133. löggjafarþing — 49. fundur
 9. desember 2006.
ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, 2. umræða.
stjfrv., 408. mál. — Þskj. 458, nál. 640, brtt. 641.

[17:25]
Frsm. allshn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar á þskj. 640 um frumvarp til laga um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti, Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Sigurð Val Ásbjörnsson, bæjarstjóra Sandgerðisbæjar, Oddnýju Harðardóttur, bæjarstjóra í Garði, Magnús Gunnarsson, formann stjórnar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., og Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins. Sameiginlegt erindi um málið barst frá bæjarstjórum Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Garðs og auk þess sérstaklega tilkynning frá Sandgerðisbæ.

Frumvarp þetta, sem er á þskj. 458, er lagt fram til að taka af öll tvímæli um réttarstöðu á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjamanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjalla frekar um efni frumvarpsins, enda hefur það verið gert við 1. umr. um málið. Að því er varðar skipulagsmál á svæðinu er í fyrsta lagi rétt að benda á 61. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, eins og gert er í áliti allsherjarnefndar en þar kemur fram að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn þessara mála og það er í samræmi við 2. mgr. 1. gr frumvarpsins. Nefndin telur rétt að í þessum efnum verði litið til nýskipaðrar byggingar- og skipulagsnefndar sveitarfélaganna þriggja á svæðinu, þ.e. Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Garðs. Á þetta var lögð sérstök áhersla af hálfu umræddra sveitarfélaga.

Allsherjarnefnd leggur til nokkrar smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem er að finna á þskj. 641. Auk mín standa að áliti allsherjarnefndar hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi en stendur ekki að álitinu. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson og Þórdís Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.



[17:28]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin og skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Langan tíma hefur tekið frá því að vitað var að herinn væri að fara og þangað til við erum komin hér með einhvers konar ramma um hvaða reglur og hvaða skipulag eigi að gilda á fyrrverandi varnarsvæðum.

Þegar farið er yfir frumvarpið eins og það liggur fyrir og eftir meðferð allsherjarnefndar kemur manni í hug orðið bráðabirgðalög einfaldlega vegna þess að þó að bráðabirgðalög hafi aðra merkingu en þessi lagasetning, þá er það sem hér er verið að gera aðgerðir til bráðabirgða og ekki er á nokkurn hátt reynt að nálgast það hversu lengi slíkt bráðabirgðaástand á að ríkja og hvenær hægt verði að koma á föstu ástandi þarna þannig að menn viti í hvaða stöðu þeir eru.

Reynsla okkar af því hvernig opinber stjórnvöld hafa unnið frá því að vitað var að herinn vildi fara, og ég tala ekki um frá því hann fór, er sú að það gengur afskaplega hægt. Það vita allir sem skoðað hafa málefni herstöðva sem lagðar hafa verið niður að tíminn skiptir afskaplega miklu máli. Það skiptir verulegu máli að bregðast fljótt við eftir að búið er að leggja niður herstöð og þau mannvirki hafa verið yfirgefin, að koma þeim mannvirkjum í borgaraleg not til að þau fari að þjóna einhverjum tilgangi og standi ekki auð og yfirgefin eins og mannvirkin á Keflavíkurflugvelli núna. Við getum nefnt dæmið sem gerðist um daginn. Við vitum að það gerðist vegna þess að mannvirkin voru í umhirðuleysi þegar talsvert vatnstjón varð vegna þess að í rauninni var enginn ábyrgur fyrir húsum eða mannvirkjum á svæðinu.

Það er langt síðan við vissum, okkur var sagt það af ríkisstjórninni og hæstv. ráðherrum, að stofna ætti sérstakt hlutafélag um þær eignir sem mundi taka þær yfir og reyna að koma þeim í arðbær borgaraleg not. En eins og ég sagði áðan tekur þetta afskaplega langan tíma. Nú er búið að stofna þróunarfélag um eignir á Keflavíkurflugvelli og í þessu lagafrumvarpi er heimild til að semja við umrætt félag um hvernig það yfirtekur eignir og svæði á Keflavíkurflugvelli. Ekki hefur maður séð í skýringum með frumvarpinu eða komist að því með því að lesa nefndarálit eða spyrja nefndarmenn í allsherjarnefnd hvað í raun og veru þetta félag á að gera, hvað þessi heimild þýðir. Hvað er það sem ráðherrarnir ætla að fela þessu félagi?

Ef maður les í gegnum lagafrumvarpið eins og það er er í raun allt opið. Þetta félag gæti yfirtekið öll mannvirki, allan rekstur þarna upp frá miðað við hvernig greinarnar hljóða í frumvarpinu. Nokkuð ljóst virðist vera að þessu svæði verður skipt í þrjú meginsvæði, þ.e. því verður skipt upp í flugvallarsvæði, öryggissvæði og svæði sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. á að hafa umsýslu með. Það segir þó í frumvarpinu að það megi fela Þróunarfélaginu að hafa umsýslu með eignum á öllum þessum þremur svæðum og því veit maður ekki í rauninni hvað það er sem ráðherrarnir eru að hugsa með því að fela slíkt þessu nýja félagi.

Maður veltir fyrir sér tímamörkunum. Hvenær mun þessu bráðabirgðaástandi linna og hvenær verður þarna komið umhverfi hvað varðar umráð, umsýslu, skipulag og annað til framtíðar? Engin leið er að lesa það út úr frumvarpinu og engin leið er að lesa það út úr nefndarálitinu. Engin tímamörk eru önnur en þau að í 2. gr. segir að utanríkisráðherra skuli að höfðu samráði við samgönguráðherra skipa fimm manna nefnd sérfræðinga — en hvergi er útskýrt hvers konar sérfræðinga — sem hafi það hlutverk að undirbúa snurðulausa færslu á stjórnun og rekstri Keflavíkurflugvallar samkvæmt þeirri grein yfir til samgönguyfirvalda. Þessi nefnd sérfræðinga á að ljúka störfum og leggja fram tillögur um framkvæmd yfirfærslunnar fyrir febrúarlok 2007. Er það einhver tímasetning eða dagsetning sem maður getur sagt: Ókei, í febrúarlok 2007 verður búið að fara yfir það hvernig flugvallarstarfsemin, stjórnun og rekstur á Keflavíkurflugvelli verður fært yfir til samgönguráðuneytisins? Verður þá ekki um leið búið að taka ákvörðun um önnur svæði, öryggissvæði og hvað það er sem Þróunarfélagið á að hafa með að gera?

Það segir líka að hæstv. forsætisráðherra muni gefa út auglýsingu um að það landsvæði sem um ræðir að hluta eða í heild hafi verið tekið til annarra nota en hernaðarnota og í slíkri auglýsingu væri hægt að kveða á um að almennar reglur mundu gilda um svæðið allt eða að hluta. Því er eðlilegt að spyrja hvort það muni þá ekki gerast eftir febrúarlok 2007 að slík auglýsing verði birt. Þá auglýsi menn og ráðuneytið hvernig framtíðin verður á Keflavíkurflugvelli.

Annað sem maður veltir fyrir sér þegar maður les þetta í gegn er hvernig þetta allt saman er á einni hendi. Forsætisráðherra fer með hlutabréfið í Þróunarfélaginu, sem er ríkisfélag. Forsætisráðherra hefur samkvæmt lögunum heimild til þess að semja við þetta þróunarfélag um hvað það er sem það á að gera og forsætisráðherra mun auglýsa um framtíð svæðisins. Þetta er sem sagt allt í einum og sama ráðherranum, umsýsla, ákvarðanir og allt sem málinu tengist. Ég hefði haldið að betra væri að mörgu leyti fyrir okkur að fleiri kæmu að þessu en þetta væri bundið í einni skúffu í einu ráðuneyti hjá einum hæstv. ráðherra.

Það sem skiptir miklu máli við þessa yfirfærslu er að sveitarfélögin á Suðurnesjum verði höfð með í ráðum, alveg frá upphafi til enda. Mikið hefur skort á það og skorti mikið á það frá því að Bandaríkjamenn tilkynntu að þeir væru að fara frá Íslandi, að haft væri samráð við sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Nú hafa þrjú sveitarfélög, sem hafa lögsögu á þessu svæði, skipað sameiginlega byggingar- og skipulagsnefnd, sveitarfélög sem lýst hafa því yfir að þau vilji sem fyrst hafa með skipulagsmálin að gera á Keflavíkurflugvelli og er mikilvægt að sjá það í nefndarálitinu að hv. allsherjarnefnd tekur undir að sveitarfélögin eigi að hafa skipulagsvald á umræddu svæði og það verði í framhaldi af þeirri auglýsingu sem ég minntist á áðan sem hæstv. forsætisráðherra mun senda frá sér.

Það væri gott ef hv. formaður eða varaformaður allsherjarnefndar gæti sagt okkur hvort það sé réttur skilningur að auglýsing muni birtast í febrúarlok eða eftir febrúarlok árið 2007 þegar nefnd sérfræðinga hefur skilað af sér hvernig starfsemin á Keflavíkurflugvelli eigi að færast yfir til samgönguráðuneytisins eða hvort við getum búist við því að mun lengra tími líði og engin tímamörk séu í raun í umræðunni. Gott væri ef hv. varaformaður allsherjarnefndar gæti svarað þeirri spurningu þannig að þeir sem búa á Suðurnesjum og þeir sem velta fyrir sér framtíðinni á Keflavíkurflugvelli viti það þá að menn eru að stefna á að framtíðarskipulag á svæðinu verði klárt og því verði komið á eigi síðar en í byrjun mars á næsta ári.

Ég hef í stuttri ræðu gert grein fyrir sjónarmiðum mínum hvað frumvarpið varðar og þau sjónarmið eru þau sömu og fulltrúar Samfylkingarinnar höfðu í allsherjarnefnd og eru ástæðan fyrir því að fulltrúar Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd skrifuðu undir það álit sem hér er með fyrirvara.



[17:37]
Þórdís Sigurðardóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma í pontu og lýsa ánægju minni yfir því frumvarpi sem um ræðir sem er mikilvægt málefni. Það varðar skipan mála á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjamanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda. Um er að ræða m.a. að hinu nýskipaða Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. er falin umsýsla á því starfssvæði sem tilheyrir þeim og geti nú hafið framkvæmdir á því nauðsynlega hlutverki sem þeim er ætlað. Einnig gefst möguleiki fyrir þau sveitarfélög sem eiga lönd að því svæði sem hefur talist til varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli að vinna sameiginlega að skipulagsmálum svæðisins og hefja markvissa vinnu að framtíðaruppbyggingu á svæði sem þeir eiga tilkall til.

Þriðja og ekki síður mikilvægt mál varðar málefni Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og skipan fimm manna nefndar sérfræðinga sem hafa það að markmiði að undirbúa færslu á stjórnun og rekstri flugvallarins yfir til samgönguyfirvalda. Er það tímabært og fagnaðarefni að sambærilegur rekstur og sérfræðiþekking í málefnum tengdum flugi sameinist nú í einu og sama ráðuneytinu. Sameiningin er tímabær nú, ekki síst sökum þeirrar fjárhagslegu hagræðingar sem í henni felst og gæti komið til móts við aukinn kostnað, t.d. samfara hertum öryggiskröfum.

Nú er þess skammt að bíða að Keflavíkurflugvöllur verði loksins málefni samgönguyfirvalda og hluti af samgönguáætlun í framtíðinni. Ég óska starfsfólki og sérfræðingum sem sinna hinum ýmsu störfum tengdum flugmálum til hamingju með það frumvarp sem hér er til afgreiðslu, svo og íbúum og bæjar- og sveitarstjórnum í Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ.



[17:39]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti því sem við höfum á þingskjali 640 sat ég fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en stend ekki að áliti þessu, enda kem ég ekki til með að styðja málið í atkvæðagreiðslu á eftir. Fyrir því eru nokkur rök.

Í fyrsta lagi er auðvitað dapurlegt til þess að vita að enn skuli vera innan þessa svæðis skilgreint svokallað öryggissvæði. Ég vil meina að samkomulagið sem gert var í Washington í október síðastliðnum sé að mörgu leyti meingallað, m.a. að við skulum þurfa að beygja okkur undir það að enn skuli vera til skilgreint öryggissvæði þar sem Bandaríkin muni halda árlega tvíhliða og/eða fjölþjóðlegar heræfingar á íslensku landsvæði og í íslenskri lofthelgi og landhelgi að fengnu samþykki íslenskra stjórnvalda. Sömuleiðis er samkvæmt samkomulaginu gert ráð fyrir æfingum Íslendinga á þessu svæði, herafla annarra bandalagsríkja og eftir atvikum liðsafla annarra ríkja utan NATO, t.d. þátttökuríkja í samstarfi í þágu friðar, PFP. Öryggissvæðið, sem er ansi stórt og er greint með markvissum hætti á því korti sem fylgir frumvarpinu, er því enn til staðar með sömu takmörkunum og öryggissvæðið hefur verið hingað til þó að það sé nú minna.

Mér finnst að samkomulagið og þau atriði í samkomulaginu torveldi að hægt sé að gera viðskilnað hins erlenda herliðs með þeim hætti að hann sé hreinn og klár. Ég gagnrýni að ekkert skuli vera í frumvarpinu um það á hvern hátt gert sé ráð fyrir að svæðið verði hreinsað í umhverfislegu tilliti. Ég tel vanta tilfinnanlega upp á ákveðna þætti í frumvarpinu.

Einnig vil ég nefna að með því er gert ráð fyrir að við gerumst sjálfstæðir þátttakendur í fyllingu tímans í Mannvirkjasjóði NATO. Það kemur til með að verða gríðarlega kostnaðarsamt fyrir okkur og ég tel að nánari upplýsingar hefðu mátt koma fram um þau áform í greinargerð með frumvarpinu, en það eina sem þar stendur er að það hafi í samkomulaginu frá 11. október 2006 verið gengið út frá því að íslensk og bandarísk stjórnvöld mundu í sameiningu mæla með því við Atlantshafsbandalagið að Íslendingar tækju hið fyrsta við hlutverki gistiríkis af Bandaríkjunum varðandi mannvirki fjármögnuð af bandalaginu á Íslandi. Um þetta hljóta að liggja fyrir einhverjar frekari áætlanir sem betra væri að væru hér til staðar.

Eins og ég segi, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum þessa fyrirvara við málið og komum ekki til með að geta stutt það í atkvæðagreiðslu.