133. löggjafarþing — 45. fundur
 8. desember 2006.
breyting á IX. viðauka við EES-samninginn, síðari umræða.
stjtill., 348. mál (fjármálaþjónusta). — Þskj. 377, nál. 480.

[10:25]
Frsm. utanrmn. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 65/2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Ákvæði þetta kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekið af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Þessi tilskipun er rammatilskipun sem tekur á helstu grunnþáttum verðbréfamarkaða. Hún miðar m.a. að því að styrkja innri markaði ESB á sviði fjárfestingarþjónustu og kveður á um meginreglur um starfsemi fjármálafyrirtækja sem stunda verðbréfaviðskipti sem og um skipulega verðbréfamarkaði. Tilskipunin nemur úr gildi og kemur í stað tilskipunar ráðsins nr. 93/22/EBE um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Eins og ég sagði áðan kallar hún á lagabreytingar. Utanríkismálanefnd mælir með því að þessi tillaga verði samþykkt.

Nefndin fékk á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur, Ólöfu Hrefnu Kristjánsdóttur og Sesselju Sigurðardóttur frá utanríkisráðuneyti og Harald Örn Ólafsson og Hrein Hrafnkelsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.