133. löggjafarþing — 24. fundur
 9. nóvember 2006.
almannatryggingar og málefni aldraðra, 1. umræða.
stjfrv., 330. mál (lífeyrisgreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega o.fl.). — Þskj. 353.

[15:50]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Frumvarp þetta er samið í framhaldi af tillögum nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra 16. janúar 2006 til þess annars vegar að fjalla um búsetu- og þjónustumál aldraðra með tilliti til fjölbreyttari búsetuforma, stoðþjónustu og samþættingar heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu og hins vegar að skoða fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu bóta lífeyrisþega vegna tekjuöflunar þar sem jafnframt yrði þó horft til tekjujöfnunarhlutverks tekjutengingar bóta. Í nefndinni sátu fulltrúar Landssambands eldri borgara og fulltrúar félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Fulltrúi forsætisráðherra var Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari en hann var jafnframt formaður nefndarinnar.

Nefndin hélt 25 formlega fundi og leitaði upplýsinga víða um viðfangsefni sitt og sem dæmi um gagnlegar upplýsingar frá nefndinni er með frumvarpi þessu látið fylgja skjal sem sýnir tekjuþróun aldraðra á tímabilinu 1991–2004. Upphaflega var stefnt að því að nefndin skilaði af sér haustið 2006 en nefndinni þótti óhjákvæmilegt að flýta niðurstöðum og koma breytingum á lífeyriskjörum í framkvæmd á miðju ári 2006. Nefndin skilaði tillögum til forsætisráðherra 19. júlí sl. og eru tillögurnar fylgiskjal með frumvarpinu. Ríkisstjórnin fjallaði um tillögurnar og samþykkti að beita sér fyrir framkvæmd þeirra. Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara sama dag og tillögunum var skilað til forsætisráðherra var fagnað því góða samstarfi sem tókst í nefndinni. Það var sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögurnar væru til vitnis um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspeglaði samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem koma til framkvæmda á næstu fjórum árum. Jafnframt áréttaði ríkisstjórnin og Landssamband eldri borgara vilja til áframhaldandi samráðs um þau viðfangsefni sem tillögurnar tækju til og annað það sem upp kunni að verða tekið í samráðsnefnd þessara aðila. Sérstaklega yrði árangurinn metinn á miðju umræddu tímabili í ljósi þróunar verðlags, launa og efnahagsmála almennt. Þessi sameiginlega yfirlýsing er fylgiskjal með frumvarpinu.

Nefndin lagði til sem fyrsta skref að ellilífeyrir yrði hækkaður um 5,5% frá 1. júlí 2006 og til bráðabirgða greiddar sérstakar uppbætur á lífeyri á tímabilinu 1. júlí til og með 31. desember 2006. Uppbætur til bráðabirgða skyldu samsvara því í grófum dráttum að heildarhækkun greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins yrði um 15 þús. kr. á mánuði. Einnig skyldu vasapeningar hækka um 25% frá 1. janúar 2007, þ.e. úr 22.873 kr. á mánuði í 28.591 kr. á mánuði, og heimilisuppbót skyldi hækka um 4.361 kr. á mánuði frá sama tíma, þ.e. úr 18.803 kr. í 23.164 kr. á mánuði, þar sem fyrstu skrefum var hrundið í framkvæmd með setningu þriggja reglugerða sem sú er hér stendur undirritaði 21. júlí sl. Reglugerðirnar um hækkanir bóta og tekjumarka voru ekki einungis látnar taka til aldraðra heldur voru öryrkjar einnig látnir njóta hækkananna með sama hætti. Samtals er áætlað að kostnaður vegna reglugerðanna verði 1.930 millj. kr. frá 1. ágúst til 31. desember 2006 og tæpir 3,9 milljarðar á ári frá og með 1. janúar 2007.

Frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við þær tillögur nefndarinnar sem kalla á breytingar á lögum. Þetta eru tillögur sem snúa að eftirfarandi atriðum:

1. Að fækka bótaflokkum og með því einfalda lífeyristryggingakerfið. Það þýðir að tekjutryggingarauki og tekjutrygging eru felld saman í einn bótaflokk sem mun nefnast tekjutrygging. Mikil umræða hefur verið undanfarið um að lífeyristryggingakerfið sé flókið og hefur Landssamband eldri borgara m.a. kallað eftir einföldun á kerfinu. Verið er að koma til móts við þær kröfur með því að fækka um einn bótaflokk en í þessu sambandi skal bent á að ástæðan fyrir því að kerfið er flókið í dag er að á síðustu árum hefur verið reynt að ná til þeirra hópa sem mest þurfa á því að halda og það gerir eðli málsins samkvæmt kerfið flóknara. Með frumvarpinu er grunnfjárhæð tekjutryggingar hækkuð og verður óháð hjúskaparstöðu. Samkvæmt núgildandi lögum er fjárhæð tekjutryggingarauka hærri fyrir einhleypinga en fyrir lífeyrisþega sem eiga maka. Nú er gert ráð fyrir að þessir aðilar fái sömu fjárhæð þar sem hjúskaparstaða skiptir ekki lengur máli eins og getið var um áðan.

Einföldun á kerfinu og hækkun grunnfjárhæðar koma til framkvæmda um næstu áramót. Nánar má sjá áhrif þessara breytinga í greinargerð með frumvarpinu. Þar kemur fram að um áramótin 2006–2007 munu bætur fyrir einhleyping, þ.e. óskiptur lífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót, verða 127 þús. kr. á mánuði og bætur til einstaklings sem á maka, þ.e. óskiptur lífeyrir og tekjutrygging, verða 103 þús. kr. á mánuði. Á tímabilinu 2005–2007 hækka þessar bætur því um 17% hjá einhleypingi og 22% hjá þeim sem á maka. Á sama tíma er áætlað að neysluverðsvísitala hækki um tæp 12% og launavísitala um 15%. Um er að ræða talsverða kaupmáttaraukningu á lífeyri sem auk þess er meira en nemur kaupmáttaraukningu launa.

Í greinargerðinni með frumvarpinu kemur einnig fram að á tímabilinu 1995–2007 er áætlað að kaupmáttur lífeyrisþega sem á maka hækki um 80%, og um 50% hjá einhleypingi. Á sama tímabili er áætlað að kaupmáttur launa hækki um rúmlega 40%. Framangreindar upplýsingar um kaupmátt bóta eftir að bætur hafa verið hækkaðar taka ekki tillit til þess að skerðingarhlutfall lækkar með frumvarpinu. Lækkunin á skerðingarhlutfallinu kemur því til viðbótar hækkunum á bótunum.

2. Tillögurnar snúa í öðru lagi að lækkun á skerðingarhlutfalli vegna tekna úr 45% í 38,35% við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar, einnig að samanlögð skerðing lífeyris og tekjutryggingar verði takmörkuð við 38,35% af tekjum. Gert er ráð fyrir að skerðingarhlutfallið verði lækkað í tveimur þrepum. Fyrsta þrepið verði á árinu 2007 en þá fer skerðingarhlutfallið í 30,95% og annað þrepið verði á árinu 2008 en þá lækkar hlutfallið í 38,35%. Þessi breyting kemur til viðbótar umfangsmiklum breytingum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum til að draga úr skerðingum á bótum vegna tekna.

3. Tillögurnar snúa í þriðja lagi að því að halda lífeyrissjóðstekjum, þar með töldum séreignarlífeyrissparnaði hjóna, aðgreindum þannig að lífeyrissjóðstekjur annars þeirra hafi ekki áhrif á viðmiðunartekjur hins við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar. Gert er ráð fyrir að þessi aðgreining komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Fyrsti áfangi verði á árinu 2009 en þá skiptast tekjurnar þannig að lífeyrisgreiðslur lífeyrisþegans hafa 80% vægi og lífeyrisgreiðslur makans 20% vægi. Annar áfangi verði síðan 1. janúar 2010 en þá verði alveg skilið á milli lífeyrissjóðstekna hjóna. Með þessu er komið til móts við þær kröfur að tekjur maka lífeyrisþega hafi ekki áhrif á bætur lífeyrisþegans frá Tryggingastofnun ríkisins. Í greinargerð með frumvarpinu er sýnt með dæmum hvernig breytingarnar koma einhleypingum til góða sem lægstu tekjurnar hafa. Einnig koma fram mjög miklar kjarabætur hjá lífeyrisþegum sem eiga maka.

4. Tillögurnar snúa í fjórða lagi að því að draga úr tengingu vegna atvinnutekna þannig að vægi atvinnutekna lífeyrisþegans verði 75% og atvinnutekna makans 25% við útreikning á tekjutryggingu. Gert er ráð fyrir að dregið verði úr tengingu við atvinnutekjur makans í tveimur áföngum. Fyrsti áfangi verði á árinu 2009 en þá skiptast atvinnutekjur þannig að atvinnutekjur lífeyrisþegans hafa 65% vægi og atvinnutekjur makans 35% vægi. Annar áfangi verði 1. janúar 2010 en þá verði hlutföllin 75% á móti 25%.

Með þessu er einnig komið til móts við þær kröfur að tekjur maka hafi ekki áhrif á bætur lífeyrisþegans frá Tryggingastofnun ríkisins. Hið sama gildir hér og um lífeyrissjóðstekjur, ágóðinn af breytingunum skilar sér fyrst og fremst til þeirra sem eru með lægri tekjurnar. Í greinargerð með frumvarpinu er sýnt með dæmum hvernig frítekjumark atvinnutekna hefur áhrif til hækkunar en þar kemur fram að 50 þús. kr. atvinnutekjur hjá einhleypingi gefa samtals 20% hækkun en 11% ef ekkert frítekjumark væri. Einnig eru dæmi sem sýna mikla kjarabót hjá lífeyrisþegum sem eiga maka.

5. Tillögurnar snúa í fimmta lagi að því að setja 300 þús. kr. frítekjumark á ári vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Gert er ráð fyrir að á árinu 2009 verði frítekjumarkið 200 þús. kr. á ári en verði hækkað í 300 þús. kr. á árinu 2010. Með þessari breytingu er komið til móts við kröfur Landssambands eldri borgara um að eldri borgarar geti stundað atvinnu án þess að það skerði bæturnar frá Tryggingastofnun ríkisins.

6. Tillögurnar snúa í sjötta lagi að því að láta frestun á töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins leiða til allt að 30% hækkunar bóta. Gert er ráð fyrir að heimild til frestunar komi til framkvæmda 1. janúar 2007 og feli í sér 0,5% hækkun á ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót fyrir hvern frestunarmánuð til 72 ára aldurs eða eins og áður sagði að hækkunin verði að hámarki 30%. Þessi krafa hefur verið ofarlega á baugi hjá Landssambandi eldri borgara og er með frumvarpinu komið til móts við hana.

Atvinnuþátttaka eldri kynslóðarinnar á Íslandi er eitt af sérkennum íslensks samfélags og meðal þess sem veldur því að ráðstöfunartekjur þeirra sem eru 65 eða 67 ára og eldri eru hér hærra hlutfall af öllum tekjum þeirra sem yngri eru en tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Með frumvarpinu er fylgiskjal sem sýnir tekjuþróun aldraðra með hliðsjón af þróun verðlags og tekjuþróun annarra hópa á tímabilinu 1991–2004. Upplýsingarnar eru settar fram með sama hætti og gert var í álitsgerð starfshóps stjórnvalda og Landssambands eldri borgara frá árinu 2002 en sú álitsgerð fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2002.

Fyrir þá sem hlut eiga að máli er það ótvíræður hagur að innrétta atvinnulíf og samfélag með þessum hætti og fullkomlega eðlilegt. Breytingin sem hér er lagt til að taki gildi um næstu áramót þýðir að fyrir utan þá almennu stefnu að gefa mönnum kost á að vinna lengur batnar afkoma þeirra eftir að þeir kjósa að taka lífeyri.

7. Í sjöunda lagi snúa tillögurnar að því að fella á brott heimild í lögum um málefni aldraðra til að verja fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu aldraðra. Gert er ráð fyrir að breytingin verði í tveimur áföngum, árin 2007 og 2008. Með breytingu þessari mun fjármagn til uppbyggingar í öldrunarþjónustu aukast um rúmlega 200 millj. kr. á ári. Á árinu 2007 verði tilfærslan að hálfu en árið 2008 að fullu. Er talið að þessi breyting fjármagni hlut ríkisins af byggingarkostnaði 60–65 rýma á næstu fjórum árum.

8. Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir að öryrkjar njóti góðs af framangreindum breytingum. Heildarkostnaður ríkissjóðs, uppsafnaður vegna lífeyristrygginga til ársins 2010 vegna samkomulags ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara, er áætlaður 26,7 milljarðar kr. Tekur sá kostnaður bæði til elli- og örorkulífeyrisþega og einnig sérstakra hækkana lífeyris á árinu 2006. Stærsti hluti kostnaðarins fellur þó til ellilífeyrisþega, samtals 18 milljarðar kr. til ársins 2010.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir tveimur atriðum sem ekki tengjast samkomulagi ríkisstjórnarinnar um Landssamband eldri borgara. Þessi atriði snerta slysatryggingar almannatrygginga.

Í fyrsta lagi eru samkvæmt núgildandi lögum friðargæsluliðar íslenska ríkisins erlendis einungis tryggðir ef þeir slasast meðan þeir eru að sinna starfi sínu. Þeir eru því ekki tryggðir allan tímann sem þeir eru staddir á ófriðarsvæðum. Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að persónulegt gildissvið slysatrygginga samkvæmt almannatryggingalögum verði víkkað út og að íslenskir friðargæsluliðar fái sömu réttarstöðu og sjómenn og verði tryggðir allan sólarhringinn, hvort sem þeir eru beinlínis við störf eða ekki.

Í öðru lagi er í 6. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að allir háskólanemar sem stunda verklegt nám verði slysatryggðir samkvæmt almannatryggingalögum. Lög nr. 74/2002 víkkuðu út gildissvið slysatrygginga almannatrygginga þannig að fyrir utan nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum urðu einnig slysatryggðir háskólanemar og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum þegar þeir sinntu verklegu námi.

Með frumvarpi þessu er gildissviðið enn víkkað út og sá hópur sem fellur undir slysatrygginguna stækkaður.

Í 18. gr. frumvarpsins er kveðið á um endurútgáfu laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, og laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Er gert ráð fyrir að lög þessi verði gefin út með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Við útgáfuna skal uppfæra allar fjárhæðir og tekjumörk sem breytt hefur verið með reglugerðum og miða við útgáfudag laganna. Brýn þörf er að gefa þessa mikilvægu lagabálka út með framangreindum hætti og ættu lögin að verða skýrari og aðgengilegri bæði almennum borgurum og fagfólki fyrir vikið.

Virðulegur forseti. Ég tel að lokum rétt að greina frá því að ég hef í dag undirritað reglugerð sem breytir reglugerð nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Reglugerðin er nátengd frumvarpinu og er henni ætlað að mynda framkvæmdina hjá Tryggingastofnun ríkisins að því er varðar ofgreiddar tekjutengdar bætur. Leitað var eftir áliti starfshóps sem í sátu fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Tryggingastofnunar ríkisins, ríkisskattstjóra, Landssambands eldri borgara og Öyrkjabandalags Íslands á því hvernig hægt væri að bæta og milda framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins. Einnig var leitað eftir áliti nefndar forsætisráðherra sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari stýrði. Í framhaldi af því voru lagðar fram tillögur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið bar undir samtök aldraðra og öryrkja. Þær tillögur voru síðan samþykktar á fundi ríkisstjórnarinnar 25. apríl sl.

Tryggingastofnun ríkisins er skylt samkvæmt lögum að greiða réttar bætur til réttra aðila og á réttum tíma. Til að stofnunin geti framkvæmt þessa skyldu sína þarf hún á hverjum tíma að hafa réttar upplýsingar um þau atriði sem skipta máli við ákvörðun bótaréttar og útreikninga bóta. Ef um er að ræða tekjutengdar bætur greiðir stofnunin bætur á grundvelli áætlunar og samtímaeftirlits með tekjum lífeyrisþega sem síðan eru gerðar upp árlega við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Við það uppgjör koma í ljós van- eða ofgreiðslur. Stofnunin greiðir þær bætur sem upp á vantar og innheimtir ofgreiðslur, eins og lögin kveða á um. Við þessa framkvæmd fer Tryggingastofnun eftir framangreindri reglugerð en ýmis nýmæli eru í henni. Sem dæmi um þau nýmæli er kveðið á um að falla skuli frá innheimtu á ofgreiddum bótum sem nema lægri fjárhæð en 20 þús. kr. á ári. Einnig segir í reglugerðinni að þrátt fyrir ofgreiðslu bóta skuli alltaf greiða út elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyri sem lífeyrisþegi á rétt á nema lífeyrisþeginn semji um annað.

Þá er í reglugerðinni kveðið á um að ef sýnt er fram á að innheimta ofgreiðslna verði til þess að einstaklingur hafi heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en félagsmálaráðuneytið telur vera lágmarksframfærsluþörf, sem er núna 88.873 kr. á mánuði, skuli Tryggingastofnun að ósk bótaþegans lækka fjárhæð mánaðarlegrar innheimtu þannig að heildartekjur bótaþegans nái þeirri fjárhæð. Ég tel að reglugerðin sé til mikilla bóta fyrir alla aðila og komi til móts við kröfur samtaka aldraðra og öryrkja um að milda framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins að því er varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum og innheimtu á ofgreiddum bótum.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið forsögu og efni frumvarps þessa í stórum dráttum og tel mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt nú á haustþingi. Það er m.a. nauðsynlegt vegna þess að í frumvarpinu eru fjölmörg ákvæði sem miðað er við að taki gildi 1. janúar 2007. Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.



[16:09]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá að fram er komið frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem gengur í átt að þeim sjálfsögðu og eðlilegu kröfum sem uppi hafa verið hjá öldruðum um breytingar á lögum um almannatryggingar.

Á sama tíma og ánægjulegt er að sjá málið komið fram verður maður fyrir vonbrigðum með innihaldið og hve skammt er gengið í frumvarpinu. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að Landssamband eldri borgara hefði tekið þátt í þessari vinnu og standi að þeim tillögum sem þarna eru gerðar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þannig, hvort það sé bullandi ánægja hjá Landssambandi eldri borgara með þetta frumvarp. Hefur ráðherra ekki heyrt umkvartanir landssambandsins um að ekki hafi verið gengið nógu langt í átt að því sem lagt var til í viðræðum eldri borgara við ríkið og að þeir hafi nánast verið undir hótunum um að tekið yrði af þeim það sem hér er sett fram ef þeir samþykktu þetta ekki. Hefur hæstv. ráðherra ekki orðið vör við þessar umkvartanir og þau sjónarmið hjá Landssambandi eldri borgara?

Annað varðandi frítekjumarkið. Tæp 17 þús. kr. á mánuði sem tekur gildi árið 2009, löngu eftir að ný ríkisstjórn hefur tekið við, og hækkar í 25 þús. kr. á mánuði árið 2010. Hvað er því til fyrirstöðu að hækka frítekjumarkið strax? Hvað er því til fyrirstöðu að ganga til móts við þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar um að hækka þetta frítekjumark í 75 þús. kr. á mánuði frá næstu áramótum eða 900 þús. kr. á ári? Ég hefði gaman af því að hæstv. ráðherra svaraði því. Ég held að það að heimila öldruðum að ná sér í atvinnutekjur sem eitthvað munar um komi ekki til með að kosta ríkið verulega fjármuni.



[16:11]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samstarfið í nefnd Ásmundar Stefánssonar gekk mjög vel miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið. Þær höfðu að vissu leyti eðli hálfgerðra kjarasamninga eins og gefur að skilja þar sem menn reyndu að koma sér saman um hvernig hægt væri að hækka bæturnar, þ.e. út frá hvaða aðferðafræði og til hvers bæri að taka mest tillit.

Landssamband eldri borgara lagði mikla áherslu á að hækka bæturnar en líka á að minnka tekjutengingar við tekjur maka og við atvinnutekjur þannig að minni frádráttur væri innbyggður í kerfið ef menn fengju laun á atvinnumarkaði. Tekið var tillit til þessara atriða.

Það var líka farið yfir þjónustuþáttinn, þ.e. hjúkrunarþáttinn, sem við erum ekki að ræða núna. Þetta voru raunar tveir stólpar, þ.e. lífeyrisréttindin, fjármagnið sem við greiðum til viðkomandi aðila og svo var þjónustuþátturinn, hjúkrunarheimilin, heimahjúkrun o.s.frv.

Niðurstaða fékkst í nefndinni og eins og ég sagði áðan stóð fyrst til að niðurstaðan yrði komin í haust, á þessum vikum má segja. En það var ákveðið að flýta niðurstöðunni og ná niðurstöðu í sumar. Mér finnst það bera vott um að menn hafi verið tilbúnir að lenda málinu. Ég tel mjög til fyrirmyndar að vinna á þennan hátt með Landssambandi eldri borgara. Að sjálfsögðu munu þeir áfram ræða um hagsmunamál sín, ég efast ekkert um það og það er mjög eðlilegt. En þetta er a.m.k. samkomulag sem við höfum gert við þá um hvernig við sjáum þetta fyrir okkur á næstunni. Samkomulagið er til fjögurra ára. Þessu ætlum við að vinna eftir, sem við erum að koma í framkvæmd núna með lagafrumvarpi.

Varðandi frítekjumarkið varð niðurstaðan sú að setja frítekjumarkið í 300 þús. kr. á ári (Forseti hringir.) og það mundi að sjálfsögðu kosta miklu meira (Forseti hringir.) að breyta því.



[16:14]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Þó fannst mér hæstv. ráðherra staðfesta að þjónustuþátturinn í samningunum við Landssamband eldri borgara hafi verið notaður sem svipa á þá til að þeir féllust á það sem hér kemur fram varðandi almannatryggingarnar. Það er þó gott að hæstv. ráðherra skuli kannast við það.

Mér fannst hæstv. ráðherra gera lítið úr þeirri óánægju sem kraumar undir hjá eldri borgurum og þeirri óánægju sem mjög sterklega hefur komið í ljós opinberlega hjá Samtökum eldri borgara og Landssambandi eldri borgara með hversu skammt var gengið varðandi lífeyristryggingarnar.

Varðandi frítekjumarkið óska ég eftir því að hæstv. ráðherra svari því aðeins betur: Af hverju 2009 og 17 þús. kr.? Af hverju 2010 og 25 þús. kr. á mánuði? Af hverju ekki að taka stærra skref og það strax? Því væntanlega, eins og atvinnuleysi og atvinnuþátttöku er háttað í dag, mundu margir eldri borgarar vilja taka meiri þátt í atvinnulífinu ef þeir misstu ekki hverja einustu krónu í ýmsar skerðingar með því að ná sér í atvinnutekjur. Það þýddi að eldri borgarar sem hefðu launatekjur greiddu af því skatt þegar þeir væru komnir upp fyrir skattleysismörk í heildartekjum og spurning hvort það hafi verið skoðað í ráðuneyti hæstv. ráðherra hvernig samspil þessa gæti verið.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort hæstv. ráðherra þyki það ekki eðlilegt og sjálfsagt að ræða saman í heilbrigðis- og trygginganefnd tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram og svo frumvarpið sem hér er til umfjöllunar því að bæði þingsályktunartillagan og frumvarpið taka á sömu málum. Munurinn er sá að þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar gengur lengra í átt að óskum eldri borgara og mun lengra í þá átt að tryggja sjálfstæði og (Forseti hringir.) sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem eldri eru.



[16:16]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi nú alls ekki sagt það áðan að þjónustuþátturinn hafi verið notaður sem svipa. Alls ekki. Ég sagði að samkomulagið gekk út á tvö atriði eða tvo stólpa. Þar var þjónustuþátturinn, þ.e. ný hjúkrunarrými, heimaþjónusta o.s.frv. Síðan var fjallað um lífeyrismál, þ.e. greiðslur til ellilífeyrisþega.

Í frumvarpinu og í samkomulaginu er tekjutengingin minnkuð mjög verulega. Bæði er skerðingarprósentan minnkuð, sem hefur áhrif á bæturnar auk þess að setja inn frítekjumark. Þetta er það sem um samdist. Þetta er niðurstaðan í samkomulaginu.

Mér er kunnugt um málið sem hv. þingmaður hefur nefnt, þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar. Hún felur í sér aðrar tölur í þessu sambandi enda kostar sú tillaga í kringum 6–7 milljörðum meira á ári samkvæmt heildarútreikningum en samkomulagið kveður á um. Mér er kunnugt um þá tillögu. Hún var rædd hérna um daginn.

Varðandi það hvernig heilbrigðisnefnd Alþingis heldur á málinu þá tel ég að hún verði að ákveða það sjálf. Ég legg a.m.k. áherslu á að málið verði unnið þannig að við getum afgreitt það þannig að samkomulagið taki gildi frá og með áramótum. Það eru ákveðin atriði inni í samkomulaginu sem þurfa að koma til framkvæmda þá þegar. Það er því brýnt að þingmenn fari í að vinna þetta mál.

Ég hefði gjarnan viljað koma með það fyrr inn í þingið en það eru miklir útreikningar sem liggja þarna að baki. Ég vona að þingmenn taki vel í að vinna málið vandlega í heilbrigðisnefnd.



[16:18]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til að vekja athygli á mikilvægum upplýsingum sem fram komu í máli hæstv. heilbrigðisráðherra í lok ræðu hennar. Hún sagði frá því að hún hefði í dag undirritað reglugerð er varðar framkvæmd Tryggingastofnunar vegna ofgreiddra bóta. Þetta mál hefur verið töluvert í umræðunni upp á síðkastið. Við sem vorum í heilbrigðis- og trygginganefnd á síðasta kjörtímabili, eða hvort það var fyrr á þessu kjörtímabili, munum hvernig lögum var breytt sem leiddi til þess að Tryggingastofnun var falið að skoða nánar tekjuviðmiðun eða öllu heldur hvernig standa ætti að því að skoða tekjur lífeyrisþega, bæta þeim ef um vangreiðslur hefði verið að ræða og aftur hvernig ætti að mæta því þegar um ofgreiðslu bóta væri að ræða.

Mig langar að fá hæstv. ráðherra til að segja okkur nánar frá þessari reglugerð. Ég tel að hún sé mjög merkileg. Sérstaklega langar mig að heyra hvernig sú framfærsluupphæð er fundin sem vísað var í hjá félagsmálaráðuneytinu. Hver er sú upphæð sem miðað er við að sé lágmarksupphæð, sem ekki má skerða?

Síðan tel ég líka fulla ástæðu til að fá upplýsingar um hver er áætlaður kostnaður ríkisins af þessari reglugerð. Hvernig verður tekið á ofgreiddum bótum? Er þar einhver fyrning á einhverjum ákveðnum árum og hvernig verður farið með eftirstöðvar ef það fer á milli ára? Hver telur hæstv. ráðherra að séu almennt áhrif þessarar reglugerðar (Forseti hringir.) á hag aldraðra?



[16:20]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi reglugerð er að mínu mati mjög mikilvæg af því hún mildar innheimtu ofgreiddra bóta. Samkvæmt lögum eigum við að innheimta ofgreiddar bætur. Ríkisendurskoðun benti á það á sínum tíma að skoða þyrfti sérstaklega hvernig það er gert vegna þess að það var ákveðin handvömm í því hvernig var staðið að því. Menn skoðuðu það ekki svo vandlega á sínum tíma með bæturnar, hvort þær væru ofgreiddar eða vangreiddar.

Það kom í ljós í upphafi að við vorum á sínum tíma að ofgreiða um milljarð en einnig vangreiða um milljarð. Það gengur ekki upp. Maður á hvorki að ofgreiða né vangreiða. Það varð að setja miklu stífari umgjörð um það til að finna út eins fljótt og hægt væri hvað við ofgreiddum og hvað við vangreiddum. Það átti að laga það.

Versta staðan er sú, sem kom upp í upphafi, að stjórnvöld sáu frekar seint hvað verið var að ofgreiða. Það er erfitt að innheimta eftir á en okkur ber skylda til þess. Núna er búið að setja þessa reglugerð til að milda innheimtuna. Þar er miðað við að aldrei sé innheimt, af því hér var spurt sérstaklega út í tölur, meira en svo að viðkomandi hafi þá fjárhæð á mánuði sem talin er vera lágmarksframfærsluþörf hjá félagsmálaráðuneytinu. Það eru 88.873 kr. á mánuði.

Ég vil líka vekja athygli á að þetta mun kosta okkur talsverðar upphæðir. Við förum t.d. ekki í að innheimta það sem er undir 20 þús. kr. á mánuði. Það mun kosta í kringum 40 millj. kr. En við þurfum líka að styrkja verulega starfsemi Tryggingastofnunar til að geta þetta. Ég get kannski farið yfir það seinna í andsvari.



[16:22]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra þessar upplýsingar og hlakka til að fá meira að heyra á eftir. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að rétt skuli vera rétt. Það á að greiða réttar bætur á réttum tíma og réttum aðilum, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra.

En ég vil í framhaldi af því spyrja: Mun Tryggingastofnun ríkisins taka upp nýjar aðferðir til að afla upplýsinga um tekjur lífeyrisþega á hverjum tíma þannig að ekki þurfi að koma til slíkrar ofgreiðslu eða vangreiðslu lífeyris sem valdið getur miklum óþægindum og mikilli óánægju meðal lífeyrisþega?

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra um hvort tekið hafi verið á ábyrgð lífeyrisþega að veita réttar upplýsingar? Mun tekið á því ef upplýsingar reynast rangar ár eftir ár? Eða hvernig er það hugsað? Þetta er náttúrlega flókið mál. Auðvitað vill fólk veita réttar upplýsingar en margir lenda í þessum vandræðum vegna þess að þeir þekkja ekki kerfið og vita ekki hvað liggur undir, hvaða tekjur hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur.

Auðvitað á þetta að liggja alveg ljóst fyrir. Yfirleitt eru þetta tekjur sem koma einhvers staðar inn í kerfi ríkisins með einum eða öðrum hætti. Mun Tryggingastofnun fá heimildir til að fá slíkar upplýsingar beint, þannig að hægt sé að aðlaga þessar viðbætur lífeyrinum frá mánuði til mánaðar með hliðsjón af upplýsingum sem liggja fyrir um mánuðina á undan eða eitthvert tímabil þar á undan.

Þetta er náttúrlega alveg ófært eins og þetta hefur verið. Kannski sáum við þetta ekki fyrir þegar þessar breytingar voru gerðar á lögunum. Það er náttúrlega mikilsvert að haga málum með þeim hætti að fólk þurfi ekki að hafa óþarfa áhyggjur eða (Forseti hringir.) að því sé ekki valdið hugarangri að óþörfu.



[16:24]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þróunin hefur verið sú, eins og ég gat um áðan, að í ljós kom að verið var að ofgreiða milljarð og vangreiða milljarð. Það er sem sagt búið að laga það.

Þetta hefur þróast með árunum og hefur helst breyst á síðustu árum. Síðast var ofgreitt í kringum 700–800 millj. kr. og vangreiddar í kringum 200 millj. kr. Það er því farið að breytast.

Við fáum færri kvartanir núna en fyrst vegna þess að fólk er farið að átta sig á því að það þarf að gefa réttar upplýsingar, annars bara fær það rukkun um að það þurfi að endurgreiða. Í dag berast því færri kvartanir. Það er samt erfitt fyrir þá sem fá ofgreiðslur og þurfa að endurgreiða. Þess vegna erum við að setja þessa mildandi reglugerð til að koma til móts við þann sársauka sem því fylgir að þurfa að innheimta ofgreiddar bætur.

Þetta hefur skapað mjög mikið álag á Tryggingastofnun ríkisins. Gerð hefur verið krafa um að auka svokallað samtímaeftirlit hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem er það sem hv. þingmaður hefur nefnt að við getum fyrr séð hvort er ofgreitt eða vangreitt. Til að svo geti orðið hjá Tryggingastofnun ríkisins höfum við þurft að styrkja þá stofnun verulega. Ég vil nefna að í frumvarpi til fjáraukalaga á þessu ári er sett inn 50 millj. kr. viðbótarframlag til reksturs Tryggingastofnunar ríkisins. Af þeim eru 20 millj. kr. vegna breytinga á tölvukerfum til að geta komið til móts við slíkt samtímaeftirlit. Á fjárlögum fyrir árið 2007 setjum við inn 60 millj. kr. varanlegt rekstrarframlag vegna framkvæmdarinnar við tekjutengdar bætur.

Þessi vandi kemur upp af því bæturnar eru tekjutengdar. Þá lendum við í því að menn gefa rangar upplýsingar, eða vita ekki betur, segja sumir. Þá erum við að ofgreiða eða vangreiða og þá þarf að innheimta.



[16:27]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga sem komið er inn í þingið í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og fulltrúa eldri borgara í haust eftir nefndarvinnu með Ásmundi Stefánssyni á vegum forsætisráðuneytisins. Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um málið vegna þess að ég er búin að segja álit mitt á þessu svokallaða samkomulagi eða yfirlýsingu í umræðu um tillögu til þingsályktunar sem stjórnarandstaðan lagði fram um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. En það er aðeins meira í þessu máli en bara það sem ég ræddi þar og mig langar að ræða nú í nokkrum orðum.

Hér er enn einu sinni verið að lappa upp á almannatryggingarnar án þess að horfa á þær heildstætt. Það hef ég alltaf gagnrýnt og gagnrýni enn. Við verðum að endurskoða almannatryggingarnar heildstætt og horfa á alla þætti því að meðan við vinnum svona eru alltaf einhver göt sem fólk fellur niður um, þetta á að vera öryggisnet.

Aldraðir eða fulltrúar þeirra hafa lýst því yfir að þetta sé fyrsta skref í átt að bættum kjörum en að þeir séu ekki sáttir við málið en hafi ekki náð lengra. Ríkisstjórnin var ekki tilbúin til að ganga lengra til móts við kröfur þeirra. Það erum við aftur á móti í Samfylkingunni og stjórnarandstaðan hefur sameiginlega lagt fram þingmál sem gengur mun lengra og við höfum talað hér fyrir. Áður en lengra er haldið vil ég fara fram á það og mun fara fram á það í heilbrigðis- og trygginganefnd að mál okkar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála verði tekið fyrir samhliða. Við höfum líka lýst því yfir að við munum flytja breytingartillögur við frumvarpið hvað varðar lífeyrisgreiðslur og lífeyristekjur, þ.e. lífeyrisþáttinn, þegar málið kemur aftur inn til þingsins.

Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að þetta mál þarf að afgreiða fyrir áramót því að þá eiga fyrstu breytingarnar að taka gildi. En við teljum ekki nógu langt gengið og við viljum ganga mun lengra um næstu áramót því að það er gjörsamlega óviðunandi að lífeyrisþegar þurfi að búa við þau kjör sem þeir búa við í dag. Sérstaklega vil ég nefna frítekjumarkið því að hér er verið að breyta almannatryggingunum á þann hátt að það er verið að fækka bótaflokkum og einfalda kerfið, sem er gott. En frítekjumarkið sem var fyrir í almannatryggingunum er tekið burtu og það er ekki gert ráð fyrir frítekjumarki fyrr en eftir tvö ár gagnvart atvinnutekjum og þá allt of lágt.

Þessu mótmælum við og við viljum að frítekjumark komi strax um áramótin, 75 þús. kr., vegna þess að það er mikilvægt fyrir lífeyrisþega að geta aukið tekjur sínar. Það gerir þá félagslega virkari og kemur líka í veg fyrir að þeir lendi í þeirri fátæktargildru sem er inni í almannatryggingunum í dag. Fólk heldur líka frekar heilsu ef það er úti í atvinnulífinu, ef það er félagslega virkt. Ef fólk getur verið áfram úti í atvinnulífinu og hefur tök á að auka tekjur sínar, hafi það löngun til þess, mun það örugglega skila ákveðnum sparnaði í heilbrigðiskerfinu.

Hæstv. ráðherra talaði um að málið væri ekki komið fyrr inn í þingið vegna þess að það væri mikil vinna að baki, miklir útreikningar. Ég geri mér fulla grein fyrir því vegna þess að ég ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur unnum að því að útbúa þá þingsályktunartillögu sem liggur hér fyrir frá stjórnarandstöðunni og það tók okkur hátt í þrjá mánuði að vinna alla þá útreikninga sem þar liggja að baki. Ég veit því að það felst mjög mikil vinna í því að útbúa svona tillögur.

Ég er sem sagt á því að hér sé alls ekki nógu langt gengið og það er vitað mál að fulltrúum aldraðra var stillt upp við vegg í nefndarstarfinu, þeir urðu að sætta sig við þetta og gera það sem fyrsta skref. En þeir hafa lýst yfir stuðningi við tillögu okkar í stjórnarandstöðunni.

Ég ætla líka að nefna, vegna þess að ég kallaði eftir því fyrr í vikunni að það kæmi hér þingmál um Framkvæmdasjóð aldraðra annað en það sem lá fyrir þá og var til umræðu fyrr í vikunni. Nú er það komið og ég tel að okkar þingmál, mitt og fleiri þingmanna, um Framkvæmdasjóð aldraðra eigi að taka fyrir í heilbrigðis- og trygginganefndinni samhliða því sem fyrir liggur. Í þingmáli okkar förum við fram á ákveðnar breytingar sem við teljum að full ástæða sé til að hafa með og við munum leggja til breytingartillögur í þá veru þegar það mál kemur inn í þingið, svo ég lýsi því bara yfir hér.

Ég vil líka gagnrýna að ekki eigi að afnema að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Við viljum afnema þau að fullu því að það eru mannréttindi, persónuleg réttindi, að maður sé ekki með tekjur sem tengjast við tekjur einhvers annars, alveg eins og í atvinnuleysisbótum, alveg eins og í öðrum greiðslum. Þetta er arfur frá liðinni tíð og við eigum að afnema þetta. Við viljum afnema þetta og það mun verða gengið lengra eftir næstu kosningar, komumst við til áhrifa og getum gert það.

Það er fleira í þessu þingmáli sem hæstv. ráðherra var að nefna en bara kjör lífeyrisþeganna, eins og kom fram í framsöguræðu. Það eru m.a. breytingar á slysatryggingunum og ég vil nefna það að ég tel að það sé til bóta, sérstaklega hvað varðar námsmennina. Það er löngu tímabær breyting sem ég hef margoft nefnt hér í þinginu að þurfi að gera og ég fagna því að nú sé verið að gera slíka breytingu og ég mun auðvitað styðja hana og við í Samfylkingunni.

Það er annað sem ég vil nefna áður en ég lýk máli mínu vegna þess að ég ætla að vísa í mál mitt við framsöguna á tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála hvað varðar allar þær breytingar sem hæstv. ráðherra var að leggja hér til, hvar ég tel of stutt gengið og hvar og hvernig við viljum ganga lengra. Ég vil nefna reglugerðina sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Ég kem nefnilega hér inn í þingsalinn af þremur stórum fundum sem ég átti með eldri borgurum eftir hádegið. Það verður að segja eins og er að á hverjum einasta fundi hefur fólk kvartað yfir ofgreiðslum og endurkröfum. Það er ekkert nýtt fyrir mér því að það hefur verið gert lengi. Lífeyrisþegar eru mjög ósáttir við þetta fyrirkomulag og það er löngu tímabært að breyta því en ég held að ekki sé nógu langt gengið í þessari reglugerð.

Hvaða tala var það sem hæstv. ráðherra miðaði við að ætti að duga fyrir lífeyrisþegann þegar væri búið að endurkrefja? Ég held að það sé allt of lág tala sem þar er miðað við. Ég heyri það á öldruðum sem lenda í slíkum endurkröfum að það er ákaflega þröngur kostur hjá þeim, menn hafa ekki mikið að bíta og brenna þegar búið er að endurkrefja þá sem hafa nánast eingöngu greiðslurnar úr lífeyristryggingum almannatrygginga. Þetta tel ég að þurfi að skoða. Auðvitað geta þingmenn ekki breytt reglugerðum, það er ráðherra að gera það og ég hvet hæstv. ráðherra til að gera Tryggingastofnun kleift að afla þannig upplýsinga að við lendum ekki í því árvisst að þurfa að taka til baka fjármuni frá lífeyrisþegum eftir að fólk er búið að eyða peningunum. Við vitum alveg að þeir sem eru með litlar greiðslur úr almannatryggingunum eru búnir að eyða þeim þegar endurkrafan kemur frá Tryggingastofnun.

Ég vil líka nefna það, ég ætla ekki að gera það að umtalsefni vegna þess að ég er búin að tala mikið um þetta mál allt saman en ég tel fullkomlega eðlilegt að þegar við komum með málið inn í heilbrigðis- og trygginganefnd, þar sem fyrir okkur liggur mikil vinna í þessum efnum, að þá verði kallaðir fyrir fulltrúar Landssambands eldri borgara og fulltrúar þeirra í nefndinni og við heyrum í þeim. Ég hef heyrt í þeim um þetta mál og þeir eru ákaflega ósáttir við hversu skammt er gengið og nefndin þarf að heyra slíkar yfirlýsingar frá þeim og ég hlakka til að takast á við þetta. En ég boða enn og aftur þær breytingartillögur sem við höfum talað fyrir og snúa að tillögum okkar, stjórnarandstöðunnar: Við viljum hærri tekjutryggingu, minni skerðingu, við viljum frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega strax, 75 þús. kr. til að fólk sem vill verða virkt í atvinnulífinu geti orðið það, við viljum afnema vasapeningakerfið en þangað til það verður afnumið verði 50% hækkun á vasapeningum. Vasapeningafólkið varð útundan í sumar og á aðeins að fá 25% hækkun um áramót samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar.

Ég vil einnig nefna þá lífeyrisþega sem eru með lífeyrisgreiðslur og eru inni á stofnunum. Þeir þurfa að halda eftir stærri hluta af lífeyrisgreiðslum sínum áður en þetta vasapeningakerfi verður aflagt því að þeir hafa of litla fjármuni af lífeyrisgreiðslum sínum handa á milli inni á stofnunum. Það þarf að skilgreina neysluútgjöld lífeyrisþega eins og við leggjum til og afnema að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við tekjur maka og síðan að öryrki haldi aldurstengdri örorkuuppbót. Breytingartillögur í þessa veru munum við leggja til þegar málið kemur aftur hingað inn í þingið.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[16:38]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Hér er verið að efna samkomulag sem gert var við Félag eldri borgara og tekið mið af þeirri niðurstöðu sem fékkst í nefnd sem um það fjallaði.

Hér er um umtalsverðar hækkanir á bótum að ræða og miklar úrbætur og það sem mér þykir ánægjulegast í þessu, frú forseti, er að gerð er dálítil einföldun á almannatryggingakerfinu. Samt er langt í frá að það sé orðið einfalt, langt í frá. Frumvarpið flækir þetta kerfi dálítið en flóknar reglur um skiptingu tekna milli hjóna gera það að verkum að tekjur makans hafi síminnkandi vægi.

Það er svo aftur annað sem mig langaði til að ræða, frú forseti, það er hlutverk fjölskyldunnar í kerfinu og hvort það sé sátt um þá stefnu sem menn eru að taka. Það sem um er að ræða er það að ellilífeyrisþegi eða örorkulífeyrisþegi sem er giftur eða kvæntur mjög tekjuháum maka á að fá nánast sömu tekjur og annar ellilífeyrisþegi eða makalífeyrisþegi sem á tekjulágan maka, þ.e. að það á ekki að taka eins mikið mið af tekjum makans og hingað til hefur verið gert. Svo þurfa menn að ræða um réttmæti þess eða ekki, að sá sem er í sambúð með tekjuháum maka eigi að fá nánast sömu bætur og sá sem býr með öðrum sem er tekjulágur. Þetta er atriði sem menn þurfa að velta fyrir sér og vera sáttir um. En það er sem sagt verið að minnka vægi fjölskyldunnar sem hefur farið hríðlækkandi á undanförum áratugum og síðustu öld má segja.

Eins og verið hefur koma einungis 60% af tekjum öryrkja til skoðunar þannig að skerðingin sem er 40% og niður í 38% er í reynd 23% af heildartekjum upp í 25% þannig að öryrkinn heldur eftir minnst 75% af tekjum sínum. Þar sem örorkumatið er þannig í dag að það þarf ekkert endilega að þýða tekjulækkun þá getur öryrkinn einstaka sinnum í rauninni unnið fulla vinnu áfram og haldið 80% af tekjunum engu að síður og fengið bætur eins og aðrir.

Þá komum við að öðrum vanda sem er vandi þeirra öryrkja sem ekki geta unnið og eru með lágmarkið. Lágmarkið fyrir einhleypa öryrkja var reyndar hækkað umtalsvert í þessu frumvarpi. Það er hækkað upp í tæpar 130 þúsund kr., úr tæpum 110 þúsund kr. og er náttúrlega mikil bót og munar um það þegar menn hafa ekki hærri tekjur. Sá sem ekkert getur unnið fær sem sagt tæpar 130 þús. kr. en sá sem getur t.d. unnið fyrir 250 þús. kr. er með tæpar 290 þús. kr. á mánuði og þá er spurning hvort mönnum finnist það vera eðlilegt eða ekki, þ.e. samanburður öryrkja sem ekkert geta unnið við hina sem geta unnið nánast fulla vinnu.

Sama á við um aldraða, það er mikil umræða um að geta unnið og ég tek undir það, ég vil að fólk sé hvatt til að vinna, bæði ellilífeyrisþegar og öryrkjar. En þá þurfa menn líka að vera sáttir við að sá sem getur unnið er með miklu betri heildartekjur en sá sem ekki getur unnið og það er þá eitthvað sem menn verða að sætta sig við.

Það eru ýmsir agnúar á þessu frumvarpi enn þá og mér sýnist að menn hafi ekki tekið mið af því að séreignarsparnaðurinn er frjáls sparnaður, herra forseti. Mér finnst að það sem menn taka frjálsa ákvörðun um og greiða fyrir, þó að það sé styrkt með framlagi atvinnurekandans, það eigi ekki að koma til skerðingar í Tryggingastofnun nema að því er varðar fjármagnstekjur af þeim tekjum. Ég hef flutt frumvarp um þetta sem ekki hefur fengið mikla umræðu, ég hygg að það sé vegna þess að menn hafi hreinlega ekki sett sig inn í það, en ég vil gjarnan að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd taki mið af því frumvarpi þegar hún fer að skoða greiðslur eins og séreignarsparnað. Niðurstaðan hefur verið sú, herra forseti, að fólki hefur verið ráðlagt að taka út allan séreignarsparnaðinn ári áður en það fer á lífeyri — sem er náttúrlega alveg andstætt öllum tilgangi með þeim sparnaði og með því frumvarpi sem var lagt fram — til þess að losna við skerðingarnar hjá Tryggingastofnun af þessum frjálsa sparnaði sem menn gætu bæði lagt inn og tekið út. Ég vil líta á þetta sem hverja aðra eign, við látum eignir ekki skerða bætur á Íslandi, þó að það sé gert víða um heim. En mér finnst að þegar fólk er að taka út eignir sínar þá eigi slíkt ekki að skerða bætur frá Tryggingastofnun nema menn ætli að hverfa frá þeirri hugsun að fólk sem á miklar eignir eigi að fá fullar bætur.

Svo er annað í þessu sem er ekki í þeim dæmum sem reiknuð eru hérna, það eru börnin. Það vill svo til að þegar fólk er vinnandi fær það yfirleitt ekki hærri laun þó að það sé með mörg börn á framfæri, vinnumarkaðurinn er ekki svo félagslegur þó að sumir þykist sjá þess merki að fólk með mikla framfærslu fái hærri tekjur og kannski sérstaklega karlmenn. Þegar fólk verður öryrkjar þá er allt í einu greitt mjög mikið fyrir börnin, bæði hjá Tryggingastofnun og eins hjá lífeyrissjóðunum. Þetta getur valdið töluvert mikilli skekkingu þannig að menn geta bætt tekjur sínar verulega við það að verða öryrkjar, þeir sem eru með t.d. þrjú börn á framfæri.

Þetta er eitthvað sem menn þurfa að skoða og ég legg til að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd skoði þessi atriði og eins það þegar menn eru að fá eingreiðslur, hvort ekki sé hægt að taka upp enn meiri samtímavinnslu hjá Tryggingastofnun þannig að ekki komi til þess að maður sem fær eingreiðslu í dag, t.d. selur húsið sitt, fær heilmiklar fjármagnstekjur vegna mikilla hækkana fasteigna undanfarin ár, og fær svo högg ári seinna þegar skattframtalið kemur fram. Ég mundi vilja að menn væru upplýstir um að t.d. maður sem fær tíu millj. kr. hagnað af sölu fasteignar viti að á þarnæsta ári verði hann bótalaus.

Ég fagna þessu frumvarpi og þeim skrefum sem stigin eru til einföldunar í því og legg til að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd skoði þetta. Svo vil ég benda á það, herra forseti, að menn þurfa að gera miklu betur. Það er heilmikil ástæða til þess að skera allt tryggingakerfið upp eða skera allar bætur Tryggingastofnunar upp, horfa á málin frá alveg nýju sjónarhorni og taka mið af þeirri umræðu sem fer fram í dag, að fólk vill vinna lengur, jafnvel hækka ellilífeyrismörkin. Þau voru ákveðin 1930 þegar dánarlíkur fólks voru miklu hærri og meðalaldurinn miklu lægri en í dag. Fólk er miklu sprækara í dag og mér finnst að þeir sem vilja vinna megi gjarnan vinna lengur atvinnulífinu til hagsbóta. Og þá vil ég undirstrika mjög skarpt, af því að fólki hefur verið gjarnt að misskilja það sem ég segi, að þeir sem vilja vinna, ég er ekkert að segja að það eigi að gilda fyrir alla heldur að þeir sem vilja vinna megi það fram yfir 67 ára eða jafnvel sjötugt, jafnvel áttrætt ef því er að skipta af því að fólk er miklu sprækara í dag. Sama viðhorf ætti að vera gagnvart öryrkjum, það ætti að reyna að rækta hæfileika öryrkjans til að vinna, skoða hvað hann getur en ekki einblína alltaf á hvað hann getur ekki. Þetta hef ég svo sem rætt áður og þetta er til skoðunar í þeirri nefnd sem fjallar um örorkulífeyri.

Aukning á hvoru tveggja, ellilífeyrinum og örorkulífeyrinum, hefur kostað lífeyrissjóðina óskaplega mikil fjárútlát. Mér finnst að þjóðin í heild sinni þurfi að skoða hvort ekki eigi að mæta því með því að nýta vinnugetu þessara hópa, bæði aldraðra og öryrkja, því að í mínum huga en vinnan engin áþján. Margir hafa gaman af henni og hún veitir fólki innihald og er félagslegt atriði. Það vilja mjög margir fara á ellilífeyri þangað til þeir þurfa að fara á ellilífeyri, þá vilja þeir það allt í einu ekki lengur, þannig að ég held að menn ættu að skoða þetta.

Svo þurfa menn að hafa í huga við allar umræður um bætur að allt er þetta greitt af einhverjum. Mér finnst stundum skorta á að sumir hv. þingmenn átti sig á því að það er ekki guð almáttugur sem borgar þessi útgjöld heldur er það skattgreiðandinn í landinu.



[16:49]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Það verður að segjast eins og er að aldraðir og öryrkjar — hluti þeirrar breytingar sem við erum hér að ræða nær einnig til öryrkja — hafa beðið lengi eftir bótum og bættum kjörum. Þar sem hér hefur verið vísað til samkomulags eldri borgara sem tók gildi í júlí í sumar verð ég að taka undir orð þeirra sem hafa minnst á eftirfylgni þess samkomulags að aldraðir telja að sá árangur sem náðist með því samkomulagi sem gert var, eða yfirlýsingu, sé eingöngu skref í þá átt sem telja megi að full sátt geti ríkt um, þ.e. að kjör aldraðra séu bætt með þeim hætti að mannsæmandi sé.

Í fyrirliggjandi frumvarpi og með þeim breytingum sem á að gera er vissulega komið til móts við bæði þetta samkomulag og eins það sem hér hefur margsinnis verið tekið fram, og óskað eftir í sölum hins háa Alþingis, að reyna að einfalda með öllum ráðum þann lagaramma sem lýtur að almannatryggingum og greiðslum til lífeyrisþega. Það er gert að hluta til núna, og er það vel. Það ber að þakka það sem er jákvætt og það er einföldun í þessu frumvarpi þó að ég og aðrir stjórnarandstæðingar telji að hér sé ekki nógu langt gengið.

Hvað varðar upphæðir og breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu taka þær ekki gildi nema að hluta til núna um næstu áramót og á næsta ári. Þetta eru breytingar í 1. gr. laganna, breytingar sem vísað er til ársins 2010. Ég tel að þau skref sem tekin eru til að ná markmiðum frumvarpsins séu allt of hæg og allt of smá. Það liggur á að bæta kjör aldraðra. Það liggur á að hækka grunnlífeyrinn og tekjutrygginguna eins og hún birtist í frumvarpinu þar sem búið er að slá saman og einfalda tekjutryggingu og tekjutryggingarauka. Það þarf að hafa ákveðið frítekjumark og það þarf að koma því á strax en ekki eftir tvö ár eins og lagt er til, þ.e. að þá megi tekjur aldraðra og öryrkja vera 200 þús. á ári og árinu seinna heilar 300 þús. kr. Þetta eru allt of lágar upphæðir. Það segir sig sjálft. Ef fólk er úti á vinnumarkaðnum og getur unnið er það ákaflega lítið og lágt hlutfall í atvinnuþátttöku ef við miðum við svo lágar upphæðir sem eru lausar við allar skerðingar. Fólk horfir auðvitað til þess að geta unnið og greitt af launum sínum skatta án þess að vera þar fyrir utan með skerðingarákvæði. Og 200 þús. kr. eftir tvö ár og 300 þús. kr. eftir þrjú ár er að mínu mati bæði of fjarri í tíma og of lágar upphæðir. Þetta tel ég að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd muni fara vel yfir með þeim gestum og fulltrúum frá Félagi eldri borgara og öðrum sem nefndin mun kalla á sinn fund.

Eins og hér hefur komið fram í ræðum hæstv. ráðherra og hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur liggja að baki þeim tölum sem fram koma miklir útreikningar, bæði í þessu frumvarpi til laga og eins í tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipun lífeyrismála sem stjórnarandstaðan öll lagði fram saman í upphafi þings, á þingskjali 3, 3. mál. Það er ekki einfalt mál að sjá fyrir samspil lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og eins greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðrar tekjur og átta sig á því hvaða áhrif skerðingarákvæði hafa og hvaða áhrif samlagning þessara tekna hefur og taka síðan ákvörðun um það hvaða tekjugreinar skuli vera undanþegnar skerðingarákvæðinu. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um að líka eigi að skoða hvort þá séu ekki fleiri tekjustofnar sem eigi að vera undanþegnir þessum skerðingum.

Ég vísa til þess að þar sem frumvarpið er byggt á yfirlýsingu Landssambands eldri borgara með fulltrúum ríkisstjórnarinnar frá því í sumar telja eldri borgarar að þetta sé eingöngu skref, það hafi ekki verið hægt að komast lengra. Ég ítreka það að þó að þessu skrefi hafi verið náð verður að vera stöðugt samráð í gangi á milli ríkisvaldsins og fulltrúa eldri borgara. Það borgar sig fyrir alla að hafa náið samstarf, fylgjast vel með þróun mála og grípa þá frekar fyrr inn í en þegar allt er komið í óefni eins og ég tel að það sé í rauninni í dag. Allt of margir aldraðir búa við mjög skert kjör og raunar mjög skert lífsgildi — (Gripið fram í: Lífsgæði.) lífsgæði. Ekki má nú gæðin vanta, er það sem ég ætlaði að segja. Lífsgæði, eingöngu vegna þess að eldri borgarar hafi ekki fjárhagsleg ráð til að veita sér það sem okkur flestum finnst eðlilegt að geta veitt sér og meira að segja hafa sumir ekki möguleika á að gefa jólagjafir eins og flestum er þó svo mikilvægt, að geta glatt sína nánustu.

Þegar svo er komið er okkar íslenska þjóð orðin aum, að standa svo illa við bakið á þeim sem aldraðir eru. Þannig er nú því miður komið fyrir um það bil einum þriðja af þeim sem eru aldraðir í dag. Sem betur fer hafa mjög margir það gott og geta veitt sér nánast það sem þá lystir en því miður ekki allir og við eigum að horfa á þá sem minna mega sín og hafa ekki þær tryggu tekjur sem í raun og veru þarf til að hafa fyrir framfærslu.

Þá óska ég eftir því að í vinnu heilbrigðis- og trygginganefndar verði farið í skoðun á neysluþörf og neysluútgjöldum aldraðra. Það þarf að fara fram vönduð neyslukönnun á útgjöldum aldraðra. Þau eru önnur en þeirra sem yngri eru. Það er annað neyslumunstur. Það eru minni útgjöld á ýmsum sviðum en líka meiri á öðrum, t.d. eykst lyfjakostnaður oft á efri árum. Hið sama á við um þörf á heilbrigðisþjónustu, hún eykst líka. Þar sem ýmis gjöld hafa hækkað og lyf líka er ekki hægt að setja aldraða beint undir meðalneysluþörf Íslendinga. Það þarf að skoða sérstaklega.

Því tel ég að ef núna á, með nýrri reglugerð um endurgreiðslu á lífeyrisgreiðslum og innheimtu á ofgreiddum lífeyri, að fara mildilega í að ganga svo nærri fólki með endurkröfu á ofgreiddum lífeyri að fólk hafi tekjur til framfærslu — ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, ég hef ekki séð þessa reglugerð — verðum við að vita hver þessi framfærslugrunnur er. Ég óttast að viðmiðið í dag sé allt of lágt. Þetta er það sem við verðum að skoða og gera það í nefndinni.

Ég fer auðvitað fram á það líka að þetta frumvarp sem við fjöllum um hér og tilefni þingsályktunarinnar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála sem stjórnarandstaðan flutti hér á fyrstu dögum þingsins fari saman í umræðu og í afgreiðslu í gegnum heilbrigðis- og trygginganefnd. Eins mælist ég til að samhliða verði rætt frumvarp um Framkvæmdasjóð aldraðra þannig að við náum aðeins betri heildarmynd. Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar gengur lengra. Stjórnarandstaðan er með aðra sýn. Sú þingsályktunartillaga byggir á því að komið verði á afkomutryggingu sem byggir þá á úttekt á neysluútgjöldum aldraðra og að þessi nýja tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. og öryrkja 86 þús. kr. á mánuði. Þessi breyting á að taka gildi núna 1. janúar 2007, sem sagt 6 þús. kr. hærri en gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem hér er lagt fram. Þar á strax að taka upp frítekjumark og það á að verða 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007.

Það er þessi áherslumunur í þingmálunum og ég tel að tillaga stjórnarandstöðunnar sé miklu nær því að vera raunsönn en það frumvarp sem við fjöllum hér um í dag. Ef við reynum að ná einhverjum meiri heildarsvip á afgreiðslu þessara mála tel ég að heilbrigðis- og trygginganefnd verði að skoða þetta með opnum huga og vera tilbúin til að taka þá skrefið lengra en gert er í frumvarpinu með tilliti til þess sem raunveruleikinn segir okkur.

Í samkomulaginu var einnig tekið tillit til þjónustuþátta og það á að koma til meiri heimaþjónusta fyrir aldraða. Þá vil ég benda hæstv. heilbrigðisráðherra, hv. heilbrigðisnefnd og fjárlaganefnd þingsins á að sannarlega þarf að bæta tekjustofna sveitarfélaganna til að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru í dag, ekki bara af öldruðum, heldur heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni og samfélaginu í heild sem lítur þjónustu við aldraða allt öðrum augum en gert hefur verið. Það er krafa um að auka heimaþjónustuna á öllum sviðum, bæði heilsugæslu og félagslega þjónustu. Til þess að hægt sé að standa við þessi góðu markmið verða sveitarfélögin að hafa hærri tekjustofna. Það er eitt af því sem við verðum að horfa til.

Ég ætla ekki hafa þessi orð miklu fleiri en það þarf að hækka frítekjumarkið. Það þarf að komast á strax. Það þarf að hækka vasapeninga fyrir þá sem dveljast inni á stofnunum. Það þarf, eins og ég sagði, að skilgreina neysluútgjöld lífeyrisþeganna af svo mörgum ástæðum. Það verður að rjúfa að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Þó svo að dregið hafi úr þessum tengingum eru þær til trafala. Hver einstaklingur er sjálfstæður einstaklingur og ég tel að þessum mun eigi þá að ná með skattgreiðslum. Við eigum að falla algjörlega frá þessum tekjutengingum við maka eins og þær eru settar upp í dag.

Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að þetta er nokkuð flókið mál að fara í og margir hafa á því skoðun hvernig þessum málum eigi að vera fyrirkomið. Ég tel að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd þurfi að kalla til og fá umsagnir margra aðila til að fara yfir þetta mál og ég treysti því að við náum að afgreiða það fyrir jól. Nokkur atriði eiga að taka gildi um áramótin og þó svo að allt of mörgum sé vísað inn í framtíðina, alveg til ársins 2010, á hægt og sígandi að auka réttindi og bætur sem í þessu frumvarpi felast.

Ég vona að heilbrigðisnefnd verði tilbúin til að hlusta á raunsannar lýsingar eldri borgara og hvar skórinn kreppir og að ekki þurfi að bíða í fjögur ár eftir nýju samkomulagi og hafa kraumandi óánægju meðal þessara einstaklinga. Við höfum hérna tækifæri til að ganga lengra en frumvarpið segir til um og ganga hraðar til verks en þau stuttu spor sem hér eru tekin. Það sem hér er gert er þó til bóta en það þarf, hæstv. forseti, að ganga miklu lengra.



[17:07]Útbýting:

[17:08]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem við höfum fyrir framan okkur er frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Það kemur í kjölfar samkomulags sem gert var milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara í sumar. Ég get ekki verið sammála því sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að þetta sé eitthvert pínulítið skref sem tekið er. Ég tel einmitt að þarna sé stórt skref tekið í málefnum aldraðra. Þetta er niðurstaða samkomulags sem gert var milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara, sem var lengi í undirbúningi og tekur á öllum helstu þáttum sem varða áhyggjuefni aldraðra í dag.

Sú aðferðafræði sem notuð er — þ.e. að gera samkomulag þar sem aðilar koma að sama borðinu, aðilar á vegum ríkisstjórnarinnar annars vegar og hins vegar á vegum Landssambands eldri borgara, þar sem rædd eru hin ýmsu áhyggjuefni og ýmis málefni sem á þeim brennur og komist er að ákveðnu samkomulagi — er til bóta og er í rauninni framhald af þeirri aðferðafræði sem lagt var upp með fyrir nokkrum missirum.

Á bls. 9 í frumvarpinu kemur fram það álit nefndarinnar að með tillögunum sem lagðar eru fram í fylgiskjali II með frumvarpinu er lagður grunnur að áætlunum um fjögurra ára samkomulag stjórnvalda og Landssambands eldri borgara og jafnframt kemur fram að lögð er áhersla á áframhaldandi samráð þessara aðila. Slíkt samráð verður áfram sem ég tel vera mjög mikilvægt.

Það kom strax fram þegar samkomulagið var undirritað að almenn ánægja væri meðal forsvarsmanna Landssambands eldri borgara með samkomulagið. Síðan hefur ýmis umræða verið uppi á borðinu í blöðum og í samfélaginu sem bendir til þess að sú ánægja sé kannski ekki eins mikil eins og verða vildi og margir vildu hafa séð samkomulagið öðruvísi eða að gengið væri lengra með einstaka þætti samkomulagsins.

Hins vegar er það þannig að þegar samkomulag er gert á milli aðila koma báðir fram með kannski ýtrustu kröfur en síðan felst í samkomulaginu að einhver millileið er farin. En ég er alveg á því að þau skref sem tekin voru með samkomulaginu voru stór. Enda kemur fram á bls. 9 í frumvarpinu og í athugasemdunum við frumvarpið að kostnaður vegna samkomulagsins til ársins 2010 er 18 milljarðar kr. sem skiptast milli þeirra rúmlega 30 þúsund eldri borgara sem nú eru á ellilífeyri og það eru 18 milljarðar til viðbótar við núverandi rétt. Einnig kemur fram á sömu blaðsíðu að strax á næsta ári er aukið fjármagn til þessa málaflokks vegna samkomulagsins sem snýr eingöngu að lífeyrisréttinum 3,7 milljarðar og 2008 4 milljarðar, 2009 rúmlega 4,3 milljarðar og 2010 tæpir 4,8 milljarðar. Því er ekki hægt að segja að þetta sé lítilvægt skref. Og þegar til viðbótar koma þær viðbætur til örorkulífeyrisþega þá eru þetta upphæðir upp á tæpa 27 milljarða á þessu fimm ára tímabili. Því til viðbótar kemur fram í athugasemdunum við frumvarpið að kaupmáttur lífeyrisþega á síðustu 12 árum hefur aukist um 50% hjá einstaklingum en kaupmáttur lífeyrisþega með maka hefur aukist um 80%, en á sama tíma hefur kaupmáttur launa hækkað um 40%. Það verður því ekki annað sagt en að það samráð sem hefur verið viðhaft milli aðila á þessum árum hafi skilað umræddum hópi ágætum árangri þótt auðvitað sé það svo að fólk vill alltaf gera betur og þá á ég bæði við eldri borgara og ríkisvaldið.

Í því samkomulagi sem gert var í sumar, undirritað í júlí, standa nokkrir þættir upp úr. Má þar fyrst telja að bótaflokkum verður fækkað og lífeyristryggingakerfið verður einfaldað. Það hefur þvælst fyrir okkur í þinginu hvað þetta kerfi, lífeyristryggingakerfið, er flókið og mikið hefur verið um það rætt að það mætti einfalda. Þarna eru tekin ákveðin skref í þá átt að einfalda kerfið en ganga þarf mun lengra. Má í rauninni segja að það sé það flókið að sérfræðinga Tryggingastofnunar þurfi til til að geta lesið úr því og varla nokkur möguleiki fyrir einstaklinga sem ætla að sækja sinn rétt að lesa úr lögunum til að geta sótt hann.

Ég hef orðið vör við það á fundum, m.a. með lífeyrisþegum og sjúklingum, að þeir átta sig ekki alltaf á rétti sínum en þegar farið er nánar ofan í það kemur í ljós að þegar lagður er saman réttur þeirra úr lífeyrissjóðum, réttur þeirra úr almannatryggingakerfi og réttur þeirra í sjúkrasjóði sem er á vegum verkalýðsfélaga, þá lítur þetta betur út en menn töldu í fyrstu. Ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki yfirsýn yfir þetta er sú að þetta er svo flókið kerfi að erfitt er að hafa yfirsýn yfir það.

Annað atriði sem skiptir verulegu máli er að dregið verður úr áhrifum tekna maka. Þetta hefur verið baráttumál eldri borgara og öryrkja um langt skeið og þetta mun koma til framkvæmda fyrst á árinu 2009. Þetta er í rauninni mikið réttlætismál, en aftur má líka taka fram það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að það er ákveðið íhugunarefni að einstaklingur sem hefur gert samkomulag við maka sinn um að hann sé heima, yfirleitt er það reyndar konan sem er heima, en makinn sem er þá karlmaðurinn er vinnandi. Þegar viðkomandi kona verður 67 ára að aldri þá allt í einu stofnast réttur til almannatrygginga sem tryggir henni ákveðin laun umfram það sem samkomulag þeirra á milli hefur verið árum saman. En þetta er ákvörðun og ákveðin stefna sem er tekin. Við hana er í rauninni ekkert að athuga en hún felur í sér ákveðna grundvallarbreytingu í hugsun hvað almannatryggingakerfið stendur fyrir.

Á bls. 13 í frumvarpinu kemur fram hver áhrifin eru af því að draga úr tekjutengingu á milli hjóna. Fram kemur m.a. í töflu dæmi um ellilífeyrisþega í sambúð — maki er ekki lífeyrisþegi og með 150 þús. kr. tekjur á mánuði. Ef lífeyrisþeginn er ekki með laun hækka tekjur hans úr tæpum 68 þús. í 96 þús., um 28 þús. kr. eða 42%. En hafi hann sjálfur, lífeyrisþeginn, tekjur upp á 50 þús. hækka tekjur hans um 21 þús. kr. eða 19%.

Þarna má segja að áhrif þessara breytinga séu að koma fram í frumvarpinu, þær koma til framkvæmda á árinu 2009 og 2010, og munu sérstaklega gagnast konum og þær fái meira á milli handanna en hingað til hefur verið. Enda hefur þetta verið sérstakt áhyggjuefni og sérstakt ergelsi frá þeirra hendi að tengja tekjur sínar með þessum hætti við maka.

Annað dæmi er ellilífeyrisþegi í sambúð með engar tekjur en maki er með 150 þús. lífeyristekjur, að tekjur ellilífeyrisþegans hækka úr 57 þús. í um 111 þús. eða 95%. Í þessu er verið að skoða sérstaklega að lífeyrissjóðstekjur maka eru aftengdar tekjum ellilífeyrisþegans sem hefur þau áhrif að tekjur viðkomandi hækka.

Einnig kemur fram að hafi viðkomandi ellilífeyrisþegi í sambúð atvinnutekjur sjálfur upp á 50 þús. hækka tekjur hans. Voru þá heildartekjur hans á mánuði 95 þús. en fara upp í 146 þús. og mismunurinn er 50 þús. kr. sem er 53%. Því er ekki hægt að segja að þetta samkomulag sé ekki gott, en hins vegar villir það kannski um fyrir fólki að þetta kemur ekki til framkvæmda fyrr en 2009. Fólk sér því ekki alveg strax hverjar þessar breytingar verða.

Annað atriði sem varðar það sem við erum að fjalla um er að fjárhæð vasapeninga verður hækkuð um 25%. Þetta er mjög mikilvægt þeim sem eru á öldrunarheimilum og hafa engar tekjur. En það snertir líka mál sem ég hef hreyft hér á hinu háa Alþingi áður, en það er samræming á þjónustu sem veitt er á öldrunarheimilum. Það segir sig sjálft að vasapeningar sem eru um 25 þús. kr. — að þar sem einstaklingur er inniliggjandi á hjúkrunarheimili og þarf að borga sinn eigin þvott, eins og hefur komið fram áður, eða hann þarf að leggja fram ákveðna greiðslu fyrir þjónustu sem elli- eða hjúkrunarheimilið borgar ekki fyrir, það segir sig sjálft að í þessu felist ákveðin mismunun.

Þess vegna tel ég það mjög gott að nú verður farið í þá vinnu að fara að ráðleggingum Ríkisendurskoðunar varðandi þjónustu á öldrunarstofnunum, að skoða betur samræmingu á þeirri þjónustu og hvað það er sem fólk er að borga fyrir og hvað ekki.

Síðan eru það atriðið sem varðar sveigjanleg starfslok, þ.e. að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris. Þetta er mjög mikilvægt atriði og hefur verið til umræðu á hinu háa Alþingi um nokkuð langt skeið. Hefur hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson m.a. rætt þetta. Hérna er verið að fara ákveðna leið sem lífeyrissjóðirnir hafa jafnframt farið, þ.e. að frestun á töku lífeyris leiðir til aukins réttar í kerfinu. Einstaklingur sem heldur áfram starfi til sjötugs og frestar því að sækja um lífeyri frá almannatryggingakerfinu getur í rauninni hækkað rétt sinn um 18% og ef hann frestar áfram til 72 ára aldurs getur hann hækkað rétt sinn um 30%. Þetta getur því bæði verið hagsmunamál hins aldraða sem vill halda virku starfi áfram í samfélaginu og um leið hefur hann þá tækifæri til að auka rétt sinn, sem er mikið ánægjuefni.

Nú hefur mikið verið rætt um það atriði sem er í frumvarpinu og var í samkomulaginu um að sett yrði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Þetta er mál sem hefur mikið verið til umræðu og valdið miklu ergelsi hjá mörgum öldruðum sem segja að um leið og þeir eru farnir að afla sér tekna með einhverjum hætti, öldruðum býðst vinna hér og þar í stofnunum eða fyrirtækjum, eða þá með sjálfsaflafé — fólk vill geta aukið fjárráð sín með vinnu og um leið viðhaldið heilsu sinni og viðhaldið virkni í samfélaginu án þess að það leiði til skerðingar á lífeyri úr almannasjóðum. Þetta kemur til framkvæmda árið 2009. Verður þá miðað við frítekjumark um 200 þús. kr. En ári seinna, 2010, fer þetta upp í 300 þús. kr.

Það hefur verið gagnrýnt að þetta frítekjumark komi ekki til framkvæmda fyrr og vissulega má segja að þessi kostnaður sé í rauninni ekki mikill ef maður lítur á töflu á bls. 9 um hver kostnaðurinn er vegna samkomulags eldri borgara. Þá kemur í ljós að þegar þetta ákvæði kemur til framkvæmda á árinu 2009 leiðir frádráttur frá atvinnutekjum til 142 millj. kr. útgjaldaaukningar. Og svo aftur 2010 þegar 300 þús. kr. markið er komið, þá leiðir þetta til 208 millj. kr. aukningar.

Í rauninni má segja að ef farið verður í það að flýta þessu á einhvern hátt eða byrja með lægri upphæð, þá leiði það í sjálfu sér ekki til mikillar aukningar á fjármagni miðað við þá heildarupphæð sem við erum að tala um. En þetta er samkomulag sem varð með þessa niðurstöðu. En kannski mætti hugsa sér ákveðið svigrúm að flytja á milli vissa þætti eða skoða þetta með einhverjum öðrum hætti þannig að komið sé að einhverju leyti til móts við þessar kröfur eldri borgara og sem valda eiginlega mesta ergelsi meðal þeirra í dag. En aftur, þetta er samkomulag, það er kannski erfitt að fara að breyta því nema að aftur sé samkomulag um það.

Okkur þingmönnum barst fréttatilkynning frá Samtökum verslunar og þjónustu sem varðar nákvæmlega þetta atriði þar sem þeir eru með áskorun um óskertar aldurstengdar bætur launafólks. Ég er nú ekki sammála þessari yfirskrift. En hins vegar er ákveðið atriði sem er sannleikskorn í þessari ályktun. En þeir segja og benda á að síminnkað framboð íslensks vinnuafls hafi orðið í verslun og þjónustu á undanförnum missirum. Benda á hvað mikill skortur er á vinnuafli. Samtökin hafa þurft að leita til erlends vinnuafls sem hefur ekki tök á íslenskri tungu og benda á það ónýtta vinnuafl sem er í eldri borgurum en sem telja sér ekki fært að vinna vegna ákvæða almannatryggingalaga. Samtökin segja enn fremur, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn má líta til þess að í landinu er sífellt stærri hópur eldri borgara sem vill og getur unnið margvísleg störf í mismunandi starfshlutföllum, en fæst ekki út á vinnumarkaðinn vegna þess að með launuðu starfi skerðast aldurstengdar greiðslur hans. Á sama tíma eykst heilbrigði hópsins, lífaldur lengist og sífellt fleiri eru tilbúnir að stunda einhverja launavinnu.“

Í rauninni má segja að þetta ákvæði um frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega sé komið fram m.a. til að koma til móts við þessar kröfur og þá almennu umræðu í samfélaginu sem ég tel vera gott mál. Þetta er svona sem sumir mundu kalla „win win situation“ þar sem allir aðilar græða, þ.e. öldruðum er gert kleift að vinna sem, eins og hefur verið bent á, gæti aukið virkni þeirra og minnkað kostnað í heilbrigðiskerfinu. Það er öllum til bóta að geta haldið virkni og virkri þátttöku í samfélaginu.

Að lokum langar mig einnig að nefna það ákvæði sem hefur mikið verið til umræðu í þinginu um langt skeið. Það er að fjármagn í Framkvæmdasjóð aldraðra verði nú eingöngu notað til uppbyggingar öldrunarstofnana. Það skiptir miklu máli að það fjármagn verði notað til að koma til móts við uppsafnaða þörf fyrir hjúkrunarrými, en á Reykjavíkursvæðinu eru á milli 300 og 400 manns, eldri borgarar, sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrými. Jafnframt er mikilvægt að auka aðgengi að aðstoð á heimili.

Jafnframt var í samkomulagi atriði sem varðar fjölgun starfsfólks í umönnunarstörfum. Það náttúrlega kemur ekki inn á það frumvarp sem við erum hér að fjalla um beint, en hins vegar má segja að sú ákvörðun sem var tekin nú fyrir stuttu um fjölgun hjúkrunarnema við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sé þáttur í samkomulaginu. En það er alveg ljóst að hjúkrunarfræðingar hér á landi eru of fáir og þjóðin er að eldast og aukin þörf fyrir þá stétt.

Allra síðast, þar sem tíma mínum er að ljúka, langar mig til að nefna það atriði sem beinist ekki að umræddu samkomulagi en varðar slysatryggingu nemenda. Þetta er mjög mikilvægt atriði því nemendur sem hafa verið m.a. í heilbrigðisgreinum og eru í starfsnámi á sjúkrahúsum hafa um nokkurt skeið ekki verið slysatryggðir. Það hefur skapað ákveðinn vanda því það er einmitt á þeim námstíma sem ákveðin slys verða. Þetta eru nemendur í þjálfun og eru að læra að meðhöndla þau hættulegu efni sem þeir þurfa að vinna með og eru að fóta sig í nýju umhverfi. Það er einmitt þá sem ákveðin slys hafa orðið. Með þessari breytingu eru allir háskólanemar sem stunda verklegt nám slysatryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði og mikið fagnaðarefni. Meðan ég var formaður Félags hjúkrunarfræðinga man ég eftir að þetta var eitt af þeim atriðum sem nemendur komu sérstaklega til félagsins til að ræða um því þetta skipti þá miklu máli.



[17:29]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér var að ljúka ræðu varaformanns heilbrigðis- og trygginganefndar, hv. þm. Ástu Möller, og verðum við þá að líta á hana sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umræðunni. Því ef við gætum allrar sanngirni getum við varla litið á hv. þm. Pétur Blöndal sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umræðu um þessi mál þó hann hafi verið óvenju hófstilltur í málflutningi áðan.

Ég vil því nota tækifærið og spyrja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins nokkurra spurninga hér í stuttu andsvari. Fyrst er það varðandi yfirlýsinguna sem gerð var milli ríkisins og Landssambands eldri borgara. Hefur hv. þm. Ásta Möller ekki orðið vör við óánægju eldri borgara varðandi þá yfirlýsingu hvernig staðið var að því að fá hana samþykkta, eða á ég kannski að segja ergelsi eldri borgara, eins og hv. þingmaður notaði nokkrum sinnum í ræðu sinni?

Annað sem mig langar að fá að vita er hvort hv. þingmaður er tilbúin til að beita sér fyrir því, sem varaformaður í heilbrigðis- og trygginganefnd, að frítekjumarkið verði tekið upp mun fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpi ráðherrans og það verði hækkað. Því hv. þingmaður fór yfir kostnaðinn við það að setja á frítekjumarkið eins og talað er um að gera árið 2009 — sem mér finnst nú hálfgerður brandari að vera að tala um að setja þetta á árið 2009 — að við þessar 200 þús. kr. eða tæplega 17 þús. kr. á mánuði væri kostnaðurinn 142 milljónir fyrir ríkissjóð. Það er væntanlega brúttókostnaður því nettókostnaður verður annar þegar veltuáhrifa gætir því þess má vænta að eldri borgarar noti þessa aura til að kaupa þjónustu og borgi virðisaukaskatt o.s.frv.

Er hv. þingmaður tilbúin að beita sér fyrir því að þetta gerist fyrr og þetta verði hærri upphæð? Því ég vil benda hv. þingmanni á að 142 milljónir, sem er nú kostnaðurinn á ársgrundvelli við þetta, er rétt rúmlega það sem tekjur ríkissjóðs jukust á hverjum degi á þessu ári umfram áætlanir. 110 milljónir komu í ríkiskassann umfram áætlanir ríkisins á hverjum einasta degi á þessu ári samkvæmt fjáraukalögum sem hér eru til umræðu. Því spyr ég hv. þingmann: Er ekki rétt að leiðrétta þennan brandara varðandi frítekjumarkið árið 2009?



[17:31]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að frábiðja mér athugasemdir hv. þm. Jóns Gunnarssonar um félaga okkar hv. þm. Pétur Blöndal. Hann er jafnmikill talsmaður flokksins og ég í þessu máli sem öðrum hér á þinginu.

Til mín var varpað nokkrum spurningum og m.a. spurt hvort ég hafi orðið vör við óánægju eldri borgara eftir þetta samkomulag. Ég veit að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur reynslu í að gera samkomulag og hann veit að það eru ekki alltaf allir ánægðir með það samkomulag sem gert er á hverjum tíma. Það birtist manni hins vegar þannig í fjölmiðlum þegar samkomulagið var undirritað að það væri sérstök ánægja meðal forsvarsmanna eldri borgara, Landssambands eldri borgara, á blaðamannafundinum þar sem samkomulagið var kynnt. Hún var mjög augljós. Annars komu líka fram eftir þann fund athugasemdir frá ýmsum aðilum sem vildu hafa farið öðruvísi að. Það er ekkert óvænt. Þegar samkomulag er gert um ákveðin atriði, hvort sem það er kjarasamningur eða samningur með öðrum hætti, bera menn miklar væntingar til þess og auðvitað vildu sumir hafa hlutina öðruvísi en samkomulag varð um. Samkomulag milli aðila byggist ekki á ýtrustu kröfum allra aðila heldur að farin er millileið.

Loks spyr hv. þingmaður hvort ég telji að taka megi frítekjumarkið upp fyrr en gert er ráð fyrir í þessu samkomulagi. Ég lýsti skoðunum mínum áðan að ég telji að í því felist ekki háar upphæðir miðað við samkomulagið í heild og tel að skoða megi ákveðinn tilflutning þar á. Með því er ég að lýsa mínum skoðunum.



[17:33]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa hælt hv. þm. Pétri Blöndal fyrir hófstilltan málflutning. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því að ástandið innan Sjálfstæðisflokksins væri svona viðkvæmt eftir prófkjörið sem þau áttust við í. Ég biðst bara velvirðingar á því að vera að ýta eitthvað við svona viðkvæmum málum innan flokks.

Eitt sem mig langar að spyrja varaformann hv. heilbrigðis- og trygginganefndar um er það sem ég spurði hæstv. ráðherra um áðan. Er hv. varaformaður heilbrigðis- og trygginganefndar tilbúin að beita sér fyrir því innan nefndarinnar að rædd verði samhliða þetta frumvarp til laga um breytingu á almannatryggingum og tillaga til þingsályktunar sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram um nýja framtíðarskipan lífeyrismála? Það er afar mikilvægt að fá svar við þessu því að það skiptir máli þegar farið er í gegnum þessa umræðu að farið verði samtímis yfir sjónarmið stjórnarandstöðunnar og sjónarmið hæstv. ráðherra og stjórnarliða, vegna þess að um er að ræða málaflokk sem ekki er bara tölur, prósentur, krónur og aurar. Við erum að tala um málaflokk þar sem við tölum um fólk í hvert einasta skipti sem við ræðum þessi mál. Við megum aldrei gleyma því að þetta eru ekki bara lágmörk, tekjutengingar, frítekjur, prósentur o.s.frv. Á bak við hverja einustu tölu og hverja einustu setningu í almannatryggingalögunum er fólk sem treystir á að við sem í þessum sal sitjum tryggjum því ákveðin lágmarksréttindi. Þess vegna hlýtur það að vera krafa okkar í stjórnarandstöðunni að þegar þetta mál verður tekið fyrir og rætt, verði það rætt bæði út frá þeim sjónarmiðum sem við höfum lagt fram í þinginu ekki síður en sjónarmiðum hæstv. ráðherra og stjórnarliða.



[17:35]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að tala um neina viðkvæmni í þeim stjórnmálaflokki sem ég tilheyri, ég held að hann ætti að líta sér nær.

Hv. þingmaður varpaði þeirri spurningu til mín hvort ég mundi beita mér fyrir því að samhliða þessu frumvarpi verði rædd innan heilbrigðis- og trygginganefndar þingsályktunartillaga sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram til breytingar á lífeyriskerfinu. Það kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hún mundi beita sér fyrir því að sjónarmið stjórnarandstöðunnar kæmu fram í umræðum innan nefndarinnar. Hún lagði jafnframt áherslu á að stjórnarandstaðan mundi koma með breytingartillögu við frumvarpið þegar það kemur til 2. og jafnvel 3. umr. Ég hef því engar áhyggjur af því að sjónarmið stjórnarandstöðunnar, ef hún stendur sig í stykkinu, komi ekki fram á fundum nefndarinnar.

Við megum hins vegar ekki gleyma því að samkomulagið sem gert var við eldri borgara og birtist í því frumvarpi sem við fjöllum um núna, frumvarpi til laga um breytingu á almannatryggingalögum og lögum um málefni aldraðra, er stórt skref. Það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að verið er að auka verulega í þennan málaflokk. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 voru 32,2 milljarðar í þessum málaflokki en fyrir árið 2007 hefur þessi upphæð hækkað um 10 milljarða, þannig að við megum ekki gleyma því að þetta er stórt skref. Við skulum ekki vanmeta það sem vel er gert, það er alger óþarfi að tala það niður. Það er aldrei svo að allir séu ánægðir en þetta eru stór skref, grundvallarskref sem verið er að taka hér í þessum málaflokki.



[17:37]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Í tilefni þeirra orða sem féllu í lok ræðu síðasta hv. ræðumanns þá langar mig að minna á að þegar ég tók til máls í fyrsta andsvari mínu lýsti ég ánægju með að hér skyldi vera komið fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, því að eins og ég sagði þá skiptir máli það skref sem hér er verið að stíga en það er samt sem áður gengið mun skemmra en nauðsynlegt hefði verið ef við horfum til þess hverjar tekjur manna í dag þurfa að vera til að þeir geti lifað og veitt sér lágmarksframfærslu.

Aðeins varðandi yfirlýsinguna sem er grundvöllurinn að þessu lagafrumvarpi, yfirlýsinguna sem skrifað var undir af hálfu ríkisins og Landssambands eldri borgara. Ég heyrði að hv. þm. Ásta Möller kallaði hana samkomulag og leggur áherslu á að hér sé um samkomulag að ræða. Ég held að flestir þingmenn hafi áttað sig á að Landssamband eldri borgara er hætt að nefna þetta samkomulag, og hefur kannski aldrei gert, heldur talar um yfirlýsingu sem skrifað hafi verið undir af hálfu beggja aðila. Ástæðan fyrir því er að við höfum heyrt það frá eldri borgurum að þeir telji að varðandi lífeyrisþáttinn og breytingarnar á lögum um almannatryggingar hafi þjónustuþátturinn, hin stoðin undir yfirlýsinguna eins og hæstv. ráðherra kallaði það, verið notaður til að berja þá til hlýðni varðandi stoðina um almannatryggingar. Ég spurði hæstv. ráðherra í stuttu andsvari hvort hann hefði ekki orðið var við þetta sjónarmið eldri borgara og hæstv. ráðherra svaraði mér því til að svo væri ekki. Eldri borgarar hefðu ekki verið kúskaðir til með þjónustuþættinum til að samþykkja þáttinn um almannatryggingar.

Sem betur fer eru símamál og tækni í þokkalega góðu lagi á Íslandi og eftir að ég hafði spurt hæstv. ráðherra og fengið svör hans barst mér blár miði eins og okkur þingmönnum berst oft og tíðum þegar aðilar úti í bæ vilja heyra í okkur eða láta okkur vita að þeir vilji ná í okkur. Miðinn var frá formanni eins aðildarfélags í Landssambandi eldri borgara sem vildi segja mér að formennirnir hefðu verið kallaðir til fundar, eftir að yfirlýsingin lá fyrir, með fulltrúum frá Ásmundarnefndinni og þar hefði þeim einfaldlega verið sagt, algerlega skýrt og á tærri íslensku: „Ef þið samþykkið ekki það sem hér liggur fyrir erum við aftur á byrjunarreit. Þá erum við ekki að tala um að þjónustuþátturinn líti svona út, þá erum við algerlega á byrjunarreit.“ Þessi formaður aðildarfélags að Landssambandi eldri borgara sagði mér að hann hefði eftir þetta sjálfur sagt hæstv. ráðherra frá þessu og að svona hefði verið staðið að þessum fundi. Því þætti mér vænt um að vita hvort hæstv. ráðherra geti ekki bara viðurkennt það að hafa heyrt þetta frá eldri borgurum og að þetta sé sjónarmið sem kemur mjög skýrt fram frá eldri borgurum í dag að þeim hafi verið þrýst til að samþykkja þessa yfirlýsingu vegna þess að þeim var hótað því að annars yrði ekki bætt úr þjónustuþættinum. Ég held að hv. þm. Ásta Möller hafi lýst því vel áðan, með biðlistum eftir hjúkrunarrými og slíku, hvað formenn aðildarfélaga Landssambands eldri borgara horfðu fram á þegar þeim var hótað með þessum hætti. Það má ekki verða nánast vani í þingsalnum að hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins fari eins og kettir í kringum heitan graut í kringum sannleikann. Það verður að fara að verða þannig í þingsalnum að ráðherrar axli þá ábyrgð sem að þeim snýr og viðurkenni hreinlega hlutina eins og þeir eru en reyni ekki sí og æ að skjóta sér undan ábyrgð.

Lög um almannatryggingar eru afar flókin og torskiljanleg fyrir flesta þá sem renna í gegnum þau og ég held að það sé full nauðsyn á því, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði fyrr í umræðunni, að taka þessi lög og endurskoða þau í heild sinni, að það sé ekki hægt að taka eingöngu ákveðna þætti út heldur þurfi að taka þau í heild sinni. Maður rekur sig fljótlega á það þegar maður les í gegnum almannatryggingalögin að þar rekst að mörgu leyti hvað á annars horn. Það er oft og tíðum verið að reyna að lagfæra einhverja ákveðna hluti, gera breytingar sem menn halda að séu til bóta, en þegar þeir fara að spila saman með öðrum þáttum kerfisins eru þeir kannski ekki eins til bóta og menn héldu þegar ráðist var í lagabreytingarnar. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að ráðast í endurskoðun á þessum málaflokki í heild sinni og það erum við ekki að gera í dag.

Ég las í gegnum frumvarpið sem við ræðum hér, um breytingar á þessum lögum, og ég varð að marglesa hvern kafla til að skilja hann, ég varð nánast að marglesa hverja grein til að skilja hana vegna þess að þetta er svo mikið torf og rekst svo hvað á annars horn að maður varð að fara fram og til baka til að átta sig á hvaða áhrif þetta hefði. Þetta hefur ekkert með greind að gera eða lesskilning eða eitthvað slíkt heldur eingöngu það að þessi mál eru flókin og viðamikil og eins og þeim er stillt upp í þessu lagamáli og lagatexta eru þau torskiljanlegt hverjum manni og ekki von til þess að margir kunni þessi lög í heild sinni.

Aðeins að frítekjumarkinu. Auðvitað eigum við að setja frítekjumark og setja það sem fyrst og sem hæst. Við búum við þær aðstæður á Íslandi í dag að skortur er á fólki á vinnumarkaði. Við búum við það að þeir eldri borgarar sem vilja reyna að auka ráðstöfunartekjur sínar með einhverjum hætti reka sig fljótlega á að það er ekki til neins. Skerðingarnar eru svo miklar, það er tekið svo mikið af því sem þeir afla að það er í raun og veru ekki til neins fyrir þá að standa í því að ná sér í einhverjar atvinnutekjur. Það hefur komið fram að lífeyrisþegi sem hefur tekjutryggingu ásamt greiðslu úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjur haldi aðeins eftir 15–33% af þeim tekjum, í besta falli þriðju hverja krónu, að skerðingar og skattar væru 67–85% af hverri krónu sem þeir sem komnir eru á þennan aldur reyna að vinna sér inn. Auðvitað gengur þetta ekki og kostnaðurinn við þetta, eins og hv. þm. Ásta Möller lýsti hér áðan, er ekki sá að við getum ekki leyft okkur að gera þetta.

Það er nefnilega þannig með ríkissjóð að það er ekki bara hægt að tala um hvað fer út úr honum því að oft og tíðum ratar hver einasta króna aftur inn í ríkissjóð, og aftur og aftur í gegnum hina óbeinu skatta og í gegnum þjónustugjöld o.s.frv. Ég skora því á hæstv. ráðherra í tengslum við breytingu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar að leggja svolítið meiri vinnu í að skoða í alvöru hvað það mundi þýða ef lífeyrisþegum væri heimilað að hafa hærri tekjur áður en skerðingar fara að koma á lífeyrisgreiðslur frá almannatryggingum.

Það er ekkert verið að tala um að þessar tekjur séu skattlausar. Auðvitað byrja menn að borga skatta eins og hverjir aðrir þegar þeir eru komnir inn í þetta kerfi og farnir að afla tekna og komnir yfir skattleysismörkin, en að þetta séu frítekjur þegar kemur að lífeyristryggingunum og almannatryggingunum. Ég er viss að hæstv. ráðherra og þeir sem reikna fyrir hann komast mjög fljótlega að því að kostnaðurinn við hver 100 þúsund á ári í frítekjumark gagnvart almannatryggingum er ekki ýkja mikill þegar upp er staðið.

Hæstv. ráðherra hlýtur líka að velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum stendur á því og af hverju menn eru að tala um að taka þetta frítekjumark fyrst upp á árinu 2009, löngu eftir að umboði núverandi ríkisstjórnar lýkur. Af hverju ekki að gera þetta núna strax um áramótin þegar tilkostnaðurinn er ekki meiri en raun ber vitni? Við verðum að fá einhver svör við því frá hæstv. ráðherra, af hverju 2009, af hverju ekki núna 1. janúar 2007? Hvaða skilaboð er verið að senda eldri borgurum og af hverju í ósköpunum er ekki hægt að gera þetta strax?

Sama er með skerðingarhlutföllin sem verið er að tala um. Árið 2007 á að fara úr 45% í 39,95%. Maður skilur ekki hver reiknar út svona tölur. Af hverju ekki bara 39% eða 40%, 39,95% skal það vera núna á árinu 2007 og lækka síðan niður í 38,35% á árinu 2008. Er ekki hægt að fara aðeins lengra varðandi skerðingarhlutföllin og horfa þá til þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar eins og hún liggur fyrir þar sem gert er ráð fyrir að fara niður í 35%?

Auðvitað fögnum við því að hér er verið að einfalda kerfið að einhverju leyti og verið að hækka tekjutrygginguna upp í 78.542 kr. Tillaga til þingsályktunar sem við í stjórnarandstöðunni lögðum fram, gerir ráð fyrir því að hækka tekjutrygginguna upp í 85 þúsund, það munar 6.500 kr. á mánuði og ég skora enn og aftur á hæstv. ráðherra að láta reikna það út enn og aftur hvað 6.500 kr., hvað veltuáhrif í ríkissjóð þýða þegar þau eru tekin inn í dæmið. Það þýðir ekkert að reikna þetta út bara sem útstreymi úr ríkissjóði, þetta kemur líka aftur inn í ríkissjóð að einhverju leyti og talsvert miklu leyti.

Annað sem mig langar að gera að umræðuefni þó að það tengist kannski ekki beint því sem við erum að ræða hér, en það er skattlagning lífeyristekna. Það kemur inn í ráðstöfunartekjur þeirra sem eldri eru orðnir. Af hverju er þessi þrjóska í gangi hjá ríkisstjórninni að vilja ekki skoða það með lífeyristekjur að þetta séu í raun tekjur af sparnaði, þetta séu í raun fjármagnstekjur? Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að útskýra það fyrir lífeyrisþegum að ef þeir hafa nú lagt til hliðar í banka en ekki greitt í lífeyrissjóð og séu að taka af því rentur í dag þá borgi þeir 10% skatt af því? Sjálfstæðir atvinnurekendur sem ekki voru í lífeyrissjóði, þeir aðilar sem gátu komið sér hjá því, eins og það var kallað á sínum tíma, að greiða í lífeyrissjóð meðan reglurnar voru ekki svo strangar að allir þyrftu að greiða í lífeyrissjóð — það var a.m.k. ekki gengið eftir því að allir gerðu það — þeir sem mynduðu sér þá lífeyrissjóð í formi eigna eða í formi fjármagns sem þeir lögðu til hliðar en lögðu það ekki inn í þá samtryggingarsjóði sem við höfum, þeir greiða 10% af því sem þeir eru að taka út úr sparnaði sínum, þ.e. lífeyrissparnaðinum. En þegar kemur að þeim sem ekki voru í þeirri aðstöðu að geta farið annað með það fé sem greiða átti í lífeyrissjóð heldur greiddu samviskusamlega af hverri einustu krónu í lífeyrissjóðinn, þegar kemur að því að þeir ætla að fara að taka út af sínum lífssparnaði rentur þá skal skattleggja það upp á rúm 38%.

Ég skil ekki með hvaða rökum ríkisstjórnin mætir þessu fólki og segir: Þetta er sanngjarnt. Þetta er svo langt frá því að vera sanngjarnt að ég held að hver einasti maður sem í alvöru skoðar þetta átti sig á því fljótlega að hér er grófleg mismunun á ferðinni og það er verið að mismuna þeim sem voru að vinna hjá öðrum, voru fastir launamenn með fastar mánaðartekjur og greiddu samviskusamlega í lífeyrissjóð.

Aðeins um það að hæstv. ráðherra sagði áðan að enginn ætti að fá minna en 88 þús. kr. á mánuði eftir breytingu á reglugerð. Ég vil að hæstv. ráðherra staðfesti það hér og nú að það sé staðreynd frá og með deginum í dag, eða frá því að reglugerðin var undirrituð, að allir þeir sem fá greiðslur út úr þessu kerfi fái að lágmarki 88 þús. kr. á mánuði. Ég vil að hæstv. ráðherra staðfesti að þeir sem nú eru að greiða til baka það sem ofgreitt hefur verið, að ekki sé gengið nær þeim en það að eftir verði 88 þús. kr. á mánuði hjá hverjum og einstökum. Ég held að það sé nauðsynlegt að hæstv. ráðherra staðfesti þetta við okkur þannig að við getum fengið það á hreint úr ræðustól að svona sé þetta. Mig rennir í grun að þetta sé ekki alveg svona hjá hverjum og einum, að hver einasti maður og kona sem fá greiðslur út úr almannatryggingum miðað við þá breytingu sem gerð var núna á reglugerðinni fái að lágmarki 88 þúsund á mánuði, þrátt fyrir að verið sé að taka af þeim ofgreiðslur.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessar 88 þús. kr. koma til. Í tillögu til þingsályktunar sem stjórnarandstaðan lagði fram var gert ráð fyrir því að framfærslugrunnur fyrir eldri borgara yrði reiknaður út og reynt að stilla þetta þannig af að þegar búið væri að komast að því hver framfærsluþörfin væri þá væri þetta stillt af með þeim hætti að fólk væri ekki að fá undir því. Því við hljótum öll að geta verið sammála um að það gengur ekki og mun aldrei geta gengið til lengdar að það sé einhver hópur, stór eða lítill, í þjóðfélaginu sem hefur mun minna en þarf til lágmarksframfærslu, þ.e. að uppfylla lágmarksgreiðslur til þess að komast af.

Þegar ég hef rennt í gegnum lögin um almannatryggingar og reynt að skilja þau hefur mér oft virst að í staðinn fyrir að þetta séu lög sem sett eru til að hjálpa þá séu oft inni í þeim greinar sem settar eru til að refsa, að hugmyndafræðin hafi í raun snúist við þannig að þeir sem þó reyna að hjálpa sér sjálfir að þeim er refsað fyrir það með einum eða öðrum hætti eins og við höfum kannski séð í gegnum allt of miklar tekjutengingar, allt of miklar skerðingar og skorti á frítekjumarki.

Eins og ég sagði áðan þegar við ræðum almannatryggingarnar og lögin um almannatryggingar verðum við að hafa það í huga að við erum að tala um fólk, við erum að tala um einstaklinga, við erum ekki bara að tala um prósentur eða krónur og aura og þegar við ræðum um skerðingarhlutföll, um frítekjur og tengingar við tekjur maka o.s.frv. þá erum við alltaf að ræða um einstaklinga, við erum alltaf að ræða um fólk og því megum við aldrei gleyma.

Auðvitað er margt gott í þessu frumvarpi, það má alls ekki misskilja mig með það, það er margt gott í því og hér er verið að stíga skref í rétta átt. Ég vil ekki fara úr ræðustóli með það að menn haldi að mér finnist að ekkert sé verið að gera. Það er ekki rétt. Hér er verið að stíga skref í rétta átt. En það er verið að taka of lítið skrefið og allt of lítið þegar við horfum til þess hvernig ríkissjóður hefur á undanförnum árum fengið tekjur langt, langt umfram það sem nokkur gat gert ráð fyrir. Við sjáum það, eins og ég sagði áðan, bara á fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir upp á 270 milljarða í tekjur á næsta ári og á fjáraukalagafrumvarpinu sem einnig liggur fyrir þar sem ríkið fær rúma 40 milljarða í auknar tekjur umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir, þá sjáum við að það er borð fyrir báru. Ef hér væri ríkisstjórn sem væri félagshyggjuríkisstjórn, ríkisstjórn sem bæri hag þeirra sem minna mega sín fyrir brjósti þá er ég viss um að það skref sem hér væri verið að stíga væri stærra og það væri meira í því en verið er að kynna fyrir okkur nú.

Því miður verður að segja eins og er að auknar tekjur ríkissjóðs, góðærið og þenslan sem verið hefur, hefur ekki verið notað í nægjanlega ríkum mæli til að gera hag þeirra sem minna mega sín betri. Við þekkjum það í gegnum skattkerfið hvernig ríkisstjórnin hefur tekið á því að breyta skattkerfinu þannig að þeir sem allra hæstu launin hafa, og þá er ég að tala um hundruð milljóna á ári í laun, að þeir njóta verulega í minnkaðri skattbyrði, en þeir sem eingöngu hafa lágmarkslaun eða föst mánaðarlaun sem eru svona við það sem við getum kallað eðlileg laun, þeir bera allir hærri skattbyrði nú en þeir gerðu áður en ríkisstjórnin fór að hræra í skattkerfinu. Ég held að hæstv. ráðherrum og ríkisstjórn væri nær að nýta þennan tekjuauka og hinn góða hag ríkissjóðs til að leggja meira í þann málaflokk sem við erum að tala um hérna þannig að meiri bragur væri að en nú er.



[17:57]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem hér hefur bæði verið mælt fyrir og mjög ítarleg umræða orðið um. Hv. þm. Þuríður Backman, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í heilbrigðis- og trygginganefnd, hefur farið yfir þetta mál í heild sinni og einstaka þætti þess. Ég vísa til ræðu hennar hvað varðar þessi mál almennt.

Það sem ég ætla fyrst og fremst að gera að umtalsefni eru einstakir þættir sem lúta sérstaklega að möguleikum elli- og örorkulífeyrisþega til að stunda áfram vinnu, fá áfram launatekjur án þess að þær skerði lífeyri þeirra. Það hefur verið aðall á Íslandi um áratuga bil og aldir að fólk sem vill vinna sé hvatt til þess og njóti samfélagslegrar hvatningar til að taka þátt í samfélaginu, leggja fram krafta sína til starfa svo lengi sem það vill og sem það má. Það er skylda okkar að búa þannig um hnúta að það sé hvatning til fólks til að svo megi verða. Það er þess vegna eitt af meginmálunum í t.d. tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála sem allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, þ.e. þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, hafa lagt fram. Það er mjög fróðlegt að bera saman annars vegar tillögur þessara flokka, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, í lífeyrismálum og hins vegar tillögur ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Það hefur verið farið ítarlega í gegnum þessi atriði. Það var t.d. minnst á tekjutryggingu aldraðra þar sem við, flokkarnir sem viljum skipta þessari ríkisstjórn út, leggjum það til að tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. og öryrkja 86 þús. frá 1. janúar 2007 en ríkisstjórnarflokkarnir leggja til 6–7 þús. kr. lægri upphæð. Dæmigert. Munurinn skýrist þó og kemur einna greinilegast fram þegar horft er á frítekjumarkið sem hefur verið baráttumál aldraðra og öryrkja, og reyndar líka okkar sem viljum standa við bakið á og styðja þá kröfu. Við í stjórnarandstöðunni, við í velferðarflokkunum, Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum, sem viljum styrkja og efla velferðarmálin leggjum til að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði strax frá 1. janúar árið 2007 og skerði ekki tekjutryggingu. Skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði. Öryrkjar hafi val um þetta frítekjumark eða eldri reglu eftir því hvort þeim er hagstæðara.

Tillaga stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hljóðar hins vegar upp á allt annað. Hún hljóðar upp á að frá 1. janúar 2009 verði þetta frítekjumark 200 þús. kr. á ári, hjá okkur velferðarflokkunum 900 þús. kr. á ári frá 1. janúar 2007 en hjá stjórnarflokkunum 200 þús. kr. frá 1. janúar 2009. Ja, mikið er það nú rausnarlegt. Þeir þurfa ekki einu sinni að standa við það því að vonandi verður þessi ríkisstjórn þá komin frá. Og síðan vilja þeir að frítekjumarkið hækki upp í 300 þús. kr. á ári frá 1. janúar 2010. Himinn og haf skilur þessa flokka að, annars vegar ríkisstjórnarflokkana, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, og hins vegar velferðarflokkana sem leggja fram allt aðra tillögu, vilja að frítekjumarkið hækki strax. Það eru margar ástæður fyrir því. Ég nefndi þá ástæðu áðan að það hefur verið aðall íslensks velferðarsamfélags að hver og einn fengi að taka þátt í samfélaginu, leggja fram krafta sína, taka þátt í atvinnulífinu án þess að vera refsað fyrir það. Vissulega er atvinnuframtíð fólks sem er í þessari stöðu, komið á aldur eða er öryrkjar, óviss hvað varðar aldur, heilsu og starfsgetu en það vill samt fá að leggja fram, svo lengi sem það hefur krafta til og tök á, framlag til eflingar fyrir samfélagið án þess að það skerði þá áunninn lífeyri þar sem það veit ekki í rauninni hvenær það getur ekki unnið meir.

Þetta er fyrst og fremst réttur þessa fólks, samfélagsréttur þess sem við í velferðarflokkunum viljum styðja og leggjum þess vegna þetta mál fram. Líka má horfa til þess hreint praktískt að einmitt í ástandi eins og er núna á atvinnumarkaðnum — við höfum verið að tala hér um að það hafi þurft að flytja inn í landið vinnuafl, sem við skulum kalla fólk, til að standa undir stóriðjustefnunni, til að standa undir þenslunni sem atvinnustefna þessarar ríkisstjórnar hefur skapað. Sú stefna hefur jafnframt leitt til þess að margt af því fólki sem við erum að tala um hefur misst vinnuna. Því hefur verið sagt upp vegna þess að það hefur ekki verið reiðubúið til þess að vinna hina löngu vinnudaga sem atvinnurekendur krefjast eða verkin þess boðin út. Tökum störf eins og í ræstingum, tökum störf eins og í mötuneytum, tökum störf í einmitt mörgum kvennastörfum — þar hefur fólki verið sagt upp, eldra fólki sem vill fá að starfa áfram en er einhverra hluta vegna ekki talið þénugt og er sagt upp, fer á lífeyri eða á aðrar bætur. Reyni það að halda áfram einhverjum ákveðnum hlut á vinnumarkaðnum er því refsað. Það er ekki þetta sem við viljum og það er svo brýnt, og brýnna nú en nokkru sinni áður, að ákvæði um frítekjumark vegna vinnu komi til framkvæmda strax, ekki aðeins gagnvart þessu fólki sem við erum að tala um sem eru sjálfsögð mannréttindi heldur er það einnig vegna atvinnuástandsins og stöðunnar í samfélaginu.

Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að láta koma fram hér. Við fengum mjög mörg dæmi einmitt þegar Síminn var einkavæddur. Fólki sem hafði starfað þar áratugum saman, átti fá ár eftir til að vera komið á fullan ellilífeyri, var sagt upp, þokað burt í þeim hagræðingaraðgerðum sem þar voru í gangi. Þetta fólk er síðan meira eða minna réttlaust til þess að sækja aftur inn á vinnumarkaðinn eða halda vinnu sinni að hluta án þess að það skerði þá þann litla lífeyri sem það hefur. Ríkisstjórnin leggur til að frítekjumarkið taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2009. Ímyndið ykkur hrokann. Ef það er í rauninni vilji af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til að koma einhverju í framkvæmd ættu þeir að gera þetta strax. Það hefur komið fram að þetta er sáralítill kostnaðarauki en þetta er gríðarlegur samfélagsauki og réttindi og viðurkenning gagnvart því fólki sem hér á í hlut og skiptir þjóðarbúið gríðarlega miklu máli. Þarna sjáum við hinn raunverulega mun á afstöðu velferðarflokkanna og ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, varðandi þessi mál.

Það er mjög fróðlegt fyrir menn að sjá hér kjör ellilífeyrisþega eftir löndum. Við fengum þetta minnisblað frá samtökum eldri borgara í fyrradag og ég leyfi mér að vitna til þess, frú forseti:

„Ísland. Ellilífeyrir, grunnlífeyrir er lægstur á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd en ráðstöfunartekjur nokkuð háar vegna mikillar atvinnuþátttöku. Ellilaun skerðast frá fyrstu krónu sem ellilífeyrisþeginn vinnur sér inn aukalega. Skerðingar eru á bilinu 65–85% að meðtöldum sköttum.

Danmörk. Grunnlífeyririnn er 55 þús. kr. á mánuði sem skerðist fyrst eftir 440 þús. kr. mánaðartekjur, og tekjutryggingin sem er um 58 þús. kr. á mánuði skerðist eftir 59 þús. kr. atvinnutekjur á mánuði. Skerðingarhlutfall er 30% að viðbættum sköttum, atvinnutekjur skerða bætur almannatrygginga en ekki lífeyrissjóðstekjur.

Noregur. Í allflestum tilvikum mega menn fram að sjötugu hafa tvöfalda grunnupphæð í tekjur á ári sem eru rúmar 1,3 millj. íslenskar. Síðan greiða menn skatt af tekjum í réttu hlutfalli við eignir, þ.e. þrepaskipt skattkerfi. Eftir sjötugt mega menn hafa ótakmarkaðar tekjur án þess að grunnlífeyrir skerðist.“

Þetta eru upplýsingarnar sem við fengum frá samtökum eldri borgara.

Það er kannski talandi tákn um það hvernig þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hegða sér í lífeyrismálum að skoða hvað gerðist í Reykjavíkurborg nýverið varðandi hækkun á þjónustugjöldum eldri borgara. Við sem fylgdumst með kosningabaráttu sérstaklega Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar tókum eftir því að sérstök áhersla var lögð á að bæta kjör eldri borgara á allan hátt. Má segja að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins við síðustu borgarstjórnarkosningar hafi einmitt verið rekin töluvert á þeim grunni. Við fögnuðum þessu flest ef ekki öll, fögnuðum þeirri stefnubreytingu sem virtist vera að verða hjá Sjálfstæðisflokknum gagnvart eldri borgurum eins og hún birtist í kosningabaráttunni. En hvað kemur svo? Ég leyfi mér að vitna til Morgunblaðsviðtals við Margréti Margeirsdóttur frá 1. nóvember 2006, með leyfi forseta:

„„Við lýsum yfir miklum vonbrigðum og undrun með þessar hækkanir í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað á undanförnum missirum um kjör eldri borgara. Þessi hækkun kemur hreinlega eins og blaut tuska framan í okkur,“ segir Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara, og vísar þar til ákvörðunar velferðarráðs Reykjavíkurborgar um að hækka gjaldskrá velferðarsviðs borgarinnar um 8,8% frá og með næstu áramótum. Hækkunin var rædd á fundi framkvæmdastjórnar FEB í gær og mun félagið í framhaldinu senda frá sér ályktun þar sem henni verður mótmælt.

Segir Margrét ljóst að hækkunin muni koma allra verst við þá eldri borgara sem lakast eru settir og munar um hvaða upphæð sem er. Segir hún tímasetningu hækkunar einnig koma á óvart og að eðlilegra hefði verið af hálfu borgarinnar að bíða með hækkanir þar til ljóst væri hvernig rekstrarárið kæmi út í heild. Heimaþjónustan er greiðsluskyld fyrir alla sem hana nýta nema þá sem aðeins hafa bætur frá TR. Að sögn Margrétar á framkvæmdastjórnin fund með borgarstjóra nk. mánudag þar sem m.a. á að ræða hækkunina.“

Já, ég held að okkur öllum sem fylgdumst með kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar í vor komi á óvart að svona fljótt eins og Margrét segir skuli hafa verið ráðist á eldri borgara með þeim hætti að hækka hjá þeim þessi gjöld. Þetta er kannski stefnan í hnotskurn, þetta er nákvæmlega eins og við sjáum hér muninn á þeim tillögum sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum leggjum til varðandi kjör eldri borgara og öryrkja og svo brýnt að á verði tekið, þá koma ríkisstjórnarflokkarnir og segja: Jú, við erum reiðubúin svona 2009, 1. janúar 2009 kemur fyrsta skrefið að þessu frítekjumarki gagnvart atvinnutekjum og svo 2010, lágar upphæðir eftir tvö ár.

Frú forseti. Það er krafa okkar að þetta frítekjumark komi til framkvæmda strax frá áramótum sem og tillaga okkar um að hún verði 900 þús. kr. á ári. Það er bæði sanngirnis- og réttlætismál gagnvart því fólki sem hér á í hlut og einnig gríðarlega mikilvægt samfélagslega að þetta fólk geti verið á sanngjörnum kjörum og á sanngjarnan hátt þátttakendur eins og það hefur kraft til á hverjum tíma í atvinnulífi þjóðarinnar án þess að vera refsað fyrir. Frítekjumarkið er eitt af brýnustu málunum til að koma í framkvæmd strax.

Frú forseti. Varðandi önnur atriði sem þetta frumvarp tekur á vísa ég til umræðunnar hér og fulltrúa þeirra sem hafa tekið þátt í þessu af hálfu stjórnarandstöðunnar, af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar sem eru mjög samhljóða í þessu máli og einnig eins og tillaga okkar ber vott um, sameiginleg tillaga okkar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, um nýja framtíðarskipan í lífeyrismálum sem ég tel að sé tímamótaplagg og sýni á miklu raunsærri og manneskjulegri hátt hvert eigi að stefna í lífeyrismálum en frumvarp ríkisstjórnarinnar þó að í því séu að sjálfsögðu góðir punktar.



[18:15]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða tillögur ríkisstjórnarinnar sem byggðar eru á vinnu hennar og samræðum við eldri borgara undir forustu hinnar svokölluðu Ásmundarnefndar, sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari stjórnaði.

Við fengum sérstakt plagg frá Samtökum aldraðra, a.m.k. við í stjórnarandstöðunni, ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi borist það einnig, um að eldri borgarar séu ekki sammála þeim tillögum sem lagðar eru upp hér að því er varðar ýmsar fjárhæðir og gildistíma þeirra ákvæða sem er í frumvarpi.

Í tillögum frá eldri borgurum hafa þeir einnig bent á að samtök þeirra teldu að það þyrfti að láta þessa hluti koma til framkvæmda eins fljótt og mögulegt væri. Þeir hafa iðulega haft á orði að ekki væri tími fyrir eldri borgara að bíða mjög lengi eftir væntanlegum lagfæringum.

En það er kannski meginefni þessa máls að frumvarpið byggir á því að mikið af þeim pakka sem hér er settur upp af ríkisstjórninni er í biðstöðu þar til á væntanlegum árum 2008 til 2009. Síðan eru ákvæði sem okkur í stjórnarandstöðunni finnst ekki ganga nægilega langt í að stíga markviss skref til að taka á þeim vanda sem ég hygg að við öll á Alþingi séum sammála um að hafi verið til staðar varðandi málefni eldri borgara og þess vegna öryrkja einnig. Þar af leiðandi hafa þessar tillögur væntanlega komið fram og ríkisstjórnin ekki verið tilbúin að teygja sig lengra, eða að minnsta kosti var eldri borgurum sagt það í þeim viðræðum úr þeirri nefnd sem um þessi mál fjallaði.

Hæstv. forseti. Hægt væri að tala í fleiri klukkutíma um fyrirkomulagið sem snýr að eldri borgurum og lífeyrisþegum almennt að því er varðar hinar einstöku útfærslur vegna þess að þær eru tiltölulega flóknar. Það sést náttúrlega best á frumvarpinu að þetta er ekki mjög einföld framsetning ef maður ætlar að lesa lagatextann sem slíkan í þeim búningi sem hann er settur fram. Þess vegna hafa eldri borgarar eðlilega á undanförnum árum kvartað mikið undan því að bótakerfið væri allt of flókið, þ.e. skerðingarreglurnar og tekjutengingarnar, ásamt mismunandi reglum um tekjur eftir því hvaðan þær koma, tengingar eru við maka, fyrir utan það hvað þær eru óréttlátar og þess vegna þurfi að lagfæra þær, bæði reglurnar og eins að fækka þurfi bótaflokkum og draga úr skerðingum.

Auðvitað hefur þetta allt saman miðað að því í málflutningi Samtaka aldraðra að aldraðir vilja bæta kjör sín. Skyldi engan undra. Sú umræða hefur verið hávær og þekkja hana væntanlega orðið allir í þjóðfélaginu.

Einnig liggur fyrir, hæstv. forseti, að við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram ákveðnar tillögur til að flýta verulega og reyndar auka í við þær tillögur sem lagðar eru fram af ríkisstjórninni og túlkað hefur verið sem samkomulag við eldri borgara, sem þeir hafa reyndar frábeðið sér að því leyti er snýr að lagfæringum á greiðslum og tímasetningum sem koma fram í tillögum ríkisstjórnarinnar. Hafa þeir í rauninni sagt það opinberlega að þeir hafi talið sig vera nauðbeygða til að skrifa undir þetta samkomulag til að ná ákveðnum öðrum atriðum í velferðarmálum fyrir eldri borgara. Þeim hafi í reynd verið stillt upp við vegg. Annaðhvort tækju þeir pakkann eins og hann lægi fyrir eða þeir sætu uppi með að málið væri algerlega óleyst. Líka að því er sneri að vistunarmálum, byggingu húsnæðis og því að vinna á biðlistum, betri aðbúnaði fyrir eldri borgara o.s.frv.

En ég ætla að reyna að einfalda þetta mál, hæstv. forseti. Þess vegna mun ég ekki að lesa og tala mikið upp úr þeim texta sem hér er, heldur einfaldlega eins og ég tel að ég skilji þetta mál. Vegna þess að ég held að það sé miklu betra fyrir þjóðina að við reynum að tala þannig en að reyna að lesa upp úr frumvarpinu.

Þá er þar fyrst til að taka að verið er að gera aðgerð sem vissulega er til einföldunar á kerfinu. Verið er að sameina tvo bótaflokka í kjörum aldraðra sem hafa hingað til gengið undir nafninu tekjutrygging og sérstök tekjutrygging eða tekjutryggingarauki. Verið er að sameina það í einn bótaflokk og kalla nýja tekjutryggingu.

Þær upphæðir sem þarna standa á bak við voru og eru í lögum þannig að tekjutryggingin er um það bil 45 þús. kr. og tekjutryggingaraukinn er einhvers staðar í kringum 23 þús. kr. Þetta er verið að sameina í einn bótaflokk. Síðan er verið að bæta þar í um nokkur prósent og hækka heildartöluna sem út úr þessu kemur. Allt gott um það. Þetta er einföldun á framsetningunni og gerð til þess að fólk skilji þetta betur og auðveldara sé að átta sig á því hvaða bætur er um að ræða í samsettum lágmarksbótum ellilífeyrisþega og Tryggingastofnunar ríkisins, sem allir eiga rétt á þegar þeir verða löggild gamalmenni. Það eru í rauninni aðeins öryrkjar sem lækka við það að verða löggild gamalmenni því að sérgreiðslur til öryrkja detta niður með núverandi lögum þegar þeir verða 67 ára.

Þessar samsettu lágmarksbætur eru grunnlífeyririnn, sem oftast nær í munni eldri borgara, þeirra sem elstir eru, er kallaður gamli ellilífeyririnn, eins og þeir horfðu á hann. Síðan er það tekjutryggingin, tekjutryggingaraukinn og síðan heimilisuppbót. Samanlagt eru þetta samsettar lágmarksbætur ellilífeyrisþega. Í samkomulaginu fólst m.a. það að verið var að hækka þennan bótaflokk um 15 þús. kr. til þeirra sem fengu ekki neitt nema strípaðar bæturnar. Um 400 manns af hópi eldri borgara fengu 15 þús. kr. viðbótina óskerta. Allir aðrir í þeim hópi hafa tekið hana með skerðingu og sumir fá ekki neitt vegna þess að þeir eru með einhverjar aðrar tekjur sem færa tekjubilið upp fyrir það viðmið sem um er að ræða.

Það næsta sem sennilega er rétt að skýra út er að núgildandi regla hjá Tryggingastofnun er sú að heimilisuppbótin, tekjutryggingin og tekjutryggingaraukinn skerðast með svokallaðri 45% reglu. Ef fólk hefur tekjur, aðrar en tekjur frá Tryggingastofnun, hvort sem það eru lífeyristekjur eða atvinnutekjur, þá skerðast þær núna með 45% reglu, þó ekki fjármagnstekjur því að í þær er deilt með tveimur áður en þær valda skerðingu. Þess vegna er það ábyggilega rétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson benti á áðan að þeir sem af einhverjum ástæðum greiddu aldrei í lífeyrissjóð en hafa ef til vill eignast fjármagn og fjármagnstekjur, fá í rauninni helmingi minni skerðingu en aðrir. Því byrjað er að deila í fjármagnstekjurnar með tveimur áður en skerðingarreglunni er beitt á bætur Tryggingastofnunar. Þar fyrir utan er svo til viðbótar 10% skattur af þeim tekjum. Um 38% tekjuskattur er af öðrum tekjum lífeyrisþegans úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjum.

Við höfum lagt til í tillögum okkar í stjórnarandstöðunni að sett verði upp 75 þús. kr. frítekjumark varðandi atvinnutekjur. Og einnig höfum við lýst því yfir í okkar tillögum að við vildum skoða hvernig mætti útfæra það yfir á lífeyristekjur úr lífeyrissjóði þannig að þær yllu ekki beinni skerðingu. Við höfum lagt til að í staðinn fyrir þessi 38,35% sem ríkisstjórnin ætlar að fara í með skerðingarhlutfallið væri farið í einu stökki 1. janúar næstkomandi niður í 35% og skerðingarhlutfallið lækkað um 10%. Það væri fyrsta skrefið í að draga úr skerðingunni.

Við höfum einnig lagt til að bæði skerðingarhlutfallið og frítekjumarkið kæmi til framkvæmda 1. janúar næstkomandi en ekki í áföngum innan næsta kjörtímabils. Þó að menn séu að leggja til framkvæmd á sömu hlutum erum við að tala um allt aðra útfærslu. Við í stjórnarandstöðunni erum að tala um útfærslu sem á að stórum hluta að koma til framkvæmda strax um næstu áramót en ríkisstjórnin er að kortleggja þetta inn á næsta kjörtímabil. Vonandi verður hún ekki einu sinni við völd á því kjörtímabili. Það er því ýmislegt í þessum tillögum sem við höfum lagt upp á annan hátt og er rétt að draga inn í umræðuna.

Við höfum enn fremur lagt til að svokallaðir vasapeningar hækkuðu ekki um 25%, eins og er í tillögu ríkisstjórnarinnar, heldur um 50% og færu þar af leiðandi úr 22 þús. kr. í rúmar 33 þús. kr. á mánuði og kæmu til framkvæmda strax.

Það er því fjöldamargt í þessum tillögum sem stjórnarandstaðan hefur lagt til sem kostar fjármuni og við höfum gert grein fyrir því í tillögunum að við teldum að þessi viðbót sem stjórnarandstaðan legði til mundi leggja sig á allt að 6 milljarða kr. ef til framkvæmdar kæmi. Við teljum að stíga eigi það skref nú.

Síðast en ekki síst teljum við að eitt mikilvægasta mál sem hægt er að gera fyrir eldri borgara og öryrkja sé að kortleggja það með neyslukönnun hvað fólk þarf til að komast af. Þess vegna höfum við svarað því í okkar sameiginlegu tillögum að það sem við viljum enda með þegar við erum búin að fá fram gögn og annað slíkt til að vinna inn í framtíðina, þá sé það markmið okkar á komandi árum að tryggja það að fólk komist af á lífeyri sínum. Það sé ekki sjálfgefið og nánast innbyggt í kerfið eins og núna er að ef fólk hefur ekkert nema bara peningana frá Tryggingastofnun þá skuli þurfa að sækja félagslegar bætur hjá bæjarfélögunum. Þannig er það í dag.

Menn hafa aldrei svarað þeirri spurningu hvernig fólk á að komast af á bótunum þó að það sé sagt að allir eigi að hafa afkomu í þjóðfélaginu. Við höfum svarað því og sagt fyrir okkar parta í stjórnarandstöðunni að það eigi að hugsa þær bætur þannig að fólk eigi að komast af á lágmarksréttindum sínum, og viljum vinna að því á komandi árum að þannig megi útfæra það og helst sem allra fyrst. Þess vegna höfum við lagt til að þessi neyslukönnun fari fram fljótt og það lægi fyrir ekki seinna en snemma á næsta ári hverjar afkomutölurnar væru fyrir öryrkja, fyrir eldri borgara o.s.frv., til að hægt verði að leggja mat á hvað við þurfum að aðhafast í þessum tryggingamálum til að ná því markmiði sem við viljum setja okkur. Þannig viljum við einmitt horfa til framtíðar.

Við fögnum því sem fram kemur í tillögunum að taka í sundur tekjur og tekjutengingar milli maka. Teljum að það skref ætti að stíga sem allra fyrst. En hér er því lýst að það skuli gert í áföngum.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi í skýru máli, án þess að fara í lagatextann og frumvarpið sem liggur hérna fyrir framan mig, reynt að skýra út hver vilji okkar í stjórnarandstöðunni er og hvert innihaldið er í meginatriðum í tillögum ríkisstjórnarinnar og hvað þar ber á milli.

Það er eitt atriði sem ég hef ekki vikið að. Ég hef ekki vikið að því að við viljum hækka þá tölu sem sett er í bótaflokkinn þar sem verið er að hækka upp í 78.600 kr. Við viljum bæta þar í um rúmlega 6.000 kr. og fara með það upp í 85 þús. kr. fyrir eldri borgara og 86 þús. kr. fyrir öryrkja og það taki gildi strax um næstu áramót.

Þetta er í meginatriðum það, hæstv. forseti, sem ég vildi sagt hafa um málið. Ég vonast vissulega til að þegar málið er komið til nefndar verði eldri borgarar kallaðir fyrir og allir sem málið varða.

Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn hafi þá skynsemi til að bera að lagfæra þær tillögur sem hér eru þannig að lenda megi málinu með sem mestu samkomulagi á hv. þingi með það að markmiði að sem mest af því efni sem er í tillögunum, bæði ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, nái að komast til framkvæmda 1. janúar, því að eldri borgarar þurfa á því að halda að þetta komist sem allra fyrst til framkvæmda. Það skiptir máli fyrir fólk sem er komið á efri ár hvenær lagfæring á stöðu þess kemur til framkvæmda. Það er ekki mikil þolinmæði sem eðlilegt er hjá fólki sem er komið yfir sjötugt að bíða í nokkur ár eftir að slík lagfæring taki gildi.

Því vænti ég þess, hæstv. forseti, að tillögur stjórnarandstöðunnar verði skoðaðar með velvild og af fullri alvöru í nefnd og þær teknar til greina hvað varðar lagfæringar á þeim atriðum sem ég hef upp talið. Ef svo verður held ég að ágætissátt gæti orðið í málinu á hv. Alþingi, ella held ég að það verði ekki, enda hafa eldri borgarar lýst því yfir að þeir væru ekki sáttir við þetta plagg, hafa litið svo á að þeir hafi verið nauðugir látnir skrifa undir það til að fá fram félagspakkann. Þannig er það.

Ég held að þetta sé nægilega skýrt talað, hæstv. forseti, og vonast til að málið fái góða og vandaða umfjöllun.



[18:32]Útbýting:

[18:32]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um málefni aldraðra, lífeyristryggingarnar. Nokkur atriði vil ég sérstaklega draga hérna fram. Það er í fyrsta lagi sú aðferðafræði sem við höfum notað hin seinni ár í samstarfi við eldri borgara. Ég held að það sé mjög æskilegt að nota þá aðferð sem við höfum stuðst við, en hún felst í því að vinna með Landssambandi eldri borgara, viðhafa samráð og samvinnu. Þetta samstarf hófst á sínum tíma og var sett í formlegan farveg og úr því varð samkomulag árið 2002, fyrsta samkomulagið af því tagi. Mjög margar kjarabætur fólust í því samkomulagi og líka bætur á þjónustuþættinum og það var unnið eftir því samkomulagi.

Svo var gerð úttekt á því hvernig staðið hafði verið við samkomulagið og í ljós kom að staðið hafði verið við allt nema eitt atriði stóð út af. Það voru sveigjanleg starfslok. Það var sem sagt staðið við uppbyggingu á öllum hjúkrunarrýmunum og það var alveg tilgreint hvað þau áttu að vera mörg og alls kyns önnur þjónustuúrræði. Ég er nú ekki með þetta gamla samkomulag — ja, gamla. Það eru bara fjögur ár síðan það var gert — ég er ekki með það hérna í höndunum. En ég man að ég kíkti á það á sínum tíma og fór yfir efndirnar. Það var sem sagt staðið við allt nema að ekki var hægt að segja að stjórnvöld hafi gengið frá sveigjanlegum starfslokum. Það stóð út af. Það voru allir sammála um þetta, þ.e. fulltrúar eldri borgara skrifuðu undir hvað hefði verið uppfyllt og hvað ekki þannig að það var ekki hægt að rífast neitt um það eða draga það í efa. Það var staðið við allt nema það stóð út af að landa liðnum um sveigjanleg starfslok.

Þetta tókst svo vel, það kom það mikið út úr þessu, það var hægt að ná það miklu fram með þessari aðferð, að ákveðið var að fara aftur í vinnu af þessu tagi. Nefnd Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara fór í það verkefni og niðurstaðan af því varð nýtt samkomulag sem var í höfn í sumar eins og búið er að ræða hér. Fjölmörg atriði felast í því samkomulagi, annars vegar ákveðinn þjónustuþáttur og hins vegar lífeyrishlutinn.

Varðandi þjónustuþáttinn þá felst í samkomulaginu að byggja upp fjölmörg ný hjúkrunarrými sem verða byggð á næstu fjórum árum. En það er líka verið að stórauka fjármagn til úrræða eins og heimahjúkrunar og það er farið í gang. Það er verið að stórefla heimahjúkrunina. Það er búið að efla hana í ár og það verður gert á næsta ári o.s.frv. á næstu fjórum árum. Það verða lagðar miklar fjárhæðir í heimahjúkrun. Það er mjög mikilvægt af því að við höfum verið að þjónusta fólk að öllum líkindum of lítið heima. Bæði þarf heimahjúkrunin að eflast og ekki síður félagsleg heimaþjónusta sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig því miður að meira en helmingur sveitarfélaga hefur dregið úr félagslegri þjónustu við aldraða á ákveðnu árabili. Það sýndi skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom út fyrir ekkert mjög svo löngu síðan. Það er áhyggjuefni að sum sveitarfélög hafa verið að draga úr þessari þjónustu. Þetta er þjónustuhlutinn.

Svo varðandi lífeyrishlutann þá erum við að leggja fram lagafrumvarp hér sem tryggir að staðið verði við réttarbætur gagnvart lífeyrishlutanum. Ég tel mjög mikilvægt að draga fram þessa aðferðafræði af því hún felur í sér að aðilar sitja saman á samráðsfundum og forgangsraða því hvað þeim þykir mikilvægast, hvað sé best að gera í stöðunni eins og hún er núna, hvað eigi að vera á oddinum og hvað ekki. Niðurstaðan varð samkomulagið sem við erum einmitt núna að fjalla hér um. Ég er mjög ánægð með þessa niðurstöðu. En að sjálfsögðu munu menn í framhaldinu skoða þessi mál. Þetta er enginn endanlegur sannleikur frekar en fyrra samkomulag. Þetta er þó samkomulag sem við höfum vilja til þess að vinna að á næstu árum.

Þegar vinnunni lauk komu þessar tillögur frá nefndinni. Þær eru tilgreindar hér á blaðsíðum 24 og 25. Þar kemur einmitt fram að nefndin leggi áherslu á að tillögur hennar nái sem fyrst fram að ganga. Svo skrifa aðilar undir með eigin hendi þannig að það er alveg ljóst að lögð var áhersla á að klára þetta mál í sumar en ekki núna í haust. Því var flýtt. Það hefur orðið til þess að við stöndum hér í þessum sporum núna og flytjum lagafrumvarp og nú þegar hefur ýmislegt komið til framkvæmda. Get ég þar til dæmis nefnt að ellilífeyririnn var hækkaður í júlí og vasapeningarnir verða hækkaðir núna um áramótin. En þetta felur það í sér að á þessu ári er verið að setja um 2 milljarða til þessara mála, þ.e. til áramóta, og svo um 4 milljarða á ári frá næstu áramótum. Samtals, þ.e. ef maður tekur uppsafnaðan kostnað vegna þessa samkomulags til ársins 2010 þá felur uppsafnaður kostnaður í sér um 27 milljarða kr. útgjöld og sá kostnaður fellur bæði til ellilífeyrisþega og öryrkja. Stærri hlutinn fellur reyndar til ellilífeyrisþeganna, þ.e. 18 milljarðar kr. til 2010.

Aðferðafræðin er því góð. Þetta form er að mínu mati miklu betra en að vinna að þessum málum — ja, hvernig á maður að orða það — hipsum haps. Það á bara að hafa þetta í ákveðnum farvegi, hafa þetta í nefnd, í samráðsnefnd, búa til samkomulag og vinna eftir því og taka svo málin upp reglulega þegar búið er að vinna að því að koma samkomulaginu í höfn. Ég spái því að þetta verði farvegurinn sem menn muni nota í framtíðinni í málefnum aldraðra af því að það hefur reynst vel.

Hérna hefur orðið nokkur umræða um hve langt eigi að ganga. Það er alveg rétt sem stjórnarandstaðan hefur bent á hér, þ.e. hún hefur flutt sameiginlega annað mál, sameiginlega þingsályktunartillögu um, ja, ekki svo ósvipaða nálgun. Það eru aðrar tölur á því skjali og það er búið að mæla fyrir því máli hér á þinginu. Það var gert núna fyrir ekki löngu síðan og þá fór fram mjög sambærileg umræða að sjálfsögðu.

En ekki má gleyma í þessu sambandi að við höfum byggt kerfið sem við höfum sett upp þannig að það á vera tekjujafnandi. Það er grunnstefið í okkar kerfi. Það þýðir að við viljum hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Við viljum greiða þeim sem þurfa á því að halda en ekki öðrum. Ef við greiðum öllum jafnt alltaf væri ekki nein tekjujöfnun í kerfinu. Menn verða að hafa þetta í huga. Þetta er grunntónninn. Mér finnst því mjög mikilvægt að menn átti sig á því að ekki er hægt að ganga til enda eða alla leið varðandi það að afnema allar tekjutengingar því að þá er engin jöfnun í kerfinu. Ef þeir ríku eiga að fá það sama og þeir sem minna hafa milli handanna þá er engin tekjujöfnun í kerfinu. Þá eru allir að fá jafnt. Það er ekki til bóta. Það er ekki það kerfi sem við viljum sjá. Það er ekki það kerfi sem Norðurlöndin eru með. Það er ekki jöfnunarkerfi. Þetta verða menn að hafa í huga.

Hér var aðeins komið inn á reglugerðina sem ég skrifaði undir í dag varðandi ofgreiddar og vangreiddar bætur og þá aðallega hvernig eigi að innheimta ofgreiddar bætur. Hv. þm. Jón Gunnarsson gerði sérstaklega að umtalsefni lágmarksframfærsluþörfina, þ.e. upphæðina 88.873 kr. eða tæplega 89 þús. kr. En það kemur fram í reglugerðinni að þegar ofgreiddar bætur eru innheimtar — og þær ber að innheimta samkvæmt lögum — þá verður að gera það þannig að heildartekjur einstaklings mega ekki nema lægri fjárhæð en nemur lágmarksframfærsluþörf að mati félagsmálaráðuneytisins. Þetta er leiðbeinandi upphæð sem félagsmálaráðuneytið setur fram fyrir sveitarfélögin til að taka mið af. Lífeyrisþegar sem hafa tekjur — þeir geta haft ýmsar tekjur — heildartekjurnar mega ekki fara undir þessa tölu. Þá má ekki innheimta ofgreiddar bætur því talið er að viðkomandi eigi að hafa þetta milli handanna á mánuði. Mjög mikilvægt er að menn átti sig á þessu. Ég tel líka mjög mikilvægt að draga fram að algengasta ástæðan fyrir ofgreiddum bótum eru fjármagnstekjur sem ellilífeyrisþeginn — í því tilviki — fær. Þetta eru fjármagnstekjur, tekjur af fjármagni sem viðkomandi á og fær og þær valda því að hann fær bætur sem hann á ekki rétt á. Þetta sést ekki í staðgreiðsluskránni þannig að þetta eru upplýsingar sem koma eftir á. Viðkomandi lífeyrisþegi á að fylgjast með þessu og hann á að gefa upplýsingar um fjármagnstekjur. En það er ekki alltaf gert. Þetta er algengasta ástæða þess að Tryggingastofnun ríkisins lendir í því að ofgreiða bætur sem þarf þá síðar að innheimta.

Virðulegur forseti. Ég tel að umræðan hafi verið góð og uppbyggileg. Ég hef heyrt það líka á stjórnarandstöðunni að þeir sem í henni eru telja að margt mjög gott sé í þessu máli. Ég tek undir það. Ég vona að heilbrigðis- og trygginganefnd sem mun fjalla um þetta mál takist að klára það fyrir okkur hratt og örugglega vegna þess að fjölmörg atriði taka gildi frá og með næstu áramótum. Þó að önnur atriði taki gildi seinna taka fjölmörg atriði gildi frá næstu áramótum. Þess vegna er rétt að klára málið hér á þessu haustþingi.



[18:45]Útbýting:

[18:46]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vakti athygli mína að hæstv. ráðherra kaus að svara ekki spurningu minni um hvort hæstv. ráðherra kannaðist við að þjónustuþátturinn í samkomulaginu við Landssamband eldri borgara hefði verið notaður til að kúska eldri borgara til að skrifa undir.

Hæstv. ráðherra hafði mörg góð orð um þá aðferðafræði sem notuð er í samstarfi við eldri borgara. Ég get tekið undir það að auðvitað á ríkisstjórn á hverjum tíma að eiga samstarf við félagsskap eins og Landssamband eldri borgara, vera með samráð og samvinnu eins og hæstv. ráðherra kallaði það.

En þegar fulltrúar eldri borgara mæta að samráðs- og samningsborðinu eiga þeir ekki að mæta hæstv. ráðherra þar til að semja um grunnþarfir sem samkvæmt lögum eiga að vera fyrir hendi. Eldri borgarar eiga ekki að þurfa að semja um það að ef skortur er á hjúkrunarheimilum fyrir sjúka aldraða þá þurfi að semja um að þau skuli byggja og þörfinni sinnt. Eldri borgarar eiga heldur ekki að þurfa að semja um það ef þörf er á öflugri heimahjúkrun fyrir aldraða. Að nota það sem skiptimynt í samningum við eldri borgara er fráleitt. Þið getið fengið hjúkrun á stofnun eða heima ef þið samþykkið að við förum þessa leið í lífeyriskerfinu. Er hæstv. ráðherra er að segja okkur að slík aðferðafræði sé góð?



[18:48]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er verið að setja hlutina á haus að mínu mati. Það er ljóst að þegar unnið var að samkomulaginu hinu fyrra, sem var klárað árið 2002 og því samkomulagi sem nú á að klára árið 2006 var rætt á breiðum grunni við Landssamband eldri borgara um hagsmunamál þeirra. Þar var bæði rætt um lífeyrismálin, þ.e. greiðslur sem viðkomandi lífeyrisþegar fá og þær kjarabætur sem í þeim felast, og auðvitað felast miklar kjarabætur í þessu frumvarpi, kjarabætur umfram kaupmáttaraukningu eins og fram kom í framsöguræðu minni áðan.

Það er líka verið að ræða þjónustuna. Mér finnst mikilvægt að hlusta á Landssamband eldri borgara. Ég vil nefna sem dæmi að það hefur lagt mikla áherslu á heimahjúkrun, þjónustu heima og að fá að vera heima sem lengst. Það er hagsmunamál sem er þeim mjög kært. Ég tek heils hugar undir það.

Það að ræða við Landssamband eldri borgara í slíkri nefnd — reyndar situr maður ekki sjálfur í nefndinni en þar eru embættismenn og fagaðilar — getur hjálpað okkur mjög mikið í uppbyggingunni. Niðurstaðan var að við erum að fara að byggja hjúkrunarrými. En niðurstaðan er líka sú að við stóraukum fjármagn í heimahjúkrun. Sú aukning sem var bæði vegna samkomulagsins 2002 og núna 2006 hefur m.a. orðið til þess að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum eru að styttast, hafa styst um 20% í Reykjavík á síðasta hálfa árinu. Það er mjög mikilvægt.



[18:50]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ódýrara fyrir ríkið að veita hjúkrun heima en að byggja hjúkrunarheimili þannig að ég átta mig ekki alveg á röksemdafærslu hæstv. ráðherra.

Gerum okkur það í hugarlund að hið sama gerðist á hinum almenna vinnumarkaði, að launþegi settist að samningsborði til að semja um laun sín og kjör og þeir sem sætu á móti honum hefðu í hendi sér að segja: Ef þú veikist og vilt hjúkrun þá tökum við það inn í þessar samningaviðræður. Hvort eigum við að hækka við þig launin, eins og þú ferð fram á eða tryggja þér að ef þú veikist og þarft á hjúkrun að halda þá fáir þú þjónustu?

Að mínu viti eiga þessir tveir hlutir ekkert skylt hvor við annan. Annars vegar erum við að tala um kjör eldri borgara og hins vegar þjónustu sem ríkinu ber að veita þeim en er ekki samningsatriði þegar kemur að því að þeir eru orðnir sjúkir og þurfa á aðstoð ríkisins að halda.

Hæstv. ráðherra sagði í seinni ræðu sinni að við vildum hafa tekjujafnandi kerfi, hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Ég er sammála ráðherranum um það. Ég held að enginn hafi í umræðunni talað um að klippa á allar tekjutengingar, tengingarnar eru bara allt of neðarlega. Þær eru svo neðarlega að aldraðir sem verða fyrir slíkum skerðingum ná ekki að framfleyta sér og sínum. Við erum að tala um það. Við þurfum að skoða þessar skerðingar, auka frítekjumarkið og minnka skerðingarnar. Við þurfum að sjálfsögðu að skoða skattlagninguna á lífeyristekjurnar. Þessi framfærslukönnun sem við höfum verið að tala um þarf að fara fram. Að sjálfsögðu er kominn tími til, sem er löngu orðið aðkallandi, að hækka svokallaða vasapeninga á dvalarheimilum og stofnunum umfram það sem verið hefur.

Við þurfum að tryggja hinum öldruðu sæmilega gott ævikvöld.



[18:52]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður er að æsa sig svona yfir þessu. Ég tel að bæði þessi atriði séu mjög mikilvæg fyrir eldri borgara, bæði þjónustan, hvernig staðið er að henni, hvernig byggt er upp, út frá hvaða hugmyndafræði, á hvaða hraða, og lífeyrishlutinn og kjarabæturnar. Hvað á að leggja áherslu á, hvað á vera fyrst, hvað svo o.s.frv. Menn náðu samkomulagi og skrifuðu undir. Við náðum samkomulagi og það er aðalatriðið. Menn náðu samkomulagi um þá forgangsröð sem þeir vildu. Það er algjörlega ljóst.

Það er verið að hækka vasapeningana, samkvæmt frumvarpinu og minnka tekjutengingar mjög verulega. En ég vil draga fram að það er ekki hægt að ganga alla leið af því að það verður að vera tekjujöfnun í kerfinu. Það er alltaf spurning hvar tekjujöfnunin á að liggja, hve langt á að ganga í tekjutengingum? Við höfum verið að minnka tekjutengingarnar. Það búið að gera það áður og enn mun dregið úr þeim með þessu frumvarpi.

Það er líka verið að fara svolítið frá þeirri hugsun að líta á fólk sem hluta af fjölskyldueiningu. Það er svolítið umhugsunarvert en það er bara meira upp á pallborðið í dag en verið hefur. Áður fyrr var litið meira á fjölskylduna, þ.e. ef makinn hafði miklar tekjur voru bætur hins aðilans í fjölskyldunni skertar. Nú erum við að víkja frá áhrifum maka á lífeyrinn. Við erum farin að líta meira á ellilífeyrisþega og öryrkja sem sjálfstæða einstaklinga og að tekjur maka þeirra hafi minni áhrif en áður.



[18:54]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að í dag hafi komið fram áherslumunur í máli stjórnarandstöðunnar og því sem stjórnin telur rétt að gera samkvæmt því frumvarpi sem við fjöllum um. Við viljum ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir. Í frumvarpinu er margt til bóta, eins og komið hefur fram hjá okkur öllum. Að hluta mun kerfið einfaldað sem er mjög gott.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra um samstarfið við Landssamtök eldri borgara, sem hún vísaði til að væri mjög jákvætt. Árið 2002 var gert samkomulag um áframhaldandi samráð en það gekk ekki. Þetta samstarf var ekki virkt. Nú höfum við náð því sem eldri borgarar kalla yfirlýsingu frekar en samkomulag. Mun hæstv. ráðherra taka upp virkt samstarf við eldri borgara?

Það er ljóst að engin ánægja er meðal aldraðra með niðurstöðuna í yfirlýsingunni. Það þarf að ganga lengra. Við vitum það. Mun hæstv. ráðherra taka upp virkt samstarf við eldri borgara? Það þarf að hefjast nú þegar en ekki bíða þar til þessi lög, ef frumvarpið verður samþykkt, ganga úr gildi eftir fjögur ár. Það þarf að ganga lengra.

Einnig vil ég spyrja hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir lífskjarakönnun meðal aldraðra og gera úttekt á framfærslukostnaði þeirra.



[18:57]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að samstarfið við Landssamband eldri borgara hafi verið mjög gott, bæði hvað varðar þjónustuþáttinn og lífeyrislöggjöfina. Þar vitna ég aftur í samkomulagið frá 2002 og síðan samkomulag sem komst í höfn í sumar. Ég tel að það samstarf hafi verið til fyrirmyndar. Mér finnst líka mikilvægt að benda á að það að Landssamband eldri borgara geti yfirleitt gert samkomulag, klárað vinnuna, skrifað undir og gengið frá henni, eru ákveðin þáttaskil. Mér finnst mikilvægt að draga fram hvað það er öflugt og samtökin eru að mínu mati sterk fyrir vikið. Þau ná samkomulagi, fóru í vinnuna, ræddu í málin og kláruðu þau. Þau skiluðu tillögum með nöfnum sínum undir. Mér finnst það mjög sterkt og sýna styrk Landssambands eldri borgara, að það er fært um að gera svona samkomulag.

Ef samtökin væru veik tel ég að þau hefðu ekki getað gert svona samkomulag. Þá hefði umræðan bara flotið og menn ekki náð niðurstöðu og ekki náð landi.

Það er að störfum samráðsnefnd sem er, að mig minnir, undir forustu hæstv. forsætisráðherra. Hana er hægt að kalla saman. Sú nefnd starfar ekki á mínu forræði heldur hæstv. forsætisráðherra, held ég alveg örugglega. En að því koma fleiri ráðherrar og þar á meðal heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þegar sú nefnd hittist.



[18:59]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra taldi að samráð og samstarf hefði verið virkt milli heilbrigðisráðuneytisins og Landssambands eldri borgara. Ég tel að það hafi ekki verið virkt að jafnaði þessi ár. Ég hvet hæstv. ráðherra til að stuðla að góðu samráði milli landssambandsins og heilbrigðisráðuneytisins og að hæstv. ráðherra stuðli að því að samráðsnefnd undir forustu forsætisráðherra sé virk og taki upp þau mál sem snúa að kjörum aldraðra sem eru á borðum fleiri ráðuneyta en heilbrigðisráðherra, ekki síst félagsmálaráðuneytisins.

Varðandi lífskjarakönnun og úttekt á framfærslukostnaði óska ég eftir að ráðherra svari hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir slíkri könnun.

Hæstv. forseti. Ég vil benda á að tekjujöfnun er einnig hægt að koma á í gegnum skattkerfið. Það er hægt að hækka frítekjumörk lífeyrisgreiðslna og hækka skattleysismörk. Hægt væri að hækka hátekju- og fjármagnstekjuskatt til að ná þessum tekjujöfnuði sem hæstv. ráðherra benti á. Það er ekki eingöngu í gegnum lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar sem við getum náð þeim jöfnuði.

Ég hef ekki tekið eftir því að nokkur hv. þingmaður hafi sett fram kröfu um að afnema algjörlega tekjutengingu en tengingin er engu að síður of mikil. Breytingar koma of seint og í of hægum skrefum í frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna.



[19:01]
heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt sem hér kom fram og ég held að ég hafi ekki sagt það heldur að neinn vilji afnema tekjutenginguna algjörlega því að ef svo væri væri kerfið auðvitað fallið um sjálft sig. Þá værum við a.m.k. ekki að nálgast það að reyna að jafna kjörin með nokkrum hætti ef þeir sem hefðu mikið milli handanna fengju það sama og þeir sem hefðu minna. En það er spurning hvað á að ganga langt í að tekjutengja, þar þarf auðvitað að líta til þeirra tekna sem menn hafa og reyna að nálgast málið á réttlátan hátt.

Á sínum tíma gengum við of langt í tekjutengingum, það er algjörlega á hreinu, enda höfum við verið að breyta lögunum til að minnka tekjutengingarnar. Það var gert fyrir ekki svo löngu síðan og verið er að gera það aftur núna, verði frumvarpið að lögum, en ég vara við því að menn gangi of langt í því líka af því að þá er kerfið farið að snúast upp í andhverfu sína, þá er það alls ekki tekjujafnandi. Ef við göngum of langt í því kemur það fjármunum til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda.

Ég lýsi mig reiðubúna í allt samstarf við Landssamband eldri borgara, ég tel mig hafa verið í mjög góðu samstarfi við þá og hef kallað þá til, m.a. til að bera undir þá stefnumótun mína varðandi öldrunarmálin. Ég kynnti líka fyrir þeim og bar undir þá reglugerðina sem við vorum að setja í dag varðandi hvernig innheimta eigi ofgreiddar bætur. Við áttum mikið samstarf við Landssamband eldri borgara í sumar varðandi þetta samkomulag og leiðir okkar liggja saman með mjög margvíslegum hætti. Ég tel því að við séum í mjög góðu samstarfi og samráði við þá og að það samstarf gangi prýðilega vel.