðaði það mál að það væri þannig.

Að öðru leyti var fátt í svari hæstv. ráðherra sem vakti athygli mína og ég verð bara að viðurkenna alveg eins og er að upplesturinn á þessu var með þeim hætti að ég skildi fátt af því sem fram kom.



[15:36]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst í raun og veru undrunarefni að stjórnvöld skuli ekki sýna þessu máli meiri skilning, þ.e. að ekki skuli vera gert meira til þess að reyna að mæta þörf garðyrkjubænda fyrir ódýra raforku. Garðyrkjan er víða stóriðja, hún er ekkert annað en stóriðja og skapar mörg mikilvæg störf úti á landsbyggðinni, ekki síst á Suðurlandi. Ég minni líka á að á Suðurlandi er ein mesta raforkuframleiðsla landsins. Mér finnst mjög undarlegt að ekki skuli vera gert meira til að reyna að gera þessum atvinnuvegi hærra undir höfði. Þvert á móti höfum við séð beinar aðfarir að honum, til að mynda áttum við hér í fyrra mjög athyglisverða umræðu um tollamál þegar landbúnaðarráðuneytið felldi niður tolla á garðyrkjuvörum innfluttum til landsins sem kom þessum iðnaði mjög illa. Við sjáum á sama tíma einnig að málefni Garðyrkjuskólans á Reykjum, mjög merkilegrar skólastofnunar, eru meira og minna í uppnámi og mikilli óvissu þessa dagana.

Ég hlýt að lýsa miklum vonbrigðum með það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) hvernig staðið er að þessari merku atvinnugrein nú um stundir.



[15:37]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. ráðherra var ákaflega kaldar kveðjur til garðyrkjuframleiðslunnar í landinu. Það voru ákaflega nöturleg skilaboð og í skeytingarleysi hæstv. ráðherra felst aðför að stöðu atvinnugreinarinnar. Skeytingarleysið er algjört, og skilningsleysið, á þörfinni og það að skjóta sér á bak við óheimila mismunun eftir atvinnugreinum þegar verið er að niðurgreiða margfalt verð á raforku til stóriðjunnar í landinu og skjóta sér á bak við það að ekki sé hægt að mæta hinni brýnu þörf grænu stóriðjunnar, sem þessi gjaldeyrissparandi hollustu- og undirstöðugrein er í íslenskri matvælaframleiðslu, með neinum hætti eru stórfurðuleg pólitísk skilaboð og hljóta að kalla á ögn skarpari svör frá hæstv. ráðherra.

Það undraði mig mjög að í svari hæstv. ráðherra fælist ekki einu sinni ádráttur um að það kæmi til greina að mæta þeirri brýnu þörf sem garðyrkjan er í fyrir ódýrara rafmagn sem liggur frekari framleiðslu og öflugri rekstri þessara fyrirtækja fullkomlega til grundvallar. Þetta voru kaldar kveðjur, hæstv. forseti, nöturleg skilaboð til garðyrkjunnar í landinu og ég skora á hæstv. ráðherra að lýsa vilja sínum til góðra verka í þessa átt í staðinn fyrir að fara með þá rullu sem hann fór með hér áðan þegar allir vita að það er brunaútsala í gangi á rafmagni til erlendrar stóriðju og sú grein sem hér um ræðir mætir um leið algjöru skilningsleysi.



[15:39]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vísa til þess sem ég sagði áðan um samninga sem gerðir voru að frumkvæði landbúnaðarráðuneytisins og eru í framkvæmd. Þar er talsverðum fjármunum varið í þann málaflokk sem hér er verið að tala um. Í iðnaðarráðuneytinu er talsvert verið að athuga ýmis erindi sem borist hafa vegna raforkukostnaðar í dreifbýli, sem hér var einnig nefnt, og ég get í þriðja lagi nefnt að mér er kunnugt frá Orkustofnun um að þar er í undirbúningi verkefni um orkusparnað í lýsingu í gróðurhúsum.