133. löggjafarþing — 28. fundur
 15. nóvember 2006.
fjarskiptasjóður.
fsp. KLM, 122. mál. — Þskj. 122.

[13:55]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. samgönguráðherra og snýr að Fjarskiptasjóði sem myndaður var eftir sölu ríkisins á Símanum. Í hann voru settir töluverðir peningar. Við vitum að fyrsta útboð er í gangi, sem betur fer, á ýmsum málum sem Fjarskiptasjóður á að koma að, hvort sem það er GSM-samband á þjóðveginum eða annað.

Við vitum líka, virðulegi forseti, að Fjarskiptasjóði er ætlað að koma betri háhraðatengingum til smærri byggðalaga og sveita landsins, þ.e. að menn fái að njóta þess að hafa háhraðatengingar í dreifbýli eins og aðrir, hvort sem það eru ADSL-tengingar eða eitthvað meira.

Ég hef áður sagt það, virðulegi forseti, að mér þótti slæmt að það þyrfti endilega að gera þetta eftir að búið væri að selja Símann. Ég hef áður gagnrýnt hve langan tíma þetta hefur tekið. Ég var þeirrar skoðunar að ríkissjóður hefði átt að leggja pening í þetta fyrir lifandis löngu. Það er óþolandi misrétti sem fjöldi fólks á landsbyggðinni hefur mátt búa við og býr við enn þá, að hafa ekki aðgang að háhraðatengingum. Við getum tekið dæmi af börnum í skóla á þeim stöðum þar sem háhraðatengingar eru ekki eða ferðaþjónustu, t.d. hjá bændum. Það er hluti af því sem ferðamenn krefjast þess að hafa, hvort heldur er GSM-samband eða háhraðatenging og almennileg tölvusamskipti.

Fjarskiptasjóður er með fyrsta útboð í gangi. Spurning mín er hins vegar til hæstv. samgönguráðherra, eins og hér segir með leyfi forseta:

Verður Fjarskiptasjóði heimilt að endurgreiða sveitarfélögum útlagðan kostnað við að koma upp háhraðatengingum ef þau kjósa að gera það fyrir eigin reikning?

Tilefni þessara fyrirspurnar er umræða á aðalfundi Eyþings þar sem bæjarstjórinn í Dalvíkurbyggð, Svanfríður Jónasdóttir, spurði fulltrúa frá samgönguráðuneytinu út í þetta. En þeir gátu sem embættismenn ekki svarað þessu.

Virðulegi forseti. Það er vitað, þekkt dæmi t.d. úr Hrísey frá því fyrir mörgum árum, að þar komu framtakssamir menn sér upp háhraðatengingu nánast fyrir eigin reikning. Spurning mín til ráðherrans er sem sagt þessi: Ef sveitarfélög kjósa að ganga hraðar í þetta, og telja sig ekki geta beðið eftir Fjarskiptasjóði, mun þá ráðherra beita sér fyrir því að þau geti fengið það endurgreitt úr Fjarskiptasjóði einhverjum missirum síðar?



[13:58]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller spyr:

„Verður Fjarskiptasjóði heimilt að endurgreiða sveitarfélögum útlagðan kostnað við að koma upp háhraðatengingum ef þau kjósa að gera það fyrir eigin reikning?“

Svar mitt er svohljóðandi:

Fjarskiptasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 132/2005. Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum.

Eitt af þeim verkefnum sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun og sjóðnum er ætlað að standa straum af er uppbygging á háhraðatengingum. Við þá vinnu verður Fjarskiptasjóður að gæta — nú vil ég biðja hv. þingmann að hlusta vandlega og vera ekki í samræðum úti í sal — að reglum EES um ríkisaðstoð.

Í fyrsta lagi má ekki styrkja verkefni þar sem markaðsaðilar ætla að bjóða upp á háhraðatengingar en stjórn Fjarskiptasjóðs vinnur að því að greina nákvæmlega þau svæði þar sem ekki verður ráðist í uppbyggingu á markaðsforsendum.

Í öðru lagi verður öllum sem uppfylla ákveðin skilyrði gefinn kostur á að taka þátt í bjóða í verkefnið, þ.e. viðhafa útboð. Enda er kveðið á um það í reglum um stjórn Fjarskiptasjóðs að stjórnin skuli ákveða framlög úr sjóðnum í samræmi við hlutverk sitt og fjarskiptaáætlanir að undangengnu útboði.

Í þriðja lagi verður útboð að vera tæknilega óháð, þ.e. ekki valin fyrir fram lausn. Tilgangur með sjóðnum er að byggja upp stofnkerfi fjarskipta á þeim stöðum þar sem er markaðsbrestur, þ.e. þar sem þjónustu nýtur ekki við og markaðsaðilar ætla ekki að byggja upp. Sjóðurinn á ekki að greiða fyrir þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað. Þá munu framlög úr sjóðnum til uppbyggingar á háhraðatengingum eingöngu verða í framhaldi af útboði, eins og reglur um sjóðinn gera ráð fyrir og ég hef hér farið yfir.

Ég vil í lokin undirstrika að þátttaka Fjarskiptasjóðs í uppbyggingu má ekki draga úr frumkvæði heimamanna og sveitarstjórna við að krefja fjarskiptafyrirtæki um viðunandi þjónustu. Fjarskiptafyrirtækin gegna að sjálfsögðu lykilhlutverki í uppbyggingu fjarskiptakerfa í landinu eins og hv. þingmenn vita mætavel.

Það vill oft brenna við að þingmenn, sem eru áhugasamir um hagsmuni sinna umbjóðenda, telji að allt gangi hægt fyrir sig og að fyrir löngu hefði átt að vera búið að gera það sem hér er um að ræða, eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég vil aðeins rifja upp að þessi tækni var ekki nýtanleg fyrir löngu síðan. Hvað eru mörg ár síðan við samþykktum fjarskiptalög, þar sem krafan var að allir notendur skyldu hafa aðgang að gagnahraða sem kallaður var þá ISDN-tenging, sem þótti hin mesta og besta þjónusta? Áður höfðu menn notað, um nokkurra missira skeið, venjulegar símalínur og þann hraða sem þær gátu borið. Þróunin hefur því orðið geysilega hröð á síðustu sjö árum hvað þetta varðar, að ég tali ekki um síðustu fimm árin.

Enn þá meiri hraði hefur verið á þessari þróun síðustu þrjú árin. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á því að þetta tekur sinn tíma. Um það leyti sem verið var að selja Símann voru miklar kröfur um að fjarskiptafyrirtæki sinntu þessu sem best. Niðurstaðan hjá okkur, í tengslum við símasöluna, var að til þess að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða var settur á laggirnar Fjarskiptasjóður, sem sinnir þessu mikilvæga verkefni núna og mun tryggja þjónustu, bæði hvað varðar GSM-símaþjónustu á þjóðvegum og fjölförnum ferðamannastöðum, stafræna sjónvarpssendingar um gervihnött til sjófarenda og fólks í mestu dreifbýli og síðan háhraðatengingar, eins og verið er að undirbúa að byggja upp á forsendum Fjarskiptasjóðs.

En útgangspunkturinn er sá að þetta þarf að gera á forsendum útboðs á svæðum þar sem markaðsbrestur verður.



[14:03]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Einkavæðing og sala Símans voru náttúrlega mistök enda sýndu skoðanakannanir að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur því. Samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu hér á landi felst í að hafa aðgang að fullkomnustu tækni, m.a. í fjarskiptum og símaþjónustu. Hér er verið að ræða um Fjarskiptasjóð og hvernig honum verði beitt.

Það er mjög eðlilegt að þau sveitarfélög og héruð sem vita að þau muni falla utan við samkeppnissvæðið vilji ráðast í framkvæmdir á eigin vegum. Spurningin er: Fáum við það greitt, fáum við það styrkt úr Fjarskiptasjóði? Það er spurningin sem hæstv. ráðherra á að svara. Það er alveg út í hött að halda að á grundvelli samkeppni og markaðsbúskapar verði hægt að leggja fullkomið fjarskiptakerfi um Vestfirði, um Norðurland, um Norðausturland, það vitum við. (Forseti hringir.) Þess vegna er þessi spurning sem sveitarfélögin spyrja: (Forseti hringir.) Fáum við það bætt ef við ráðumst í þessi verkefni?



[14:04]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því nú býsna skýrt og svarið var stutt: Nei, það fæst ekki endurgreitt. Þess vegna þarf hæstv. ráðherra líka að sprikla hraðar en hann hefur gert í þessum málum. Þetta verður að ganga betur. Hæstv. ráðherra er eins og segir í kvæðinu: Hátt er á Bröttukleif, hornið þeytt. Hann er bara að láta vita að hann sé á leiðinni með póstinn. Það veit enginn hvenær hann kemur, það getur verið ófærð.

Hæstv. ráðherra virðist ekki vera kominn inn í nútímann. Hann kvartar yfir því að tæknin breytist svo hratt að það sé eiginlega ekki nokkur leið að eiga við þetta. Það er nefnilega það sem þarf að gerast að hæstv. ráðherra þarf að hugsa svolítið hraðar. Hann þarf að sjá til þess að unnið sé hraðar en gert hefur verið.

Menn á landsbyggðinni hafa ekki tíma til að bíða eftir því að hlutirnir komi, að það sé flautað á Bröttukleifinni.



[14:05]
Björn Ingi Hrafnsson (F):

Hæstv. forseti. Ég skil fyrirspurn hv. þingmanns á þann veg að það beri að reyna að aðstoða þau sveitarfélög sem vilji sýna ákveðið frumkvæði. Hins vegar held ég að þetta geti verið ákaflega varasamt, ef ekki er farið í einu og öllu eftir reglum um útboð og annað slíkt og maður veit ekki hvaða samningum viðkomandi sveitarfélög geta náð, sum geta náð góðum samningum og önnur slæmum, en ég skil hugsunina á bak við þetta.

Hins vegar út af orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að þetta tengist einkavæðingu Símans þá hafna ég því alfarið, það er bara ekki rétt. Það vill svo til að Síminn sem var í ríkiseigu hafði ekki sinnt GSM-sambandi og þjónustu á ákveðnum svæðum vegna þess að það var ekki talið borga sig og að Síminn mætti ekki gera það á kostnað annarrar þjónustu vegna þess að hann væri í samkeppni. Út af sölu Símans getum við nú sett peninga í Fjarskiptasjóð til þess að bæta þessa þjónustu. Það er því alrangt hjá hv. þingmanni að halda þessu fram.



[14:06]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. síðasta ræðumanns þá var það þannig að samgönguráðherra og ríkisstjórn var í lófa lagið að beita sér fyrir því innan stjórnar Símans að gripið yrði til þeirra ráðstafana sem við höfum kallað eftir, næstum í fimm ár. Það er rétt sem hæstv. samgönguráðherra sagði að allir voru mjög ánægðir þegar við samþykktum fjarskiptaáætlunina og komum ISDN inn á hvert heimili. En það var varla búið að skrifa undir lögin þegar það kerfi var orðið úrelt. Það er nú þannig.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég varð fyrir vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra sem svarar því til að ekki sé hægt að gera þetta á þann hátt sem ég spyr hér um. Það eru fjölmörg sveitarfélög, ég get tekið dæmi úr Dalvíkurbyggðum eða Svarfaðardal eða frá Hrísey á sínum tíma, þar voru einstaklingar sem sýndu alveg ótrúlegt frumkvæði og komu upp háhraðatengingum í loftlínu, ef svo má að orði komast, það var meira að segja tengt til Ítalíu og svo hingað heim og allt var þetta gert fyrir eigin reikning þeirra sem þar búa. Má ekki hugsa sér, ef það hefði verið sett inn í reglugerð og skoðað að fara þessa leið, að útboð sem slíkt þegar að því kæmi og greiðsla frá Fjarskiptasjóði, að fjarskiptafyrirtækið mundi bjóða í það kerfi sem komið er fyrir, þannig að sveitarfélögin fengju þetta endurgreitt? Þau geta ekki beðið eftir þessu þann langa tíma sem líður miðað við áætlanir Fjarskiptasjóðs. Það tekur allt of langan tíma og það er ekki ásættanlegt fyrir sveitarfélög að hafa þannig mismun innan sveitarfélagsins.

Virðulegi forseti. Enn einu sinni snýst þetta um samkeppnishæfni svæða eins og hér hefur komið fram. Þetta snýst um jafnrétti og jafnræði. Því miður er það þannig, og svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni hryggir mig en mér kemur það kannski ekki á óvart vegna þess að innan núverandi ríkisstjórnar er allt of lítið hugsað um byggðamál (Forseti hringir.) og það sem kæmi sér vel fyrir hinar litlu og smæstu byggðir landsins.



[14:09]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Síðasta setning hv. þingmanns er náttúrlega alröng enda blasa hvarvetna við þær áherslur í samgöngumálum, fjarskiptamálum, menntamálum og heilbrigðismálum þar sem stefna ríkisstjórnarinnar birtist í því að efla byggðir landsins, þannig að það svarar sér nú allt saman sjálft.

Hvað varðar umræðuna um hvað Fjarskiptasjóður megi og hvað ekki eða hvað stjórn Fjarskiptasjóðs megi gera, þá heyri ég alveg að hv. þingmaður veit betur, enda eru þingmenn Samfylkingarinnar náttúrlega alveg afskaplega vel að sér í því hvað má gera og hvað má ekki gera á hinu Evrópska efnahagssvæði, ég tala nú ekki um á vettvangi Evrópusambandsins.

Hv. þingmaður veit því að það verður að fara að samkeppnislögum og ólögmæt ríkisaðstoð er nokkuð sem stjórnvöld mega að sjálfsögðu ekki ástunda. Þess vegna eru farnar leiðir útboðs og það er eðlilegt að sveitarfélög sums staðar leggi áherslu á að bæta þjónustu og þannig er það á mörgum sviðum. Viðskiptaaðilar fjarskiptafyrirtækjanna eru auðvitað þeir sem borga fyrir uppbyggingu og kostnað við þjónustu með greiðslu reikninga fyrir veitta þjónustu, það er nú bara staðreynd málsins.

Ég vona hins vegar að okkur takist að koma sem mest og best til móts við þær byggðir sem ekki hafa nægjanlega góða fjarskiptaþjónustu, m.a. með því að nýta fjármuni Fjarskiptasjóðs. Að því vil ég stefna og leita allra leiða til þess að svo megi verða að uppbyggingin verði sem allra hröðust og við getum nýtt okkur fjarskiptatæknina til þess að efla byggðirnar.