133. löggjafarþing — 46. fundur
 8. desember 2006.
breyting á lögum á orkusviði, 2. umræða.
stjfrv., 365. mál (eignarhlutir ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða og Rarik). — Þskj. 397, nál. 586, brtt. 587.

[17:46]
Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum á orkusviði.

Frumvarpið sjálft nær í rauninni til þriggja þátta sem sumir hverjir hafa orðið að umræðuefni í fyrri frumvörpum um orkumál í dag. Í fyrsta lagi er um að ræða flutning á eignarhlut ríkisins í orkufyrirtækjum frá iðnaðarráðuneyti yfir til fjármálaráðherra. Ástæðan er eins og hefur verið rakið fyrr í dag að það er talin skynsamlegri og eðlilegri stjórnsýsla að eignarhaldið sé í einu ráðuneyti en hin faglega og daglega stjórnsýsla í fagráðuneyti. Það er hugsunin á bak við þann þátt frumvarpsins.

Í öðru lagi er samkvæmt frumvarpinu lagt til að allur eignarhlutur ríkisins í Rarik og Orkubúi Vestfjarða hf. verði færður inn í Landsvirkjun og í þriðja lagi er kveðið á um ákveðnar skattaréttarlegar skyldur gagnvart Rarik þar sem skerpt er á þessum skattalegu skyldum. Þær skattalegu skyldur sem þar er um að ræða eru skyldur sem talið var að fylgdu Rarik þegar því var breytt yfir í hlutafélag en samkvæmt umsögn ríkisskattstjóra eru einhverjar efasemdir um að núverandi ákvæði haldi og þess vegna er einfaldlega verið að skerpa á þessum skattalegu skyldum Rariks.

Eftir mjög ítarlega umfjöllun í hv. iðnaðarnefnd þangað sem komu margir gestir og skriflegar umsagnir eins og rekja má á þskj. 586 varð það niðurstaða nefndarinnar að gera breytingar, e.t.v. nokkuð róttækar, á þessu frumvarpi. Það kom m.a. fram hjá fulltrúum Samkeppniseftirlitsins að frumvarpið að óbreyttu gæti skekkt samkeppnisstöðu og var þar átt við ef Rarik og Orkubú Vestfjarða yrðu lögð inn í Landsvirkjun. Í samráði við ráðuneytið velti nefndin upp möguleikum á að leysa þennan þátt þannig að lögin og þessi samruni mundu standast samkeppnislög.

Við nánari athugun varð það niðurstaða nefndarmanna að láta þennan þátt bíða, skoða hann nánar, enda eru m.a. kærumál í gangi hjá Samkeppnisstofnun sem snerta einmitt þennan nýja orkumarkað sem er verið að þróa og er í rauninni í fæðingu, og ekki síst á þeim grundvelli varð það niðurstaða nefndarmanna að láta þennan þátt bíða. Nefndin gerir þess vegna breytingartillögu sem er kynnt á þskj. 587. Það þýðir því, hæstv. forseti, að eins og nefndarálitið kemur frá nefndinni með breytingartillögum er mælt með því að þessi tilflutningur á eignarhaldi frá iðnaðarráðuneyti yfir í fjármálaráðuneyti verði samþykktur. Jafnframt er mælt með að þessar skattalegu skerpingar gagnvart Rarik verði samþykktar en við gerum þá breytingartillögu að samruni Orkubúsins og Rariks verði látinn liggja ef þannig má að orði kveða og þar með er í rauninni allt óbreytt hjá Orkubúi Vestfjarða og Rarik að öðru leyti en því að eignarhaldið er fært yfir til fjármálaráðuneytisins.

Undir nefndarálitið skrifa allir viðstaddir hv. nefndarmenn sem og áheyrnarfulltrúi sem er samþykkur áliti þessu en þó með fyrirvara.



[17:50]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það fyrst að ég fagna því að samkomulag náðist um að breyta þessu frumvarpi. Nú fjallar það einungis um að flytja eignarhaldið á þessum fyrirtækjum, Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða og Rarik, frá iðnaðarráðuneytinu til fjármálaráðuneytisins og um það að skattamálum Rariks sem komu upp við það að gera það fyrirtæki að hlutafélagi verði komið í þann farveg sem hér er lagt til. Ég er satt að segja mjög ánægður með þetta vegna þess að aðalatriðið í þessu frumvarpi var að færa þessi fyrirtæki tvö, Orkubú Vestfjarða og Rarik, undir Landsvirkjun sem eign Landsvirkjunar. Við fórum yfir það við 1. umr. málsins hversu ótrúverðugt þetta er í því samkeppnisumhverfi sem verið er að reyna að búa til á þessum markaði og menn hafa ekki enn hopað frá að gera þó að það séu ýmsir erfiðleikar þar á ferðinni og þess vegna var þessi hugmynd með miklum endemum. Það kom reyndar á daginn að Samkeppniseftirlitið taldi að það fyrirkomulag sem fólst í frumvarpinu kæmi ekki til greina.

Síðan kom fram breytingartillaga um að búa til enn eitt fyrirtækið til að koma til móts við aðalgagnrýni Samkeppniseftirlitsins. Þá hefur þetta verið orðin æði skrautleg flóra sem þarna var á ferðinni, þ.e. Landsvirkjun sem slík með sínu pínulitla aukafyrirtæki sem er hluti af frumvarpinu um Landsvirkjun, síðan þessi fyrirtæki tvö, Orkubú Vestfjarða og Rarik, og svo eitt fyrirtækið sem átti þá að fela í sér framleiðsluna á raforkunni og sjá um sölu á henni. Allt átti þetta að verða eign Landsvirkjunar samkvæmt þessum hugmyndum.

Við vorum algerlega andvíg, samfylkingarfólk og reyndar stjórnarandstaðan, þeirri leið sem þarna var verið að reyna að fara og líka þessari flóttaleið sem menn ætluðu að reyna að bjarga sér á þegar hin var lokuð eins og kom á daginn þegar Samkeppniseftirlitið benti á þau vandamál sem henni fylgdu. Það er þess vegna þannig að þó að nefndin hafi farið yfir þá möguleika sem þarna eru á ferðinni og þó að hv. formaður nefndarinnar tali hér um að það eigi að skoða þessi mál nánar er það ekki skoðun okkar sem erum andvíg þessu máli, eða vorum. Við teljum að það þurfi ekki að skoða það að sameina þessi fyrirtæki Landsvirkjun, það þurfi bara að skoða möguleikana á að búa til eitthvert trúverðugt samkeppnisumhverfi á þessum markaði. Það verður ekki til með slíkri sameiningu sem hér var lagt til að yrði ofan á. Þess vegna er í mínum huga, og okkar, ekki um neina frestun á þessu máli að ræða, heldur það að menn falli frá hugmyndum sem stóðust ekki nána skoðun sem fór fram í nefndinni.

Það væri svo tilefni til að tala um raforkumálin býsna lengi hér, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði áðan í umræðu um Landsvirkjun. Auðvitað var þetta og er hluti af því sem ríkisstjórnin ætlaði að gera, grípa tækifærið þegar Landsvirkjunarmálið kom upp, fylgja því eftir með því að bæta eiginfjárstöðu Landsvirkjunar með þeim hætti sem hér var um að tefla. Og það er ástæða til að velta því fyrir sér þess vegna að þegar ríkisstjórnin stendur nú frammi fyrir því að þessi leið er lokuð og ekki hægt að fara hana er ekki lengur til staðar þetta eigið fé sem átti að færa Landsvirkjun. Þar eru a.m.k. 17 eða 20 milljarðar sem áttu að verða eigið fé Landsvirkjunar um þessi áramót. Það veldur a.m.k. mér áhyggjum vegna þess að ég get ekki treyst ríkisstjórninni í þessum málum, hvað muni nú verða tekið til bragðs til að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar.

Auðvitað hvarflar hugurinn að þeim fyrirvörum sem eru í samningnum sem gerður var við Reykjavíkurborg og Akureyri um kaup á hlut í Landsvirkjun. Þar eru nefndir, eins og ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag, möguleikar sem ríkisstjórnin getur hugsanlega verið að velta fyrir sér að nýta í þessu tilfelli. Það er þess vegna alveg ástæða til að kalla eftir svörum hv. formanns nefndarinnar — því miður er hæstv. iðnaðarráðherra ekki í salnum, hefur þó setið hér og fylgst með umræðum og ég vona að hann heyri mál mitt vegna þess að ég sé ástæðu til að fara fram á það að hæstv. iðnaðarráðherra geri grein fyrir því hvaða hugmyndir hann er með, annars vegar um hvaða þörf þurfi að uppfylla um aukið eigið fé Landsvirkjunar á næstunni og með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst gera það þannig að menn viti í hvað stefnir hvað þetta varðar. Hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt málefni og ég tel fulla ástæðu til að kalla eftir skýringum frá hæstv. iðnaðarráðherra um hvaða leiðir séu líklegar til að tryggja eigið fé til Landsvirkjunar til viðbótar eins og greinilegt er á þessu frumvarpi að menn telja ástæðu til að gera sem allra fyrst. Eins og frumvarpið lítur út núna sjáum við samfylkingarmenn a.m.k. ekki ástæðu til annars en að styðja öll atriðin sem eftir eru í því með þeim breytingartillögum sem fram eru komnar.



[17:58]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get vísað að talsverðu leyti til ræðu sem ég flutti í næsta máli á undan þessu. Ég kaus að ræða þessi mál saman, enda hanga þau mjög saman, eru hluti af orkumálapakka ríkisstjórnarinnar og klúðrinu á því sviði eins og ég fór þar nokkuð rækilega fyrir.

Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni þegar menn sjá að sér, og þó í litlu sé er það auðvitað til mikilla bóta að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar hverfur frá því óráði að troða þessu máli í gegn eða reyna það núna fyrir jólaleyfi sem hefði orðið torsótt, satt best að segja, því að ekki hefði maður tekið því þegjandi ef átt hefði að halda áfram með málið, sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga sem iðnaðarnefnd fékk við skoðun málsins. Þær upplýsingar eru eðli málsins samkvæmt bundnar trúnaði vegna þess að þær fjalla um viðfangsefni sem Samkeppnisstofnun er með í höndunum en þær eru engu að síður þess eðlis og það sem hefur komið fram um það opinberlega og menn vita hnígur í þá átt að hér sé ekki staðið rétt að málum.

Efni breytingartillögunnar er í raun og veru það að fella út meginmálsgreinar frumvarpsins, þ.e. 2. og 3. mgr. 2. gr. og 2. og 3. mgr. 3. gr., og stendur þá í raun fátt eitt eftir annað en það að forræði fyrir eignarhlutum í orkufyrirtækjunum, eign ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða og Rarik, færist til fjármálaráðherra og það eru mörg gild rök fyrir því. Í raun og veru hefði átt að vera búið að ganga þannig frá málum fyrir lifandis löngu að eignarforræðið í opinberum fyrirtækjum væri almennt á einum stað í fjármálaráðuneytinu en ekki í viðkomandi fagráðuneytum og þar væri skilið á milli. Sömuleiðis hygg ég að úr því sem komið er, með stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins á árinu 2006, sé eðlilegt að standa þannig að málum eins og kveðið er á um í 4. gr. að skuldbindingarnar þar skuli miðast við 1. janúar 2006. Ég geri ekki athugasemdir við það ákvæði.

Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á því að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. iðnaðarráðherra standa frammi fyrir því, sem er nú dapurt fyrir þann ráðherra undir hvern heyra samkeppnislög, að hafa lagt fyrir þingið frumvörp sem ganga ekki upp, sem fá falleinkunn þegar fagaðilar á sviði samkeppnismála skoða þau. Auðvitað er ríkisstjórnin að viðurkenna þetta hér, eða meiri hlutinn með breytingartillögum sínum. Það er náttúrlega heldur dapurlegt, sérstaklega fyrir þetta ráðuneyti af öllum ráðuneytum og ráðherra þess, að standa frammi fyrir því að þessi málatilbúnaður fær falleinkunn.

Ég vil svo aðeins segja nokkur orð um skipulag og þróun raforkumálanna hjá okkur og vísa þar til viðbótar til þess sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Varðandi Orkubú Vestfjarða, sem sveitarfélög á Vestfjörðum voru þvinguð með tárin í augunum til að láta frá sér upp í skuldir til þess að þau gætu lengt í hengingarólinni og rekið sig í nokkur ár í viðbót á þeirri eign sinni. Var auðvitað grátlegt að sjá þennan landshluta, fjórðung sem átt hefur í vök að verjast, þurfa að láta af hendi fyrirtæki sem hefði með réttu átt að geta orðið aflgjafi og mótor í uppbyggingu á ýmsum sviðum og hafði og hefur umtalsverða burði. Má nefna sem hliðstæðu Hitaveitu Suðurnesja sem hefur verið drifkraftur í ýmissi uppbyggingu og er gullmoli í höndum sveitarfélaganna þar, sem þau hafa sem betur fer ekki þurft að láta frá sér. Auðvitað var það grátlegt að sjá hvernig ríkisstjórnin kvaldi sveitarfélögin á Vestfjörðum og gerði ekkert til að rétta afkomu þeirra sem höfðu búið við tekjusamdrátt og fólksfækkun en neyddi þau til að láta af hendi þessa verðmætustu eign sína. Og hvað á að gera með hana núna? Nú átti að láta hana renna inn í Landsvirkjun til að rétta af efnahagsreikninginn þar vegna hallans af stóriðjustefnunni.

Varðandi Rafmagnsveitur ríkisins þá er sú stofnun náttúrlega fyrst og fremst þjónustufyrirtæki og dreifingaraðili raforku á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Og framleiða líka.) Þær framleiða vissulega nokkurt rafmagn en eru þó að verulegu leyti kaupandi á rafmagni í heildsölu frá Landsvirkjun. Þess vegna væri eðlilegt að horfa til landsbyggðarinnar um endurskipulagningu þessara mála úr því að ríkið er komið með þetta allt á sínar hendur hvort sem er, en hvað dettur mönnum í hug? Að sameina þetta inn í Landsvirkjun á Háaleitisbrautinni. Var ekki einhvern tíma talað um að flytja Rarik norður til Akureyrar? Var ekki einhvern tíma iðnaðarráðherra sem ætlaði að slá sér upp í höfuðstað síns kjördæmis og bjóða hinum Rarik? Hvað varð um það? (Gripið fram í: Það er búið að senda hana í útlegð.) Nú er sá hæstv. ráðherra bara í löngum ferðalögum erlendis, og að því er virðist til að greiða fyrir þingstörfum er hæstv. iðnaðarráðherra bara hafður í langferðum erlendis. Ég held að ráðherrann sé að heimsækja ein 6–8 lönd í einu slengi og verður hálfan mánuð í burtu. (Gripið fram í: Það tefur ekki þingstörf á meðan.) Það tefur ekki þingstörf á meðan en hún er heldur ekki hér til að svara fyrir syndir sínar á meðan.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að menn ættu að skoða hvort ekki væri ráðlegt að endurskipuleggja raforkumarkaðinn í landinu þannig að til yrðu svæðisfyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða var. Ég held að það væri gott fyrir þennan geira ef sjálfstæð, öflug svæðisfyrirtæki, sem gætu reist og rekið minni og meðalstórar virkjanir og annast lágspenntari flutningskerfin og smásöludreifinguna, væru til staðar. Fyrir Norðurland hefði verið gráupplagt að stofna slíkt fyrirtæki úr þeim hluta Rafmagnsveitna ríkisins sem þar er, auðvitað er Norðurland og Austurland mjög stór hluti markaðssvæðis Rariks og stærsti hlutinn, og þeim svæðisfyrirtækjum og orkufyrirtækjum sem sveitarfélög á svæðinu eiga. Úr því hefði getað orðið býsna öflugur svæðisaðili og ég held að það hefði verið gæfulegra skipulag en það sem ríkisstjórnin ætlar nú að gera með þessari ríkisvæðingu, ríkiseinokunar- og fákeppnisrisasmíði sinni, sem ætlunin var að gera með sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og orkubúsins. Er einhver framtíðarsýn í þessu? Eru menn eitthvað að hugsa? Eru menn eitthvað að velta því fyrir sér hvað væri skilvirkasta kerfið fyrir þjóðina, fyrir landsmenn? Nei, þetta er redding. Það átti að fara út í reddingu vegna bágrar eiginfjárstöðu Landsvirkjunar og þá láta menn bara öll samkeppnissjónarmið lönd og leið, allt talið um samkeppnismarkað á sviði raforkumála a la orkutilskipun Evrópusambandsins eða hvað það nú er, og fara út í svona sullumbull.

Það gefst þá, virðulegur forseti, tækifæri til að taka þetta betur til skoðunar bak jólum ef svo illa skyldi vilja til að ríkisstjórnin hætti ekki við þessa vitleysu sem ég hef mesta trú á. Ég hef ekki mikla trú á því t.d. ef Samkeppnisstofnun kynni að fella þann úrskurð á næstunni að stofnun Orkusölunnar væri ólögleg, bryti á bága við samkeppnislög, að menn hefðu kjark í sér að koma og sýna mönnum svona plagg bak jólum. Vonandi vitkast menn og við þurfum ekki að eyða meiri tíma í þetta.



[18:07]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem hv. iðnaðarnefnd leggur til að gerðar verði á þessu frumvarpi eru að mínu mati til verulegra bóta þar sem lagt er til að fella út ákvæði í 2. og 3. gr. frumvarpsins um fyrirmæli um að leggja eignarhluti ríkisins í orkubúinu annars vegar og í Rarik hins vegar inn í Landsvirkjun þannig að þau fyrirtæki yrðu dótturfyrirtæki Landsvirkjunar og að öllu leyti í eigu hennar og því í raun og veru eitt og hið sama. Efnahagsreikningur væri samstæður þannig að hér yrði í raun og veru um algera sameiningu að ræða nema að forminu til.

Ég gerði athugasemdir við þessi áform í þingsalnum fyrr í haust þannig að ég þarf ekki að endurtaka þau orð. Þess vegna fagna ég breytingunum að því leyti til að áformum um sameiningu þessara þriggja orkufyrirtækja í eigu ríkisins í eitt fyrirtæki er a.m.k. slegið á frest. Ég tel að hún sé óskynsamleg út frá þeim lögum sem við höfum sett um þennan markað sem á að grundvallast á samkeppni og að menn gangi gegn tilgangi laganna með sameiningu fyrirtækjanna.

Ég vil líka rifja það upp að þegar iðnaðarráðherra lagði fram frumvarp sitt um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins fyrir ári síðan, í nóvember á síðasta ári, var það einmitt rökstutt með því að nauðsynlegt væri fyrir Rafmagnsveitur ríkisins að vera hlutafélag til að geta átt í samkeppni við önnur orkufyrirtæki í landinu, ef Rafmagnsveitur ríkisins væru ekki hlutafélag mundi það fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar í samkeppni við önnur orkufyrirtæki í landinu. Forsendan fyrir því að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag fyrir ári síðan var einmitt sú að samkeppni yrði á milli fyrirtækjanna. Það er því mikil kúvending ef menn ætla sér, ári eftir að hafa breytt Rarik í hlutafélag, að renna saman þessum þremur fyrirtækjum ríkisins í eitt.

Ég tek undir sjónarmið sem ég heyrði áðan hjá síðasta ræðumanni og ég hef haldið til haga á undanförnum árum. Ég hallast að því að ríkið nýti þessi fyrirtæki, bæði Rafmagnsveitur ríkisins og orkubúið, sem fyrirtæki til sóknar í þeim landshlutum sem fyrirtækin starfa, þannig að menn horfi ekki bara á þessi fyrirtæki í því skyni að framleiða rafmagn fyrir markaðinn á höfuðborgarsvæðinu heldur sem fyrirtæki sem hafi afl til að sækja fram í atvinnumálum, í atvinnusköpun á sínu starfssvæði, og menn eigi að huga að því að skipuleggja fyrirtækin út frá því sjónarmiði. Ég gæti séð fyrir mér að Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins að einhverju leyti yrðu sameinuð í eitt fyrirtæki á norðvesturhluta landsins sem væri mjög öflugt fyrirtæki sem gæti haft bolmagn til að ráðast í framkvæmdir til orkuframleiðslu og atvinnusköpunar á starfssvæði sínu. Þessi landshluti þarf á því að halda að menn hafi yfir að ráða fyrirtæki sem hefur eitthvert afl í því skyni að styrkja búsetu á því svæði. Jafnvel mætti hugsa sér að þessu fyrirtæki væri heimilt að leggja til fé í atvinnusköpun á öðrum sviðum en það beinlínis starfaði á, þannig að það mætti nýta hluta af eigin fé þess til að sækja fram í atvinnumálum á öðrum sviðum.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti, þannig að við framhald málsins, sem er að vísu óvisst á þessu stigi hvert verður, lægju a.m.k. fyrir þær hugmyndir sem ég hef í þessum efnum.

Ég vil að lokum velta fyrir mér einum anga af þessu máli, sem ég hygg að sé ákveðinn drifkraftur í þeirri stefnubreytingu stjórnvalda að renna þessum þremur fyrirtækjum saman í einn efnahagsreikning, og það er eiginfjárstaða Landsvirkjunar. Mér sýnist á þessu nokkuð augljóst að Kárahnjúkavirkjun sé það stórt verkefni fyrir Landsvirkjun að fyrirtækið geti ekki ráðist í að fjármagna það verkefni eingöngu með lántöku, að auka þurfi eigið fé Landsvirkjunar til að fyrirtækið ráði við þær skuldbindingar og þær framkvæmdir. Eigið fé orkubúsins og Rafmagnsveitna ríkisins er um 17 milljarðar kr. og það sem í raun og veru er verið að gera með þessu er að hækka eigið fé Landsvirkjunar um 17 milljarða kr. Það eru u.þ.b. 15% af framkvæmdakostnaði við Kárahnjúkavirkjun og því er ekkert óeðlilegt að menn telji að ekki sé hægt að ráðast í svo mikla framkvæmd upp á 100 milljarða kr. eða meira án þess að leggja fram eitthvert eigið fé. Að öðrum kosti verði skuldirnar það hátt hlutfall af efnahagsreikningi og vaxtakostnaðurinn hærri en samningarnir, tekjusamningarnir, geti með góðu móti risið undir. Þannig blasir málið við mér.

Ég vil benda á eitt mál sem getur líka haft áhrif á Landsvirkjun og er óútkljáð. Það eru kröfur landeigenda að þeim vatnsföllum sem mynda afl Kárahnjúkavirkjunar um greiðslur fyrir afnot af vatnsréttindunum. Þau mál eru fyrir dómstólum, ef ég veit rétt, og kröfur landeigenda eru þær að þessi vatnsréttindi verði metin á 60 milljarða kr. Af þeim mun ríkið eiga um helming þannig að aðrir landeigendur gera þá kröfu til þess að þessi réttindi þeirra séu metin á um 30 milljarða kr. og þeir fái greitt afgjald fyrir nýtingu á þessum réttindum sem nemur, ef ég hef tekið rétt eftir um daginn í lýsingu á kröfunum, um 15% af tekjum Kárahnjúkavirkjunar. Það væri fróðlegt að vita hvort samningarnir um sölu rafmagnsins frá Kárahnjúkavirkjun geri ráð fyrir því að Landsvirkjun þurfi að standa undir greiðslum af þessum toga. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það og ég verð að segja að mér finnst nokkur rök hníga að því að ekki sé gert ráð fyrir því. Ég spyr: Hvað gerist ef landeigendur vinna mál sitt og þeim verður dæmt afgjald, kannski ekki það sem þeir fara fram á en við skulum segja helminginn eða svo? Stendur Landsvirkjun undir því að borga það afgjald? Verður ríkisvaldið þá ekki að greiða þennan kostnað vegna þess að tekjur af sölu rafmagnsins standa ekki undir þessum útgjöldum? Ég held að að skýra verði þennan þátt málsins og ég hef grun um ekki sé gert ráð fyrir að Landsvirkjun geti staðið undir þeim útgjöldum sem kynnu að falla til í formi afgjalds fyrir vatnsréttindin. Þá fer málið að breytast dálítið og syrta í álinn fyrir þessa framkvæmd ef hún skilar ekki nægilegri afkomu til að geta staðið undir þeim útgjöldum. Því verður ekki mætt öðruvísi en ríkið leggi til fé til fyrirtækisins.

Ég held að þessi þáttur málsins, staða Kárahnjúkavirkjunar, sé mjög viðkvæmur í þessu máli og menn þurfi að fá betri skýringar á því hvernig þessi framkvæmd stendur í raun og veru fyrir Landsvirkjun. Við vitum að með þessu frumvarpi er verið að styrkja eigið fé Landsvirkjunar um 17 milljarða til þess að Landsvirkjun geti betur borið þennan kostnað eða þessa framkvæmd og við þurfum að vita: Þarf að styrkja eigið fé meira ef ekki er gert ráð fyrir að fyrirtækið þurfi að borga fyrir afnot af þessum vatnsréttindum?

Ég vildi að þetta kæmi fram í umræðunni þannig að um það yrði spurt. Vonandi fást einhver svör til að skýra þennan þátt málsins og ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra eða formaður iðnaðarnefndar geti varpað frekara ljósi á það mál.



[18:18]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni vangaveltur sínar. Þær eru fullkomlega eðlilegar. Það er auðvitað snautlegt til þess að vita að mál af þessu tagi skuli vera tekið á þessum hraða hér í gegnum þingið. Menn sjá að nefndin öll hefur verið meira og minna á undanhaldi með þetta mál frá því að það kom hér fram.

Aðeins til þess að bregðast við því sem hv. þingmaður sagði hér síðast varðandi það hvort þyrfti kannski að auka eigið fé enn meira en um þessa 17 milljarða sem mögulega mundu styrkja stoðir Landsvirkjunar með því að Orkubú Vestfjarða og Rarik gengju þar inn.

Þá vil ég benda hv. þingmanni á það að nú hafa stórfyrirtæki, bæði á fjármálasviði og orkufyrirtæki, eins og olíufyrirtækin eru farin að kalla sig, látið í ljósi skoðanir og beinlínis stefnu um að þau hyggist koma inn á orkumarkaðinn og hyggist hasla sér völl á orkusviði.

Þess vegna vil ég segja við hv. þingmann. Já, það er talsverð hætta á því að fyrirtæki annars staðar að úr litrófi stórfyrirtækja á landinu eigi eftir að sækjast eftir því að komast þarna að og komi til með að verða þá nýtt til að styrkja enn frekar eiginfjárstöðu Landsvirkjunar.

Þannig að mitt svar við þeim vangaveltum, þó ég sé kannski ekki þess umkomin að gefa honum svar sem byggir á stjórnvaldsákvörðunum, þá hef ég það fastlega á tilfinningunni að þarna ætli menn sér ákveðna hluti og Landsvirkjun og reyndar stjórnvöld viti af þessu og þess verði skammt að bíða að aðrir aðilar komi þarna að með fjármuni sem styrki eigið fé Landsvirkjunar enn frekar.



[18:20]
Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að þetta sé réttmæt ábending hjá hv. þingmanni, a.m.k. tek ég eftir því í samningnum um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun að beinlínis er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun verði hlutafélag og nýir aðilar komi inn í Landsvirkjun með kaupum á hlutafé. Sérstaklega eru tilgreindir lífeyrissjóðirnir.

Þannig að ég er í engum vafa um að það eru áformin, að einkavæða Landsvirkjun a.m.k. að einhverju leyti. Ég held að það sé eiginlega augljóst mál hvaða stefna er uppi í þeim efnum og fari ekki á milli mála.

Hitt held ég líka að sé mál sem við þurfum að átta okkur betur á og er að þróast kannski miklu hraðar en ég hafði a.m.k. gert mér grein fyrir og það er að réttindin sem undir liggja í málinu, að verðmætin eru að færast meira yfir á réttindin sjálf. Þannig að þróunin er að verða í svipaða átt og hefur gerst í sjávarútveginum, að stærri hluti af heildartekjum sjávarútvegsins er tekinn út í gegnum réttindin sjálf. Ekki það að afla fisksins eða vinna hann eða selja, heldur í gegnum afnot af réttindunum.

Við sjáum það af samningi Seyðisfjarðarkaupstaðar um virkjun Fjarðarár, að þar er gert ráð fyrir því að eigandi vatnsréttindanna fái um 7,5% af brúttótekjum virkjunarinnar í sinn hlut. Þess vegna er ekkert út í hött að segja að svipað muni gerast í stærri aflvirkjunum, eins og ætti að vera við Kárahnjúkavirkjun og síðari virkjanir sem koma munu, menn þurfa að gera ráð fyrir því að eigandi vatnsréttindanna taki kannski 10–15% af brúttótekjum virkjunarinnar (Forseti hringir.) í afgjald fyrir notkunina á réttindunum.



[18:22]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað hárrétt athugað hjá hv. þingmanni, réttindin sjálf eru að verða æ verðmætari og samlíkingin við sjávarútveginn er fullkomlega réttmæt. Við skyldum skoða allt þetta mál í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af kvótakerfinu og þeim rétti sem þar er í fólginn til að veiða úr fiskstofnunum okkar. Þess vegna segi ég að það er önugt að horfa til þess að þetta mál skuli vera afgreitt með slíku hraði út úr þinginu.

En að lokum vil ég segja í síðara andsvari mínu við hv. þingmann, af því ég nefndi fjármálafyrirtækin og olíufyrirtækin sem hafa hug á því að komast inn á þennan raforkumarkað okkar og hafa gefið um það yfirlýsingar, að það er líka heimilt samkvæmt samningnum að þau kaupi rétt af Landsvirkjun.

Því Landsvirkjun hefur í þessum samningi möguleika á því að losa eignir út úr fyrirtækinu þannig að á þann hátt gætu þessi stóru og sterku fyrirtæki sem eru að gerast æ frekari til fjörsins á okkar markaði, eignast, hver veit hversu stóran hluta úr þessum fyrirtækjum sem hingað til hefur verið sameign okkar.



[18:24]
Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn verði að hugsa þetta betur. Sjáum t.d. öll réttindin sem safnast saman inni í Landsvirkjun ef Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Rarik eru orðin eitt fyrirtæki með öllum réttindum sem hvert og eitt fyrirtæki hefur til virkjunar og verðmætin eru komin í réttindin. Þá sjáum við í hendi okkar að það eru tugir milljarða kr. verðmæta sem eru bara í réttindunum.

Síðan einkavæða menn Landsvirkjun, segi ég. Það er það sem ég sé fram undan að verði gert. Ekki það að ég sé að leggja það til eða styðja það. En ég sé fram á að það verði gert og fjármálafyrirtæki komist yfir réttindi. Og það sem ég hygg að verði vandinn er að þau komast yfir réttindin fyrir brot af þeim verðmætum sem þau í rauninni eru. Alveg eins og menn gátu keypt bankana fyrir brot af þeim verðmætum sem í þeim fólust og alveg eins og menn hafa komist yfir fiskveiðiréttindin fyrir brotabrot af þeim verðmætum sem í þeim felast.

Við megum ekki einn ganginn enn, láta úr höndum almennings, úr höndum ríkisins fyrir hönd almennings, verðmæt réttindi á tombóluverði. Við verðum að búa þannig um hnútana í þessu máli að réttindin verði í almannaeigu og þeir sem nýta þau og vinna úr þeim borgi eðlilegt afgjald til ríkisins fyrir notin á þeim. Það er það sem við verðum að gæta okkur á í þessum raforkumálum að missa ekki út úr höndunum á okkur.