133. löggjafarþing — 51. fundur
 15. janúar 2007.
athugasemdir um störf þingsins.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:36]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það kann að þykja undarlegt að kveðja sér hér hljóðs um störf þingsins sem engin hafa verið undanfarinn mánuð. Það er þó svo að menntamálanefnd hefur starfað af miklum þrótti í þinghléinu. Að lokum þeirra starfa eftir áramót varð sá atburður að Fréttablaðið, dagblað hér í bæ, skýrði frá því að starfsmenn þeirra menntamálaráðherra og fjármálaráðherra hefðu staðið í bréfaskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA í heilt ár. Það kom í ljós að þau stóðu yfir frá 30. janúar 2006 til 9. janúar 2007 því að samskiptin héldu áfram eftir að Fréttablaðið hafði upplýst um þau. Þetta gerðist án þess að menntamálanefnd og Alþingi væri hleypt í þessi gögn eða menntamálanefndarmenn látnir vita um þau samskipti sem þarna hefðu farið fram.

Síðan gerðist það að beðið var um gögnin, það gerðist síðdegis þennan sama föstudag. Formaður menntamálanefndar má eiga það að hann brást hart við. Gögnin komust þó ekki í hendur menntamálanefndarmanna fyrr en á miðvikudagskvöld og fimmtudagsmorgun og lokafundur var svo haldinn á föstudag án þess að nefndarmenn hefðu raunverulega fengið tíma eða svigrúm til að kynna sér gögnin, sem eru níu bréf, forseti, líttu á, níu bréf á evrópsku sem hefur vissulega verið farið yfir núna.

Þau viðbrögð formanns menntamálanefndar þegar gögnin voru komin að leyfa ekki umræðu um þau og viðbrögð forseta sjálfs við beiðni um ásjá í því efni eru eitt mál. Annað mál, grafalvarlegt, er sú háttsemi hæstv. menntamálaráðherra og fjármálaráðherra að fela þessi gögn, að leyna þessum gögnum, og höfðu þó sömu ráðherrar, sömu persónurnar, sömu ráðherrarnir lent í nákvæmlega sama máli fyrir ári þegar við komumst á snoðir um svipuð gögn á þeim tíma og tókst að knýja þau til uppgjafar í þessu máli. Samt heldur hæstv. menntamálaráðherra áfram að láta starfsmenn sína leyna þessum gögnum fyrir menntamálanefnd þó að í þeim séu mikilvæg efnisatriði sem við hefðum þurft að vera upplýst um allan þennan tíma.

Ég mótmæli þessu, forseti, og ég tel að þetta sé grafalvarlegt íhugunarefni fyrir Alþingi og varði samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem bundin eru í stjórnarskrá.



[13:38]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Síðdegis sl. fimmtudag var mér kynnt símleiðis, þar sem ég var stödd erlendis, bréf sem þá hafði borist frá formönnum þingflokka í stjórnarandstöðu, dagsett þann dag. Í bréfinu er þess farið á leit við forseta að hann hlutist til um að afgreiðslufundi menntamálanefndar, sem boðaður var daginn eftir, föstudaginn 12. janúar, kl. 11 yrði frestað til þess að nefndarmenn í minni hluta fengju rýmri tíma til að kynna sér gögn sem nefndinni höfðu borist.

Ég vil taka það fyrst fram að ég tel að forseti hafi tæpast heimild til þess að fresta fundum þingnefnda eða á annan hátt að taka fram fyrir hendur á meiri hluta í þingnefnd varðandi meðferð máls sem er hjá nefndinni. Hafi átt að skilja bréfið svo að forseti ætti að telja um fyrir meiri hluta menntamálanefndar gat ég ekki fallist á það. Þegar þingfundum var frestað fyrir jól hafði tekist samkomulag milli þingflokka um afgreiðslu mála fyrir jól og jafnframt að ljúka 2. umr. um Ríkisútvarpið en fresta 3. umr. fram yfir jólahlé. Sú umræða skyldi hefjast mánudaginn 15. janúar, þ.e. degi fyrr en starfsáætlun sagði fyrir um. Mér er umhugað um að við þetta samkomulag sé staðið. Ég gat því ekki með neinu móti hlutast til um að það drægist fram eftir þessari viku að 3. umr. um Ríkisútvarpið hæfist þvert ofan í það sem ég átti hlut að að semja um fyrir jól.

Meiri hluti menntamálanefndar mat það líka svo að ljúka mætti athugun málsins innan þess tíma sem nefndin hafði og það er vel. Ég tel þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að 3. umr. um málið hefjist í dag eins og dagskrá segir fyrir um. Það hefur komið fram að gögn sem varða afgreiðslu dagskrármálsins hafi borist seint frá ráðuneytum. Því mæli ég ekki bót, en ráðherrar svara fyrir það ef aðfinnsluvert er.

Því hefur einnig verið haldið á lofti að rétt væri að setja reglu um skyldur ráðuneytanna til að afhenda þingnefndum öll gögn sem varða afgreiðslu á þingmáli. Ég vil í því sambandi segja að reynsla mín eftir að hafa verið nefndarformaður alllengi og ráðherra líka er sú að samskipti þingnefnda og ráðuneyta hafa verið góð þegar á heildina er litið. Ég hef ekki orðið þess vör að gögnum væri haldið frá þingnefndum ef þau skiptu máli við afgreiðslu þingmáls og þannig reynt að villa um fyrir þingmönnum og Alþingi. Það kann hins vegar að vera ástæða til þess að fara yfir það verklag sem verið hefur á milli þingnefnda og ráðuneyta og ég lýsi mig reiðubúna til þess. En það er ljóst að ýmislegt er vandasamt í þessum efnum eins og t.d. meðferð trúnaðarupplýsinga og margt er mati háð. Forseti og formenn þingflokka gætu rætt málið í tengslum við endurskoðun þingskapa sem stendur yfir.



[13:42]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mig langar til þess að bregðast við ýmsu af því sem fram kom hér í máli hv. þm. Marðar Árnasonar vegna framlagningar á þessum svokölluðu ESA-gögnum í tengslum við yfirferð menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Hér kom fram í máli hv. þingmannsins að nefndarmenn hefðu ekki fengið tækifæri til að kynna sér gögnin. Ég hlýt að mótmæla slíkum fullyrðingum vegna þess að ég sá sjálfur til þess á miðvikudaginn í síðustu viku að hringt yrði í alla nefndarmenn til að þeim yrði tilkynnt að gögnin væru komin í hólf þeirra. Síðan var haldinn fundur á fimmtudegi þar sem farið var yfir þau gögn með fulltrúum fjármálaráðuneytis og fulltrúum menntamálaráðuneytisins. Mér tókst a.m.k. að sækja þessi gögn og kynna mér þau og ég skyldi ætla að aðrir hv. þingmenn í nefndinni hefðu haft sömu tækifæri til þess. Aðalatriðið er að gögnunum var komið til þingmanna og þeir voru sérstaklega látnir vita af því að þau hefðu borist.

Mér þótti þess vegna dálítið leitt að lesa hér bréf frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, annars vegar vegna misskilnings sem þar kemur fram en hins vegar vegna fullyrðinga sem þar koma fram. Þar er vakin athygli á því að síðasta bréfið hafi ekki verið dagsett fyrr en 9. janúar sem staðfestir að málinu hafi ekki verið lokið hjá ráðuneytunum gagnvart ESA. Það er alveg rétt eðli málsins samkvæmt vegna þess að málinu getur ekki lokið fyrr en frumvarpið er orðið að lögum.

Þá finnst mér leitt að þar komi fram að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í menntamálanefnd teljist forkastanleg, ómálefnaleg og ekki í samræmi við áherslur þingsins um vandaða málsmeðferð vegna þess að ég fullyrði að (Forseti hringir.) ekki hefur verið fundað meira um nokkurt mál, og nokkurt mál verið rannsakað með jafnvönduðum hætti og þetta, málið um Ríkisútvarpið ohf., á þessu kjörtímabili.



[13:44]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hæstv. forseta að rétt kann að vera að taka almennt upp samskiptareglur ráðuneyta og þingnefnda. Þetta mál er hins vegar sértækt og ber að skoða sem slíkt. Við bíðum enn svara frá þeim hæstv. ráðherrum sem bera ábyrgð á þessu máli.

Hæstv. forseti. Þegar við skildum við þetta mál í desembermánuði varð samkomulag um að hefja þingið degi fyrr en til hafði staðið, þ.e. í dag, 15. janúar, í stað þess að þing kæmi saman 16. janúar. Um annað var ekki samið. Við heyrðum hins vegar þann boðskap ríkisstjórnarinnar að hún hefði ásetning um að ljúka þessu máli sem fyrst. Við hlustuðum á þann ásetning, þann boðskap. Við sömdum ekki um neitt annað enda viljum við ekki að þetta frumvarp verði að landslögum.

Nú hafa þrír hlutir gerst sem eru ástæða fyrir stjórnarmeirihlutann til að endurskoða hug sinn til þessa máls. Í fyrsta lagi hefur komið fram að á árinu 2006 fóru fram bréfaskriftir milli Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar, bréfaskriftir sem Alþingi og sú nefnd sem fjallar um þetta tiltekna mál voru leynd. Hún fékk ekki þessi mikilvægu gögn inn á sitt borð. Það er grafalvarlegur hlutur.

Í bréfi 9. janúar frá ríkisstjórninni til ESA er vísað í bréf sem henni barst 24. nóvember og það er talað um að enn sé unnið að breytingum á lögunum. Gleymum því ekki að í desembermánuði, áður en þessi svör voru send, vildi ríkisstjórnin að málið yrði afgreitt héðan frá Alþingi sem landslög. (Forseti hringir.) Þetta er grafalvarlegur hlutur. Ef ég fæ orðið aftur mun ég koma að öðrum þáttum sem gætu orðið til þess að mínu mati að stjórnarmeirihlutinn endurskoðaði afstöðu sína til þessa máls.



[13:47]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vissulega grafalvarlegt mál þegar menntamálanefnd fær ekki að vita um slík bréfaskipti fyrr en á síðustu metrunum í þessari löngu málsmeðferð. Það er alveg ljóst af bréfunum að bréfaskiptin hafa átt sér stað um langan tíma. Ég verð að lýsa því yfir, virðulegi forseti, að svarið við bréfi sem við þingflokksformenn sendum fyrir helgi til hæstv. forseta olli mér miklum vonbrigðum og vekur upp ákveðnar spurningar því að í þingsköpum segir, með leyfi forseta, í 8. gr.:

„Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Forseti tekur við öllum erindum til Alþingis og annast um afgreiðslu þeirra mála er frá þinginu eiga að fara.“

Ég fæ ekki betur séð af þessari grein en að forseti hefði a.m.k. átt að sýna viðleitni til að sannfæra meiri hluta menntamálanefndar um það að frumvarpið um Ríkisútvarpið væri alls ekki tilbúið til að verða afgreitt út úr menntamálanefnd til 3. umr. Það hefði átt að gefa öllum þingmönnum sem sitja í menntamálanefnd meiri tíma til að kynna sér efni þessara bréfa. Við eyddum aðeins einum fundi í það þar sem fulltrúar frá ráðuneytunum komu og töluðu við okkur sem sitjum í nefndinni og þá vorum við ekki búin að kynna okkur efni bréfanna. Það var allt og sumt sem okkur var boðið upp á. Síðan var þetta frumvarp afgreitt út úr menntamálanefnd.

Mér finnst svona vinnubrögð ekki boðleg, herra forseti. Mér finnst þau alls ekki benda til þess að málsmeðferðin í frumvarpinu sé jafnvönduð og formaður menntamálanefndar lét í skína áðan. Málið hefur greinilega ekki verið nógu vel undirbúið. Frumvarpið er greinilega ekki orðið nógu þroskað til að geta orðið að lögum. Ég hygg að með því að gera þetta frumvarp að lögum séum við að gera alvarleg mistök.



[13:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég er ákaflega ósáttur við afgreiðslu forsetans á bréfi okkar formanna þingflokka en ég geri enga athugasemd við það að þessi umræða um Ríkisútvarpið fari fram. Það hefði verið hægt af okkar hálfu að krefjast þess að henni væri frestað vegna þess að við gátum ekki fengið að kynna okkur gögn með þeim hætti sem við töldum eðlilegt. En við höfum gert samkomulag og við stöndum við það samkomulag.

Ég dreg ekki í efa að formaður menntamálanefndar er mikill snillingur og meiri en flestir sem í þessum sölum sitja og ég er viss um að þekking hans á enskri tungu er viðamikil. Ég hef svolitla þekkingu á henni líka þó að hún slagi náttúrlega ekki upp í kunnáttu hv. þingmanns. Það tók mig alla helgina að komast í gegnum þá torskildu texta sem var að finna í bréfinu, sem er eins og að bryðja gamla efnafræðitexta, en mér tókst það þó. Af þeim lestri varð ég þess áskynja að þar voru tvö atriði sem ég hefði þurft að leita álits sérfræðinga á en ég fékk það ekki vegna þess að snillingurinn, formaður menntamálanefndar, þurfti ekki annað en skima augum í áttina að þessum hlaða til að komast að því að þar var ekkert sem máli skipti. Máttum við ekki komast að því sjálf? Var það ekki hv. formaður menntamálanefndar sem sagði að þetta væri óásættanlegt, þetta væri ótækt og hann ætlaði að tala yfir hausamótum ráðherrans? Svo kom hann skjálfandi í hnjánum þaðan og reif málið út.

Frú forseti. Það sem skiptir máli eru eftirfarandi aðalatriði: Hvers vegna leyndi menntamálaráðherra vísvitandi þessum gögnum? Hvers vegna var það ekki fyrr en Fréttablaðið ljóstraði upp um tilvist þeirra að nefndin fékk þau loksins? Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins segir í leiðara Fréttablaðsins í gær að þetta sé gert vísvitandi til að koma í veg fyrir að röksemdirnar komi fram vegna þess að þær mundu veikja röksemdafærslu þeirra sem bera stjórnskipulega ábyrgð á málinu, þ.e. hæstv. menntamálaráðherra. Það er það sem þetta gengur út á. Það er verið að leyna okkur gögnum.

Frú forseti. Mér finnst að fresta hefði átt þessari umræðu. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að fara fram á það en réttur okkar hefur verið brotinn.



[13:51]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni að afar óheppilegt var að þau gögn sem um ræðir skyldu ekki berast nefndinni jafnóðum. Við sem vinnum að málinu teljum okkur hafa öll gögn og það er okkar að leggja mat á hvort þau skipta máli eða ekki. (Gripið fram í: Spurðu ráðherra.) Ég ætla rétt að vona að ráðuneytin fari yfir verklag sitt og greiði úr þessu og ég fagna því orðum forseta þar að lútandi.

Hins vegar styð ég málsmeðferð hv. menntamálanefndar. Farið var yfir efnisatriði samskiptanna við ESA. Sú yfirferð var góð og ákveðið að taka málið út í kjölfarið og ræða það í dag samkvæmt samkomulagi sem gert var fyrir jól. Þessi uppákoma er óheppileg og óþörf og því miður til þess fallin að gera málið tortryggilegt sem er alger óþarfi.

Ég vil nota tækifærið og mótmæla orðum hv. stjórnarandstöðu um forkastanleg og ómálefnaleg vinnubrögð í hv. menntamálanefnd. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur lagt sig fram um að verða við öllum óskum nefndarmanna og séð til þess að öll vinna var afar vönduð í jólahléinu.



[13:53]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég kem upp til þess að hrósa hv. menntamálanefnd og þá sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir mjög vönduð vinnubrögð. Við vitum það sem störfum á þingi að menntamálanefnd er nú þegar búin að halda á fjórða tug funda út af þessu máli einu. Hún hefur fengið 150 manns, einstaklinga, til að ræða málið og ég veit að formaður nefndarinnar hefur lagt sig fram um að verða við öllum óskum stjórnarandstöðunnar í þessu máli. (Gripið fram í.) Hvað er svo um að ræða núna? Ég mótmæli því harðlega að verið sé að reyna að leyna einhverjum gögnum. Það er engan veginn svo. Undir eins og beiðni barst frá þinginu voru gögnin send og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lét strax vita. (Gripið fram í.) Þingmönnum í menntamálanefnd átti að vera kunnugt að þeir gætu nálgast gögnin strax og þeir fengu vitneskju um þau.

Við áttum líka að vita það og þeir sem eru í samskiptum við ESA að þegar málum er ekki algerlega lokið eru náttúrlega ákveðin bréfleg samskipti á milli stjórnvalda og ESA. Og undir eins og ósk og beiðni barst frá þinginu um að upplýsa þau bréfasamskipti var að sjálfsögðu strax orðið við því. (Gripið fram í.) Meginmálið er að athugasemdir ESA snerta á engan hátt breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í: Jú.) Athugasemdir ESA snerta það ekki. Það skiptir ekki máli hvort við höfum rætt um að halda áfram núverandi fyrirkomulagi á Ríkisútvarpinu eða breyta því í sjálfseignarstofnun eða opinbert hlutafélag, þær athugasemdir sem settar hafa verið fram af hálfu ESA hefðu komið fram hvort sem er. Og rétt er að draga það fram, frú forseti, að á fundi með ESA kom fram af hálfu framkvæmdastjóra samskiptasviðs ESA að stofnunin gerði engar frekari athugasemdir við framgang frumvarps til laga um Ríkisútvarpið ohf. eða fyrirhugaða framkvæmd laganna. (Forseti hringir.) Það er rétt að undirstrika þau orð.



[13:55]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem máli skiptir er að tilvist gagnanna var haldið leyndri af hæstv. ráðherra menntamála. Tilvist gagna sem eru alger grundvallargögn í öllu því sem lýtur að framtíð Ríkisútvarpsins, eins og tilvitnað dæmi frá Danmörku sem rakið var í fyrri umræðum um málið hefur fært heim sanninn um. Það hafði gífurlega alvarleg áhrif fyrir rekstur TV2 í Danmörku þegar samkeppnisstofnun þeirra komst að þeirri niðurstöðu að það bryti í bága við lög og reglur sem lutu að því þar sem um væri að ræða óeðlilega niðurgreiðslu á auglýsingum með opinberu fé. Það er þetta sem málið snýst um. Það er verið að leyna Alþingi Íslendinga og hv. menntamálanefnd algerum grundvallargögnum í öllu því sem lýtur að framtíð og framtíðarrekstri Ríkisútvarpsins. Framtíð RÚV — gangi þetta eftir á versta veg — er í algeru uppnámi. Þess vegna skipti það svo miklu máli sem hér um ræðir að gögnin kæmu fram. Þess vegna skipti það svo miklu máli að ráðuneytin upplýstu um tilvist gagnanna. Hvernig átti hv. menntamálanefnd og hv. Alþingi að óska eftir gögnum sem haldið var leyndu að væru til? Það er þetta sem er svo grafalvarlegt og það er þetta sem hæstv. menntamálaráðherra á að koma í ræðustól Alþingis og útskýra í staðinn fyrir að vera með hnútukast við einstaka þingmenn.

Hæstv. menntamálaráðherra situr undir þeim alvarlegu ásökunum að hafa leynt Alþingi Íslendinga og menntamálanefnd algjöru grundvallargagni sem lýtur nákvæmlega að rekstrarforminu, þessu pólitíska þrátefli og þessari þráhyggju hæstv. menntamálaráðherra að gera útvarpið að hlutafélagi. Það er í algeru uppnámi og það er þess vegna sem hæstv. ráðherra virðist hafa leynt gögnunum og ráðherrann þarf að hreinsa sig af því.



[13:57]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Látum vera þó að hæstv. forseti hafi ekki talið nauðsynlegt að hlutast til um tímasetningu fundarins hjá menntamálanefnd. Ég tek að því leytinu til gilda skýringu hæstv. forseta hvað það varðar. Hins vegar er ljóst að hæstv. forseti hefur ekki fengið góðar ráðleggingar hjá meiri hluta nefndarinnar varðandi það hvort hæstv. forseti ætti að fara inn í málið eða ekki, því að málið var vanreifað á lokasprettinum í nefndinni, þ.e. bréfin sem um ræðir fengust ekki opnuð eða lesin eða yfirfarin á fundum nefndarinnar. Eins og hér hefur verið tekið fram er þetta þverhandarþykkur bunki á evrópsku sem menn þurftu að fara yfir. Hann fjallar m.a. um almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins, eftirlit með almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins, sem eru nákvæmlega þau atriði sem nefndarmenn eru búnir að fjalla hvað mest um á fundunum og milli 2. og 3. umr. Þess vegna koma þessi bréf efnislega beint inn í þetta mál og koma okkur öllum við. Það er alvarlegt sem við áttum okkur á þegar við sjáum þessi bréf að í nóvember sl. þegar ríkisstjórnin er að gera lokaatlögu að því að koma málinu í gegnum Alþingi, gera það að lögum, þá standa þessi samskipti við ESA sem hæst. Og þó svo við höfum ekki vitað, almennir nefndarmenn, að þessi samskipti væru til staðar þá komu starfsmenn hæstv. menntamálaráðherra ítrekað á fundi til okkar í nefndina og þeir vissu um þessi samskipti. Þeir vissu út á hvað þau gengu, þeir vissu að við vorum að spyrja um nákvæmlega sömu hluti og þeim var í lófa lagið að upplýsa okkur nefndarmenn um að þessi samskipti stæðu yfir. Það gerðu þeir ekki og það er á ábyrgð hæstv. menntamálaráðherra. Þetta er vont frumvarp, það liggur ljóst fyrir, bréfaskiptin við ESA sýna það og sanna. Þess vegna legg ég það til, eins og við höfum gert frá upphafi í þessu máli, stjórnarandstaðan, að málinu verði vísað frá Alþingi. Þetta er vont mál.



[14:00]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það var full ástæða fyrir hæstv. menntamálaráðherra að fara sérstaklega fögrum orðum um hv. þingmann Sigurð Kára Kristjánsson og störf hans sem formanns menntamálanefndar. Ástæðan var sú að ég hef ekki áður orðið vitni að annarri eins meðferð af hálfu hæstv. ráðherra á formanni í nefnd.

Það er algjörlega með ólíkindum að hæstv. ráðherra og starfsmenn hennar hafi leynt þessum gögnum fyrir formanni nefndarinnar. Ég er klár á því að hv. þingmaður sagði satt og rétt frá á fundum nefndarinnar þegar hann hafði farið og leitað til menntamálaráðuneytisins og spurt hvort einhverja frekari vitneskju væri að fá í ráðuneytinu um þennan þátt málsins og kom til baka með þau svör að svo væri ekki. Þetta var þegar nefndin var að leita eftir upplýsingum til þess að upplýsa þennan þátt málsins.

Það er því alveg ljóst að það voru að minnsta kosti einhverjir starfsmenn hæstv. ráðherra, ef það hefur ekki verið með leyfi hæstv. ráðherra, sem voru að fela gögn, ekki bara fyrir menntamálanefndinni allri, heldur fyrir formanni nefndarinnar. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að formaður nefndarinnar átti það ekki skilið því hann hefur lagt sig fram um að sinna þessu máli af kostgæfni.

Það var hins vegar nú á seinni stigum þegar hæstv. ráðherra hefur væntanlega farið að beita þrýstingi og þurft að fela einhverja hluti sem hv. þingmaður brást skyldu sinni sem formaður nefndarinnar. Fram að þeim tíma hafði hv. þingmaður lagt sig verulega fram.

Það er algjörlega með ólíkindum, virðulegi forseti, að það skuli ekki vera hægt að fá aðstoð frá virðulegum forseta þegar þannig er komið fram við þingnefnd eins og í þessu máli. Hér hefur framkvæmdarvaldið því miður enn einu sinni sýnt klærnar gagnvart löggjafarvaldinu.