133. löggjafarþing — 47. fundur
 9. desember 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

Sundabraut – ástandið í Palestínu.

[09:31]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna nýrrar skýrslu um Sundabraut og Sundagöng og vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með það hvernig þau mál eru að þróast. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég ræði þessi mál hér á þessum vettvangi. Ég var t.d. upphafsmaður að utandagskrárumræðu um tengingu Sundabrautar við Grafarvog í febrúar á þessu ári þar sem samgönguráðherra opnaði á breyttar vegtengingar við Grafarvog við lítinn fögnuð sumra þingmanna Samfylkingarinnar sem fannst fráleitt að ræða þetta út frá þeim forsendum að hér væri um að ræða tengingu við einhvern botnlanga í Reykjavík, eins og það var orðað.

Sem betur fer hlustaði samgönguráðherra ekki á neinar slíkar úrtölur. Þetta mál hefur verið sett í þann farveg að starfandi hefur verið vinnuhópur með Reykjavíkurborg, íbúasamtökum Grafarvogs og Laugardals, Faxaflóahöfnum og Vegagerðinni og hér liggja fyrir, ef ég skil málið rétt, tveir valkostir, að vísu ekki réttur valkostur miðað við hvað var á netinu sem snýr að leið 3. Síðan er búið að opna á, sem mér líst mjög vel á og vonast til að góð sátt geti orðið um, jarðgangaleið sem hefur verið samþykkt að setja í umhverfismat.

Ég lýsi yfir ánægju minni með það hvernig þetta mikilvæga mál er að þróast, er ánægður með þátt Reykjavíkurborgar, íbúasamtakanna og ráðherra í því máli. Öllum ætti að vera ljóst hve mikilvægt hagsmunamál þetta er fyrir alla landsmenn, ekki bara Reykvíkinga, að við klárum Sundabraut eða Sundagöng, og ef góð sátt næst um hvaða leið verður farin er til mikils unnið. Ég hvet því bara aðila til að halda áfram þessu mikilvæga verkefni.



[09:33]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki við öðru að búast en að hv. þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna fylgist grannt með því sem er að gerast í samgöngumálum í næsta nágrenni borgarinnar. Fyrirhuguð Sundabraut er einn af þessum mikilvægu leggjum út frá höfuðborgarsvæðinu sem skiptir mjög miklu máli að verði afkastamikil braut, vel undirbúin og vel framkvæmd.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni liggur nú fyrir skýrsla sem var unnin í framhaldi af því að umhverfisráðherra úrskurðaði um leiðir og úrskurðaði um svokallaða innri leið. Þeim úrskurði fylgdi að umfangsmikið samráð skyldi haft við íbúa og sú vinna hefur verið í gangi á vettvangi samráðsnefndar Vegagerðar og borgarinnar. Niðurstaða er nú sú að sérfræðingar hafa litið á þann kost að jarðgöng yrðu fyrir valinu og kæmu vel til greina.

Vegagerðin hefur í samráði við borgina ákveðið að setja jarðgangakostinn í umhverfismat, ég tel að það sé hárrétt ákvörðun, og að jarðgangakosturinn verði borinn saman við svokallaða innri leið breytta þannig að hún liggi út fyrir Hamarinn og að Hallsvegurinn yrði færður til norðurs til tengingar. Þannig fást samanburðarniðurstöður sem geta þá sýnt okkur svo að ekki fari á milli mála hver sé raunverulega besti kosturinn hvað þetta varðar, tenging milli borgarinnar og norður á bóginn til framtíðar.



[09:35]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil ræða hér um allt annað málefni undir liðnum um störf þingsins. Ég vil svara kalli hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna sem hafa sent út neyðarkall og beðið þjóðir heims um jafnvirði 30 milljarða kr. vegna matarskorts og fátæktar á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna.

Ísraelsstjórn hefur hafnað tillögum um nýjan friðarsamning. Grunnurinn að friði er að komið verði á réttlæti í Ísrael og Palestínu og ég kalla eftir virkum stuðningi ríkisstjórnar Íslands við að stuðla að þessum friði, að styrkja Palestínumenn til að ráða yfir eigin landi og njóta þar mannréttinda. Það hefur ekki verið um langan tíma og ástandið versnaði til muna eftir síðustu þingkosningar í Palestínu þegar Hamas-samtökin komust þar til valda og þjóðir hins vestræna heims með Ísrael í broddi fylkingar hafa sett á viðskiptabann og viðskiptaþvinganir enn frekar en verið hafa þannig að palestínska þjóðin er að svelta fyrir framan augun á okkur.

Hún sveltur og hún líður mikinn skort. Það er ekki lengur hægt að þola það ástand sem er á þessu svæði og okkur ber skylda til að bregðast við með því að svara þessu ákalli. Til að koma í veg fyrir að heil þjóð verði murkuð niður fyrir framan augun á okkur þurfum við að stuðla að því að Ísraelsmenn láti af þeim yfirgangi sem þeir hafa komist upp með á landi Palestínumanna. (Forseti hringir.) Ég minni á tvö þingmál um stuðning við Palestínumenn, að koma á færanlegri sjúkrastöð og að íslenska ríkisstjórnin fordæmi múrinn sem Ísraelsmenn eru að reisa til varnar sínu eigin svæði.



[09:38]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að nú hefur komið í ljós að jarðgangalausnin undir Sundin er svo hentug sem raun ber vitni. Ég rifja það upp að það var Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi sem barðist fyrir því að göngin yrðu sett í umhverfismat. Ég tek alveg undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þetta eru jákvæðar fréttir fyrir Reykvíkinga. Hins vegar verður það að koma hér fram þegar hann heldur því fram að þingmenn Samfylkingarinnar hafi lagst gegn þessu að ég hef ítrekað talað fyrir gangalausn varðandi þennan kafla Sundabrautarinnar.

Það þarf sömuleiðis að koma fram að það er hrein blekking hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þegar hann ber sér á brjóst, reigir sig eins og hani og þykist hafa verið sérstakur fylgismaður þessarar lausnar. Það kom fram í sjónvarpsþætti í annarri viku maí í vor að þessi hv. borgarfulltrúi var á móti gangalausninni vegna þess að hann taldi að umhverfismatið sem göngin þyrftu að fara í yrði til þess að tefja brautina. Það þýðir ekkert fyrir þennan hv. þingmann að koma hingað og reigja sig og reyna að halda því fram að þetta sé eitthvað sérstaklega honum að þakka og frumkvæði hans þegar þessi ágæti þingmaður lagðist gegn því. Það var Dagur B. Eggertsson og hann hlaut fyrir það skammir af hálfu þessa hv. borgarfulltrúa og þingmanns.

Hins vegar skal því líka til haga haldið að þá var annað uppi hjá borgarstjóranum í Reykjavík sem nú er, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, sem tók undir þetta og sagði að mætti skoða.

Frú forseti. Nú hefur komið í ljós að gangalausnin er miklu ódýrari en menn væntu áður. Hún mun líka leiða til þess að áferðin á yfirborði verður miklu betri vegna þess að það þarf ekki sömu tengimannvirki. Lífríki í Sundunum er líka betur borgið og að öllu leyti frá sjónarhóli umhverfisverndar er þetta betra. Ég skora á hæstv. samgönguráðherra að fara þessa leið og hlusta ekki á úrtöluraddir innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna.



[09:40]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp og fagna þeim niðurstöðum sem fram koma í skýrslunni um jarðgöng til þess að þvera Kleppsvíkina og leggja Sundabraut allt frá Laugarnesi og yfir á Kjalarnesið. Það eru mjög mikilvægar niðurstöður sem fást út úr þessari skýrslu og ég minni á að hún er afurð víðtæks samráðsferlis sem ákveðið var að fara í í vor að ósk m.a. íbúasamtakanna í Grafarvogi og Laugarnesi. Það voru höfð uppi um það stór orð hér á þingi og eins í fjölmiðlum að þetta samráðsferli væri töf á framkvæmdum, það væri verið að tefja framkvæmdir.

Niðurstaðan er auðvitað sú, eins og menn vita sem á annað borða vilja ástunda eitthvað sem heita samráðsstjórnmál, að samráð skilar skynsamlegri og góðri niðurstöðu. Það er að koma í ljós í þessu máli. Ég vona að jarðgangaleiðin sé að verða viðtekin skoðun núna, það verði hægt að fallast á hana og mér heyrist það af hálfu hæstv. samgönguráðherra.

Ég minni á það að borgaryfirvöld stóðu árum saman í hálfgerðum slag, getum við sagt, við yfirvöld samgöngumála vegna þess að yfirvöld samgöngumála kröfðust þess ævinlega að farin yrði ódýrasta leiðin með Sundabraut. Ef ekki væri farin ódýrasta leiðin ætti borgin að greiða mismuninn, ef hún veldi aðra leið. Núna vona ég að við stöndum ekki andspænis þessu og að samgönguyfirvöld séu tilbúin til að fjármagna Sundabrautina alla leið í jarðgöngum þó að hún sé 4 milljörðum dýrari en innri leiðin, sem svo er kölluð.

Ég vil aðeins vegna umræðunnar um Palestínu taka undir með hv. þm. Þuríði Backman í því máli. Ég vil leyfa mér að bæta aðeins við og skora á ríkisstjórnina að taka þetta mál nú fyrir því að palestínska þjóðin sveltur núna heilu hungri og verja fjárframlagi (Forseti hringir.) til palestínsku þjóðarinnar í aðdraganda jólahátíðar.



[09:42]
Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil helst komast hjá því að taka þátt í pólitískum slag Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins um þessi mál. Ég vek hins vegar (Gripið fram í.) athygli á því að Sundabraut var forsenda byggðar í Grafarvogi. Það eru líklega komin 25 ár síðan menn töluðu um Sundabraut fyrst. Það er þannig, hæstv. forseti, að það hefur bara nákvæmlega ekkert gerst í 25 ár. Ég hef ítrekað rætt þessi mál á Alþingi og lagt fram fyrirspurnir til hæstv. samgönguráðherra, síðast núna í nóvembermánuði, um hvað liði undirbúningi þessarar framkvæmdar.

Ég vek líka athygli í þessu sambandi á að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem var með skýra stefnu um lagningu Sundabrautar við síðustu borgarstjórnarkosningar. Það liggur fyrir að Framsóknarflokkurinn vill fara ytri leið, leggja Sundabraut ytri leiðina, og nú liggur loksins fyrir (Gripið fram í.) að menn ætla að kanna umhverfisáhrif af jarðgöngum á þessari leið. (Gripið fram í: … botn?) Þetta hefði auðvitað átt að gerast fyrir mörgum árum og það er sorglegt að þessi kostur hafi ekki verið skoðaður um leið og aðrir kostir við lagningu Sundabrautar.

Það er rétt, hæstv. forseti, að Framsóknarflokkurinn vildi leggja botngöng fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Af hverju var það? Það var vegna þess að mat á umhverfisáhrifum á þeirri leið lá fyrir og það var hægt að fara í framkvæmdir strax. Það er auðvitað það sem þarf að gerast, það þarf að fara strax í framkvæmdir.



[09:44]
Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu sem framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar og Vegagerðin létu gera og kynntu íbúum Grafarvogs og Laugardals í gær um nýja jarðgangalausn fyrir Sundabraut. Fram kom að hæstv. samgönguráðherra hefur ákveðið að þessi framkvæmd skuli fara í umhverfismat.

Auðvitað hafa nokkrir rætt um jarðagangalausnir í þessu sambandi og þar á meðal framsóknarmenn. Það er rétt að við töluðum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fyrir botngöngum, einmitt af þeim ástæðum sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson kom hér inn á, að sú leið hafði farið í umhverfismat og er það auðvitað jarðgangalausn. Þess vegna fagna ég mjög að sú leið skuli hafa verið skoðuð betur sem varaborgarfulltrúi okkar hér í borginni á sínum tíma, Óskar Bergsson, talaði fyrir. Á þeim tíma var talið að það mundi flækja málið og fresta því og þess vegna var ákveðið að setja hinar tvær leiðirnar í umhverfismat.

Ég held að þessi leið sé mjög farsæl. Þarna hefur náðst samstaða meðal íbúa og þeirra aðila sem að framkvæmdinni koma. Ríkisstjórnin ákvað á sínum tíma að hluta af söluandvirði Símans skyldi varið til þessarar mikilvægu samgöngubótar fyrir Reykvíkinga, 8 milljörðum kr. Einnig hefur komið fram vilji hjá Faxaflóahöfnum og fleiri aðilum að koma að framkvæmd og fjármögnun þessarar mikilvægu samgöngubótar. Nú ríður á að umhverfismatið gangi vel og framkvæmdaáætlanir svo að við getum farið að fara í aðgerðir. Hér erum við að ræða eina mestu samgöngubót fyrir Reykvíkinga í háa herrans tíð. Ég heiti á stuðning annarra þingmanna annarra kjördæma í þessu gríðarlega mikilvæga máli. Íbúar Reykjavíkur eiga það skilið.



[09:46]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sundabrautin er mjög mikilvægt og stórt verkefni í samgöngumálum, þetta er ekki einkamál Reykvíkinga, heldur varðar þetta mál landsmenn alla. Ég hef áður talað fyrir því að þessi leið yrði valin, þ.e. svokallaða ytri leið, og það yrði gert með jarðgöngum. Ég tel að það sé langskynsamlegasta leiðin og fagna því núna mjög að hún eigi að fara í umhverfismat. Að sjálfsögðu vonum við þá að framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst. Við höfum mjög góða reynslu af göngum á Íslandi, m.a. neðansjávargöngum, og þar nefni ég Hvalfjarðargöngin.

Hvað varðar aðrar hugmyndir þá líst mér ekki á þær. Mér líst ekki á innri leiðina og mér líst heldur ekki á að lögð verði svokölluð botngöng, að fara með þetta í einhvern stokk er engin lausn. Jarðgöng þarna undir eru eina lausnin sem eitthvert vit er í og þess vegna hljótum við að fagna þessu mjög.

Ég vara hins vegar við því að stjórnmálaflokkar fari að gera þetta mikla verkefni að einhvers konar bitbeini sín á milli, fari að metast um það hver eigi heiðurinn af þessu eða hver eigi að eiga heiðurinn af þessu. Við þurfum einfaldlega að vera samtaka um að einhenda okkur í þetta stóra verkefni. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni fyrir okkur öll, íslensku þjóðina.

Svo er annað, virðulegi forseti, sem eru málefni Palestínu. Það er alveg rétt sem bent hefur verið á, þar ríkir hörmulegt neyðarástand nú um stundir. Sérstaklega er ástandið slæmt á Gaza-ströndinni þar sem hundruð óbreyttra borgara hafa fallið á undanförnum mánuðum, þar á meðal mörg börn. Rafmagnið hefur verið tekið af þessu svæði stóran hluta sólarhringsins, fólk býr við mikla neyð og mikinn skort því að þarna hefur miklum fjölda fólks hreinlega verið haldið í herkví um mjög langt skeið. Við Íslendingar hljótum að nota hvert tækifæri sem við fáum, bæði innan lands og að sjálfsögðu einnig á alþjóðavettvangi, til að mótmæla þessu og að sjálfsögðu ættum við að sameinast um að reyna að rétta þessu vesalings fólki einhverja hjálparhönd. Neyðin (Forseti hringir.) er mjög mikil.



[09:48]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að hér sé talað um að fara ytri leiðina og er ágætt að rifja upp að símaféð svokallaða, 8 milljarðarnir, var skilyrt við innri leiðina. Hvað varðar botngöng Framsóknarflokksins frá síðustu kosningum, brutu þau í bága við Evrópureglur og voru aldrei ætluð til frambúðar. Það er líka fagnaðarefni að ekki er verið að tala um botngangaleið Framsóknarflokksins sem var óboðleg leið og hefði aldrei verið fær.

Talandi um samgönguæðarnar til og frá Reykjavík er ágætt að nefna hér að í gær veitti hæstv. forsætisráðherra, að viðstöddum hæstv. samgönguráðherra og þingmönnum Suðurkjördæmis, viðtöku 25 þúsund undirskriftum íbúa héðan og þaðan af Suðurlandi og Íslandi öllu þar sem skorað var á samgönguyfirvöld að flýta tvöföldun Suðurlandsvegar og ráðast í tafarlausa tvöföldun á veginum. Þar er viðvarandi hættuástand og gífurlegur umferðarþungi og margt sem kallar á þessa tvöföldun. Það væri fróðlegt að fá viðbrögð hæstv. samgönguráðherra að mótteknum þessum 25 þúsund undirskriftum.

Hér er einnig rætt um ástandið í Palestínu. Þar eru framin hörmuleg mannréttindabrot, þar er hafður uppi níðingsháttur í garð Palestínumanna og það er sjálfsagt og rétt að ríkisstjórn Íslands og Alþingi lýsi yfir eindregnum stuðningi við Palestínu þar sem morð eru framin hvern dag, þar ríkir óöld. Þaðan berst núna neyðarkall, þar er hungur og hörmungar og sjálfsagt mál að ríkisstjórn Íslands lýsi samstöðu með þessari þjáðu þjóð. Því er fagnaðarefni að það mál var tekið hér upp í dag og minnst á það við þinglok að þar eru framin níðingsleg mannréttindabrot á hverjum degi. Okkur ber að standa með þessari þjáðu þjóð.



[09:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Þetta er búin að vera ansi góð umræða og þá er sérstaklega athyglisverð ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem fór fram á það að ákveðnum mönnum í borgarstjórn yrði hrósað, hann gerðist reyndar ekki svo ósvífinn að biðja um að honum sjálfum yrði hrósað enda engin ástæða til. Hann eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sem enginn treystir, eins og formaður þess flokks hefur farið ágætlega yfir, hefur barist mjög gegn því að hér sé rætt um borgarmálefni og samgöngumál í Reykjavíkurborg sem þekkt er orðið.

Ef við förum aðeins yfir hvað sá flokkur er búinn að gera hvað varðar Sundabrautina þá var þessi leið tekin út 1998–1999 og ekki sett í umhverfismat. Borgarfulltrúinn Dagur B. Eggertsson lagði mikla áherslu á að lögð yrði einbreið braut inn og út úr borginni, að aðeins einn bíll væri keyrður eftir henni, og var þetta eitt af kosninga málunum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Á meðan hafa aðrir, eins og borgarfulltrúinn Stefán Jón Hafstein og flestir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar í gegnum tíðina, barist hatrammlega fyrir hábrú sem enginn talar um núna.

Aðalatriði málsins er að þetta er komið í mjög góðan farveg og það er mjög ánægjulegt. Ég hrósa hæstv. samgönguráðherra fyrir þátt hans í málinu. Það er augljóst að nýr meiri hluti er kominn til valda í Reykjavíkurborg sem lætur hlutina gerast. Það er ánægjulegt að sjá að komin er góð samstaða meðal íbúasamtaka bæði Grafarvog og Laugarneshverfis og fleiri aðila þar sem menn bera núna saman þessa valkosti. Þetta er gríðarlega mikilvægt mannvirki og það er gríðarlega mikilvægt að við sjáum fyrir endann á þessu máli og séum ekki í endalausum samræðum um eitthvað sem skiptir litlu máli. Það þarf sannarlega að hafa samráð en það þarf líka að framkvæma, ekki bara að hjala um hlutina. Ég sé fyrir mér að hér sé komin góð samstaða, a.m.k. í þinginu og (Forseti hringir.) vonandi sjáum við meiri umræðu um samgöngumál Reykjavíkurborgar á þessum vettvangi og vonandi sjáum við Sundagöng sem allra fyrst.