133. löggjafarþing — 46. fundur
 8. desember 2006.
almannatryggingar og málefni aldraðra, 2. umræða.
stjfrv., 330. mál (lífeyrisgreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega o.fl.). — Þskj. 353, nál. 582 og 599, brtt. 583 og 600.

[21:32]
Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Umrætt frumvarp er á þingskjali 353 en nefndarálit meiri hluta á þingskjali 582.

Ásamt mér standa að nefndaráliti meiri hlutans hv. þingmenn Ásta Möller, Gunnar Örlygsson, Jón Kristjánsson og Pétur H. Blöndal, með fyrirvara.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið á fundum sínum og fékk á sinn fund ýmsa góða gesti en þeir voru Vilborg Þ. Hauksdóttir frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Ólafur Hjálmarsson og Eyþór Benediktsson frá fjármálaráðuneyti, Ásmundur Stefánsson, Karl Steinar Guðnason, Ágúst Þór Sigurðsson, Sigríður Lillý Baldursdóttur og Sigurður Grétarsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Ólafur Ólafsson, Einar Árnason, Helgi K. Hjálmsson, Borgþór St. Kjærnested og Trausti Björnsson frá Landssambandi eldri borgara, Margrét Margeirsdóttir, Stefanía Björnsdóttir og Sigurður Hallgrímsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík og loks frá Öryrkjabandalagi Íslands komu Sigursteinn Másson og Hafdís Gísladóttir.

Auk þess bárust nefndinni fjölmargar umsagnir um málið, þ.e. frá Samtökum atvinnulífsins, Öryrkjabandalagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Persónuvernd, Landssambandi eldri borgara, Félagi eldri borgara í Reykjavík, Tryggingastofnun ríkisins, Landssamtökum lífeyrissjóða, landlækni, Þroskahjálp – landssamtökum, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Samtökum sykursjúkra.

Þær breytingar sem helst eru lagðar til í frumvarpinu lúta að fækkun bótaflokka og einföldun almannatryggingakerfisins, hækkun grunnfjárhæðar tekjutryggingar og lækkun skerðingarhlutfalls vegna tekna bótaþega og maka. Samanlögð skerðing lífeyris og tekjutryggingar verður takmörkuð við 38,35% af tekjum.

Eins og áður hefur komið fram á hinu háa Alþingi byggist frumvarpið á samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá því fyrr í sumar og sameiginlegum tillögum frá þeirri nefnd sem forsætisráðherra hafði skipað til að fjalla annars vegar um búsetu- og þjónustumál aldraðra og hins vegar um fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu bóta lífeyrisþega vegna tekjuöflunar.

Rétt er að taka fram að árið 2003 gerði ríkisstjórnin samkomulag við Landssamband eldri borgara um sömu efni og við það var staðið að fullu og öllu leyti af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna á hinu háa Alþingi, nema að því er varðaði sveigjanleg starfslok. Þegar hafa verið samþykkt fjárlög á hinu háa Alþingi fyrir næsta ár, svo og fjáraukalög fyrir þetta ár þar sem að fullu er tekið tillit til þessa samkomulags við aldraða.

Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu og rétt er að taka fram að ríkisstjórnin hefur frá því að frumvarpið var lagt fram gefið út tvær yfirlýsingar sem varða breytingar á frumvarpinu. Önnur yfirlýsingin fjallaði um að það skyldi flýta framkvæmd á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega um þrjú ár eða til 1. janúar 2007. Síðari yfirlýsingin fól í sér þrjú atriði. Í fyrsta lagi að lífeyrisþega væri heimilt að dreifa eigin tekjum sem stafa af fjárhagstekjum og séreignarsparnaði, sem leystur hefði verið út í einu lagi, á allt að tíu ár.

Í öðru lagi var örorkulífeyrisþegum heimilað 300 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna og jafnframt er heimilað að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning á tekjutryggingu lífeyrisþega eins og er í gildandi lögum um öryrkja. Lagt er til af hálfu meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar að elli- og örorkulífeyrisþegum verði heimilt að velja um að nýta 300 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar eftir því hvort er hagstæðara fyrir viðkomandi. Til að þetta sé skiljanlegt í tölum hagnast sá sem hefur 62.500 kr. á mánuði (750 þúsund á ári) eða minna í atvinnutekjur af því að fá 300 þús. kr. frítekjumark á ári.

Þriðja atriðið sem sprottið er af hinni síðari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að flýtt er gildistöku ákvæða um að dregið verði úr áhrifum atvinnutekna maka og um afnám áhrifa lífeyristekna maka á viðmiðunartekjur hins við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar.

Kunnara er en frá þurfi að segja, hæstv. forseti, að frumvarp þetta, og ég tala nú ekki um með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, er stærsta skref sem stigið hefur verið árum og áratugum saman í að bæta kjör aldraðra og öryrkja hér á landi. Verið er að leggja til tillögur til að mæta þeim áhersluatriðum sem öryrkjar og aldraðir og samtök þeirra hafa haldið á lofti á undanförnum mánuðum og missirum. Ég vek athygli á að samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að heildarkostnaður stjórnvalda til ársins 2010 yrði 26,7 milljarðar kr., hvorki meira né minna, sem bætast aukalega við til málefna ellilífeyrisþega.

Þær breytingar sem nefndin leggur til munu kosta um 2,3 milljarða kr. til viðbótar til ársins 2010. Þetta þýðir að á næstu fjórum árum er gert ráð fyrir 29 milljörðum, 29 þúsund milljónum kr. aukalega til málefna aldraðra. Þar af fara 19,5 milljarðar til ellilífeyrisþega og 9,4 milljarðar kr. til örorkulífeyrisþega. Þetta eru stórkostlegar breytingar, hæstv. forseti. Þetta er raunveruleg kjarabót fyrir aldraða og öryrkja. Ekki er um nein yfirboð að ræða heldur samkomulag við aldraða og það er bætt í og það ríflega, hæstv. forseti.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á fylgiskjölum sem fylgja nefndaráliti meiri hlutans. Í fyrsta lagi er á bls. 5 í nefndarálitinu fylgiskjal I þar sem er að finna annars vegar samantekt á kostnaði vegna samkomulags við eldri borgara eins og sú samantekt leit út þegar frumvarpið var flutt á hinu háa Alþingi og hins vegar samantekt á kostnaðinum eins og hún er eftir breytingar. Eins og þar kemur fram er gert ráð fyrir að lífeyrishlutinn kosti 19.551 millj. kr. eða 19,5 milljarða kr. og að hækkun til örorkulífeyrisþega nemi 9.434 millj. kr. Samtals gerir þetta 28.985 millj. kr. eða tæpa 29 milljarða kr., sem er eins og ég segi mesta framför í málefnum öryrkja og aldraðra í háa herrans tíð. (Gripið fram í.)

Ég vil líka vekja athygli á mismunatöflu á bls. 6, tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara yfir hana sérstaklega en fylgiskjal II geymir töflur sem sýna útreikninga yfir væntanlegar greiðslur til ellilífeyrisþega og fylgiskjal III greiðslur til örorkulífeyrisþega. Eins og sést á þeim töflum, hæstv. forseti, er um gríðarlega kjarabætur að ræða og oft er auðvelt að setja hlutina myndrænt upp þannig að menn geti gert sér grein fyrir því. Þessar breytingar eru að hluta til þegar komnar í framkvæmd og munu koma af fullum þunga til framkvæmda núna strax um næstu mánaðamót eða eftir svo sem eins og þrjár vikur. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að þó að þessar töflur séu ekki í lit sést með skýrum hætti hvernig framlög til einstakra lífeyrisþega, hvort heldur er ellilífeyrisþega eða örorkulífeyrisþega, aukast gríðarlega við þessar breytingar. Auðvitað gefa tölurnar til kynna hversu gríðarlegum fjármunum er verið að verja til aldraðra og öryrkja af hálfu ríkisstjórnarinnar aukalega, umfram það sem nú er gert ráð fyrir samkvæmt gildandi reglum.

Að síðustu, hæstv. forseti, er rétt að taka fram að meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar leggur til nokkrar breytingar sem eru lagatæknilegs eðlis, sem ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir. Ég vænti þess að um frumvarpið náist góð og breið samstaða hér á hinu háa Alþingi. Menn eiga að viðurkenna það sem vel er gert. Það er vel staðið að þessum málum af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans og auðvitað er endalaust hægt að gera betur, það er endalaust hægt að vera með yfirboð og einhvers konar upphlaup en þetta er það sem meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar leggur til. Ég hvet hv. þingmenn til að standa með meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar við afgreiðslu málsins.



[21:44]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja framsögumann meiri hlutans einnar eða tveggja spurninga. Hann talar um yfirboð og upphlaup. Það gerðist í fyrradag, eftir að fjárlög höfðu verið afgreidd, að fram komu á blaðamannafundi hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra yfirboð og upphlaup, ef hann kallar það það ef aðeins er gefið í — sem ég vissulega fagna að gefið var smávegis í á þeim blaðamannafundi, smáyfirboð miðað við það frumvarp sem hér liggur fyrir — þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvar koma fjárveitingar til þeirra breytinga sem kynntar voru á blaðamannafundinum 6. desember? Hvar koma þær fram, úr hvaða liðum á fjárlögunum eru þær greiðslur eða þeir fjármunir? Vegna þess að um morguninn voru afgreidd fjárlög og þar voru þessir peningar ekki sérstaklega tilgreindir. Þeir komu þarna til viðbótar eftir hádegið.

Ég óskaði eftir því á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar að þær upplýsingar lægju fyrir áður en við færum að ræða þetta mál. (Gripið fram í: … hvenær dagsins …) Búið var að afgreiða fjárlög og þetta var ekki á þeim fjárlögum sem við afgreiddum um morguninn enda allar tillögur okkar til bættra kjara lífeyrisþega felldar.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem ég fékk þegar ég hringdi þangað kostar þetta um hálfan milljarð. Ég vildi gjarnan fá að vita hvar þeir peningar eru á fjárlögum og um leið fagna ég vissulega því litla yfirboði sem kom þarna frá þessum tveimur ráðherrum fyrir tveim dögum.



[21:46]
Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að taka það fram fyrst að þær breytingar sem meiri hlutinn leggur hér til höfðu komið til umræðu í heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis áður en fjárlög voru afgreidd hér í gær eða fyrradag. (Gripið fram í: Eftir fundinn.) Á síðasta fundi heilbrigðis- og trygginganefndar hér í vikunni, þ.e. á reglulegum fundi á mánudag var m.a. rætt um áhrif af séreignarlífeyrissparnaði og önnur atriði sem meiri hlutinn leggur hér til. Þau mál voru unnin áfram af hálfu meiri hlutans í samstarfi við hlutaðeigandi ráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra. Í kjölfar þess tilkynntu hæstv. ráðherrar að þessar breytingar yrðu lagðar til af hálfu meiri hlutans við afgreiðslu málsins úr heilbrigðis- og trygginganefnd eins og gert hefur verið.

Varðandi það hvernig eigi að fjármagna þessar breytingar er það auðvitað nýlunda að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi áhyggjur af því hvernig eigi að fjármagna svona breytingar, en það er rétt að taka það fram að það er gert ráð fyrir því og hefur komið fram bæði hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í svörum við spurningum frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að gert er ráð fyrir því að þessir fjármunir rúmist innan núverandi fjárheimilda Tryggingastofnunar ríkisins. Það er fyrst og fremst vegna þess að fjölgun lífeyrisþega hefur undanfarið ekki verið jafnmikil og áður hafði verið gert ráð fyrir.



[21:48]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar breytingar voru ekki ræddar í heilbrigðis- og trygginganefnd heldur voru ræddar tillögur sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafði boðað um að séreignarlífeyrissparnaður skerti ekki almannatryggingabætur. Hv. þingmaður hafði boðað þær breytingar í sjónvarpsþætti í Kastljósi fyrir nokkrum vikum, en þær hafa ekki sýnt sig.

Hér eru aftur á móti tillögur um að elli- og örorkulífeyrisþegar geti dreift skerðingunum og það er ágætt, en það verða samt sem áður skerðingarnar. Það var ekki gert ráð fyrir því í fjárlögunum. Sömuleiðis hvað varðar þær tvær reglur sem er verið að setja um skerðingar á lífeyri þar sem ellilífeyrisþegarnir fá að nýta sér örorkulífeyrisregluna og öfugt, hún var ekki komin fram þegar fjárlögin voru afgreidd, hún kom ekki fram fyrr en eftir hádegið og var ekki rædd í nefndinni og sömuleiðis frítekjumarkið. Þetta er hálfur milljarður og ég hafði samband við Tryggingastofnun ríkisins og þeir könnuðust ekki við að þessir fjármunir væru þar og töldu líklegt að þetta færi á fjáraukalög að ári, a.m.k. stór hluti af þessum útgjöldum.

Ég minni á það að ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi felldi allar tillögur okkar í minni hlutanum sem voru til bóta, kölluðu þær yfirboð og felldu þær. Síðan koma hérna yfirboð og það eru engir peningar til að standa með þeim. Þetta segir náttúrlega alla söguna og ég gagnrýni það. Og að vera að vísa á það Tryggingastofnun sé með þessa peninga í sínum fórum, (Gripið fram í.) alls ekki, ég sagði áðan að ég fagna öllum litlum hænuskrefum. (Forseti hringir.) En mér finnst það ábyrgðarleysi að vísa þessum (Forseti hringir.) breytingum til næstu ríkisstjórnar.



[21:51]
Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þýðir nú lítið fyrir hv. þingmann að vera stúrin yfir þeim árangri sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi er að ná í málefnum aldraðra og þeim gríðarlegu kjarabótum sem meiri hlutinn er að færa til aldraðra og öryrkja.

Ég ítreka að um það var rætt í heilbrigðis- og trygginganefnd með hverjum hætti mætti taka á þeim áhrifum sem séreignarsparnaður og fjármagnstekjur hefðu á lífeyri til eldri borgara. Niðurstaðan varð ekki sú að ákveða að þessar tekjur hefðu engin áhrif, hún lá hins vegar í því sem talið var unnt að gera, m.a. með hliðsjón af fjárveitingum til Tryggingastofnunar, að fólki væri heimilt að dreifa áhrifum þessa (Gripið fram í.) í allt að tíu ár. (Gripið fram í.)

Það liggur fyrir og ég get svarað hv. þingmanni með því aftur, hæstv. forseti, að fjölgun lífeyrisþega á vegum Tryggingastofnunar ríkisins hefur ekki verið eins mikil og reiknað var með og þetta kom m.a. fram í máli Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar, þannig að þar hafa menn borð fyrir báru og það er því gert ráð fyrir því að þeir fjármunir sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér á hinu háa Alþingi ætlar að nota til þessara hluta, 2,3 milljarðar, séu nægir til þess á næsta ári og síðan verður auðvitað tekið á því fyrir fjárlög áranna 2008–2010.



[21:53]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar á þskj. 599, sem er 330. mál þingsins. Sömuleiðis fylgja því breytingartillögur frá minni hlutanum á þskj. 600.

Eins og kom fram í máli framsögumanns meiri hluta taldi hann upp alla sem komu fyrir nefndina og tel ég ástæðulaust að endurtaka það. Fjöldi manns kom fyrir nefndina til að ræða þetta frumvarp til laga um almannatryggingar og um breytingu á lögum um málefni aldraðra, það eru tvenn lög sem eru þarna til umfjöllunar.

Minni hluti nefndarinnar telur allt of skammt gengið í að bæta réttindi og kjör lífeyrisþega í þessu frumvarpi og leggur því fram breytingartillögur í samræmi við sameiginlega þingsályktunartillögu allrar stjórnarandstöðunnar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, sjá þskj. 3, 3. mál sem kom fram í haust þegar þing kom saman.

Minni hlutinn telur mjög mikilvægt að minnka vinnuletjandi þætti í almannatryggingunum og vill losa lífeyrisþega úr þeirri fátæktargildru sem miklar tekjutengingar hafa í för með sér.

Atvinnuþátttaka lífeyrisþega eykur félagslega virkni þeirra, er þjóðhagslega hagkvæm og líkleg til að stuðla að betra heilbrigði.

Við yfirferð frumvarpsins í nefndinni lýstu fulltrúar eldri borgara yfir stuðningi við tillögur stjórnarandstöðunnar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála og þær breytingartillögur sem við leggjum til hér við 2. umr. málsins. Þeir ítrekuðu einnig á fundi nefndarinnar að þeir hefðu verið ósáttir við tillögur ríkisstjórnarinnar sem sneru að lífeyrismálum í sameiginlegri yfirlýsingu og hefðu fallist á hana undir þrýstingi og hótunum um að hjúkrunarkafli yfirlýsingarinnar yrði tekinn út ef þeir gerðu það ekki. Fram kom hjá gestum í nefndinni að stjórnvöld hefði ekki viljað ganga lengra en fram kemur í frumvarpinu og yfirlýsingunni frá 19. júní 2006. Félag eldri borgara telur yfirlýsinguna eingöngu spor í rétta átt en ganga hefði mátt lengra. Þeir líta því ekki á þetta sem þá gríðarlegu kjarabót sem stjórnarliðar tala fjálglega um í þessari umræðu. Fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands lýstu einnig yfir stuðningi við tillögur stjórnarandstöðunnar sem varða öryrkja.

Fulltrúar Tryggingastofnunar bentu á ýmsa alvarlega vankanta á frumvarpinu og því fyrirkomulagi sem væri lögfest með því að samþykkja það. Einnar krónu of háar tekjur gætu haft í för með sér 1.300–1.400 þús. kr. tekjuskerðingu á ári við ákveðnar aðstæður og jafnvel endurkröfu á þeirri upphæð frá Tryggingastofnun ári síðar. Einnig var bent á að mismunandi gildistaka ýmissa þátta frumvarpsins, svo sem hækkun tekjutryggingarinnar og svo lækkun tengingar við tekjur maka síðar samhliða hækkun eigin skerðingarhlutfalls, flækti kerfið í stað þess að einfalda það, sem var þó eitt af markmiðunum með breytingunum. Hækkun tekjutryggingarinnar um áramótin hefði í för með sér með að allmargir lífeyrisþegar fengju hækkun þá sem síðan yrði tekin til baka á næsta kjörtímabili þegar tenging við tekjur maka verður minnkuð. Því væri nær að láta þessi atriði taka gildi samhliða. Á blaðamannafundi í fyrradag, þ.e. 6. desember sl., kynntu heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra nokkrar frekari breytingar á frumvarpinu af hálfu ríkisstjórnarinnar, og með þeim er komið í veg fyrir að bætur hækki fyrst og lækki síðar, samkvæmt upplýsingum fulltrúa Tryggingastofnunar sem kom fyrir nefndina til að fara yfir þær breytingar sem ráðherrarnir boðuðu og koma fram í breytingartillögum meiri hlutans. Aðrar breytingar sem þar voru kynntar, svo sem 25 þús. kr. frítekjumark á mánuði frá áramótum ganga allt of skammt að mati minni hlutans, þó að auðvitað séu þær til bóta því að eins og frumvarpið liggur fyrir eru engar frítekjur. Þá hefði hver einasta króna sem lífeyrisþegi hefði unnið sér inn skert tekjutrygginguna. Þarna er þó verið að koma til móts við kröfur lífeyrisþega þó að það sé ákaflega lítið. Við getum alveg ímyndað okkur hvernig það er að fá vinnu fyrir 25 þús. kr. á mánuði. Þó að mönnum sé gert kleift að auka aðeins tekjur sínar er það auðvitað allt of skammt gengið.

Breytingartillögur minni hlutans eru efnislega eftirfarandi en þær koma fram í sérstöku skjali eins og ég benti á áðan:

1. Ný tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. og öryrkja 86 þús. kr. frá 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum sem orðið hafa. Lagt er til að skerðingarprósentan fari þegar um áramót úr 45% í 35% en ríkisstjórnin áætlar að lækka hana í 39,95% þá og aftur í 38,35% árið 2008. Hér eru því lagðar til mun minni tekjuskerðingar strax frá 1. janúar 2007 auk hærri tekjutryggingar. Breytingar ríkisstjórnarinnar fela í sér að sameina tekjutryggingu og tekjutryggingarauka í einn bótaflokk og að tekin verði upp ný tekjutrygging sem 1. janúar 2007 verður 78.542 kr. fyrir aldraða og 79.600 kr. fyrir öryrkja.

Eins og menn sjá ganga þessar breytingar mun skemur en þær sem við leggjum til en vissulega fögnum við því að hér sé verið að sameina þessa bótaflokka, tekjutryggingaraukann og tekjutrygginguna, en það er flækjufótur sem þessi ríkisstjórn kom á fyrir nokkrum árum þegar breytingarnar vegna öryrkjadómsins komu inn í almannatryggingarnar. Þá var þessum bótaflokki bætt við til að flækja almannatryggingarnar enn meira og vissulega er það fagnaðarefni að ríkisstjórnin hefur séð að sér og bakkað út úr þeirri vitleysu og er búin að setja þetta allt saman í einn bótaflokk og það er vissulega til bóta.

2. Frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007. Þær skerði ekki tekjutryggingu. Við teljum fulla ástæðu til þess að skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði. Lífeyrisþegar hafi val um þetta nýja frítekjumark eða eldri reglu sem áður gilti aðeins fyrir öryrkja, eftir því hvort er þeim hagstæðara. Fyrir þá sem eru með árstekjur undir 1,5 millj. kr. er þetta nýja frítekjumark hagstæðara en sú regla. Nú hefur ríkisstjórnin tekið þessa reglu inn í breytingartillögur sínar þó svo að frítekjumarkið sé mun lægra í breytingartillögum þeirra.

3. Við leggjum einnig til að ráðstöfunarfé, þ.e. vasapeningar þeirra sem dvelja á stofnunum, hækki um 50% frá 1. júlí 2006, þ.e. afturvirkt, ásamt því að frítekjumark gagnvart tekjum þeirra sem dvelja á stofnunum verði hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr. þannig að þeir hefðu þá sama frítekjumark og þeir sem fá atvinnutekjur. Enda sjá allir sem sjá vilja að 50 þús. kr. er ákaflega lág upphæð fyrir þá sem dvelja á stofnun og þurfa oft að greiða ýmsa þjónustu sem þeir þurfa að fá þar. Við í minni hlutanum teljum nauðsynlegt að stefna að því að breyta því greiðslufyrirkomulagi sem er á daggjaldastofnunum fyrir aldraða þannig að það verði í svipuðu formi og gildir fyrir fatlaða á sambýlum, viljum við að stefnt verði að því að sú breyting verði 1. janúar 2008, eftir eitt ár.

4. Við leggjum einnig til að afnumin verði að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka og það strax um næstu áramót. Við teljum að lífeyrisgreiðslur séu persónulegur réttur einstaklingsins og þar eigi tekjur maka ekki að hafa áhrif á upphæðir.

5. Við leggjum til að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri. Sú breyting taki einnig gildi um næstu áramót.

Minni hlutinn telur brýnt að endurskoða lífeyriskafla laga um almannatryggingar. Undir það tóku fulltrúar eldri borgara sem komu fyrir nefndina. Þá endurskoðun verður að vinna í fullu samráði við samtök aldraðra og öryrkja. Skoðað verði samspil almannatrygginga og lífeyriskerfisins með það að markmiði að einfalda tryggingakerfið, draga úr skerðingaráhrifum tekna og auka möguleika lífeyrisþega til að bæta kjör sín. Þá verði komið á afkomutryggingu sem tryggi viðunandi lífeyri. Til undirbúnings afkomutryggingar verði þegar í stað gerð úttekt á framfærslukostnaði lífeyrisþega sem grunnlífeyrir og tekjutrygging byggist á.

Minni hlutinn hefur lagt til að skilgreind verði neysluútgjöld lífeyrisþega sem myndi viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu. Þetta hefur komið fram í öðru þingmáli í þinginu. Þessi viðmiðun hækki í samræmi við neysluvísitölu þannig að tryggt sé að hún haldi verðgildi sínu. Hækki launavísitala umfram neysluvísitölu verði tekið mið af henni þannig að lífeyrisþegum sé tryggð hlutdeild í auknum kaupmætti í samfélaginu. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að skilgreining á neysluútgjöldum lífeyrisþega, sem afkomutrygging þeirra skal byggð á, liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2007, ásamt tillögum um hvernig draga megi frekar úr skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna annarra tekna. Þegar úttekt hefur verið gerð á framfærsluþörf lífeyrisþega skal í samráði við hagsmunasamtök þeirra gera áætlun um tímasetta áfanga afkomutryggingar.

Breytingartillögur minni hlutans endurspegla það sameiginlega viðhorf stjórnarandstöðunnar að eitt allra brýnasta verkefnið á sviði velferðarmála hér á landi sé að bæta kjör öryrkja og aldraðra. Óumdeilt er að allur þorri þeirra sem þessum hópum tilheyra hefur alls ekki notið lífskjarabata sambærilegs við þann sem aðrir landsmenn hafa hlotið undanfarin ár. Úr því vill stjórnarandstaðan bæta án frekari tafar með breytingartillögum sínum. Þær koma til viðbótar aðgerðum sem ríkisstjórnin leggur til í þessu frumvarpi og ganga mun lengra en þær. Meginmarkmið samkvæmt þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar frá því í haust er að hækka lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja svo og að auka svigrúm þeirra til að afla sér tekna án þess að það skerði lífeyrisgreiðslur þeirra. Sérstök áhersla er þar lögð á að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og að tekin verði upp afkomutrygging sem byggð sé á skilgreindum neysluútgjöldum lífeyrisþega, einkum þeirra sem eingöngu hafa lífeyri sér til framfærslu.

Lagt er til að atvinnutekjur, þ.e. frítekjur sem ekki skerða tekjutryggingu, verði 900 þús. kr. á ári eða 75 þús. kr. á mánuði þegar frá 1. janúar 2007. Tillaga ríkisstjórnarinnar í þessu frumvarpi fól í sér 200 þús. kr. frítekjur á ári frá 1. janúar 2009, þegar þessi ríkisstjórn er náttúrlega löngu farin frá, eða um 17 þús. kr. á mánuði, og 25 þús. kr. frítekjur á mánuði frá 1. janúar 2010, og þá er enn þá lengra síðan þessi ríkisstjórn hefur farið frá.

Reyndar kom yfirboð, eins og ég benti á, á blaðamannafundi fyrir tveimur dögum og er hér breytingartillaga frá meiri hlutanum þar sem lagt er til frítekjumark 25 þús. kr. á mánuði eða 300 þús. kr. ári og það taki gildi um næstu mánaðamót. Er það vissulega í áttina en alls ekki nógu langt gengið.

Minni hlutinn telur að rétt sé að skoða hvort heimila eigi að nýta einhvern hluta 75 þús. kr. frítekjumarksins fyrir tekjur úr lífeyrissjóði í stað þess að þær skerði tryggingagreiðslur strax frá fyrstu krónu. Með því yrði komið til móts við þann hluta hópsins sem ekki er fær um að afla sér atvinnutekna og þeir geti þannig bætt stöðu sína sem aðeins hafa greiðslur úr lífeyrissjóði. Þetta eru tillögur sem við erum með í sameiginlegu þingmáli okkar um nýja framtíðarskipan

Í breytingartillögu minni hlutans er gert ráð fyrir að vasapeningar lífeyrisþega sem dveljast á stofnunum hækki um 50% samhliða afnámi frítekjumarks, afturvirkt frá 1. júlí 2006. Vasapeningarnir hækki þá um 11.436 kr. og verði 34.309 kr. á mánuði hjá vistmanni með engar aðrar tekjur, en lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun falla niður þegar lífeyrisþegi vistast á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Frumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir 28.591 kr. vasapeningum frá næstu áramótum en vasapeningar hækkuðu ekki eins og almennar lífeyrisgreiðslur 1. júlí sl. Við viljum bæta úr því með því að hækka greiðslur til þeirra sem eru á vasapeningum um 50%, afturvirkt frá 1. júlí.

Flutningsmenn leggja enn fremur til að frítekjumark gagnvart eigin þátttöku í vistgjaldi þeirra sem dveljast á stofnun verði hækkað í 75 þús. kr. á mánuði en þeir mega nú halda eftir 50 þús. kr. af lífeyrisgreiðslum sínum. Minni hlutinn leggur til að vasapeningar hækki um 50%, afturvirkt frá 1. júlí 2006, en lífeyrisþegar sem fá vasapeninga fengu enga kjarabót þá eins og aðrir lífeyrisþegar almannatrygginga. Aðrir lífeyrisþegar á stofnunum, dvalarheimilum eða hjúkrunarheimilum fengu slíkt ekki heldur.

Eins og kom fram þegar ég gerði grein fyrir breytingartillögum okkar telur minni hlutinn vasapeninga úrelt fyrirkomulag og barn síns tíma. Það felst í því að greiðslur almannatrygginga falla niður þegar lífeyrisþegi flytur inn á stofnun og fær hann þess í stað vasapeninga, sem eru í dag um 22 þús. kr. á mánuði. Þetta eru upphæðirnar eins og þær eru núna, áður en þær breytingar ganga í garð sem við erum að mæla fyrir og verða afgreiddar í atkvæðagreiðslu á morgun. Lífeyrisþegar sem afla sér tekna halda núna eftir 50 þús. kr. þegar þeir fara inn á stofnun en við leggjum til að þeir haldi eftir 75 þús. kr. Búið er að afnema þetta kerfi hjá fötluðum á sambýlum. Þeir halda lífeyrisgreiðslum sínum en greiða sameiginlegan heimiliskostnað, svo sem fæðis- og húsnæðiskostnað, af þeim. Hið opinbera sér um launakostnað og ýmsan annan kostnað. Minni hlutinn vill að unnið verði að því að afnema vasapeningakerfið og gerðar þær ráðstafanir sem til þarf svo lífeyrisþegar sem kjósa að búa á dvalarheimili eða missa heilsu og verða að flytjast inn á hjúkrunarheimili, haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Flutningsmenn leggja til að afnumin verði að fullu tenging lífeyrisgreiðslna við tekjur maka strax um áramótin, en í tillögum ríkisstjórnarinnar er einungis gert ráð fyrir að afnema hana að hluta í tveimur áföngum. Minni hlutinn leggur einnig til að aldurstengd örorkuuppbót skerðist ekki þegar öryrki fer á ellilífeyri en nú fellur hún niður á 67 ára afmælisdegi öryrkjans og lækka greiðslur til hans sem því nemur, þó svo að hann hafi jafnvel ekki haft tök á að safna neinu í lífeyrissjóð og eigi því kannski engan rétt í lífeyrissjóði þegar hann kemst á ellilífeyri.

Auk þess að leggja til hækkun á tekjutryggingunni um 6.500 kr. umfram tillögu ríkisstjórnarinnar frá 1. janúar 2007, sem verður alls 1.020.000 kr. vísitölutryggt hjá öldruðum og 1.032.000 kr. hjá öryrkjum, er lagt til að frítekjumark tekjutryggingar gagnvart atvinnutekjum verði 900 þús. kr. á ári frá áramótum. Afar mikilvægt er að rýmka verulega frítekjumarkið til að auka möguleika lífeyrisþega á að vera á vinnumarkaðnum og afla sér tekna, en mjög mikilvægt er fyrir einstakling að hafa það val án þess að til verulegrar skerðingar á lífeyri komi. Við vitum hvernig þetta hefur verið, fólk hefur ekki treyst sér til að taka þátt í atvinnulífinu eftir að það er komið á lífeyri vegna þess að þegar upp er staðið skilar sér mjög lítið í vasa þeirra. Þeir eru í rauninni að vinna fyrir ekki neitt eða bara vinna fyrir ríkiskassann eða fjármálaráðherra. Það er í rauninni fjármálaráðherra sem fær allan afrakstur vinnunnar í sinn hlut. Það er skiljanlegt að menn fari ekki í slíka vinnu, þetta virkar ákaflega vinnuletjandi og þessar skerðingarreglur nú eru hrein eignaupptaka hjá fólki. Forsvarsmenn Landssamtaka eldri borgara lýstu því svo í blaðagrein fyrr á þessu ári að skerðingarkerfi lífeyris og bóta eins og hér er þekktist hvergi annars staðar. Kom fram að lífeyrisþegi sem hefði tekjutryggingu ásamt greiðslu úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjur héldi aðeins eftir 15–33% af þeim tekjum. Skerðingar og skattar væru 67–85%. Af sjálfu leiðir að svo mikil skerðing á lífeyrisgreiðslum vegna annarra tekna dregur úr fólki að afla sér slíkra tekna, það tekur síður að sér verkefni eða hlutastörf sem gæfu viðbótartekjur þegar ríkið sér til þess að hirða stærsta hluta þeirra.

Ef aldraðir fengju að halda 75 þús. kr. atvinnutekjum á mánuði án skerðingar mundi það tvímælalaust stuðla að aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks, sem bæði hefur mikið gildi fyrir samfélagið og einstaklinga. Það hefur verið baráttumál lífeyrisþega að greiðslur til þeirra miðist eingöngu við eigin tekjur og aðeins þær geti skert lífeyri almannatrygginga en ekki tekjur annarra, þ.e. maka. Nú eru tekjur hjóna og sambýlinga lagðar saman og kemur helmingurinn af sameiginlegum tekjum til skerðingar greiðslna lífeyrisþegans frá Tryggingastofnun ríkisins. Um þetta snerist öryrkjadómurinn, þ.e. um afnám tengingar við tekjur maka. Mikill meiri hluti þeirra sem nú heyra undir þessa reglu mundu hagnast á breytingunni, en lífeyrisþegar sem eru með háar tekjur og eiga maka með lægri tekjur mundu fá eitthvað lægri greiðslur frá Tryggingastofnun. Við afnám þessarar tekjutengingar verða lífeyrisgreiðslur almannatrygginga persónulegur réttur, eins og t.d. atvinnuleysisbætur sem eru óháðar tekjum maka.

Árið 2003 var komið á aldurstengdri örorkuuppbót. Fjárhæð uppbótarinnar miðast við þann aldur sem einstaklingur var í fyrsta sinn metinn 75% öryrki. Þessi uppbót fellur niður þegar öryrki sem hennar nýtur nær 67 ára aldri og verður ellilífeyrisþegi. Þetta telja flutningsmenn óréttlátt, af því að tekjuþörf öryrkja minnkar ekki við það að eldast. Auk þess hafa þeir sem verða ungir öryrkjar minni möguleika á að afla sér lífeyrisréttinda, eins og ég benti á áðan. Því er lagt til að öryrkjar haldi þessari uppbót þegar þeir verða ellilífeyrisþegar.

Nokkrar breytingar eru lagðar til í frumvarpinu sem eru ekki hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og fulltrúa eldri borgara og snúa þær m.a. að slysatryggingum almannatrygginga. Eru þær til bóta og mun minni hlutinn því styðja 5. og 6. gr. frumvarpsins og smávægilegar lagatæknilegar breytingar sem koma fram í frumvarpinu. Einnig telur minni hlutinn að greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra eigi að skila sér í uppbyggingu hjúkrunarrýma þar til bið eftir þeim hefur verið eytt, en ekki í rekstur, og mun því styðja 13. gr. frumvarpsins, en greiða atkvæði gegn d-lið 17. gr. (ákvæði til bráðabirgða IV) sem varðar 13. gr. en þar er ríkisstjórnin í rauninni með „þrátt-fyrir-ákvæði“ þar sem hún ætlar ekki að standa við þetta ákvæði a.m.k. á meðan hún er við völd, þ.e. fram að kosningum.

Minni hlutinn ítrekar að það verði eitt af forgangsverkefnum í þjóðfélaginu á næstunni að bæta kjör lífeyrisþega og þjónustu við þá.

Eins og ég sagði áðan eru breytingartillögur frá minni hlutanum á sérstöku þingskjali, ég ætla ekki að fara í gegnum hvern einasta lið þess skjals en hef gert ágæta grein fyrir því og kemur það fram í nefndaráliti minni hlutans.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Þuríður Backman, Guðrún Ögmundsdóttir, sú sem hér stendur og hv. þm. Kristján L. Möller. Þess má geta að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er sammála þessu áliti.



[22:18]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar kemur fram setning sem í sjálfu sér kemur mér ekki spánskt fyrir sjónir en samt er ástæða til að fjalla um. Þar segir að eldri borgarar hefðu fallist á sameiginlega yfirlýsingu, eins og segir þarna, „undir þrýstingi og hótunum um að hjúkrunarkafli yfirlýsingarinnar yrði tekinn út ef þeir gerðu það ekki“.

Þessi fullyrðing hefur valdið mér heilabrotum og hugarangri vegna þess að í fyrstu fréttum sem bárust af þessu samkomulagi og í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 19. júlí 2006, yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og eldri borgara sem er sameiginleg og undirrituð af báðum aðilum, segir: „Landssamband eldri borgara og ríkisstjórnin fagna í yfirlýsingu því góða samstarfi sem tókst í nefndinni. Það er sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögurnar séu til vitnis um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspegli samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem komi til framkvæmda næstu fjögur árin eins og nánar er lýst í tillögum nefndarinnar“.

Þetta er ég með fyrir framan mig undirskrifað af fulltrúum Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnarinnar. Síðan segir eftirfarandi í fréttum Morgunblaðsins 20. júlí, daginn eftir að þessi yfirlýsing var gefin, með leyfi forseta:

„Fagnaði Ólafur“ — fyrrverandi landlæknir og formaður Landssambands eldri borgara — „sérstaklega verulegri hækkun á lífeyrisgreiðslum, sérstaklega þeirra sem væru með lægstu ellilaunin en þeir væru á bilinu 30 til 40%, að sögn hans.“

Síðan segir aðeins neðar:

„Dregið væri úr áhrifum tekna maka og skerðing vegna annarra tekna yrði minnkuð.“

Og enn aðeins neðar:

„Þá lýsti hann ánægju með að samkomulag hefði náðst um gamalt baráttumál um frítekjumark atvinnutekna.“ (Forseti hringir.) Þessi yfirlýsing ber ekki merki um að aldraðir hafi verið beittir þvingunum við undirritun þessa (Forseti hringir.) samkomulags.



[22:20]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef þetta eftir fulltrúum eldri borgara í nefndinni. Þeir hafa bæði lýst þessu yfir í fjölmiðlum og sömuleiðis í nefndinni. Það geta allir sem voru á fundinum vottað um að þeir lýstu því yfir að þeir hefðu fallist á þetta undir þrýstingi. Það voru 14 manns á fundinum hjá nefndinni og þau samþykktu öll að þetta hefði gengið svona fyrir sig.

Aðspurður sagði Ólafur Ólafsson, formaður Landssambands eldri borgara, að þeir hefðu lýst yfir ánægju með hjúkrunarþáttinn, hefðu verið mjög ánægðir með hann, en lífeyriskaflann hefðu þeir ekki verið sáttir við en hefðu undir þrýstingi og hótunum, eins og þeir orðuðu sjálfir, fallist á hann vegna þess að ella hefði hjúkrunarþátturinn verið í uppnámi.

Þetta er nákvæmlega það sem kom fram í nefndinni og er haft hér eftir þeim í þessu nefndaráliti og það geta þeir vottað um sem voru á fundi nefndarinnar.



[22:22]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var á þessum sama fundi og á honum voru einnig fulltrúar ríkisstjórnarinnar, m.a. Ásmundur Stefánsson, formaður nefndarinnar. Það var, ef ég rifja það upp með hv. þingmönnum, töluvert rætt um þennan þátt, meintar hótanir, meintar þvinganir.

Ég vil þá biðja hv. þingmann að rifja upp hvað formaður nefndarinnar, Ásmundur Stefánsson, sagði varðandi nákvæmlega þetta atriði. Bæði hann og jafnframt fulltrúar fjármálaráðuneytisins og fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins sem voru á öllum þessum 25 fundum vísuðu alfarið frá sér að nokkuð slíkt hefði átt sér stað.

Hins vegar væri ágætt líka að rifja það upp, sem er líka umhugsunarefni, að á þessum sama fundi, með þá fulltrúum eldri borgara, var gengið eftir því við þá í hverju þessi þvingun hefði legið, þessi hótun sem þeir töldu að þeir hefðu verið beittir. Það kom fram að engin slík samskipti hefðu farið fram á milli eldri borgara og ríkisstjórnarinnar. Það lá alveg ljóst fyrir. Hins vegar kom jafnframt fram að hin meinta hótun hefði farið fram í samtali milli formanns Landssambands eldri borgara og formanns nefndarinnar og það hefði jafnframt komið fram að hann vísaði alfarið frá sér að nokkrar slíkar hótanir eða þvingunaraðgerðir hefðu farið fram.

Ég verð að segja að ef ég sem formaður í einhverju í félagi sem væri að sækja kjarabætur næði þvílíkum árangri sem eldri borgarar hafa náð mundi ég bara fagna hverjum þvingunum eða hótunum eða hvaðeina sem ég yrði beitt til að skrifa undir slíkt samkomulag. Þess þyrfti ekki.

Ég átta mig engan veginn á því hvað þarna fór fram en tel að það sem gerist oft eftir slíkt samkomulag hafi náðst, að væntingar hafi verið miklar, komnar (Forseti hringir.) ákveðnar mótbárur frá umbjóðendum þeirra og þeir hafi einhvern veginn heykst (Forseti hringir.) á málinu, algjörlega að óþörfu.



[22:24]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að fulltrúi ríkisstjórnarinnar, formaður nefndarinnar, Ásmundur Stefánsson, var spurður um þetta. Hann vildi ekki viðurkenna að hann hefði haft í hótunum. En það getur vel verið að hann sem gamall sáttasemjari telji ekki hótanir það sem fulltrúar eldri borgara telja hótanir. (ÁMöl: Þetta er nú reyndur …) Þeim var sagt að ef þeir féllust ekki á þær úrbætur sem voru á borðinu hvað varðar lífeyriskaflann yrði allt samkomulagið sett út af borðinu. (Gripið fram í.) Þar með hefðu þeir orðið að fallast á þetta, ákaflega ósáttir, en töldu þetta þó skref í áttina sem það vissulega er. Þetta er skref. Þeir voru samt alls ekki sáttir við þetta og féllust á þetta undir hótunum. Þetta er orðalag þeirra. Þetta kom fram hjá öllum þeim sem voru þarna fulltrúar eldri borgara.

Ég heyrði líka alveg hvernig Ásmundur Stefánsson talaði á fundinum þar sem hann vildi ekki viðurkenna þetta. (Gripið fram í.) Það voru fleiri þarna frá eldri borgurum sem öll voru sammála um þetta. Þetta hafa þeir líka sagt í fjölmiðlum aftur og aftur og skrifað um það í greinum þannig að greinilega upplifðu þeir þetta sem hótanir (Gripið fram í.) og að þeim væri stillt upp við vegg og féllust á þetta þess vegna og teldu þetta vera fyrsta skref.

Þeir lýstu því reyndar yfir á blaðamannafundinum í ráðherrabústaðnum að þeir mundu koma aftur að hausti til að fara fram á frekari réttindi sér til handa hvað varðaði lífeyrisþáttinn. Þeir hafa lýst yfir stuðningi við þær tillögur sem við leggjum hér fram, þær breytingartillögur sem við leggjum hér fram, og hann liggur fyrir í ályktunum, bæði frá Félagi eldri borgara í Reykjavík og Landssambandi eldri borgara, í (Forseti hringir.) skjölum og álitinu.



[22:26]
Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað einkennilegur málflutningur af hálfu hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar þar sem því er ítrekað haldið fram að aldraðir hafi verið beittir þvingunum, (ÁRJ: Þeir segja það sjálfir.) hótunum eða mekanískri nauðung til að skrifa undir samkomulag við ríkisstjórnina, samkomulag sem nú er að skila þeim 30 milljörðum, sem skilar ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum 30 milljörðum til viðbótar við núverandi greiðslur á næstu fjórum árum. Að halda þessu fram er náttúrlega algjörlega óboðlegt.

Heldur hv. þingmaður að talsmenn eldri borgara hafi komið fram í fjölmiðum líka nauðugir viljugir og lýst því yfir að þeir væru ánægðir með hækkun á lífeyrisgreiðslum eins og talsmennirnir gerðu á þessum tíma? Það er auðvitað ekki hægt að tala svona, hæstv. forseti.

Það er alltaf hægt að gera betur og auðvitað vilja eldri borgarar fá meiri peninga, hærri greiðslur. Það er alltaf þannig, hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að frítekjumarkið sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni er núna 0 kr. Það er 0 kr. og hefur verið hækkað upp í 300 þús. Auðvitað er miklu einfaldara að hafa það 750 þús. kr. á ári. (ÁRJ: Það er ekki …) Ég held að allir væru til í það ef til væru nægir fjármunir.

Eigum við ekki að taka eitt skref í einu og vera þá ánægð með að fara úr 0 kr. í 300 þús.? Ég held að það væri ágætt skref, hæstv. forseti, þótt ekki væri annað sagt í bili.



[22:28]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er vorkunn enda nýgræðingur hér í þinginu. Hann þekkir greinilega ekki almannatryggingar vegna þess að frítekjumark gagnvart tekjutryggingu í dag er hátt í 50 þús. kr. (Gripið fram í.) Það er verið að breyta almannatryggingunum algjörlega. Samkvæmt þessu frumvarpi, eins og það liggur fyrir, er frítekjumarkið ekki neitt. Það er alveg rétt. En það er ekki orðið að lögum. Lögin sem gilda í dag eru með frítekjumark gagnvart tekjutryggingu. Ég bið hv. þingmenn að kynna sér almannatryggingarnar áður en þeir fara að gaspra svona bull í ræðustóli Alþingis.

Hv. þingmaður, sem er búinn að fara með fleipur nokkrum sinnum í dag, a.m.k. í fjölmiðlum og hér í þessum stóli, ætti nú að kynna sér betur lögin. Ég hélt að þetta væri löglærður maður. Hann veit greinilega ekki meira um almannatryggingar en þetta. Ég held að hv. þingmaður ætti að fara heim og lesa áður en hann fer að halda hér fram öðru eins.

Varðandi það að aldraðir hafi verið undir hótunum þegar þeir samþykktu lífeyriskaflann þýðir lítið að eiga það við mig. Hann verður að ræða um þetta við eldri borgara og fulltrúa þeirra. (GÓJ: Þú ert …) Þeir hafa lýst þessu yfir, (Gripið fram í.) þeir hafa (Forseti hringir.) haldið þessu fram á fundum nefndarinnar, (Forseti hringir.) þeir hafa haldið þessu fram í fjölmiðlum, þeir hafa komið fram í sjónvarpi og lýst þessu yfir. Ásmundur hefur ekki sagt neitt í fjölmiðlum. Hann vildi ekki viðurkenna að þetta hefðu verið hótanir hjá nefndinni en hann er náttúrlega sáttasemjari og hefur án efa oftar beitt hótunum við samningagerð (Gripið fram í.) án þess að ég viti nokkuð um það. Ég hef aldrei verið á samningafundi hjá honum. En þetta verða menn að eiga við fulltrúa eldri borgara. Það þýðir ekki að vera að rífast um þetta við mig.



[22:30]
Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni er auðvitað vorkunn. Formaður hv. þingmanns, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur lýst því yfir að hv. þingmanni sé ekki treystandi af hálfu kjósenda. Kjósendur treysta ekki hv. þingmanni til starfa, til að fara með stjórn ríkisins og þar með stjórn heilbrigðismála. Ég held að það væri nú (Gripið fram í.) ástæða til að taka það til frekari umfjöllunar, að maður tali ekki um leynipóstinn, verst geymda leyndarmál þingsins þessa dagana, leynipóst formanns Samfylkingarinnar til hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Við skulum láta það liggja á milli hluta.

Það er hins vegar annað, hæstv. forseti, sem ég vildi taka fram. Það varðar unga öryrkja. Ég vek athygli á því að hv. þm. Jón Kristjánsson, á meðan hann var heilbrigðisráðherra, lagði til breytingar sem voru samþykktar á Alþingi sem gerðu það að verkum að bætur til öryrkja væru hærri eftir því sem viðkomandi yrði öryrki yngri. Það var stórkostleg réttarbót, líkt og á mörgum öðrum sviðum að því er varðar málefni eldri borgara og öryrkja.

Það er ekki boðlegt, hæstv. forseti, þegar minni hlutinn í þingsal heldur því ítrekað fram og byggir sitt mál á því að ríkisstjórnin og nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar hafi beitt gamalmenni þvingunum, ofbeldi nánast, hótunum eða mekanískri nauðung. Það er ekki hægt að tala svona, hæstv. forseti. Það er ekki hægt að þrír heilir stjórnmálaflokkar skuli byggja mál sitt á því að ríkisstjórnin beiti eldri borgara nauðung. Það er fásinna, hæstv. forseti.



[22:32]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður heldur því fram að þjóðin treysti ekki þeim þingmanni sem hér stendur. Ég er nýbúinn að fara í gegnum prófkjör og þeir sem tóku þátt í því treystu mér a.m.k. til að gegna þingstörfum áfram, miðað við fylgi flokksins.

Aftur á móti er ég ekki viss um að jafnmargir treysti þeim þingmanni sem kom hér í andsvör. Í hans kjördæmi er flokkur hans undir pilsnerfylgi, um 3%. Þess vegna leyfi ég mér að efast um að hv. þingmaður hafi efni á svona tali enda er hann flúinn úr salnum og þolir ekki að hlusta á að það er varla nokkur maður í Reykjavíkurkjördæmi sem treystir þeim manni og áreiðanlega ekki eftir annað eins blaður og þvaður eins og kom frá hv. þingmanni bæði í útvarpsþætti í morgun og eins úr ræðustól Alþingis í þessari umræðu áðan. (Gripið fram í.)

Ég held að hv. þingmaður ætti að svara fyrir sig sjálfur en ekki einhverjir gasprarar, kallandi fram í úti í sal.



[22:34]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar. Með því verða staðfestir með lögum þeir þættir samkomulags á milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá því í júlí í sumar sem kölluðu á lagabreytingar. Í umræðum á hinu háa Alþingi á síðustu dögum og í viðræðum við eldri borgara hefur verið látið að því liggja að ekki hafi verið um samkomulag að ræða heldur yfirlýsingar frá hendi ríkisstjórnarinnar. Ég vísa þeim hugleiðingum þeirra sem því halda fram á bug og sé enga ástæðu til að talsmenn eldri borgara eða stjórnarandstaðan, ef út í það væri farið, vilji draga úr ábyrgð eldri borgara á þessu mikilvæga samkomulagi. Það veldur, þegar upp er staðið, einni mestu byltingu síðari ára í kjörum aldraðra og öryrkja. Ég tel þvert á móti að ríkisstjórn, Alþingi, eldri borgarar og talsmenn þeirra, sem voru aðilar að samkomulaginu, geti verið stoltir af því og geti tvímælalaust stært sig af því.

Með samþykkt frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar efnir ríkisstjórnin sinn hluta samkomulagsins og gott betur, með þeim breytingum sem meiri hluti heilbrigðisnefndar hefur gert á frumvarpinu í meðhöndlun þingsins. Þetta samkomulag milli aðila náðist eftir miklar umræður og er niðurstaða byggð á helstu áherslum í málflutningi talsmanna eldri borgara á undaförnum missirum. Hins vegar er alveg ljóst að samkomulagið þýðir niðurstöðu sem er kannski ekki í samræmi við ýtrustu kröfur hvors aðila. En við það verða menn að sætta sig og una glaðir við það sem þeir ná fram. Með þessu samkomulagi hafa helstu baráttumál eldri borgara náð fram að ganga.

Hvaða þýðingu hefur frumvarpið fyrir eldri borgara, öryrkja og lífeyrisþega? Það kemur sérstaklega fram í þessu frumvarpi að þrátt fyrir að samkomulag hafi verið við eldri borgara þá hafa ákveðnir þættir samkomulagsins verið yfirfærður á örorkulífeyrisþega, þótt þeir hafi ekki beinlínis verið aðilar að samkomulaginu.

Verið er að gera breytingar á lögum um almannatryggingar sem stórbæta hag aldraðra og öryrkja til framtíðar. Þær fela m.a. í sér hækkun lífeyrisgreiðslna til elli- og örorkulífeyrisþega og fyrsti hluti þeirrar hækkunar kom fram 1. júlí í sumar. Í öðru lagi er lækkun skerðingar bóta vegna tekna maka, hvort heldur lífeyristekna eða atvinnutekna, og reyndar alfarið greint á milli tengingar bóta við lífeyristekjur maka. Skerðingar vegna atvinnutekna maka eru jafnframt minnkaðar. Í þriðja lagi minnkar skerðing bóta vegna annarra tekna bótaþega. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega ofan í hvaða umbætur felast í frumvarpinu. Það hefur komið fram áður, bæði við 1. umr. og jafnframt í áliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.

Með lækkun skerðingar bóta vegna tekna maka og lækkun skerðingar bóta vegna annarra tekna bótaþega er í meiri mæli en áður horft á sjálfstæðan rétt einstaklinga til bóta í stað þess að líta á framfærslutekjur hjóna og fjölskyldu í heild. Þarna er tekið stórt skref enda hefur orðið ákveðin stefnubreytingu og fyrsta skrefið í þá átt var tekið í kjölfar öryrkjadómsins svokallaða. Sú stefna er fest í sessi að horfa á sjálfstæðan rétt bótaþega.

Eitt stóra atriðið í þessu samkomulagi og í frumvarpinu sem við fjöllum um er meðal helstu baráttumála elli- og örorkulífeyrisþega á síðustu árum, þ.e. frítekjumark vegna atvinnutekna. Þetta er mjög stórt og gott skref og er til þess fallið að hvetja þá sem hafa getu til til að starfa áfram í atvinnulífinu, á vinnumarkaði þrátt fyrir örorku og aldur og þeir geti gert það án þess að það leiði til of mikillar skerðingar á lífeyri almannatrygginga. Þetta er sá þáttur í velferðarkerfinu og í almannatryggingakerfinu sem hefur farið einna mest fyrir brjóstið á öldruðum og öryrkjum.

Í þeim línuritum sem fylgja nefndaráliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar eru tekin nokkur lýsandi dæmi um áhrif frumvarpsins á kjör aldraðra og ellilífeyrisþega. Mig langar að nefna nokkur dæmi sem eru lýsandi fyrir það stóra framfaraskref sem verður stigið þegar frumvarpið verður gert að lögum. Ég bendi á að þessar umbætur koma strax til framkvæmda um áramótin, eftir um þrjár vikur.

Í fyrsta lagi vil ég taka dæmi um áhrif frítekjumarks eigin tekna á greiðslur almannatrygginga til örorkulífeyrisþega. Tekjur einhleyps örorkulífeyrisþega með 50 þús. kr. atvinnutekjur, tekjur hans úr almannatryggingakerfinu, hækka úr um 85 þús. kr. í ár í um 115 þús. kr. nú um áramótin. Heildartekjur hans fyrir skatt hækka um 30 þús. kr., úr 135 þús. kr. á mánuði í 165 þús. kr., sem er töluverð kjarabót.

Annað dæmi er um minni tekjutengingu milli maka. Það getur leitt til þess að tekjur örorkulífeyrisþega hækki verulega. Dæmi um það er örorkulífeyrisþegi með 50 þús. kr. í atvinnutekjur og maki með 150 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Samanlagðar atvinnutekjur og lífeyrir almannatrygginga voru fyrir 1. júlí síðastliðinn rúmar 100 þús. kr. en 1. janúar næstkomandi verða tekjur hans 135 þús. kr., þ.e. hækkun um 35 þús. kr.

Þriðja dæmið er jafnframt um örorkulífeyrisþega. Þar er örorkulífeyrisþegi með engar tekjur af atvinnu en maki hins vegar er með 150 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði. Tekjur örorkulífeyrisþegans frá almannatryggingum fyrir 1. júlí sl. voru tæpar 60 þús. kr. á mánuði, m.a. vegna samspilsins á milli hans og tekna maka, en þær verða rúmar 95 þús. kr. um næstu áramót og 105 þús. um áramótin 2007–2008. Þetta eru töluverðar upphæðir til viðbótar og ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar aukast verulega.

Síðan er ágætt að taka dæmi um samspil frítekjumarks og minni áhrif frá tekjum maka á heildartekjur ellilífeyrisþega. Ellilífeyrisþegi er með 150 þús. kr. tekjur á mánuði og maki með 150 þús. kr. í atvinnutekjur. Fyrir 1. júlí voru tekjur lífeyrisþegans úr almannatryggingunum rúmar 60 þús. kr., sem gerir alls 60 þús. kr. í tryggingatekjur og 50 þús. eigin tekjur sem eru 110 þúsund. Um áramótin verða þessi 110 þús. kr. orðnar að 125 þús. kr. miðað við þær breytingar sem hér eru boðaðar.

Ég vildi taka eitt dæmi til viðbótar um áhrif frítekjumarks vegna eigin tekna á heildartekjur ellilífeyrisþega. Lífeyrir almannatrygginga hjá einhleypum ellilífeyrisþega með 100 þús. kr. atvinnutekjur hækka úr 55 þús. kr. í 95 þús. kr. eða um 40 þús. kr., m.a. vegna upptöku frítekjumarks vegna eigin atvinnutekna. Tekjur þessa ellilífeyrisþega, sem er einhleypur, hækka úr 155 þús. kr. í 195 þús. kr. á mánuði.

Hægt væri að taka mörg önnur dæmi en hér læt ég staðar numið. Þetta eru dæmi um hvernig frumvarpið sem vísast verður að lögum á morgun hefur áhrif á tekjur lífeyrisþega. Þessi örfáu dæmi sýna hve miklar breytingar frumvarpið hefur í för með sér til að hækka lífeyrisgreiðslur, minnka tengingu við tekjur maka og eigin tekjur. Þar vegur ekki síst frítekjumark eigin tekna á lífeyri almannatrygginga.

Eins og ég sagði áðan hefur verið gerð grein fyrir þeim breytingum sem fylgja frumvarpinu en mig langar í lokin að ræða um kostnaðinn og hvaða viðbótarfjármagn er sett í kerfið með þessu frumvarpi. Viðbótarkostnaðurinn er um 26,7 milljarðar kr. til ársins 2010, auk 2,3 milljarða kr. sem bætt er í með þeim breytingum sem meiri hluti heilbrigðisnefndar leggur til. Þetta þýðir alls um 29 milljarða kr. til ársins 2010.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kallaði viðbæturnar sem komu inn í frumvarpið í meðhöndlun meiri hluta heilbrigðisnefndar yfirboð, 481 millj. kr. á næsta ári og hálfan milljarð á næsta ári. Hvað kallar þá hv. þingmaður 7 milljarða kr. viðbótina sem hún ætlaði að bæta í, flokkur hennar og stjórnarandstaðan, á næsta ári ef 500 millj. kr. (Gripið fram í.) eru yfirboð? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Þegar upp er staðið hækka greiðslur lífeyristrygginga milli áranna 2006 og 2007 um 10,5 milljarða kr. eða úr 32,2 milljörðum, samkvæmt fjárlögum 2006, í 42,7 milljarða kr. á næsta ári. Þetta er stórt skref og mikill árangur í baráttu fyrir bættum kjörum lífeyrisþega.

Ég hlýt, virðulegi forseti, að benda á tvö önnur frumvörp sem verða að lögum á morgun sem munu að öllum líkindum bæta hag alls almennings verulega, þar á meðal þeirra hópa sem frumvarpið sem hér er til umfjöllunar tekur sérstaklega til. Þar er lækkun matvælaverðs og tengdar breytingar við lækkun virðisaukaskatts um sem nemur 10,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli. Hitt frumvarpið felur í sér lækkun skatta, lækkun tekjuskatts og hækkun persónuafsláttar, sem þýðir 13 milljarða kr. tilfærslur úr ríkissjóði til heimilanna í landinu.

Því verður ekki á móti mælt að þessar tilfærslur eru þær mestu sem þjóðin hefur upplifað árum saman. Þær endurspegla þann sterka grunn sem samfélag okkar byggir á og hefur verið lagður á síðasta einn og hálfan áratug undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Alls gera þetta um 30 milljarða kr. á næsta ári í tilfærslur úr ríkiskassanum til heimilanna, með skattalækkunum og hækkun lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja.



[22:45]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að minnast á tvö atriði í andsvari við hv. þingmann. Hækkunin 1. júlí varð ekkert sérstaklega vegna samningaviðræðna við ríkisstjórnina. Það voru hækkanir sem lágu á borðinu vegna kjarahækkana, vegna hækkana á vinnumarkaði sem alltaf hafa skilað sér til lífeyrisþega og þarf engar sérstakar nefndir til þess. Þær hafa yfirleitt gengið beint áfram til lífeyrisþega í kjölfarið á að laun hækka á vinnumarkaði.

Það er ekkert skrýtið þótt hv. þingmaður lýsi því hér yfir að þetta sé mesta hækkun í þó nokkuð mörg ár. Þetta er mesta hækkun í tíð þessarar ríkisstjórnar, en í tíð hennar hafa lífeyrisþegar setið eftir. Það var orðið tímabært að kjör þeirra yrðu bætt.

Það hefur enginn haldið því fram að þetta sé ekki kjarabót. Ég hef ekki haldið því fram að þetta væri ekki kjarabót. Þetta er kjarabót. En við teljum bara ekki nógu langt gengið. Þessi kynslóð á rétt á betri kjörum en verið að bjóða þeim hér þó að þetta sé auðvitað allt til bóta.

Ástæðan fyrir því að ég kalla þetta yfirboð er sú að ég var að nota sömu orð og hv. þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans nota í hvert einasta skipti sem við í minni hlutanum leggjum til einhverjar smákjarabætur fyrir lífeyrisþega.

Ég vil bara nefna það hér að t.d. það að öryrki haldi örorkuuppbótinni eftir að hann er orðinn 67 ára, uppbót sem er sannarlega sýnt fram á að hann þurfi sem öryrki og varla minnkar þörfin þegar hann verður gamall, það kostar mun minna en sá hálfi milljarður sem ég leyfði mér að kalla yfirboð vegna þess að það var búið að afgreiða fjárlög þegar sú tillaga kom hér fram. Hún var yfirboð miðað við frumvarpið. Alveg eins og þið kallið tillögur okkar yfirboð (Forseti hringir.) við þessar umræður.



[22:48]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær hækkanir sem komu 1. júlí síðastliðinn eru tengdar kjarasamningum eins og kom réttilega fram hjá hv. þingmanni. En ástæðan fyrir því að ákveðið var að flýta starfi nefndarinnar var hins vegar að þessi samningur lá fyrir og svo líka til að þeir fengju hækkanirnar strax um mitt ár en ekki í haust, eins og stefndi í að yrði miðað við áætluð lok á vinnu nefndarinnar.

Það er því alveg ljóst að kjarabæturnar sem komu í sumar eru tengdar þessu samkomulagi. Þær komu fyrr og nýtast þeim fyrr og hækka kjör þeirra strax.

Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni að aldraðir hafi setið eftir. Öðru nær. Öll þau drög og línurit sem við höfum verið að skoða á síðustu missirum sýna að ráðstöfunartekjur eldri borgara prósentulega séð hafa hækkað meira en flestra annarra. Þannig að það er alls ekki rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni.

Það er alls ekki rétt að málefnum eldri borgara og öryrkja hafi ekki verið sinnt á síðustu árum. Öðru nær. Það hefur mikið verið lagt í að vinna með eldri borgurum og örorkulífeyrisþegum til þess að bæta kjör þeirra. Það hafa verið tekin stór skref fram á við í þeim efnum enda eru bæði kröfur þeirra og kröfur samfélagsins í þá veru.

Þannig höfum við mætt nýjum þörfum og nýjum kröfum og ítrekað verið gert nýtt samkomulag til að koma til móts við eldri borgara og örorkulífeyrisþega.

Ég tel því að með þessu samkomulagi séum við að reka ákveðið smiðshögg á (Forseti hringir.) störf ríkisstjórnarinnar síðustu tvö kjörtímabil.



[22:50]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður staðfestir að hækkanirnar í júlí voru vegna hækkana á vinnumarkaði. Það var rétt. Það getur vel verið að það hafi flýtt eitthvað vinnu nefndarinnar. Guð láti gott á vita ef það hefur verið. En hækkanirnar voru á borðinu.

Aftur á móti varðandi yfirlýsingar hv. þingmanns um að kjör lífeyrisþega hafi aukist meira en hjá öðrum, þá ætla ég bara að svara því með því að hv. þingmaður ætti að kynna sér rannsóknir, fyrirlestra og skýrslur Stefáns Ólafssonar um stöðu lífeyrisþega í samanburði við aðra hópa. Það leynir sér ekkert að sá hópur hefur orðið út undan. Það er bara svart á hvítu.



[22:51]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki lesið minna um þessi mál en hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Og sennilega lesið það með sama styrkleika á gleraugum og hv. þingmaður. En það er svo að ráðstöfunartekjur þessa hóps hafa aukist meira, prósentulega séð, en annarra borgara í landinu.

Varðandi skattbyrðina og þær rannsóknir sem Stefán Ólafsson hefur gert, að það er bara allt önnur Ella. Við gætum tekið þá umræðu síðar. En aðalatriðið er það að með þessu frumvarpi er verið að uppfylla samkomulag við eldri borgara sem gert var í sumar.

Ákveðnir þættir samkomulagsins eru yfirfærðir yfir á örorkulífeyrisþega. Ég held að við getum öll óskað eldri borgurum og öryrkjum til hamingju með þann árangur sem þeir hafa náð. Ég tel að við getum öll haft sóma af.



[22:52]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er langt liðið fram á kvöld. En ég ætla að fara nokkrum orðum um það mál sem hér er til umræðu, breytingar á almannatryggingalögum og málefnum aldraðra. Þetta er stórt mál og mikið réttlætismál.

Ég ætla ekkert að draga úr því sem ég sagði við 1. umr. málsins að þetta eru vissulega kjarabætur. Það eru mörg atriði sem eru í réttlætisátt og samkvæmt þeim kröfum sem bæði aldraðir og öryrkjar hafa lagt fram og samkvæmt þeirri hugsun sem núna ríkir í þjóðfélaginu, þ.e. að hætta að líta á öryrkja og aldraða sem bótaþega en hugsa fremur til þeirra og hafa löggjöfina þannig að aldraðir og öryrkjar geti notið sín í samfélaginu og að við hin fáum notið þeirra krafta sem þeir hafa möguleika á að leggja fram til samfélagsins.

Því miður hefur ástandið verið þannig í kjörum og aðbúnaði þessa fólks að einn þriðji aldraðra, um 30%, hefur búið við það knöpp kjör að þeir hafa verið hnepptir í fátæktargildru. Það er staðreynd. Kerfið hefur því miður stuðlað að því, bæði með lágum bótum og ekki síður með því innbyggða kerfi sem eru tekjutryggingar við hinar lágu bætur, þannig að það er næstum því komin króna á móti krónu. Ef aldraður eða öryrki hefur unnið sér inn einhverjar tekjur til að reyna að bæta hag sinn þá hafa skerðingarnar verið það miklar að það hefur ekki borgað sig fyrir viðkomandi að fara út á vinnumarkaðinn eða að vinna heima og reyna að fá einhverjar tekjur.

Þetta sýndi sig mjög vel þegar stórfyrirtæki hér í bæ, mig minnir að það hafi verið Húsasmiðjan, ætlaði að nýta sér krafta þeirra sem voru í eldri kantinum og fékk hóp eldri starfsmanna til að koma og vinna í versluninni. Þetta var þeim sem komu í verslunina til mikillar ánægju og bættrar þjónustu því þetta var fólk sem hafði þekkingu og kunnáttu á því sem verslunin hafði fram að bjóða. En því miður entust þessir einstaklingar ekki lengi vegna þess að það lá við að þeir borguðu með sér. Launin voru svo lág að þetta var sjálfboðavinna og þetta þekkjum við. Þannig er nú staðan.

En það er ekki að ástæðulausu sem þeim kjarabótum sem nú liggja fyrir hefur verið náð. Af því hér var vísað til þess samkomulags sem fulltrúar Félags eldri borgara og fulltrúar ríkisvaldsins gerðu síðastliðið sumar, þá var það með þá samninga eins og aðra samninga, að á einhverjum tímapunkti komast aðilar ekki lengra í samningagerðinni. Úrslitastundin rennur upp.

Það er alveg ljóst að þeir einstaklingar sem voru í samninganefndinni fyrir hönd Landssambands eldri borgara voru mjög ósáttir við að ná ekki lengra í kjarabótum en kom fram í samkomulaginu. En aftur á móti hafði náðst nokkuð góður vilji og yfirlýsingar um frekari uppbyggingu í hjúkrunar- og þjónustuþáttum fyrir aldraða og öryrkja. Þannig að svona enduðu þessir samningar. Aldraðir gátu ekki farið lengra með niðurstöður samkomulagsins. En það gat ríkisstjórnin. Og það gerði hún í tvígang eftir að frumvarpið var lagt fram.

Þremur dögum eftir að mælt var fyrir frumvarpinu gerðu hæstv. heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra með sér samkomulag og sáu sig um hönd og voru ekki að vísa tekjuskerðingunni nokkur ár fram í tímann, þrjú ár fram í tímann, heldur áttuðu sig á því að frítekjumarkið varð að koma nú þegar um næstu áramót ef þessir flokkar ætluðu að fara inn í næstu kosningar og telja sig hafa möguleika á að fá atkvæði þess fjölda aldraðra og öryrkja sem vissulega fylgdust með hvernig ríkisstjórnarflokkarnir unnu úr þessu máli.

Sem betur fer hefur líka komið fram viðurkenning á því að samkomulagið gekk ekki nógu langt til þess að ná fram réttmætum bótum og eðlilegum bótum, rétt eins og aldraðir höfðu bent á.

Ég vil því bara vísa til nefndarálits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar og þeirra breytingartillagna sem minni hlutinn gerir. Þar byggjum við á tillögu, velferðartillögu, sem var lögð fram í upphafi þings um nýja hugsun, nýjan grunn í lífeyrissjóðsmálum. Á því viljum við byggja. Á því byggja breytingartillögurnar. Við munum að sjálfsögðu taka undir þær tillögur sem hafa komið fram hjá meiri hlutanum sem eru til enn frekari bóta. Auðvitað styðjum við allt sem er í réttlætisátt.

En rétt eins og aldraðir sögðu, það var ekki gengið nógu langt. Ríkisstjórnin hefur viðurkennt það og komið hálfa leið. Við viljum ganga það skref lengra. Þó að vísað sé til að 29 milljarðar eigi að fara í þennan málaflokk á næstu fjórum árum þá segir það okkur eingöngu hversu aldraðir og öryrkjar hafa dregist mikið aftur úr í launum og kjörum af hendi ríkisstjórnarinnar, með bótum frá Tryggingastofnun.

Þetta segir okkur eingöngu hversu aftarlega þessir einstaklingar eru orðnir hvað varðar laun og kjör. Það er hægt að veifa hérna háum prósentum, miklum hækkunum í prósentum þegar að grunnurinn er eins lágur eins og hann var.



[23:00]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla fullyrðingu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um að kjör aldraðra og öryrkja hafi setið eftir. Það er ekki rétt. Mörg dæmi sýna að það er ekki rétt. Þau voru reyndar afskaplega slæm 1995 og máttu gjarnan batna, en þau hafa ekki setið eftir.

Meginbreytingin í þessum tillögum og hugmyndum er að 60% af launum öryrkja og aldraðra koma til skerðingar. Það þýðir að í staðinn fyrir 45% skerðingu er skerðingin 24%. Skerðingin lækkar úr 45% niður í 24% og eftir eitt ár, árið 2008, fer hún niður í 23%.

Það þýðir að maður sem er með 200 þús. kr. launatekjur á mánuði, aldraður eða öryrki — nú gildir sama reglan — er skertur um 24% af þessum 200 þús. kr., þ.e. um 48 þús. kr.

Bæturnar sem hann hafði eru 128 þús. þannig að hann fær til viðbótar við 200 þús. kr. tekjurnar sínar 80 þús. kr. Hann er sem sagt með 280 þús. kr. á mánuði ef hann er einhleypur. Þetta er aðal- og meginbreytingin. Þetta mun hvetja fólk til að vinna umfram það sem verið hefur.

Þá myndast nýr vandi, vandi þeirra öryrkja og aldraðra sem ekki geta unnið. Munurinn á milli þeirra og öryrkja og aldraðra sem geta unnið, herra forseti, verður mjög áberandi, líka munurinn á milli aldraðra og öryrkja sem vinna við hlið annars manns með sömu laun sem ekki er aldraður eða öryrki. Ef allir þrír eru með 200 þús. kr. á mánuði er öryrkinn og hinn aldraði með 80 þús. kr. meira á mánuði. Það er nýr veruleiki sem almenningur þarf að sætta sig við og ég geri ráð fyrir að hann sé alveg tilbúinn til þess.

Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Hann varðar séreignarsparnað og uppsafnaðar fjármagnstekjur fólks sem er t.d. að selja spariskírteini sem eru búin að standa á vöxtum í 10 ár. Það er mjög auðvelt fyrir þetta fólk ef það hefur þekkingu og ráðgjöf að innleysa hvort tveggja ári áður en það fer á lífeyri, bæði séreignarsparnaðinn og langtímafjármagnstekjurnar, en þeir sem ekki vita og ekki kunna og ekki vilja geta lent illa í því. Þess vegna hef ég samið frumvarp sem verður væntanlega dreift á morgun um það að séreignarsparnaður komi ekki til frádráttar frekar en annar sparnaður sem menn stunda í bankakerfinu sem er frjáls — séreignarsparnaðurinn er frjáls — og heldur ekki langtímafjármagnstekjur, fjármagnstekjur sem er aflað til áður en menn fóru á lífeyri. Það er til að mismuna ekki þeim sem hafa vit og þekkingu og hinum sem hafa hana ekki. Að öðru leyti er ég mjög ánægður með þetta frumvarp, styð það eindregið og tel það mikla réttarbót.



[23:04]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara örstutt andsvar, ég nenni eiginlega ekki að munnhöggvast hérna við hv. þm. Pétur Blöndal um kjör lífeyrisþega. Ég bendi honum bara á að lesa Morgunblaðið í morgun. Þar er t.d. grein frá Ólafi Ólafssyni, formanni Landssambands eldri borgara, og Einari Árnasyni, hagfræðingi Landssambands eldri borgara, þar sem þeir lýsa ójöfnuðinum sem hefur viðgengist hjá ríkisstjórninni og hvernig lífeyrisþegar hafa komið út úr þeirri stjórnarstefnu sem hefur verið hér í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Hann ætti að geta lesið þetta. Ég ætla ekkert að lesa hér upp úr greinum en það er fljótséð. Þar er einmitt vitnað í þessar úttektir Stefáns Ólafssonar og ný gögn frá Hagstofu Íslands sem hv. þingmaður getur líka fundið á heimasíðu Hagstofunnar eða á heimasíðu Stefáns Ólafssonar.

Annars ætla ég ekki að hafa þetta andsvar lengra en bendi hv. þingmanni á að lesa þetta og kynna sér hver staða lífeyrisþega er eftir tæplega 12 ára valdasetu ríkisstjórnarflokkanna og 16 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins hér á landi.



[23:06]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sannar ekki neitt, þetta sannar ekki neitt. Hv. þingmaður verður að finna orðum sínum betri stað en greinar í blöðum sem byggja á rannsóknum sem hafa verið dregnar í efa, rannsóknum Stefáns Ólafssonar þar sem hann ber saman tekjur yfir 10 ár og tekjubil við gjörbreyttar þjóðfélagsaðstæður.

Útlendingar eru núna að fylla neðsta tekjubilið. Námsmenn fylla neðsta tekjubilið sem þeir gerðu ekki fyrir 10 árum. Þetta er engan veginn sambærilegt. Og fjármagnstekjur voru ekki til fyrir 10 árum.

Það er ekki hægt að bera saman þjóðfélag sem hefur breyst svona geysilega mikið, bæði með útlendinga og námsmenn og það hafa orðið kerfisbreytingar í skattkerfinu. Þetta er ekki sambærilegt.

Ég bið hv. þingmann að sýna með einstöku dæmi, frú forseti, að t.d. kjör þeirra sem hafa grunnlífeyri hafi skerst eða kjör þeirra sem eru einstæðir og hafa engar tekjur eins og örorkulífeyrisþegar með 75% örorku.

Ég skora á hv. þingmann að sýna fram á að þær bætur hafi ekki hækkað umfram allt annað í þjóðfélaginu nema lægstu laun sem sem betur fer hefur tekist að hækka enn frekar. (Gripið fram í.)



[23:07]
Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég svara bara í sömu mynt. Orð hv. þm. Péturs Blöndals sanna ekki neitt. Staðhæfingar hans hafa oft verið dregnar í efa, sérstaklega þegar lífeyrisþegar eiga í hlut.



[23:08]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, enda er búið að fara ágætlega yfir málið. Ég ætla rétt að draga fram í lokin í meginatriðum um hvað þessi mál snúast, annars vegar að því er snýr að okkur í stjórnarandstöðunni, hvað við höfum sett fram og hvað við höfum viljað gera, og hins vegar hvað ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera í meginatriðum.

Í fyrsta lagi höfum við lagt það til í stjórnarandstöðunni að hækka tekjutryggingar aldraðra um 6 þús. kr. og hið sama fyrir öryrkja umfram það sem ríkisstjórnin hefur lagt til, þ.e. fara með þessar bætur upp í 85 þús. kr. fyrir aldraða og 86 þús. fyrir öryrkja í stað 78.500 fyrir aldraða og 79.600 þús. fyrir öryrkja eins og er í tillögu ríkisstjórnarinnar.

Við höfum lagt til að farið yrði með skerðingarregluna strax niður í 35% úr 45%, en ríkisstjórnin ætlar sér að fara með hana niður í 38,35% ef ég er með þá tölu rétta í kollinum sem ég held að sé. Við höfum lagt til — og þar greinir okkur náttúrlega á — að frítekjumark vegna atvinnutekna verði 75 þús. kr. á mánuði, þ.e. að fólk geti verið í hálfu starfi úti í þjóðfélaginu svona um það bil án þess að fá skerðingar hjá Tryggingastofnun en eftir sem áður greiða eldri borgarar tekjuskatta eins og við öll. Ríkisstjórnin leggur til 25 þús. kr. frítekjumark á mánuði. Þarna munar á 300 þús. kr. sem ríkisstjórnin leggur til og 900 þús. kr. sem stjórnarandstaðan leggur til.

Við höfum einnig lagt til að vasapeningar hækki um 50%, þ.e. ráðstöfunarfé þegar dvalið er á stofnunum, og við höfum lagt til að gagnvart þeim sem eru á stofnunum verði frítekjumark hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr. á mánuði.

Síðan höfum við lagt til að tekjutengingar milli maka og sambúðarfólks falli algerlega niður um næstu áramót en ríkisstjórnin hyggst taka þau skref í áföngum á nokkrum árum.

Síðan höfum við lagt til að örorkulífeyrisþegi sem verður eldri borgari haldi örorkubótum sínum, þ.e. sérstakri aldurstengdri örorkuuppbót, þótt hann færist af örorkubótum yfir á ellilífeyrinn.

Þetta er í megindráttum, hæstv. forseti, það sem skilur tillögurnar að. Við höfum svo sem farið mikið í gegnum þetta í fjárlagaumræðunni og ég held að ekki þurfi að bæta miklu við það sem ég hef þegar sagt. Hér er dregin upp meginlínan í því sem ber á milli. Auk þess er auðvitað lagt upp með það í tillögum okkar að gerð verði sérstök könnun á neyslu þessara hópa og að því stefnt í framtíðinni að fólk sem ekki hefur annað sér til framfæris en lágmarkstekjur Tryggingastofnunar komist af í þjóðfélaginu. Við höfum sem sagt svarað því játandi að þannig eigi tryggingakerfið að verða þegar við teljum að það sé orðið viðunandi að lokum að fólk komist ævinlega af á lágmarksbótunum ef það hefur ekki annað sér til framfærslu.

Þarna held ég að skarist meginlínur milli stjórnarandstöðunnar annars vegar og ríkisstjórnarflokkanna hins vegar og þurfum við ekki að hafa mörg orð um það. Ég geri ráð fyrir því að þegar greidd verða atkvæði um þessar tillögur í fyrramálið muni ríkisstjórnarflokkarnir kolfella eins og venjulega allt sem við leggjum til í stjórnarandstöðunni. Það er hefðin sem hefur verið á hv. þingi.

Það verður síðan kjósenda í vor að meta hvort þeir vilja taka stöðu með því sem við höfum lagt til í stjórnarandstöðunni sem stefnumótun og fylkja sér um hana, að eldri borgarar og öryrkjar komist af í þjóðfélagi okkar eða hvort það á áfram að vera þannig að fólk hafi ekki nægjanlegar tekjur sér til framfærslu. Þar inn í spilar líka skattkerfið sem við væntanlega ræðum á morgun undir annarri tillögu, hæstv. forseti.