133. löggjafarþing — 48. fundur
 9. desember 2006.
almannatryggingar og málefni aldraðra, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 330. mál (lífeyrisgreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega o.fl.). — Þskj. 647.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:06]

[11:55]
Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð og stjórnarandstaðan öll mun greiða þessu frumvarpi fullan stuðning þegar kemur að lokaatkvæðagreiðslu og það er vegna þess að við tökum undir orð aldraðra og öryrkja um að þetta sé þó spor í rétta átt.

Eins og við höfum greitt atkvæði um fyrr í morgun vildum við, stjórnarandstaðan, ganga lengra og láta bæði hækkanir á lífeyrisgreiðslum og eins að falla frá skerðingarákvæðum taka gildi strax um næstu áramót. Við náðum því ekki fram en við styðjum hvert eitt spor sem tekið er til styrkingar og til bóta fyrir aldraða og öryrkja og við munum greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar.



[11:56]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fyrsta málið sem stjórnarandstaðan flutti sameiginlega á þingi þegar þing kom saman í haust laut að réttarstöðu aldraðra og öryrkja og fól í sér verulegar bætur á kjörum þeirra og verulega réttarbót fyrir aldraða. Það frumvarp hefur ekki náð fram að ganga en það hefur þó haft þær afleiðingar að ríkisstjórnarflokkarnir hafa séð að sér í þessum málum og í sinni panikstjórnun sem einkennir þingstörfin við afgreiðslu fjárlaga á lokadögum þingsins fyrir jól hafa þeir gert nokkrar úrbætur á málefnum aldraðra sem endurspeglast í því frumvarpi sem hér er til 3. umr. og til afgreiðslu.

Vegna þess að þarna hafa náðst fram ákveðnar réttarbætur munum við greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar, við í Samfylkingunni eins og stjórnarandstaðan öll, en hljótum að minna á það um leið og við greiðum atkvæði að þessi ríkisstjórn sem hefur setið í 12 ár hefur bæði gengið verulega á Framkvæmdasjóð aldraðra og tekið fjármuni úr sjóðnum í önnur verkefni þótt örlitlum hluta þess hafi verið skilað í því frumvarpi sem varð að lögum hér með samþykkt þingsins áðan.

Það eru líka ákveðnar réttarbætur í þessu máli sem lúta að frítekjumarki og því að aðeins eru lagfærð þau áhrif sem tekjur maka hafa á lífeyrisþega en ríkisstjórnarflokkarnir höfðu áður greitt atkvæði gegn því að aldraðir og öryrkjar hefðu 70 þús. kr. frítekjumark á mánuði sem átti einmitt að verða hvatning til sjálfsbjargar fyrir þessa hópa. Þeir hafa líka greitt atkvæði gegn því að algjör aðskilnaður yrði fyrr á milli tekna maka og tekna lífeyrisþega sem átti að verða til þess, samkvæmt tillögum stjórnarandstöðunnar, að auðvelda öldruðum og öryrkjum að bæta kjör sín. Eins og málum er háttað núna er þessum hópum í rauninni refsað fyrir það að ganga í hjúskap.

Ríkisstjórnarflokkarnir sáu að sér á lokasprettinum og hafa aðeins lagfært stöðu þessara hópa og þess vegna greiðum við þessu atkvæði okkar.



[11:58]
Guðjón Ólafur Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er komið til lokaafgreiðslu frumvarp stjórnarflokkanna um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um aldraða. Þessar breytingar, eins og þær eru nú orðnar eftir meðhöndlun Alþingis og heilbrigðis- og trygginganefndar, munu hafa í för með sér stórkostlegar réttarbætur fyrir aldraða og öryrkja. (Gripið fram í: Segðu satt.) Það er sjálfsagt að segja satt, hæstv. forseti, og það er satt að á næstu fjórum árum munu framlög í þessa málaflokka aukast um 29 milljarða kr., 29 þús. millj. sem ríkisstjórnarflokkarnir verja í málefni aldraðra, til ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Þetta er gríðarleg hækkun frá því sem nú er og það er sérstakt ánægjuefni að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar skuli nú á lokasprettinum snúa af villu síns vegar og vilja leggja málefninu lið með stjórnarflokkunum. Ég býð þá velkomna í hópinn.



[12:00]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og komið hefur fram sameinaðist stjórnarandstaðan um það í haust að gera að forgangsverkefni að fara í umfangsmiklar umbætur á málefnum aldraðra og öryrkja innan ramma almannatryggingakerfisins og skila þeim umtalsverðum kjara- og réttarbótum strax um áramótin. Málatilbúnaður okkar ásamt mikilli og megnri óánægju þessara hópa í samfélaginu á undanförnum missirum átti án efa hlut í að ríkisstjórnin ákvað í meðförum mála í þinginu að gera nokkrar úrbætur umfram það sem áður hafði verið áformað og flýta gildistöku vissra þátta sem áttu að koma til framkvæmda síðar og allt aftur til ársins 2010.

Afgreiðsla þessa máls er ekki einangrað fyrirbæri. Hún tengist mikilli óánægju áðurnefndra hópa með það hvernig hlutur þeirra hefur verið fyrir borð borinn á undanförnum árum í svokölluðu góðæri. Ekki er um það deilt að aldraðir og öryrkjar eru langt frá því að hafa fengið sambærilegar lífskjarabætur og ýmsir aðrir hópar í samfélaginu á mörgum undangengnum árum.

Hér stærir ríkisstjórnin sig af afreksverkum en hefur haft til þess ærinn tíma að búa betur að þessum hópum. Hver er aðalrósin í hnappagatið að mati hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar, helsta talsmanns ríkisstjórnarinnar sem hér er orðinn, í atkvæðaskýringum? Jú, það er framreikningur á örlæti ríkisstjórnarinnar til ársins 2010. (Gripið fram í.) Hafðu nú hljóð augnablik, ungi maður — 29 milljarðar kr. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) eiga að koma umfram það sem hin skertu framlög undangenginna ára hefðu gefið til ársins 2010. Það má velta fyrir sér af hverju ríkisstjórnin fer ekki til 2015. Af hverju fer ekki hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson til 2015? (GÓJ: Samkomulagið var til 2010.) Þá fengi hann miklu hærri tölu. Það er frekar ódýrt, að ætla að slá sér upp á annarra kostnað. Í reynd er það ríkisstjórn og meiri hluti á Alþingi á komandi kjörtímabili sem kemur til með að þurfa að efna þennan samning, afla til þess tekna að standa undir útgjöldunum o.s.frv.

Hið góða er að samtök aldraðra og öryrkja, almenningur í landinu og kjósendur allir sjá alveg í gegnum þetta. Þeir vita alveg um hvað þetta snýst. Það hefur sjaldan reynst ríkisstjórnum, sem komnar eru að fótum fram, til góðs að lofa góðverkum á (Forseti hringir.) næsta kjörtímabili, hlutum sem þeir hafa ekki gert (Gripið fram í.) á meðan þeir höfðu völdin til þess.



[12:03]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við lokaafgreiðslu þessa máls liggur væntanlega skýrt fyrir fólki sem hefur fylgst með störfum Alþingis hvernig störfin hafa gengið fyrir sig á þessu hausti. Í upphafi þings lagði stjórnarandstaðan fram sameiginlega tillögu að því er varðaði lífeyrismál aldraðra og öryrkja og um bættan hag þeirra til framtíðar.

Stjórnarandstaðan kynnti þá stefnumótun við upphaf þings og mælti fyrir því í umræðunni í hv. þingi. Við afgreiðslu fjárlaga var málið flutt og óskað eftir fjárveitingum til að standa við þær tillögur sem stjórnarandstaðan lagði fram. Í öllu því ferli hafa umræðurnar skýrt málstað stjórnarandstöðunnar en eins og venjulega voru tillögur stjórnarandstöðunnar felldar af stjórnarmeirihlutanum. Það er vinnuregla hér á Alþingi og hefur verið síðustu fjögur ár. Á síðasta þingi felldu ríkisstjórnarflokkarnir 42 tillögur stjórnarandstöðunnar. Núna voru eingöngu fluttar tillögur að því er varðaði afkomu eldri borgara og öryrkja. Og ríkisstjórnin felldi þær allar. (Gripið fram í.) Þetta er afgreiðslumátinn á þingi.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að íslenska þjóðin hafi fylgst með málsmeðferðinni á haustdögum og fram að lokastörfum okkar fyrir jól. Niðurstaðan er sú að einhverjir áfangar hafa náðst og birtast í frumvarpinu sem hér er fjallað um. Þeir eru til bóta og menn eiga auðvitað að taka því eins og það er. En það er engan veginn það sem stjórnarandstaðan stefndi að. Við vildum ná meira fram. Þessi niðurskurður er heldur ekki þær umbætur sem eldri borgarar og öryrkjar hafa óskað eftir. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að eftir kosningarnar næsta vor fái núverandi stjórnarandstaða tækifæri til að fylgja eftir stefnumótun sinni í þessum málum.



Frv.  samþ. með 49 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ArnbS,  ÁÓÁ,  ÁMM,  ÁRJ,  ÁMöl,  BÁ,  BjörgvS,  DJ,  DrH,  EOK,  GHH,  GHj,  GÓJ,  GAK,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GÖg,  GÖrl,  HjÁ,  ISG,  JÁ,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  JónK,  JBjart,  KF,  KÓ,  KHG,  LB,  MÞH,  MS,  PHB,  RG,  SAÞ,  SKK,  SÞorg,  SF,  SJS,  SæS,  VF,  ÞES,  ÞórdS,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
14 þm. (BJJ,  EKG,  EMS,  HBl,  HHj,  KJúl,  KolH,  KLM,  MF,  MÁ,  SigurjÞ,  SP,  StB,  ÞKG) fjarstaddir.