133. löggjafarþing — 35. fundur
 24. nóvember 2006.
breyting á lögum á sviði Neytendastofu, 1. umræða.
stjfrv., 378. mál (áfrýjunarnefnd neytendamála, faggilding). — Þskj. 415.

[15:25]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum á sviði Neytendastofu sem er á þskj. 415.

Frumvarp þetta er tvíþætt. Annars vegar miða breytingar þær sem lagðar eru til að því að unnt verði að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Hins vegar eru lagðar til breytingar á tveimur lagabálkum sem nauðsynlegt er að gera vegna lagabreytinga sem gerðar voru á síðasta þingi þegar framkvæmd faggildingar var færð frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu með lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og þegar lög um vog, mál og faggildingu voru felld úr gildi með lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Áfrýjunarnefnd neytendamála var sett á stofn með lögum nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda, á árinu 2005. Til áfrýjunarnefndar neytendamála er nú hægt að skjóta stjórnvaldsákvörðunum Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og annarra laga sem heyra undir Neytendastofu og hafa að geyma heimild til málskots. Slíka málskotsheimild er nú að finna í lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, lögum um neytendalán og lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Í frumvarpi því sem nú er mælt fyrir er lagt til að málskotsheimild til áfrýjunarnefndarinnar verði sett í öll önnur lög sem Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd á, þ.e. lög um alferðir, lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, lög um rafrænar undirskriftir og lög um vörur unnar úr eðalmálmum. Jafnframt er lagt til í frumvarpi þessu að orðalagi áfrýjunarheimilda í lögum um neytendalán og lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu verði breytt til samræmis við orðalag heimildarákvæða þeirra sem lagt er til í frumvarpi þessu.

Breytingin er lögð til þar sem mikilvægt er talið að unnt sé að skjóta ákvörðunum stofnunarinnar til æðra stjórnvalds, en margar ákvarðanir Neytendastofu varða einstaklinga sem neytendur og er því mikilvægt að þeir hafi aðgang að ódýrri, skilvirkri og einfaldri leið til að fá ákvarðanir stofnunarinnar endurskoðaðar.

Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði í þá lagabálka sem ekki hafa slík ákvæði nú þess efnis að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu.

Hæstv. forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[15:30]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að tala um frumvarp um breytingu á lögum á sviði Neytendastofu. Það er sagt að markmiðið með frumvarpinu sé tvíþætt. Annars vegar séu lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laga um Neytendastofu sem hún hefur eftirlit með framkvæmd á. Þar á að miða breytingar að því að unnt sé að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Í annan stað eru lagðar til breytingar sem varða færslu á framkvæmd faggildingar frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu.

Hér er auðvitað um mjög mikilvægt mál að ræða. Neytendamálin í heild sinni ættu að mínu mati að vega þyngra í pólitískri umræðu en þau gera núna. Allir landsmenn eru jú neytendur og mér finnst að hagsmunir neytenda þurfi oft að lúffa fyrir hagsmunum annarra hópa, svo sem Bændasamtakanna, eins og við þekkjum úr umræðu um hvort samkeppnislög eigi að gilda um landbúnaðinn eða ekki.

Í því máli er grundvallarmunur á afstöðu Samfylkingarinnar annars vegar og ríkisstjórnarflokkanna hins vegar sem við tókumst á um fyrr í haust. Þar er Samfylkingin sammála talsmanni neytenda um að, að sjálfsögðu sé það í hag neytenda og í raun í hag bænda einnig, að innleiða samkeppni á landbúnaðarmarkaðnum eins og öðrum á mörkuðum. En þótt þetta sé ekki efni þess frumvarps sem nú er til umræðu undirstrikar það samt að við þurfum að ræða oftar um neytendamál.

Hér er verið að bæta inn, eins og mér skilst, heimild til að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála og í sjálfu sér er það jákvætt. Við höfum þá meginreglu í stjórnsýslu okkar að stjórnvaldsákvörðunum er hægt að skjóta til æðra stjórnvalds nema í algerum undantekningartilvikum og síðan er dómstólaleiðin að sjálfsögðu alltaf fær. En á meðan það er áfrýjunarleið þá ber mönnum að nýta sér hana.

Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort áfrýjunarheimild sé ekki heimil samkvæmt þeim lögum sem nú gilda. Og er það þá rétt skilið að þeim ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli þeirra laga sem hér eru talin upp hafi ekki verið hægt að áfrýja til áfrýjunarnefndar samkeppnismála? Eða hafa menn stuðst við einhverja aðra almenna heimild annars staðar í lagasafninu? Er hér verið að bæta áfrýjunarleiðina eða er einfaldlega verið að setja hana í þá lagabálka sem hér eru taldir upp?

Sé þessi áfrýjunarheimild ekki til staðar núna og verið sé að bæta úr því, sem er auðvitað jákvætt, þá má væntanlega gera ráð fyrir að málum muni fjölga hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála. En hins vegar er ekki gert ráð fyrir neinum auknum kostnaði fyrir ríkissjóð verði þetta frumvarp samþykkt. Mig langar því að spyrja hvort ekki megi gera ráð fyrir því að kostnaður við áfrýjunarnefnd samkeppnismála muni aukast ef málum muni fjölga í ljósi þess að hægt verður að skjóta fleiri ákvörðunum Neytendastofu til viðkomandi nefndar.

Við sjáum að hér er sett inn áfrýjunarheimild í lagabálka sem geta snert ýmiss konar viðskipti og mjög fjölbreytileg viðskipti. Við erum að tala um breytingu á lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga og breytingu á lögum um rafrænar undirskriftir. Og breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Þetta eru allt lagabálkar sem í eðli sínu geta snert ýmiss konar viðskipti. Væntanlega þegar tíminn líður munu ákvarðanir Neytendastofu vera að einhverju leyti á sviði þessara laga. Því er einboðið að mínu viti að málum muni fjölga, þ.e. að því gefnu að hér sé verið að bæta inn alveg nýrri áfrýjunarheimild.

Mig langar því að spyrja varðandi kostnaðinn hvort það sé ekki skammsýni að gera ráð fyrir að enginn kostnaður muni hljótast af þessu frumvarpi. Mig langar einnig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort það standi til að efla með einhverjum hætti áfrýjunarnefndina til lengri tíma og um leið sömuleiðis að efla Neytendastofu og embætti talsmanns neytenda.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra, fyrst við erum að ræða þetta mál, hvernig reynslan af Neytendastofu og talsmanni neytenda sem tók til starfa árið 2005, með lögum frá 2005, hafi verið. Hvort reynslan hafi ekki verið hreint með ágætum og hvort við þurfum að hafa þá langtímasýn að jafnvel efla og fjölga mannafla hjá Neytendastofu og hjá talsmanni neytenda. Og hvort hann deili þeirri skoðun með mér að við eigum heldur að ýta undir starfsemi þessara eftirlitsaðila frekar en hitt.



[15:34]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ágætar undirtektir og vandaðar spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram. Eins og segir í fylgiskjali með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð af innleiðingu þessa frumvarps og gera má ráð fyrir því að það verði sparnaður fyrir dómstóla að einhverju leyti við það að menn nýti meira þá leið að skjóta málum til áfrýjunarnefndar.

Eins og þetta er núna eru heimildir fyrir hendi til að skjóta stjórnvaldsákvörðunum Neytendastofu sem miðast við eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gegnsæi markaðarins og við nokkur önnur lög einnig til áfrýjunarnefndar.

Frumvarpið gerir sem sagt ráð fyrir því að auka heimildir neytenda að verulegum mun. Það kemur fram hvaða lög þar er um að ræða, ég þarf ekki að telja þau upp aftur því ég gerði það áðan.

Hér er sem sagt um það að ræða að styrkja mjög heimildir og möguleika neytenda til þess að skjóta málum til úrskurðarnefndarinnar og fá þar tiltölulega skjótan málefnalegan úrskurð á mál sín eða vafaefni. Ég held ótvírætt að það sé réttarbót að því fyrir neytendur almennt.

Eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá hefur starfsemi Neytendastofu og talsmanns neytenda gengið mjög vel. Þar hafa menn auðvitað verið að vinna í ýmsum fyrstu verkum og skipulagsverkefnum eftir þær breytingar sem orðið hafa á lögum og reglum um þessi málefni og þessar stofnanir. En ég hef ekki orðið var við annað en að það hafi gengið ágætlega og hafi skilað allgóðum árangri að svo miklu leyti sem forsendur eru til að æskja árangurs þegar í stað, eftir svo stuttan tíma. En ég þakka undirtektir.



[15:37]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. viðskiptaráðherra. Hér er um að ræða réttarbót, þ.e. við erum að skjóta hér, ef ég skildi hæstv. viðskiptaráðherra rétt, stoðum undir þá heimild að það ætti að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Ég held ég hafi mismælt mig og kallað þetta áfrýjunarnefnd samkeppnismála. En þetta er að sjálfsögðu önnur nefnd, áfrýjunarnefnd neytendamála. Svo það komi hér fram.

En ég tók ekki eftir því hvort hæstv. viðskiptaráðherra kom inn á hugsanlega aukinn kostnað nefndarinnar. Fyrst hæstv. viðskiptaráðherra telur að þetta muni jafnvel leiða til sparnaðar fyrir dómstóla og fjölga málum til þessarar nefndar, þá hlýtur kostnaðurinn að aukast við viðkomandi nefnd.

Því langar mig að spyrja aftur í þessu andsvari hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann ætli að mæta þeim aukna kostnaði með einhverjum hætti. Eða hvort hann telji það svigrúm vera fyrir hendi hjá áfrýjunarnefndinni nú þegar, að hún sé í stakk búin til að mæta þessari fjölgun mála. Síðan væri jafnvel fróðlegt að heyra, þ.e. ef hann hefur það á takteinunum, hversu fjölmenn nefndin er nú þegar og hvað hún kostar í dag.



[15:38]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef reyndar ekki almennileg svör við þeim spurningum sem nú voru lagðar fram. Ég hef skilið það svo að úr því að ekki verður aukinn kostnaður ríkissjóðs, þá sé gert ráð fyrir því að þarna sé um einhver mörkuð gjöld að ræða sem séu fyrir þjónustu nefndarinnar og þá greidd af öðrum aðilum.