133. löggjafarþing — 44. fundur
 7. desember 2006.
Ríkisútvarpið ohf., frh. 2. umræðu.
stjfrv., 56. mál (heildarlög). — Þskj. 56, nál. 500 og 558, brtt. 501.

[13:32]
Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (frh.):

Forseti. Þar var komið máli mínu að ég hafði lokið við að lesa nefndarálit minni hluta menntamálanefndar um það frumvarp sem hér liggur fyrir í 2. umr., frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. Ég ætlaði að nota tímann til að fara yfir það nýtt sem er í málinu og kannski rifja upp nokkur atriði frá fyrri umræðu um frumvarpið ef ástæða er til. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að fleiri ætla að tala hér í dag og að þessi umræða er samkomulagsbundin að því leyti að menn í þinginu hafa tekið sig saman um að ljúka henni á tilteknum tíma. Það er líka nægur tími til að fara yfir málið í 3. umr. sem fyrirhuguð er eftir jól einhvern tíma, ef hún þá fer fram, og eins og ég sagði í byrjun má gera ráð fyrir því að þunginn í umræðunni um þetta máli verði í 3. umr. og ekki í þeirri 2. sem hér fer fram þar sem menn láta sér kannski nægja að fara lauslega yfir helstu atriði.

Ég vil taka fram að það er ákveðin verkaskipting milli okkar stjórnarandstæðinga í menntamálanefnd í þessari umræðu. Aðrir taka það hlutverk að sér að fjalla hér einkum um réttindamál starfsmanna, nefskattinn og fjármögnunarleiðir aðrar sem ég ætla að láta mér nægja að hafa, a.m.k. að mestu, þau ein orð um sem fram komu í nefndarálitinu áðan.

Í nefndarálitinu voru talin þrjú atriði sem væru með einhverjum hætti ný í þessu frumvarpi og í þeirri umræðu sem um það hefur staðið. Það er sjálfsagt að fara yfir þau. Ég ætla ekki að fara yfir þau í þeirri röð sem voru talin í nefndarálitinu heldur annarri, og þá byrja hér á þjónustusamningsdrögum þeim sem menntamálaráðherra og útvarpsstjóri komu sér saman um með einhverjum hætti og kynntu á frægum blaðamannafundi í útvarpshúsinu við Efstaleiti þar sem þau sátu tvö í settinu, sem svo er kallað í fagslangri fréttamanna — ég man ekki hvort það var nýja settið eða gamalt sett — nefnilega borðin sem setið er við þegar fluttar eru fréttir. Þau tóku sig þar vel út og voru sæt saman.

Þjónustusamningsdrögin eru merkilegt plagg að sínu leyti, og sjálfsagt að geta þess í upphafi sem vel er gert þar því að þar er ýmislegt ágætlega gert. Helstu atriði þessa þjónustusamnings, þau sem helst hafa verið uppi, eru þau að samkvæmt þessum drögum skuldbindur útvarpið sig til að auka hlut innlendrar dagskrár á kjörtíma eins og áður er tekið fram og þar er talað um að það verði talsverð aukning sem Páll Magnússon nefnir svo, að sú aukning nemi klukkutíma á hverju kvöldi, og síðan er líka talað um að talsverður hluti af þessari aukningu verði frá sjálfstæðum framleiðendum.

Skilgreiningar á þessum hlutum sem flestir láta nægja að skilja beinum skilningi, „sjálfstæður framleiðandi og innlend dagskrá“, eru nokkuð á reiki og hafa verið á reiki hjá menntamálaráðuneytinu og hjá Ríkisútvarpinu. Það er að vísu að komast aðeins gleggri skilningur á það en áður var sem breytir t.d. þeim tölum sem Ríkisútvarpið hefur áður haft í frammi um innlenda dagskrá. Ríkisútvarpið er hætt að telja það innlenda dagskrá að sýna t.d. knattspyrnuleik að utan, láta lýsa honum og hafa síðan fimm mínútur á undan og fimm mínútur á eftir og telja þetta allt saman innlenda dagskrá. Það mun vera aflagt núna en enn er auðvitað innlend dagskrá reiknuð að fullu þegar talað er um þætti eins og Nýjustu tækni og vísindi eða fréttir og fréttatengt efni sem byggist bæði á innlendu og erlendu efni. Þegar þetta er komið í þátt sem kallaður er einhverju nafni og með einhverjum hætti framleiddur telst það allt saman vera innlend dagskrá. Þegar því er við bætt að samkvæmt upplýsingum sem fram komu í nefndarálitinu frá Páli Magnússyni og úr þeim tölum sem gefnar eru upp sem aukinn kostnaður, sem er kostnaður við þjónustusamning, má draga ályktun af þeim um það hvers konar innlend dagskrá hér verði á ferðinni. Um er að ræða, eins og áðan kom fram, 400 millj. kr. aukningu í dagskrárgerð á þeim lið sem heitir „Aukið dagskrárefni, kostnaður við þjónustusamning“ og á að skilja sem innlenda dagskrá eins og hún er hér skilgreind, þar af að einhverju leyti efni frá svokölluðum sjálfstæðum framleiðendum. Þetta eru 400 millj. og það jafnast á við það að u.þ.b. milljón af þessu fé fari í klukkutíma.

Það er rétt að gera sér grein fyrir því um hvað er að ræða af því að við erum að tala hér um þennan þjónustusamning og af því að af honum er nokkuð gumað. Miðað við núverandi verð þarf u.þ.b. 15 millj. kr. fyrir klukkutíma af heimildarmynd og er þá miðað við núverandi verðlag og núverandi kjör á þeim markaði. Réttur fyrir bíómynd sem áður hefur verið sýnd og má kannski segja að sé „notuð“ að því leyti að hún hefur farið í kvikmyndahús og verið jafnvel á myndbandamarkaði kostar fyrir eitt skipti líka u.þ.b. 15 millj. kr. Þetta þykir vera mjög lágt verð þannig að menn geta ímyndað sér hvað fæst fyrir 1 millj. kr., og er ég þó ekki að lasta það efni. Þar er um að ræða á fagmáli þeirra sem hér um véla svokallað magasínefni og það tiltölulega ódýrt magasínefni, sófaþætti sem ekki þurfa að vera slæmir en eru kannski ekki mjög metnaðarfullir, án þess að farið sé út fyrir hús eða innslög tekin inn í það sem kosta annað en vélamenn og þáttastjórnendur í stúdíói. Áðan lýsti ég þáttum eins og Nýjustu tækni og vísindum og fleiri slíkum þáttum sem eru alveg prýðilegir en geta ekki kallast metnaðarfull innlend dagskrá.

Að þessu er auðvitað fundið víðar. Samtök kvikmyndaframleiðenda, kvikmyndaleikstjóra og kvikmyndafólks sem einnig framleiðir sjónvarpsefni hafa kvartað undan skilgreiningunum og talið ekki nægilegt hald í þessum þjónustusamningi. Fyrir utan þá ágætu umsögn barst okkur sérstök umsögn frá Önnu Th. Rögnvaldsdóttur kvikmyndaleikstjóra, handritshöfundi og fróðleiksmanni miklum um kvikmyndagerð þar sem þjónustusamningsdrögunum er fagnað að sínu leyti en þau líka gagnrýnd og gerð sú tillaga sem ég vona að menntamálaráðherra og útvarpsstjóri taki mark á ef þau klára einhvern tíma þennan þjónustusamning sem ég vona líka að verði — þó að hann verði kannski ekki um RÚV ohf. — að í samningnum verði sett fram skýrt skilgreint markmið um magn efnis en ekki það losaralega orðalag sem nú er raunin, t.d. að menn skilgreini hvað hér er átt við marga klukkutíma af leiknu sjónvarpsefni á ári. Það hefur helst skort á undanfarin ár í sjónvarpinu að það hafi haft dug í sér til að vera með leikið efni, sem er auðvitað dýrt. Hún mælist líka til skilgreiningar á því hvernig eigi að skipta þessu upp þannig að menn sjái svart á hvítu hver metnaður er á bak við þau samningsdrög sem um er að ræða.

Hvernig eiga þessar 400 millj. að verða til? Það er ekki mjög ljóst, hvorki í þjónustusamningsdrögunum né í þeim tölum sem koma fram frá Ríkisútvarpinu og menntamálaráðuneytinu og eru birtar í skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings sem ég er hér með og er opinbert plagg frá 28. nóvember 2006. Þess verður að geta hvað varðar tölurnar um annan kostnað að formaður matsnefndarinnar segir að þær séu teknar beint úr plöggum og bréfum frá Ríkisútvarpinu og menntamálaráðuneytinu og vísar frá sér allri ábyrgð á þeim tölum í sjálfu sér. Þeir hafa ekki lagt neitt sjálfstætt mat á þessar tölur, t.d. um þessar 400 millj. og þær aðrar tölur sem þarna eru sem vissulega er aukning um 10 millj. á ári í neti og textavarpi, hvort sem það stenst eftir breytingarnar á auglýsingunum, eftir þá breytingu sem verður gerð að útiloka auglýsingar á netinu, og síðan 30 millj. sem menn hljóta að gleðjast yfir um yfirfærslu á safnaefni og starfskynningu. Þetta á allt saman að kosta þegar fullur gangur er á u.þ.b. 420–450 millj. á ári.

Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Ja, þeim á að mæta að töluverðu leyti með einu orði sem hér er skráð í þessa töflu um kostnað við þjónustusamning, nefnilega „hagræðingu“. Hagræðing á að afla verulegs hluta þessa fjár og árið 2011, eftir 4 ár, þegar aukið dagskrárefni er komið í það hámark sem á að vera samkvæmt þessum þjónustusamningsdrögum, nemur hagræðingin 200 millj. Aukið dagskrárefni á að kosta 400 millj., og 200 af þeim milljónum á að fá með hagræðingu.

Hvernig á annar kostnaður að koma þarna? Ja, það er eins og matsnefndin, fulltrúar Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins, reikni með að það gerist einhvern veginn og komi honum þannig inn í svokallaða rekstraráætlun sem verður fjallað um betur síðar í dag, hygg ég. Rekstraráætlun Ríkisútvarpsins 2007–2016 fær ósköp einfaldlega að koma inn með auknum tekjum sem þeir reikna með að aukist um 1% á ári, bæði vegna ætlaðrar fjölgunar — þeir ætla sem sé að fjölga Íslendingum þannig að tekjurnar af nefskattinum aukist um 1% á ári — og að tekjur af auglýsingum og kostun muni líka aukast um 1% á ári. Allar tekjur aukast um 1%. Launaútgjöld eiga hins vegar ekki að aukast nema um 0,8% svo að með einhverjum hætti verða þessar 220–250 millj. til af holdi Ýmis, því holdi sem lýst er í rekstraráætluninni. Þar kvikna þessar 220 millj.

Við í menntamálanefnd rákum okkur sérstaklega á þetta orð, hagræðingu, og þær tölur sem þar eru nefndar. Fyrsta árið, 2007, á að hagræða fyrir 15 millj., næsta ár, 2008, 66 millj., 2009 121 millj. í hagræðingu, 2010 164 millj. og síðan 200 millj. upp frá því. Þetta er mjög nákvæmlega tiltekið, upp á milljón, og má þakka fyrir að væri ekki upp á hundruð þúsunda eða jafnvel krónur. Eins og áður er getið spurðum við fulltrúa matsnefndarinnar sem er ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, hvort hann vissi eitthvað um þessa hagræðingu. Hann taldi að hann vissi það ekki og hafði ekki lagt neitt mat á það og taldi það ekki þurfa, þetta væru fyrirheit Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins. Við spurðum síðan bæði fulltrúa menntamálaráðuneytisins og ekki síst Pál Magnússon útvarpsstjóra. Svörin voru frekar þunn um þá hagræðingu, þetta væri svo og svo mikil prósenta af heildarútgjöldum Ríkisútvarpsins á ákveðnu árabili og hægur leikur að ná því. Við spurðum með hverjum hætti því yrði náð. Engin svör voru við því gefin. Páll rakti að vísu að reiknað væri með að starfsmönnum fækkaði af sjálfsdáðum og yrði þá ekki ráðið í stöður þeirra en gat ekki svarað frekar til um það með hvaða hætti starfsmannaþróunin yrði hjá Ríkisútvarpinu.

Hann nefndi líka að hugsanlegt væri að Ríkisútvarpið stofnaði sameiginlegt fyrirtæki um ýmsa hluti sem sjálfsagt er að gera, um leikmyndir, búninga og því um líkt. Ég tel, með venjulegum fyrirvara, sjálfsagt að beita sér fyrir slíku, reyna það í samstarfi við aðra framleiðendur á markaði, aðra framleiðendur sjónvarpsefnis og jafnvel leikhúsin að einhverju leyti ef það er hægt, en það þarf ekki þjónustusamningsdrög til þess, ekki hlutafélag eða lagabreytingar yfir höfuð, hygg ég. Það er hægt að gera það með einföldum hætti.

Ekkert var annað ljóst um þessar fyrirtækishugmyndir en að þær væru fram komnar. Þær geta í sjálfu sér ekki valdið 200 millj. kr. hagræðingu á ári eftir árið 2011 þannig að sú hagræðing sem hér er talað um er í raun og veru aðeins fyrirheit, orðin tóm að því leyti að ekkert fylgir þeim á borði, engin áætlun, áform, engar hugleiðingar eða útreikningar aðrir en þeir að þetta passar furðu vel í kostnaði við þjónustusamning sem síðan framleiðir tölur sem passa ágætlega inn í rekstraráætlun þá sem matsnefndin stofnaði um efnahagsreikning og birtir að lokum í skýrslu sinni. Þær tölur sem liggja fyrir um kostnað við þjónustusamning eru í raun og veru reiknings… — nú vil ég ekki nota of vond orð — eru í raun og veru útreikningur miðað við tilteknar forsendur, og þessum útreikningi er ætlað að passa við dæmi sem upp er sett um það að Ríkisútvarpið verði rekið með hinum ágætasta brag næsta áratuginn. Ég vona að svo verði en þetta vekur spurningar og satt að segja grunsemdir um það að menn viti ekki enn þá og hafi ekki gert sér grein fyrir því í fyrsta lagi hvers konar efni hér er um að ræða sem loforð eru um í þjónustusamningnum og í öðru lagi með hvaða hætti eigi að afla fjár til þess. Það er ljóst af þessu að helmingurinn af þeim 400 millj. sem aukið dagskrárefni, sem er væntanlega annað orð um hina innlendu dagskrá, þar á meðal innlenda dagskrá sem framleidd er af sjálfstæðum framleiðendum, á að kvikna með einhverjum hætti í 1% fjölgun landsmanna, og hinn helminginn á að fá með hagræðingu sem enginn veit hvernig verður.

Auðvitað dettur manni í hug, eins og áður er sagt, að annars vegar sé um að ræða hagræðingu sem beinlínis fellur til með hörðum niðurskurðaraðferðum á næstu missirum og uppsögnum þar sem hægt væri auðvitað að spara með einhverjum hætti með því að leggja niður deildir, fækka verulega störfum í mikilvægum deildum Ríkisútvarpsins, sjónvarpi eða jafnvel hljóðvarpi, og þá dettur manni strax í hug Rás 1 vegna þess að samkvæmt markaðshugsun er Rás 1 eiginlega óþörf. Hún aflar ekki mikilla auglýsinga ein og sér og þar eru ýmsar deildir, tónlistardeild, leiklistardeild o.s.frv., sem menn geta ímyndað sér að hagræða verulega. Hins vegar kemur manni til hugar að ætlun útvarpsstjóra og manna hans, að því leyti sem þeir hafa eitthvað horft fram á veginn, sé sú að þeir geti aflað aukinna tekna á móti til að þurfa ekki að fara í þessa hagræðingu sem þeir vita ekkert hver er og gert það með meiri auglýsingum og meiri kostun.

Ef til stendur að afla meiri tekna með auglýsingum og kostun sem er þá í andstöðu við þær yfirlýsingar sem hv. formaður menntamálanefndar hefur verið með, að það eigi ekki að gera og vilji hans og fleiri af hans liði standi til þess að heldur dragi úr þessu, þarf auðvitað meiri samkeppni, þá þarf Ríkisútvarpið að vera í meiri samkeppni við hinar stöðvarnar, við markaðsstöðvarnar. Það er því miður ekki sennilegt miðað við ástandið og þróunina undanfarið að undir samkeppninni á auglýsinga- og kostunarmarkaði standi það innlenda efni sem gert er ráð fyrir að aukist í sjónvarpinu. Hér rekst hvað á annars horn. Þetta passar ekki vel saman, enda engin áætlun til um hvernig eigi að gera þetta nema nokkrir stafir á blaði, tölustafir aðallega. Við skulum vona hið besta en þetta er augljós galli á þjónustusamningsdrögunum.

Að þjónustusamningnum má líka finna margt. Menn eru svo glaðir að sjá í honum jákvæða hluti sem lengi hefur skort í stefnumótun Ríkisútvarpsins að menn gleyma hinu. Það er ekki mikill metnaður í því að t.d. efni fyrir börn og ungmenni skuli vera tiltekið í nokkrum línum og stefnt að því að það sé á tíma þjónustusamningsins, allt fram til ársins 2010, það sama og við upphaf samningstímabilsins, hið sama og nú. Það er ekki gert ráð fyrir að börn fái meiri þjónustu sem ætla mætti ef um raunverulegt almannaútvarp væri að ræða, heldur á það að vera það sama. Ég held að það sé ekki mjög mikið, mér hefur ekki heyrst það á barnafjölskyldum sem ég þekki og börnum sem ég hef haft kynni af að það sé mjög mikið. Fyrir utan ágæta þætti eins og Stundina okkar hefur þetta barnaefni fyrst og fremst falist í teiknimyndunum sem sjónvarpið er með á morgnana. Með fyrst og fremst á ég við að mestur tíminn fáist þannig. Ég verð að segja að það sem ég hef séð af því efni er ekki mjög merkilegt, og stundum satt að segja hörmulegt. Það hefur vissulega mjög aukist að það efni sé talsett fyrir börnin og ætti í raun og veru að gera það að skyldu að talsetja það nánast allt nema það sem ætlað er beinlínis mjög stálpuðum börnum eða unglingum. Gæði þess eru ákaflega misjöfn, satt að segja, og stundum þannig að það efni er eiginlega ekki bjóðandi börnum sem við reynum að ala upp í menningarheimi sem vissulega er alþjóðlegur en á líka að taka mið af íslenskri hefð og íslenskri menningu.

Annað í þessum þjónustusamningi sem lýsir a.m.k. ekki miklum metnaði eru línurnar um menningarumfjöllunina. Hér stendur að RÚV skuli fjalla um útvarp og sýna frá menningarviðburðum bæði innan lands og erlendis og, með leyfi forseta, skal „menningarumfjöllun vera að lágmarki hin sama í mínútum talið og við upphaf samningstímabilsins í hljóðvarpi og sjónvarpi“. — Nú er að vísu menningarumfjöllun í hljóðvarpi og þyrfti kannski betri skilgreiningu á því, en menningarumfjöllun í hljóðvarpi á Rás 1 er vissulega alveg prýðileg. — Það eru draugar í húsinu, forseti, það ýlir í einhverjum tækjum.

(Forseti (JónK): Það verða gerðar ráðstafanir til að hrekja þá út.)

Já, ég skal bara tala í kappi við þá uppvakninga. Frá sjónarhóli sjónvarpsins verður að segja að hér er ekki mikill metnaður á ferðinni því að menningarumfjöllun í sjónvarpinu hefur satt að segja alltaf verið frekar fátækleg og hefur heldur dalað á síðustu árum frá því sem áður var. Við vonuðum að þetta væri bráðabirgðaástand frá því að nokkrir þættir voru felldir saman í það sem nú heitir Kastljós og Kastljósinu látið nægja að ná yfir nokkur svið, t.d. er menningarumfjöllun af því tagi sem áður var í þættinum Mósaík ákaflega dauf í hinu nýja Kastljósi, að því gjörsamlega ólöstuðu að öðru leyti.

Hér er ekki mikill metnaður á ferðinni og það er heldur ekki mikill metnaður í því ákvæði sem fjallar um táknmál. Vissulega er gott að textun á sjónvarpsefni verði aukin um 100% fyrir þann hóp sem þarfnast textunar sem eru auðvitað heyrnardaufir en líka t.d. útlendingar, gestir okkar hér, og nýbúar, nýir Íslendingar, sem hafa mikið gagn af texta. Við getum sannreynt það sjálf þegar við horfum á kvikmyndir utan lands hver hjálp er að því að hafa texta og jafnvel á sama málinu og við erum að horfa á. Þótt textunin sé aukin um 100% sem er ekki mjög mikið í klukkutímum, það eru 167 klukkutímar, á ekki að eyða neinum peningum í fólk sem hefur að móðurmáli táknmál heyrnarlausra því að „hlutfall útsendinga á táknmáli [á að] vera a.m.k. hið sama og við upphaf samningstímabilsins“. Þetta er metnaðurinn í þessu efni. Það tekur á mann að þetta skuli vera niðurstaða hæstv. menntamálaráðherra í lok þessa kjörtímabils sem er að því leyti sögulegt að á því var haldin fyrsta ræðan úr þessum stóli á táknmáli heyrnarlausra, og réttindi þeirra hafa verið til umræðu meira en áður.

Þetta eru engar meginathugasemdir við þjónustusamningsdrögin en þau lýsa ekki miklum metnaði gagnvart því sem á að vera hlutverk almenningsútvarps. Hins vegar er þjónustusamningurinn jákvæður, sem slíkur er hann vissulega jákvæður og sjálfsagður sem stjórntæki fyrir útvarpið. Hann er gerður að erlendri fyrirmynd og er rétt að minnast þess að þjónustusamningur hefur áður verið til, menntamálaráðherra og útvarpsstjóri gerðu hann árið 2000 eða 2001. Ég man ekki hvort hann er enn í gildi, hann var ekki mjög merkilegur en hann var ágætt fyrsta skref í þessu og getur verið mjög þarft stjórntæki.

Það er merkileg saga sem þessi þjónustusamningsdrög eða þjónustusamningur á, ef af verður, vegna þess að fyrsta veturinn þegar við ræddum um Ríkisútvarpið þá var rætt um þjónustusamning milli menntamálaráðherra og útvarpsins og hvernig hann ætti að vera og og hvernig ætti að gera hann. Þá var hann ekki í frumvarpinu og ekki næsta vetur heldur. Á fyrra vetri var upphaflega fullyrt að það yrði enginn þjónustusamningur af þessu tagi heldur yrði einhvers konar samkomulagi fyrirkomið með einhverjum öðrum hætti sem ekki var tiltekinn. Það var ekki fyrr en við stjórnarandstæðingar fundum spurningu um þjónustusamning í bréfaskiptum ESA og ráðuneytanna hér á landi, þeim bréfaskiptum sem upphaflega átti að halda leyndum, sællar minningar, að við drógum hann fram og hann kom síðan inn í frumvarpið í fyrravor milli 2. og 3 umr. og sem betur fer kom menntamálanefnd saman á þeim tíma að kröfu okkar stjórnarandstæðinga. Síðan komu þessi drög í sumar, þjónustusamningsdrögin, og þau voru kynnt með lúðrablæstri í Efstaleitinu sem óneitanlega er nokkuð kyndugur í ljósi þessarar sögu.

Það er sjálfsagt að gera slíkan þjónustusamning, að menntamálaráðherra eða ríkisvaldið með einhverjum hætti geri hann. Hins vegar er spurning hver staða hans er í þjóðskipulaginu, þessa stjórntækis sem hann á að vera. Það er líka óljóst í þessu frumvarpi hver staða hans er því það eina sem þar segir er að menntamálaráðherra geri þennan þjónustusamning og eigi að gera hann. Við hvern hann á að gerast er í raun og veru ekki ljóst. Útvarpsstjóri skrifar undir drögin og það er heldur ekki ljóst hver er samþykkjandi þeirra í útvarpinu, hvort það er útvarpsstjórinn einn eða hvort það er stjórnin. Auðvitað væri sjálfsagt að þessi þjónustusamningur færi víðar, því að hann markar stefnuna til skemmri tíma, til nokkurra ára, þeirra ára sem um er samið í Ríkisútvarpinu, og getur verið mjög þarfur sem slíkur. Það væri auðvitað æskilegt að starfsmönnum gæfist færi á að koma að þessum þjónustusamningi og einhvers konar akademíu eða hlustendaþingi, sem vel mætti ímynda sér að hefði m.a. það hlutverk að samþykkja þjónustusamning af þessu tagi.

Það væri líka umhugsunarvirði, og hugsanlegt að við ræðum um það þegar þessari umræðu líkur, að menntamálaráðherra kynnti þjónustusamning af þessu tagi á þinginu, hugsanlega sem þingsályktunartillögu þannig að hann hlyti samþykki beggja aðila og væri þá einhvers konar samningur milli Ríkisútvarpsins í hvaða formi sem það er og fulltrúa eigenda þess, þ.e. Alþingis sem fulltrúa þjóðarinnar, um tiltekinn tíma og síðan kæmu auðvitað á móti fyrirheit og loforð frá þinginu um fjárveitingar, ríkisframlag með einhverjum hætti gegn honum. Nú hefur þjónustusamningurinn hins vegar þá stöðu að vera aðeins fyrirheit. Það er óljóst um efndirnar, eins og ég rakti áðan, og í þjónustusamningnum eru hvergi nein loforð um stuðning frá menntamálaráðherra. Hann hefst á orðunum „Ríkisútvarpið skal“ og „Ríkisútvarpið á að“ og „Ríkisútvarpið verður“ o.s.frv. en það er hvergi getið um það sem menntamálaráðherra á að gera á móti.

Ég ætla aðeins, forseti, að fjalla um annan þátt, sem nýr er, og rifja e.t.v. aðeins upp umræður um þann þátt frá fyrri þingum og það er að nú erum við að fjalla um Ríkisútvarpið ohf. en ekki Ríkisútvarpið hf. Úr þessu hefur töluvert verið gert og meira að segja hefur því verið lýst að þar með sé rétt einhvers konar sáttarhönd til stjórnarandstöðunnar og annarra andmælenda eða gagnrýnenda þessa frumvarps, en í rauninni skiptir það ákaflega litlu máli. Það kemur líka fram í umsögnum, menn hafa fjallað um það, að hér sé í raun og veru um andlitslyftingu að ræða án þess að líkaminn hafi á nokkurn annan hátt breyst.

Við vitum forsögu málsins. Hér var bent á, vegna þrýstings reyndar, eða við vöktum a.m.k. málið í stjórnarandstöðunni, að það gæti verið þörf á að hafa ákvæði um opinber hlutafélög í hlutafélagalögum og við lögðum fram tillögu um það, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var 1. flutningsmaður tillögu um það í fyrra. Hæstv. viðskiptaráðherra lagði síðan fram útvatnaða tillögu, sína eigin og stjórnarinnar, um þetta og lokin urðu þau að samþykkt voru nokkur ákvæði um opinber hlutafélög í hlutafélagalögum og það er rétt að nota tækifærið og fara yfir þau.

Í 1. gr. hlutafélagalaganna er getið um það að opinber hlutafélög séu til og hver séu skilyrði þess að félag geti kallað sig opinbert hlutafélag, nefnilega það að hið opinbera eigi það að öllu leyti, einn eða fleiri hluthafar á þess vegum.

Í 63. gr. er ákvæði um að í stjórn opinbers hlutafélags skuli tryggja kynjahlutfall. Það verður reyndar fróðlegt að sjá og við þurfum öll að leggjast yfir það, annaðhvort í tengslum við þetta frumvarp eða síðar, hvernig á að gera það í kosningum á Alþingi. Það verður væntanlega að gera með samningum á milli flokkanna því að ekki er hægt að setja kvótareglur beinlínis um þá sem kosnir eru eins og venjulega á þinginu.

Í 67. gr. er ákvæði um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar eigi að gefa stjórninni skýrslu um eign sína í félögum. Skiptir það máli varðandi starf þeirra. Þessi ákvæði um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hafa verið í öllum þeim frumvörpum þremur sem hér hafa verið flutt og er nokkuð vel frá því gengið. Síðan er talað um að starfsreglur stjórnar skuli birta á vefnum.

Í 80. gr. er sagt að fulltrúar fjölmiðla geti sótt aðalfund opinbers hlutafélags og að kjörnir fulltrúar eigenda, þingmenn í þessu tilviki ef ríkið er eigandi, geti líka sótt þennan aðalfund og þeir hafi rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir. Það er að vísu ekkert um það að þeim þurfi að svara en þeir hafa rétt til þess. Þeir mega hins vegar ekki koma á hluthafafund, þeir hafa ekkert á hluthafafund að gera. Ef menntamálaráðherra vill halda fund með stjórninni og útvarpsstjóranum og taka þar ákvarðanir án þess að blaðamenn eða þingmenn séu að skipta sér af getur hún notfært sér hluthafafundinn þótt þingmenn komi á aðalfundinn með skriflegar fyrirspurnir.

Loks segir í 149. gr.: „Opinber hlutafélög skulu birta samþykktir félagsins á vef sínum ef til er en ella annars staðar á netinu.“ Þetta er allt um opinberu hlutafélögin sem meiri hlutinn samþykkti í fyrra og er ekki ýkja merkilegt. Í raun og veru breytir það nánast engu hvort um hf. eða ohf. er að ræða, vegna þess, eins og fram kom í nefndarálitinu, að þegar hefur verið fallist á að upplýsingalög gildi um þetta fyrirtæki. Ef þau giltu ekki gætu sum af þessum ákvæðum um opinber hlutafélög komið að gagni.

Þá erum við sennilega komin að hlutafélagsforminu sjálfu og þá er rétt að geta þess að í raun og veru hefur aldrei í þessari löngu umræðu verið svarað spurningum um það af hverju þessi áhersla er lögð á hlutafélagsformið.

Það er rétt að rifja það upp að í fyrra kröfðumst við þess að fá að sjá þá vinnu sem hlyti að hafa verið lögð í það hjá frumvarpshöfundum og flytjendum þess að gera sér grein fyrir breytingunni úr sameignarfélagi yfir í hlutafélag. Við fengum þá afhent minnisblað sem tveir frumhöfundar, Jón Sveinsson og Sigurbjörn Magnússon, voru skráðir fyrir og hafa útbúið, hinir mætustu menn. Ég fór í gegnum það minnisblað í ræðu í vor en í því var í raun og veru ekkert um það af hverju hlutafélagsformið hefði orðið fyrir valinu, nema það að allir þekki hlutafélagið svo vel, það sé svo þægilegt og hentugt form og menn kunni svo vel að vinna innan þess. Önnur form, þar á meðal sjálfseignarstofnunarformið, séu svo erfið. Það sé svo erfitt að semja slík lög, það sé svo snúið að skilgreina hvernig sjálfseignarstofnunin eigi að starfa, hver réttindi og skyldur stjórnar séu og hver hafi eftirlit með gerðum stjórnarinnar og hvernig staðið sé að félaginu að öðru leyti. Það er eins og þeir hafi gefist upp, þessir tveir höfundar og jafnframt þeir sem þáðu ráð þeirra, á að reyna sig nokkuð við þá erfiðleika. Í staðinn hafa þeir samið frumvarp, sem nú er búið að breyta sex sinnum, um einhvers konar hlutafélag, a.m.k. í síðari áföngum af þeim ferli. Aldrei hefur verið reynt að gera sér grein fyrir hvers konar sjálfseignarstofnun það gæti verið sem RÚV yrði færð til og hvaða kostir af þeim sem menn sjá við hlutafélagið gætu rúmast í sjálfseignarstofnuninni og hvaða galla hægt væri að sníða af.

Rökin um það að hlutafélag sé svo ágætt form — það sé svo vel þekkt og þar þurfi ekkert að skilgreina eða skýra út fyrir mönnum sem að því koma — eru ágæt ef menn væru þá með almennilegt hlutafélag í höndunum. Það er ekki. Það er ekki bara það að menn séu með opinber hlutafélög, sem eru auðvitað aðeins öðruvísi, heldur er búið að breyta þessu hreina hlutafélagi, sem var draumur einhverra manna að færa Ríkisútvarpið í, í hlutafélag sem ég segi ekki að sé nafnið tómt, vegna þess að það hefur auðvitað mikla möguleika, en það er ekki hlutafélag eins og menn þekkja af hlutafélagalögunum. Það er ekki þannig að hver maður gangi inn í hlutafélagið Ríkisútvarpið, sem hér er verið að reyna að mynda, og þekki vegna reynslu sinnar af öðrum hlutafélögum hvernig málum sé þar háttað sem eru helstu rökin á bak við hlutafélagsformið. Það er þannig að stjórnin er ekki kosin á eiginlegum aðalfundi heldur er það gervikosning. Hún er kosin á Alþingi einu sinni á ári. Eini hluthafinn í þessu hlutafélagi er ríkið og menntamálaráðherra fer með þann hlut þannig að þeir lýðræðiskostir sem fyrir hendi eru í löggjöfinni um hlutafélög nýtast ekki þarna, þó að þarna geti verið þingmenn, vissulega, og þeir lagt fram skriflegar fyrirspurnir, og blaðaljósmyndarar.

Það er ljóst að menntamálaráðherra gerir þjónustusamning við þetta fyrirtæki samkvæmt lögum, en ekki er vaninn að hlutafélög lúti slíkri skyldu. Hlutafélagið má ekki eiga í öðrum hlutafélögum, sem er einn aðalfídusinn, svo maður noti gott mál, með hlutafélögum. Það er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir að hægt sé að selja hlutafé eða auka það með öðru en ríkisframlagi. Síðan á að vera fjárhagslegur aðskilnaður í hlutafélaginu, annars vegar miðaður við almannaþjónustu og hins vegar við samkeppnisrekstur, hvernig sem þeirri skiptingu er háttað. Það eru komin upplýsingalög um þetta hlutafélag, þetta heppilega form sem allir vita hvernig er. Og nú síðast er ætlunin að þingið setji hlutafélaginu sérstakar reglur um auglýsingar og kostun þannig að með því á líka að hefta athafnarými og svigrúm þessa frábæra hlutafélags.

Maður spyr sig: Hvers konar hlutafélag er hér eftir, setji maður sig í stellingar hreinlífismanna í Sjálfstæðisflokknum og víðar? Svarið er: Það er ekki mikið eftir af hinu venjulega hlutafélagi. Hins vegar getur hlutafélagið þanið sig út á markaðnum eins og margoft hefur verið bent á, sérstaklega af öðrum aðilum sem telja ákveðna hættu í því. Síðan eru aðrir kostir við hlutafélagið fyrir þá sem hér um véla sem ég nefni síðar.

Eftir því sem sérákvæðunum um hlutafélagið fjölgar kemur betur og betur í ljós að alveg eins og Ríkisútvarpið er ekki venjuleg ríkisstofnun — við höfum sagt það, ýmsir stjórnarandstæðingar, að ef það ætti að halda því sem ríkisstofnun þyrfti að setja því ný lög og losa það þannig frá því að vera venjuleg ríkisstofnun — þá getur Ríkisútvarpið sem slíkt, ef það á að fá að vera ríkisútvarp, ekki verið venjulegt fyrirtæki, venjulegt hlutafélag í venjulegum samkeppnisrekstri með hið venjulega markmið um hagnað að leiðarljósi. Ríkisútvarpið þarf, hvað sem menn vilja gera úr því ef alvara er að baki, sérstakan lagaramma, sérstök starfsskilyrði og sérstakan rekstrargrundvöll. Það þarf að skilgreina ítarlega hvernig það á að starfa. Það stendur reyndar í minnisblaðinu um sjálfseignarfélagið hver réttindi og skyldur stjórnar eigi að vera, hver markmið hennar eigi að vera, hvernig eigi að hafa eftirlit með gerðum stjórnarinnar, hvert féð eigi að vera o.s.frv. Þess vegna eru rökin á minnisblaðinu og rök stjórnarliða gegn því að hugleiða sjálfseignarstofnun nánast orðin fáránleg. Þeir hafa sjálfir þurft að ganga í gegnum svo mikið ferli með hlutafélagshugmynd sína sem raun ber vitni.

Þá hugsar maður: Af hverju er þetta hlutafélag? Ég held að mín hugsun sé sú að niðurstaðan sé — ég segi nú ekki tilviljun, söguleg tilviljun — sögulegur arfur þeirrar harðlínustefnu sem ákveðnum kjarna í Sjálfstæðisflokknum tókst að nota til að knýja þetta fram. Markmiðin með stofnun Ríkisútvarpsins hf. og ohf. eru óljós eins og sést á hinum aumu skilgreiningum á hlutverki Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps. Þau eru það víð að aðrar útvarpsstöðvar gætu meira og minna rekið sig með litlum viðbótum sem almannaútvarp. Þar með er opið fyrir þá hugsun sem slegið hefur inn af og til í málflutningi og pólitískum grundvelli þeirra sem fylgt hafa frumvarpinu, að Ríkisútvarpið mætti nota til að fara í beina samkeppni við keppinauta á markaðnum, jafnvel óæskilega keppinauta á markaðnum, eins og maður hefur stundum haft veður af að forustumenn Sjálfstæðisflokksins finni.

Ég held að hér komi einnig til að það sem eftir er af hlutafélagsforminu hentar ágætlega sem dulbúningur fyrir rækilegt taumhald á þeirri stofnun, því fyrirtæki sem kemur út úr öllum þeim breytingum og þar sé fyrst og fremst um að ræða að halda pólitískum, jafnvel flokkspólitískum, ítökum og stjórnun í Ríkisútvarpinu. Mér virðist stefnt að því að allra síst megi hin nýja stofnun, hvað sem hún heitir og hver sem hún er, hafa það sjálfstæði sem okkur hinum finnst sjálfsagt að almannaútvarp hafi og sterkt er kveðið á um í Evrópureglum að sé skilyrði fyrir almannaútvarpi. Það er innbyggt í skilgreiningu á almannaútvarpi, þ.e. að hlutafélagið sé ekki eingöngu til þess, með orðum Péturs Blöndals, að vera fyrsta skref að því að selja útvarpið eða hluta þess heldur sé það líka til að ríkisstjórnarflokkarnir, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, geti haldið flokkspólitískum tökum sínum á fyrirtækinu.

Við höfum áður rakið hverjir gallar eru við hlutafélagsformið. Það er rétt að nota tækifærið og leiðrétta ákveðinn misskilning sem uppi hefur verið í nokkur missiri varðandi stuðning Páls Magnússonar útvarpsstjóra við frumvarpið. Hann hefur lýst yfir stuðningi við frumvarpið, það er ekki misskilningur, og hann hefur líka lýst stuðningi við breytingu á rekstrar- og eignarformi.

Þessi saga er merkileg og er ekki sögð til að afflytja orð Páls Magnússonar eða gera lítið úr honum, sem er merkilegur fjölmiðlamaður og að ýmsu leyti ágætur í sinni stöðu, heldur vegna þess að hún kennir okkur örlítið um þessi formsmál öllsömul. Páll Magnússon hefur skrifað greinar og verið með yfirlýsingar í fréttum og á fundum um stuðning sinn. Hann hefur hins vegar ekki skýrt opinberlega, þó að ég hafi t.d. hvatt hann til þess í greinum, með hvaða hætti hlutafélagsformið, sem hann þó styður með stuðningi sínum við frumvarpið, ætti að gagnast honum við breytingar á Ríkisútvarpinu.

Tækifærið gafst loks til þess í menntamálanefnd þegar Páll kom þangað — í eitt af þessum þremur skiptum, ég held að það hafi verið í fyrsta skiptið — að spyrja hann hvað hann vildi í raun, hvaða breytingum Páll vildi ná fram sem yllu þessum ákafa stuðningi hans við frumvarpið. Hann sagði að í raun skipti það hann litlu máli hvaða skammstöfun stæði á bak við nafn fyrirtækisins RÚV, hvað fyrirtækið héti og sagði að honum væri sama þó að það héti „RÚV KFUM“, ef það væri til í einhverjum lögum. Hann sagði að það sem hann væri einkum að leita eftir væri þrennt, eða fernt réttara sagt.

Í fyrsta lagi vildi hann finna lausn á þeim fjárhagsvanda sem væri að sliga stofnunina, þeim vanda sem hann og fleiri hafa kallað „innbyggðan vanda“. Þessi vinsælu orð höfum við rætt og krufið. Innbyggðan, á hvaða hátt? Þessi vandi er ekki innbyggður í lög eða nauðung vegna rekstrarformsins heldur felst vandinn í því að fjárveitingar með afnotagjaldi, sem hingað til hefur verið megintekjustofninn, er ákveðinn í menntamálaráðuneytinu og hjá ríkisstjórninni. Þær hafi ekki nægt fyrir útgjöldum. Fyrirskipanir ráðherra og þings eru að Ríkisútvarpið, síðasta hálfan annan áratug, skuli rekið með halla. Það þýðir að aðrar tekjur þarf að keyra upp og útgjaldahliðin er höfð eins mikil og hallaskipunin segir til um. Það er þessi innbyggði vandi. Hann er ekki innbyggður í rekstrarformið eða lögin heldur í vondar starfsvenjur og hirðuleysi valdamanna, þar á meðal á þinginu, um Ríkisútvarpið. Þetta var fyrsta krafa Páls Magnússonar.

Önnur var sú að starfs- og ábyrgðarskipting innan fyrirtækisins yrði skýr með því að yfirstjórninni væri breytt. Útvarpsráð væri afnumið í núverandi formi og þar væru ekki skipaðir menn á vegum stjórnmálaflokkanna sem sæju um dagskrárákvarðanir og þeir ættu ekki að hlutast til um ráðningar starfsfólks. Þessu eru reyndar flestir sammála. Ég hygg að í langflestum tillögum sem hafa komið fram um nýskipan Ríkisútvarpsins sé þetta skilyrði uppfyllt, að ráðningar og dagskrá séu faglegar ákvarðanir sem taka eigi í samræmi við stefnumótun sem fulltrúar ríkisstjórnar eða þings sem fulltrúar þjóðarinnar annist að einhverju leyti ásamt einhvers konar ráði þar sem almenningur geti haft sín áhrif.

Í þriðja lagi talaði hann um að ekki væri æskilegt að hafa skipurit stofnunarinnar í lögum og minntist sérstaklega á þá þrjá framkvæmdastjóra sem menntamálaráðherra skipar samkvæmt núverandi lögum. Öllum sem hafa komið nálægt þessari stofnun eða fyrirtæki er ljóst að þessar ráðstafanir í lögunum auka enn á lausung í stjórnun og rekstri. Í nútímanum að erum við smám saman að afnema mjög stranga deildaskiptingu og skipuritsákvarðanir í lögum. Við treystum því að þær ákvarðanir sé hægt að laga að þeim þörfum sem uppi eru hverju sinni þótt deila megi um og deilt hafi verið um það hversu langt eigi að ganga í hverju tilviki að því leyti. Flestir eru reyndar sammála þessu og tillögur sem fram hafa komið um nýskipan Ríkisútvarpsins gera flestar ráð fyrir að fellt slíkt niður úr lögunum eða að það standi ekki í nýjum lögum.

Í fjórða lagi talaði Páll um að Ríkisútvarpið gæti tekið þátt í samkeppni um fólk og kvartaði yfir kjarasamningum, ströngum ráðningarskilyrðum o.s.frv. Hann talaði þó ekki mjög bert um þetta og ég verð að segja að þó að ég hafi heyrt bæði hann og aðra tala í þessa átt áður þá hefur mér aldrei verið ljóst hvað það er nákvæmlega í kjarasamningum og ráðningarmálum á Ríkisútvarpinu sem menn vilja breyta.

Ég verð að segja fyrir mig að ég tel að sumu leyti eðlilegt fyrir fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið, fjölmiðlafyrirtæki, að starfsmannamál þar, ráðningarmál og kjör öll, taki mið af ástandinu á almennum markaði. Samhengið er þar vissulega fyrir hendi og leitast ætti við að gera kjarasamninga innan slíkrar stofnunar og hafa þann hátt á ráðningum að tiltölulega einfalt sé að bera saman við sams konar hluti á öðrum stöðvum og í öðrum fjölmiðlum. Á hinn bóginn erum við ekki að ræða um fjölmiðil meðal fjölmiðla, einhvern fjölmiðil sem ríkið á af tilviljun, heldur erum við, a.m.k. samkvæmt hugmyndum okkar samfylkingarmanna og stjórnarandstæðinga, að ræða um almannaútvarp, fjölmiðil í almannaþjónustu sem hagar dagskrá sinni á þann veg og hefur að markmiði að halda uppi slíkri þjónustu.

Það er eðlilegt að almannaútvarp sem með einum eða öðrum hætti er í eigu ríkisins eða stendur í skjóli þess, sem væri kannski betra orðalag um sjálfseignarstofnun, hagi kjarasamningum sínum og ráðningarmálum með tilliti til þess sem viðgengst í opinbera geiranum. Ég held að ef við ætlum að ræða þetta í einhverri alvöru þá ættum við að reyna að finna slíka leið. Ég held að æskilegast væri að ræða þau mál í rólegheitum við samtök starfsmanna, þau samtök sem til eru á Ríkisútvarpinu þegar. Þau eru nokkur. Og síðan væri rætt við heildarsamtökin BSRB og BHM.

Af því að hér horfir á mig, sljóum augum, hinn knái formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, þá er rétt að hann komi síðar í dag og skýri mér og þinginu frá þeim tilraunum sem gerðar hafa verið undanfarið til að ræða kjaramál og ráðningarmál við þau félög sem ég nefndi og við þá starfsmenn sem koma við sögu. Mitt hald er nefnilega það að þetta hafi aldrei verið reynt, að þetta hafi aldrei verið gert. Þegar ég tala við fólk hjá Ríkisútvarpinu segir það að mjög ofsagt sé um þá erfiðleika sem hljótist af því að gerðir séu kjarasamningar við opinbera starfsmenn, það sé mjög auðvelt að auka svigrúm stjórnenda eftir þeim óskum sem fram hafa komið. Það þurfi auðvitað að vega það og meta hverju sinni hvað því fylgi, með hvaða hætti laun eigi að hækka og hvernig það verði bætt en þetta sé allt hægt að gera innan núverandi ramma, meira að segja þess ramma að Ríkisútvarpið sé ríkisstofnun í B-hluta.

Ég vona að ég sé ekki að afflytja Pál eins og ég sagði áðan, ég tel mig ekki vera að gera það vegna þess að ég skrifaði þetta rækilega niður. Þetta fernt sagði Páll að hin nýja skipan þyrfti að uppfylla. Ég tel að hægt sé að gera það fyrir Pál með tiltölulega einföldum lagabreytingum á núverandi skipan. Ég tel líka að hugmyndir okkar í Samfylkingunni og reyndar fyrrverandi hugmyndir Framsóknarflokksins um sjálfseignarstofnun feli í sér að mjög auðvelt væri að uppfylla allar þessar kröfur hans, kannski ekki þær ýtrustu, t.d. í starfsmannamálum, en ef alls hófs er gætt væri hægt að uppfylla þær innan ramma sjálfseignarstofnunarinnar. Páll viðurkennir að lokum, þó að hann hafi tekið afstöðu með frumvarpi menntamálaráðherra, eða kannski tekið afstöðu með hæstv. menntamálaráðherra aðallega, að hf-dæmið á bak við nafnið Ríkisútvarp skipti hér engu máli.

Forseti. Það er liðið nokkuð á tímann og ég er búinn að vera lengi að. Ég ætlaði að ræða meira um hlutafélagsformið en ég ætla að fara hratt yfir þá sögu því að menn bíða eftir að komast að og ýmsir þeirra eru vel verseraðir í hlutafélagamálum. Hins vegar verð ég að segja að í umsögnum sem okkur hafa borist er hlutafélagsformið auðvitað eitt aðalstefið, og þá sérstaklega umsögnum frá fulltrúum atvinnurekstrarins, frá samtökum atvinnurekenda, frá Viðskiptaráðinu, frá keppinautum á þessum markaði, 365 og Skjánum. Þar er auðvitað talað um að hér sé hlutafélag á ferðinni, þrátt fyrir allar þær breytingar sem ég taldi upp áðan, meðmælendum hins fagra forms til háðungar, og bara það form taka þeir sem yfirlýsingu um samkeppni á næstunni og hafa í frammi jafnvel ýmis stóryrði um viðbrögð sín við því. Ég held þó að kannski merkasta umsögnin og sú nýjasta sé frá Samkeppniseftirlitinu. Þar er að vísu ekki minnst beinlínis á hluthafafélagsformið en þar er þó sá skilningur lagður í þetta frumvarp að verið sé að stofna fyrirtæki sem sé í beinni samkeppni við önnur fjölmiðlafyrirtæki og þar er ákaflega lítið mark tekið á yfirlýsingum um einhverja sérstöðu fyrirtækisins. Samkeppnisstofnun telur að samkvæmt frumvarpinu feli tekjuöflun Ríkisútvarpsins af nefskattinum í sér ríkisaðstoð í skilningi samkeppnislaga og um það eru, held ég, allir sammála að hún gerir það. Þeim tekjum á að verja til að standa straum af samkeppni, og nú vitna ég beint, með leyfi forseta, í umsögnina:

„… sem felst í skilgreindri útvarpsþjónustu í almannaþágu sbr. 3. gr. frumvarpsins. Sú skilgreining sem felst í 3. gr. nær yfir framleiðslu, dreifingu og útsendingu og m.a. hvers kyns fræðslu og afþreyingarefni auk fréttamiðlunar. Auk þess hvíla nánar tilgreindar skyldur á RÚV samkvæmt skilgreiningu 3. gr. frumvarpsins. Það er ekki hlutverk Samkeppniseftirlitsins að taka afstöðu til þess hvort þetta fyrirkomulag er í samræmi við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð.“

Samkeppnisstofnun leiðir síðan rök að því að þar sem Ríkisútvarpinu sé þar að auki heimilt að selja auglýsingar til birtingar í útvarpi og sjónvarpi keppi Ríkisútvarpið að sjálfsögðu við einkafyrirtæki í útvarpsrekstri á þessum mörkuðum, bæði um auglýsingar og kostun, og það geri það enn í þeim tillögum sem meiri hluti menntamálanefndar hefur lagt fram.

Síðan lýsir Samkeppniseftirlitið því að þar sem Ríkisútvarpið taki þátt í samkeppni á þessum markaði af fullum þrótti þá hafi það áhrif á dagskrárframboð þess, vinsælt dagskrárefni sé lykillinn að velgengni á mörkuðum fyrir sölu á auglýsingum í ljósvakamiðlum, segir Samkeppniseftirlitið. Það gerir svo heldur lítið úr rökum frumvarpsflytjandans með því að halda Ríkisútvarpinu að fullu á þessum markaði, ég ætla ekki að fara í gegnum það í sjálfu sér, en að lokum segir Samkeppniseftirlitið þetta, með leyfi forseta:

„Til að koma í veg fyrir þá samkeppnislegu mismunun sem af því leiðir að RÚV starfi á markaði fyrir birtingu auglýsinga og markaði fyrir kostun í frjálsri samkeppni við aðra aðila, jafnframt því að hafa tekjur af skattfé til að inna af hendi skilgreinda útvarpsþjónustu í almannaþágu, kemur tvennt til greina að mati Samkeppniseftirlitsins.“

Annars vegar þetta, með leyfi forseta:

„RÚV hverfi af auglýsingamarkaði og starfsemi þess verði alfarið kostuð af opinberum fjárframlögum. Er sú leið algeng meðal Evrópuríkja eins og fram kemur í skýringum með frumvarpinu.“

Hins vegar þetta, með leyfi forseta:

„Ef RÚV starfar á auglýsingamarkaði fari sú starfsemi fram á vegum sérstakrar hljóð- og sjónvarpsstöðvar eða -rása sem alfarið verði fjármagnaðar með auglýsingatekjum og kostun þannig að tryggt sé að þessi samkeppnisstarfsemi Ríkisútvarpsins verði ekki niðurgreidd með skattfé.“

Samkeppniseftirlitið tekur ekki að svo komnu máli afstöðu til þess hvora leiðina sé æskilegra að velja svo koma megi í veg fyrir framangreinda samkeppnislega mismunun, eða hvernig útfæra beri þær.“

Það gefur sem sagt þessa tvo kosti. Það er athyglisvert að þetta er í fyrsta sinn sem Samkeppniseftirlitið gefur umsögn um þetta mál. Hins vegar er það ekki í fyrsta sinn sem Samkeppniseftirlitið kemur við sögu þess því að Páll Gunnar Pálsson forstjóri kom á fund menntamálanefndar í vor. Hvað sagði hann þar? Hann gat þess sérstaklega að um Ríkisútvarpið kynnu að gilda ákvæði 11. gr. samkeppnislaganna um markaðsráðandi stöðu, ákvæði 14. gr. um fjárhagslegan aðskilnað og að samkvæmt samkeppnislögunum gæti Samkeppniseftirlitið gert meiri kröfur en ráðgert er að gera í ríkisútvarpslögunum, sérstaklega samkvæmt 16. gr. samkeppnislaga um skaðleg áhrif opinberra fyrirtækja í samkeppni.

Það er merkilegt að rifja þetta upp vegna þess að fyrr í dag var vitnað til Páls Gunnars Pálssonar á fundi menntamálanefndar nú, fundi sem ég gat því miður ekki sótt, missti af, en efast ekkert um að rétt er frá sagt, þar sem hann hafi svarað því til, aðspurður um hvað Samkeppniseftirlitið ætlaði að gera í málinu, að Samkeppniseftirlitið færi að lögum í þeim málum sem það kæmi nálægt og hér væri um sérlög að ræða sem væntanlega gengju framar almennum lögum.

Það má spyrja sig hvort Páll Gunnar Pálsson hafi þá ekki verið þessarar skoðunar þegar hann samdi umsögnina, sem send var 13. nóvember, og hvort hann hafi skipt um skoðun frá því í vor þegar hann kom á fund menntamálanefndar og tiltók þessar greinar. Það er kannski svolítið flókin spurning. Það er auðvitað svo að samkeppnislög byggja á efnisreglum Evrópuréttar. Ég hygg að það sé rétt ályktun að Samkeppniseftirlitið geti ekki ráðist að grundvallarákvörðunum í sérlögum eins og þeim sem hér er ætlunin að samþykkja og að Samkeppniseftirlitið hafi rétt til þess að krefjast aðgerða og skipa fyrir um ákveðnar aðgerðir innan ramma þessara sérlaga. Ég held t.d. að ef Samkeppniseftirlitinu sýndist gæti það, eins og Páll Gunnar Pálsson forstjóri þess sagði í vor, notað 14. gr. til að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað í tengslum við auglýsingar og kostun til þess að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið nýti sér ríkisstyrki til að skapa sér sérstakan samkeppnisávinning á auglýsingamarkaði eins og lýst er í umsögninni. Sérlög koma ekki í veg fyrir það að Samkeppniseftirlitið hafi ákveðið vald til að skipta sér af og til þess að skipa fyrir.

Hvað merkir þetta í stærri dráttum? Samkvæmt Evrópuréttinum er alveg ljóst að eftir Amsterdam-samkomulagið 1997 nýtur almannaútvarp — ríkisútvarp sem er almannaútvarp eða almannaútvarp sem er auðvitað vel hægt að hugsa án þess að það sé í beinni ríkiseigu, í ríkisskjóli eða með ríkisstuðningi að einhverju leyti — þá nýtur almannaútvarp þess að vera undantekning frá hinum hörðu samkeppnislögum og reglum Evrópusambandsins. Mig minnir að það sé orðað þannig að fyrirtæki með almenna efnahagslega þýðingu hafi sérstöðu. Það er orðað á þennan hulduhrútslega hátt vegna þess að Evrópusambandið er byggt á markaðsforsendum, það er í upphafi sínu og auðvitað í eðli sínu á mjög margan hátt samtök um frjálsan innri markað sem hófst, eins og við munum öll, upp úr síðari heimsstyrjöldinni með því að stál og kol voru gerð að innri markaði. Ég ætla ekki að fara lengra út í það þó að það væri fróðlegt, einkum fyrir hv. formann menntamálanefndar sem er mikill aðdáandi Evrópusambandsins og áhugamaður um það. Evrópusambandið hefur hins vegar haft þann háttinn á að þróast í nánara samstarf. Sú þróun ber iðulega þess merki að upphafið og rótin eru markaðsforsendur og tungutakið ber þess vegna ákveðinn viðskiptalegan keim. Þegar talað er um fyrirtæki eða stofnanir með almenna efnahagslega þýðingu þá er átt við það að almannaútvarp hafi væntanlega almenna efnahagslega þýðingu á þann hátt að það haldi samfélaginu saman, sjái um að þar sé friður og ró og þokkaleg sátt og sæla í samfélaginu og hafi þar með hina almennu efnahagslegu þýðingu fyrir fyrirtæki og aðila á markaði sem finna mætti í kennslubókum í viðskiptafræði og hagfræði.

Ég ætla ekki að rekja ríkisútvarpssöguna í Evrópuréttinum og innan Evrópusambandsins sem er merkilegt mál. Ólafur E. Friðriksson, fyrrverandi blaðamaður og sjónvarpsmaður, hefur skrifað um það ágæta ritgerð sem ég hef undir höndum og ég las í fyrra en hef ekki haft tækifæri til að koma hér almennilega til skila og ég ætla að geyma mér til 3. umr. að gera það.

Eftir Amsterdam-samþykktina 1997 sem var mikill samningur, einn af þessum stóru samningum sem Evrópusambandsríkin gerðu og fjallaði m.a. um þetta, um almannaútvarp, stendur nú yfir skeið þar sem verið er að reyna á þennan samning fyrir dómstólum, þar sem sem fyrirtækin á markaði eru að láta reyna á þolrifin í þessu gagnvart almannaútvarpinu, og við sjáum ekki alveg hvernig því lýkur. Ég held að það sé alveg ljóst að úrskurður Evrópusambandsins, og þar með sá grundvöllur sem samkeppnislög okkar og almannaútvarp okkar stendur á, ef það verður til eftir að þetta hefur verið samþykkt, fer eftir því hversu mjög það fyrirtæki eða sú stofnun sem um er rætt er almannaútvarp. Það verður mat þeirra sem um þetta eiga að véla gagnvart kærum sem fram koma, hvort þessi samkeppni geti talist eðlileg í ljósi þess almannaþjónustuhlutverks sem útvarpinu er falið eða hvort hún sé óeðlileg. Er ríkisvaldið beint eða óbeint með því að veita útvarpsstöð skjól að ráðast inn á markað sem einkum er samkeppnismarkaður?

Það er rétt að gera sér grein fyrir því að auðvitað er það þannig að skil milli almannaútvarps og samkeppnisútvarps eða markaðsútvarps er ekki auðdregin, þetta er lína sem hægt er að draga upp eins og litrófið og þess vegna er það dómstóla og úrskurðarmanna að dæma um það í hverju tilviki hvað sé almannaútvarp og hvað sé samkeppnisútvarp. Það er það sem hér mundi gerast ef kært yrði hér heima eða ef samkeppniseftirlitið skipti sér af og ríkið eða Ríkisútvarpið kærði þá ákvörðun þá mundi það koma til kasta dómstóla í Evrópu að úrskurða um það.

Þá kemur einmitt að þeirri kvörtun sem 365, Skjárinn, Samtök atvinnulífsins, viðskiptaráðið, fræðimenn og við í stjórnarandstöðunni höfum haft uppi, að skilgreiningarnar á almannaþjónustuhlutverki þess ríkisútvarps sem hér hefur verið reynt að breyta þrisvar sinnum eru ófullnægjandi og þess vegna eru þær beinlínis hættulegar. Eins og kom fram í andsvörum áðan er viðbúið að hér hefjist vegna þessara ófullnægjandi skilgreininga málaferli innan lands eða utan eða hvort tveggja sem geta veikt Ríkisútvarpið sem stofnun og gætu átt þátt í þróun sem endaði með ósköpum, hugsanlega sölu eða einkavæðingu eða einhverjum stórbreytingum sem t.d. Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að knýja fram á þeim nauðungarforsendum að okkur væri skipað það að utan, að Evrópa sætti sig ekki við Ríkisútvarpið og þess vegna þyrftum við að losa okkur við það.

Grundvöllur þessa er auðvitað sá, fyrir utan að almannaþjónustuhlutverkið er illa skilgreint, að Ríkisútvarpið heldur áfram ekki aðeins efnislegri samkeppni, sem getur verið holl og góð og er sjálfsögð, að Ríkisútvarpið sé í efnislegri samkeppni við aðrar útvarpsstöðvar — það er BBC í sínu góða landi og hefur ákveðna forustu fyrir útvarpsstöðvum þar og reyndar um allan heim með efnislegri samkeppni, með því að skara fram úr í ýmsum þeim þáttum sem standa næst almannaþjónustunni — heldur líka á beinum markaði um peninga fyrir auglýsingar og kostun. Eftir því sem Ríkisútvarpið er ágengara á þeim markaði eða hvaða stöð sem það er eftir því verða spurningarnar háværari um það hvort hér sé um að ræða samkeppnislega mismunun, hvort hér sé um ríkisstyrktan en venjulegan fjölmiðlarekstur að ræða. Við þessu vörum við m.a. og það er þessi mynd sem umsögn Samkeppniseftirlitsins í raun og veru dregur hér upp.

Ég er hér með umsagnir 365 og Skjás 1 um þetta. Þær eru fróðlegar og ég kannski kem að þeim í síðari ræðu minni í þessari umræðu ef aðrir hafa ekki rakið þetta áður. En það er athyglisvert í ljósi þessara tveggja umsagna og þeirra annarra sem ég nefndi að í fyrsta sinn í sögu þessara frumvarpa hér á kjörtímabilinu hafa stjórnarliðar vaknað gagnvart þeim vanda sem við er að fást um auglýsingar og kostun þó að við í stjórnarandstöðunni höfum frá fyrstu tíð vakið athygli á þessu og reyndar einkum við í Samfylkingunni að öðrum stjórnarandstæðingum algjörlega ólöstuðum, kannski vegna þess að við höfum verið að hugsa um málið frá öðrum sjónarhornum en venjulegt er.

Þetta var að vísu ekki mikið rætt í menntamálanefnd núna á þessu þingi og nánast ekki neitt enda voru ekki hafðar neinar umræður í menntamálanefndinni fyrr en á síðasta degi, heldur brá svo við að eina helgina voru miklar fréttir í blöðum um að nú ætlaði meiri hluti menntamálanefndar — reyndar var nú látið eins og það væri menntamálanefnd öll. Ég var svolítið hissa, ég var þá að koma úr ferð út fyrir bæinn og reyndar út fyrir landsteina, stuttri, og hélt að Sigurður Kári Kristjánsson, hv. formaður menntamálanefndar, hefði gert stjórnarbyltingu meðan ég var fjarri og þótti það viðeigandi en það var nú ekki alveg svo gróft. En það var hins vegar að þessa helgi var mikil látið með það og mikill spenningur í kringum það á fjölmiðlunum að nú ætti nánast að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði og mér fannst það nú kannski fullmikið gert, það væri kannski hægt að byrja aðeins hægar. En það var nokkuð látið með þetta að það yrðu miklar takmarkanir og það var rakið hvernig væri hægt að gera þetta, en til þess væru þrjár aðferðir.

Það var síðan ekki fyrr en á lokafundi nefndarinnar þegar ljóst var að málið yrði tekið út að meiri hluti nefndarinnar kom með tillögur um þetta mál í fyrsta sinn. Þess skal getið að það er í fyrsta sinn sem tillögur hafa verið gerðar um það á Alþingi, þeir mega eiga það. Þær tillögur voru hvernig? Jú, annars vegar var tillaga um að látið yrði undan þeirri kröfu frá keppinautunum, bæði hinum hefðbundnu fjölmiðlum og öðrum keppinautum, að ekki yrðu auglýsingar á vefsetri Ríkisútvarpsins. Það hefur reyndar ekki verið, þannig að það er engin breyting, auglýsingar voru hafnar þar að einhverju leyti en eftir kæru fyrirtækis sem heitir eða hét — mér er ekki alveg kunnugt um afdrif þess fyrirtækis — sem hét tunga.is á Evrópuvettvangi þá var þessu snarlega hætt þar sem ekki var heimild fyrir því í lögum. Þá heimild átti að gefa hér og það var klárlega að því stefnt að hún yrði gefin. En meiri hlutinn fann sem sé út að þetta ætti ekki að gera. Ég hef ekki athugasemdir við það. Hins vegar má auðvitað benda á að margt er að gerast á þessum vettvangi, tækninni fleygir fram og því kann að vera að fleira verði til umræðu á næstu missirum og ég tala nú ekki um áratugum en eingöngu fréttavefir af því tagi sem um er að ræða. Þetta var svona heldur smærra, því þetta breytir engu sem sé en takmarkar þó að ákveðnu leyti möguleika Ríkisútvarpsins til framsóknar á þessum vettvangi.

Hin tillagan var öllu merkilegri og það var hin mikla takmörkun á auglýsinga- og kostunartekjum Ríkisútvarpsins ohf., en hún gekk út á það að kostun — þegar búið var að fá skýringar á verulega flóknu orðalagi í breytingartillögunni — að kostun ætti ekki að verða meiri í Ríkisútvarpinu ohf., hærra hlutfall af auglýsingatekjum en nú væri, eða réttara sagt heldur en yrði árið 2006. Þetta var nú músin sem fíllinn fæddi eftir þessa jóðsótt um heila helgi. Takmarkanirnar voru sem sé engar en kostunarhlutfallið var sett sem einhvers konar fasti.

Nú er að vísu margt við þetta að athuga í smáatriðum sínum. Í fyrsta lagi að miðað er við kostunarhlutfall árið 2006, en það ár er sem kunnugt er ekki liðið þannig að menn vita ekki nákvæmlega hvað út úr því kemur en það er einungis byggt á þeirri lauslegu umsögn, hygg ég, Páls Magnússonar að síðustu ár hafi kostun verið u.þ.b. 10% af auglýsingatekjum. Ég held líka að þegar menn fara að skoða málið geti orðið erfitt að greina á milli þess sem er kostun og þess sem er auglýsing, hreinlega að flokka þetta. Ef ég hefði verið í meiri hlutanum hefði ég gengið betur frá því máli.

Ég nefni t.d. veðurfréttir en báðar stöðvarnar sem hér eru sýna veðurfréttir. Þar eru fyrirtæki sem birta stutta kynningu eða auglýsingu á undan og eftir. Er það kostun eða er það auglýsing? Það væri kostun ef samningurinn heitir kostunarsamningur um það að fyrirtækið Kóka kóla eða Tryggingamiðstöðin ætli að kosta veðurfréttirnar í svo og svo langan tíma, en það væri hins vegar auglýsingarsamningur ef fyrirtækið Kóka kóla eða Tryggingamiðstöðin ákvæðu að auglýsa alltaf á undan og eftir veðurfréttum í þetta og þetta marga mánuði eða ár, þannig að hér getur nú verið mjótt á munum.

Aðalathugasemdin er þó ekki tæknilegs eðlis af þessu tagi heldur ósköp einfaldlega sú að markmiðið er alls ekki ljóst. Það er alveg klárt að þetta takmarkar ekki heildartekjurnar því að það er aðeins um hlutfallið sem hér er að ræða og það er ekkert sem takmarkar heildartekjurnar, ekki heldur sú rekstraráætlun sem hér liggur fyrir þó að hún geri ráð fyrir því að þær aukist ekki nema um þetta eina prósent á ári, ef ég hef skilið þessa reikninga rétt — en rifja má upp að ekki gafst tími til þess að fá á þeim almennilegar skýringar í menntamálanefnd því að það lá svo mikið á að koma málinu í gegn — heldur er þá væntanlega þessari tillögu beint gegn kostun sem slíkri af því að hún sé vond. Og ef hún er vond þá er hún sem sé ekki nógu vond til þess að afnema hana alveg, sem hefði þó verið mannsbragð að, heldur á hún að vera einhvers konar hlutfall af auglýsingatekjunum þannig að ef auglýsingatekjurnar aukast þá eykst kostunin líka, ef auglýsingatekjurnar minnka á kostunin líka að minnka. Í þessu er nú ekki ákaflega mikið vit.

Er kostun vond? Eins og við segjum í nefndarálitinu hafa ýmsir gagnrýnt kostun sem aðferð við kynningu á vörum og þjónustu en ég hygg að kostun sé aðeins ein af þeim aðferðum sem beitt er í þessu skyni og þurfi ekki að vera í sjálfu sér verri en aðrar. Það eru hins vegar til ákaflega vondar gerðir af kostun. Það er til dæmis sú kostun sem blandast saman við dagskrárgerð. Það er það sem Ríkisútvarpið hefur gert sig sekt um undir núverandi stjórn og við skulum segja bara fyrr og síðar. Það er þó ekki neinn arfur útvarpsins sem betur fer eða hefð, að þættir séu nánast gerðir út af einhverju fyrirtæki eða í kringum einhverja vöru, þættir séu sendir út t.d. á Rás 2 úr höfuðstöðvum einhvers þjónustufyrirtækis eða vöruseljanda og byggist á því að ræða við starfsmenn, forsvarsmenn og neytendur í því fyrirtæki sem er þá í raun og veru samfelld auglýsing fyrir fyrirtækið eða byggt á einhvers konar svokölluðum gjöfum sem auðvitað eru ekkert annað en hreinar duldar auglýsingar, afgreiddar sem kostun. Þetta er vond aðferð við kostun.

Jákvæð kostun — við skulum ekki segja jákvæð en algjörlega saklaus kostun og sjálfsögð að mér þykir er sú t.d. þegar nokkur stórfyrirtæki eða fyrirtæki smá og stór taka sig saman um að hjálpa til við að opna tækifæri fyrir sendingar hér sem annars væri erfitt að annast, við skulum segja sendingar Ólympíuleikanna eða menningarlega stórviðburði heima og erlendis. Ég hef ekkert á móti því að fyrirtæki hjálpi til við það og taki það af því ráðstöfunarfé sem þau hafa til þess, sem maður veit nú aldrei hvort er menningarlegur stórhugur eða meintur ímyndarauki og hækkun á svokölluðum góðvilja hjá fyrirtækjunum. Ekkert er getið um það í þessari tillögu til hvorrar kostunargerðarinnar þetta taki þó að fögur orð séu höfð uppi í nefndaráliti meiri hlutans um sinfóníutónleika og hvað eina sem skuli njóta kostunarfjárins. Ég verð því að viðurkenna að niðurstaða mín um tillögur meiri hlutans um auglýsingar og kostun er sú að á slíkri hugsun hafi verið mikil þörf en niðurstaðan hafi verið algjörlega misheppnuð, í raun og veru sé verr af stað farið en heima setið með þessum tillögum. Ég geri hins vegar ráð fyrir að við munum ekki taka afstöðu til þeirra í atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr. vegna þess að eins og kemur fram í nefndarálitinu vil ég láta vísa málinu frá að öllu leyti. Það er ekki hægt að taka þessi auglýsinga- og kostunarmál út úr samhengi. Þau hafa hlutverki að gegna fyrir Ríkisútvarpið en það hlutverk lítur allt öðruvísi út eftir því hvort um er að ræða samkeppnisfyrirtæki eða almannafyrirtæki.

Ég held, forseti, að þó ég hafi úr miklu að moða þá noti ég þann klukknaslátt sem nú hljómar á Dómkirkjunni til þess að ljúka ræðu minni í bili. Ég vil þó segja áður en ég gefst upp í þetta sinn að andstaða okkar stjórnarandstæðinga við þetta frumvarp er mjög skýr og hefur lengi verið. Það er reynt að draga úr efnisatriðum andstöðu okkar vegna þess að það hentar stjórnarmeirihlutanum og menntamálaráðherra að láta eins og við séum hér með þrákelkni og þrjósku en við höfum í raun og veru frá upphafi gert nokkrar athugasemdir. Á blaðamannafundi í morgun lýsti Samfylkingin því svo — ég hygg að aðrir stjórnarandstæðingar séu því sammála — að í fyrsta lagi séum við á móti hlutafélagsforminu vegna þess að það greiði leið að einkavæðingu Ríkisútvarpsins í heild eða að hluta og hlutafélagsformið henti starfsemi almannaútvarps í raun og veru mjög illa og skemmi fyrir þeirri starfsemi.

Í öðru lagi sé óljóst um hlutverk nýja fyrirtækisins, skilgreiningarnar á hlutverki Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps séu óljósar og gefi því undir fótinn að hlutafélaginu sé með aðstoð ríkisstyrks ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar sem sennilega leiðir til áframhaldandi deilna og málaferla.

Í þriðja lagi spyrnum við við fæti því að það er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihluti í nýju Ríkisútvarpi ráði útvarpsstjóra og reki að vild og þannig sé fyrirtækið áfram undirselt flokkspólitískum afskiptum og inngripum ef valdhöfum þykir þörf.

Í fjórða lagi sé nefskattur óheppileg leið til tekjuöflunar fyrir Ríkisútvarpið og ekki líklegur til að efla samstöðuna.

Í fimmta lagi séu réttindi starfsmanna ekki tryggð með þeim hætti sem vera ætti í almannaútvarpi sem ríkisvaldið ber ábyrgð á.

Við samfylkingarmenn höfum lýst stöðu okkar, gerðum það á blaðamannafundi í morgun, og þó að ég sé hér framsögumaður sameinaðrar stjórnarandstöðu í menntamálanefnd leyfi ég mér að fara líka með fimm atriði úr því. Það er ekki víst að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn séu því sammála að öllu leyti og ég geri ráð fyrir að svo sé ekki. Áherslumunur milli þessara flokka er vel kunnur í þessu máli en við höfum líka látið fylgja þeim lýsingum að við teljum ekki mikið mál að jafna þann ágreining ef ágreining skyldi kalla.

Við í Samfylkingunni höfum lagt til og leggjum til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi gæti kosið eins og gert er ráð fyrir í núverandi frumvarpi — þó ekki til eins árs í senn eins og þar er gert ráð fyrir með því að skopstæla hlutafélagalög — en til þess að tryggja að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í þeirri stjórn eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins þar fulltrúa sem hindra sjálfkrafa meirihlutamyndun í stjórninni.

Við viljum líka að almenningur og samtök hans eigi aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli einhvers ráðs sem við leyfðum okkur í morgun að kalla hlustendaþing og gæti komið saman einu sinni á ári. Því ráði verði falið ákveðið hlutverk, t.d. það sem ég nefndi áðan, að samþykkja þjónustusamning. Það mætti hugsa sér líka að ráðning útvarpsstjóra verði borin undir þetta ráð. Útvarpsráð í núverandi formi verði hins vegar lagt niður og pólitísk afskipti af innri málefnum afnumin með öllu. Af innri málefnum, segi ég hér, vegna þess að það er að sjálfsögðu hlutverk stjórnmálamanna að annast stefnumótun til langs tíma.

Í þriðja lagi að fjármögnun Ríkisútvarpsins verði blönduð, annars vegar með ríkisframlagi sem má hugsa sér með ýmsum hætti en hins vegar auglýsingatekjum sem verði þó takmarkaðar og við leggjum til að þær verði takmarkaðar þannig að þær verði ekki meiri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins hverju sinni.

Í fjórða lagi leggjum við mikla áherslu á almannaútvarpshlutverk Ríkisútvarpsins og lýsum því í nokkrum orðum í því úthendi sem dreift var á fundinum í morgun.

Í fimmta lagi nefnum við sérstaklega að sjálft Ríkisútvarpið verði að vera sjálfstætt, það verði að vera óháð bæði stjórnmálahagsmunum og viðskiptahagsmunum. Starfsmenn verði að búa raunverulegt ritstjórnarlegt sjálfstæði og það verði að sjá til þess að afar skýr aðgreining verði mörkuð í dagskrá Ríkisútvarpsins milli dagskrárgerðar og auglýsinga og þar með komið í veg fyrir vonda kostun eins og ég var að tala um áðan. Við setjum þetta fram undir fyrirsögninni „Sjálfstætt öflugt almannaútvarp“ sem lýsir nokkurn veginn þeirri hugmynd sem hér er uppi.

Vera kann að menn reki augun í að við gerum ráð fyrir að Ríkisútvarpið haldi áfram að hafa tekjur af auglýsingum og kostun og ég hygg að það sé almennt álit meðal stjórnarandstæðinga, það séu fáir svo harðir að þeir vilji afnema þá hefð að sinni að Ríkisútvarpið sé með auglýsingar og þess vegna kostun, góðu kostunina eða skárri kostunina, hlutlausu kostunina eða hvað við viljum kalla hana. Eins og ég sagði er það í fyrsta lagi vegna þess að fyrir því ákveðin hefð og auglýsingamarkaðurinn mótast auðvitað af því að vissu leyti. Þess vegna yrði breyting af því tagi að taka Ríkisútvarpið algjörlega út af þessum markaði að fara fram í áföngum og á löngum tíma. En það er líka vegna þess að vel má líta á a.m.k. tiltekna gerð auglýsinga og jafnvel kostunar sem þjónustu við þann almenning sem almannaútvarpið er búið til fyrir.

Þá er spurt að því: Eiga athugasemdir samkeppniseftirlitsins og annarra aðila ekki við um ykkur? Jú, þær eiga það að vissu leyti en það sem við gerum er að í fyrsta lagi þá takmörkum við þessar tekjur. Við takmörkum þær sem hlutfall af heildartekjum þannig að það er bein yfirlýsing um að Ríkisútvarpið ætli sér þennan hlut af þessum markaði en ekki stærri hlut. Það er sem sé sú grimmilega samkeppni sem Ríkisútvarpinu hefur verið att út í síðustu árin, a.m.k. áratuginn frá 1994 þegar flest stóð í blóma hjá Ríkisútvarpinu og fram að árinu sem nú er að líða, 2006, að þessi sókn og samkeppni á auglýsingamarkaði verði takmörkuð. Hins vegar verði Ríkisútvarpið raunverulegt almannaútvarp sem þýðir það gagnvart Evrópuréttinum að því er stætt á því að heimta inn hluta af tekjum sínum með sama hætti og fjölmörg svipuð fyrirtæki í Evrópusambandinu gera.

Forseti. Ég hef nú kynnt nefndarálit okkar, fjallað um aðeins nokkur og í raun og veru örfá af þeim atriðum sem væru þess virði að ræða í 2. umr. En vegna samkomulags er tíminn takmarkaður og sýnilega verður þunginn í umræðunni um Ríkisútvarpið ohf. í 3. umr. en ekki 2., ef af 3. umr. verður. Lýk ég hér með máli mínu.



[15:08]Útbýting:

[15:08]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason hefur nú lokið við að gera grein fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar í þessu máli á afar greinargóðan hátt. Ég mun reyna í ræðu minni að fara kannski sérstaklega ofan í saumana á réttindamálum starfsmanna sem ég kynnti mér nokkuð ítarlega í umfjöllun menntamálanefndar um málið. Einnig kem ég til með að tæpa á öðrum atriðum í yfirferð minni.

Eins og hv. þm. Mörður Árnason gat um hefur verið samið um lok þessarar umræðu, eða að minnsta kosti er gert ráð fyrir að henni verði lokið áður en fundur morgundagsins verður settur. Það takmarkar okkur vissulega nokkuð því að nú sem fyrr er málefnaleg andstaða við frumvarpið og fullt tilefni til að fjalla mjög ítarlega um tiltekna þætti málsins.

En úr því ljóst er að málinu verður ekki lokið á þessu haustþingi heldur færist það yfir á næsta ár, árið 2007, þá er öllum ljóst að 3. umr. um málið, sem verður að öllum líkindum í janúar, kemur til með að verða sú umræða sem skiptir sköpum þar sem þingmönnum verður gefinn kostur á að fara ofan í saumana á frumvarpinu og útlista í ítarlegu máli þau ólíku sjónarmið sem um málið gilda.

Hv. þm. Mörður Árnason tók líka af mér ómakið að rekja feril málsins síðastliðin þrjú ár. Hann leyfði sér að kalla þá sögu alla menúettinn um skammstöfunina aftan við nafn Ríkisútvarpsins. Þótti mér það nokkuð vel til fundið og góð líking, að líkja þessu við menúett, sem í sjálfu sér er dans heldra fólksins sem tiplar á tánum í fínu fötunum sínum og gerir það eftir kúnstarinnar reglum. Það er einmitt það sem hin hægri sinnaða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur gert varðandi þetta titlatog, þessar skammstafanir aftan við nafn Ríkisútvarpsins. En það má með sanni segja að þar hafi sjónarmið Sjálfstæðisflokksins ráðið og þeirra sem vilja undir niðri leynt og ljóst losa Ríkisútvarpið úr eigu þjóðarinnar og koma því yfir í einkaeign.

Frú forseti. Þetta er gríðarlegt átakamál sem við nú ræðum. Stjórnvöld hafa kosið leið ófriðar um málið allt þetta kjörtímabil. Hæstv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur rekið það af miklu harðfylgi og ósveigjanleika. Við í stjórnarandstöðunni höfum hins vegar mælt með því að menn settust yfir það og reyndu að ná einhverjum sáttum og málamiðlunum en ekki hefur verið vilji til þess á stjórnarheimilinu. Framsóknarflokkurinn hefur dinglað með Sjálfstæðisflokknum í málinu þrátt fyrir gríðarlega óánægju einstakra dyggra manna Framsóknarflokksins, meira að segja manna sem gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og nægir að nefna Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, sem hefur lýst yfir andstöðu við inntak frumvarpsins.

Það hafa Samtök ungra framsóknarmanna sömuleiðis gert. Samtök ungra framsóknarmanna hafa sent frá sér ályktun varðandi málið og lýst andstöðu við megininntak þess, þ.e. hlutafélagsvæðinguna. Og það er alveg ljóst að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins, af því að Framsóknarflokkurinn á Alþingi hefur lyppast niður, ákveður að skella skollaeyrum við andstöðunni í eigin flokki og dingla aftan í Sjálfstæðisflokknum hvað þetta varðar.

Við í stjórnarandstöðunni segjum. Ja, verði honum að góðu. En það er nú kannski ekki búið að bíta úr nálinni með þessa fylgispekt Framsóknarflokksins. Við spyrjum að leikslokum í þeim efnum.

Ég get lýst því yfir að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum eins og Samfylkingin sett fram ítarlega stefnu um það á hvern hátt við viljum sjá Ríkisútvarpið. Við höfum lagt fram frumvarp á Alþingi oftar en einu sinni til að útlista þau sjónarmið okkar. En það er algerlega á hreinu að hugmyndir okkar fara ekki saman við hugmyndir ríkisstjórnarinnar þó svo að þær geri ráð fyrir grundvallarbreytingu á ýmsu er varðar Ríkisútvarpið.

Hugmyndir okkar gera ráð fyrir breytingu á stjórnsýslu og t.d. má nefna breytingu á tilhögun útvarpsráðs. Hugmyndir okkar ganga út á að það verið lagt niður í núverandi mynd. Sömuleiðis að breytt verði skilgreiningu gjaldstofnsins, þ.e. að það verði áfram afnotagjöld, en stofn afnotagjaldsins verði fasteign en ekki viðtæki.

Við erum með ákveðnar hugmyndir varðandi skilvirkari stjórnsýslu og rekum þá til föðurhúsanna öll þau sjónarmið stjórnarmeirihlutans um að ekki sé hægt að reka fyrirtækið eða stofnunina á lipran eða sveigjanlegan hátt öðruvísi en að breyta því í hlutafélag. Við pípum á slíkt hjal og höfum í hugmyndum okkar lagt fram málefnalegar og rökstuddar tillögur um hvernig megi gera stjórnsýslu stofnunarinnar skilvirkari þó svo að hún verði áfram ríkisstofnun.

Hugmyndir okkar ganga sömuleiðis út á virkara aðhald almennings, þátttöku starfsmanna, kraftmikla og öfluga þátttöku starfsmanna í stjórn og síðast en ekki síst að kjör og réttindi starfsmanna séu tryggð til frambúðar.

Virðulegi forseti. Ákvörðun ríkisstjórnarmeirihlutans um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er og jafngildir í okkar huga ákvörðun um einkavæðingu. Ég mun nú leyfa mér að rökstyðja það sjónarmið okkar með því að vitna í og fá að lesa hér, með leyfi forseta, grein sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 2. desember síðastliðinn eftir Ástráð Haraldsson hæstaréttarlögmann en sú grein hefur einmitt yfirskriftina Einkavæðing Ríkisútvarpsins. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Fyrir þinginu liggur nú frumvarp menntamálaráðherra um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ef frumvarpið verður að lögum verður þar með ákveðið að einkavæða starfsemi Ríkisútvarpsins. Í þessu varðar öngvu hver eignaraðild hins nýja félags verður heldur hitt að starfsemin verður eftir að Ríkisútvarpið ohf. tekur við henni ekki framar opinbers réttar eðlis heldur einkaréttar eðlis. Þannig færist starfsemin af sviði opinbers rekstrar yfir á svið einkarekstrar. Í því kerfi tvískipts vinnumarkaðar sem í gildi er á Íslandi hefur þessi formbreyting úrslitaáhrif að því er varðar alla réttarstöðu starfseminnar. Þetta er höfuðmálið en ekki það hvernig eignarhaldi hins nýja hlutafélags er háttað. Í þessari einkavæðingu felst m.a. að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gilda ekki framar um starfsemina og marka því ekki lengur réttarstöðu starfsmannanna. Lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka ekki framar til starfseminnar og stjórnendur hins nýja hlutafélags verða ekki fremur en aðrir stjórnendur hlutafélaga bundnir af ákvæðum stjórnsýslulaga í sýslan sinni. Starfsemin hefur þá verið einkavædd, flutt á svið einkaréttar og réttarstaðan sú sama og gildir um aðra starfsemi á almennum markaði.

Af einhverjum ástæðum hafa flutningsmenn tillagna um einkavæðingu Ríkisútvarpsins kosið að nefna tillögur sínar ekki réttum nöfnum. Reynt er að færa einkavæðinguna í búning sem er til þess fallinn að villa um fyrir þjóðinni. Þannig er talað um hlutafélagavæðingu (eins og það sé ekki einkavæðing) og mikið úr því gert að óheimilt verði að selja fyrirtækið. Það atriði skiptir þó harla litlu máli þegar grannt er skoðað. Meginatriðið er það að verði frumvarpið að lögum mun Ríkisútvarpið færast yfir á svið einkaréttar. Starfsmenn þess munu ekki framar njóta þeirrar ráðningarfestu sem þeir hafa notið sem opinberir starfsmenn og stofnunin mun starfa eftir sömu leikreglum og aðrir einkaaðilar.

Vandséð er hvernig Ríkisútvarpið getur til langframa varið sig gagnvart kröfum keppinauta um takmörkun eða afnám ríkisstyrkja sem því er ætlað að njóta í formi nefskatts. Við blasir að ákaflega erfitt verður að rökstyðja ríkisframlag sem ætlað er að standa undir svo stórum hluta rekstrarútgjalda fyrirtækisins sem hér virðist gert ráð fyrir. Að slíku framlagi sé aðeins varið til þess hluta starfseminnar sem fellur undir almannaþjónustuhlutverk þess. Þetta munu keppinautar Ríkisútvarpsins fyrr eða síðar láta reyna á fyrir samkeppnisyfirvöldum og dómstólum. Ég óttast því að með frumvarpi menntamálaráðherra sé enn ekki fundinn réttur farvegur til framtíðar fyrir Ríkisútvarpið.“

Frú forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tökum undir hvert einasta orð sem ég las úr grein Ástráðs Haraldssonar. Sannleikurinn er sá að hér er um einkavæðingu að ræða með því að stofnunin er tekin úr opinberum rétti og sett inn í einkarétt. Það verður að kalla hlutina sínum réttu nöfnum en hætta að fela sig á bak við háeffun eða oháeffun. Það gæti allt eins staðið KFUM, eins og hv. þm. Mörður Árnason vitnaði til orða útvarpsstjóra áðan. Verið er að einkavæða Ríkisútvarpið með því að setja það inn á svið einkaréttar. Mér finnst þessi stutta og hnitmiðaða grein vera þess eðlis að hún segi nánast allt sem segja þarf í þessum efnum.

Sömuleiðis er ljóst af þessari gjörð að oháeffunin er í sjálfu sér ávísun á endalausar kærur og klögumál fyrir samkeppnisyfirvöldum og fyrir dómstólum. Kunnara er en frá þurfi að segja og raunar hafa verið gefnar út yfirlýsingar um það af þeim sem standa í einkareknum fjölmiðlarekstri að það verði látið reyna á þetta og hitt í þessum lögum. Alkunna er frá Evrópu að mjög mikil átök hafa staðið á milli fjölmiðla, einkarekinna og ríkisrekinna, á síðustu árum og engin ástæða er til að ætla annað en slík átök komi til með að endurspeglast í samfélagi okkar.

Þann 17. júní í sumar birtust í Lesbók Morgunblaðsins athyglisverð grein eftir Elfu Ýr Gylfadóttur undir titlinum: Er það hlutverk Ríkisútvarps að sýna Aðþrengdar eiginkonur? Elfa er ein af okkar vel menntuðu fjölmiðlafræðingum og hefur í starfi sínu með fjölmiðlanefndinni hinni síðari komið ýmsum mjög gagnlegum sjónarmiðum á framfæri. Það gerir hún nú í menntamálaráðuneytinu þar sem hún starfar sem sérfræðingur. Í þeirri grein sem Elfa skrifar í Lesbókina gerir hún einmitt að umfjöllunarefni átökin á milli einkarekinna fjölmiðla og ríkisrekinna. Hún segir í greininni að einkamiðlar hafi gagnrýnt ríkisfjölmiðla fyrir óhagræði í rekstri, misnotkun á almannafé og fyrir að höfða aðeins til afmarkaðrar menningarelítu í dagskrárstefnu sinni. Þó segir Elfa að gagnrýni hinna einkareknu fjölmiðla hafi verið að breytast því að í skýrslu sem hún nefnir til sögunnar, sem gefin var út á árinu 2004 sem ýmis samtök einkarekinna fjölmiðla í Evrópu létu gera, eru ríkisfjölmiðlarnir gagnrýndir fyrir að hafa náð of miklum árangri á markaði og að þeir hafi náð of sterkri stöðu á markaðnum og jafnvel misnoti hana.

Í opinberri umræðu víða í Evrópu hefur þess gætt að forsvarsmenn einkareknu fjölmiðlanna hafa lagt mikið upp úr því að almannaþjónustuhlutverkið verði skilgreint þannig út í hörgul að óyggjandi sé hvað heyri þar undir og þeir hafa viljað að það sé skilgreint mun þrengra en nú er og mun þrengra en gert er ráð fyrir að það verði skilgreint hér eftir fyrirhugaðar breytingar, nái þær fram að ganga, því að samkvæmt 3. gr. frumvarpsins sem við fjöllum um má segja að almannaþjónustuhlutverkið sé nokkuð vítt skilgreint. Í mínum huga skortir reyndar talsvert mikið upp á að sagt sé í 3. gr. á hvern hátt menn ætli að tryggja að þessi skilgreining nái fram að ganga í rekstri Ríkisútvarpsins.

Í Evrópu hafa einkamiðlarnir farið mikinn til að reyna að þrengja þetta almannaþjónustuhlutverk og, frú forseti, það sama mun auðvitað gerast hér og þegar er farið að örla á því. Við blasir að einkareknu fjölmiðlarnir koma til með að halda í herferð núna um að hlutverkið samkvæmt 3. gr verði þrengt til verulegra muna.

Elfa Ýr Gylfadóttir gerir grein fyrir gagnrýni á skírskotun og samsvörun til gagnrýninnar sem er hér á okkar eigin markaði. Elfa segir í grein sinni að við gagnrýni af þessu tagi á efnistöku og dagskrá ríkisfjölmiðlanna í Evrópu bætist gagnrýni einkamiðlanna á hina nýju þjónustu sem ríkisfjölmiðlarnir eru farnir að veita í auknum mæli, þ.e. þá þjónustu sem stafræna umhverfið gerir miðlunum kleift að veita. Nú eru fjölmiðlafyrirtæki og ekki hvað síst sterku og stóru Evrópuríkismiðlarnir búnir að leiða þær breytingar sem átt hafa sér stað varðandi tækniþróun á þeim markaði, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi en ekki síst sjónvarpi. Nú eru þessir miðlar að hverfa frá hliðrænni útsendingu og eru komnir með stafræna útsendingu og eru þar með farnir að eiga möguleika á gagnkvæmri miðlun, þ.e. samskiptum við notendurna þar sem allir möguleikar þessarar gagnvirku þjónustu eru nýttir út í hörgul. Það fer að styttast í að mörkin milli sjónvarps, farsíma og tölvu verði sáralítil og nánast engin. Þetta býður auðvitað upp á gríðarlega mikla möguleika sem Evrópufjölmiðlarnir hafa tekið þátt í að leiða breytingar á og ég sé ekki annað en Ríkisútvarpið þurfi að taka þátt í þeirri samkeppni og þeirri þróun sem er að eiga sér stað. Ég hefði haldið að það væri þá mun snjallara og réttara í okkar litla samfélagi, okkar þrönga málsamfélagi, að gera þetta undir handarjaðri hins opinbera, þ.e. með fyrirtæki í þjóðareigu en ekki í því lokaða umhverfi sem oháeffunin leiðir til samkvæmt því frumvarpi sem við nú ræðum.

Elfa Ýr Gylfadóttir segir í grein sinni, með leyfi forseta:

„Einkareknu sjónvarpsstöðvarnar í Evrópu hafa margar hverjar kært ríkisfjölmiðlana og telja að þeir eigi að einbeita sér að útsendingum í hljóðvarpi og sjónvarpi og eigi ekki að útvíkka starfsemi sína og hefja samkeppni í nýmiðlun og gagnvirkri þjónustu. Þar sem ríkisfjölmiðlar bjóða alls kyns gagnvirka þjónustu frítt gerir það einnig einkamiðlunum erfitt fyrir að taka gjald fyrir slíka þjónustu.“

Af því að ég hef haft auga á þessari grein Elfu Ýrar finnst mér alveg ljóst að hún er að lýsa umhverfi sem meiri líkur eru á að fari úr böndunum eða einkamiðlarnir notfæri sér ef við förum út í þær breytingar sem lagðar eru til. Við eigum síður von á slíkum átökum, held ég, ef við höldum Ríkisútvarpinu sem opinberri stofnun og meiri líkur eru á að okkur takist að standa vörð um þá réttarhefð sem er til staðar ef við höldum áfram að skilgreina útvarpið undir opinberar réttarheimildir en förum ekki með það út í hinar einkaréttarlegu skilgreiningar.

Hér takast auðvitað á ólík sjónarmið. Annars vegar samkeppnissjónarmið og viðskiptasjónarmið, sem haldast í hendur, og hins vegar ákveðin sjónarmið menningarlegs eðlis og lýðræðislegs eðlis. Við höfum í fjölmiðlaskýrslunni okkar gagnmerku langan kafla um á hvern hátt þurfi að standa vörð um menningarefni og menningarframleiðslu á ljósvakanum, bæði í sjónvarpi og útvarpi, og ekki hvað síst höfum við ákveðnum skyldum að gegna varðandi lýðræðislega umræðu í samfélaginu. Þá finnst mér afar mikilvægt að þeirri lýðræðislegu umræðu sé fyrir komið í fyrirtæki sem nýtur þeirrar sérstöðu að vera opinbert fyrirtæki og skilgreint undir opinberum rétti fremur en slíkt sé gert á einkaeignarréttarlegum forsendum. Þessi sömu sjónarmið eru til staðar í Evrópu og lýsir Elfa Ýr Gylfadóttir því afar vel í grein sinni og hún segir, með leyfi forseta:

„Fyrra sjónarmiðið lýsir sér í þeirri kröfu að ríkisfjölmiðlar noti ekki ríkisstyrki til að fjármagna þjónustu í samkeppnisrekstri. Þetta er eðlileg krafa samkeppnisaðila á markaði sem eiga erfitt með að keppa við stór fyrirtæki eða stofnanir eins og ríkisfjölmiðlar eru á heimamarkaði. Þá þurfa stjórnvöld að horfa til ríkisstyrkjareglna Evrópusambandsins og skoða fjölmiðlastarfsemina út frá viðskipta- og samkeppnissjónarmiðum.

Síðara sjónarmiðið birtist í einlægum vilja ráðamanna í Evrópu til að viðhalda ríkisfjölmiðlunum út frá menningarpólitískum sjónarmiðum. Ríkisfjölmiðlarnir gegna mikilvægu hlutverki með því að miðla þjóðlegri menningu, tungu og menningararfi. Þá gegnir hlutlæg fréttaumfjöllun og sjálfstæði ritstjórna veigamiklu hlutverki í lýðræðislegri umræðu í Evrópu. Ef almannaþjónustuhlutverk ríkisfjölmiðlanna verður skilgreint of þröngt og þeir fá ekki tækifæri til að nýta nýja tækni og höfða til yngri kynslóðarinnar er framtíð ríkisfjölmiðlanna ekki björt. Ef almannaþjónustuhlutverkið er skilgreint of vítt kann það að hafa neikvæð áhrif á einkarekna fjölmiðla og skaða samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Enn er óvíst hvert stefnir.

Hér á landi er Ríkisútvarpið til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA og yfirvöld þurfa nú að afmarka almannaþjónustuhlutverk stofnunarinnar í nýju lagafrumvarpi.“

Það hafa þau gert og við í menntamálanefnd Alþingis Íslendinga fengum ekki að senda Eftirlitsstofnuninni málið til umfjöllunar, eða reyndar til Evrópuráðsins vildum við nú heldur senda það, vegna þess að formaður menntamálanefndar taldi enga hefð fyrir því að leita álits á frumvörpum af þessu tagi hjá Evrópustofnun.

Það á eftir að skoða margt í þessu máli, virðulegi forseti, annað en Evrópusjónarmiðið og þróunina úti í Evrópu. Við höfðum í sjálfu sér lítið svigrúm til að ræða málin í menntamálanefnd. Það má segja að einn fundur okkar hafi farið í umræður. Að öðru leyti var rætt við gesti sem var auðvitað gagnlegt og margt sem rak á fjörur okkar í þeim viðtölum. En eiginleg átök um sjónarmiðin fengu ekki mikið rými í menntamálanefnd þannig að ég horfi til þess tíma þegar menntamálanefnd kallar málið aftur inn, á milli 2. og 3. umr., og gerir ráð fyrir að á þeim tíma gefist viðbótartími til að skoða ákveðna þætti málsins sem hafa ekki endanlega verið skýrðir.

Varðandi starfsmenn og réttindamál þeirra, virðulegi forseti, þá er kafli í minnihlutaálitinu sem skýrir á nokkuð greinargóðan hátt með hvaða hætti réttindi starfsmanna eru í uppnámi við þessar breytingar. Það verður að segjast eins og er að það er ámælisvert en okkur berast til eyrna fréttir af því að stjórnendur Ríkisútvarpsins séu að hluta til byrjaðir að vinna eftir þessu frumvarpi þótt það sé alls ekki orðið að lögum frá Alþingi. Við höfum fengið upplýsingar um það og reyndar hafa komið upplýsingar um það opinberlega að ráðningarform fólks til Ríkisútvarpsins sé þannig að farið sé að gera einkasamninga, lokaða leynisamninga, um kaup og kjör einstakra starfsmanna. Þar af leiðandi er hafin þróun sem kemur til með að verða óhjákvæmileg nái þetta frumvarp fram að ganga, þ.e. að launabilið á milli starfsmanna er farið að breikka. Það á bara eftir að halda áfram. Eins og fram kemur í nefndarálitinu viðurkenndi Páll Magnússon útvarpsstjóri fyrir menntamálanefnd að slíkt mundi eflaust gerast, það væri fylgifiskur þeirra breytinga sem lagabreytingin hefði í för með sér. Hann dró ekki dul á það. Ég tel að vert sé, jafnt fyrir starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu sem okkur sem höfum viljað standa vörð um kaup og kjör fólks á almennum markaði og hjá hinu opinbera, að sperra eyrum og gefa gaum að orðum útvarpsstjóra þegar hann segir að hinir frjálsu samningar, sem taka munu við af kjarasamningum opinberra starfsmanna, þegar þeir samningar renna út að tveimur árum liðnum, muni það að öllum líkindum auka launabilið á milli starfsmanna. Útvarpsstjóri sagði að með slíkum frjálsum samningum kynnu starfsmenn að geta tekið ákvarðanir um að selja kauphækkanir gegn réttindum eða öfugt, að selja réttindi sín fyrir kauphækkanir. Það er ljóst að eftir að tvö ár eru liðin mun samið á nýjum nótum, nýjum forsendum, við starfsmenn. Þar gilda ekki kjarasamningar opinberra starfsmanna eða þær reglur sem við höfum komið okkur saman um að eðlilegt sé að gildi um starfsmenn í opinberri þjónustu.

Við í minni hlutanum vitnum til umsagnar frá BSRB og BHM sem sendu okkur sameiginlega umsögn um málið. Umsagnir þessara aðila fara ítarlega í gegnum réttindamálin. Það gerir einnig umsögn stjórnar samtaka starfsmanna Ríkisútvarpsins um frumvarpið en þeirri umsögn fylgir samantekt sem gerð er af Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanni þann 23. október 2006 í tilefni af framlagningu þessa frumvarps.

Lára V. Júlíusdóttir tekur undir öll meginatriðin í umsögn BHM og BSRB en þar er stiklað á aðalatriðum málsins, þ.e. að núverandi starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu hætti að vera starfsmenn ríkisins og verði þess í stað starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. Það er eðli málsins samkvæmt óeðlilegt, frú forseti, vegna þess að ríkið ber áfram ótakmarkaða ábyrgð á starfseminni. Þar af leiðandi breytist ekkert eðli þessara starfa. Ríkisútvarpið sinnir áfram svipuðu hlutverki og það sinnir í dag og óeðlilegt að skilgreina störf starfsmannanna á annan hátt heldur en gert er í dag. Það undirstrikar sjónarmið okkar sem erum mótfallin því að frumvarpið nái fram að ganga og Ríkisútvarpinu verði breytt í opinbert hlutafélag. Við segjum fullum fetum að slíkt varði rétt starfsmanna til að fá að halda áfram að vera opinberir starfsmenn, enda varða lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins bæði réttindi starfsmanna en ekki síður skyldur vegna þess að eðli starfsins er annað heldur en á opinberum markaði. Þar af leiðandi falla niður réttindi á borð við andmælarétt og áminningarskyldu, skriflegan rökstuðning fyrir uppsögn, auglýsingaskyldu á lausum störfum, aðgangi almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, uppsagnarfrest og þagnarskyldu og þannig mætti áfram telja, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans.

Það er ljóst að stéttarfélögin sem um ræðir verða ekki samningsaðilar hins nýja félags. Stéttarfélögin sem munu semja um kaup og kjör starfsmanna heyra undir lög um stéttarfélög og vinnudeilur og lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnar frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla og reglur um verkföll starfsmanna. Segja má að núgildandi kjarasamningur komi til með að gilda þangað til nýr samningur verður gerður. Það er allsendis óljóst hvað kemur til með að verða innifalið í honum af þeim réttindum eða þeim skyldum sem starfsmenn Ríkisútvarpsins gegna í dag. Það eru ákveðin vafaatriði uppi um ávinnslu réttinda hjá Ríkisútvarpinu ohf. og óvíst hvernig tekst til að semja um sambærileg réttindi þegar nýr kjarasamningur verður gerður við Ríkisútvarpið ohf. Í síðasta mánuði gaf útvarpsstjóri út yfirlýsingu á fundi með starfsmönnum Ríkisútvarpsins um að öll réttindi starfsmanna mundu haldast en þegar hann, í annarri eða þriðju heimsókn sinni til menntamálanefndar, var spurður um þá yfirlýsingu kom auðvitað í ljós að hann hafði hvorki umboð eða möguleika á að gefa nokkra yfirlýsingu sem næði lengra en til tveggja ára, þ.e. til þeirra tveggja ára sem eftir eru af gildandi kjarasamningi. Varðandi áframhaldandi réttindi gat útvarpsstjóri ekki sagt nokkurn skapaðan hlut en hann gaf vilyrði fyrir því að það væri vilji til þess að þeir sem nú eru með réttindi til í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fengju áfram að vera í A-deild lífeyrissjóðsins.

En hvað með lífeyrisrétt starfsmanna í B-deild? Við rekstrarformsbreytinguna verður skerðing á réttindum þeirra. Iðgjöld B-deildarinnar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hafa miðast við laun viðkomandi í dag og sé staða viðkomandi starfsmanns lögð niður þá breytast iðgjaldsreglurnar til samræmis við meðalbreytingar á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, þ.e. það verður einhvers konar frysting á laununum og hækkun launa starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu ohf. mundi engin áhrif hafa á eftirlaun starfsmannsins þegar hann lætur af störfum vegna aldurs. Þar verður ákveðin frysting á réttindum sem starfsmaðurinn vinnur sér inn en fær ekki notið í eftirlaunum.

Sett er sérákvæði í frumvarpið um takmörkun á rétti starfsmanna til töku lífeyris úr B-deild LSR samhliða starfi. Það sérákvæði er ekki í samræmi við það sem almennt gildir í dag og má nefna að fjölmargir sjóðfélagar í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eiga rétt á töku lífeyris úr B-deild samhliða starfi. Þarna er um upptöku réttindi að ræða sem er grafalvarlegt mál og fullkomlega óeðlilegt að ganga á rétt fólks með þeim hætti sem hér er lagt til.

Það kemur skýrt fram í umsögn BHM og BSRB að að mati þessara félaga sé eina leiðin, til að tryggja óbreytt réttindi starfsmanna og að þau haldist með sama hætti og þau eru nú, að rekstrarformsbreytingin nái ekki fram að ganga. Að öðrum kosti vilja þessi samtök að það verði orðað skýrt í bráðabirgðaákvæði 2 í frumvarpinu hvaða réttindi menn eiga við aðilaskiptin og BHM og BSRB eru með tillögu um nýtt bráðabirgðaákvæði í umsögn sinni sem tekur á því. Þar er gert ráð fyrir að RÚV ohf. taki við gildistöku laganna yfir skyldu vinnuveitenda gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins að öllu leyti og þannig haldi þeir óbreyttum réttindum samkvæmt lögum, kjarasamningum og ráðningarsamningum. Starfskjör, réttindi og ávinnsla réttinda muni halda áfram hjá hlutafélaginu eins og um samfellda ráðningu hjá sama vinnuveitanda verði að ræða. Starfsmenn Ríkisútvarpsins sem njóti biðlaunaréttar samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, samanber 34. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, missi ekki rétt til biðlauna við gildistöku laganna þótt þeir afþakki boð um starf hjá Ríkisútvarpinu ohf. Eftir gildistöku laganna skuli starfsmönnum sem rétt eiga til biðlauna veittur umþóttunartími í þrjá mánuði til að taka afstöðu til þess hvort þeir taki boði um starf hjá Ríkisútvarpinu ohf. eða neyti biðlaunaréttar síns, við lok þriggja mánaða tímabilsins ef viðkomandi kýs að halda ekki áfram störfum.

Sömuleiðis eru BHM og BSRB með hugmyndir um að í bráðabirgðaákvæðinu þyrfti að orða með skýrum hætti rétt núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins um að þeir eigi rétt til áframhaldandi aðildar að þeim sjóði sem og allir starfsmenn sem ráðnir verða hjá RÚV ohf., en það er eitt sem þarf að tryggja, þ.e. nýráðningar, að réttindi starfsmanna sem ráðnir eru til hins nýja félags, jafnvel á þeim tíma sem kjarasamningurinn sem nú er í gildi gildir, fái svipuð réttindi eða sambærileg og starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa í dag. Það er auðvitað enginn vilji til þess hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins eða hjá stjórnvöldum. Vilji manna stendur til að ná fram ákveðinni hagræðingu í gegnum möguleika á að greiða fólki lægri laun og sjá til að réttindagreiðslur verði lægri. Það er beinlínis innbyggt í hagræðingarhugmyndir stjórnvalda og stjórnenda Ríkisútvarpsins eins og kemur fram í gögnum sem menntamálanefnd hafði til umfjöllunar þegar fjallað var um málið.

Það þyrfti líka að orða skýrt á hvern hátt starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. ættu rétt á að vera félagsmenn í stéttarfélögum sem lögum samkvæmt eiga rétt á að gera kjarasamninga við Ríkisútvarpið ohf. Hugmyndir BHM og BSRB ganga einnig út á að setja þurfi inn bráðabirgðaákvæðið að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., það sé afar óljóst að hvaða leyti ákvæði þeirra gildi um hið nýja félag.

Þegar öllu er á botninn hvolft óska þessi stóru launþegasamtök þess eins að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga enda sé um upptöku starfstengdra réttinda að ræða sem ósvinna sé að samþykkja á Alþingi.

Í umsögn Félags fréttamanna um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. er farið ofan í þessi sömu atriði, þ.e. kjaramálin eru ofarlega í huga starfsmanna. En það er ekki síður mikilvægt að fréttamenn gefa okkur ákveðna leiðsögn varðandi fagleg atriði og eru með afar beinskeytta gagnrýni á frumvarpið út frá faglegum sjónarmiðum. Félagið leggur áherslu á að í þessari 3. gr. frumvarpsins þar sem almannaþjónustuhlutverkið er skilgreint verði kveðið með skýrum og ótvíræðum hætti á um að meðal þeirra skyldna sem Ríkisútvarpið eigi að axla sé að starfrækja almenna, víðtæka, sjálfstæða og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni á hljóðvarps- og sjónvarpsformi, en þessa atriðis sér ekki með skýrum hætti stað í frumvarpinu eins og það er nú, segja fréttamennirnir. Félagið leggur til að ákvæði þessa efnis verði bætt við frumvarpstextann til þess að tryggt sé að hugmyndin sem hér er að baki nái fram að ganga og verði viðhöfð þegar og ef til þess kemur að Ríkisútvarpið ohf. líti dagsins ljós.

Félag fréttamanna leggur líka áherslu á að áfram verði starfandi að minnsta kosti tvær sjálfstæðar fréttaritstjórnir hjá Ríkisútvarpinu, annars vegar fréttastofa útvarps og hins vegar fréttastofa sjónvarps og að þess verði getið með skýrum hætti í frumvarpinu. Einnig segja félagar í Félagi fréttamanna að tvær ritstjórnir með þessum hætti séu nauðsynlegar til þess að viðhalda fjölbreytni og samkeppni á fjölmiðlamarkaði, sér í lagi í ljósvakamiðlunum þar sem eignarhald er ekki fjölbreytt eins og staðan er nú. Þá tryggir það tæknilega að auki mun hnitmiðaðri umfjöllun á fréttaþjónustu, að önnur ritstjórn sinni útvarpi og hin sjónvarpi. Undir þetta sjónarmið skal tekið hér, virðulegi forseti.

Félag fréttamanna vill líka að kveðið verði á um það í frumvarpinu að af þess hálfu verið reknar að lágmarki tvær útvarpsrásir og ein sjónvarpsrás enda séu forsendur fyrir Ríkisútvarpinu sem sterkum fjölmiðli brostnar ef einhver þessara rása yrði skilin frá eða lögð niður. Undir þetta sjónarmið skal líka tekið hér.

Félagið leggur áherslu á að aðgengi almennings í landinu að Ríkisútvarpinu sem opinberu hlutafélagi verði tryggt og að almenningur geti haft áhrif og komið skoðunum sínum á framfæri við Ríkisútvarpið. Kveða verði skýrt á um þetta aðgengi í lögum og sama gildir um upplýsingar um fjölmiðilinn og dagskrárstefnu hans, segir í bréfi fréttamanna til nefndarinnar.

Félag fréttamanna vill að fulltrúi starfsmanna komi að stjórn fyrirtækisins. Það er samhljóða hugmyndum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem ég gerði grein fyrir hér áðan og er auðvitað afar mikilvægt að á 21. öldinni verði ekki látið vitnast að hér sé sett á laggirnar öflugt og kröftugt fyrirtæki af því tagi sem hér um ræðir án þess að starfsmenn hafi nokkra aðkomu að stjórn eða rekstri þess.

Félag fréttamanna leggur líka áherslu á að ákveðnir eldveggir verði viðhafðir innan fyrirtækisins til að verja sjálfstæða umfjöllun. Í því sambandi nefnir félagið nokkur atriði. Í fyrsta lagi það að tryggja þurfi í frumvarpstextanum sjálfstæði fréttaritstjórna gagnvart útvarpsstjóra og markaðsdeild og annarri þeirri starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. sem á sitt undir auglýsingum og kostendum til efnis.

Það gefur augaleið hvers vegna fréttamennirnir telja þetta mikilvægt. Það skyldi þó ekki vera að ástæða sé til þess orðin hér á landi að óttast að íhlutun stórfyrirtækja eða fjársterkra aðila sé farið að gæta í fréttaflutningi fjölmiðla hér á landi. Ég tel afar nauðsynlegt að reistir séu eldveggir af þessu tagi því við verðum að tryggja að hér njóti að minnsta kosti einn fjölmiðill á ljósvakanum fullkomins sjálfstæðis fréttaritstjórnanna og að ekki verði um nokkra möguleika til íhlutunar að ræða.

Sömuleiðis vilja fréttamennirnir að það verði tryggt við ráðningar og launaákvarðanir fréttamanna að farið sé að faglegum sjónarmiðum. Fréttamennirnir mótmæla launaleynd, vilja að forsendur launa og launagreiðslna séu öllum ljósar, vilja sömuleiðis að fréttamenn gangi undir hæfnispróf áður en þeir eru ráðnir og telja að stjórnsýslulögin og meginreglur stjórnsýsluréttar mundu nægja til þess að fullnægja slíkum þáttum verði þær látnar gilda um hið opinbera hlutafélag, enda veiti þau lög og þau lagaákvæði ákveðin réttindi að því er þessi atriði varðar.

Að lokum nefnir Félag fréttamanna að tryggja þurfi Ríkisútvarpinu ohf. örugga tekjustofna. Fréttamenn telja með öðrum orðum ekki þær hugmyndir sem eru í frumvarpinu nægilega öruggar fyrir Ríkisútvarpið sem tekjustofn.

Ég hef getið um það hér í fyrri ræðum mínum um þetta mál að það sé afar mikilvægt að afnotagjöldin haldi og verði áfram við lýði því ég tel að hið beina samband neytenda við Ríkisútvarpið megi tryggja með þeim hætti að neytendur og notendur greiði afnotagjald þó svo að hægt að sé að hugsa sér þetta sem við höfum lagt til í Vinstri grænum, að gjaldið sé tengt fasteignum en ekki viðtækjum, enda er sú tenging kannski barn síns tíma. En það er leitt að það skuli ekki hafa verið skoðað í menntamálanefndinni hvorki nú né endranær hvernig mætti hugsa sér að koma upp slíkri tengingu, þ.e. tengingu afnotagjaldsins við fasteign. Slíkt hefur verið gert erlendis og sannarlega er full ástæða til þess að skoða reynsluna af því áður en rasað er um ráð fram í þessum efnum og farið í þessa nefskattshugmynd sem hér er gert ráð fyrir. Nefskatturinn var ekki heldur sérstaklega til umfjöllunar hjá menntamálanefnd. Við fengum hins vegar á síðasta ári umsögn frá ríkisskattstjóra sem er mjög gagnrýninn á þessa hugmynd um nefskattinn. Ég mun kannski fara síðar í ræðu minni, virðulegi forseti, aðeins á saumana á þeirri umsögn.

En til að ég ljúki nú umfjölluninni um hugmyndir Félags fréttamanna á þessu faglega sviði þá segja fréttamennirnir að starfssvið útvarpsstjóra sé ekki skýrt samkvæmt frumvarpinu og tekið skal undir það hér. Fréttamennirnir vitna í 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins um útvarpsstjóra þar sem segir að í samþykktum félagsins megi nánar skilgreina starfssvið hans. En að mati félagsins er réttara að gera það strax í frumvarpstextanum sjálfum.

Þá kemur fram í 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins, segja fréttamennirnir, að útvarpsstjóri sé æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum Ríkisútvarpsins ohf. en ef starfssvið útvarpsstjóra er ekki skilgreint þá getur það valdið því að sjálfstæði fréttaritstjórna sé nákvæmlega jafnmikið eða jafnlítið og útvarpsstjóri ákveður hverju sinni. Þetta er sjónarmið sem vert er að taka tillit til og hefði sannarlega verðskuldað eins og einn snúning í umræðunni í menntamálanefnd.

Þá að lokum varðandi afnotagjöldin telur Félag fréttamanna bestu leiðina til að fjármagna Ríkisútvarpið vera afnotagjöld og er það í takt við það sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt til. Það er engin krafa af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA að leggja afnotagjöldin niður. Við þekkjum það í ríkisútvörpum víða um Evrópu að þau hafa haldið sig við þessa fjármögnunarleið og hún hefur gefist vel. Jafnvel þó hún sé dýr í innheimtu þá hefur það samt sem áður sýnt sig að hún skilar sér nokkuð vel og ekkert verr en nefskattur mundi gera.

Kostnaður við innheimtudeildina er hluti af hagræðingunni sem stjórnvöld sjá fyrir sér við þessar breytingar. En það kom fram í máli útvarpsstjóra þegar hann heimsótti nefndina að sparnaðurinn við að koma á nefskattskerfinu mundi verða um 90 millj. kr. á ári. Þar hefur hann í huga kostnaðinn við að reka innheimtudeildina og einhverja útfærslu á því.

En ég vil nú meina að þó sá kostnaður sparist kannski hjá Ríkisútvarpinu þá komi hann bara til með að færast yfir á ríkisskattstjóra eða skattstjórana í landinu sem þurfa að taka við þeirri innheimtu sem innheimtudeild Ríkisútvarpsins hefur hingað til annast. Finnst mér það mikil skammsýni af stjórnarmeirihlutanum að sjá það ekki í hendi sér að hér er einungis um tilfærslu kostnaðar að ræða en ekki það að kostnaðurinn hverfi. Í ríkiskerfinu hefði maður haldið að ekki skipti sköpum hvorum megin hryggjar hann lægi, þ.e. hjá ríkisskattstjóra eða Ríkisútvarpinu. Það kemur í sama stað niður. Hið opinbera kerfi ber á endanum þann kostnað. Segi ég þá skilið, frú forseti, við umsögn Félags fréttamanna um þetta frumvarp en bendi áhugasömum á að hún er í heild sinni birt sem fylgiskjal með nefndaráliti minni hluta nefndarinnar. Svo er í raun líka farið fleiri umsögnum, þ.e. umsögn BHM og BSRB og sömuleiðis lögfræðiáliti Láru V. Júlíusdóttur, og fleiri umsagnir eru þar birtar.

Varðandi sparnaðinn eða hagræðinguna sem á að nást að mati útvarpsstjóra og stjórnvalda með þeim breytingum sem hér eru gerðar þá er í fyrsta lagi talað um að hagræðingin sem fara á fram muni skila um 400 millj. kr. og eigi þá að dekka þann útgjaldaauka sem verður að mati stjórnendanna. Þessir fjármunir koma í fyrsta lagi í gegnum það að árlegt framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður fellt niður, en það er innan við 200 millj. kr. Reyndar má taka það fram hér að Ríkisútvarpið hefur aldrei greitt þær milljónir heldur hafa þær verið greiddar úr ríkissjóði og skuldfærðar á Ríkisútvarpið.

Reiknað er með um það bil 90 millj. kr. sparnaði varðandi nefskattinn og innheimtu hans sem, eins og ég sagði áðan, er ekki sparnaður heldur einungis tilfærsla á kostnaði frá innheimtudeild Ríkisútvarpsins og yfir til skattstjóranna í landinu. Síðan er gert ráð fyrir 6% rekstrarhagræðingu yfir heildina. Hvað skyldi hún nú fela í sér, þessi hagræðing upp á 6%? Við í menntamálanefnd höfum ekki séð neina áætlun um það á hvern hátt verði hagrætt. Það eina sem má segja að við sjáum í hendi okkar er að ekki verður ráðið í þau störf sem losna á næstunni þannig að það er greinilega verið að reyna að ná stórum hluta þessarar hagræðingar fram með fækkun á fólki. Ef við fækkum fólki innan stofnunarinnar þurfum við líka að vera með það alveg á hreinu hvaða störf þar eru að falla niður. Um leið verðum við að reyna að átta okkur á því hvernig það bitnar þá á dagskrárframboðinu og gæðum dagskrárinnar og gæðum yfir höfuð starfseminnar sem fram fer í stofnuninni. Það hefði verið hægur vandi, að mínu mati, að gera áætlun um þessa rekstrarhagræðingu og tíunda nákvæmlega hvað hún felur í sér. Menntamálanefnd óskaði eftir slíku frá útvarpsstjóra en fékk ekki.

Það var heldur ekki lögð fram nein áætlun um hvað þessi rekstrarhagræðing felur í sér við matsnefnd þá sem starfaði fram til 28. nóvember síðastliðinn við að gera stofnefnahagsreikning fyrir hið nýja félag. Okkur í menntamálanefnd barst í hendur á síðustu metrunum skýrsla þeirrar nefndar og sýnir hún á hvern hátt menn sjá fyrir sér að þetta nýja félag verði stofnað og hver fjárhagsgrunnur þess kemur til með að verða.

Það kemur hins vegar ekki skýrt fram í þeirri skýrslu hver fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er nákvæmlega í dag. Gera má ráð fyrir því að staða útvarpsins sé sú að það skuldi ríkissjóði um 420 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að ný hækkun á afnotagjöldunum, 8% hækkun frá því núna í október ef ég man rétt, muni dekka að stórum hluta eða öllu heldur greiða upp þann hala sem um ræðir og má vel vera að það reynist rétt. En hitt skulum við skoða og vera þess minnug, að þegar Ríkisútvarpið óskaði síðast eftir hækkun á afnotagjöldunum þá var ekki óskað eftir 8% hækkun heldur 16% hækkun. Hækkunin sem heimiluð var hér á stjórnarheimilinu var hins vegar 8%.

Þá er eðlilegt að maður spyrji: Hvaða starfsemi sér Ríkisútvarpið eða stjórnendur þess fyrir sér að skera þurfi niður af því sem menn töldu eðlilegt að Ríkisútvarpið annaðist fyrir bara örfáum mánuðum þegar farið var fram á 16% hækkunina? Ég sé ekki betur en hér reki hlutirnir sig hver á annars horn, við séum hér á mjög hálum ís varðandi fjárhagslega afkomu þessarar nýju stofnunar og ég sé ekki á hvern hátt aukið framboð af innlendu dagskrárefni á kjörtíma á að koma til með þeim fjárhagsramma sem er til staðar í dag. Ég er ansi hrædd um að það þurfi meira til. Það hefði verið hægt að leiða það í ljós nokkuð nákvæmlega ef menn hefðu sest yfir það og skoðað þá hluti rækilega. Það hefur aldrei staðið á okkur í minni hlutanum á Alþingi að fara með stjórnarmeirihlutanum í þá skoðun og í þá umræðu á hvern hátt megi sjá fyrir sér út í hörgul að fjármunir stofnunarinnar nýtist sem allra best. Við höfum í gegnum tíðina boðið fram krafta okkar í því. Við vildum á sínum tíma þegar við vorum að fjalla um fjölmiðla almennt að Ríkisútvarpið yrði jafnframt tekið til skoðunar og að sú nefnd sem þá starfaði, og skilaði af sér hinni merku skýrslu vorið 2005, fengi sömuleiðis það hlutverk að skoða málefni Ríkisútvarpsins ofan í kjölinn og á hvern hátt öflugt ríkisútvarp gæti starfað við hliðina á þeim fjölmiðlum sem starfa á einkamarkaði og koma til með að starfa eftir þessum almennu fjölmiðlalögum. Upp á það var ekki boðið, ekki frekar en nú í starfi menntamálanefndar, þar var heldur ekki boðið upp á það að við færum í alvarlega skoðun á hlutum eins og því t.d. hvað hagræðingaráætlunin felur í sér.

Það eru aðrir þættir í þessum stofnefnahagsreikningi sem vekja spurningar en eru nokkuð óljósir. Sem dæmi má nefna, og það kemur trúlega til frekari umfjöllunar þegar við tökum til skoðunar frumvarpið um Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem er á dagskrá þingsins síðar í dag, að það er ljóst að framlagið til Sinfóníuhljómsveitar Íslands mun falla niður árið 2007 og það er athyglisvert að ekki er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið þurfi yfir höfuð að greiða fyrir það efni sem Sinfóníuhljómsveitin kemur til með, hingað til og hér eftir, að útvega hljóðvarpinu í formi tónleika sem hafa verið fluttir á fimmtudagskvöldum. Sagt er frá því í skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings að ekki sé gert ráð fyrir kostnaði vegna þjónustusamnings milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins. Er það í sjálfu sér óleyst mál og ekki vitað á þessu stigi hvort Sinfóníuhljómsveitin gerir sér grein fyrir því yfir höfuð að viðhafa eigi þetta ráðslag. Það háttaði svo til að þegar þetta mál kom upp á borð hjá okkur í menntamálanefnd að við höfðum lokið spurningum okkar og yfirheyrslum um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við höfðum fengið framkvæmdastjóra hljómsveitarinnar til okkar til skrafs og ráðagerða og spurt hana út úr en við höfðum ekki tækifæri til að spyrja um þetta atriði því að það var ekki fyrr en eftir að framkvæmdastjórinn var farinn sem það opnaðist fyrir okkur að þetta ráðslag væri á döfinni hjá stjórnvöldum.

Aðrir þættir sem skoða mætti nánar varðandi stofnefnahagsreikninginn og það mat sem kemur fram í honum eru atriði sem varða lóðir, t.d. Vatnsendalóðina sem Ríkisútvarpið hefur átt og haft til afnota. Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið, samkvæmt upplýsingum sem við fengum í nefndinni, að Vatnsendalóðin færist ekki til Ríkisútvarpsins ohf. heldur verði félaginu fenginn afnotaréttur af henni fyrst um sinn. Það er ákveðin óvissa um matsverð lóðanna í stofnefnahagsreikningnum sem ég held að hefði líka verið fullt tilefni til að skoða enn frekar í nefndinni. Við fengum hins vegar ekki stofnefnahagsreikninginn í hendur fyrr en á síðustu metrunum í umfjöllun okkar þannig að þar skortir talsvert á að við séum komin til botns. Eflaust má laga eða leiðrétta eitthvað af því þegar við fáum málið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og það er sannarlega tilefni til að skoða þar ákveðna þætti nánar.

Varðandi þær fjárfestingar sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir þá eru þær eitt óvissuatriðið enn sem ég held að þingmenn verði að gera sér grein fyrir. Allur tækjabúnaður Ríkisútvarpsins er meira og minna úr sér genginn. Notuð er hliðræn tækni enn þá að langmestu leyti, kerfið er orðið gamalt og lúið og nú treysta menn á það, að mínu mati í nokkurri blindni, að kerfismálin leysist af sjálfu sér og það komi ekki til með að verða aukinn kostnaður eða fjárútlát fyrir Ríkisútvarpið að endurnýja eða tryggja örugga dreifingu um allt land, upp til fjalla, inn til dala og út á ystu mið. Menn ætla bara að láta skeika að sköpuðu og treysta því að Ríkisútvarpið fái inni með sína dreifingu hjá dreifingaraðilum sem verða þá trúlega einkafyrirtæki, hvort sem það verður Síminn, Digital Ísland, Orkuveita Reykjavíkur eða hverjir þeir aðilar verða. Það er ekki búið að leggja neitt mat á verð þessara þjónustuaðila. Ég held því að menn renni hér afar blint í sjóinn og að ekki séu öll kurl komin til grafar hvað þennan kostnað varðar. Mér segir svo hugur að hann komi til með að verða talsvert hærri en óskir útvarpsstjóra standa til og þá sömuleiðis óskir hæstv. menntamálaráðherra. Þar er enn einn óvissuþátturinn sem við sitjum uppi með.

Allt ber þetta að sama brunni, virðulegi forseti, málið er ekki fullskoðað, það er ekki fullburða enn þá, enda er hér um svo vafasama breytingu að ræða að það má segja að ekki verði séð fyrir endann á mörgum þáttum þess. Finnst mér fullmikil fífldirfska í gangi ef menn ætla bara að láta kylfu ráða kasti og sjá til með hvernig þetta gengur, eins og mér finnst blasa við í nokkuð mörgum þáttum þess. Fyrirhyggjan er ekki til staðar og það skortir talsvert á að menn hafi talað sig til botns í afar stórum þáttum.

Eðli málsins samkvæmt er rekstur svona miðils, sérstaklega í eins litlu og viðkvæmu málsamfélagi og við búum við, afar mikilvægur fyrir menningu þjóðarinnar. Það hefur verið talað fallega um Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, í þessum ræðustóli og úti í samfélaginu í gegnum árin og áratugina og menn hafa sterkar og mjög sérstakar taugar til Ríkisútvarpsins. Ég tel hugmyndir ríkisstjórnarinnar í þá veru sem við höfum fjallað um vera þeirrar náttúru að þær ógni þessum tilfinningum fólks til Ríkisútvarpsins, þær ógna því trausti sem almenningur ber til Ríkisútvarpsins í dag, en það hefur æ ofan í æ komið fram í könnunum að bæði fréttastofa Ríkisútvarpsins og stofnunin sem slík nýtur gríðarlega mikils trausts þjóðarinnar. Það fer um og yfir 70% hlutfallið sem sagt er treysta þessari stofnun, bæði hvað varðar lýðræðislega umfjöllun frétta og fréttaflutning. Velvildin er líka gríðarlega mikil og ég tel að henni sé ógnað. Almenningur og þjóðin á betra skilið en það sem hér er lagt til. Allt er meira og minna reist á sandi og mér finnst lítill trúverðugleiki í þeim áformum sem eru til staðar, eins og komið hefur fram í máli mínu. Mér finnst það glapræði að stefna í voða trúverðugleika og trausti almennings á þessari rótgrónu stofnun. Við tókum eftir því að mat starfsfólksins sjálfs innan stofnunarinnar á því hvernig stofnuninni hefur tekist að rækja eða uppfylla skyldur sínar varðandi almannaþjónustu, er að það hafi tekist samtímis því að vinsældir stofnunarinnar og dagskrárinnar hafi verið talsvert miklar. Það er mat starfsfólksins að staða miðilsins sé sterk og það er mikill vilji til þess að sú staða miðilsins og stofnunarinnar verði varðveitt, en í mínum huga er henni ógnað með þeim áformum sem hér eru til staðar.

Við erum öll sammála um að það eigi að tryggja meiri innlenda dagskrárgerð, það eigi að tryggja vandað erlent efni og ekki bara frá einu málasvæði, eins og nú er í of ríkum mæli, heldur eigum við að geta boðið upp á fjölþjóðlega erlenda dagskrá í okkar ríkisútvarpi og sjónvarpi. Við þurfum að innleiða hina stafrænu tækni, það er komið að því og gott betur. Við eigum að leyfa okkur þann munað að taka umræðu um fleiri rásir, bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Við eigum að ræða það málefnalega hvaða möguleikar eru á því og hver rökin eru fyrir því að hafa tvær rásir í hljóðvarpi og mögulega tvær rásir fyrir sjónvarp. Við eigum líka að fara í gegnum þá umræðu á hvern hátt við sjáum hina stafrænu tækni taka við af hinni hliðrænu.

Við þurfum líka að sjá fram úr því að Ríkisútvarpið geti rækt skyldur sínar við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð alla. Við megum ekki gleyma því að taka þá umræðu. Við höfum kannski einbeitt okkur um of að rekstrarforminu í þessari umræðu, það fer gríðarlega mikil orka hjá okkur sem erum að reyna að leiða stjórnvöldum fyrir sjónir hvaða vitleysu þau eru að gera með því að tala um þetta rekstrarform og einkavæðinguna sem því fylgir. Við höfum fengið færri tækifæri til að ræða um hina efnislegu þætti, eins og hið menningarlega hlutverk og hvernig þessum miðli er gert að sjá þjóðinni fyrir öflugum fréttaflutningi eða að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir.

Umræðan er takmörkuð og þess vegna hef ég stiklað hér á stóru en hefði sannarlega gjarnan viljað fara dýpra ofan í ýmsa hluti. Ég lít svo á að við getum átt eftir að kafa talsvert dýpra í þá umræðu en við gerum núna þar sem við eigum eftir að fá málið á ný til nefndar. Sömuleiðis geri ég ráð fyrir að 3. umr. verði lengri og umfangsmeiri og kannski getum við þá farið víðar yfir sviðið og dýpra ofan í ákveðna þætti sem ég hef leyft mér að sleppa hér.

Frú forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft er hér um einkavæðingu að ræða hvernig sem á málið er litið. Aðeins það að Ríkisútvarpið verður með þessari breytingu tekið út úr hinum opinbera rétti og sett inn í einkarétt felur það í sér, eitt og sér, að um einkavæðingu er að ræða. Þessi breyting er einkaréttarlegs eðlis, einkavæðing er í mínum huga hugtak sem segir miklu meira en hlutafélagavæðing, ég vil tala tæpitungulaust og tala því hér um einkavæðingu Ríkisútvarpsins sem nú stendur fyrir dyrum.

Það er ömurlegt til þess að vita hvernig Framsóknarflokkurinn hefur lyppast niður í þessu máli og hvert hann hefur látið draga sig. Það örlaði á andstöðu Framsóknarflokksins við málið um daginn og við héldum kannski að flokkurinn væri eitthvað að reisa sig en það stóð ekki lengur en dagpart eða tvo, því miður. Það verður fróðlegt að heyra hv. þingmenn Framsóknarflokksins verja afstöðu síns flokks í umræðunum hér. Við komum til með að leggja hlustir við og sömuleiðis almenningur og auðvitað mun fólk, sem farið er að átta sig á að kosningar nálgast, vera vakandi fyrir þeim sjónarmiðum sem hér er talað fyrir. Ég er hrædd um að Framsóknarflokkurinn eigi eftir að fara nokkuð flatt á þessum viðsnúningi sem ég vil meina að hafi orðið í sjónarmiðum flokksins í gegnum þetta erfiða og þunga mál. Það á eftir að verða honum erfitt og er kannski nú þegar farið að bitna á honum í ljósi þess hvernig skoðanakannanir koma út þessa dagana þegar fylgi Framsóknarflokksins er kannað.

Frú forseti. Ég læt hér lokið máli mínu til að reyna að greiða fyrir umræðum og þingstörfum þó svo að mér liggi margt fleira á hjarta varðandi þetta mál.



[16:15]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að við erum að ræða um málefni Ríkisútvarpsins. Ég vil í upphafi þakka umhyggju annarra flokka fyrir hönd Framsóknarflokksins. Það er gott að finna fyrir hlýhug. Hins vegar er það svo að í þessu máli hefur Framsóknarflokkurinn lagt mikla vinnu í málefni Ríkisútvarpsins og það eru mörg ár síðan byrjað var að ræða um hvað hægt væri að gera til að efla Ríkisútvarpið og það var ekki síst eftir breytingar á fjölmiðlamarkaði þegar aðrar stöðvar komu inn og menn sáu að lítið svigrúm var til að hreyfa við að menn fóru að skoða stjórnskipulag Ríkisútvarpsins og hvað hægt væri að gera. Það er ekkert launungarmál að það mál lá ofan í skúffu í mjög langan tíma og ég tel að það hafi verið vegna hárra radda um að til greina kæmi að selja Ríkisútvarpið. Hins vegar hefur það gerst á síðustu árum, eins og ég hef farið yfir í nokkrum ræðum á undan, að það viðhorf hefur breyst sem betur fer og þegar það gerðist var Framsóknarflokkurinn tilbúinn að fara áfram með þetta mál.

Það var þannig, af því að mönnum hefur verið tíðrætt um samþykktir Framsóknarflokksins í þessu máli, að fyrir síðasta flokksþing okkar starfaði undirbúningshópur sem fjallaði m.a. um málefni Ríkisútvarpsins. Þar voru mótaðar tillögur sem síðan fóru inn í málefnahópa á flokksþinginu og þar var samþykkt ályktun þar sem sú meginhugsun kom fram að rekstrarformið skipti ekki höfuðmáli heldur það grundvallaratriði að Ríkisútvarpið er ekki til sölu. Ég tel að þetta hafi verið afar lýðræðisleg leið, þ.e. auglýst var eftir fólki í þá málefnavinnu og hún fór fram. Einnig má geta þess, af því að sú umræða hefur komið upp, að málið var tekið upp á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem var haldinn fyrir stuttu og þar var ekki nokkur stuðningur við það að álykta gegn þessu máli.

Ég vildi bara fara í gegnum þessa forsögu í ljósi þess sem hér hefur verið sagt. Við framsóknarmenn teljum að með frumvarpinu sé verið að efla Ríkisútvarpið og ég held að menn þurfi ekki að gera annað en lesa umsagnir samkeppnisaðila til að styðja við það og sérstaklega þar sem þeir kalla þetta mikla ríkisvæðingu og við erum afar sátt við það.

Ríkisútvarpið ohf. verður ríkishlutafélag í almannaeigu og það er, eins og ég sagði áðan, skýrt að félagið verður ekki selt og því eigi ekki að skipta upp. Ég ítreka að sú niðurstaða er í takt við samþykkt flokksþings frá árinu í fyrra. Í frumvarpinu er skerpt á hlutverkum Ríkisútvarpsins bæði með ítarlegum ákvæðum í frumvarpinu og í drögum að þjónustusamningi sem fylgir frumvarpinu. Miklar breytingar hafa orðið á efni frumvarpsins frá því það var lagt fyrst fram á Alþingi fyrir tæpum tveimur árum. Við höfum verið að vinna að lagfæringum á efni þess í menntamálanefnd Alþingis og einnig af hálfu ráðuneytisins og óþarfi að tíunda þær breytingar sem hafa komið fram.

Í frumvarpinu er allur fyrirvari um sölu numinn á brott til að leggja áherslu á að ekki eigi að selja Ríkisútvarpið og jafnframt er tryggt að nýja lagasetningu þurfi frá Alþingi til að svo geti orðið. Þess vegna er 1. gr. í frumvarpinu mjög mikilvæg og hún tekur af öll tvímæli um sölu Ríkisútvarpsins og það þykja mér í raun vera stærstu tíðindin í þessu máli og mjög ánægjuleg. Ljóst er að vilji beggja stjórnarflokka í málinu er skýr. Ekki stendur til að selja Ríkisútvarpið og ég er þess fullviss að það mun lifa lengi í eigu okkar allra.

Núgildandi lög um Ríkisútvarpið eru að stofni til frá árinu 1986. Miklar breytingar hafa orðið á fjölmiðlamarkaði síðan þá en eins og ég sagði áðan hefur óeining um breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins hamlað eðlilegri þróun innan hennar. Nú er svo komið að óvissan um framtíðarskipan hefur haft lamandi áhrif á reksturinn. Því er afar brýnt að marka starfseminni skýra lagaumgjörð og veita RÚV það tækifæri sem það þarf til að takast á við gerbreytt umhverfi. Ég tel að Ríkisútvarpið hafi dálítið misst af síðustu ár varðandi þetta atriði.

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á að hér á landi verði rekinn öflugur ríkisfjölmiðill þar sem m.a. verði tryggð fjölbreytni og skoðanafrelsi og hann standi öllum landsmönnum til boða. Með breytingum á lögum um RÚV er verið að festa almannaútvarp í sessi og tekin af öll tvímæli um að ekki skuli einkavæða reksturinn. Þau atriði sem framsóknarmenn hafa staðið vörð um eru fyrst og fremst þau að RÚV er ekki til sölu. Hlutverk þess verði tryggt, réttindi starfsmanna tryggð og RÚV fái alla möguleika til að eflast enn frekar á fjölmiðlamarkaði. Mér finnst líka mikilvægt í ljósi þess að meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem varða kostun og auglýsingar á vefmiðli, það er alveg skýrt, þó að menn í hv. stjórnarandstöðu reyni að leggja það þannig upp að þetta þýði í rauninni ekki neitt, að við erum auðvitað að setja ákveðin mörk á frekari þróun kostunar og eins að það megi ekki, það er alveg girt fyrir það að auglýsa megi á vef Ríkisútvarpsins.

Einnig er sagt svo ég vitni örstutt í nefndarálit meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn vill beina því til menntamálaráðherra að mælast, í þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf., til þess að þeim tekjum sem félagið aflar sér með kostunarsamningum verði fremur varið til kostunar á dagskrárliðum sem varða íslenska tungu, sögu og menningararfleifð, fremur en til kostunar á erlendu afþreyingarefni.“

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og er þess fullviss að hæstv. menntamálaráðherra mun taka tillit til þessa. Þarna erum við í raun að koma í veg fyrir að þessir kannski vinsælu erlendu þættir séu í boði ákveðinna fyrirtækja og þarna verði ekki frekari vöxtur. En við vildum hins vegar ekki loka á að Ríkisútvarpið geti nýtt sér vilja fyrirtækja til að kosta það að koma íslenskri menningararfleifð á framfæri. Það kom t.d. fram í máli útvarpsstjóra — segjum sem svo að einhver fyrirtæki vilji bjóða upp á glæsilega tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar á sunnudagseftirmiðdögum, þá finnst mér það ekki vera hlutverk okkar að koma í veg fyrir það. Og eins er það þekkt að ákveðnir atburðir eru skilyrtir við kostun. Það er því að mínu mati nauðsynlegt að halda þessu opnu.

Ég tel að við séum að koma til móts við athugasemdir samkeppnisaðilanna með þessu tvennu, þ.e. með því að setja þak á kostunina og með því að banna auglýsingar á vef Ríkisútvarpsins. Við vitum að mikið er farið inn á vef Ríkisútvarpsins. Gríðarlega mikið efni og upplýsingar eru þar inni og alveg ljóst að það hefði haft mikil áhrif á aðra vefmiðla ef samkeppni varðandi auglýsingar þar hefðu ríkt. Við erum með þessu að koma töluvert í veg fyrir tekjuöflun Ríkisútvarpsins en viljum þó gæta þess að það sé áfram á auglýsingamarkaði og við erum ekki að skerða tekjurnar það mikið að það muni hefta þróun og í rauninni tækifæri Ríkisútvarpsins til að keppa á þessum markaði í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Við erum búin að ræða þetta mál nokkrum sinnum í þingsölum og búið er að leggja í þetta — ég efast um að nokkurt mál hafi fengið eins mikla og vandaða umfjöllun í nefnd á Alþingi og tel að kominn sé tími til að við klárum þetta. Það eru vissulega, eins og fram hefur komið, skiptar skoðanir um málið og ég held að við séum komin að þeim mörkum að menn gangi ekki lengra, komið hefur verið til móts við flestar athugasemdir. Ég vil ítreka að við framsóknarmenn teljum að við séum að efla Ríkisútvarpið og séum að styðja við bakið á því. Við höfum mikinn metnað fyrir hönd Ríkisútvarpsins, að það sinni hlutverki sínu sem almannaþjónustuútvarp og tel að mikilvægi þess sé mjög mikið nú á tímum og reynsla frá öðrum löndum sýnir okkur líka að menn vilja standa vörð um almannaútvarp. Ég lýk máli mínu en ítreka stuðning okkar við málið.



[16:26]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var fróðleg yfirferð hv. þingmanns á sögu Framsóknarflokksins í málinu sem hefur verið síbreytileg og fjölbreytt. Þó er nauðsynlegt að fá skýringar hjá hv. þingmanni varðandi sannfæringarkraftinn um að þetta væri allt í samræmi við margrómaða stefnu flokksins í málinu og nú væri verið að efla Ríkisútvarpið sem almannaútvarp og hlutafélagavæðingin væri sem sagt hluti af þeirri leið.

Ég vil vekja athygli á að nokkrir áhrifamenn í Framsóknarflokknum hafa haft uppi aðrar skoðanir. Við þekkjum það vel í þessum sölum að Kristinn H. Gunnarsson hefur lengi haft það en nú fyrir ekki mörgum vikum síðan fékk Kristinn bandamann úr nokkuð óvæntri átt þar sem Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi með meiru, kom fram á sjónarsviðið og fór yfir málið út frá sjónarhorni að því er hann taldi meiri hluta framsóknarmanna.

Björn Ingi sagði meðal annars sem er lykilspurning og ég verð að biðja hv. þingmann um að svara þeirri spurningu, en Björn Ingi sagði: „Hvers vegna hlutafélag ef ekki á að selja?“ Ég á ekki svar við þeirri spurningu, því væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti svarað henni.

Björn Ingi sagði líka: „Ég er bara algerlega sammála því að ég telji ekki ástæðu til að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið“ og bætti síðan við: „Ég reyndar tel að meiri hluti flokksmanna sé á móti því að það verði hlutafélagavætt.“ Hér er talað mjög skýrt og eðlilega út frá spurningunni: Hvers vegna hlutafélag ef ekki á að selja? Það er auðvitað reynslan sem segir okkur að það er fyrsta skrefið til að selja.

Ég mun hins vegar í þessu andsvari ekki hafa fleiri spurningar svo að hv. þingmaður hafi nægan tíma til að svara henni.



[16:28]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að svara fyrir Björn Inga og skoðanir hans. Ég get hins vegar lýst skoðunum mínum og þeirra flokksmanna sem ég þekki til og fór yfir það áðan að að baki þeirri ályktun sem er í gildi hjá okkur núna varðandi stefnu Ríkisútvarpið lá mikil og vönduð vinna. Ég man ekki betur en Björn Ingi Hrafnsson hafi tekið þátt í þeirri vinnu en hann leiðréttir mig þá síðar ef svo var ekki. En ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði.“

Við erum að koma til móts við þetta allt. Það sem mér finnst mikilvægt í þessu tilliti er að við erum í flokki þar sem mismunandi skoðanir leyfast og það hafa ekki margar raddir verið uppi um að við séum ekki á réttri leið. Ég vil ítreka sem ég sagði áðan að málið var tekið upp á miðstjórnarfundi sem haldinn var fyrir örfáum vikum og þar talaði einn ræðumaður um að álykta gegn þessu máli. Hins vegar tók enginn fundarmanna undir það. Ef grasrótin er á móti þessu máli kom það alla vega ekki fram á þeim miðstjórnarfundi, þar sem grasrótin situr. Því vísa ég þessu til föðurhúsanna og segi það hér að við framsóknarmenn stöndum við málið.



[16:30]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því miður var ekki hægt að fá svör við þessari lykilspurningu. Út af fyrir sig er ekki hægt að ætlast til að hv. þingmaður geti svarað henni öðruvísi en við gerum flest. Það er auðvitað engin ástæða til að fara með stofnunina yfir í hlutafélag ef ekki á að selja hana.

Upplestur hv. þingmanns var athyglisverður. Þar kom hvergi fram, ef ég heyrði rétt, að á hinum merka fundi Framsóknarflokksins hafi verið samþykkt að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Ég heyrði að rætt var um að skoða mismunandi leiðir en það var hvergi samþykkt að skipta um stefnu frá því sem áður var stefnan, sem hljóðaði svo að ekki ætti að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Mér sýnist, því miður fyrir hönd Framsóknarflokksins, að þingflokkurinn sé, eins og sumir hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi lýst, enn einu sinni kominn í andstöðu við meiri hluta flokksmanna. Það boðar ekki gott en við sjáum væntanlega á vordögum hvaða afleiðingar það hefur.



[16:31]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað finnst mér ég kannast við þetta andsvar. Þetta hefur komið fram í umræðunum áður. Ég vil segja við hv. þm. Einar Má Sigurðarson (Gripið fram í.) að það segir heldur ekki í samþykktum flokksþingsins að það eigi ekki að stofna Ríkisútvarpið ohf.

Við skulum líka að vera minnug þess að rekstrarformið kemur til í kjölfar umræðunnar um RÚV. Það er opinbert hlutafélag. Það var ekki til þegar flokksþingið fjallaði um málið. Hins vegar er alveg skýrt að flokksmenn vildu breytt rekstrarform en útilokuðu ekki neitt. Við skynjuðum þá stöðu að það er ekki í umræðunni lengur að selja Ríkisútvarpið. Sú umræða er einangruð við örfáa aðila í þingsal.



[16:32]
Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég trúi hv. þingmanni þegar hún segist ekki vilja selja Ríkisútvarpið. Ég trúi henni líka þegar hún segir að hún haldi að Ríkisútvarpið verði ekki selt. Ég held að það sé hins vegar bernska eða glapsýni að telja að sú hætta sé einangruð við sölunefnd Ríkisútvarpsins á þinginu, þá þrjá ágætu og háttvirtu þingmenn Pétur Blöndal, Birgi Ármannsson og formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson.

Sú skoðun er í fyrsta lagi miklu víðtækari í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þótt að minnsta kosti þessir þrír séu svo heiðarlegir að halda henni fram í sérstöku frumvarpi. Í öðru lagi held ég að sú þróun sem nú er að verða, sem við sjáum ágætlega á áliti Samkeppniseftirlitsins, standi til þess að staða Ríkisútvarpsins verði þrengri og erfiðari sem, a.m.k. að nafninu til, almannaútvarps og hlutafélags í eigu ríkisins.

Það sem ég vildi spyrja þingmanninn um er það í ræðu hennar sem laut að hinum sterku ríkisfjölmiðlum. Hún taldi upp ýmsa þætti sem Ríkisútvarpið ætti að vera gætt að sínu leyti en ég saknaði þess að hún talaði um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég spyr hvort það hugtak sé með í stefnu Framsóknarflokksins annaðhvort fyrr eða síðar. En sú stefna virðist hafa breyst töluvert á stuttum tíma. Hvað um sjálfstæði Ríkisútvarpsins? Telur hún að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfstætt og hvernig er því fyrirkomið í hinu ágæta frumvarpi, að því hún telur, sem hún styður á þinginu?



[16:34]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við deilum kannski ekki þeirri skoðun, ég og hv. þm. Mörður Árnason, að fólki sé vel treystandi. Ég veit ekki um hv. þingmann en ég a.m.k. treysti því að þegar menn tala fyrir frumvarpi þar sem í 1. gr. er tekið skýrt fram að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið þá standi menn við það og þau orð sem hv. þingmenn láta um það falla.

Varðandi sjálfstæði Ríkisútvarpsins þá er það tekið fram í samþykktum Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt.“

Ég tel að við séum einmitt að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins með þessu frumvarpi, ekki síst með því að stofna hlutafélag. Þar með eykst sveigjanleiki fyrirtækisins. Það gerir RÚV kleift að takast á við nýja tíma og breyttar aðstæður. Ég fór yfir það að það yrði samkeppnishæfara. Það treystir undirstöður þess mjög mikið.

Síðan er vert að nefna að útvarpsstjóri ber nú ábyrgð á dagskrárgerð en áður var það pólitískt skipað útvarpsráð. Ég tel það mikilvægt atriði í því að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég hef eiginlega talið það óþarft að pólitískt skipað útvarpsráð skipti sér af því hvað Ríkisútvarpið býður okkur upp á.

Þetta eru atriði í að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins. En auðvitað er stærsti þátturinn sá að fjárhagslegur grundvöllur þess sé tryggður.



[16:36]
Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski tómt mál að tala um þetta við fulltrúa Framsóknarflokksins sem hafa þar að auki tekið trú á 1. gr. í frumvarpinu og halda að þar með sé höggvið í granít það sem þar stendur. Staðreyndin er sú að einfaldur meiri hluti getur breytt þessu á Alþingi hvenær sem honum sýnist.

Varðandi sjálfstæði Ríkisútvarpsins er vert að benda hv. þingmanni á að ef maður les frumvarpið lengra en í 1. gr. þá kemur í ljós að kjósa á stjórn Ríkisútvarpsins, sem er alráð yfir útvarpinu, á hverju ári. Hana skipar meiri hluti ríkisstjórnarinnar sem þar með þýðir að ríkisstjórnarmeirihluti ræður í Ríkisútvarpinu öllu. Hann tekur bæði mikilsverðar ákvarðanir um fjármál og ræður útvarpsstjóra. Hann ræður hann til ótakmarkaðs tíma sem þýðir að meiri hlutinn getur sagt honum upp hvenær sem er. Þá spyr maður: Bíddu, er þetta hugmynd Framsóknarflokksins og hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur um sjálfstætt almannaútvarp?



[16:37]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Merði Árnasyni um að við komumst ekki mikið lengra með 1. gr. Við erum einfaldlega ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að það sem þar stendur sé mjög skýrt, og það standi, þ.e. að menn fari ekki gegn því.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það þarf einfaldan meiri hluta hér á Alþingi til að selja Ríkisútvarpið. Í dag þarf einungis heimildargrein á fjárlögum til þess að selja Ríkisútvarpið. En ég tel að við eigum að ganga lengra en gert er í dag með því að festa Ríkisútvarpið í sessi og með því að láta í ljós þann vilja Alþingis að Ríkisútvarpið sé ekki til sölu.

Þetta, eins og ég sagði áðan, tel ég í rauninni stóra málið. Það er endalaust hægt að tala um önnur atriði. En það að við samþykkjum hér að standa vörð um Ríkisútvarpið er grundvallarmál að mínu mati.



[16:38]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég vildi spyrja hana að tvennu. Hv. þingmaður nefndi áðan að frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. væri m.a. lagt fram til þess að auka sjálfstæði Ríkisútvarpsins.

Ég held að það sé nokkuð almenn og útbreidd skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina viðhaft mikinn yfirgang gagnvart Ríkisútvarpinu. Þar hafa a.m.k. á köflum tíðkast áhlaup að því að viðhafa pólitíska stjórnun, hvort sem það hefur tekist eða ekki, vonandi sjaldan. En pólitískt kverkatak Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu og tilraunir flokksins til að viðhalda því eru alþekktar.

Gott væri ef það reyndist satt að þetta frumvarp væri til að aflétta því kverkataki. Ég held að svo sé ekki þar sem að Alþingi og meiri hlutinn á Alþingi mun árlega kjósa hlutafélaginu stjórn. Ég held að pólitíska kverkatakið herðist ef eitthvað er. Ég held að eftir þessa lagabreytingu aukist pólitísk íhlutun meiri hlutans á Alþingi hverju sinni og jafnvel talsvert. Það er a.m.k. hætta á að svo fari.

Heppilegra hefði t.d. verið að kjósa stjórnina til fimm ára í senn eða hluta hennar árlega. Menn sætu þar um eitthvað árabil og það væri ekki háð meiri hlutanum á hverju ári. Að öðrum kosti er sú pólitíska svipa yfir hausamótunum á stjórninni að mönnum verði skipt út að ári ef þeir standa sig ekki o.s.frv.

Ég spyr hv. þingmann, af því að hún gerði þetta að umtalsefni áðan, hvort ekki hefði verið heppilega að fara aðrar leiðir til aflétta pólitísku kverkataki stjórnvalda á hverjum tíma af stofnuninni, kverkataki sem hefur á köflum verið beitt í gegnum tíðina.



[16:40]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni um að pólitísk ítök í Ríkisútvarpinu hafi verið allt of mikil, ekki bara undanfarin ár, heldur í mjög mörg ár. Það hefur ekki farið fram hjá neinum.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það að útvarpsráð verði ekki lengur með puttana í dagskrárgerð hafi mikið að segja. Ég held að það sé rétt að ganga ekki lengra að þessu sinni.

Hins vegar er ljóst að Ríkisútvarpið mun verða undir smásjá eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar og fylgst með því hvernig það þróast. Ég held að okkar verkefni sé að fylgjast með því hvernig þetta verður. Ég útiloka ekki að, ef menn sjá merki um pólitísk ítök áfram sem birtist þá í störfum Ríkisútvarpsins, þá verði ástæða til að fara aðrar leiðir.

En ég tel hins vegar nógu langt gengið að þessu sinni. Ég hef trú á því að það að útvarpsstjóri ber ábyrgð á dagskrárgerð en ekki hið pólitískt skipaða útvarpsráð muni hafa mikið að segja. Einnig ræður útvarpsstjóri aðra starfsmenn. Áður komu t.d. tillögur frá ráðherra um framkvæmdastjóra deilda. Eins og lögin eru í dag gefur útvarpsráð umsögn um starfsfólk við dagskrárgerð. Þetta mun breytast núna. Ég tel það stórt skref því að það hefur ekki verið Ríkisútvarpinu til góðs að hafa skipulagið eins og verið hefur.



[16:42]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var nokkuð afdráttarlaust.

Ég ætlaði að inna hana eftir öðru. Eins og fram hefur komið þá tíðkast hvergi á Norðurlöndunum, að ég held, né í Bretlandi, að ríkisrekin ljósvakafyrirtæki starfi á auglýsingamarkaði. Hin augljósu rök fyrir því eru að það þrengi um of að starfsemi einkarekinna fyrirtækja á sama markaði og sérstaklega á jafnsmáum fjölmiðlamarkaði og hinum íslenska, þar sem lítið pláss er fyrir öflug ljósvakafyrirtæki. Þau 20 ár sem íslenski ljósvakinn hefur verið frjáls hafa fyrirtæki í útvarpsrekstri barist í bökkum.

Það er mikilvægt að gæta sanngirni gagnvart þessum fyrirtækjum. Það á að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það verður að jafna samkeppnisforskotið og koma í veg fyrir ríkisvæðingu á ljósvakamarkaði. Ég ætlaði að spyrja hvort hv. þingmaður taki undir með mér og hv. formanni (Forseti hringir.) menntamálanefndar í því máli.



[16:43]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að mér þætti mikilvægt að við settum þær skorður sem meiri hluti menntamálanefndar leggur til, þ.e. að Ríkisútvarpið geti ekki haldið áfram útrás í kostun og eins með því að auglýsa á vef. Hins vegar eru afnotagjöldin núna rúmlega 70% af rekstrartekjum RÚV. Tæplega 30% tekna eru auglýsingatekjur, kostunartekjur og ýmsar tekjur.

Slíkt hlutfall auglýsingatekna, samkvæmt mínum upplýsingum, er í fullkomnu samræmi við það sem gengur og gerist meðal ríkisfjölmiðla í Evrópu. Ég tel að við göngum nógu langt að því leyti. Ég er ekki tilbúin að draga RÚV út af auglýsingamarkaði, eins og margir eru. Ég tel að þakið sem við setjum t.d. varðandi kostun og það að banna auglýsingar á netinu nægi fullkomlega að sinni.



[16:44]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta mál, frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. nú við 2. umr. um málið í desember 2006. Ástæða þess að ég tíunda það að við séum stödd hér í desember 2006 er sú að síðast þegar ég talaði í þessu máli var 23. janúar 2006. Það segir auðvitað sína sögu um málið að við skulum enn vera að ræða það hér í þingsölum og ekki bara það að við séum enn að ræða málið heldur hefur það komið hér inn í þingið og verið mælt fyrir því þrisvar sinnum og hér hafa verið til umfjöllunar í þinginu að minnsta kosti fimm mismunandi útgáfur af þessu máli. Þetta segir okkur að þegar málið kom fyrst inn í þingið var það ekki svipur hjá sjón. Þá var það algjörlega vanbúið til að koma til umfjöllunar í þinginu. Síðan hafa menn kappkostað að reyna að gera á því þær lagfæringar sem nauðsynlegar voru til þess að koma einhverri mynd á málið. En það breytir ekki því að enn er það vanbúið, enn er það svo gallað að ekki er ráðlegt að afgreiða það héðan frá Alþingi. Nú bíður málið að vísu 3. umr. í janúar og þá gefst ákveðið svigrúm, ákveðið ráðrúm til þess að hugleiða þessi mál og við skulum vona að það verði notað vel.

Það sem ég ætla að tala hér um núna er kannski að einhverju leyti það sama og ég talaði um í janúar, 23. janúar nánar tiltekið, 2006, þegar ég talaði hér síðast í þessu máli. Ég ætla að tala um meginlínurnar í málinu. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði frumvarpsins. Ég ætla að tala um meginlínurnar og ég ætla að fara aðeins yfir þau faglegu og rekstrarlegu rök sem mæla gegn frumvarpinu eins og það lítur út núna.

Í fyrsta lagi ætla ég aðeins að tala um rekstrarformið rétt eins og ég gerði þann 23. janúar 2006. Ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var þá, að hlutafélagaformið sé ekki skynsamlegt form fyrir Ríkisútvarpið sem almannaþjónustuútvarp, sem fyrirtæki sem hefur víðtækum skyldum að gegna og gegnir hlutverki sem er umfram það sem gildir almennt um fyrirtæki og félög á fjölmiðlamarkaði. Ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var þá að skynsamlegra sé að velja Ríkisútvarpinu form sjálfseignarstofnunar og ég ætla að fara aðeins yfir það aftur að ég er þessarar skoðunar.

Í fyrsta lagi: Af hverju er verið að velja Ríkisútvarpinu hlutafélagaformið? Það hefur komið fram hér í máli þingmanna, meðal annars í máli hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, sem hér talaði áðan, að það væri til þess að skapa Ríkisútvarpinu ákveðið svigrúm á þeim fjölmiðlamarkaði sem það starfar á við þær breyttu aðstæður sem þar hafa orðið á undanförnum árum. Mörgum finnst að opinberum rekstri sé of þröngur stakkur skorinn. Þetta heyrum við ekki bara sagt um Ríkisútvarpið. Við heyrum þetta sagt um ýmsar mikilvægar og merkar ríkisstofnanir sem hafa verið reknar í því formi í áratugi. Ég get nefnt Háskóla Íslands í því sambandi. Það hefur oft heyrst að Háskóla Íslands finnist að sér sé of þröngur stakkur skorinn í starfsemi sinni á þeim markaði sem hann er núna þar sem komnir eru upp sjálfstæðir skólar í eigu einkaaðila sem keppa við Háskóla Íslands, þ.e. að samkeppnisstaða Háskólans sé að verða erfið við þær aðstæður. Það má færa sömu rök fram varðandi Ríkisútvarpið. Margir stjórnendur vilja komast út úr ríkisrekstrinum og þá verður mönnum helst til að nefna hlutafélagaformið vegna þess að það er þekkt rekstrarform. Það er komin heilmikil reynsla á það. Til eru skýr lög um hlutafélög og mikil reynsla er af því rekstrarformi. Ég hjó eftir því einmitt að þetta voru þau rök sem hæstv. menntamálaráðherra notaði í Ríkisútvarpinu í hádegisfréttunum í dag þegar hún spurði af hverju 90–95% fyrirtækja veldu hlutafélagaformið. Jú, það er vegna þess að það er þekkt form sem byggir á lögum og reynslu og þess vegna velja flest fyrirtæki þetta form.

Þetta er alveg rétt. En Ríkisútvarpið er bara ekki hvaða fyrirtæki sem er. Ríkisútvarpið er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á markaði. Ríkisútvarpið hefur mikilvægum skyldum að gegna og ekki nóg með að það hafi mikilvægum skyldum að gegna heldur hefur það aðgang að opinberu fé, fer með opinbert fé, hefur aðgang að tilteknum afmörkuðum tekjustofnum umfram það sem almennt gildir um fyrirtæki og það gefur Ríkisútvarpinu ákveðna sérstöðu.

Arnar Þór Másson sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og kennari í stjórnmálafræði hélt erindi á ráðstefnu á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála þann 31. október síðastliðinn þar sem hann fjallaði einmitt um rekstrarform hjá ríkisfyrirtækjum eða ríkisstofnunum. Þar kom fram hjá honum — ég ætla að vísa í viðtal sem var tekið við hann í Speglinum. Þar segir hann að ekki sé óeðlilegt að ríkisrekstri séu settar tilteknar hömlur. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Það er auðvitað ástæða fyrir því að ríkisreksturinn er öðruvísi en einkareksturinn og það er þá auðvitað verið að hugsa til þess að það er verið að nota almannafé í ríkisrekstrinum.“

Svo segir hann að auðvitað þurfi að huga að ýmsum þáttum varðandi ríkisreksturinn, að réttaröryggi og öðru slíku og að frekari skorður þurfi að reisa við ríkisrekstri vegna bara stærðar ríkisins á markaði. Þetta segir Arnar Þór Másson í viðtali við Spegilinn og ég er viss um að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem situr hér er sammála þessu, að það þurfi að setja ríkisrekstrinum vissar skorður vegna þess að hann er að nota almannafé og vegna þess að hann hefur ákveðnu hlutverki og skyldum að gegna og vegna þess að ríkisreksturinn hefur tiltekna stærð á markaðnum.

Síðan segir Arnar Þór Másson meðal annars og þá er hann að tala um hlutafélagaformið, að það trúi því í raun enginn að ríkið sé að reka hlutafélag eins og önnur hlutafélög á markaði, þ.e. að það trúir því enginn að ríkið láti hlutafélag til dæmis fara á hausinn ef illa gengur. Það trúir því enginn að stjórnarmenn beri raunverulega ábyrgð eins og stjórnarmenn kannski á markaði þannig að hlutafélagaformið er ekki einu sinni trúverðugt að þessu leytinu til. Svo segir hann að það sé líklegra en ekki að það verði áfram með þeim hætti þrátt fyrir að þetta verði hlutafélag, að kjörnir fulltrúar vilji hafa áhrif og ráðherrar vilji hafa áhrif.

Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Ég held að hlutafélagaformið sé eitthvað sem menn stökkva á af því að það er til staðar. En ég held að það væri skynsamlegra að reyna að þróa rekstrarform ríkisins almennt.“

Hann segir að við tækjum þetta í raun bara frá ráðuneytum og út í þá einhvers konar fyrirtæki, ríkisfyrirtæki sem tæki þá það besta úr hlutafélagalögunum sem gagnast í ríkisrekstrinum og gagnast í að gera þetta sveigjanlegra en séum í raun ekki að nota hlutafélagaformið en um leið að draga úr kostum þess, þ.e. hlutafélagaformsins, með því að setja alls konar klásúlur inn í sérlög um að þetta gildi ekki og eitthvað annað gildi í staðinn og þess háttar. Með öðrum orðum segir hann að hægt sé að taka ýmislegt úr hlutafélagarekstrinum og skapa ákveðinn sveigjanleika fyrir hin opinberu fyrirtæki, setja það í sérlög og skapa þeim þannig rými.

Samfylkingin hefur verið þessarar skoðunar að það þurfi að skapa Ríkisútvarpinu ákveðinn sveigjanleika, ákveðið svigrúm og þetta höfum við talið að væri hægt að gera, að hægt væri að ná fram sveigjanleikanum og ná fram sjálfstæðinu með sjálfseignarstofnun. Kosturinn við sjálfseignarstofnunina er að hún er komin aðeins frá framkvæmdarvaldinu, aðeins frá ráðherranum og hefur þar af leiðandi ákveðið sjálfstæði. Hún er einkaréttarlegs eðlis. Það skapast ákveðið svigrúm við það. En það er skýr vísbending um það þegar þetta er gert að sjálfseignarstofnun að þetta er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á markaði sem ætlar að keppa einvörðungu á forsendum markaðarins og það er líka skýr vísbending um að það stendur ekki til að selja þessa stofnun.

Ég tel að í rauninni geri tvennt það að verkum að ríkið geti ákveðið og geti verið rök fyrir því að ríkið fari með fyrirtæki inn í hlutafélagaformið. Ég er ekki á móti hlutafélagaforminu sem slíku við allar aðstæður í ríkisrekstri. Það geta verið rök fyrir því að gera það. En hvenær er það eðlilegt? Jú, það er til dæmis eðlilegt ef það stendur til að selja fyrirtæki. Þá er auðvitað eðlilegt að gera það að hlutafélagi og mér finnst eðlilegt við þær aðstæður, þegar ríkisfyrirtæki eða opinbert fyrirtæki er gert að hlutafélagi með þau áform uppi að selja það, að það sé þá sett undir sérstaka stjórn í fjármálaráðuneytinu en ekki undir fagráðuneytum og það geti þess vegna verið þá bara einkavæðingarnefnd í fjármálaráðuneyti sem fer með stjórn þess fyrirtækis eða er bakhjarl þess fyrirtækis þar til sala hefur farið fram.

Svo geta líka verið þær ástæður fyrir því að gera opinbert fyrirtæki eða ríkisfyrirtæki að hlutafélagi að uppi séu hugmyndir um að sækja fleiri aðila inn í fyrirtækið. Ég nefni í því sambandi bara sveitarfélög. Þau geta farið í sameignarfélag. En þá er ábyrgðin einn fyrir alla og allir fyrir einn. Að fara með ákveðið fyrirtæki þar sem menn ætla að kalla inn fleiri aðila í hlutafélagaform getur því verið skynsamlegt. Þá er hægt að freista þess að ná fleirum inn. Ég vil nefna í því sambandi að það var nú eitt af því sem okkur gekk til hjá Reykjavíkurborg þegar við stofnuðum Félagsbústaði hf. sem var félag um byggingu og rekstur á íbúðafasteignum borgarinnar. Okkar hugmynd var sú að fá fleiri sveitarfélög inn í þennan rekstur og að þau stæðu sameiginlega að slíkum rekstri.

Það geta líka verið rök fyrir því að fara með orkufyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur til dæmis að taka — það voru auðvitað skiptar skoðanir um það — inn í hlutafélagaformið af því að þetta er fyrirtæki sem þarf að sækja mikið fé á markað. Þetta er fyrirtæki sem vill kalla að fleiri eignaraðila. Að Orkuveitu Reykjavíkur eru ýmis sveitarfélög til dæmis aðilar. Við slíkar aðstæður getur verið eðlilegt að breyta opinberu fyrirtæki í hlutafélag. En ég tel að þessi rök eigi ekki við varðandi Ríkisútvarpið. Það er sagt hér að minnsta kosti í orði kveðnu að ekki standi til að selja það. Ekki eru það þá rökin fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag nema að baki búi þá sú hugsun að hægt sé að gera það þegar fram líða stundir og nema að baki búi þá sú hugsun að hægt sé að selja út úr Ríkisútvarpinu einhverja þætti og þannig mola það smátt og smátt. Þetta eru því ekki rökin fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Hin rökin fyrir því að breyta því í hlutafélag, þ.e. að menn ætli að kalla að fleiri aðila inn í þetta félag, að það þurfi að sækja sér verulega fjármuni á markað, eru ekki heldur rök sem við höfum heyrt hér. Mér skilst að ekki standi til að aðrir eignist í Ríkisútvarpinu en ríkið. Ríkið verður eini eigandinn. Það eru því ekki rökin fyrir því að gera þetta að hlutafélagi. Rökin eru fyrst og síðast þau að til eru lög um hlutafélög. Rekstrarformið er þekkt. Þetta er nokkuð sem viðgengst á markaðnum og menn feta þessa slóð þrátt fyrir að við séum hér með fyrirtæki eða stofnun, skulum við frekar segja, því að Ríkisútvarpið hefur að mörgu leyti fleiri einkenni stofnunar en fyrirtækis vegna þess almannaþjónustuhlutverks sem það hefur og vegna þeirra skyldna sem það á að uppfylla. Að fara með þetta út í hlutafélagaform er einfaldlega að mínu viti óskynsamlegt og ég hef ekki heyrt nein rök sem styðja það að velja þessa leið.

Aðalatriði málsins varðandi Ríkisútvarpið er að það hafi bæði í raun og ásýnd faglegt, pólitískt og viðskiptalegt sjálfstæði, að fólk trúi því að Ríkisútvarpið sé faglegt, að það sé ekki undir pólitískri stjórn og það sé ekki háð viðskiptalegum hagsmunum. Þetta er grundvallaratriði varðandi Ríkisútvarpið.

Til að Ríkisútvarpið geti haft þá ásýnd og eins að það geti í raun verið faglega pólitískt og viðskiptalega sjálfstætt þarf að velja útvarpinu rekstrarform sem samrýmist þessu. Það þarf að velja Ríkisútvarpinu stjórn sem er laus undan flokkspólitískum meiri hluta á Alþingi hverju sinni og það þarf að skilgreina mjög vel í hverju almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins er fólgið. Í hverju felast skyldur Ríkisútvarpsins umfram þær skyldur sem aðrir miðlar á fjölmiðlamarkaði hafa?

Almannaþjónustuhlutverkið og skilgreiningin á því er algjör forsenda ríkisframlagsins. Ef Ríkisútvarpið hefur ekki víðtæku almannaþjónustuhlutverki að gegna og ef það uppfyllir ekki sitt víðtæka almannaþjónustuhlutverk eru forsendur undir ríkisframlaginu brostnar og þá verður viðhorf samfélagsins á þá lund að það séu engin rök fyrir ríkisframlaginu.

Ef ríkissjónvarpið sendir bara út bolta, amerískar sápur, afþreyingarefni eða annað slíkt munu þær raddir heyrast, og þær heyrast núna, að engin rök séu fyrir því að leggja afnotagjöld eða nefskatt á fólk eða að vera að halda uppi sérstakri sjónvarpsstöð sem sé í eðli sínu ekkert öðruvísi en aðrar sjónvarpsstöðvar sem hér eru reknar, eins og Stöð 2, sem séu ekki með neina innlenda, metnaðarfulla dagskrárgerð, sem sé ekki að gera leikið efni sem lýsir íslenskum veruleika, sem sé ekki að senda út vandaða eða gera vandaða fræðsluþætti sem standi ekki fyrir öflugri, lýðræðislegri, gagnrýnni umræðu.

Ef Ríkisútvarpið stendur ekki undir slíkum skuldbindingum og ef Ríkisútvarpið uppfyllir ekki slíkar skuldbindingar af metnaði munu forsendur bresta fyrir ríkisframlaginu og þá mun viðhorf fólks til ríkisframlagsins breytast.

Því er gríðarlega mikilvægt að skilgreina vel almannaþjónustuhlutverkið og passa upp á það að Ríkisútvarpið standi undir því og eitthvert eftirlit sé með því að Ríkisútvarpið standi undir því. Að ekki sé búið til eitthvert ríkisfyrirtæki á fjölmiðlamarkaði, því afhentir tilteknir tekjustofnar, búið til um það hlutafélagaform og því sé bara sagt að fara og keppa á þessum markaði. Vegna þess að þá erum við ekki lengur að tala um Ríkisútvarp sem hefur almannaþjónustuhlutverki að gegna.

En um hvað erum við þá að tala þegar við erum að tala um almannaþjónustuhlutverkið? Jú, við erum að tala um öfluga fréttamiðlun. Við erum að tala um öfluga menningarmiðlun þar sem gerð er grein fyrir fjölbreytni bæði íslensks samfélags og þess samfélags sem við á alþjóðavísu lifum og hrærumst í.

Það hlýtur að gera kröfu til þess að öflug fræðslustarfsemi sé á vegum slíks almannaþjónustuútvarps. Það sé innlend dagskrárgerð og framleitt sé leikið efni. Slíkt útvarp og sjónvarp tjái fjölbreytni samfélagsins. Það sýni íslenskt efni, norrænt efni, evrópskt efni og gerðar séu ákveðnar kröfur til þess að það endurspegli þann menningarheim sem við erum hluti af.

Ríkisútvarpið hefur nú ekki alltaf staðið mjög vel undir því. Ég hugsa að ýmis okkar hafi heyrt þær viðbárur hjá fólki þegar það hefur gerst. Ég man eftir því tímabili að helgi eftir helgi voru sýndar evrópskar myndir, franskar, ítalskar, danskar. Þá kom viðbáran: Af hverju er alltaf verið með þetta útlenda efni á ríkissjónvarpinu? Fólk var svo vant því að það væri bara engilsaxneskt efni þar, að þegar Ríkisútvarpið tók sig til og sýndi evrópskt efni fannst mönnum að þarna væri allt í einu farið að sjónvarpa útlendu efni í ríkissjónvarpinu. Þetta segir náttúrlega meira en mörg orð um það hvernig ríkissjónvarpið okkar hefur stundum verið. Því þarf að tryggja að það standi undir almannaþjónustuhlutverkinu sem er forsenda ríkisframlagsins.

Það skiptir líka máli, eins og ég sagði, að það væri laust undan viðskiptalegum hagsmunum. Þá mega ríkissjónvarpið og Ríkisútvarpið ekki vera of háð auglýsingum. Það verður að setja því ákveðin mörk hversu stór hluti af tekjum Ríkisútvarpsins kemur af auglýsingum. Samfylkingin hefur sett þetta viðmið að það eigi að vera sirka 15–20%. Og þá erum við ekki að ákveða hvernig auglýsingar það mega vera að hvar þær mega birtast, hvort þær eigi að vera í sjónvarpinu, útvarpinu, vefnum eða hvar það er, heldur að við reynum að setja ákveðið þak á hlutfall auglýsingatekna í tekjum Ríkisútvarpsins. Þar með erum við að feta okkur inn í það umhverfi sem markaðurinn hlýtur að gera kröfur um að Ríkisútvarpið fari inn á og umhverfi sem viðgengst í löndunum í kringum okkur, Norðurlöndunum og Bretlandi.

Þann 23. janúar síðastliðinn ræddi ég svolítið um TV2 í Danmörku sem fékk á sig verulegar sektir frá Evrópusambandinu vegna þess að talið var að það hefði í rauninni notað það framlag sem það hafði frá ríkinu til þess að standa undir samkeppnisrekstri. TV2 í Danmörku var rekið á svipuðum forsendum og okkar sjónvarp, ríkissjónvarpið, þ.e. hafði annars vegar aðgang að opinberu fé og hins vegar auglýsingatekjur. Það hafði ákveðnu almannaþjónustuhlutverki að gegna en var líka að keppa á markaði. Það varð niðurstaða Evrópusambandsins að almannaþjónustuhlutverk þeirrar stöðvar, TV2, væri ekki nægjanlega vel skilgreint og það hefði í rauninni misbeitt ríkisframlaginu sínu í samkeppni á markaði við aðrar stöðvar. Niðurstaðan varð sú að það var sektað um verulegar fjárhæðir.

Við megum ekki lenda í því með Ríkisútvarpið okkar sem getur auðvitað vel gerst ef menn skilgreina ekki betur almannaþjónustuhlutverkið og ef menn hleypa Ríkisútvarpinu bara í harða og óvægna samkeppni á markaði við aðra miðla. Þá mun ekki verða sátt eða friður um Ríkisútvarpið ef það gerist.

Þess vegna, til að tryggja m.a. þetta sjálfstæði útvarpsins í viðskiptalegu tilliti, teljum við mikilvægt að setja takmarkanir á auglýsingamagn Ríkisútvarpsins og feta okkur þannig inn í þetta annars konar rekstrarumhverfi. Þá er líka mikilvægt að setja kostun, að mínu viti, ákveðin mörk og tryggja að kostun á dagskrárliðum flæði ekki inn í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins, þ.e. að einstakir kostunaraðilar geti ekki nánast keypt sig inn í útvarps- eða sjónvarpsþætti með fjárframlögum sínum.

En forsenda þess að Ríkisútvarpið hafi líka faglegt og pólitískt sjálfstæði — nú er ég að tala eiginlega um þetta viðskiptalega sjálfstæði — þ.e. að stjórn útvarpsins verði laus undan flokkspólitískum meiri hluta á þingi. Ég held að eina leiðin til að gera það — auðvitað er full ástæða til að pólitíkin beri ábyrgð á Ríkisútvarpinu vegna þess að Ríkisútvarpið er almannaþjónustuútvarp með ákveðna, afmarkað tekjustofna sem við sjáum því fyrir, þá þarf pólitíkin auðvitað að bera ákveðna ábyrgð gagnvart Ríkisútvarpinu. Það er ekkert óeðlilegt við það að stjórn Ríkisútvarpsins sé kosin á þingi og endurspegli að einhverju leyti pólitíkina á þinginu, þ.e. hlutföllin hér á þingi. En hún má ekki verða undir stjórn flokkspólitísks meiri hluta á þingi. Þess vegna er mikilvægt að starfsmenn Ríkisútvarpsins komi inn með fulltrúa sína í stjórnina til þess einmitt að losa um slík flokkspólitísk tengsl. Bæði Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna hafa einmitt lagst á þá sveif og hafa lagt það til að fulltrúar frá starfsmönnum komi inn í stjórn Ríkisútvarpsins til að klippa á þetta beina samband og aftengja, ef svo má segja, hið beina, flokkspólitíska forræði á Ríkisútvarpinu.

Umsagnir Félags fréttamanna og Blaðamannafélags Íslands eru að mörgu leyti mjög góðar og hægt að taka undir margt sem þar kemur fram varðandi hin faglegu atriði. Meðal annars kemur fram í umsögn Félags fréttamanna, með leyfi forseta:

„Félag fréttamanna leggur áherslu á að í 3. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins, verði kveðið með skýrum og ótvíræðum hætti á um að meðal þeirra skyldna sé „að starfrækja almenna, víðtæka, sjálfstæða og hlutlæga fréttaþjónustu um og innlend og erlend málefni á hljóðvarps- og sjónvarpsformi“, en þessa atriðis sér ekki með skýrum hætti stað í frumvarpinu eins og það er nú. Leggur félagið til að ákvæði þessa efnis verði bætt við frumvarpið.“

Sem sagt Félag fréttamanna vill að skýrar sé kveðið á um þetta almannaþjónustuhlutverk eins og ég gat um áðan.

Þá kemur m.a. líka fram hjá Félagi fréttamanna að það „leggur áherslu á að aðgengi almennings í landinu að Ríkisútvarpinu sem opinberu hlutafélagi verði tryggt og að hann geti haft áhrif og komið skoðunum sínum á framfæri við Ríkisútvarpið ohf. Kveða verður skýrt á um þetta aðgengi í lögum.“

Þetta er meðal þess sem Samfylkingin hefur líka lagt áherslu á og lagt til að almenningur eigi aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli sérstaks hlustendaþings sem komi saman einu sinni á ári. Þetta hlustendaþing væri, held ég, gríðarlega mikilvægt fyrir stjórnendur og starfsmenn Ríkisútvarpsins að eiga aðgang að því slíkt hlustendaþing getur aðstoðað þá sem starfa og stjórna Ríkisútvarpinu við að greina hvernig starfsemin hefur verið á umliðnu ári. Þetta getur verið gagnrýnið hlustendaþing sem fer yfir það sem gert hefur verið og bendir á það sem betur má fara og aðstoðar við að móta stefnuna fyrir Ríkisútvarpið og hvernig það eigi að standa undir hlutverki sínu.

Félag fréttamanna leggur til, eins og ég sagði áðan, að fulltrúi starfsmanna komi að stjórn fyrirtækisins og síðan er í umsögn Félags fréttamanna bent á að það leggi áherslu á að „eldveggir“, eins og það kallar það, verði viðhafðir innan fyrirtækisins til að verja sjálfstæða umfjöllun. Í því sambandi þurfi m.a. að huga að eftirfarandi atriðum:

„Tryggja þarf í frumvarpstextanum fullkomið sjálfstæði fréttaritstjórnanna gagnvart útvarpsstjóra og markaðsdeild …“. Þetta er auðvitað mikilvægt atriði og þetta er eitt af því sem Samfylkingin hefur lagt almennt mikla áherslu á í umfjöllun um fjölmiðla og sjálfstæði þeirra, að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði á miðlunum.

Síðan er sagt líka, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf að við ráðningar og launaákvarðanir fréttamanna sé farið að faglegum sjónarmiðum. Þar á launaleynd ekki við. Forsendur séu öllum ljósar og fréttamenn gangist undir hæfnispróf áður en þeir eru ráðnir.“

Þetta tel ég mjög mikilvægt, að ljóst sé gagnvart þeim sem starfa hjá Ríkisútvarpinu hvað er lagt til grundvallar við ráðningar í störf. Manni hefur virst oftar en ekki að það sem lagt sé til grundvallar séu ákveðin flokkspólitísk tengsl. Meðan það er ekki skilgreint og skýrt hvernig ráðningarferli á sér stað á Ríkisútvarpinu, inn á fréttastofur, þá mun það viðhorf liggja í landi að þar sé um flokkspólitískar ráðningar að ræða, þ.e. að ráðið sé inn á Ríkisútvarpið fremur eftir pólitískum skoðunum en faglegum sjónarmiðum.

Ekki svo að skilja að það geti ekki farið ágætlega saman, pólitískar skoðanir og fagleg sjónarmið. En það á auðvitað að liggja ljóst fyrir hvaða forsendur liggja til grundvallar og hvernig fréttamenn eru valdir til starfa á Ríkisútvarpinu.

Eitt af því sem bent er á í umsögn Félags fréttamanna og ég vil taka undir er að starfssvið útvarpsstjóra er ekki skýrt skilgreint í frumvarpinu, þótt viðurkennt sé að þörf sé á slíkri skilgreiningu. Þetta er eitt af því sem ég tel að þurfi að vera ljóst, þ.e. hvaða kröfur, hæfnis-, reynslu- og þekkingarkröfur eru gerðar til útvarpsstjóra, þó ég sé ekki að tala fyrir því að það sé sniðið við einhverjar tilteknar prófgráður, og hvert eigi að vera hlutverk hans og verkefni.

Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi farið yfir flest það sem ég tel að mætti betur fara í frumvarpinu og rökin fyrir því að ég tel að bæði af faglegum ástæðum og rekstrarlegum ætti ekki að ganga frá frumvarpinu, samþykkja það eins og það liggur fyrir, heldur að nýta það svigrúm sem núna gefst til að fara betur yfir málið og reyna að ná betur utan um Ríkisútvarpið þannig að það lendi ekki í þeim hremmingum á næstu mánuðum og missirum að verulegt ósætti verði um Ríkisútvarpið, um hlutverk þess, um stöðu þess og um það hvernig það beitir sér á markaði.

Við blasir, eins og málin eru núna og ef þetta heldur fram sem horfir, að Ríkisútvarpið verði á fjölmiðlamarkaðnum sem hlutafélag, laust við kvaðir ríkisrekstursins, komið með það svigrúm sem Ríkisútvarpið telur sig þurfa til að geta beitt sér á fjölmiðlamarkaðnum. Þarna verði komið hlutafélag með ríkisstyrk sem keppir miskunnarlaust á fjölmiðlamarkaði. Það er ávísun á átök, virðulegi forseti, það er ekki ávísun á sátt um rekstur Ríkisútvarpsins.

Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að standa vörð um Ríkisútvarpið sem útvarp í almannaþjónustu, sem almannaútvarp. Það þurfi að styrkja mjög og skerpa á þjónustuhlutverki þess. Það þurfi að tryggja tekjustofna útvarpsins og tryggja þurfi að faglega sé staðið að málum, bæði varðandi stjórnun, ráðningar og rekstur Ríkisútvarpsins.

Virðulegur forseti. Ég ítreka og geri það í rauninni að mínu tilboði til stjórnarliða að svigrúmið verði nýtt fram í janúar til að skoða hvort ekki sé hægt að fara betur að þeim fjölmörgu ábendingum sem hafa komið fram frá Blaðamannafélaginu, frá fréttamönnum, frá aðilum sem keppa á þessum markaði, frá Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði og fleiri aðilum, um að skoða betur frumvarpið eins og það liggur fyrir og skapa um það meiri sátt.



[17:17]
Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem skiptir máli varðandi það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er þetta: Í fyrsta lagi að Framsóknarflokkurinn er búinn að beygja Sjálfstæðisflokkinn af einkavæðingarstefnu RÚV. Í öðru lagi er verið að styrkja Ríkisútvarpið þannig að það má frekar segja að verið sé að stuðla að aukinni ríkisvæðingu með frumvarpinu eins og það er nú orðið eftir meðför menntamálanefndar.

Það vakti hins vegar athygli mína í dag, sem mig langar til að víkja nokkrum orðum að í þessu andsvari mínu, að hv. þm. Mörður Árnason sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í menntamálanefnd gat þess að Samfylkingin væri nú farin að reka „gömlu framsóknarstefnuna“ eins og hann kallaði það, þ.e. um að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Samfylkingin tekur upp mál Framsóknarflokksins. Það er orðið nokkuð hefðbundið þrátt fyrir að traust kjósenda á nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar sé lítið eins og hv. síðasti ræðumaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gat um. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort þess sé að vænta að Samfylkingin muni þá síðar taka upp núverandi stefnu Framsóknarflokksins. Og síðan í öðru lagi hvernig þessi nýja stefna Samfylkingarinnar, eftir síðasta hringlandaháttinn, kemur heim og saman við skoðanir varaformanns Samfylkingarinnar sem styður það að Ríkisútvarpinu verði breytt í opinbert hlutafélag.



[17:19]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var dálítið merkileg yfirlýsing sem hv. 7. þm. Reykv. n., Guðjón Ólafur Jónsson, gaf hér. Hann sagði að Framsókn væri búin að beygja Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli. Nú væri búið að svínbeygja Sjálfstæðisflokkinn, hann væri horfinn af einkavæðingarbrautinni sem hann hefði verið á áður. Þá skil ég það þannig að það hafi í rauninni staðið til að einkavæða Ríkisútvarpið, þ.e. selja hlutafélagið en Framsóknarflokkurinn hafi náð að koma í veg fyrir það og það segir manni þá auðvitað það hvað býr þarna að baki. Í raun og sann býr þá þarna að baki sú hugsun að selja hlutafélagið þegar tími og ráðrúm gefst til þess.

Hann talaði um ríkisvæðingu, þetta væri ríkisvæðing en ekki einkavæðing. Nú væri hins vegar Samfylkingin búin að taka upp gömlu framsóknarstefnuna og vitnaði þar í hv. þm. Mörð Árnason. Ég verð að játa að ég tel að við getum alveg verið fullsæmd af því að taka undir með fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins Halldóri Ásgrímssyni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins árið 2002 þar sem hann leggur áherslu á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Að löggjöf um Ríkisútvarpið verði endurskoðuð með það að markmiði að tryggja hlutleysi þess og sjálfstæði og að stofnuninni verði áfram gert kleift að rækja mikilvægt menningarhlutverk sitt. Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag en í tengslum við endurskoðun löggjafar um Ríkisútvarpið verði kannað hvort rétt sé að breyta því í sjálfseignarstofnun,“ segir Halldór Ásgrímsson.

Við tökum heils hugar undir þessi orð fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og auðvitað getum við ekki borið ábyrgð á því þó að Framsókn sé í slíku villuráfi sem raun ber vitni, að þeir séu ekki aðeins hlaupnir frá stefnu heldur líka frá kjósendum sínum og komnir eins og hér í Reykjavík niður í pilsnerfylgi eins og ég hef áður bent á.



[17:22]
Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það dugar lítt fyrir hv. þingmann að ræða um pilsnerfylgi í hverri ræðu sinni. Það breytir t.d. engu um þá ræðu sem hv. þingmaður flutti í Keflavík fyrir ekki svo löngu síðan og má gera oft að umræðuefni þar sem hv. þingmaður lýsti því yfir að kjósendur hefðu ekkert traust á þingmönnum Samfylkingarinnar. Hvert ætli sé þá traustið sem kjósendur hafa á þingmönnum Samfylkingarinnar í þessu máli? Það er auðvitað ekki neitt.

Hv. þingmaður viðurkenndi að Samfylkingin væri í sífellt auknum mæli að sækja í smiðju Framsóknarflokksins. Það er frjó hugsun, hæstv. forseti, að sækja sífellt eftir stefnumálum í gamlar stefnuskrár í Framsóknarflokknum. (Gripið fram í.) Og ekki er nú verra þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru farnir að gera orð formanns Framsóknarflokksins að sínum hvort sem það er núverandi formaður eða fyrrverandi. (Gripið fram í.)

Það var hins vegar annað, hæstv. forseti, sem hv. þm. vék sér alfarið frá að tala um. Það var afstaða hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar til þessa frumvarps menntamálaráðherra en hann hefur lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Það er auðvitað eins og með annað í þeim ágæta flokki Samfylkingunni en þar er hver höndin upp á móti annarri og þjóðin, kjósendur treysta ekki þingmönnum, það skyldi þó ekki vera að það sé vegna þessa sundurlyndis sem alltaf er og hefur einkennt þennan flokk alla tíð? Hvernig fer þessi afstaða hv. þingmanns heim og saman, varaformanns flokksins, við þá ræðu sem hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar flutti áðan?



[17:24]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyrði það á mæli hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar að hann dró í efa að frjóa hugsun væri að sækja til Framsóknarflokksins en ég verð þó að játa að mér fannst ræða fyrrverandi flokksformanns varðandi Ríkisútvarpið bara nokkuð góð og alveg full ástæða til að taka undir hana og ástæðulaust fyrir þingmanninn að vera að snupra fyrrverandi formann sinn með þessum hætti.

Það er auðvitað alveg rétt að það er talsvert af fólki sem hefur flúið Framsókn og sótt yfir til Samfylkingarinnar en það sem er dapurlegt er að Framsóknarflokkurinn virðist ekki koma neinum vörnum við. Hann kemur engum vörnum við í því kæfandi faðmlagi við Sjálfstæðisflokkinn sem er algerlega að fara með hann og kominn með hann niður í það fylgi sem raun ber vitni og undan því getur þingmaðurinn ekki hlaupið (Gripið fram í.) og hann getur heldur ekki kallað sig hér úr hliðarsal undan þeirri staðreynd.

Þingmaðurinn spurði um afstöðu varaformanns Samfylkingarinnar, Ágústs Ólafs Ágústssonar, til þessa máls og hann fór rangt með að hann hefði lýst yfir stuðningi við þetta frumvarp. Það hefur hann ekki gert. Hins vegar hefur hann talið að hlutafélagaformið gæti vel komið til greina. Það er reyndar rétt að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að ég sagði það í ræðu minni að í sjálfu sér hefði ég ekkert á móti hlutafélagaforminu varðandi ríkisrekstur en þá og því aðeins að menn ætluðu sér annaðhvort að leita til fleiri aðila á markaðnum eða selja eða ætluðu sér í annars konar opinberan rekstur en ætlunin er með Ríkisútvarpinu. Ég tel að þetta sé óheppilegt form að velja Ríkisútvarpið, ég tel að það sé rangt, ég tel að það muni leiða til togstreitu um Ríkisútvarpið og þess vegna eigi ekki að velja hlutafélagaformið, þess vegna eigi að velja sjálfseignarstofnunarformið. Það er niðurstaða mín af þessu máli.



[17:26]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Sjálfstætt og öflugt almannaútvarp var yfirskriftin að stefnu sem Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi í morgun. Þar eru sundurliðuð meginsjónarmið okkar jafnaðarmanna í því langvinna deilumáli sem nú er uppi um Ríkisútvarpið, og segja má að hafi verið uppi allt það kjörtímabil sem nú er að enda, um fjölmiðlamálin almennt. Það hófst fyrir nokkrum árum með hinu fræga fjölmiðlafrumvarpi sem lagði ríkisstjórn Íslands nánast í rúst og batt enda á stjórnmálaferil Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, held ég að megi segja. Það heldur nú áfram í þeim misheppnaða pólitíska leiðangri sem hæstv. menntamálaráðherra hefur verið í um nokkurra ára skeið með nýjum lögum um Ríkisútvarpið þar sem menntamálaráðherra hefur mistekist vetur eftir vetur með nánast fordæmalausum hætti að koma lögunum í gegnum Alþingi. Stefnir allt í að sá leiðangur sé að misheppnast í þriðja skiptið þar sem búið er að fresta 3. umr. fram yfir nýár, fram í janúar/febrúar, um þetta mislukkaða, illa ígrundaða og vonda pólitíska mál sem lagafrumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. er að nánast öllu leyti.

Það er sjaldan sem stjórnmálaleiðangur misheppnast með eins afdráttarlausum hætti og tilraunir hæstv. menntamálaráðherra til að koma lögum yfir Ríkisútvarpið. Það er sama hvort litið er til áframhaldandi pólitískrar stjórnunar Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu, það er ekki verið að létta á henni með þessu frumvarpi, þó svo að stjórnun stofnunarinnar sé breytt töluvert er áfram pólitískt kverkatak meiri hlutans á Alþingi á stofnuninni í gegnum það að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. verður kosin árlega.

Valin er versta hugsanlega fjáröflunarleiðin, sem er nefskatturinn sem er dæmdur til þess að verða afskaplega óvinsæll meðal almennings og til þess gerður að auka á ósætti um stofnunina, sem nú þegar fær tæpa 3 milljarða kr. á ári, helminginn af því sem Háskóli Íslands kostar íslenska ríkið, og eru náttúrlega gífurlegir fjármunir.

Rekstrarformið er fráleitt, að mínu mati, og kemur ekki til greina fyrir þessa stofnun eins og hv. formaður Samfylkingarinnar kom inn á áðan, og hentar ekki utan um það sem hér um ræðir. Hefur verið margsýnt fram á það, og ekki síst í ljósi reynslunnar, að sjálfseignarformið utan um ýmiss konar rekstur í almannaþágu hefur gengið ákaflega vel í íslensku þjóðlífi síðustu ár og áratugi og virðist einboðið að fara þá leið, eins og Framsóknarflokkurinn lagði svo þunga áherslu á fyrir nokkrum árum og fullyrti að flokkurinn mundi aldrei sætta sig við að farin yrði hlutafélagaleiðin.

Þá misheppnast það í öllum meginatriðum að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins, hins nýja öfluga almannaútvarps. Það er engin vitleg eða boðleg tilraun gerð til þess í frumvarpinu að endurskilgreina það heldur er talið upp í belg og biðu nánast allt sem undir slíka stofnun getur heyrt. Það er engin spurning að með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag án þess að takmarka að neinu leyti, miðað við núverandi ástand, umfang hins ríkisrekna fjölmiðils á auglýsingamarkaði, þá er verið að auka samkeppnisforskot Ríkisútvarpsins verulega. Það gefur augaleið að það mun að sjálfsögðu bitna mjög harkalega á einkareknu fjölmiðlunum, ekki þarf að fara í ítarlegar umræður um það til að komast að þeirri niðurstöðu. Það eru 20 ár síðan frjáls ljósvakamiðlun var tekin upp á Íslandi með lögum frá Alþingi. Einkareknir ljósvakamiðlar hafa verið á íslenskum fjölmiðlamarkaði í 20 ár. Allan þann tíma hafa þeir barist í bökkum, allan þann tíma hafa þeir barist fyrir lífi sínu og allan þann tíma hefur rekstur þeirra gengið nokkuð rysjótt og oft illa. Oft hefur skort fjármagn til miðlanna og í okkar litla samfélagi þarf að sjálfsögðu að gæta mikillar sanngirni gagnvart einkareknum miðlum á markaði í ljósi hins opinbera. Þess vegna er algerlega fráleitt að ætla hinu nýja ríkisútvarpi þá stöðu sem það hefur hér og ekki er farin sú leið að takmarka auglýsingatekjur t.d. með það að markmiði, eins og Samfylkingin leggur til, að þær verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins sem er sanngirnisleið, þá er sett þak á umfang stofnunarinnar á auglýsingamarkaði. Um leið er komið með sanngjörnum hætti til móts við bæði auglýsendur sem vilja hafa aðgang að þessum sterka og öfluga miðli, svo og einkareknu ljósvakamiðlana, burt séð frá því hverjir eiga þá hverju sinni. Allir vita að forsvarsmenn 365 og Fréttablaðsins í dag eru helbláir sjálfstæðismenn. Það vita allir að Ari Edwald og Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, eru helbláir sjálfstæðismenn. En það skiptir engu máli. Okkur ber skylda til þess á hinu háa Alþingi að setja sanngjörn lög þar sem jafnræði er virt, þar sem stjórnarskráin er virt og þar sem við brjótum ekki gegn samkeppnislögum, og þó svo að íhaldið hafi fært fyrir því rök að sérlögin um RÚV taki samkeppnislögunum fram og þar með sé ekki verið að brjóta samkeppnislög með nýju frumvarpi um Ríkisútvarpið þá er þetta algerlega óboðlegt.

Þetta frumvarp er, eins og Davíð Oddsson sagði um árið um fjölmiðlafrumvarpið þáverandi, sáttagerðina miklu sem hæstv. menntamálaráðherra kynnti, verra en ekkert. Þessi nýju lög um Ríkisútvarpið eru ómöguleg hvar sem gripið er niður er í þau. Ríkisstyrkt hlutafélag á samkeppnismarkaði vegur að sjálfsögðu að tilveru og tilverurétti einkareknu ljósvakamiðlana. Við eigum hins vegar að efla sjálfstætt almannaútvarp með því að losa það undan flokkspólitískri stjórnun. Við eigum að gefa því eðlilegt og sanngjarnt svigrúm á auglýsingamarkaði. Við eigum að leggja til þess fé áfram, að mínu mati, eins og við gerum núna, það er ekki verið að tala fyrir því að dregið verði úr þessum 2,8 milljörðum. En sú 2,8 milljarða meðgjöf hins opinbera til almannamiðilsins verður að sjálfsögðu að eiga sér skýra réttlætingu í markmiðslýsingum fjölmiðilsins.

Ríkisútvarpið er að mörgu leyti fyrirtaksfjölmiðill, það rekur öflugar fréttastofur, framleiðir talsvert af þokkalegu og sæmilegu íslensku efni og sýnir að sjálfsögðu heilan helling af erlendu sjónvarpsefni sem hefur heilmikið afþreyingargildi þótt það hafi kannski ekki mikla sérstöðu gagnvart fjölmiðlun hinna ljósvakamiðlana. Þess vegna spyr ég: Hvert er hlutverk ríkisins á fjölmiðlamarkaði? Að drepa niður frjálsa fjölmiðlun í samkeppni um amerískar sápuóperur og skemmtiþætti? Það getur varla verið. Þess vegna er metnaðarfull framtíðarsýn stjórnenda Ríkisútvarpsins að sjálfsögðu ánægjuefni, enginn efast um hana, held ég, en við verðum að gæta þess að með nýju frumvarpi, sem að sjálfsögðu hefði átt að vinna í sátt og samstöðu við alla stjórnmálaflokkana á Alþingi, náist sátt um fjölmiðlaumhverfið almennt. Það er Framsóknarflokknum að kenna að svo er ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svínbeygt Framsóknarflokkinn aftur og aftur í þessu máli, niðurlægt flokkinn með nokkuð fordæmalausum hætti. Fyrir þremur árum sagði Framsóknarflokkurinn að það kæmi aldrei til greina að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Svo er búið að fara marga hringi og niðurlægja Framsóknarflokkinn aftur og aftur.

Á dögunum var haldin mikil flugeldasýning á vegum nokkurra framsóknarmanna. Nú skyldi íhaldinu sýnt í tvo heimana, það skyldi aldeilis brotið á bak aftur og var gert áhlaup að því að Framsóknarflokkurinn styddi það að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Eftir á er það ákaflega brosleg tilraun og eiginlega hlægileg. Fyrir því var engin innstæða og það hefur ekki komið fram með neinu móti á hinu háa Alþingi að Framsóknarflokknum hafi verið nokkur einasta alvara með þessu uppþoti. Þetta var að sjálfsögðu sýndarmennska og ekkert annað. Óskandi hefði verið að Framsóknarflokknum hefði verið alvara með það að reyna að koma þessu frumvarpi út af borðinu sem verður vonandi aldrei að lögum í þessari mynd. Til að undirstrika uppþot framsóknarmanna sendi stjórn Sambands ungra framsóknarmanna frá sér ályktun um málið og hún er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna leggst gegn því að frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. verði samþykkt, og RÚV þannig gert að hlutafélagi. SUF telur að hagsmunum RÚV og almennings sé ekki best borgið með breytingu af þessu tagi, og telur vænlegra að skoða kosti þess að gera RÚV að sjálfseignarstofnun. Bendir SUF á að þekktasta almenningsútvarp heims, BBC í Bretlandi, er rekið sem sjálfseignarstofnun og er sem slíkt leiðandi í framleiðslu á bæði menningar og afþreyingarefni. Þá telur SUF að málið sé ekki nægjanlega undirbúið og telur það fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi“ — ég endurtek, virðulegi forseti, Samband ungra framsóknarmanna telur það fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi — „án þess að afstaða hafi verið tekin til stórra spurninga, svo sem aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði sem og stöðu RÚV á samkeppnismarkaði almennt. Stíga þarf mjög varlega til jarðar svo að ekki myndist fákeppni á þeim markaði með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir neytendur.“ — Og taka þar undir ungir framsóknarmenn sem hafa farið mikinn hér í þinginu í líki þeirra hv. þingmanns Guðjóns Ólafs Jónssonar og hv. varaþingmanns Björns Inga Hrafnssonar. Áfram segir hér, virðulegi forseti: „SUF leggur áherslu á nauðsyn þess að hér á landi starfi öflugt ríkisútvarp, sem nái til allra landsmanna og hafi ákveðnum skyldum að gegna við framleiðslu á innlendu dagskrárefni. Það að breyta RÚV í hlutafélag telur SUF hins vegar aðeins vatn á myllu andstæðinga RÚV og þeirra sem vilja einkavæða starfsemi þess. SUF hvetur því þingmenn til þess að samþykkja ekki fyrirliggjandi frumvarp, en þess í stað leggja fyrir menntamálaráðherra að hefja undirbúning að því að breyta RÚV í sjálfseignarstofnun sem hafi að fyrirmynd breska ríkisútvarpið BBC.“

Svo mörg voru þau orð og þannig fór um flugeldasýningu þá hjá ungum framsóknarmönnum, það varð sem sagt ekkert úr henni. Engar breytingar urðu á frumvarpinu að svo komnu máli a.m.k. Við 2. umr. í dag hefur enginn framsóknarmaður talað fyrir þeim breytingum sem Samband ungra framsóknarmanna lagði svo mikla áherslu á. Hv. varaþm. og formaður borgarráðs, Björn Ingi Hrafnsson fór hamförum í tveimur fjölmiðlum heila helgi, þannig að landsmenn fengu engan frið, og fullyrti að ekki kæmi til greina af hálfu meiri hluta framsóknarmanna að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ekkert hefur spurst til þessarar skoðunar. Þessi meiri hluti framsóknarmanna er jafn heillum horfinn og restin af fylgi Framsóknar í skoðanakönnunum. Enginn framsóknarmannanna hefur talað fyrir því viðhorfi í dag, að það komi ekki til greina að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og að leggja eigi fyrir menntamálaráðherra að breyta því í sjálfseignarstofnun að fyrirmynd breska ríkisútvarpsins BBC. Fyrir þessu hefur enginn talað í dag og er það miður.

Við leggjum það til, jafnaðarmenn, að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi kýs og að auki eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins fulltrúa í stjórninni. Þannig sé tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Ein af grundvallarbreytingum sem gera þyrfti á þessu frumvarpi til þess að það kæmi til álita að styðja það er annars vegar að breyta rekstrarforminu í sjálfseignarstofnun og hins vegar að breyta ákvæðinu um stjórn stofnunarinnar í þá veru sem hér er lagt til. Meiri hlutinn á Alþingi hefði þá ekki árlega pólitískt kverkatak á stofnuninni þar sem stjórnin yrði öll kosin upp á nýtt árlega á Alþingi og það væri eilíflega ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni þar sem mönnum yrði skipt út ef þeir færu ekki eftir því sem meiri hlutinn og sitjandi menntamálaráðherra vildu hverju sinni. Þetta er algert grundvallaratriði og eitt af því versta í þessum misheppnaða pólitíska leiðangri hæstv. menntamálaráðherra, sem bíður nú í þriðja sinn afhroð, þriðja tilraunin til að koma Ríkisútvarpinu í gegnum þingið er í uppnámi núna þar sem búið er að fresta afgreiðslu málsins fram yfir áramót og segja má, semja það út af borðinu. Ekki eru miklar líkur á því að þetta misheppnaða mál hæstv. menntamálaráðherra verði nokkurn tíma að lögum í þessari mynd, enda mælir allt á móti því og maður finnur að það er vaxandi þungi í andstöðunni við málið úti í samfélaginu. Mun ég stikla á stóru um það á eftir og vitna til nokkurra umsagna sem komu til menntamálanefndar máli mínu til stuðnings.

Ríkisútvarpsmálið er að verða ríkisstjórninni sami misheppnaði pólitíski leiðangurinn og fjölmiðlafrumvarpið var á sínum tíma þegar setja átti fjölmiðlalög hér á landi til að knésetja eitt tiltekið fyrirtæki í fjölmiðlarekstri. Það átti að koma Baugi út úr fjölmiðlarekstri með mjög undarlegum frumvörpum sem tóku sífelldum breytingum eftir því hvernig málinu vatt fram en alltaf með það að markmiði að klekkja á 365 fjölmiðlum. Það var með ólíkindum að ætla að ganga þannig fram við lagasetningu. Allir vita hvernig fór um sjóferð þá. Eftir að forseti lýðveldisins beitti málskotsrétti sínum og vísaði málinu fyrir dóm þjóðarinnar voru lögin numin úr gildi og niðurlæging ríkisstjórnarinnar í málinu var alger og hefur hún aldrei borið sitt barr síðan. Eins og skoðanakannanir gefa til kynna núna er ríkisstjórnin kolfallin, það eru litlar líkur á að hún nái aftur vopnum sínum, og ekki verður þessi dapurlegi leiðangur hæstv. menntamálaráðherra til að koma þessum lögum í gegnum þingið, þriðja sinnið í röð, til þess að koma ríkisstjórnarmeirihlutanum aftur á lappirnar.

Við í stjórnarandstöðunni leggjum fram frávísunartillögu sem örlítið hefur verið rætt um í dag. Í nefndarálitinu segir um þá tillögu, með leyfi forseta.

„Í ljósi þess sem að framan greinir eiga fulltrúar minni hlutans ekki annars úrkosti en að flytja eftirfarandi tillögu:

Þar sem

a. fram hafa komið veigamiklar athugasemdir um að sams konar frumvarp um Ríkisútvarpið og fjölmiðlafrumvarpið kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá,

b. vafi leikur á um hvort ákvæði frumvarpsins stenst reglur Evrópuréttar,

c. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

d. með ákvæðum um tekjur af auglýsingum og kostun er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsinga- og kostunarmarkaði án þess að ljóst sé um sérstakt hlutverk þess umfram aðrar stöðvar,

e. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,“ — þetta er mjög kjarnyrt og góð tillaga; og hún heldur áfram:

„f. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, samanber m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar,

g. alls óljóst er hvernig háttað verður um innlent efni í dagskrá Ríkisútvarpsins til frambúðar,

h. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar tvö,

i. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni,

j. nefskattur, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda,

k. við blasir að frumvarpið ylli, ef það verður að lögum, málaferlum bæði hérlendis og á EES-vettvangi,

l. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa reynt að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi.“

Í ljósi þessa leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá.

Þetta var nokkuð tæmandi yfirlit yfir helstu skavankana á þessu afleita máli sem hæstv. menntamálaráðherra lætur sig hafa að leggja fyrir þingið einu sinni. Bara til að fá sömu útreið aftur.

Ég ætla að vísa í nokkrar umsagnir. Mikill fjöldi umsagna barst menntamálanefnd og margar afskaplega athyglisverðar sem undirstrika hver með sínum hætti þá miklu meinbugi sem eru á frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Í fyrsta lagi er fjallað um það sem lýtur að pólitískri stjórn á stofnuninni. Í öðru lagi er tekið til rekstrarformsins, sem er afar óheppilegt um slíka starfsemi. Í þriðja lagi fjalla menn um umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Í fjórða lagi er rætt um hlutverk nýs, sjálfstæðs, öflugs almannaútvarps á nýjum tímum og að lokum um fjáröflunarleiðina þar sem valin er versta hugsanlega leiðin, þ.e. nefskattur.

Ekki er hægt að líta fram hjá því að hlutafélagaformið greiðir jafnframt leiðina að einkavæðingu Ríkisútvarpsins í heild eða að hluta. Það er ekki hægt að líta fram hjá því atriði þar sem hluti þingflokks sjálfstæðismanna er einarður í baráttunni fyrir því að Ríkisútvarpið verði selt. Með þessu yrði að sjálfsögðu stigið skref í þá átt. Að því lýtur samkomulag Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, þ.e. að Framsóknarflokkurinn lætur beygja sig með því að gera stofnunina að hlutafélagi fyrst að tímabundin trygging er fengin fyrir því að selja það ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Samfylkingin leggst alfarið á mót einkavæðingu Ríkisútvarpsins og telur að hlutafélagsformið henti illa starfsemi almannaútvarps. Þá er ákaflega óljóst hvert hlutverk hins nýja fyrirtækis á að vera, eins og við jafnaðarmenn á Alþingi höfum gagnrýnt í öllum þeim umræðum sem hafa farið fram um Ríkisútvarpið á síðustu missirum. Í þessu nýja frumvarpi er óljóst hvert hlutverkið á að vera. Hinar óljósu skilgreiningar gefa því undir fótinn að hlutafélaginu sé, með aðstoð ríkisins, ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar. Við höfum sérstaklega tekið til að það gangi ekki upp gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum hvað varðar auglýsingar og kostun.

Þar er keppt mjög harkalega um lítinn markað. Svigrúm frjálsrar fjölmiðlunar á ljósvakamarkaði er afar takmarkað, nái frumvarpið fram að ganga. Það er dapurlegt að fylgjast með fyrrverandi baráttumönnum fyrir hinu frjálsa framtaki og einkavæðingu að ætla að keyra þennan óskapnað í gegnum þingið. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með því. Annars vegar er barist fyrir því að selja útvarpið og hins vegar fyrir því að ríkisvæða ljósvakann á Íslandi. Það er ömurlegt að fylgjast með því, virðulegi forseti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihluti í útvarpsráðinu nýja ráði útvarpsstjóra og reki að vild. Fyrirtækið er því áfram undirselt flokkspólitískum afskiptum og inngripum ef valdhöfum þykir þurfa. Frægt er að endemum fréttastjóramálið fyrir nokkrum missirum sem ætlaði allt um koll að keyra. Þar gengu framsóknarmenn í ríkisstjórninni einu feti of langt og allt varð vitlaust. Þeir urðu að afturkalla fréttastjórann, sem sat ekki nema frá morgunkaffi og fram að hádegi. Annar var fenginn og friður komst á. Það var mjög alvarlegt dæmi um pólitíska misbeitingu ríkisstjórnarflokkanna á Ríkisútvarpinu.

Koma þarf í veg fyrir ítrekaðar tilraunir til pólitískra inngripa og þess vegna hefði verið mikilvægt að fara þá leið sem Samfylkingin leggur til, sem er sú að að auki eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins fulltrúa í stjórninni, sem er sjálfsagt mál. Þannig er tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni. Það væri mikil bót á þessu frumvarpi.

Þá ber einnig að harma að nefskattsleiðin skuli valin þar sem nefskatturinn er almennt óheppileg leið til tekjuöflunar, sérstaklega fyrir fjölmiðil, og ólíklegur til að efla samstöðu um stofnunina. En auðvitað þarf að vera víðtæk sátt og samstaða um rekstur Ríkisútvarps almennt sem fær um 3 milljarða kr. á ári frá almenningi, úr vösum skattgreiðenda. Það væri að mínu mati hægt að réttlæta með góðum og öflugum almannamiðli sem tryggði hlutlausa, fyrsta flokks fréttamiðlun, framleiðslu á innlendu efni, miðlun á menningartengdu efni hljóðvarps og sjónvarps sem ekki er sinnt annars staðar o.s.frv. Það er ekki málið og margt af því gerir Ríkisútvarpið ljómandi vel í dag.

Ef Ríkisútvarpið losnaði við inngrip og fyrirstöður Sjálfstæðisflokksins tel ég að fjölmiðillinn mundi blómstra, ekki síst fengi hann lagaumgjörð sem hentaði, eins og þá sem við leggjum til, að útvarpið yrði sjálfseignarstofnun þar sem umfangið á auglýsingamarkaði yrði takmarkað að einhverju leyti og erindið nokkuð skýrt. Erindi hins nýja, sjálfstæða og öfluga almannaútvarps yrði skýrt. Þetta frumvarp þyrfti að taka stakkaskiptum til að möguleiki væri á því að það yrði til bóta fyrir Ríkisútvarpið.

Í athyglisverðri umsögn frá Útvarpi Sögu sem er undirrituð af Arnþrúði Karlsdóttur útvarpsstjóra segir m.a. um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. töluliðs í 4. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið hafi heimild til þess að afla tekna með því að selja og birta auglýsingar er tengjast dagskrárefni í útvarpi og öðrum miðlum. Samkvæmt núgildandi lögum er t.d. óheimilt að selja auglýsingar til birtingar á heimasíðu Ríkisútvarpsins samanber niðurstöðu umboðsmanns Alþingis … Það fyrirkomulag að Ríkisútvarpið skuli vera áfram á kostunar- og auglýsingamarkaði hlýtur að teljast mjög ósanngjarnt sérstaklega í ljósi þess að Ríkisútvarpinu eru tryggðar tekjur úr ríkissjóði. Með þessu nýja frumvarpi er stefnt að því að stórauka auglýsingatekjur útvarpsins með því að heimila RÚV að selja og birta auglýsingar á netinu.“

Fyrir þetta atriði var tekið að kröfu stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Áfram segir, virðulegi forseti:

„Því hefur verið haldið fram að með framlögðu frumvarpi sé verið að lögfesta það fyrirkomulag sem sé eðlisskylt því ástandi sem ríkir í nágrannalöndum okkar, þar á meðal á hinum Norðurlöndunum. Þessi staðhæfing er alröng,“ segir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.

Í lokin segir hún að ríkisfjölmiðlar á hinum Norðurlöndunum, þ.e. í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, banni alfarið auglýsingar bæði í útvarpi og á netinu. Það er grundvallarmunur á stöðu hinna norrænu ríkismiðlanna og RÚV. Þetta er algjört grundvallaratriði. Hið sama á við um BBC, sem er líklega einn besti fjölmiðill í heiminum, sem hefur blómstrað sem aldrei fyrr undir stjórn Verkamannaflokksins síðustu níu ár og fer á kostum. Að sjálfsögðu eigum við að leita í smiðju til Norðurlandanna og Bretlands en ekki fara þessa afkáralegu fjallabaksleið sem hæstv. menntamálaráðherra er á þriðja skipti, einum misheppnaðasta leiðangri sem hún hefur farið í hvað varðar Ríkisútvarpið hingað til. Það er eftirtektarvert hvað frumvarpið tekur litlum breytingum til hins betra á milli ára.

Þetta mál er að verða minnisvarðinn yfir kjörtímabili ríkisstjórnarinnar. Vandræðagangurinn í málefnum íslenskra fjölmiðla er algjörlega dæmalaus og með ólíkindum. Ég held að enginn hefði séð slíkt fyrir við upphaf kjörtímabilsins þar sem lítið var rætt um fjölmiðlaumhverfið nema af örfáum baráttumönnum fyrir betrumbótum á því sviði úr liði stjórnarandstöðunnar.

Mörg önnur innsend erindi til menntamálanefndar vöktu athygli og renndu stoðum undir málflutning stjórnarandstöðunnar í málinu, sem hefur verið sameinuð í málinu, leggur fram sameiginlegt nefndarálit og vel rökstudda frávísunartillögu í þessu máli. Í mjög athyglisverðu erindi frá Viðskiptaráði Íslands er undirstrikað mikilvægi þess að gæta verði sanngirni gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum við lagasetningu um Ríkisútvarpið. Niðurstaða Viðskiptaráðsins, sem er undirrituð af Davíð Þorlákssyni, lögfræðingi þess, er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi menntamálaráðherra er verið að blása til sóknar í ríkisrekstri gegn einkarekstri sem hefur þegar haslað sér völl á markaðnum. Þessi framganga ríkisins spillir heilbrigðum rekstrarskilyrðum á fjölmiðlamarkaði. Þannig liggur í augum uppi að ef frumvarpið fjallaði ekki um Ríkisútvarpið heldur fyrirtæki í einhverri annarri atvinnustarfsemi í landinu sæist glögglega hve frávik frá eðlilegum leikreglum markaðarins eru hrópandi í frumvarpinu.“

Ég tek undir hvert einasta orð, virðulegi forseti, með Viðskiptaráðinu í þessu efni. Áfram segir:

„Að sama skapi hefur Viðskiptaráð margoft bent á það að ríkinu beri skylda til að sporna gegn frekari útgjaldaþenslu með því að gæta aðhalds í rekstri sínum, draga úr starfsemi hins opinbera …Fyrirliggjandi frumvarp um Ríkisútvarpið er síst til þess fallið að uppfylla slíkar skyldur.“

Nú geta menn deilt um þessa málsgrein. En þó hlýtur það að vera frumskylda hins opinbera að gæta jafnræðis gagnvart atvinnurekstri á sama markaði og starfsemi hins opinbera. Fram að þessu hefur verið nokkuð víðtæk sátt um að ríkið skuli halda úti opinberum ljósvakamiðli. Það er t.d. ekki sátt, að ég tel, um að Ríkisútvarpið stofnsetji dagblað og fari að reka dagblað í bullandi samkeppni við Morgunblaðið, Blaðið og Fréttablaðið. Þeir eru ekki enn þá farnir að tala fyrir því hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem annars vegar vilja selja Ríkisútvarpið og hins vegar ríkisvæða ljósvakann. Nú bíður maður eftir því að þeir fari að berjast fyrir því að stofna ríkisdagblað. Þá væru þeir komnir í hring, þangað sem þeir stefna með þessu frumvarpi.

En ég tel að enn þá sé sátt um að ríkið reki ljósvakafjölmiðil, öflugt sjónvarp og öflugt útvarp sem gegnir hlutverki og miðlar öðru efni en hinir einkareknu miðlar gera. En það er hins vegar fullkomlega óásættanlegt á þessum litla markaði að fyrirferð og umfang ríkisins á markaðnum verði með þeim hætti í framtíðinni að hún boli einkarekstri þannig frá að framleiðsla á íslensku efni, miðlun frétta og rekstur á einkarekinni fréttastofu eins og Fréttastofu Stöðvar 2 verði lögð af. Nú veit enginn hvort það gerist eða ekki, það hefur enginn hugmynd um. En ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins ætlar áfram að þrengja að einkarekstri á ljósvakamarkaði þá endar það að sjálfsögðu með ósköpum. Ef Sjálfstæðisflokknum tekst að ríkisvæða ljósvakann með þeim hætti sem hér er verið að gera þá endar það með því að eitthvað gefur eftir. Það er með ólíkindum að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, algerlega með ólíkindum. Fyrst koma helstu talsmenn frjálsra viðskipta í Sjálfstæðisflokknum fram og flytja frumvarp um að selja Ríkisútvarpið. Nokkrum mánuðum seinna eru þeir farnir að berjast fyrir því að það eigi að ríkisvæða ljósvakann með því að gera Ríkisútvarpið miklu öflugra og segja að það komi ekki til greina að selja útvarpið, það sé alls ekki verið að stíga skref í þá átt. Þar eru þeir komnir í marga hringi, blessaðir mennirnir. Þess vegna er athyglisvert að líta til álita frá þeim stofnunum sem fram að þessum undarlega áratug í sögu Sjálfstæðisflokksins voru kannski þau samtök sem höfðu hvað mest áhrif á pólitíska skoðanamyndun innan flokksins, atvinnulífið, viðskiptaráðið og fleiri aðilar. Þeir eru nú algerlega á skjön við Sjálfstæðisflokkinn í málinu sem er kominn út í einhverjar ógöngur, eitthvert undarlegt fen sem hann kemst ekki upp úr nema kannski með ráðherraskiptunum næsta vor þegar hægri stjórnin fellur og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hundskast af bekkjunum. Þá loksins kemst ríkisstjórnin út úr þessum ógöngum. Það er undirstrikað vel hér.

Aðeins um rekstrarformið en í erindi viðskiptaráðs segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðskiptaráð getur tekið undir þær raddir að heppilegt sé að færa RÚV í nútímalegra rekstrarform en áréttar um leið að tilgangur slíkrar breytingar eigi að vera að liðka fyrir sölu einstakra rekstrareininga þess.“

Sem sagt, einungis réttlætanlegt ef á að selja. Nú er ég eindregið á móti því að selja Ríkisútvarpið. Sjálfstæðisflokkurinn segist vera á móti því, Framsóknarflokkurinn var á móti því, a.m.k. síðast þegar fréttist en um leið og þeir vildu alls ekki gera það að hlutafélagi, þá voru þeir líka á móti því. Það kemur kannski í ljós ef hv. þingmenn, t.d. Hjálmar Árnason og Guðjón Ólafur Jónsson, sem hafa farið mikinn í málefnum útvarpsins í dag og síðustu missiri, koma með sínar glöggu framsögur síðar í kvöld. Hvar er Framsóknarflokkurinn í dag? Það er stóra spurningin í dag. Framsóknarflokkurinn hefur haft fjórar afstöður á þremur árum. Ég held að sá vingulsháttur Framsóknarflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins sé einhvers konar met. Flokkurinn hefur skipt um skoðun jafnoft og Sjálfstæðisflokkurinn hefur kreppt hnefann framan í þá og í hvert sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hótað þeim einhverju ef þeir samþykki ekki málið þá hefur flokkurinn beygt af leið og samþykkt hverja vitleysuna á fætur annarri.

Samtök atvinnulífsins hafa lagst mjög harkalega gegn þessu frumvarpi á mjög málefnalegum forsendum að því er mér finnst og ég ætla að vísa í nokkrar þeirra, með leyfi forseta:

„En nú er Ríkisútvarpið staðreynd og starfar á fjölmiðlamarkaðnum í mikilli samkeppni við önnur fyrirtæki. Með áformuðum breytingum verður Ríkisútvarpið mun öflugri keppinautur en áður þar sem sveigjanleikinn í rekstrinum verður aukinn og litlar hömlur eru lagðar á þróun starfseminnar. Þótt sérstaklega sé kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og annars reksturs er ekki líklegt að það muni virka í þessu tilviki þar sem skilgreiningin á útvarpsþjónustu í almannaþágu er svo rúm að hún getur náð yfir langstærstan hluta starfsemi RÚV. Því er hætt við að mjög þrengi að keppinautum Ríkisútvarpsins og það fái algera yfirburði á markaðnum í krafti 2,8 milljarða kr. árlegs ríkisstyrks, með þeim afleiðingum að í heild verði framboð af efni fábreyttara og einhæfara en það er nú. Með hliðsjón af þessu verður að mati Samtaka atvinnulífsins aldrei friður um Ríkisútvarpið ohf. í fyrirhugaðri mynd.

Samtök atvinnulífsins telja að önnur leið sé æskilegri. Hún felst í því að Ríkisútvarpið starfi á sambærilegum grunni og önnur fyrirtæki á markaðinum, þ.e. verði áskriftarmiðill án skylduáskriftar, leiti eftir viðskiptavinum eins og keppinautarnir og hefði af því tekjur. Hins vegar þarf líka að huga að því hvernig Ríkisútvarpið þróast frá stofnun að fyrirtæki og væri ekki óeðlilegt að einhver aðlögunartími gæfist. Slíkt mætti gera með því að stofna sérstakan sjóð fyrir framleiðslu og dreifingu á íslensku menningarefni sem hefði t.d. 700–800 millj. kr. árlega til ráðstöfunar. Í fyrstu gæti allt þetta fé runnið til útvarpsins ohf. vegna umframkostnaðar fyrirtækisins en smám saman eða á 10 ára tímabili ætti föst hlutdeild þess að lækka en hinn hluti styrksins að úthlutast á samkeppnisgrundvelli. Ríkisútvarpið jafnt sem aðrir framleiðendur og dreifiaðilar hefðu því aðgang að þessu fé. Þannig gætu smám saman fleiri komið að framleiðslu og dreifingu efnis sem mundi tryggja aukna fjölbreytni og stuðla að meiri gæðum auk þess sem jafnræði yrði milli keppinauta á markaðnum. Með slíkri leið yrði markmiðum um stuðning við íslenska menningu náð mun betur en nú er auk þess sem hún yrði langtum kostnaðarminni fyrir skattgreiðendur. Sú leið sem fyrirhuguð er í frumvarpinu byggir hins vegar frekar á því að íslensk menning verði til innan veggja stofnunar eða fyrirtækis ríkisins fremur en hún verði til, dafni og þróist meðal landsmanna almennt.“

Áfram segir, virðulegi forseti: „Verði það engu að síður niðurstaða Alþingis að engin alvarleg tilraun verði gerð til að færa aðkomu ríkisvaldsins að útvarpsstarfsemi til nútímahorfs heldur fylgja þeirri stefnu sem í frumvarpinu felst, telja Samtök atvinnulífsins óhjákvæmilegt að bæta ákvæðum í lögin sem takmarka starfsheimildir RÚV við núverandi stöðu og leitast þannig við að fyrirbyggja að RÚV misbeiti yfirburðarstöðu sinni á markaði sem fjármögnun félagsins mun færa því. Í þessu felst m.a. að ekki ætti að heimila RÚV kostun samanber 2. tölulið 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins og takmarka ætti sölu á auglýsingum t.d. við meðaltal útsendingartíma undanfarinna fimm ára eða svo. Þá ætti ekki að heimila RÚV að færa út kvíarnar á sviði nýrrar tegundar fjölmiðla eða stafrænnar tækni.“

Að lokum segir í umsögn 365 miðla, með leyfi forseta: „Útvarpsrekstur var sem kunnugt er gefinn frjáls fyrir 20 árum síðan og það er ljóst að einkaaðilar hafa á þessum tíma staðið sig vel, sýnt mikið frumkvæði og aukið fjölbreytni í fjölmiðlun. Vegna yfirburðarstöðu sem fjármögnun RÚV hefur skapað stofnuninni hafa skilyrði einkaaðila þó verið afar erfið. Má sem dæmi nefna rekstur fréttastofa, en Skjár 1 varð á sínum tíma að leggja af rekstur fréttastofu. NFS innleiddi nýlega mjög áhugaverða nýbreytni frá sjónarhóli áhorfenda en hefur þar þurft að draga nokkuð í land vegna erfiðleika í rekstri. Frá sjónarhóli tjáningarfrelsis og frjálsra skoðanaskipta í landinu er afar mikilvægt að rekstur frjálsra ljósvakamiðla á fréttastofum fái staðist og geti áfram haldið við hliðina á Ríkisútvarpinu.“

Þetta segir í umsögn til menntamálanefndar um frumvarpið frá Samtökum atvinnulífsins og kennir þar margra grasa og margt sem er hægt að taka undir. Þá hafa verið raktar ágætlega í dag þær alvarlegu athugasemdir sem komu fram hjá samkeppniseftirlitinu og er talið að gangi frumvarpið fram í óbreyttri mynd gæti það leitt til málaferla bæði innan lands og á EES-svæðinu um langt árabil, sérstaklega þar sem gæti verið um að ræða brot á stjórnarskrá og jafnræðisreglu hennar. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar löggjafinn gengur svo fram í lagasetningu, meiri hlutinn hér á þinginu, með jafnalvarlegt álit og þetta frá samkeppniseftirlitinu í farteskinu og eina réttlætingin fyrir lagagerðinni er sú að frumvarpið brjóti ekki samkeppnislög í þeim skilningi að sérlög taki fram almennum lögum. Það er mjög hæpið vað og hættuleg þróun.

Rétt aðeins til að undirstrika þau gífurlegu áhrif sem þessi lagagerð hefur. Það hefur verið rætt áður að það hefði verið mikilvægt að þessi lagasetning hefði átt sér stað samtímis og með nýjum fjölmiðlalögum af því að lögfestingin á þessu frumvarpi hefur áhrif á fjölmiðlamarkaðinn allan langt út fyrir þetta eina fyrirtæki og segir í umsögn frá 365 miðlum, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi fjáraustri af almannafé til eins fyrirtækis sem á í samkeppni við einkafyrirtæki í nákvæmlega sömu starfsemi.“ Þetta er náttúrlega fullyrðing sem ég tel að standist ekki þar sem við göngum út frá því að hjá þessum fyrirtækjum sé ekki um nákvæmlega sömu starfsemi að ræða þar sem hlutverk Ríkisútvarpsins er að halda úti öflugri innlendri dagskrárstefnu og miðlun 1. flokks dægurefnis og frétta og við leggjum til þess eðlilegt fjármagn sem hægt sé að réttlæta. En áfram segir: „Slíkt skekkir samkeppnisstöðu með ýmsum hætti, t.d. bæði á auglýsingamarkaði og við innkaup á erlendu afþreyingarefni. Er það vafalaust rétt sem útvarpsstjóri kemur inn á í grein í Morgunblaðinu 19. janúar sl. að núverandi dagskrá má framleiða með hagkvæmari hætti en nú er gert. Það mun fría upp mikla fjármuni sem RÚV getur beitt í samkeppni við einkafyrirtæki sem þurfa að standa á eigin fótum. Þessi atlaga að heilbrigðum rekstrargrundvelli fjölmiðlafyrirtækja er án efa mikil hindrun í vegi fyrir aukinni fjölbreytni í íslenskum fjölmiðlum.“

Samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins sjá þetta sem sagt sem alvarlega atlögu að starfsemi sinni sem hlýtur að draga það fram hve alvarlegt málið er og hve alvarlega aðrir fjölmiðlar taka þessa lagabreytingu og hve miklar afleiðingar lagasetningin getur haft á allan fjölmiðlamarkaðinn í framhaldinu.

Rétt í lokin ætla ég að ljúka tilvitnunum í þau erindi sem mér þótti hvað brýnust inn í þessa umræðu. Hér hefur verið farið víða í dag og það hefur verið rætt ítarlega um hversu óheppilegt þetta rekstrarform er fyrir Ríkisútvarpið, nefskattsleiðin sé óheppileg fjáröflunarleið, það sé óheppilegt að áfram sé pólitísk stjórnun eða að jafnvel sé hert á henni á stofnuninni með þeirri breytingu sem gera á í staðinn fyrir að losa þar um. Loks hefur verið rætt um hvað það sé í rauninni óeðlilegt að ekki sé stigið skref í átt að því að takmarka með sanngjörnum hætti, bæði fyrir Ríkisútvarpið og fyrir einkareknu miðlana, umfang útvarpsins á auglýsingamarkaði. Hér segir, með leyfi forseta, í umsögn frá 365:

„Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu tíðkast það hvergi á Norðurlöndunum né í Bretlandi að ríkisrekin ljósvakafyrirtæki starfi á auglýsingamarkaði …“

Fyrir því liggja hin augljósu rök að með því er þrengt um of að starfsemi einkarekinna fyrirtækja á sama markaði. Hin hliðin á málinu er sú að einkareknar ljósvakastöðvar eru í harðri samkeppni við Ríkisútvarpið í innkaupum á íþrótta- og afþreyingarefni og um starfsfólk þar sem Ríkisútvarpið hefur ekki hikað við þátttöku í yfirboðum þrátt fyrir þá staðreynd að stofnunin hefur verið rekin með umtalsverðu tapi á liðnum árum. Þarna er einnig talað um að ef gengið væri svo langt að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði, sem ég held að eigi ekki að gera, ég held að það eigi að finna sanngjarna hlutfallstölu eins og Samfylkingin leggur til, þ.e. að fjármögnun RÚV verði blönduð annars vegar með ríkisframlagi en hins vegar með auglýsingatekjum sem þó lækki frá því sem nú er og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins. Að mati 365 mundi afleiðing þess að Ríkisútvarpið yrði tekið af auglýsingamarkaði, með leyfi forseta, vera þessi:

„Svigrúm einkarekinna fjölmiðla til aukinnar dagskrárgerðar mundi aukast verulega. Á stuttum tíma mundi það leiða til þess að fleiri einkaaðilar mundu sjá sér hag í að hefja starfsemi á ljósvakamarkaðnum hér á landi,“ sem er ekki óeðlileg ályktun af því að við erum að tala um milljarð kr. á hverju ári sem eru gífurlegir fjármunir að sjálfsögðu og áfram segir: „Að mati 365 ætti það að vera í samræmi við stefnu núverandi stjórnarflokka.“

Það hefði að sjálfsögðu gífurleg áhrif. Ég tel að það eigi ekki að ganga svo langt, alls ekki. Ég held að Ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði áfram og færi rök fyrir því út frá ýmsum hliðum.

Þá í lokin, virðulegi forseti, kom fram mjög vandað álit frá samtökunum Hollvinir Ríkisútvarpsins sem er undirritað af Margréti Sverrisdóttur, formanni samtakanna. Þar segir, svona rétt til að undirstrika að það er fólk alls staðar að úr samfélaginu sem hefur áhuga á málefnum Ríkisútvarpsins og vill, eins og við, halda úti sjálfstæðu, öflugu almannaútvarpi, með leyfi forseta:

„Grundvallarstefna Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins er andstaða við hlutafélagavæðingu þess. Samtökin telja að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu hins opinbera verði hlutverki þess sem þjóðarútvarps ógnað.“ Hvorki meira né minna, virðulegi forseti, þá telja Hollvinasamtökin að hlutverki Ríkisútvarpsins væri verulega ógnað.

Áfram segir: „Ríkisútvarpið hefur hingað til haft skyldum að gegna umfram það sem markaðsfyrirtæki sinna, svo sem mikilvægu öryggishlutverki og framleiðslu á íslensku menningarefni fyrir útvarp og sjónvarp. Vegna eðlis hlutafélaga er ljóst að með því að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi rofna þau tengsl sem það hefur haft sem þjóðarútvarp um menningarlega og samfélagslega ábyrgð. Þess vegna leggjast samtökin gegn frumvarpi þessu.

Í 1. gr frumvarpsins, sem varðar eignaraðild, er að vísu ákvæði um að ekki megi selja félagið eða hluta þess og hnykkt á því í athugasemdum með frumvarpinu að engin áform séu um slíkt. En öllum lögum má breyta sé fyrir því meiri hluti á Alþingi og Hollvinasamtökin minna á að sporin hræða vegna þess að hingað til hafa opinber fyrirtæki sem breytt hefur verið í einkafyrirtæki nær undantekningarlaust verið seld.“

Sporin hræða, virðulegi forseti, og ég held að þeir sem velta þessum málum fyrir sér, utan hægri sinnaðasta kjarnans í Sjálfstæðisflokknum, óttist almennt að þetta sé skref í einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Það vita allir að innan þingflokks sjálfstæðismanna eru öflugir baráttumenn fyrir því að Ríkisútvarpið verði einkavætt og selt og nokkrir þingmenn flokksins hafa flutt um það sérstakt frumvarp, einu sinni eða tvisvar á Alþingi á þessu kjörtímabili. Þess vegna hljómar það mjög ótrúverðugt þegar þeir hinir sömu menn halda því fram að ekki sé verið að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið með það að markmiði í framtíðinni að selja það. Þetta óttast mjög margir eins og fram kemur í álitum frá hinum þverpólitísku borgarasamtökum sem Hollvinir Ríkisútvarpsins gefa sig út fyrir að vera. Þar segir áfram í lokin, virðulegi forseti:

„Þá má benda á að áformuð breyting gerir Ríkisútvarpið að eign sem kallar á aðrar áherslur. Ríkisútvarpið verður fyrst og fremst rekstrareining í stað þess að verða sjálfstætt, virt, skapandi og gagnrýnið afl í samfélaginu. Á Alþingi heyrast háværar raddir um að rétt sé að einkavæða Ríkisútvarpið og meirihlutavilji þingsins getur breyst fyrr en varir.“ Minna þau á umrætt frumvarp sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins fluttu fyrir nokkrum missirum um að þeir vildu selja Ríkisútvarpið.

Þá aðeins um það atriði sem ég held að skipti mjög miklu máli sem eru flokkspólitísk ítök meirihlutaflokkanna á Alþingi í Ríkisútvarpinu. Ég held að það sé nokkuð almenn og útbreidd skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hvað eftir annað um árabil, ef ekki áratuga skeið, reynt að misbeita pólitísku valdi sínu í Ríkisútvarpinu. Að sjálfsögðu er það algert grundvallaratriði þegar nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið er lagt fram og fer í gegnum Alþingi að losað sé um þetta pólitíska tak sem sumir kalla kverkatak á stofnuninni. Það er algert grundvallaratriði.

Áfram segir í umsögn Hollvinasamtakanna, með leyfi forseta:

„Hollvinasamtökin leggja áherslu á að lengra verði gengið í að losa stjórn Ríkisútvarpsins ohf. undan hinu flokkspólitíska valdi og meirihlutavaldi Alþingis hverju sinni en gert er í frumvarpinu og telja nauðsynlegt að nánar sé kveðið á um stjórn Ríkisútvarpsins. Ef það á að vera lýðræðisleg stofnun verður við að líta framhjá þrengstu skilgreiningu á fulltrúalýðræði og taka upp fyrirkomulag sem gæti leitt til almennari sáttar um það. Það verður að mati Hollvinasamtakanna best gert með því að fara í gagnstæða átt við þá stefnu sem mörkuð er í frumvarpinu og hafa æðstu stjórn stofnunarinnar enn breiðari en þar er gert ráð fyrir.

Víða í nágrannalöndum okkar er æðsta stjórn ríkisútvarps skipuð fulltrúum ýmissa fjölmennra hópa í þjóðfélaginu. Innan Hollvinasamtakanna hefur verið rædd sú hugmynd að æðsta stjórn Ríkisútvarpsins verði að hluta til akademísk, þ.e. í henni ættu sæti lýðræðislega kjörnir fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Alþingi ásamt fulltrúum almennings, eigenda útvarpsins, þeirra sem nýta sér þjónustu þess.“

Síðan eru taldir upp möguleikar á stærð slíkrar akademíu, aðkomu verkalýðshreyfingar, almannasamtaka, háskólasamfélagsins, fjölmiðla og fleiri að slíkri akademíu sem hlýtur að vera spennandi hugmynd sem við hljótum að skoða með opnum augum þegar við setjum sjálfstæði og öflugu almannaútvarpi nýrra tíma lagaramma. Þetta er mjög athyglisvert.

Samfylkingin kynnti í morgun tillögur sínar í fimm liðum og þar kemur fram það sem mestu skiptir og við höfum verið að ræða hér.

Það er í fyrsta lagi að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi kýs og starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi fulltrúa í stjórninni og þar með tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni eins og hefur verið gagnrýnt mjög harkalega á undanförnum vikum, það sé einfaldlega óeðlilegt af hálfu meiri hlutans í þinginu að leggja þessa breytingu til og viðhalda þannig pólitísku taki á stofnuninni.

Í öðru lagi leggjum við til að almenningur eigi aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli sérstaks hlustendaþings sem komi saman einu sinni á ári. Útvarpsráð verði lagt niður og pólitísk afskipti af innri málefnum útvarpsins afnumin, algert grundvallaratriði, virðulegi forseti. Þá leggjum við til, eins og ég hef gert mjög að umtalsefni í dag og undanfarin missiri í þessum atrennum til að breyta lögum um Ríkisútvarpið, að fjármögnun útvarpsins verði blönduð, annars vegar með ríkisframlagi en hins vegar með auglýsingatekjum sem þó lækki frá því sem nú er og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum útvarpsins. Þá viljum við að dagskrárstefnan miðist við öflugan fréttaflutning, menningarmiðlun, fræðslu og lýðræðislega umræðu. Með því móti verði hlutverkið skýrt skilgreint þannig að Ríkisútvarpið skeri sig mjög áberandi frá dagskrárstefnu og efnismiðlun einkareknu ljósvakamiðlanna og hafi þar skýra og klára sérstöðu þannig að réttlætingin fyrir tilvist þess sé skýr. Það stuðli að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni, sé spegill samfélagsins með áherslu á innlenda dagskrárgerð í sjónvarpi þar sem blöndun verður hæfileg o.s.frv.

Þá leggjum við mikið upp úr mikilvægi þess að útvarpið verði sjálfstætt, óháð stjórnmála- og viðskiptahagsmunum og að starfsmenn þess búi við ritstjórnarlegt sjálfstæði sem m.a. tryggir faglega umfjöllun um menn og málefni á vettvangi stjórnmála og atvinnulífs og skýr aðgreining verði mörkuð í dagskrá milli dagskrárgerðar og auglýsinga.

Þetta eru helstu þættirnir sem við leggjum til og þar sem þá er ekki að finna í frumvarpinu leggjumst við gegn frumvarpinu og hugmyndum hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. þar sem hlutafélagið greiðir leið að einkavæðingu útvarpsins í heild eða hluta. Að okkar mati er óljóst um hlutverk hins nýja fyrirtækis þar sem skilgreiningin á hlutverki RÚV er óljós og hefur ekki tekist að skerpa eða skilgreina upp á nýtt að neinu marki þrátt fyrir margar atlögur að þessari lagasetningu. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem RÚV sé með aðstoð ríkisstyrks ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar, m.a. á markaði auglýsingar og kostunar.

Þá er einnig það grundvallaratriði sem gert er að umtalsefni, að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihlutinn í útvarpsráði ráði útvarpsstjóra og reki að vild og fyrirtækið sé því áfram undirselt flokkspólitískum afskiptum og inngripum er valdhöfum þykir þurfa.

Þá teljum við nefskattinn óheppilega leið til fjáröflunar sem sé ekki líklegur, heldur þvert á móti, til að efla samstöðu um útvarp af því að við verðum að viðhalda þjóðarsátt um öflugt ríkisútvarp þar sem almenningur leggur til með því nú þegar hátt í 3 milljarða á ári sem eru gífurlegir fjármunir og þess vegna mikilvægt að viðhalda víðtækri sátt. Þess vegna hefði verið ákjósanlegt að fara með málið í þann farveg að ná um það þverpólitískri sátt, vinna frumvarpið í gegnum nefnd skipaða fulltrúum allra flokkanna en því miður hefur hæstv. menntamálaráðherra þvertekið fyrir það og komið með frumvarpið lítið breytt, nema þá heldur til hins verra, ár eftir ár.



[18:27]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Enn á ný er tekið til við að ræða þetta blessaða frumvarp um Ríkisútvarpið okkar. Það verður að segjast eins og er að það heldur dapurlegt að málin skuli ekki hafa þroskast betur en raun ber vitni á þeim langa meðgöngutíma sem hér er að baki, að enn skuli ríkja fullkomið ósætti um málið og menn skuli í raun og veru engu vera nær hvað það varðar að finna starfsemi Ríkisútvarpsins þá umgjörð eða þann umbúnað, stjórnskipulag og rekstrarform og annað slíkt sem dugir til þess að skapa sæmilegan frið um stofnunina og sátt þannig að starfsfriður gangi nú í garð á nýjan leik hjá þessari stofnun. Í raun er ekki hægt að segja að hann hafi verið þar til staðar núna í mjög langan tíma með almennilegum hætti. Mönnum hafa verið mjög mislagðar hendur varðandi málefni Ríkisútvarpsins á löngu árabili. Mannaráðningar þangað inn og fleira í þeim dúr hafa lent í miklum hremmingum og átökum. Það hafa verið ýmiss konar sviptingar um stofnunina, óvissa um stöðu hennar og framtíð sem auðvitað getur ekki verið til góðs.

Það þýðir samt ekki að gefast upp við það ætlunarverk að skapa Ríkisútvarpinu starfsumgjörð sem það getur búið við, sem fær staðist í nútímalaga- og viðskiptaumhverfi og dugar til þess að Ríkisútvarpið geti sinnt sómasamlega sínu hlutverki. Mér finnst þetta frumvarp fyrst og fremst vera til marks um uppgjöfina í þeim efnum. Menn eru að játa sig sigraða og gefast upp, viðurkenna að þeir hafi ekki náð því markmiði að skapa sátt um málefni útvarpsins og ætla bara að troða í gegn því síðasta sem mönnum hefur dottið í hug. Af mörgum hugmyndum um Ríkisútvarpið, og mismunandi útgáfum í frumvörpum kemur nú þetta síðasta, að gera Ríkisútvarpið að ohf. að opinberu hlutafélagi. O-ið stendur svona fyrir það að til viðbótar venjulegum hlutafélagalögum þá mega blaðamenn mæta á aðalfundinn og einhver nokkur atriði í viðbót.

Auðvitað má segja að menn hafi látið undan og játað sig sigraða fyrir ýmiss konar gagnrýni sem þetta frumvarp og forverar þess hafa sætt. Vissulega hafa ábendingar sem hér hafa komið fram leitt til þess að menn hafa séð að sér um einstaka hluti enda voru málin svo illa unnin og svo lítt íhuguð þegar þessu var hent hér inn í hin fyrri skiptin að það auðvitað vekur mann til umhugsunar þegar maður fer að horfa til baka og velta því fyrir sér. Það þurfti til dæmis ábendingar um það héðan úr þessum ræðustóli hvað ætti að verða um menningarverðmætin sem Ríkisútvarpið geymir fyrir hönd þjóðarinnar. Ættu þau að fara bara með eins og gerðist hjá Landsbankanum? Ég hygg nú að það hafi verið hv. þm. Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður sem hafi komið hér og vakið athygli á því og nokkrum fleiri atriðum. Það leiddi svo til þess að menntamálanefnd sá að sér og meira að segja meiri hlutinn vitkaðist eitthvað gagnvart einhverjum slíkum þáttum. Sama gilti um að upplýsingalög giltu þarna eða stjórnsýslulög og fleira í þeim dúr.

En það breytir ekki hinu að grundvallargjörningurinn er misráðinn. Þetta eru mistök. Ég segi það sem mína skoðun, frú forseti, að ég held að það sé eiginlega öllum orðið það ljóst. Hið sorglega í málinu, tragedían í málinu, hið harmræna í þessu máli er að það vita það orðið allir hér í þessum sal og í kringum hann að þetta eru mistök. Aðstandendur málsins vita það vel. Það er óbragð í munni nánast hvers einasta manns sem ætlar að standa að því að afgreiða þetta og ljá þessu atkvæði sitt, að ég tel, svo maður tali nú ekki um sannfæringu okkar hinna sem höfum frá upphafi verið algerlega andvíg því að þessi leið væri farin og séð á henni alla þá ágalla sem nú eru komnir upp á yfirborðið.

Það er líka athyglisvert, frú forseti, að gagnrýnin á þetta frumvarp er að verulegu leyti eða í þó nokkrum mæli óháð pólitík. Hún er óháð því í raun hvort menn hallist til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Hún er óháð því hvort menn séu meiri eða minni aðdáendur markaðsvæðingar og einkarekstrar á öllum sviðum. Það er líka alveg fullkomlega eðlilegt. Hörðustu samkeppnis- og markaðsvæðingarsinnar, einkarekstrarsinnar sjá hversu vitlaust þetta er, kannski betur en flestir aðrir af því þeir horfa á þetta alveg hreint úr þeirri átt. Þeir horfa á þetta úr þeirri átt að opinbert menningarfyrirtæki á ekkert erindi inn á svið einkarekstrarins, inn í samkeppnisumhverfið. Það á þar ekki heima. Á þetta hafa menn bent fyrir löngu síðan. Þess vegna hlýtur þetta að vera, frú forseti, heldur erfiður leiðangur fyrir suma frjálshyggjumennina í Sjálfstæðisflokknum og hörðustu markaðssinnana þar.

Ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, sem ég hygg að margir sjálfstæðismenn geri enn þá eitthvað með, skrifaði um þetta gagnmerkan leiðara í sínu blaði fyrir líklega hátt í ári síðan. Hann spurði í forundran: Hvernig í ósköpunum stendur á því að mönnum dettur í hug að taka opinbert menningarfyrirtæki, opinbera menningarstofnun, og setja hana yfir í hlutafélagaform og færa hana yfir á svið einkaréttarins og einkareksturs? Þetta er vitleysa. Auðvitað er það það. Mikil vandræði munu af þessu hljótast.

Reynt hefur verið að halda því fram, frú forseti, að þessi gjörningur muni efla Ríkisútvarpið. Því er reynt að halda fram innan stofnunarinnar. Að minnsta kosti hef ég grun um það að útvarpsstjóri reyni enn að halda þessu fram. Hann er nú sennilega orðinn tiltölulega einn um það á þeim bæ. Það eru nú meiri ósköpin hvað þetta mun efla Ríkisútvarpið. Í hverju á það að birtast, frú forseti? Er það í 5 millj. kr. hlutafénu? Stendur það ekki enn óbreytt að það eigi að leggja þessu til 5 millj. í hlutafé? Ég hef ekki séð því breytt. Það stendur hér í 1. tölulið ákvæðis til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Við stofnun félagsins skal lögð fram a.m.k. 5.000.000 kr. fjárhæð sem hlutafé og skal hún greiðast úr ríkissjóði eigi síðar en hálfum mánuði eftir skráningu félagsins hjá hlutafélagaskrá.“

Það er auðvitað mjög gott að Ríkisútvarpið fær þetta innan hálfs mánaðar. En það er nú sennilega það eina góða við það því þetta er auðvitað smánarleg upphæð. Þetta er auðvitað ekki neitt. Fyrirtækið tekur vissulega yfir allar eignir, réttindi og viðskiptavild en líka skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins. Það er þannig með Ríkisútvarpið eins og margt fleira í sambærilegri opinberri eða almannaþjónustu sem þarf á búnaði að halda til að sinna sínu hlutverki að það er ekkert gagn í því og ekkert vit í því að horfa á bókfært eigið fé eða bókfærð verðmæti þeirra hluta. Það er jafnvitlaust og þegar sveitarfélög velta því fyrir sér hversu mikils virði skólinn þeirra er eða sundlaugin vegna þess að það er ekki valkostur að selja hana og taka féð og nota það í eitthvað annað vegna þess að það þarf á búnaðinum að halda til að veita þjónustuna. (Gripið fram í.) Ef menn ætla ekki að hætta því og gefast upp þá þurfa þeir þessi verðmæti. Þess vegna yrði stofnað Ríkisútvarpið ohf. á brauðfótum með snautlegum 5 millj. kr. í hlutafé.

Langalvarlegasti þáttur þessa máls, frú forseti, er einkavæðingin. Það á að einkavæða Ríkisútvarpið. Það á að einkavæða Ríkisútvarpið. Það á að einkavæða Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Af hverju á að einkavæða það, hv. þm. Pétur H. Blöndal? Jú, það er af því að það á að gera það að hlutafélagi. Það á að taka Ríkisútvarpið og breyta því úr því að vera opinbert menningarfyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum sem opinbert fyrirtæki, opinber þjónustustofnun, hvers starfsmenn njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn o.s.frv., og gera þetta allt saman að hlutafélagi sem starfar á vettvangi einkaréttarins, sem starfar samkvæmt sömu lögum og reglum og um einkarekstur sé að ræða. Þetta er grundvallarbreytingin. Þetta er einkavæðingin.

Sú undarlega árátta manna að tala síðan um að það sé ekki einkavæðing að breyta fyrirtæki með þessum hætti, að breyta starfsemi með þessum hætti, ekki fyrr en að fyrirtækin séu seld, er auðvitað feluleikur vegna þess að það er ekki eignarhaldið sem skiptir þarna máli þegar upp er staðið heldur rekstrarformið og spurningin um það á hvaða sviði fyrirtækið er látið starfa hvort það tilheyri hinum opinbera rekstri eða lúti reglum einkaréttarins. Á þetta er til dæmis ágætlega bent í góðri grein eftir lögmann sem birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2006. Þar vekur Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður einmitt athygli á þessu og segir fullum fetum að þegar horft sé til lagaumhverfisins, starfsumhverfisins, þá hafi eignarhaldið hverfandi þýðingu borið saman við hitt, þ.e. hvort starfsemin sé skilgreind sem opinber, starfi samkvæmt lögum um opinberan rekstur, lúti reglum um opinberar fjárreiður, um upplýsinga- og eftirlitsskyldu sem almannavaldið hefur í gegnum Alþingi þegar ríkisrekstur á í hlut, í vinnumarkaðslegu tilliti tilheyri hinum opinbera geira þannig að starfsmennirnir séu opinberir starfsmenn o.s.frv. og svo aftur hitt að færa starfsemina yfir í hlutafélagaform, yfir á svið einkarekstrarins, yfir á þann hluta vinnumarkaðarins o.s.frv. Þessi formbreyting hefur útslitaáhrif í því kerfi tvískipts vinnumarkaðar og laga og réttar sem við búum við á Íslandi.

Frú forseti. Þetta skiptir mjög miklu máli vegna þess að það sem er verst við þetta mál, fyrir utan svona hinar pólitísku kringumstæður þess, fyrir utan þann harmræna þátt að allir vita að þetta eru mistök en ætla samt að gera það af því að þeir komast ekki til baka, finna ekki leiðina til lands — stjórnarflokkarnir hafa lent í þvílíku kviksyndi með þetta mál og í rauninni með öll þessi fjölmiðlamál að það hefur farið heilt kjörtímabil, frú forseti, í þau umbrot og þeir sökkva dýpra og dýpra — er að það er alveg ljóst í hvað er verið að stefna með Ríkisútvarpið næstu árin, þ.e. takist ekki að koma vitinu fyrir menn og þeir bara hætti við þetta, þ.e. ef svo illa færi nú að ný ríkisstjórn gæti ekki og nýr þingmeirihluti gæti ekki upp úr miðju næsta ári reynt að bjarga því sem bjargað verður, ef þetta verður nú gert engu að síður hér eftir áramótin.

Mín spá er sú, frú forseti, að verði Ríkisútvarpið gert að hlutafélagi og takist ekki að snúa ofan af því á allra næstu mánuðum eða missirum þá bíði Ríkisútvarpsins ólgusjór málaferla og deilna næstu þrjú, fjögur, fimm árin. Það liggur fyrir að þannig verður það. Það liggur alveg fyrir.

Mér þætti nú vænt um, frú forseti, ef hæstv. menntamálaráðherra væri kannski einhvers staðar nálægur. Í raun hefði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra þurft að vera hérna líka vegna þess að það er ástæða til þess að heyra ráðherrann sem fer með þau mál koma hér og svara spurningum um hinn samkeppnislega þátt málsins. Það er eiginlega varla hægt að líða það, af því að þetta er nú ein og sama ríkisstjórnin, að sá ráðherra sem fer með samkeppnismál verði ekki látinn svara hér spurningum um þann þátt málsins. Ég óska eftir að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra verði að minnsta kosti gert viðvart um að vakin hafi verið athygli á því að ástæða væri til að hann væri hér viðstaddur.

Hvers vegna er það ljóst að málaferli og illdeilur bíði Ríkisútvarpsins ef það verður sett yfir í hlutafélagaformið. Jú, það er vegna þess að samkeppnisaðilar þess á einkamarkaði eru þegar byrjaðir að undirbúa þau málaferli. Það er hverjum manni ljóst. Ég sé ekki hvernig menn geta lesið annað út úr þeim viðbrögðum og þeim sjónarmiðum sem þaðan hafa komið, þeirri upphitun, ef svo má kalla það, sem einkafjölmiðlarnir hafa verið í að undanförnu. Ég les að minnsta kosti ekkert annað út úr því en undirbúning undir málaferlin og kærurnar og árásirnar á Ríkisútvarpið. Þá verða notuð öll vopn sem hægt verður að sækja í samkeppnisréttinn til þess að sækja að Ríkisútvarpinu, ósköp einfaldlega. Þetta vita menn. Hvað eru 365 fjölmiðlar að undirbúa með því að fullyrða það mjög … (Gripið fram í: Spurðu Samfylkinguna. Hún er að gæta hagsmuna ...) Nú bið ég hv. þingmann að halda ró sinni. Förum nú ekki út í einhvern sandkassaleik með þetta. Mér er alveg nákvæmlega sama hverjir reyna að merkja sér einhverja fjölmiðla og sleikja sig upp við þá eða tala illa um þá. Ég er að reyna að ræða hérna um prinsippmál. Ég er að ræða hér um einkafjölmiðla sem eru í harðri samkeppni, verða að skila eigendum sínum arði og öllu þessu sem við þekkjum og munu að sjálfsögðu nota öll þau meðul sem þeir geta innan ramma laga og réttar — ég ætla mönnum ekkert annað — til að reyna að klekkja á keppinautum sínum, auðvitað. Það er verið að gefa veiðileyfi á Ríkisútvarpið. Það er verið að gefa alveg opið veiðileyfi á Ríkisútvarpið með því að henda því yfir á svið einkarekstrarins.

Hvað verður það sem verður gert, frú forseti? Jú, það verður auðvitað reynt að ráðast á auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins. Og það er búið að vera að undirbúa það. Menn hafa sagt: „Það gengur ekki að Ríkisútvarpið fái algerlega óheft að keppa við okkur á öllum sviðum auglýsingamarkaðarins.“ Og það verður reynt að sækja að því. Það verður reynt með málaferlum og sjálfsagt með pólitískum aðferðum líka — fjölmiðlarnir hafa sterk vopn í sínum höndum. Þeir hafa sjálfa sig — að þrengja að Ríkisútvarpinu þannig, reyna að þrengja að því á auglýsingamarkaði, hrekja það út úr kostun og öðru slíku með því að segja að það gangi ekki, það sé ósanngjarnt, það sé brot á samkeppni, það sé mismunun eða guð má vita hvað það er. Það verður sótt að Ríkisútvarpinu þarna megin frá, spái ég, og við sjáum það alveg í aðdraganda málsins að menn eru að hita sig upp í það.

Það verður líka sótt að því hinum megin og ekki síður. Það líða ekki mörg ár, ef það verða ár, þangað til búið verður að kæra afnotagjöldin, ég tala nú ekki um nefskattinn þegar hann kemur. Nefskatturinn verður umsvifalaust kærður og þá verður sagt: Þarna er um að ræða lögvarinn tekjustofn sem menn eru skyldugir að greiða. Ergó, þetta er ríkisstuðningur og það liggur fyrir að þannig er það „per definisjón“. Þetta er ríkisstuðningur vegna þess að þetta er lögvarinn tekjustofn, skyldustofn. Og menn munu segja: Hann er langtum hærri en sem nemur hinum sannanlega kostnaði Ríkisútvarpsins af sérstökum menningar- og almannaþjónustuskyldum þess. Hvort menn munu segja að hann ætti að vera einn þriðji eða helmingurinn veit ég ekki, en það er augljóst mál að menn munu segja þetta. Það mun verða mjög erfitt að lesa það í sundur og útskýra nákvæmlega að hann eigi að vera akkúrat þessi upphæð en ekki hin, 2 milljarðar, 2,5 eða 3 eða eitthvað annað. Það verða því málaferli líka frá þessari hlið fyrir innlendum dómstólum og sjálfsagt erlendum líka ef svo ber undir. Það verða margar leiðir til að reifa þessi mál og koma þeim fyrir dómstóla. Hægt verður að sækja málið á marga vegu, það verður hægt að endurreifa málin, áfrýja þeim o.s.frv. og mismunandi fjölmiðlar geta formúlerað málið með mismunandi hætti. Ég spái því, því miður, þó að auðvitað verði það væntanlega fyrst og fremst stærstu keppinautarnir á sviði ljósvakans sem eru líklegir til þess, að það verði ófriðarbál í kringum Ríkisútvarpið fyrstu árin eftir að því verður, ef það verður, breytt í hlutafélag. Við því sér er í sjálfu ekkert að segja og ég er ekki að segja þetta af neinni óvild í garð þeirra sem þarna eiga í hlut. Ég skil það í rauninni ósköp vel að þeir muni reyna að styrkja stöðu sína eins og þeir mögulega geta í þessari samkeppni.

Setjum sem svo t.d. að menn bíði ekki einu sinni eftir því að nefskatturinn verði hinn lögvarði tekjustofn útvarpsins heldur hjóli bara í afnotagjöldin um leið og Ríkisútvarpið er orðið að hlutafélagi og komið yfir á svið einkarekstursins, og segi: Afnotagjöldin eru þvingunarskattur. Þó að þau séu ekki með alveg sama hætti og hafi kannski ekki nákvæmlega sama skattalegt eðli og nefskatturinn kemur til með að hafa, nefskatturinn er náttúrlega hreinn skattur, það er ekkert um að villast, afnotagjöldin hafa tenginguna við viðtækið og allt það, þá gætu menn hitað sig upp með því að fara í málaferli út af afnotagjaldinu samtímis því að þeir reyndu að þjarma að Ríkisútvarpinu hvað varðar auglýsingatekjur og frá þeirri hlið. Og þó að þau mál töpuðust eða þvældust í dómskerfinu er alveg augljóst að menn gætu farið af stað á nýjan leik um leið og nefskatturinn kæmi.

Eru þetta björgulegar framtíðarhorfur fyrir fyrirtækið, frú forseti? Landssíminn eða Síminn eins og hann heitir nú hefur ekkert verið allt of sæll af sambúð sinni við samkeppnisaðilana, það hefur gengið á dálitlum klögumálum þar, að mörgu leyti af sambærilegum ástæðum, þ.e. vegna þess að Síminn hafði firnasterka stöðu á markaði, var að koma út úr einokun og einkaleyfisbundinni stöðu með algjöra yfirburðastöðu á markaði úr eign ríkisins og yfir í einkaeign og einkarekstur. Hann hafði þó engar lögvarðar tekjur, eins og afnotagjöld eða nefskatt, en það kom ekki í veg fyrir það að gengið hefur á með þó nokkrum klögumálum og kærum um að hann hafi yfirburði í skjóli sterkrar stöðu sinnar, það sé ósanngjarnt og það verði að setja honum skorður o.s.frv.

Þess vegna væri, frú forseti, langgæfulegast fyrir alla aðila að sjá að sér og falla frá þessari breytingu. Hún er ekki skynsamleg, það sjá allir. Sú spilaborg hefur endanlega hrunið á síðustu mánuðum, að ég tel, sérstaklega þessir samkeppnisþættir og þau vandkvæði sem því eru samfara að taka opinbera menningarstofnun með hlutverk af því tagi sem Ríkisútvarpinu, a.m.k. að nafninu til í frumvarpinu, er áfram ætlað að hafa og setja það yfir á svið einkarekstrarins. Það hefur auðvitað ýmislegt verið rætt og ritað um það hvernig heppilegast væri að búa um Ríkisútvarpið. Við höfum verið þeirrar skoðunar að í raun og veru væri eðlilegast að það væri ríkisútvarp áfram, væri bara hreinn ríkisrekstur. Það er hreinlegast og einfaldast. Það þarf hins vegar að gera breytingar á stjórnkerfinu og við höfum á undanförnum þingum, frú forseti, einn flokka, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, flutt um það beinar tillögur. Hér hefur legið fyrir frumvarp frá okkur þar sem við höfum lagt til að farin yrði svipuð leið með Ríkisútvarpið, hvað varðar stjórnun, dagskrárstjórnun og annað því um líkt, og gert hefur verið sums staðar í kringum okkur, að búið yrði til fjölmennt fulltrúaráð, að búin yrði til breið skjaldborg um Ríkisútvarpið með aðild allra helstu aðila þjóðfélagsins, almannasamtaka, samtaka listamanna o.s.frv., og þannig yrði virkilega reynt að búa til þjóðarsamstöðu um þetta mál, breiða skjaldborg almennings um sitt ríkisútvarp. Við höfum auk þess verið með tillögur sem við teljum miklu betri aðferð í sambandi við hinn trausta tekjustofn Ríkisútvarpsins en sú sem nú er, að maður tali nú ekki um nefskattinn, þ.e. að tekið yrði frekar mið af fasteignum og greitt í samræmi við þær eða fundin einhver önnur slík breið viðmiðun sem er tvímælalaust sanngjarnari en nefskattur og væri einfaldari og skilvirkari aðferð við innheimtuna en núverandi afnotagjöld og líklegri til þess að sæmileg sátt gæti skapast um þau.

Þetta frumvarp er líka gallað vegna þess að það tekur ekki almennilega á réttindum starfsmanna. Það er alveg ljóst að það er uggur í brjósti starfsmanna um að þeirra hagur verði fyrir borð borinn í þessum efnum. Það er líka ljóst að það er ætlunin að fara með Ríkisútvarpið í þann ólgusjó að fara að borga mönnum mismunandi laun, að kaupa inn á háum launum einstaka gæðinga o.s.frv. Það er því nokkuð ljóst að launamunur á stofnuninni mun stóraukast í kjölfarið verði þetta gert. Og það er beinlínis út á það gert, er manni sagt, að ræða það við mann og mann að hann geti átt í vændum gullöld og gleðitíð verði hann þægur og sé ekki með mótþróa í þessu máli og komi sér nú í mjúkinn hjá yfirvöldunum. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að mér geðjast ekkert sérstaklega að svona starfsmannaumhverfi og þeim stjórnunarstíl eða stjórnunaraðferðum sem virðist eiga að innleiða í hinu hlutafélagavædda Ríkisútvarpi.

Þá kem ég að stjórnkerfinu sjálfu sem þetta frumvarp byggir á. Það er auðvitað alveg út úr öllu korti og ekki í neinu samræmi við það sem menn eru að leita að og almennt er verið að reyna að búa um almannaútvörp í nálægum löndum, því að hér á að gera einn útvarpsstjóra nánast alvaldan þannig að hann geti deilt og drottnað, ráðið og rekið og stjórnað ekki bara rekstri heldur dagskrárgerð. Hann þarf að vera meiri afreksmaðurinn, það er eins gott að honum verði ekki mislagðar hendur, hann þarf að vera snillingur á öllum sviðum. Hann þarf að vera afburða rekstrarmaður en hann þarf líka að vera menningarviti og smekkmaður á list, ítem allt annað sem Ríkisútvarpið á að ástunda og standa vörð um. Ég veit ekki hvert menn ætla að sækja slíkan súpermann.

Ég held að það væri þá gæfulegra að hafa þetta eins og aðrar þjóðir reyna að gera, þær mæla með því að búið sé til breitt bakland fyrir almannaútvörpin, að almenningi, almannasamtökum og öðrum slíkum aðilum sé veittur aðgangur að því þannig að stofnunin verði í gagnvirkum og góðum tengslum við umhverfi sitt, við grasrótina, við þjóðina. En þarna á að búa til einhvern fílabeinsturn. Halda menn að það sé aðferðin til þess að þjóðin standi áfram vörð um og þyki vænt um ríkisútvarpið sitt? Það efast ég mjög um.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hver er orðin staða Ríkisútvarpsins í dag, jafngrátt og það hefur verið leikið í 15 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Ég hef sagt það áður og get endurtekið það að útvarpið hefur því miður nánast verið lagt í einelti á margan hátt, Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðskast þannig með það að það stórsér á fyrirbærinu, það er alveg ljóst. Mönnum hafa verið svo mislagðar hendur þar með afskipti sín og ígrip af Ríkisútvarpinu um mannaráðningar og annað að það hálfa væri nóg. Eða muna menn ekki ráðninguna, ráðningartilraunina á fréttastjóranum fyrir ekki löngu síðan og þar áður á dagskrárstjóra inn á sjónvarpið og hvað það nú var? Það hafa verið logandi, grenjandi læti af því að ráða hefur átt pólitíska gæðinga fram hjá fagmönnum með langa starfsreynslu og glæsilegan feril til þess að troða gæðingum þar inn. Það er nú allt hlutleysið og öll hin faglegu vinnubrögð sem menn hafa ástundað. Svo koma menn hér og berja sér á brjóst og tala illa um fortíðina og söguna í þessum efnum. Ég held að menn ættu þá að sýna að þeir geti gert betur.

Ég held að þessi þáttur málsins sé líka stórgallaður, frú forseti, og sé ekki vænlega til farsældar fallinn, þessi stjórnsýsla, þetta módel sem þarna er byggt upp, og augljóst mál að einnig að því leyti þyrfti að vanda þetta mál miklu betur, vinna það í sátt og samlyndi við þá sem auðvitað öllu máli skiptir að hafa jákvæða og hafa með sér í máli af þessu tagi og það eru auðvitað starfsmennirnir, því að hver hefur verið auður Ríkisútvarpsins gegnum tíðina? Það er mannauðurinn. Ríkisútvarpið er það sem það er vegna þess að þar hefur unnið margt afburða fólk gegnum tíðina. Við vorum svo lánsöm að það laðaðist að Ríkisútvarpinu mikið hæfileikafólk og margir vörðu allri starfsævi sinni eða stórum hluta til þess að byggja þar upp stórmerkilega menningarþjónustu, skapa í raun og veru menningu. Margir af menningarvitum þjóðarinnar lögðu þar gríðarlega mikið af mörkum, skáld og listamenn og hæfileikafólk á sviði tónlistar o.s.frv. gerðu Ríkisútvarpið að því menningarlega stórveldi sem það var og hefur verið. Jafnvel á allra síðustu tímum hefur hæfileikafólk unnið mikil afrek á Ríkisútvarpinu.

Auðvitað er það í sjálfu sér glæsilegt hvernig Rás 2, sem meira afþreyingarkennt útvarp með léttara efni, hefur byggst upp og náð þeirri firnasterku stöðu á markaði sem raun ber vitni, vegna þess að það er ekkert sjálfgefið í því. Það voru margir sem spáðu illa fyrir því og töldu að Ríkisútvarpið væri svo „halló“ og svifaseint og mundi aldrei geta það, það mundu einkastöðvar eða einkaaðilar gera. En hver er reyndin? Með góðri blöndu af því besta frá Ríkisútvarpinu hinu gamla og arfleifðinni þaðan og léttara efni og afþreyingu hefur tekist að byggja þar upp mjög vinsæla og öfluga útvarpsrás og það má t.d. spyrja hvers vegna Ríkisútvarpið hafi ekki fyrir löngu síðan fengið að starta annarri sjónvarpsrás. Er það ekki mikið metnaðarleysi? Er það kannski vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið ofan á stofnuninni í 15 ár og hefur engan áhuga haft á því að efla hana og byggja hana upp? Hefur dreymt um að geta einkavætt Rás 2 og farið að þjappa Ríkisútvarpinu aftur saman. Það skyldi nú ekki vera, frú forseti?

Ég vona að eitthvað leggist með okkur, frú forseti, í því yfir jólin og áramótin og fram á nýja árið að menn komi til vits í þessu máli og sjái að sér og hætti við þessa vitleysu. Þetta eru mistök, það er alveg augljóst mál. Ekki skal standa á mér, ef ég og við í mínum flokki getum eitthvað lagt af mörkum til þess að ná sáttum um þetta, að mætast á miðri leið og rétta út sáttarhönd og slá striki yfir það sem liðið er. Við munum ekki erfa deilur þessa kjörtímabils og átök um fjölmiðlamál sem verið hafa löng og mikil og hörð ef í boði verður einhver sanngjörn sátt um málefni Ríkisútvarpsins. Við munum ganga að henni vegna þess að okkur er annt um þessa stofnun og við viljum fyrir alla muni og fyrst og fremst að henni vegni vel og henni verði skapaður starfsfriður og öryggi þannig að hún geti sinnt sínu mikla og mikilvæga menningarhlutverki áfram. Það er kannski aldrei meiri þörf en einmitt nú á mjög öflugu ríkisútvarpi sem heldur íslenskri menningu fram, stendur vörð um íslenska tungu, á þeim tímum hnattvæðingar og mikils flæðis af efni úr öllum áttum sem yfir okkur steypist. Þá er gríðarlega mikilvægt að eiga slíka stofnun, og að í boði sé vandað efni af fjölbreyttum toga fyrir alla aldurshópa, sem sinnir þessu hlutverki og ræktar þennan arf.

Af hverju leggja Frakkar allt það á sig sem þeir gera í þessum efnum? Það er ekki síst vegna franskrar tungu og franskrar menningar. Þeir berjast harðri baráttu fyrir því að hún verði ekki alveg undir og drukkni í flaumnum og voru t.d. að starta alþjóðlegri sjónvarpsrás á frönsku til mótvægis við ensku rásirnar sem flæða yfir. Þó að ólíkum stærðarhlutföllum sé hér saman að jafna, frú forseti, getum við alveg spurt okkur að því: Ætlum við ekki að hafa einhvern metnað líka að þessu leyti? Þá er Ríkisútvarpið, bæði sjónvarp og hljóðvarp, alveg lykilatriði í þessum efnum. Nægt framboð af vönduðu innlendu efni, innlendri dagskrárgerð, afþreyingu og tónlist þarf allt að vera þarna og við getum ekki reitt okkur á einkamarkaðinn í þeim efnum, við getum ekki gert sömu kröfur til hans og til ríkisútvarps. Það er gleðilegt og gott ef hann leggur líka sitt af mörkum og vonandi verður það og þetta þarf ekkert að rekast hvað á annað.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki tímabært og gangi ekki að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði að svo stöddu. Það hefði ýmsa galla í för með sér, m.a. þá að þá komast ekki auglýsingar og skilaboð í gegnum þann miðil til þjóðarinnar, þeirra sem fyrst og fremst hlusta eða horfa á þá miðla. Það yrðu líka fáir aðrir til staðar í byrjun og ekki mikil samkeppni á markaðnum ef Ríkisútvarpið hyrfi þaðan allt í einu. Ég er líka þeirrar skoðunar vegna þess að ég er ekki viss um að menn hafi metnað til þess að leggja nægjanlegt fé til Ríkisútvarpsins til að halda starfsemi þess úti með beinum ríkisframlögum. Ef svo væri mundi ég að sjálfsögðu vera tilbúinn til að skoða þann kost og ég útiloka hann ekki einhvern tíma í fyllingu tímans. Það er ekki tímabært að svo stöddu, þvert á móti þurfum við að efla Ríkisútvarpið, búa betur að því, skapa því starfssvið og sjá svo til hvernig þróunin verður í þessum efnum, setja í framhaldinu almenn fjölmiðlalög, það þarf að gera, og sjá svo til hvernig þróunin verður og hvernig aðstæður verða, t.d. að 3–5 árum liðnum, það má alltaf endurskoða þessa hluti. En mistök af því tagi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi eru allt of dýru verði keypt, þó að þau verði vonandi hægt að leiðrétta og bæta skaðann að mestu leyti. Og hér skal það sagt, frú forseti, að lokum að Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun gera allt sem hún getur til þess, verði Ríkisútvarpið gert að hlutafélagi, að snúa því til baka að loknum kosningum. Við munum hafa það sem eitt af okkar baráttumálum í kosningabaráttunni og forgangsverkefni í samningum við aðra eftir kosningar að færa þjóðinni aftur sitt ríkisútvarp.