133. löggjafarþing — 52. fundur
 16. janúar 2007.
um fundarstjórn.

þinghaldið næstu daga.

[11:11]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er náttúrlega orðin ákaflega athyglisverð fundarstjórn að hér komi upp maður og ræði um fundarstjórn forseta, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, og bölsótist út í annan þingmann fyrir að hafa óskað eftir að fá svör frá nefndarformanni, þ.e. Sigurði. Hann kveðst tala þegar honum sýnist. Síðan eyðir hann síðari hluta ræðu sinnar um fundarstjórn forseta í að kalla til mann sem er ekki staddur hér, ég veit ekki af hvaða sökum, og heimtar að hann tali þegar Sigurði Kára sýnist. Þetta er allt saman um fundarstjórn forseta.

Ég veit ekki nema yfirmenn þessa manns í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem hefur pýramídaskipulag þannig að varaformaðurinn ræður mestu og væntanlega forseti þingsins næstmestu, eigi að taka þennan þingmann, beygja á honum bakið og kannski veita honum bara refsingu fyrir að haga sér svona á þinginu.

Ég kom hingað til að ræða fundarstjórn forseta. Ég var nú í salnum í allan gærdag og tók ekki á móti pósti en mér barst í gær bréf frá Einari Farestveit, sem er forstöðumaður á nefndasviði, eins og forseti veit. Það er fjölpóstur til þingmanna:

„Vegna tilhögunar þingfunda í þessari viku verða fundir fastanefnda ekki með hefðbundnu sniði. Fastir fundartímar nefnda gilda ekki og nefndarfundir verða haldnir eftir þörfum og boðaðir sérstaklega. Formenn nefnda skipuleggja fundi og fundartíma í samráði við nefndarritara. Með kveðju, Einar.“

Nú geri ég ráð fyrir því að Einar tali í nafni yfirmanns síns, sem er forseti þingsins vegna þess að Einar Farestveit, sem er góður maður og gegn, ræður auðvitað ekki fundartímum nefnda eða skipuleggur nefndarfundi í þessari viku eða öðrum. Hann upplýsir að til sé — það er kannski merkilegast við bréfið — að til sé eitthvað sem heitir tilhögun þingfunda í þessari viku. „Vegna tilhögunar þingfunda í þessari viku“, segir í bréfinu. Þess vegna óska ég eftir því að forseti, sá sem kjörinn er, upplýsi það sem varaforsetar hér á forsetastóli í gær gátu ekki upplýst, hver er tilhögun þingfunda í þessari viku.

Hver er ástæðan fyrir því að forseti hefur sett eins konar herlög á þingið fyrstu vikuna á árinu 2007? Vikan á að fara öll í að ræða þetta einstaka mál. Það verða ekki nefndarfundir og virðist ekki eiga að leyfa utandagskrárumræðu. Fyrirspurnafundur á miðvikudaginn er í uppnámi þó að fyrirspurnir bíði, ekki einungis frá því þingi var lokið í desember heldur margar fyrirspurnir frá því rúmum mánuði frá fyrir þann tíma. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því, forseti, að gerð verði grein fyrir því sem greinilega er til, tilhögun þingfunda í þessari viku.



[11:14]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að ríkisstjórnin lítur svo á að því sem næst neyðarástand sé á þinginu. Eins og hér hefur komið fram er allt nefndarstarf þingsins sett úr skorðum, öllu skal til kostað til þess að ríkisstjórnin fái sínu framgengt við að einkavæða Ríkisútvarpið og það fáeinum vikum fyrir næstu alþingiskosningar.

Það hefur verið boðað til fundar í félagsmálanefnd þingsins í matarhléi, núna klukkan eitt. Ég vil í ljósi þess sem hér hefur komið fram beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort til standi að gera hlé á þingfundinum þannig að hægt sé að funda með formönnum þingflokka til að ræða þinghaldið í dag og næstu daga. Við höfum ekki enn fengið svör við því hvort til stendur að hafa fyrirspurnatíma á morgun. Við höfum ekki fengið nein endanleg svör við því. Við vitum að búið er að setja allt nefndarstarf úr skorðum eins og hér hefur komið fram. Vísað var í bréf forstöðumanns nefndasviðsins þar að lútandi, en þingflokksformenn og þingmenn eiga kröfu á að vita hvaða áform eru um þinghaldið í vikunni. Ég vil ítreka óskir okkar og kröfur, um að við teljum eðlilegt að á morgun, á fyrirspurnadegi Alþingis, verði fyrirspurnir eins og hefð er fyrir.



[11:16]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum fundarstjórn forseta og á undan mér hafa þó nokkrir þingmenn farið fram á það að virðulegur forseti upplýsi þingheim um það hvernig þinghaldinu verði hagað í dag og kvöld og jafnvel nótt. Engin svör hafa borist frá hæstv. forseta og það þykir mér miður. Ég átti satt að segja von á því að við fengjum einhverja línu, einhver svör um það hvernig til standi að haga þinginu í dag. Ég leyfi mér að benda á það, frú forseti, að við vorum hérna til miðnættis í gær og í morgun byrjuðu síðan nefndarfundir snemma, t.d. í samgöngunefnd kl. 8.30 og stjórnarskrárnefnd kl. 9. Við vitum öll að nefndarfundir í dag verða í skötulíki. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom einmitt inn á það að félagsmálanefnd á að hittast á einhverjum skyndifundi í hádeginu í dag. Það er greinilegt að dagskrá þingsins er að riðlast að verulegu leyti. Það virðist ekkert vera augljóst hvort fyrirspurnir til ráðherra sem eru venjulega á miðvikudögum verða á dagskrá á morgun eins og mér skilst að sé hefð á miðvikudögum. Utandagskrárumræður eru settar á ís þó að þær bíði margar. Mér skilst að það sé ekki á dagskrá að hafa neinar utandagskrárumræður alla þessa viku. Er það svo, frú forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn ráðskist með dagskrá þingsins? Eru þetta einhverjar ordrur frá hæstv. menntamálaráðherra eða jafnvel hæstv. forsætisráðherra? Mér er spurn.

Ég mundi gjarnan vilja fá svör við þessum spurningum, frú forseti, og ég vona auðvitað að þau verði þannig að málin skýrist eitthvað, að við fáum ekki loðin svör eins og oft eru gefin, að við ætlum að halda áfram eitthvað inn í kvöldið eða það eigi ekki að ræna menn nætursvefninum eða ekki að verulegu leyti eins og talað var um í gær. Það fór allt vel í gær og, frú forseti, það er ekki vegna þess að ég nenni ekki að vinna eða eitthvað svoleiðis eins og stundum hefur verið haldið fram. Hv. formaður menntamálanefndar hélt fram á síðasta þingi að þetta væri jafnvel vegna þess að menn nenntu ekki að vinna eða eitthvað í þá veruna. Það er ekki þess vegna, frú forseti. Ég vil bara fá að vita hversu lengi og hversu mikið á að vinna vegna þess að maður hefur aðra hluti sem maður vill skipuleggja líka.



[11:19]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að ræða um fundarstjórn forseta því að það berast engin svör varðandi þær beiðnir sem hér hafa verið margítrekaðar, umfram allt að þingheimur fái einhverja vitneskju um það hvernig tilhögun þingfunda er áætluð í þessari viku.

Það liggur ljóst fyrir að virðulegur forseti virðist hafa rofið hefðbundið samstarf við þingflokksformenn varðandi slíka framvindu. Það virðist vera slíkt neyðarástand í þinghaldinu að ekki sé hægt að hafa eðlilegt samráð á milli flokka um þingstörfin. Nefndastörf eru í uppnámi þessa viku. Það er ekki einu sinni hægt að upplýsa hvað fyrirhugað er að gera í dag eða kvöld eða nótt þannig að óvissan er algjör og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að virðulegur forseti geri a.m.k. grein fyrir því hvað veldur því að forseti treystir sér ekki til að hafa neitt samráð við þingflokksformenn eða þingmannahópinn almennt, þingsalinn, varðandi framvindu þinghaldsins. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þetta er afar sjaldgæf staða og nálgast trúlega að vera einsdæmi í fyrstu viku nýs árs að þannig skuli þinghald byrja. Það er ekki fyrirheit um góða tíð fram að þinglokum í vor ef svo á fram að halda. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, virðulegur forseti, að forseti gefi sér örlítinn tíma til að ræða við þingheim um þetta sérstaka ástand.

Það vakti athygli mína áðan í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hann fjallaði sérstaklega um fundarstjórn forseta að hann hafði miklar áhyggjur af því hvernig þingflokkum væri stjórnað í þessu húsi. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki stjórnun á sínum þingflokki og það kom augljóslega fram þar að varaformaður hans flokks stýrir þar öllu, (Gripið fram í: … yfirmaður …) yfirmaður þingflokksformanns og væntanlega allra þingmanna. Þetta skýrir að sjálfsögðu verulega hvernig hv. þingmaður hefur á stundum hagað málum sínum við stjórn menntamálanefndar, þ.e. aðallega á seinni stigum. Ég hef áður farið yfir það hversu vel hv. þingmaður hefur oft staðið sig þar, en það er greinilegt að þegar varaformaður hans hefur þurft að koma sínum málum fram kann hv. þingmaður að beygja sig. Hann upplifir það greinilega þannig að varaformaður hans er yfirmaður hans og stýrir og stjórnar því hvað hann gerir. Þess vegna kemur hv. þingmaður hér og ræðir ekki um samkeppnisþátt málsins, hv. þingmaður veit vel hvernig staðan er í þeim málum, veit að það muni veikja Ríkisútvarpið ef þetta mál fer fram. Það er líklega það sem hv. þingmaður vill vegna þess að hv. þingmaður vill selja Ríkisútvarpið.



[11:22]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill vegna þessara orða hv. þingmanns taka skýrt fram að forseti hefur haft eðlilegt samráð við þingflokksformenn og átti síðast fund með þeim í gær (Gripið fram í.) en minnir á það samkomulag sem var gert hér fyrir jól um að þegar Alþingi kæmi aftur saman yrði því flýtt um einn dag, það yrði byrjað á 3. umr. um RÚV og það yrði eina þingmálið sem yrði til umræðu. Það er alveg ljóst að hv. þingmönnum liggur mikið á hjarta í þessari umræðu og þurfa greinilega sinn tíma til að ræða þetta þingmál.



[11:23]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af frammíkalli tek ég mjög undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um stöðu þingflokksformanna. Þeir eiga auðvitað að líta til allra sinna þingmanna, vera undirmenn þeirra og líta til þeirra hagsmuna allra (ÖS: … þína.)

Ég vil gjarnan nýta þennan tíma til að ræða fundarstjórn forseta og minna á það sem öllum þingmönnum má vera ljóst sem hér sátu fyrir áramót. Ég tek vara við því að hér eru varaþingmenn sem ekki voru hér fyrir áramót en öllum sem hér voru mátti vera ljóst um hvað það samkomulag fjallaði sem við gerðum þá. Það var að ljúka þeim málum sem við vorum með þá og gerðum samkomulag um að ljúka fyrir áramót en síðan kæmum við saman 15. janúar til að ræða eitt þingmál, og önnur þingmál yrðu ekki á dagskrá fyrr en því væri lokið. Mér finnst, hæstv. forseti, menn tala ansi frjálslega um það samkomulag og tala eins og að þeir hafi ekki hugmynd um um hvað það samkomulag fjallaði. Það var bara nákvæmlega svona. Við ætluðum að fjalla um Ríkisútvarpið þangað til því yrði lokið. Menn eiga ekki að gera það lítið úr þingstörfum okkar með því að tala um þau á þeim nótum sem hefur verið gert í morgun. Það er bara ekki við hæfi. Ég hvet þess vegna eindregið til að við höldum áfram að fjalla um Ríkisútvarpið eins og dagskrá kveður á um.

Ég tek einnig fram að forseti hefur haft fullt samráð við þingflokksformenn og almennt hef ég ekki heyrt nokkurn þingflokksformann kvarta yfir því að samráð við forseta væri ekki gott.



[11:25]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er eitthvað málum blandið, bæði í því sem hæstv. forseti segir og því sem hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna segir í ræðustóli. Samkomulagið sem gert var við stjórnarandstöðuflokkana fyrir áramót hljóðaði upp á það að Ríkisútvarpið yrði fyrsta og eina málið á dagskrá í þessari þingviku og við mundum búa til rými á mánudeginum sem ekki var gert ráð fyrir í starfsáætluninni að yrði vinnudagur þingsins. Það var ekkert í samkomulaginu um það að allir þingfundir ættu að byrja kl. hálfellefu. Það var ekkert í samkomulaginu um það að fyrirspurnafundur á miðvikudegi skyldi rjúka út í veður og vind. Það var ekkert í samkomulaginu um það að nefndastarf yrði sett í uppnám og nefndafundum frestað.

Ég vil að hér séu hlutirnir rétt eftir hafðir og ég spyr hæstv. forseta: Er þetta misskilningur í mér? Ég kom sjálf að þessu samkomulagi. (ArnbS: Fyrirspurnir eru þingmál.) Fyrirspurnir eru þingmál, kallar hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna fram í. Í mínum huga eru fyrirspurnirnar ekki þingmál. Það er bara ákveðinn dagur í starfsáætlun þingsins sem er alltaf ætlaður undir fyrirspurnir og mér hefði fundist eðlilegt að við tækjum það þá fram ef gert hefði verið ráð fyrir því í samkomulaginu að sá dagur fyki og það yrði rætt um Ríkisútvarpið á miðvikudeginum.

Í öllu falli var ekki innifalið í samkomulaginu að nefndarfundir lægju niðri. Það var ekki innifalið í samkomulaginu að unnið yrði til miðnættis eða fram á nætur alla þessa daga. Það var ekki innifalið að byrjað yrði kl. hálfellefu hvern einasta dag. Ég vil að hæstv. forseti staðfesti þetta sem ég hef nú sagt.



[11:27]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er vísað í samkomulag sem gert hafi verið fyrir jól, í desember þegar við gerðum hlé á þinghaldinu. Ég kom að þessu samkomulagi beint. Það snerist um það að fresta 3. umr. um Ríkisútvarpið (Gripið fram í: Fram yfir áramót.) fram yfir áramót. Það snerist um það að við mundum greiða fyrir þingstörfum varðandi önnur þingmál sem þá lágu fyrir þinginu. Við féllumst auk þess á að þingið kæmi saman degi fyrr en til hafði staðið. Lengra náði þetta samkomulag ekki. Við heyrðum hins vegar þann ásetning ríkisstjórnarinnar að reyna að afgreiða frumvarpið um Ríkisútvarpið hið allra fyrsta. Gera menn sér ekki grein fyrir því að við viljum þetta frumvarp út af borðinu? Ímynda menn sér að við höfum samið um að klára málið? Hvers konar rugl er þetta? Ég lýsti því yfir þá í ræðustól og í fjölmiðlum að nú vaknaði sú von í brjósti að þessi ómynd yrði aldrei að landslögum. Þetta var öllum ljóst og við gerðum ekkert samkomulag um aðra þætti. Við heyrðum þann ásetning ríkisstjórnarinnar, hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, að málinu yrði lokið á fáeinum dögum. Við hlustuðum á þann ásetning. Við sömdum um ekkert í þeim efnum. Það er staðreynd og ég neita því að slíkt sé borið upp á okkur því að það er rangt, það var ekki svo. Við féllumst á þá þætti sem ég þegar hef nefnt og ekkert annað.

Varðandi samráð og samstarf við þingflokksformenn hefur það verið ágætt við hæstv. forseta þingsins. Hins vegar þurfum við að gæta okkar á því að gefa ekki orðum rangt innihald þegar talað er um samráð um það sem nú er að gerast. Við höfum hlýtt á boðskap hæstv. forseta og vilja ríkisstjórnar landsins og stjórnarmeirihlutans. Við höfum haft við það að athuga að hér yrðu ekki fyrirspurnir á morgun. Við höfum óskað eftir því að fram fari utandagskrárumræður þessa viku og við stöndum fast á þeirri ósk að svo verði gert. Ég hef nú þegar sett fram þá ósk að hlé verði gert á þessum þingfundi og að við komum saman til að ræða nákvæmlega þessi efni, fyrirspurnatímann á morgun og utandagskrárumræður á komandi dögum.



[11:30]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Áðan var úr forsetastóli rætt um samkomulag. Því miður var forseti ekki viðstödd umræður í gær þegar einnig var rætt um þetta samkomulag. Þá var varaforseti hér Birgir Ármannsson og tjáði sig sem betur fer ekki mikið um þetta samkomulag.

Eins og mér var sagt frá þessu og ég skildi það opinberlega og frá mínum þingflokksformanni var samkomulagið þannig að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar féllust á það góðfúslega að þingið hæfist einum degi fyrr en áætlað var á starfsáætlun þeirri sem forseti Alþingis dreifði í haust. Mönnum skildist að forseti ætlaði sér að nýta þennan eina dag, mánudaginn í gær, 15. janúar, til að taka á dagskrá frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. og hefja 3. umr. Á það var fallist og látið gott heita. Það þýddi auðvitað að í gær var hafin umræða kl. 13.30 á hefðbundnum þingflokksfundatíma á mánudegi og haldið áfram í gær án þess að nokkrir aðrir liðir þvældust fyrir. Venjulega er það þannig, forseti, til upplýsingar að á mánudögum er ekki hafist handa við þingfundi kl. 13.30, heldur eru þingflokksfundir þá og síðan hefst þingið annan hvern mánudag á því að ráðherrar svara óundirbúnum fyrirspurnum. Ekkert samkomulag var mér vitanlega, og það staðfestist í orðum síðasta hv. ræðumanns, Ögmundar Jónassonar, gert um það að þingið væri sett í einhvers konar neyðarástand, uppi væru höfð einhvers konar herlög í staðinn fyrir venjulega dagskrá samkvæmt þingsköpum.

Allra fráleitast er það ef forseti ætlar sér að sleppa á morgun fyrirspurnatíma sem er góður og gildur liður í dagskrá þingsins og getur einmitt m.a. hjálpað til við að skýra mál sem eru á dagskrá. Þannig er t.d. háttað að ég sendi inn í fyrra, ég hygg að það hafi verið í október, tvær mjög mikilvægar fyrirspurnir sem varða efni þjónustusamningsdraganna sem við erum að tala um í þessari umræðu. Önnur er um skilgreininguna á innlendu efni og hin um skilgreininguna á sjálfstæðum framleiðanda. Ég hef fengið svar við annarri þessara fyrirspurna en ekki við hinni. Ég gerði það af ásettu ráði í gær í framsöguræðu minni sem talsmaður minni hluta menntamálanefndar að láta þetta eiga sig vegna þess að ég bjóst við að þessari fyrirspurn yrði svarað (Forseti hringir.) og þess vegna gæfist tækifæri til að tala um hana síðar í umræðunni. Ég vonast til þess að forseti sjái til þess að sú fyrirspurn komist á dagskrá og henni verði svarað (Forseti hringir.) því að það mundi einmitt hjálpa til við að greiða úr því máli sem hér er til umræðu.



[11:34]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við erum að ræða undir liðnum fundarstjórn forseta um það samkomulag sem gert var um störf þingsins og virðulegur forseti átti aðild að. Það eru greinilega eitthvað skiptar skoðanir um hvað þetta samkomulag fól í sér. Mér sýnast vera algjörlega tveir pólar í því. Það eru hv. þingmenn eins og Ögmundur Jónasson sem var beinn þátttakandi í þessu samkomulagi, maður sem ég treysti, og ég hef enga ástæðu til að efast um orð hans. Það var samkomulag um að þetta yrði fyrsta mál á dagskrá og að auk þess mundu þingmenn mæta einum degi fyrr úr jólafríi sem er auðvitað ekkert jólafrí. Menn voru auðvitað á þeytingi, m.a. sat fólk í menntamálanefnd á stífum fundum milli jóla og nýárs og strax í byrjun janúar og aðrir þingmenn voru í sínum kjördæmum að hitta kjósendur á mikilvægum fundum hér og þar en féllust góðfúslega á að mæta einum degi fyrr, strax á mánudegi, og byrja auk þess daginn snemma á þingfundi, nefndarfundum auðvitað strax og þingfundi óvenjusnemma á mánudegi. Eins og hv. þm. Mörður Árnason kom inn á líka voru ekki neinar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á þessum mánudegi heldur var talað mjög mikið og ítarlega og lengi og vel um þetta frumvarp um Ríkisútvarpið ohf.

Ég vil einnig ítreka ósk mína, frú forseti, um að þingheimur verði upplýstur um það hvernig dagskráin á að vera í dag. Er meiningin að halda hér kvöldfund? Ég væri líka alveg til í að fá skýringu á því hvað orðið „kvöldfundur“ felur í sér. Nær kvöldfundur fram yfir miðnætti? Það var annar hæstv. forseti sem hélt því fram að skilgreiningin næturfundur væri ekki til, það væri bara kvöldfundur og kvöldfundur gæti staðið til kl. 6 næsta morgun þess vegna. Það þykir mér afar merkilegur skilningur. Þetta mál er þess eðlis að það er hægt að fresta umræðu um það og sérstaklega þegar fram koma (Forseti hringir.) nýjar upplýsingar eins og gerðist í þessu máli.



[11:37]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, til að hvetja menn til að greiða fyrir þingstörfum (ÖS: Ég ætla að gera það.) og minna á það samkomulag sem gert var fyrir áramótin um að við mundum taka fyrir þetta frumvarp. Ég vil bara staðfesta að í mínum huga er ekki nokkur vafi um þann ásetning hv. þm. Ögmundar Jónassonar að koma frumvarpinu út af borðinu eins og hann orðar það. Ég leyfi mér að efast um að nokkrum einasta manni dyljist að þarna er mjög harður ásetningur og við megum búast við því að hann hagi þingstörfum sínum með þeim hætti að gera sitt besta til þess að svo megi verða. Við velkjumst ekki í neinum vafa.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson tekur það fram að hann hafi heyrt af þeim ásetningi að við mundum ætla að ræða þetta mál. Það þýðir, a.m.k. í mínum huga, að hann vissi af þessum ásetningi, hann vissi hvernig við ætluðum að haga störfunum og að hér stæði þá til að klára þetta þingmál. Það var ásetningur okkar og að mínu viti það sem þetta samkomulag innihélt. Það að taka ekki fyrir önnur þingmál þýðir líka að fyrirspurnir sem eru þingmál yrðu þá ekki á dagskrá fyrr en þessu máli væri lokið. Ég tel að hér sé fullkomlega eðlilega að málum staðið og að við eigum að halda okkur við það að einbeita okkur að þessu merka máli, draga fram öll góð sjónarmið þannig að allt sé rætt í þaula hvað varðar þetta merka frumvarp og eigum að halda okkur við það vinnulag þangað til því er lokið.

Svo er rétt að benda á að menn hafa auðvitað lagt mikið á sig hér eins og hv. þm. Hlynur Hallsson tók fram, hér var fundað í menntamálanefnd þannig að þar voru líka dregin fram öll þau hugsanlegu sjónarmið sem hægt er að draga fram í einu máli. Hér hefur verið mjög vel að verki staðið af hálfu allra þeirra þingmanna sem að þessu máli hafa komið. Eins og ég segi, ég hvet okkur til að halda áfram með málefnalega umræðu um málið.



[11:40]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir þau svör sem ég fékk áðan við ræðu minni og fyrirspurnum. Það verður þó að segjast að ég var ekki fyllilega sáttur við öll þau svör því að mér fannst á skorta nokkuð um upplýsingar en ég ætlast ekki til þess af virðulegum forseta að önnur tilraun verði gerð til svara, ég vil aðeins hvetja forseta til að halda fund með þingflokksformönnum hið fyrsta því að mér sýnist hafa bæst í ástæður þess að svo verði gert. Í fyrsta lagi er eiginlega ekki viðeigandi að í þingsal séu hv. þingflokksformenn að ræða saman um hvað þeir telji að hafi verið í samkomulaginu sem gert var fyrir jól. Ég held að það sé eðlilegt að virðulegur forseti kalli þingflokksformenn saman og fari yfir það þannig að reynt verði að samræma út á hvað þetta samkomulag gekk þannig að við í þingflokkunum getum síðan fengið um það upplýsingar frá þingflokksformönnum okkar. Það væri þá ekkert vafamál ef eitthvað þyrfti að rifja upp hvað þarna fór fram. Það er augljóst mál að það eru eitthvað mismunandi skoðanir á því milli nokkurra hv. þingflokksformanna.

Það er annað sem virðulegur forseti sagði einnig sem ég tel eðlilegt að reynt verði að útskýra. Ég ætlast svo sem ekki til að virðulegur forseti geri það af forsetastóli en ég held að þarft væri að það yrði gert á slíkum fundi með þingflokksformönnum, þ.e. orðalagið „eðlilegt samráð“. Ég taldi eðlilegt samráð ekki hafa átt sér stað milli forseta og þingflokksformanna varðandi þinghaldið. Það má skilja það orðalag á mismunandi hátt en ég tel það ekki eðlilegt samráð þegar samráðið felur það eingöngu í sér að virðulegur forseti gefi tilkynningar um það hver fyrirætlun virðulegs forseta sé varðandi þinghaldið en það sé raunverulega engin umræða og ekki komið til móts við þingflokksformenn um hvaða fyrirkomulag er á því haft. Ég hefði haldið að eðlilegt samráð væri þannig að menn reyndu að ná sameiginlegri niðurstöðu. Valdið er hins vegar forsetans ef ekki tekst að úrskurða um hvað skuli gera. Miðað við upplýsingar mínar hefur ekki verið reynt til þrautar að reyna að ná einhverju samkomulagi um a.m.k. rammann á þinghaldinu, heldur virðist þetta vera í tilskipunarstíl sem ég held að sé ekki vænlegur til árangurs.

Ég vil í fullri vinsemd, virðulegi forseti, hvetja til þess að forseti kalli þingflokksformenn til fundar og geri ítrekaða tilraun til að ná utan um málið, bæði það samkomulag sem gert var fyrir áramótin þannig að allir hafi á því sama skilning og reynt verði að fara yfir þinghaldið næstu daga og reynt að ná samkomulagi um t.d. utandagskrárumræður og fyrirspurnatíma þannig að við þurfum ekki að hafa margar senur hér undir fundarstjórn forseta um þessi sömu mál.