133. löggjafarþing — 42. fundur
 6. desember 2006.
rannsóknir á sandsíli.
fsp. MÁ, 201. mál. — Þskj. 202.

[15:17]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Svo vill til að í svari umhverfisráðherra í síðustu ræðu kom eiginlega fram inngangur að fyrirspurninni sem ég ber nú upp. Hæstv. umhverfisráðherra sagði að engar sandsílismælingar væru til sem hægt væri að nota til að bera saman milli ára og gefa grunn undir vísindalegar tilgátur um samhengið milli ástands sandsílis og sjófugla eða þeirra nytjastofna í sjó sem á sandsílinu lifa.

Í fréttum í sumar kom fram að Hafrannsóknastofnun gerði í fyrsta sinn út leiðangur til að kanna vöxt og viðgang sandsílis, sem ég spái að verði tíðræddara í þessum sölum en verið hefur hingað til. Þess vegna lagði ég í haust fram fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra um hverjar væru helstu niðurstöður sandsílisrannsókna þeirra sem Hafrannsóknastofnun hóf í sumar.

Mig langar að bæta við spurningu mína: Hver er þáttur Hafrannsóknastofnunar, ef ráðherra er kunnugt um það, í samstarfi Náttúrufræðistofnunar og Háskóla Íslands um sjófuglarannsóknir? Þær hljóta að nýtast Hafrannsóknastofnun til að kanna sandsíli og aðra fiska þótt það sé þvert á þann sið Hafrannsóknastofnunar, sem er athyglisverður og kannski ámælisverður líka, að einbeita sér að könnun á nytjastofnum einum saman án þess að vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar sé gert kleift að gera sér og okkur grein fyrir samhenginu í lífkeðju hafsins. Þó hafa ýmsir haft miklar fullyrðingar um þetta samhengi, þar á meðal sjávarútvegsráðherra sjálfur, vegna áforma sem hann hefur um veiðar á nytjastofnum, þegar honum hentar og honum þykir þörf á.



[15:19]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um helstu niðurstöður sandsílisrannsókna sem hafnar voru í sumar á vegum Hafrannsóknastofnunar og hefst nú fyrirlestur um sandsílistegundir.

Hér við land eru þrjár tegundir af sandsílisætt: sandsíli, marsíli og trönusíli. Sandsíli finnst aðeins á grunnu vatni við fjörur sunnan og suðvestan lands. Hámarkslengd þess er um 20 sentímetrar og er það mjög líkt marsíli að ytra útliti og þarf að telja hryggjarliði til að greina tegundir í sundur.

Marsíli er langalgengasta sandsílistegundin hér við land og lifir á 10 til 150 metra dýpi en er algengast á 30 til 70 metra dýpi og finnst allt í kringum landið þótt það sé algengast sunnan og suðvestan lands. Hámarkslengd þess er 25 sentímetrar.

Trönusílið finnst eins og sandsílið aðeins sunnan og suðvestan lands. Hámarkslengd þess er talsvert meiri en hinna tegundanna eða 38 sentímetrar og er ekki eins algengt. Eins og nafnið á ættinni segir til um lifa síli á sandbotni. Sú hefð hefur skapast að tala um sandsíli sem samheiti yfir sand- og marsíli. Rannsókn Hafrannsóknastofnunar sem hv. þingmaður vék að á síðastliðnu sumri beinist hins vegar að langmestu leyti að marsíli.

Farið var í sandsílisleiðangur á Gæfu VE11 þann 3. júlí og stóð hann til 18. júlí. Farið var á fjögur svæði, Breiðafjörð, Faxaflóa, Vestmannaeyjar að Vík og Ingólfshöfða. Þessi svæði voru valin með það í huga að síli eru háð ákveðinni gerð búsvæða eftir fyrsta sumar og eru fremur staðbundin. Ræður botngerð þar mest um en þau vilja vera á sandbotni með minna en 10% leir. Notað var flottroll sem togað var með frá yfirborði og niður á botn. Einnig var notaður plógur til að ná í síli af botni þegar síli var ekki aðgengilegt í troll.

Enn er unnið að úrvinnslu gagna svo sem aldursgreiningu afla en bráðabirgðaniðurstöður út frá lengd sílis eru þessar. Talsvert fannst af síli á öllum svæðum nema Vestmannaeyjum að Vík. Mjög lítið sást af smærra síli, 8–11 sentímetrum sem helst má vænta að sé árs síli. Þetta bendir til þess að hrygning hafi misfarist á síðasta ári og nýliðun þar með brugðist.

Nokkuð fannst af seiðum frá því í vor og voru þau stærstu farin að taka botn en lengdarbil seiða eru á bilinu 4–7 sentímetrar. Mest fannst af seiðum í Breiðafirði. Þar voru seiðaflekkir í yfirborði. Magn seiða er minna en fannst í sílisrannsóknum 1998 en ekki er þó hægt að segja til um nýliðun þessa árs með neinni vissu fyrr en á næsta ári. Hlutfall tveggja eða þriggja ára sílis á aflanum var hærra nú en árið 1998, þ.e. stærðin 12–18 sentímetrar, en svipað af fjögurra ára síli, 16 sentímetrar, og eldri.

Einkennandi var á öllum svæðum að síli var lítið á ferðinni meðan rannsóknin fór fram og hélt sig að mestu grafið í sandbotn. Í þeim togum sem gáfu síli fékkst yfirleitt aðeins lítið af því. Aðeins við Ingólfshöfða var vart við síli í verulegu magni í sjó. Þar fengust í einu togi tvö tonn af síli, aðallega tveggja ára og eldra, og var meðafli aðallega ýsa og lýsa.

Þéttleiki var talsverður í botni þar sem dregið var með plóg nema þá við Vestmannaeyjar að Vík. Ástandið þar virðist mun verra en á hinum svæðunum og þar fékkst lítið af síli.

Þar sem um er að ræða fyrsta leiðangur í vöktun á síli er erfitt að meta magn á rannsóknarsvæðinu og ekki fæst mælikvarði á það fyrr en eftir að svæðin hafa verið vöktuð í nokkur ár enda byggir aðferðin á að mæla hlutfallslegar breytingar. Færri tog gáfu sílisafla en í rannsókninni 1998 sem bendir til þess að sílið sé minna í sjó nú en þá. Það getur bent til þess að magn sílis sé minna og/eða sílið sé af einhverjum ástæðum öðrum minna á ferðinni nú en þá.

Ekki er hægt að benda á einn þátt sem skýrt gæti hvers vegna nýliðun hafi brugðist árið 2005 og ekki er hægt að segja til um áhrif þess á stofninn fyrr en vöktun hefur staðið í nokkur ár.

Tími frá hrygningu hjá marsíli til þess er seiði taka botn er langur. Hrygning hefst í lok október og stendur fram að áramótum. Eggin eru botnlæg og byrja að klekjast í mars eða apríl. Seiðin eru sviflæg í tvo til fjóra mánuði og myndbreyting verður við 35–55 millimetra lengd. Þetta stendur frá því í október og fram í júlí árið eftir.

Þar sem sjófuglar nýta aðallega eins árs síli, einkum á varptíma, er líklegt að nýliðunarbrestur í síli einstök ár geti haft mikil áhrif á sjófugla. Nýliðunarbrestir einstök ár hafa hins vegar minni áhrif á fisk þar sem hann nýtir sér fleiri aldurshópa sílis.



[15:24]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi að vekja athygli á því að við ræddum þetta mál í fyrirspurnatíma fyrir ekki löngu síðan, við hæstv. sjávarútvegsráðherra, þ.e. um sandsílastofninn.

Mig langaði aðeins að halda áfram með þær fullyrðingar eða kenningar sem við höfum haldið á lofti, ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson. Ástæðan fyrir því að sandsílið er svo veikt núna er fyrst og fremst sterkur ýsustofn. Það sem gerðist var að alls staðar í Norður-Atlantshafi komu fram gríðarsterkir árgangar af ýsu á árunum í kringum og upp úr 2000. Þetta gerðist við Ísland, í Barentshafi, í Norðursjó, við Færeyjar og líka við austurströnd Kanada.

Við vitum í raun ekki hvað ræður þessu. En eitthvað í náttúrunni gerir það að verkum að skyndilega verður sprenging í ýsustofninum alls staðar, nánast á sama tíma. Það er merkilegt en það er þetta sem gerist.

Ýsan fer yfir, étur upp sandsíli, kemur í veg fyrir nýliðun, étur upp litlu sílin og þannig hrynur sandsílastofninn. Þessu ástandi linnir ekki fyrr en ýsustofninn fer að minnka á nýjan leik. Ég spái því.



[15:25]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel að um mjög áhugaverða umræðu sé að ræða vegna þess að málið snýst um stofna sem við nýtum ekki, sem við veiðum ekki. En í umræðunni um stjórn fiskveiða tala ráðamenn og jafnvel sumir vísindamenn eins og maðurinn einn hafi áhrif á stærð og afkomu stofna.

Við sjáum það í því þegar menn velta fyrir sér hvort 200.000 tonna veiði eða 205.000 tonna veiði skipti öllu máli. Það er af og frá ef við lítum á þær stærðir sem eru í náttúrunni. Þá sjá menn að veiðar mannsins skipta mjög litlu máli.

Bara hrefnustofninn étur meira sjávarfang heldur en landsmenn sækja. Hrefnustofninn við Íslandsmið étur mun meira en landsmenn veiða allt árið í kringum Ísland. Það að telja (Forseti hringir.) að einungis veiðar mannsins ráði úrslitum um stærð og afkomu stofna, menn ættu að setja spurningarmerki við það.



[15:26]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ekki er ég algerlega sammála síðasta hv. ræðumanni. Ég tel einmitt að veiðar mannsins hafi áhrif á sandsílastofninn. Það kom t.d. fram í ágætri ræðu hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að ýsumergð sé líkleg til að draga bæði úr afkomu sandsílis og höggva skörð í raðir sílanna, sem aftur er töluvert nauðsynleg fæða, t.d. fyrir fugl.

Ég er þeirra skoðunar að ein leið til að ráða bót á þessu og bjarga hag sjófuglanna væri að auka veiðar á ýsu. Þá kem ég að því sem ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól. Ég er þeirra skoðunar, í ljósi þess að menn hafa ekki fullnýtt ýsukvótann og orðið hefur gríðarleg aukning á ýsu við Ísland og víðar, að hæstv. ráðherra eigi að berjast fyrir því að gefa ýsuveiðarnar frjálsar til reynslu í einhver ár. Er ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra sammála mér um það?



[15:28]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Enn leiðist umræðan að ýsustofninum. Ég skal ekki verða þrándur í götu þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra fái þær athugasemdir beint í æð og svari þeim. Ég þakka honum að öðru leyti fyrir snjallt svar sem þarf að íhuga í betra næði þegar það birtist í þingtíðindum á pappír eða á tölvuskjám.

Ég held að niðurstaða okkar hljóti að vera sú að við eigum að auka rannsóknir á sandsílinu og annarri þeirri fæðu sem sjófugl og nytjafiskur étur við ströndina. Það vakti athygli að í svari ráðherrans kom fram að rannsóknir á sjófugli gætu orðið gagnlegar fyrir fleiri en áhugamenn um sjófugl og jafnvel af öðrum ástæðum en þeim að kanna lífríkið við ströndina og í björgunum. Vistkerfið sem sjófuglinn lifir í er að sínu leyti einfaldara en við mætum í hafinu.

Eftir því sem maður hlustar á fleiri sjávarlíffræðinga og fiskifræðinga þeim mun sannfærðari verður maður um að við vitum enn þá mjög lítið um það sem gerist í hafinu, samhengið milli allra þeirra stofna sem þar eru. Það á þó ekki að leiða okkur til glannalegra ályktana í eigin hag, svo sem um að óhætt sé að veiða stofna vegna þess að þeir valdi skaða, hvort sem þar er um ýsuna eða hvalinn að ræða.

Ég hvet til aukinna rannsókna á þessu sviði og spyr enn um þátt Hafrannsóknastofnunar (Forseti hringir.) í sjófuglarannsóknum sem nýhafnar eru.



[15:30]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa ágætu, efnislegu umræðu um býsna flókið mál. Fyrir hálfum mánuði ræddum við svipað mál. Þá var sá sem hér stendur eini þingmaðurinn sem ekki var með líffræðipróf í salnum þann daginn og nú bættist einn líffræðingurinn í hópinn við þessa umræðu og er auðvitað heilmikið skjól að vita til þess að íslenskufræðingur var hér til þátttöku í umræðunni og sýnir það að stríð eru of mikilvæg til þess að láta hershöfðingjunum þau ein eftir og þannig er líka með líffræðina. Þau fræði eru of mikilvæg til þess að láta líffræðingunum þau ein eftir.

Hitt er það að í fyrsta lagi spurði hv. þm. Mörður Árnason hvort um væri að ræða samstarf milli Hafrannsóknastofnunar og annarra rannsóknastofnana í landinu um þennan þátt málsins. Án þess að geta svarað því til hlítar vil ég vekja athygli á að í því svari sem ég veitti fyrir hálfum mánuði um skylt mál kom fram í gögnum sem ég hafði þá undir höndum frá Hafrannsóknastofnun að vísað var einmitt í rannsóknir Arnþórs Garðarssonar á þessu samspili. Mér sýnist því að menn taki mark á og taki tillit til rannsókna sem fara fram í landinu og er sjálfsagður hlutur.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson talaði um áhrif veiða mannsins og að menn gerðu of mikið úr þeim þætti. Ég held að enginn haldi því fram að ekki þurfi að horfa til fleiri þátta en bara veiða mannsins og enginn, held ég, sem hefur verið að tjá sig um þessi mál sem er í sjálfu sér að gera lítið úr því.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvort ég væri til í að auka veiðar á ýsu vegna þeirrar umræðu sem hérna fór fram og gera þær frjálsar. Ég vil vekja athygli á því að ég tók ákvörðun um að fara verulega fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi heildaraflamark í ýsu sem gefur færi til þess að auka veiðarnar í ýsu og varð til þess að um var að ræða meiri ýsuveiði, m.a. vegna þess að smábátarnir tóku hluta af kvóta stærri skipanna. Út af fyrir sig var heildaraflamarkið í ýsu ekki neinn flöskuháls í þessum efnum.

Ég tek undir það að lokum með hv. þm. Merði Árnasyni að auðvitað þarf að auka rannsóknir og halda þeim áfram þannig að við getum fengið (Forseti hringir.) þessa röð sem menn þurfa til samanburðar á einstökum árum.



[15:32]Útbýting: