133. löggjafarþing — 33. fundur
 22. nóvember 2006.
rannsóknir á ýsustofni.
fsp. MÞH, 252. mál. — Þskj. 255.

[18:27]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Enn höldum við áfram, við líffræðingarnir tveir hér á þingi, ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, þessum merkilegu bollaleggingum um vistfræði hafsins og tengsl hinna ýmsu stofna, í náinni samvinnu við hæstv. sjávarútvegsráðherra, kannski ekki samvinnu eða samráði, en samt sem áður er hann hér til andsvara.

Mig langaði til að ræða aðeins um ýsuna, virðulegi forseti, og spyrja hæstv. ráðherra út í rannsóknir á ýsustofninum, hvort farið hafi fram einhverjar rannsóknir á mögulegum tengslum stórs ýsustofns umhverfis landið við niðursveiflu í sandsílastofninum. Þetta er spurning sem ég hef velt mikið fyrir mér undanfarin missiri og kannski einkum og sér í lagi í sumar.

Mig langar til að rifja það upp að ástandið í sumar var á margan hátt mjög furðulegt. Þegar maður horfði á lífríkið, til að mynda á fuglalífið, sá maður að það var eitthvað mjög mikið að. Ég hef aldrei séð máva á beit í stórum hópum á graslendi, í móum og túnum, jafnvel á umferðareyjum og inni á lóðum hjá fólki. Banhungraðir mávar sem voru að leita sér að æti í sumar höfðu raðað sér skipulega niður, það var u.þ.b. einn fermetri á hvern fugl. Þeir voru að leita að einhverju, einhverju æti. Ekki veit ég hvað þeir voru að éta, en þeir voru alla vega ekki að éta það sem þeir eiga að vera að éta sem er fiskur og síli. Þetta voru sílamávar.

Við sáum líka að varp misfórst hjá svartfugli víða um land. Við sáum að varpið misfórst hjá kríunni mjög víða. Hún flýgur hingað umhverfis hálfan hnöttinn og ætlar að eiga hér bæði egg og unga og koma næstu kynslóð sinni á legg. En þetta virtist fara alveg skelfilega hjá vesalings kríunni í sumar. Hún virtist ekki finna æti. Maður sá að fuglar komu á hefðbundnar varpslóðir, reyndu að koma sér fyrir en nokkrum dögum síðar voru þeir horfnir, sennilega vegna þess að þeir fundu ekki æti. Hvert þeir fóru veit ég ekki en manni rann þetta ástand allt mjög til rifja. Það var einsýnt að það var eitthvað mikið að í lífríkinu.

Ég held að það hljóti að vera eitthvert samband á milli þess að ýsustofninn hefur vaxið gríðarlega hér við land á undanförnum árum. Skýrslur frá Hafrannsóknastofnun og stofnstærðarmat sýnir það mjög greinilega. Við vitum líka að það hefur minnkað mikið um sandsíli mjög víða. Ég veit að farið hafa fram rannsóknir á sandsílastofninum, þær fóru fram í sumar. Við fengum að heyra af því í fréttum að verið væri að rannsaka hvernig væri með útbreiðslu og viðkomu sandsílis. Ég hygg að fyrstu niðurstöður úr þeim rannsóknum séu alls ekki upplífgandi.

Ég held að það hljóti að vera samband þarna á milli, að þessi gríðarlega ýsumergð sem er nánast allt í kringum landið eigi stóran þátt í þessu máli, þ.e. að ýsan hreinsi hreinlega upp sandsílið af botninum og það sé kannski ástæðan fyrir þeim hörmungum sem við höfum séð.



[18:30]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið gaman fyrir einn stjórnmálafræðing að hafa það hlutverk að svara spurningum tveggja líffræðinga um líffræðileg málefni og er kannski ekki laust við að maður finni fyrir ákveðinni auðmýkt gagnvart slíkum spurningum. En þá ber þess að geta að sá sem hér stendur er líka þannig vaxinn að hlusta mjög glögglega eftir því þegar líffræðingar tala um stjórnmál. Þess vegna held ég að það sé bara ágætt að stjórnmálafræðingar tali stundum um líffræði eins og líffræðingar tala um stjórnmál og það sé ekki hrein verkaskipting í þjóðfélaginu þar sem einn talar ekki um málasvið annars. Hluti af stjórnmálum er einmitt að líffræðingar hafi skoðun á stjórnmálum og stjórnmálafræðingar á líffræði.

Eins og kunnugt er, svo ég fari með smálíffræðilegan fyrirlestur, eru þrjár tegundir af sandsílaætt hér við land, sandsíli, marsíli og trönusíli. Sandsílið finnst aðeins á grunnu vatni við fjörur sunnan- og suðvestanlands. Hámarkslengd þess er um 20 sentimetrar og það er mjög líkt marsíli að ytra útliti og þarf að telja hryggjarliði til að greina tegundirnar í sundur. Marsíli er langalgengasta sílistegundin hér við land og lifir á 10–15 metra dýpi en algengast á 30–70 metra dýpi og finnst allt í kringum landið þó það sé algengast sunnan- og suðvestanlands.

Beinar rannsóknir á sandsíli hér við land hafa til ársins 2006, fram á þetta ár, verið mjög takmarkaðar. Á árinu 2006 hrinti Hafrannsóknastofnun á hinn bóginn af stað rannsóknum þar sem tilgangurinn var að meta útbreiðslu og stofnstærð sílis. Þar sem um er að ræða fyrsta leiðangur í vöktun á síli er erfitt að meta magn á rannsóknarsvæðum og ekki fæst mælikvarði á magn sílis fyrr en eftir að svæðin hafa verið vöktuð í nokkur ár, enda byggir aðferðin á að mæla hlutfallslegar breytingar.

Ekki hafa farið fram sérstakar rannsóknir á tengslum ýsustofnsins við niðursveiflu í sandsílastofninum, en ég verð þó að vekja athygli á því að fram hafa farið rannsóknir á fæðu fiska sem safnað hefur verið af veiðiskipum alveg frá árinu 2001 og fæðuathuganir í stofnmælingarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar sem farnir eru á mismunandi árstímum. Slíkar rannsóknir á samhengi einstakra tegunda svo sem ýsu og sandsílis, auk vöktunar á stofnstærð sandsílisins ættu því á næstu árum að geta gefið gagnlegar upplýsingar um samspil stofnstærðar ýsu og breytinga í sandsílastofni við Ísland þó niðurstöður liggi ekki fyrir á þessari stundu. Ég vil hins vegar taka undir að ég held að þetta sé mjög áhugavert rannsóknarverkefni alveg sérstaklega í ljósi þess mikla vaxtar sem hefur verið í ýsustofninum. Við sjáum að ýsustofninn hefur verið að vaxa mjög hratt. Það er ekki bara bundið við einstaka árganga þó einn árgangur sé áberandi langstærstur í ýsustofninum eins og nú standa sakir. Aðrir árgangar eru líka sterkir og ég held að þetta sé mjög áhugaverð rannsóknarspurning sem vonandi fæst gleggra svar við þegar fram líða stundir. Hv. þingmenn sem hér eru inni geta örugglega svarað því betur hversu lengi slík rannsókn þarf að standa til að fá áreiðanlega vísindalega niðurstöðu á slíkum rannsóknum, en miðað við það að við höfum verið að gera rannsóknir af öðru tagi á t.d. fæðu fiska alveg frá árinu 2001, þá gæti ég ímyndað mér að það greiddi fyrir því að átta sig á því samspili sem hv. þingmaður var að spyrja um þó að rannsóknirnar á sandsílinu sjálfu hafi ekki hafist fyrr en á þessu ári. Ég geri ég ráð fyrir að þær rannsóknir hafi ekki síst byrjað vegna þess ástands sem hv. þingmaður lýsti og jafnvel við leikmenn tókum eftir, sem var hegðan sjófuglanna hér við land og það fór ekki fram hjá nokkrum okkar sem litum í kringum okkur að sjófuglarnir virtust hegða sér mjög misjafnlega.

Hins vegar heyrði maður líka frá sjómönnum og öðrum þeim sem fylgdust með þessu að að þeirra mati var ástand sjófuglanna dálítið misjafnt eftir landsvæðum. Kannski munu þessar rannsóknir varpa ljósi á það. Það getur einnig verið breytilegt milli ára, það þekkjum við. Varðandi kríustofninn var það einmitt greinilegt af máli manna sem maður heyrði í, m.a. í fjölmiðlum og einnig manna sem höfðu samband við mig og ég talaði við sem vöktu athygli á að ástandið kynni að vera eitthvað misjafnt milli landsvæða eins og svo sem eðlilegt er.



[18:35]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég er með athugasemd. Ég heyrði á mæli hæstv. ráðherra að óvissa væri með mælingar og stofnmælingar og allt það. Er þá ekki undarlegt að vera síðan að úthluta veiðiheimildum upp á kíló í framhaldinu þegar svona mikil óvissa er og einnig að menn séu þá að færa jafnvel aflaheimildir landshorna á milli? Það er alveg ótrúlegt.

Ef menn eru í vandræðum með að meta vöxt dýrategunda og hvort nægilegt æti sé er besta ráðið að vigta einstaklingana. Í skýrslu Hafró kemur fram að einstaklingsvöxtur er mjög hægur og það ber með sér að fiskarnir hafa ekki æti. Mér finnst það ekki vera ný sannindi og ætti ekki að taka langan tíma að finna út.



[18:36]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra binda sig allt of mikið við rannsóknir í þessum efnum. Hann bindur sig við rannsóknir sem mun taka ár að framkvæma og kannski enn fleiri ár að vinna úr niðurstöðum og á meðan líður tíminn og ástandið versnar kannski.

Mér finnst að við hefðum ekki tapað neinu á því þó að við hefðum tekið þá ákvörðun að veiða hreinlega meira af ýsu við þessa aðför. Ég hefði gert það ef ég hefði verið í embætti sjávarútvegsráðherra, sem ég verð kannski vonandi einn góðan veðurdag, ég skal ekki segja um það. Ég hefði ákveðið að veiða meira af ýsu. Ég hefði tekið sénsinn á því. Ég held að við hefðum ekki tapað neinu á því, því það eru fleiri vísbendingar um að ýsan sé mjög sennilega að þurrka út sandsílastofninn, leggist á sandsílið, jafnvel sjúgi það af botninum, éti það úr botninum og komi jafnvel í veg fyrir nýliðun á sandsíli.

Ég hef líka séð í skýrslum Hafrannsóknastofnunar að meira að segja ýsan virðist glíma við mjög alvarlegan ætisskort. Það kemur mjög greinilega fram að meðalþyngd á ýsu hefur hrunið og í nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar er sagt að vöxtur ýsu hafi verið mjög hægur árið 2005 og meðalþyngd árgangsins frá 2003, sem er einn stærsti árgangur sem menn hafa nokkurn tíma séð, er sú minnsta sem sést hefur. Þetta segir mér náttúrlega að sá fiskur hefur það ekki mjög gott. Þá held ég að betra sé að veiða hann en láta hann vera áfram í hafinu. Það væri rannsókn í sjálfu sér að sjá þá hvort það mundi ekki leiða til þess að ef við aukum veiðiálag á ýsu muni sandsílastofninn braggast. Við svona aðstæður höfum við engu að tapa.

Hitt er svo annað mál að þegar svona mikið er af ýsu á slóðinni stóreykst sóunin við veiðarnar. Nýjasta brottkastsskýrsla Hafrannsóknastofnunar sýnir að brottkastið á ýsu er hreinlega allt of mikið og gersamlega óverjandi. En það er náttúrlega efni í aðra og alveg sérstaka umræðu.



[18:38]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að ekki eigi að bíða eftir þessum rannsóknum. Hv. þingmaður var einmitt að spyrja mig um hvort farið hefðu fram einhverjar rannsóknir á mögulegum tengslum ýsustofnsins umhverfis landið við niðursveiflu í sandsílastofninum. Svarið var að þær rannsóknir væru hafnar og svarið var líka það að ég vísaði til annarra rannsókna sem staðið hafa yfir frá árinu 2005 og velti því einmitt fyrir mér hvort sú staðreynd að sú rannsókn sem hafði farið fram á þeim tíma gæti ekki flýtt fyrir því að við gætum komist a.m.k. nálgun varðandi niðurstöður á þessum rannsóknum.

Það er út af fyrir sig alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að til greina kom að auka kvótann í ýsunni vegna þeirrar stöðu sem uppi er í ýsustofninum. Ég tók þá ákvörðun, eins og hv. þingmaður hefur væntanlega tekið eftir, að fara ekki eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar varðandi ýsuna. Tillaga Hafrannsóknastofnunar var sú að leggja til verulega minnkun eða talsverða minnkun á ýsukvótanum milli ára, ekki vegna þess að ýsustofninn væri slakur heldur töldu þeir að hámarksafraksturinn væri betri með því að fara varlegar í sóknina.

Ég komst að annarri niðurstöðu. Ég komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri við þessar aðstæður, m.a. vegna þess að um væri að ræða óvenjulega stóran stofn, að leggja til meiri hámarksafla í ýsu en Hafrannsóknastofnun hafði lagt til. Á vissan hátt var ég því að fara að ráðum hv. þingmanns þó ég væri ekki sérstaklega með þau í huga þegar ég tók þá ákvörðun, ekki svona sérstaklega. Ég hafði hlustað eftir ýmsum sjónarmiðum svipuðum hans sem og mörgum öðrum og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri og verjandi að auka hann. Þess vegna lagði ég til og ákvað raunar að hámarksaflinn í ýsunni yrði talsvert meiri en Hafrannsóknastofnun hafði lagt til og veit ég að það gleður hið góða hjarta hv. þingmanns.