133. löggjafarþing — 28. fundur
 15. nóvember 2006.
myndatökur fyrir vegabréf.
fsp. KLM, 123. mál. — Þskj. 123.

[14:59]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra er um myndatöku fyrir vegabréf og er í þremur liðum:

1. Er nauðsynlegt að teknar séu myndir á umsóknarstað af öllum umsækjendum um vegabréf?

2. Er fullnægjandi aðstaða til slíkrar myndatöku á öllum umsóknarstöðum?

3. Hver hefur kostnaðurinn verið við þetta fyrirkomulag?

Virðulegi forseti. Frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram hefur athygli mín verið vakin á því að hæstv. dómsmálaráðherra hefur verið stefnt af Ljósmyndarafélagi Íslands vegna þessara reglna eða þeirrar framkvæmdar sem hefur orðið eftir að hæstv. dómsmálaráðherra beitti sér fyrir breytingum á lögum um vegabréf, sem voru nr. 136/1998, og voru samþykktar á Alþingi og eru núna lög nr. 72/2006. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Tekin skal stafræn mynd af umsækjanda sem varðveitt skal í vegabréfinu. Heimilt er að nota mynd sem umsækjandi leggur fram sjálfur á rafrænu formi, enda uppfylli hún kröfur sem gerðar eru til stafrænna mynda í vegabréfum.“

Virðulegi forseti. Töluvert hefur verið rætt um það í þjóðfélaginu að þessar myndatökur sýslumannsembætta séu á mjög gráu svæði og það er ástæðan fyrir því að Ljósmyndarafélag Íslands stefnir hæstv. dómsmálaráðherra. Því spyr ég: Er það virkilega svo, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmálaráðherra beiti sér með þessari aðgerð í fyrsta lagi með broti á iðnaðarlögum, lögvörðum rétti ljósmyndara, og í öðru lagi broti á samkeppnislögum? Vegna þess að það kostar það sama að fá vegabréf hvort heldur ég kem með mynd af mér frá ljósmyndara eða hún er tekin af fulltrúa sýslumanns sem ekki hefur réttindi til ljósmyndatöku. Það eru þessi atriði, virðulegi forseti, ásamt þeim furðulega tækjabúnaði sem búið er að setja upp, sem ég held að hafi hvergi komið fram í umræðu um þessi lög að þyrftu að fara á þennan hátt.

Virðulegi forseti. Ljósmyndaiðnin eru lögvernduð atvinnuréttindi samkvæmt iðnaðarlögum og samkvæmt reglugerð nr. 940/1999, um löggiltar iðngreinar. Þar segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Enginn má reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi lögum þessum samkvæmt.“

Mér vitanlega eru þessir fulltrúar og það ágæta starfsfólk sýslumanna vítt og breitt um landið ekki með réttindi til ljósmyndatöku. Þess vegna er þessi fyrirspurn, virðulegi forseti, lögð fram.

Þess má líka geta í lokin, virðulegi forseti, að ríkisvaldið eða ríkissaksóknari óskaði eftir því að þessari stefnu Ljósmyndarafélag Íslands yrði vísað frá. Dómari hefur synjað þeirri ósk. Þess vegna bæti ég m.a. við þessum spurningum, virðulegi forseti, og vil fá svar við því frá hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann sé a.m.k. ekki á mjög gráu svæði að brjóta þau lög sem ég hef hér vitnað í.



[15:02]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki hvernig þessum fyrirspurnatímum er háttað ef menn geta bætt við fyrirspurnum eftir því sem þeim hentar, miðað við það form sem er á þessum fyrirspurnum. (KLM: Er þetta eitthvað óþægilegt?) Þetta er ekki neitt óþægilegt.

Fyrsta spurningin er: „Er nauðsynlegt að teknar séu myndir á umsóknarstað af öllum umsækjendum um vegabréf?“

Nei, það er ekki nauðsynlegt. Það er hægt að láta taka myndir af sér hjá ljósmyndurum og ljósmyndarar geta sent þær með rafrænum hætti til umsóknarstaðar og það er ekki skylda að láta taka myndir af sér á umsóknarstað.

Önnur spurningin er: „Er fullnægjandi aðstaða til slíkrar myndatöku á öllum umsóknarstöðum?“

Já, slík aðstaða er fyrir hendi á öllum umsóknarstöðum.

Þriðja spurningin er: „Hver hefur kostnaðurinn verið við þetta fyrirkomulag?“

Kostnaðurinn er talinn vera innan við 2 millj. kr. og þegar litið er á þennan kostnað og honum deilt niður á vegabréfaumsóknir á þriggja ára tímabili þá lætur nærri að kostnaðurinn við hvern umsækjanda liggi á bilinu 15–20 kr.

Ég ætla ekki að tjá mig um það mál sem hefur verið höfðað fyrir héraðsdómi út af þessum ákvörðunum. Það er mál sem verður rekið fyrir dómstólunum og ríkislögmaður er með það, ekki ríkissaksóknari eins og hv. þingmaður sagði. Ég veit ekki hvaða málsástæður hann notaði til þess að fá málinu vísað frá, það er mál sem gengur sinn gang fyrir dómstólunum. Að þetta hafi ekki verið rætt áður en þetta fyrirkomulag var tekið upp er alrangt. Þetta var rætt m.a. á fundi með ljómyndurum og þeir vissu nákvæmlega hvernig þetta fyrirkomulag yrði. Það var rætt á vegum ráðuneytisins og farið yfir málið m.a. með fulltrúum frá Samtökum iðnaðarins.



[15:04]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu atriði. Ég vil bara segja að öðruvísi mér áður brá að í tíð Sjálfstæðisflokksins, sem segist vera kyndilberi frelsisins, sé málum nú svo fyrir komið að maður þurfi að fara í myndatökur hjá sýslumanni, að sýslumaðurinn sé farinn að sjá um passamyndatökur. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda og þær spurningar sem hann velti upp og hæstv. ráðherra svaraði ekki. Ég hvet hæstv. ráðherra til að svara þeim af því að þetta er gríðarlega mikilvægt mál vegna þess að við verðum að hafa lífvænlega atvinnugrein í ljósmyndun. Þarna er auðvitað verið að kippa fótunum undan þessari atvinnugrein í landinu og þar með undan ljósmyndurum hér á landi.



[15:05]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að með lagagjörningnum fyrr á þessu ári, um myndatökur fyrir vegabréf, hafi verið gerð mistök við lagasetningu. Þau liggja í því að þarna var óvarlega farið, það að myndatökur fyrir vegabréf séu almennt framkvæmdar með þessum hætti kippir fótunum undan atvinnugrein eins og hér hefur verið nefnt. Það er að sjálfsögðu allt of harkalega og óvarlega fram gengið og hefur haft mjög alvarlegar og vondar afleiðingar fyrir fjölda atvinnuljósmyndara. Þetta er aðför að stétt þeirra, aðför að hagsmunum þeirra og starfsemi. Jafnframt er aðstaðan til myndatöku á mörgum umsóknarstaðanna fullkomlega afleit, hún er algerlega fráleit og ekki boðleg til að standa undir þessu. Þetta voru mistök og ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra að endurskoða þennan lagagerning í ljósi þeirrar reynslu sem nú þegar er komin upp á síðustu mánuðum og er ekki mjög góð.



[15:06]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég minnist þessa máls frá því í vor. Ég hef ekki þann heiður eða hafði ekki og hef ekki enn að sitja í þeirri nefnd sem um það fjallaði á sínum tíma en ég hafði áhuga á því með ýmsum hætti og spurðist fyrir um málið. Ég man ekki betur en að í umræðunum hér hafi hæstv. dómsmálaráðherra lýst því að um þetta mál hafi verið fjallað fram og aftur í samráði við alla þá sem hugsanlegt var að hafa samráð við, m.a. ljósmyndara, og hann nefndi hér áðan að Samtök iðnaðarins, ef ég skildi hann rétt, hefðu einnig verið með í ráðum.

Var þetta, forseti, ofsagt hjá ráðherranum þegar hann stendur núna uppi með dómsmál á hendur sér vegna brots á iðnaðarlögum? Þá hefur dómsmálaráðherrann sagt okkur rangt frá hér í salnum og væntanlega allsherjarnefnd líka fyrst svo er orðið. Mér þykir þetta afar furðulegt.



[15:07]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get varla þakkað ráðherra fyrir þetta snubbótta svar en ég skil það vel að hann vilji lítið ræða þetta, kominn með dómsmál á herðar sér út af þessu máli. Ég held, virðulegi forseti, að aldrei hafi verið í umræðu um það frumvarp sem hér var vitnað til og varð að lögum, rætt um að stofnuð yrði Ljósmyndastofa ríkisins hf. Það er aumt til þess að vita ef hæstv. dómsmálaráðherra, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, er að beita sér fyrir því að búa til opinbera ljósmyndastofu á öllum sýsluskrifstofum landsins. Og þegar hæstv. ráðherra svaraði fyrstu spurningu minni um það hvort nauðsynlegt sé að teknar séu myndir á umsóknarstað af öllum umsækjendum um vegabréf, sagði hann: Nei, það er ekki nauðsynlegt, það er ekki gert.

Virðulegur forseti. Á vegabref.is er talað um að eigin mynd verði að vera á rafrænu formi og á USB minnislykli o.s.frv. og svo stendur, með leyfi forseta:

„Þótt komið sé með eigin mynd í vegabréfi er samt tekin mynd af umækjanda á staðnum í öryggisskyni.“

Er þetta líka orðið, auk þess sem Ljósmyndastofa ríkisins er orðin til, eitthvert forvarnastarf, er verið að vinna þennan „fæl“ fyrir leyniþjónustuna eða hvað er að gerast hér?

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því við hæstv. dómsmálaráðherra að hann svari því sem kom fram í fyrirspurninni þó svo það hafi ekki verið lagt fram í byrjun: Er dómsmálaráðherra landsins að beita sér fyrir því að iðnaðarlöggjöfin verði brotin, iðnaðarlögin, gagnvart ljósmyndurum? Er e.t.v. líka verið að brjóta samkeppnislögin? Þegar komið er inn í Ljósmyndastofu ríkisins kostar vegabréfið 5.100 kr. sama hvort ríkið tekur myndina eða maður kemur með myndina með sér og skiptir við ljósmyndara eins og maður gerði áður. (Gripið fram í: Þetta er gott fyrir neytendur.) Það er vafalaust gott fyrir neytendur, kemur hér í frammíkalli frá einum hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Það er ágætt, en það er nú svo, hæstv. forseti, að við í Samfylkingunni erum a.m.k. ekki sammála því að dómsmálaráðherra skuli vera á gráu svæði þarna og fái á sig dómsmál í framhaldi af því.



[15:09]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom kostar vegabréfið 5.100 kr. Mér skilst að það kosti 2.500 kr. að fara til ljósmyndara og láta taka af sér mynd og ef menn kjósa að greiða þann kostnað og láta taka af sér mynd þar með þeim búnaði sem ljósmyndarinn hefur hafa þeir fulla heimild til þess. Ljósmyndarinn getur sent hana með rafrænum hætti til sýslumannsins og síðan er það sannreynt þegar komið er á sýsluskrifstofuna að um sama mann sé að ræða. Þetta er hægt að gera. Ég tel að þetta sé þjónusta við neytendur. Á þriðja tug þúsunda manna hafa nýtt sér þessa þjónustu og þetta hefur gengið frábærlega vel. Að gera þetta tortryggilegt á þeim forsendum sem hér er gert eru einhver annarleg sjónarmið sem ég átta mig ekki á, því að þetta lá allt fyrir þegar málið var rætt á þinginu síðastliðið vor. Þetta var rætt við ljósmyndara að viðstöddum fulltrúa Samtaka iðnaðarins þegar lagt var upp í málið á þennan veg þannig að það kemur ekkert á óvart. Það sem kemur mér á óvart er hins vegar að ljósmyndarar virðast hafa skipt um skoðun eftir að þetta kemur til framkvæmda og fara í dómsmál. Við skulum sjá hvað kemur út úr því máli og hver reynslan verður af því og þá reynir á hvort það megi gera þetta eða ekki.