133. löggjafarþing — 25. fundur
 13. nóvember 2006.
upplýsingalög, 1. umræða.
stjfrv., 296. mál (endurnot opinberra upplýsinga, EES-reglur). — Þskj. 309.

[15:25]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt og er því lagt fram að nýju óbreytt.

Frumvarp þetta er samið í því skyni að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og gera þeim kleift að hagnýta þær til virðisaukandi starfsemi. Einnig eru með frumvarpinu uppfylltar skyldur íslenska ríkisins samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 8. júlí 2005, um að fella tilskipun 2003/98/EB um endurnot opinberra upplýsinga inn í IX. viðauka við EES-samninginn. Frumvarpið gengur þó að hluta til lengra en tilskipun ESB með víðtækari stefnumótun um endurnot opinberra upplýsinga sem m.a. felur í sér þrengri gjaldtökuheimildir af upplýsingum úr opinberum skrám. Einnig er kveðið á um að ríkið taki ekki gjald af höfundarétti sínum af þessum upplýsingum. Er þetta til þess gert að reyna að auka enn frekar endurnot opinberra upplýsinga.

Frumvarpið er samið af starfshópi sem forsætisráðherra skipaði í september 2003 undir formennsku Halldórs Árnasonar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu.

Starfshópurinn fékk þá dr. Pál Hreinsson lagaprófessor og Kristján Andra Stefánsson, fyrrverandi skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, til liðs við sig við samningu lagafrumvarpsins. Enn fremur fékk starfshópurinn Jón Vilberg Guðjónsson, lögfræðing í menntamálaráðuneytinu, til að gera athugun á eignarhaldi ráðuneyta og stofnana á gögnum og upplýsingum og þeim takmörkunum sem endurnýting opinberra upplýsinga kann að vera háð vegna höfundaréttar þriðja aðila að gögnum eða hluta þeirra.

Starfshópurinn skilaði sameiginlegri niðurstöðu og lagði til að stefnumörkun um endurnot á opinberum upplýsingum yrði felld inn í upplýsingalögin, nr. 50/1996, sem sérstakur kafli. Það lagafrumvarp sem ég mæli nú fyrir er óbreytt niðurstaða starfshópsins.

Stefnumörkun stjórnvalda sem fram kemur í þessu frumvarpi er byggð á þeirri forsendu að miklir möguleikar geti verið fólgnir í að skapa ný verðmæti úr upplýsingum sem eru í vörslu stjórnvalda, t.d. með því að tengja þær við aðrar upplýsingar og búa þannig til nýjar afurðir.

Eftirspurn eftir opinberum upplýsingum til endurnotkunar hefur alltaf verið nokkur og fer vaxandi. Markmiðið er því að setja samræmdar lágmarksreglur um heimil endurnot þeirra opinberu upplýsinga sem almenningur á rétt til aðgangs að. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi skal aðili geta valið á milli þess að fá aðgang að þeim á því formi eða prentaðar á pappír. Stjórnvöld skulu birta á heimasíðum sínum lista yfir þær skrár sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslu sem heimilt er að endurnota, svo og upplýsingar um þau skilyrði sem endurnotin eru bundin.

Sú stefnumörkun sem fram kemur í þessu frumvarpi leggur áherslu á hóflega verðlagningu á opinberum upplýsingum. Telji stjórnvald gjaldtöku nauðsynlega megi gjaldið að hámarki nema kostnaðinum við að afhenda, afrita eða dreifa upplýsingunum auk hóflegra afskrifta. Almennt skuli því ekki taka gjald fyrir söfnun eða framleiðslu gagna sem safnað er í opinberum tilgangi af stjórnvöldum. Þá leiðir einnig af þessari stefnumörkun að hið opinbera taki almennt ekki sérstaka þóknun fyrir endurnot á upplýsingum sem hið opinbera kann að eiga ýmist höfundarétt að eða rétt skv. 50. gr. höfundalaga. Eigi þriðji maður jafnframt réttindi yfir gögnunum samkvæmt höfundalögum falla gögnin utan við gildissvið þessa frumvarps.

Hlutaðeigandi stjórnvald skal setja sér gjaldskrá fyrir að veita aðgang að upplýsingum eða gögnum til endurnota fyrir einkaaðila sem ráðherra staðfestir. Gjaldskrána skal birta í B-deild Stjórnartíðinda auk þess sem hún skal vera aðgengileg á heimasíðu stjórnvaldsins.

Vakin er athygli á því að sérlög og reglugerðir um verkefni ákveðinna stofnana veita nú rýmri heimildir til gjaldtöku fyrir upplýsingar úr opinberum skrám en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Má þar nefna Fasteignamat ríkisins, Landmælingar Íslands og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Þetta frumvarp haggar ekki þessum lagaákvæðum. Það er því í verkahring viðkomandi ráðuneytis að fara yfir þau ákvæði og leggja til nauðsynlegar breytingar sem samræmast anda þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í þessu frumvarpi.

Endurnot opinberra upplýsinga eru þó ekki leyfileg með hvaða hætti sem er. Ekki má endurnota þær þannig að það fari í bága við önnur lög eða réttindi þriðja manns. Engin einhlít regla gildir um höfundarétt að verkum sem kunna að falla undir endurnýtingarheimild frumvarpsins.

Meginregla höfundalaga er sú að höfundur verks er eigandi þess. Það ræðst af sambandi starfsmanns og atvinnurekanda hvort og með hvaða hætti höfundaréttur að verki, sem unnið er í þágu atvinnurekanda, yfirfærist frá starfsmanni til atvinnurekanda. Að lágmarki verður þó að ætla að stofnun öðlist óheftan nýtingarrétt á þeim verkum sem starfsmenn stofnunar hafa skilað af sér. Þannig má t.d. ætla að höfundaréttur að greinum, skýrslum, ljósmyndum og þess háttar efni sem starfsmaður hefur gagngert unnið að til birtingar á vegum stofnunar yfirfærist til hennar, að svo miklu leyti sem slíkt er stofnuninni nauðsynlegt til starfsemi sinnar.

Ákvæði í kaflanum um endurnot opinberra upplýsinga sem hér er mælt fyrir tekur til stofnana ríkis og sveitarfélaga og annarra opinberra aðila samkvæmt nánari skilgreiningu sem þar er að finna. Þó ná ákvæðin ekki til Ríkisútvarpsins, skóla, bóka og skjalasafna, rannsóknastofnana og menningarstofnana. Er það í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópusambandsins um endurnot opinberra upplýsinga.

Í 1. og 2. gr. frumvarpsins er kveðið skýrar en í gildandi upplýsingalögum á um afmörkun á upplýsingarétti almennings til samræmis við það sem lá að baki setningu laganna. Er það gert til að taka af allan vafa sem komið hefur upp við framkvæmd laganna, annars vegar með að tiltaka að þau gögn sem stjórnvöldum er skylt að veita almenningi aðgang að taki einvörðungu til fyrirliggjandi gagna í vörslu stjórnvalda og hins vegar með því að taka upp sérstakt ákvæði um að á stjórnvöld verði ekki lögð skylda til að útbúa ný gögn sérstaklega til að verða við beiðni.

Frú forseti. Ég hef í stuttu máli farið yfir þau áhersluatriði sem fram koma í frumvarpi til laga um breytingu á upplýsingalögum og snúa að mestu að innleiðingu nýrra ákvæða um að heimila þriðja aðila endurnot af opinberum upplýsingum í virðisaukandi starfsemi.

Ég leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessar umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar þingsins.



[15:32]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta frumvarp er hér komið öðru sinni og var vel tekið, held ég að megi segja, í fyrra skiptið sem það kom inn á þingið fyrir líklega ári.

Hæstv. forsætisráðherra tilgreindi nú, eins og sá síðasti gerði, að þetta frumvarp snerti ekki þau sérlög sem gilda um gjaldtöku fyrir upplýsingar á opinberum skrám, m.a. frá Fasteignamati ríkisins, Landmælingum Íslands og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Svo vill til að eftir að mælt var fyrir þessu frumvarpi samþykkti Alþingi í fyrra lög um eitt þessara fyrirtækja, Landmælingar Íslands, þar sem tiltekið var að aðgangur að upplýsingum sem þaðan bærust væri þrengri og meiri gjaldtaka en hér er gert ráð fyrir.

Ég tók eftir að núverandi hæstv. forsætisráðherra sagði að það væri í verkahring viðkomandi ráðuneyta að fara yfir reglur þær og lög sem giltu um þessar þrjár stofnanir og leggja til breytingar sem samrýmast stefnumótun í þessu frumvarpi. Og ég vil ósköp einfaldlega spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi beint því til þeirra ráðherra sem þetta mál kemur helst við að gera það.



[15:33]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar þrjár stofnanir eru nefndar þarna í dæmaskyni en þær kunna auðvitað að vera fleiri, þessi listi er ekki tæmandi. Hvað varðar þau tilmæli sem þingmaðurinn spurði um hefur það nú ekki verið gert á þessu stigi að beina sérstökum tilmælum til ráðuneyta út af þessu. Fyrst er að afgreiða lögin og síðan að taka til við að framkvæma þau.



[15:34]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Skýringin sem tilnefnd var í fyrra, þegar við ræddum um Landmælingar Íslands, á því hvernig stæði á því að lögin um Landmælingar Íslands pössuðu ekki við það frumvarp sem sjálfur hæstv. forsætisráðherra þá og nú aftur flytur, var sú að menn hefðu ekki fjármagn til að mæta þeim breytingum sem eðlilegar væru.

Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra aftur: Er það af fjármagnsástæðum sem þær reglur sem gilda um Landmælingar Íslands eru ekki lagfærðar, ef við tölum sérstaklega um þær og ekki um Fasteignamat ríkisins og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og það fleira sem kann að vera í þessu og forsætisráðherra ætti auðvitað að telja hér upp? Er það af fjárhagsástæðum sem þetta er gert eða liggja einhverjar aðrar ástæður að baki?

Það er eðlilegt að spyrja forsætisráðherra að þessu, hann flytur þetta frumvarp og mælir fyrir því, og maður hlýtur að gera kröfu til þess að þegar um sérstakar undantekningar er að ræða frá meginhugsuninni í þessu frumvarpi, sem ég tel afar jákvæða og við samfylkingarmenn lýstum stuðningi við í fyrra, geti forsætisráðherra skilgreint nákvæmlega í hverju þessar undantekningar felast og af hverju þær stafa.



[15:35]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja til að lögfestar verði ákveðnar meginlínur varðandi endurnot og notkun á opinberum upplýsingum. Þegar sú lína hefur verið samþykkt á Alþingi í lögum er næsta verkefni að fela ráðuneytum að samræma gildandi lög á öðrum vettvangi hinum nýju lögum hvað þetta varðar. Þess vegna hefur ekki komið til þess að taka þurfi afstöðu til einhverra fjárveitingabeiðna eða þess háttar atriða af hálfu einstakra stofnana. Málið er bara ekki það langt komið.



[15:36]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra á hverju sú aðgreining byggir í greinargerð þar sem vísað er í og verið er að fjalla um undantekningar í 3. mgr. 25. gr. Þar er verið að telja upp og vísað í tilskipunina að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. um miðlun þessara upplýsinga með ljósritun eða afhendingu rafrænna gagna gildi ákvæði kaflans ekki um Ríkisútvarpið, ekki um skóla-, bóka- og skjalasöfn eða rannsóknastofnanir og ekki um menningarstofnanir, enda þótt viðkomandi ráðherra geti síðan mælt fyrir í reglugerð að starfsemi slíkra stofnana falli þar undir.

Í greinargerðinni eru taldar upp rannsóknastofnanir sem af einhverjum ástæðum, mér huldum, eru taldar falla undir þetta undanþáguákvæði, þ.e. Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir. Síðan er fjallað aðeins um menningarstofnanir og nokkru síðar kemur — og þarna er alltaf verið að vísa í e-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar:

„Sem dæmi um stofnanir sem hins vegar verða taldar falla undir ákvæði kaflans þrátt fyrir að þær sinni ákveðnum rannsóknum eru Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veðurstofa Íslands.“

Á hverju nákvæmlega byggir aðgreining þeirra rannsóknastofnana sem þarna eru taldar upp?



[15:38]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni er sú undanþága sem þingmaðurinn spyr um tilkomin vegna beinna ákvæða í fyrrnefndri tilskipun og það er reynt að hafa þessi lög í samræmi við umrædda tilskipun. Ef þar er eitthvert frávik eða eitthvað sem kemur hv. þingmanni, sérstaklega undarlega fyrir sjónir þegar hún rannsakar greinargerð frumvarpsins þá er upplagt að fá botn í slíkt mál í nefndarstarfi þingsins. Til þess er það starf hugsað.



[15:39]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra svarar því til og ég vænti þess, frú forseti, að farið verði nákvæmlega ofan í saumana á því á hverju þessi aðgreining byggir.

Það er mjög mikilvægt að tengja það frumvarp sem hér liggur fyrir við málefni upplýsingasamfélagsins og þá fjármuni sem veittir eru í því skyni til rannsóknastofnana eins og þær sem hér um ræðir. Ég hrekk auðvitað við þar sem málið er mér skylt sem starfsmanni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég veit að þar er safnað upplýsingum um hluti sem leynt eiga og leynt verða að fara og nægir að nefna fálkasetur eða arnasetur, staðsetningu á sjaldgæfum og friðlýstum plöntum og eitthvað slíkt. Ef með greinargerð sem þessari er hægt að fullyrða að sækja megi öll gögn til Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna þess að hún falli ekki, eins og til að mynda Hafrannsóknastofnun eða Íslenskar orkurannsóknir, undir e-lið 1. gr. þessarar tilskipunar, þá þurfa menn að koma með mjög ákveðnar skýringar og röksemdir fyrir því hvers vegna svo sé. Það er enginn eðlismunur á rannsóknum þessara stofnana, Veðurstofunnar eða Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar eða Íslenskra orkurannsókna. Ég vildi bara vekja athygli á þessu.



[15:41]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlusta á ábendingar þingmannsins af mikilli athygli, hún er sérfræðingur í tilteknum rannsóknum í tiltekinni stofnun. Ef það er svo að eitthvað athugavert er við þá flokkun sem hér liggur fyrir hvað varðar Náttúrufræðistofnun Íslands þá er sjálfsagt að athuga það og ég mælist til þess að það verði gert í þingnefndinni.



[15:41]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér, um endurnot opinberra upplýsinga, var til talsverðrar meðferðar í allsherjarnefnd í fyrra. Þar fengum við t.d. á fund nefndarinnar Pál Hreinsson til að fara yfir frumvarpið og þá lagasmíð sem að baki því liggur og þá greinargerð sem með því fylgir og það reyndist mjög gagnlegt til að varpa ljósi á ýmsa þætti málsins, eins og t.d. þann sem hv. þingmaður vakti athygli á í andsvörum rétt áðan, sem skipta mjög miklu máli.

Páll varpaði ljósi á ýmis atriði í þessu máli, sem er mjög flókið og mikilvægt mál, þetta er grundvallarmál sem opnar aðgengi margra að opinberum upplýsingum. Það er mikil auðlind, það er hægt að vinna mikil verðmæti úr þessum gögnum og áríðandi, eins og meginmarkmið frumvarpsins lýtur að, að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila til að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og gera þeim kleift að hagnýta möguleika og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun í víðasta skilningi þeirra orða. Það gerir málið svo sannarlega að mínu mati. Þessi breyting á upplýsingalögum er mjög tímabær og nauðsynleg og lýtur að því að opna stjórnkerfið fyrir hinum almenna borgara og rauði þráðurinn, og það sem liggur á bak við upplýsingalögin og stjórnsýslulögin sem sett voru á sínum tíma, er að gjörðir og ákvarðanir stjórnvalda þoli dagsins ljós og að þessar opinberu upplýsingar geti nýst fleirum en einungis opinberum aðilum. Það er ákaflega mikilvægt og það er auðlind sem opnast mörgum borgurum landsins og mörgum sjálfstætt starfandi fyrirtækjum og aðilum og mun örugglega skapa mikinn auð þegar fram í sækir og er mjög sjálfsagt að verði gert.

Þetta þarf að skoða vel í nefndinni, ekki síst með hliðsjón af þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið, og sérstaklega í ljósi þeirra undantekninga sem eru frá svo víðtækum og gagngerum lagabreytingum sem þessari, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi áðan.

Virðulegi forseti. Þetta mál fjallar um breytingu á upplýsingalögum. Eins og allir vita eru upplýsingalögin afar mikilvæg í stjórnsýslu og stjórnkerfi okkar og hafa margítrekað sannað gildi sitt. Því skiptir máli að þessi lög séu í stakk búin til að mæta því markmiði sem þau eiga að ná og þess vegna er áríðandi að stoppa í öll göt, taka fyrir allar efasemdir eins og andsvör beggja hv. þingmanna gáfu til kynna áðan.

Hér er um að ræða frumvarp sem leggur til að lögleidd verði ákvæði um endurnot opinberra upplýsinga. Frumvarpið er byggt á tilskipun Evrópusambandsins um endurnotkun opinberra upplýsinga þó að í því sé lagt til að gengið verði lengra í að þrengja gjaldtökuheimildir af upplýsingum og opinberum skrám og höfundarétti ríkisins á þessum upplýsingum en er í sjálfri tilskipuninni sem liggur að baki þess. Samkvæmt frumvarpinu verður stjórnvöldum skylt, með ýmsum takmörkunum þó, að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekin mál. Það eru stjórnvöld sem ákveða hvort gögn sem heimilt er að veita aðgang að séu sýnd eða af þeim veitt ljósrit eða afrit. Í þeim tilvikum sem stjórnvöld ljósrita eða afrita gögn og láta einkaaðila í té ber að taka gjald samkvæmt gjaldskrá sem hæstv. forsætisráðherra ákveður. Því vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þessa gjaldskrá, sem komið er inn á í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins, og hvort það sé réttur skilningur að um sé að ræða gjaldskrá sem byggist á meginreglunni um þjónustugjald, þ.e. að ekki megi rukka hærra verð, sem er algert grundvallaratriði, en nemur þeim kostnaði sem hlýst af viðkomandi þjónustu, að gjaldið miðist einungis við að borgað sé fyrir þann kostnað sem kostar hina opinberu stofnun að láta upplýsingarnar í té, af því að hluti skilgreiningar á þjónustugjaldi er að ekki megi rukka hærra verð fyrir það en sem viðkomandi þjónusta kostar. Um þetta höfum við oft deilt í þinginu og þetta aðskilur t.d. þjónustugjald frá skatti.

Við tókumst t.d. á um það, eins og í þinginu í hittiðfyrra, sem laut að skráningargjöldum í Háskóla Íslands og raunar í öllum opinberu háskólunum, Kennaraháskólann, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þá var því haldið fram af stjórnarliðum að um væri að ræða þjónustugjald þrátt fyrir að komið hefði skýrt fram að gjaldið væri hærra en sem nam kostnaði við skráninguna beint, enda var sama gjaldið sett á sem skráningargjald í alla skólana. Við stjórnarandstæðingar margir héldum því fram að hér væri um að ræða tekjulið fyrir háskólana, nokkurs konar skólagjöld sem verið væri að koma á bakdyramegin í formi þjónustugjalda. Það væri í rauninni verið að blekkja og fara ranglega með út frá því. Þess vegna er þessi umræða mjög mikilvæg og því spyr ég hæstv. ráðherra að þessu.

Það var ljóst að okkar mati að ekki væri um þjónustugjald að ræða heldur upphæð sem ákveðin var í lögum og ætti miklu meira skylt við skatt, enda er sjálfsagt hæpið að setja lög sem tiltaka ákveðna upphæð ef þau eiga einungis að miðast við kostnaðinn af þjónustunni í mörgum ólíkum stofnunum. Því langaði mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hér sé um að ræða þjónustugjald eða getur hann ákveðið hærra verð í þessari gjaldskrá en þjónustan kostar? Það þarf að vera alveg ljóst undir hvað þetta fellur.

Önnur spurning sem ég vildi beina til forsætisráðherra varðar 6. gr. og lýtur að sérleyfissamningum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga sem ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. 28. gr. skulu renna út eigi síðar en 31. desember 2008.“

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort honum sé kunnugt um að slíkir sérleyfissamningar séu til staðar nú þegar. Hefur hið opinbera gert þess háttar sérleyfissamninga um nýtingu á opinberum upplýsingum, sem samkvæmt þessari grein þyrfti þá væntanlega að rifta með einhverjum hætti og endurtaka? Ég spyr hæstv. ráðherra út í þetta.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar er margt jákvætt í þessu frumvarpi, í grunninn er þetta mikil lagabót að mínu mati og okkar samfylkingarmanna og var mjög athyglisvert að fást við þetta mál í allsherjarnefnd í fyrra. Þetta er flókið mál og mikið að vöxtum, að mörgu þarf að gæta og að mörgu þarf að hyggja til að koma í veg fyrir að einhver mistök eigi sér stað við lagasetninguna eins og getið var um áðan, að opinberri stofnun sé skylt að veita aðgang að upplýsingum sem þurfa eðli málsins samkvæmt að fara leynt, eins og t.d. hjá Náttúrufræðistofnun Ísland þar sem augljóslega er um að ræða upplýsingar um viðkvæma stofna dýra og plantna sem þurfa að fara leynt, t.d. viðverustaðir, stofnstærðir o.fl. Það er mjög mikilvægt að opinberar stofnanir sem safna slíkum upplýsingum geti gert það án þess að hægt sé að gera kröfu um að þær verði gerðar opinberar, jafnframt því sem það verður líka að vera á hreinu að engin stofnun geti skákað í skjóli slíkra undantekninga og komið í veg fyrir aðgang að opinberum upplýsingum sem annars væri mjög eðlilegt að veita fullan aðgang að eins og um er að ræða í langflestum tilfellum. Endurnot opinberra upplýsinga geta átt sér stað og munu eiga sér stað ef rétt er á málum haldið og takist okkur að ljúka þessari lagagerð sem tókst ekki í fyrra enda er málið, eins og ég sagði, mikið að vöxtum og flókið og mál sem þarf að vanda mjög vel til.

Ég ítreka óskir um að Páll Hreinsson komi aftur fyrir allsherjarnefnd og geri glögga grein fyrir mörgum hinum flóknari og yfirgripsmeiri þáttum þessa lagafrumvarps. Hefur sá mæti lögmaður oft komið fyrir nefndina í ýmsum málum og er sérstaklega glöggur og snjall í því að varpa ljósi á hin flóknustu mál þar sem vel þarf að takast til. Vona ég því að málið nái fram að ganga núna þar sem við höfum enn þá betri tíma til að ljúka gerð þess og stoppa upp í það sem við ræddum um áðan. Ég hef beint nokkrum spurningum til hæstv. forsætisráðherra, annars vegar um þjónustugjald og skatt og hins vegar um sérleyfissamningana, en vil ítreka að lokum að ég tek undir meginmarkmið frumvarpsins sem er að sjálfsögðu að það er jákvætt og mikilvægt að auka aðgang almennings að opinberum upplýsingum. Við eigum að stuðla að gegnsæju, opnu stjórnkerfi þar sem stjórnvaldið er opnað og fært nær hinum almenna borgara, ég tek eindregið undir þá lagagerð. Þetta er, eins og margar aðrar tilskipanir sem við höfum fengið frá Evrópusambandinu, mjög til bóta fyrir hinn almenna borgara í landinu og fagna ég því málinu sem slíku og vona að það nái fram að ganga í endanlegri mynd í þinginu síðar í vetur.



[15:52]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, teljum við í Frjálslynda flokknum mjög jákvætt mál.

Ég ætla ekki að hafa langa tölu um efni frumvarpsins en því má bæta við að sumt af því sem flutt var fyrr í umræðunni er nánast nákvæmlega það sama og flutt var fyrir ári, m.a. ræða frumflytjanda, hæstv. forsætisráðherra, og þeir sem skrifa upp ræðuna geta þá sparað sér að eyða mikilli vinnu í það því að þetta virðist vera sama ræða og fráfarandi forsætisráðherra flutti þá, hæstv. forsætisráðherra flutti nánast sömu ræðu og Halldór Ásgrímsson gerði þá. Var kannski ekki við að búast miklum breytingum á ræðunni því að þetta er sama málið, en samt sem áður hefur eitt og annað breyst í þessu umhverfi, stofnanaumhverfi, t.d. má nefna að til stendur að stofna Matvælarannsóknir hf. um næstu áramót. Væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. forsætisráðherra hvort þetta frumvarp hafi að einhverju leyti tekið mið af því breytta umhverfi sem er að verða í þessum geira. Og af því að þetta frumvarp miðar að framþróun og því að búa til lagaumgjörð utan um nýtt upplýsingasamfélag sem er að myndast, finnst mér að við ættum að hafa það að leiðarljósi í vinnunni við lagagerðina að hafa sem mest opið þannig að sem allra mestar upplýsingar séu opnar sem flestum í því augnamiði að endurnot af þeim geti nýst til frekari verðmætasköpunar í samfélaginu. Í heild er þetta mjög jákvætt mál sem ber að líta mjög jákvæðum augum og greiða leið þess í gegnum þingið.

Fleiri spurningar vakna við þetta frumvarp en sú sem ég bar fram, hvort tillit hafi verið tekið til breyttra hátta hvað varðar rannsóknastofnanir í landinu. Það þarf líka að velta fyrir sér hvort þetta hafi að einhverju leyti áhrif á sértekjustofnana. Það skiptir verulega miklu máli. Ég var á fundi í umhverfisnefnd þingsins og þar ræddu menn um að verið væri að gera auknar kröfur til ýmissa rannsóknastofnana og fræðistofnana um að afla sér meiri sértekna. Þegar gerðar eru slíkar kröfur um auknar sértekjur verða menn líka að velta fyrir sér hvort lagasetning sem þessi skerðir möguleikana til að afla þeirra tekna sem ætlast er til af stofnununum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta ágæta frumvarp og læt máli mínu lokið.



[15:55]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið í þessari umræðu. Þingmenn þekkja málið vegna þess að það er endurflutt nú og þingmenn gátu kynnt sér það á síðasta þingi.

Hér er um það að ræða að aðlaga íslenska löggjöf að tilskipun frá Evrópusambandinu um þetta málefni og auðvitað er þetta frumvarp í takt við þá tilskipun og þá strauma sem á bak við hana liggja.

Varðandi það hvort gjaldtakan fyrir upplýsingar samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps teljist vera þjónustugjald þá er það vissulega svo. Það er talað um að taka megi gjald sem nemi að hámarki kostnaðinum við að afhenda, afrita eða dreifa upplýsingum auk hóflegra afskrifta. Þetta er sem sagt þjónustugjald.

Varðandi sérleyfisgjöldin þá er mér ekki kunnugt um hvort slíkur samningur liggi einhvers staðar fyrir í kerfinu. Ég hygg að svo sé ekki en ef svo er kemur það væntanlega í ljós við umfjöllun um málið í nefndinni hvort eitthvað slíkt liggur fyrir, sem mér er ekki kunnugt um.

Varðandi matvælarannsóknirnar þá er þar um að ræða ohf.-fyrirtæki, opinbert hlutafélag, og um það gilda sérstakar reglur. Upplýsingaskylda slíkra félaga er meiri en almennra hlutafélaga og það félag er vissulega opinber aðili í venjulegum skilningi.

Ég þakka undirtektirnar og vona að málið fái greiða afgreiðslu í þingnefndinni að þessu sinni.