133. löggjafarþing — 54. fundur
 18. janúar 2007.
athugasemdir um störf þingsins.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:34]
Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins og þætti vænt um ef þingheimur mundi hlusta á. Fyrir mér erum við a.m.k. komin að ákveðnum vatnaskilum í frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. Útvarpsstjóri hefur blandað sér í umræðuna um þetta frumvarp og hæstv. menntamálaráðherra hefur fagnað því. Það væri kannski í lagi ef útvarpsstjóri væri að fara með rétt mál. Mig langar að vitna í yfirlýsingu, frú forseti, sem kom fram á heimasíðu BSRB og er frá BSRB og BHM varðandi skerðingu á réttindum og kjörum starfsmanna Ríkisútvarpsins sem er að mínu mati megintilgangurinn með þessu frumvarpi. Yfirlýsingin hljómar svo, með leyfi forseta:

„Í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf. hefur ítrekað verið vísað til yfirlýsingar Páls Magnússonar útvarpsstjóra frá því í nóvember sl. þar sem hann lýsti því yfir að öll kjör starfsmanna RÚV muni haldast óbreytt. Eftir að BSRB og BHM höfðu skoðað þessa yfirlýsingu voru samtökin sammála um að hún bætti engu við það sem fram kemur í sjálfu frumvarpinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir samtakanna um breytingar.

Í yfirlýsingunni segir Páll Magnússon orðrétt: „Gert er ráð fyrir að hið nýja félag yfirtaki allar skuldbindingar stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum, — bæði samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum.“ Innihald þessarar yfirlýsingar er í samræmi við aðilaskiptalögin og því væri verið að brjóta þau ef ekki væri farið að þessu.

Þá er ýmsum spurningum ósvarað, þar á meðal er með öllu óljóst hvað gerist þegar kjarasamningar renna út. Mun RÚV ohf. til að mynda vera reiðubúið til að semja á grundvelli fyrirliggjandi kjarasamninga við aðildarfélög innan BSRB og BHM sem hafa samningsrétt fyrir starfsmenn RÚV?

Einnig er óvíst hvernig samið verður við þá sem hefja störf eftir að lögin taka gildi en það er m.a. forsenda þess að nýráðnir geti farið í A-deild LSR að starfsmenn séu aðilar að þessum samtökum.

Þá segir Páll í yfirlýsingu sinni: „Réttindi starfsmanna haldast því óskert …“ Að mati BSRB og BHM stenst þessi fullyrðing ekki þar sem réttindi samkvæmt lögum, eins og t.d. lögum um réttindi og skyldur og stjórnsýslulög, munu ekki gilda gagnvart starfsmönnum RÚV ohf. Áminningarskyldan, andmælaréttur og auglýsingaskylda (Forseti hringir.) munu því t.d. ekki gilda.

Óvissan um rétt starfsmanna er því enn jafn mikil og hún var fyrir yfirlýsingu Páls Magnússonar.“



[10:36]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun funduðu hv. fjárlaganefnd og félagsmálanefnd með ríkisendurskoðanda um málefni Byrgisins, afar mikilvægt mál sem er nauðsynlegt að fara vandlega yfir. Á þessum fundi komu fram mjög alvarlegar upplýsingar. Það lá einnig fyrir að fyrir fundinn kæmu fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti en vegna þess hversu stórt málið er og alvarlegt komust ekki fleiri inn á fundinn en ríkisendurskoðandi áður en fundur í Alþingi skyldi hefjast. Af þeim sökum óskuðum við eftir því að þingfundi yrði frestað, við fengjum að ljúka málinu í samfellu og fara yfir það með ráðuneytunum því að það er mikilvægt að svona mál séu afgreidd á þennan hátt, þau séu afgreidd í einu lagi.

Einnig dregur þetta fram að sú þráhyggja hæstv. menntamálaráðherra að keyra málefni Ríkisútvarpsins áfram gerir það að verkum að störf þingsins eru algerlega úr skorðum gengin. Það kemst ekkert á dagskrá nema þetta tiltekna mál og það er ekki einu sinni hægt að ljúka jafnalvarlegum málum og því sem við vorum að ræða í morgun þar sem um 200 millj. hafa runnið að mestu leyti eftirlitslausar úr ríkissjóði á undanförnum árum. Mér finnst þetta afar alvarlegt mál, virðulegi forseti, og vil koma því á framfæri við hæstv. forseta að þótt málefni Ríkisútvarpsins og vilji meiri hlutans sé mikilvægur er mikilvægt að störf þingsins geti haldið áfram á þann hátt að sómi sé að og við getum tekið á þeim málum sem þarf að taka á þegar þau koma upp. Því harma ég það mjög (Forseti hringir.) að ekki hafi verið hægt að fá fram frestun á þingfundi og halda áfram þeim fundi sem við vorum á í morgun.



[10:38]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Vegna þess sem kom fram í máli hv. þm. Valdimars L. Friðrikssonar áðan vil ég sérstaklega geta þess að ég mun síðar koma inn á þessi atriði í ræðu. Ég tel þetta vera efnislega umræðu í því máli sem við höfum verið að ræða á undanförnum dögum þannig að ég mun sérstaklega koma inn á starfsmannamálin og lífeyrismál starfsmanna Ríkisútvarpsins í ræðu minni á eftir. Hitt er annað mál að það er auðvitað umhugsunarefni hvernig þinghaldið er að þróast, frú forseti. Við erum búin að ræða núna frumvarpið um Ríkisútvarpið lengur en t.d. EES-málið á sínum tíma. Það var rætt í 100 klukkustundir og 36 mínútur, svo að nákvæmlega sé farið með. Þingið er núna búið að ræða Ríkisútvarpið lengur en t.d. Kárahnjúkamálið. Við erum búin að ræða það þrisvar sinnum lengur, og hvað segir það manni?

Ég tek heils hugar undir með þingmönnum. Þetta er afar mikilvægt mál. Þetta er brýnt mál. Það er það brýnt að við þurfum að koma því í gegn til að stuðla að því að Ríkisútvarpið geti haldið áfram að efla menningarhlutverk sitt. (ÖJ: Er það réttinda…?) (Gripið fram í.) Um leið er það umhugsunarefni að t.d. vinstri grænir telji þetta mál mikilvægara en Kárahnjúkamálið, að Samfylkingin telji þetta mál mikilvægara en EES. Þetta er þeirra mat á þingmálum hér. Ég segi: Ég tek heils hugar undir með þingheimi um að þetta er mikilvægt mál og það þarf að ræða. En er ekki nóg komið? Er ekki rétt að þingið fái þann lýðræðislega rétt að greiða atkvæði um þetta mál? (Gripið fram í.) Það er búið að ræða þetta mál nóg. Að mínu mati erum við búin að fara gaumgæfilega í gegnum öll atriði. Nú er mál að linni. (Gripið fram í.) Ég tel (Forseti hringir.) og það er mín skoðun að við eigum að greiða atkvæði um Ríkisútvarpið en núna eru eflaust ýmis atriði sem þingmenn vilja ræða frekar um Ríkisútvarpið.



[10:41]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og félagsmálanefndar í morgun um málefni Byrgisins var hunsuð sú ósk okkar í minni hlutanum að halda fundi áfram í nefndinni og að bera fram ósk til forseta þingsins um að fundi yrði frestað á meðan við fengjum að ræða áfram stöðu Byrgisins og það alvarlega mál sem upp er komið. Við höfðum einungis tíma til að ræða við ríkisendurskoðanda á þeim tíma sem við höfðum, tvo klukkutíma, og áttum auðvitað eftir að ræða við ráðuneytin. Eins og staða málsins er núna beinast spjótin mjög að félagsmálaráðuneytinu.

Úttektin sem gerð var 2002 að beiðni utanríkisráðuneytisins sem skýrsla hafði legið fyrir um allar götur síðan er miklu alvarlegri en mig grunaði. Þar kemur m.a. fram að fjármálastjórn Byrgisins sé í molum. Samt var skýrslan ekki kynnt fjárlaganefnd og ekki ríkisendurskoðanda. Ríkisendurskoðandi vissi ekki um þetta mál fyrr en nú í nóvember. Það er auðvitað mjög alvarlegt að meiri hlutinn hafi samt sem áður haldið áfram fjárveitingum til Byrgisins alveg frá 2003. Það er alveg ljóst að miðað við þessa svörtu skýrslu sem lá fyrir 2002 hefði ekki átt að semja við Byrgið árið 2003 um fjárframlög miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir.

Það liggur fyrir samningur sem átti að gera sem ekki er undirritaður, hvorki af Byrginu né félagsmálaráðuneytinu, þar sem m.a. kemur fram að það hafi átt að skila reglulega ársreikningum. Ríkisendurskoðandi átti að hafa eftirlit með Byrginu o.s.frv. Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Staða málsins er mjög alvarleg, virðulegi forseti, og auðvitað hefði átt að gefa félagsmálanefnd eðlilegan tíma á þessum morgni til að fjalla um þetta mál.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu efni. Það verður fundur aftur í fyrramálið en ég ítreka það að staða málsins er miklu alvarlegri en mig óraði fyrir.



[10:43]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það virðist sem hv. þm. Valdimar L. Friðriksson sé orðinn sjálfskipaður talsmaður starfsmanna Ríkisútvarpsins í forföllum formanns BSRB. Hann vék hér að réttindum starfsmanna. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp um Ríkisútvarpið tryggir starfsmönnum Ríkisútvarpsins sömu réttindi og aðrir ríkisstarfsmenn hafa fengið þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í hlutafélag. Réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum munu haldast og það sem skiptir líka máli er að útvarpsstjóri hefur lýst því yfir að (Gripið fram í.) þeir starfsmenn sem óska eftir því fái aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem er mjög mikilvæg yfirlýsing sem við höfum tekið mark á (Gripið fram í.) í vinnu með þetta mál.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstarfsmenn hjá Ríkisútvarpinu eigi að fá sömu réttindi þegar stofnuninni er breytt í hlutafélag og ríkisstarfsmenn annarra stofnana sem hefur verið breytt í hlutafélag, hvorki minni né meiri. Mér heyrist hins vegar að hv. þingmaður mæli fyrir því að það eigi að gera upp á milli ríkisstarfsmanna eftir því hvar þeir starfa. Ég get ekki skilið málflutning hv. þingmanns og hv. þm. Ögmundar Jónassonar öðruvísi en svo að þeir vilji binda í lög ráðningarkjör þessa fólks til framtíðar. Það viljum við ekki gera. Við viljum ekki svipta almenna launþega samningsréttinum eins og hv. þingmaður virðist vilja gera með því að lögfesta ráðningarkjör til allrar framtíðar.

Frú forseti. Auðvitað er hneisa að ekki sé hægt að ræða mikilvæg mál eins og málefni Byrgisins. Það er afar miður að við skulum ekki komast í umræðu um slík mál og að þjóðþingið skuli vera í þeirri stöðu sem það er í núna. (Gripið fram í.) Það er vegna þess að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefur staðið hér fyrir málþófi um málefni Ríkisútvarpsins (Gripið fram í.) og getur sjálfri sér um kennt en ekki ríkisstjórnarflokkunum. (Menntmrh.: Greiðum atkvæði.)



[10:46]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. menntamálaráðherra er óróleg í salnum en eins og hér hefur fram komið var haldinn fundur í morgun með 15 þingmönnum um málefni Byrgisins. Þessir þingmenn eiga sæti í fjárlaganefnd og félagsmálanefnd. Gert var ráð fyrir tveggja klukkutíma fundi með bæði ríkisendurskoðanda og félagsmálaráðuneytinu með þessum 15 þingmönnum um þetta viðamikla málefni. Menn töldu í alvöru að við gætum lokið þessu á þeim tíma. Við sáum auðvitað strax að svo yrði ekki og fórum fram á það að þessum þingfundi yrði frestað til að við gætum farið betur yfir málefni Byrgisins. Við vorum rétt komin af stað með ríkisendurskoðanda þegar fundi var slitið, vorum búin að fara eina umferð í gegnum þingmannahópinn með fyrirspurnir. Þetta er stóralvarlegt mál, þetta Byrgismál sem er ákveðin birtingarmynd á þeirri stjórnsýslu sem verið hefur með ríkisútgjöldin og það slælega eftirlit sem hefur verið með ríkisútgjöldum hér á landi. Það er nokkuð sem við verðum að fara mjög ítarlega í. Þarna kom í ljós að félagsmálaráðuneytið ritar undir tvær yfirlýsingar við Byrgið, reyndar hvora á sinni kennitölunni en á sama árinu, árið eftir að leyniskýrsla sem sýndi að þarna væri mikil óreiða í gangi kom fram. Þetta er nokkuð sem við verðum að fara ofan í.

Virðulegi forseti. Þess vegna hljótum við að spyrja: Hvað er það sem knýr svo á varðandi Ríkisútvarpið að það megi ekki bíða í einn dag meðan þessar nefndir tvær rannsaka þetta stóra mál sem hefur komið hér upp? Við verðum að fara að fá svör við því hvers vegna og hvað það er sem kallar á að (Forseti hringir.) hér séu sett herlög vegna þess að það verði að knýja þetta ríkisútvarpsmál í gegn. Við verðum að fara að fá svör við því vegna þess að Byrgismálið er miklu mikilvægara en Ríkisútvarpið á þessum fimmtudegi sem við stöndum á hér í dag.



[10:48]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Hv. þingmenn eru beðnir um að virða þingsköp þar sem mælt er fyrir um ræðutíma og sýna embættinu kurteisi. (KJúl: Sýnd þú þá þingmönnunum kurteisi.) (Gripið fram í.) Hv. þingmaður er beðinn um að gæta orða sinna.



[10:49]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ekki ætti neinum að dyljast að störf þingsins eru í fullkominni upplausn. Því er haldið fram af formanni menntamálanefndar að það sé stjórnarandstöðunni að kenna. Ég veit ekki til þess að stjórnarandstaðan stjórni störfum þingsins. Þannig er það ekki, því miður. Það væri nefnilega miklu skárra. Ef einhver almennileg stjórn ætti að komast á væru gerðar málamiðlanir og það er það sem við höfum allan tímann talað um, að vel væri hægt að semja um mjög mikilvæg mál, t.d. Ríkisútvarpið. Hvað eftir annað hefur verið slegið á útrétta sáttarhönd og ég veit ekki, frú forseti, um þær ástæður sem liggja þar að baki og ætla ekki að fara að velta þeim frekar fyrir mér.

Frú forseti. Það eru stór mál sem er knýjandi að séu rædd hér í þingnefndum og á þinginu. Byrgið er eitt þeirra. Nýjar upplýsingar um starfsmannamál og skerðingu á réttindum starfsmanna Ríkisútvarpsins er annað, mjög mikilvægt mál sem ekki er hægt að ýta til hliðar og láta ósvarað, hæstv. menntamálaráðherra. Ég biðst undan því að hæstv. menntamálaráðherra setji hér einhverja mælikvarða og merkimiða á mikilvægi mála og haldi því fram að Kárahnjúkavirkjun sé minni — það mál allt sé eitthvað neðar í virðingarstiganum (Forseti hringir.) og minna mikilvægt en t.d. Ríkisútvarpið ohf. (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingin – grænt framboð (Forseti hringir.) er eini flokkurinn (Forseti hringir.) sem stóð í lappirnar í því máli, frú forseti.



[10:51]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti áréttar það að þótt hv. þingmönnum liggi mikið á hjarta gæti þeir að lögbundnum ræðutíma.



[10:51]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eðlilegt að hv. þingmenn veki sérstaka athygli á því að það var sameiginlegur fundur í morgun með fjárlaganefnd og félagsmálanefnd um hið alvarlega mál sem tengist Byrginu sem er því miður væntanlega aðeins táknrænt um það sem við getum átt von á mjög víða. Þetta er algjörlega í anda þess sem við höfum margoft bent á við afgreiðslu fjárlaga og alla þá vinnu, að kæruleysið og vinnubrögðin sem viðhöfð eru eru fyrir neðan allar hellur. Það er ekki síst, því miður, í ráðuneytunum og eftirlitsskyldu þeirra sem virðist vera ábótavant.

Við fengum það upplýst í morgun, án þess að ég ætli að fara efnislega yfir þau mál heldur aðeins vekja athygli á þeim, að hvorki fjárlaganefnd né Ríkisendurskoðun höfðu hugmynd um að gerð hefði verið skýrsla um starfsemi Byrgisins árið 2002, skýrsla sem skilar nákvæmlega sömu niðurstöðu og skýrsla Ríkisendurskoðunar nú. Þessi skýrsla var til í félagsmálaráðuneytinu, því ráðuneyti sem gerir síðan samning við viðkomandi aðila án þess að hann sé undirritaður af viðkomandi aðilum en þrátt fyrir það virðir ráðuneytið þann hluta samningsins sem snýr að útdeilingu fjármuna. Aðrir hlutar samningsins liggja til hliðar.

Frú forseti. Þess vegna var full ástæða til að óska eftir því í morgun að fundir nefndanna fengju að halda áfram þannig að ræða mætti málið við ráðuneytið í samhengi við það sem kom fram í máli ríkisendurskoðanda. Því miður skal allt annað víkja vegna þeirrar þráhyggju sem hér hefur tekið völdin varðandi Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Er ekki kominn tími til að málum sé raðað í forgangsröð í þingsölum?



[10:53]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Nú er liðinn sá tími sem ætlaður er fyrir þennan lið, að ræða um störf þingsins, og forseti vill taka fram að það eru fjölmargir á mælendaskrá sem því miður komast ekki að, þar með talinn formaður fjárlaganefndar.