133. löggjafarþing — 21. fundur
 6. nóvember 2006.
erlent vinnuafl og innflytjendur.

[15:22]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Nú um áramótin ganga Búlgaría og Rúmenía í Evrópusambandið. Ég kem hér upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra. Það sem ég vil fá að grennslast fyrir um er hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur í málefnum þessara ríkja, þ.e. varðandi frjálst flæði vinnuafls frá þessum löndum. Í þessum löndum búa um 30 millj. manns. Þetta eru mjög fjölmenn ríki, hundrað sinnum fjölmennari en Ísland, fátæk ríki, og mig fýsir að vita hvort vænta megi einhvers konar frumvarps frá ríkisstjórninni hingað inn í þingið þar sem breyta þarf þá lögum, vænti ég, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, með svipuðum hætti og gert var með fádæma sleifarlagi hér í vor þegar frjálst flæði vinnuafls var samþykkt frá öðrum löndum sem eru nýgengin í Evrópusambandið. Þetta miðaðist við 1. maí á þessu ári.

Það væri gott að fá svar við þessari spurningu: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í þessu máli? Hvers er að vænta af hálfu ríkisstjórnarinnar? Ég minni á það að tíminn líður hratt og það er ekki langur tími eftir af störfum þingsins. Áætlun segir að við skulum hætta hér störfum og fara í jólafrí 15. desember, þ.e. eftir rétt rúman mánuð.

Ég mundi líka vilja fá að grennslast fyrir um það hjá hæstv. ráðherra hvað líði framkvæmdaáætlun varðandi málefni innflytjenda sem átti að kynna fyrir félagsmálanefnd fyrir 1. október 2006, þ.e. á þessu ári, fyrir rúmum mánuði. Það var talað um að það ætti að fara í þessa vinnu þegar lögin um frjálst flæði voru samþykkt hér þann 28. apríl sl. en ég veit ekki til þess að neitt bóli á þeirri framkvæmdaáætlun.

Einnig átti starfshópur að fara yfir þessi málefni þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins áttu að eiga sæti. Þessi starfshópur átti að skila af sér 1. nóvember sl. en ég hef ekki séð að af því hafi orðið.



[15:24]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hvað varðar Búlgaríu og Rúmeníu liggur ekki fyrir ákvörðun um hvernig á því máli verði tekið svo að ég svari því bara örstutt. Varðandi málefni innflytjenda og stefnumótun í því var innflytjendaráð skipað fyrr á þessu ári, í upphafi ársins. Það hefur unnið að þessari stefnumótun og ég vænti þess að við sjáum afrakstur þeirrar vinnu fljótlega.

Í þriðja lagi varðandi nefnd sem hefur verið að störfum í ráðuneytinu sem m.a. aðilar vinnumarkaðarins eiga aðild að varðandi lagaumhverfi útlendinga á vinnumarkaði hefur verið mikil vinna í gangi í þeim efnum undanfarnar vikur og mánuði. Ég vænti þess einnig að niðurstaða þeirrar vinnu liggi fyrir mjög fljótlega. Ég mun m.a. eiga fund síðar í dag með fulltrúum ASÍ út af því máli.



[15:25]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta svar fannst mér alveg fádæma lélegt. Það kemur sem sagt í ljós að ríkisstjórnin hefur enn þá ekki gert upp hug sinn varðandi það hvað gera eigi þegar Rúmenía og Búlgaría verða aðilar að Evrópusambandinu núna um áramótin. Það liggur ekki fyrir nein stefna í þessu máli.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni eru ekki margir dagar eftir af störfum þingsins fram að jólum. Við hér á Alþingi, við þingmenn sem erum með löggjafarvaldið í þessu landi, þurfum að fá þetta mál til meðferðar. Ég reikna með að það sé réttur skilningur hjá mér að svo verði.

Á þá virkilega að fara sömu leið og hér í vor þegar lögin um frjálst flæði voru keyrð í gegnum þingið á örfáum dögum, afgreidd út úr félagsmálanefnd, nánast með valdi, og allir þingmenn greiddu því atkvæði nema þrír, þ.e. þingmenn Frjálslynda flokksins, eini flokkurinn sem hélt haus í þessu máli? Ætlum við virkilega að halda áfram þessum vinnubrögðum á hinu háa Alþingi? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessir starfshópar sem voru skipaðir hér í vor — það var lofað að farið yrði í þessa vinnu — af hverju er ekki búið að fara í þessa vinnu? (Forseti hringir.) Þetta þýðir náttúrlega að þessi mál eru í algerum ólestri.



[15:27]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hv. þingmann að gæta orða sinna og fara rétt með. Þessir starfshópar sem ég nefndi hér og fór yfir, annars vegar innflytjendaráð og hins vegar nefndin sem er að fjalla um atvinnumál útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, hafa unnið mjög mikið starf. Það er ekki rétt að ekkert hafi gerst í því. Hins vegar liggur ekki fyrir niðurstaða úr því starfi enn þá.

Ég vildi bara taka það mjög skýrt fram hér að sú vinna hefur verið í fullum gangi í margar vikur og mánuði. Ég vonast til að sú niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst. Ég er sammála hv. þingmanni í því að við þurfum auðvitað að ljúka því máli sem fyrst.



[15:27]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Upp úr stendur í þessu máli að ekki hefur verið staðið við þau fyrirheit sem þingmönnum voru gefin hér þegar þetta nefndarálit meiri hluta félagsmálanefndar var lagt fram í þinginu. Það hefur ekki verið staðið við þessi fyrirheit. Það hefur ekki verið staðið við þessar dagsetningar. Það var talað um 1. október, að þann dag ætti að liggja fyrir þessi áætlun þar sem mótuð yrði stefna í málefnum innflytjenda. Það er ekki enn þá búið að gera þetta.

Það liggur sem sagt ekki fyrir nein stefna af hálfu stjórnvalda um málefni innflytjenda í þessu landi sem hafa flætt inn í landið á örfáum vikum og mánuðum fyrir tilstilli þessarar hroðalegu lagasetningar sem Alþingi samþykkti hér þann 28. apríl sl.

Hvernig væri þá að félagsmálaráðherra sýndi að minnsta kosti þá döngun að svara spurningu minni: Er þess að vænta að hér komi fram eitthvert frumvarp frá ríkisstjórninni áður en Alþingi fer í jólafrí þann 15. desember, eða ekki? Getum við þá að minnsta kosti fengið einhver svör um það?



[15:28]
félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður hefur vitnað í um tímasetningar á skilum þess starfs sem annars vegar lýtur að innflytjendaráði og hins vegar varðandi nefndina sem vinnur að málefnum útlendinga á íslenskum vinnumarkaði vitnar hann í nefndarálit félagsmálanefndar þar sem það kemur fram. Það er rétt. Hins vegar þekki ég því miður ekki hvort fyrirheitin hafa verið gefin af hálfu félagsmálaráðuneytisins. Ég verð þá bara að kynna mér það. (Gripið fram í.) Vegna þess að ég var ekki þá í því ráðuneyti.

En ég bara ítreka að varðandi Rúmeníu og Búlgaríu liggur ekki fyrir endanleg niðurstaða um það en ég vonast til að það verði sem fyrst. (Gripið fram í.)